Category Archives: Uncategorized

Eftirmál af reynslu TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

via GIPHY

Svo sem áður er getið hafði ég samband við Embætti landlæknis (hér eftir skammstafað EL) þann 9. febrúar 2017 og óskaði eftir lögfræðilegri ráðgjöf vegna lögbrota H+T á mér. EL ber leiðbeiningarskyldu sem stjórnvald. Ég sendi aðstoðarmanni landlæknis, sem varð fyrir svörum, hráa tímalínu svo menn gætu séð við hvað var átt.

Fyrir mistök var kvörtun mín afgreidd á ótækan hátt. En sá fulltrúi EL sem það gerði baðst innilega afsökunar og bauð mér fund hjá embættinu.

Fyrir fundinn með þessum aðila og lögfræðingi var ég búin að taka saman stutt plagg með útklipptum greinum úr Lögum um réttindi sjúklinga 74/1997 , sem ég taldi að brotin hefði verið, með stuttum rökstuðningi,  og óskaði eftir mati lögfræðings EL á þessu. Flestar þessara lagagreina eru ágætlega útskýrðar í grein EL frá 20. 7. 2016, sem heitir Biðtími eftir heilbrigðisþjónustu og sem setur jafnframt heilbrigðisstofnunum viðmiðunarmörk um bið eftir þjónustu.

23. maí 2017: Ég mætti á fund til EL. Í ljós kom að aðilinn sem ég ætlaði að funda með var veikur en þess í stað fékk ég fund með Láru Scheving Thorsteinsson, verkefnisstjóra um gæði og öryggi, Birgi Jakobssyni landlækni og einum af lögfræðingum embættisins.

Öll höfðu þau undirbúið sig fyrir fundinn og lesið stutta plaggið mitt um meint lögbrot, Lára hafði og kynnt sér bloggfærslur mínar til að setja sig inn í sjúkdóminn sem um var rætt.

Eftir að hafa rætt hversu sjaldgæfur sjúkdómur þrenndartaugaverkur er og að lyf virki oft vel á dæmigerðan þrenndartaugaverk en miklu síður á ódæmigerðan þrenndartaugaverk (TN2), sem væri enn sjaldgæfari sagði Birgir landlæknir að best væri að H+T byggi til farveg fyrir þessa örfáu sjúklinga sem þurfa að komast í aðgerð við sjúkdómnum. Í því fælist að gera samning við erlent sjúkrahús, t.d. Sahlgrenska. Ég hafði útskýrt skoðanir Svía á að PBC-aðgerð væri í öllum tilvikum æskilegasta fyrsta inngrip við öllum gerðum þrenndartaugaverks og rök þeirra fyrir því.

Mér var lofað að haft yrði samband við framkvæmdarstjóra lækninga á Landspítala-Háskólasjúkrahúss, Ólaf Baldursson, og hann upplýstur um mitt mál. Hans er síðan að ganga eftir að heila- og taugaskurðlæknadeild spítalans starfi skikkanlega og fremji ekki lögbrot á sjúklingum. Jafnframt yrði talað við Aron Björnsson, yfirlækni H+T og reynt að láta hann sjá til þess að sömu vinnubrögð og beitt var á mig yrðu ekki endurtekin.

Ég féll fúslega frá óskum um að ákveðnir aðilar fengju formlega áminningu vegna sinna lögbrota, en áminning er í rauninni eina refsiúrræðið sem EL hefur, gegn því að séð yrði til þess að H+T hagaði sér ekki svona aftur og aðrir sjúklingar með „sjálfsvígssjúkdóminn“ lentu ekki í því sama og ég. Undantekning var að ég óskaði eftir að Margrét Tómasdóttir, svokallaður talsmaður sjúklinga, yrði áminnt fyrir ótilhlýðilega framkomu við sjúkling og vanrækslu, ef unnt væri.

Ég var ánægð með þennan fund, einkum með viðbrögð landlæknis, sem virtist hafa einlægan áhuga á þessu máli. Og ég treysti orðum hans; að hann muni sjá til þess að H+T útbúi svona farveg fyrir okkur þau örfáu sem þjáumst af ódæmigerðum þrenndartaugaverk, þannig að fólk komist strax í aðgerð erlendis en sé ekki dregið á asnaeyrunum eða hunsað mánuðum saman.

Eftirmáli

Það sem ég skil alls ekki ennþá er hvernig heil deild á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi gat lokað augum og eyrum fyrir sjúklingi í meir en sex mánuði, þrátt fyrir fjölda læknabréfa um að sjúklingurinn gæti alls ekki beðið eftir aðgerð við einum af sársaukafyllstu taugasjúkdómum sem eru til. Ekki einn einasti læknir á þessari deild sá ástæðu til að taka upp síma og hafa samband við sjúklinginn – mig. Ekki einn einasti læknir á þessari deild sá ástæðu til að bjóða aðstoð sína þegar liðnir voru þrír mánuðir á biðlista, t.d. við að fylla út umsókn um læknisaðgerð erlendis. Þar er svokallaður tengiliður við tvö sænsk sjúkrahús þar sem þessi aðgerð er framkvæmd, Elfar Úlfarsson, ekki undanskilinn.

Þótt ég tali um 6 mánuði á biðlista hér var raunar liðið ár frá því mér var fyrst vísað til heila- og taugaskurðdeildar og tekið fram að ég hefði þjáðst af þrenndartaugaverk í fjögur ár. En alger óreiða í afgreiðslu viðtalstíma, læknaritarar sem ekki geta talað saman, skiptiborð sem virkar eins rúlletta, yfirlæknir sem hlustar ekki á sjúklinginn og vill láta eyða heilu sumri í að greina hann upp á nýtt, tafði auðvitað tímann sem leið þar til ég komst formlega á biðlista H+T.

Þegar sjúklingurinn reyndi svo að bjarga sér sjálfur og sækja um aðgerð í útlöndum, eftir að hafa fengið sitt fyrsta almennilega viðtal við heila-og taugaskurðlækni gegnum Facebook og netsíma, reyndi deildin að koma í veg fyrir að það tækist, með rökum sem vitað var að væru ósönn! Þegar komst svo upp um lygina var hins vegar allt sett á stað með hraði og í símtölum Elfars Úlfarssonar hefur verið gefið í skyn að ég ætti að sýna sérstakt þakklæti fyrir það!

Ég skil ekki og mun aldrei skilja að vinnubrögð heila-og taugaskurðlæknadeildar Landspítala-Háskólasjúkrahúss teljist tæk vinnubrögð. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur vinnustaður samþykkti svona vinnubrögð nema umræddur spítali.

 

Þessi færsla er lokafærsla í frásögn af því hvernig heila-og taugaskurðlæknadeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss fór með sjúkling með þrenndartaugaverk. Hinar eru, í tímaröð:

I. hluti
II. hluti
III. hluti
IV.hluti
Umfjöllun um sjúkdóminn er að finna í færslunum

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Reynsla TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

zuedberg

IV. hluti –frh. af III. hluta

Eftir nokkra daga umbreyttist taugaáfallið í hefðbundna líðan í djúpu þunglyndi, þ.e. „katakónískt“ ástand eða stjarfa. Ég var ekki lengur í sjálfsvígshættu en átti mjög erfitt með tal, hreyfingar, hugsun og þess háttar. Vel að merkja er ég í hópi þeirra 15% með svona þunglyndi sem hef öfuga dægursveiflu og líður skást á morgnana. Það hefur ruglað ýmsa lækna og heilbrigðisstarfsmenn sem lítið þekkja til þunglyndis.

13. febrúar 2017: Ég reyndi enn einn ganginn að ná sambandi við Aron Björnsson eða Elfar Úlfarsson gegnum aðalskiptiborð Lsp í viðtalstíma þeirra 7:30-8:00. Náði mér til mikillar undrunar sambandi við Elfar, sem lofaði að hringja aftur og útskýrði af hverju hann hefði ekki hringt í mig þann 9. febrúar eins og hann átti að gera. Þetta var í fyrsta sinn sem ég náði tali af lækni á H+T frá því ég fór á biðlista hjá þeirri deild þann 9. ágúst 2016.

Um kvöldið hringdi Elfar Úlfarsson aftur í mig. Hann hafði þá komist að því að til væru 3 nálar til að gera PBC-aðgerð í Svíþjóð, allar heimasmíðaðar. Ein nálin væri á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi og 2 á Sahlgrenska í Gautaborg. Hann væri búinn að standa í því allan daginn milli læknisverka, sagði hann, að ná sambandi við meðlimi Siglinganefndar Alþjóðasviðs SÍ og fá munnlegt loforð frá nefndinni um að úrskurði hennar í mínu máli yrði breytt. Í Svíþjóð væri vetrarfrí þessa viku og því hefði hann ekki náð í lækninn sem ég hafði sótt um að fá að fara til í þessa aðgerð. En hann myndi eyða morgundeginum, frídeginum sínum, í að reyna að ná sambandi við hann.

14. febrúar 2017: Elfar hringdi síðla dags og sagði að hann hefði náð tali af samstarfskonu læknisins og tekist að fá hana til að skrá mig sem „akút-tilvik“ svo ég kæmist fram fyrir fólk á biðlista. Ég ætti að mæta í innritun á Sahlgrenska sjúkrahúsið þann 9. mars og fara í aðgerðina þann 10. mars.

Í þessu símtali spurði ég á hve mörgum sjúklingum Hjálmar Bjartmarz hefði gert þessa aðgerð í fyrra, í ljósi þess að H+T hefði teflt fram þeim rökum að Hjálmar stæði engum að baki í þrenndartaugaraðgerðum og ég hefði einungis haft tal af einum sjúklingi sem hann hefði gert PBC-aðgerð á. Elfar neitaði að svara spurningunni. Hann neitaði því líka að hann hefði sagt við þann sjúkling þau orð sem sjúklingurinn hafði haft eftir honum við mig.

15. febrúar 2017: Siglinganefnd Alþjóðasviðs SÍ tók aftur upp umsókn mína dags. 30. janúar, ógilti fyrri úrskurð sinn og kvað upp nýjan. Nú fengi ég greiddar ferðir, aðgerðarkostnað og dagpeninga fyrir mig og fylgdarmann. Rök fyrir nýja úrskurðinum voru: „Í dag hafa Sjúkratryggingum Íslands borist læknisvottorð frá Elfari Úlfarssyni heila- og taugaskurðlækni, þar sem staðfest er að ekki er hægt að útvega nauðsynlega nál sem þörf er á að nota við aðgerð.“ Þetta með nálarskortinn var raunar hið sama og ég hafði sagt starfsmönnum Alþjóðasviðs og hafði látið ritara Arons Björnssonar, yfirlæknis H+T vita af þann 13. janúar 2017.

Hér að neðan má sjá hinn nýja úrskurð Siglinganefndar Alþjóðasviðs Sjúkratrygginga Íslands:

siglingarnefnd_2

Nú, þ.e. eftir að Alþjóðasvið SÍ, tók við gengu mál hratt og algerlega snurðulaust fyrir sig. SÍ hefur sérstakan fulltrúa hjá Icelandair sem afgreiðir flugmiða eftir því sem best hentar sjúklingi og fylgdarmanni. Einnig hefur stofnunin tengiliði víða á Norðurlöndum og samdægurs og flugmiðar voru afgreiddir hafði tengiliðurinn í Gautaborg samband í tölvupósti og bauð fram aðstoð sína. Sömu sögu mátti segja af Sahlgrenska sjúkrahúsinu; bæði fékk ég upplýsingabækling mjög fljótt frá þeim og tengiliður sem sér um erlend samskipti hafði einnig samband og bauð fram alla sína aðstoð sem unnt væri að veita, frá því að aðstoða við leigubíla til þess að finna svör við hverjum þeim spurningum sem ég hefði, í tölvupósti.

Á Sahlgrenska sykhuset

Innritunin ytra tók hátt í fjórar klukkustundir og auk þess að tala við hjúkrunarfólk og fá að skoða deildina sem ég myndi e.t.v. leggjast inn á, fékk ég viðtal við svæfingalækni og langt viðtal við lækninn sem gerði aðgerðina. Hann var raunar mjög undrandi á því að svo til engar upplýsingar fylgdu mér frá H+T og spurði hvers vegna ég væri akút-sjúklingur sendur af Elfari Úlfarssyni. Ég svaraði því hreinskilnislega og lesendum þessa bloggs er auðvitað ljóst af hverju svo var. Sömuleiðis upplýsti ég hann um gang sjúkdómsins, lyf sem ég tæki, rannsóknir sem ég hefði farið í, sjúkdómsgreiningu taugalæknis á taugadeild Lsp og yfirleitt allt annað sem skipti máli því H+T hafði vitaskuld litlar sem engar upplýsingar um mig, eftir að hafa hunsað mig algerlega í 6 mánuði á biðlista þrátt fyrir þrjú læknabréf þar sem staðhæft var að ég þyldi enga bið eftir bót við TN2 sjúkdómnum. Við töluðum saman á ensku en þegar ég sagði að upphaflega hefði mér verið vísað til H+T með læknabréfi 8. mars 2016 missti læknirinn sig í sænsku og hálfhrópaði: „Ett år“! Svo ég reikna með að menn ástundi önnur vinnubrögð á heila- og taugaskurðdeild Sahlgrenska sjúkrahússins en á H+T á Lsp hérlendis.

Læknirinn sagði mér hvernig aðgerðin væri gerð og hver væru helstu eftirköst sem mætti búast við. (Um þau hafði ég raunar spurt Elfar Úlfarsson en hann svaraði því til að það væri betra að sænski læknirinn útskýrði þau.) Hann varaði mig við því að árangur af aðgerðinni við ódæmigerðum þrenndartaugaverk væri miklu síðri en væri um dæmigerðan að ræða og þrátt fyrir að hafa gert yfir 1000 svona aðgerðir gæti hann ekki vísað í neina tölfræði um slíkt því sá ódæmigerði væri það sjaldgæfur. En þetta væri samt rétt aðgerð fyrir þá sem lyf virkuðu ekki á eða væru hætt að virka á til forsvaranlegrar sársaukastillingar. Loks sagði hann að auðvitað myndu svo íslensku læknarnir taka við mér og gæta þess að mér liði sæmilega þegar ég kæmi heim.

Ég giska á að þetta viðtal við lækninn hafi verið hátt í klukkustund, fylgdarmaðurinn var með mér og viðtalinu  lauk á því að við hrósuðum öll hans ágæta aðstoðarlækni.

Snemma morguninn eftir fór ég þessa aðgerð, sem væntanlega hefur tekið svona hálftíma. Síðan var ég höfð í 7 klst á vöknun og vandlega fylgst með hvort þvaglát væru í lagi o.fl. sem getur gengið úr lagi í svæfingu. Þegar vöknun lokaði var mér boðið að leggjast inn yfir nótt en ég afþakkaði það, fór út og reykti langþráða sígarettu og tók leigubíl upp á hótel.

Verstu eftirköstin voru hræðilegur höfuðverkur sem ég vaknaði af fyrstu nóttina en lét sér segjast við Parkodín Forte. Hálft andlitið var koldofið og enn er dofinn að ganga til baka en að því er virðist frekar hratt. Stóri kjálkavöðvinn er enn talsvert lamaður en virðist hægt og bítandi vera að jafna sig.

Hinn skelfilega sári verkur hvarf en seinnipart dags og á kvöldin er ég enn með alls konar verki, stingi eins og þegar tannlæknadeyfing er að hverfa, verki sem eru líklega harðsperrur af því að halda uppi kjálkanum með einhverjum öðrum vöðvum en stóra kjálkavöðvanum, ég hef mikinn sviða í munni o.fl. Mögulega er ég enn með þrenndartaugaverkinn en hann hefur mjög látið undan síga ef eitthvað af þessum smáverkjum er hann. Fólk fær auðvitað alls konar verki, en ég er löngu búin að trappa mig af tradolani, sem er fremur auðvelt, og vinn í hægri niðurtröppun fleiri lyfja.

Mér er ljóst að árangur aðgerðarinnar er tímabundinn, hann gæti meira segja verið óvenju skammvinnur í mínu tilviki af því ég er með ódæmigerðan þrenndartaugaverk (TN2). En bara það að ná einhverri pásu frá þessum brjálæðislega sára stanslausa verk sem hefur plagað mig frá apríl 2012 og geta minnkað töku lyfja er þess virði.

Heimkomin

17. febrúar 2017: Heimkomin hringdi ég í Margréti Tómasdóttur, talsmann sjúklinga og spurði hvað hún ætlaði að aðhafast í mínum málum, eftir útreiðina sem ég hlaut hjá H+T, og spurði undir hvaða svið hún heyrði. Hún var mjög hvefsin í símann, sagðist ekkert ætla að gera því ég hefði komist í aðgerðina, talaði ofan í mig í símtalinu, margendurtók að hún nennti ekki að hlusta á þetta aftur o.þ.h. Það var til einskis að benda henni á að til væru fleiri sjúklingar en ég með sama sjúkdóm sem þyrftu að leita til H+T í framtíðinni, hún hlustaði einfaldlega næsta lítið á mig. Hún sagðist heyra undir gæðaráð Lsp en gat ekki svarað spurningu minni um hvert væri hlutverk þess ráðs. Að lokum skellti hún á mig símanum.

10. apríl 2017: Elfar Úlfarsson heila- og taugaskurðlæknir hringdi óvænt í mig, í tilefni þess að nú væri mánuður liðinn frá aðgerðinni. Hann spurði hvernig gengi og hvernig ég hefði það og var hinn alúðlegasti. Undir lok símtalsins benti ég honum á að hann hefði sagt Siglinganefnd ósatt og ég hefði orðið lífshættulega veik af hinum sjúkdómnum þess vegna. Elfar sagðist sár að eftir svo huggulegt spjall sem við hefðum átt skyldi ég bera þetta upp á hann. Ég sagði honum að mér væri nákvæmlega sama hvað hann vildi kalla þetta sem hann gerði en næst þegar ég þyrfti að leita til H+T vegna TN2 skyldi hann sjá til þess að viðtökur yrðu aðrar: Að ég fengi klassaþjónustu og hana strax! Sama ætti að gilda um þá örfáu aðra sjúklinga með þennan sjúkdóm sem væri vísað til deildarinnar. Þessu jánkaði Elfar.

Í næstu færslu segi ég frá viðbrögðum Embættis landlæknis við ábendingum um lagabrot H+T og stuttri lýsingu á þessari sögu sem ég hef rakið í undanförnum tölusettum færslum. Þær eru, í tímaröð:

I. hluti
II. hluti
III. hluti

Reynsla TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

zoidberg_3faersla

III. hluti – frh. af II. hluta

7. febrúar 2017: Umsókn mín til Siglingarnefndar Alþjóðasviðs Sjúkratrygginga Íslands var tekin fyrir. Að sögn starfsmanns Alþjóðasviðs, sem sat fundinn með nefndinni, var hún rædd í þaula og síðan hringt í Elfar Úlfarsson, heila-og taugaskurðlækni á H+T, sem jafnfram gegnir því hlutverki að vera tengiliður deildarinnar við sjúkarhúsið í Lundi og Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg.

Að sögn sama starfsmanns fullvissaði Elfar nefndina um að þann 3. febrúar hefði Hjálmar Bjartmarz staðfest að hann kæmi til Íslands í mars og biðlisti eftir PBC-aðgerð á Sahlgrenska væri lengri en tíminn að komu Hjálmars. Elfar staðfesti við Siglinganefnd að „sú aðgerð sem sótt er um hluti af þeim aðgerðum sem Hjálmar Bjartmarz mun gera í þeirri ferð“ ásamt því að votta að sérfræðingar H+T fullyrtu að árangur Hjálmars af þrenndartaugaraðgerðum væri fyllilega sambærilegur við árangur annars staðar.

Á grundvelli þessara upplýsinga hafnaði Siglinganefnd ósk minni um að Sjúkratryggingar Íslands (hér eftir skammstafað SÍ) myndu greiða ferðir og dagpeninga, auk aðgerðarkostnaðar á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg. SÍ féllst á að greiða mér sömu upphæð og Hjálmar Bjartmarz fengi greitt fyrir aðgerðina og smyrja ofan á ferðakostnaði Hjálmars fyrir þá tvo daga sem hann myndi vinna á Íslandi, alls rúmlega 1,5 milljón, í aðgerðgerðarkostnað, kysi ég að leita á Sahlgrenska á eigin vegum. Ég hef ekki hugmynd um hvort sú upphæð dugir fyrir aðgerðinni  í Svíþjóð.

Starfsmaður Alþjóðasviðs hringdi einnig sjálfur í Elfar Úlfarsson eftir fund Siglingarnefndar til að tvítékka á upplýsingunum og fékk sömu svör. Svo enginn vafi leikur á að Elfar Úlfarsson fullvissaði Siglinganefnd og Alþjóðasvið um að Hjálmari væri ekkert að vanbúnaði að gera PBC-aðgerð á mér þegar hann kæmi til landins í mars. Enginn óskaði hins vegar eftir útskýringum á hvers konar þrenndartaugaraðgerðir H+T væri að meina í sinni vottun um ágæti Hjálmars né heimildum fyrir þeirri staðhæfingu.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að í símtali við mig þann 3. mars 2017 viðurkenndi Elfar Úlfarsson að H+T hefði vitað að Hjálmar Bjartmarz hefði enga nál til að gera PBC-aðgerðina þegar hann talaði við Siglinganefnd Alþjóðasviðs fyrir hönd H+T en deildin hefði treyst á að geta fengið lánaða nál til verksins einhvers staðar í Svíþjóð og „Hjálmar var líka farinn að leita að nál“. Skv. þessu gaf Elfar öðru stjórnvaldi vísvitandi rangar upplýsingar. Ég get hins vegar ekki kært úrskurðinn á þeim forsendum því hann var seinna felldur úr gildi.

Hér er mynd af úrskurði Siglingarnefndar þann 7. febrúar.

Úrskurður Siglinganefndar

 

8. febrúar 2017: Ég fékk að vita úrskurð Siglingarnefndar. Þegar ég sá hvernig deildin, sem hafði hunsað mig mánuðum saman, hafði gripið til þeirra ómerkilegu bolabragða að bregða fyrir mig fæti með röngum upplýsingum þegar ég reyndi að bjarga mér sjálf fékk ég taugaáfall sem steypti mér ofan í mjög djúpt þunglyndiskast á engri stund. Því fylgdu þær verstu sjálfsvígshugsanir sem ég hef fengið allan þann tíma sem ég hef slegist við alvarlegt þunglyndið sem ég er haldin. Í samráði við geðlækninn minn tók maðurinn minn sér frí úr vinnu og sat yfir mér sjálfsvígsvakt í nokkra sólarhringa.

9. febrúar 2017: Ég hringdi í Margréti Tómasdóttur, talsmann sjúklinga á Lsp og tilkynnti henni að ég hygðist fremja sjálfsvíg. (Þess má geta að gamalt gælunafn þrenndartaugaverks, fyrir daga ópíums, var „sjálfsvígssjúkdómurinn“, því fólk kálaði sér frekar en að lifa við verkina. Og þunglyndi eins og ég er haldin er það slæmt að margur hefur stytt sér leið yfir í eilífðina af svoleiðis sjúkdómi.)  Sem áður hefur verið nefnt hafði hún ekkert gert í mínum málum en við þessi tíðindi virtist hún tilbúin til þess að rísa úr stólnum og bað mig að gera mér ekki mein strax því nú myndi hún tala við H+T.

Sama morgun hringdi ég í Embætti landlæknis og óskaði eftir lögfræðilegri aðstoð embættisins í mínum málum með tilvísan til leiðbeiningaskyldu stjórnvalds. Ég talaði við aðstoðarmann landlæknis og sendi henni þann hluta þeirrar hráu tímalínu sem var tilbúin, sem erindi til kvartananefndar, að hennar ráði.

10. febrúar 2017: Margrét Tómasdóttir talsmaður sjúklinga hringdi í mig árla morguns og lét mig vita að nú hefði hún gert mig að forgangssjúklingi hjá Hjálmari Bjartmarz, sem kæmi til landsins í annarri viku mars, og læknir af H+T myndi hafa samband við mig þennan sama dag. Hún bað um afrit af tímalínu sem hún vissi ég að hefði tekið saman og ég sendi henni hana. Hins vegar virtist hún ekki ná þeirri staðreynd að Hjálmar Bjartmarz hefði enga nál til að framkvæma þessa aðgerð og því skipti mig litlu máli hvenær hann kæmi.

Þar sem ég var orðin forgangssjúklingur hjá Hjálmari Bjartmarz í tímasettri komu hans var augljóst að H+T gat ekki gripið til þess ráðs að „gleyma mér óvart“ (en sjúklingur sem hafði farið í PBC-aðgerð hjá honum árið áður hafði einmitt reynsluna af því, frétti fyrir tilviljun úti í bæ að Hjálmar væri kominn til landsins og tekinn til starfa en tókst síðan vegna persónulegra kynna við einn af læknum H+T að minna nægilega á sig til að komast í aðgerðina sem hún hafði verið á biðlista eftir lengi). H+T var væntanlega komin í nokkur vandræði vegna þessa og vegna upplýsinga sem Elfar Úlfarsson hafði, fyrir hönd deildarinnar, gefið Siglinganefnd, þegar hér var komið sögu.

Enginn læknir af H+T hringdi í mig þennan dag, þrátt yfir loforð Margrétar. Í símtali við Elfar Úlfarsson þann 13. febrúar kom fram að hann hefði átt að hringja í mig en verið önnum kafinn allan daginn að hringja á sjúkrahús í Svíþjóð og reyna að fá lánaða nál til að gera aðgerðina, vitaskuld án árangurs.

Til þessa hef ég reynt að segja söguna eins hlutlægt og ég get en síðasta efnisgreinin í þessari færslu er persónulegri. Hún verður að fylgja með því ég held að mjög margir hafi ekki hugmynd um hvernig djúpt þunglyndiskast lýsir sér.

Næstu daga einbeitti ég mér að því að reyna að bægja dauðaþrá og sjálfsvígshugsun frá mér, át hæsta skammt af tradolan á dag, að ráði heilsugæslulæknis (af því ég þorði ekki að taka oxycontín sem einnig stóð til boða) til að slá aðeins á þrenndartaugaverkinn, var ófær um alla hluti vegna þunglyndiskastsins en frétti seinna að geðlæknirinn minn hefði, eftir samráð við manninn minn, haft samband við Elfar Úlfarsson. Sjálf gat ég ekki talað við geðlækninn í síma heldur eyddi eftirmiddögum og kvöldum sitjandi hríðskjálfandi upp við vegg uns nógu hár lyfjaskammtur gerði mér kleift að sofna á nóttunni. Þannig eru verstu þunglyndisköst sem ég fæ.

Frh. í næstu færslu.

Þessi færsla, fyrri færsla og þær næstu tengjast færslum um þrenndartaugaverk, sem eru:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Reynsla TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss

Sérfræðingur í mannalækningum

II. hluti – frh. af I. hluta

Október leið og nóvember leið og desember leið árið 2016 án þess að nokkur læknir af H+T hefði samband við mig. Ég hringdi reglulega í læknaritara Arons Björnssonar án nokkurs árangurs. Upplýsingar voru ávallt á sömu leið en hún gat þó staðfest að ég væri á biðlista eftir aðgerð hjá Hjálmari Bjartmarz þegar hann kæmi til landsins, sem enginn vissi hvenær yrði því ekki næðist í hann.

Ég varð æ veikari og óbærilegir stanslausir verkirnir mögnuðu upp djúpa þunglyndið sem ég er haldin. Um talsvert skeið hafði ég verið nánast fangi á eigin heimili, ég gat mjög takmarkað umgengist fólk og alls ekki gert neitt á kvöldin vegna TN-sársaukans, þrátt fyrir að eta verkjalyf í síhækkandi skömmtum auk annarra lyfja.

12. janúar 2017: Loks greip ég til þess ráðs að hafa samband við fyrrverandi nemanda minn sem er heila- og taugaskurðlæknir í Svíþjóð og spurði hana í Facebook-skilaboðum hvort hún teldi áformaða aðgerð líklega til árangurs fyrir mig (því þá hafði ég talað við sjúkling sem hafði gengist undir þessa aðgerð hjá Hjálmari Bjartmarz árið áður og verið fárveik í þrjár vikur eftir aðgerðina en náð svo bata). Ég hafði sjálf lesið mér til um aðgerðina og horft á myndbönd af henni, á netinu.

Þessi fyrrverandi nemandi minn svaraði Facebook-skilaboðunum strax og hringdi samdægurs í mig. Í löngu símtali útskýrði hún hvernig þessi aðgerð væri gerð á sjúkrahúsinu sem hún vann á en þar sérhæfa menn sig í akkúrat þessari aðgerð við þrenndartaugaverk, bæði dæmigerðum og ódæmigerðum. Hún gat líka sagt mér prósentutölur um hve lengi bati héldist en raunar bara um dæmigerðan þrenndartaugaverk, hin tegundin er svo sjaldgæf. Og ég fékk að vita að á þessu sjúkrahúsi, Sahlgrenska í Gautaborg, væru gerðar 3-4 svona aðgerðir á dag og að sjúkrahúsið ætti 2 heimasmíðaðar nálar til verksins.

Meira máli skipti þó að hún sagði mér að í Lundi ættu menn engar nálar til að gera þessa aðgerð og hefðu ekki átt um skeið, því fyrirtækið sem framleiddi nálarnar væri hætt störfum. Heila- og taugaskurðlæknadeildin í Lundi hefði sent sína sjúklinga í biðröð á Sahlgrenska og biðröðin lengdist því hratt.
(Þótt H+T virtist um megn að ná sambandi við yfirlækni heila- og taugaskurðlæknadeildar sjúkrahússins í Lundi mánuðum saman tókst mér í fyrstu tilraun, þann 10. febrúar 2017, að ná símasambandi við hjúkrunarforstjóra á göngudeild þessarar deildar, sem staðfesti að engar nálar til að gera PBC-aðgerðir hefðu verið til lengi í Lundi og að fyrirtækið sem framleiddi þær hefði lagt upp laupana.)

13. janúar 2017: Ég hringdi í læknaritara Arons Björnssonar og lét hana vita að í Lundi hefðu ekki verið til nálar til að framkvæma aðgerðina í talsverðan tíma og sjúklingum þaðan væri vísað á Sahlgrenska, spurði svo hvort H+T ætti verkfæri eða hvort þessi Hjálmar Bjartmarz tæki með sér sín tól og tæki ef og þegar hann kæmi til landsins. Hún taldi að Hjálmar sæi um tækjamál sjálfur. Ég benti á að hann gæti þá ekki gert þessa aðgerð og reiknaði með að hún bæri þau skilaboð til ósýnilegu og óínáanlegu læknanna á H+T, sem var falin umsjá með mér þann 9. ágúst 2016. Enn hafði enginn náð í Hjálmar og ekkert var vitað um komu hans, að hennar sögn.

18. janúar 2017: Yfirlæknir HVE sendi nýtt læknabréf til Arons Björnssonar, yfirlæknis H+T, þar sem hann benti á að ég hefði verið 5 mánuði á biðlista, að lífsgæði mín væru mjög skert vegna TN2 og nefndi hið alvarlega þunglyndi einnig. Hann upplýsti að ég hefði sjálf aflað mér upplýsinga um sérhæfðan lækni og PBC-aðgerðir í Gautaborg og óskar í bréfinu eftir að ég „fái áheyrn“ svo hægt sé að leiðbeina mér um framhaldið. Þessu bréfi var ekki svarað.

Þegar hér var komið sögu var runnið upp fyrir mér að læknum á H+T deild Lsp væri ekki sérlega umhugað um sjúklinga og að ég stefndi hratt í lífshættulegt ástand. Ég hafði aflað mér afrita af öllum gögnum um mig sem vörðuðu TN2-sjúkdóminn, að undanskildu vottorði frá Aroni Björnssyni yfirlækni H+T um að enginn starfandi læknir á H+T kynni að framkvæma aðgerðina sem ég þyrfti því hann hunsaði beiðni um það.

29. janúar 2017: Ég fyllti út og sendi umsókn til Siglinganefndar Alþjóðasviðs Sjúkratrygginga Íslands ásamt öllum nauðsynlegum fylgigögnum (vottorðum, göngudeildarnótum, læknabréfum o.þ.h.) þar sem ég óskaði eftir að fá að fara í PBC-aðgerð á Sahlgrenska sykhuset í Gautaborg.

31. janúar 2017: Ég hringdi í læknaritara Arons Björnssonar en af því hún var veik þennan dag var mér gefið samband við annan læknaritara, sem heldur utan um biðlista H+T, alla nema sérstakan biðlista eftir aðgerðum Hjálmars Bjartmarz. Þegar ég hafði sagt henni lauslega af mínum málum upplýsti hún mig um að til væri sérstakur talsmaður sjúklinga á Landspítalanum og gaf mér upp beint símanúmer þess. Ég hringdi strax á eftir í þennan talsmann sjúklinga (en „talsmaður“ eða „umboðsmaður“ sjúklinga er algerlega ósýnilegur á vef Lsp, finnst ekki einu sinni við Google site-leit á vefsvæði spítalans). Talsmaðurinn heitir Margrét Tómasdóttir.

Ég sagði Margréti frá mínum málum, benti á öngþveitið sem virtist ríkja á H+T, brot lækna þar á lögum um réttindi sjúklinga, brot þeirra gegn tilmælum Embættis landlæknis um upplýsingaskyldu og biðtíma eftir aðgerð o.fl. Hún lofaði að athuga þessi mál. Þess ber að geta að þegar ég hringdi aftur í hana þann 9. febrúar hafði hún nákvæmlega ekkert aðhafst í mínu máli.

2. febrúar 2017: Ég hringdi í læknaritara Arons Björnssonar, sem sagðist hafa heyrt að líklega kæmi Hjálmar Bjartmarz til landsins í mars en engar nákvæmar tímasetningar lægju fyrir.

frh. í næstu færslu.

Þessi færsla, fyrri færsla og þær næstu tengjast færslum um þrenndartaugaverk, sem eru:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Hjarðhegðun og sauðsháttur

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Þessi færsla fjallar um hvernig teyma má ótrúlegan fjölda lesenda netmiðla til að trúa ótrúlegum staðhæfingum og hve sú lesendahjörð virðist í rauninni algerlega gagnrýnilaus í þeim skilningi að fáir nenna að kynna sér mál áður en þeir skrifa stóryrtar yfirlýsingar og hve fáir virðast færir um að spyrja gagnrýninna spurninga.

Ég tek hér dæmi netstorminn kringum meinta illa sólarkísiliðju á Grundartanga. Kvennablaðið birti samsuðu undir fyrirsögninni Stórslys í uppsiglingu í Hvalfirðinum? þann 25. júlí sl. Þegar þetta er skrifað hafa 6.112 manns lækað grein Kvennablaðsins og við hana hafa verið skrifuð 81 ummæli, flest í sama dúr, sem er eitthvað um helvítis stóriðju sem er einungis komið á fót til að gjörspilla hinu fagra Íslandi eða jafnvel leggja hluta þess í eyði.

Kveikjan að grein Kvennablaðisins var bloggfærsla eldfjallafræðingsins Haraldar Sigurðssonar SILICOR þýðir meiri mengun á Grundartanga frá 18. júlí. Þar heldur Haraldur því fram að Silicor vilji svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku, framleiðslan sé þvílíkt svínarí og eiturbras með sílikon tetraklóríð til að hreinsa sílíkonið að hún sé yfileitt höfð í Kína en ekki leyfð í Bandaríkjunum. Það virðist algerlega hafa farið framhjá Kvennablaðinu að tvær fyrstu athugasemdirnar sem skrifaðar eru samdægurs við blogg Haraldar leiðrétta aðalatriðið í málflutningi hans, þar af er önnur skrifuð af virtum verkfræðingi.

Haraldur á lögheimili í Bandaríkjunum þótt hann dvelji stundum hérlendis, einkum í Stykkishólmi. Fréttir héðan kunna því að fara fram hjá honum, t.d. les hann sennilega ekkiSkessuhornið, blað Vestlendinga. Það ágæta blað birti ítarlega fréttaskýringu um þessa sólarkísilverksmiðju í maílok og má sjá bút úr henni á vefútgáfu blaðsins,Sólarkísilverksmiðju valinn staður á Grundartanga, 27. maí 2014. Í vefútgáfunni segir m.a. „Þá er framleiðsla kísilsins sérstök að því leyti að efnið er hreinsað með bræddu áli og það selt til framleiðenda sólarrafhlaða.“ Í frétt sama blaðs daginn eftir segir:„Hér er um afar vistvæna stóriðju að ræða en til marks um það þarf ekki að fara fram mat á umhverfisáhrifum vegna starfseminnar.“

Allt fer þetta fram hjá Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi og einnig fremur ítarleg veffrétt Skessuhorns þann 16. júlí, Sólarkísilverksmiðju valinn staður á Grundartanga,  þar sem enn og aftur er ítrekað að efnið verði hreinsað með bræddu áli.

Ég læt sosum vera þótt einstaklingur búsettur í útlöndum fylgist ekki sérlega vel með og fari með fleipur um fyrirhugaðan iðnað á Íslandi á sínu einkabloggi. Öðru máli gegnir um vefmiðil sem nennir ekki að kynna sér mál heldur lepur upp vitleysuna af þessu einkabloggi með stríðsfyrirsögn sem boðar stórslys og kyndir síðan undir dómadagsspár og hneykslan hjarðarinnar í umræðuþræðinum fyrir neðan!

Það þarf svo varla að taka fram að DV hoppaði á vagninn og sauð sitt eigið sull úr bloggi Haraldar með hliðsjón af grein Kvennablaðsins og varð málið æ meir krassandi og fjúkandi reiður hópurinn virkra í athugasemdum enn stærri og enn verr að sér.

Kvennablaðið hefur síðan „fylgt málinu eftir” með pistlinum Hvað er sannleikur? sem birtist 28. júlí. Í þeirri grein er dregið nokkuð í land en þó ekki: „Almenningi til málsbóta má taka fram að upplýsingar um fyrirhugað fyrirtæki hafa ekki verið kynntar á áberandi hátt.“ Nú hefur þeim almenningi sem málið varðar, þ.e. íbúum á svæðinu þar sem sólarkísiliðjan rís (raunar öllum þeim landsmönnum sem nenna að fylgjast með) verið kynntar þessar upplýsingar á áberandi hátt eins og ég hef rakið hér að ofan. Er þessi meinti almenningur hjörðin sem lækar umhugsunarlaust eða gargar fávís í athugasemdum? Það hefði líklega kostað Kvennablaðið símtal, jafnvel tvö símtöl (t.d. við sveitarstjóra í Hvalfjarðarsveit, bæjarstjóra á Akranesi eða forstöðumann Faxaflóahafna) að fá þessar upplýsingar hratt og vel áður en dómadagsspáin vinsæla var skrifuð. Gúgull svarar nefnilega ekki öllum spurningum, sérstaklega ekki ef menn ætla að skrifa krassandi fréttskýringu og dettur ekki einu sinni í hug að leita í netmiðli landshlutans sem um er rætt.

Nú, restin af Hvað er sannleikur? eru nokkrar beinar tilvitnanir í plögg sem Gúgull hefur væntanlega fundið og spurningar inn á milli, sumar heldur einfeldningslegar að mínu mati, og loks beiðni um að einhver skrifi efnafræðilegar skýringar á mannamáli fyrir lesendur Kvennablaðsins.

Það hefur einmitt þegar verið gert, sjá í grein Þorsteins Inga Sigfússonar, prófessors og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Hún heitir Komu Silicor til landsins ber að fagna sem miklu skrefi í átt til framfara og er dagsett 29. júlí 2014.

En ég reikna ekki með að hjörðin hafi nokkurn áhuga á grein sem er til einungis skýringar og heldur jákvæð; Þar eru engar upphrópanir, ekkert krassandi, engar heimsósómapælingar!

Enda hafa bara 169 lækað grein KvennablaðsinsHvað er sannleikur? og enginn nennt að skrifa athugasemd við hana. Líklega verða lækin langt undir hundrað þegar sannleikurinn loksins birtist.

Spámennirnir í Botnleysufirði

Ég var að klára Profeterne i Evighedsfjorden eftir Kim Leine. Þessi sögulega skáldsaga hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2013 og skv. fregnum stefndi bókaútgáfan Draumsýn að því að gefa út íslenska þýðingu Jóns Halls Stefánssonar í mars á þessu ári en ekkert bólar á henni.

Það hefur tekið mig hátt í mánuð að komast í gegnum bókina, ekki af því hún væri svo leiðinleg heldur af því að þetta er ljót saga og gott að grípa í annað jákvæðara efni samhliða.

Bókin fjallar um norskan mann, Morten Pedersen Falck, sem lærir til prests í Kaupmannahöfn á síðari hluta átjándu aldar, gerist prestur á Grænlandi í nokkur ár, hrökklast til Noregs og þaðan til Kaupmannahafnar og hverfur loks aftur til Grænlands. Talverðu rúmi er eytt í að lýsa lífinu í Kaupmannahöfn, bæði á námsárum Mortens og svo brunanum miklar 1798 sem hann verður vitni að í seinni dvöl sinni í borginni. En hryggjarstykkið í sögunni er frásögnin af Grænlandsárum hans.

Þetta er því nokkurs konar Íslandsklukka sem gerist á Grænlandi. Nú hefur mér alltaf fundist Íslandsklukkan vera heldur kuldaleg bók, flestar persónurnar eru þannig að það er ekki nokkur leið að hafa samúð með þeim: Aumur þjófur af Akranesi, sem lemur sitt heimilisfólk; hofróðan Snæfríður og karríerklifrarinn Arnas eru ekki fólk sem mann langar til að kynnast neitt nánar en af blaðsíðum. Einna helst að gömul móðir Jóns Hreggviðssonar vekji samlíðan margra lesenda … og svo hef ég einlæga samúð með Magnúsi í Bræðratungu en efast um að það hafi verið ætlun höfundar. En þrátt fyrir að aðalpersónur Íslandsklukkunnar séu leiðindalið þá er ákveðin reisn yfir þeim, því verður ekki neitað. Og sagan er fantagóð.

Persónugalleríið í Spámönnunum í Botnleysufirði er þó að mun andstyggilegra en persónur HKL. Aðalpersónan, Morten Falck, er ekki beinlínis illmenni heldur duglaus ræfill sem lætur reka á reiðanum um nánast allt. Enda er niðurstaða hans í bókarlok að það sé best að vera ekkert að reyna að breyta neinu heldur veltast áfram um sem ósjálfbjarga leiksoppur kringumstæðna. Líf hans er að sumu leyti eins og sigling inn Evighedsfjorden en fjörðurinn dregur nafn sitt af því hversu krókóttur og langur hann er: Menn halda æ ofan í æ að nú sjái þeir inn í fjarðarbotninn og að takmarkinu sé náð en það reynist einatt tálsýn því snöggbeygja er á firðinum.

Af og til í allri sögunni veltir Morten Falck fyrir sér tilvitnun í Rousseau: „Mennesket er født frit, og overalt ligger det i lænker!“ [„Maðurinn fæðist frjáls en er hvarvetna í hlekkjum“] en kemst svo sem ekki að neinni niðurstöðu sjálfur í þessum eilífu pælingum. E.t.v. á þessi klifun að segja lesandanum eitthvað og vissulega eru margir í hlekkjum hugarfarsins í þessari sögu, jafnvel raunverulega hlekkjaðir, en kannski síst af öllu Morten sjálfur: Hans óhamingja stafar miklu frekar af skorti á drift og dug (og of mikilli brennivínsdrykkju) en hlekkjum samfélagsins, a.m.k. ef ævi hans er skoðuð í heild.

Nær allir Danir í sögunni eru illmenni: rasistar, gróðapungar, jafnvel sadistar. Má ekki á milli sjá hvor er verri: Danski kaupmaðurinn í Sukkertoppen [Maniitsoq] eða danski kynferðisafbrotapresturinn í Holsteinsborg [Sisimut]! Sóðaskapnum í Kaupmannahöfn þessa tíma er lýst í smáatriðum, sama gildir um lýsingarnar frá Grænlandi. Væri gaman að telja hversu oft lús og óþef ber á góma í þessari bók.

Þeir sem hafa einhverjar hugsjónir og mætti telja ærlegt fólk eru Grænlendingarnir, ekki hvað síst trúsöfnuður Maríu Magdalenu og Habakuks, sem hefur aðsetur lengst inni í Evighedsfjorden [Kangerlussuatsiaq], allt þar til þeir dönsku ráðast á byggð þeirra, eyðileggja hús og kirkju og stugga íbúunum á brott. Raunar eru þeir hálfdönsku, bastarðar dönsku karlanna og grænlenskra kvenna, einnig almennilegt fólk upp til hópa en eiga erfitt uppdráttar því hvorki Danir né Grænlendingarnir samþykkja þá svo þeir eru eins konar paríar í samfélaginu.

Höfundurinn, Kim Leine, á nokkuð skrautlega fortíð, m.a. uppeldi hjá Vottum Jehóva og verandi læknadópisti um tíma. Hann hefur sjálfsagt víða leitað fanga um efniviðinn en nefnir í eftirmála að á Vefnum sé grein eftir Mads Lidegaard um Mariu Magdalenu og Habakuk sem hafi nýst sér vel. Ég las greinina eftir að hafa lesið bókina, hún heitir einmitt Profeterne i Evighedsfjorden og birtist í Tidsskriftet Grønland 1986. Satt best að segja virðist Kim Leine hafa gjörnýtt grein Lidegaard og hefði ekki verið úr vegi að tiltaka titil og vefslóð í tilefni þess, í eftirmálanum.

Sem sagt: Þetta er verulega ljót og andstyggileg saga. En hún er einkennilega heillandi eigi að síður svo ég mæli eindregið með henni. Hvað sem má um efnið segja er kristaltært að Kim Leine kann að segja góða sögu!

Myndin við færsluna er af kápu norsku þýðingarinnar. Lýsnar eru upphleyptar 😉 Hér er færsla um pælingarnar í hvernig bókarkápa yrði best. Að mínu mati hefur Norðmönnum tekist að gera miklu meir lýsandi umbúðir um þessa sögu en Dönum. Verður spennandi að sjá hvernig gripurinn lítur út á íslensku … ef tekst að koma þýðingunni út.

Hún Sigríður … og hann Eiríkur …

Nú er ég orðin dálítið leið á Sigríði Einarsdóttur Magnússon og hennar familíu, eftir mikinn lestur um það slekti. Og af því ég veit að Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur er að skrifa um þessa konu, áreiðanlega af sagnfræðilegri nákvæmni, ákvað ég að hætta að leika sagnfræðing með tilvísunum í lok hverrar málsgreinar. Þessi færsla er framhald af Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans.

Hvers lags kona var Sigríður?

Sigr�ður Einarsdóttir MagnússonSigríður Einarsdóttir fæddist árið 1831 og var af almúgafólki komin; faðir hennar var „assistent“ (líklega afgreiðslumaður í verslun) og hattamakari (hattagerðarmaður), ættaður úr Skaftafellssýslum. Móðir hennar var ein fjölmargra barna Ólafs Loftssonar, sem hann átti hvert með sinni konunni. Þau endurreistu torfbæinn Brekkubæ í Reykjavík og þar ólst Sigríður upp, ásamt tveimur systrum og einum bróður. Til að drýgja tekjur heimilisins hafði Guðrún, móðir Sigríðar, skólapilta í fæði og var einn þeirra Eiríkur Magnússon. Þannig kynntust þau Sigríður, tókust með þeim ástir og þau trúlofuðu sig 1856, þegar Eiríkur hafði lokið stúdentsprófi 23 ára gamall, og giftust árið eftir.

Sem ung kona var Sigríður vinsæl og hélt uppi stuðinu í henni Reykjavík, a.m.k. meðal skólapilta og menntamanna. Hún var „fjörug og gáfuð, lék á gítar og söng vel … Þá var Brekkubær lítið kot og dálítil stofa eða hús niðri; þar komum við oft saman og var þá glatt á hjalla“, segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl, s. 206 (tilv. í Stefán Einarsson. 1933, s. 13.).

Benedikt Gröndal lék einmitt á móti Sigríði í leikriti sem hét Pakk og var sett upp 1854. Hún var nefnilega fyrsta alvöru leikkonan í Reykjavík, var „hin fyrsta „primadonna“ þessa bæjar, og hafði enda alla tilburði þar til, gáfur, fegurð og glæsileik […]‟. Í skrá yfir leikendur í Pakk(i?) er Sigríður kölluð Sigga Tipp, sem kannski hefur verið viðurnefni hennar. (L.G. 1939 (2)7, s. 17. og sami 1939 (2)8, s. 5.)

Myndin af Sigríði er úrklippa úr mynd sem varðveitt er í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Hvernig breyttist sú fjöruga og skemmtilega Sigga Tipp í braskarann og skrumarann og snobbarann Sigríði Einarsdóttur Magnússon? Til þess að skilja það þarf að skoða hjónaband hennar og athafnasemi eiginmannsins.

Að meika það í útlöndum

Eir�kur Magnússon � CambridgeEiríkur dreif sig í Prestaskólann og lauk námi þaðan 1859, á meðan sá Sigríður að talsverðu leyti fyrir þeim með því að kenna á gítar. Þau eignuðust barn fljótlega eftir giftinguna en það fæddist andvana. (Einhvern tíma síðar eignuðust þau annað barn sem einnig fæddist andvana, eftir það var hjónaband þeirra barnlaust.) (Stefán Einarsson. 1933, s. 15.)

Þau Eiríkur og Sigríður bjuggu í Reykjavík fyrstu fjögur árin eftir að þau giftust. En vorið 1862 fluttu þau til London og við tók mesta basl næstu árin. Eiríkur hafði stopula vinnu og af því hann var ákveðinn í að „meika það“, þ.e.a.s. vera talinn í hópi menntamanna og fína fólksins í Englandi, gat hann ekki einu sinni þegið suma vinnu sem honum þó bauðst því vinnan var ekki nógu fín. (Stefán Einarsson. 1933, s. 80.) Alls konar brask hans næstu árin mistókst yfirleitt. Til að skilja athafnir Sigríðar seinna meir er nauðsynlegt að nefna nokkuð af braski og brambolti Eiríks því líklega fékk hún fyrirmynd að ýmsu þar.

Myndin af Eiríki er úrklippa úr mynd sem varðveitt er í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Það varð þeim hjónum til happs að samskipa þeim til Englands vorið 1862 var enskur stúdent, George J. E. Powell, sem hafði ferðast um Ísland um sumarið og hafði óþrjótandi áhuga á öllu því sem íslenskt var (s.s. var í tísku meðal menntamanna á Englandi á Viktoríutímunum; Annars vegar tengdist þetta rómantískum áhuga á fornbókmenntum, hins vegar þótti Ísland exótískt land og þ.a.l. eftirstóknarvert til heimsókna). Hann George Powell reyndist sterkefnaður og fór svo að hann hélt þeim Eiríki og Sigríði uppi í Frakklandi og Þýskalandi á árunum 1864-66. Þar dunduðu þeir sér við orðabókargerð og þýðingar á Þjóðsögum Jóns Árnasonar o.fl. og Eiríkur lærði íslenska málfræði. Orðabókarsmíðinni var sjálfhætt þegar Eiríkur frétti að Guðbrandur Vigfússon væri langt kominn í vinnu við og útgáfu á orðabók Cleasby en þjóðsagnaþýðingin var gefin út.

Þegar rann upp fyrir Eiríki hve auðugur faðir Georges Powell var og að George mundi einn erfa hann hóf hann að tala þennan vin sinn (og framfæranda) inn á að fjármagna háskóla á Íslandi. Um þetta skrifar Eiríkur vini sínum, Jóni Sigurðssyni [forseta] í Kaupmannahöfn, þann 3. júní 1864 og segir m.a.:

Nú ber svo til að faðir vinar míns, … vellauðugur …, er að kveðja veröldina, en sonur hans, einberni tekur við öllum arfinum, 300 jörðum, sem gefa af sér 12-14000 punda á ári. Eg ætla því að treysta á gjaflyndi hans, þegar sá gamli er hrokkinn af klakknum [- – -] Eg býst alls ekki við, að hann gefi alt, er gefa þarf. En ef hann gæfi ört, þá yrði hægra að afla hins með subscribtionum á Englandi ….

(Stefán Einarsson. 1933, s. 40.)

Þessi ágætu plön voru auðvitað háð því að pabbi Georges ræki upp tærnar sem fyrst. En því miður (fyrir Eirík) tórði gamli maðurinn áfram og ekkert varð úr hinni stórfenglegu gjöf/hinum stórfenglegu sníkjum til að fjármagna háskólastofnun á Íslandi.

George PowellHins vegar átti George Powell talsvert eftir af móðurarfi sínum og Eiríki tókst að fá hann til að greiða fyrir Íslandssögu í sex bindum, sem Jón Sigurðsson átti að skrifa. Powell reiddi fram féð, 600 pund, en um þá sagnaritun fór átakanlega svipað og um sagnaritun Akraneskaupstaðar löngu seinna: Jón Sigurðsson þáði launin, Eiríkur fékk 100 pund af þeim, en svo bólaði ekkert á Íslandssögunni. Átta árum seinna reyndi Powell að rukka Jón Sigurðsson um söguna, þ.e. óskaði eftir greinargerð um sagnaritunina. Jón sendi langt afsökunarbréf og tíndi til ýmsar orsakir til tafarinnar, taldi sig t.d. ekki geta byrjað að skrifa af því margt væri enn órannsakað o.s.fr. Eiríkur Magnússon útskýrði málin fyrir Powell, sem gafst upp og gaf eftir féð og Jón Sigurðsson „lánaði“ Eiríki vini sínum 100 pund fyrir viðvikið. (Stefán Einarsson. 1933, s. 50-54.) Og segir ekki meir af vinskap þeirra Eiríks og Powell, raunar virðist hafa slitnað sundur með þeim um það leyti sem móðurarfur Powell tók mjög að eyðast og faðir hans virtist áfram ódrepandi þrátt fyrir ýmsan krankleik.

Myndin til vinstri er af George Powell.

Af öðru sem Eiríkur tók sér fyrir hendur má nefna að beita sér fyrir sölu íslensks fjár til Englands. Árið 1866 hafði hann gert samning annars vegar við kaupmenn á Englandi, hins vegar við bændur á Norður- og Austurlandi um kaup og sölu á íslensku fé; leigði skip, dreif sig til Íslands um haustið og sótti 2174 kindur á Eskifirði. Sjálfsagt hefur þeim verið þétt staflað í skipið. Á bakaleiðinni gerði snarvitlaust veður svo stór hluti fjárins hryggbrotnaði, rotaðist og margbeinbrotnaði; var ýldulyktin úr stíunum orðin hroðaleg þegar skipið nálgaðist Katanes þótt einhverjum skrokkum hafi tekist að kasta útbyrðis. Að auki höfðu menn gert smá mistök sem uppgötvuðust á bakaleiðinni: Það hafði nefnilega gleymst að gera ráð fyrir nothæfri pumpu til að dæla vatni í skjólur handa skepnunum, svo sjálfsagt drapst eitthvað úr þorsta. Til Newcastle, þangað sem förinni var heitið, komust 1100 fjár lifandi og með lífsmarki, um 1000 fjár hjarnaði við þegar það komst á beit. Ofan á afföllin kom í ljós að féð seldist illa og þær fáu rollur sem seldust voru keyptar fyrir miklu lægra verð en áætlað hafði verið. Tap á sauðasölu Eiríks var því um 1200 pund, sem var gífurlegt fé, enda kallaði hann sjálfur þetta „óhappalega byrjun“ á sauðasölu til Englands. (Stefán Einarsson. 1933, s. 68-74)

Fleira sem Eiríki datt í hug um svipað leyti var að hefja innflutning á málmum frá Íslandi og að gerast námueigandi í Svíþjóð í félagi við sænskan mann; Þeir streðuðu í tvö ár við að fá Breta til fjármagna fyrirtækið en tókst ekki. Hann var meira að segja að hugsa um að flytja aftur til Íslands og sótti um stöðu dómkirkjuprests í Reykjavík sumarið 1871 en fékk ekki. (Stefán Einarsson. 1933, s. 70-71 og 82).

En – svo fékk Eiríkur fasta stöðu bókavarðar í Cambridge snemma vetrar 1871! Á móti honum sóttu 78 manns og Eiríkur hafði enga reynslu af bókasöfnum nema sem viðskiptavinur. Samt fékk hann starfið, líklega af því Oxford hafði þegar fengið Íslending til að vinna þar (Guðbrand Vigfússon) og þá þurfti Cambridge auðvitað líka að geta skartað Íslendingi. (Stefán Einarsson. 1933. s. 125-126).

Eftir það varð lífið tryggara: Fast starf, fastur samastaður og föst laun björguðu miklu þótt þau hjón hafi ævinlega verið skuldug því þau bárust á um efni fram. Það kostaði sitt að vera gestrisin og halda sambandi við fína fólkið sem þau kynntust í Cambridge og víðar. Safnanir og styrkjasnöpun, jafnvel lán, dugðu skammt til að brúa bilið milli tekna og útgjalda. En einhvern veginn skrölti þetta allt saman næstu áratugina.

Það er augljóst að meiki maður það í útlöndum á frægð á Íslandi að fylgja eftir. Þetta lukkaðist nokkuð vel hjá Eiríki Magnússyni bókaverði í Cambridge. Næsta færsla fjallar um hvernig Sigríði gekk í þessum efnum.

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:

Stefán Einarsson. (1933). Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík

L.S. [Lárus Sigurbjörnsson]. 1939. Liðnir leikarar. Fimmta grein. Vikan 2(8) 23. feb. 1939, s. 5.

L.G. [Lárus Sigurbjörnsson]. 1939. Liðnir leikarar. Fjórða grein. Vikan (2)7, 16. feb. 1939, s. 17.

Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans

Hér segir af ofurlitlu grúski undanfarið í því skyni að kanna meintan áhuga Viktoríu Bretadrottningar á íslenskum fingravettlingum, sem allt bendir til að sé haganlega tilbúin lygasaga sem hver etur upp eftir öðrum enn þann dag í dag.

Skýringar á áritaðri mynd af Viktoríu drottningu í eigu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon

Á dögunum var ég að lesa Þóru biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917, eftir Sigrúnu Pálsdóttur (útg. 2010); að mörgu leyti ágætisbók sem ég hef lesið áður, þótt aðalpersónan sé frekar leiðinleg dekurrófa. En það er ekki efni þessa pistils.

Í miðri Þóru biskups segir af heimsókn hennar til hjónanna Eiríks Magnússonar og Sigríðar Einarsdóttur sem bjuggu í Cambridge. Er húsakynnum þeirra lýst og þ.á.m. segir:

Á miðhæð gestaherbergi og stássstofa eða viðhafnarherbergi þar sem yfir arinhillunni hangir mynd sú af Viktoríu sem drottningin sendi áritaða til Guðrúnar í Brekkubæ sem þakklætisvott fyrir vettlinga sem hún hafði eitt sinn prjónað handa henni og gefið.1

Viktoria EnglandsdrottningÞetta vakti athygli mína því fræg dæmi eru um að breskum hannyrðum hafi verið komið rækilega á framfæri með velvild Viktoríu drottningar og hennar fjölskyldu svo mig langaði að vita meir um þessa íslensku vettlinga sem drottningin var svo þakklát fyrir. Þóra biskups er vönduð heimildaskáldsaga og að sjálfsögðu er vísað í heimild fyrir þessu, sem er Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge eftir Stefán Einarsson.

Í Sögu Eiríks Magnússonar er löng tilvitnun í lýsingu Guðmundar Magnússonar skálds (þ.e. Jóns Trausta) sem heimsótti þau Sigríði og Eirík árið 1904. Jón Trausti sagði m.a. um húsakynni þeirra: „Á arinhillunni þar stendur ljósmynd af Viktoríu drotningu með eiginhandar-áritun hennar, send frú Sigríði.“2 Neðanmáls í sinni bók gerir Stefán Einarsson þessa athugasemd: „Myndin var ekki send Sigríði, heldur Guðrúnu móður hennar, er prjónað hafði drotningunni vetlinga.“3

Enn önnur útgáfa er til um skýringuna á árituðu myndinni af Viktoríu drottningu sem ku hafa staðið á arinhillunni á heimili þeirra Sigríðar og Eiríks í Cambridge, einnig höfð eftir gesti þeirra hjóna. Guðmundur Árnason skrifaði grein um Eirík Magnússon sem birtist árið 1920. Guðmundur segist segist hafa dvalið í Cambridge í tvær vikur árið 1910 og verið daglegur gestur hjá þeim hjónum. Undir lok greinarinnar hrósar hann Sigríði mjög, segir m.a. að hún hafi verið „óþreytandi að útbreiða þekkingu á Íslandi og íslenzkum handiðnaði á Englandi og víðar“ og að hún hafi tekið „drjúgan þátt í kvennfrelsismálinu og ýmsum öðrum framfararmálum“, bætir svo við:

Ýmsir urðu til þess að veita tilraunum hennar eftirtekt og sýna henni viðurkenningu, þar á meðal Victoría drotning, sem sendi henni ljósmynd af sér með eiginhandar kveðju.4

Í VI. Viðauka í Sögu Eiríks Magnússonar segir Stefán Einarsson deili á ættum hans, eiginkonu o.fl. sem honum þótti ekki eiga erindi í meginmál. Þar segir um móður Sigríðar, Guðrúnu Ólafsdóttur í Brekkubæ [kotið stóð þar sem nú stendur Mjóstræti 3] og vettlingana og Viktoríu:

Til merkis um það, hve vel hún vann, má geta þess, að einu sinni kom með Sigríði hirðmær Viktoríu drotningar til Reykjavíkur og fékk fingravettlinga hjá Guðrúnu. En Viktoríu drotningu leist svo vel á vetlingana, að hún pantaði aðra, og er hún fékk þá, sendi hún Guðrúnu mynd af sér með eiginhandar áritun. Þessa mynd geymdi Sigríður eins og menjagrip, en þó hefur týnst. Til eru á Þjóðmenjasafni vetlingar eftir Guðrúnu sem hún fékk verðlaun fyrir.5

Verðlaunvettlingar Guðrúnar ÓlafsdótturGuðrún þessi Ólafsdóttir í Brekkubæ var fædd árið 1805 en ég finn engar heimildir um dánarár hennar. Sigríður dóttir hennar fluttist með sínum manni, Eiríki Magnússyni, til Englands árið 1862 og var dálítill þvælingur á þeim næstu árin en frá 1871 var heimili þeirra í Cambridge. Bæði heimsóttu þau Ísland mjög oft.

Í Þóru biskups segir að Sigríður hafi haustið 1883 tekið þátt í „Iðnssýningunni í Reykjavík“ ásamt Þóru o.fl. og að „Sigríður og Þóra vinna báðar til verðlauna í fyrsta flokki sem gaf pening úr silfri“. 6 Hér er rangt farið með. Í fyrsta lagi hét þessi sýning Iðnaðarsýningin í Reykjavík. Hún stóð dagana 2.-19. ágúst 1883. Vissulega sendu þær Þóra og Sigríður báðar inn málverk á sýninguna7 en einungis Þóra hlaut silfurpening í verðlaun. Sigríður fékk engin verðlaun8. Aftur á móti er það satt sem áður var nefnt að móðir Sigríðar, Guðrún Ólafsdóttir Ormarstöðum, fékk silfurpening fyrir fingravettlinga. (Soffía Einarsdóttir á Ási í Fellum, systir Sigríðar, fékk bronspening fyrir svuntu og Þorvarður Kjerúlf, kvæntur systurdóttur Sigríðar, fékk silfurpening fyrir hnakk sem hann sendi inn en óvíst er hver smíðaði – svo ættin lá svo sem ekki óbætt hjá garði í verðlaunaveitingu þótt Sigríður fengi sjálf engin verðlaun)9. Raunar þótti verðlaunadreifingin fyrir muni á þessari sýningu dálítið einkennileg sem kann að stafa af því að dómnefndin virtist óspör á að hygla sínum vinum og kunningjum umfram aðra.10

Myndin til vinstri er af verðlaunavettlingum Guðrúnar Ólafsdóttur og krækir í upplýsingasíðu um þá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Soff�a og Sigr�ður Einarsdætur og Guðrún Ólafsdóttir

Á myndinni hér að ofan sjást systurnar Soffía Einarsdóttir og Sigríður Einarsdóttir Magnússon og Guðrún Ólafsdóttir móðir þeirra. Fremst á myndinni eru dætur Soffíu, þær Sigríður María Gunnarsson (f. 1885) og Bergljót Sigurðardóttir (f. 1879). Af henni má marka að Guðrún hafi náð háum aldri. Þetta er stækkuð úrklippa úr mynd sem skoða má í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns, og krækir úrklippan í myndasíðuna þar.

Eftir Iðnaðarsýninguna auglýsir Sigríður eftir íslenskum hannyrðum í fyrsta sinn. Er ekki ósennilegt að augu hennar hafi opnast fyrir að hægt væri, með réttri markaðssetningu, að gera þær eftirsóknarverðar í Bretlandi og hafa eitthvað upp úr sér við það. Auglýsing sem hún birti í dagblöðum er dagsett 28. ágúst og hefst þannig:

Í því skyni, að gjöra mitt til þess, að efla íslenzkar hannyrðir einkanlega, og ef til vill fleiri iðnir, og sjer í lagi að gjöra íslenzkan verknað útgengilegan á Englandi, svo að vinnendum yrði sem mestur hagur að, þá hefi eg áformað og gjört talsverðan undirbúning til þess, að sýning geti orðið haldin á slíkum munum í Lundúnaborg að ári komanda, mánuðina maí, júní og júlí. Jeg hefi þegar fengið nokkurar enskar heldri konur, þar á meðal Mrs. Morris, til að ganga í nefnd með mjer til þess að koma upp sjóði, svo fyrirtækinu megi þannig framgengt verða og munirnir fluttir til Englands, sýnendunum að kostnaðarlausu.11

Seinna í auglýsingunni telur hún upp hvers lags hannyrðir sig vanti og eru þar á meðal sokkar, belgvettlingar og fingravettlingar.

Staðhæfingar Sigríðar um Viktoríu drottningu og íslenska fingravettlinga á sýningum hennar á íslenskri handavinnu erlendis

Sigríður Einarsdóttir Magnússon stóð við stóru orðin og kom hannyrðum íslenskra kvenna að á alþjóðlegri heilbrigðissýningu (International Health Exhibition) í London 1884.

Obbinn af tölublaði Þjóðólfs þann 29. nóv. 1884 fjallaði um sýningu Sigríðar og deilur sem af verðlaunaveitingu þar spruttu, undir yfirskriftinni „Frá hannyrðasýningunni íslenzku í London“. Þessi langa grein er örugglega eftir Eirík Magnússon, eiginmann Sigríðar. Greinin hefst á þýðingu á lofræðu enska hannyrðablaðsins The Queen (sem neðanmáls er sagt „kvennablað og gengr meðal auðfólks og aðals og hefir mikla útbreiðslu“). Í þýðingunni á lofinu segir m.a.: „Okkur voru sýndir þar fingravetlingar af sömu gjörð og þeir voru, sem Drotningu vorri hafa verið sendir að gjöf.“12

Alexandra prinsessa af Wales

Árið 1886 komst Sigríður að með sama dót á Alþjóðlega iðnsýningu í Edinborg en sérstakir verndarar hennar voru Prinsinn og Prinsessan af Wales. Í frétt í The Times segir af því þegar þessir háttsettu verndarar skoðuðu sýninguna og þar á meðal:

The attendant at the Icelandic stand presented the Princess of Wales with a pair of gloves, and her Royal Highness gave an order for a piece of cloth sufficient to make a dress.13

Myndin til hægri er af Alexöndru, prinsessu af Wales, tekin 1881.

Víkur nú sögunni áratug fram í tímann, þegar Sigríði tókst að koma íslenskum hannyrðum (að hluta þeim sömu og hún hafði sýnt árið 1884 og oftar) og íslenskri silfursmíði á Heimssýninguna miklu í Chicago 1893. Í millitíðinni hafði hún komið sér í alls kyns útlendan kvenfélaga-/kvenna-félagsskap, stofnað kvennaskóla í Reykjavík sem aðeins starfaði eitt ár, kynnt Ísland og bág kjör kvenna hér og þar og íslenskt handverk. Í ræðu sem hún flutti á alþjóðlegu kvennaþingi sem haldið var í tengslum við Heimssýninguna sagði hún m.a.:

I think you will agree with me that the work must be good when I tell you that Her Majesty, Queen Victoria, has been wearing the Icelandic gloves for years, the only “woolen” gloves she wears, I am told; also that the work got the highest possible award at the International Health Exhibition in London, 1884, namely, “The Diploma of Honor,” … 14

Þessu sama hélt Sigríður víðar fram í tengslum við heimssýninguna í Chicago, t.d. í viðtali í New York Times: „In discussing the qualities of some woolen gloves shown in the exhibit of her nation “the only glove of the kind which Queen Victoria wears” this representative from Iceland …“15 Og auðvitað rataði sagan í íslensk dagblöð einnig, sjá t.d. þýðingu á frétt úr Chicago Sun í Fjallkonunni haustið 1893: „Í þessari íslenzku sýningu eru hannyrðir kvenna og meyja og þar á meðal fingravetlingar úr ull, samskonar og Victoria drotning og prinsessan af Wales brúkar [svo] sem unna mjög hinum íslenzku hannyrðum.“16

Aftur á móti voru Íslendingar sem sáu muni þá sem Sigríður sýndi í Chicago vægast sagt ekki uppveðraðir og spruttu upp harðar blaðadeilur milli þeirra og Sigríðar í kjölfarið. Þeim verða ekki gerð skil í þessum pistli heldur fingravettlingasagan skoðuð áfram.

Hver var hirðmærin sem kveikti ást Viktoríu drottningar á íslenskum fingravettlingum?

 

Emily Sarah CathcartBöndin berast að lafði Emily Sarah Cathcart, sem var vissulega hirðmær Viktoríu drottningar.17 (Andlitsmyndin af henni krækir í stærri mynd.) Emily Cathcart kom í fyrsta sinn til Íslands síðsumars árið 1878, í fylgd með Elizabeth Jane Oswald, skoskri konu sem skrifaði seinna bók byggða á þremur Íslandsferðum sínum.18 Það sumar var Sigríður á ferðalagi um Norðurlönd ásamt Eiríki eiginmanni sínum og kom ekki til Íslands.19

Þær Sigríður og lafði Emily voru hins vegar samskipa til Íslands í júlí 1879 og aftur til Englands í septemberbyrjun.20 Sigríður hefur svo eflaust kynnst Emily Cathcart betur gegnum Þóru Pjetursdóttur biskups sumarið 1880 í London21 og sat svo enn seinna með Cathcart í nefnd til að safna fé vegna hörmunga á Íslandi árið 1882.22 En næst kom Sigríður til Íslands árið 1883. Þá var Guðrún Ólafsdóttir, móðir Sigríðar, skráð til heimilis að Ormarstöðum í N-Múlasýslu svo sem fram hefur komið.

Svo eini sénsinn til að sagan ljúfa um Sigríði sem fer með hirðmey Viktoríu drottningar í heimsókn til mömmu sinnar gangi upp er að Sigríður hafi tekið lafði Emily Cathcart með sér að hitta mömmu sumarið 1879 og Guðrún hafi það sumarið sent fingravettlingapar með henni Emily til Viktoríu. Þar með komst Viktoría drottning á bragðið með íslenska fingravettlinga og varð nánast háð þeim ef marka má orð Sigríðar. Á hinn bóginn geta menn spurt sig hversu líklegt það sé að kona eins og Sigríður Einarsdóttir Magnússon hafi dregið með sér hirðmey á fund aldraðrar móður sinnar, hvort Brekkubær (sem var torfbær) hafi þá enn verið uppistandandi og þær hist þar o.s.fr.

Má bæta því við að þetta ekki eina hirðmærin sem Sigríður Einarsdóttir Magnússon og afkomendur í fjölskyldu hennar hafa tengt ættina við því í nýlegri ævisögu Haraldar Níelssonar segir um Soffíu Einarsdóttur, systur Sigríðar:

Soffía hafði dvalið langdvölum í Englandi á vegum systur sinnar og forframast þar í siðum fína fólksins, meðal annars verið í vist hjá fyrrverandi hirðmey Viktoríu drottningar.23

 

Niðurstaðan

Engar heimildir aðrar en þessi skemmtilega kúnstbróderaða saga Sigríðar Einarsdóttur Magnússon eru fyrir því að Viktoría drottning eða tengdadóttir hennar, Alexandra prinsessa af Wales, hafi nokkru sinni klæðst íslenskum fingravettlingum. Svo sem rakið er hér að ofan virðist þessi saga vera uppspuni til þess, annars vegar, að varpa ljóma á Sigríði sjálfa og ættingja hennar, hins vegar sem liður í markaðssetningu Sigríðar á íslensku handverki. Sú markaðssetning mistókst.

Það er svo margt í sögu Sigríðar Einarsdóttur Magnússon sem er áhugavert og gefur þessari fingravettlingasögu lítið eftir að ég hyggst skrifa fleiri pistla um hana, t.d. um silfursöfnun, -sölu og -sýningar hennar, fyrirlestra á erlendri grundu, kvennaskólann sem hún reyndi að koma á fót í Reykjavík, ferðalög hennar o.fl. Kannski er þó mest spennandi að skoða hvernig Sigríður skapaði glæsilega ímynd af sér úr litlu og hvernig farið er að dusta rykið af þeirri glansmynd nú um stundir, jafnvel bæta enn í gljáann.

 

Heimildir sem vísað er til

1 Sigrún Pálsdóttir. (2010). Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. JPV útgáfa, Reykjavík, s. 108.

2 Guðmundur Magnússon. (1908) Eiríkur Magnússon heim að sækja. Óðinn 3(11), s. 91.

3 Stefán Einarsson. (1933). Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, s. 317. Stefán skrifaði bókina á árunum 1924-25 og var hans fyrsta verk í heimildasöfnun að fara á fund erfingja þeirra hjóna, Sigríðar Gunnarsson, systurdóttur Sigríðar, og föður hennar. Leiðrétting Stefáns á hverjum Viktoría drottning sendi hina árituðu mynd af sér hlýtur að vera byggð á munnlegum heimildum frá þeim. Sigríður dvaldi hjá Eiríki og Sigríði frá 1906 til þess sem þau áttu ólifað; Eiríkur lést 1913 en Sigríður 1915. Við þetta mætti bæta að það er einkennilegt að einungis áratug eftir lát Sigríðar hafi þessi merkilega áritaða mynd Viktoríu verið glötuð og mikill skaði að – hafi myndin sú verið ekta og sagan sönn.

4 Guðmundur Árnason. (1920). Eiríkur Magnússon. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 2(1). Winnipeg, Maniboba, s. 28-35. Bein tilvitnun er á s. 35 í þessari grein og krækir greinarheitið í þá síðu.

5 Stefán Einarsson. (1933), s. 317.

6 Sigrún Pálsdóttir. (2010), s. 125.

7 Iðnaðarsýningin í Reykjavík. (1884). Fréttir frá Íslandi 1883 10(1) s. 37.

8 Sjá Ísafold 22. sept. 1883, s. 96 eða Fróða 12.09.1883, s. 286-288 og Fróða 09.10.1883, s. 310-312.

9 Sjá Ísafold 22. sept. 1883, s. 96. Guðrún Ólafsdóttir finnst ekki í manntölum eftir 1870. Hún var fædd 1805 og var því hátt á áttræðisaldri þegar hún fékk þessi verðlaun fyrir fingravettlingana. Líklega hefur Brekkubær í Reykjavík þá verið að hruni kominn, jafnvel hruninn (húsið finnst ekki í manntali 1880). Á Ormarstöðum í Fellum, N-Múlasýslu, bjuggu árið 1883 þau Þórvarður Kjerúlf héraðslæknir og kona hans Karólína Kristjana Einarsdóttir, sem lést í desember árið 1883. Karólína var dótturdóttir Guðrúnar svo það er ekki ólíklegt að gamla konan hafi fengið að dvelja hjá henni í ellinni. Skv. manntali 1880 dvaldi á fjölmennu heimili þeirra Þórvarðar og Karólínu Kristjönu María Einarsdóttir, móðir Karólínu og dóttir Guðrúnar, sem þá var orðin ekkja. Í sömu sókn bjó önnur dóttir Guðrúnar á þessum tíma, Soffía Emelía Einarsdóttir, en sú var gift Sigurði Gunnarssyni, prestinum í Ási í Fellum. Þau bjuggu í Ási og á Valþjófsstöðum frá 1879-1894.

10 Iðnaðarsýningin í Reykjavík. (1884). Fréttir frá Íslandi 1883 10(1) s. 38.

Í Ísafold 22. ágúst 1883, s. 77, segir að dómnefndin hafi verið skipuð „2 frúm úr Reykjavík og 5 alþingismönnum. Það var landshöfðingjafrú Elinborg Thorberg [systir Þóru], amtmannsfrú Kristjana Havstein; Jón Sigurðsson forseti [vinur Eiríks Magnússonar, eiginmanns Sigríðar] , síra Benidikt Kristjánsson, Einar Ásmundsson, Sighvatur Árnason og Tryggvi Gunnarsson [bróðir Kristjönu].“

11 Þjóðólfur 29.09.1883, s. 113.

12 Frá hannyrðasýningunni íslenzku í London. Þjóðólfur 29. nóv. 1884, s. 181-183. Eftir langa umfjöllun um hannyrðirnar víkur að deilum Sigríðar og dómnefndar þessarar sýningar. Íslenska prjónlesið og hitt dótið fékk nefnilega bara bronsverðlaun og því undi Sigríður ekki! Í bréfaskiptum milli hennar og dómnefndar reyndi nefndin m.a. að verjast með því benda á að „vinnan frá Íslandi hefði dómnefndin eigi getað séð að heyrði undir „Heilsu“ enn það væri þó aðal-atriðið.“ Sigríður féllst nú aldeilis ekki á þau rök og eftir að hafa dengt fleiri bréfum yfir dómnefndina fór hún með sigur af hólmi því aftan við löngu umfjöllunina er bætt við: „skeytt við hraðfrétt dags. 12 nóv. frá hr. E.M.: Íslands hannyrðir hafa fengið beztu verðlaun (heiðrs-diplóma“ (s. 183).

13 The Prince and Princess of Wales in Edinburgh. The Times 15. okt. 1886, s. 6.

14 Sigríður E. Magnússon. A Sketch of “Home-Life in Iceland.”. (1894). The Congress of Women: Held in the Woman’s Building, World’s Columbian Exposition, Chicago, U. S. A., 1893. Ritstjóri Eagle, Mary Kavanaugh Oldham. Monarch Book Company, Chicago, s. 521-525.

15 For Icelandic Girls. A School soon to be Established for Their Higher Education. The New York Times 19. nóv. 1893, s. 13.

16 Íslenzkir munir á Chigago sýningunni. Fjallkonan 5. sept. 1893, s. 142.

17 Upplýsingar um lafði Emily Sarah Cathcart má m.a. sjá í Strand Magazine nr. 56, ágúst 1895, s. 196-7 og í löngum lista sem afritaður er á umræðuborði, Re: Ladies in waiting to Queen Victoria, má sjá hvaða hlutverki hún gegndi á mismunandi tímum (hversu hátt sett hún var í hirðmeyjafansi drottningar).

18. Oswald, E.J. (1882). By Fell and Fjord; Or, Scenes and Studies in Iceland. W. Blackwood and sons, Edinburgh og London. Emily Sarah Cathcart er getið á s. 108, sem ferðafélaga Oswald um Ísland 1878, en í hinum tveimur Íslandsferðum höfundar, árin 1875 og 1879 var skosk kona, Miss Menzies ferðafélagi hennar.

19 Stefán Einarsson. (1933), s. 317.

20 Sjá Ísafold 4. sept. 1879, s. 88 og Þjóðólf 18. sept. 1879, s. 98.

21 Sigrún Pálsdóttir. (2010), s. 110

22 Distress in Iceland. The Times 17. ágúst 1882, s. 5.

23 Pétur Pétursson. (2011). Trúmaður á tímamótum. Ævisaga Haraldar Níelssonar. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, s. 104.

Leit að upplýsingum um sjúkdóm á Netinu

Netið er eins og bóksafn heimsins alls: Þar ægir saman vönduðum fræðum, þekkingarmolum og algeru drasli. Vandinn er að skilja sauðina frá höfrunum, að þekkja í sundur öruggar upplýsingar og bull.

Einnig þarf að greina sundur upplýsingar sem kunna að nýtast sjúklingi prýðilega og upplýsingar sem læknir sjúklingsins er líklegur til að samþykkja að séu traustar: Þetta tvennt fer alls ekki alltaf saman. Ein leiðin til að auðvelda manni þetta er markviss leit.

Leit að efni á íslensku

Setjum sem svo að sjúklingur sé með ofvirkan eða vanvirkan skjaldkirtil, annað hvort greindan af lækni eða sjúklinginn gruni að hann þjái annar hvor kvillinn. Ég gef mér, í eftirfarandi texta, að sjúklingurinn sá hafi enga þekkingu á skjaldkirtli og mjög litla reynslu af leit á Netinu.

Líklega myndu flestir byrja á að leita í Google og slá einfaldlega inn leitarorðið skjaldkirtill. (Sé sjúklingurinn alger byrjandi borgar sig að stilla Google líka á Myndir til að sjá hvar þetta líffæri er og hvernig það lítur út.)

Í þessu tilviki reynist venjuleg leit á Google prýðilega: Á fyrsta skjá birtast upplýsingar sem ætla má að séu áreiðanlegar, t.d. krækjur í tvö svör á Vísindavef og krækja í viðtal við innkirtlasérfræðing. En þarna er líka íslensk Wikipediasíða sem er hvorki fugl né fiskur, óvirk krækja í glósur úr einhverju kennsluefni í framhaldsskóla (FSS), bloggsíða sem vísar aðallega í efni annars staðar, síða hómópata (sem kann að vera ágæt en að nefna hómópata við suma lækna virkar svipað og að veifa rauðri dulu framan í naut) og síðan http://skjaldkirtill.info/, sem þrátt fyrir nafnið geymir fáar upplýsingar, skýringar eða fræðslu en er ágætis auglýsing fyrir lækni sem býður þá þjónustu að túlka blóðpróf gegn greiðslu.

Á næsta skjá er líka bland í poka, t.d. síðan http://www.skjaldkirtill.com/. Hún er að vísu merkt lógói Félags um skjaldkirtilssjúkdóma (sem engar upplýsingar eru um) en er langt í frá hálfkláruð auk þess sem enginn ábyrgðaraðili/höfundur er skráður fyrir henni. Almennt borgar sig ekki að taka mark á nafnlausum textum. Þessi síða gæti vel orðið góð einhvern tíma i framtíðinni en stenst ekki mál núna. Aftur á móti má ætla að lestur á síðunni Innkirtlasjúkdómar: vefsíða fyrir læknanema, sem birtist á öðrum skjá í almennri Google leit minni, skili einhverjum áreiðanlegum upplýsingum, auk þess sem hún segir örugglega eitthvað til um hvað læknanemum er innrætt í námi um skjaldkirtilsvandamál.

Markviss leit

Í þessu tilviki er sjúklingurinn ákveðinn í að afla sér fræðslu sem læknir gæti ekki sett út á. Það sem læknar setja ekki út á er aðallega efni eftir aðra lækna, þetta er með afbrigðum samheldin stétt.

Ef sjúklingurinn ákveður nú að leita í Læknablaðinu kemst hann strax að því að leitarvélin þar er handónýt: Leitarorðið skjaldkirtill skilar 7 niðurstöðum. Engar upplýsingar fylgja niðurstöðunum og raunar er augljóst að tvær þeirra, sem báðar heita Eldgos og heilsa, eru ólíklegar til að fræða sjúkling neitt um skjaldkirtilsvandamál.

Sem oft reynist Google besta leitarvélin. En í þetta sinn notar sjúklingur möguleikann á að leita að ákveðnu orði á ákveðnu vefsvæði. Það er gert með því að skrifa í leitargluggann:
site:slóð_vefsvæðis leitarorð

Google Læknablaðið

Þessi leitaraðferð skilar 8 skjáfyllum af því efni þar sem skjaldkirtill er nefndur og er aðgengilegt á laeknabladid.is. Fyrir utan titil hverrar krækju birtast tvær línur af texta þar sem orðið kemur fyrir og oft dugir það samhengi til að sjá í hendingskasti hvort borgi sig að lesa greinina/skoða efnið.

Efni Læknablaðsins sem er aðgengilegt á vef nær ekki nema aftur til ársins 2000. Þess vegna borgar sig stundum að leita í öðru safni læknisfræðilegra íslenskra greina sem heitir Hirsla og er gagnasafn Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þar má finna greinar sem hafa birst í eldri tölublöðum Læknablaðsins en frá 2000 og einnig fræðigreinar sem hafa birst annars staðar. Slóðin er hirsla.lsh.is

Á Hirslu er miklu skárri leitarvél en á Læknablaðinu. Leitarorðið skjaldkirtill skilar þar 17 niðurstöðum, raunar er samt augljóst af titlum að sumar greinarnar fjalla um allt annað. En Google hefur enn vinninginn í að þefa uppi efni: Leit með site:hirsla.lsh.is skjaldkirtill skilar um 30 niðurstöðum og sem fyrr er leitarorðið í samhengi í tveggja línu texta sem auðveldar að sigta út nýtilegt efni.

Ég ráðlegg uppdiktaða sjúklingnum einnig að leita með site:landlaeknir.is skjaldkirtill og site:doktor.is skjaldkirtill. Síðarnefnda vefsetrið hefur því miður fokkað upp sínum innviðum og því er ekki víst að krækjurnar sem Google finnur virki allar en sumar þeirra gera það.

Væri ég að leita að einhverju öðru en fróðleik um skjaldkirtil, segjum fróðleik um hjartsláttartruflanir, mundi ég einnig Google site-leita á skemman.is (safni lokaritgerða í háskólum) en skjaldkirtilsleit skilar þar fáu bitastæðu. (Ritgerðir háskólanema eru afar misjafnar að gæðum, sem annars vegar fer eftir deildum og hins vegar er góð almenn regla að taka ekki alltof mikið mark á BA/BS ritgerðum.) Leitarvélin á Skemmu sjálfri er sama marki brennd og leitarvél Læknablaðsins svo ég mæli enn og aftur með Google site leit.

Loks myndi ég athuga hvort eitthvert efni annað en það sem ég hef þegar fundið er að finna á bókasöfnum og leita í skráningarkerfi bókasafna á gegnir.is. Það kerfi tengir einnig í stafrænt efni (þ.e. efni sem er aðgengilegt á Vefnum).

Niðurstaða

Íslenskt málsvæði er pínulítið og íslenskir læknar ekkert alltof duglegir að skrifa/birta efni. Því tekur skamma stund að finna allt það fræðilega efni sem er í boði um skjaldkirtilssjúkdóma á íslensku, á Netinu. Söm væri raunin með flesta aðra sjúkdóma svo þeir sjúklingar sem geta lesið texta á öðrum málum (oftast ensku) byrja mjög fljótlega að leita sér upplýsinga á þeim. Næsta færsla fjallar um hvernig maður leitar í erlendum fræðigreinum. Þá verður tekið dæmi af öðrum krankleika.

P.s. Þótt þessi færsla fjalli einkum um markvissa leit að sæmilega fræðilegu efni á íslensku um skjaldkirtil/skjaldkirtilsvandamál er ekki þar með sagt að ég telji að annað efni komi sjúklingum ekki að gagni. Umfjöllun um aðra kosti má t.d. sjá í nýlegri bloggfærslu minni, Sjúklingar, læknar og samfélagsmiðlar.