Category Archives: Saga Sögu Akraness

Er sagnaritun Akraness loksins lokið?

Moonshine

Hér er fjallað veitingu fjár til sagnaritunar Akraneskaupstaðar árin 2013, 2014 og 2015, sem og rifjað upp hvað sagnaritunarævintýrið hefur kostað okkur bæjarbúa til þessa.

Árið 2013

Í Samningi um ritun Sögu Akraness – III. bindi – (undirritaður 22. júní 2012) var gert ráð fyrir að Gunnlaugur fengi „[a]llt að kr. 4.200.000. – eða sem svarar 19 vikna verktakagreiðslu eftir verkframvindu á árinu 2013 …“ (3.tl. 5. gr.) og „[a]llt að kr. 6.320.000.- eða sem svarar 28 vikna verktakagreiðslu eftir verkframvindu á árinu 2014 …“ (4.tl. 5 gr.). Settur var sá fyrirvari að fjárveiting fengist í fjárhagsáætlunum 2013 og 2014.

Í Sundurliðun ársreikninga Akraneskaupstaðar 2013 (lið 41. Söguritun, s. 65) kemur fram að fjárhagsáætlun fyrir þetta ár gerði ráð fyrir tæpum 4 milljónum í greiðslur til sagnaritara en hins vegar voru honum einungis greiddar tæpar 2 milljónir þetta árið. Sú greiðsla var fyrir vinnu sem átti að ljúka ári áður. Gunnlaugi auðnaðist ekki að koma í verk neinu af því sem hann átti að vinna árið 2013.

Árið 2014

Í Fjárhagsáætlun 2014-2017 [Akraneskaupstaðar] var gert ráð fyrir að spandera rétt rúmum 3 milljónum í lið 41 Söguritun árið 2014 (s. 61). Þar af var gert ráð fyrir að ritnefndarlaun yrðu 408.000 kr. og að„[a]ðkeypt önnur vinna“ kostaði 2.179.000 kr. Líklega hefur þessi aðkeypta önnur vinna verið vinna sagnaritarans.

Þrátt fyrir að þáverandi bæjarstjórn, sem í sátu löngum dyggir stuðningsmenn sagnaritarans, hafi gert ráð fyrir að greiða sínum manni kom ekki til þess því hann skilaði engu og ritnefndin hélt engan fund. Því spöruðust þessar rúmu 3 milljónir í sagnaritun algerlega sjálfkrafa.

Árið 2015

Þann 30. september 2014 sendi bæjarstjóri Akraness, Regína Ásvaldsdóttir, Gunnlaugi Haraldssyni bréf þar sem hún tilkynnti að bæjaryfirvöld teldu ekki mögulegt að leggja fé til sagnaritunar árið 2015 og óskaði eftir viðræðum við Gunnlaug um framhald málsins „miðað við stöðu verkefnisins nú“.

Sú nýja bæjarstjórn sem tók við völdum sl. vor hefur og ekki skipað í hina fimm manna Ritnefnd um Sögu Akraness.

Samantekt

Gunnlaugi Haraldssyni voru greiddar samtals 4.133.276 kr. árin 2012 og 2013 fyrir að endurskipuleggja handrit sitt um nítjándu öld í sögu Akraness í enn eitt sinnið og fyrir að skila inn fyrsta meginkafla af þeim átta sem endurskiplagið gerði ráð fyrir. Í síðustu færslu benti ég á að vinnubrögð við skrifin virðast óásættanleg.

Ritnefndin hafði 147.467 kr. upp úr krafsinu fyrir þessi tvö ár en hún hélt alls 3 fundi á þessum árum. Fundargerðir 83. og 84. fundar hafa aldrei verið birtar, sú 82. er sýnileg á vef Akraneskaupstaðar .

Mér telst svo til að kostnaður Akraneskaupstaðar af sagnaritun frá upphafi, 1987, uppreiknaður m.v. samræmda vísitölu neysluverðs (skv. vef Hagstofu) í desember 2014 úr samantektum kaupstaðarins frá apríl 2011 og desember 2014, sé a.m.k. 134.379.331 kr. Raunar hefur bærinn pungað út gott betur en þessum rúmu 134 milljónum því í þeim gögnum sem ég hef er kostnaður vegna Ritnefndar um sögu Akraness ekki talinn fyrr en frá árinu 2001. Og vitaskuld er lögfræðikostnaður sem fyrrv. bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, stofnaði til vegna fyrirhugaðs meiðyrðamáls gegn bókagagnrýnanda ekki talinn hér eða annað tilfallandi smotterí.

Beinar greiðslur Akraneskaupstaðar til Gunnlaugs Haraldssonar, frá 1997-2013, eru, uppreiknaðar á sama hátt a.m.k. 72.575.960 kr. Mögulega hefur hann borið meira úr býtum með framvísun reikninga sem eru bókaðir sem annar kostnaður í þeim gögnum sem ég hef.

Ég er sjálfsagt ekki ein Skagamanna um að vona að nú sé þessu sagnaritunarævintýri Akraneskaupstaðar, sem staðið hefur síðan 1987, lokið!

Fyrri hluti Sögu Sögu Akraness er rakinn í samnefndu pdf-skjali. Stefnt er að því að gefa út annað bindi af Sögu Sögu Akraness á sama formi fljótlega (þ.e. samanlímdar bloggfærslur sem rekja þessa sögu frá síðari hluta árs 2011).

Heimildir

Bréf Akraneskaupstaðar til Hjálmars Gunnlaugs Haraldssonar, dags. 30. sept. 2014, undirritað af Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra, fengið frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014

Samningur um ritun Sögu Akraness – III. bindi – undirritaður 22. júní 2012, fenginn frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014.

Skjalið Saga Akraness, samantekt 1987-2011, fengið frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011

Skjalið Saga Akraness, samtantekt 2012 og 2013, fengið frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014

Fjárhagsáætlun 2014-2017, útg. Akraneskaupstaður, ópr. hefti aðgengilegt á Bókasafni Akraness

Sundurliðun ársreikninga Akraneskaupstaðar 2013, útg. Akraneskaupstaður, ópr. hefti aðgengilegt á Bókasafni Akraness.

 

Myndina af tunglsljósi yfir Presthúsavíkinni tók Atli Harðarson á Þorláksmessu 2007.

Handritsbútur að Sögu Akraness III

Gamli vitinn

Hér er fjallað um þann pappír sem Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni 1.933.276 kr. fyrir árið 2013. Ég skoðaði handritið á bókasafni bæjarins, með leyfi Akraneskaupstaðar, dagana 28. og 29. janúar og 4. febrúar 2015. Handritið er dagsett 9. júlí 2013, þ.e. sama dag og haldinn var sá „skilafundur“ Ritnefndar um sögu Akraness, sem fjallað var um í síðustu færslu.

Sögu þessa handritsbúts má rekja allt aftur til 1997 en sú verður ekki rakin hér né reynt að leggja saman og umreikna til núvirðis það fé sem áður hefur verið greitt fyrir að skrifa um þetta tímabil í sögu Akraness.

Efni og umfang

Þessi hluti handritsins ber yfirskriftina Byggðaþróun og búnaðarhagir og telst fyrsti kafli af átta meginköflum Sögu Akraness III, Nítjándu aldarinnar, skv. núverandi skipulagi. Hann skiptist í fjóra undirkafla (sem síðan skipast í marga undir-undirkafla) og eru þeir þessir:

1. Íbúaþróun á Akranesi
2. Jarðeignir og búnaðarhagir
3. Byggðin utan Skagans 1801-1885
4. Skipaskagi og Ytri-Akraneshreppur 1801-1901

Fyrstu þrír undirkaflarnir eru 345 s. af texta, síðan fylgja 4 s. af töflum með upplýsingum um jarðamat, landskuldir og leigur, svo smáletraður 16 s. listi yfir bændur og húsfólk í dreifbýlinu 1801-1885. Fjórði undirkaflinn, þegar sögunni víkur loks að Skaganum sjálfum, er 172 s. af texta og 27 s. smáletraður listi yfir húsráðendur og húsfólk í Skipaskaga og Ytri-Akraneshreppi 1801-1901. Að auki fylgir 1. s. efnisyfirlit fremst (yfir 1.-3. kafla) og 1. s. efnisyfirlit aftast (yfir 4. kafla).

Útlit og stíll

Það er greinilegt að stefnt er að sama útliti og á Sögu Akraness I og II, þ.e.a.s. notaðir eru sömu litir í fyrirsögnum og sama æpandi sundurgerðin ríkir í stafagerð í þeim.

Það sem sagnaritarinn kallar jafnan myndrit ber textann algerlega ofurliði í upphafskafla og litagleðin, væntanlega sömu pastellitir og eru í útgefnu bindunum, er mikil. Afleiðingin er sú að fyrsti kaflinn er álíka spennandi aflestrar og Hagtölur mánaðarins! Sem dæmi nefni ég undirkaflann 1.1. Íbúaþróun í Borgarfjarðarsýslu, s. 5-13, og set fyrirsagnir í sviga:

Stöplarit inni í gulum ramma (Íbúaþróun í Borgarfjarðarsýslu 1801-1850), s. 6;
Skífurit á ljósbláum bakgrunni (Skipting íbúa Borgarfjarðarsýslu á sóknir 1801 (%)), s. 7;
Myntugræn tafla (Skipting íbúa Borgarfjarðarsýslu á sóknir 1801-1850), s. 7;
Blá tafla (Skipting íbúa Borgarfjarðarsýslu á sóknir 1850-1901), s. 9;
Skífurit á bláum grunni (Íbúar Borgarfjarðarsýslu 1901 (%) [taflan sýnir skiptingu eftir sóknum]), s. 9;
Línurit á ljósgulum grunni (Íbúaþróun í Borgarfjarðarsýslu og á Akranesi 1850-1901), s. 10;
Stöplarit á ljósgulum grunni (Ameríkufarar úr Borgarfjarðarsýslu 1876-1901), s. 11;
Súlurit með þrívíddaráferð á ljósgulum grunni (Þjóðfélagsstaða borgfirskra vesturfara 1876-1901), s. 12.

Sama litagleði, súlur, stólpar, línur, stöplar o.þ.h. halda áfram í næsta undirkafla, 1.2. Íbúaþróun á Akranesi. Stuttir textar í samfelldu máli á milli myndritanna eru orðaðar tölulegar upplýsingar með tilvísun í töflur, skífur, súlur, línur o.þ.h.

Þótt þessir fyrstu kaflar séu einna hryllilegastir er mýgrútur af öðrum myndritum í handritinu. Skv. upphaflegu efnisskipulagi Gunnlaugs (s. 10-12 í Fylgiskjali 1 með Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi) er gert ráð fyrir 146 myndritum (töflum, gröfum og skrám) í þessu bindi.

Nú er ekki svo að mér sé sérstaklega í nöp við myndræna framsetningu tölulegra upplýsinga en menn verða að gæta hófs og leiða hugann að ætluðum lesendahópi. Slíkt er alls ekki gert hér heldur bendir fjöldi og sundurgerð í myndritum aðallega til þess að sagnaritarinn sé dálítið upp með sér yfir að hafa lært nokkra fídusa í Excel á sínum tíma!

Ég greip ofan í nokkrar efnisgreinar og undirkafla í þessu handriti. Gunnlaugur skrifar sem fyrr afar þunglamalegan og stirðan stíl. Það er og ekki til bóta að upplýsingum er hrúgað saman úr ýmsum áttum og lesandi þarf sífellt að líta eftir tilvísunum í heimildir til að henda reiður á hvaða upplýsingar eru fengnar úr frumskjölum og hvaða upplýsingar úr eftirprentunum eða ýmsum neftóbaksfræðum. Afar illa er greint milli aðal- og aukaatriða í umfjöllun og raunar má af textanum ráða að  höfundur gangi út frá því að magn sé ávallt meira virði en gæði. Þetta kann að vera skýringin á því að verk hans lengjast við hverja umritun/nýja samninga. Kannski á Gunnlaugur Haraldsson erfitt með að stroka út það sem hann hefur einu sinni sett á blað?

Hér er og rétt að taka fram að ég get ekki birt afritaða búta úr texta sem ætla má að Gunnlaugur hafi samið sjálfur því þetta er hluti af óútgefnu handriti.

Rammagreinar

Það eru ekki nema fjórar rammagreinar, allar útklipptur texti eftir aðra en sagnaritarann,  í þessu handriti enda gerði hann líklega ráð fyrir að fá greitt sérstaklega fyrir rammagreinar síðar, s.s. kveðið er á um í samningnum. Í Fylgiskjali 1 með þessum samningi, s. 9-10, eru taldar upp 102 rammagreinar sem eiga að vera í Sögu Akraness III.

Það er vandséð hverju þessar fjórar rammagreinar eiga að bæta við textann nema sú síðasta sem er greinlega hugsuð sem einhvers konar upplyfting fyrir lesandann, í anda Íslenzkrar fyndni. Hinar eru líklega eitthvert gamalt dót sem hefur verið höfundi við höndina þegar hann sauð saman handritið einu sinni enn.

Rammagreinarnar eru:

1839
Aflagðar selfarir
[stuttur texti úr sóknarlýsingu sr. Hannesar Stephensen 1839], s. 224

1839
Afréttarlönd Akurnesinga
[stuttur texti úr sóknarlýsingu sr. Hannesar Stephensen 1839], s. 239

29. mars 1886
Reglur um skepnubeit og annan átroðning á Skipaskaga
[taldar upp 1.-4. grein um þetta úr Gjörðabók Æfingafélagsins á Akranesi 1882-1889], s.247

Kuldaleg tilsvör Ólafs Péturssonar
„Ólafur smiður í Kalastaðakoti þótti kaldur í tilsvörum …“

Þessi síðasta rammagrein er á s. 300, í kafla um Kúludalsá. Hana tekur Gunnlaugur úr Blöndu I, s. 236, og af því öll er hún höfð innan gæsalappa ætti tilvitnunin að vera orðrétt og stafrétt. Það er hún hins vegar ekki því Gunnlaugur hefur sleppt þankastriki og leiðrétt „Alt“ í „Allt“. (Þetta kann einhverjum að þykja smáatriði en ég bendi á þessi glöp í örstuttum textanum vegna þess að sagnaritaranum sjálfum hefur orðið tíðrætt um hve fræðileg vinnubrögð sín séu.) Menn geta svo lesið frumtextann sem krækt er í og dæmt hver fyrir sig um hversu fyndinn þessi texti er og hve mikið rammagreinin muni létta umfjöllun um Kúludalsá á 19. öld.

Loks má nefna innskotsgrein á gulum bakgrunni, sem kann að eiga að verða rammagrein, á s. 11 í viðbótinni, þ.e. 4. undirkafla. Í henni er kvæði eftir Símon Dalaskáld með yfirskriftinni Skipaskagi? Í tilvísun til heimildar segir: „Ath. hvar birt og hvenær ort.“

Kvæðið er skáletrað og miðjað í þessari innskotsgrein. Ég tel líklegast að það sé tekið úr tímaritinu Akranes, sem er ein aðalheimilda í þessum hluta af handritinu. Þar birtist kvæðið með venjulegu letri og hefðbundinni uppsetningu ljóða en án titils í 9. tbl. 1944, s. 114.

Akranes heimild Gunnlaugs hefur hann tekið sér það bessaleyfi að breyta stafsetningu; breytir Ránarslóð í ránarslóð (sem er óskiljanleg breyting), bætir inn punkti og eftirfarandi hástaf í síðustu braglínum fyrsta erindis, leiðréttir ísafrón í Ísafrón og bætir inn kommu í síðustu braglínum seinna erindis.

Ég held að engar stórkostlegar fílólógískar pælingar liggi þessu að baki heldur hafi Gunnlaugur einfaldlega skrifað kvæðið rangt upp þegar hann var að fletta gegnum öll tölublöð Akraness fyrir fimmtán árum og svo ekki nennt að athuga hvort rétt hafi verið ritað í þessari síðustu endurritun (eða endurröðun) hins margritaða texta. (Sjá einnig kafla um heimildir og heimildanotkun hér að neðan.) Raunar tel ég að það þurfi að fara yfir hverja einustu beinu tilvitnun í handritinu, þær stikkprufur sem ég gerði benda til þess. Kvæðið er auk þess rangt eftir haft í tímaritinu Akranesi, sérstaklega er seinni hluti þess brogaður. 1)

Í þessu sambandi má og nefna að Gunnlaugur Haraldsson virðist halda að kvæði séu ávallt skáletruð og miðjuð þótt þau séu það alls ekki í heimildunum sem hann tekur þau úr. Má nefna dróttkvæða minningarvísu um Árna Vigfússon í Heimaskaga (s. 74 í kafla 4.2. í handriti Gunnlaugs), sem hann tekur upp úr Sögu Akraness I. bindi eftir Ólaf B. Björnsson (1957, s. 80-81) eða dróttkvæða minningarvísu um Björn Ólafsson (s. 127 í 4.2. í handriti Gunnlaugs) sem tekin er úr tímaritinu Akranesi, sept. 1950, s. 113. Í fyrstu braglínu stafsetur hann auk þess rangt: „Nú er fallin Fróns að velli“ (feitletrun mín á stafsetningarvillu).

Myndefni

Ég sá einungis á þremur stöðum gert ráð fyrir myndefni í þessu handriti. Skýringin er væntanlega sú að sagnaritarinn hefur hugsað sér að gera nýjan samning með enn meiri greiðslum fyrir umbrotsvinnu og myndaöflun, eins og síðast. En þær myndir sem nefndar eru í handritinu eru:

  • Uppdráttur Ólafs Jónssonar búfræðings af Garðalandi frá 1897 (s. 289), sami uppdráttur hefur þegar þegar birst í Sögu Akraness I, s. 82;
  • Teikning Tryggva Magnússonar af Ytra-Hólmsbæ (s. 329). Vísað er í heimildina Ólafur B. Björnsson 1942, 10.-12. tbl., s. 8. Þetta er röng heimildatilvísun því myndina er að finna í jólablaði tímaritsins Akraness sem er rækilega merkt 10.-11. tbl.
  • Mynd af Kristófer Finnbogasyni bókbindara (s. 329). Myndin fylgir langri umfjöllun um Kristófer þennan, í kaflanum Hjáleigur Ytra-Hólms, sem er undirkafli 3.1.með yfirskriftina Lögbýli, hjáleigur og tómthús, sem er undirkafli 3. Byggðin utan Skagans 1801-1885.

Ég átta mig engan veginn á því af hverju sagnaritara þykir Kristófer svo merkilegur í umfjöllun um sögu Akraness að á hann skuli bæði splæst löngum texta og ráðgerð mynd: Kristófer var alinn upp í Viðey, hjá Magnúsi Stephensen og lærði bókband í útlöndum að tilstuðlan hans. Eftir lát Magnúsar dvaldi hann á Ytra-Hólmi hjá Hannesi prófasti Stephensen, líklega í fimm ár, kvæntist og bjó svo í þrjú ár á Háuhjáleigu, stundaði þaðan sjómennsku og þótti góður fiskimaður, fluttist síðan upp í Borgarfjörð og bjó þar til hárrar elli. (Sjá Ísafold, 99. tölublað, 24.12.1892, blaðsíða 394.)

En þetta er ágætt dæmi um það að sagnaritara er um megn að henda textabrotum sem hann hefur einu sinni soðið saman (úr allra handa heimildum). Og sjálfsagt hefur Kristófer bundið inn nokkrar bækur fyrir Hannes prófast Stephensen, milli róðra.

Heimildir og meðferð þeirra

Það er ekki mitt að gaumgæfa heimildir Gunnlaugs fyrir textanum í handritinu: Hvort hann hefur alls staðar rétt eftir eða hvort hann gætir að reglum um heimildanotkun og höfundarétt. Það verk hefur væntanlega átt að vera á könnu ritnefndarmanna sem hafa væntanlega átt að lesa allan textann. En ég tók stikkprufur, eins og fyrrnefnt kvæði Símonar Dalaskálds, tók eftir því að enn tekur Gunnlaugur langar beinar tilvitnanir úr fyrirlestri Hallgríms hreppstjóra Jónssonar, Lífið í Skaganum, upp úr Borgfirskri blöndu útg. 1977 (sjá t.d. 1.2. kafla, Íbúaþróun á Akranesi, í handriti Gunnlaugs) þótt frumritið af þessum fyrirlestri sé varðveitt á Héraðsskjalasafni Akraness, og vitnar jöfnum höndum í óprentuð frumskjöl, dagblöð, tímarit og neftóbaksfræði.

Ég sé ekki betur en Gunnlaugur umgangist heimildir af stöku kæruleysi eins og sjá má á beinum tilvitnunum í texta annarra. Víða vantar kommur eða önnur greinarmerki, z í frumtexta er ævinlega látin lönd og leið og breytt í s, annarri stafsetningu hróflað eftir smekk, án þess að láta þess getið, og stundum er ekki einu sinni haft orðrétt eftir. Hér eru nokkur dæmi úr kafla 4.2.:

Í texta um Akur, s.15, tekur Gunnlaugur upp nokkrar beinar tilvitnanir í Ólaf B. Björnsson, 1945, IV. árg., s. 79, þ.á.m. um Þóru Jónsdóttur sem „var hin mesta myndarkona, stillt og prúð.“ en í frumtexta stendur „var hin mesta myndar kona, stillt og prúð.“ Í beinni tilvitnun í sömu heimild um manninn hennar Þóru, Kristján, sem var „hinn bezti drengur“, verður hann „hinn besti drengur“ í meðförum Gunnlaugs á heimildinni.

Annað dæmi um „leiðrétta“ stafsetningu í beinni tilvitnun er úr kafla um Vesturbæ Bræðraparts, þar sem segir í langri beinni tilvitnun í minningargrein um Guðrúnu Sigurðardóttur að hún hafi verið „mikil merkiskona … og atorku- og framkvæmdarsöm, … einnig eftir að hún missti hinn einkar duglega og ráðdeildarsama eiginmann sinn.“  Í heimildinni sem vísað er til, Ísafold 6. maí 1916, s. 3, segir: „mikil merkiskona … og atorku- og framkvæmdar-söm … einnig eftir að hún missti hinn einkarduglega og ráðdeildarsama eiginmann sinn.“ (Úrfellingar og feitletranir eru mínar.)

Dæmi um þar sem rangt er haft eftir í beinni tilvitnun er í kafla um Breið, s. 34, en þar segir inni í langri beinni inndreginn tilvitnun í Sögu Akraness I. bindi eftir Ólaf B. Björnsson, 1957, s. 143:

„Þegar vindur gnauðaði freklega á vetrum og brimið svarraði stórfenglega og teygði hramm sinn svo langt á land sem það náði, var þar ekki næðissamt aukvisum.“ (Feitletrun mín.)

Í frumheimild segir:

„Þegar vindur gnauðaði freklega á vetrum og brimið svarraði stórfenglegt og teygði hramm sinn svo langt á land sem það mátti, var þar ekki næðissamt aukvisum.“ (Feitletrun mín.)

Annað dæmi um að rangt sé haft eftir og raunar líka stafsetningarbreytingu er í umfjöllun um Gísla Daníelsson í kafla um Kárabæ-Bjarnabúð í handriti Gunnlaugs. Þar er tekin löng bein inndregin tilvitnun í 5.-6. tbl. Akraness, maí 1949. s. 65. Í meðförum Gunnlaugs segir í tilvitnuninni:

„Ekki lánaði hann fé með okurvöxtum og var ekki eftirgangssamur um innheimtur, sérstaklega ef þröng var fyrir dyrum. … Yfirleitt var hann kátur og smákíminn, …“

En í frumheimild segir: „Ekki lánaði hann fé með okurvöxtum og var ekki eftirgangssamur um innheimtur, sérstaklega ef þröngt var fyrir dyrum. … Yfirleitt var hann kátur og smá- kýminn, …“ (Úrfellingar og feitletranir eru mínar.)

Kann sagnaritarinn sjálfur skil á heimildum sínum?

Ég skoðaði sérstaklega hvaða heimildir Gunnlaugur Haraldsson segist nota fyrir afar smásmuglegri og leiðinlegri umfjöllun sinni um býli á Skaganum, þ.e. 4.2. Grasbýli og tómthús í Skaganum, s. 13-151, í 4. kafla handritsins.

Um þessar heimildir segir í nrmg. nr. 35, s. 13:

Auk hrepps- og kirkjubóka er hér einkum stuðst við þessar heimildir: Jarðaúttekta- og húsvirðingabækur hreppstjóra 1851-1926 (HA. O.2/E.4. 3-5); Borgfirzkar æviskrár I-XIII; Ólafur B. Björnsson 1957, s. 52-194, Ólafur B. Björnsson 1945-1959, þ.e. 123. [svo] þættir um hús og býli í Skipaskaga, sem birtust í tímaritinu Akranes á árunum 1945-1959 undir heitinu: “Hversu Akranes byggðist”, Gísli S. Sigurðsson, 2003-2011, þ.e. greinasafn í Árbókum Akurnesinga 2003-2011 um hús við Bakktún, Suðurgötu og Vesturgötu, og Þorsteinn Jónsson: Hús og býli á Akranesi (óársett handrit).

Við þessa upptalningu hef ég eftirfarandi að athuga:

Gísli S. Sigurðsson húsasmíðameistari birti vissulega greinasafn um hús við þessar götur í þeim ágætu Árbókum Akurnesinga árin 2003-2005 og 2007-2011. Í Árbók Akurnesinga árið 2006 er engin grein eftir Gísla en sagnaritara hefur yfirsést það.

Ólafur B. Björnsson, verslunareigandi með meiru, gaf út tímaritið Akranes á árunum 1942-1959 og skrifaði þætti úr sögu Akraness frá upphafi útgáfunnar. Frá miðju ári 1945 til ársins 1959 birtust alls 63 þættir undir heitinu „Hversu Akranes byggðist“. Þessir þættir eru tölusettir og vandalaust að sjá að sá 63. þeirra birtist í því eina tölublaði sem kom út árið 1959 – fleiri urðu þau ekki því Ólafur missti heilsuna og lést þann 15. maí sama ár.

Mig grunar að skýringin á því að Gunnlaugur Haraldsson heldur að þessir þættir sem hann segir vera einar af aðalheimildum sínum séu 123 talsins sé einfaldlega sú að sé sleginn inn leitarstrengurinn “Hversu Akranes byggðist” á timarit.is koma upp 122 færslur. Nenni lesandi að lesa færslurnar verður honum strax ljóst að hluti þeirra vísar í ýmis dagblöð sem birtu fréttatilkynningar um að tímaritið Akranes væri komið út og töldu upp helstu efnisþætti þess. 122 ólesnar færslur með þessum leitarstreng verða kannski að 123 þáttum með raðtölupunkti því sagnaritarinn er annars hugar? Má velta fyrir sér hve mikla alúð Gunnlaugur Haraldsson hefur lagt í verkið miðað við skráningu hans á sínum aðalheimildum!

Vel að merkja notar Ólafur B. Björnsson heilmikið af frumgögnum í sínum texta, bæði í greinaflokknum sem hann skrifaði í tímaritið Akranes og í 2. bindi Sögu Akraness sem hann skrifaði og kom út árið 1957. Sú bók er einmitt einnig meðal aðalheimilda Gunnlaugs Haraldssonar í hinum viðamikla 4. kafla, þegar sögunni víkur loksins að Akranesi sjálfu. En það var allur gangur á hvort Ólafur vísaði í heimildir þótt hann tæki orðrétt upp úr hreppsbókum, kirkjubókum o.fl. skjölum. Og raunar eru að hluta til sömu textarnir í greinaflokknum í Akranesi og í bókinni.

Þorsteinn Jónsson notar aðallega húsvirðingabækur (líklega hreppsbækur einnig) í sínu óprentaða riti Hús og býli á Akranesi, sem er óársett en skráð frá árinu 1978 í Gegni. Þetta er rit upp á 147 síður og stór hluti þess fjallar einmitt um húsakost á Akranesi á nítjándu öld. Textinn er mjög viðamikil upptalning á stærðarmálum (álnum), fjölda herbergja á ýmsum tímum o.þ.h. En Þorsteinn vísar ekki nákvæmlega í heimildir sínar. Gunnlaugur Haraldsson hefur gjarna flett upp í sömu heimildum og Þorsteinn og vísar oftast til þeirra, stundum virðist hann þó ekki hafa nennt að finna frumskjölin og vísar þá beint í Þorstein.

Stóra spurningin er: Er eitthvað nýtt í þessum fjórða kafla handritsins, þegar höfundi tekst loksins að hefja umfjöllun um sögu Akraness? Eða er hann fyrst og fremst samansuða úr öðrum áður skrifuðum sögum og sagnaþáttum af húsakosti á Akranesi á nítjándu öld, sérstaklega efni Ólafs B. Björnssonar?

Niðurstaða

Það er morgunljóst að einhver þarf að fara yfir handrit Gunnlaugs að Sögu Akraness III, stytta texta, umrita texta, bera saman við heimildir og betrumbæta mjög ef menn ætla sér í alvörunni að gefa þetta út! Nema verkkaupa, þ.e. Akraneskaupstað, langi til að fá enn og aftur ritdóminn „Hér hefur tekist herfilega til um framkvæmd og hafi þeir skömm fyrir sem að stóðu“ og verða áfram aðhlátursefni vegna sagnaritunar.

 

1) Það tók mig um fimm mínútur að fá lánaða bók og finna uppruna kvæðisins Skipaskaga: Þetta kvæði birtist upphaflega í kvæðakverinu Starkaði (undirtitill er ýmisleg ljóðmæli / eptir Símon Bjarnason Dalaskáld), útg. á Akureyri 1877. Ég hef ekki aðgang að frumheimildinni en af því þetta er svo fallegt kvæði birti ég hér útgáfu þess í Ljóðmælum eftir Símon Dalaskáld sem Rímnafélagið, Reykjavík, gaf út árið 1950. Kvæðið er á s. 186:

SKIPASKAGI

Tel ég fríðan Skipaskaga
skínandi við Ránar hvel:
drottins mundin hefir haga
hann í öllu skaptan vel.

Rennslétt mót röðli blika
rósafögur túnin þar.
Bláar hafsins kólgur kvika
kátar viður fjörurnar.

Bænda þar og bygging fögur
brosir fyrir sjónum manns.
Gnægð af fiski gefur lögur.
Grænar eru byggðir lands.

Grund á suður-fróni fegri
finnur ekki þjóðin slyng
eður mönnum yndislegri
út við breiðan foldar hring.

 

Myndina af Gamla vitanum á Skagatá tók Atli Harðarson 7. desember 2008, sjá nánar á Flickr.

Gunnlaugi greitt árið 2013

Höfrungur á Akranesi

Hér er fjallað um þær tæpu 2 milljónir sem Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni fyrir sagnaritun árið 2013 og bent á ótæk vinnubrögð fulltrúa Akraneskaupstaðar í miðlun upplýsinga um verkið til bæjarbúa, umfjöllun um verkið og mati á skilum sagnaritara. Því miður er þetta sleifarlag í ágætu samræmi við fyrri vinnubrögð ritnefndar og annarra fulltrúa kaupstaðarins í langri sagnaritunarsögu Gunnlaugs.

Í Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi, sem Akraneskaupstaður og Gunnlaugur Haraldsson gerðu með sér þann 22. júní 2012 var kveðið á um að Gunnlaugur fengi greiddar 14.520.000 kr. sem skipt skyldi á ákveðna verkþætti og greiðslur miðuðust við skil verka á ákveðnum tímum (5. gr.). Greiðslur voru verðtryggðar miðað við þróun launavísitölu, með grunnvísitölu í maí 2012 (5. gr.).

Svo sem fjallað var um í síðustu færslu virðist  Gunnlaugur hafa fengið greiddar 2,2 milljónir árið 2012 fyrir skil á einu A-4 blaði (Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012), önnur gögn hef ég ekki fengið því til sönnunar að hann hafi unnið þá tveggja og hálfs mánaðar vinnu (1. verkáfanga A) sem upphæðin var greidd fyrir. Þáverandi bæjarstjóri (ég giska á að Árni Múli Jónasson hafi náð að sjá til þessa áður en hann lét óforvarendis af störfum þann 7. nóvember 2012) og Ritnefnd um sögu Akraness hljóta einhvern veginn að hafa  samþykkt að þessi tveggja og hálfs mánaðar vinna hafi verið unnin því slíkt er áskilið í samningnum (sjá 4. og 5. gr.).  Bókað er í ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness þann 9. júlí 2013 að verkskil hafi verið um mánaðamótin nóvember/desember 2012 og greitt hafi verið að fullu fyrir skv. samningi.

„Af fjölmörgum ástæðum ástæðum [svo] hefur verkið reynst tímafrekara …“

1. verkfáfangi B er í samningnum skilgreindur sem „9 vikna verktakagreiðsla fyrir umritun og frágang á I.-IV. kafla prenthandrits á grundvelli verkáætlunar, skv. fylgiskjali samnings nr. 2 …“ (2 tl. gr. 5) og fyrir hann átti Gunnlaugur að fá allt að 1.800.000 kr. Þetta átti að vinna á árinu 2012 og var gert ráð fyrir fjárveitingu til verksins það ár skv. samningnum en næstu verkáfangar, sem átti að vinna árin 2013 og 2014, voru háðir samþykktum í fjárhagsáætlunum Akraneskaupstaðar fyrir þau ár.

Þar sem fyrsta verk Gunnlaugs var að umturna skipulaginu sem fólst í fylgiskjölum samningsins er verkáætlunin, fylgiskjal 2 með samningnum, auðvitað marklaust plagg núna. (Eins og nefnt hefur verið fékk hann 2,2 milljónir fyrir að umturna áætluninni.) Þess í stað kemur A-4 blaðið Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012. Í því skjali er 1. verkáfangi B orðinn 10 vikna vinna og heitir nú:

1. verkáfangi B-endurskoðun og umritun 2012:
I. kafli Byggðarþróun og búnaðarhagir.

Í fyrrnefndri ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness, sem ber yfirskriftina Fundur ritnefndar um sögu Akraness ásamt rithöfundi  Skilafundur, 9. júlí 2013, segir um stöðu vinnunnar:

[…]
B.  Meginhluti 1. verkáfanga B er í höfn samkvæmt verksamningi og verkáætlun frá 3. október 2012. Framlagt handrit GH, þ.e. þrír af fjórum undirköflum I. kafla samtals 365 blaðsíður með tilheyrandi töflum og skrán [svo].
C.  Frágangi 4. undirkafla (um 50 blaðsíður) mun GH ljúka í ágúst nk. að loknu sumarleyfi.
D.  Af fjölmörgum ástæðum ástæðum [svo] hefur verkið reynst tímafrekara en GH og áætlanir gerðu ráð fyrir. Fyrirsjáanlegt er að fresta þarf 2. verkáfanga fram yfir áramótin þar sem GH er bundinn í öðru verki til þess tíma. (Feitletrun er mín.)
E.  Umfang verksins hefur engin áhrif á samningsbundnar greiðslur sem byggja á framvindu og skilum GH á efni og samþykkt ritnefndar og bæjarstjóra á að skil séu fullnægjandi. GH óskar eftir að fá greiðslu 1,6 mkr. af 1,8 mkr. samningsgreiðslu við fyrsta tækifæri en eftirstöðvarnar (200.000) við fullnaðarskil handrits (4. undirkafli).
F.  Ritnefnd og bæjarstjóri munu fara yfir fyrirliggjandi handrit og taka afstöðu til beiðni GH svo fljótt sem verða má sbr. 5. gr. samningsins.

SA mun framsenda efnið á nefndarmenn ásamt fundargerð til samþykktar.

Efnið, sem þarna er nefnt, var líklega þessi 365 síðna handritsbútur sem nefndur er í lið E. Um hann segir í upphafi fundargerðarinnar:

Formaður [ritnefndarinnar] … [f]ór nokkrum orðum yfir aðdragandann og ástæður þess að ekki hafi verið haldinn fundur síðan í október sl. Hann vísaði til gagna sem Gunnlaugur hafði skilað til hans deginum áður og væru til umræðu á fundinum ásamt öðrum atriðum sem fundarmenn vildu taka upp. Efninu var ekki dreift fyrir fundinn en Gunnlaugur var með það meðferðis í útprentuðu eintaki. (Feitletrun er mín.)

Þetta var rétt rúmlega klukkustundar langur fundur. Hann sátu, auk sagnaritarans, þrír af fimm fulltrúum Ritnefndar um sögu Akraness og Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri hjá Akraneskaupstað sem ritaði fundargerð.

 

Hefðbundin vinnubrögð í Ritnefnd um sögu Akraness og meðferð fundargerða

Það að halda skilafund án þess að fulltrúum í Ritnefnd um sögu Akraness hafi gefist kostur á að kynna sér efni sagnaritans fyrir fundinn er gamalt bragð sem Gunnlaugur hefur oft beitt áður. Að skila ókláruðu verki hálfu ári eftir að átti að skila því er líka ágætlega í takt við vinnubrögð sagnaritarans til þessa (handritinu átti að skila árið 2012, skv. verkáætlun og 2. lið 5. gr. Samnings um ritun Sögu Akraness – III – bindi).

Það að birta aldrei fundargerðina á vef bæjarins né leggja hana fram í bæjarráði eða bæjarstjórn eru heldur ekki ný vinnubrögð þegar kemur að fundargerðum Ritnefndar um sögu Akraness. Hins vegar kann það að vera nýtt verklag að ganga ekki einu sinni eftir því að fundarmenn samþykktu hana með undirritun sinni: Það dróst nefnilega í 7 vikur að skila mér afritum því efni sem ég óskaði eftir frá Akraneskaupstað snemma í október 2014 vegna þess að þá uppgötvaði fundarritari, framkvæmdastjóri bæjarins, að gleymst hafði að láta fundarmenn samþykkja og undirrita fundargerðina og sóttist honum seint að ná í allar þær undirskriftir nú.

En ekki stóð á greiðslum

Þetta verklag við svokallaðan skilafund Ritnefndar, vinnubrögð sagnaritara, ritnefndar og og framkvæmdastjóra bæjarins, kom þó alls ekki í veg fyrir að Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni 1.933.276 kr. árið 2013. Má ætla að þessi greiðsla sé upphaflega 1,8 milljónin sem hann átti að fá fyrir að vinna verkið 2012, með verðbótum. Kostnaður vegna Ritnefndar um sögu Akraness árið 2013 var 51.358 kr., sem rímar við að formanni og tveimur óbreyttum nefndarmönnum hafi verið greitt fyrir að sitja þennan klukkustundar og fimm-mínútna fund 9. júlí 2013. (Saga Akraness, samantekt 2012 og 2013.)

Mögulega hafa einhverjir ritnefndarmenn farið ókeypis yfir framlagðan handritsbút Gunnlaugs Haraldssonar eftir fundinn og samþykkt hann ásamt bæjarstjóra, s.s. kveðið er á um í samningi að þurfi að gera, altént fékk hann refjalaust borgaðar tæpar tvær milljónir fyrir 365+199 framlagðar blaðsíður.

 

Heimildir

Fundur ritnefndar um sögu Akraness ásamt rithöfundi  Skilafundur, 9. júlí 2013, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014;
Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014.
Saga Akraness, samantekt 2012 og 2013, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014;
Samningur um ritun Sögu Akraness – III. bindi-, ásamt fylgiskjölum, skjöl frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014.

Myndina af Höfrungi tók Atli Harðarson 7. júní 2014, sjá nánar á Flickr.

 

Næsta færsla fjallar um hinn dýrmæta handritsbút í Sögu Akraness III, sem Gunnlaugur hefur skilað.

Greiðslur til Gunnlaugs 2012

Kútter Sigurfari eftir Víctor Bautista

Hér verður gerð grein fyrir því fé, 2,2 milljónum, sem Gunnlaugi Haraldssyni tókst að fá greitt frá Akraneskaupstað árið 2012 og fyrir hvað hann fékk greitt en af þeim gögnum sem Akraneskaupstaður afhenti mér 1. des. 2014 að ráða virðist hann hafa uppskorið þessi laun fyrir skil á einu A-4 blaði. 1)

 Skipulagið 2012

Samningi um ritun Sögu Akraness – III. bindi – sem undirritaður var 22. júní 2012 fylgir 12 blaðsíðna skjal eftir Gunnlaug Haraldsson. Skjalið er merkt Fylgiskjal 1 og titill þess er: Saga Akraness – III. bindi. Nítjánda öldin. Efnisyfirlit (drög). Skjalið hefst þannig (ath. að allt er það skáletrað):

Hér er gefið gróft efnisyfirlit yfir handrit III. bindis. Handritið er samtals 825 blaðsíður í A-4 broti. Það var skrifað á árunum 2000-2004 sem síðari hluti I. bindis (tímabilið 1801-1850) og fyrri hluti II. bindis (tímabilið 1851-1900) skv. þágildandi útgáfuplani. Við prentvinnslu á I. og II. bindi og breytta efnisskipan ritsins var ákveðið að steypa þessu efni saman í eina heild, svo að III. bindi spanni alla 19. öldina eða tímabilið 1801-1900.

Efni III. bindis er hér skipt í 20 meginkafla í stað 40 í fyrirliggjandi handriti. …

Þessir 20 meginkaflar eru svo taldir upp í skjalinu og undirkaflar þeirra rækilega tíundaðir. Á s. 9-12 eru taldar upp fyrirhugaðar rammagreinar og myndrit (töflur, gröf og skrár).

Hvar þetta 825 bls. handrit er niðurkomið hef ég ekki hugmynd um en eins og kom fram í síðustu færslu var aldrei farið yfir það til að taka út stöðu verksins, s.s. kveðið er á um í samningnum. Kannski veit enginn hvar það er.

Skipulagið 1997

Í fyrsta samningnum sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug Haraldsson og var undirritaður þann 22. apríl 1997, var kveðið á um að Gunnlaugur ritaði 3 bindi um sögu Akraness sem spönnuðu aldirnar 1700-2000. Fyrsta bindið átti að vera Byggðasaga 1700-1900 og skiptast í fimm meginkafla:

1. Staðhættir
2. Byggðaþróun og þorpsmyndun
3. Búskaparhættir og bjargræðisvegir fyrr á tíð (ca. 1700-1900)
4. Framfærslu-, skóla-, félags- og heilbrigðismál
5. Skipting Akraneshrepps 1885.

Skilgreindir undirkaflar eru frá tveimur upp í átta.

Þessu fyrsta bindi átti að skila „eigi síðar en 1. október 1999“ (3. gr. SAMNINGS UM RITUN SÖGU AKRANESS). Gunnlaugur stóð auðvitað ekki við samninginn en var samt á prýðilegum mánaðarlaunum við sagnaritunina frá 1. apríl 1997 til 1. sept. 2001, þ.e. þann tíma sem samningurinn gilti.

Á 42. fundi Ritnefndar um sögu Akraness, þann 15. október 2001, er bókað: „Gunnlaugur gerði grein fyrir stöðu mála. Efni vegna 19. aldar er nú um 5-600 síður, en vinna þarf það efni frekar og skipta því í tvö bindi og miða við 1850. Sá tími, sem gert var ráð fyrir að færi í ritunina, er að líða og var m.a. rætt um ýmis-legt því tengt.“

Á næsta fundi, 43. fundi þann 19. nóvember 2001, er bókað (feitletrun er mín):

1. Gunnlaugur lagði fram efnisyfirlit að 1. bindi ásamt 598 síðum í handriti sem nær frá 1700 til 1850.

3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning. Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið …

Ritnefndin staðfesti s.s. skil á á 1. bindinu skv. samningnum, byggðasögu frá 1700-1900, þótt því hefði alls ekki verið skilað heldur 598 síðum um þrjá fjórðu tímabilsins og efnisyfirliti.

Ég rek þessa sögu ekki lengra hér, hún er rakin í Sögu Sögu Akraness  enda er þetta aðeins upphafið að skollaleik Gunnlaugs og Ritnefndar um sögu Akraness, þ.e. Gunnlaugur endurraðaði efnisþáttum og tímaskiptingu trekk í trekk, sneri skipulaginu á haus, bætti inn æ smásmugulegri undirefnisflokkum og Ritnefndin beitti sér ávallt fyrir því að gerðir yrðu nýir og nýir viðbótarsamningar við hann svo hann fengi örugglega greitt þótt litlu sem engu væri skilað. (Sjá töflu yfir aðalatriði fundargerða, s.127-140 í Sögu Sögu Akraness). Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvar þetta 598 síðna handrit frá 2001 er niðurkomið. Kannski er það í sömu glatkistu og 825 blaðsíðna handritið sem nefnt var hér að ofan.

Snilldin að snúa til upphafsins

Víkur þá aftur að nýjasta samningnum frá 22. júní 2012,  Samningi um ritun Sögu Akraness – III. bindi –.  Í Fylgiskjali 1 (Gunnlaugs) eru fyrstu meginkaflarnir (það er ástæðulaust að telja fleiri því flestum þeirra hefur ekki verið skilað):

I. Árferði og almennir hagir
II. Íbúa- og byggðaþróun
III. Jarðeignir og búnaðarþróun
IV. Útgerðarhættir á árabátaöld
V. Breskir togarar og tröllafiskur

Í Fylgiskjali 2 er kveðið á um verkáætlun þannig:

1. verkáfangi A, skilgreindur sem 10 vikna vinna, er undirbúningur og gagnaúrvinnsla 2012, þar undir taldar 3 vikur í endurröðun og uppstokkun efniskafla;
1. verkáfangi B, 9 vikna vinna, felst í endurskoðun og umritun I.-IV.kafla (meginkafla í Fylgiskjali 1)
2. verkáfangi, 19 vikna vinna, er endurskoðun og umritun á V.-XIII. köflum verksins;
3. verkáfangi, 28 vikna vinna, er endurskoðun á XIV.-XX. köflum verksins og frágangur.

Ég feitletra hér þá tvo verkáfanga sem Gunnlaugi hefur tekist að ljúka til þessa, a.m.k. hefur hann fengið greitt fyrir að ljúka þeim.

1. verkáfanga A átti að vinna í júní til september 2012. Fyrir hann átti Gunnlaugur að fá greiddar 2,2 milljónir, þ.e.a.s. hann fékk 880.000 kr. verktakagreiðslu á mánuði. Það eru afar góð laun fyrir mann með gráðu sem samsvarar íslenskri BA-gráðu í fornleifafræði.

Skv. ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness þann 9. júlí 2013 (væntanlega er þetta 84. fundur nefndarinnar) skilaði Gunnlaugur af sér 1. verkáfanga A um mánaðamótin nóvember/desember 2012 og fékk greiddar sínar 2,2 milljónir það ár. En fyrir hvað fékk hann greitt?

Í óbirtri 83. fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness dags. 3. október 2012 er þess getið að Gunnlaugur hafi farið yfir verkáætlun III. bindis og skv. bókun hefur hann þá bætt einni viku við 1. verkáfanga A og dregið eina viku frá 3. verkáfanga á móti. Ekki er bókað að hann hafi skilað neinu nema afhendingarskrá yfir skjöl sem afhenda eigi Héraðsskjalasafni Akraness. Skv. samningnum 2012, gr. 3, átti hann að afhenda þessi skjöl fyrir 15. ágúst 2012 en formaður Ritnefndar um sögu Akraness afhenti þau safninu, alls 8 möppur, þann 24. október 2012.2)

Í einnar síðu fylgiskjali með næstu fundargerð (óbirtri og ótölusettri en væntanlega 84. fundur ritnefndarinnar), sem heitir Frágangur á prenthandriti II. bindis. Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012, kemur fram sú breytta kaflaskipan og verkáætlun sem taldist 3 vikna vinna í 1. verkáfanga A. Hún felst í þessu:

  • Að vikufjölda er rutlað svolítið til, þ.e. 1. verkáfangi B er nú talinn 10 vikna vinna og í staðinn er 3. verkáfangi orðinn 27 vikna vinna;
  • Að tólf kaflar eru horfnir og má ætla að þeim hafi verið steypt saman við aðra, nema kafla XX en það kaflanúmer hefur einfaldlega verið fjarlægt þótt kaflaheitið (Rammagreinar) standi áfram.
  • Að nú er einungis einn meginkafli í 1. verkáfanga B og heitir hann Byggðaþróun og búnaðarhagir;
  • Að umritun II.- IV. kafla flyst í 2. verkáfanga (enda eru þeir ekki lengur sömu meginkaflar og í Fylgiskjali 1 með samningnum).

Engum sögum fer af endurvinnslu myndrita (3 vikna vinnu) og úrvinnslu frumheimilda sem safnað var frá 2005-2011 (4 vikna vinnu) sem voru hinir verkþættirnir í þessum 1. verkáfanga A. Ég vísa enn og aftur í staðfestingu formanns Ritnefndar um sögu Akraness, Jóns Gunnlaugssonar, í tölvupósti til mín þann 8. des. 2014, um að allt starf nefndarinnar sé bókað í fundargerðum hennar. Það virðist því morgunljóst að engin gögn sem staðfesti þessa 7 vikna vinnu sagnaritarans hafi nokkru sinni verið lögð fram. Þriggja vikna vinnunni hefur hins vegar verið gerð skil á einu A-4 blaði og verður að teljast einkar hægt unnið að eyða þremur vikum í að upphugsa þá breyttu kaflaskipan og færslu um eina viku milli vinnuþátta.

Þrátt fyrir að hafa sett mig vel inn í fyrri brögð og glímur Gunnlaugs við stjórnsýslu Akraneskaupstaðar sem einatt hafa snúist um að fá greitt fyrir verk sem ekki er skilað verð ég að telja viðskiptin árið 2012 einstakt afrek, meira að segja miðað við hann. Mætti margur sagnaritarinn öfunda hann af velgreiddu einu A-4 blaði!

Endurskoðunin er og dæmigerð fyrir vinnubrögð Gunnlaugs gegnum tíðina:

Í SAMNINGI UM RITUN SÖGU AKRANESS, sem skrifað var undir 22. apríl 1997, var samið um að fyrsta bindið af þremur sem Gunnlaugur skyldi skrifa væri Byggðarsaga 1700-1900, sem skiptist í 5 meginkafla (sjá efst í þessari færslu) og átti ritun þess og myndaöflun að vera lokið eigi síðar en ágúst-september 1999. Síðan bólgnaði verkið út eftir því sem árin liðu, hluta þess taldist skilað árið 2001 en var þó eigi fullklárað og um það leyti sem Gunnlaugur gengur til samninga við Akraneskaupstað að tilstuðlan Árna Múla Jónassonar þáverandi bæjarstjóra vorið 2012 er Saga Akraness III (sem dekkar tímabilið 1801-1900) orðin að 40 meginkafla verki í 825 blaðsíðna handriti. Í Fylgiskjali 1 með samningnum sem var undirritaður 22. júní 2012 var meginköflum fækkað ofan í 20. Í endurskoðun þeirri sem taldist vinna við 1. verkáfanga A var meginköflum fækkað ofan í 8 meginkafla. Skiptingin í þá meginkafla færist nær  meginkaflaskiptingunni í samningnum 1997 og mætti  segja að nú væri verið að loka miklum skipulagshring. Fyrir þessa endurskipulagningu fékk Gunnlaugur 2,2 milljónir króna greiddar frá Akraneskaupstað.

 

Næst verður fjallað um greiðslur Akraneskaupstaðar til Gunnlaugs Haraldssonar árið 2013

 


 

1) Óskað var eftir öllum gögnum sem tengdust samningnum við Gunnlaug Haraldsson og sagnaritun hans. Það tók Akraneskaupstað 7 vikur að afgreiða erindið svo ætla má að vandað hafi verið til verksins og engin frekari gögn liggi fyrir. Formaður Ritnefndar um sögu Akraness, Jón Gunnlaugsson, staðfesti í tölvupósti til mín þann 8. desember að allt starf ritnefndarinnar væri bókað í fundargerðum sömu nefndar og þær hef ég.

2) Þau 8 bréfabindi (möppur) úr fórum Gunnlaugs sem nú er að finna á Héraðsskjalasafni Akraneskaupstaðar innihalda ljósrit af obbanum af því sem hann telur upp sem óútgefnar heimildir í heimildaskrám við Sögu Akraness I og Sögu Akraness II, auk handrits Jóns Böðvarssonar að Akranesi II og ýmiss drasls úr eigu Gunnlaugs. Magnið er ekki í neinu samræmi við fyrri yfirlýsingar sagnaritarans, sem hefur orðið tíðrætt um sína miklu og ómetanlegu heimildasöfnun og skulu hér nefnd tvö dæmi:

Heimildaöflun og úrvinnsla þeirra hefur reynst langtum tafsamari og tímafrekari en mig óraði nokkru sinni fyrir, og hafði þó talsverða reynslu að byggja á í þessum efnum. Hér er í fyrsta lagi um að ræða skjalleg gögn af öllum hugsanlegum toga sem einkum eru varðveitt í skjalasöfnum í Reykjavík og á Akranesi (t.d. gjörðabækur hreppstjóra, sveitarstjórnar, einstakra nefnda, félagasamtaka og fyrirtækja, sýslumanna og sýslunefnda, amtmanns, landshöfðingja og fleiri embætta stjórnsýslunnar, bréfabækur, bréfadagbækur, bréf og hverskyns gjörningar sömu aðila og einstaklinga, jarðaskjöl, dagbækur, örnefnalýsingar, o.s.fv., o.s.frv.). Í annan stað allt prentað og útgefið efni (bækur, skýrslur, dagblöð, tímarit o.s.frv.) þar sem Akraness er í einhverju getið, – og í þriðja lagi munnlegar heimildir og frásagnir núlifandi manna. Allar þær frumheimildir sem ég hef getað leitað uppi í skjalasöfnum, s.s. Þjóðskjalasafni, hef ég látið ljósrita til að vinna úr í starfstöð minni. Það heimildasafn telur nú um 100 bréfabindi eða tugþúsundir blaðsíðna og mun síðar varðveitast í Héraðsskjalasafni Akraness og verða aðgengilegur gagnabanki þeim sem síðar kynnu að vilja grúska í afmörkuðum viðfangsefnum.
(Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar. Skoðað 15. júní 2011. Af því að Akraneskaupstaður hefur sett upp nýja heimasíðu og láðst að hafa þá eldri aðgengilega er ekki lengur hægt að skoða þennan spjallþráð.)

[Um starfsstöð sagnaritarans í Gufunesi]: Auk fjölda fræðirita er þarna til dæmis hátt í 200 bréfabindi með ljósritum skjala sem tengjast sögu Akraness, um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum, og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.
(„Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness“. Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 14. Viðtalið tók Þórhallur Ásmundsson blaðamaður.)

Myndina af Kútter Sigurfara tók Víctor Bautista 12. júní 2010. Tengt er í myndina á Flickr.

 

Þyrnirósar-ritnefndin og Saga Akraness

kindur_i_hrutatungurett

Hér er fjallað um langvarandi sofandahátt Ritnefndar um Sögu Akraness og spurt hvort þriðji grunnsamningurinn sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug Haraldsson sagnaritara teljist  gildur samningur þar sem forsendur þess að hann tæki gildi voru aldrei uppfylltar. (En, s.s. fjallað verður um síðar, kom það ekki í veg fyrir að Akranesbær greiddi sagnaritaranum vegleg laun árin 2012 og 2013.)

Í síðustu færslu var þess getið að Ritnefnd um Sögu Akraness átti að fara yfir og taka út fyrri vinnu Gunnlaugs Haraldssonar við bindi III og samningurinn sem skrifað var undir þann 22. júní 2012 ekki að „öðlast endanlega samþykkt af hálfu Akraneskaupstaðar nema ritnefnd hafi afgreitt hana með jákvæðum hætti sem grundvöll fyrir samningum í heild sinni“ (4. gr., s. 2 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi –).

Þessi fyrri vinna Gunnlaugs hafði raunar verið rækilega greidd, jafnvel metin, á sínum tíma, því í fyrsta samningnum sem gerður var við hann, 1997, var tilskilið að hann skyldi byrja á að skrifa bindi um byggðasögu Akraness 1700-1900 og því bindi átti hann að skila í síðasta lagi 1. október 1999. (Núverandi III bindi á að fjalla um sögu Akraness 1800-1900.) Ritnefnd um sögu Akraness, undir forystu Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra, staðfesti skil á þessu bindi þann 19. nóvember 2001, svo sem segir í 3. lið þeirrar fundargerðar:

3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning. Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið. Nefndin telur mikilvægt að verkinu verði haldið áfram og leggur til við bæjarráð að samningur bæjarins við söguritara verði framlengdur.

Það er áhugavert í þessu sambandi að í ritnefndinni, sem staðfesti síðla árs 2001 skil á handriti að byggðasögu Akraness 1700-1900 svo Gunnlaugur Haraldsson gæti fengið vel greitt fyrir það verk og framlengdan samning um meiri greiðslur, sat einmitt Hrönn Ríkharðsdóttir, sú hin sama og samþykkti í bæjarráði snemma vors 2012 að greiða Gunnlaugi Haraldssyni 14,5 milljón fyrir að ganga frá handriti að sögu Akraness 1800-1900. Í þriggja manna bæjarráðinu sem samþykkti viðbótarsamning við Gunnlaug í samræmi við þessa hvatningu ritnefndarinnar þann 20.12. 2001 sat einmitt Guðmundur Páll Jónsson og má því ætla að honum hafi verið kunnugt um að staðfest hafi verið skil á efninu þegar hann greiddi atkvæði sitt í bæjarráði snemma vors 2012 að greiða Gunnlaugi Haraldssyni aftur fyrir að ganga frá sama handriti.

Í síðari hluta bloggfærslu minnar, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku.  (17. júní 2011) eru raktar misvísandi upplýsingar sagnaritarans, útgefanda Sögu Akraness I og II, formanns Ritnefndar um sögu Akraness o.fl. um hvort III bindið sé tilbúið, hversu tilbúið það sé eða hvort það sé kannski ekki tilbúið.

Fyrirskipuð úttekt Ritnefndar um Sögu Akraness 2012

Ég óskaði eftir upplýsingum frá síðasta formanni Ritnefndar um Sögu Akraness, Jóni Gunnlaugssyni, um hvort sú úttekt og mat á vinnu sagnaritara við III bindi sem kveðið er á um í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi – hefði farið fram og þá með hvaða hætti. Í svari hans, tölvupósti til mín þann 8. des. 2014, staðfestir Jón einfaldlega að öllu starfi ritnefndarinnar sé lýst í fundargerðum hennar.

Til eru tvær fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness sem aldrei hafa birst opinberlega, önnur frá 3. október 2012 (83. fundur nefndarinnar) og hin frá 9. júlí 2013 (ótölusettur en væntanlega 84. fundur nefndarinnar). Í þessu sambandi er rétt að geta þess að allar fundargerðir nefnda Akraneskaupstaðar eiga að liggja frammi á vef bæjarins nema um trúnaðarmál sé að ræða. Fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness geta engan veginn fallið undir trúnaðarmál en það er svo sem ekkert nýtt að Akraneskaupstaður reyni að fela þær sjónum almennings.

Af óbirtri fundargerð ritnefndarinnar þann 3. okt. 2012 er ekki hægt að ráða að neitt starf hafi farið fram í ritnefndinni eftir að samningurinn við Gunnlaug var undirritaður þann 22. júní sama ár. Allir fimm nefndarmennirnir voru viðstaddir þennan fund, auk Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra, Jóns Pálma Pálssonar bæjarritara og sagnaritarans Gunnlaugs Haraldssonar.

Ritnefndin kemur ekkert við sögu á þessum fundi nema formaður setti fund (liður 1 í fundargerð) og sleit honum.

Bókað er að Árni Múli hafi farið yfir „þá vinnu sem unnin hafi verið varðandi verksamning við söguritara um áframhald á Sögu Akraness“ (liður 2); Jón Pálmi útskýrði samninginn lið fyrir lið (liður 3); Gunnlaugur Haraldsson lagði fram skrá yfir gögn í átta möppum sem ætti að afhenda Héraðsskjalasafni Akraness (liður 4) og fór yfir verkáætlun III bindis (liður 5). Í lið 6 í fundargerð segir: „Ákveðið að hafa stöðufund í lok nóvember“ og svo er fundi slitið.

Nóvemberfundurinn fyrirhugaði var aldrei haldinn. Bókaður kostnaður Akraneskaupstaðar vegna Ritnefndar um sögu Akraness árið 2012 er 96.109 kr., sem passar við nefndarlaun þessara fimm sem mættu á fundinn 3. okt. 2012 og þeirra tveggja nefndarmanna sem höfðu mætt á fund 23. mars sama ár (en um hann var fjallað í síðustu færslu, þótt næsta lítið verði ráðið af ör-fundargerð hans).

Niðurstaðan er því sú að Ritnefnd um sögu Akraness hafi aldrei metið eða tekið út vinnu Gunnlaugs Haraldssonar við III bindið sem átti að vera forsenda þess að samningurinn öðlaðist gildi. Og þá vaknar auðvitað spurning um hvort samningur Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar frá 2. júní 2012 sé gildur samningur eða bara gamniplagg til að fóðra greiðslur til sagnaritarans?

Þyrnirósarsvefn Ritnefndar um sögu Akraness

Í rauninni er algerlega óskiljanlegt hvaða hlutverki Ritnefnd um sögu Akraness hefur átt að gegna í þau 26 ár sem hún hefur starfað því hún hefur aldrei axlað neina ábyrgð á verkinu né sýnt nokkurn lit á að leita eftir sérfræðiaðstoð, t.d. sagnfræðings, til að meta verk og verklag sagnaritara. Hins vegar hefur þetta löngum verið dýrasta nefnd bæjarfélagsins í þeim skilningi að hún hefur haldist fjölskipaðri en aðrar nefndir í fjölda ára.

Fyrsta áratuginn sem ritnefndin starfaði var ofurlítið líf í henni, þ.e.a.s. hún lagði sig nokkuð í líma við að vera andstyggileg við þáverandi sagnaritara. (Þetta er rakið í plagginu Sögu Sögu Akraness og verður ekki tíundað frekar hér.) Seinni sextán árin sem Ritnefnd um sögu Akraness hefur starfað virðist nefndin hafa gegnt hlutverki Þyrnirósar: Sofið og beðið eftir að prinsinn birtist (eða skilaði einhverju af sér). Þyrnirós svaf í heila öld en ritnefndin hefur eytt 70 mannárum í svipaða iðju. Þyrnirós var launalaus prinsessa en ritnefndarmenn hafa þegið prýðileg laun í 26 ár. Þyrnirós fékk prinsinn sinn að lokum en Saga Akraness er enn óskrifuð. (Þótt vissulega sé búið að framleiða mikinn glanspappír í að skrifa sögu Hvalfjarðarsveitar í annað og þriðja sinn, ævintýralegar fabúleringar um fyrsta íslenska óskráða dýrlinginn og uppruna Bresasona, sem og valda endursagnarparta úr Íslandssögunni, með samþykki sofandi ritnefndarinnar, er ekki enn komið þar sögu hjá Gunnlaugi Haraldssyni að Akranes sé annað en örfá örreytiskot sem fáum sögum fer af.)

 

Sem betur fer hefur sú bæjarstjórn sem tók við völdum hér á Skaganum sl. vor ekki skipað í Ritnefnd um sögu Akraness og má vona að ritnefndin verði ekki ræst til starfa í náinni framtíð – til þess eins að vera stungin svefnþorni á ný.

 

Óbirt gögn sem vísað er til í þessari færslu eru fengin frá Akraneskaupstað þann 1. desember 2014, þ.e. tvær fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness, samantekt á greiðslum vegna Sögu Akraness árin 2012 og 2013 og Samningur um ritun Sögu Akraness – III bindi -.

Myndin er af kindum í Hrútatungurétt, tekin af Atla Harðarsyni þann 8. september 2012.

Gengið til samninga við Gunnlaug

hofrungur_i_dumbungi

Hér verður fjallað um aðdraganda nýjasta samnings Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um ritun þriðja bindis Sögu Akraness og örlítið um samninginn sjálfan. Í næstu færslu verður gerð grein fyrir efndunum.

Aðdragandinn

Ritnefnd um sögu Akraness kom saman þann 23. mars 2012.  Raunar er álitamál hvort ritnefndin sjálf kom saman því formaður hennar og tveir aðrir nefndarmenn boðuðuð forföll, einungis tveir óbreyttir nefndarmenn mættu á fundinn. En maður kemur í manns stað og fundurinn var ekkert sérlega fámennur þrátt fyrir fjarveru meirihluta ritnefndar. Fundinn sátu nefnilega einnig Árni Múli Jónasson bæjarstjóri (sem tók pokann sinn í nóvemberbyrjun sama ár); Jón Pálmi Pálsson bæjarritari (sem tók við af Árna Múla sem bæjarstjóri en tók pokann sinn um miðjan desember sama ár); Kristján Kristjánsson, útgefandi (en bókaforlagið hans, Uppheimar, lagði upp laupana á liðnu ári) og Gunnlaugur Haraldsson söguritari. (Gunnlaugi farnaðist að venju vel í fjárhagslegum samskiptum við Akraneskaupstað allt til þessa árs en ekki er gert ráð fyrir að spreða í hann neinum peningum í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015.)

Fundargerð Ritnefndarinnar er vægast sagt varlega orðuð þegar þessum klukkutíma og korters langa fundi er lýst:

Fyrir tekið:
1. Saga Akraness, 3. bindi
Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Mér er ekki ljóst hvaða aðilar málsins skoðuðu málið nánar en ég giska á það hafi verið þeir sem mættu á þennan fund og ekki sátu í Ritnefndinni. Sú nefnd hélt ekki aftur fund fyrr en í október 2012 og í fundargerð hans er þess ekki getið að ritnefndarmeðlimir hafi innt nein störf af hendi í millitíðinni.

Líklega hefur Árni Múli Jónasson bæjarstjóri verið sá sem var mest áfram um að gera frekari samninga við Gunnlaug Haraldsson um sagnaritun. Stórkarlalegar yfirlýsingar Árna Múla um ágæti fyrri bindanna tveggja af Sögu Akraness og viðbrögð við gagnrýni á þau benda til þess að hann hafi gerst sérlegur verndari (patrón) sagnaritarans fljótlega eftir að hann tók við starfi bæjarstjóra hér.

Niðurstaðan af þessari skoðun „aðila málsins“  á málinu  varð að útbúa nýjan samning við sagnaritarann. Sá samningur var lagður fram í bæjarráði þann 22. júní 2012  og bæjarráð samþykkti hann.  Ástæða þess að það dugði að þriggja manna bæjarráð samþykkti þetta er auðvitað sú að bæjarstjórn starfaði ekki – hún fór í sumarleyfi tíu dögum fyrr.

Í bæjarráði sátu:

  • Guðmundur Páll Jónsson, formaður bæjarráðs. Guðmundur Páll hafði greitt atkvæði sitt með fyrri samningum og viðbótarsamningum við Gunnlaug Haraldsson frá upphafi, 1997, og setið í Ritnefnd um sögu Akraness um tíma. Guðmundur Páll lýsti og mikilli hrifningu á merkri uppgötvun sagnaritans á uppruna landnámsmanna hér á Skaganum, sjá bloggfærsluna glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til, 9. júní 2011.
  • Hrönn Ríkarðsdóttir, varaformaður bæjarráðs. Hrönn hafði stutt fyrri samninga og viðbótarsamninga við sagnaritarann frá því hún tók sæti í bæjarstjórn árið 2002. Hún sat í Ritnefnd um sögu Akraness frá upphafi, 1987 (en í þeirri ritnefnd sat Gunnlaugur Haraldsson einmitt til ársins 1990), til ársins 2002.
  • Þröstur Þór Ólafsson aðalmaður. Þröstur sat einungis eitt kjörtímabil í bæjarstjórn og virðist aldrei hafa gert neinar athugasemdir við greiðslur vegna sagnaritunar bæjarins ef marka má fundargerðir bæjarráðs og hljóðupptökur af bæjarstjórnarfundum.

Á þessum fundi bæjarráðs lét áheyrnarfulltrúi minnihlutans, Einar Brandsson bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins, bóka þá athugasemd að vegna fjárhagsstöðu Akraneskaupstaðar væri ekki forsvaranlegt að ganga til samninga um ritun III. bindis Sögu Akraness. Sú bókun skipti auðvitað engu máli og samdægurs skrifaði Jón Pálmi Pálsson undir Samning um ritun Sögu Akraness – III bindi – fyrir hönd Akraneskaupstaðar, að fyrirmælum bæjarráðs.

Samningurinn

Þessi samningur var þriðji grunnsamningurinn sem Akraneskaupstaður hefur gert við Gunnlaug Haraldsson um sagnaritun. (Hinir eru frá 23. apríl 1997 og 30. nóvember 2006. Auk þess hafa sömu aðilar gert með sér 4 viðaukasamninga gegnum tíðina. Gunnlaugur stóð ekki við neinn þessara fyrri grunn- og viðbótarsamninga, sjá Sögu Sögu Akraness.)

Samingur um ritun Sögu Akraness – III. bindi-, undirritaður 22. júní 2012, sker sig ekki tiltakanlega úr hinum samningunum: Kveðið er á um ákveðna skiladaga verkhluta og að greiðslur fyrir verkið séu háðar skilum eins og tíðkast hefur í hinum samningunum; Launakjör Gunnlaugs eru góð, jafnvel enn betri en fyrr; Ritnefndin á að hafa eftirlit með verkinu eftir því sem því vindur fram o.s.fr. Það er bara tvennt sem má telja alger nýmæli í þessum þriðja grunnsamningi:

1. Hluti samningsins er upp á krít. Alls er samið um 14.520.000 kr. greiðslu fyrir að ganga frá III. bindi á þremur árum svo það sé tækt til útgáfu árið 2015 en sérstaklega tekið fram: „Verkþættir skv. 3. og 4. tl. og fjárveiting til þeirra árin 2013 og 2014 eru með fyrirvara um að fjárveiting til þeirra verði veitt í fjárhagsáætlun hvors árs um sig“ (5. grein, s. 3 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi).

2. Það á að skoða og meta fyrri vinnu sagnaritara við þetta bindi og samningurinn tekur ekki gildi fyrr en þetta hefur verið gert: „Við upphaf verks skal ritnefnd um Sögu Akraness yfirfara og gera nauðsynlega úttekt á stöðu verksins í samvinnu við söguritara. Slík úttekt er forsenda samningsins og öðlast hann ekki endanlega samþykkt af hálfu Akraneskaupstaðar, nema ritnefnd hafi afgreitt hana með jákvæðum hætti sem grundvöll fyrir samningnum í heild sinni“ (4. gr., s. 2 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi –).

 

Hér verður látið staðar numið í bili en í næstu færslu fjallað nánar um launakjör, greiðslur, skil og efndir þessa samnings.

 

Samningur um ritun Sögu Akraness – III bindi er fenginn frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014.

Myndin sem fylgir færslunni er af Höfrungi og tekin af Atla Harðarsyni 6. ágúst 2008.

Millikafli í sögu af sagnaritun

Hér er einföld mynd þar sem sjást helstu viðburðir í sagnarituninni endalausu, þ.e. Gunnlaugs sögu Haraldssonar um Akranes, frá því Sögu Sögu Akraness (fyrsta bindi) lauk. Ég ákvað að æfa mig frekar í PictoChart en skrifa upp svívirðingar og yfirlýsingar sem tóku út yfir allan þjófabálk frá sumri 2011 fram yfir áramót 2012 og varða viðbrögð við útkomnum bindum I og II í Sögu Akraness en þó einkum viðbrögð við viðbrögðunum.

Athugið að allar textagreinar krækja í fréttir, viðtöl eða annað efni á Vefnum þar sem sjá má miklu viðameiri umfjöllun, nema sú sem segir af fyrstu greiðslu til sagnaritarans. Í næstu færslu verður fjallað ítarlega um samninginn, greiðslur/kostnað Akraneskaupstaðar árin 2012 og 2013, afraksturinn og algeran skort á eftirliti með verkinu.

Startholur í sögunni endalausu

Ég vinn nú undirbúningsvinnu fyrir annað bindi í Sögu Sögu Akraness. Þetta er tímafrek vinna og minnir í rauninni meir á sakamálarannsókn en sagnfræðirannsókn að því leytinu að gögn leynast víða og verður að rekja sig að þeim eftir alls kyns vísbendingum sem maður finnur á ótrúlegustu stöðum.

Ég lauk fyrsta bindinu í Sögu Sögu Akraness í júlí 2011. Síðan hef ég bloggað örfáar bloggfærslur  á stangli um framhaldið (sjá efnisflokkinn Saga Sögu Akraness á gamla blogginu mínu). Þegar ég komst að því að sagnaritari Sögu Akraness hefði verið á launum hjá Akraneskaupstað bæði árið 2012 (sem ég vissi) og árið 2013 (sem ég vissi ekki) og jafnvel árið 2014 (sem ég veit nú að slapp fyrir horn, þ.e. við bæjarbúar sluppum við að horfa upp á bæjarstjórnina spreða í hann pening en það er ekki bæjarstjórninni að þakka) ákvað ég að kanna þessi mál og óskaði eftir gögnum frá bænum. Það var af því að fyrir tilviljun sá ég sundurliðað yfirlit ársreikninga og fjárhagsáætlun bæjarins á bóksafninu og áttaði mig á að samningurinn sem  Árni Múli Jónasson þáverandi bæjarstjóri beitti sér fyrir að gerður yrði við Gunnlaug Haraldsson sumarið 2012, að hluta upp á krít, hélt þótt Árni Múli væri væri látinn axla sín skinn. Af því óvart hefur verið tekinn upp meir en klukkustundarlangur þáttur af þögn einmitt þegar bæjarstjórnin var að ræða fjárhagsáætlun seint á árinu 2013 – og umræða er ekki bókuð í fundargerðum bæjarstjórnar af því menn eiga að geta hlustað á hana í hljóðskrá – veit ég ekki einu sinni hvort þetta hefur neitt verið rætt opinberlega í bæjarstjórninni … En sem sagt: Ég óskaði eftir gögnum frá Akraneskaupstað, t.d. samningnum, fylgiskjölum, yfirliti yfir greiðslur til Gunnlaugs og einni fundargerð Ritnefndar sem ég sá að greidd höfðu verið nefndarlaun fyrir, í þessu sundurliðaða yfirliti á bókasafninu.Til öryggis bætti ég við ósk eftir öðrum gögnum sem tengdust þessu.

Þegar þau gögn bárust eftir dúk og disk (nánar tiltekið bárust gögn sem ég óskaði eftir þann 6. október mér þann 1. desember, örfá plögg vel að merkja) kom ýmislegt í ljós. Í þeim leyndust ekki ein heldur tvær fundargerðir Ritnefndar um Sögu Akraness sem aldrei höfðu verið birtar opinberlega. Í eldri fundargerðinni kom í ljós að Ritnefndin hafði skilað 8 “bréfabindum” úr fórum sagnaritara bæjarins, Gunnlaugs Haraldssonar, seint á árinu 2012, til skjalasafns bæjarins. Þetta áttu, skv. lýsingu,  að vera afrit frumgagna sem sagnaritarinn hefði aflað og nýtt til ritunar Sögu Akraness I og Sögu Akraness II en þyrfti ekki á að halda við framhaldsritun Sögu Akraness. Gunnlaugur Haraldsson hefur áður lýst yfir því örlæti að ómetanleg ljósrit hans af frumgögnum yrðu látin af hendi svo þau mættu nýtast öðrum sem vildu glöggva sig á sögu Akraness og byggja á almennilega fræðilegum gögnum sem hann hefur aflað af sinni miklu elju.

Næst lá leiðin á skjalasafnið. Ég nýt þess vafasama heiðurs að vera fyrsta manneskjan sem skoðar þessi gögn. Raunar er ég alls ekki búin að skoða þau því þetta virðist slíkur fjársjóður að það tekur langan tíma að fara í gegnum þau og mér tókst á fyrsta degi að klára tónerinn í ljósritunarvél bókasafnsins og þar með er ég í tímabundinni pásu uns nýr tóner kemur. Í fyrsta kassanum er nefnilega handritið að sögu Jóns Böðvarssonar að Akranes II (sem átti að spanna tímabilið frá 1885 til ?), það handrit afhenti Gísli Gíslason þáverandi bæjarstjóri og formaður Ritnefndar Gunnlaugi árið 1997 og hefur ekki til þess spurst síðan. Ég hef leitað talsvert að þessu handriti án árangurs – en nú er ég búin að finna það og ákvað að ljósrita og lesa.

Alls kíkti ég í þrjá skjalakassa. Í þeim kenndi ýmissa grasa, m.a. afrita af samingum sem Gunnlaugur Haraldsson hefur gert um ýmislegt annað en ritun Sögu Akraness. Þarna fann ég samning um ritun IV. bindis Æviskráa MA stúdenta, samning um ritun sögu á Long ættarinnar og svolítið af týndum gögnum sem hefðu átt að fylgja fundargerðarbókum Ritnefndar um Sögu Akraness. Má nefna frumrit af bréfskiptum Gísla Gíslasonar og Jóns Böðvarssonar á árinu 1994, en þá var Jón Böðvarsson sagnaritari bæjarins og Gunnlaugur Haraldsson sat ekki í Ritnefndinni. (Akranes, saga Jóns Böðvarssonar til 1885, kom úr 1992.) Ég er svolítið hissa á að sjá að svona gögn skuli hafa ratað úr fórum Ritnefndar um Sögu Akraness til Gunnlaugs Haraldssonar og sé raunar ekki hvaða gagn sá síðarnefndi hefði mögulega getað haft af þeim.

Eitthvað pínulítið sá ég í einum kassanum af ljósritum af hinum merkilegu frumgögnum en á eftir að skoða þau betur. Raunar þarf náttúrlega að fara skipulega í gegnum alla kassana (skjalasafnið hefur skipt hinum 8 bréfamöppum upp í 10 skjalakassa) til að skoða dótið sem þar kanna að leynast inn á milli. Ef ég verð heppin finn ég kannski ómetanlegar frumheimildir sem snerta prjónasögu í ómetanlegu gögnunum, a.m.k. þótti mér ljósrituð Uppskrift Guðmundar Þorlákssonar af Bréfabók Brynjólfs biskups Sveinssonar  1657-1658 dálítið interessant, sérstaklega ef þessi Guðmundur hefur verið svo natinn að skrifa upp öll bréfin með sinni ljómandi skiljanlegu rithönd árið 1900-1901 og Gunnlaugur ljósritað alla uppskriftina. Jafnfram velti ég því fyrir mér hvort  frumrit bréfabóka Brynjólfs sé að hluta glatað úr því Gunnlaugur þurfti að styðjast við uppskriftina.

En, sem sagt: Ég grautaði aðeins í þremur kössum og datt svo ofan í ljósritun týnda handritsins og er ekki komin lengra í að skoða þessi merkilegu gögn (sem eru þó aðeins brot af gögnum Gunnlaugs, líklega þarf hann enn á hátt í 192 bréfbindum með merkilegum gögnum að halda til að skrifa framhaldsbindin tvö, sbr. frétt Skessuhorns/inngang að viðtali við Gunnlaug Haraldsson þann 13. apríl 2011. Sem er eins gott því okkar góða skjalasafn er ekki í það stóru húsnæði.)

Það má telja nýjum vöndum sem nú sópa Ráðhúsið til hróss að þeir leggja sig ekki eins fram um að leyna upplýsingum um ritun Sögu Akraness og hinir gömlu. Þess vegna fékk ég strax að vita að það sem Gunnlaugur hefur nú skilað af svokölluðu III. bindi Sögu Akraness (þ.e.a.s. nýjasta útgáfan af þeim margskrifaða og margborgaða texta) er varðveitt í Ráðhúsinu og mér er velkomið að skoða það. Kannski sé ég einnig í góssinu sem geymt er þar skýringuna á þeim 2,2 milljónum sem Gunnlaugur fékk greiddar 2012 (skilgreint sem 10 vikna starf á verktakalaunum) því mér hefur ekki tekist að fá svar frá þáverandi formanni Ritnefndar um það fyrir hvað hann fékk greitt (ég trúi því nefnilega ekki að óreyndu að 1 A-4 blað sé 2,2 milljóna virði) og annað atriði sem ég hef spurt hann um og varðar samninginn sjálfan. Kannski hefur þáverandi formaður Ritnefndar um Sögu Akraness einfaldlega ekki haft tíma til að svara tölvupóstinum mínum ennþá, þetta voru samt bara tvær mjög einfaldar spurningar sem ég lagði fyrir hann, ásamt skýrum skýringum (kennslufræðilega séð).

Það stefnir í áhugaverða detektiv-vinnu framundan; Hvað leynist í góssi Gunnlaugs?; Hvaða gögn er að finna í Ráðhúsinu?; Fyrir hvað fékk sagnaritarinn greitt árin 2012 og 2013? o.s.fr. Og svo verður auðvitað að gera grein fyrir sorglegum afrifum síðasta patróns Gunnlaugs, Árna Múla Jónassyni, í bæjar- og landspólitík, sem og bæjarritarans sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd bæjarins og Ritnefndarinnar sem hefur þegið óspart úr kjötkötlum bæjarins án þess að axla ábyrgð eða skila sýnilegu vinnuframlagi.  Káboj-stríðinu mikla sumarið 2011, milli Árna Múla og Páls Baldvins  hef ég engan veginn gert nægilega góð skil enda var ég stödd í smáþorpum á grískum eyjum, í stopulu netsambandi, þá minn karlmannlegi bæjarstjóri þeysti út á gresjuna, og raunar búin að fá dálítið nóg af hasarnum sem tengdist útkomu bindanna tveggja, þ.á.m. svívirðingum míns karlmannlega bæjarstjóra um sjálfa mig. En Saga Sögu Akraness II á eftir að innihalda alla efnisþætti sem prýða mega góða sögu: Reyfarakennda rannsókn, óvænta fjársjóðsfundi, tragísk örlög sumra aðalpersóna og kómíska baráttu í anda Don Kíkóta ! Og þótt mér sækist verkið kannski dálítið hægt verð ég örugglega ekki tíu til fimmtán ár að skrifa hana (sem  raunin er með óútgefna Sögu Akraness III).

 

Mér þykir næsta augljóst að Gunnlaugur eignast engan patrón í okkar núverandi bæjarstjóra. Og peð til stuðnings sagnaritaranum eru vandfundin á kjörtímabili núverandi bæjarstjórnar; Það hefur ekki einu sinni verið skipað í hina fimm manna Ritnefnd um Sögu Akraness. Horfurnar á að hala inn allar tæpu fimmtán milljónirnar sem Árni Múli gekkst fyrir að semja um við hann (og er auðvitað mun meira fé því náttúrlega er þessi upphæð verðtryggð frá undirritun samnings 2012) eru  verulega slæmar, að mínu mati.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gulli og Múlinn og Sagan

Súper MúliJæja! Enn og aftur ætlar Akraneskaupstaður að ganga til samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun 3. bindis Sögu Akraness, í þetta sinn upp á krít. Sagnir herma að þeir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri og sagnaritarinn mikli ætli að skrifa undir samning á morgun.

Í færslu sem ég skrifaði fyrir ári síðan, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku, rakti ég sögu handritsins sem nú kallast 3. bindi Sögu Akraness og spannar nítjándu öld. (Þeir sem hafa áhuga á Sögu Sögu Akraness, vefrits sem stefnir í að verða álíka langloka og Saga Akraness ef svo heldur fram sem horfir, geta hlaðið niður því sem tilbúið er í þeirri sögu á pdf-formi.)

  • Skil á þessu bindi voru fyrst staðfest árið 2001, þ.e.a.s. fyrsta bindi (af þáverandi áætluðum þremur bindum) um byggðasögu 1700-1900. Eftir að Ritnefnd um sögu Akraness undir forsæti Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra (sem nú stjórnar Faxaflóahöfnum) staðfesti þessi skil kom í ljós að talsvert vantaði inn í stykkið og gerður var nýr samningur við Gunnlaug Haraldsson um að skrifa það sem á vantaði.
  • Snemma árs 2003 sagði Gunnlaugur ritnefndinni að hann væri nánast búinn að ljúka sögu Akraness til ársins 1941.
  • Í mars 2005 segir Gunnlaugur Ritnefndinni að nú vanti einungis herslumuninn á að klára Sögu Akraness frá landnámi til 1941 og er bókað á 55. fundi Ritnefndarinnar: „mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006.“ Því sama hélt Gunnlaugur fram á spjallþræði Akraneskaupstaðar í febrúar 2005.
  • Í ítarlegu minnisblaði Gunnlaugs Haraldssonar í apríl 2008 kemur fram að „Nítjánda öldin 1801-1850 (213 bls.) – bíður prentvinnslu.“
  • Í janúarbyrjun 2010 sagði Gunnlaugur í viðtali við Vísi.is „að hann sé búinn að rita sögu Akraness til 1942 en þá stöðvaðist ritunin.“
  • Í nóvember 2010 staðfesti Kristján Kristjánsson, einn eigenda Uppheima, bókaforlagsins sem gaf út 1. og 2. bindi Sögu Akraness, að 3. bindið sé nú þegar skrifað.
  • Í júní 2011 hafði Skessuhorn eftir Gunnlaugi Haraldssyni að „fyrir liggur að „færa til nútíðarmáls“ handrit mitt að III. bindi (1801-1900) sem safnað hefur ryki í 6-7 ár.“

Á árabilinu 2001, þegar fyrst voru staðfest skil á ritun Sögu Akraness á 19. öld, til ársins 2011 hefur Akraneskaupstaður gert fjölda samninga við Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness. Alls hefur Akraneskaupstaður pungað út 110 milljónum fyrir sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar og útgáfu á fyrstu tveimur bindunum í Sögu Akraness.

Ritnefnd um Sögu Akraness hélt fund þann 23. mars 2012. Það stingur óneitanlega í augu að einungis tveir af fimm nefndarmönnum mættu á fundinn, formaður Ritnefndar og tveir nefndarmenn voru fjarverandi. Fundargerðin er á hálfgerðu dulmáli:

1. Saga Akraness, 3. bindi. Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Á fundi bæjarráðs Akraness 25. maí sl. var bókað:

9.  0906053 – Saga Akraness – ritun.
Drög að samningi um ritun Sögu Akraness III bindis ásamt tölvupósti Gunnlaugs Haraldssonar dags. 23. mai 2012.
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.  Bæjarstjóra falin undirritun hans.  Einar [Brandsson] óskar bókað að hann sé ósammála ákvörðun bæjarráðs.   

Á bæjarstjórnarfundi í gær, 12. júní 2012, var fundargerð bæjarráðs lögð fram. Til máls tók Einar Brandsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en aðrir þögðu þunnu hljóði eins og venjulega (efst í fundargerðinni sem ég kræki í er krækja í hljóðskrá af fundinum). Í máli Einars kom fram að samningurinn sem bæjarráð samþykkti er þriggja ára samningur Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um að bærinn greiði honum 14,5 milljónir á þremur árum fyrir að ganga frá textanum í 3. bindi Sögu Akraness. Ég veit að Kristján Kristjánsson hefur sett það skilyrði að hann verði sjálfur ritstjóri þessa bindis (væntanlega til að gloríur í myndbirtingu endurtaki sig ekki) svo varla er ætlast til að bæjarstjóri undirriti samning við Gunnlaug um allsherjarritstjórn eins og síðast. En mögulega er uppsetning (layout) verksins innifalin í samningnum þótt verði svo að semja við Kristján um eftirlit með þeirri uppsetningu síðar og bærinn verði auðvitað að borga lungann af prentkostnaði því bækurnar seljast vægast sagt takmarkað.

Á fjárhagsáætlun þessa árs, 2012, er gert ráð fyrir 4,2 milljónum í Sögu Akraness. Má af ummælum á bæjarstjórnarfundi í gær ætla að Gunnlaugur fái 4 milljónir í ár – kannski fara tvöhundruðþúsundin upp í þennan tæpa fjögurhundruðþúsundkall sem móðgelsi bæjarstjórans yfir ritdómi kostaði bæinn?  Á langtímaáætlun bæjarins var gert ráð fyrir að eyða 4 milljónum næsta ár, 2013, í Sögu Akraness. Þær 4 milljónir renna beint í vasa Gunnlaugs ef samningurinn hans og Árna Múla verður undirritaður á morgun. Loks hljóðar samningurinn við Gunnlaug Haraldsson upp á rúmar 6 milljónir fyrir vinnu árið 2014. Í samningnum er sá varnagli sleginn að bæjarstjórn eigi eftir að samþykkja þessar fjárveitingar fyrir árin 2013 og 2014. Nú á sem sagt að semja við sagnaritarann upp á krít. Og augljóst að ef bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir ekki fjárveitingarnar sem bæjarstjórinn lofar upp í ermina á kaupstaðnum er þessum 4 milljónum sem Gunnlaugi verða réttar í ár kastað á glæ. Fyrir svo utan það að enginn í bæjarstjórn, bæjarráði eða ritnefnd um Sögu Akraness virðist hafa kveikt á því að Akraneskaupstaður er margbúinn að greiða Gunnlaugi áður fyrir ritunina um þetta tímabil. Af hverju sækir okkar góði bæjarstjóri ekki bara handritið og skellir því í prentsmiðju?

Í dag, 13. júní 2012,  hélt bæjarráð fund. Þar er bókað:

9.  0906053 – Saga Akraness – ritun.
 Samningur við Hjálmar Gunnlaug Haraldsson um ritun Sögu Akraness, III bindi. Samningurinn gerir ráð fyrir verktíma árin 2012 – 2014.
 Afgreiðslu frestað.

Ég reikna með að afgreiðslu bæjarráðs í dag hafi verið frestað af því þeir Árni Múli og Gunnlaugur skrifa ekki undir samninginn fyrr en á morgun …

Sagan endalausa: Einkaflipp bæjarstjórans og vasapeningar handa ritnefndinni

Nokkuð kyrrt hefur verið um Sögu Akraness undanfarið, a.m.k. opinberlega. En því fer fjarri að ævintýrinu sé lokið. Og áfram borgum við Skagamenn brúsann, bæði af einkaútspili móðgaðs bæjarstjóra og væntanlega af huggulegum fundarhöldum hinnar eilífu fimm manna ritnefndar – í bæ þar sem allt er skorið við nögl, allar gjaldskrár hækkaðar í botn núna um áramótin, öllum stofnunum gert að spara sem mest …  og heyra má þær raddir að endar nái samt ekki saman.
 

Örlítil upprifjun

ReiðurSvo sem unnendur Sögu Sögu Akraness kannast við hótaði okkar góði bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, ritdómararnum Páli Baldvini Baldvinssyni lögsókn vegna ritdóms sem hinn síðarnefndi skrifaði um Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson. Árni Múli sagði að sér fyndist þessi bók „bullandi fín“ og „þrælgóð“ og í kompaníi við Kristján Kristjánsson, útgefanda bókarinnar, og Gunnlaug sagnaritara lét Árni Múli einn lögfræðing Akraneskaupstaðar skrifa Páli Baldvini bréf þar sem þess var krafist að hann leiðrétti og bæðist afsökunar á fimmtán ummælum í ritdómnum.(Sjá Kaupstaður, höfundur og útgefandi vilja leiðréttingu og afsökunarbeiðni í Fréttatímanum 19. ágúst 2011. Neðst í þessari frétt er krækt í ritdóminn sem fór svo fyrir brjóstið á mínum góða bæjarstóra. Bæjarstjórinn hafði svo sem ekki sparað stóru orðin frá því ritdómurinn hans Páls Baldvins birtist, sjá t.d. Segir ritdóm bera með sér einkenni fúllyndis og lítilmennsku í Skessuhorni 14. júlí 2011. Á  því skemmtilega Islandsbloggen. Nyheter og nedslag från ett afläggset grannland er sagan endalausa í hópi endalausra frétta, sjá Praktverk om Akranes sågas – kommun hotar stämma, 30. júlí 2011, þaðan er linkað í fyrri fréttir af stórmerkilegri sagnaritun á vegum Akraneskaupstaðar.)

Páll Baldvin Baldvinsson svaraði í sömu mynt og hótaði Árna Múla Jónassyni lögsókn því hann hefði vegið að æru sinni og starfsheiðri. (Sjá Páll Baldvin í hart vegna Sögu Akraness. Stendur við hvert orð í bókardómi sínum á Eyjunni 23. september 2011.)

Páll Baldvin tók síðan saman langt varnarskjal, öllu heldur upptalningu á staðreyndum sem rökstuddu hverja einustu staðhæfingu sem hann hafði haldið fram í ritdómnum. Þetta er ekki fögur lesning, öllu heldur mjög ófagur vitnisburður um óhóflegan myndastuld og subbuleg vinnubrögð sagnaritara Akraneskaupstaðar. (Sjá Skýtur fyrst og spyr svo, Fréttatímanum 30. september 2011, sem hefst raunar með nokkrum (venjubundnum) mergjuðum upphrópunum bæjarstjórans okkar og ljómandi fallegri mynd af sama bæjarstjóra, en greinargerð Páls Baldvins fylgir í kjölfarið.  Þeir sem eiga bágt með að lesa langa texta ættu kannski að láta greinargerðina eiga sig).

Þann 4. janúar 2012 sendi Árni Múli Jónasson frá sér yfirlýsingu í nafni Akraneskaupstaðar um að fallið væri frá málsókn á hendur Páli Baldvini Baldvinssyni vegna ritdómsins: 

Að vandlega íhuguðu máli er það því þeirra ákvörðun að eyða ekki frekari tíma, orku eða fé til að elta ólar um þessi mál við Pál Baldvin. Sú ákvörðun byggist meðal annars á því að frá því að Páll Baldvin birti umræddan ritdóm sinn í Fréttatímanum hafa virtir menn á þessu sviði, Guðmundur Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, Jón Torfason, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands og Jón Þ. Þór, sagnfræðingur og sagnaritari birt ritdóma sína um Sögu Akraness og farið mjög lofsamlegum orðum um hana,“ segir í yfirlýsingu Árna Múla. (Sjá Elta ekki ólar við Pál Baldvin, Fréttatímanum 5. janúar 2012.)

Það má náttúrlega spyrja sig hvað hefði gerst ef þessir „virtu menn á þessu sviði“ hefðu ekki farið lofsamlegum orðum um bókina? Hefði Árni Múli þá kært? Jóns Torfasonar er reyndar sérstaklega getið í fámennum kreditlista Gunnlaugs Haraldssonar í formála að Sögu Akraness I og þökkuð aðstoðin við efnisöflun svo hann er nú kannski ekki alveg hlutlaus aðili. (Hér er krækt er í þennan lofsamlega dóm Jóns Torfasonar, sem birtist í Skessuhorni 10. ágúst 2011.) Dómur Jóns Þ. Þór var afar stuttur, megnið af honum greinargerð fyrir efnisyfirliti bókarinnar og ég held að hann hafi aldrei ratað á vef DV þótt aðrir bókardómar fyrir jólin birtust þar einnig. Þær örfáu málsgreinar sem ekki voru um efnisskiptingu voru lofsamlegar. Ritdómur Guðmundar Magnússonar, fyrrverandi forstöðumanns Þjóðmenningarhúss, birtist í Þjóðmálum, sömuleiðis stuttur og talsverðum hluta eytt í að rekja efnisþætti en vissulega var hann lofsamlegur.

 

 
Við borgum móðgelsi bæjastjórans

 

Bæjarbúar borga lögfræðikostnað Árna MúlaÞegar Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, leitaði til lögfræðings til að kanna grundvöll fyrir meiðyrðamáli og fékk aðstoð hans við að semja hótanirnar gegn Páli Baldvini gerði hann það að eigin frumkvæði og án þess að fá leyfi bæjaryfirvalda. Þessi „tími, orka og fé“  sem fór í að reyna að hanka ritdómararann er hins vegar ekki tekinn af vinnustundum, brennslu eða úr vasa bæjarstjórans heldur erum við íbúar Akraness látnir borga þetta uppistand. Og það var ekki eins og Árni Múli (sem er vel að merkja sjálfur lögfræðingur að mennt) hefði svona rétt látið skanna þennan 550 orða ritdóm Páls Baldvins til að meta mögulegar forsendur fyrir meiðyrðamáli. Nei, keypt var 28,25 klst. vinna lögmanns til verksins. Hún kostaði 484.487 kr. með virðisaukaskatti en við íbúarnir, sem borgum, getum glaðst yfir að Akraneskaupstaður fær endurgreiddan virðisaukaskattinn svo heildarkostnaðurinn er 385.452 kr. Kannski ekki svo há tala í bæjarhítinni en mér finnst nokkuð mikið að punga út slíkri upphæð bara út af móðgelsi bæjarstjórans enda finnst mér, af fréttum og hljóðritunum af bæjarstjórnarfundum, að hann sé svona heldur móðgunargjarn. Vonandi fer hann ekki að stunda það að rjúka í lögfræðing í hvert sinn sem honum rennur í skap, það gæti orðið ansi dýrt fyrir þá sem borga. Og það er ekki hann.

Varla þarf að taka fram að þetta framtak okkar ágæta bæjarstjóra hefur hvergi verið rætt á opinberum fundum í stjórnsýslu bæjarins, ef marka má fundargerðir.

  

 
Karlarnir í ritnefndinni þurfa náttúrlega áfram að geta hist og spjallað um stórvirkið sem þeir sjá í ævarandi í hillingum

 

Það hefur heldur ekki verið bókað neins staðar sérstaklega að bæjarstjórn hefur samþykkt að gera ráð fyrir „kaupum á sérfræðiþjónustu“ vegna vinnu við Sögu Akraness á árinu 2012 fyrir rúmlega 4 milljónir króna. „Þeirri fjárhæð hefur ekki verið ráðstafað að neinu leyti ennþá, en gert er ráð fyrir að ritnefnd um Sögu Akraness fjalli um áframhald og geri tillögur til bæjarstjórnar um ráðstöfun þess fjár í samráði við bæjarstjóra“ segir í svari Akraneskaupstaðar við fyrirspurn minni nú seint í febrúar. Líklega er þessi upphæð falin einhvers staðar í fjárhagsáætlun bæjarins en ef einhver veit hvar sjá má hana opinberlega og sundurliðaða á vef bæjarins fagna ég ábendingu þar um.
  
 

Leikskólabörn geta snapað gams en Saga Akraness blívur

 

Svoleiðis að í bæjarfélagi sem er á kúpunni (núna í kvöld voru foreldrar einmitt að funda um fjórar niðurskurðartillögur og gjaldskrárhækkanir á leikskólum bæjarins, en hver þeirra er talin spara um 3-4 milljónir) eru samt til fjórar milljónir handa ritnefnd um sögu Akraness til að leika sér með ásamt bæjarstjóranum. Sú ritnefnd er fimm manna þannig að fundirnir eru dýrir.

Í samanburði má nefna að þetta vesalings bæjarfélag, Akraneskaupstaður, hefur ekki efni á nema þriggja manna fjölskylduráði, sem fer með alla málaflokka sem snerta leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, félagsmál, félagslega aðstoð og íþróttamál.

 

Móðguð ritnefnd um sögu AkranessRitnefndin margmenna hefur ekki fundað síðan í júníbyrjun en þá hittust karlarnir fimm og sömdu yfirlýsingu þar þeir hörmuðu hvað ég hefði skrifað illa um tæpan fjórðung þeirrar góðu bókar, Sögu Akraness I, í Skessuhorni (tæpa eina A-4 síðu langa aðsenda grein), lýstu því yfir að þetta væri „stórt og glæsilegt verk“ og luku sinni ritsmíð þannig: „Nefndin lýsir yfir fullu trausti á verðleika höfundar til fræðistarfa og hvetur bæði hann og bæjaryfirvöld til að halda verki áfram.“  Þessi fundur karlanna kostaði bæinn, þ.e.a.s. okkur útsvarsgreiðendur, 64.000 krónur. Líklega hafa nefndarlaunin hækkað eitthvað síðan.

 

Ég er sammála ritnefndinni um að þetta eru stór verk og þung eru þau. En Saga Akraness I og II fékkst á tæpar 16.000 krónur (bæði bindin saman) í okkar góðu bókabúð, Pennanum, fyrir jólin, sem verður að teljast ódýrt per kíló (sambanborið við t.d. sæmilegt kjöt).