31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:
http://sidblinda.com
Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti
(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.)
Að hafa siðblindan prest eða leiðtoga í kirkjunni er eins og að afhenda siðblindum óútfyllta ávísun1
Umfjöllun á Norðurlöndunum
Á Norðurlöndunum hafa komið út a.m.k. þrjár bækur sem fjalla um siðblindu innan kirkjunnar. Allar hafa þær vakið mikla athygli en eru þó ófinnanlegar í íslenskum bókasöfnum, hvað þá að þær hafi verið þýddar. Ég hef þessar bækur ekki undir höndum og verð því að styðjast við tilvitnanir á vefsíðum og greinar um þær. Mér finnst mjög einkennilegt hve hljótt hefur verið um bækurnar hér á landi.
*Árið 1989 kom út norska bókin Maktmennesket i menigheten eftir Edin Løvås. Höfundurinn er velþekktur prédikari í Noregi og starfandi prestur í Norska heimatrúboðinu (Misjonsforbundet) í áratugi. Þetta eru nokkurs konar reikningsskil á ágætum möguleikum dæmigerðra siðblindra til „tortímandi tjáningar“ í venjulegum kristnum söfnuðum. Kristnir söfnuðir eru „vettvangur þar sem svona fólk á auðveldast með að beita valdi sínu“, segir hann. „Eftir 40 ár sem sálusorgari er ég skelfingu lostinn yfir þeirri miklu þjáningu sem siðblindir valda kristnum einstaklingum, hópum og söfnuðum. Ég er líka skelkaður yfir hve lítið bæði kristnir og fagfólk á þessu sviði talar hreint og vafningalaust um þetta. … Ég tel að þetta sé risastórt vandamál sem sópað er undir teppið. Það er eins og dreginn sé allur máttur úr forystumönnum [kirkjunnar]. Stundum velti ég fyrir mér hvort hirðarnir séu ekki jafn hræddir og hjörðin og sé sú raunin ásaka ég engan. Því ekkert (fyrir utan sjálfan djöfulinn) er eins ógnvekjandi og þegar þessir „skæðu vargar“ þröngva sér inn á ykkur (sbr. Postulasöguna 20:29).“2
„Siðblindir eru menn sem hafa lífsskoðun, mannskilning og viðhorf sem leiðir til þess að þeir eru sífellt á höttunum eftir valdi. Þeir hafa óendanlega þörf til að stýra hjörtum og hugsunum annarra. Kristnir söfnuður er vettvangur þar sem þeim veitist létt að hrinda þessu valdi í framkvæmd. Siðblindir eru venjulega klárir og heillandi og þeir beita öllum sínum áhrifum og orku í valdabaráttuna.“3
Ástæðurnar fyrir því hve sá siðblindi nær sterkum tökum innan kirkjunnar eru einkum þrjár, skv. Løvås. Í fyrsta lagi geti sá siðblindi sett fram kröfur um kærleika, auðmýkt, þolinmæði og umburðarlyndi. Kristið fólk er alið upp í því að fyrirgefa og þola þjáningu. Prédikarar og prestar hafa hamrað á því að kærleikurinn, þolinmæðin og umburðarlyndið sé takmarkalaust, án þess að bæta við að hægt er að misnota fólk í nafni kærleika og þolinmæði; Önnur skýring er sú að fólk hefur tamið sér í of miklum mæli að vera óvirkir áheyrendur í kirkjum. Tjáningin kemur svo til eingöngu úr kórdyrum, frá altarinu og úr prédikunarstólnum. Flestir samþykkja athugasemdalaust það sem prédikarinn boðar. Þeir setja sig í spor „sauðanna sem fylgja hirðinum“ og í þessu tilviki á það ekki við Jesús, heldur prestinn eða skilning þeirra. Skv. Løvås eru flestir þannig uppaldir að það er ofar þeirra skilningi að einhver skuli „prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug“ (Filippíbréfið 1:17). Enn ein skýringin á því hve auðvelt er fyrir siðblinda að ná völdum í kristnum samfélögum er kannski að þeir leita oft í Biblíuna í röksemdafærslu sinni. Þeir geta vísað í ritningarstaði á borð við „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát.“ (Hebreabréfið 13:17).4
Løvås telur að sá siðblindi búi sér oft til einfalt guðfræðikerfi með aragrúa af ósveigjanlegum reglum. „Því neyðir hann svo upp á fólk og krefst óskoraðrar hlýðni undir því yfirskini að hann haldi trúna við bókstafinn, rétta guðfræði og rétt lögmál. Af því að valdinu stafar af honum veldur hann ótta og hann brýtur andstöðu á bak aftur. Þeim sem hann nær á vald sitt finnst að mótmæli jafngildi því að þeir séu á móti sjálfum Guði almáttugum.“5
Kaflafyrirsagnir í bókinni lýsa valdsmönnum innan kirkjunnar (maktmennesket i menigheten): Þeir verða að vera miðpunktur athyglinnar; Þeir eru stöðugt til í slaginn; Sektarkenndin er helsta vopn þeirra (þeir láta aðra fá samviskubit); Þeir brjóta niður sjálfsálit (annarra); Þeir skilja ekki þarfir annarra; Þeir hafa mikla þörf fyrir örvun. (Innst inni leiðist þeim. Þeir elska dramatík og að vera í miðju hringiðunnar.); Þeir hafa óraunhæfar væntingar; Þeir blekkja flesta; Þeim hugnast vel stigskipt valdakerfi; Þeir ráðast á minni máttar.6
Siðblindir munu ekki breytast. „Lausnin er sem sagt ekki sú að bíða eftir neins konar breytingu eða þess að valdsmennirnir skáni. Hinn þekkti norski sálfræðingur Tollak B Sirnes segir: „Flestar rannsóknir á árangri meðferða siðblindra sýna að líkur á bata eru litlar.“7
Løvås telur að það sé engin önnur leið fær en að rjúfa samskipti við slíkan valdsmann. Hinn kosturinn er að leggjast í mikil bréfaskipti, rökræður eða samningagerð við þá og virðist Løvås ekki telja að það skili árangri. Ef á að reka þá, segir hann, verður það að gerast á óvéfengjanlegan löglegan hátt – allt annað er gagnslaust.
Hlutverk okkar hinna ætti fyrst og fremst að vera að vernda minni máttar og ekki að gefa þeim sterka nein tækifæri. Því meir sem við hræðumst að stöðva valdsmann, því minna tillit sýnum við þeim sem valdmaðurinn tætir í sig. Og þeim líður illa. Þeirra hlutskipti er að þjást í hljóði því ef þeir vekja máls á því sem er erfitt mun þeim líða enn verr. Þeir geta auðvitað gert kollega sína að trúnaðarmönnum og fengið stuðning og skilning en fáir kollegar þora að halda opinskátt með þeim þegar nauðsyn ber til. Fórnarlömbin stríða oft við mikla tilfinningaörðugleika, svefnleysi og líkamlega kvilla. Enn verra er að þau byrja oft að skilgreina sig eins og valdsmaðurinn lítur á þau, nefnilega veikgeðja, móðursjúk, óguðleg, sjálfselsk o.þ.h.8
*Presturinn Raimo Mäkelä, framkvæmdarstjóri Finnsku biblíustofnunarinnar (Finska Bibelinstitutet / Sumoen Raamattuopisto), gaf 1997 út örstutta bók (einungis 78 síður), Naamiona terve miele, sem á dönsku heitir Magtmisbrug i menigheden, á norsku Psykopatenes makt: hvordan du kan bli fri en hefur hvorki verið þýdd á sænsku né íslensku. Bókin hefur verið endurprentuð átta sinnum og selst í yfir 16.000 eintökum. Hún hefur komið út í Þýskalandi, Noregi og Danmörku og árið 2005 var verið að þýða hana á rússnesku, ensku og kínversku.
Raimo Mäkelä reynir ekki að draga fjöður yfir það að vandamál sem tengjast sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (Narcissistic Personality Disorder) sé einnig að finna innan kirkjunnar – og bætir við að hugtakanotkun sé dálítið ruglingsleg enda talar hann alltaf um siðblindu (psykopati) síðar í viðtalinu, sem ég vitna í. Grunnþátturinn í siðblindu er valdafíkn. Siðblindir geta verið kappsamir og metnaðargjarnir en þegar allt kemur til alls er sjálf valdabaráttan þeim mikilvægust; að ráða yfir hverri manneskjunni af annarri eða hreppa hverja stöðuna eftir aðra. Bæði lútherska þjóðkirkjan og fríkirkjur höfða til svona fólks og oft kemst það í stjórnunarstöður.
Mörg ár, jafnvel fast að áratug, tekur að átta sig á svona manni. Gróft meðaltal er kannski tvo ár, þá ættu viss merki að vera farin að sjást. Oft er viðkomandi þá á miðjum aldri.
Það að maður með siðblindueinkenni geti starfað óáreittur í kristnu samfélagi um langt skeið á sér sínar skýringar. Kirkjustarfi fylgir myndugleiki sem er frjór jarðvegur fyrir þann sem þyrstir í völd. Hann getur lært rétta tungutakið, kennt um trú og guðspjöllin af sannri trúfestu og verið strangur. Það tekur tíma að síast inn að hann telur sig alls ekki sjálfan bundinn af þeim reglum sem hann prédikar. Hann er er ósvífinn en ekki svo ósvífinn að manni blöskri eða trúi varla sínum eigin eyrum og augum. Kristnar hugsjónir fela í sér að vera góður, að halda friðinn og hlýða. Enginn býst við því að kristinn leiðtogi komi illa fram við aðra.
Hinn siðblindi deilir fólki í þrjá hópa. Eðlisávísunin segir honum hverjir standa með honum eða hverja hann getur munstrað í sitt lið. Allt snýst um hann sjálfan. Fyrsti hópurinn er fólk sem hann getur ráðskast með og heillað, fólk sem dáist endalaust að honum og verður hirð í kringum hann. Hann fer um þetta fólk silkihönskum og þetta er liðið sem segir: „Hann gæti aldrei gert neitt af sér!“„Við trúum aldrei neinu illu upp á hann!“ Næsti hópur er fólk sem sér í gegnum þann siðblinda. Hann getur ekki ráðskast með það og hann þolir ekki þetta fólk. Þriðji hópurinn eru fórnarlömbin, þau sem hann mun traðka á. Þetta eru oftast góðar manneskjur sem vilja halda friðinn. Hann er stundum almennilegur við þetta fólk en getur augnabliki síðar umhverfst í djöful í mannsmynd.
Reynsla fólks í söfnuðinum og álit manna verður því mjög mótsagnakennt. Þess vegna er lítið gagn af því að fá utanaðkomandi ráðgjafa því það eina sem hann festir hönd á er að þarna séu skiptar skoðanir.
Vegna sterkrar ráðningarfestu er erfitt að losa sig einfaldlega við hinn siðblinda, sama hversu langt hann gengur. Þar er sjaldan beinlínis um lögbrot að ræða, það er hægt að beita valdníðslu á svo ótal aðra vegu. En óheiðarleikinn og ofbeldisfull hegðun eru auðsjáanleg.
Að sumu leyti er siðblindum vissulega vorkunn. Hann er aumkunarverður. Hann sér aldrei sök hjá sjálfum sér heldur telur alla aðra breyta rangt. Hann skortir samhygð og samvisku. Hann iðrast einskis. Samt finnst Mäkelä óþarft að vorkenna siðblindum heldur eigi að hugsa um fórnarlömb þeirra. Ástandið mun aldrei skána. Maður á að berjast á móti og ekki láta traðka á sér en gangi það ekki er um að gera að segja upp starfi og fara, það er ekki vesalmennska heldur nauðsyn til að lifa af. Hann segir:„… sem sálusorgari get ég aldrei hvatt neinn til að vera um kyrrt í slíkri þjáningu og helvíti [sem samvistir við siðblindan geta verið]…. Flýðu!“9
*Árið 2007 kom út í Danmörku bókin Forklædt. Pæne psykopater og deres ofre eftir Irene Rønn Lind. Hún er menntaður kennari, fjölskylduráðgjafi og hefur lokið cand.pæd.psyk.aut. gráðu. Lokaritgerð hennar, 2001, fjallaði einmitt um „pæne psykopater“. Irene er starfandi sálfræðingur og hefur setið í sóknarnefnd á Sjálandi. Bók hennar virðist hafa vakið mikla athygli. Hugtakið „pæne psykopater“ hef ég áður þýtt sem „snotrir siðblindir“ en mætti líka notast við „huggulegir siðblindir“ (á ensku eru notuð „successful psychopath“, „subclinical psychopath“ o.fl. orð yfir þetta sama, þ.e.a.s. siðblindan sem tekst að taka þátt í samfélaginu og halda sig utan fangelsismúranna).
Irene Rønn Lind heldur því fram að fyrirgefning og opnar dyr kirkjunnar geri hana að hreinasta gósenlandi fyrir siðblinda. Hún segir: „Hin jákvæðu gildi sem ríkja í kirkjunni, s.s. fyrirgefning og náungakærleikur, gera siðblindum auðvelt fyrir í innan kirkjunnar. Hin jákvæðu gildi virka nánast eins og óútfyllt ávísun fyrir hinn siðblinda og aðferðir hans. Þetta þýðir að hann fær oft að valsa óáreittur í mörg ár uns fólk fær endanlega nóg.
…
Hagur siðblindra er góður í kirkjusamfélaginu og það skapar vandamál því aðfarir hins siðblinda fá aukið vægi í hinu trúræna. Þetta gerir aðstæður í kirkjunni ólíkar aðstæðum á venjulegum vinnustað. Þegar maður nær tangarhaldi á sambandi fólks við guð öðlast maður ríkulegt vald.
…
Sá siðblindi mun hafa áhrif á söfnuðinn. Nærvera hans mun skaða trúnaðinn, umhyggjuna og tiltrúna. Fólki reynist erfitt að sýna trúnaðartraust því það hræðist að það sem það upplýsir verði notað gegn því. Hinn siðblindi mun alltaf sitja um að snúa vandamálum safnaðarins gegn safnaðarfólkinu sjálfu.“10
Hún vitnar í skoðun danskra vinnustaðasálfræðinga sem hafa getið sér til að u.þ.b. 10% stjórnenda í atvinnulífinu séu umtalsvert siðblindir. Irene Rønn Lind telur að hlutfallið sé svipað innan dönsku kirkjunnar en tekur fram að auðvitað sé um ágiskun að ræða. 11
Á sóknarnefndarfundum sýnir hinn siðblindi ógnandi framkomu og heitir fólki glötun. Hann þolir ekki gagnrýni, finnur ekki til samviskubits og allt sem hann gerir er einungis í eigin þágu.12
Irene Rønn Lind hefur sýnt tengsl hins siðblinda við söfnuðinn í svona töflu:
Og hún lýsir því svona hvernig hegðun hins siðblinda gæti skarast við verkefni prests:
13
Dæmi um bágt ástand í kirkjunni
Í inngangi bókar sinnar rekur Irene Rønn Lind nokkur dæmi úr dönskum fjölmiðlum sem sýna eyðileggjandi atferli einstaklinga. Hún tekur fram að ekki sé hægt að fullyrða að einstaklingarnir sem við sögu koma séu siðblindir en segir að þessi dæmi sýni hvernig siðblindur gæti hagað sér.
Dæmi VII er um frétt sem birtist á forsíðu Kristilegs dagblaðs í 4. apríl 2001. Fyrirsögnin var „Kirkjur Kaupmannahafnar kærðar fyrir einelti“. Í tveimur greinum og í leiðara blaðsins var lýst einelti og áreitni í 8 kirkjum þar í borg sem tilkynnnt hafði verið til Vinnuverndar (Arbejdstilsynet). Í leiðaranum var vísað til kirkjuráðstefnu og staðhæft að í fjórðu hverju sóknarkirkju í Danmörku ríkti ófriður. Irene hringdi samdægurs í blaðamanninn sem skrifaði greinarnar og komst að því að í þeim 8 tilvikum þar sem hafði verið tilkynnt um einelti og áreiti mátti rekja helminginn til sömu manneskjunnar.14
Af flokkadráttum og eineltismálum í kirkjum Kaupmannahafnar voru þau alvarlegustu í Stefánskirkjunni. Þar logaði allt í illdeilum: Tveimur prestum (Anne Braad og Ivar Larsen) líkaði engan veginn við þriðja prestinn (Lull Ross); kórinn hafði verið rekinn munnlega en starfaði samt áfram; sóknarnefndin var klofin í afstöðu sinni og organistinn var kominn í langt veikindaleyfi vegna áfallastreitu sem stafaði einkum af einelti fyrstnefndu prestanna tveggja. Organistinn, Ole Olesen, hafði þá starfað í Stefánskirkjunni í tæp 30 ár. Það var hann sem kærði til Vinnuverndar.
Presturinn sem átti undir högg að sækja hafði skrifað Kirkjumálaráðuneytinu bréf og beðið um úttekt á vinnuumhverfinu í kirkjunni. Hún hafði líkað skrifað sóknarnefndinni og tilkynnt að hún yrði fyrir einelti. Presturinn Ivar Larsen, sem virðist aðallega hafa verið stuðningsmaður sr. Anne Braad, hafði á hinn bóginn mætt á fund sóknarnefndar til að upplýsa hana um hver væru fyrstu skrefin til að reka prest vegna samstarfsörðugleika. Kórinn beið eftir formlegum uppsagnarbréfum. Um stöðu kórsins sagði Anne Braad: „Ég veit ekkert um lagagreinar og lagalega framkvæmd. En við höfum verið að vinna í því að reka kórinn í heilt ár og enn hefur ekki orðið af því. … Sennilega er það ekki hægt.“ Aðspurð hvort ekki væri stuðlað að lélegu vinnuumhverfi með að reka fólk og láta það svo halda áfram að vinna, svaraði hún: „Maður verður að reyna. Svo getur maður vonað að þau hætti sjálf.“ Fyrrum kórmeðlimur sagði í uppsagnarbréfi sínu, sem sent var til allrar sóknarnefndarinnar, prófasts og biskups: „Mér varð fljótlega ljóst að kirkjan og starfsmönnum hennar er stýrt af klíku, hópi manna sem hafa þvingað sitt í gegn með því að þegja yfir eða gefa rangar upplýsingar, beita ásökunum og ógnandi framkomu. Þær ákvarðanirnar sem þrýst var í gegn hafa á ýmsan máta ekki verið til að bæta daglegt starf í kirkjunni.“15
Fimm árum síðar voru deilumálin í Stefánskirkjunni enn óleyst. Lull Ross var hætt og einungis tveir prestar starfandi við kirkjuna, þau Anne Braad og Ivar Larsen. Vinnueftirlitið taldi sig ekkert geta gert því einelti og áreiti félli utan verksvið þess. Svona mál yrðu málsaðilar að leysa sjálfir. Biskup Kaupmannahafnar vildi ekki tjá sig um málið, sagði einungis: „Þetta eru nýjar fréttir fyrir mig. Ég hef hvorki heyrt um kærurnar frá kirkjunum né frá Vinnueftirlitinu. En ég mun auðvitað skoða málið með opnum huga.“ Organistinn hafði býsna lítið getað unnið og aðallega verið í veikindaleyfi. Það sem gerst hafði í málum hans til þessa: Hann reyndi ná sáttafundi með prestum kirkjunnar en sóknarnefndin svaraði ekki erindi hans (2001); Sóknarnefndin reyndi að reka organistann því hann gæti ekki sinnt starfinu vegna veikinda en organistinn leitaði þá til umboðsmanns („sætteombudsmand“ sem samsvarar umboðsmanni Alþingis hér á landi) (2002); Haldinn var fundur með þáverandi kirkjumálaráðherra sem krafðist þess að deiluaðilar fyndu lausn á málinu (2005); Formlegar sáttaumleitanir, að kröfu umboðsmanns, milli presta og organista fóru út um þúfur (2005); Organistinn kom til starfa í 6 vikur en gafst upp (sumarið 2005); Sóknarnefndin vinnur í að losna við organistann með því að endurskipuleggja stöðu organista (sumarið 2006).
Sérfræðingur í stjórnun sagði um þessi mál: Sáttaumleitanir geta oft leyst deilur en einungis ef báðir aðilar vilja leysa þær, annars gerist ekkert. Í venjulegu vinnuumhverfi hefði ósættið aldrei náð svona langt, það væri örugglega búið að reka annan aðilann.16
Sennilega er það tilviljun að dæmið um siðblindan í kirkjunni í norsku bókinni Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden er líka um samskipti prests og organista. Þetta er sönn saga og segir frá konu, organistanum Ragnhildi, sem prestur kominn á efri ár kúgaði til að hætta störfum. Presturinn kom fyrir sem blíður og indæll maður, sagði brandara og virtist frjálslyndur af presti að vera. Hann hafði líka einlægan áhuga á söng og mátti heyra sterka raust hans yfirgnæfa aðra í kirkjusöng. Dag nokkurn fékk Ragnhildur bréf frá sóknarnefndinni þar sem kvartað var yfir tónlistarvali hennar. Ragnhildur hafði nokkru fyrr álpast til að segja prestinum að sálmur sem fluttur var við barnaskírn væri tæpast viðeigandi. Hún hringdi í vinkonu sína í sóknarnefndinni og vinkonan kom þá af fjöllum, sóknarnefndin hafði alls ekkert fjallað um tónlistarval í kirkjunni á sínum fundum. Þegar hún ræddi svo málin við prestinn kom fram að hann hafði haft samband við formann sóknarnefndar og að hann liti á það sem ögrun við sig þegar hún léki eitthvað í kirkjunni sem hún hefði ekki áður borið undir hann. Ragnhildur fór að átta sig á prestinum, að hann léki tveimur skjöldum; héldi t.d. við konu sem var starfsmaður safnaðarins. En sjálf varð hún taugaóstyrk og lá andvaka á næturnar af því henni fannst hún órétti beitt.
Næst kom skrifleg kvörtun yfir að Ragnhildur hefði fært til hluti í kirkjunni, farið þannig út fyrir valdsvið sitt og brotið af sér í starfi. Á skipulagsfundum kirkjunnar leit presturinn ekki við henni og lét allar hennar tillögur sem vind um eyru þjóta. Hann var líka vanur að gera grín að tillögum annarra og tilkynna að hann myndi leysa málin sjálfur svo enginn þorði að mótmæla honum á þessum fundum.
Ragnhildur þurfti svo að taka sér frí vegna veikinda í fjölskyldunni. Presturinn tilkynnti strax að þetta yrði launalaust frí því það þyrfti að borga afleysingarmanni og hún samþykkti það. Fríið varð nokkrum dögum lengra en til stóð í upphafi en Ragnhildur lét vita á skrifstofu prestsins. Þegar hún kom aftur heim lá bréf í póstkassanum þar sem henni var tilkynnt að stöðuhlutfall hennar hefði verið lækkað niður í nokkrar klukkustundir á viku. Þegar hún spurði prestinn út í þetta svaraði hann pirraður að þetta væri ákvörðun sóknarnefndar. Hins vegar kom í ljós að sóknarnefnd hafði aldrei fjallað um þetta mál heldur hafði presturinn fengið formann sóknarnefndar til að skrifa bréfið.
Ragnhildur hafði ekki krafta til að standa í þessu lengur og taldi að ef hún fylgdi málum eftir yrði hún stimpluð sem upphafsmaður illinda sem myndi eyðileggja starfsferil hennar innan kirkjunnar. Hún sagði upp og réði sig í aðra sókn.17
Hvernig er staðan á Íslandi?
Ég get ekki fundið nein dæmi þess að hættuna á að siðblindir sæki í störf innan Þjóðkirkjunnar hafi einu sinni borið á góma. Eina dæmið þar sem siðblinda í kirkjunni er beinlínis nefnd á nafn er að prestur segist hafa sagt fyrrum biskupi árið 1996 að hann væri psykopat. Í bæklingnum Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna er minnst á andfélagslega ofbeldismenn: „Þeir skiptast almennt í tvo flokka: – Hinir andfélagslegu sem hafa litla sjálfstjórn, eru uppstökkir og ofbeldishneigðir við flestar aðstæður. – Hinir dæmigerðu sem beita einungis maka sinn og börn ofbeldi.“18 Önnur dæmi um að kirkjunnar menn eða Þjóðkirkjan sem stofnun hafi brúkað orðið siðblindur (eða andfélagslegur persónuleiki, víðara hugtak sem nær m.a. yfir siðblindan) hefur mér ekki tekist að finna. E.t.v. eru Þjóðkirkjunni þessi hugtök og þessar manngerðir enn ókunnar.
[Viðbót 1. febrúar 2011. Ég hef rekist á örfá dæmi í viðbót þar sem siðblindu ber á góma í máli kirkjunnar þjóna. Þau eru:
- Karl Sigurbjörnsson: „Það er því miður alveg áreiðanlegt að trú er í sjálfu sér engin trygging fyrir siðgæði og sönnum dyggðum. Siðlausa og siðblinda menn er eins að finna meðal trúaðra og guðlausra. Allt mannlegt eðli hneigist til sjálfshyggju og eigingirni.“ í pistlinum „Krossinn — páskarnir“ sem fluttur var í Dómkirkjunni þann 23. mars 2008. Heimild: Wikitilvitnun;
- Sr. Ólafur Þ. Hallgrímsson: „Kæra Siðmenntarfólk, þetta er ekki siðmennt, heldur einhvers konar siðblinda. Af henni höfum við nóg. Þjóðin þarf í sameiningu að finna veginn út úr ógöngunum, þrönga veginn, veginn til lífsins, veg Jesú Krists, sem sjálfur er »vegurinn, sannleikurinn og lífið«. (Jóh. 14).“ Sr. Ólafur vísar til þess að Siðmennt sé andsnúin kristinfræðikennslu í skólum. Heimild: Pistill Ólafs birtur á síðu Vantrúar;
- Sr. Birgir Ásgeirsson í „Blindu“, prédikun flutt 14. október 2007: „Einhver versta blinda sem til er, er siðblinda. Það er sú blinda, sem leiðir maninn frá því, sem er honum helgast af hjarta og hann getur tileinkað sér að grundvallaratriði, þ.e. það sem varðar tilvist hans, sannfæringu, heill og hamingju hvað mest.“ Heimild: Prédikun Birgis birtist á Trúin og lífið;
- Sr. Gunnþór Þ. Ingason í „Dýrkun Guðs á Dagverðarnesi“, prédikun flutt 15. ágúst 2010: „Hroki, sjálfumgleði og siðblinda í fjármálaumsýslu leiddu til efnahagshruns í íslensku samfélagi. Auðmýkt, sem sýnir sig í gagnrýnu og heiðarlegu endurmati og iðrun, er leið til endurreisnar og nýrra hátta svo framarlega sem hún gerist farvegur Guðs anda, líknar hans og lausnar fyrir einlæga bæn og lifandi trú í Jesú nafni.“ Heimild: Prédikun Gunnþórs birtist á Trúin og lífið.
Af þessum tilvitnunum má ráða að hr. Karl er hinn eini sem hugsanlega skilur hugtakið siðblinda. Hann er þó ansi svartsýnn þegar hann heldur því fram að allt mannlegt eðli hneigist til sterkustu kjarnaeinkenna siðblindu. Sr. Ólafur fer greinilega mjög villur vega í skilningi sínum á þessari geðröskun og efast má um að sr. Birgir og sr. Gunnþór skilji um hvað þeir eru að tala, Gunnþór slær að vísu fram klisjunni „siðblinda í fjármálaumsýslu“ en lækninginn sem hann boðar bendir til að hann skilji hana ekki. Reyndar virðast allir þrír prestarnir halda að lækning við siðblindu sé fólgin í betri og meiri kristnun þjóðarinnar. Ég held að engir geðlæknar og sálfræðingar séu sammála þessu einfeldningslega viðhorfi til lækningar siðblindu.]
Á hinn bóginn hefur ekki skort á deilur og úlfúð innan Þjóðkirkjunnar undanfarinn einn og hálfan áratug miðað við fregnir í fjölmiðlum, ekkert síður en í Kaupmannahöfn upp úr aldamótunum. Ég nefni nokkur dæmi – og tek það skýrt fram að ég er ekki að gera því skóna að neinir sem málin varða séu siðblindir, þetta eru einungis dæmi um deilur, uppsagnir og ásakanir um einelti. Þau eru öll studd fréttum í fjölmiðlum en ég kýs að tengja ekki í heimildir að sinni enda kannast flestir lesendur sjálfsagt við mörg þessara mála.
Í a.m.k. þremur tilvikum hefur organista verið sagt upp störfum, ýmist vegna óánægju prests/ presta eða sóknarnefnda. Stundum hafa sóknarnefndir fylkt sér bak við organistann og gegn prestinum, stundum hefur sóknarnefnd stutt prestinn. Prestur og djákni hafa lent í útistöðum og sóknarnefnd klofnað. Prestar hafa oft lent í útistöðum við söfnuði. Prestar hafa deilt um hver ráði einstökum kirkjum. Prestur ásakaði sóknarbörn sín um að kenna börnum sínum að leggja sig í einelti. Tiltölulega nýlega ásakaði prestur fjölmiðla landsins um að leggja alla Þjóðkirkjuna í einelti … o.s.fr. Og nú er loksins verið að rannsaka ásakanir og kærur um kynferðislegt ofeldi og kynferðislega misbeitingu fyrrverandi biskups, mál sem ráðamenn í Þjóðkirkjunni hafa gert sitt besta til að stinga undir stól allt þar til í fyrra.
Þjóðkirkjan er auðvitað í vissri klemmu þegar svona mál koma upp. Það er ekki hlaupið að því að segja upp ríkisstarfsmönnum.19 Aftur á móti virðist hún hafa verið treg til að grípa til þeirra ráða sem hún þó hafði / hefur, s.s. formlegra áminninga, sem eru undanfari uppsagnar. Helsta ráð Þjóðkirkjunnar virðist hafa verið að taka einstaka presta úr umferð með því t.d. að fá þeim annað embætti eða bara annað brauð.
Þjóðkirkjan hefur þó nýverið reynt að stemma stigu við því að hver sem er geti ráðið sig sem prestur í sókn. Að loknu Kirkjuþingi síðasta var starfsreglum sóknarnefnda og presta breytt og gert óheimilt að ráða einstakling til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri hafi menn hlotið refsidóm vegna brota á barnaverndarlögum, kynferðisbrot eða önnur ofbeldisverk. Augljóst er að prestar komast ekki hjá því að sinna aldurshópnum undir 18 ára aldri, t.d. í fermingarfræðslu, svo í raun takmarkar þessi breyting ráðningu hvers sem er í prestsstarf. Aftur á móti undanskilur kirkjan dóm skv. 217. gr. almennra hegningarlaga; þar er fjallað um „minni háttar“ ofbeldi þar sem dæma má í sekt eða 6 mánaða til eins árs fangelsi. Þetta er afar einkennilegt, finnst mér, því ef kenningar þeirra norrænu rithöfunda sem ég hef rakið hér að ofan standast þá hefur Þjóðkirkjan skilið eftir víðan möskva fyrir þá hugsanlegu siðblindu sem sækjast eftir störfum innan hennar, t.d. preststarfi.20
Niðurstaða mín er að það sé undarlegt hve íslenska Þjóðkirkjan hefur látið umræðu um siðblindu meðal kirkjunnar þjóna og hrikalegar afleiðingar hennar algerlega fram hjá sér fara; Ekki hvað síst í ljósi þess hve mikil umræða hefur verið á Norðurlöndunum og að þar hafi verið gefnar út 3 bækur um efnið, s.s. rakið hefur verið, þar sem höfundar eru allir sammála um að kirkjan höfði sérstaklega til siðblindra. Það er ósennilegt að eitthvað annað eigi við Ísland.
1 Tilvitnun í Irene Rønn Lind í Friborg, Kira: „Magtmennesket i kirken. (Den pæne psykopat)“ í Kritisk.dk Evangelist set med kritiske øje. Útg. ár vantar en skv. textanum er hann skrifaður 2007. Skoðað 27. janúar 2011. 2 Løvås, Edin. 1999. Formáli að Den farliga maktmänniskan (sænskri þýðingu á bókinni hans) á Sola Scriptura. Fyrstu 19 kaflana (af 23) má lesa á þessum vef; kaflar 1-10 og 11-19. Stytt endursögn af sænsku þýðingunni er á blogginu Tankar kring Livet. Funderingar kring livet i stort…, færslan er frá 11. nóv. 2007. Góð endursögn (á norsku) á helstu kenningum Løvås, settum í samhengi við fleiri kenningar um óhæfa valdsmenn innan kirkjunnar, er í pistli Gunnars Elstad, óársettum, Vanskelige medarbeidere. Skoðað 27. janúar 2011.
3 Løvås, Edin. 1999. 1.kafli.
4 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 202-203. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)
5 Løvås, Edin. 1999. 15. kafli.
6 Tilvitnanir í Edin Løvås og endursögn á texta hans í Elstad, Gunnar. Án ártals. Vanskelige medarbeidere, s. 3
7 Løvås, Edin. 1999. 7. kafli
8 Tilvitnanir í Eden Løvås og endursögn á texta hans í Elstad, Gunnar. Án ártals. Vanskelige medarbeidere, s. 3
9 Fernström, Kristina. 2005. Viðtal við Raimo Mäkelä. „Psykopaterna finns mitt i bland oss. Fly för livet“ í Kyrkpressen, fimmtudaginn 10. 2. 2005, nr. 6, s. 16-17. Fontana Media, Församlingsförbundet, Finnlandi. Sjá má ritdóm um dönsku þýðinguna: Dalsgaard, Lone. 2004. „Magtmisbrug i menigheden“ á Udfordringen.dk, 25. 3. 2004. Skoðað 27. janúar 2011.
10 Thuesen, Janni. 2007. Viðtal við Irene Rønn Lind. „Kirkens pæne psykopater“, Kristendom.dk, 7. maí 2007. Skoðað 27. janúar 2011.
11 Tilvitnun í Irene Rønn Lind í Larsen, Ole. „Psykolog: Pæne psykopater stortrives i kristne miljøer“ á Domino Kristent livsstils magazine, 5. febrúar 2010 (sænsk þýðing á sömu grein er hér). Skoðað 27. janúar 2011. Ath. að Hare, Robert og Paul Babiak greindu 3,5% af yfirmönnum stórfyrirtækja siðblinda [talið er að 1% manna séu siðblind] og nota niðurstöðurnar sem rök fyrir því að siðblindir sækist mjög eftir stjórnunarstöðum í viðskiptafyrirtækjum og víðar. Sjá Hare og Babiak. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York, s. 193. (Bókin kom fyrst út 2006.) Svo virðist sem Danir noti annað viðmið og greini miklu stærra hlutfall fólks siðblint. Það gæti stafað af því að á Norðurlöndunum þarf lægra skor á siðblindugátlista Hare (PCL-R) til að uppfylla siðblindu en líklegri skýring er að Danir telji ýmis önnur einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar til siðblindu.
12 Thuesen, Janni. 2007. „Kirken tiltrækker pæne psykopater“, Kristendom.dk, 7. maí 2007. Skoðað 27. janúar 2011.
13 Friborg, Kira. 2007. „Magtmennesket i kirken. (Den pæne psykopat)“ á Kritisk.dk. Evangelist set med kritiske øjne. Skoðað 27. janúar 2011.
Ef menn vilja lesa meira um kenningar Irene Rønn Lind má benda á grein Dorte Toudal Viftrup, sálfræðings sem situr í sóknarnefnd í Hvítasunnusöfnuðinum danska, „Psykopater på kirkens talerstol…“ á Baptistkirken.dk, 4. maí 2008. Skoðað 27. janúar 2011.
14 Lind, Irene Rønn. 2007. Inngangur að Forklædt. Pæne psykopater og deres ofre, s. 13-14. Credo Forlag, Kaupmannahöfn. Skoðað 29. janúar 2011.
15 Leiðarinn og greinarnar í Kristeligt dagblad 4. apríl 2001 eru: „Krig i kirken“, „Københavnske kirker meldt for mobning“ eftir Bente Clausen og „Stefanskirken – intrigernes holdeplads“ eftir sama höfund. Skoðað 29. janúar 2011.
16 Clausen, Bente. „Organist betales for at holde sig væk“ í Kristeligt dagblad 23. júní 2006. Skoðað 29. janúar 2011.
17 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 200-202. Þessi frásögn í Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden byggir á raunverulegu máli innan norsku kirkjunnar. Sjá má dómsorð í málinu, AD 1995 nr 40, á Lagen.nu. Í raunveruleikanum var organistanum sagt upp en hún vann málið og henni voru dæmdar skaðabætur. Skoðað 29. janúar 2011.
18 Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna. 2003, s. 41. Þjóðkirkjan/Skálholtsútgáfan og Lútherska heimssambandið. Um skýrsluna segir hr. Karl Sigurbjörnsson í formála, s. 5, að hún sé „staðfærð og gefin út sem verkfæri fyrir presta og djákna og söfnuði íslensku kirkjunnar til að auka skilning á því alvarlega vandamáli sem ofbeldi gegn konum er og til að styrkja kirkjuna í því að mótmæla því og vinna að upprætingu þess.“ Tilvitnunin í færslunni er tekin úr Viðauka: „II. Aðstoð við fólk sem liðsinnir þolendum ofbeldis. B. Að bera kennsl á menn sem berja.“ Lýsingin sem fylgir er einungis á karlmönnum í seinni flokknum. Aftur á móti eru talin þar upp hegðunareinkenni sem eiga vel við siðblinda en þau eru skýrð með lélegri sjálfsmynd.
Í þessu sambandi má nefna að sárasjaldgæft er að konur sem eru beittar ofbeldi leiti til kirkjunnar. Í niðurstöðum könnunar sem kynntar voru í síðustu viku og var gerð árið 2008 kom í ljós að einungis 8 af 638 aðstoðarbeiðnum kvenna sem voru beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka (eða 2,1% svara) var til prests eða starfsmanns trúfélags. Ef konur höfðu verið beittar ofbeldi af öðrum og beðið um hjálp reyndust 3 af 965 hjálparbeiðnum (0,5%) vera til prests eða starfsmanns trúfélags. (Sjá Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds. Rannsókn á ofbeldi gegn konum. Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi. Desember 2010, s. 69. Rannsóknastofnun í barna-og fjölskylduvernd og Félags- og tryggingamálaráðuneytið.) 12 árum áður var algengara að konur sem voru beittar heimilisofbeldi leituðu til prests, skv. Skýrslu dómsmálaráðherra um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. (Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97). Dóms-og kirkjumálaráðuneytið, febrúar 1997, s. 34. Í símakönnun vorið 1996, sem skýrslan segir frá, sögðust 20,5% kvenna sem höfðu verið beittar heimilisofbeldi hafa leitað til prests. Einungis rúmur helmingur þeirra var ánægður með þá aðstoð sem þær fengu (56,5%). Það er eflaust umhugsunarefni fyrir Þjóðkirkjuna af hverju traust kvenna, sem búa við ofbeldi, til presta hafi minnkað svo mjög á þessum 12 árum sem liðu milli kannananna.
Skýrslurnar voru skoðaðar á vefnum 29. janúar 2011.
19 Sjá t.d. „Prestar nær ósnertanlegir vegna æviráðningar. Ónothæfir prestar fylla fjölbýlishús – ef svo heldur fram sem horfir“ á DV 23. mars 2000, s. 4 og „Telur of erfitt að segja upp ríkisstarfsmönnum“ í Fréttablaðinu 20. jan. 2011, visir.is. Skoðað 29. janúar 2011.
20 Starfsreglur um breytingu á starfsreglum um sóknarnefndir nr. 732/1998 og starfsreglum um presta nr. 735/1998. Kirkjuþing, kirkjan.is. Guðmundur Þór Guðmundsson setti inn 19.11. 2010 og Almenn hegningarlög 1940 nr. 19 í Lagasafn. Íslensk lög, 1. október 2010. Hvort tveggja skoðað 29. janúar 2011.