Category Archives: Uncategorized

Steindór og Vilhjálmur um örorku og geðlyf: Athugasemd

Núna er voða mikið í tísku að vit fyrir öðrum og segja öðrum hvað þeir eigi að gera og hvernig þeir eigi að hugsa. Angi af þessu eru fasískir tilburðir til að stjórna klæðaburði kvenna (aðallega) á ýmsum aldri. Annar angi er stanslaus áróður velmeinandi fólks gegn geðlyfjum og tjáning geðvondra um öryrkja, auðvitað ekki hvað síst horn í síðu geðsjúkra öryrkja. Það væri í rauninni ofsalega huggulegt ef þetta fólk, sem alltaf hefur vit á hvað aðrir eiga að gera, hvernig þeir eiga að haga sér og hvernig þeir eiga að hugsa, myndi kannski eilítið snúa sér að sjálfu sér og uppeldi á sér.

Í hópi velmeinandi manna eru þeir Steindór J. Erlingsson og Vilhjálmur Ari Arason. Þeir tjá sig báðir um örorku og geðlyf í dag en virðast ekki hafa kynnt sér þau mál sérlega vel heldur grípa á lofti klisju hér og klisju þar og draga af þeim þá ályktun að geðlyf séu til lítils gagns og örorku af völdum geðsjúkdóma sé betra að leysa á annan máta, eða eins og Vilhjálmur Ari orðar það: “Skynsamlegast er að verkalýðsfélögin og starfsmannasamböndin komi þessu fólki [hann reiknar með að þunglyndi og kvíðaraskanir stafi að hluta til af atvinnuleysi] strax til hjálpar með boði um starfsendurhæfingu og mati sem byggist á fjölþáttaendurhæfingu, sálfræðihjálp, félagsráðgjöf og sjúkraþjálfun. Ef myndarlega er staðið að þessu verkefni mætti komast hjá örorku vegna kvíða og þunglyndis í mörgum tilfellum og sem virðast svo allt of algengar sjúkdómsgreiningar í dag.” (Feitletrun er mín. Það er dálítið ótrúlegt að sjá starfandi heimilislækni láta þetta út úr sér á prenti, ég viðurkenni það.)

Steindór fer vægar í sakirnar, notfærir sér viðtengingarhátt og “hvort” og “mögulega” til að koma sínum áróðri á framfæri: “Þegar þessi niðurstaða er höfð í huga er eðlilegt að spyrja hvort að langvarandi neysla geðlyfja geti mögulega aukið vanda þeirra sem kljást við geðraskanir. Bandaríski rannsóknablaðamaðurinn Robert Whitaker svarar þessari spurningu játandi í bókinni Anatomy of an Epidemic sem út kom á síðasta ári. Það er ekki að ástæðulausu því á undanförnum tuttugu árum hefur örorka vegna geðraskana þrefaldast í Bandaríkjunum á sama tíma og ávísun geðlyfja hefur aukist gríðarlega. Bók Whitakers, sem er vel rökstudd, hefur komið af stað hörðum deilum í Bandaríkjunum enda finnst mörgum geðlæknum hann vega að starfsheiðri þeirra.” [Feitletrun er mín. Í rauninni er stutti pistillinn hans Steindórs fyrst og fremst purkunarlaus auglýsing fyrir fyrirlestur þessa amríska höfundar.]

Báðir þeir velmeinandi vitna í heimildir máli sínu til stuðnings en sleppa því að geta mögulegra skýringa sem ýmist eru listaðar eða ekki listaðar í þessum heimildum. Mig langar að benda á nokkrar – margar úr einmitt sömu greinum og þeir Vilhjálmur og Steinþór vitna í.

Sigurður Thorlacius  (fyrrum yfirlæknir TR) og Sigurjón B. Stefánsson skrifa grein sem heitir “Algengi örorku á Íslandi 1. desember 2002” í Læknablaðið 1. tbl. 90. árg. 2004  Þar kemur fram að: “Ef horft er til fyrstu sjúkdómsgreiningar á örorkumati sem meginforsendu örorku, þá eru algengustu forsendur örorku á Íslandi í desember 2002 geðraskanir og stoðkerfisraskanir. Niðurstöður frá Noregi, Svíþjóð og Stóra-Bretlandi eru sambærilegar (21, 22, 26). Á Íslandi hefur algengi örorku vegna geðraskana aukist verulega hjá báðum kynjum frá því árið 1996 og geðraskanir eru algengasta orsök örorku. Því væri vert að skoða örorku vegna geðraskana nánar.” Þetta rekja þeir að hluta til hins fræga örorkumatsstaðals sem TR tók upp 1999 og  gefa í skyn sem  helst ráð gegn fjölgun öryrkja að trúa ekki vottorðum annarra lækna heldur einungis lækna TR (vísa í samanburð við Bretland og segja: “Þar hefur mun stærri hluti umsækjanda verið boðaður í viðtal og skoðun hjá lækni á vegum tryggingastofnunarinnar heldur en hér, þannig að matsferlið hefur þar verið hlutlægara. Frá og með mars 2003 hefur hins vegar verið mun algengara en áður hér á Íslandi að umsækjendur um örorkubætur séu boðaðir í viðtal og skoðun hjá lækni. Forvitnilegt verður að sjá hvort það kemur til með að hafa áhrif á tíðni örorku hér.”) [Feitletrun er mín.]

Aftur á móti kemur skýrt fram í grein sömu höfunda sem þeir skrifuðu í Geðvernd árið eftir (sjá Lyndisraskanir og örorka. Geðvernd 2005, 34(1):41-2) að Tryggingastofnun flokkar þroskaheftingu með geðröskunum. Þeir telja upp algengi örorku vegna mism. geðraskana, í prósentum af fjölda Íslendinga (dálítið skrítin framsetning finnst mér) og stærstu flokkarnir eru:

  • Lyndisraskanir: Konur: 0,99 ;  Karlar, 0,40
  • Þroskahefting: Konur: 0,42  ;  Karlar 0,44
  •  Geðklofi og hugvilluraskanir: Konur: 0,25 ; Karlar:  0,29
    (Sjá töfluna “Algengi örorku vegna mismunandi geðraskana 1. desember 2002” í fyrrnefndri grein.)

Þannig að í hópi 1245 nýrra öryrkja á aldrinum 16-66 ára, sem áttu á bótum frá TR, árið 2003, var “geðröskun” fyrsta greining hjá 320 og þar af lyndisröskun fyrsta greining hjá 142.

Niðurstaða Sigurðar og Sigurjóns er: Þrátt fyrir ný og betri meðferðarúrræði fer örorka af völdum geðraskana vaxandi. Til að ráða bót á ástandinu þurfi fyrst og fremst félagslegar úrbætur. Sjálf sé ég ekki að félagslegar úrbætur dragi stórkostlega úr algengi þroskaheftingar eða geðsjúkdóma og geðraskana en e.t.v. eiga höfundar við að aðrir en TR gætu haldið fólki með “geðröskun” uppi.

Í nýjustu grein þeirra félaga, Sigurðar Thorlacius og Sigurjóns B. Stefánssonar, sem þeir skrifa í félagi við Stefán Ólafsson og Kristin Tómasson, kemur fram að fjöldi þeirra sem þiggur örorkubætur frá TR vegna geðrænna- og hegðunarraskana hafi aukist úr 14% kvk. örorkuþega í 30% og úr 20% karlkyns örorkuþega í 35%, á árabilinu 1990-2007. (Sjá “Increased incidence of disability due to mental and behavioural disorders in Iceland 1990–2007” í Journal of Mental Health, apríl 2010, 19.árg, 2.tbl, s. 176-183.) Því miður hafa alþýðukonur einungis aðgang að útdrættinum svo mér er ekki ljóst hvort enn er verið að telja þroskahefta með, inni í þessum prósentutölum.

Skýringar í þetta sinn eru fjölþættar, t.d. aukin áfengis- og vímuefnaneysla auk fjölgunar í ýmsum flokkum hegðunarraskana. Líklegast skýringin er talin sú að breyttar þjóðfélagslegar aðstæður fái fólk til að sækja um örorkustyrk v. geðrænna raskana fyrr en áður.

Ef við snúum okkur að lyfjanotkun vegna geðrænna sjúkdóma og raskana er ljóst að neysla geðlyfja hefur aukist mjög á undanförnum áratugum. Sennilega er einfaldasta skýringin á því sú að almennileg geðlyf sem nýttust mörgum, SSRI-lyfin, komu ekki á Íslandsmarkað fyrr en 1988. Á það benda Tómas Helgason, Helgi Tómasson og Tómas Zoega auðvitað í grein sinni “Antidepressants and public health in Iceland” í The British Journal of Psychiatry (2004) 184: 157-162. Þeir benda líka á að djúp geðlægð (oft kölluð þunglyndi) sé næsthelsta orsök skertra lífsgæða og örorku í þróuðum löndum heimsins og að sala geðlyfja hafi stóraukist í slíkum löndum.

Á Íslandi jókst sala þunglyndislyfja úr 8,4 dagsskömmtum á hverja 1000 íbúa árið 1975, í 72,7 dagsk.á 1000 íbúa árið 2000, sem þýðir að 8,7% fullorðinna á Íslandi neyti slíkra lyfja. En læknisheimsóknum og innlögnum hefur ekki fækkað. Niðurstaðan í greininni er að betri meðferð þurfi að finna til að lina þjáningar vegna þunglyndis og tengdra sjúkdóma.

Ef maður lætur nú eftir sér að skoða gögn yfir lyfjaneyslu Íslendinga almennt er best að leita fanga í Notkun lyfja á Íslandi 1988-1999, eftir Eggert Sigfússon, Rit heilbrigðis- og tryggingmálaráðuneytisins, útg. 2000. Þar er yfirlitstafla á s. 5 þar sem koma fram dagskammtar á 1000 íbúa  á þessu árabili. Þar má m.a.sjá eftirtalda aukningu í lyfjaneyslu miðað við árið 1989 annars vegar og 1999 hins vegar:

  • Hjarta- og æðasjúkdómalyf: 1989: 147,50 – 1999: 213,90:     Hækkun um 45%
  • Þvagfæralyf, kvensjúkdómalyf og kynhormónar: 72,44 (1989) – 127,75 (1999):   Hækkun um 76,35%
  • Tauga-og geðlyf: 128,61 (1989) – 225,53 (1999):  Hækkun um 75,36%

Í  flokki tauga- og geðlyfja (N)eru einnig talin ýmis lyf sem ekki eru notuð við geðsjúkdómum, á borð við flogaveikilyf, lyf við parkinsonssjúkdómi, mígrenilyf, hjálparefni til að hætta reykingum o.fl. Þunglyndislyf eru því bara hluti tauga-og geðlyfjaneyslu.

Það er gott að hafa í huga að inni í tölfræði sem byggir á mati Tryggingastofnunar ríkisins eru þroskaheftir flokkaðir með geðsjúkdómum og geðröskunum. Einnig er gott að skoða lyfjaneyslu almennt til að sjá t.d. að  aukning hjarta- og æðasjúkdómalyfja hefur verið gífurleg án þess að menn séu að gera því skóna að fólk taki þessi lyf að gamni sínu og geti batnað öðruvísi, gott ef verkalýðsfélagið getur ekki bara læknað það eða einhver amrískur bókarhöfundur … Og af hverju hefur enginn áhyggjur af  rosalegri aukningu í þvagfæralyfjum, kvensjúkdómalyfjum og kynhormónum – sem í prósentutölum jafnast á við aukningu tauga-og geðlyfja? Væri ekki hægt að spara í þeim flokki með dálítið sósíaldemókratískara umhverfi og amerískum sjálfshjálparbókum? Jafnvel afhenda lyfjaþegum hreyfiávísun í staðinn fyrir resept?

Í allri þessari tölfræði og stundum misskilningi manna byggðri á henni finnst mér algerlega gleymast að hafa í huga þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa gífurlegar á síðustu örfáum áratugum. Mér finnst t.d. tiltölulega augljóst að börn eta hlutfallslega minna af lyfjum en fullorðnir. Þegar aldurssamsetning þjóðar breytist, þá eykst eðlilega neysla þess sem fullorðnir nota umfram börn þegar fullorðnir verða fleiri í hundraðsflokki.

Annað sem blasir við er að með þéttbýlismyndun eru miklu fleiri sjúkdómar greindir. Sennilega lifðu einhverjir fatlaðir, geðsjúkir o.þ.h. í skjóli fjölskyldu sinnar á landsbyggðinni árum saman, jafnvel alla sína ævi án þess að leita læknis eða fá formlega greiningu. Læknar voru enda ekki á hverju strái. Og sennilega er ekkert svo voðlega langt síðan slíkir lífshættir án sjúkdómsgreiningar tíðkuðust.

Loks má nefna að með aukinni þekkingu verður auðveldara að greina sjúkdóma svo ekki ætti að koma á óvart þótt fleiri sjúklingar greinist. Mér finnst mjög líklegt að geðrænir sjúkdómar á borð við djúpa geðlægð eða geðhvarfasýki hafi verið mjög vangreindir áður fyrr, þótt ekki sé litið um öxl nema tíu- tuttugu ár … hvað þá fyrir lengra síðan.

Í samanburði á 10 – 20 ára tímabili þarf að gæta að ýmsu svonalöguðu. Og það er ábyrgðarhluti að reyna að stuðla að því að veikt fólk hætti að taka lyfin sín eða leita til geðlækna. Það ættu þeir Steindór og Vilhjálmur að hafa í huga.
 
 

Vandinn að vera öryrki og órannsakanlegir vegir TR

ÞunglyndiÉg er öryrki vegna þunglyndis. Núverandi örorkumat nær til ársloka 2012 enda algerlega fullreynt hvort ég geti stundað vinnu/ hlutastarf/ örstarf í fyrirséðri framtíð . Ég sé ákaflega mikið eftir starfinu mínu og átti mjög erfitt með að sætta mig við það að að öllu óbreyttu get ég ekki verið íslenskukennari í fjölbraut.

En á Íslandi eru til tvö örorkukerfi. Og þau eru ekki jafn rétthá. Af því ég nýt örorkulífeyris frá mínum lífeyrissjóðum (hafandi unnið fulla vinnu árið um kring frá 18 ára aldri og unnið mér inn réttindi í þessum sjóðum með lífeyrisgreiðslum) telst ég nokkurs konar annars flokks öryrki í samfélaginu. Með því á ég við að ég get ekki fengið örorkuskírteini út á örorkumat Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Samt var það rækilega unnið, afgreiðslan tók 4 mánuði og ég þurfti að skila inn mjög ítarlegum gögnum, t.d. skattskýrslum síðustu þriggja ára, vottorðum, haft var samband við yfirmann minn o.fl. Læknirinn minn (sem verið hefur geðlæknirinn minn frá 2002) er yfirlæknir á einni af geðdeildum Landspítalans. Trúnaðarlæknir LSR sem afgreiddi upphaflega matið er doktor í geðlækningum og starfandi geðlæknir.

Örorkuskírteini gefur ýmsan rétt, s.s. á niðurgreiddri læknisþjónustu. Útgáfuaðili örorkuskírteina er Tryggingastofnun ríkisins sem framkvæmdaraðili Sjúkratrygginga Íslands. Til þess að fá örorkuskírteini þarf ég að sækja um örorkubætur frá TR og fara í örorkumat hjá TR, jafnvel þótt ljóst sé frá upphafi að ég eigi engan rétt á bótum frá TR vegna þess að ég þigg örorkulífeyri frá LSR (sem er vel að merkja ríkisstofnun alveg eins og hinar tvær).

UmsóknarfarganÞegar ég lét mig hafa það að fylla út umsókn, útvega nýtt vottorð og veita, með undirskrift umsóknarinnar, TR leyfi til að persónunjósna um mig á alla enda og kanta (þ.e. rjúfa lög um Persónuvernd, þótt mér væri það þvert um geð, bara til að fá örorkuskírteini) óskaði ég eftir því að ákvæði í reglugerð um örorkumat frá 1999, 4. gr., yrði látið gilda en þar er veitt undanþáguheimild frá því að umsækjandi þurfi að fara í gegnum örorkumat ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma. Enda sendi ég með umsókninni afrit af örorkumati LSR (því upphaflega og því sem nú er í gildi) og nýtt læknisvottorð frá fyrrnefndum yfirlækni. Og tók kristaltært fram að ég gerði mér engar vonir um bætur frá TR heldur væri einungis að sækjast eftir örorkuskírteininu.

Í dag fékk ég bréf frá TR, undirritað af Kristínu Valdimarsdóttur tryggingafulltrúa, þar sem segir: „Áður en til örorkumats kemur þarf að fara fram skoðun með tilliti til staðals sem kveðið er á um í lögum um almannatryggingar. Þengill Oddsson, læknir mun boða þig til viðtals og skoðunar.“  Ég hringdi svo í þessa Kristínu til að spyrja hvort ég mætti ekki bara fara til heimilislæknis á Akranesi, þar sem ég bý, í stað þess að þvælast til Þengils þessa, sem er heimilislæknir í Mosfellsbæ, eftir því sem ég best veit. Hún upplýsti mig um það að Haraldur Jóhannsson, yfirlæknir TR hefði ákveðið að ég þyrfti að fara í þessa læknisskoðun til „þeirra“ læknis í Mosfellsbæ.

Haraldur Jóhannsson, yfirlæknir TR og formaður stjórnar Kristniboðssambandsins (SÍK), er menntaður taugalæknir. Taugalækningar kunna að vera skyldar geðlækningum en ég efast um að skörunin sé mikil. Af prédikun hans má svo ráða að þetta sé hinn vænsti maður, þótt hann taki ekkert mark á sérfræðingum í sjúkdómum eða fjölda innlagna á geðdeild eða prófun allra þunglyndislyfjaflokka á markaðnum eða tveimur raflostsmeðferðum (þessar upplýsingar eru rækilega tíundaðar í vottorðinu sem ég skilaði inn) heldur vilji að heimilislæknir í Mosfellsbæ úrskurði um hvort ég sé þunglynd eða ekki.

Þengill (hver sem hefur lesið Ísfólkið treystir lækni sem heitir Þengill? Í Ísfólkinu eru Þenglarnir af tvennum toga!) Oddsson er sérfræðingur í embættislækningum. Í ritstjórnargrein í Læknablaðinu sagði þáverandi formaður Læknafélags Íslands að læknar skuli: „prófa hvert mál ítarlega gagnvart samvisku sinni. Þar hefur Þengill Oddsson gefið gott fordæmi.“ Það er þó huggun harmi gegn að væntanlega hitti ég heimilislækni sem prófar mál mitt ítarlega gagnvart [svo!] samvisku sinni og er þekktur fyrir að „langþreyttar konur vöknuðu til lífsins við að mæta honum í Kaupfélaginu.“

Það gleður mig að þurfa ekkert að borga fyrir þetta tilhlökkunarefni. En einhver hlýtur að borga, varla er Þengill Oddsson í starfi hjá TR, á vegum Haraldar Jóhannssonar, ókeypis og af hugsjóninni einni saman. Ég veit ekki hve marga lækna TR hefur á sínum snærum (varla marga úr því svo erfitt er fyrir yfirlækni stofnunarinnar að treysta sérfræðiáliti) en einhvers staðar sá ég haft eftir stofnuninni að á nýloknu ári hefðu borist 900 nýjar umsóknir um örorkubætur til TR. [16.2.: Þetta hlýtur að vera misminni í mér því nýjar umsóknir til TR eru líklega mun fleiri á hverju ári.] Samviskuskoðanir til að berja sjúkling augum og bera hann saman við staðal hljóta að gefa prýðilega í aðra hönd og vera ágætis búbót fyrir þá fáu lækna sem Tryggingastofnun treystir.

Í þeim virta fréttamiðli Pressunni er frétt í dag þar sem það er haft eftir ónefndum lækni að það sé akkúrat ekkert mál að ljúga sér upp örorkubætur frá TR út á léttvægt þunglyndi. Miðað við þennan títtnefnda staðal TR, sem Pressan birtir og má einnig finna á heimasíðu TR, gæti vel verið eitthvað til í þessu. Staðallinn sem á að meta eitthvað sem TR kallar „andlega færni“  er ótrúlegur, svo ekki sé meira sagt, viti maður eitthvað um geðsjúkdóma. Og hann virðist ekki í neinu samræmi við það sem segir á ICD-10 kóðun WHO, staðli sem er notaður við skráningu sjúkdómsgreininga hér á landi, skv. landlæknisembættinu, að því er virðist alls staðar í heilbrigðiskerfinu nema hjá TR. Þannig að þessi „ungi maður“ sem Pressan vitnar í getur sjálfsagt logið sér út örorku ef hann hefur tíma til að skreppa til einhvers læknis sem TR treystir (og býr ekki mjög langt frá borg óttans og nærhverfum), svara nokkrum spurningum út í hött (staðlinum fræga) og geð til að afsala sér persónuvernd, bara upp á bæturnar.

Sjálf er ég að íhuga að fá úr því skorið hvort fólk neyðist í alvörunni til að lítillækka sig svo mjög einungis til að fá afgreitt örorkuskírteini og hvort geti virkilega verið að það standist lög að halda hér uppi tvöföldu örorkukerfi þar sem manni er refsað fyrir að hafa unnið sér inn bæturnar með því vera annars flokks öryrki sem ekki á rétt á örorkuskírteini.

Fylgist með … ég mun auðvitað blogga um hina spennandi heimsókn á heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ, prófa gagnvart samvisku minni hvort ég mundi gleðjast að hitta lækninn í kuffélagi, og tíunda hversu fagmannlega þar verður (væntanlega) að verki staðið til að meta hvort ég sé í alvörunni öryrki eða hvort ég nenni kannski bara ekki að kenna meir … og dvelji upp á mitt hopp og hí í margar vikur á geðdeild árlega. Djöst for ðe fönn ofitt.

[Færslan var stytt þann 16. febrúar af því mér fannst, eftir á, að of mikið væri þar fjallað um menn á persónulegum nótum og of margt gefið í skyn.]
 

Úðrun og framtaksleysi

Ég fann svar frá mínum góða lækni í ruslamöppunni póstforritsins – var búin að gleyma því að póstur frá Landspítalanum er ævinlega flokkaður sem rusl og lendir innan um Viagraauglýsingar, tilboð um háskólagráður o.m.fl. En þar með hef ég leyfi til að æfa jafnvægislist í lyfjatöku og reyna að finna hinn gullna meðalveg milli þess að vera ekki með áberandi þunglyndiseinkenni og þess að geta sofið á nóttunni. Spennandi! (NOT!)

Í meir en viku hef ég ekki haft mig í neitt hollt og gott, s.s. göngutúra og prjón. Er ekki nema rétt byrjuð á háleistunum (ekki hvítu), sem m.a. stafar af því að ég missti algerlega áhuga á að horfa á sjónvarp – var þó aðeins farin að bera slíkt við. Sömuleiðis hurfu lestrarhæfileikarnir og ég lenti á Andrésblaðastiginu aftur. Nenni ekki að lista upp dæmigerð þunglyndiseinkenni einu sinni enn.

Sé efnið nógu afmarkað og snefill af áhuga fyrir hendi get ég ríslað mér við það – glöggir lesendur sjá að aðallega er ég að gúggla og glósa um siðblindu. Samt ætti ég, miðað við heimsóknir og leitarorð á blogginu, að skrifa meira um prjónasögu en treysti mér ekki í það. Áhugi á prjónlesi er nefnilega meiri en áhugi á siðblindu. Skrítið!

Í siðblindu-heimilda-skönnun hef ég rekið mig á það hve greinar félagsvísindamanna eru áberandi illa stílaðar; þeim virðist fyrirmunað að orða hugsun sína í skýru og ljósu máli. Sálfræðingar, geðlæknar og líffræðingar eru skárri. Þó má telja það sjálfum Hare til lasts hvað hann ofnotar helv. þrítekningarnar (huggulegt stílbragð en einungis í hófi): Hann reynir alltaf að segja sama hlutinn á þrjá mismunandi vegu. Kannski hefur hann lesið Brennu-Njáls sögu og er undir áhrifum af Njáli, sem þurfti að láta þrísegja sér mikilvægar fréttir? Hvað félagsvísindatorfið varðar hef ég fyrir löngu tekið eftir þessu í íslenskum greinum og bókum en hélt að útlendingar væru skárri. Nú sé ég að landinn hefur lært af amríkönum. Svo eru fræðilegar greinar útsparslaðar í fræðiorðum sem ég hef ekki hugmynd um hvað kallast á íslensku og kostar oft mikla leit að grafa það upp. (Get þó flett upp grískum stofnum í manninum og komist þannig að því hvað orðin þýða bókstaflega en þrautin er þyngri að finna rétta íðorðið á íslensku.)  Gamli málfarsbankinn sem geymir íðorðaskrár er ansi tómur.  Meira en hálf vinnan við siðblindufærslurnar er því fólgin í því að koma efninu á skikkanlega íslensku. Vonandi hefur það tekist þótt mig gruni að sauðslegir unglingar myndu ekki skilja færslurnar 😉  Gat ekki stillt mig um að koma þessu að …

FordómarÍ leiðinni rekst ég á ýmislegt áhugavert sem snertir önnur efni. Má nefna að ég sá vísað í empíriskar rannsóknir sem sýna að sú staðreynd að þunglyndi er mjög oft argengt eykur fordóma almennings en minnkar þá ekki, eins og maður gæti haldið. Gáfulegar umræður við manninn leiddu í ljós að líklega hefur fólk síður fordóma gegn einhverju sem það telur að geti ekki komið fyrir sig, t.d. að einhver verði þunglyndur í kjölfar áfalls, slyss eða álíka, en fordómar fólks aukist þegar því verður ljóst að það fær kannski engu ráðið um geðræna sjúkdóma á borð við þunglyndi. Fólk telur jú alltaf að slys og áföll hendi aðra en sig. Mér þótti þetta með að upplýsingar um genetískar orsakir þunglyndis auki fordóma afar athyglisvert.

Sjálfri hefur mér þótt viss huggun í því fólgin að ég valdi ekki þennan sjúkdóm, ég gat á engan hátt komið í veg fyrir hann og ég valdi auðvitað engan veginn að verða öryrki af völdum hans. En nú velti ég því fyrir mér hvort opinberar yfirlýsingar um þetta hafi kannski aukið fordóma fólks útí bæ? Ekki svo að skilja að ég verði nokkru sinni vör við slíka fordóma, búandi í tiltölulega litlu plássi þar sem alls konar fólk spyr elskulega um líðan mína eða þakkar mér fyrir að tala opinskátt um þunglyndið. Kannski voru empírísku rannsóknirnar gerðar í stórborgum?  (Ég efast reyndar ekki augnablik um botnlausa fordóma Íslendinga í garð geðsjúkra, eftir að hafa séð niðurstöður einhverrar könnunar á því hvernig nágranna fólk vill ekki eiga. Minnir að fólk með geðræna sjúkdóma hafi skorað hæst á þessum ekki-lista. Reyni að hugga mig við að margir eru sauðslegir að upplagi.)

Í lok þessa snakkbloggs vil ég koma því að ég hef aukið við siðblindufærslurnar: Í fyrstu færslu eru nú komnar krækjur í tvær heimildamyndir (breska og ástralska) um siðblindu, sem Lára Hanna Einarsdóttir klippti saman úr bútum á YouTube og kom fyrir á sama svæði. Í síðustu færslu, um siðblindu í viðskiptaheiminum hefur verið bætt við fimm krækjum í íslenskt sjónvarps-og útvarpsefni frá því í fyrra, þegar Nanna Briem vakti svo mikla athygli á siðblindu í viðskiptum. Sömuleiðis eru þetta efni framreitt af Láru Hönnu. Ég kann henni bestu þakkir fyrir að benda mér á það og leyfa mér að krækja í það. Sérstaklega ætti síðarnefnda efnið að nýtast þeim sem eru að leita að efni um siðblindu á íslensku.

Svo bíð ég spennt eftir texta um siðblinda dverga sem afkomandi minn hefur boðist til að semja … 😉

En þá er það sturta dagsins … og vonandi hef ég mig í labbitúr í dag – sem ku vera svo einkar hollt fyrir sálina og jafnvel líkamann einnig.

Siðblindir í viðskiptum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda,  sjá efnisflokka hér til hægri.) 
 

Þar sem siðblindir einstaklingar hafa fengið að leika lausum hala er mikilvægt að hreinsa til með því að afhjúpa þá og lögsækja þar sem það á við. Siðblinda er áhugavert, en um leið mjög alvarlegt, óhugnalegt og hættulegt fyrirbæri, og það þarf ekki sérfræðing í geðlækningum til að segja manni að siðblinda sé ekki eftirsóknarverð í fyrirtækjum, hvað þá í samfélagi manna.1
 
 

Snakes in Suit eftir Babiak og HareSiðblinda í viðskiptum er eiginlega sú eina birtingarmynd siðblindu sem vakið hefur einhverja athygli hér á landi, ekki hvað síst í kjölfar efnahagshrunsins. Má nefna að Nanna Briem geðlæknir, sem vitnað er til í upphafsorðum, og fleiri hafa gert siðblindu í viðskiptalífinu góð skil og ættu áhugasamir endilega að kynna sér það efni.2

[Viðbót 7. febrúar: Þeim sem vilja hlusta /horfa á íslenskt ljósvakamiðlaefni um siðblindu í viðskiptum og hugsanleg tengsl hennar við efnahagshrunið er bent á þetta: Fréttaaukinn 10. janúar 2010; Fréttir Stöðvar 2 – 3. febrúar 2010Mbl-Sjónvarp – 3. febrúar 2010;  Víðsjá 3. febrúar 2010;  Spegillinn 3. febrúar 2010.  Þetta efni fjallar einkum um Nönnu Briem og þá athygli sem hún vakti á siðblindu í viðskiptalífinu snemma árs 2010. Ég þakka Láru Hönnu Einarsdóttur kærlega fyrir að benda mér á efnið og fyrir að hafa gert það aðgengilegt.] 

Siðblinda í fyrirtækjum hefur talsvert verið rannsökuð og er víða fjallað um hana, gott ef hún hefur ekki verið í tísku undanfarinn áratug. Frægasta bókin um þetta er bók þeirra Pauls Babiak og Roberts D. Hare, Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. (Upphaflega átti bókin reyndar að heita When Psychopaths Go to Work: Cons, Bullies and the Puppetmaster, þar sem þrjár helstu gerðir siðblindra í fyrirtækjum eru taldar upp í titlinum.3) Robert D. Hare er helsti sérfræðingur heims í siðblindu, s.s. ætti að vera ljóst hafi menn lesið fyrri bloggfærslur mínar um efnið, og Paul Babiak er iðnaðar- og fyrirtækjasálfræðingur.

Babiak hafði rekist á 8 siðblinda einstaklinga í vinnu sinni sem ráðgjafi ýmissa fyrirtækja. Þessir einstaklingar áttu farsælan starfsferil að baki þrátt fyrir að mælast með umtalsverða siðblindu á kvarða Hare (PCL-R), sjö þeirra mældust með um eða yfir 29 stig, sá áttundi náði því ekki alveg. (Skorin náðu frá 24,3 stigum til 32,9.).4 Hann hafði samband við Robert D. Hare og þeir slógu sér saman.  Þeir Babiak og Hare rannsökuðu síðan 203 stjórnendur í ýmsum fyrirtækjum vestanhafs og prófuðu mælitækið B-360° sem þeir voru að þróa. Í ljós kom að algengi siðblindu var talsvert meira en almennt mælist í samfélaginu eða 3,5% meðal stjórnendanna en er venjulega talað um 1% siðblinda, jafnvel tæplega það, meðal þorra almennings.5  Siðblinda í viðskiptalífinu reyndist hafa jákvæð tengsl við álit manna innan fyrirtækjanna á persónutöfrum eða hvernig stjórnendurnir komu fyrir en neikvæð tengsl við mat annarra á ábyrgð og hegðun, t.d. samstarfshæfni og færni í stjórnun.6
 

Höggormar í jakkafötum

Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum þeirra Babiak og Hare í bókinni Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, ásamt því að tæpa á kenningum annarra þar sem þar á við.

Í formála nefna þeir að frá síðasta áratug liðinnar aldar hafa fyrirtæki lagt æ meiri áherslu á samkeppni, skilvirkni, hraða og gróða og í því augnamiði varpað skrifræðisveldinu gamla fyrir róða. Fyrirtækin reiða sig á bráðabirgðaráðstafanir, hafa færri lögfræðinga, einfaldara kerfi, meira frjálsræði starfsmanna til ákvarðana og minni skriffinnsku. Vald sumra fyrirtækja er orðið nær takmarkalaust, auðæfin ævintýraleg og siðfræðilegir staðlar og gildi eru fyrir borð borin. Þetta er hluti skýringarinnar á því af hverju siðblindir sækjast eftir störfum, helst stjórnunarstöðum, í fyrirtækjum og af hverju þeir geta auðveldlega hreiðrað þar um sig.

*Menn glepjast á að ráða siðblinda til starfa í fyrirtækjum af því að:

  • Sumir kjarnaþættir siðblindu kunna að virðast töfrandi í starfsumsókn og auka möguleika á ráðningu, t.d. hve siðblindir eru heillandi og duglegir að kjafta sig gegnum starfsviðtöl. Auk þess falsa þeir oft meðmælin sem þeir framvísa.
  • Sumir starfsmannastjórar halda að siðblindueinkennin séu merki um „forustuhæfileika“ (hæfileika til að fá aðra á sitt band og láta þá hlíta fyrirmælum) en í rauninni eru þetta hneigðin til þvingunar, drottnunar og ómældrar stjórnsemi.
  • Í síbreytilegu viðskiptaumhverfi vantar leiðtoga til að hrista upp í fólki og drífa verkin af. Sjálfselska, kaldlyndi og tilfinningaleysi urðu allt í einu eftirsóknarverðir eiginleikar.
  • Siðblindir hrífast  af þessu nýja viðskiptaumhverfi og laðast að viðskiptum þar sem hraði, mikil áhætta og mikill gróði er í boði.7

   

*Sömu aðferðir henta siðblindum innan fyrirtækis og í samskiptum við fólk almennt. Greina má háttalag þeirra í þrenns konar ferli:

  • Þeir meta aðstæður: Þetta gera þeir fyrstu mánuðina í starfi. Þeir greina umhverfi sitt, hasla sér völl og  tengjast áhrifamönnum innan fyrirtækisins (verndurum og peðum). 
  • Þeir taka yfir og byrja að ráðskast: Þetta gera þeir t.d. með því að fegra mannorð sitt, gera lítið úr öðrum, dreifa röngum upplýsingum, ýta undir deilur, afbrýðisemi og samkeppni milli hinna svo allir verði of uppteknir til að geta haft auga með þeim siðblinda. Á þessu stigi gera þeir oft einhverja að sérstökum trúnaðarmönnum sínum til að treysta vináttuböndin (en segja þeim náttúrlega ekki satt).
  • Þeir yfirgefa svæðið eða  þeir færast upp metorðastigann og hrifsa völdin af verndara sínum.8


 

*Siðblindir byrja á að sannfæra aðra um heiðarleika, heilindi og einlægni sína. Síðan snúa þeir sér að því að sjá út fólkið í fyrirtækinu:

Peðin eru þeir sem hafa eitthvað sem svikahrappurinn ágirnist. Það geta verið mörg peð í fyrirtækinu sem þjóna mismunandi tilgangi; ráða yfir upplýsingum, peningum, sérfræðiþekkingu, hafa áhrif, sambönd o.s.fr. Siðblindur einbeitir sér að því að finna peð sem allra fyrst. Mörg peð eru svo blinduð af svikahrappnum að þau láta honum í té hvað sem er, sama hversu óviðeigandi eða hneykslanleg bónin er. Eitt helsta bragð hins siðblinda er að biðja um vinargreiða sem er aldrei endurgoldinn.

Verndararnir eru háttsettir einstaklingar sem bera blak af siðblindum, oft áhrifamiklir forstjórar sem taka hæfileikaríka starfsmenn undir verndarvæng sinn og hjálpa þeim að komast til metorða í fyrirtækinu. Reynsla Babiak og Hare er að gervi hins fullkomna starfsmanns og framtíðarleiðtoga hafi verið svo sannfærandi að margir í stjórnendateyminu létu heillast þótt þeir hefðu ekki haft náin kynni af þeim siðblindu. Þessi háttsettu stjórnendur gerðust verndarar þeirra. Þegar samband verndara og skjólstæðings er einu sinni komið á er erfitt að brjóta það á bak aftur. Valdamiklir verndarar verja siðblinda fyrir gagnrýni annarra.

Óvirkir áhorfendur eru fjöldi samstarfsmanna og millistjórnenda sem hinn siðblindi hefur engan áhuga á af því hann telur ekki að þeir gagnist sér. Þeir í góðri aðstöðu til að sjá hvað er í gangi því sá siðblindi skiptir sér ekkert af þeim. En flest fólk hugsar einungis um sitt. Óvirku áhorfendurnir segja eftir á: „Ég skipti mér bara af mínu“, „enginn vildi hlusta á mig“ og „það er ekki mitt að skerast í leikinn“.

Flónin: Þegar hið sanna eðli hins siðblinda verður ljóst, sem m.a. kemur fram í því að hinn fyrrum heillandi vinnufélagi hunsar fólk og verður kuldalegur, rennur upp fyrir peðunum að þau voru aldrei annað en flón. Þeim finnst þau hafa verið svikin og flekkuð. Það er erfitt að horfast í augu við að sú persóna sem þau treystu hvað best skuli bregðast þeim svo purkunarlaust. Skömmin og sneypan  koma í veg fyrir að þau segi frá.

Verndaranum, sem hélt  hlífiskildi yfir hinum siðblinda fyrir efasemdum og ásökunum annarra starfsmanna og hækkaði hann í tign, fól honum flóknari verkefni og leyfði honum að leika lausum hala innan fyrirtækisins, finnst líka að hann hafi verið ginntur. Því miður verður verndarinn að flóni, glatar áliti sínu í fyrirtækinu og tapar oft starfi sínu því sá siðblindi hefur allan tímann búið í haginn fyrir sjálfan sig og hreppir stöðuna.9


 

*Siðblindum yfirmönnum má aðallega skipta í tvo flokka: Þá sem beita stjórnsemi og þá sem beita fantabrögðum. Ekki er ljóst hvort líffræðilegur munur í heila eða mismunandi aðstæður í uppvexti veldur þessum mismun.

  • Siðblindur stjórnandiStjórnsamir blekkingameistarar notfæra sé aðra í eftirsókn eftir frægð, auðæfum, valdi og stjórn. Þeir eru svikulir, sjálfselskir, yfirborðskenndir, drottnunargjarnir og mjög oft lygarar. Þeim er alveg sama um afleiðingar eigin hegðunar og leiða hugann sjaldan að því hvað framtíðin ber í skauti sér. Þeir axla aldrei ábyrgð, þrátt fyrir ýmis loforð um að skila af sér, ná markmiðum eða standa við persónulega greiða. Þegar þeir eru ásakaðir kenna þeir öðrum um vandamálin. Þeir eru ruddalegir og harðbrjósta við þá einstaklinga sem hafa ekkert að bjóða þeim því þeim finnst þeir sjálfir vera æðri og í fullum rétti. Þeir hugsa aldrei um skaðann sem þeir valda fólki eða stofnunum. Í samskiptum virðast þeir oft gersneyddir mannlegum tilfinningum, sérstaklega samlíðan. Afsökunarbeiðni er þeim framandi því þeir upplifa ekki eftirsjá eða sektarkennd. Þrátt yfir þetta ganga samskipti við aðra ótrúlega vel, aðallega vegna einstakrar færni þeirra til að heilla fólk og semja sannfærandi sögur til að hafa áhrif á aðra. Þeir eru mjög leiknir í að lesa í fólk og aðstæður og haga framkomu sinni eftir því. Þeir geta skrúfað sjarmann á og af eftir því hvað hentar hverju sinni. Af því þeim tekst svo vel að dylja sína dökku drætti ná þeir auðveldlega trausti fólks og síðan hafa þeir gagn af fólki eða svíkja það. Það er eins og þeim finnist gaman að blekkja fólk, ná tangarhaldi á öðrum og fá þá til að gera ýmislegt fyrir sig.
  • Fantar eru siðblindir sem reiða sig á hótanir, þvingun, ógnun og ofbeldi til að drottna yfir öðrum og ná því sem þeir ásælast. Fáum dylst að slíkur einstaklingur er árásargjarn og frekar kvikindislegur. Það er borin von að hann heilli fórnarlömbin til undanláts svo hann reiðir sig á fautaskap eða einelti í staðinn. Siðblindur af þessu taginu er harðbrjósta við aðra, leitar markvisst að tækifærum til að taka þátt í deilum og er oftast upp á kant við aðra. Hann lætur sig réttindi og tilfinningar annarra engu skipta og brýtur oft óskráðar reglur um félagslega hegðun. Ef hann fær ekki sitt fram verður hann hefnigjarn, bruggar öðrum launráð og notar hvert tækifæri til að ná sér niðri á þeim. Oft ræðst hann harkalega á einstaklinga sem eru fremur lítils ráðandi. Óljóst er hvort föntunum er eðlislæg nautn af því að traðka á öðrum eða hvort þeir hafi lært að þetta sé árangursríkasta leiðin til að ná sínu fram. Því er eins farið með þá og hina stjórnsömu yfirmenn, að þeir finna ekki fyrir eftirsjá, sektarkennd eða samlíðan með öðrum. Af því þeir gera sér enga grein fyrir því hvernig þeir skaða aðra og jafnvel sjálfa sig eru siðblindir fantar sérstaklega hættulegir á vinnustað.
  • Leikbrúðustjórnendur eru sjaldgæfastir og hættulegastir:  Þeir sýna bæði stjórnsama drætti og fantabrögð en fara fínt í hvort tveggja. Þeir eru leiknir í að stjórna fólki og  kippa í spotta bak við tjöldin. Þannig ná þeir valdi á  þeim sem standa neðar í virðingarstiga fyrirtækisins. Aðferðir þeirra minna á Stalín og Hitler sem umkringdu sig hlýðnum fylgismönnum og stjórnuðu heilu þjóðunum gegnum þá. Siðblindir leikbrúðustjórnendur bæla harkalega niður fyrstu merki uppreisnar og víla ekki fyrir sér að ráðast á stuðningsmenn sína líka. Í augum þeirra mega bæði leikbrúður og fórnarlömb missa sín enda skynja þeir þau ekki sem manneskjur af holdi og blóði heldur verkfæri. Babiak og Hare telja að siðblindir leikbrúðustjórnendur í fyrirtækjum sýni öll merki um sígilda hættulega siðblinda.10

*Afleiðingar þess að hafa siðblinda yfirmenn í fyrirtækjum:

Áströlsk rannsókn, sem gerð var árið 2008 til að skoða hvaða áhrif siðblindir stjórnendur hefðu á starfsanda innan fyrirtækja og hollustu starfsmanna við fyrirtækið, sýndi sláandi niðurstöður. Siðblindir millistjórnendur höfðu afar neikvæð áhrif á alla þætti sem snerta viðhorf starfsmanna til félagslegrar ábyrgðar fyrirtækisins, s.s. hvort þar tíðkaðist sanngjörn og umhverfisvæn starfsemi sem kæmi samfélaginu til góða, og hvort verk starfsmanna væru metin að verðleikum. Sem dæmi um hið síðasttalda má nefna að rúm 80% töldu að verk þeirra væru metin að verðleikum þar sem millistjórnandi var „eðlilegur“ en einungis tæp 25% töldu svo vera ef millistjórnandinn var siðblindur.11

Clive Buddy, sem einnig stóð að fyrrnefndri rannsókn, komst að því að áhrif siðblindra í einelti eru margföld miðað við fjölda þeirra. Hann segir: „Þar sem siðblindir eru á vinnustað er einelti marktækt algengara en ella. Einnig er yfirmaðurinn talinn óréttlátur við starfsmenn og áhugalaus um tilfinningar þeirra. [Þetta er án tillits til þess hvort yfirmaðurinn er siðblindur eða ekki.] Niðurstaðan er sú að 1% almennra starfsmanna, þ.e. þeir sem eru siðblindir, stendur fyrir 26% af einelti á vinnustað.“12

Andrew Fastow fjármálastjóri EnronHvað varðar fjárhag og rekstur fyrirtækja sem siðblindum hugnast (hratt, áhættusamt en gróðavænlegt umhverfi þar sem gjarna ríkir óreiða) má sem dæmi „nefna Enron, sem varð gjaldþrota 2001 og um 20.000 manns misstu vinnuna. Við gjaldþrotið kom í ljós gríðarlegt fjármálamisferli, sem hafði lengi falið hvernig var ástatt fyrir fyrirtækinu og kom því loks í þrot. Fyrirtækin líta í hina áttina ef harðsvíruð og siðlaus aðgerð er arðbær, verðlauna hana jafnvel. Þeir sem auka gróða fyrirtækisins eru gerðir að stjörnum, þó að aðferðirnar hafi verið mjög áhættusamar og jafnvel siðlausar. Við slíkar aðstæður standa allar dyr opnar hinum siðblindu. … Sá siðblindi hefur enga tryggð við fyrirtækið, bara við sjálfan sig. Þessu síðastnefnda lýsir Andrew Fastow hjá einum stjórnanda í Enron, en hann hafði sem markmið að græða sjálfur sem mest án þess að hafa minnstu áhyggjur af fyrirtækjunum eða fólkinu.“13


[Myndin er af Andrew Fastow, aðalfjármálastjóra Enron-samsteypunnar. Árið 2004 var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir fjársvik, þrátt fyrir að hafa tekist að heilla saksóknara upp úr skónum.]
 

Robert D. Hare telur að það séu til margs konar fjárglæframenn og ástæður fyrir fjársvikum geti tengst bágum efnahag, þrýstingi frá samfélaginu eða félögunum, sérstökum ástæðum, tækifærum sem bjóðast o.s.fr. En hvítflibba-siðblindir eru oft mjög flæktir í alls kyns óvenju gróft og gróðavænlegt brask. Þeir berast ómælt á meðan fórnarlömb þeirra glata sparifé sínu, virðingu og heilsu; hljóta „efnahagslega dauðarefsingu“ eins og einn fulltrúi laganna orðaði það. Vegna þess að glæpir þeirra felast ekki í líkamlegu ofbeldi fá þeir tiltölulega væga dóma og lágar sektir og eru snemma látnir lausir úr fangelsi. Féð sem þeir sölsuðu undir sig fæst sjaldan endurheimt svo fórnarlömbin og almenningur stendur sem þrumulostinn og sannfærður um að glæpir borgi sig svo sannarlega þegar þeir eru framdir af mönnum sem breiða yfir kléna samvisku með persónutöfrum, sjálfselsku og blekkingu.14


 

*Hvað verður um siðblinda stjórnendur?

Afdrif þeirra átta stjórnenda sem Paul Babiak greindi siðblinda voru þessi: Aðeins einn þeirra missti starfið en yfirgaf fyrirtækið með veglegan starfslokasamning og réði sig í hærri stöðu hjá keppinautnum; Tveir hlutu framgang í hærri stöður í samruna fyrirtækisins við annað; Einn slapp óhultur gegnum samruna fyrirtækja af því hann var valinn í hóp þeirra sem færðust yfir og fékk að velja hverjir fylgdu með (stuðningsmenn sína) í nýja fyrirtækið og hverjum var sagt upp (þeim sem höfðu séð í gegnum hann); Tveir hafa hlotið stöðuhækkun og eru enn í sínum gömlu fyrirtækjum; Einn „hvarf“ þegar fyrirtækinu var lokað; Einn átti farsælan starfsferil, endaði sem aðstoðarforstjóri og fór svo á eftirlaun.15

Stein Bagger segist vera siðblindurSé horft á alla þá siðblindu stjórnendur sem Robert D. Hare og Paul Babiak höfðu rannsakað árið 2008 þá héldu allir nema nema þessi eini (sem Babiak talar um) völdum sínum innan fyritækjanna. Sumir stigu til hærri metorða, aðrir sátu sem fastast enda höfðu þeir góða aðstöðu til að notfæra sér fyrirtækin í eigin þágu. Því miður virðast fyrirtæki reyna að hylma yfir vesenið eða losna bara við það úr eigin ranni, ganga jafnvel svo langt að skrifa meðmælabréf handa hinum siðblinda, sem auðveldar honum að svíkja út hærri stöðu. Þrátt fyrir efnahagskreppuna er enn þörf á reyndum stjórnendum sem hafa bolmagn til að taka að sér endurreisn fyrirtækja og snúa ástandinu til betri vegar. Svoleiðis menn eru vandfundnir. En þetta er upplagt tækifæri fyrir siðblinda; Þeir geta smogið inn í fyrirtækin á fölskum forsendum og gefið sig út fyrir að vera „lausnin“ á vanda þeirra. Aðgangur að menntun verður æ greiðari og því fylgja vafasamar gráður sem siðblindir kaupa á netinu og punta með starfsferilsskrárnar. Nú er engin skömm af því að hafa misst vinnuna, eins og áður þótti, enda hafa jafnvel frábærir stjórnendur þurft að ganga atvinnulausir um hríð. Því er auðvelt fyrir siðblinda að kenna samdrætti um til að útskýra hve stutt þeir hafa tollað í mörgu starfinu.16

[Myndin er af Stein Bagger, forstjóra danska fyrirtækisins IT Factory. Hann er reyndar ekki gott dæmi um niðurstöður Babiak og Hare því árið 2009 var hann dæmdur í sjö ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir ævintýraleg fjársvik og skjalafals. Stein Bagger hefur sjálfur haldið því fram að hann sé siðblindur.]

*Atriði sem gætu bent til að stjórnandi eða starfsmaður fyrirtækis sé siðblindur:

  • Viðkomandi getur ekki stjórnað teymi – hópvinna með siðblindum er fyrirfram vonlaus;
  • Viðkomandi getur ekki deilt með sér – t.d. upplýsingum og hrósi;
  • Viðkomandi kemur misjafnlega fram við  fólk – af því siðblindir skipta fólki í verndara, peð, flón og lögreglu;
  • Viðkomandi getur ekki sagt satt – sjúkleg lygaárátta er aðalsmerki siðblindra;
  • Viðkomandi getur ekki sýnt hógværð;
  • Viðkomandi getur ekki tekið skömmum – hann  tekur ekki ábyrgð á eigin mistökum (heldur kennir öðrum um);
  • Viðkomandi sýnir ófyrirséða hegðun – maður veit aldrei hvar maður hefur siðblindan;
  • Viðkomandi getur ekki brugðist rólega við – siðblindir stökkva upp á nef sér;
  • Viðkomandi getur aldrei brugðist öðruvísi við en reiður/árásargjarn.1

*Hvernig lágmarka má hættu á að ráða siðblindan stjórnanda eða starfsmann í fyrirtækið:

  • Taka ítarleg viðtöl við umsækjendur;
  • Biðja um sýnishorn af fyrri verkum;
  • Einblína á hegðun og framkomu;
  • Biðja um útskýringar á smáatriðum /gaumgæfa smáatriði;
  • Vera vakandi fyrir eðlilegum tilfinningaviðbrögðum;
  • Ákveða ekki ráðninguna einsamall/einsömul;
  • Sannreyna meðmæli;
  • Spyrjast fyrir hjá fyrri vinnuveitanda;
  • Nota B-Scan.18

    


1 Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“ í Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 28 
 2 Sjá Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“, Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 25 – 29; Nanna Briem. 2010. „Siðblinda“, ritstjórnagrein í Læknablaðinu 96.árg. 6.tbl. 2010; Nanna Briem. 2010. Siðblinda og birtingarmyndir hennar, myndband af fyrirlestri sem hún hélt í Háskólanum í Reykjavík þann 3. febrúar 2010; Nanna Briem. Maí 2010. Um siðblindu (glærusýning). Sjá einnig Kristján G. Arngrímssonar. 2006.„Snákar í jakkafötum“ í Mbl. 7. júní 2006 og Jón Sigurður Karlsson. 2011. „Siðræn sjónskerðing og siðblinda“ í Vefriti Sálfræðingafélags Íslands. Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar 3. 1. 2011. Vefsíður skoðaðar í janúar 2011.
 3 Hercz, Robert. 2001. „PSYCHOPATHS AMONG US“, skoðað á vefsvæði Roberts D. Hare þann 3. febrúar 2011. Birtist upphaflega í Saturday Night Magazine 8. september 2001.
 

4 Babiak, Paul. 2004. „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 415.
Ritstjórar: Hugues Hervé og John C Yuille. Lawrence Erlbaum Assiociates, Inc., New Jersey.  Aðgengilegt á Google bækur. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

5 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York, s. 193. (Bókin kom fyrst út 2006.)

Aðra kannanir hafa leitt svipað í ljós eða jafnvel uggvænlegri niðurstöðu, t.d. bresk könnun þar sem bornir voru saman þrír hópar: Geðsjúkir ofbeldismenn í Broadmoor gæslufangelsinu í Englandi (karlmenn), hópur sjúklinga af geðsjúkrahúsum (rúmlega helmingurinn karlmenn) og hópur háttsettra stjórnenda (karlmanna) í fyrirtækjum. Ekki var notaður PCL-R kvarði Hare’s heldur annars konar mælitæki. Niðurstaðan var sú að stjórnendahópurinn sýndi mestu kjarnaeinkenni siðblindu en aftur á móti lítil merki um andfélagslega hegðun. Af því mælt var öðruvísi en Hare gerir er ekki hægt að gefa upp neina tölu um siðblindu í þessum þremur hópum en sjá má töflu yfir einstaka persónuleikaþætti, þ.m.t. þá sem heyra til kjarnaeinkenna siðblindu, í rannsókninni. Sjá  Board, B J, and Fritzon, K. 2005. „Disordered personalities at work“ í Psychology, Crime and Law, 11.árg., 1.tbl., s. 17- 32. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

6 Babiak, Paul. 2010. „Corporate psychopathy: Talking the walk“ í Behavioral Sciences & the Law, 28.árg. 2.tbl., s. 174– 193, mars/apríl 2010. Einungis útdrátturinn var skoðaður, þann 3. febrúar 2011.
 

7 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. xi-xiii.
 

8 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 88-148.
 

9 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s 111-141.
 

10 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s 185-193
 

11 Boddy, Clive R., Richard K. Ladyshewsky og Peter Galvin: 2010. „The Influence of Corporate Psychopaths on Corporate Social Responisbility and Organizational Commitment to Employees“ í Journal of Business Ethics, 97.árg. 1.tbl. 2010, s. 1-19. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

12 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics, 97.árg. 1.tbl, s. 1-13. Skoðað 25. jan. 2011.
 

13 Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“ í Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 27-28. Tilvitnun í Fastow er tekin úr Deutschman, Alan. „Is Your Boss a Psychopath?í Fast Company 96.tbl. júlí 2005, s. 44-51. Skoðað 3. febrúar 2011.

Það er áhugavert í þessu sambandi að lesa hugleiðingar Guðjóns Viðars Valdimarssonar um hvort og þá hvernig skuli í endurskoðun taka á þáttum sem varða siðferði og fyrirtækjamenningu. Hann nefnir ekki siðblindu en minnist á Enron og segir: „Þegar menning viðkomandi fyrirtækis gengur út á árangur og árangursmat og árangursmatið hefur afgerandi áhrif á framtíð og starfsferi [svo!] starfsmanna. Þessi þáttur samtvinnaður við vísvitandi tregðu yfirstjórnar til að vilja vita nákvæmlega hvernig viðkomandi náði markmiðum sínum væru viss einkenni þessara [svo!] fyrirtækjamenningar. Hjá Enron fyrirtækinu hafði sú menning skapast að allir starfmenn yrðu að ná árlegum markmiðum sínum. Það í sjálfu sér er nú ekki óhófleg krafa en það sem var sérstakt var að það var nánast hægt að ábyrgast [svo!] að náði starfsmaður ekki markmiðum sínum þá var hann annað hvort rekinn strax eða settur til hliðar. Þegar starfsmenn standa frammi fyrir slíku þá munu þeir leita allra leiða til að búa svo hlutina að þessi markmið náist því þeirra starfsframi og öryggi fjölskyldu þeirra er í húfi. Stjórnendur Enron vildu helst ekki vita annað en hvort viðkomandi hafði náð markmiðum sínum eða ekki.

Það var óskrifuð regla að meðölin helguðu tilganginn en einnig að stjórnendur vildu hafa það sem á ensku heitir “Plausible deniability” þ.e.a.s. að getað [svo!] vísað ábyrgð frá sér með þeim rökum að þeir hafi ekkert vitað og treyst undirmönnum sínum.

Við lestur rannsóknarskýrslurnar [svo!] [átt er við rannsóknarskýrslur Alþingis eftir bankahrunið] kemur það ítrekað fram hjá stjórnmálamönnum að þeir telja að forsvarsmenn bankanna hafi logið að sér og þess vegna hafi þeir ekki viljað grípa til þeirra aðgerða sem eftir á að hyggja, hefðu talist eðlilegar. Spurningin er sú hvort það sé viðunandi skýring að maður hafi ekki vitað betur. Getur þá skipstjóri strandaðs skips vísað frá sér ábyrgð vegna þess að undirmenn viðkomandi hafi logið eins og þeir voru langir til?“

Sjá  Guðjón Viðar Valdimarsson. „Menning og siðferði fyrirtækja sem liður í innri endurskoðun“ í Fréttabréfi Félags um innri endurskoðun, 1.tbl. september 2010, s. 2. Guðjón er faggiltur innri endurskoðandi (CIA) og tölvuendurskoðandi (CISA) og starfar hjá Seðlabanka Íslands. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

14 Hare, Robert D. í viðtali við Dick Carozza. 2008. „Interview with Dr. Robert D. Hare and Dr. Paul Babiak. These Men Know ‘Snakes in Suits’: Identifying Psychopathic Fraudsters“ í Fraud Magazine, júlí-ágúst 2008. Skoðað á vefsetri Roberts D. Hare 4. febrúar 2011.

Sjá einnig: Robert Hare í viðtali við Robert Hercz 2001: „Fjölmargir hvítflibba-glæpamenn eru siðblindir“, segir Bob Hare. „En þeir dafna vel því persónueinkennin sem skilgreina siðblindu eru í rauninni mikils metin. Og hvað gerist þegar þeir nást? Það er slegið á puttana á þeim, þeim er bannað að stunda viðskipti í hálft ár og þeir endurgreiða okkur ekki þessar 100 milljónir dollara. Mér hefur alltaf fundist hvítflibbaglæpir jafnslæmir eða verri en sumir ofbeldisglæpir.“ Hercz, Robert. 2001. „PSYCHOPATHS AMONG US“, skoðað á vefsvæði Roberts D. Hare þann 3. febrúar 2011. Birtist upphaflega í Saturday Night Magazine, 8. september 2001.
 

15 Babiak, Paul. 2004. „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 426.
Ritstjórar: Hugues Hervé og John C Yuille. Lawrence Erlbaum Assiociates, Inc., New Jersey.  Aðgengilegt á Google bækur. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

16 Hare, Robert D. í viðtali við Dick Carozza. 2008. „Interview with Dr. Robert D. Hare and Dr. Paul Babiak. These Men Know ‘Snakes in Suits’: Identifying Psychopathic Fraudsters“ í Fraud Magazine, júlí-ágúst 2008. Skoðað á vefsetri Roberts D. Hare 4. febrúar 2011.
 

17 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 248-258
 

18 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 209-238.

B-Scan er stytting á Business Integrity Scan. Þetta er verkfæri sem þeir Babiak og Hare eru enn að þróa en nokkrar tilraunaútgáfur hafa þegar verið prófaðar. Þótt ekki sé um að ræða klíníska greiningu á siðblindu þá mælir B-Scan hegðun, viðhorf og dómgreind sem tengjast siðferði fyrirtækja. Um B-Scan má t.d. lesa í kafla Paul Babiak, „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 423-426. Aðgengilegt á Google bækur.

B-Scan er ekki enn komið á markað en mönnum býðst að prófa verkfærið ókeypis. Sjá „Business-Scan (B-SCAN) by P. Babiak, Ph.D. & R. D. Hare, Ph.D.“ á B-SCAN. MHS.  Vefsíður skoðaðar 4. febrúar 2011.
 
 
 
 

Um blogg, vef, heimildaleit og Norn

Leit á bloggs�ðumEinhverjir hafa kannski velt því fyrir sér af hverju ég skrifa þessar ógnarlöngu greinar um siðblindu og birti á blogginu. Þetta er vissulega dálítið óvenjulegt áhugamál. Kannski er aðalástæðan sú að ég fann næstum ekkert á íslensku um efnið, þegar ég ætlaði að kynna mér það seint á síðasta ári og álít að það væri ekki vitlaust að umfjöllun lægi einhvers staðar frammi. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að ég hef ekki forsendur til að meta siðblindu á klínískan máta eða fjalla um hana á mjög fræðilegan hátt, til þess skortir mig einfaldlega menntun og yfirsýn yfir geðsjúkdómafræði. Á móti kemur að ég hef sennilega víðara sjónarhorn en fagmaður af því ég er ekki eins bundin af einsleitum heimildum. Hin aðalástæðan, sú sem blasti við mér í upphafi, er ógurlegur athyglisbrestur og gleymska, sem hrjáir mig og fer óendanlega mikið í taugarnar á mér. Það er erfitt fyrir pottþéttar meyjur (altso í meyjarmerkinu) að vera álfar út úr hól mánuðum saman 😉 Út af því gloppótta minni er fínt að skrifa niður fyrir sig sjálfa upp á seinni tíma notkun og hvað er þægilegra en eiga efni á Vef? Maður er svona hundrað sinnum fljótari að fletta upp og leita á Vefnum en í bók eða útprentuðu efni. Ég hef svo hugsað mér að láta efnið “gerjast” svolítið á blogginu og vefa það síðan og koma fyrir á mínu heimasvæði.

Auk þess má bæta og breyta vefrænu efni jafnóðum, t.a.m. ætla ég núna á eftir að splæsa upplýsingum um siðblindar konur inn í þær færslur um siðblindu þar sem þær eiga við. Var að rekast á þennan bút (en þar heldur sjálfur Hare því fram að siðblinda kvenna sé vangreind og oft greind sem önnur persónuleikaröskun – vegna ríkjandi hugmynda um kven-og karlhlutverk í samfélaginu). Ennfremur bæti ég inn í síðasta blogg tilvitnunum íslenskra leiðtoga kirkjunnar um siðblindu, sem ég var að rekast á.

Bloggið mitt er öðrum þræði gagnasafn, mismunandi vandað auðvitað. Ég sé að fólk rekst þar inn af ýmsum ástæðum; menn eru að leita að hinu og þessu og bloggfærslurnar gúgglast prýðilega. Sjá dæmi af teljaranum, sem ég tók mynd af áðan. Það gefur til kynna fjölbreytta leitarstrengi sem tengjast þessu bloggi.

Talandi um leit á vef þá er ég sannfærð um að Google.com er talsvert betri en leitin í gagnasöfnum á Hvar.is. Ég er miklu fljótari að finna greinar á scholar.google.com heldur en á hvar.is, auk þess sem scholar.google.com gefur upplýsingar á borð við hve margir tengja í viðkomandi grein (þ.e. vitna í hana) og nefnir þá staði þar sem hún er vistuð. Fyrir meir en áratug hlustaði ég á Heimi Pálsson tala um eitthvað á einhverri ráðstefnu eða fundi og mér er minnisstætt að hann hélt því fram að ekki væri lengur eftirsóknarvert að vera getið í heimildaskrá eða tilvísanaskrá rita, málið væri að “láta linka í sig”. Eins og venjulega hafði Heimir rétt fyrir sér.

Efni á vef (hvort sem um er að ræða vefsíður eða pdf-skjöl) er líka miklu þægilegra en á prenti í þeim fræðum sem menn vilja nota APA heimilda-og tilvísanakerfi. (Þá er bara vitnað í höfund, bók, útg.stað o.þ.h. en ekki í blaðsíðutal. Stundum hefur mér dottið í hug, þegar ég skoða ritgerðir á Skemmunni.is, að hægt sé að ljúga hverju sem er upp á hvern sem er því hvaða leiðbeinandi nennir að fletta gegnum bókahaug til að staðfesta eitthvað sem vitnað er í, í ritgerð? Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að venjulegur háskólakennari hafi slíkan haug á takteinum í sínu heilabúi, einkum vegna þess að í sálfræði- og félagsvísindum virðist aðalatriðið að sviga sem mest og oftast.) Maður er skotfljótur að finna réttu staðina með leitarorði ef efnið er á tölvutæku formi.

Þegar fundist hefur álitleg grein á scholar.google.com en útgáfan er ekki opin (og útdrátturinn lofar góðu) má finna rétta tímaritið og tölublaðið á hvar.is. Í slíku bardúsi hef ég reyndar áttað mig á hve gagnagrunnar hvar.is eru takmarkaðir, þ.e. hve vantar mörg tímarit í þá. Þetta er stundum áberandi með siðblinduna en mjög áberandi þegar maður leitar að greinum um prjónafræði ýmiss konar. Oft er hægt að bjarga sér í siðblindunni með leit á http://www.free-pdf-ebooks.com/ en í prjónafræðum er þar ekki um eins auðugan garð að gresja.

Heimildir um prjónasögu er einnig erfitt að finna á bókasöfnum. Eins og er skipti ég við Þjóðarbókhlöðu, Norræna húsið og bókasafnið í Kennaraháskólanum til að viða að mér efni. En grundvallarritin tvö eru hvergi til; Ég er búin að kaupa annað en hitt er gersamlega uppselt. Næst er að kemba vefinn og leita að fornbókasölum sem hugsanlega gætu átt þá bók. Grundvallartímaritið Textile History er á vefnum en er ekki í gagnasöfnum hvar.is og því hvorki háskólaaðgangur né landsaðgangur að því. (Hver grein kostar tæplega 40 dollara og það er af og frá að ég borgi slíkt verð fyrir grein á vefnum!). Pappírsútgáfa af tímaritinu frá 1991 (eða bara tölublöðum þess árs, það er ekki hlaupið að því að sjá það) er einungis til á Þjóðminjasafninu. (Jú, ég mun auðvitað hafa samband við fólkið þar og fá að skoða og ljósrita ef mörg tölublöð eru til, það er ekkert mál að finna yfirlit yfir efni alls forðans á vefnum og vera búin að sigta út álitlegar greinar). Ein af frægari heimildum um prjónasögu er Mary Thomas’s Knitting Book. Skv. Gegni er til eitt eintak af henni á landinu – í Seyðisfjarðarskóla! Þar er hún auk þess ekki lánuð út heldur einungis til afnota á safninu. Ætli sé ekki vænlegra að leita að notuðu eintaki á Amazon.com en gera sér ferð á Seyðisfjörð að vetrarlagi (þótt ég hafi reyndar aldrei komið þangað)?

Ég ætlaði að fara að vinna aðeins í málsöguefni í morgun en festist í Norn, sem mér finnst alltaf jafnspennandi. (Og sá að ég þarf að fara á Þjóðarbókhlöðu til að fletta upp í orðabók Jakobsens, fann orðið og bls. tal í orðabókinni á vefnum en svo kom einhver helv. höfundaréttur í veg fyrir að gagnasafnið birti síður fyrir lesendur utan Bandaríkjanna …). Best að slútta þessari færslu með tilvitnun í faðirvorið, á Orkneyja- og Hjaltlandseyjanorn. Það er viss yfirbót eftir að hafa bloggað um siðblindu innan kirkjunnar 😉

  Faðirvorið á Norn

  

  

Siðblindir í kirkjunni

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 
 

Að hafa siðblindan prest eða leiðtoga í kirkjunni er eins og að afhenda siðblindum óútfyllta ávísun1
 
 
Umfjöllun á Norðurlöndunum

Á Norðurlöndunum hafa komið út a.m.k. þrjár bækur sem fjalla um siðblindu innan kirkjunnar. Allar hafa þær vakið mikla athygli en eru þó ófinnanlegar í íslenskum bókasöfnum, hvað þá að þær hafi verið þýddar. Ég hef þessar bækur ekki undir höndum og verð því að styðjast við tilvitnanir á vefsíðum og greinar um þær. Mér finnst mjög einkennilegt hve hljótt hefur verið um bækurnar hér á landi.
 

*Árið 1989 kom út norska bókin Maktmennesket i menigheten eftir Edin Løvås. Höfundurinn er velþekktur prédikari í Noregi og starfandi prestur í Norska heimatrúboðinu (Misjonsforbundet) í Edin Løvåsáratugi. Þetta eru nokkurs konar reikningsskil á ágætum möguleikum dæmigerðra siðblindra  til „tortímandi tjáningar“ í venjulegum kristnum söfnuðum. Kristnir söfnuðir eru „vettvangur þar sem svona fólk á auðveldast með að beita valdi sínu“, segir hann. „Eftir 40 ár sem sálusorgari er ég skelfingu lostinn  yfir þeirri miklu þjáningu sem siðblindir valda kristnum einstaklingum, hópum og söfnuðum. Ég er líka skelkaður yfir hve lítið bæði kristnir og fagfólk á þessu sviði talar hreint og vafningalaust um þetta. … Ég tel að þetta sé risastórt vandamál sem sópað er undir teppið. Það er eins og dreginn sé allur máttur úr forystumönnum [kirkjunnar]. Stundum velti ég fyrir mér hvort hirðarnir séu ekki jafn hræddir og hjörðin og sé sú raunin ásaka ég engan. Því ekkert (fyrir utan sjálfan djöfulinn) er eins ógnvekjandi og þegar þessir „skæðu vargar“ þröngva sér inn á ykkur (sbr. Postulasöguna 20:29).“2

„Siðblindir eru menn sem hafa lífsskoðun, mannskilning og viðhorf sem leiðir til þess að þeir eru sífellt á höttunum eftir valdi. Þeir hafa óendanlega þörf til að stýra hjörtum og hugsunum annarra. Kristnir söfnuður er vettvangur þar sem þeim veitist létt að hrinda þessu valdi í framkvæmd. Siðblindir eru venjulega klárir og heillandi og þeir beita öllum sínum áhrifum og orku í valdabaráttuna.“3

Ástæðurnar fyrir því hve sá siðblindi nær sterkum tökum innan kirkjunnar eru einkum þrjár, skv. Løvås. Í fyrsta lagi geti sá siðblindi sett fram kröfur um kærleika, auðmýkt, þolinmæði og umburðarlyndi. Kristið fólk er alið upp í því að fyrirgefa og þola þjáningu. Prédikarar og prestar hafa hamrað á því að kærleikurinn, þolinmæðin og umburðarlyndið sé takmarkalaust, án þess að bæta við að hægt er að misnota fólk í nafni kærleika og þolinmæði; Önnur skýring er sú að fólk hefur tamið sér í of miklum mæli að vera óvirkir áheyrendur í kirkjum. Tjáningin kemur svo til eingöngu úr kórdyrum, frá altarinu og úr prédikunarstólnum. Flestir samþykkja athugasemdalaust það sem prédikarinn boðar. Þeir setja sig í spor „sauðanna sem fylgja hirðinum“ og í þessu tilviki á það ekki við Jesús, heldur prestinn eða skilning þeirra. Skv. Løvås eru flestir þannig uppaldir að það er ofar þeirra skilningi að einhver skuli „prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug“ (Filippíbréfið 1:17).  Enn ein skýringin á því hve auðvelt er fyrir siðblinda að ná völdum í kristnum samfélögum er kannski að þeir leita oft í Biblíuna í röksemdafærslu sinni. Þeir geta vísað í ritningarstaði á borð við  „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát.“ (Hebreabréfið 13:17).4

Løvås telur að sá siðblindi búi sér oft til einfalt guðfræðikerfi með aragrúa af ósveigjanlegum reglum. „Því neyðir hann svo upp á fólk og krefst óskoraðrar hlýðni undir því yfirskini að hann haldi trúna við bókstafinn, rétta guðfræði og rétt lögmál. Af því að valdinu stafar af honum veldur hann ótta og hann brýtur andstöðu á bak aftur. Þeim sem hann nær á vald sitt finnst að mótmæli jafngildi því að þeir séu á móti sjálfum Guði almáttugum.“5

Kaflafyrirsagnir í bókinni lýsa valdsmönnum innan kirkjunnar (maktmennesket i menigheten): Þeir verða að vera miðpunktur athyglinnar;  Þeir eru stöðugt til í slaginn;  Sektarkenndin er helsta vopn þeirra (þeir láta aðra fá samviskubit); Þeir brjóta niður sjálfsálit (annarra); Þeir skilja ekki þarfir annarra; Þeir hafa mikla þörf fyrir örvun. (Innst inni leiðist þeim. Þeir elska dramatík og að vera í miðju hringiðunnar.); Þeir hafa óraunhæfar væntingar; Þeir blekkja flesta;  Þeim hugnast vel stigskipt valdakerfi; Þeir ráðast á minni máttar.6

Siðblindir munu ekki breytast. „Lausnin er sem sagt ekki sú að bíða eftir neins konar breytingu eða þess að valdsmennirnir skáni. Hinn þekkti norski sálfræðingur Tollak B Sirnes segir: „Flestar rannsóknir á árangri meðferða siðblindra sýna að líkur á bata eru litlar.“7

Løvås telur að það sé engin önnur leið fær en að rjúfa samskipti við slíkan valdsmann. Hinn kosturinn er að leggjast í mikil bréfaskipti, rökræður eða samningagerð við þá og virðist Løvås ekki telja að það skili árangri.  Ef á að reka þá, segir hann,  verður það að gerast á óvéfengjanlegan löglegan hátt – allt annað er gagnslaust.

Hlutverk okkar hinna ætti fyrst og fremst að vera að vernda minni máttar og ekki að gefa þeim sterka nein tækifæri. Því meir sem við hræðumst að stöðva valdsmann, því minna tillit sýnum við þeim sem valdmaðurinn tætir í sig. Og þeim líður illa. Þeirra hlutskipti er að þjást í hljóði því ef þeir vekja máls á því sem er erfitt mun þeim líða enn verr. Þeir geta auðvitað gert kollega sína að trúnaðarmönnum og fengið stuðning og skilning en fáir kollegar þora að halda opinskátt með þeim þegar nauðsyn ber til. Fórnarlömbin stríða oft við mikla tilfinningaörðugleika, svefnleysi og líkamlega kvilla. Enn verra er að þau byrja oft að skilgreina sig eins og valdsmaðurinn lítur á þau, nefnilega veikgeðja, móðursjúk, óguðleg, sjálfselsk o.þ.h.8
 

*Presturinn Raimo Mäkelä, framkvæmdarstjóri Finnsku biblíustofnunarinnar (Finska Bibelinstitutet / Sumoen Raamattuopisto), gaf 1997 út örstutta bók (einungis 78 síður), Naamiona terve miele, Raimo Mäkeläsem á dönsku heitir Magtmisbrug i menigheden, á norsku Psykopatenes makt: hvordan du kan bli fri en hefur hvorki verið þýdd á sænsku né íslensku. Bókin hefur verið endurprentuð átta sinnum og selst í yfir 16.000 eintökum. Hún hefur komið út í Þýskalandi, Noregi og Danmörku og árið 2005 var verið að þýða hana á rússnesku, ensku og kínversku.

 Raimo Mäkelä reynir ekki að draga fjöður yfir það að vandamál sem tengjast sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (Narcissistic Personality Disorder) sé einnig að finna innan kirkjunnar – og bætir við að hugtakanotkun sé dálítið ruglingsleg enda talar hann alltaf um siðblindu (psykopati) síðar í viðtalinu, sem ég vitna í. Grunnþátturinn í siðblindu er valdafíkn. Siðblindir geta verið kappsamir og metnaðargjarnir en þegar allt kemur til alls er sjálf valdabaráttan þeim mikilvægust; að ráða yfir hverri manneskjunni af annarri eða hreppa hverja stöðuna eftir aðra. Bæði lútherska þjóðkirkjan og fríkirkjur höfða til svona fólks og oft kemst það í stjórnunarstöður.

Mörg ár, jafnvel fast að áratug, tekur að átta sig á svona manni. Gróft meðaltal er kannski tvo ár, þá ættu viss merki að vera farin að sjást. Oft er viðkomandi þá á miðjum aldri.

Raimo MäkeläÞað að maður með siðblindueinkenni geti starfað óáreittur í kristnu samfélagi um langt skeið á sér sínar skýringar. Kirkjustarfi fylgir myndugleiki sem er frjór jarðvegur fyrir þann sem þyrstir í völd. Hann getur lært rétta tungutakið, kennt um trú og guðspjöllin af sannri trúfestu og verið strangur. Það tekur tíma að síast inn að hann telur sig alls ekki sjálfan bundinn af þeim reglum sem hann prédikar. Hann er er ósvífinn en ekki svo ósvífinn að manni blöskri eða trúi varla sínum eigin eyrum og augum. Kristnar hugsjónir fela í sér að vera góður, að halda friðinn og hlýða. Enginn býst við því að kristinn leiðtogi komi illa fram við aðra.

Hinn siðblindi deilir fólki í þrjá hópa. Eðlisávísunin segir honum hverjir standa með honum eða hverja hann getur munstrað í sitt lið. Allt snýst um hann sjálfan. Fyrsti hópurinn er fólk sem hann getur ráðskast með og heillað, fólk sem dáist endalaust að honum og verður hirð í kringum hann. Hann fer um þetta fólk silkihönskum og þetta er liðið sem segir: „Hann gæti aldrei gert neitt af sér!“„Við trúum aldrei neinu illu upp á hann!“ Næsti hópur er fólk sem sér í gegnum þann siðblinda. Hann getur ekki ráðskast með það og hann þolir ekki þetta fólk. Þriðji hópurinn eru fórnarlömbin, þau sem hann mun traðka á. Þetta eru oftast góðar manneskjur sem vilja halda friðinn. Hann er stundum almennilegur við þetta fólk en getur augnabliki síðar umhverfst í djöful í mannsmynd.

Reynsla fólks í söfnuðinum og álit manna verður því mjög mótsagnakennt. Þess vegna er lítið gagn af því að fá utanaðkomandi ráðgjafa því það eina sem hann festir hönd á er að þarna séu skiptar skoðanir.

Vegna sterkrar ráðningarfestu er erfitt að losa sig einfaldlega við hinn siðblinda, sama hversu langt hann gengur. Þar er sjaldan beinlínis um lögbrot að ræða, það er hægt að beita valdníðslu á svo ótal aðra vegu. En óheiðarleikinn og ofbeldisfull hegðun eru auðsjáanleg.

Að sumu leyti er siðblindum vissulega vorkunn. Hann er aumkunarverður. Hann sér aldrei sök hjá sjálfum sér heldur telur alla aðra breyta rangt. Hann skortir samhygð og samvisku. Hann iðrast einskis. Samt finnst Mäkelä óþarft að vorkenna siðblindum heldur eigi að hugsa um fórnarlömb þeirra. Ástandið mun aldrei skána. Maður á að berjast á móti og ekki láta traðka á sér en gangi það ekki er um að gera að segja upp starfi og fara, það er ekki vesalmennska heldur nauðsyn til að lifa af. Hann segir:„… sem sálusorgari get ég aldrei hvatt neinn til að vera um kyrrt í slíkri þjáningu og helvíti [sem samvistir við siðblindan geta verið]…. Flýðu!“9
 

*Árið 2007 kom út í Danmörku bókin Forklædt.  Pæne psykopater og deres ofre eftir Irene Rønn Lind. Hún er menntaður kennari, fjölskylduráðgjafi og hefur lokið cand.pæd.psyk.aut. gráðu. Irene Rønn LindLokaritgerð hennar, 2001, fjallaði einmitt um „pæne psykopater“. Irene er starfandi sálfræðingur og hefur setið í sóknarnefnd á Sjálandi. Bók hennar virðist hafa vakið mikla athygli. Hugtakið „pæne psykopater“ hef ég áður þýtt sem „snotrir siðblindir“ en mætti líka notast við „huggulegir siðblindir“ (á ensku eru notuð „successful psychopath“, „subclinical psychopath“ o.fl. orð yfir þetta sama, þ.e.a.s. siðblindan sem tekst að taka þátt í samfélaginu og halda sig utan fangelsismúranna).

Irene Rønn Lind heldur því fram að fyrirgefning og opnar dyr kirkjunnar geri hana að hreinasta gósenlandi fyrir siðblinda. Hún segir: „Hin jákvæðu gildi sem ríkja í kirkjunni, s.s. fyrirgefning og náungakærleikur, gera siðblindum auðvelt fyrir í innan kirkjunnar. Hin jákvæðu gildi virka nánast eins og óútfyllt ávísun fyrir hinn siðblinda og aðferðir hans. Þetta þýðir að hann fær oft að valsa óáreittur í mörg ár uns fólk fær endanlega nóg.

Hagur siðblindra er góður í kirkjusamfélaginu og það skapar vandamál því aðfarir hins siðblinda fá aukið vægi í hinu trúræna. Þetta gerir aðstæður í kirkjunni ólíkar aðstæðum á venjulegum vinnustað. Þegar maður nær tangarhaldi á sambandi fólks við guð öðlast maður ríkulegt vald.

Sá siðblindi mun hafa áhrif á söfnuðinn. Nærvera hans mun skaða trúnaðinn, umhyggjuna og tiltrúna. Fólki reynist erfitt að sýna trúnaðartraust því það hræðist að það sem það upplýsir verði notað gegn því. Hinn siðblindi mun alltaf sitja um að snúa vandamálum safnaðarins gegn safnaðarfólkinu sjálfu.“10

Hún vitnar í skoðun danskra vinnustaðasálfræðinga sem hafa getið sér til að u.þ.b. 10% stjórnenda í atvinnulífinu séu umtalsvert siðblindir. Irene Rønn Lind telur að hlutfallið sé svipað innan dönsku kirkjunnar en tekur fram að auðvitað sé um ágiskun að ræða. 11

Á sóknarnefndarfundum sýnir hinn siðblindi ógnandi framkomu og heitir fólki glötun. Hann þolir ekki gagnrýni, finnur ekki til samviskubits og allt sem hann gerir er einungis í eigin þágu.12

Irene Rønn Lind hefur sýnt tengsl hins siðblinda við söfnuðinn í svona töflu:

siðblindur prestur og söfnuðurinn

 Og hún lýsir því svona hvernig hegðun hins siðblinda gæti skarast við verkefni prests:

Siðblindur prestur13

  

Dæmi um bágt ástand í kirkjunni

Í inngangi bókar sinnar rekur Irene Rønn Lind nokkur dæmi úr dönskum fjölmiðlum sem sýna eyðileggjandi atferli einstaklinga. Hún tekur fram að ekki sé hægt að fullyrða að einstaklingarnir sem við sögu koma séu siðblindir en segir að þessi dæmi sýni hvernig siðblindur gæti hagað sér.

Dæmi VII er um frétt sem birtist á forsíðu Kristilegs dagblaðs í 4. apríl 2001. Fyrirsögnin var „Kirkjur Kaupmannahafnar kærðar fyrir einelti“. Í tveimur greinum og í leiðara blaðsins var lýst einelti og áreitni í 8 kirkjum þar í borg sem tilkynnnt hafði verið til Vinnuverndar (Arbejdstilsynet). Í leiðaranum var vísað til kirkjuráðstefnu og staðhæft að í fjórðu hverju sóknarkirkju í Danmörku ríkti ófriður. Irene hringdi samdægurs í blaðamanninn sem skrifaði greinarnar og komst að því að í þeim 8 tilvikum þar sem hafði verið tilkynnt um einelti og áreiti mátti rekja helminginn til sömu manneskjunnar.14

Af flokkadráttum og eineltismálum í kirkjum Kaupmannahafnar voru þau alvarlegustu í Stefánskirkjunni. Þar logaði allt í illdeilum: Tveimur prestum (Anne Braad og Ivar Larsen) líkaði engan veginn við þriðja prestinn (Lull Ross); kórinn hafði verið rekinn munnlega en starfaði samt áfram; sóknarnefndin var klofin í afstöðu sinni og organistinn var kominn í langt veikindaleyfi vegna áfallastreitu sem stafaði einkum af einelti fyrstnefndu prestanna tveggja. Organistinn, Ole Olesen, hafði þá starfað í Stefánskirkjunni í tæp 30 ár. Það var hann sem kærði til Vinnuverndar.

Presturinn sem átti undir högg að sækja hafði skrifað Kirkjumálaráðuneytinu bréf og beðið um úttekt á vinnuumhverfinu í kirkjunni. Hún hafði líkað skrifað sóknarnefndinni og tilkynnt að hún yrði fyrir einelti. Presturinn Ivar Larsen, sem virðist aðallega hafa verið stuðningsmaður sr. Anne Braad, hafði á hinn bóginn mætt á fund sóknarnefndar til að upplýsa hana um hver væru fyrstu skrefin til að reka prest vegna samstarfsörðugleika. Kórinn beið eftir formlegum uppsagnarbréfum. Um stöðu kórsins sagði Anne Braad: „Ég veit ekkert um lagagreinar og lagalega framkvæmd. En við höfum verið að vinna í því að reka kórinn í heilt ár og enn hefur ekki orðið af því. … Sennilega er það ekki hægt.“ Aðspurð hvort ekki væri stuðlað að lélegu vinnuumhverfi með að reka fólk og láta það svo halda áfram að vinna, svaraði hún: „Maður verður að reyna. Svo getur maður vonað að þau hætti sjálf.“ Fyrrum kórmeðlimur sagði í uppsagnarbréfi sínu, sem sent var til allrar sóknarnefndarinnar, prófasts og biskups: „Mér varð fljótlega ljóst að kirkjan og starfsmönnum hennar er stýrt af klíku, hópi manna sem hafa þvingað sitt í gegn með því að þegja yfir eða gefa rangar upplýsingar, beita ásökunum og ógnandi framkomu. Þær ákvarðanirnar sem þrýst var í gegn hafa á ýmsan máta ekki verið til að bæta daglegt starf í kirkjunni.“15

Siðblindur presturFimm árum síðar voru deilumálin í Stefánskirkjunni enn óleyst. Lull Ross var hætt og einungis tveir prestar starfandi við kirkjuna, þau Anne Braad og Ivar Larsen. Vinnueftirlitið taldi sig ekkert geta gert því einelti og áreiti félli utan verksvið þess. Svona mál yrðu málsaðilar að leysa sjálfir. Biskup Kaupmannahafnar vildi ekki tjá sig um málið, sagði einungis: „Þetta eru nýjar fréttir fyrir mig. Ég hef hvorki heyrt um kærurnar frá kirkjunum né frá Vinnueftirlitinu. En ég mun auðvitað skoða  málið með opnum huga.“ Organistinn hafði býsna lítið getað unnið og aðallega verið í veikindaleyfi. Það sem gerst hafði í málum hans til þessa: Hann reyndi ná sáttafundi með prestum kirkjunnar en sóknarnefndin svaraði ekki erindi hans (2001); Sóknarnefndin reyndi að reka organistann því hann gæti ekki sinnt starfinu vegna veikinda en organistinn leitaði þá til umboðsmanns („sætteombudsmand“ sem samsvarar umboðsmanni Alþingis hér á landi) (2002); Haldinn var fundur með þáverandi kirkjumálaráðherra sem krafðist þess að deiluaðilar fyndu lausn á málinu (2005); Formlegar sáttaumleitanir, að kröfu umboðsmanns,  milli presta og organista fóru út um þúfur (2005); Organistinn kom til starfa í 6 vikur en gafst upp (sumarið 2005); Sóknarnefndin vinnur í að losna við organistann með því að endurskipuleggja stöðu organista (sumarið 2006).

Sérfræðingur í stjórnun sagði um þessi mál: Sáttaumleitanir geta oft leyst deilur en einungis ef báðir aðilar vilja leysa þær, annars gerist ekkert. Í venjulegu vinnuumhverfi hefði ósættið aldrei náð svona langt, það væri örugglega búið að reka annan aðilann.16

Sennilega er það tilviljun að dæmið um siðblindan í kirkjunni í norsku bókinni Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden er líka um samskipti prests og organista. Þetta er sönn saga og segir frá konu, organistanum Ragnhildi, sem prestur kominn á efri ár kúgaði til að hætta störfum. Presturinn kom fyrir sem blíður og indæll maður, sagði brandara og virtist frjálslyndur af presti að vera. Hann hafði líka einlægan áhuga á söng og mátti heyra sterka raust hans yfirgnæfa aðra í kirkjusöng. Dag nokkurn fékk Ragnhildur bréf frá sóknarnefndinni þar sem kvartað var yfir tónlistarvali hennar. Ragnhildur hafði nokkru fyrr álpast til að segja prestinum að sálmur sem fluttur var við barnaskírn væri tæpast viðeigandi. Hún hringdi í vinkonu sína í sóknarnefndinni og vinkonan kom þá af fjöllum, sóknarnefndin hafði alls ekkert fjallað um tónlistarval í kirkjunni á sínum fundum. Þegar hún ræddi svo málin við prestinn kom fram að hann hafði haft samband við formann sóknarnefndar og að hann liti á það sem ögrun við sig þegar hún léki  eitthvað í kirkjunni sem hún hefði ekki áður borið undir hann. Ragnhildur fór að átta sig á prestinum, að hann léki tveimur skjöldum; héldi t.d. við konu sem var starfsmaður safnaðarins. En sjálf varð hún taugaóstyrk og lá andvaka á næturnar af því henni fannst hún órétti beitt.

Næst kom skrifleg kvörtun yfir að Ragnhildur hefði fært til hluti í kirkjunni, farið þannig út fyrir valdsvið sitt og brotið af sér í starfi. Á skipulagsfundum kirkjunnar leit presturinn ekki við henni og lét allar hennar tillögur sem vind um eyru þjóta. Hann var líka vanur að gera grín að tillögum annarra og tilkynna að hann myndi leysa málin sjálfur svo enginn þorði að mótmæla honum á þessum fundum.

Ragnhildur þurfti svo að taka sér frí vegna veikinda í fjölskyldunni. Presturinn tilkynnti strax að þetta yrði launalaust frí því það þyrfti að borga afleysingarmanni og hún samþykkti það. Fríið varð nokkrum dögum lengra en til stóð í upphafi en Ragnhildur lét vita á skrifstofu prestsins. Þegar hún kom aftur heim lá bréf í póstkassanum þar sem henni var tilkynnt að stöðuhlutfall hennar hefði verið lækkað niður í nokkrar klukkustundir á viku. Þegar hún spurði prestinn út í þetta svaraði hann pirraður að þetta væri ákvörðun sóknarnefndar.  Hins vegar kom í ljós að sóknarnefnd hafði aldrei fjallað um þetta mál heldur hafði presturinn fengið formann sóknarnefndar til að skrifa bréfið.

Ragnhildur hafði ekki krafta til að standa í þessu lengur og taldi að ef hún fylgdi málum eftir yrði hún stimpluð sem upphafsmaður illinda sem myndi eyðileggja starfsferil hennar innan kirkjunnar. Hún sagði upp og réði sig í aðra sókn.17
    

Hvernig er staðan á Íslandi?

Ég get ekki fundið nein dæmi þess að hættuna á að siðblindir sæki í störf innan Þjóðkirkjunnar hafi einu sinni borið á góma. Eina dæmið þar sem siðblinda í kirkjunni er beinlínis nefnd á nafn er að prestur segist hafa sagt fyrrum biskupi árið 1996 að hann væri psykopat. Í bæklingnum Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna er minnst á andfélagslega ofbeldismenn: „Þeir skiptast almennt í tvo flokka: – Hinir andfélagslegu sem hafa litla sjálfstjórn, eru uppstökkir og ofbeldishneigðir við flestar aðstæður. – Hinir dæmigerðu sem beita einungis maka sinn og börn ofbeldi.“18  Önnur dæmi um að kirkjunnar menn eða Þjóðkirkjan sem stofnun hafi brúkað orðið siðblindur (eða andfélagslegur persónuleiki, víðara hugtak sem nær m.a. yfir siðblindan) hefur mér ekki tekist að finna. E.t.v. eru Þjóðkirkjunni þessi hugtök og þessar manngerðir enn ókunnar.

[Viðbót 1. febrúar 2011. Ég hef rekist á örfá dæmi í viðbót þar sem siðblindu ber á góma í máli kirkjunnar þjóna. Þau eru:

  • Karl Sigurbjörnsson: „Það er því miður alveg áreiðanlegt að trú er í sjálfu sér engin trygging fyrir siðgæði og sönnum dyggðum. Siðlausa og siðblinda menn er eins að finna meðal trúaðra og guðlausra. Allt mannlegt eðli hneigist til sjálfshyggju og eigingirni.“ í pistlinum „Krossinn — páskarnir“ sem fluttur var í Dómkirkjunni þann 23. mars 2008. Heimild: Wikitilvitnun;
  • Sr. Ólafur Þ. Hallgrímsson: „Kæra Siðmenntarfólk, þetta er ekki siðmennt, heldur einhvers konar siðblinda. Af henni höfum við nóg. Þjóðin þarf í sameiningu að finna veginn út úr ógöngunum, þrönga veginn, veginn til lífsins, veg Jesú Krists, sem sjálfur er »vegurinn, sannleikurinn og lífið«. (Jóh. 14).“ Sr. Ólafur vísar til þess að Siðmennt sé andsnúin kristinfræðikennslu í skólum. Heimild: Pistill Ólafs birtur á síðu Vantrúar;
  • Sr. Birgir Ásgeirsson í „Blindu“, prédikun flutt 14. október 2007: „Einhver versta blinda sem til er, er siðblinda. Það er sú blinda, sem leiðir maninn frá því, sem er honum helgast af hjarta og hann getur tileinkað sér að grundvallaratriði, þ.e. það sem varðar tilvist hans, sannfæringu, heill og hamingju hvað mest.“ Heimild: Prédikun Birgis birtist á Trúin og lífið
  • Sr. Gunnþór Þ. Ingason í „Dýrkun Guðs á Dagverðarnesi“, prédikun flutt 15. ágúst 2010: „Hroki, sjálfumgleði og siðblinda í fjármálaumsýslu leiddu til efnahagshruns í íslensku samfélagi. Auðmýkt, sem sýnir sig í gagnrýnu og heiðarlegu endurmati og iðrun, er leið til endurreisnar og nýrra hátta svo framarlega sem hún gerist farvegur Guðs anda, líknar hans og lausnar fyrir einlæga bæn og lifandi trú í Jesú nafni.“ Heimild: Prédikun Gunnþórs birtist á Trúin og lífið.

Af þessum tilvitnunum má ráða að hr. Karl er hinn eini sem hugsanlega skilur hugtakið siðblinda. Hann er þó ansi svartsýnn þegar hann heldur því fram að allt mannlegt eðli hneigist til sterkustu kjarnaeinkenna siðblindu. Sr. Ólafur fer greinilega mjög villur vega í skilningi sínum á þessari geðröskun og efast má um að sr. Birgir og sr. Gunnþór skilji um hvað þeir eru að tala, Gunnþór slær að vísu fram klisjunni „siðblinda í fjármálaumsýslu“ en lækninginn sem hann boðar bendir til að hann skilji hana ekki. Reyndar virðast allir þrír prestarnir halda að lækning við siðblindu sé fólgin í betri og meiri kristnun þjóðarinnar. Ég held að engir geðlæknar og sálfræðingar séu sammála þessu einfeldningslega viðhorfi til lækningar siðblindu.]

Siðblindur presturÁ hinn bóginn hefur ekki skort á deilur og úlfúð innan Þjóðkirkjunnar undanfarinn einn og hálfan áratug miðað við fregnir í fjölmiðlum, ekkert síður en í Kaupmannahöfn upp úr aldamótunum. Ég nefni nokkur dæmi – og tek það skýrt fram að ég er ekki að gera því skóna að neinir sem málin varða séu siðblindir, þetta eru einungis dæmi um deilur, uppsagnir og ásakanir um einelti. Þau eru öll studd fréttum í fjölmiðlum en ég kýs að tengja ekki í heimildir að sinni enda kannast flestir lesendur sjálfsagt við mörg þessara mála. 

Í a.m.k. þremur tilvikum hefur organista verið sagt upp störfum, ýmist vegna óánægju prests/ presta eða sóknarnefnda. Stundum hafa sóknarnefndir fylkt sér bak við organistann og gegn prestinum, stundum hefur sóknarnefnd stutt prestinn. Prestur og djákni hafa lent í útistöðum og sóknarnefnd klofnað. Prestar hafa oft lent í útistöðum við söfnuði. Prestar hafa deilt um hver ráði einstökum kirkjum. Prestur ásakaði sóknarbörn sín um að kenna börnum sínum að leggja sig í einelti. Tiltölulega nýlega ásakaði prestur fjölmiðla landsins um að leggja alla Þjóðkirkjuna í einelti … o.s.fr. Og nú er loksins verið að rannsaka ásakanir og kærur um kynferðislegt ofeldi og kynferðislega misbeitingu fyrrverandi biskups, mál sem ráðamenn í Þjóðkirkjunni hafa gert sitt besta til að stinga undir stól allt þar til í fyrra.

Þjóðkirkjan er auðvitað í vissri klemmu þegar svona mál koma upp. Það er ekki hlaupið að því að segja upp ríkisstarfsmönnum.19  Aftur á móti virðist hún hafa verið treg til að grípa til þeirra ráða sem hún þó hafði / hefur, s.s. formlegra áminninga, sem eru undanfari uppsagnar. Helsta ráð Þjóðkirkjunnar virðist hafa verið að taka einstaka presta úr umferð með því t.d. að fá þeim annað embætti eða bara annað brauð.

Þjóðkirkjan hefur þó nýverið reynt að stemma stigu við því að hver sem er geti ráðið sig sem prestur í sókn. Að loknu Kirkjuþingi síðasta var starfsreglum sóknarnefnda og presta breytt og gert óheimilt að ráða einstakling til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri hafi menn hlotið refsidóm vegna brota á barnaverndarlögum, kynferðisbrot eða önnur ofbeldisverk. Augljóst er að prestar komast ekki hjá því að sinna aldurshópnum undir 18 ára aldri, t.d. í fermingarfræðslu, svo í raun takmarkar þessi breyting ráðningu hvers sem er í prestsstarf. Aftur á móti undanskilur kirkjan dóm skv. 217. gr. almennra hegningarlaga; þar er fjallað um „minni háttar“ ofbeldi þar sem dæma má í sekt eða 6 mánaða til eins árs fangelsi. Þetta er afar einkennilegt, finnst mér, því ef kenningar þeirra norrænu rithöfunda sem ég hef rakið hér að ofan standast þá hefur Þjóðkirkjan skilið eftir víðan möskva fyrir þá hugsanlegu siðblindu sem sækjast eftir störfum innan hennar, t.d. preststarfi.20
 
 

Niðurstaða mín er að það sé  undarlegt hve íslenska Þjóðkirkjan hefur látið umræðu um siðblindu meðal kirkjunnar þjóna og hrikalegar afleiðingar hennar algerlega fram hjá sér fara;  Ekki hvað síst í ljósi þess hve mikil umræða hefur verið á Norðurlöndunum og að þar hafi verið gefnar út 3 bækur um efnið, s.s. rakið hefur verið, þar sem höfundar eru allir sammála um að kirkjan höfði sérstaklega til siðblindra. Það er ósennilegt að eitthvað annað eigi við Ísland.
 
 


1 Tilvitnun í Irene Rønn Lind í Friborg, Kira: „Magtmennesket i kirken. (Den pæne psykopat)“ í Kritisk.dk Evangelist set med kritiske øje. Útg. ár vantar en skv. textanum er hann skrifaður 2007. Skoðað 27. janúar 2011.         2 Løvås, Edin. 1999.  Formáli að Den farliga maktmänniskan (sænskri þýðingu á bókinni hans) á Sola Scriptura. Fyrstu 19 kaflana (af 23) má lesa á þessum vef; kaflar 1-10 og 11-19. Stytt endursögn af sænsku þýðingunni er á blogginu Tankar kring Livet. Funderingar kring livet i stort…, færslan er frá 11. nóv. 2007.  Góð endursögn (á norsku) á helstu kenningum Løvås, settum í samhengi við fleiri kenningar um óhæfa valdsmenn innan kirkjunnar, er í pistli Gunnars Elstad, óársettum, Vanskelige medarbeidere.  Skoðað 27. janúar 2011.  

3 Løvås, Edin. 1999. 1.kafli.

4 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 202-203. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

5 Løvås, Edin. 1999. 15. kafli.

6 Tilvitnanir í Edin Løvås og endursögn á texta hans í Elstad, Gunnar. Án ártals. Vanskelige medarbeidere, s. 3

7 Løvås, Edin. 1999. 7. kafli

8 Tilvitnanir í Eden Løvås og endursögn á texta hans í  Elstad, Gunnar. Án ártals. Vanskelige medarbeidere, s. 3

9  Fernström, Kristina. 2005. Viðtal við Raimo Mäkelä. „Psykopaterna finns mitt i bland oss. Fly för livet“ í  Kyrkpressen, fimmtudaginn 10. 2. 2005, nr. 6, s. 16-17. Fontana Media, Församlingsförbundet, Finnlandi. Sjá má ritdóm um dönsku þýðinguna: Dalsgaard, Lone. 2004.  „Magtmisbrug i menigheden“ á Udfordringen.dk, 25. 3. 2004. Skoðað 27. janúar 2011.

10 Thuesen, Janni. 2007. Viðtal við Irene Rønn Lind. „Kirkens pæne psykopater“, Kristendom.dk, 7. maí 2007. Skoðað 27. janúar 2011.

11 Tilvitnun í Irene Rønn Lind í Larsen, Ole. „Psykolog: Pæne psykopater stortrives i kristne miljøer“ á Domino Kristent livsstils magazine, 5. febrúar 2010 (sænsk þýðing á sömu grein er hér). Skoðað 27. janúar 2011. Ath. að Hare, Robert og Paul Babiak greindu 3,5% af yfirmönnum stórfyrirtækja siðblinda [talið er að 1% manna séu siðblind] og nota niðurstöðurnar sem rök fyrir því að siðblindir sækist mjög eftir stjórnunarstöðum í viðskiptafyrirtækjum og víðar. Sjá Hare og Babiak. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York, s. 193. (Bókin kom fyrst út 2006.) Svo virðist sem Danir noti annað viðmið og greini miklu stærra hlutfall fólks siðblint. Það gæti stafað af því að á Norðurlöndunum þarf lægra skor á siðblindugátlista Hare (PCL-R) til að uppfylla siðblindu en líklegri skýring er að Danir telji ýmis önnur einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar til siðblindu.   

12 Thuesen, Janni. 2007.  „Kirken tiltrækker pæne psykopater“, Kristendom.dk, 7. maí 2007. Skoðað 27. janúar 2011.

13 Friborg, Kira. 2007.  „Magtmennesket i kirken. (Den pæne psykopat)“ á Kritisk.dk. Evangelist set med kritiske øjne. Skoðað 27. janúar 2011.

Ef menn vilja lesa meira um kenningar Irene Rønn Lind má benda á grein Dorte Toudal Viftrup, sálfræðings sem situr í sóknarnefnd í Hvítasunnusöfnuðinum danska, „Psykopater på kirkens talerstol…“ á Baptistkirken.dk, 4. maí 2008. Skoðað 27. janúar 2011.

14 Lind, Irene Rønn. 2007. Inngangur að Forklædt. Pæne psykopater og deres ofre, s. 13-14. Credo Forlag, Kaupmannahöfn. Skoðað 29. janúar 2011.

15 Leiðarinn og greinarnar í Kristeligt dagblad  4. apríl 2001 eru: „Krig i kirken“, „Københavnske kirker meldt for mobning“ eftir Bente Clausen og „Stefanskirken – intrigernes holdeplads“ eftir sama höfund. Skoðað 29. janúar 2011.

16 Clausen, Bente. „Organist betales for at holde sig væk“  í Kristeligt dagblad 23. júní 2006. Skoðað 29. janúar 2011.

17 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 200-202. Þessi frásögn í  Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden byggir á raunverulegu máli innan norsku kirkjunnar. Sjá má dómsorð í málinu, AD 1995 nr 40, á Lagen.nu. Í raunveruleikanum var organistanum sagt upp en hún vann málið og henni voru dæmdar skaðabætur. Skoðað 29. janúar 2011.

18 Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna. 2003, s. 41. Þjóðkirkjan/Skálholtsútgáfan og Lútherska heimssambandið. Um skýrsluna segir hr. Karl Sigurbjörnsson í formála, s. 5,  að hún sé „staðfærð og gefin út sem verkfæri fyrir presta og djákna og söfnuði íslensku kirkjunnar til að auka skilning á því alvarlega vandamáli sem ofbeldi gegn konum er og til að styrkja kirkjuna í því  að mótmæla því og vinna að upprætingu þess.“ Tilvitnunin í færslunni er tekin úr Viðauka: „II. Aðstoð við fólk sem liðsinnir þolendum ofbeldis. B. Að bera kennsl á menn sem berja.“ Lýsingin sem fylgir er einungis á karlmönnum í seinni flokknum. Aftur á móti eru talin þar upp hegðunareinkenni sem eiga vel við siðblinda en þau eru skýrð með lélegri sjálfsmynd.

Í þessu sambandi má nefna að sárasjaldgæft er að konur sem eru beittar ofbeldi leiti til kirkjunnar. Í niðurstöðum könnunar sem kynntar voru  í síðustu viku og var gerð árið 2008 kom í ljós að einungis 8 af 638 aðstoðarbeiðnum kvenna sem voru beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka  (eða 2,1% svara) var til prests eða starfsmanns trúfélags. Ef konur höfðu verið beittar ofbeldi af öðrum og beðið um hjálp reyndust 3 af 965 hjálparbeiðnum (0,5%) vera til prests eða starfsmanns trúfélags.  (Sjá Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds. Rannsókn á ofbeldi gegn konum. Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi. Desember 2010, s. 69. Rannsóknastofnun í barna-og fjölskylduvernd og Félags- og tryggingamálaráðuneytið.) 12 árum áður var algengara að konur sem voru beittar heimilisofbeldi leituðu til prests, skv. Skýrslu dómsmálaráðherra um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. (Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97). Dóms-og kirkjumálaráðuneytið, febrúar 1997, s. 34. Í símakönnun vorið 1996, sem skýrslan segir frá, sögðust 20,5% kvenna sem höfðu verið beittar heimilisofbeldi hafa leitað til prests. Einungis rúmur helmingur þeirra var ánægður með þá aðstoð sem þær fengu (56,5%). Það er eflaust umhugsunarefni fyrir Þjóðkirkjuna af hverju traust kvenna, sem búa við ofbeldi, til presta hafi minnkað svo mjög á þessum 12 árum sem liðu milli kannananna.

Skýrslurnar voru skoðaðar á vefnum 29. janúar 2011.
 

19 Sjá t.d. „Prestar nær ósnertanlegir vegna æviráðningar. Ónothæfir prestar fylla fjölbýlishús – ef svo heldur fram sem horfir“ á  DV 23. mars 2000, s. 4  og „Telur of erfitt að segja upp ríkisstarfsmönnum“ í Fréttablaðinu 20. jan. 2011, visir.is. Skoðað 29. janúar 2011.

20 Starfsreglur um breytingu á starfsreglum um sóknarnefndir nr. 732/1998 og starfsreglum um presta nr. 735/1998. Kirkjuþing, kirkjan.is. Guðmundur Þór Guðmundsson setti inn 19.11. 2010 og Almenn hegningarlög 1940 nr. 19 í  Lagasafn. Íslensk lög, 1. október 2010. Hvort tveggja skoðað 29. janúar 2011.
 
 
 
 

Spjall

History of HandknittingÉg er ekki nógu dugleg að skrifa færslur um dittinn og dattinn þessa dagana … eiginlega hefur Facebook mikið til tekið við í svoleiðis tjáningu. En af því einhverjir karlkyns eru óhressir með siðblindubirtingarbloggfærslurnar (nefni engin nöfn en get upplýst að einn sagði við mig í gær: Af hverju geturðu ekki átt skárri áhugamál, safnað frímerkjum eða eitthvað eins og aðrir gera?) þá er vert að skella inn einni spjallfærslu. Þótt ekki sé nema til að fullvissa mína góðu karla að ég bardúsa ýmislegt annað.

Ég hef t.d. verið ansi dugleg að safna heimildum um prjónles og sögu þess undanfarið. Hef æxlað mér grundvallarritið, History of Handknitting, eftir enska sérann Richard Rutt, þefað uppi og ljósritað slatta af greinum og hlaðið niður slatta af prjónabókum. Er einmitt komin með flestar gagnrýnisgreinar Irene Turnau (hún gagnrýnir Rutt og hefur rannsakað prjónasögu Evrópu gaumgæfilega). En mér finnst ég ekki orðin nógu frísk ennþá til að fara að fjalla um svo merkilegt og flókið efni sem saga prjóns er. Það verður að bíða um stund.

L�ður yfir viktor�anska meySvo hefur svefninn nýlega lagast. Um áramót hafði ég sofið 3 heilar nætur frá því einhvern tíma í nóvember. Var satt best að segja orðin eins og undin tuska enda gat ég mjög takmarkað sofið á daginn og fimm tíma svefn á sólarhring vikum saman gerir konu bæði ljóta – las þetta í blaði – og framtakslausa. Eiginlega líður manni alla daga eins og maður sé grúttimbraður, sem er ekki líðan að mínu skapi.  (Svefnleysið er aukaverkun af þunglyndislyfinu svo ég átti um tvo kosti að velja og báða illa, alveg eins og karlarnir í Íslendingasögunum.) En um miðjan janúar hitti ég minn góða lækni og honum hafði þá dottið í hug enn eitt ráðið / lyfið, sem merkilegt nokk virkaði! Sef nánast allar nætur. Svoleiðis að nú vinn ég í að henda út svefnlyfi og róandi lyfi og halda mig við þetta ágæta geðklofalyf – sem ég hef nú einu sinni tekið að staðaldri gegn þunglyndi og það virkaði ekki baun í þeim tilgangi. Ókosturinn er sá að lyfið lækkar blóðþrýsting og þegar það bætist ofan á lækkunina sem þunglyndislyfið veldur og að frá náttúrunnar hendi er ég með afar lágan blóðþrýsting þá verð ég auðvitað eins og mær á Viktoríutímunum; sundlar og sé svart ef ég stend snöggt upp en hef ekki lagt í yfirlið enda enginn með axlaskúfa hér heima dagslaglega og við eigum auk þess ekki ilmsölt á þessu heimili.

Upp úr áramótum varð ég læs og hef síðan gaddað í mig reyfara af stakri ánægju. (Og mér til yndisauka var einn siðblindur í bók Yrsu og einn siðblindur í Snjóbirtu Ragnars Jónssonar, sem ég kláraði í gærkvöldi.) Uhmmm … það er svo gaman að lesa um morðin!   Eitthvað kíki ég í annars konar bækur, ætla t.d. að byrja á Hreinsun í kvöld. Hef borið það við að spila á mitt pjanoforte og alls ekki gengið neitt illa, virðist þokkalega spilahæf. Aftur á móti held ég að ég hafi prjónað yfir mig þessar vikur sem ég gat fátt annað og nenni því lítið að grípa í hannyrðir akkúrat núna. Svo hef ég að mestu tekið yfir þrif og þvotta á heimilinu – í FB-umræðu nýverið var niðurstaðan sú að slík iðja gæfi innhverfri íhugun ekkert eftir, a.m.k. væri afar gott að hugleiða á meðan.

Það sem ég klikka helst á er að fara út að labba og koma mér upp einhverju sósíal samvær. Hef samt ekki vott af samviskubiti þess vegna, með hægðinni hefst þetta. Ég ætti að kíkja á kaffihús með vinkonu minni, mæta á fundi í ónefnda félaginu, taka jafnvel þátt í prjónaklúbbi … ganga jafnvel í kór … en hef ekki treyst mér í svoleiðis ennþá.

Yngri sonurinn á tvítugsafmæli í dag, von er á gestum og svo hafði ég hugsað mér að fara á tónleika í eftirmiddaginn. Þetta verður góður dagur.  

Siðblindir á vinnustað

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.)

   

Siðblinda á vinnustöðum

Einelti á vinnustaðSiðblindir finnast á flestum vinnustöðum og er afar líklegt að maður rekist einhvern tíma á einn slíkan, annað hvort samverkamann eða stjórnanda. Robert D. Hare telur að þeir sækist einkum eftir vinnu í viðskiptum, stjórnmálum, löggæslu, lögfræðistofum, trúarlegum stofnunum og fjölmiðlum: „Þeir hafa rándýrseðli og bráðina er einkum að finna í ákveðnu umhverfi“. John Clarke bætir við að siðblindir gætu vel þrifist í kennslu.1

Þótt siðblindir kunni að sækjast sérstaklega eftir störfum þar sem þeim gefst kostur á að komast til metorða er þá líka að finna í „rútínu“störfum og störfum sem krefjast menntunar og reynslu. En vafasamt er að þeir uppfylli skilyrði til starfans, frammistaðan byggist á að þjóna undir sjálfan sig, hvorki sé hægt að reiða sig á þá né treysta þeim og þeir gætu stundað ólöglegt athæfi.2

Ef marka má fjölda rannsókna og bóka, hefur áhugi manna mjög beinst að siðblindum í viðskiptalífinu, sérstaklega siðblindum stjórnendum. Stór fyrirtæki eru einkar heppileg fyrir siðblindan persónuleika sem hefur félagslega færni til að blekkja þorra fólks. Siðblindir sækjast eftir störfum þar sem mikið er umleikis, stöðum, störfum og stofnunum sem bjóða upp á völd, mannaforráð, virðingarstöður og eignir auk persónulegra kynna sem þeir geta grætt á.3

Ég hef hins vegar meiri áhuga á siðblindum samstarfsmönnum og siðblindum innan stofnana sem snerta fjölda fólks, jafnvel þorra fólks. Þessi færsla og þær næstu bera þeim áhuga vitni.Vegna þess að siðblindum er nákvæmlega sama um tilfinningar annarra og þá skortir algerlega samvisku þá kemur hegðun þeirra oft fram í einelti. Því fjallar þessi færsla talsvert um einelti þótt auðvitað sé langt í frá að allir gerendur eineltis séu siðblindir.
 

Hvernig þekkir maður siðblinda samstarfsfélaga?

Robert D. Hare hefur marghamrað á því, í bókum og greinum, að það sé öllum nauðsynlegt að þekkja siðblindu svo menn geti varað sig á siðblindum einstaklingum. Þetta á einnig við um siðblindu á vinnustað. En mönnum er jafnframt tekinn vari fyrir að bera siðblindu beinlínis upp á nokkurn mann. Í sama streng taka flestir sem skrifa um siðblindu, þ.e.a.s. að nauðsynlegt sé að sem flestir þekki einkenni hennar en varað er við að stimpla aðra opinberlega sem siðblinda. Þó sjást þau viðhorf að það sé einfaldlega ljótt að greina vinnufélaga sinn siðblindan og megi því ekki ræða slíkt. Rökin eru aðallega þau að siðblinda sé ekki skilgreind í DSM-IV (Greiningar- og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma, sem Amerísku geðlæknasamtökin gefa út), að um mistúlkun gæti verið að ræða og að í orðinu „siðblindur“ felist ákveðið brennimark sem erfitt sé að losna við.4  Á móti kemur að svo virðist sem leikmenn séu ekkert alltof vel að sér um siðblindu; samkvæmt breskri rannsókn gátu einungis tæp 40% almennings greint siðblindan einstakling af stuttri persónulýsingu og einfaldri atburðarás. (Til samanburðar má nefna að rúm 97% sama hóps greindi rétt þunglyndi og 61% geðklofa eftir sams konar lýsingum).5

Munurinn á siðblindum og venjulegu fólki felst ekki hvað síst í  hneigð siðblindra til að notfæra sér fólk á ósanngjarnan og miskunnarlausan máta. Siðblindum er einfaldlega alveg sama þótt orð þeirra og gerðir særi fólk svo lengi sem þeir ná því fram sem þeir vilja og þeir eru mjög leiknir í að fela þessa staðreynd. Af því þeir eru svo flinkir í að stjórna og hagræða hlutunum er ekki furða þótt afar erfitt sé að koma auga á hinn siðblinda persónuleika undir heillandi og aðlaðandi yfirborðinu.

Einelti á vinnustaðEn þetta liggur ekki jafn vel fyrir öllum siðblindum.  Sumir hafa ekki nægilega félags- eða samskiptahæfileika til að umgangast aðra hnökralaust. Þess í stað reiða þeir sig á hótanir, þvingun, ógnun og ofbeldi til að drottna yfir öðrum og ná fram því sem þeir ásælast. Fáum dylst að slíkur einstaklingur er árásargjarn og frekar kvikindislegur.  Það er borin von að hann heilli fórnarlömbin til undanláts svo hann treystir á einelti í staðinn.6  Siðblindur af þessu taginu er harðbrjósta í garð annarra, leitar markvisst að tækifærum til að taka þátt í deilum og er oftast upp á kant við aðra. Hann lætur sig réttindi og tilfinningar annarra engu skipta og brýtur oft óskráðar reglur um félagslega hegðun. Ef hann nær ekki sínu fram gerist hann hefnigjarn, bruggar öðrum launráð og notar hvert tækifæri til að ná sér niðri á þeim. Oft ræðst hann harkalega á einstaklinga sem eru fremur lítils megnandi.7
 

Nokkur einkenni siðblindra á vinnustað og víðar

  • Þeir sveiflast milli þess að vera afar aðlaðandi, glaðir og kátir og síspjallandi til þess umhverfast í einræðisherra.  Svoleiðis gerræði kemur flestu venjulegu fólki til að líta í eigin barm. Flestir vita að það þarf tvo til að úr verði ósætti en sú staðreynd á ekki við þegar við siðblindan er að etja enda er hvort tveggja, töfrarnir og yfirgangurinn, meðvituð hegðun hins siðblinda.
  • Þeir auðmýkja og niðurlægja aðra kerfisbundið til að drepa niður sjálfsöryggi þeirra og tekst oft vel upp. Á vinnustað þekkja stjórnendur oft aðeins hina heillandi hlið siðblindingjans meðan samstarfsmenn kynnast gjarna stjórnsemi hans og yfirgangi. Kvarti samstarfsmenn fá þeir gjarna stimpilinn væluskjóður eða klöguskjóður.
  • Þeir koma ævinlega deilum af stað og þeir eru sérfræðingar í að leggja aðra í einelti eða standa fyrir flokkadráttum. Þeir skipta gjarna fólki í þá sem þeim líkar við og þá sem þeir hafa andúð á en sú skipting er handahófskennd eftir því hvernig liggur á þeim siðblinda þann daginn.
  • Þeir vilja ákveða og ná fram vilja sínum og þeir ljúga og snúa málum til að þetta gangi eftir. Skapsmunir og viðbrögð þeirra eru óútreiknanleg og oft yfirgengileg. Þeir hrópa, hóta og gætu gripið til líkamlegs ofbeldis. Viðbrögðin eru gjarna ósanngjörn og líkjast barnalegri þrjósku. Eftir reiðikast, sem oft virðist út í bláinn, halda þeir sínu striki  eins og ekkert hafi í skorist.
  • Þeir eru ákaflega viðkvæmir fyrir gagnrýni og viðurkenna aldrei eigin mistök af þeirri einföldu ástæðu að þeir telja sig aldrei gera mistök. Þeir eru snillingar í að kenna öðrum um, jafnvel þótt slíkt hljómi órökrétt og sé algerlega út í hött. Þeir krefjast þess að aðrir samþykki þá eins og þeir eru, finnst það reyndar sjálfsagt, og telja að aðrir þurfi að laga sig að þeim. Þetta einkenni kemur í veg fyrir hvers konar lækningu á siðblindu því það er alveg sama hversu mörg dæmi eða rök borin eru á borð; aldrei mun siðblindur fást til að fallast á að hann sé ábyrgur eigin gerða. Siðblindur lærir ekki af eigin mistökum því hann telur að hann sé gallalaus og hann spáir sjaldan í hvort hann sé að breyta rétt eða rangt. Þetta viðhorf gegnsýrir oft vinnuumhverfið.
  • Þeir eru mjög stjórnsamir og gagnrýnir (en þola sjálfir ekki reglur, skuldbindingar eða stefnumótun) og eru sjaldan ánægðir með annarra verk. Gagnrýni þeirra er oft alls ekki byggð á rökum. Þeir eru tortryggnir í garð annarra og yfirleitt líkar þeim við afar fáa, ef nokkurn. Í fjölskyldum banna þeir gjarna umræðu um hvers lags vandamál. Í atvinnulífinu túlka þeir umræðu um vandamál sem vantraustsyfirlýsingu.
  • Þeir lifa lífi sínu án þess að hugsa um óskir eða þarfir annarra, af þeirri einföldu ástæðu að þá skortir hæfileikann til að finna sektarkennd, reiði eða samúð. Þá skortir nefnilega algerlega hæfileikann til samlíðunar með öðrum. Þeim er alveg sama þótt öðrum líði illa. Skyldur og ábyrgð eru þeim merkingarlaus.
  • Þeir GETA verið elskulegir og sýnt umhyggju en einungis þegar þeir sjálfir vilja ná einhverju fram. Venjulega er stór munur á því sem hinn siðblindi segir og því sem hann svo gerir. Þá vantar tilfinningadýpt en geta tjáð tilfinningar í innantómum orðum.
  • Þeir eru oft órólegir, hvatvísir, pirraðir, reiðir, gera algerlega ósanngjarnar kröfur og grípa jafnvel til ofbeldis. Sumir læra með tímanum að stilla sig um ofbeldi en því er þó aldrei treystandi.
  • Þeir upplifa tilfinningar oft sem veikleika. Tengsl þeirra við aðra byggja á gerðum en ekki tilfinningum. Þeir eru oft niðurlægjandi og montnir í samskiptum við aðra, sérstaklega þá sem þeir telja sér óæðri. Siðblindir eru gjarna ofurviðkvæmir fyrir gagnrýni, öfundsjúkir og hallir undir vald. Þess vegna skrúfa þeir upp sjarmann þegar þeir umgangast fólk sem þeir telja sér æðra.
  • Þeir ljúga og svíkja og sama hversu margar sannanir þú hefur þá ýmist gera þeir lítið úr þeim, neita þeim eða kenna öðrum um. En þú uppgötvar þetta ekki fyrr en þú kynnist siðblindingjanum nánar. Í upphafi treystirðu honum örugglega, ert heilluð / heillaður af honum og finnst hann mjög skilningsríkur.8
     
     

Einelti

Einelti er stórt vandamál á mörgum vinnustöðum. Þar eru siðblindir mjög virkir gerendur. Skv. rannsókn Ástralans Clive Buddy eru áhrif siðblindra í einelti margföld miðað við fjölda þeirra. Hann segir: „Þar sem siðblindir eru á vinnustað er einelti marktækt algengara en ella. Einnig er yfirmaðurinn talinn óréttlátur við starfsmenn og áhugalaus um tilfinningar þeirra. [Þetta er án tillits til þess hvort yfirmaðurinn er siðblindur eða ekki.] Niðurstaðan er sú að 1% starfsmanna, þ.e. þeir sem eru siðblindir, standa fyrir 26% af einelti á vinnustað.“ Hann kallar þessa siðblindu starfsmenn „corporate psychopaths“ enda var hann að rannsaka starfsmenn í fyrirtækjum. Til að teljast siðblindur þurfti að skora 75% eða hærra á siðblindukvarða Hare (PCL-R).9
 

Til eru margar skilgreiningar á einelti. Sjá má tvær slíkar hér:

Á Íslandi er einelti á vinnustað skilgreint þannig:
 
Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi né endurtekinn kerfisbundið. [Var upphaflega: leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.]10
Eftirfarandi skilgreining á einelti virðist vera notuð nokkuð víða í Evrópu: Einelti í vinnu er þegar einhver er áreittur, móðgaður, útlokaður félagslega eða þegar reynt er að hafa neikvæð áhrif á vinnu einhvers. Ef á að kalla ákveðna hegðun eða ferli „einelti“ þá þarf það að vera síendurtekið og stöðugt (t.d. vikulega) og vara í ákveðinn tíma (t.d. í sex mánuði).Einelti er stigmagnandi ferli þar sem sá sem fyrir verður lendir í lakari stöðu og verður skotspónn kerfisbundinnar, neikvæðrar félagslegrar hegðunar annarra. Ekki er hægt að kalla það einelti ef upp kemur „ágreiningur milli tveggja aðila“ ef tilvikið er einstök uppákoma og ekki er um valdaójafnvægi að ræða.11 

Einnig er til fjöldi lista yfir hvers konar athæfi gerendur eineltis beita. Hér eru 2 dæmi um svoleiðis lista, sem eiga jafnt við einelti af hálfu stjórnanda sem einelti af hálfu samstarfsmanns.

Birtingarmyndum sem þolendur eineltis merktu við, í könnun á einelti meðal ríkisstarfsmanna, er hér snúið upp á gerendur:
 

  • Að hunsa faglegt álit og sjónarmið
  •  Að úthluta verkefnum sem eru ekki samboðin hæfni
  • Að liggja á upplýsingum sem hafa áhrif á mat
  • Að gagnrýna vinnu starfsmanns óhóflega
  • Að úthluta verkefnum með óraunhæfum markmiðum
  • Að fylgjast óeðlilega mikið með störfum starfsmanns
  • Að gera lítið úr eða hæðast að persónu einhvers
  • Að koma af stað slúðri / orðrómi um einhvern
  • Að sjá til þess að einhver er félaglega sniðgenginn
  • Að standa fyrir hrekkjum, óeðlilega mikilli stríðni eða hæðni í garð einhvers
  • Að hóta líkamlegu ofbeldi eða valdbeitingu
  • Að beita einhvern líkamlegu ofbeldi 12
     
     
     
     
     

Einelti á vinnustað
 

Rayner og Höel (1997) hafa skilgreint vinnustaðareinelti með eftirfarandi hætti:Ógnun sem beinist gegn faglegri hæfni. Athugasemdir sem endurspegla lítilsvirðingu; ásakanir um vanhæfni í starfi, gera lítið úr frammistöðu; auðmýkja og þá sérstaklega fyrir framan aðra.Ógnun sem beinist að persónu einstaklingsins. Uppnefna, móðga, ráðast að þolanda með hrópum og öskrum; kúga til undirgefni; Kynferðislegt áreiti og líkamlegt ofbeldi; nota niðrandi orð um aldur, útlit, klæðaburð og hátterni; breiða út illgirnislegar lygar/kjaftasögur um þolanda og jafnvel að hringja heim til hans/hennar í tíma og ótíma.Einangra og útiloka. Tilburðir í þá átt að hindra og standa í vegi fyrir að þolandi fái notið réttmætra tækifæra (sem öllum eru ætluð), stuðla að líkamlegri og/eða félagslegri einangrun; hamla upplýsingastreymi til þolanda, o.s.frv.Óhóflegt vinnuálag. Markvisst unnið að því að íþyngja með vinnu og stuðla þannig að álagi og streitu; t.d. með því að leggja fyrir verkefni sem verður að klára á styttri tíma en mögulegt er og/eða „drekkja“ í verkefnum; trufla þolanda og skaprauna þegar síst varir og illa stendur á; gera óraunhæfar, vitlausar og tilviljunarkenndar kröfur um frammistöðu, o.s.frv.

Taka fólk á taugum. Stara á þolandann með ógnvekjandi svip og taka í gegn með látum ef verður á mistök; þrúgandi þögn; auðsýna tómlæti og fyrirlitningu; klifa stöðugt á mistökum/yfirsjónum; æpa ásakanir fyrir framan aðra; stuðla með ásetningi að óförum og/eða mistökum.13
 

Tíðni eineltis á vinnustað og þolendur eineltis

Íslenskar rannsóknir sýna yfirleitt fram á að 8 – 10 % starfsmanna á vinnustað hafi orðið fyrir einelti skv. íslensku skilgreiningunni.14  Skv. þeim virðist lítill sem enginn munur á hlutfalli kvenna og karla sem verða fyrir einelti. Niðurstöður fjölmennustu rannsóknarinnar voru t.d. að rúmlega 10% ríkisstarfsmanna telja sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum en ekki mældist marktækur munur milli kynja.  Aftur móti verða konur verða meira fyrir barðinu á einum geranda en karlar mörgum.15  Könnun sem mældi einelti meðal fólks á mörgum fjölbreyttum vinnustöðum sýndi að tæplega 11% töldu sig hafa orðið fyrir einelti á sl. ári, allt frá einu sinni í mánuði til nokkrum sinnum í viku en ekki mældist munur eftir kynjum.16

Í afar fjölmennri og víðtækri norskri rannsókn, 1996, var enginn munur á því hvort karlar eða konur urðu fyrir einelti. Sama kom fram í sænskri rannsókn 1996.17

Tíðni eineltis á vinnustað mælist fremur lág á Norðurlöndunum miðað við t.d. Bretland, svo ekki sé minnst á Ameríku og einelti virðist stórkostlegt vandamál í Ástralíu.

Einelti getur brotið fólk niður bæði á sál og líkama. Fórnarlömb eineltis bera oft merki áfallastreitu um langa hríð þótt þau yfirgefi vinnustaðinn. Efni færslunnar býður ekki upp á umfjöllun um þolendur. Hafi menn áhuga á slíku má benda á BS ritgerð Guðrúnar Maríu Þorsteinsdóttur, júní 2010, sem heitir Einelti á vinnustöðum: áhrif á líðan og heilsu og er aðgengileg á vefnum.
 

Gerendur eineltis

Einelti á vinnustaðÞað er dálítið undarlegt að í hinni stóru könnun fjármálaráðuneytisins, 2008, skuli ekki hafa verið skoðað kyn gerenda, a.m.k. eru hvergi birtar niðurstöður um slíkt. En í flestum tilfellum var gerandi samstarfsmaður (44% tilvika) en næsti yfirmaður í 31% tilfella.

Í könnun meðal starfsmanna í VR, 2001, kom fram að gerandinn var oftast samstarfsmaður, yfirmaður í nokkrum tilvikum og undirmaður í 3 tilvikum. Gerendur voru oftar karlmenn, 24 karlar á móti 18 konum, og gerendur voru oftast einir að verki. 7 karlmenn viðurkenndu að hafa lagt aðra í einelti.

Í  könnun meðal starfsmanna ríkisstofnana (tveggja ráðuneyta og einnar ótilgreindrar stofnunar), 2006,  kom fram að í flestum tilfellum er gerandi eineltis yfirmaður þess sem fyrir eineltinu verður eða annar stjórnandi. Þar mældist afar mikill munur milli stofnana og mætti kannski skrifa þann mun að miklu leyti á yfirmann / yfirmenn þeirra.

Í íslenskri rannsókn sem gerð var meðal starfmanna banka og sparisjóða, 2002, kom í ljós að 8% höfðu orðið fyrir einelti. Algengast var að bankaritarar hefðu verið beittir einelti (11,2%)  en sjaldgæfast að yfirmenn væru lagðir í einelti (3,8% þeirra). Yfir 80% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni voru konur og því enginn kynjamunur mældur í niðurstöðum.18

Í norskum og sænskum rannsóknum frá 1996 voru karlmenn oftar gerendur eineltis (49% tilvika), 30% fórnarlamba sögðu að konur hefðu lagt sig í einelti og 20% höfðu orðið fyrir barðinu á bæði konum og körlum. Auk þess kom fram að karlkyns þolendur eineltis höfðu oftast verið lagðir í einelti af körlum meðan konur voru lagðar í einelti af báðum kynjum, oftast þó af öðrum konum. Bent var á að kynjaskipt starfsumhverfi gæti þarna skipt máli.19
 

Gerendur eineltis eru flokkaðir á mismunandi máta og mismunandi nákvæmlega. Hér er tiltölulega einföld flokkun (bresk):

*Stjórnanda-einelti (Corporate bullying)[Ath. að „Corporate bully“ er alveg eins notað yfir starfsmann í fyrirtæki sem leggur samstarfsmenn sína í einelti] er þegar vinnuveitandi kemst upp með að misnota starfsmann af því hann veit að lagagreinar taka ekki á þessu og erfitt er að fá aðra vinnu, t.d.:
– neyðir starfsmanninn til að vinna 60/70/80 tíma á viku og gerir líf hans að helvíti ef hann mótmælir þessu;
– svíkur starfsmann um réttmæt frí eða veikindarétt
– njósnar um starfsmenn, t.d. hlustar á símtöl þeirra
– yfirheyrir starfsmenn um veikindi um leið og þeir snúa úr veikindaleyfi
– lítur á starfsmann sem þjáist af streitu vegna lélegs vinnuumhverfis og eineltis, sem aumingja
– „hvetur“ aðra starfsmenn til að ljúga upp á kollega sína
– „hvetur“ starfsmenn til að lækka starfshlutfall; hver sem andmælir fær aldeilis að finna til tevatnsins.

*Stofnanaeinelti (Institutional bullying) er sambærilegt stjórnandaeinelti og verður þegar einelti er orðið inngróið og samþykkt sem hluti vinnustaðarmenningar. Fólk er fært til í starfi, skammtímavinnusamningar koma í stað langtímavinnusamninga og því fylgir hótun um að „samþykkja þetta eða…“, vinnuálag er aukið, vinnuskipulagi breytt, hlutverkum á vinnustað er breytt o.s.fr. – allt án þess að stjórnandi ráðfæri sig við nokkurn mann.

*Kúnna-einelti (Client bullying) er þegar starfsmenn eru lagðir í einelti af þeim sem þeir þjóna. T.d. eru kennarar lagðir í einelti og á þá ráðist af nemendum og foreldrum þeirra, hjúkrunarkonur af sjúklingum og fjölskyldum þeirra, bankafólk, afgreiðslumenn, starfsmenn í byggingariðnaði o.fl. er lagður í einelti af viðskiptavinum. Oft krefst viðskiptavinurinn meints réttar síns (t.d. til betri þjónustu) á móðgandi eða niðurlægjandi hátt, jafnvel með líkamlegu ofbeldi. Kúnna-einelti getur líka falist í því að starfsmenn leggi viðskiptavini eða skjólstæðinga í einelti.

*Rað-einelti (Serial bullying) er þegar alla truflun á vinnustað má rekja til eins einstaklings, sem leggst á hvern starfsmanninn á fætur öðrum og gerir sitt besta til að tortíma þeim. Þetta er algengasta form eineltis; umfjöllun um einelti lýsir gjarna og skilgreinir rað-eineltisgeranda, sem sýnir dæmigerð einkenni um siðblinduhegðun. Flest fólk þekkir a.m.k. einn sem fellur undir lýsingu á rað-eineltara; flest fólk áttar sig ekki á að viðkomandi er siðblindur (socialized psychopath eða sociopath).

Einelti á vinnustað*Hópeinelti (Gang bullying) er raðeineltir ásamt vinnufélögum. Ef eineltirinn er úthverfur (extrovert) er hann líklegur til að leiða eineltið fyrir allra augum, t.d. gæti hann tekið til að hrópa og öskra. Ef eineltirinn er innhverfur (introvert) þá heldur hann sig til hlés, kyndir undir ólætin en tekur ekki virkan þátt sjálfur og er því erfiðara að bera kennsl á hann. Algeng aðferð slíkrar persónu er að segja öllum mismunandi sögu – venjulega um hvað aðrir hafa víst sagt um þá – og hvetja síðan hvern og einn til að trúa því að hann sé sá eini sem hermi satt og rétt frá. Innhverfir eineltarar eru hættulegastir. Helmingur fólksins í hópnum er fegið tækifærinu til að haga sér illa, völd og stjórn vekja því ánægju, því líkar að vera undir verndarvæng geranda eineltisins og hreppa hrós hans. Hinn helmingur hópsins er þvingaður til að taka þátt, venjulega af ótta við að verða ella næstu fórnarlömb. Ef eitthvað fer úrskeiðis verður einn af þessum sem voru þvingaðir útnefndur sökudólgur og varpað fyrir reið fórnarlömb eineltisins sem snúast til varnar. Rað-eineltarar hafa mikla unun af því að kynda undir ósætti og fylgjast með öðrum deila, sérstaklega þeim sem gætu annars dregið neikvæðar upplýsingar um rað-eineltarana fram í dagsljósið.

*Rafrænt einelti (Cyber bullying) er misnotkun á tölvupósti, spjallborðum á netinu eða fleiru til að senda illskeytapósta (flame mails). Rað-eineltarar (serial bullies) hafa fáa samskiptahæfileika, stundum enga og ópersónulegt eðli tölvupósta hentar vel til að hrinda af stað deilum.

   

Í umhverfi þar sem einelti er normið verða flestir á endanum annað hvort að gerendum eða fórnarlömbum. Það eru fáir sem standa hjá því flestir sogast inn í þetta fyrr eða síðar. Þetta snýst um að lifa af: Annað hvort verðurðu gerandi eineltis og kemst hjá því að verða fórnarlamb eða þú mótmælir eineltinu og neitar að taka þátt í því, sem mun leiða til þess að þú verður lögð / lagður í einelti, áreittur, trampað á þér og loks gerður að sökudólgi uns heilsa þín lætur undan og þú brotnar saman, kemst svo að því að þú verður óvænt látinn víkja vegna niðurskurðar eða þér er sagt upp að ósekju.20

Þetta síðasttalda í bresku greininni sem vitnað er í hljómar ansi napurt. En staðreyndin er sú að fórnarlömbum eineltis veitist erfitt að sækja rétt sinn. Í stóru könnuninni á einelti meðal  ríkisstarfsmanna kom t.d. fram að formlegum kvörtunum um einelti var ekki fylgt eftir með viðeigandi hætti í 76% tilvika.

Í leiðbeiningum Alþjóðasamtaka umboðsmanna (hugtakið „ombudsman“ hefur mismunandi merkingu eftir löndum en mætti segja að það samsvaraði oft því sem við köllum „umboðsmann Alþingis“ – sjá nánar Ombudsman á Wikipedia) er vakin sérstök athygli á því að venjulegar aðgerðir og verklagsreglur í eineltismálum henti ekki ef gerandi er siðblindur.21 Robert Hare bendir á að siðblindum takist oft vel að tala sig út úr vandræðum. Þeir segi t.d. „Ég hef lært mína lexíu“; „Þú hefur orð mitt fyrir því að þetta gerist ekki aftur“; „Þetta var bara einn stór misskilningur“; „Treystu mér“. 22 Það má því ætla að þegar siðblindur leggur samstarfsmann sinn eða undirmann í einelti endi slíkt með því að starfsmaðurinn hætti eða sé látinn hætta en eineltarinn haldi stöðunni. Siðblindum tekst nefnilega oft að gera aðra að sökudólgum og snúa málunum sér í hag. Reyndar mælir Hare eindregið með því að fólk flýi siðblinda, einnig í starfi; reyndu að forðast siðblindan samstarfsmann þinn eins og unnt er. Ef ástandið er óbærilegt skaltu reyna að fá flutning í starfi eða grípa til þess örþrifaráðs að hætta í vinnunni.23

    

Niðurstaðan af umfjöllun í þessari færslu er því að siðblindu er að finna víðast hvar á vinnustöðum, að þeir standi fyrir ótrúlega stórum hluta eineltis miðað við hve fáir þeir eru, að siðblindir geta eitrað verulega út frá sér á vinnustað og að það sé ótrúlega erfitt að eiga við eineltismál þegar gerandinn er siðblindur –  ekki hve síst vegna þess að sá mun reyna að snúa málum sér í hag, kenna fórnarlambinu um og halda því fram að sjálfur sé hann lagður í einelti (jafnvel af fórnarlambinu). Þeir sem huga að einelti á vinnustað, t.d. yfirvöld og stéttarfélög, ættu að kynna sér siðblindu og hvaða áhrif siðblindir hafa á umhverfi sitt.
 


1 Tilvitnun í Robert D. Hare í Gettler, Leon. 2003. „Psychopath in a suit“, The Age.com.au; Clarke, John (viðtal). 2007. „Talking Business with Peter Switzer“, Quantas Inflight Entertainment, s. 27. (Clarke er ástralskur sálfræðingur sem  skrifaði bókina Working With Monsters: How to Identify and Protect Yourself from the Workplace Psychopath, útg. 2009, auk fjölda greina um efnið.) McCulloch, Barbara. 2010. „Dealing with Bullying Behaviours in the Workplace: What Works – A Practitioner’s View“ í Journal of the International Ombudsman Association, okt. 2010, s. 47-48.  International Ombudsman Association. Einnig má nefna Tunbrå, Lars-Olof. 2003, s. 9. Psykopatiska chefer – lika farliga som charmiga. Liber Ekonomi, Malmö, Svíþjóð. Tunbrå bætir reyndar við að til séu norskar heimildir um að siðblindum takist ekki að klífa mjög hátt upp metorðastigann á vinnustöðum en tekur fram að slíkt hafi ekki verið sannað með rannsóknum.
 2 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 97. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York. (Bókin kom fyrst út árið 2006.)
 3 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 270.
 

4 Caponecchia, C., & Wyatt, A. 2007. „The Problem With ‘Workplace Psychopaths’“ í  Journal of Occupational Health and Safety, 23. árg.,5. tbl., s. 403-406. Ástralía og Nýja-Sjáland.
Skoða má greinina í flýtiminni Google.com. Fyrstu rökin munu falla um sjálf sig því í næstu útgáfu af DSM (árið 2013) verður siðblinda talin sérstakur undirflokkur andfélagslegra persónuleikaraskana.
 

5 Furnham, Adrian, Yasmine Daoud og Viren Swami. 2009. „‘How to spot a psychopath’  Lay theories of psychopathy“ í Social Psychiatry and Psychiatric Epidemiology
The International Journal for Research in Social and Genetic Epidemiology and Mental Health Services, 44. árg. 6. tbl. s. 464 – 472, júní 2009.  Greinin var skoðuð á Vefnum 25. jan. 2011. Höfundar nefna til skýringar að líklega sé annars vegar um að ræða misskilning eða mistúlkun almennings á geðröskuninni siðblindu og hins vegar skort á upplýsingum um hana. Misskilningurinn stafi fyrst og fremst af því hvernig fjölmiðlar hafi slegið upp siðblindum glæpamönnum og hvernig þeir eru túlkaðir í kvikmyndum. Almenningur hafi því fengið ranga mynd af fyrirbærinu. Niðurstöður rannsóknarinnar hvetji til þess að mennta fólk betur í einkennum siðblindu.
 

6 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 39.
 

7 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 189.
 

8 Anni Løndal de Lichtenberg (danskur blaðamaður). Tekið af „Psykopati“ á Psykologihuset.dk, í janúarbyrjun 2011.
 

9 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics (25. nóvember 2010), s. 1-13. Greinin var skoðuð á Vefnum 25. jan. 2011.

Úrtakið í rannsókn Clive Boddy voru 346 velmenntaðir menn í ýmsum viðskiptatengdum starfsgreinum, í Perth, Ástralíu. Þar sem siðblindir voru ekki á vinnustað töldu menn sig hafa orðið vitni að  einelti gegn öðrum að meðaltali 9 sinnum á ári (sjaldnar en mánaðarlega) en þar sem siðblindur var á vinnustað var tíðnin 64,4 sinnum á ári (oftar en vikulega). Það skal ítrekað að verið var að skoða siðblinda í hópi allra starfsmanna en ekki siðblinda stjórnendur eingöngu. Aftur á móti kom fram að væri siðblindur starfsmaður á vinnustaðnum hafði slíkt yfirleitt slæm áhrif á stjórnunarstíl yfirmannsins. Ekki er ólíklegt að siðblindir sækist eftir yfirmannsstöðum eins og þeir mögulega geta og Boddy vitnar síðan í Babiak og Hare sem hafa rannsakað stjórnendur viðskiptafyrirtækja sérstaklega: „Hare og Babiak fundu út að af 7 háttsettum stjórnendum fyrirtækja (af um 200) sem greindust siðblindir voru 2 einnig gerendur eineltis. Þeir benda á að þetta háa hlutfall (þ.e. að u.þ.b. 29% af siðblindum stjórnendum fyrirtækja séu einnig gerendur eineltis) sé staðfest í öðrum rannsóknum.“

10  Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000/2004
 

11 Dagrún Þórðardóttir. 2006, s. 15.  Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða (MS verkefni í Stjórnun og stefnumótun, Viðskipta-og hagfræðideild HÍ). Skoðað á vef Vinnueftirlitsins  24. janúar 2011.
 

12  Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008, s. 17-18. Ritstjóri: Ágústa H. Gústafsdóttir. Skoðað á vefnum 24. janúar 2011. Ath. að birtar voru niðurstöður um reynslu þolenda sem í þessari bloggfærslu er snúið upp á gerendur.
 

13Einelti á vinnustað“ á  Úttekt og úrlausn (upphaflega grein í tímaritinu FYRIRTÆKIÐ, 1.tbl., maí 2003). Skoðað á vefnum 24. janúar 2011.
14 Dagrún Þórðardóttir. 2006. Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða. Tafla með niðurstöðum íslenskra rannsókna á einelti á vinnustöðum er á s. 52. Tafla, sem sýnir tíðni eineltis á vinnustöðum skv. niðurstöðum rannsókna í fjölda landa, er á s. 43-45.
 

15  Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið, ágúst 2008, s. 6.
 

16  „BA verkefni um einelti meðal félagsmanna VR. Einn af hverjum tíu hefur orðið fyrir einelti“ í  VR blaðinu 23. árg. 6. tbl., okt. 2001, s. 6-7. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Skoðað á vefnum 24. janúar 2011. (Í blaðagreininni er sagt frá könnun sem Hanna Lilja Jóhannsdóttir gerði í samvinnu við VR vorið 2001.)
 

17 Einarsen, Ståle. 2000. „Harassment and bullying at work: A review of the Scandinavian Approach“ í Aggression and Violent Behavior, 5. árg. 4. tbl. júlí-ágúst 2000, s. 379-401. Skoðað á vefnum 24. janúar 2011.
 

18  Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Kristinn Tómasson. „Einelti á vinnustað, vinnuskipulag og líðan starfsmanna“ í Læknablaðinu 2004, 90. árg. 12. tbl., s. 847-51. Skoðað á vefnum 24. janúar 2011. Hér að ofan er vísað í hinar rannsóknirnar sem eru nefndar í bloggfærslunni.

19 Einarsen, Ståle. 2000 . „Harassment and bullying at work: A review of the Scandinavian Approach“.
 

20Bullying“ á síðu Human Capital In Business, sem umræðuefni mánaðarins (Topic of the Month). Fram kemur að efnið sé fengið frá UK National Workplace Bullying Advice Line en hvorki höfundar né útgáfutíma er getið. Skoðað á vefnum 25. janúar 2011.
 

21 McCulloch, Barbara. 2010. „Dealing with Bullying Behaviours in the Workplace: What Works – A Practitioner’s View“ í Journal of the International Ombudsman Association, okt. 2010, s. 47-48.  International Ombudsman Association.  Skoðað á vefnum 22. janúar 2011.
 

22 Hare, Robert D. 1999, s. 64. Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us. The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)
 

23 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 313.
 
 
 
 
 
 
 

Börn siðblindra

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 

Ath. að margt sem kemur fram í þessari færslu á almennt við um börn sem eru vanrækt eða beitt ofbeldi. Sumt á sérstaklega við börn foreldra með andfélagslega persónuleikaröskun, sem er miklu víðtækara hugtak en siðblinda. (Krækt er í grein Gylfa Ásmundssonar um persónuleikaraskanir, sem birtist í Geðvernd 1999, 28(1), s. 28-33). Í færslunni hér á eftir er tekið fram  þegar sérstaklega er fjallað um siðblinda foreldra og börn þeirra.

Börn sem eru vanrækt eða beitt ofbeldi

Barn beitt ofbeldiÞegar misbrestur verður á umönnun og uppeldi barns flokkast það ýmist undir ofbeldi eða vanrækslu. Mun algengara er að börn séu vanrækt en að þau séu beitt ofbeldi. Þegar ofbeldi er beitt gerir foreldrið barninu eitthvað til skaða. Þegar börn eru vanrækt getur skortur á viðeigandi umönnun valdið skaðanum.

Vanræksla getur verið með ýmsu móti, almenn, líkamleg, sálræn eða andleg og ekki síst tilfinningaleg.

Ofbeldi getur líka verið margháttað, svo sem andlegt , líkamlegt eða kynferðislegt.1

Það er öllum ljóst hvað felst í líkamlegu ofbeldi.  Kynferðisleg misnotkun á börnum er, skv. umboðsmanni barna: „… það þegar börn eru fengin til að taka þátt í kynferðislegu athæfi eða leik, með einhverjum sem hefur meiri völd eða er hærra settur en þau.“ 2 Andlegt ofbeldi kemur oft fram í neikvæðum viðhorfum, t.d. að sett er út á útlit eða skap barnsins, barnið uppnefnt og kallað fífl, hálfviti o.þ.h.; neikvæðum tilfinningum og óraunhæfum kröfum foreldra til barns; barnið er ekki metið sem sjálfstæður einstaklingur heldur haft til að sinna þörfum foreldris; barnið verður vitni að heimilisofbeldi; barnið er hrætt með hótunum, öskrum eða blótsyrðum; barninu er hafnað, þ.e. neitað um hjálp eða ekki tekið mark á því og að barnið sé einangrað frá félagsskap annarra barna. Sumir fræðimenn telja að andlegt ofbeldi rífi börn niður meir en líkamlegt ofbeldi.3

Mamma sem hefur verið beitt ofbeldiBörn og unglingar sem búa við heimilisofbeldi þjást af stöðugum kvíða, ótta, reiði, stjórnleysi, vanmætti og ringulreið. „Þau læra takmarkað um hvað einkennir venjulegt heimilislíf, því á heimilinu búa þau e.t.v. með föður sem er nokkuð sjálfmiðaður og illa sveigjanlegur og leysir gjarna ágreining með valdbeitingu. Á móti getur síðan móðirin verið svo yfirþyrmd af ofbeldinu, og því að „lifa af“ að hjá henni er lítið öryggi eða skjól að finna. Tilfinningalega má því segja að mörg þessara barna og unglinga séu heimilislaus.“4

Afleiðingum ofbeldis og vanrækslu barna hefur verið skipt í tvo meginflokka og kölluð úthverf vandamál og innhverf vandamál. Úthverf eru hegðunarvandamál af ýmsum toga en innhverf vandamál eru t.d. þunglyndi og kvíði. „Algengara er að úthverf vandamál komi fram hjá drengjum en innhverf hjá stúlkum. Jafnframt er algengara að drengir fái aðstoð en stúlkur, þar sem vandamál þeirra eru sýnilegri en vandamál stúlkna.“

„Langtímaáhrif ofbeldis og vanrækslu geta komið fram á ýmsan máta, til dæmis í langvarandi þunglyndi eða kvíða, áfengis- og fíkniefnaneyslu og persónuleikatruflunum. Auk þess eru kynlífsvandamál afar algeng á fullorðinsárum hjá börnum sem hafa verið áreitt kynferðislega eða verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Jafnframt er fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu í barnæsku, líklegra til að vanrækja eða beita börn sín ofbeldi en aðrir foreldrar.“ 5 Það virðist skipta máli hvenær á ævinni barn er beitt mestu ofbeldi. Niðurstöður nokkurra rannsókna benda til þess að þrálátur misbrestur í uppeldi hafi sterkari og ótvíræðari áhrif á unglinga en tímabundinn misbrestur í uppeldi yngri barna.6

Aths. Það er dálítið merkilegt að í þeim örfáu íslensku rannsóknum sem gerðar hafa verið á málum sem borist hafa inn á borð barnaverndar eða  rannsóknum á sálrænum kvillum barna er hvergi minnst á siðblindu sem mögulegan orsakaþátt. Eins og kom fram í fyrri færslu þá greinist fjórðungur þeirra sem berja konurnar sínar siðblindur, skv. erlendum rannsóknum. Má þá ekki ætla að ofbeldi gegn börnum hér á landi megi að talsverðu leyti skrifa á reikning siðblindu foreldris? Kannski er þetta hirðuleysi um siðblindu aðeins angi af almennu áhugaleysi um siðblindu hér á landi – að undanskildum áhuga á siðblindum forstjórum viðskiptafyrirtækja.
 

Börn sem alast upp hjá siðblindu foreldri

Það er alltaf erfitt að alast upp hjá siðblindri móður eða siðblindum föður. Yfirleitt er um að ræða einstæðar siðblindar mæður eða siðblindan föður sem drottnar yfir fjölskyldunni; en báðir foreldrar eru ekki siðblindir, því siðblindum kemur illa saman. Það síðasta sem sjálfselsk, krefjandi og kaldlynd manneskja óskar sér er önnur af sama tagi.(Ég sé nú reyndar ekkert því til fyrirstöðu að um geti verið að ræða einstæðan siðblindan föður eða siðblinda móður í hjónabandi – minni þó á þá staðreynd að miklu fleiri karlar greinast siðblindir en konur.)

Helstu einkenni slíks uppeldis og afleiðingar þess eru:

*Börn eru vanrækt
Hrætt barnRobert D. Hare segir að skeytingarleysi um velferð barna gangi sem  rauður þráður í gegnum rannsóknarskýrslur hans um siðblindu. Siðblindir líta á börn sem óþægindi eða fyrirhöfn. Hann nefnir tvö dæmi um þetta.

Diane Downs [Sú kona skaut 3 börn sín til að losna við þau af því hún vildi ganga í augun á manni sem ekki kærði sig um börn. Eitt barnanna lést af skotsárunum en hin tvö lifðu af.] skildi ung börn sín oft alein eftir heima þegar engin barnapía fékkst. Nágrannarnir sögðu að börnin, frá 15 mánaða til sex ára, hefðu verið svöng, tilfinningalega svelt og almennt afrækt (þau sáust oft úti að leika sér á veturna án þess að vera í skóm eða yfirhöfnum). Downs lýsti því yfir að hún elskaði börnin sín en kaldlynt hirðuleysi um líkamlega og andlega velferð þeirra bendir til annars.

Hitt dæmið er ónefnd siðblind kona í einni af rannsóknum Hare. Hún og maðurinn hennar skildu eins mánaðar gamalt barn sitt eftir hjá drykkfelldum vini. Vinurinn datt í það og dó áfengisdauða. Þegar hann raknaði úr rotinu var hann búinn að gleyma að hann væri að passa og fór. Foreldrarnir snéru aftur heim átta tímum síðar og þá höfðu yfirvöld sótt barnið í sína vörslu. Móðirin varð æf og ásakaði yfirvöld um að svipta barnið ást og væntumþykju – og hélt þeirri skoðun til streitu jafnvel eftir að henni var sagt að barnið væri alvarlega vannært.8

*Börn verða óörugg og ráðvillt

Óörugg l�til stúlkaSiðblindur skiptir sífellt skapi og ekki er hægt að spá fyrir um orð hans og gerðir. Það skapar ótryggt og taugatrekkjandi andrúmsloft á heimilinu. Það sem barnið má gera einn daginn er kannski bannað daginn eftir. Annað veifið er dóttirin litla prinsessan hennar mömmu, sem fær flottar gjafir og hrós, en svo sætir hún skyndilega rætnum árásum af því hún segir að gerir eitthvað sem siðblindri móðurinni líkar ekki. Svoleiðis ófyrirsjáanleg og óútreiknanleg hegðun foreldris veldur því að barnið veit ekki sitt rjúkandi ráð. Stöðugar árásir brjóta niður sjálfsöryggið. Barnið lærir að tilfinningar þess skipta engu máli: „Þrátt fyrir að mamma fari illa með mig á mér samt sem áður að þykja vænt um hana.“ Barn sem hefur upplifað líkamlegt og andleg ofbeldi í bernsku og lært að tilfinningar þess eru einskis virði mun glíma við lélega sjálfsmynd það sem eftir er ævinnar. Stúlku sem hefur orðið að sætta sig við auðmýkingu, svik og ofbeldi í uppvextinum er hætt við að sækja í sams konar fórnarlambshlutverk þegar hún verður fullorðin. (Forward 1988) 9

*Börn taka á sig alla sök

Það er ekki óalgengt  að börn verði skotspónn fyrir reiði mömmu eða pabba og að vonbrigði þeirra bitni á börnunum. Barn er alveg til í að taka að sér  hlutverk svarta sauðsins vegna þess að það er háð foreldrunum  Barnið er viðkvæmt af því mest af öllu þráir það væntumþykju eða viðurkenningu foreldranna og vill allt til vinna svo foreldið sé ánægt með það. Það skilur ekki að til einskis er streðað, að það er eitthvað bogið við mömmu eða pabba en ekki barnið sjálft.

*Börn fyllast innibyrgðri reiði og sýna árásarhneigð

Strákar úr ofbeldisfullum fjölskyldum geta sýnt sömu hegðun og þeir ólust upp við. Hjá stelpum sést þessi reiði oftar sem kvíði, þunglyndi eða sjálfsfyrirlitning .10

*Skv. rannsóknum hafa ekki greinst sérstök tengsl milli siðblindu og kynferðislegrar misnotkunar. Siðblindir eru ekki líklegri en aðrir glæpamenn til að beita börn eða fullorðna kynferðislegu ofbeldi. Þótt sumir sem skrifa um siðblindu vilji hafa sifjaspell og kynferðislega misnotkun barna með í umfjölluninni er því sleppt hér. 11
 

Langtímaáhrif þess að alast upp hjá siðblindu foreldri

Í viðamikilli bandarískri tvíburarannsókn var skoðuð geðheilsa barna og unglinga sem áttu foreldri /foreldra með andfélagslegar persónuleikaraskanir (minnt skal á að andfélagsleg persónuleikaröskun er yfirheiti yfir margs konar raskanir og siðblinda er einungis ein af mörgum sem fellur þar undir). Meginniðurstaðan var að andfélagsleg persónuleikaröskun foreldra eykur horfurnar á fjölda ytri og innri raskana hjá börnum og unglingum, allt til fullorðinsára í sumum tilvikum. Ætla má að hluti hinna andfélagslegu foreldra hafi verið siðblindur og niðurstöðurnar eigi því einnig við áhrif siðblindra á börn sín. Ytri (úthverfar) raskanir eru t.d. athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD), hegðunaröskun (CD – notað um einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar hjá börnum) og andstöðu- / mótþróaþrjóskuröskun. Innri (innhverfar) raskanir eru t.d. alvarlegt þunglyndi og kvíði af ýmsu tagi. Það er áhugavert að ekki er aðeins um aukna hættu á andfélagslegri hegðun hjá börnum slíkra foreldra að ræða heldur einnig öðrum geðveilum. Svoleiðis að foreldri með andfélagslega persónleikaröskun hefur víðtæk áhrif á geðheilsu barna sinna, í sumum tilvikum til langframa.

Unglingur verður vitni að ofbeldiAf einstökum geðveilum má nefna að líkurnar á athyglisbresti með ofvirkni eða alvarlegu þunglyndi voru meiri hjá í 17 ára aldurshópnum  en 11 ára ef faðirinn hafði andfélagslega persónuleikaröskun. Líkur á athyglisbresti með ofvirkni hjá 11 ára aldurshópnum voru meiri en hjá 17 ára ef móðirin hafði andfélagslega persónuleikaröskun. Sambærilegar auknum líkum vegna móður á ADHD í 11 ára aldurshópi voru auknar líkur á áfengisvandamálum (ofdrykkju eða alkóhólisma) í 17 ára aldurshópnum vegna áhrifa föður.  Þetta bendir til þess að áhrif  foreldra sem haldnir eru andfélagslegri persónuleikaröskun séu misjöfn eftir aldursskeiði. Áhrif móður eru e.t.v. sterkari þegar barnið er yngra og móðirin líklegri til að sjá aðallega um umönnun þess. Áhrif andfélagslegs föður eru meir áberandi á unglinga.12
 

Við skilnað og í forræðisdeildum ætti að hafa í huga

Titillinn krækir  í þýðingu mína á fyrirlestri /grein Irene Rønn Lind, frá 2008. Hún er starfandi sálfræðingur í Danmörku og höfundur bókarinnar Forklædt. Psykopater og deres ofre, sem kom út 2007. Fyrirlestur hennar, „Den pæne psykopat“, birtist á vefsetri samtakanna Barnets Tarv Nu, sem eru dönsk samtök þeirra sem breyta vilja barnalögum, þ.e.a.s. lögum um foreldrarétt og forræðismál. Fyrirlesturinn er þýddur og birtur með leyfi Irene Rønn Lind. Ég ákvað að þýða „den pæne psykopat“ sem „snotur siðblindur“ þótt til greina komi líka „huggulegur siðblindur“.

  
Er siðblinda arfgeng?

Á Íslandi virðist hafa verið sterk tilhneiging til þess að kenna umhverfisþáttum um marga geðsjúkdóma og geðraskanir, a.m.k. síðasta áratuginn. Þetta kemur vel fram í þeim íslensku greinum og ritgerðum sem ég vísa í í þessari færslu. Kannski kristallast þetta viðhorf í svari Gylfa heitins Ásmundssonar, sálfræðings, við spurningunni Eru geðsjúkdómar ættgengir? þar sem hann segir: „Í hinum vægari geðsjúkdómum, hugsýki (neurosis) og persónuleikaröskun (personality disorder), eru erfðir greinilega mun veigaminni þáttur og umhverfisáhrif skipta þar meira máli. Skapferli og persónuleiki ganga vissulega í arf að vissu marki, en uppeldi og aðstæður allar móta þessa þætti í fari mannsins og ráða oftast meiru um aðlögun hans og hvort sú aðlögun verður farsæl eða sjúkleg.“ 13

GenÍ því því efni af nýrra taginu sem fjallar um siðblindu og ég hef kynnt mér eru allir á því að hún sé arfgeng. Menn eru hins vegar ekki sammála um í hve miklum mæli siðblinda ráðist af erfðum og hve stór umhverfisþátturinn er. Í bandarískri / kanadískri  grein er sagt frá fimm rannsóknir sem allar sýna fram á að siðblinduþættir erfist. Þar voru notaðar mismunandi aðferðir til að meta siðblindu en engin þeirra nýtti þó  PCL-R gátlista og mælikvarða Roberts D. Hare.14

Í sænskri doktorsritgerð frá 2009 gerir Mats Forsman grein fyrir rannsóknum sínum á arfgengi siðblindu. Hann byggði á langtímatímarannsókn á 1480 tvíburum, fæddum í Svíþjóð á árunum 1985-86. Í upphafi ritgerðarinnar segir hann: „Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að u.þ.b. 40-70% af persónuleikaeinkennum siðblindu sé vegna erfða. Tvíburarannsóknir hafa þess vegna verið sérstaklega mikilvægar.“ (s. 3) 15. Annar Svíi, Henrik Larsson,  rannsakaði sömu gögn og Forsman og birti þær niðurstöður 2006  að erfðir réðu 63% af sumum kjarnaeinkennum siðblindu (kaldlyndi og yfirborðskenndu tilfinningalífi) og þáttum í andfélagslegri hegðun (óábyrgri hegðun og hvatvísi) en ekki yfirborðsmennsku og drottnunargirni. Tilviljanakenndir umhverfisþættir réðu hinum 37%  (sjá s. 4 í ritgerð Forsman). Forsman útlistar svo fjórar rannsóknir sem hann gerði sjálfur og kemst að svipaðri niðurstöðu og Larsson (sjá s. 17) þótt með öðrum aðferðum sé.16
 

Margir telja að hægt sé að draga úr einkennum siðblindu sé gripið nógu snemma í taumana, á unglingsaldri, jafnvel barnsaldri. Um þetta verður ekki fjallað hér heldur verður minnst á þessar kenningar í færslu um hvort eða hvernig hægt sé að lækna / bæta siðblindu. (Sú færsla bíður um sinn.) Það er því nokkuð augljóst að mikilvægt er að greina siðblindueinkenni sem fyrst í börnum og unglingum svo beita megi þau einhvers konar meðferð til að draga úr siðblindunni.
 


 1 Freydís Jóna Freysteinsdóttir. 2002. „Hefur slæmt uppeldi (foreldrar hóta þér sífellt einhverju illu) áhrif á framtíð þína?Vísindavefurinn 6.3.2002. Skoðað 20.1.2011.     2 Umboðsmaður barna. „Kynferðisofbeldi“ á barn.is. Skoðað 20.1. 2011.  

3 Guðbjörg María Árnadóttir. 2010. Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna, s. 15-16.  (BA-ritgerð í félagsráðgjöf.) Skoðað 20.1.2011.

 
4 Vilborg G. Guðnadóttir, fyrrum framkvæmdarstjóri Kvennaathvarfs. 2001. „Ofbeldi gegn börnum og unglingum“ skoðað á doktor.is 20.1. 2011.

  
5 Freydís Jóna Freysteinsdóttir.2002  „Hefur slæmt uppeldi (foreldrar hóta þér sífellt einhverju illu) áhrif á framtíð þína?“. Vísindavefurinn 6.3.2002. Skoðað 20.1.2011.
 

6 Sjá Halldór Sig. Guðmundsson. 2006. Hegðun, líðan og félagslegar aðstæður 11-18 ára barna innan barnaverndar á Íslandi. Sjónarhorn barna, foreldra, kennara og starfsmanna barnaverndar, s. 37. (Meistaraprófsritgerð í félagsráðgjöf.) Skoðað 20.1. 2011.
 

7 Tranberg, Peter. Psykopati – en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett en líklega frá 2002, s. 28. (Cand.pæd.psych-ritgerð). Skoðað 15.1. 2011.
 

8 Hare, Robert D. 1999. Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, s. 62-63The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)
 

9 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden, s. 189- 190. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.) Tilvitnun þeirra er í Susan Forward, sem skrifaði bókina Man who hate women and women who love them (fyrst útg. 1986, gefin úr í norskri þýðingu 1988, Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem).
 

10 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden, s. 189- 190.

 
11 Olver, Mark E. og Stephen C. P. Wong. 2006. Psychopathy, Sexual Deviance, and Recidivism Among Sex Offenders í Sexual Abuse: A Journal of Research and Treatment, 18 tbl. 1. hefti 2006, s.  65-82. Gefið út af Association for the Treatment of Sexual Abusers (ATSA).  Útgáfa á vefnum skoðuð 20.1. 2011. Í inngangsköflum er fjallað ítarlega um fyrri rannsóknir á efninu.

 
12 Herndon, Ryan W. og William G. Iacono. 2005. „Psychiatric disorder in the children of antisocial parents“  í Psychological Medicine, 2005, 35, s. 1815-1824. Cambridge University Press. Útgáfa á vefnum skoðuð 20.1. 2011.

Herndon og Iacono rannsökuðu 11 ára tvíbura (958 stráka, 1042 stelpur), 17 ára tvíbura (1332 pilta, 1434 stúlkur) og  kynforeldra þeirra í persónulegum viðtölum. Viðföngin voru fengin úr langtíma tvíburarannsókn á fjölskyldum í Minnesóta. Þeir athuguðu tengsl andfélagslegra foreldra og geðrænna kvilla í börnum þeirra. Kvillarnir sem þeir skoðuðu voru: Athyglisbrestur með ofvirkni (AHDH); hegðunarröskun; andstöðu-/mótstöðuþrjóskuröskun; alvarlegt þunglyndi; almenn kvíðaröskun; ofkvíðaröskun /semdarröskun; aðskilnaðarkvíði; nikótínfíkn; áfengisfíkn og áfengismisnotkun og misnotkun annarra vímuefna. Þeir skoðuð áhrif móður sérstaklega og áhrif föður sérstaklega, sem og hver þessi áhrif voru á hvorn aldurshóp fyrir sig. Niðurstöður þeirra eru að andfélagslegt foreldri hefur víðtæk áhrif á geðheilsu barns /barna og þeir birta töflur yfir slíkt í hvorum aldurshópi.  Meginniðurstöður þeirra voru raktar í þessari færslu. Þeir Herndon og Iacono rekja niðurstöður annarra rannsókna á sama efni en geta þess að þær rannsóknir hafi verið takmarkaðar því einungis hafi verið rannsökuð börn sem heilbrigðiskerfið hafði afskipti af og foreldar þeirra.

 
13 Gylfi Ásmundsson. 2002. „Eru geðsjúkdómar ættgengir?“  Vísindavefurinn 12.3.2002. Skoðað 19.1.2011.
 

14 Lalumiére, Martin L., Sandeep Misrha og Grant T. Harris. 2008. „In Cold Blood. The Evolution of Psychopathy“ í  Evolutionary forensic psychology: Darwinian foundations of crime and law,  s. 187-189. Ristjórar J. Duntley og  T. K. Shackelford. Oxford University Press, New York. Kaflinn er aðgengilegur á Vefnum og var skoðaður 20.1. 2011.

 
Það er kannski tímanna tákn að einn höfundanna, Grant T. Harris, komst að þveröfugri niðurstöðu árið 1998, þ.e.a.s. að umhverfisþættir vægju mjög þungt í þróun siðblindu. Sjá Grant, T. Harris. 1998. „Psychopathy Might Be An Adaption, Not A Disorder“ í í fréttabréfi The Mental Health Centre Penetanguishene (geðsjúkrahúss í Ontario, Kanada). Skoðað 20.1. 2010.
 

15 Sjá má yfirlit yfir 13 tvíburarannsóknir á arfgengi siðblindu í Viding, Essi og Henrik Larsson. 2010. „Genetics of Child and Adolescence Psychopathy“, í Handbook of Child and Adolescent Psychopathy, s. 117- 119 (ritstjórar Randall T. Salekin, Donald R. Lynam). Guilford Press. Aðgengilegt á books.google.com og skoðað 20.1. 2011.
 

16 Forsman, Mats. 2009. Psychopatich Personality in Adolescence – Genetic and Environmental Influences (doktorsritgerð). The Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Stockholm, Svíþjóð. Ritgerðina má nálgast á vefnum og hún var skoðuð 20.1. 2011.
Forsman byggir á langtímrannsókn á sænskum tvíburum en í henni var gögnum safnað þegar tvíburarnir voru orðnir 8-9 ára, 13-14 ára, 16-17 ára og 19-20 ára. Börn og foreldrar svöruðu spurningalistum sem sendir voru í pósti þegar krakkarnir voru á þessum aldri. Hann gerði fjórar mismunandi rannsóknir á gögnunum sem fyrir lágu.

Hann og flestir af nýrri rannsakendum hafa þáttað saman einstök atriði af gátlista Hare. Þættirnir eru: Yfirborðskenndur persónuleiki / drottunargirni (innifalið í þeim þætti eru stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti. lygalaupur, falskur og slóttugur; hér eru fyrstu 4 kjarnaeinkenni siðblindu í PCL-R tekin saman); Kaldlyndi / yfirborðskennt tilfinningalíf (ásamt skorti á sektarkennd og samhygð, þ.e. einkenni 5, 6 og 7 tekin saman) og af listanum yfir hegðun: Hvatvísi og ábyrgðarleysi ásamt spennufíkn (þ.e. einkenni 1, 7 og 8 af gátlista Hare).
Forsman kemst að þeirri niðurstöðu erfðir ráði mestu um kjarnaeinkennin  kaldlyndi og yfirborðskennt tilfinningalíf og  umhverfi skipti þar engu máli. Einnig réðu erfðir óábyrgri hegðun og hvatvísi. En þetta átti ekki við um yfirborðskenndan persónuleika og drottnunargirni.  Erfðafræðileg tengsl eru svo  milli kjarnaeinkenna siðblindu og ytri raskana / atferlisraskana. Umhverfisáhrif skýrðu aftur á móti að hluta  tengsl milli ytri raskana og andfélagslegrar hegðunar. Siðblindur persónuleiki á unglingsárum spáði fyrir um andfélagslega hegðun á fullorðinsárum, vegna erfða, en andfélagsleg hegðun á unglingsárum spáði ekki fyrir um siðblindan persónuleika.

Hann vísar m.a. í Larsson, Henrik, H. Andershed og P. Lichtenstein. 2006. „A genetic factor explains most of the variation in the psychopathic personality“ í  Journal of Abnormal Psychology 2006, 115, s. 221-30 og kemst að sömu niðurstöðu og þeir.

Í hjónabandi með siðblindum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er: http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 
 

Ath. að margt af því sem kemur fram í færslunni um fórnarlömb ofbeldis, lýsingar á ofbeldi, afleiðingar ofbeldis o.s.fr. á við margar fleiri en þær sem búa með siðblindum. Þetta eru einkenni sem koma fram í ofbeldissamböndum almennt. Má t.d. ætla að aðstandendur alkóhólista kannist hér við fjöldamargt, sem og fleiri. Langt gengnir alkóhólistar þróa enda með sér talsvert af siðblindueinkennum. (En á hinn bóginn eiga þeir möguleika á að ná bata, sem gildir ekki um siðblinda, eftir því sem best er vitað nú.) 

* „Ég veit hann fer illa með mig en ég elska hann.“

Sambúð með siðblindum einstaklingi byrjar oft sem spennandi og eldheitt ástarsamband. Konan [að sjálfsögðu getur þetta einnig átt við karl en af því siðblindar konur eru miklu færri en karlar er þolandi siðblinds eintaklings oftast kvenkennd í þessari færslu] er  blinduð og upp með sér af gullhömrum þess siðblinda, áhuga hans og kappsemi og fellst á allar uppástungur hans og áætlanir. Þegar siðblindur finnur konu sem honum líkar, sem dáist að honum og elskar hann og mótmælir honum ekki, fyllist hann oft þrá til að tryggja sér slíka manneskju. Margar sem hafa búið með siðblindum lýsa upphafi sambandins eins og vera veiddar í net.

Þegar sambúðin versnar er dæmigert að maður voni stöðugt að makinn muni bæta sig. þegar hann sýnir ást og ástúð er létt að fyrirgefa og halda að allt verði nú betra. En það verða ekki nein kraftaverk sem láta hann hætta að fara illa með makann. Hann gæti sagt slíkt, lofað því, já meira að segja grátið og beðið sér griða. En orð og loforð hafa lítið vægi, það hefur mörg konan sem hefur lifað í ofbeldissambandi fengið að reyna. Það er bara spurning um tíma hvenær hann er aftur kominn í stríðsham. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 182-183.)

Kona sem fer í samband við siðblindan verður fyrst og fremst að verða undirgefin undir algera stjórn hans. Sumar konar eru fastar í þeirri fögru blekkingu að ef þær haldi út nógu mikla þjáningu þá verði allt fullkomið að lokum. Hver og ein telur að hún sé sú eina sem þolir misbeitingu hans, elski hann og tolli hjá honum. Fyrr eða síðar muni hann svo skilja hve frábær hún er. Þetta er hin bjartsýna trú á að hið góða muni sigra hið illa. Á móti kemur að hinn siðblindi getur ráðskast með vonir hennar með því að vera vingjarnlegur skamma stund og ýtt þannig undir væntingar hennar um að allt muni breytast. Með því að leika sér að von konunnar tryggir sá siðblindi að konan verði áfram háð honum því þessi hegðun hans styrkir óskir hennar að gera honum til hæfis. (Tranberg, Peter. Óársett, s. 61.)

Konur sem halda stíft í hefðbundin kvenhlutverk í sínum samböndum við karla lenda í miklu veseni ef einhver þeirra er siðblindur. Á hinn bóginn getur siðblindur maður kvæntur konu sem vill fyrst og fremst vera „góð eiginkona“ lifað afar þægilegu lífi. Heimilið verður honum griðastaður og öryggisnet þaðan sem hann getur hrint áætlunum sínum í framkvæmd og staðið látlaust í öðrum skammtímasamböndum við aðrar konur. Langþjáð eiginkonan veit venjulega hvað er í gangi en henni finnst að hún verði að halda heimilinu saman, sérstaklega ef börn eru í spilinu. Hún kann að trúa því að ef hún leggi harðar að sér eða bara bíði þetta af sér þá muni eiginmaður hennar breytast til batnaðar. Á sama tíma ýtir hlutskiptið sem hún hefur valið sér undir sektartilfinningu hennar og sjálfsásakanir um að óhamingja sambandsins sé henni að kenna. Þegar hann hunsar hana, misnotar eða svíkur hana gæti hún sagt við sjálfa sig: „Ég ætla að leggja mig enn meira fram, eyða meiri orku í sambandið, hugsa betur um hann er nokkur önnur kona gæti nokkru sinni gert. Og þegar mér tekst þetta mun hann sjá hve ég er honum mikils virði. Hann mun koma fram við mig eins og drottningu.“ (Hare, Robert D., s. 152-153.) Sjá Dæmi 4.
 

* Andlegt ofbeldi, hótanir og sjúkleg afbrýðisemi

Andlegt ofbeldiKonur sem eru beittar líkamlegu ofbeldi eru oft beittar andlegu ofbeldi í leiðinni. Og einnig er til í dæminu að siðblindur beiti einungis andlegu ofbeldi. Það getur falist í stöðugum yfirheyrslum, auðmýkjandi ummælum, sjúklegri afbrýðisemi og stjórnunartaktík. Margar konur segja að andlega ofbeldið sé verra en vera lamin. (Tjora, E. 1996. „Kvinnemishandling, et alvorlig helseproblem“ í Medicinsk årbog 1996,s. 23-31. Norli, Oslo. Tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 183.)  Smáræði eins og að kaffið sé kalt getur leyst úr læðingi reiði hins siðblinda. Þeir hafa ofboðslega þörf fyrir stjórn og allt sem fellur utan þess regluverks sem þeir hafa sett er ögrandi. Í ofbeldisfullu sambandi óttast fórnarlambið sífellt átök. Konan eyðir miklum tíma í að haga öllu eftir því sem makinn vill svo hann geti ekki fundið neitt að henni, heimilishaldinu eða matseldinni.

Andlegt ofbeldi er til þess að brjóta niður sjálfsálit konunnar og tryggja þörf ofbeldismannsins fyrir völd og stjórn. Til þessa notar hann gjarna beinar eða óbeinar hótanir: „Ef þú reynir að fara frá mér drep ég þig“ eða „Ef þú heldur ekki kjafti núna veit ég ekki hvað ég geri“. Hann kann að hóta konuninni með drápi, að hún verði brotin niður líkamlega og andlega eða verði misþyrmt og afmynduð svo enginn annar karl muni nokkru sinni líta við henni.

Annað merki um stjórnunaráráttu sem fer úr böndunum er þegar konan verður að gera grein fyrir hverri krónu sem hún eyðir, jafnvel að karlinn kaupi öll hennar föt og ráði hverju hún klæðist.

Sjúkleg afbrýðisemi er algeng í ofbeldissamböndum. Öll samskipti við aðra, þótt það sé bara að skiptast á nokkrum orðum við póstinn, eru túlkuð sem tilraun til framhjáhalds, að fara bak við hann. Þetta er oft hrein yfirvörpun því hinn siðblindi er ósjaldan ótrúr sjálfur. Hin sjúklega afbrýðisemi kemur t.d. fram í yfirheyrslum um með hverjum hún hafi verið og hvað að gera. Endurteknar ásakanir sem varða fyrri sambönd og kynlífsupplifanir eru líka algengar.

Einangrun tengist sjúklegri afbrýðisemi og þörf fyrir stjórn. Karlinn reynir að hindra konuna í að hitta vini og fjölskyldu, fara eina út eða ferðast eina. Þetta getur jafnvel komið fram í „vingjarnlegum“ athugasemdum eins og „Ég elska þig svo heitt að ég vil ekki að neitt komi fyrir þig“. Fólk sem er nánast haldið föngnu, hvort það hefur verið tekið í gíslingu eða er í gíslingu í eigin hjónabandi, finnur oft fyrir sterkum sálfræðilegum tengslum við ofbeldismanninn.

Andlegt ofbeldi felst oft í niðurlægingu. Makinn kallar konuna kannski „hóru“, „tussu“  eða álíka og heldur því fram að hún sé ljót og lítt aðlaðandi, léleg í rúminu eða heimsk. Kynlífið gæti líka verið niðurlægjandi vegna þess að konan er þvinguð til að taka þátt í kynlífsathöfnum sem hún vill ekki. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 183-185.)

Konur sem búa með siðblindum mönnum venjast því oft að sambandið einkennist af dramatík og rifrildi. Eða þær reyna að gleyma öllum slæmu uppákomunum og einbeita sér að þeim fáu góðu. Það er auðvitað erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri sér að maður hafi gert svona mistök í makavali. Margar konur hafa reynt „að elska hinn siðblinda frískan“ en það er vonlaust verk. Að reyna að opna augu makans er unnið fyrir gýg. Það þýðir  heldur ekkert að nota lærða samskiptatækni á siðblindan því hún krefst heiðarleika og samvinnu. Siðblint fólk skortir hæfileikann til að skilja hvernig öðrum líður. Fyrir siðblindum er mikilvægast að vinna hverja orustu. Þess vegna er svo erfitt að finna lausn á vandanum sem bæði geta sætt sig við.(Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 188.)
 

* Varnaðarviðbrögð fyrir þig sjálfa

Susan Forward, sem skrifaði bókina Man who hate women and women who love them (fyrst útg. 1986, gefin úr í norskri þýðingu 1988, Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem) hefur gert eftirfarandi gátlista fyrir konur sem grunar að þær séu beittar andlegu ofbeldi (tilv. tekin úr Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 180-181):

  • Að hafa á tilfinningunni að það sé sífellt verið að tékka á þér.
  • Afbrýðisemi makans keyrir úr hófi og hann virðist hafa þörf fyrir að eiga þig með húð og hári.
  • Makinn talar stöðugt niður til þín.
  • Makinn er alltaf með skammir og hótanir.
  • Makinn beitir þöggun, þ.e. dregur sig ískalt í hlé og talar ekki við þig klukkustundum eða dögum saman.
  • Makinn hefur gaman af því að gera særandi gys að þér við aðra, tala t.d. hástöfum um galla þína eða segir öðrum hvað þú sért vonlaus í rúminu.
  • Þú upplifir ruglandi framkomu, þ.e. makinn er ýmist undurgóður eða umhverfist algerlega, af litlu eða engu tilefni.
  • Þú ert alltaf sökudólgurinn.
  • Þú ert byrjuð að tipla á tánum kringum makann, þorir ekki að viðra skoðanir þínar og segir ekkert að óhugsuðu máli, til að forðast reiðiköst og þöggun.

Ef þú kannast við einhver af þessum einkennum kann að vera að þú sért í ofbeldissambandi. Reyndu að safna kjarki til að tala við einhvern sem þú treystir um þetta. Þú getur líka talað við fagmenn eins og lækni, sálfræðing, prest, geðhjúkrunarfræðing eða félagsráðgjafa. Það getur verið erfitt að tala um þetta og kannski er best að nefna einstök dæmi til að aðrir eigi betra með að skilja ástandið. Loks má nefna hið dularfulla bragð þeirra sem beita andlegu ofbeldi, sem kallast „Gaslighting“ („Gaslýsing“). Nafnið er fengið úr leikritinu Gas Light, frá 1938, sem seinna voru gerðar kvikmyndir eftir. Leikritið fjallar um eiginmann sem reynir að gera konu sína vitfirrta með því t.d. að færa til hluti á heimilinu og halda því fram hana misminni eða hún taki feil þegar hún nefnir breytingarnar. Titillinn vísar til þess að eiginmaðurinn dimmir gasljósin á heimilinu smám saman og reynir að telja konu sinni trú um að slíkt sé alls ekki raunin heldur sé hún að ímynda sér þetta.

„Gaslýsing“ þýðir því að alls konar rangar upplýsingar eru gefnar fórnarlambinu í því augnamiði að fá það til að efast um eigið minni og skynjun; fá fórnarlambið til að efast um eigin geðheilsu. Þær sem hafa búið með siðblindum efast stundum um að þær muni upplifun sína rétt enda eru siðblindir miklir blekkingameistarar. Meira að segja þeir sem hafa barið eiginkonur sínar (eða aðrar konur) kunna að afneita því algerlega og ásaka þær um tilbúning og geðveiki. Sjá nánar um  „Gaslighting“ á Wikipedu og á Encounters of the Psychopathic Kind.  
 

* Konur sem vilja búa með siðblindum

Til er í dæminu að fólk ani með opin augu inn í samband við einstakling sem allir vita að er siðblindur. J. R. Meloy (1993. Violent Attachments. Tilvitnanir í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 203 – 204) hefur sérstakalega rannsakað hvaða sálfræðilegir þættir valdi því að sumar bindast mjög ofbeldisfullum siðblindum sem þær hafa verið margvaraðir við. Hvað rekur þær áfram sem af fúsum og frjálsum vilja bindast morðingjum og afbrotamönnum? Við heyrum af konum sem beinlínis vilja giftast slíkum mönnum og stofna með þeim fjölskyldu um leið og þeim verður sleppt úr fangelsi. [Á Norðurlöndunum er sennilega frægast dæmi um slíkt konan sem giftist Peter Lundin.] Meloy telur hluta svarsins felast í ómeðvitaðri samsömun með  hinum siðblinda.

Hann talar annars vegar um masókíska samsömun, sem feli í sér að  bindast persónu sem endurgeldur að miklu leyti með árásargirni og slæmri meðhöndlun. Þetta telur Meloy að tengist slæmu uppeldi í bernsku þar sem barn hafi yfirfært sársaukafulla meðferð af hendi foreldra á að hún tákni að barnið sé foreldrunum einhvers virði, sé pabba eða mömmu einhvern veginn nátengt. Til að vera í sambandi við ofbeldisfullan siðblindan verður hinn aðilinn að lúta algerri stjórn hins siðblinda. Makinn umbreytir þessu í tilfinninguna um að hafa stjórn yfir hinum siðblinda. Árásargjarnt atferli hins siðblinda verður þannig endurupplifun af bernskutengslum við lélega foreldra. Móðganirnar / brotin verða sönnun þess að það eru sterk bönd við persónu sem hefur a.m.k. áhuga á manni jafnvel þótt persónan sé andstyggileg.

Hitt sem Meloy nefnir er sadistísk samsömun með ofbeldi hins siðblinda. Einhverjir þeirra sem tengjast siðblindum virðast ómeðvitað hafa ánægju af sadisma hans gegn öðrum. Þekkt dæmi úr kvikmyndum er samband Bonnie við Clyde.

Lokkandi siðblindurUpphafning og afneitun virðast líka vera ráða afar miklu hjá þeim sem bindast siðblindum vitandi vits. Það er eins og konan sé algerlega blind fyrir hve sá siðblindi er hættulegur og niðurlægjandi. Það er eitthvað við siðblinda hegðun sem virkar ákaflega lokkandi og æsandi. Þetta fær konuna til að trúa blekkingum og lygum hins siðblinda. Hún afneitar hættumerkjunum sem sjást í fortíð þess siðblinda og núinu einnig og skrumskælir veruleikann þannig að hann passi við eigin hugmyndir um þennan spennandi mann. Sjá Dæmi 5 og Dæmi 6.

Susan Forward (1988, s. 36 – 37, tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 204) hefur gert lista yfir hvernig konur í afneitun draga oft  fjöður yfir hegðun siðblindra maka: „Já, hann hefur verið þrisvar kvæntur áður en enginn hefur skilið hann á sama hátt og ég geri.“;  „Ég veit að hann hefur farið illa út úr viðskiptum en hann hefur líka átt samstarfsaðila í röðum sem hafa svikið út úr honum peninga.“;  „Hann talar mjög illa um fyrrverandi eiginkonu sína en það er nú eiginlega ekki svo skrítið því hún var hræðilega gráðug og sjálfselsk.“;  „Ég veit að hann drekkur of mikið en hann er í erfiðri aðstöðu núna og um leið og það lagast veit ég að hann hættir.“;  „Hann gerði mig verulega hrædda þegar hann reiddist en akkúrat núna er hann undir gífurlegu álagi.“;  „Hann varð alveg  bálreiður þegar ég var honum ósammála en engum líkar jú að aðrir séu ósammála þeim.“;  „Hann getur alls ekki gert að því að hann hefur svona erfitt skap, hann átti mjög óhamingjusama æsku“. „Hann gerði þetta bara af því …“ er sem sagt sígild leið makans til að draga úr eða afsaka til að viðhalda upphafningu sinni af hinum árásargjarna siðblinda.
 

* Fjölskylduráðgjöf

Margar konur sem illa er farið með reyna árangurslaust að leita eftir fjölskylduráðgjöf. Siðblindur maki er venjulega á móti hvers konar meðferð eða ráðgjöf frá utanaðkomandi. Fallist hann á ráðgjöf er það einungis vegna þess að hann telur sig græða eitthvað á því. Og stundum gerir hann það. Þegar fundað er með ráðgjafanum kann fórnarlambið að upplifa að árásarmaðurinn lýsi sinni kæru fjölskyldu með jákvæðu og skilningríku orðalagi. Spurningar um andlegt ofbeldi eru fljótafgreiddar með því að þetta hafi nú verið allt í gríni og fórnarlambið skorti kímnigáfu. Fórnarlambið þorir fyrir sitt leyti ekki að segja frá hvernig ástandið raunverulega er innan veggja heimilisins af ótta við hefnd þegar þau koma heim. Þannig kemur sá siðblindi fyrir sem hæfileikaríkur og sannfærandi og fórnarlambið sem lítilhæf og framtakslaus manneskja. Margar konur hafa upplifað fjölskylduráðfgjöf sem niðurlægingu. Valdajafnvægi í sambandi sem einkennist af ofbeldi er þannig að venjuleg fjölskylduráðgjöf og tilraunir til að sætta fólk hafa ekkert að segja. Slíkt nýtist fyrst og fremst til að laga ósamkomulag milli maka sem standa jafnfætis. (Tjora, 1996, tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 189.)  Sjá Dæmi 7  (sem á reyndar einnig vel við kaflann um líkamlegt ofbeldi, hér á eftir).
 
 

* Líkamlegt ofbeldi / Heimilisofbeldi

Í meðhöndlun / meðferð kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi eða verið nauðgað eða barna sem hafa verið kynferðislega misnotuð kemur reglulega fram að árásarmaðurinn hefur siðblinda þætti eða er siðblindur. Árásarmennirnir sjá ekki eigin galla, kenna fórnarlömbunum alfarið um og óska sjálfir hvorki eftir sambandi [við meðferðaraðila] né meðferð. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 14.)

Robert D. Hare segir: „Í nýlegri rannsókn könnuðum við hóp manna með PCL listanum (gátlista yfir siðblindu), sem voru þátttakendur ýmist af fúsum og frjálsum vilja eða tilneyddir í meðferðarprógrammi fyrir þá sem berja eiginkonur sínar. Við fundum út að 25% karlmannanna í hópnum voru siðblindir, sem er sambærilegt við þá útkomu sem fæst þegar fangar eru prófaðir. Við vitum ekki hve hátt hlutfallið er í hópi þeirra manna sem ekki sækja meðferðarprógramm en ég reikna með að það sé a.m.k. jafnhátt.“ (Hare, Robert D., 1999, s. 94.)

Siðblindur snákurSálfræðingurinn Neil S. Jacobson komst að athyglisverðum niðurstöðum þegar hann tók samtöl 60 hjóna þar sem karlinn hafði beitt ofbeldi upp á myndbönd og mældi hjartslátt karlanna í leiðinni. Flestir karlanna æstust upp í þessum samræðum og hjartslátturinn varð örari. En í um 20% karlanna hægði á hjartslætti, þrátt fyrir að þeir væru sýnilega reiðir og árásargjarnir. Jacobsen dró þá ályktun að þeir væru siðblindir og lækkun hjartsláttartíðni bæri vott um að þeir einblíndu á heppilega leið til ná stjórninni og héldu aftur af æsingnum. „Eftir að hafa skoðað myndböndin af þessum gaurum sá ég fyrir mér líkindin með höggormi, blínandi á bráð sína, tilbúinn að ráðast á hana.“ (Tilvitnun í Cooke, David J., Adelle E. Forth og Robert D. Hare. 1997. Psychopathy: Theory, Research, and Implications for Society, 130)  Þessir karlar voru herskáastir ofbeldismannanna og og lítilsvirtu konur sínar mest, að mati Jacobson.  (Dutton, Donald G. og Susan K. Golant. 1997. The Batterer: A Psychological Profile, s. 28.)

Sú vísbending að allt að fjórðungur þeirra sem berja eiginkonur sínar séu siðblindir setur meðferðarprógrömmum talsverðar skorður. Þetta er vegna þess að hegðun siðblindra verður illa haggað. Fjárhagslegur stuðningur til að reka meðferðarprógrömm er venjulega af skornum skammti og langur biðlisti eftir slíkri meðferð. Siðblindir fara líklega ekki ótilneyddir í meðferð, þeir hafa engan áhuga á að breyta hegðun sinni og þeir gera sennilega lítið annað en fylla pláss sem betur væri varið fyrir aðra.

Auk þess hafa siðblindir efalaust truflandi áhrif á svona meðferð. (Sjá Dæmi 7.) En kannski eru verstu afleiðingarnar af því að senda siðblindan í meðferð af þessu tagi sú falska öryggiskennd sem kann að vakna í  fórnarlambinu, eiginkonu árásarmannsins. „Hann er í meðferð. Hann ætti að verða skárri núna“ gæti hún hugsað og dregið enn lengur að skilja við hann. (Hare, Robert D., 1999, s. 94.)
 

Afleiðingar hjónabands eða sambúðar með siðblindum

Fórnarlamb siðblindsOft koma sterkustu andlegu viðbrögðin ekki í ljós fyrr en eftir að fórnarlamb valdníðslunnar er sloppið  úr sambandinu. Og það eykur erfiðleikana hversu algengt er að fólki sem hefur búið með siðblindum sé ekki trúað þegar það segir sögu sína. Þetta upplifir það sem nýja árás, sérstaklega af hálfu opinberra stofnana og heilbrigðisþjónustunnar. Fjölskylda, vinir, nágrannar eða kunningjar sem frétta af árásum eða áreitni eiga oft erfitt með að taka þetta trúanlegt. „Svona almennilegur og velheppnaður maður getur alls ekki hafa slegið konuna sína“ eru dæmigerð viðbrögð. Tvöfeldnin í hegðun hins siðblinda, sem oft kemur trúverðugur og jákvæður fyrir utan heimilisins, gerir utanaðkomandi erfitt fyrir að sjá í gegnum hann. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 185-188). Ekki bætir úr skák að fórnarlömbin skilja þetta ekki sjálf, þau spyrja sig í sífellu: „Hvernig gat ég verið svona vitlaus? Hvernig gat ég fallið fyrir þessari ótrúlega yfirlætislegu steypu?“ (Hare, Robert D. 1999, s. 124-125)

Konur sem sleppa úr sambandi við siðblinda þjást af ýmsum kvillum, stundum lengi á eftir. Þeirra algengastir eru:

  • Depurð og þunglyndi
  • Kvíði
  • Viðvarandi líkamlegir verkir
  • Endurupplifanir
  • Firring
  • Líkamlegir skaðar
  • Misnotkun vímuefna

(Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 177-178)

   
Næsta færsla mun fjalla um börn siðblindra. 

[Viðbót 1. febrúar 2011: Nokkur umræða er á athugasemdaþræði við þessa færslu um af hverju almennt sé haldið fram að miklu fleiri karlar en konur séu siðblindir – og ég fylgi þessari almennu skoðun í bloggfærslunum um siðblindu. Robert Hare heldur því reyndar fram að hugsanlega sé þetta vegna þess að siðblindar konur séu greindar öðruvísi vegna viðtekinna skoðana á hlutverki og framkomu kynjanna. Hann segir að ef karl og kona sýni öll kjarnaeinkenni siðblindu muni læknir líklega greina karlinn siðblindan eða með andfélagslega persónuleikaröskun en konuna með sefapersónuleikaröskun (histrionic PD) eða sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (narcissistic PD) því konan sýnir kannski fá andfélagsleg hegðunareinkenni. Ekki er ólíklegt að hún reyni að herma eftir þeirri staðalímynd kynsystra sinna sem þykir eftirsóknarverð og láti lítið fyrir sér fara, virki hlý, ástrík og undirgefin. Hare nefnir engar tölur um hlutfall siðblindra kvenna í þessu sambandi. Sjá Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 101-102. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins, New York. Bókin kom fyrst út árið 2006.]  
  
  
 

Helstu heimildir

Cooke, David J., Adelle E. Forth og Robert D. Hare. 1998. Psychopathy: Theory, Research, and Implications for Society. Kluwer Academic Publishers, Dordrecht, Hollandi. Skoðað á books.google.com. 
 

Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

Dutton, Donald G. og Susan K. Golant. 1997. The Batterer: A Psychological Profile. Basic Books, New York. (Fyrst gefin út 1995.) Skoðuð á books.google.com.

Encounters of the Psychopathic Kind 

Forward, Susan. 1988. Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem (norsk þýðing á Man who hate women and women who love them, fyrst útg. 1986).  Tilvitnanir í Forward, S. eru úr Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000.

Hare, Robert D. 1999. Without Concience. The Disturbing World of  Psychopaths Among Us. The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)

Tranberg, Peter.  Psykopati – en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett.