Category Archives: Uncategorized

Upplyfting Uppheima og meira um „stórvirkið“ Sögu Akraness

Svei mér ef ég get ekki sett upp enn einn greinaflokkinn – a.m.k. er ég staðráðin í að skrifa Sögu Sögu Akraness, sem er stórmerkileg, að mínu mati erkidæmi um neópótisma (sem hefur verið nefndur klíkuskapur á alþýðlegri íslensku), algeran skort á samviskubiti eða eftirsjá þótt ritun hafi dregist von úr viti og fé ausið óþrjótandi í hítina og ýmsum öðrum heillandi þáttum.

En þessi færsla er sprottin af auglýsingu útgáfufyrirtækisins Uppheima í dag: Þeir splæstu í opnu í Póstinum (vikulegum auglýsingasnepli okkar Skagamanna) og tilkynna útgáfu tveggja binda Sögu Akraness þann 19. maí (og eru með forsölutilboð, svo ég auglýsi nú fyrir hið góða útgáfufyrirtæki, í þessari færslu). Í auglýsingunni eru ekki spöruð stóru orðin! Má nefna að ritið er bæði kallað SANNKALLAÐ STÓRVIRKI og Fjársjóður öllum Akurnesingum og áhugafólki um sögu Íslands.

Fyrsta klausan segir: Þetta tímamótaverk er ótæmandi brunnur upplýsinga og fróðleiks um hvaðeina sem snertir sögu Akraness og varpar jafnfram nýju ljósi á uppruna fólks í landnámi Bresasona. (Pósturinn, miðvikudaginn 20. apríl 2011, 16. tbl., 14. árg., miðopna.)

Lewis drottninginÉg varð paff yfir að lesa enn einu sinni þessa staðhæfingu um nýja ljósið á landnámsmenn. Reikna með að þarna sé vísað í söguritara sem segir um þær rannsóknir sínar: Í þessu samhengi finnst mér tengingin við Suðureyjar afskaplega forvitnileg, bæði vegna Akraness og nálægra byggða beggja vegna Hvalfjarðar. Skýrt dæmi er hin nána samsvörun örnefna á eyjunni Lewis, eða Ljóðhúsum, við örnefni á svæðinu frá Mosfellssveit að Hafnarfjalli. … Af þessari samsvörun og ýmsu öðru finnst mér að megi draga þá ályktun að frumbyggjarnir hér um slóðir hafi komið frá þessu norræna-gelíska menningarsvæði og flutt með sér örnefni af heimaslóð líkt og þeir Íslendingar gerðu sem fluttust til Vesturheims undir lok 19. aldar. (Þórhallur Ásmundsson. Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Viðtal við Gunnlaug Haraldsson. Skessuhornið 15. tbl. 14. árg.  miðvikudaginn 13. apríl 2011, s. 15. Feitletrun mín.) 

[Myndin sýnir áhyggjufulla drottninguna úr hinum frægu Lewis-taflmönnum.]

Þetta er vissulega áhugavert efni en því fer fjarri að Gunnlaugur hafi uppgötvað nokkurn skapaðan hlut í þessu efni hvað þá að þarna sé varpað nýju ljósi á uppruna fólks í landnámi Bresasona. Ég reikna með að hann vísi rækilega í heimildir sínar í ritinu en það gerir hann ekki í viðtalinu heldur má nánast skilja sem svo að þetta hafi hann uppgötvað sjálfur. Sama gildir um auglýsingu Uppheima; hún er í skásta falli hártogað sannleikskorn nema svo vilji til að einhverjar tímamótauppgötvanir aðrar leynist í bókinni (sem ég hef vitaskuld ekki barið augum fremur en aðrir Skagamenn).

Árið 1955 benti Hermann Pálsson á það í bók sinni Söngvar frá Suðureyjum, s. 14, að í Ljóðhúsum sé Esjufjall og þar skammt frá Kjós, eins og á Íslandi. Hann nefnir einnig að í Kjós sé Laxá og bendir á að flestar víkur og vogar beri norræn heiti og nefnir þar á meðal Sandvík og Leirvog. [Hermann er að tala um Lewis, oft nefnd Ljóðhús í íslenskum heimildum en heitir Leòdhas á gelísku sem talið er þýða mýrlendi. Lewis er hluti af Lewis-Harris, sem er stærsta eyjan í Suðureyjaklasanum.]

Þetta tekur Helgi Guðmundsson upp í bók sinni Um Kjalnesinga sögu. Nokkrar athuganir, s. 109 (Studia Islandica 26, útg. 1967) og segir: Það má gera ráð fyrir að landnámsmenn hafi að einhverju leyti flutt með sér örnefni úr heimahögum sínum. Hann bendir svo á vandamálið að um leið og norrænir menn náðu yfirráðum yfir Lewis var gelíska tekin upp (áður var töluð péttneska á eyjunum, sem menn telja að hafi verið keltneskt tungumál, e.t.v. skylt bretónsku og welsku, en gelíska er aftur á móti önnur grein keltneskra tungumála) og því séu norræn örnefni nú mörg í gelískri mynd á Lewis. Helgi telur svo upp fjölda örnefna í 20 km loftlínu sem endurspeglast nánast í sömu mynd og sömu fjarlægðarhlutföllum frá Hafnarfjalli til Mosfellssveitar. Hann bendir á að mörg örnefnin séu ekki sjaldgæf en örnefnaraðirnar eru athyglisverðar og geta stutt það, að Landnáma fari rétt með uppruna landnámsmanna á þessum slóðum. (s. 110) Það er dálítið athyglisvert að bera þetta saman við orð Gunnlaugs í viðtalinu í Skessuhorninu, svo ekki sé meira sagt.

Helgi hefur svo fjallað nánar um þetta í bókinni Um haf innan. Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. (Háskólaútgáfan, 1997) og segir á s. 194: Af þessu verður kannski ekki dregin önnur ályktun en sú að örnefnin hafi verið gefin á svipuðum tíma á báðum stöðum. Það passar ágætlega við þá kenningu að norrænir menn hafi lagt undir sig Lewis á 9. öld og haft með sér gelíska þræla; bæði norrænan og gelískan hafi nánast strax útrýmt péttnesku (eða öllu heldur Péttunum kálað) og menn hafi jafnvel almennt verið tvítyngdir á norrænu og gelísku. Úr því péttnesku heitin voru ekki lengur til þurftu norrænu ribbaldarnir að gefa landslaginu ný nöfn og gelísku þrælarnir gerðu eins. Svo flutti slatti af norrænu ribböldunum annað, t.d. til Íslands, og tóku kannski með sér nokkra gelíska þræla eða ambáttir til karnaðar sér, jafnvel eiginkonur. Lewis hélst aftur á móti undir Noregskonungi til ársins 1266.

Bæði Helgi Guðmundsson og Hermann Pálsson hafa fjallað ítarlega um örnefni og uppruna vestrænna landnámsmanna, sjá bók Helga sem minnst var á í fyrri málsgrein og bók Hermanns, Keltar á Íslandi (Háskólaútgáfan, 1996). Báðir hafa vakið athygli á hve litlar upplýsingar eru um landnámsmenn Akraness og hve mikill munur er á á lýsingu Sturlubókar og Hauksbókar Landnámu, sem eru aðalheimildir fyrir því.

Í Sturlubók segir: Bræður tveir námu Akranes allt á milli Kalmansár og Aurriðaár; hét annar Þormóður; hann átti land fyrir sunnan Reyni og bjó að Hólmi. Ketill átti Akranes fyrir vestan og fyrir norðan Akrafell til Aurriðaár. Hans son var Jörundur hinn kristni, er bjó í Görðum; þar hét þá Jörundarholt.   

Innri HólmurÍ Hauksbók segir aftur á móti á þessa leið: Þormóður hinn gamli og Ketill Bresasynir fóru af Írlandi til Íslands … þeir voru írskir. Kalman var og írskur … [Í Sturlubók er Kalman ekki tengdur við Bresasyni en sagt á öðrum stað Maður hét Kalmar suðureyskur að ætt. Raunar segir á samsvarandi stað í Hauksbók: Maður hét Kalman suðureyskur.

Í Hauksbók er troðið inn sem víðast írskum uppruna enda taldi Haukur lögmaður sem lét skrifa bókina að hann væri sjálfur af írskum konungsættum. Sagnir um að Ásólfur alskik, sem bjó m.a. í Innra-Hólmi og var barnabarn Ketils Bresasonar, hafi verið írskur og um hans írskættuðu kraftaverk (helgisagnir) eru í útgáfu Hauks. Sömuleiðis upplýsingar um að kirkjan á Innra-Hólmi hafi verið helguð Kólumkilla, St Columba, þjóðardýrlingi Íra (sem kristnaði reyndar Suðureyjar fyrir daga norrænna íbúa þeirra). Þetta er ágætlega rakið bæði í bók Helga Guðmundssonar, Um haf innan, og í bók Hermanns Pálssonar, Keltar á Íslandi, og báðir byggja mjög á rannsóknum Jóns Jóhannessonar á Landnámu. Um helstu handrit Landnámu má lesa á Vísindavef.  Loks má geta þess að Hermann Pálsson staðhæfir að þar sem landnámsmenn voru taldir írskir hafi kristni lítt haldist eftir landnám en miklu fremur þar sem landnámsmenn voru taldir suðureyskir. Væri gaman að vita hversu sterk kristnin reyndist í landnámi Bresasona, sem gæti gefið frekari vísbendingar um uppruna landnámsmanna 🙂

Hugsanlega hefur Gunnlaugur söguritari fundið einhver fleiri örnefni sem styðja suðureysku speglunarörnefnakenninguna. Ég vona það því þessi fræði má rekja meir en hálfa öld aftur í tímann og geta því alls ekki borið uppi nýja auglýsta ljósið Uppheima. Tiltölulega nýlega hafa menn haldið á lofti nýrri kenningu um nafnið á Skilmannahreppi, sumsé að þar sé suðureyska árheitið Sheil grunnurinn. Reyndar er þetta ekki talið gelískt orð heldur eitt af örfáum péttneskum orðum sem varðveist hafa á Suðureyjum, m.a. á Lewis. Og um er að ræða ágiskun og ég hef aldrei heyrt rökin fyrir kenningunni um Skilmannahrepp, einungis að þau þyki heldur hæpin. En þessi kenning er a.m.k. tiltölulega ný af nálinni – ekki hálfrar aldar gömul.

Ég á enn eftir að muna hvar ég hef séð kortið sem Gunnlaugur hefur látið teikna upp á nýtt í bókina sína, sem sýnir samsvörun örnefnanna sem Helgi Guðmundsson og Hermann Pálsson hafa marg-fjallað um (og fleiri – ég mátti bara ekkert vera að því að lúsleita í bókasafninu í dag heldur greip það sem hendi var næst). Hugsanlega er kortið komið úr einhverri af bókum Magnúsar Magnússonar … hugsanlega rifjast upp fyrir mér hvar ég sá kortið og hugsanlega getur einhver lesandi upplýst málið.

Af því sem ofan hefur verið rakið er ljóst að kenning um suðureyska landnámsmenn á Akranesi og í nágrenni er hundgömul og vel þekkt. Hún hefur einnig verið vel rökstudd af virtum fræðimönnum.

Írskir dagarHvaðan kemur þá þessi mikla áhersla á að landnám hér hafi verið írskt og við skulum halda upp á írska daga á sumrin og Skagamenn þáðu minnismerki frá Írum, til minningar um írskt landnám? Sú hugmynd styðst eingöngu við Hauksbók Landnámu sem fyrir lifandis löngu var bent á að væri heldur hlutdræg þegar kæmi að Írum!

En henni hefur verið haldið mjög á lofti hér á Skaganum, t.d. í þessari klausu sem er á vef Akraneskaupstaðar undir yfirskriftinni Nánar um hina Írsku [svo] arfleifð: Írar námu land á Akranesi og í bókinni Akranes – saga og samtíð er þennan texta að finna: Litlu eftir 880 komu af Írlandi tveir bræður, þá talsvert fullorðnir, ásamt uppkomnum börnum og öðru fólki. Eiginkvenna þeirra er eigi getið. Þessir bræður voru Þormóður og Ketill Bresasynir, bornir og barnfæddir á Írlandi, en af norskum ættum. Bresasynir námu Akranes allt, Þormóður sunnan Akrafjalls og Ketill norðan. …  Og hver skyldi hafa skrifað textann í þessari 23 síðna ljósmyndabók, sem heitir reyndar Akranes: saga og samtíð og kom út 1998? Enginn annar en okkar góði söguritari, Gunnlaugur Haraldsson.

Meira að segja Jón Böðvarsson, sem ekki þótti þó skila góðu verki, skrifaði í sína útgáfu af sögu Akraness að það væri alls ekkert víst að Bresasynir væru írskir, þeir hefðu líklegast komið frá norrænu-gelísku svæði og svo telur hann nokkra möguleika, þ.á.m. Suðureyjar, Orkneyjar og Skotland. Svoleiðis að nútímaþjóðsagan um að Ketill og Þormóður hafi verið bornir og barnfæddir á Írlandi verður ekki rakin til hans og þá ekki heldur ferðamannahúllumhæið Írskir dagar. Sem hljóta að breytast í Suðureyska daga eftir að Stórvirkið birtist og þá getum við látið unglingana okkar leika Þórgunnu, Hrapp og Þjóstólf, í stað grænna írskra álfa og veifað máttugri hlutum en grænum og appelsínugulum blöðrum 😉

Þetta er orðin svo löng færsla að ég geymi mér umfjöllun um staðhæfinguna geymir yfirgripsmikla og þaulunna lýsingu á samfélagi bænda og sjómanna á átakatímum, þegar sjóþorpið Akranes byggðist upp (tilv. í fyrrnefnda auglýsingu Uppheima), þótt ég hafi verið búin að finna nokkur ansi skemmtileg dæmi um orðið sjóþorp (sem er sem sagt ekki nýyrði sem Gunnlaugur hefur fundið upp, eins og mér var sagt í dag). Sú færsla býður líka upp á spennandi tengingu við skólamál, sem er jú alltaf jafngaman að fjalla um.  

Og Saga Sögu Akraness er kapítuli útaf fyrir sig. Reyni að gera henni nokkur skil fljótlega. Biskupsglófar og útprjónaðar svissneskar dýrlingaskjóður frá miðöldum verða að bíða um stund.

  

Facebook, goðsagnir og notkun

Ég hef undanfarið lesið bloggið hennar Evu Haukdsdóttur, Sápuóperu, mér til mikillar ánægju. Því fer fjarri að ég sé alltaf sammála henni en hún skrifar ákaflega góðan texta  og skoðar oftast mál frá ýmsum hliðum. Síðustu tvær færslur Evu fjalla um Facebook, annars vegar “Þú ert með nauðgara á vinalistanum þínum” og hins vegar “Er facebook að gera okkur sjálfhverfari?” Í þeirri síðarnefndu vísar hún í höfundarlausan pistil á Róstrum, “Tengsl milli sjálfsdýrkunar og Facebook-notkunar“. Loks sá ég að Sölvi Tryggvason rær á sömu mið enda heldur hann sig auðvitað í þeim umræðuefnum sem hann telur í tísku hverju sinni, í pistlinum “Fall Fésbókar” í dag en Sölvi stenst náttúrlega engan veginn samanburð við Evu og er í rauninni óþarfi að lesa þá stuttu bullfærslu. Hún minnir mjög á bölsýnisraddir um að internetið væri bara bóla og í versta falli til óþurftar, sem heyrðust víða laust fyrir 1990, hér á landi. Kannski eru orð gömlu frúarinnar í Downtown Abbey (var að horfa á síðasta þáttinn á danska, í dag): “Fyrst kemur rafmagnið, svo sími; Mér finnst ég vera persóna í skáldsögu eftir H.G. Wells!” dálítið lýsandi fyrir viðhorf Sölva,  fyrrum andstæðinga internetsins og bænda þegar leggja átti símalínur forðum. 

Hundur á FBSvo við byrjum á Róstur-greininni þá hefst hún svona: “Facebook-notendur eru almennt úthverfari og uppfullari af sjálfsást en þeir sem ekki nota síðuna samkvæmt rannsókn sem gerð var í Ástralíu, en niðurstöður hennar voru gerðar opinberar í tímaritinu Computers in Human Behavior nú á dögunum.” Málfarið gefur strax tóninn um gæði greinarinnar (þótt ég sé ekki málfarsfasisti að upplagi þá þekki ég orðið unglingaþýðingar hvort sem Pjattrófurnar eða aðrir standa að þeim). Önnur gullkorn fylgja fljótlega: “Spurningar snéru að þáttum á borð við úthverfu, geðfeldni, vandvirkni, taugaveiklunar og opins huga gagnvart því að upplifa nýja reynslu. Einnig tilhneigingar til sjálfsdýrkunar, feimni, einmannaleika, og að lokum því sem einkenndi Facebook-notkun hvers og eins.”

Ég kíkti á rannsóknina sjálfa, “Who uses Facebook? An investigation into the relationship between the Big Five, shyness, narcissims, loneliness, and Facebook usage” og sá að greinarhöfundur Róstra var ekki bara illa máli farinn í sínu móðurmáli heldur illa fær um að skilja enskan texta því það sem eftir er haft er sumt rangt og sumt oftúlkað. T.d. eru höfundarnir ekki prófessorar heldur önnur dósent og hin nemandi. Og þetta er ekki einstæð rannsókn af því flestar svona rannsóknir hafi verið unnar af háskólanemum áður heldur vegna þess að notendahópar sem hafa verið rannsakaðir hafa oftast verið háskólanemar. Í þessari rannsókn var hluti úrtaksins utan háskóla og eldra fólk en háskólanemar (í hópunum var fólk á aldrinum 18-44 ára).

Niðurstöður rannsakenda eru varlega orðaðar, bent er á að úrtakið hafi verið afar lítið og að val þátttakenda kunni að hafa verið mislukkað; jafnvel hafi menn logið til að komast að í rannsókninni. Jafnframt sé hætta á að vægi þeirra sem nota internetið sérstaklega mikið hafi verið of hátt í rannsókninni því allir þátttakendur voru valdir af netinu. Að vísu kom fram að þeir sem hafa sérstaklega sterka sjálfsdýrkunarpersónuleikadrætti nota FB umfram aðra en bent var á að þeir þekkust vel úr af því að þeir leggi ofuráherslu á myndbirtingar. Feimið fólk reyndist ekki nota FB meir en hver annar en fólk sem skoraði hátt á hugsýkiskvarða (höfundur í Róstrum kallar það taugaveiklað) skoðaði FB meir en aðrir, oft án beinnar þátttöku á FB. Einsemd meðal þeirra sem ekki notuðu FB mældist meiri en einsemd þeirra sem notuðu FB. O.s.fr. Það sem einkum stingur í augu í þessari rannsókn sem sýndi “sláandi niðurstöður”, að mati Róstrapennans, er að úrtakið var einungis 1158 FB-notendur og 166 manns sem ekki notuðu FB. Leikmaður eins og ég setur stórt spurningarmerki við fámennið, einkum í samanburðarhópnum, og spyr hvort þetta geti mögulega talist marktæk rannsókn.

Ég hef samt litlar áhyggjur af unglingunum sem lepja vitlaust upp rannsóknarniðurstöður og greina ekki milli vel og illa unninna rannsókna því hver les svo sem Róstur?

Eva Hauksdóttir veltir upp mörgum spurningum í sambandi við þessa grein og vitnar í eigin FB, þar sem henni gengur illa að finna áberandi sjálfsdýrkendur eða “taugaveiklað” lið. Ég hugsa að ég myndi lenda í sömu vandræðum. Aftur á móti nota ég sjálf FB mikið vegna einangrunar og pappírslega séð fell ég undir “taugaveiklaða” fólkið (vegna sjúkdómsins þunglyndis) þótt ég telji mig fremur úthverfan persónuleika að öllu jöfnu (vonandi samt ekki með sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun). Augljóslega notar fólk sem ekki kemst út úr húsi dögum, vikum eða mánuðum saman þau verkfæri sem bjóðast til að eiga samskipti við fólk. Auk þess á ég oft erfitt með tal, sérstaklega í síma, þegar ég er mikið lasin.

Hundur á kattalistaHin færslan hennar Evu, “Þú ert með nauðgara á vinalistanum þínum” fannst mér enn betri. Þar er annars vegar fjallað um vinalista – hins vegar hið áhugaverða sjónarmið að suma glæpi megi fyrirgefa eða a.m.k. líta fram hjá (sýna miskunnsemi) eftir að afplánun lýkur en aðrir fyrnist aldrei í huga fólks. Ég er mjög sammála umfjöllun Evu en finnst þó að hún gleymi ákveðnum hluta fólks, cyberpaths, þ.e. siðblindum, sem eignast hafa víðar veiðilendur með tilkomu samskiptasíðna á netinu, ekki hvað síst FB.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hafa kynferðisafbrotamann eða ofbeldismann á mínum vinalista ef ég er viss um að viðkomandi hefur iðrast og afplánað og sé ólíklegur til að endurtaka leikinn. Oft stafar glæpurinn af stjórnleysi sem fylgir fylleríi eða vímuefnamisnotkun, eins og Eva bendir á, og fyllibyttur geta orðið ágætis manneskjur þegar þær verða edrú og ná tökum á lífi sínu.

Öðru máli gegnir um siðblinda. Ég kæri mig ekki um að skaffa álitlegan vinkonulista sem svoleiðis menn geta notað til að húkka næsta fórnarlamb. Eini kosturinn við siðblinda er að þeir eru svo fáir, um eða innan við 1% af körlum, miklu færri konur og þótt þeir svífist einskis er auðvelt að sjá við þeim þekki maður einkennin, því trixin eru þau sömu og aðferðir afar fyrirsjáanlegar. Gallinn er sá að af því svo lítið hefur verið talað um þessa alvarlegu geðröskun hér á landi vara sennilega fáir / fáar konur sig á manngerðinni.

Illgirni á FBTalandi um vini: Ég hef þá stefnu að halda í tiltölulega fáa vini (talan 99 er óskatala). Um daginn tók ég til og eyddi uppundir 40 manns af listanum. Þetta var fólk af ýmsu tagi, t.d. fólk sem ég þekkti lítið sem ekkert og hafði aldrei nein samskipti við, fólk sem var að drekkja mér í rósum og leikföngum og öðru FB-drasli, fólk sem skrifaði ótal statusa á dag um æseif eða hneykslisfærslur um hvað þessi eða hinn stjórnmálamaðurinn, leiðtoginn, verkalýðsforinginn eða bara einhver í fréttum þann daginn væri heimskur, spilltur o.s.fr., þ.e. fólk sem virtist hafa einstaklega neikvæða sýn á lífið og vera afar upptekið af því að hneykslast á öðrum. Síðarnefnda hópnum fylgdi síðan iðulega dræsa af kommenterum sem stundum fóru langt langt yfir strikið í skikkanlegri framkomu. Ég hugsaði með mér að ef ég sæktist eftir svonalöguðu gæti ég náttúrlega alveg eins legið yfir fésbókarkommentum við DV “fréttir”, moggabloggum um fréttir eða skítkast kommentera á Eyjunni. Eða lesið DV-blogg. Og af því ég sækist ekki eftir illmælgi sérstaklega þá kastaði ég þessum vinum fyrir róða. Það þýðir hins vegar ekki að það megi ekki minnast á pólitík svo ég sjái á minni FB. Það sem skiptir máli er hvernig það er gert.

Ég var orðin hundleið á að skruna kannski meir en skjáfylli niður fésbókina mína á morgnana til að reyna að finna eitthvað sem mig langaði að lesa eða kommentera við, einhvers staðar innan um draslið. Svo það var grisjað.

Ég hélt eftir fjölbreyttum hópi FB-vina; ættingjum, góðum vinum, fyndnu fólki, fólki sem mér finnst ég eiga eitthvað sameiginlegt með, fólki sem mér finnst gaman að vera ósammála, fólki sem ég þekki í kjötheimum og fólki sem er einstaklega jákvætt og gleður mig oft með jákvæðri lífssýn þótt ég sé ekki sammála þeim um alla hluti. Fólkið sem ég á sitthvað sameiginlegt með er ekkert endilega fyndið, orðheppið eða jákvætt en það er nú vegna þess að margir þeirra hafa sinn djöful að draga. Það fólk er raunsætt og gefur mér mikið.

Ein fyrrum FB-vinkona mín (sem mér fannst sjálf oft skemmtileg en þessi kommenterahirð í kringum hana hefði gert dýrling að grátkonu eða púka!) benti á að maður gæti “falið” vini sem maður vildi ekki sjá stöðuuppfærslur frá. Þeir sem eiga yfir þúsund vini, jafnvel mörg þúsund, hljóta að grípa til einhverra svoleiðis ráða. Þetta að “fela” vini minnti mig svolítið á óhreinu börnin hennar Evu. Átti ég að eiga fullan fésbókarskáp af álfum? Mér finnst þetta dálítið óheiðarleg aðferð en sjálfsagt eru margir ósammála mér um það.

En hver sníður sína FB að sínum þörfum. Það þýðir ekkert að vera að væla yfir hvernig FB er, hvort þar séu aðallega sjálfhverfir, úthverfir sjálfsdýrkendur, taugaveiklað, einmana fólk eða að maður geti ekki losnað við fésbókina sína nema brjóta tölvuna. Það þýðir ekkert að væla yfir að maður eigi svo marga vini að aldrei sé neitt bitastætt að finna á fésbókinni manns. Það þýðir ekkert að pósta bréf út og suður til að tilkynna einhverju fólki að það geymi óæskilegan vin í sínu vinasafni. Það eina sem maður getur gert er að passa sína eigin FB, velja sér sína eigin vini og leyfa öðrum að lifa sínu FB lífi eins og hverjum og einum finnst réttast.

Alveg eins og maður passar sitt eigið blogg og sinn eigin tölvupóst. Af hverju ætti annað að gilda um Facebook?

“Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar”

Þetta er bein tilvitnun í opnuviðtal við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness, sem birtist í nýjasta Skessuhorni (13. apríl 2011). Ég hef hugsað mér að gera þessi orð að mínum en ekki að gera vinnulagið að mínu.

HöfrungurÍ rauninni er þetta ótrúlegt viðtal, svo ekki sé meira sagt! Eins og alþjóð veit er blaðsíðan í Sögu Akraness þyngdar sinnar virði í gjaldeyri, gott ef hún var ekki verðlögð á 10.000 kall síðast þegar ég vissi, miðað við hvað búið er að greiða söguritanda sem engu skilaði af sér fyrr en um miðjan janúar á þessu ári. Hann hóf verkið 1997 og enn hefur ekkert komið út, kemur þó fram í lok viðtals að bráðlega muni fyrri tvö bindin (af þremur) birtast í firnastóru broti”.

Sem sagt: Liðin eru 14 ár og það eina sem Skagamenn hafa séð eru firnamargar fundargerðir Ritnefndar Sögu Akraness (heitir í greininni sögunefnd Akraness) og núna mynd af söguritara með margar möppur í baksýn, sem ku fullar af dýrmætum ljósritum sem nýtast hafa (munu?) við söguritunina. … hátt í 200 bréfabindi … um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.” Ja, ég skal segja ykkur það! Úr dönsku!

Borið saman við simpla doktorsritgerð þá eru ætluð 3- 4 ár til að klára svoleiðis í Hugvísindadeild (t.d. er í sagnfræði- og heimspekideild  miðað við 3 ára vinnu en 4 ár í íslenskudeild), má sækja tvisvar um framlengingu í eitt ár ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Ég kíkti á tvær svoleiðis ritgerðir uppi í hillu, önnur er um 270 síður, hin tæpar 500 síður (sú er í heldur stærra broti en gerist og gengur). Hvorug er myndskreytt. Af heimildalista verður ekki betur séð en höfundarnir hafi verið duglegir að leita, pæla o.s.fr. á skjalasöfnum og þýtt úr talsvert fleiri málum en dönsku. Saga Akraness verður rúmlega 1100 síður og brotið eins og áður sagði firnastórt. En vonandi er talsvert af myndum á þessum síðum, a.m.k. ef einhver von á að verða til þess að ímyndaður lesandi komist í gegnum hana. Raunar hef ég aldrei skilið þegar fólk gumar af lengd sinna ritsmíða. Það er líklega afleiðing af margra ára kennsluferli þar sem kennari vann stöðugt að því að fá nemendur til að bulla minna, vera kjarnyrtari og halda sig við efnið í stað þess að einblína á síðufjölda. Eða afleiðing af vefsíðugerð í meir en 15 ár þar sem maður lærir þá gullnu reglu Less is more”. (Ekki að ég brjóti hana ekki hikstalaust ef því er að skipta … og álít að hún eigi ekki við um blogg af mínu tagi þótt hún eigi kannski eitthvað við vefina sem ég slæ.)

Það má því ætla að Saga Akraness verði ígildi svona fjögurra doktorsritgerða í efnisöflun og efnistökum, miðað við þá gífurlega vinnu sem höfundur tíundar í þessu viðtali.

Í viðtalinu er slegið upp kortum af Ljóðhúsum og Akranesi + Kjalarnesi og nánast látið að því liggja að höfundurinn hafi uppgötvað samsvaranir í örnefnum og dregið af því þá ályktun að þeir Bresasynir hafi komið af þeim slóðum. Um Ljóðhús segir að hún sé stærst hinna fjölmörgu eyja í klasanum vestur af Skotlandi”. Ég held að flestir hafi heyrt talað um Suðureyjar (a.m.k. þeir sem hafa verið nemendur mínir) og óþarfi sé að kalla þær klasann vestur af Skotlandi”. Þessi örnefnasamsvörun hefur verið þekkt lengi, í fljótu bragði man ég eftir Gísla Sigurðssyni og Helga Guðmundssyni sem hafa fjallað um þetta en líklega einnig Svavar Sigmundsson og eflaust fleiri. Svo þetta er nú ekki nein stórkostleg uppgötvun Gunnlaugs! Og ályktunin um uppruna landnámsmanna á Akranesi og Kjalarnesi hefur margoft komið fram einmitt í tengslum við samsvaranir örnefnanna. En kortið í Skessuhorninu er sérteiknað og sjálfsagt nýborgað og algerlega ólæsilegt svo kannski halda einhverjir lesendur að þetta séu glæný merkistíðindi.

Höfnin á AkranesiÉg veit ekki hvaða tilgangi viðtal á heilli opnu átti að þjóna. Aflát? Það hefur a.m.k. mistekist því viðtalið einkennist af gorgeir. Þeim sem hafa nasasjón af fræðilegum vinnubrögðum finnst það e.t.v. fyndið? En ég forhertist enn í þeirri skoðun að þetta rit skuli aldrei inn fyrir mínar dyr. Það er nóg að hafa þegar greitt sinn part í þessum 100 milljónum sem bærinn er búinn að spreða í verkið, með útsvarinu sínu. (Leiðréttið mig í kommenti ef talan er röng, hugsanlega hefur Jón Bö. fengið eitthvað af þessum peningum fyrir bindin af Sögu Akraness sem hann skrifaði ekki.) Mér er ekki kunnugt hvað bærinn hefur svo blætt í myndirnar sem væntanlega skreyta verkið eða hversu mikið hann borgar Uppheimum fyrir að gefa verkið út. (Uppheimamenn eru skynsamir og gera sér örugglega grein fyrir því að þessi bók selst ekki svo varla taka þeir fjárhagslega ábyrgð sjálfir.) Þeir Skagamenn sem ég hef heyrt tjá sig um framtakið eru fjúkandi reiðir yfir þessu gæluverkefni bæjarins(nema einn, sem var í ritnefndinni árum saman, gott ef ekki formaður á tímabili,  og hefur sjálfsagt átt sinn þátt í að skaffa Gunnlaugi þetta verkefni) og ég veit ekki um neinn sem gæti hugsað sér að kaupa þetta. En bæjarapparatið fær líklega  megnið af lagernum sem einstakar stofnanir geta svo spreðað í merkisafmælisgjafir eða aðrar merkisgjafir næstu hálfu öldina.

Nú er ég sjálf að skrifa sögu, ekki Skagans heldur prjóns. Svei mér ef ég þýði ekki af ensku, dönsku og þýsku við verkið og hugsanlega verð ég að droppa á skjalasafn þegar á líður, vona þó ekki því nokkrar framfarir hafa orðið í að gera gamalt íslenskt efni aðgengilegt á vefnum og miklu meiri framfarir í að gera álíka útlent efni aðgengilegt á sama stað. Ég hef safnað heimildum á aðskiljanlegum bókasöfnum en reyndar þurft að kaupa nokkrar bækur að utan því þær eru ekki til hér á landi.

Prjónaður riddariAf heilsufarsástæðum vinnst mér hægt. En tíminn sem mun taka að skrifa um sögu prjóns frá upphafi verður þó aðeins brotabrot af þeim tíma sem tók að skrifa sögu svæðisins hér og þeirra örreytiskota sem hér voru. Og kannski er aðalmunurinn sá að ég tek ekki krónu fyrir verkið, það verður öllum aðgengilegt og hvorki hægt að mæla í blaðsíðum né broti því það birtist á vef. En að sjálfsögðu mun ég hafa  það þýðir ekkert hér um bil …” að leiðarljósi þótt ég kunni betur við að orða það svo að vel skuli vanda það sem lengi á að standa eða maður verði sæll af verkum vel.

Prjónasöguvefurinn er í fæðingu – sjá http://this.is/harpa/saga_prjons/index.html. Athugasemdir eru vel þegnar.

  

OMG, skjaldarmerki og annað snakk

OMGSíðan ég hætti að skoða umræður um Æseif, vonda karla, góðar konur sem eru fótum troðnar í karlasamfélagi, Ómægod-hneykslunarblogg kerlinga af báðum kynjum, illa þjóðhöfðingja sem teljast réttdræpir (soldið mismunandi eftir bloggurum og effbéurum hverjir það nákvæmlega eru og sýnist reyndar sitt hverjum) og annað af sama tagi finn ég stóran mun á mér! Reyndar eru ekki nema rétt tveir sólarhringar sem ég hef staðið við þetta (hef oft ákveðið svona áður en dett alltaf “óvart” og “óforvarendis” í sorann) en það er greinilega gott fyrir sálina að slökkva á vælinu og úthúðuninni og hneyksluninni. 

Sumt blogg og sumir umræðuþræðir á FB minna mig samt skemmtilega mikið á ekta Raufarhafnarbúa (þ.m.t. skyldmenni) sem tala í ekta Raufarhafnartónfalli. Hef tekið eftir að ég les þau blogg ósjálfrátt (inni í mér) með slíkri norðlenskri syngjandi, þar sem málsgrein endar jafnvel áttund hærra, sem gerir hneykslun og skítkast miklu skemmtilegra. Kannski ég ætti að lesa þau upphátt? (Ef ég dett aftur í sorann …). Lesendum færslunnar er bent á að ég hef hvergi heyrt þetta tónfall og þessa ítónun nema á Raufarhöfn, heyrist t.d. ekki á ættingjum frá Kópaskeri, hvað þá þegar vestar dregur.

Mér finnst ég vera dálítið að hressast. Kannski er það ímyndun en það er þá ágætis ímyndun. Kannski virkar lyfið sem ég et núna (hef reyndar ekki mikla trú á því), kannski virka nálastungurnar, kannski er bara helvítis kastið að láta undan síga af eigin líffræðilegum ástæðum?

En ég sætti mig við það að gera allt óendanlega hægt og óendanlega lítið í einu. Þetta lærist. Núna er ég t.d. að dunda mér við að klippa runna í garðinum og tek einn runna á dag, það hentar prýðilega og ég næ örugglega að klippa fyrir maíbyrjun 🙂  Skipti helgarþrifum á þrjá daga (þegar ég var frísk, fyrir löngu, skveraði ég þeim af með annarri hendi á tveimur tímum), les pínulítið, skrifa pínulítið og geri yfirleitt allt í örskömmtum. Enda hef ég loksins fengið kort upp á að ég eigi að ör-yrkja. Það er miklu fínna að eiga svona kort heldur bara einhverja pappírsbleðla í möppu, skal ég segja ykkur. Og það er fínt að geta þó gert sitt lítið af hverju.

Sem stendur er ég aðallega að setja mig inn í tákn, byrja náttúrlega á að komast inn í kirkjuleg tákn enda hangir það saman við heimildaleit um biskupshanska og jafnvel biskupssokka. Ofan á það bættust svo litafræði um biskupshanska og kardínálahanska og jafnvel prestahanska frá því laust fyrir 1000 og frameftir. Í leiðinni tók ég eftir hvað þessir biskupar hafa verið ansi hlýlega klæddir, í hverju fatinu yfir öðru svo nútíma útivistarfræðingur hefði orðið hreykinn af! (Allir sem eitthvað hafa stundað göngur og fjallgöngur vita hvað er óskaplega mikilvægt að vera í mörgum spjörum hverri yfir annarri … þetta virðast kaþólskir biskupar hafa uppgötvað fyrir löngu enda eflaust skítkalt í kirkjum fyrr á tímum). Í dag fann ég mynd af biskupssokkum sem mér finnst dálítið hæpin – vissulega er þetta gamalt prjónles en ég á bágt með að trúa að kaþólskur biskup hafi látið sig hafa það að ganga með “Blessun Allah”, prjónað út með kúfísku letri um ökklann. Þótt islömsk blessunarorð hafi ekki truflað spænska konungaætt er kannski doldið annað mál með kirkjuna … en e.t.v. var biskupinn einföld og góð sál og hélt að þarna væri kominn smart munsturborði gerður með hinni spánnýju tækni?

Skjaldarmerki de la CerdaSkjaldamerki de la Cerda hvenærSvo ætlaði ég að teikna upp munstur af frægum “líksvæflum” (er ekki enn komin með tækniorðið á hreint en þessir tveir svæflar voru undir höfðum líka í kistu í steinþró …) en lenti í vandræðum því heimildum ber ekki saman um litina. Ég hef áttað mig á því að þessi lita-ágreiningur hlýtur að stafa af skjaldarmerki ættarinnar. Og nú er ég að reyna að finna út hvunær kastelíska konungsættin breytti úr rauðum ljónum yfir í fjólublá ljón. Svona getur áhuga á hannyrðum skaffað manni alls konar aukaáhugamál. 

Einhvern tíma var ég búin að setja mig svolítið inn í þessa ætt og datt þá í hin og þessi drömu sem ekki gefa Íslendingasögunum neitt eftir en því miður hef ég gleymt því mestöllu og þarf að endurlesa. 

Það hjálpaði reyndar svolítið til þegar mér datt í hug í dag að athuga hvað fleira hefði verið í steinþrónum og fann út að hann Fernando de la Cerda (dáinn 1275) var klæddur í ljómandi fínan ofinn kyrtil (eiginlega kaftan) munstraðan með skjaldarmerkinu, með perlusaumaðan hatt með bútum úr skjaldarmerkinu og perlusaumað belti með … giskið! En vefnaðurinn er voðalega upplitaður og sker svo sem ekki úr um hvort ljónin hafa einhvern tíma verið fjólublá eða rauð. Síðast þegar ég var að skoða þetta datt ég svo í forvera hans, Alfonso X af Kastelíu, sem var óskaplega merkilegur kóngur; þýddi stjörnufræði úr arabísku og einhverja heimspeki líka o.s.fr. … en kemur því miður ekki hannyrðum neitt við. Fernando de la Cerda var einhvers konar óekta barn, átti samt að taka við ríkinu en dó á besta aldri og varð aldrei kóngur. Þetta slekti var svo einhvern veginn skylt henni Elenor sem var móðir Ríkharðs ljónshjarta … og mig minnir að a.m.k. ein verulega vond kona hafi verið með í ættardrömunum.

Hvergi nokkurs staðar á hinum víða veraldarvef eða í bókum sem ég hef skoðað finn ég myndir af hönskunum Maföldu litlu, sem var holað í aðra steinþróna með hinum Fernandó-inum og öðrum svæflinum. Lýsing bendir til að þetta hafi verið ómerkilegir hvítir prjónaðir línhanskar og auk þess einstaklega illa farnir en það væri samt gaman að berja þá augum.  

Lífið er sem sagt skárra en verið hefur um langt skeið. Að vísu er ég kramaraumingi líkamlega og verð að leggja mig á daginn eins og litlu börnin. Og nætursvefn er alltaf jafn spennandi ófyrirsjáanlegur – sumar nætur eru OK, aðrar nætur ekki.

Fegursta tvíbanda silkiprjónið og vangaveltur um brugðið prjón

Saga prjóns I

Ath. að umfjöllun um þetta efni hefur verið færð á vef, sjá Sögu prjóns.

Ég ætlaði reyndar að halda beint áfram í fyrstu prjónuðu sokkana en snérist hugur og ákvað að gera grein fyrir tveimur merkilegum prjónabútum fyrst.

Richard Rutt telur í bók sinni The History of Hand Knitting langlíklegast að prjón sé upprunnið í hinu islamska Egyptalandi. Árið 641 náði Amr ibn al-As völdum í Egyptalandi og ríkti þar í umboði kalífans í Medína (sem hét Umar og var persónulegur vinur og ráðgjafi Múhameðs spámanns, þótt það komi prjónasögu kannski ekki mikið við). Amr ibn al-As gerði Fustat að höfuðborg ríkisins en þar er nú Kaíró.1

Silkiprjón Fritz IkléMunstur silkiprjón Fritz IkléÍ Fustat fannst prjónabútur sem komst í eigu Dr. Fritz Iklé (1877-1946) sem bjó í Basel í Sviss. Iklé átti stórt einkasafn austurlenskra muna, sérstaklega gott úrval af glervörum og austurlenskum ofnum mottum og teppum en einnig annan textíl. Þessi merkilegi prjónabútur er nú glataður en varðveist hefur góð lýsing á honum í Mary Thomas’s Knitting Book, útg. 1938, og svarthvít ljósmynd.

Búturinn var aðeins 6,5 cm breiður, prjónaður úr silki og prjónið afar fíngert, u.þ.b. 15 lykkjur á cm. Munstrið var dökk-vínrautt á gullnum bakgrunni og prjónið austrænt snúið prjón. Aðferðin er hefðbundið tvíbandaprjón sem sást vel á röngunni. Mary Thomas segir að munstrið hafi verið prjónað á hvolfi, þannig hafi lykkjurnar snúið, en litla ljósmyndin sem hún birtir í sinni bók snýr rétt. „Ekkert glæsilegra sýnishorn af tvíbanda silkiprjóni hefur fundist: Þetta ber af öllu enn þann dag í dag“, skrifar hún.2

Iklé aldursgreindi prjónlesið frá 7.-9. öld. Rutt bendir á að engar leifar af islömsku prjónlesi hafi verið taldar yngri en frá því um 1100 en auðvitað er ekki hægt að ganga úr skugga um hvort greining Iklé var rétt því stykkið er nú týnt og tröllum gefið.

Til hægri sést litla svarthvíta ljósmyndin sem bók Mary Thomas varðveitir. Til vinstri er lítil mynd af munstrinu, sé smellt á hana opnast miklu stærri mynd. Ég teiknaði munstrið upp eftir svarthvítri smágerðri munsturteikningu Richard Rutt á s. 33 í bók hans en reyndi að sýna litina rétta, miðað við lýsingu Mary Thomas.

Þótt menn hafi komist upp á lagið með að prjóna tvíbanda munstur fyrir um 900 árum, jafnvel fyrr, þá virðist nánast allt prjónles hafa verið prjónað í hring, þ.e.a.s. menn kunnu einungis að prjóna slétt prjón. Elstu dæmi um brugðnar lykkjur eru á sokkum Elenoru af Toledo, frá 1562 eða fáum árum fyrr. Á sokkunum hennar eru brugðnu lykkjurnar til skrauts. E.t.v. hafa menn komist upp á lag með að prjóna slétt og brugðið fram og til baka til prjóna hæl á sokk en engin sönnun þess hefur fundist. Frá því prjón varð til var því allt prjónles lengi vel rörlaga og ætti stykkið að vera flatt þurfti að klippa prjónlesið í sundur (líkt og menn gera við opnar lopapeysur nú á tímum). Yfirleitt sjást skil milli umferða vel á þeim stykkjum sem hafa varðveist en þau elstu eru reyndar flest sokkar. Ekki er vitað hve margir prjónar voru notaðir til að byrja með og ekki heldur hvers konar prjónar. Ýmislegt bendir til þess að þeir hafi haft króka á öðrum eða báðum endum, svipað því áhaldi sem nú er notað við tyrkneskt hekl og margir kannast við, en um það er þó ekkert vitað með vissu.

mynsturprjón � egypskum bútRutt nefnir samt dæmi af þremur bútum sem virðast hafa verið prjónaðir fram og til baka, sem þýðir þá auðvitað að kenningunni um að brugðið prjón sé miklu yngra en slétt er þar með kollvarpað eða hann geri ráð fyrir að menn hafi prjónað slétt fram og til baka. (Líkt og Kaffe Fassett hefur kynnt svo rækilega nú á tímum, í myndprjóni. Mig minnir að Fassett hafi sagst hafa lært aðferðina af júgóslavískum sveitakonum.) 

Dæmin sem Rutt nefnir eru tveir bútar í safni Carl Johann Lamm í Kulturhistoriska Museet í Lundi í Svíþjóð og einn bútur í Victoria & Albert safninu í London. Í The History of Hand Knitting er svarthvít mynd af öðrum bútnum í sænska safninu, á réttunni og röngunni. Sænsk-varðveittu prjónabútarnir eru í mörgum litum og prjónaðir úr ullargarni, með tvíbandaprjóni. En einnig eru íprjónuð munstur úr ólituðu bómullargarni. Á röngunni virðist að hvíta bómullargarnið sé notað í myndprjón (intarsia) en ekki tvíbandaprjón. Alveg eins er búturinn í safni Victoriu og Alberts, segir Rutt, hann er prjónaður með tvíbandaprjóni úr marglitu ullargarni en ólituð bómull einnig notuð og þeir hluta mynstursins prjónaðir með myndprjóni fram og til baka.3

Myndin er skönnuð úr bók Rutt og litla myndin krækir í miklu stærri mynd. Með því að rýna í stóru myndina af röngunni má skilja hvað Rutt á við.
 

Næst vind ég mér örugglega í islömsku sokkana 🙂 Og enn og aftur auglýsi ég eftir leiðréttingum á tækniorðaforða, t.d. íslenskun á „Cross Eastern Stitch“ og „intarsia“ þýði ég þetta rangt. Er til eitthvert íslenskt prjónaorðasafn?


 1 Rutt, Richard. 1989. The History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado,  s. 32-33. (Bókin kom fyrst út 1987.)

Sjá einnig „History of Muslim Egypt“ á Wikipedia hafi lesendur almennan sögulegan áhuga.
 

2 Thomas, Mary. Mary Thomas’s Knitting Book. Dover Publications, New York 1972, s. 19. (Bókin var fyrst gefin út af Hodder and Stoughton, Ltd., London 1938.)
 

3 Rutt, Richard. 1989, s. 36-39. Mér finnst þetta dálítið ótrúlegt því þetta þýðir að hefðbundið tvíbandaprjón er prjónað fram og til baka og mynsturprjón á stöku stað; Af hverju er ekki allt stykkið prjónað með mynsturprjóni? En ég þarf að verða mér út um litmynd sem til er af sambærilegu plaggi á V&A safninu til að sjá hvort þetta hafi verið praktísk aðferð því það ræðst auðvitað af því hversu símynstrað stykkið er.
 

Upphaf prjóns – Dura stykkin og koptísku sokkarnir

Saga prjóns I

Athugið að umfjöllun um þetta efni hefur nú verið flutt á vef, sjá Sögu prjóns

Ég stefni á að gera vef um sögu prjóns. Það gafst ágætlega að birta síðasta greinaflokk sem mun enda á vef (þennan um siðblindu) á bloggi, til að fá athugasemdir og ábendingar svo ég ætla að fara sömu leið með þetta umfjöllunarefni.

Undanfarna mánuði hef ég verið að viða að mér heimildum, sem er svo sem ekki áhlaupsverk hér uppi á Íslandi. En ég hef þó náð í þær tvær bækur sem teljast merkastar heimilda um prjónasögu, þ.e. bók Richard Rutt, A History of Handknitting (útg. 1987) og bók Irene Turnau, History of Knitting before Mass Production (útg. 1991). Þær eru aðalheimildir mínar en auk þess leita ég í aðrar bækur, greinar og vefsíður. Svo er bara að sjá hverju fram vindur.

Það er nokkuð á reiki hvað er talið upphaf prjóns. Þar veldur m.a. að sumir, einkum í eldri heimildum, vilja telja nálbragð/vattarsaum til prjónaskapar, þótt aðferðir við slíkt séu talsvert ólíkar prjóni. Almennt telja menn að prjón eins og við þekkjum það í dag hafi verið fundið upp í Mið-Austurlöndum, þ.e. löndum araba, jafnvel hugsanlega Austurlöndum. Elstu prjónastykkin eru oftast taldir egypskir sokkar en þeir eru augljóslega ekki byrjendaverk. Egyptaland var löngum suðupottur ýmissa þjóðarbrota og því ómögulegt að segja hvaðan tæknin gæti verið upprunnin.

Líklegt er að prjónakunnátta hafi borist til landanna við Miðjarðarhaf frá Mið-Austurlöndum enda mikil verslunarsamskipti þar á milli. Bein tengsl virðast milli egypsku sokkanna og spænskra svæfla enda er talið að Márar á Spáni hafi prjónað þá. Þessir spænsku svæflar voru löngum taldir elstu dæmi um prjón í Evrópu en Irene Turnau og fleiri hafa seinna borið það til baka og nefnt önnur dæmi. Fyrir þessu verður gerð grein síðar.
 
 

Bútarnir frá Dura Europos

Austrænt snúið prjónEðlilega varðveitist textíll fremur illa og þau fáu elstu stykki sem hafa fundist í fornleifauppgreftri víða um heim hafa varðveist vegna einstaklega heppilegra jarðvegsskilyrða eða  loftlags og flest hafa fundist í lokuðum gröfum. Oft hafa 3 tutlur sem fundust  í uppgreftri í Sýrlandi, í hinni fornu borg Dura Europos, verið taldar elsta varðveitta prjónlesið, frá 250 fyrir Krist, en bæði Richard Rutt og Irene Turnau eru sannfærð um að þessir bútar séu nálbrugðnir. Á öndverðum meiði er Nancy Bush sem, eins og fornleifafræðingar sem rannsakað hafa bútana, telur þá prjónaða með „Cross Eastern Stitch“ (Væri gott ef einhver gæti upplýst mig um íslenskt heiti þessarar aðferðar. Gæti hún kallast „austrænt snúið prjón“? Þess ber að geta að Elsa E. Guðjónsson telur að lengst af hafi tíðkast á Íslandi að prjóna brugðnar lykkjur á svipaðan hátt, reyndar „austrænt ósnúið prjón“, en ég veit ekki hvað hún kallar aðferðina á íslensku.)

Þessir bútar frá Dura eru nú varðveittir í safni Yale háskólans í Connecticut og má skoða myndir af þeim á síðu safnsins

Einnig héldu menn um tíma að tveir smábútar (um 2 cm á kant) sem fundust í gröf í Esch, í suðurhluta Hollands, væru prjónaðir enda fundust einnig tveir bronsprjónar (20 cm langir) í sérstöku boxi í gröfinni. Þessir bútar voru nær alveg eyðilagðir í rannsókn árið 1973 og verður sjálfsagt aldrei úr því skorið hvernig þeir voru unnir. En bæði Rutt og Turnau telja þá líklegast nálbrugðna og Rutt bendir á að bronsprjónarnir hefðu allt eins getað verið skartgripir, auk þess sem þeir voru alltof grófir til að hafa verið notaðir í hið hugsanlega hollenska prjónles.
 

Vattarsaumur eða nálbragð
 

Vötturinn frá ArnheiðarstöðumNálbragð hefur verið þekkt frá því a.m.k. 1000 f. Kr. og notað víða um heim. Hér á landi hefur fundist 10. aldar vettlingur gerður með nálbragði, á Arnheiðarstöðum í Fljótsdalshéraði. Myndin til hægri sýnir þennan fræga vött. Vilji menn fræðast meira um hann er bent á stutta grein eftir Margrethe Hald sem fjallar bæði um íslenska vöttinn og notkun nálbragðs víða um heim, „Vötturinn frá Arnheiðastöðum“ í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1949.

Til gamans má nefna að sumir telja sig sjá röndótta nálbrugðna sokka á nautabana einum á mínóskri fresku í Knossos, Krít. Sú freska er talin máluð um 1500 f. Kr. Nærmynd af nautabananum má sjá hér, á síðunni Caldendar House, 2. Into the Labyrinth.

Nálbragð hefur þann ótvíræða kost að það er mjög sterkt og raknar ekki upp. Ókosturinn er hins vegar sá að erfitt er að gera sæmilega teygjanlegar flíkur með nálbragði (kannski þess vegna sem menn hafa ekki brugðið nema rúmlega ökklaháa sokka) og einnig er þetta fremur seinleg aðferð, a.m.k. miðað við prjón.

Til að halda sig við hefð í prjónasögu byrja ég á umfjöllun um koptísku sokkana sem þó eru alls ekki prjónaðir heldur nálbrugðnir, skv. rannsókn Dorothy Burnham 1972 sem víða er vísað í, t.d. í bókum Rutt, Turnau og Nancy Bush. Til þess tíma héldu menn að sokkarnir væru prjónaðir með „austrænu snúnu prjóni“ eins og bútarnir frá Dura Europos.
 
 

Koptísku sokkarnir
 

kopt�skir vattarsaumaðir barnasokkarNokkur pör af svona sokkum fundust í gröfum í Egyptalandi og eru taldir frá 3.- 5. öld. Egyptaland þeirra tíma var suðupottur ýmissa þjóðarbrota. Frá því um 30. f. Kr. varð Egyptland rómverskt skattland. Samt sem áður var gríska stjórnsýslumál skattlandsins og latína náði aldrei góðri fótfestu. Markús guðspjallamaður boðaði kristni í Egyptalandi og stofnaði patríarkadæmi árið 33. e. Kr. í Alexandríu, sem nú er næst stærsta borg Egyptalands og var frá fyrstu tíð ein mikilvægasta hafnarborg landsins. Koptíska kirkjan er einmitt talin með elstu kirkjudeildum í heimi. Eftir að Rómaveldi klofnaði (árið 395) varð Egyptaland hluti af Austrómverska ríkinu (Býsanska ríkinu), allt til þess að arabar hertóku landið á 7. öld.

Með kristnum áhrifum komst á sú tíska að grafa lík fullklædd og vafin í sjöl og ábreiður, jafnvel hengi og veggteppi, í stað þess að gera úr þeim múmíur. Nýir greftrunarsiðir og hið þurra loftslag Egyptalands varð til þess að óvenju mikið af textíl hefur fundist frá 1.-6. öld.

Tungumálið koptíska, sem var runnið af forn-egypsku, var ríkjandi tungumál á 3.-5. öld og þaðan er nafn sokkanna dregið. Koptíska varð líka mál kirkjunnar og gríska stafrófið var notað til að skrifa koptíska texta. Þetta sýnir kannski vel hve áhrif Grikkja voru mikil en auk þeirra bjuggu Sýrlendingar, Assýringar, gyðingar, Rómverjar og alls kyns þjóðarbrot í Egyptalandi á tímum koptísku sokkanna. Svo það er næsta ómögulegt að giska á hvaðan aðferðin við sokkagerðina er upprunnin en grísk og persnesk áhrif eru oft nefnd.

Myndin að ofan til vinstri sýnir koptískan vattarsaumaðan / nálbrugðinn barnssokk. Hann er bersýnilega úr frekar grófu ullargarni. Sokkurinn fannst í Oxyrhyncus í Egyptalandi og er talinn frá því á 2. öld e. Kr. (Mér finnst líklegra að hann sé frá 3.-5. öld eins og aðrir svipaðir sokkar þótt heimildin, World Textiles. A Concise History segi annað.) Hann er nú varðveittur á safni háskólans í Manchester. Litla myndin krækir í stærri mynd af sokknum. Á undirsíðu bloggsins Sock It! er hægt að horfa á myndband sem sýnir aðferðina við nálbragðið og önnur undirsíða krækir í fjölda síðna með mismunandi útlistunum á hvernig skuli vinna slíka sokka (sjá krækjulista til hægri á þeirri síðu).    

Kopt�skir sokkarKoptísku sokkarnir hér til hægri eru fullorðinssokkar, nálbrugðnir úr ullarþræði og eru taldir frá 3.-5. öld. Sokkarnir eru tásokkar að því leyti að hlutinn fyrir stórutá er brugðinn sér og hlutinn fyrir hinar tærnar sér. Þetta skýrist af því að Egyptar gengu í sandölum. Flestir telja að þeir séu nálbrugðnir frá tám og upp. Þannig voru líka elstu sokkar prjónaðir.

Myndin er af sokkapari sem er varðveitt á safni Viktoríu og Alberts, í London. Litla myndin krækir í risastóra mynd þar sem sjá má hverja lykkju mætavel. Myndirnar eru birtar með leyfi safnsins.
 

Í færslunni „Life of a Coptic sock“ er gerð grein fyrir fundarstöðum nokkurra koptískra sokka, og gerð þeirra. Og uppskrift að koptískum sokki með smávegis útskýringum á nálbragði má finna hér.
 

Japanskir tabi sokkarÍ rauninni er sniðið á koptísku sokkunum nauðalíkt japönskum tabi sokkum (sem tíðkast víst enn í Japan og eiga sér langa sögu þótt ekki hafi þeir verið prjónaðir) – sjá mynd af svoleiðis sokkum hér til hægri eða smelltu á krækjuna.
 

Ég flokka þessar færslur undir nýjum bloggfærsluflokki, saga prjóns.


Heimildir:Bush, Nancy. 1994. Folk Socks. The History & Techniques of Handknitted Footwear. Interweave Press, Colorado 1994, s. 11-13.Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado 1989 (fyrst gefin út 1987), s. 28-32

Schoeser, Mary. 2003. World Textiles. A Concise History. Thames & Hudson, London, s. 62.

Turnau, Irene. 1991. History of Knitting before Mass Production. (Agnieszka Szonert þýddi). Polska Akademia Nauk. Institut Historii Kultury Mareialnej. Varsjá 1991, s. 13-19.
 
 
 

Aegyptus (rómverskt skattland), http://is.wikipedia.org/wiki/Aegyptus_(r%C3%B3mverskt_skattland)

Dempsey, Jack. 2010.  „Caldendar House, 2. Into the Labyrinth“. Clues to Minoan Time from Knossos Labyrinth

„Egypt, 1–500 a.d.“ á HEILBRUNN TIMELINE OF ART HISTORYhttp://www.metmuseum.org/toah/ht/?period=05®ion=afe

 „Historical socks“, Sock Museum, http://www.sockmuseum.com/historical-socks

Kang, Jun-suk. 2009. A History of Textiles in Egypt. Nemendaritgerð í AP European History Class, í Korean Minjok Leadership Academy. http://www.zum.de/whkmla/sp/1011/ignoramus/igno2.html#III

Sock It! http://ancientegyptiansock.blogspot.com/
 

Í aðrar heimildir er krækt beint úr texta.

Leikfimi

Leikfimikennari barst aðeins í tal á fésinu í gær … og svo horfði ég á hinar flinku fimleikastúlkur Skagans hoppa og skoppa á æfingu áðan, meðan ég beið eftir manninum sem stakk í mig nálum. Svoleiðis að ég fór að hugsa um leikfimi – eins og hún var.

Svo háttaði til á Laugarvatni á mínum uppvaxtarárum þar (og gerir kannski enn) að nemendur í öllum hinum skólunum voru æfingafóður fyrir íþróttakennaranema. Í þá tíð var Íþróttakennaraskólinn eins árs nám og þurfti ekki stúdentspróf til að komast inn í hann. (Sem leiddi auðvitað til botnlausrar fyrirlitningar menntskælinga á Þrótturum, nema þeirra menntskælinga sem höfðu hugsað sér að fara í Þróttó eftir stúdentspróf. Enda praktískt að þurfa bara eitt ár til að fá full kennararéttindi á báðum skólastigum, sérstaklega fyrir þá sem hefðu kannski átt erfitt uppdráttar í háskólanámi.). En svo ég spæli ekki elskulega bekkjarbræður mína frá því í denn held ég mig að mestu við árin í Héró, þ.e. í 2. bekk (samsvarar 8./9. bekk grunnskóla) og landsprófi (samsvarar 9./10. bekk), í lýsingunni. Ég stundaði nám í Héraðsskólanum 1972-74 og svo tók Menntó við. Leikfimikennslan breyttist ekkert.

Það þótti ekki við hæfi á áttunda áratugnum að karlmenn kenndu stelpum íþróttir. Þess vegna sáum við einungis karl-þróttara í árlegum gömludansa-námskeiðum, sem hugsanlega voru bara tíðkuð á menntaskólaaldri. Þess meir sást af Þróttóstelpum. Þær sprönguðu um í einhvers konar tvískiptum fimleikagöllum,rauðum og svörtum, í sérhönnuðum leikfimitátiljum.  Líklega var þetta að rússneskri fyrirmynd. Í hverjum tíma kenndu svona 3-4 af tegundinni. Við nemendurnar áttum að vera í “leikfimibol”, teygjuflík sem líktist helst viktoríönskum sundbol með stuttum ermum og skálmarlausum. Svo voru allar berfættar (ekki búið að finna upp fótsveppi á þessum árum).

Í upphafi tíma sátum við upp við rimlana meðan Þróttóstelpur lásu kladda. Það var bannað að kíkja í kladdann. Það var bannað að segjast vera með hausverk af því Þróttó hafði ákveðið að þetta héti “höfuðverkur”. Eina leyfilega orðalagið yfir að vera á túr var “ég er forfölluð”. Ég átti afar bágt með að fara ekki að hlæja á fullorðinsárum þegar karlmenn tilkynntu forföll á fund eða álíka … Hefði stelpa höfuðverk eða var forfölluð sat hún alklædd og horfði á. (Það var ekki búið að finna upp þá skoðun að konur / unglingsstúlkur gætu hreyft sig verandi á blæðingum.) Hinar forfölluðu pössuðu úr og hringi hinna og var sérstök kúnst að halda úrunum aðskildum svo þau “segulmögnuðust” ekki.

Leikfimitímar hófust á að mynda beina röð eftir hæð. Ég var venjulega næstminnst og því næstfremst í röðinni. Svo kallaði ein Þróttóstelpan skipandi: “Standið rétt, fætur saman, áfram gakk, einn-tveir, einn-tveir” o.s.fr. Sem sagt hergöngulag. Og ekki gleyma að horfa í hnakkann á þeirri sem var fyrir framan. (Svo við hljótum að hafa verið aðeins niðurlútar, svona eftir á séð). Ýmis varíantar voru á hringöngum um salinn, eins og að ganga á tánum, ganga á jörkunum (þarna lærði ég orðið “jarki”, sem ég hef aldrei heyrt notað utan íþróttasalarins á Laugarvatni). Svo voru hlaupnir nokkrir hringir. Og Þróttóstelpurnar höfðu dómaraflautur sem þær brúkuðu óspart.

Að því búnu demonstreruðu Þróttstelpurnar í fimleikagöllunum sínum nokkrar gólfæfingar og við áttum svo að gera eins. Þetta voru þessar dæmigerðu æfingar, gerðar til að fá harðan maga, grennra mitti, styrkari læri og fleira kvenlegt. Bannað að segja voff í hundastellingunni – þá var rekið út. Svo voru dregin fram áhöld og byrjað að hoppa yfir hest og yfir kistu (bannað að segja “ég þori því ekki” – í Þróttó höfðu menn ekki heyrt af staðbundinni norðlenskri málvenju og ég mátti þakka fyrir að vera ekki rekin út, það átti nefnilega að segja “ég þori það ekki”.) Yfirleitt var algerlega bannað að segja nokkurn skapaðan hlut við þessar Þróttóstelpur. Og uppi á svölum sat sjálf Mínerva og beindi hvössum sjónum að þeim og okkur undirsátunum. Mátti ekki á milli sjá hvorar voru hræddari við hana.  … Kollhnísar á dýnu voru fastur liður, líka að standa á höfði (af því “haus” fannst ekki í orðaforða leikfiminnar) eða á höndum. Ég var vonlaus í þessu öllu, með grindhoraða handleggi og alger veimiltíta. Var líka of horuð til að uppfylla “standið rétt, fætur saman” herskylduna.

Einstaka sinnum var boltaleikur. Það var alltaf blak. Mikið ofboðslega hata ég blak! Fyrrnefndir handleggir og píanófingur og gleraugu fyrir mínus 7 eru ekki gott veganesti í blaki. Í menntó söfnuðum við undirskriftum og heimtuðum að fá körfubolta eins og strákarnir. Körfubolti var mun skárri. Já, og það var kosið í lið og það er ekkert gaman að vera alltaf kosin síðust. Reyndar grunaði mig þó alltaf innst inni að blakhæfileikar væru heldur lítils virði, í námi og í lífinu, en þetta var samt leiðinlegt.

Sumar Þróttóstelpurnar reyndu að vera almennilegar svo lítið bæri á en þær þurftu að fara sérlega vel með það til að lækka ekki í einkunn fyrir æfingakennsluna hjá Mínervu. Aðrar Þróttóstelpur beinlínis nutu þess að leika herforingja; mér er sérstaklega ein minnisstæð enda var hún, í nemendastelpnahópnum, aldrei kölluð annað en Gribban. Hún fékk svo síðar enn meir krassandi viðurnefni í öðru starfi.

Að koma inn í þennan herskóla, úr litlum sveitaskóla þar sem allir voru saman í leikfimi og yfirleitt farið í einhverja skemmtilega leiki, eins og skota (afbrigði af brennó) eða slagbolta eða Tarzan-leik eða  bara farið út og búið til snjóhús eða risasnjókerling … og ég spilaði fótbolta með hinum krökkunum … var auðvitað horror.

Árangurinn af kennslunni var að ég lét mig hafa það að taka stúdentspróf í leikfimi (man að eitt prófatriðið var að hoppa jafnfætis yfir körfubolta, sem var pís of keik en eitt helvítis atriðið var að standa á höndum sem ég gat náttúrlega ekki – en hvenær í ósköpunum nýtist það manni að standa á höndum?). Svoleiðis að ég er sem sagt stúdent í leikfimi. Aftur á móti varð  ég mér út um vottorði í sundi, sem var enn verra upplifelsi en leikfimikennslanþví þar var ég nánast blind og sá hvorki leikin sundtök fimleikaklæddu Þróttóstelpnanna á bakkanum, né sundlaugarbakkann, með ofnæmi fyrir klórpollinum sem aktaði sem sundlaug og sá fram á að meðaleinkunn á stúdentsprófi myndi hrapa gífurlega ef ég tæki stúdentspróf í sundi. Þannig að ég er illa menntað kvikindi án stúdentsprófs í sundi.

Aðalárangurinn af þessari kennslu var þó að ég fékk æfilangt ógeð á lyktinni í íþróttasölum, læt mig ekki dreyma um að stíga tá oní sundlaug og hef mikla fordóma í garð íþróttakennara, sérstaklega hvað varðar vitsmuni þeirra. Samt hef ég kynnst íþróttakennurum síðar meir sem voru alls ekki algerlega dúmm.

Sem betur fer hefur íþróttakennsla skánað heilmikið frá gullaldarárum Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni 😉 En ég velti því stundum fyrir mér hvað hafi orðið af öllum þessum Þróttóstelpum. Lifðu þær af venjulegt skólaumhverfi og íþróttaumhverfi utan Laugarvatns?

  

Lokafærsla um siðblindu

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VII hluti
 
 

Það væri endalaust hægt að halda áfram að skrifa um þetta áhugaverða efni en hér verður látið staðar numið og ég sný mér að öðru. Ég hef orðið margs vísari í þessum skrifum og einhvern tíma verður efnið bútað niður á vefsíður, tekið tillit til athugasemda og fyrstu greinarnar endurskrifaðar enda var ég að afla mér þekkingar jafnóðum og skrifum vatt fram.
 

Eins og margoft hefur komið fram í fyrri skrifum beinist áhugi manna einna mest að siðblindum í viðskiptalífinu og áhrifum þeirra þar. Að mínu mati er það frekar léttvæg hlið siðblindu (en auðvitað markast mikilvægið af því hvaða sýn menn hafa á fé og hversu miklu máli menn telja að auður, eignir og fé skipti  í lífinu). Það hefði svo sem mátt skrifa meira um þetta, gera t.d. grein fyrir hinni dökku þríund (The Dark Triad) sem er notað um það þegar machiavellianismi, sjálfsdýrkun (narcissism) og siðblinda (psychopathy) koma saman í  persónuleika einhvers. Sjálfsdýrkun einkennist af sjálfumgleði, hroka og athyglisýki, machiavellíönsk viðhorf gera það að verkum að menn vilja öðlast vald yfir öðrum og setja eiginhagsmuni í forgang. Versti þátturinn í þessari blöndu er siðblinda eins og ætti að vera ljóst hafi menn lesið fyrri færslur um hana.(Lesa má stuttan texta um hina dökku þríund á ensku Wikipediu og þar er krækt í greinar um efnið.)
 

Annað sem sumir virðast hafa áhuga á er siðblinda í stjórnmálum. Um það hef ég ekkert skrifað enda fremur áhugalítil um efnið. Ég reikna með að um margt gildi hið sama um siðblinda í pólitík og siðblinda í viðskiptum. Illskufræði (Ponerology) fjalla um það ástand sem verður þegar siðblindir ná völdum yfir samfélagseiningu, ríki eða þjóð og gegnsýra þetta með skoðunum sínum. (Ég bendi enn og aftur á knappa og skýra umfjöllun á Wikipediu, um illskufræði, þar sem vísað er í frekara efni.)
 

MinkurMér finnst miklu mikilvægara að gera sér grein fyrir áhrifum siðblindra í grennd og umhverfi, þ.e.a.s. hvernig siðblindur maður getur framið sálarmorð á sínum nánustu; hneppt fjölskyldu sína í gíslingu og valdið skaða sem í skásta falli tekur aðra mörg ár að vinna úr og í versta falli er óbætanlegur. Það er ekki tilviljun að tekið er svo til orða um siðblinda: „Á meðal okkar eru þeir sem hafa enga samvisku. Þeir orða tilfinningar en hrærast ei tilfinningalega. Þeir bindast engri lifandi veru. … Eina markmið þeirra í samskiptum er að drottna yfir undirsátum. Þeir eru hin fullkomnu rándýr mannkynsins.“1

Þótt vinsælt sé að tákna siðblinda með úlfsmyndum er þar illa farið með „góð“ rándýr því úlfar eru félagslyndir og veiða í hópum. Fyrir Íslending er kannski heppilegast að sjá fyrir sér mink þegar rándýrið siðblindingi berst í tal.
 

Það hefði verið gaman að fjalla um mannfræðirannsóknir sem sýna að siðblinda þekkist í ýmsum samfélögum öðrum en vestrænum. Hér verður látið duga að minnast á niðurstöður Jane M. Murphy sem komst að því að meðal Yoruba ættbálkins í Nígeríu er til hugtakið arankan yfir mann sem ávallt fer sínar eigin leiðir án tillits til annarra, sem er ósamvinnuþýður, fullur illsku og þrjósku og meðal inúita í norð-vestur Alaska var svo til hugtakið kunlangeta sem bókstaflega þýðir „hugur hans veit hvað á að gera en hann gerir það ekki“ og er notað um mann sem brýtur reglur og norm, t.d. stelur, lýgur og fer ekki á veiðar en notar tækifærið þegar hinir karlarnir eru á veiðum til að misnota konur þeirra kynferðislega. Í inúítasamfélaginu sem Murphy rannsakaði var einn kunlangeta í 499 manna samfélagi. Hún spurði hvað hefði tíðkast að gera við svona menn og var sagt að sennilega „hefði einhver hrint honum af ísjaka þegar enginn sæi til“.2
 

Justitia, gyðja réttlætisinsÞað hefði líka verið spennandi að skoða hvaða máli siðblindugreining skiptir í lagalegu tilliti, í Evrópu og Bandaríkjunum. Af því siðblinda (psychopathy) er ekki viðurkennd sem sjálfstæð persónuleikaröskun þar sem DSM-IV og ICD-10 staðlarnir eru notaðir, heldur er einhvers konar undirþáttur í andfélagslegri persónuleikaröskun, vandast nokkuð málið. Sömuleiðis eru víða, t.d. í Bandaríkjunum, ekki notaðir sömu skilgreiningar í lagalegri umfjöllun og læknisfræðilegri umfjöllun þegar verið er að meta sakhæfi. Yfirleitt virðast siðblindir glæpamenn vera úrskurðaðir sakhæfir.3 Á Íslandi var það gert í Geirfinns- og Guðmundarmálinu fræga 1980 en þá átti  ICD-9 staðallinn að gilda á Íslandi og líklega hefur geðvilla verið innifalin í andfélagslegri persónuleikaröskun (því miður finn ég ekki upplýsingar um hvernig þessu var nákvæmlega varið í handbókinni sem fylgdi með gamla ICD-9 staðlinum). Það væri áhugavert að vita hvort geðvillugreining sé til marks um sakhæfi miðað við þau mál sem dómstólar hafa skorið úr um á undanförnum áratug eða svo, hér á landi. Mig grunar að núorðið sé reynt að fara kringum siðblindugreiningu skv. ICD-10 því eflaust eru siðblindir betur geymdir í öryggisgæslu á réttargeðdeild en í fangelsi. Bretar hafa reynt að fara kringum þetta vandamál með því að búa til sérstaka flokkun, DSPD (glæpamenn með „dangerous and severe personality disorder“) sem dekkar flesta þá siðblindu og hafa vistað slíka glæpamenn í stranga öryggisvörslu. Í meðferð og endurhæfingu DSPD-glæpamanna hefur síðan verið eytt ómældu fé en árangurinn er lítill sem enginn.4
 

Jeffrey Archer

Á tímabili var ég að hugsa um að skrifa eina færslu um fræga siðblindingja, t.d. morðingja á borð við Ted Bundy og Peter Lundin, fjárglæframenn, t.d. Bernie Madoff og Andrew Fastow og fleiri. Því miður uppgötvaði ég í þeim pælingum að minn uppáhalds reyfarahöfundur, Jeffrey Archer, hefur verið greindur siðblindur af geðlækni og reyndar bendir æviferill Archer sterklega til þess að greiningin sé alveg rétt. (Myndin er af Archer.)
 

Margt skondið hef ég rekist á í skoðun heimilda um siðblindu. Má nefna grein sem ég týndi því miður aftur þar sem borin voru saman markmið ýmissa sjálfshjálparbóka (þ.e. bóka sem eiga að kenna manni að verða hamingjusamari, öðlast aukið sjálfstraust, takast betur á við lífið o.þ.h.) og kjarnaeiginleikar siðblindu skv. gátlista Hare. Niðurstaðan úr þeirri umfjöllun var að nútíma sjálfshjálparfræði reyndu að kenna fólki að verða siðblindara. T.d. væri lögð þung áhersla á að velta sér ekki upp úr fortíðinni heldur horfa einungis fram á veginn, þ.e. æfa sig í skorti á eftirsjá; að setja sig sem mest í fyrsta sæti, þ.e. æfa sig í sjálfselsku og eiginhagsmunasemi; að hrósa sér stöðugt, þ.e. ýta undir bólgið sjálfsálit o.s.fr. Þetta þótti mér athyglisverður vinkill á sjálfshjálparfræði.
 

Einnig var gaman að lesa um hvernig forkólfar höfuðlagsfræða  (phrenology, sem er „sú kenning, að tilteknir sálrænir hæfileikar eigi sér aðsetur á sérstökum svæðum heilans og snið hauskúpunnar á hverjum stað gefi vísbendingu um styrk þeirra hæfileika, sem undir búi“) og svipbrigðafræða (physiognomy) urðu óvart til að ýta undir þekkingu manna á geðröskunum, þ.á.m. siðblindum glæpamönnum.
 
 

Without Conscience / Án samviskuEn þótt öðru hvoru rækist ég á eitthvað skondið, jafnvel skemmtilegt, var heimildalestur um siðblindu yfirleitt ekki skemmtiefni, eðli málsins samkvæmt. Ég get ekki sagt að ég vorkenni siðblindum nema að því leyti að mér finnast það ömurleg örlög að fæðast án samvisku. Sá samviskulausi finnur samt væntanlega minnst fyrir því. Þótt hann geri sér grein fyrir að hann er öðruvísi en annað fólk og geti ekki myndað mannleg tengsl er honum alveg sama einmitt af því hann skortir samvisku og tilfinningar. Ég vorkenni aftur á móti öllum þeim sem verða á vegi slíks manns. Og tek heils hugar undir ráðleggingar Roberts D. Hare og fleiri: Eina ráðið er að flýja sem fætur toga og því fyrr því betra!
 
 
 
 


 1 Meloy, J.Reid og Meloy M.J. 2002. „Autonomic arousal in the presence of psychopathy: A survey of mental health and criminal justice professionals“. Journal of  Threat Assessment 2.árg. 2.tbl. 2002, s. 21-33.
 2 Murphy, Jane M. 1976. „Psychiatric Labeling in Cross-Cultural Perspective. Similar kinds of disturbed behaviour appear to be labeled abnormal in diverse cultures“. Science 191.árg. 4231.tbl. mars 1976, s.1026
 

3 Sjá t.d. Pirelli, Gianni, William H. Gottdiener og Patricia A. Zapf. 2011. „A Meta-Analytic Review of Competency to Stand Trial Research“. Psychology, Public Policy, and Law  17.árg. 1.tbl. 2011, s. 1–53; Larsson, Johan. 2006. Psykopaten och rättvisan. Psykiskt störda lagöverträdare – med fokus på personlighetsstörningar (námsritgerð við lagadeildina í Háskólanum í Lundi, Svíþjóð); Christie, Nils. 2001. „Et humanistisk perspektiv på straffegjennomføringsloven“. Á síðu IKRS (Institutt for kriminologi og rettssosiologi). Textinn birtist á vefsíðunni 26. jan. 2009;
 
 

4 Sjá Warren, Fiona o.fl. 2001. Review of treatments for severe personality disorder (skýrsla unnin fyrir Home Office Department of Health and Prison Service. Dangerous and Severe Personality Disorder Programme); Kendell, R.E. 2002. „The distinction between personality disorder and mental illnessThe British Journal of Psychiatry 180. árg. 2002, s. 110-115 og Tyrer, Peter o.fl. 2010 „The successes and failures of the DSPD experiment: the assessment and management of severe personality disorder“. Medicine, Science and the Law 50.árg. 2.tbl. 2010, s. 95-99.

Af íslensku efni þar sem svolítið er fjallað um sakhæfi siðblindra hef ég einungis rekist á eina grein (en hef svo sem ekki leitað sérstaklega að þessu). Það er: Jónatan Þórmundsson. 1982.  „Úrdráttur úr „Mat á geðrænu sakhæfi“ í Sjúkdómshugtakið : merking þess, notkun og takmarkanir í geðlæknis- og sálarfræði / [ritnefnd Haukur Hjaltason, Klaus Dieter Wiedmann, Kristján Sturluson]. Rit þetta er að stærstum hluta byggt á málþingi sem Félag sálfræðinema við Háskóla Íslands stóð fyrir í apríl 1981.
 
 

Siðblinda í fræðum, trúarritum og bókmenntum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI hluti


Í þessari færslu verður stiklað á stóru og athygli vakin á nokkrum dæmum um siðblindu í fræðum og bókmenntum frá ýmsum tíma. Engan veginn er um tæmandi umfjöllun að ræða heldur einungis stiklur svo umfjöllunin er nokkuð brotakennd. Einnig verður aðeins minnst á íslenskar bókmenntir en þar er einungis um vangaveltur færsluhöfundar að ræða því nánast ekkert hefur verið skrifað um siðblindu í tengslum við þær.
 

Siðblindir einstaklingar hafa væntanlega verið til frá því einhvern tíma í þróunarsögu mannsins (sbr. kaflann „Þróunarfræðilegar skýringar“ í færslunni Orsakir siðblindu.) Menn hafa þóst sjá þess merki að verið sé að lýsa siðblindum í mjög gömlum textum svo snemma hefur samferðamönnum siðblindra orðið ljóst hvern mann þeir höfðu að geyma.

Oftast er vitnað til Manngerða Þeófrasosar sem elsta fræðitexta þar sem siðblindum er lýst.  Þeófrastos var frá Eresos á Lesbos, nemandi Platons og  persónulegur vinur Aristótelesar. Hann var raunvísindamaður sem reyndi að rannsaka náttúruleg fyrirbæri á hlutlægan hátt, þ.m.t. manngerðir. Ritið Manngerðir var skrifað í Aþenuborg árið 319 fyrir Krist. Ein manngerðin er sú sem sýnir blygðunarleysi og eru einkennin óneitanleg lík hugmyndum nútímamanna um siðblindu:

Sá blygðunarlausi„Blygðunarleysi – svo það sé skilgreint – er að traðka á mannorðinu fyrir skammarlegan ávinning. Sá blygðunarlausi er þannig:
   Hann fer fyrst til einhvers sem hann hefur svindlað á og biður um lán … Ef hann hefur einhvern tíma gert kjötkaupmanninum greiða, þá minnir hann á það, þegar hann kaupir í matinn, og stendur við vogina og lætur helst aukakjötbita með, en ef það tekst ekki, þá súpubein. Heppnist það, lætur hann sér vel líka, ef ekki, þá seilist hann í vömb af búðarborðinu um leið og hann hypjar sig hlæjandi á brott. … Í baðhúsinu er hann vís til að ganga að vatnskatlinum og dýfa skjólunni ofan í undir öskrum baðvarðarins og skvetta sjálfur yfir sig og segja svo að hann sé búinn að skola sig. Á leiðinni út segir hann við baðvörðinn: Ertu ennþá í fýlu? Þú færð sko enga þóknun frá mér.“

Sá blygðunarlausi er, sem sjá má af þessum dæmum, sjálfselskur, kaldlyndur, samviskulaus, ruddalegur og svífst einskis í eigin þágu. Manngerðir Þeófrastosar voru frægt rit sem barst víða. Í eftirmála að íslensku þýðingunni er rökstutt að Brynjólfur biskup Sveinsson hafi átt eintak af þeim í sínu bókasafni í Skálholti.1
 

Enn frægari en Manngerðir er vitaskuld sjálf Biblían. Þar hafa sumir þóst greina ennþá eldri lýsingar á siðblindueinkennum.
 

Fyrst er að telja lög Móse. Mósebækur (Fimmbókaritið, Torah) eru taldar samansettar frá svona 950-450 f. Kr. og sú fimmta líklega frá því um 621 f. Kr. þótt hún kunni að byggja á eldri heimildum.

Þrjóski sonurinnÍ 5. Mósebók er fjallað um þrjóskan son og segir: „Eigi maður þrjóskan son og ódælan sem hvorki vill hlýða föður sínum né móður og hlýðnast þeim ekki heldur þótt þau hirti hann, skulu faðir hans og móðir taka hann og færa hann fyrir öldunga borgarinnar á þingstaðinn í borgarhliðinu. Þá skulu þau segja við öldunga borgarinnar: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og hlýðir ekki áminningum okkar. Hann er bæði ónytjungur og svallari.“ Þá skulu allir karlmenn í borginni grýta hann til bana. Þú skalt uppræta hið illa úr þjóð þinni. Allur Ísrael skal frétta þetta svo að þeir óttist.“ (5. Mósebók, 21, 18-21Biblían á síðu Hins íslenzka biblíufélags.). Í Guðbrandsbiblíu, útg. 1584, er þýðingin aðeins öðru vísi og segja foreldrarnir öldungunum að hann sé „einn ölsvelgur og drykkjudári“. „Og þú skalt so í burt skilja hið vonda frá þér.“ (Biblia: Þad Er Øll Heilóg Ritning : vtlógd a Norrænu, s. 194 [190], á Bækur.is.) Það væri einkar áhugavert að vita hvað hebresku orðin í frumtextanum þýðir nákvæmlega.

Þetta telur ísraelski geðlæknirinn Bernard Mordechai Rotenberg að sé lýsing á siðblindum. Hann rökstyður mál sitt með því að benda á að ekki sé einungis talað um óhlýðinn og uppreisnargjarnan son heldur sé hegðun hans tengd drykkjuskap, ónytjungshætti og þrjósku sem tengist einmitt nútímalýsingu (þ.e. 1971) á siðblindu. Rotenberg vitnar í ýmsa skýrendur og útleggendur þessara lögmála, s.s. Philo Judaeus (20 f.Kr. – 40 e.Kr.) sem var heimpekingur og lögfræðingur í Alexandríu og taldi þrjóska soninn „leiðtoga í guðleysi“ og túlkaði sögu hans ítarlega. Sama töldu Josefus Flavius (38-100 e. Kr.) og Talmud skýrendur á 1.-6. öld. [Talmud eru skýringar rabbína á lögmálinu, Torah/ Fimmbókaritinu]. En Maimonides (1135-1204), einn þekktasti útleggjandi og túlkandi Talmud og gyðinglegra laga taldi þjófnað tengdan græðgi eða að láta stjórnast af löngun. Hugsanlega hafi hinir fyrrnefndu álitið „þrjóska soninn“ einungis sýna persónuleikavandamál en Maimonides og fylgimenn hans séð hann sem samfélagslegt vandamál að auki. Í þessum skýringum öllum sé augljóst að biblíuhugtakið „þrjóski sonurinn“ eigi við alvarlegustu hegðunareinkenni hugsanlegs glæpamanns. Á tímum Gamla testamentisins skýrði „fláttskapur“ eða „illska“ glæpsamlega hegðun. Þá var aftaka eina áhrifaríka fyrirbyggjandi meðferðin gegn illsku: „Þú skalt uppræta hið illa úr þjóð þinni.“ Rotenberg telur eftirtektarvert að bæði Talmud og nútíma geðlækningar leggi áherslu á óumbreytanlega, óleiðréttanlega náttúru þessa ástands.2
 

Annar fræðimaður, George Stein, telur sig hafa fundið lýsingu á siðblindum í Orðskviðunum, 6. kafla:
 
 

Varmennið, illmennið, talar tveimur tungum,
deplar augunum, gefur merki með fótunum
bendir fingrunum,
bruggar vélráð í hjarta sínu,
áformar ódæði, kveikir illdeilur.
Því mun ógæfan steypast yfir hann,
á augabragði kemur hrun hans
og ekkert er til bjargar.
Sex hluti hatar Drottinn
og sjö eru sálu hans andstyggð:
hrokafullt augnaráð, lygin tunga
og hendur sem úthella saklausu blóði,
hjarta sem bruggar fjörráð,
fætur sem fráir eru til illverka,
ljúgvottur sem sver meinsæri
og sá sem kveikir illdeilur meðal bræðra.

Orðskviðirnir í Biblíunni á síðu Hins íslenzka biblíufélags.

Eirn Skaalkur er skadsamligur/ hann geingur med a rangsnunum Munne/
bender með Augunum/  teiknar með Footunum /
vijsar með Fingrunum/ 
Stundar auallt nockuð illt og fraleitt í sijnu Hiarta / 
og kiemur upp með þrætur. 
Þar fyrer mun hans Ohamingia að honum ouørum koma/
hann mun hastarliga sundurmarenn verða/ 
suo þar verður eingen Hialp.
Þessa Sex Hlute hatar DROTTIN/ 
og hinn siøunde er fyrer honum andstyggeligur/
Drambsöm Augu/ Falska Tungu/ 
Hendur þær eð uthella saklausu Blode/
Hiarta það sem omgeingur með vondum Hreckium/ 
Fætur þa sem flioter eru til skaðræðes/ 
Fals Vott þann sem diarfliga framber Lyge. 
Og hann sem er Brædra a medal Reiser sundurþycke.Biblia: Þad Er Øll Heilóg Ritning : vtlógd a Norrænu, s. 573 [569], á Bækur.is.

Stein vitnar í guðfræðiprófessorinn McKane sem skrifaði að „eesh belial“ (varmennið/skálkurinn) væri sá sem eyðir fremur en sá sem er einskis nýtur (ein orðsifjaskýring á „belial“ er „sá sem er einskis nýtur/ einskis virði“). Í honum býr djúpstæð illska. Hann er haldinn þráhyggju um að skaða meðbræður sína. Hann kveikir illdeilur og orð hans hafa eyðandi reiði logandi elds. (Proverbs: A New Approach; 1970, SCM Press) Þessi lýsing Biblíunnar á „belial“ fellur fellur vel að árásárgjörnum siðblindum manni.Flest af einkennum DSM-IV staðalsins yfir andfélaglega persónuleikaröskun má finna í þessari lýsingu. Rabbínarnir túlkuðu orðið belial þannig að beli þýddi „án“ og Ya-al þýddi „ok“, sem þýðir að belial er sá sem lifir án helsis Torah (hinna heilögu gyðinglegu laga). Í DSM-IV er einmitt talað um síendurtekið tillitsleysi og brot á rétti annarra. Annað sem greiningarlykilinn nefnir er að geta ekki hagað sér í samræmi við norm samfélagsins, sviksemi, hvatvísi, pirring  og árásargirni, skort á eftirsjá o.s.fr.  Líklega eru fimm af sjö megineinkennum andfélagslegrar persónuleikaröskunar skv. skilgreiningu DSM-IV  nefnd eða gefin í skyn í þessum biblíutexta. Textinn er reyndar styttri (93 orð) en samtantekt DSM-IV á ASPD (127 orð). Siðblind persónuleikaröskun hlýtur að hafa verið alvarlegt vandamál í Ísrael til forna úr henni eru gerð svo góð skil í Biblíunni, segir Georg Stein.3
 
 

Í skáldskap hafa menn talið ýmislegt til lýsingu siðblindra í gegnum tíðina, t.d. Þúsund og eina nótt, þar sem Shahryar sá sem lét lífláta eiginkonur sínar eftir brúðkaupsnóttina, er talinn siðblindur. Í Kantaraborgarsögum Chaucers (1340?-1400) þykjast menn sjá lýsingar á siðblindum, einkum í :
 
 

What, trowe ye, that whiles I may preche,
And wynne gold and silver for I teche,
That I wol lyve in poverte wilfully?
Nay, nay, I thoghte it nevere, trewwly!
For I wol preche and begge in sondry landes;
I wol nat do no labour with myne handes,
Ne make baskettes, and lyve therby,
By cause I wol nat beggen ydelly.
I wol noon of the apostles countrefete;
I wol have moneie, wolle, chese, and whete,
Al were it yeven of the povereste page,
Or of the povereste wydwe in a village,
Al sholde hir children sterve for famyne.
Nay, I wol drynke licour of the vyne,
And have a joly wenche in every toun.
But herkneth, lordynges, in conclusioun —
Youre likyng is that I shal telle a tale.
Now have I dronke a draughte of corny ale,
By god, I hope I shal yow telle a thyng
That shal be reson been at youre likyng.
For though myself be a ful vicious man,
A moral tale yet I yow telle kan,
Which I am wont to preche for to wynne.
 Geoffrey Chaucer. „The Pardoner’s Prologue“, línur 439-460.  The Canterbury talesAflátssalinn
„Hvað! haldið þið virkilega að meðan ég predika 
og ávinn mér gull og silfur með ræðum mínum, 
þá vilji ég endilega búa við fátækt? 
Nei, nei! Það hefur mér aldrei dottið í hug! 
Ég vil predika og betla hvar sem ég kem. 
Ég vil ekki vinna með höndunum, 
eða riða körfur eins og heilagur Páll, 
þegar betlið gefur svona mikið af sér! 
Ég fylgi ekki dæmi postulanna; 
ég vil peninga, ull, og ost, og hveiti, 
jafnvel þótt fátækasti vikastrákurinn láti það af hendi 
eða örsnauðasta ekkjan í þorpinu – 
rétt sama þó börnin hennar séu að farast úr hungri! 
Nei, ég vil drekka vínberjasafa*   
og í hverju plássi er snotur hnáta! 
En heyrið mig, lagsmenn góðir, nú í lokin: 
þið óskið eftir ég segi ykkur sögu, og í Himnaföðurs [svo!] nafni, 
fyrst ég hef nú fengið dreitil af maltöli, 
þá vona ég að geta sagt ykkur sögu 
sem hugnast! 
Má vera ég sé syndumspilltur maður,
en ég get þó sagt ykkur uppbyggilega sögu – 
eina af þeim sem ég predika í hagnaðarvon.“* [„licour of the vyne“ í frumtexta, virðist afar ónákvæmt þýtt]

„Inngangur að sögu aflátssala“. Kantaraborgarsögur, s. 243. Erlingur E. Halldórsson þýddi. Mál og menning 2003. Þýðing Erlings er sett upp í prósa en ég raðaði textanum upp til samræmis við frumtexta.

 Á síðunni „Fictional portrayals of psychopaths in literature“ á  Transwiki, Wikipedia,  er talinn upp fjöldi fleiri dæma úr evrópskum en einkum engilsaxneskum bókmenntum.
 
 
 
Siðblinda í íslenskum bókmenntum


 

Egill Skallagr�mssonÍ íslenskum bókmenntum hefur siðblindu enginn gaumur verið gefinn. Næsta augljóst er þó að Egill Skallagrímsson uppfyllir bæði greiningarlykil Hare og DSM-IV, líklega einnig ICD-10, til að teljast verulega siðblindur. Þetta er að því leyti eftirtektarvert að Egill er eina aðalpersóna Íslendingasagna sem ekki er einhliða (týpa) heldur margbrotin persóna. Það er vitaskuld erfitt að sjúkdómsgreina einstaklinga eftir sögulegum heimildum, hvað þá skáldskap, en Egill er það skýrt dæmi að ég nefni hann sérstaklega.Hann sýnir feikileg hegðunarvandræði sem barn og unglingur og kemur þá strax fram að hann er algerlega samviskulaus. Í grimmdarverkum blöskrar mönnum hans, t.d. í ferðinni á Kúrlandi, og kölluðu víkingar þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Kaldlyndi og ágirnd eru ríkjandi þættir í fari Egils. Í þau fáu skipti í Egils sögu sem hann virðist sorgmæddur má allt eins túlka þau dæmi sem gremju yfir því að hann fær ekki það sem hann telur að sér beri, hvort sem um er að ræða Ásgerði, bætur eftir bróður sinn eða fé Ljóts hins bleika. Þegar Egill missir son sinn og kemst í mikla geðshræringu er allt eins líklegt að hann sé fjúkandi reiður yfir að hafa misst erfingja enda þoldi hann ekki hinn son sinn, friðsaman og sáttfúsan Þorstein. Sonatorrek, hið fræga kvæði sem raunar er óvíst hvort hafi fylgt Egils sögu frá upphafi, er aðallega ásakanir á hendur Óðni fyrir að hafa svipt Egil erfingja. Undir lok sögunnar, þegar Egill er örvasa gamalmenni, er hann jafngrimmur og fyrr, drepur tvo þræla og felur silfur sitt til að enginn fái notið þess, sem er náttúrlega ágætt dæmi um þá sjálfselsku og eiginhagsmunasemi sem einkennir siðblinda.4
 

Það er auðvitað spurning hvaða ályktanir um þekkingu íslenskra miðaldamanna á siðblindum má af lýsingu Egils draga. En mér finnst líklegt að höfundur Egils sögu hafi haft náin kynni af siðblindum einstaklingi og stuðst við þau í samningu Eglu. Siðblinda er meðfædd persónuleikaröskun og því líklegt að hún lýsi sér svipað á mismunandi skeiðum sögunnar og við mismunandi aðstæður. Það væri einkar spennandi að skoða dæmi um lýsingar persóna og hegðun þeirra í veraldlegum samtíðarsögum með tilliti til siðblindu, t.d. Sturlungu (einkum Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar) því mörgum þykja þær raunsæjar og þær eru skrifaðar á svipuðum tíma og atburðir henda.

Norski geðlæknirinn Jon Geir Høyersten hefur skrifað um persónuleikaraskanir í Íslendingasögunum og þá sérstaklega Brennu-Njáls sögu. Hann segir, í viðtali, um Hallgerði langbrók: „Hallgerður var einstaklega afbrýðisöm kona og lét stjórnast af þeim kenndum. Hún var einnig gráðug og bæði vildi og reyndi að komast yfir það sem aðrir áttu og mátu … Hún var mjög sjálfhverf og hugsaði fyrst og fremst um eigin hagsmuni en það eru lýsandi einkenni siðblindu (e. sociopathy) eða Narkissisma.“5 Ég hef ekki aðgang að grein sem Høyersten hefur skrifað um efnið en mér þykir þessi siðblindugreining hans á Hallgerði dálítið vafasöm þegar haft er í huga hjónaband hennar og Glúms. Á hinn bóginn kemur langrækni, sem margir telja að einkenni siðblinda, prýðilega fram í síðustu samskiptum þeirra Gunnars á Hlíðarenda og ekki þarf að leita lengi að dæmum um ruddalega og sjálfselska hegðun Hallgerðar.
 

Af því nú nálgast páskar má rifja upp Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar. Þar er ekki minnst á siðblindu. En skv. lúterskri guðfræði verða menn að viðurkenna og játa syndir sínar og veikleika. Með iðrun verður mannssálin móttækileg fyrir náð og huggun. Hallgrímur var vel að sér í sinnar tíðar guðfræði og í Passíusálmunum kemur fram að iðrun, þ.e. hæfileikinn til eftirsjár, sé guðs gjöf og ekki öllum gefin, þ.e. ekki á valdi einstaklingins. Kannski hefur sr. Hallgrímur kynnst mönnum sem ekki gátu fundið til eftirsjár? Mér finnst áhugavert að skoða þessi tvö erindi úr 12 Passíusálmi með siðblindu í huga:
 
 

20.
Ekki er í sjálfs vald sett,
sem nokkrir meina,
yfirbót, iðrun rétt
og trúin hreina.

21.
Hendi þig hrösun bráð,
sem helgan Pétur,
undir Guðs áttu náð
hvort iðrast getur.

Af seinni tíma íslenskum bókmenntum er freistandi að benda á Bjart í Sumarhúsum sem, eins og Egill Skallagrímsson, er algerlega siðblind persóna, skoðað út frá helstu greiningarlyklum siðblindu. Bjartur er samviskulaus og hugsar einungis um eigin hag, sem kristallast í ósk hans um kindur á fæti. Hann er til í að fórna fjölskyldu sinni fyrir eign. Sú eina persóna sem Bjartur virðist bera einhverjar taugar til er Ásta Sóllilja. En það kemur ekki í veg fyrir að hann áreiti hana kynferðislega á barnsaldri og reki hana barnunga að heiman. Eiginlega er Ásta Sóllilja eign/hlutur í augum Bjarts, hið eina sem hann hefur getað náð frá Rauðsmýrarfólkinu. Tilfinningar hans, annað en ósk um eignarhald, virðast rista grunnt. Til að lokka Ástu Sóllilju aftur til sín er Bjartur til í að leggja ýmislegt á sig svo sem að „yrkja nútímaljóð“.  Í lok þessarar miklu sögu hefur Bjartur ekkert breyst og lemur enn hausnum við steininn í sinni meintu sjálfstæðisbaráttu. Bjartur er í rauninni skólabókardæmi um uppreisnarmann án málstaðar.6

Ég hef ekki hugmynd um hvort Halldór Laxness vissi mikið um psykopati þegar hann skrifaði Sjálfstætt fólk, sem kom út 1934-1935. Það væri auðvitað gaman að kanna hvað leynist í bóksafninu á Gljúfrasteini. En Halldór var afar góður mannþekkjari og eiginlega er ómögulegt annað en ímynda sér að hann hafi haft lifandi fyrirmynd að Bjarti, siðblindan mann sem hann hafi kynnst nokkuð vel eða fylgst vel með. Það er því í sjálfu sér hlálegt hvernig sumir hafa gert andhetjuna hinn siðblinda  Bjart að sínu átrúnaðargoði og fyrirmynd allar götur síðan Sjálfstætt fólk kom út. Sjálfur á Halldór Laxness að hafa kallað Bjart þurs og afglapa.7
 

Með aukinni reyfarmenningu hér á landi hafa birst fleiri siðblindingjar. Af  glænýjum bókum má nefna Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, þar sem ein aðalpersónan hefur siðblindugreiningu og hagar sér í samræmi við það, og Snjóblindu Ragnars Jónassonar, þar sem ein aðalpersónan er greinilega sköpuð með hliðsjón af nýjustu siðblinduumfjöllun. Báðar þessar bækur komu út fyrir síðustu jól (2010).

Andrés ÖndAð lokum skal minnst á áhugaverða (en e.t.v. umdeilda) greiningu á frægri teiknimyndapersónu, Andrési Önd: „Við persónuleikagreiningu á Andrési komu eftirfarandi þættir í ljós: Hann er skapbráður, latur, svikull, frekur, þjófóttur og afskaplega mikill heigull. Hann er vondur við börn og á stundum einnig grimmur við dýr. Andrés er samkvæmt þessum einkennum haldinn siðblindu eða sociopathy.“8


 


1 Þeófrastos. Manngerðir. Íslensk þýðing eftir Gottskálk Þór Jensson sem einnig ritar inngang. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 2007. Kaflinn um blygðunarleysi er nr. IX,  á s. 92-93.Í eftirmála segir Gottskálk: „Önnur vísbendingin er frá ofanverðri sautjándu öld: Í bókasafni Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti var samkvæmt bókaskrá frá árinu 1674 (AM 281 fol) eitt stórt bindi (fólíó) með verkum Þeófrastosar, Theophrasti opera, græce. Útgáfan, sem helst virðist geta fallið lýsingunni á bók Brynjólfs, er Theophastri Opera frá árinu 1541 (Basel), eitt bindi í fólíó með gríska textanum án latneskrar þýðingar. Þar í hafa og verið fimmtán fyrstu manngerðirnar, en ekki er þar með sagt hvort nokkur Íslendingur hafi lesið þær.“ (s. 178).

Teikningin er eftir Francis Howell. Þessar teikningar birtust upphaflega í enskri útgáfu, The Characters of Theophrastos, London 1824. Í undirtitli þeirrar útgáfu segir að bókin sé „skreytt lyndislestrarmyndum“ (illustrated by phsysiognomical sketches) og kveðst Howell teikna þær í ljósi áralangrar athuganir á andlitsfalli og skapgerð manna. (s.189)
 
 

2 Rotenberg, Bernard Mordechai. 1971. „The Biblical Conception of Psychopathy: The Law of the Stubborn and Rebellious Son“. Journal of the History of Behavioral Sciences. 7.árg. 1. tbl. 1971, s. 29-38.
 
 

3 Stein, George. 2009. „Was the scoundrel (belial) of the Book of Proverbs a psychopath? – psychiatry in the Old Testament“. The British Journal of Psychiatry 194. árg. 1.tbl. 2009, s. 33.
 
 

4 Óttar Guðmundsson geðlæknir hefur greint Egil Skallagrímsson með „geðhvarfasýki með alvarlegum þunglyndistímabilum og tímabundnu oflæti.“ Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JPV útgáfa 2007, s. 10. Ég er ekki geðlæknir en hef kennt Egils sögu á að giska 40 sinnum og finnst þessi greining afar hæpin. Torfi H. Tulinius hefur skrifað talsvert um Egils sögu, þ.á.m. bókina Skáldið í skriftinni – Snorri Sturluson og Egils saga.  Hið íslenska bókmenntafélag 2004. Torfi kemst að þeirri meginniðurstöðu að Egils saga sé skáldsaga sem Snorri hafi skrifað sem nokkurs konar yfirbót og byggt á ævi sinni; „Snorri hafi með sögunni viljað bæta fyrir þær syndir sem hann drýgði í deilum sínum við Sighvat bróður sinn og Sturlu son hans. Hann hafi séð hlutskipti sitt og Egils í ljósi sögu Gamla testamentisins af Davíð konungi. Allir þrír hafi misst frumburð sinni og túlkað það sem refsingu fyrir að hafa lagt á ráð um dauða sinna nánustu keppinauta.“ (Kynning á bókinni á síðu Hins íslenska bókmenntafélags.) Ég hef sömu skoðun á niðurstöðum Torfa og geðgreiningu Óttars. Sjálf óf ég fyrir margt löngu vef um Egils sögu þar sem m.a. má finna síðu þar sem einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar eru mátaðar við Egil, sjá „Var Egill andfélagslegur persónuleiki?“, samin 2000. Þessi síða er barn síns tíma og eftir siðblindupælingar undanfarið myndi ég auðvitað greina Egil eftir gátlista Hare og kenningum annarra fræðimanna um siðblindu.
 

5 „Persónuleikaraskanir í Njálu“. Fréttablaðið 13. ágúst 2005, s. 20
 

6 „… hinn siðblindi er uppreisnarmaður án málstaðar, pólitískur æsingamaður án slagorðs, byltingarmaður án áætlunar; með öðrum orðum, uppreisn hans er í því augnamiði að ná takmarki sem einungis þjónar honum einum; hann er ófær um að leggja sig fram í annarra þágu. Öll fyrirhöfn hans, skiptir ekki máli hvaða gervi hún klæðist, er til þess gerð að uppfylla stundarþarfir hans og óskir.“ 

Lindner, Robert M. 1944. Rebel Without a Cause: The Hypnoanalysis of a Criminal Psychopath. Útgáfa Other Press, LLC, 2003 er aðgengileg á Bækur Google. Ath. að kvikmyndin Rebel Without a Cause á ekkert sameiginlegt með þessari bók nema titilinn.
 
 

7 Illugi Jökulsson. 2009. „Grein: Skrímslið í Sumarhúsum.“ Færsla 21. ágúst 2009 á Trésmiðju, bloggi Illuga.
 
 

8. Matthías Matthíasson, nemi í sálfræði. Úr Samfélagstíðindum, blaði þjóðfélagsfræðinema í Háskóla Íslands, 12, 1992. Birtist í „Hver ertu, Andrés?“  Morgunblaðið 11. júní 2004, s. 6.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Sýnishorn af degi kramaraumingja

Dagurinn hefur auðvitað að mestu runnið mér úr greipum vegna þess hve mikill kramaraumingi ég er. (Þetta finnst lækninum mínum doldið ljótt orð en hann er náttúrlega alinn upp fyrir sunnan … ég man ekki betur en kramaraumingi hafi verið tiltölulega hvunndagslegt orð þarna á norðausturhorninu og gæti reyndar tínt til verri orð en það, einkum eitt sem ég passa voðavel að nefna aldrei í viðtölum við þann góða lækni þegar ég bögglast við að lýsa slappri líðan.)

Í allan dag hef ég verið að reyna að fixa hljóðskrár á vefsíðu. Í denn, meðan ég hafði þrekið, hefði ég rúllað þessu upp inn á milli verka. En fyrst var að finna vél á vef til að breyta gömlum real-audio skrám í mp3 (vildi ekki hlaða niður forriti til ‘ins arna) og það tókst mæta vel. Svo er að láta þær keyra á vefsíðu. Það gengur illa. Þ.e.a.s. þær keyra eins og englar (ef hljóðskrá má kalla svo og ef englar keyra) í IE og Operu en eru með tiktúrur í Google Chrome. Kann ekki við að vekja soninn til að tékka á Firefox. Stefnan er að nota eins hreinan HTML-kóða og unnt er, sleppa XML og javascript fiffum sem mest og því miður eru menn ekki nógu harðir á stöðlunum ;(  Ég hef ekki ofið neitt í marga mánuði en stefni æ meir í Back to the Basic og KISS (Keep it simple Stupid!) og held að því einfaldari kóði því langlífari verði vefsíður. Nefni t.d. Netútgáfuna sem gott dæmi um hverju slík stefna hefur skilað. Já, svo nota ég enn eldgamlan Netscape Editor til að vinna grunninn (þrátt fyrir Dreamweaver áróður mannsins) og handskrifa svo meira og minna kóðann inn í grunninn, í Notepad. Dálítið erfitt fyrir konu með athyglisbrest, þetta er nákvæmnisvinna og þýðir ekki að gleyma að loka sosum eins og einum hornklofa eins og gefur að skilja …

Fyrir utan þetta dútl (hljóðskrárnar eru sýnishorn af forníslensku og hinn dramatíski flutningu Arne Torp á endurgerðri Atlakviðu með fimmtu aldar frumnorrænu-framburði) hef ég afrekað fátt. En ég hef reiknað út að ef mér tekst að klára að gera upp og breyta svona einni málsögusíðu á dag þá muni þetta verk einhvern tíma klárast, verk klárast nefnilega þótt þau séu unnin hægt. Og ég reyni að hugsa sem minnst um hvernig ég var áður en sjúkdómurinn greip mig í heljarkrumlurnar, þegar ég gat kennt meir en fulla stöðu og verið í fullt af skemmtilegum aukadjobbum með og allt var svo gaman og gekk svo hratt og ég lifði svo hratt. Núna lifi ég mjög hægt.

Fór reyndar til heimilislæknis í dag og lagði spilin á borðið: Sagði honum að við geðveika fólkið fengjum oft ýmis mjög sannfærandi sjúkdómseinkenni og nú vildi ég bara fá að vita hvort þau væru raunveruleg eða hvort ég væri hysterísk. (Lækninum fannst hysterísk ekki fallegt orð, ekki heldur móðursjúk. Af þessu má ráða að læknar séu almennt soldið viðkvæmir fyrir orðalagi sjúklings um sig.) Í ljós kom að öll einkennin nema eitt voru hystería. Gott fyrir mig að vita það. Aftur á móti hurfu þau ekki við þessar upplýsingar, því miður.

Eftir ráðfæringar við manninn, undir hinum ljúffenga kvöldverði sem hann snaraði fram handa sinni konu og kettinum, lét ég slag standa og pantaði tíma í nálastungum. Var búin að ræða þetta við stingjarann einhvern tíma í fyrra; sá þekkir vel til þunglyndis og lofar engu, í mesta lagi hugsanlegum séns. Best að taka þann séns – ég hef þá alltaf prófað. Og vestræn læknislyf skila mér hvort sem er ekki betri árangri en hugsanlegum séns svo maður getur allt eins leitað fleiri sénsa. Ég blæs á grænmetisfæði, dítox, hómópatíu, heilun og þess háttar. En mætti sosum prófa andalækningar, þær eru enn óprófaðar: Þekkir einhvern góðan andalækni? Er Friðrik enn að störfum? 😉 Handayfirlagning og særing er einnig óprófuð en ég held ég láti það eiga sig. 

Í gærkvöldi hraðlas ég reyfara, Fyrirgefningu eftir Lilju Sigurðardóttur. Ég man að ég var frekar hrifin af fyrri bókinni hennar, Spor, en komst að því við lestur þessarar að ég man ekki snitti úr fyrri bókinni. Og þessi seinni var alltof fyrirsjáanleg. Annars er ég enn á flettistiginu, skoða bækur, les hér og þar, sá reyndar að ég þyrfti einhvern tíma að skruna yfir Íslensku Hómilíubókina því textinn í henni er svo frábærlega flottur; íslenskan er gull! Og þeir sem sömdu þessar stólræður höfðu hvorki aðgang að orðabókum né orðum heldur sömdu sín eigin orð nokkurn veginn jafnóðum, a.m.k. mörg þeirra. Alltaf gaman að finna góðan texta.

Labbaði heim af Heilsugæslustöðinni og steig ölduna, sem bendir til að helv. þunglyndið sé ennþá í blóma. Og hengdi upp úr einni þvottavél með harmkvælum (svimi, flökurleiki, skjálfti o.s.fr. helltist yfir mig). Þannig að ég verð að sætta mig við að vera kramaraumingi áfram. Og langir “hressandi” göngutúrar eru ekki á dagskrá (sem betur fer dettur engum í hug að stinga upp á þeirri vitleysu við mig, nema sonurinn þegar hann vill peppa upp geðveika móður sína með einhverjum krassandi brandara).  

Þótt afrakstur dagsins sé lítill er samt afrakstur. Maður verður bara að minnka kröfurnar og lifa annars konar lífi en áður. Og passa að missa sig ekki í reiði og pirring heldur hanga á æðruleysisbæninni og rækta sinn (kvikindislega) húmor. Var ekki líka hið raunverulega svar við tilgangi lífsins / lífshamingjunni að maður ætti að rækta garðinn sinn? (Í stað þeirrar lummulegu skoðunar að svarið við heimspekinni væri sjálfsvíg? Og kaldhæðnin einkum fólgin í að síðarnefndi spekingurinn lést í bílslysi áður en honum tókst að fremja sjálfsvígið?) Maður stjórnar ekki þunglyndi. En maður getur svolítið stjórnað því hversu mikið skal hangið í harminum eða hve maður lætur eftir sér að tjúnast upp í gagnslausri reiði og pirringi út í allt og alla og öfund út í þá sem hafa fundið meint Eldóradó. Af því mér gengur merkilega illa að forðast drullupolla og neikvæðni hef ég ákveðið að líta á þá eins og hvert annað svartagallsraus og reyna að sjá hversu fyndin umræðan í rauninni er, alveg eins og mér þótti alltaf lúmskt gaman af Láka jarðálfi sem ég las fyrir strákana litla 😉

Og nú er ég orðin of þreytt til að finna myndskreytingar við færsluna …