Category Archives: Daglegt Líf

FabLab og myndafíkn

Snjókorn skorið út með leisiStundum heyrir maður talað um tölvuleikjafíkla og netklámfíkla. En nethannyrðafíkn er ekki eins viðurkennd. Samt þekki ég margar konur sem eiga erfitt með að slíta sig úr hannyrðaskoðun á netinu. Sjálf missi ég mig gang på gang í að myndagúggla handavinnu: Get alveg setið daglangt við að skoða prjónaflíkur, prjónaaðferðir, prjónauppskriftir, prjónamyndbönd o.s.fr. Hef meira að segja dottið aðeins í hekl!

Nýja dellan er skefjalaus myndagúgglun þess sem hægt væri að brúka til að skera út í leisi-skera. Ég hafði mig loksins yfir götuna til að skoða FabLab í fyrradag. FabLabbið er ábyggilega búið að vera opið í tvö ár og ég hafði svona óljósa hugmynd um að þetta fyrirbæri væri til. Í síðustu viku fór svo kollegi minn á teikninámskeiðinu (ég sæki byrjendanámskeið í teikningu til Reykjavíkur, fæ væntanlega tvær framhaldsskólaeiningar fyrir en ykkur að segja er ég ekki efnileg á þessu sviði) að spyrja mig eitthvað út í FabLab (sem ég vissi ekkert um) og það dugði til hleypa í mig döngun: Ég fór og skoðaði FabLab í fyrradag og sá um leið hversu ótrúlega sniðug þessi smiðja er.

Nú er ég búin að hlaða niður teikniforritinu sem FabLab brúkar, í morgun vaknaði ég með a.m.k. tíu hugmyndir í hausnum og miðað við aðra hannyrðareynslu má ætla að ein eða tvær af tíu hugmyndum sé vel brúkleg. Og í dag hef ég hangið í tölvunni (fyrir utan geðræktarlabbitúrinn) og bölvað sjálfri mér fyrir að hafa aldrei nennt að læra vektorateikningu í myndvinnsluforritinu sem ég brúka dagsdaglega … og myndagúgglað alveg út í eitt! Það prjónast náttúrlega ekki á meðan og krókódílaheklið sem ég kenndi sjálfri mér um helgina verður að bíða aðeins. Ég hef ákveðið að nota sömu aðferð og gefst yfirleitt best, þ.e.a.s. “learning by doing”, sem þýðir að ég kenni sjálfri mér það í vektorateikningu og í nýja teikniforritinu   svona nokkurn veginn jafnóðum og ég þarf á hverri aðferð að halda. Þetta er seinleg aðferð til náms en á hinn bóginn situr betur í manni það sem maður lærir með henni.

Akkúrat núna sagði ég við sjálfa mig: Nú skaltu blogga um FabLab og leggjast svo á sófa með hitapoka og reyfara, það er ekkert vit að hanga lengur í tölvuskömminni! Og ég er að hugsa um að hlýða þessu … eru einhvers staðar til GHA samtök fyrir fólk með myndagúgglunarhannyrðafíkn?

Eins og í öðru gengur FabLabbið mér í haginn: Ég fékk tíma í leisi-skeranum laust fyrir miðjan desember og þá verð ég örugglega búin að hanna dótið sem mig langar að gera, sjá hvaða hugmyndir virka og hverjar virka ekki og kenna mér nóg á myndvinnsluforritin til að mæta með fullbúnar teikningar.

Myndin við færsluna sýnir leisi-skorið snjókorn. Ég ætla reyndar ekki að búa til neitt þessu líkt en það er gaman að skoða á vefnum hvað menn hafa verið að gera í svona græju, þannig fær maður hugmyndir.

Lífið í Korsbæk

Maude VarnæsÁ laugardögum tek ég frá tímann milli sjö og átta til að horfa á Matador í danska sjónvarpinu. Ég hef horft á einhverjar tætlur af þessari seríu áður, minnir að hún hafi verið sýnd tvisvar í íslenska sjónvarpinu, en bæði missti ég af mörgum þáttum á sínum tíma og man ekki vel eftir þeim sem ég sá svo þetta er nánast nýtt fyrir mér.

Þættirnir voru fyrst sýndir í danska sjónvarpinu á árunum 1978-81 en eru endursýndir reglulega og alltaf jafn vinsælir: Þegar endursýning hófst núna kom í ljós að Matador var miklu vinsælla en landsleikur Dana í fótbolta! (Ég er svo sem ekkert hissa á því …)

Lífið í Korsbæk, uppdiktuðum bæ, á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar er ekta líf. Þótt Upstairs Downstairs þættirnir bresku hafi verið kveikja að Matador er síðarnefnda serían miklu líkari mannlífinu eins og flestir þekkja það. Persónur í Matador eru vissulega nokkuð ýktar sumar en samt held ég að flestir þekki einstaka drætti í persónusköpuninni úr sínu nærumhverfi. Í Matador er sögð almennileg saga með fjölbreyttum sögupersónum og það er auðvitað lykillinn að velgengni þáttanna. Hver nennir að horfa aftur og aftur á lélega sögu með gervikarakterum?

Uppáhaldspersónan mín er Maude Varnæs, sú sem sést á myndinni. Maude er óskaplega taugaveikluð og grípur gjarna til þess ráðs að leggjast í rúmið þegar eitthvað kemur henni úr jafnvægi. Í gær var dramatísk uppljóstrun sem hefði átt að leggja Maud í rúmið næstu vikurnar. En þá tók hún skyndilega á sig rögg … og mun sýna miklu meiri styrk héreftir. Ég veit ekki alveg af hverju ég held mest upp á Maude, til þessa hefur hún aðallega verið hlægilega móðursjúkt snobbhænsn. Kannski finnst mér svona varið í hana af því ég held að hún endurspegli erkitýpu þunglyndra kvenna, erkitýpu sem ég er alls ekki sátt við.

Sem betur fer er töluð eðaldanska í þessum þáttum, ég er nefnilega ekki nógu góð í dönsku til að horfa á ótextaðar myndir, a.m.k. ekki myndir sem eiga að gerast í nútímanum. Það væri samt gaman að eignast þessa þætti með dönskum texta … kannski kaupi ég þá einhvern tíma, þeir ku rokseljast enn þann dag í dag.

Neðst á þessari síðu eru nóturnar af titillaginu í Matador

Leti og ómennska

Ég nenni bara alls ekki að blogga, kannski vegna veðurs og sólbaða, kannski vegna óhóflegs magns af morðsögum og öðrum litteratúr, kannski vegna einhvers annars … Ætli sé ekki best að lýsa yfir sumarfríi á blogginu og halda áfram að iðka letina.

Hinn hluti fyrirsagnarinnar, ómennskan, á ekki við mig sjálfa í augnablikinu því ég lifi einstaklega hollu og reglusömu lífi akkúrat núna (eiginlega tilneydd því ef ég hef ekki sérstaklega fyrir því á hverjum degi að láta mér líða sem skást verður dagurinn heldur klénn). Mér dettur hins vegar oft ómennska í hug þegar ég skruna niður umræðuþræði á netmiðlum og stöku bloggi – sem betur fer hef ég þó oftast vit á að lesa ekki svoleiðislagað. Og umræðan um frambjóðendur í forsetakjöri er löngu komin út yfir öll velsæmismörk! Þeim rógnum og illmælginni ætti að linna eftir morgundaginn. En ætli gargendur finni sér þá ekki annað áhugamál til að garga yfir í stafræna tóminu. Og hollast að halla sér að uppdiktuðum morðum í sínum Kindli.

Sortéringaráráttan og það sem henni fylgir

Allir ganga í gegnum sortéringar- og söfnunarskeiðið, líklega einhvern tíma í barnæsku en sumir vaxa aldrei upp úr þessari iðju. Ég man t.d. eftir nokkrum servéttusöfnunarskeiðum; þegar lífið snérist um að safna og flokka servéttur í seríur og sett … og býtta við aðra til að fullkomna seríurnar og settin og fylla í flokkana “fermingarservéttur”, “flugvélaservéttur” o.s.fr. … en var örugglega vaxin uppúr þessu fyrir ellefu ára aldur.  Eftir á séð held ég að servéttusöfnun og flokkun sé nákvæmlega einskis virði nema sem skemmtilegt dedú í sjálfri sér.

En margir trúa mjög á gagnsemi sortéringa, á ofmælt gagnið af því að setja allan andskotann í einhvers konar kerfi og finna stað. Í mínu fagi má nefna tilraun til að hanna einhvers konar alheimsmálfræði (Chomsky) eða hið eina rétta kerfi til að greina bókmenntaverk (nýrýni) eða hina einu réttu aðferð til að skrifa ritgerð (byggða á engilsaxneskum hefðum í ritun). Nú held ég að Chomsky hafi aldrei haldið því fram að hægt væri að smætta almennt málhæfi ofan í hríslumyndarfræði. Bókmenntafræðinga langaði suma mjög til að smætta bókmenntaverk ofan í föflu, fléttu, innri og ytri tíma o.s.fr. en fyrr eða síðar rann upp fyrir flestum að sköpunargáfa og gildi góðra bókmennta verður ekki mæld með svona flokkunarkerfi. Hugmyndir sem móðurmálskennarar sumir göptu við á sínum tíma, sem náðu kannski hámarki í þeirri staðhæfingu að í rauninni væri óþarfi að láta nemendur skrifa ritgerðir því aðalatriðið væri að þeir skiluðu nógu ítarlegri áætlun um óskrifaða ritgerð, hafa vonandi dáið drottni sínum.

Flokkunarkerfi geðsjúkdómaSortéringafræðin lifa samt góðu lífi í sumum fræðum. Líklega þykir einhverjum sem þau séu til marks um vísindalega hugsun. En í rauninni eru sortéringafræði fyrst og fremst einföld skólaspeki (enda rosalega þægilegt að prófa úr svoleiðis á krossaprófum). Að telja upp fimm ullabjökk heimsins á fingrum sér er ekki ósvipað og að telja upp fimm tegundir fornra íslenskra bókmennta, sjö hljóðskiptaraðir sterkra sagna í íslensku, þrjú grunnmarkmið (flokkana þekkingu, leikni og hæfni) sem eiga að nást alveg jafnt í íþróttaáföngum og stærðfræði skv. nýrri námskrá fyrir framhaldsskóla … svo ekki sé minnst á æ viðameira flokkunarkerfi í krankleik á geði. Öll svona sortéring gefur ólíkum fræðum vísindalegt yfirbragð. Þótt augljóst sé að upptalning á hljóðskiptaröðum í sterkum íslenskum sögnum hjálpar fólki ekki í baun í að tjá sig lipurt og ljóst á íslensku, að íslenskur bókmenntaarfur verður varla smættaður oní fimm velaðgreindar sortir, að hæfni í leikfimi hlýtur að vera annars konar en hæfni í stærðfræði … og að flokkun þunglyndis í skilgreinda og mælanlega undirflokka færir menn ekki nær skilningi á því hvernig þunglyndum sjúklingi líður. Einhvers staðar las ég að sá sem lýsti líðan í þunglyndi hefði áreiðanlega ekki upplifað þunglyndi sjálfur; það er nefnilega ólýsanlegur hryllingur.

Til að ljúka þessari stuttu pælingu um sortéringaráráttunni er tilvitnun í gamlan sortéringartexta. Nákvæm flokkunin gefur honum óneitanlega vísindalegt og fræðilegt yfirbragð og er gott að hafa fullkomlega á hreinu hvernig skapa má menn á fjóra ólíka vegu, ekki síður en þekkja sundur væga, meðalþunga og djúpa geðlægð, þunglyndi sem geðhvarfasýki II, ódæmigert þunglyndi, þunglyndi frá óyndi o.s.fr.:

[Um holdgan Drottins]

MAGISTER: Fjórum háttum skapaði Guð menn. Einum hætti fyrir utan föður og móður sem Adam. Að öðrum hætti af karlmanni einum sem Evu. Þriðja hætti frá karlmanni og konu sem altítt er. Fjórða hætti frá meyju einni saman sem Kristur var borinn.

(Elucidarius e. Honorius Agustodunensis, líklega saminn um 1100, elsta norræna handritið talið frá síðari hluta 12. aldar.)

Skáld heimilisins

Tveir heimspekingarÉg renndi yfir helstu fréttir og blogg og datt ekkert í hug sem hægt væri að blogga um, ekkert merkilegt að ske, greinilega. En þótt ég sé svona skoðanalaus er skáld heimilisins, Fr. Jósefína Dietrich, mjög pólitísk og afdráttarlaus í skoðunum á mannlífinu og ýmsu öðru. Hún styttir sér stundir með yrkingum, milli sinna miklu mannfræðistúdía og tvíblindra atferlismeðferðarrannsókna. Það er því handhægt fyrir andlausan bloggara að blogga bókmenntafræðilega færslu um skáldmæringinn Jósefínu Dietrich. (Myndin sýnir tvo heimspekinga heimilisins … ætti að blasa við hvor er hærra settur.)

Jósefína orti í gær um Núbó nokkurn sem hún dáir mjög enda er sá gulur … og lét á sinni Facebook fylgja háðsglósu um ráðherra sem hún hefur nákvæmlega ekkert álit á (sá er hvorki gulur né duglegur að merkja):

Mín vegna má skömmin hann Ömmi vera á bömmer. Við þessi gulu stöndum saman:

Kominn upp á Núbós náð!
Nú fá gulir völdin hér!
Kátir eins’og kisa’að bráð
Kínverjarnir leika sér.

Jósefína deilir ekki skoðunum á forsetaframbjóðendum með neinum á þessu heimili enda grundvallar hún þær á öðru en við fávíst fólkið: “Mjá, mjá, mjá … búinn að mjálma meira en allir hinir til samans .. en það gildir ekki bara að mjálma … það þarf að merkja” segir hún um ákveðinn frambjóðanda sem henni er svona heldur í nöp við.  Í þessu eins og öðru ráðast skoðanir hennar af þeirri vissu að gulir séu bestir og að það fressið sem er duglegast að merkja sé réttborið yfirfress. Aðdáun sína greipir dýrið litla svo í kveðskap:

Einhver var að hlæja þegar ég kom inn
kannski að það hafi verið fressinn minn.
Jæja, nú jæja og látum hann hlæja
á Bessastaði fer hann nú í fimmta sinn.

Annað dæmi:

Fressið Dalai dásama ég daga’og nætur,
hversu langt það gengið getur,
geri aðrir lamar betur.

Bessastaða fagurt fressið frægast er,
mjög á staði marga fer
og merkir sér.

Þá sjaldan Fr. Dietrich nennir að tjá sig um trúmál sést að hún hugsar dýpra og er í sterkari tengslum við alheimsköttinn en nokkur af alþýðu heimilisins. T.d. þessi tilvitnun um daginn: „Og ég sá hundtík sitja á skarlatsrauðri ryksugu og hafði hún lafandi tungu og tíu skott.“ (Úr Opinberunarbók Jósefínu)”. Til að gleðja vissan lesendahóp bloggsins míns má og nefna að Jósefína tjáði sig auðvitað um hjálækningar og hindurvitni: “Mjá, mjá, mjá – sjálf hef ég gert tvö kraftaverk – annað með vísikló á vinstri loppu og hitt með rófunni – en það voru nú ekki gerðar heimildamyndir um það” og fékk þessa lýsandi athugasemd frá aðdáanda: “Þér eruð sjálf eitt gangandi kraftaverk mjá mjáhhhhhh.” Sem er vissulega rétt.

Jósefína er femínisti eins og sést á þessu ljóði:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum,
malandi læt rímið renna,
raula fyrir málstað kvenna.

Og hefur raunsætt sjálfsmat ólíkt mörgum tvífættum femínistanum:

Kattþrifin með kattartungu kattarrófu
þvær og snyrtir loðna loppu
læða gul með fríða snoppu.

Áhugasömum unnendum góðra ljóða er bent á Nokkur gullfalleg ljóð sem Jósefínan sjálf hefur frumort (2. útgáfa aukin mjög og endurbætt). Ljóðabókin er myndskreytt af og með skáldinu sjálfu. Þar má finna kaflana Tregróf, Breiðfjörð, Jólasálma, Nokkur pólitísk ljóð o.fl.

Gestablogg Jósefínu Dietrich

Jósef�na DietrichEins og flestum velupplýstum ætti að vera kunnugt er ég fremst fræðikatta landsins og þekkt langt út fyrir landsteinana. Hingað til hef ég verið of önnum kafin við ýmsar rannsóknir, einkum mannfræðirannsóknir, til að eyða tíma í smotterí á borð við landsmál eða sveitarstjórnarmál. Ég hef þó einstaka sinnum viðrað stjórnmálaskoðanir mínar, sem eðlilega og með réttu byggjast einkum á því að það fressið sem er duglegast að merkja er auðvitað réttborið yfirfress og að gular læður séu fegurstar. Einnig hef ég lítilsháttar gert grein fyrir nýfemínisma, stefnu sem ég er upphafslæða að og virðist ryðja sér hratt til rúms.

Þegar ég gaf mér tvær mínútur til að líta upp úr merkilegum fræðarannsóknum mínum fyrir skömmu varð ég þess áskynja að helstu tvífættu fressin í bænum hyggjast reisa hér Keltneskt fræðasetur, á þeim forsendum að hér á þessum útnára hafi verið keltneskir kristnir landnámsmenn.

Það getur svo sem vel verið að einhverjir almúgatvífætlingar hafi þvælst hingað frá Bretlandseyjum, jafnvel prímsigndir, en mér þykja þetta nú ekki stórhuga hugmyndir. Bæjarstjórafressið treystir á gjaldþrota þjóð til að veita þessu brautargengi og er sjálft skítblankt: „Ég hef trú á því á Írlandi og þar í kring – og það er slatti af fólki þar, það er töluvert fleira en á Íslandi, að þar væru einstaklingar sem fyndist ekkert leiðinlegt að taka þátt í því með okkur að rannsaka þennan þátt í þeirra sögu … Ég væri til í leggja … ef ég hefði haldið betur á peningum og ætti svona tíuþúsundkall …þá mundi ég ekki hika við að leggja hann í hlutafélag um þetta“. Hitt aðalfressið í bænum treystir á fjármagn frá alþingi til menningartengdra verkefna, auk þess sem það stingur upp á að byggja einhvern kofa uppi við Akrafjall í minningu snærisþjófs sem það heldur að sé „ein frægasta bókmenntapersóna Íslendinga“. Auk þess kemur fram í máli þess að sé eitthvert kapphlaup við aðra sem hafi fengið sömu hugmynd, þ.e.a.s. að byggja eitthvert skítómerkilegt keltneskt fræðasetur fyrir smápening. (Þið getið hlustað á bæjarstjórnarfundinn 25.10.2011 ef þið nennið eða lesið fréttina á síðu Akraneskaupstaðar.) Seint myndi Bessastaðafressið ljá máls á svona smáræði, það hafa pólitískar rannsóknir mínar löngu sýnt fram á, að vísu óbirtar enn því ég er vön að vinna verkið vel og birti aldrei neitt fyrr en eftir 14 ára yfirlegu hið minnsta. Og frægasta bókmenntapersónu Íslandssögunnar er auðvitað ekki snærisþjófur úr Hvalfjarðarsveit heldur sjálfur jólakötturinn!

Ef það vill að fleiri komi niðrá Skaga af þjóðveginum til að skoða eitthvað liggur auðvitað beinast við að byggja píramída í Garðaflóanum og minnast þannig veglega okkar egypsku róta! Skagamenn eru almennt komnir af selum (og dugir t.d. að vísa í lýsingu á augum snærisþjófsdótturinnar, sem var að vísu ekki Skagamaður en hengjum okkur ekki í smáatriði; hún var með dæmigerð selsaugu). Selir eru, eins og alkunna er, hinir drukknuðu hermenn faraós og þ.a.l. egypskrar ættar eins og ég. Í liði faraós ríkti jafnrétti, ekki síður en hjá því góða en fallna fressi Gaddafi, og eygypskar urtur hafa löngum verið lokkaðar á land og falleraðar af íslenskum almúgamönnum. Þótt stöku ritheimildir nefni Mýrdal sérstaklega sem svoleiðis nauðungar og yfirgangsstað stafar það af eðli flökkusagna: Raunverulega voru þessar egypsku selkonur einmitt staðsettar á nesinu Akranesi og formæður Skagamanna, t.d. þessi sem orti undur sorgmædd vísuna um að hún ætti sjö börn í landi og sjö börn í sjó. Auðvitað hefur nafn þessarar konu fallið niður í fornum týndum ábúendaskrám og öðrum fornum skruddum sem karlkyns tvífætlingar rituðu enda margsannað mál að þegar karlar rita sögubækur er kvenfólk mjög vantalið í slíkum bókum, hvað þá kvenfólk af egypskum urtuættum.

Umhverfið hér á Skaga rennir mjög stoðum undir þessa kenningu. Það þarf ekki annað en standa úti þefandi í sínum garði í morgunsárið til að koma auga á píramídalaga fjöll hér allt í kring: Skessuhorn, Heiðarhorn, Skarðshyrnu … og sjálft Akrafjallið er, héðan frá séð, tveir píramídar hlið við hlið. Tilviljun? Ég held nú ekki! Egypsku landnámsurturnar fluttu nefnilega ekki bara örnefnin með sér heldur umhverfi sitt einnig. Ég bendi lesendum einfaldlega á að leita í fræðiritinu wikipediu.org (sem er einmitt samið og skrifað af mér sjálfri) þessu til stuðnings og öðru fræðilegu sem menn vilja fletta upp og varðar þetta mál.

Í Garðaflóanum er ágætt pláss fyrir góðan píramída sem rétt væri að hafa einum metra hærri en Keops, til að sýna stórhug afkomenda hinna hraustu liðsmanna faraós. Tvífætlingarnir gætu haft hann úr efni úr nágrenninu, t.d. torfi (nóg er af mónum), forsteyptum einingum eða áli, allt eftir smekk forseta bæjarstjórnar en hann er einmitt mikill áhugamaður um stórbrotinn arkítektúr, hafandi bæði skoðað Kölnardómkirkju og Versali. Svoleiðis myndarlegur píramídi myndi sjást langt að og vera kjörinn til að lokka mann og annan af þjóðveginum og hingað niðreftir (sem átti að vera eitt aðalmarkmið þess vesæla Keltneska fræðaseturs). Auk þess fellur píramídi einkar vel að umhverfinu eins og ég hef þegar rökstutt.

Írar eru á kúpunni en Egyptar prýðilega stæðir og má ætla að í Egyptalandi og þar í kring, og það er slatti af fólki þar, væru einstaklingar sem fyndist ekkert leiðinlegt að taka þátt í því með okkur að rannsaka þennan áður órannsakaða þátt í þeirra sögu.

Í fyrra lífi man ég eftir skemmtilegum ratleikjum í píramídum, einkum Keops. Mætti samþætta pollamót og ýmsan æskulýðsfögnuð tvífætlinga við þessa byggingu og má ætla að píramídinn í Garðaflóa yrði oft fagurlega skreyttur af gulum og glöðum, prílandi og innkíkjandi.

Jósef�na Dietrich � svingsstellinguFyrir utan mannvirki af þessu tagi er oft svings. Nú er það svo að aðalfressin í bænum eru ekki sérlega fótógen eða frambærileg og ég sting því upp á að ég sjálf sitji fyrir þegar svingsið verður hannað. Sömuleiðis sting ég upp á að ég gegni sjálf hlutverki þriggja af hinum fimm fyrirhuguðu fræðimönnum í þessu keltneska dæmi því ég er þriggja manna maki og mun fræðilegri en aðrir sem til greina gætu komið. Af öðrum frambærilegum í svoleiðis ráð dettur mér helst í hug Dorrit, sem er af austurlenskum ættum og því afar frambærileg, auk Hönnu Birnu, sem er gul og þ.a.l. frambærileg.

Ég get auðvitað tekið að mér að umskrifa sögu Akraness með tilliti til þessara egypsku róta, í hjáverkum. Fyrir þokkalega trúlega byggðasögu af þessu tagi tæki ég líklega um 100 milljónir í laun og ef þetta á að vera almennilega rökstutt með netheimildum og uppflettibókum duga mér ekki minna en 15 ár. En það er þess virði, fyrir bæinn, fyrir breiddina og fyrir kryddið (svo ég vitni í bæjarstjórann)! Tvífætlingar af ýmsum þjóðernum munu flykkjast niðrá Akranes til að skoða eina píramídann á Íslandi. Enda eru píramídarnir í Egyptalandi ein af fáum ferðamannabrellum sem hefur ekki klikkað í 5000 ár. Líklega má eitthvað skera niður meir við trog í bænum en gert hefur verið til þessa, ég bendi t.d. á að það er alger óþarfi að rukka leikskólakrakka bara sérstaklega fyrir ávexti; Þessum kettlingum er ekki of gott að borga sérstaklega fyrir fiskinn og kartöflurnar líka! Svoleiðis má öngla saman í byrjun verkefnisins Píramídinn okkar, auk þess að hækka kaldavatnsgjaldið meira, fasteignagjöldin, hætta alfarið að henda smápeningum í Rauða krossinn og margt fleira. Safnast þegar saman kemur.

Svo ég skora á bæjarstjórn að samþykkja þessa tillögu skráðs og örmerkts íbúa Akraneskaupstaðar: Píramída í Garðaflóann strax! Styrkjum okkar egypsku rætur! Kastið krónunni en haldið í aurinn!

Skjaldarmerki Jósef�nu DietrichRitað af Jósefínu Meulengracht von Steuffenberg Dietrich þann 31. október 2011.

(Hafa má samband við mig með bréfdúfu eða skilaboðum á fésbókarsíðu minni, http://facebook.com/josefina.dietrich. Ekki reikna með bréfdúfunni til baka.)