Category Archives: Uncategorized

Oní helvítisgjána!

Ég má nú ekki við neinu því smávegis atburður í gær setti mig algerlega úr jafnvægi.  Ég sleppti útsölu, afpantaði tímann í krabbameinsskoðun, kvöldið var líka ónýtt svo ég fór bara að sofa. Svo hélt ég að þetta væri búið, tókst að hanga í bælinu til hálf sex í morgun, lesa blað, taka pillur (þ.á.m. róandi sem eiga að slá á kvíða) en svo byrjaði þetta venjulega: Ég nötra eins og róni án brennivíns, mér er ofboðslega flökurt (en get ekki hugsað mér að æla svo það er spurningin um að liggja á réttri hlið, eins og í Akraborginni forðum) o.s.fr.

Ég sá að nemendur mínir elskulegir væru betur settir án mín. Svo ég meldaði mig veika. Þar með missi ég af trimminu, eins og mér veitti nú ekki af því að fá frekari æfingar í hægri og vinstri!

Hef hugsað mér að nota daginn í að klöngrast aftur upp úr helvítisgjánni og verða frísk og flott á morgun.

Framtíðin mætt á svæðið

Í dag leið mér nákvæmlega eins og opinbera starfsmanninum í Litlu stúlkunni og sígarettunni.  Sé sama lygin endurtekin nógu oft verður hún að sannleik … eða hvað?

Hetjan ég!

Vil bara koma því á framfæri að ég fór í líkamsræktartíma áðan!  Að vísu fór ég bara einn hring eftir upphitun og tilkynnti kennaranum að ég þyrði ekki meiru, upp á að vera OK í fyrramálið. Hún samþykkti það enda vinnur hún í apótekinu.

Meginkostir við þessa líkamsrækt er að hún er ekki í hefðbundnum íþróttasal (heldur litlum speglasal) og kennarinn er ekki íþróttakennari. Meginókosturinn í þessum fyrsta tíma reyndist vera algerlega horfin tilfinning fyrir hægri og vinstri. Mér gengur skást ef ég hermi eftir manneskjunni fyrir framan en er ekki að spá í hvaða fótur eða hné er kallaður upp hverju sinni. Þetta kemur …

Ég sannfærði mig um að Mens sana in corpore sano ætti enn við og með því að fá eilítinn styrk í skrokkinn muni geðveikin minnka eilítið. Til öryggis borgaði ég allt námskeiðið fyrirfram … til að hvetja mig til að hætta ekki við.

Barnunginn (sá sem hefur verið kallaður kolbítur á þessu bloggi en hefur nú risið sem Fönix úr öskustó!) er önnum kafinn við undirbúning Gettu betur. FVA var soldið óheppinn í drætti, dróst gegn MR. En kraftaverk gerast stundum og bróðir minn sagði mér frá því þegar ML vann algerlega óvart MR í undankeppni í útvarpi. Ég óska auðvitað okkars alls hins besta og mun hlusta á þá í útvarpinu. Yfirleitt nenni ég ekki að hlusta á þessa keppni, hún er alltof stöðluð og ekkert kemur á óvart. Svo ekki sé minnst á framburð keppenda í hraðaspurningum, með tilheyrandi frussi (sem sést sem betur fer ekki í útvarpi). Móðurmálshnúarnir á mér hvítna þegar skothríðin í hraðaspurningum hefst.

Komst í gegnum heila tónleika! Eða: Vandinn að klæða sig pent!

Við hjónin fórum á hátíðartónleika Rótarýs í gærkvöldi.  Þeir voru haldnir í Salnum í Kópavogi undir dyggri stjórn Jónasar Ingimundarsonar. Þennan dag rak ég fyrst augun í auglýsingu þar sem þess var æskt  að menn væru samkvæmisklæddir, gæsla væri í fatahengi og freyðivín í hléi. Eins og ég hafi ekki verið nógu stressuð fyrir!

Ég fór yfir fataskápinn og vissulega á ég eitthvað af samkvæmisfötum – málið er bara það að ég kemst ekki í neitt af þeim. Loks tók ég þann kostinn að vera í þokkaleg svörtu pilsi og toppi við, útsaumuðu með blómaborðum svipað og samfella eða skautkyrtill. Svo fann ég alltof lítinn svartan brjóstahaldara með tróði og náði þannig hinu eftirsóknarverða útliti nútímans: Að sýna brjóstaskoru! Þetta er aftuhvarf til einhverrar enskrar cleavage tísku og gott ef ekki átti að setja punktinn yfir i-ið, í bókstaflegri merkingu álímdan fæðingarblett. Mín skora var samt ekki nærri því eins flott og þessi sem sést á myndinni.

Háhæluð svört stígvél … og mér fannst ég líta út eins og gleðikona.  Manninum fannst ég fín.

Hitt vandamálið er svo að ég á ekkert dýr til að ganga í. Gæslumenn fatahengis eru að passa alls konar skinnfeldi og pelsa og ég á ekki einu sinni dauðan ref til að bregða um hálsinn! (Sem minnir mig á: Einar og þið hin: Hvað varð um dauðu refina hennar ömmu? Þeir héngu upp á vegg og horfðu á mann svörtum gleraugum þegar maður gekk hjá.) Svoleiðis að ég fór í Kína-jakka sem passaði sæmilega utan um þetta, ekta því ég keypti hann sjálf í Soho Kínahverfinu.

Ef ég á að segja eitthvað um tónleikana þá voru þeir prýðilegir. Þóra Einarsdóttir er sætari en Katherine Jenkins og miklu betri söngkona. Mér finnst reyndar að það hefði mátt hafa betur þekkt lög á efnisskránni – miðað við markhópinn sem sótti tónleikana. Mér fannst líka tónleikarnir of langir … en þar kann að spila inn í að ég er mjög óvön því að vaka mikið fram yfir kl. 21.

Ég er náttúrlega yfir mig hreykin að hafa tekist þetta, þ.e. sitja tveggja tíma tónleika í tiltölulega stórum sal, án þess að fá kvíða að ráði. (Mér sýndist hins vegar gítarleikarinn á þessum tónleikum fá kvíðakast á sviðinu … en hann jafnaði sig fljótt.)

Afrekin í dag eru einungis þrif og síðan óvænt upprifjun úr Njálu, hvar frú Bergþóra segir: “Gjafir eru yður gefnar” og eggjar svo til hefnda. Mér datt aldrei í hug að smjaður yrði til þess að mér væri gefin svona óumbeðin gjöf.

Litla stúlkan og sígarettan, hinir jöfnu og ég

Litla stúlkan og sígarettan er aldeilis mögnuð bók!  Samt er ég bara hálfnuð með hana. Hún byrjar á að lýsa úlfakreppu þegar dauðadæmdur fangi vill fá að reykja eina sígarettu áður en hann deyr. Í gildi eru lög sem segja að uppfylla skuli eina ósk áður en dauðdæmdur fangi fær dauðasprautuna. Í gildi eru einnig lög sem banna reykingar með öllu og alveg sérdeilis á opinberum stöðum, eins og fangelsi og aftökustað. Inn í þetta fléttast að þótt allir landsmenn viti (með heilaþvotti) að sígarettur eru ofboðslega óhollar, jafnt beinar sem óbeinar reykingar, þá er svolítið erfitt að vísa í þau rök úr því taka á fangann af lífi strax á eftir; Skiptir það máli þótt hann neyti hroðalega óhollrar sígarettu sem mun skaða heilsu hans úr því hann verður tekinn af lífi nokkrum mínútum síðar, til að fullnægja réttlætinu?

Þetta sem ég rakti hér að ofan er aukasaga, nokkurs konar rammi um skáldsöguna sjálfa. Aðalsagan er um opinberan starfsmann sem er svo óheppinn að lítil stúlka kemur að honum þar sem hann er að stelast til að reykja. Í þessu nýja samfélagi eru það börnin sem ráða og eru ávallt í fyrirrúmi. Orð litlu stúlkunnar mega sín þess vegna miklu meir en miðaldra opinbera starfsmannsins.

Þessi bók minnir mig að sumu leyti á bók Orwells um Félaga Napóleon (Animal Farm). Þegar búið var að gera uppreisn í bókinni þeirri og allir áttu að hafa jafnan rétt kom í ljós að sumir voru jafnari en aðrir. Ég þarf ekki annað en líta yfir götuna til að sjá hina ójöfnu nemendur og kennara reykja við gangstéttarbrún.

Þessu snillingi sem datt í hug að ná fram reykleysi með valdboði hefur sennilega ekki dottið í hug að með þessum harkalegri reglum vinnst aðallega tvennt:  Allir verða með það á tæru hvar lóðamörk FVA eru og reykingar við lóðmörkin, á  opnu svæði, eru miklu sýnilegri en áður, frá mér séð ansi effektífar auglýsingar. Í bók Orwells tóku svínin völdin. Ég sé ekki almennilega fyrir mér hverjir þeir eru sem fá kikk útúr því að sparka í reykingamenn.

Í Salamöndrunum tóku þær völdin með  alls konar jafnréttis- og réttlætissamningum og sökktu loks öllu landi og mönnunum með. Mér er ókunnugt um hvort Salamöndrurnar voru reyklausar eður ei; þetta er svo gömul bók að sjálfsagt hefur enginn spáð í það. Ég man heldur ekki nafn höfundar … gæti það verið Kapec?  Myndin sýnir (góð)glaða fiska á göngu í reykingafjandsamlegu umhverfi og gætt glatt einhvern. Það er ekki hægt að sjá hvort þetta eru þorskar.

Ég hef í alvörunni aldrei nennt að lesa í gegnum Réttarhöldin Kafka eins og allir bókmenntafræðingar eiga að gera, en þess meir af texta þar sem bókin sú er mærð. Opinberi starfsmaðurinn í Litlu stúlkunni og sígarettunni á sér sjálfsagt nokkra samsvörun í Jósef K., sem ekki vissi upp á sig nokkra sök þegar hann var handtekinn.

Ég er orðin svo hundleið á malinu í þeim jafnari um óhollustu reykinga, beinna sem óbeinna, að ég gæti gubbað. Jafnara fólkið er yfirleitt að reyna að komast yfir eigin komplexa með því að hreykja sér eða ráða yfir öðrum.Það telst ekki enn við hæfi að ganga að einhverjum og segja að hann sé alltof feitur og ætti að passa sig, berjast fyrir kjötlausu fæði / sushi/ grænmetisfæði/ hráfæði / og sjálfsagt kemur einhvern tíma á daginn að aneroxískt útlit teljist eftirsóknarverðast. Ég vil vera feit, a.m.k. búttuð (eftir að hafa verið horgrind alla ævi – út af reykingunum náttúrlega), mér finnst líkamsrækt leiðinleg, ég ætla ekki að hætta að reykja frekar en neitt það sem lætur mér líða skár þegar ég er oní Helvítisgjánni. Allir deyja einhvern tíma og ég held að það sé ákveðið fyrir löngu.  Hávamál taka þetta efni ágætlega fyrir og ég vísa bara í þau.

Til að koma til móts við hina jafnari, réttsýnni, lifa-lengur-liðið, o.s.fr. hef ég ákveðið að pallurinn minn hér fyrir utan húsið sé reyklaust svæði. (Þessi ákvörðun verður endurskoðuð í maí.) Ef einhver höndlar ekki innanhúss-reykingar bloggynju þá er bara að fara út á pall og anda að sér táhreinu loftinu (gæti verið soldið sementsryk í því en sjaldan Laugafisks-fýla sem leggur yfir Neðri Skagann. Peningalykt bernsku minnar er pís of keik miðað við hvað Laugafiski tekst að framleiða.)

Þá lítur þetta svona út, séð frá aðalinngangi FVA: Stétt, bílastæði, steypuhlunkar á lóðamörkum, einföld röð reykingamanna, gangstétt, meiri bílastæði, gatan, gangstétt, stétt, algerlega ofboðslega reyklaus pallur, fúavarður með maghoní lit. Ég hef alltaf fúavarið hann sjálf og glansa af ánægju eftir að ég komast að því að ég er tífalt hraðvirkari í fúavarnavinnu en starfsmaður KÍ í sama djobbi.

Og ef einhver hinna jafnari getur komist að því af hverju er svona mikil myglufýla í skólanum mínum (og ábyggilega stórhættuleg sveppagró sem við í byggingunni öndum að okkur allan daginn) væri það voða gott!

Óreiðan allt um kring og óhamingja miðaldra karla

Þetta verður stutt – ég er örmagna eftir að hafa setið tvo fundi, reynt að vinna eitthvað smávegis, leggja mig, kíkja á útsölur með kvenlegu hugarfari (eina lokkandi sem ég sá var korselett sem Atla myndi finnast soldið flott … aftur á móti sennilega ekki heppilegur vinnuklæðnaður miðaldra kennslukonu), heimkomin sansa þvott og fullvissa afkvæmið um það yrði betra á kvöldmatarboðstólum hjá tengdó en hér. (Ég er nefnilega að reyna að borða ávexti til grenningar.  Sérstaklega einbeitt í því eftir að hafa speglað mig í nokkrum mátunarklefum.)

Hitt afkvæmið var farið í vinnu, sumsé keyra út þá skyndibita sem eldra afkvæmið og co. nutu. Við ætluðum að segja flottan brandara við yngra afkvæmið fyrir nokkru en þá kom í ljós að þessum brandara er skellt fram af pizzupönturum nánast alltaf hreint og afkvæmið orðið ógurlega leitt á honum. Brandarinn er svona: “Og þú ert náttúrlega kominn með símanúmerið hjá Obama???”

Ég ætlaði að skrifa um grein í Skímu um kennsluefni á Vef en nenni því ekki – kíkti aftur á greinina og hún var verri í seinna sinnið en mig minnti.

Ætlaði einnegin að skrifa helling um þá ákvörðun að leyfa ekki eða líta ekki framhjá reykingum á skólalóð. Nú eru reykjandi nemendur og kennarar að reyna að giska á lóðamörk. Svo standa menn við strikið, reykja hratt og skutla stubbnum yfir í næsta garð. Það er nefnilega bannað að hafa öskubakka víðast hvar; sennilega telja menn að þeir hvetji til reykinga. Þetta kemur annars ekki mál við mig, ég bý rétt utan lóðarmarka FVA, en er afskaplega óþægilegt fyrir aðra reykingamenn. Ég er handviss um að sá sem klagaði í heilbrigðisfulltrúa (eða álíka starfsheiti) gerði það ekki af umhyggju fyrir nemendum (þá gefur hann sér að nemandi sjái óvart  uppáhaldskennarann sinn reykja uppi á svölum og nemandi ákveður þá  umsvifalaust að taka hann sér til fyrirmyndar og skokkar eftir pakka útí næstu búð.) Nei, ég held að klögunin sé sprottin af Midlife Crisis, einhvers konar öfund eða beinbægni í garð stéttarinnar og væntanlega stóriðju einnig. Ég sé annars að þessi síðustu orð eiga vel við sem lokaorð: í garð stéttarinnar.

Ísakshús … og staðreyndir sem stangast á

Mér datt í hug að fara að hræra saman kennsluáætlunum og uppfæra áfangavefsíður … en sá að þetta er svo  óumræðilega leiðinleg iðja að ég snéri mér að öðru.

Rannveig Dýrleif Stefánsdóttir er hreint ekki eins dularfull og látið er!  Eiginlega er stórfurðulegt að Íslendingabók skyldi hafa komið ættinni í svo opna skjöldu sem varð. (Sorrí, ég er enn undir málfarsáhrifum frá Norðra og Lögbergi-Heimskringlu 🙂

Staðreyndir:  Pálína Jónsdóttir Laxdal var fædd 1869, gift Jóni Einarssyni og flutt á Raufarhöfn laust fyrir aldamótin 1900. Þáu eignuðust bara einn son. Svo þau hjón taka Rannveigu Dýrleif í fóstur.  Hún er fædd 1884 og því ekki nema 15 árum yngri en Pálína. Stelpuskottið hlýtur að hafa verið stálpað þegar það kom til Pálínu.

Ekki verður annað sagt að hún launi vel  fóstrið: Þegar Rannveig Dýrleif var gift kona (Ísaki)  lét hún frumburð sinn heita Jón Einarsson Ísaksson (f. 1904), elstu dóttur heita Pálínu Brynhildi en hún dó í bernsku og þá reynir Rannveig enn einn ganginn að koma nafni fóstru sinnar upp og lætur næstu dóttur heita Pálínu Hildi Ísaksdóttur. Sú Pálína Hildur dó í hárri elli í desember 2003.

Hégilja? Okkur var alltaf sagt að Pálína Hildur hafi harðbannað að láta heita í höfuðið á sér og því hafi móðursystir mín verið skírð Ásthildur, í höfuðið á báðum ömmunum (hin hét Ástfríður) og smyglað inn hálfu nafninu. Undarlegt.

Nafnið Rannveig Dýrleif er vægast sagt sjaldgæft. Okkar Rannveig Dýrleif var fædd 3. 10.1884 í Kræklingahlíð við Eyjafjörð. Til var önnur Rannveig Dýrleif Hallgrímsdóttir, fædd 13. sept. 1854, á Grund í Eyjafirði. Um þessa er sagt: “Frú Rannveig var þannig af góðum eyfirzkum ættum, fékk hún gott uppeldi og meiri mentun en alment gerðist á hennar uppvaxtarárum.” Hún krækti í enn einn Laxdals kauphéðininn, sá var Eggert Laxdal. Þau áttu þrjú börn sem öll dóu. Í minningarorðum um Rannveigu Dýrleif Laxdal, í Norðra 1906, segir að hennar sé nú sárt saknað, m.a. af uppeldisbörnum, en þau eru ekki nafngreind. Það hljóta að vera tengsl milli þessara tveggja nafna.

Í minningarorðum um Pálínu Hildi Ísaksdóttur (Mbl. 8. des 2003) segir: “Móðir Pálu, Rannveig, var tekin í fóstur og alin upp hjá Jóni Einarssyni, kaupmanni á Raufarhöfn og Pálínu Jónsdóttur Laxdal.”  Einnig segir:

“… Pála fæddist á Raufarhöfn og ólst þar upp fyrstu æviárin eða til 14 ára aldurs. Þar bjó fjölskyldan í húsi sem kallað var Ísakshús. Eftir því sem hún bezt vissi var búið í því fram á síðustu ár og hefur trúlega verið góður viður í því. … Foreldrar hennar, sem byggðu áður nefnt hús, byggðu einnig samkomuhús við íbúðarhúsið og þar var dansað og seldu þau kaffi og límonaði, vindla og sígarettur.”

Kommon! Hin dularfulla fósturdóttir er fimmtán árum yngri en frú Pálína og hefur varla verið lengi í fóstri sem barn. Kannski hefur hún átt að vera frú Pálínu selskapsdama eða þjónustustúlka? Rannveig lætur svo heita í höfuðið á þeim kaupmannshjónum og er elsti sonurinn jafngamall Fríðu ömmu (f. 1904) sem frú Pálína tók svo í fóstur.  Fjölskylda Rannveigar Dýrleifar flyst ekki frá Raufarhöfn fyrr en 1923, sem vill svo skemmtilega til að er sama árið og afi (Einar Baldvin Jónsson) og amma (Hólmfríður Árnadóttir) gifta sig.

Það er ótrúlega dularfullt hvernig Rannveig og fjölskylda hefur verið þögguð niður. Nema afkomendur Fríðu og Einars séu upp til hópa með selektífan athyglisbrest.

Hvar er Ísakshús?

Gleðilegt farsælt nýár!

Ég óska öllum í fjölskyldu og tengdafjölskyldu gleðlegs árs, sem og mínum dyggu lesendum. Megi nýja árið verða okkur farsælt.

Snuff óátalið á Moggabloggi

Ég er yfir mig hneyksluð á sofendahætti Moggabloggs / Morgunblaðsins; að umsjónarmenn þess séu ekki búnir að taka bloggarann Jens Guð og fleygja honum og hans bloggi út í hafsauga. Auðvitað hefur kona eins og ég samúð með fólki sem ekki gengur heilt til skógar (eins og margir á topp-tíu lista moggabloggins enda tæpast á færi nema öryrkja að blogga þrisvar-fjórum sinnum á dag / nótt) en einhvers staðar fær maður nóg. Núna er það linkurinn í snuff-myndina sem Jens hefur sett inn, hvar horfa má á manneskju drepna í alvörunni. Ég hef ekki skoðað myndbandið, til þess þykir mér of vænt um mig.

Ég leit á skilmála bloggsins og fann þessa gullvægu reglu sem Morgunblaðið hefur sett: „Með því að staðfesta þessa skilmála er notandi að staðfesta að hann beri ábyrgð á öllum skrifum, myndbirtingum, myndbandabirtingum og öðru efni sem birtist á síðu hans. Óheimilt er að birta á síðum efni sem særir blygðunarsemi manna. Morgunblaðið ber á engan hátt ábyrgð á því sem notandi eða þeir sem heimsækja síðu notanda setja á síðu notanda.“  Sumsé er óheimilt að birta „efni sem særir blygðunarsemi manna“ en Mogginn ætlar samt ekkert að  skipta sér af því bloggarinn sjálfur ber ábyrgð á að birta efni sem er óheimilt að birta!??!!

Jensi Guðmundssyni auglýsingateiknara hefur á einhvern dularfullan hátt tekist að sannfæra obba lesenda sinna um að hann hafi 5 háskólagráður eins og Georg Bjarnfreðarson. Það er merkilegt, ekki síst í ljósi þess að auglýsingateiknun taldist iðnnám og var kennd í Myndlista- og handíðaskólanum.  Núna heitir þetta nám grafísk hönnun en er líklega enn á framhaldsskólastigi. Um ævina hefur þessi maður síðan unnið sitt lítið af hvurju og virðist ekki hafa safnað ryki í sama starfinu lengi. Þannig að stórkarlalegar yfirlýsingar hans um menntun í markaðsfræði og markaðsfræðilegar rannsóknir sem hann hefur gert eru sennilega svipaðar og nemendur vinna í sálfræðiáföngum framhaldsskóla.

Nú má auðvitað spyrja sig af hverju ég sé að blogga um þetta mál.  Verður það ekki til þess að fjölga heimsóknum á blogg Jens Guðmundssonar? Virkar þetta eins og auglýsing? Á maður að láta „Sleeping Dogs lie“ og ekki skipta sér af misvitru eða misbiluðu eða misfullu fólki?  Þeir eru margir sem lýsa þeirri skoðun sinni í kommentadræsu guðsins, altso að sé ógislegt kík mar ekki …

Mér finnst gott að hreinsa minn huga af soranum með  bloggi. Þessi færsla virkar því svipað og brúsi af Brasso fyrir mig. Hún virkar væntanlega eins og blekbytta fyrir talsmenn algers tjáningarfrelsis.

Jólamyndir

Netið er í algeru fokki svo ég reyni ekki að skrifa færslu! Bendi á jólamyndir mannsins af fjölskyldunni, sjá http://this.is/atli/album/.