Litla stúlkan og sígarettan er aldeilis mögnuð bók! Samt er ég bara hálfnuð með hana. Hún byrjar á að lýsa úlfakreppu þegar dauðadæmdur fangi vill fá að reykja eina sígarettu áður en hann deyr. Í gildi eru lög sem segja að uppfylla skuli eina ósk áður en dauðdæmdur fangi fær dauðasprautuna. Í gildi eru einnig lög sem banna reykingar með öllu og alveg sérdeilis á opinberum stöðum, eins og fangelsi og aftökustað. Inn í þetta fléttast að þótt allir landsmenn viti (með heilaþvotti) að sígarettur eru ofboðslega óhollar, jafnt beinar sem óbeinar reykingar, þá er svolítið erfitt að vísa í þau rök úr því taka á fangann af lífi strax á eftir; Skiptir það máli þótt hann neyti hroðalega óhollrar sígarettu sem mun skaða heilsu hans úr því hann verður tekinn af lífi nokkrum mínútum síðar, til að fullnægja réttlætinu?
Þetta sem ég rakti hér að ofan er aukasaga, nokkurs konar rammi um skáldsöguna sjálfa. Aðalsagan er um opinberan starfsmann sem er svo óheppinn að lítil stúlka kemur að honum þar sem hann er að stelast til að reykja. Í þessu nýja samfélagi eru það börnin sem ráða og eru ávallt í fyrirrúmi. Orð litlu stúlkunnar mega sín þess vegna miklu meir en miðaldra opinbera starfsmannsins.
Þessi bók minnir mig að sumu leyti á bók Orwells um Félaga Napóleon (Animal Farm). Þegar búið var að gera uppreisn í bókinni þeirri og allir áttu að hafa jafnan rétt kom í ljós að sumir voru jafnari en aðrir. Ég þarf ekki annað en líta yfir götuna til að sjá hina ójöfnu nemendur og kennara reykja við gangstéttarbrún.
Þessu snillingi sem datt í hug að ná fram reykleysi með valdboði hefur sennilega ekki dottið í hug að með þessum harkalegri reglum vinnst aðallega tvennt: Allir verða með það á tæru hvar lóðamörk FVA eru og reykingar við lóðmörkin, á opnu svæði, eru miklu sýnilegri en áður, frá mér séð ansi effektífar auglýsingar. Í bók Orwells tóku svínin völdin. Ég sé ekki almennilega fyrir mér hverjir þeir eru sem fá kikk útúr því að sparka í reykingamenn.
Í Salamöndrunum tóku þær völdin með alls konar jafnréttis- og réttlætissamningum og sökktu loks öllu landi og mönnunum með. Mér er ókunnugt um hvort Salamöndrurnar voru reyklausar eður ei; þetta er svo gömul bók að sjálfsagt hefur enginn spáð í það. Ég man heldur ekki nafn höfundar … gæti það verið Kapec? Myndin sýnir (góð)glaða fiska á göngu í reykingafjandsamlegu umhverfi og gætt glatt einhvern. Það er ekki hægt að sjá hvort þetta eru þorskar.
Ég hef í alvörunni aldrei nennt að lesa í gegnum Réttarhöldin Kafka eins og allir bókmenntafræðingar eiga að gera, en þess meir af texta þar sem bókin sú er mærð. Opinberi starfsmaðurinn í Litlu stúlkunni og sígarettunni á sér sjálfsagt nokkra samsvörun í Jósef K., sem ekki vissi upp á sig nokkra sök þegar hann var handtekinn.
Ég er orðin svo hundleið á malinu í þeim jafnari um óhollustu reykinga, beinna sem óbeinna, að ég gæti gubbað. Jafnara fólkið er yfirleitt að reyna að komast yfir eigin komplexa með því að hreykja sér eða ráða yfir öðrum.Það telst ekki enn við hæfi að ganga að einhverjum og segja að hann sé alltof feitur og ætti að passa sig, berjast fyrir kjötlausu fæði / sushi/ grænmetisfæði/ hráfæði / og sjálfsagt kemur einhvern tíma á daginn að aneroxískt útlit teljist eftirsóknarverðast. Ég vil vera feit, a.m.k. búttuð (eftir að hafa verið horgrind alla ævi – út af reykingunum náttúrlega), mér finnst líkamsrækt leiðinleg, ég ætla ekki að hætta að reykja frekar en neitt það sem lætur mér líða skár þegar ég er oní Helvítisgjánni. Allir deyja einhvern tíma og ég held að það sé ákveðið fyrir löngu. Hávamál taka þetta efni ágætlega fyrir og ég vísa bara í þau.
Til að koma til móts við hina jafnari, réttsýnni, lifa-lengur-liðið, o.s.fr. hef ég ákveðið að pallurinn minn hér fyrir utan húsið sé reyklaust svæði. (Þessi ákvörðun verður endurskoðuð í maí.) Ef einhver höndlar ekki innanhúss-reykingar bloggynju þá er bara að fara út á pall og anda að sér táhreinu loftinu (gæti verið soldið sementsryk í því en sjaldan Laugafisks-fýla sem leggur yfir Neðri Skagann. Peningalykt bernsku minnar er pís of keik miðað við hvað Laugafiski tekst að framleiða.)
Þá lítur þetta svona út, séð frá aðalinngangi FVA: Stétt, bílastæði, steypuhlunkar á lóðamörkum, einföld röð reykingamanna, gangstétt, meiri bílastæði, gatan, gangstétt, stétt, algerlega ofboðslega reyklaus pallur, fúavarður með maghoní lit. Ég hef alltaf fúavarið hann sjálf og glansa af ánægju eftir að ég komast að því að ég er tífalt hraðvirkari í fúavarnavinnu en starfsmaður KÍ í sama djobbi.
Og ef einhver hinna jafnari getur komist að því af hverju er svona mikil myglufýla í skólanum mínum (og ábyggilega stórhættuleg sveppagró sem við í byggingunni öndum að okkur allan daginn) væri það voða gott!