Dagurinn, femínistinn og bækurnar

Jósef�na öskrarÉg vaknaði við að femínisti heimilsins stóð á öskrunum við rúmstokkinn. Sennilega hefur hún staðið lengi á öskrunum því hún er femínín femínisti og heyrist lágt í henni … samt sætir hún þöggun og jafnvel út-skúfun (fer ekki nánar út í það á opinberu bloggi). Þegar ég loksins hafði mig framúr og bjóst til að bursta tennur blasti ástæðan fyrir felmtri femínistans við: Hinn einbeitti innbrotsköttur Kuskur hreiðraði um sig í baðherbergisvaskinum, sæll og glaður og síbrotalegur á svip. Ég henti honum út og róaði femínistann.

Eftir að hafa stungið út úr nokkrum kaffibollum og lesið moggann (mannsins) var kominn tími á bloggrúntinn. Blessunarlega höfðu mínir uppáhaldsbloggarar skrifað sitt lítið af hvurju, þær Vilborg og Gurrí og Eva. Ég hafði raunar lesið færslu Evu kvöldið áður og skemmt mér ágætlega við að horfa á prinsessuvídjóið, skemmti mér við að horfa á það aftur í morgun; og ég las líka færslu Gurríar í gærkvöld en það mátti alveg lesa hana aftur enda er ég eins og venjulega sammála Gurrí (deili reynsluheimi með henni) og bæti hér með við að það að hluti Flatus-lifir-veggjarins hafi fokið hefur einnegin verið þaggað niður.

Svo var að kynna sér hvernig pólitískt réttir vindar blésu í dag. Aðalhitamálið virtist vera barnabækur, bleikar og bláar, alveg eins og í gær, og virðist stutt þar til blásið verður til bókabrenna (eins og systursamtök femínísta iðkuðu í henni Amríku á níunda áratugnum).

Ég valdi “sumur [er sæll] af verkum vel” úr sæluboðorðum Hávamála fyrir daginn í dag (þetta eru ágæt geðorð, ekki verri en hver önnur) og bjó manni mínum fagurt heimili = sinnti helgarþrifum. Á meðan reikaði hugurinn þægilega til barnæsku minnar og þeirra bóka sem ég las. Valið var einfalt: Ég las lestrarfélagsbækurnar. Bækurnar komust fyrir í einu herbergi og ég hafði aðgang að lyklinum.  Á norðurhjara landsins var ekki búið að finna upp uppeldi skv. kenningum þegar ég var krakki –  bæði er langt síðan og sveitin afskekkt. Þess vegna las ég Nonnabækurnar og Percy hinn ósigrandi, Kapítólu og Karlsen stýrimann, rauðu telpnabækurnar og bláu drengjabækurnar, Tópelíuz og Tamin til kosta, Fornaldarsögur Norðurlanda og Freuchen o.s.fr. Ég man að mér var bannað að lesa Gleðisögur Balzacs og þess vegna las ég þá bók einkar vandlega … þótti hún mjög leiðinleg.  Sömuleiðis var mömmu eitthvað illa við að ég læsi Tígulgosann … þess vegna las ég Tígulgosann innan í Æskunni en því miður komst það upp. Það komst líka upp að ég faldi bækur undir rúmi þegar gerð var tilraun til að skammta mér bækur á viku vegna þess að í gildi var sú norðlenska uppeldisaðferð að börn ættu að vera úti og ekki liggja alltaf í bókum því þá yrðu þau eins og hundaskítur í framan. (Ég hef mömmu grunaða um að hafa viljað losna við krakkana smástund á hverjum degi og upplagt að láta mig passa því ég var elst fremur en hún hafi raunverulega trúað þessari hundaskítshúðlitarkenningu … árangurinn var sá að ég fékk algera andúð á útivist og krökkum og var sérlega vond við yngri systkini mín. Og faldi bækur.)

Velti því svo fyrir mér hvort synir mínir hefðu beðið skaða af því að fyrir þá var lesinn allskonar pólitískt rangur barnalitteratúr, s.s. Litli svarti Sambó og Tíu litlir negrastrákar og Tinni og Enid Blyton komplett … ég man ekki einu sinni eftir öllum óhroðanum til að telja upp. Held þeir hafi sloppið fyrir horn sálarlega séð. Og það eina pólitískt rétta í þeirra uppeldi sem ég man eftir var þegar leikskóli eldri stráksins skar upp herör gegn vopnakyns leikföngum. Einn daginn sagði krakkinn hróðugur þegar pabbi hans sótti hann á leikskólann: “Við erum búnir að skjóta allar stelpurnar í dag!” Þá höfðu þeir notað sleifar til verksins, blessaðir drengirnir í bófahasarnum … Það rættist eigi að síður úr syninum og hann heldur sig örugglega réttu megin við lögin í dag, fullorðinn.

Við erum hugmyndafræðileg gauð hér á þessu heimili, fyrir utan femínista heimilisins en mynd af henni skreytir þessa færslu. Auk femínisma leggur hún stund á mannfræði og kveðskap, s.s. sést á þessari gömlu vísu:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum;
malandi læt rímið renna;
og raula fyrir málstað kvenna.

Fock, litíum og fréttir dagsins

Þetta er svona sittafhverjutæi-færsla. Ég ætti að gera meira af því að skrifa svoleiðis, mér finnst það gaman og slakandi.

Útsaumað bréf Mettu FockÉg var að klára bókina Mercurium eftir Anne Rosman. Einhverra hluta vegna hélt ég lengi vel að mercurium væri kvikasilfur en í eftirmála kom fram að það hefði verið notað um arsenik (sem gerði söguþráðinn auðvitað mun skiljanlegri). Ein bók Rosman hefur verið þýdd á íslensku, þ.e. Dóttir vitavarðarins. Ég fékk rafbókina Mercurium lánaða í sænsku rafbóksafni en ætla mér að kaupa fleiri rafbækur eftir Anne Rosman, á dönsku (sem mér finnst þægilegra að lesa en sænsku).

Mercurium er að hluta morðsaga en sú saga er ekki sérlega áhugaverð og raunar var mér slétt sama um hver var morðinginn … kom þó gleðilega á óvart að það var sá sem lesandi grunaði síst. Aðalsagan er saga Mettu Fock og gerist í byrjun 19. aldar. Metta þessi var aðalborin en giftist einfeldingi og þurfti að vinna hörðum höndum að kotbúskap því karlinn var gagnslaus. Hún missti tvö börn og síðan eiginmanninn. Sögur komust á kreik um að Metta hefði eitrað fyrir þeim með arseniki, magnaðist söguburðurinn æ meir og loks var hún hneppt í fangelsi. Í fangelsinu átti Metta illa ævi og á endanum játaði hún á sig morðin og var líflátin þótt í Mercurium sé tekin eindregin afstaða með því að hún hafi verið saklaus.

Metta reyndi að reka sitt mál úr fangelsinu en svo fór að hún var svipt pappír og skriffærum og höfð í algerri einangrun. Þá greip hún til þess ráðs að sauma saman pjötlur úr eigin klæðum og bróderaði langt bænarbréf til yfirvalda og bað um endurupptöku málsins. Bútur úr þessu bréf sést í upphafi færslunnar, sé smellt á litlu myndina opnast síða Norræna safnsins í Svíþjóð með mynd af bréfinu bróderaða og má stækka einstaka hluta hennar. Mér finnst hugmyndaauðgi Mettu aðdáunarverð og hannyrðahæfileikar hennar líka! Því miður kom þetta að litlu haldi.

Sænskur trúbadúr, Stefan Andersson, hefur samið ballöðu um Mettu Fock. Hér er Youtube myndband af flutningi hans og hér er textinn. Ég er náttúrlega hugfangin af þessari ballöðu í svipinn, nýbúin að lesa þessa ágætu bók.

Sem stendur er ég að lesa gegnum eigið blogg, er stödd síðsumars 2006. Sumt er ótrúlega fyndið en á heildina er þetta átakanlegur lestur. Þegar ég ber saman blogg og sjúkraskýrslur verður mér æ ljósara að þetta er saga um trúgirni og afneitun, sem sagt ekki skemmtileg saga. Á hinn bóginn mun ég aldrei verða frísk nema ég kanni þessa sögu ofan í kjölinn og nái fjarlægð frá henni: Þetta er fyrstasporsvinna þunglyndissjúklings. Líklega er skynsamlegt að vinna hana hægt … en bítandi.

Ég rakst á ýmis gullkorn um lítíum í dag. Litarexi var haldið stíft að mér árum saman, rökin voru fyrst þau að lítíum stillti sveiflur og mundi þ.a.l. koma í veg fyrir djúpar þunglyndisdýfur, a.m.k. grynnka þær, seinna urðu rökin þau að ég gæti verið með geðhvarfasýki II … fyrir þeirri sjúkdómsgreiningu voru engin haldbær rök og svo var bakkað með hana enda grunar mig að geðhvarfasýki II greining hafi bara verið almennt tískufyrirbrigði á tímabili. Litarex hafði aldrei nein áhrif til bóta og miðað við fræði Joanna Montcrieff sé ég ekki betur en ég hafi verið með snert af lítíum-eitun árum saman. Má nefna þetta:

Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkrum árum, þá ég át Litíum, kvartaði ég yfir skjálftanum við minn góða lækni. Honum þótti þetta nú heldur léttvægur skjálfti þegar ég teygði út hendurnar fyrir hann. Fólk hefur sjálfsagt mismunandi skoðanir á skjálfta … en sjálfri finnst mér helv. óþægilegt að skjálfa eins og eftir þriggja daga fyllerí, að geta ekki handskrifað, að spila eins og byrjandi á pjanófortið og eiga jafnvel erfitt með að nota lyklaborð. Kann að vera að svona “nettur” skjálfti hái konum lítið ef þær konur eru einungis í húsverkum (mér finnst samt erfitt að klemma þvott á snúrur og missti faktískt aðra hverja klemmuna í morgun) – kann að vera að til sé fólk sem skelfur miklu meira og tekur því með stöku æðruleysi – en þessi bloggynja þjáist hvorki af æðruleysi í óhófi né skorti á hobbíum eða vitsmunalegri störfum en ræstingu og þvotti (nú loksins þegar vitið er að skila sér svona soldið til baka).

Hm … það mætti kannski afsaka þetta með fyrirtíðarspennu, stöðu himintungla eða öðru tilfallandi … en ég sé ekki betur sjálf en þetta sé helv. lítíumið! Nú hef ég leikið samtal við minn góða lækni og veit að hann mundi annars vegar segja mér að gefa þessu lengri tíma, upp á að aukaverkanir réni með tímanum, og hins vegar ráðleggja mér að taka Rivotril til að slá á skjálftann ef á þarf að halda. Svo myndi hann benda á að í rauninni teldist þetta nú ekki mikill skjálfti … og ég mundi fyrtast við en segja ekki neitt af því ég kann mig svo vel … Svo mundi hann segja mér líka að þéttni Litíums í blóðtökunni í morgun væri í minnsta lagi miðað við þau millimól sem æskileg þykja og ég myndi heldur ekki segja neitt við því heldur horfa veluppalin á ‘ann.
(9. júní 2006.)

Skv. doktor.is er ég aumingi með örsjaldgæfar aukaverkanir, þar segir um Litarex: “Algengast er að aukaverkanir komi fram í upphafi meðferðar en hverfi síðan af sjálfu sér. … Algengar: Ógleði, niðurgangur, tíð þvaglát, þorsti og bjúgsöfnun í líkamanum með meðfylgjandi þyngdaraukningu, þreytutilfinning í höndum og fótum. Sumir verða skjálfhentir.”
Aha, svo “sumir verða skjálfhentir”? Ég skelf öll, er nánast með munnherkjur af skjálfta, gott ef ég gæti ekki talist skjálf-fætt! Sé ekki að þetta sé mikið að lagast eftir tveggja vikna lítíum-át.

[- – -]

Nú veit ég ekki hvort björgunarhringurinn um mittið á mér er “bjúgsöfnun með meðfylgjandi þyngdaraukningu” eða út af “aukinni matarlyst og þyngdaraukningu”. Mér er reyndar slétt sama um þetta, það eina sem plagar mig verulega er helvítis skjálftinn, sem ég slæ á með róandi, sem gerir mig svo rólega að ég koðna öll niður og leggst í bælið um hábjartan daginn (reyndar hefur viðrað einkar vel til miðdegisblunda hér á suðvestur-horninu undanfarið). Úr því þessi skjálfti er svona hroðalega sjaldgæfur þá er þessi bloggynja sennilega einfaldlega svona mikill aumingi. Í mínum huga skiptir ekki máli hvort skýringin er rétt, þetta er jafn óþægilegt fyrir það.
(15. júní 2006.)

— 

Fréttir dagsins komu nokkuð á óvart, þ.e.a.s. fréttir af því að bæjarstjórnin hefði sagt upp okkar góða bæjarstjóra. Skýringin sem hann gefur sjálfur er að einhverjir bæjarfulltrúar hafi verið orðnir leiðir á honum og hann á þeim, tekið fram að ekki sé um forustumenn bæjarins að ræða (sem núllar þá út Svein Kristinsson og eitthvað af samfylkingarliðinu, reikna ég með). Mér þætti gaman að vita hvað hefur eiginlega gengið á: valtaði bæjarstjórinn yfir rangan mann í rangri stöðu í þetta sinn?

Réttlætir tjáningarfrelsi einelti?

Nornahamar fem�nistaUndanfarna daga hafa netheimar logað eins og oft gerist og kveikjan er að þessu sinni Hildur Lilliendahl eins og oft gerist.

Upphaf máls í þetta sinn var að Fr. Lilliendahl var talin ein af áhrifamestu konum landsins skv. víðlesnu kvennablaði. Í umræðuþræði við frétt af þeirri upphefð skrifaði maður nokkur ósmekkleg skilaboð gegnum fésbókina sína; skilaboð þar sem hann grínast með að keyra yfir Hildi (ég tek glottmerkið sem svo að þetta hafi átt að vera grátt gaman eða einhvers konar vantrúarkaldhæðni) og storkar henni síðan til að birta þessi ummæli í víðfrægu albúmi sínu yfir karla sem ku hata konur. Hildur tók auðvitað umsvifalaust skjámynd af skilaboðunum en lét ekki duga að koma þeim bara fyrir í albúminu sínu heldur birti úrklippuna á fésbók.

Það varð til þess að einhver gerði símaat í sambýlismanni Hildar Lilliendahl og símaatið varð umsvifalaust að frétt: Úrklippan af smekklausu skilaboðunum fylgdi fréttinni. Nú er alls óvíst hvort sami maður og skrifaði fésbókarummælin stóð einnig fyrir símaatinu en tilefni atsins var úrklippan með smekklausu ummælunum. Um leið og fréttin af því að gert hefði verið símaat í sambýlismanninum út af smekklausu ummælunum birtist linkuðu rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur í fréttina og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins mátti sjá við svoleiðis linka.

Hið næsta sem gerist er að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl í fjórða sinn. Það er í sjálfu sér ekkert sérlega dularfullt því Hildur Lilliendahl braut notendaskilmála Facebook í fjórða sinn. Það er nefnilega óheimilt að birta skjáskot af ummælum annars Facebook-notanda nema með skriflegu leyfi þess notanda. Umsvifalaust birtast fréttir á netmiðlum um að aðgangi Hildar Lillendahl hafi verið lokað í fjórða sinn, menn fara mikinn og kalla þetta pólitískar ofsóknir (af hálfu Facebook væntanlega) og aðför að tjáningarfrelsinu o.s.fr. og meðfylgjandi eru birt smekklausu ummælin sem Hildur Lilliendahl tók skjámynd af, klippti til og birti. Rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur deila nú þeim fréttum ákaft og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins og Facebook má nú sjá við svoleiðis linka.

Bloggarinn ágæti, Eva Hauksdóttir, sem er nýbúin að blogga skemmtilega færslu um nornabrennur, kyndir nú undir einni slíkri í færslunni Verjum tjáningarfrelsi Hildar Lilliendahl. Í þeirri færslu er að sjálfsögðu birt skjáskot af smekklausu ummælunum – svona ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum – og Eva hefur skrifað, hringt og efnt til undirskriftasöfnunar, allt til að verja rétt Hildar Lilliendahl til að brjóta reglur þess amríska umræðuvettvangs Facebook. Og auðvitað linka réttsýnir femíniskir fésbókarnotendur í bloggið Evu og deila á sínum fésbókum og ýmis ósmekkleg o.s.fr.

Einhverjir eru búnir að fletta upp ósmekklega skilaboðamanninum í þjóðskrá og aðrir hafa flett honum upp á ja.is. Það er bara tímaspursmál hvenær einhverjir rétthugsandi tjáningarfrelsiselskendur færa sig úr sýndarheimum í kjötheima, henda grjóti í hús mannsins, teppa símann hans með hótunum, velta honum upp úr tjöru og fiðri eða þaðan af verra. Skjáskotið af ummælum hans lifir áfram víða á vefnum. Líklega er heppilegast fyrir hann að sækja um nafnbreytingu eða flytja úr landi úr því sem komið er: Skömm þessa manns verður uppi meðan netheimar byggjast.

Hildur Lilliendahl er Pussy Riot Íslands, hlutskipti hennar er jafnvel líkt við við aðstæður rithöfundarins Salman Rushdie eða pakistönsku stúlkunnar Malala Yousafzai. Hildur sætir jafn ómaklegum ofsóknum og þau fyrir skoðanir sínar: Ósmekklegum fésbókarummælum, símaati og fésbókarlokun! Eða eins og einn aðdáandi hennar orðar það:

Hins vegar ef við notum eitthað [svo] hlutlægt mat á hvað hetja er þá væri það einmitt einhver sem stendur á sinni sannfæringu samkvæmt sinni réttlætiskennd, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til skoðanakúgunar, þöggunar og hótanir um líkamsmeiðingar og skemmdarverk. Ég fæ ekki séð hver munurinn er á Hildi í þessu sambandi og Salmon [svo] Rushdie eða Malölu, Rushdie var aðeins hótað, líkt og Hildi, er hann ekki bara paranoid?

Réttsýnir og rétthugsandi netnotendur munu væntanlega halda áfram að úthrópa manninn sem var svo vitlaus að skrifa ósmekkleg fésbókarskilaboð um Hildi Lilliendahl og leggja sitt af mörkum til þess að Fr. Lillendahl megi brjóta reglur Facebook vegna þess að málstaður hennar er svo göfugur. Ég hugsa að hinir réttsýnu og rétthugsandi séu fjarskalega mikið á móti einelti á netinu en finnist í þessu tilviki í góðu lagi að leggja sjálfir smekklausa skilaboðamanninn í rækilegt óafturkræft einelti … allt er eineltið jú í þágu hins góða málstaðar.

Að lesa um sjálfa sig

Ég er næstum búin að lesa Pillret, sænska bók sem ég hef áður minnst á og fjallar um sjúkdómsgreiningar þunglyndis- og kvíða og lyfjameðferð í sögulegu ljósi (og raunar margt margt fleira). Höfundurinn Ingrid Carlberg hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir þessa bók.

Söguleg og fræðileg umfjöllun er brotin upp af lífreynslusögum og í gærkvöldi las ég söguna Annika och tröttheten. Mér brá nokkuð við þennan lestur því þótt aðstæður Anniku hafi verið ólíkar mínum var upphaf veikinda og meðferðin sem henni var veitt kannski ekkert svo ólíkt. Saga Anniku endaði vel en mér finnst lítið hafa ræst úr minni, vonast þó til þess að ná bata með tíð og tíma.

Þetta byrjaði allt með því að Annika var örmagna af svefnleysi. Hún var einstæð móðir tveggja barna og yngra barnið með viðvarandi magakrampa vegna mjólkuróþols og óþols fyrir fleiri fæðutegundum. Þegar hún loksins leitaði á náðir heilsugæslunnar í febrúarbyrjun, eftir að hafa ekki fengið nægan svefn í meir en hálft ár, fékk hún viðtal við læknanema sem taldi hana mögulega geta verið þunglynda: Þunglyndi lýsti sér ekkert endilega í að vera niðurdregin heldur gæti komið út sem svefnleysi og að grennast, sagði læknaneminn. Annika svaf lítið og hafði grennst töluvert. Hún fékk í kjölfarið viðtal við geðlækni sem ávísaði þunglyndislyfi. Þunglyndislyfið kveikti mikinn almennan kvíða og ofsakvíðaköst. Svo Annika fékk róandi lyf við kvíðanum. En henni leið bölvanlega og hvað eftir annað leitaði hún á náðir heilsugæslu og bráðamóttöku geðsviðs á næstu vikum og mánuðum. Annika tók eftir því að nú var lítið hlustað á það sem hún hafði að segja, allt var skrifað á geðheilsu hennar, meira að segja verkir í kinnholum.

Annika byrjaði að trappa niður þunglyndislyfið í samráði við heilsugæslulækni. Þá snarversnaði henni og hún var lögð inn á geðdeild, fært í sjúkraskrá að hún þyrfti líkast til sterkari geðlyf til að ráða bót á slæmu þunglyndi. Þáverandi þunglyndislyf var trappað út og Annika sett á nýtt lyf, við útskrift var skammturinn tvöfaldaður og Annika fékk áfram róandi lyf og nú svefnlyf að auki. Hún fékk líka sjúkdómsgreiningu við útskrift: F 322 Djúp geðlægð án sturlunareinkenna.

Viku síðar margfaldaðist kvíðinn. Annika reyndi næstu mánuði að benda á að sér versnaði bara af nýja lyfinu: “I februari, när jag första gången fick medicinen, uppfyllde jag inte ett enda symtom för depression. Nu kunde jag kryssa i nåstan alla rutorna i diagnosskalorna.” Og sjálfsvígshuganir urðu æ áleitnari. Á tímabili var hún í daglegu sambandi við yfirlækni geðdeildarinnar.

Snemma í júlí leitaði Annika enn einn ganginn á bráðamóttöku og talaði við óbreyttan lækni. Sá listaði upp lyfin sem hún var nú á, allar tólf sortirnar: Meirhlutinn var geðlyf en þremur tegundir af verkjalyfjum hafði einnig verið ávísað vegna lið-og vöðvaverkja. Yfirmaður hins óbreytta bókaði í sjúkraskrá að líðan Anniku stafaði af  aukaverkunum af lyfjum og ákveðið var að trappa lyfin ansi hratt niður.

Laust eftir miðjan júlí var Annika hætt á þunglyndislyfjunum. En svona hraðri niðurtröppun fylgdi skelfilegt fráhvarf, t.d. martraðir, kvíði, óþægindi í öllum skrokknum og tilfinning eins og rafstuð í höfði. Annika fór að velta fyrir sér hvort hún væri með heilaæxli og henni fannst að legið væri að detta úr sér. Svo hún leitaði til læknis.

Í sjúkraskrá var bókað að Annika væri illa haldin af þunglyndi og hefði ranghugmyndir sem minntu á geðrof, því til sönnunar bókuð absúrd hugmyndin um legið. Og Annika var aftur lögð inn á geðdeild.

Skv. sjúkraskrá bað hún sjálf um “nýtt kraftaverkalyf”. Yfirlæknirinn sem hafði sinnt henni síðast taldi Anniku nú hafa persónuleikaröskun auk svæsins þunglyndis. Hann velti fyrir sér að setja hana á enn sterkari lyf en ákvað á síðustu stundu að reyna fremur raflækningar.

Raflækningarnar reyndust hafa mjög góð áhrif og “hin gamla Annika” leit aftur dagsins ljós. Hún náði aftur tökum á eigin lífi.

Í viðtölum við Ingrid Carlberg kemur fram að Annika leitaði aftur til læknanna eftir að henni batnaði í leit að skýringum eða afsökunarbeiðni. Yfirlæknirinn á geðdeildinni sagði henni þá að sín skoðun hefði verið að fjórfalda ætti lyfjaskammtinn, að vandinn hefði falist í því að hún tók of lítið af lyfjum. Að auki talaði hann um vandræði fólks sem gerði of miklar kröfur til sjálfs síns (en hann hafði bókað svolítið um hve krefjandi starfi Annika sinnti og að hún gerði of miklar kröfur til sín í starfi).

Annika snéri aftur til starfa, í sitt “intellektuellt krävande arbet” og hefur þrifist ágætlega í því starfi í mörg ár. Sjálf heldur hún að ef hún hefði fengið fjögurra nótta óslitinn svefn í nóvember og desember hefði hún aldrei orðið svona veik og ekki leitað til heilsugæslu í febrúar … og hún hefði þá ekki tapað hálfu ári úr lífi sínu, segir hún.

Þremur árum eftir hina erfiðu reynslu Anniku af læknisaðferðum geðlækna fékk hún greiddar skaðabætur úr sjúklingatryggingu ríkisins “för det förlängda bristerna i sjukvårdens behandling och uppföljning inneburit för henne.”

Íþaka

Þegar þú heldur af stað til Íþöku skaltu
óska þess að ferðin verði löng,
lærdómsrík og full af ævintýrum.
Óttastu ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur reiðan sjávarguð.
Ef hugur þinn dvelur við háleit efni,
ef hold þitt og andi eru snortin því besta,
þá verða slíkir ekki á vegi þínum.
Þú hittir ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur trylltan sjávarguð
nema þú berir þá sjálfur í eigin sál,
nema sál þín reisi þá upp á móti þér.

Óska þess að ferðin verði löng,
að marga sumarmorgna komir þú
með unaði og gleði í ókunnar hafnir;
að í kaupstöðum Fönikíumanna,
staldrir þú við og eignist ágæta gripi,
perlumóðurskeljar, kóralla, raf og fílabein
og þokkafullan ilm af öllum gerðum,
sem allramest af þokkafullum ilmi;
að í borgum Egypta komir þú víða
og nemir, já nemir af þeim lærðu.

Hafðu Íþöku ávalt í huga.
Að komast þangað er þitt lokatakmark.
Gættu þess samt að herða ekki á ferðinni.
Betra er að hún endist árum saman;
þú takir land á eynni gamall maður,
auðugur af því sem þér hefur áskotnast á leiðinni
og væntir þess ekki að Íþaka færi þér neitt ríkidæmi.

Íþaka gaf þér stórkostlegt ferðalag.
Án hennar hefðir þú aldrei lagt af stað.
En hún hefur ekkert meira að gefa þér.

Þótt kostarýr virðist hafði Íþaka þig ekki að fífli.
Enda ert þú orðinn svo vitur, með slíka reynslu,
að þér hefur skilist hvað Íþökur þýða.

(Konstantinos P. Kavafis 1911. Atli Harðarson þýddi.)

Ég er lögð á stað til Íþöku …

Frí

Lína langsokkur vildi fara í skóla til að geta fengið jólafrí, páskafrí og sumarfrí, ef ég man rétt. Ég skil hana mjög vel. Einn gallinn við að vera öryrki er að lífið er afskaplega tilbreytingarlaust; Öryrkjar fá aldrei frí. Fyrir manneskju eins og mig sem hef unnið fulla vinnu allt árið frá átján ára aldri eru það ansi mikil viðbrigði að þurfa að yfirgefa vinnumarkað enda sé ég óendanlega mikið eftir starfinu mínu, sem ég get ekki lengur unnið vegna veikinda.

En nú var ég svo lúsheppin að fá tækifæri til að “kenna” lítilsháttar, fyrir vinkonu mína sem þurfti að bregða sér af bæ. Þetta var nú samt frekar “pössun” en kennsla; Aðallega fólst starfið í að merkja við í kladda og sýna nemendum vídjó (sem eins og forðum gekk ekki andskotalaust fyrir sig, með batteríislausar fjarstýringar og tæknifælna mig). Frábærasti parturinn var að hitta unglinga, unglingar eru nefnilega mikið ágætisfólk. Svo var gaman að vera á kennarastofunni með gömlu vinnufélögunum. Og, síðast en ekki síst: Á morgun byrjar miðannarleyfið og þess vegna voru allir að óska öllum góðrar skemmtunar í fríinu og góðs frís. Þess vegna fannst mér þegar ég labbaði út úr skólanum í dag að ég væri komin í frí. Mikið svakalega er það góð tilfinning! (Þótt hún sé blekking …)

Ég er samt eins og undin tuska eftir pössunina. Þótt ég hafi ekkert þurft að undirbúa neitt og ekki fara yfir neitt er sennilega nokkuð langt í að mér batni nóg til að geta kennt. Samt er ég tíu sinnum frískari en á sama tíma í fyrra.

Akkúrat núna er hættulegasti tíminn geðsjúkum, að sögn þess læknis sem ég hef verið hjá í meir en áratug. Hann hefur sagt mér oftar en einu sinni að geðveikum hætti mjög til að veikjast þegar birtan breytist, haust og vor. Ég hugsa að þetta sé rétt hjá honum, hef nefnilega mörg undanfarnin ár oftast veikst um mánaðamótin september – október og verið orðin fárveik í október. En ekki núna. Eftir því sem lyfjaþokunni léttir og með því að nýta mér það sem ég lærði á HAM-námskeiðinu fyrir stuttu tekst mér að vera sæmilega frísk, raunar finnst mér í samanburði við undanfarin ár að ég sé bara helv. frísk!  Svo tek ég einn dag í einu og fyrir hvern dag sem mér líður nokk normal er ég óendanlega þakklát.

Og nú er ég sem sagt komin í frí 🙂

Haldið framhjá Kindlinum

Nú hefur Kindillinn minn legið meira og minna á hillu undanfarnar margar vikur. Sem er auðvitað sorglegt miðað við hve mikla ást ég hef fest á gripnum.

Ég datt sumsé í pappírsbækur. Fallið byrjaði með tveimur hnausþykkum bókum eftir Jussi Adler-Olsen, uppáhaldið mitt. Ég tók að mér að vera “pössunarpía” fyrir vinkonu mína, þ.e. leysa hana af í kennslu nokkra daga, einhvern tíma snemma í september. (Þetta var nú ekki kennsla þannig lagað, ég fékk allt upp í hendurnar og þurfti ekki fara yfir neitt, bara mæta í tímana, merkja við og passa að nemendur ynnu.) Kennari þar varð áskynja aðdáunar minnar á Adler-Olsen og lánaði mér Flaskepost fra P og Journal 64, sem ég gleypti í mig.

Skömmu síðar bárust pappírseintökin sem ég neyddist til að panta frá Amazyni af því önnur bókanna var bara til á pappír, rafbókaútgáfan af hinni bara til sölu í Amríku. Þetta voru bækur sem snertu geðlækningar, The Myth of the Chemical Cure og Unhinged; Las þá síðarnefnu spjaldanna á milli en hina svona í pörtum.

Stuttu síðar var mér bent á enn eina ágætis bókina um svipað efni sem til væri á bókasafni Norræna hússins. Það er bókin Pillret. En berättelse om depressioner och doktorer, forskare och Freud, människor och marknader eftir blaðamanninn Ingrid Carlsberg (útg. 2008). Innan á bókakápu er ýmislegt hrós, þ.á.m. staðhæfir lyfjafræðiprófessor að bókin sé “En formidabel thriller!” Nú er ég hálfnuð með bókina (hún er ansi löng) og verð að taka undir þessi orð: Þessi bók um þunglyndi, lyf og geðlækningar er nefnilega æsispennandi, gefur góðri morðsögu lítið eftir. Sá sem benti mér á hana skrifaði sjálfur bloggfærslu um hana á sínum tíma og ég vísa bara í bloggfærsluna hans vilji menn kynna sér bókina (sem ég verð vel að merkja með í láni í tvær vikur í viðbót). Sjá Bókarýni: Frábær bók um geðlyf! eftir Einar Karl Friðriksson. Það tefur svo lesturinn nokkuð að ég er alltaf að kíkja í tilvísana- og heimildaskrárnar …

Ég uppgötvaði að mig bráðvantaði bókina Alverdens strikning eftir Ann Möller-Nielsen (útg. 1988). Hafði upp á eintaki til sölu með hjálp Gúguls frænda og hugmyndaauðgi bóksalans (sem ekki var með kreditkortaþjónustu) varð til þess að við ákváðum að skiptast á gjöfum, ég og hann. Svo fékk ég bókina að gjöf og þurfti að lesa hana upp til agna samstundis … vitaskuld á pappír. Þessi bók á eftir að nýtast mér afar vel í prjónasögublogg, sem ég tek aftur til við þegar ég hef bloggað eina færslu enn til að klára yfirferð yfir þunglyndislyfjapakkann.

Nú, í ofanálag hef ég dottið inn á ýmis bókasöfn undanfarið, er með heilan haug af hannyrðafræðum af bókasafninu í Kennó og nokkrar af bókasafninu hér á Skaga, hef stillt mig um að fá lánað á Þjóðarbókhlöðu þótt ég hafi rekið þar inn nefið vikulega og gramsað í ýmsu. M.a. er hér í hillu hálflesin Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur, sem er mjög skemmtileg og vel skrifuð og ég ætla örugglega að klára. Ég fékk líka lánaða bókina hans Óttar Guðmundssonar, sem ég hef lesið ýmislegt skemmtilegt eftir, Hetjur og hugarvíl. Las kaflann um Njálu en þótti ekki mikið til koma og ákvað að skila bókinni með restinni ólesinni. Nú er ég nefnilega hætt að klára bækur sem mér finnast leiðinlegar. (Af sömu ástæðu lagði ég Fifty Shades of Gray á Kindilhilluna eftir 40 lesin prósent, sú bók sameinaði það að vera einstaklega illa skrifuð og margauglýst erótíkin svo ómerkileg að ég roðnaði næstum yfir að lesa þessa hörmung.)

Í Kindlinum er hálflesin Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Nordahl. Ég mun örugglega klára hana því þetta er helvíti góð bók! Hins vegar held ég að ég hendi hinni hálflesnu bókinni, sögunni um hvernig Liza Marklund og Mia Eriksson hagræddu sannleikanum ansi mikið í bókunum sem þær skrifuðu og slógu í gegn. Vissulega er áhugavert hvernig hægt er að teygja og toga hlutina og ljúga duglega í þokkabót og selja svo metsölu … en bókin er alltof langdregin og ég nenni ekki einu sinni að gá hvað hún heitir. Líklega eru hundraðogeitthvað bækur í Kindlinum svo það er ekki eins og ég sé að ljúka lestri í bili … en hann liggur sem sagt í hillunni. Og enn á ég eftir að calibra bók sem mér áskotnaðist fyrir stuttu, um geðveiki og vestrænar læknisaðferðir við henni …

Það tefur mig líka frá lestri að vera þokkalega hress. Það er ótal margt sem mig langar til að gera á hverjum degi og um að gera að láta það eftir sér meðan heilsan er með skásta móti. Svo reyni ég líka að vinna í því að halda heilsunni áfram með skásta móti, t.d. er nauðsynlegt að arka 6-8 kílómetra á hverjum degi (veit ekki hvort það virkar eitthvað gegn þunglyndi en það skaðar a.m.k. ekki); segi já við öllum samkomum og uppákomum (á HAM-námskeiðinu greip ég ráðlegginguna að það væri slæmt fyrir þunglynda að vera í félagsskítafélaginu … fín ráðlegging og við skulum vona að hún virki): Satt best að segja held ég að ég sé búin að gera meira undanfarna tvo mánuði en samanlagt tvö árin á undan.

Þetta er bloggað beint af augum … og ég nenni ekki að blogga um dægurmál frekar en venjulega enda er offramboð á svoleiðis bloggum, mjög misjöfnum að gæðum. 

Klínískar leiðbeiningar sem ekki er farið eftir

Í Klínískum leiðbeiningum um þunglyndi og kvíða sem Landspítalinn gaf úr í ágúst 2011 er í öllum tilvikum nema alvarlegu þunglyndi mælt með sálfræðimeðferð (hugrænni atferlismeðferð) sem fyrsta úrræði við þunglyndi og kvíða og lyfjagjöf einungis talin forsvaranleg virki sálfræðimeðferð ekki. Við alvarlegu þunglyndi er í þessum leiðbeiningum mælt með að bjóða sjúklingi hugræna atferlismeðferð og SSRI-lyf samtímis. Meginmarkmið klínískra leiðbeininga, sem byggja jafnan á gagnreyndri læknisfræði, er að bæta gæði og auka skilvirkni og jafnræði í heilbrigðisþjónustu. Hinar íslensku Klínísku leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða eru sniðnar eftir klínískum leiðbeiningum NICE (National Institute for Clinical Excellence), breskrar heilbrigðisstofnunar.

Á Norðurlöndunum má finna svipaðar leiðbeiningar:

Í Svíþjóð gilda Nationella riktlinjer för vård vid depression och ångestsyndrom. Svíar eru ofurlítið hlynntari þunglyndislyfjagjöf en sjá má í íslensku klínísku leiðbeiningunum.

Í Danmörku hafa ekki verið gefnar út klínískar leiðbeiningar um þunglyndi sem öllum í heilbrigðiskerfinu  er gert að fara eftir (slíkar leiðbeiningar um meðhöndlun geðsjúkdóma eru í vinnslu) en ábendingar hafa verið gefnar út, Referenceprogram for unipolar depression hos voksne. Þessar ábendingar  eru svipaðar íslensku klínísku leiðbeiningunum þegar kemur að vægi sálfræðimeðferðar og lyfjagjafar í meðferð þunglyndis.

Í Noregi heita klínísku leiðbeiningarnar Nasjonale retningslinjer for diagnostisering og behandling av voksne med depresjon i primær- og spesialisthelsetjenesten. Efnislega eru þær samhljóða þeim íslensku, þ.e. hampa sálfræðimeðferð sem fyrsta kosti við lækningu þunglyndis. Þær skera sig úr hvað varðar áherslu á að sjúklingurinn fái ævinlega að velja meðferðarkost og að hann sé rækilega upplýstur um alla möguleika, þ.á m. kosti og galla. Tilvísanir í heimildir og ítarleg heimildaskrá er til fyrirmyndar, miklu betri en í dönsku og sænsku leiðbeiningunum. Í íslensku leiðbeiningunum eru engar heimildatilvísanir.

HAMSeint í fyrra birtist greinin Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnum í Læknablaðinu. Höfundar hennar eru þrír sálfræðingar og einn geðlæknir. Í þessari grein er ítarlega fjallað um rannsóknir á HAM (hugrænni atferlismeðferð). „Í greininni kemur fram að HAM gagnast vel við þunglyndi, almennri kvíðaröskun, skelfingarkvíða, áfallastreituröskun, áráttu- og þráhyggju, félagsfælni og sértækri fælni. Árangur af HAM við meðferð þessara raskana er í flestum tilfellum sambærilegur eða betri en árangur lyfjameðferðar en aðgengi er lakara“ segir í ágripi greinarinnar.
 

Þrátt fyrir afar jákvæða umfjöllun um HAM (hugræna atferlismeðferð) þegar gagn hennar er borið saman við gagn af þunglyndislyfjagjöf og þær flottu klínísku leiðbeiningar sem geðsvið Landspítalans flaggar  er það væntanlega almenn reynsla þunglyndissjúklinga að vera ávísað þunglyndislyfi um leið og sjúkdómsgreining fæst.  Á þeirri geðdeild sem ég hef oft legið er ekki boðið upp á hugræna atferlismeðferð, þar snýst flestallt um lyfjagjöf. Á árum áður minnist ég þess að sálfræðingur kom inn á deildina og hægt var að fá viðtal við hann, þótt ekki væri boðið upp á HAM meðferð. Síðast þegar ég lá á geðdeild, í sjö vikur síðla árs 2010, varð ég ekki vör við sálfræðing nema á göngum geðdeildarhússins. Þrátt fyrir fögur orð um fjölþætta meðferð í svoleiðis móttökugeðdeildum, sem sniðin sé að þörfum sjúklinga og aðstandenda þeirra, og að áhersla sé lögð á að „greina líffræðilega, sálræna og félagslega þætti sem stuðla að veikindum og heilbrigði“ er það mín reynsla af mörgum innlögnum að læknismeðferðin sé fyrst og fremst lyfjameðferð eða raflækningameðferð.
 

Viðtal við sálfræðing á stofu kostar a.m.k. 10-12 þúsund krónur. Sjúkrasjóðir flestra stéttarfélaga styrkja viðtalsmeðferð við sálfræðing að einhverju marki en það gefur auga leið að öryrkjar á bótum frá Tryggingastofnun hafa ekki efni á svoleiðis þjónustu.

Á göngudeild geðsviðs Landspítalans er hægt að panta viðtal við sálfræðing og sú þjónusta er niðurgreidd af Sjúkratryggingum ríksins, eins og viðtöl við geðlækna. En á göngudeildinni eru einungis þrjú og hálft stöðugildi sálfræðinga svo biðin eftir viðtali getur orðið mjög löng. Geðsvið hefur boðið upp á grunnnámskeið í HAM við þunglyndi og kvíða í nokkur ár. Þau námskeið eru ekki auglýst nema í Geðdeildarhúsinu, t.d. er þeirra ekki getið á heimasíðu geðsviðs. (Kannski eru þau auglýst á einhverjum heilsugæslustöðvum, a.m.k. vona ég það.) Ég hef nýlokið svona námskeiði og mæli eindregið með því. Tilvísun frá heimilislækni, sálfræðingi eða geðlækni þarf til að skrá mann á námskeiðið og það kostar ekki mikið. Vegna manneklu í röðum sálfræðinga á göngudeild geðsviðs er ekki hægt að bjóða upp á sérhæfð framhaldsnámskeið í HAM, t.d. við þunglyndi eða kvíða.
 

Niðurstaða mín er að Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða séu skynsamlegar en það sé hins vegar ekkert farið eftir þeim og þær því vita marklaust plagg.
 

Heimildir

Frá Landlæknisembættinu. Erlendar klínískar leiðbeiningar. Læknablaðið 1. tbl. 89. árg. 2003.

Gæði læknisþjónustu aukin með vefi um klínískar leiðbeiningar. Læknablaðið 5. tbl. 87 árg. 2001.

Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða. Landspítali Háskólasjúkrahús ágúst 2011.

Magnús Blöndahl Sighvatsson o.fl.  Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnum. Læknablaðið 11. tbl. 97. árg. 2011.

Nationella riktlinjer för vård vid depression och ångestsyndrom. Socialstyrelsen í Svíþjóð 2010, sjá einkum s. 34-45.

Nasjonale retningslinjer for diagnostisering og behandling av voksne med depresjon i primær- og spesialisthelsetjenesten. Helsedirektoratet í Noregi, maí 2009. Sjá einkum s. 50-63.

Referenceprogram for unipolar depression hos voksne. Sundhedsstyrelsen í Danmörku, nóvember 2007.
 
 

Afstaða evrópskra geðlækna til þunglyndislyfja

Í yfirlýsingu Evrópsku geðlæknasamtakanna um gagnsemi þunglyndislyfja við einpóla þunglyndi (Position statement of the European Psychiatric Association (EPA) on the value of antidepressants in the treatment of unipolar depression) sem birtist á netinu seint í nóvember 2011 og í prentaðri útgáfu í janúar 2012 er tekin eindregin afstaða með þunglyndislyfjagjöf umfram aðra kosti. Þetta er langt plagg en líklega gefur það þokkalega mynd af málflutningnum að telja upp heiti undirkafla. (Af því yfirlýsingin er skrifuð á „evrópskri embættismannaensku“ er orðalag stirt og klúðurslegt og sér þess merki í þýðingunni.) Plaggið skiptist svona í undirkafla:

 

1. Kynning
2. Bakgrunnur: Algengi og afleiðingar einpóla þunglyndis í Evrópu og helsti vandi við að greina og meðhöndla það
3. Flóknar orsakir og birtingarmyndir þunglyndis og hvernig það tengist einstaklingsbundinni svörun [við læknismeðferð] og einnig flókinni og einstaklingsmiðaðri meðferð við þunglyndi
4. Gagn þunglyndislyfja er vel sannað og þau eru almennt örugg og þolast vel
5. Gagn þunglyndislyfja skiptir máli í læknisfræðilegri meðferð
6. Vitnisburður um viðbótarmeðferð með þunglyndislyfjum samkvæmt flókinni meðferðarúrræðaáætlun
7. Þunglyndislyf virka almennt til bóta gegn sjálfsvígsáformum en undir ákveðnum kringumstæðum geta þau haft neikvæð áhrif
8. Einstaklingsmiðaðar læknisfræðilegar ákvarðanir í meðferð þunglyndis
9. Niðurstöður

Lyfjaáróður Almennt má segja að þunglyndislyfjagjöf sé hampað mjög í þessari yfirlýsingu. Langt mál fer í að bera brigður á niðurstöður Kirsch o.fl. um lyfleysuáhrif í þunglyndislyfjaprófunum en einnig er bent á að sálfræðimeðferð hvíli á ótraustum grunni, t.d. séu engar tvíblindar rannsóknir til á gagnsemi HAM (hugrænnar atferlismeðferðar). Hvernig höfundar yfirlýsingarinnar hugsa sér að hægt sé að framkvæma slíka rannsókn er ekki útskýrt. Þunglyndislyf eiga ávallt við, hvort sem þunglyndi er vægt eða alvarlegt, og þær útgefnu klínísku leiðbeiningar í Evrópu sem segja annað eru einfaldlega rangar. Gæta beri þess að gefa ekki of litla skammta af þunglyndislyfjum.

Auk þunglyndislyfjagjafar eru höfundar ákaflega hlynntir því að notuð séu önnur geðlyf meðfram, til að auka læknandi áhrif. Mælt er með „raðmeðferð“ (sequential therapy), þ.e. að prófa ný og ný þunglyndislyf ef fyrsta lyf virkar ekki, og samsettri [lyfja]meðferð. Samsetta lyfjameðferðin er t.d. að gefa tvö þunglyndislyf úr ólíkum lyfjaflokkum saman (sem dæmi er nefnt SSRI-lyf og Míron) og að gefa sefandi geðlyf sem einkum eru notuð við geðklofa, lítíum (einkum notað við geðhvarfasýki) eða skjaldkirtilshormón samfara þunglyndislyfi. Önnur samsett meðferð er t.d. að veita sálfræðimeðferð með, nota ljósameðferð, raflækningar eða aðra meðferð sem örvar heilann.

Rökin fyrir að skipa lyfjameðferð hæstan sess í meðferð þunglyndis eru að klínísk reynsla sýni að þetta virki. Klínísk reynsla er hins vegar ekki sérstaklega skilgreind og raunar tekið fram að hún sé ekki mælanleg í rannsóknum.

Það er mjög athyglisvert að skoða tengsl höfunda yfirlýsingarinnar við lyfjafyrirtæki. Aðalhöfundurinn, Hans-Jürgen Möller, virðist hafa þegið greiðslur frá og gegnt ýmsum stöðum fyrir öll þau lyfjafyrirtæki sem manni detta í hug í fljótu bragði og framleiða geðlyf. Hinir höfundarnir hafa þegið allt frá ferða- og uppihaldsstyrkjum frá svoleiðis fyrirtækjum upp í að vera næstum eins á hatti með þeim og Möller. Þótt tekið sé fram að lyfjafyrirtæki hafi ekki styrkt gerð þessarar yfirlýsingar er ómögulegt að halda að hún sé skrifuð af hlutleysi þegar hagsmunatengslin eru skoðuð. Ekki kemur fram á hve löngu tímabili bitlingarnir voru þegnir.

Ég veit ekki hvort Geðlæknafélag Íslands er aðili að Evrópsku geðlæknasamtökunum en Hans-Jürgen Möller var sérstaklega auglýstur fyrirlesari á Vísindaþingi Geðlæknafélags Íslands 23. og 24. apríl 2010. Hann flutti þar erindi um stöðu og framtíð geðlækninga.
 

Í næstu færslu skoða ég klínískar leiðbeiningar geðsviðs Landspítalans um meðferð þunglyndis og kvíða, sem ekki er farið eftir á geðsviði Landspítalans, og tæpi á mismunandi sjónarmiðum í lyfjagjöf við þunglyndi í örfáum íslenskum greinum.
 
 
 
 

Virka þunglyndislyf til skaða?

Primum non nocere og mynd af HippokratesiÁ síðustu árum hafa heyrst æ háværari raddir um að þunglyndislyf geti beinlínis valdið því að þunglyndi versni. Það er útaf fyrir sig nógu slæmt að heyra af því að vísindalegur grunnur undir þessi lyf sé því miður í algerum molum og að líklega virki þau sáralítið betur en hveitipillur á þunglyndi (sbr. síðustu tvær færslur); verra er ef lyfin gera sjúkdóminn þungbærari.

Aukaverkanir þunglyndislyfja ætti að vera óþarft að rekja, það eru það margir sem kannast mætavel við svoleiðis aukaverkanir. Aukaverkanir eru mismunandi eftir lyfjategundum og einstaklingsbundið hve mikið fólk finnur fyrir þeim. Algengar aukaverkanir af þeim flestum er kyndeyfð og „að finnast maður vera flatur“, þ.e. að tilfinningar dofni mjög. Af lífshættulegum aukaverkunum má nefna aukna hættu á sjálfsvígi, einkum í upphafi meðferðar. Þegar beitt er fjöllyfjagjöf, eins og oftast tíðkast sé sjúklingur álitinn þunglyndur að ráði, getur samspil þunglyndislyfja og annarra lyfja haft lífshættu í för með sér. (Sjá t.d. greinarnar Lyfjaspurningin: Of mikið serótónín í heilanum? og Lyfjaspurningin. Geta milliverkanir lyfja leitt til lengingar á QT-bili? í Læknablaðinu 2010 og 2012.)
 

Giovanni A. Fava hefur skrifað margar greinar um þann skaða sem þunglyndislyf kunna að valda, einkum þann að þau kunni að gera þunglyndið verra. Í grein hans og Emanuela Offidania sem birtist í ágúst 2011 segir að þótt þunglyndislyf sýni góða verkun á þunglyndiskast [Fava veltir ekki fyrir sér hvort sú góða verkun sé lyfleysuáhrif] virki þau síður við endurtekinni djúpri geðlægð eða sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn því að sjúklingi versni aftur. Menn héldu áður að sjúklingar sem tækju þunglyndislyf tímabundið (hættu töku þess innan hálfs árs) biðu lítinn skaða af en í rannsókn sem Helga Garðarsdóttir o.fl. hafi birt 2009 sýni sig að enginn munur er á þeim það gerðu og þeim sem tóku þunglyndislyf helmingi lengur: Sama hætta er á að veikjast aftur. Líkurnar á að veikjast aftur hækka svo um 23% taki fólk þunglyndislyf í meir en ár skv. þeirri rannsókn.

Fava telur að þegar þunglyndislyfjum er ávísað í meir en hálft ár (6-9 mánuði) hverfi klínísk verkun lyfsins vegna þess að boðefnakerfi heilans hefur þá lært að vinna gegn þeim. Auk þess sé hætta á að vægt þunglyndi breytist í illvígt meðferðarþolið þunglyndi séu lyfin tekin lengi. Þegar þunglyndislyfjagjöf er hætt eftir svo langan tíma geta fráhvarfseinkenni og viðbrögðin sem lyfin kveiktu í boðefnakerfi heilans hrint af stað nýju þunglyndiskasti. Því meir sem lyfjaskammtar séu hækkaðir og því oftar sem skipt er um þunglyndislyf því meiri eru líkurnar á að sjúkdómurinn versni.
 

Í tveimur nýlegum greinum, sem þróunarsálfræðingurinn Paul W. Andrews er aðalhöfundur að er annars vegar rækilega útskýrt hvaða áhrif þunglyndislyf hafa á heilann og hvernig þau áhrif geti verið til ýmiss skaða, jafnvel valdið óafturkræfum skaða (sjá Primum Non Nocere: An Evolutionary Analysis of Whether Antidepressants Do More Harm than Good) og hins vegar sýnt fram á með safnrannsókn (meta-analysis) að þunglyndislyf tefja bata og kunna að ýta undir endurtekin þunglyndisköst. (Sjá Blue Again: Perturbational Effects of Antidepressants Suggest Monoaminergic Homeostasis in Major Depression). Báðar þessar greinar eru mjög langar og á köflum ansi þungur texti fyrir fólk eins og mig sem hefur takmarkaða þekkingu á efnafræði og tölfræði. (Auk þess er ég ósammála þróunarfræðilegu skýringunni á þunglyndi sem Andrews hampar.) En í þeim er gerð mjög rækileg grein fyrir efninu og vísað í fjölda heimilda sem koma að gagni vilji menn kynna sér skaðleg áhrif þunglyndislyfja á heilann eða rannsóknir sem sýna að þunglyndislyf geti ýtt undir það að sjúklingi elnar sóttin.

Í síðarnefndu grein Andrews o.fl., Blue Again: Perturbational Effects of Antidepressants Suggest Monoaminergic Homeostasis in Major Depression, segir að „mótstöðuþol“ (oppositional tolerance) myndist þegar þunglyndislyf raska taugaboðefnakerfi heilans. Þegar lyfjatökunni er hætt kemst taugaboðefnakerfið ekki sjálfkrafa í jafnvægi. Því meiri áhrif sem þunglyndislyf hafa á taugaboðefni því harðari verða röng viðbrögð taugaboðefniskerfisins þegar áhrifa lyfjanna gætir ekki lengur. Þessi sannindi séu samt engan veginn vísbending um að eitthvað hafi í upphafi verið bogið við taugaboðefnakerfi í heilum þunglyndra. Ef á hinn bóginn skyldi vera eitthvað til í boðaefna-ójafnvægiskenningunni væri líka hægt að skýra hvað þunglyndislyf virka takmarkað með þessu mótstöðuþoli, boðefnakerfi heilans lærir nefnilega að vinna gegn lyfjunum. (Hvernig það gerist er ítarlega skýrt í hinni greininni, Primum Non Nocere …)

Andrews og félagar fóru yfir fjölda rannsókna á því í hve miklum mæli fólk veikist aftur þegar það hættir á þunglyndislyfi borið saman við fólk sem hættir á lyfleysu. Þeir vitna í margar rannsóknir sem þeir telja sýna að þunglyndissjúklingum sem ekki taka lyf batnar miklu hraðar en þeim sem taka þunglyndislyf. Meðallengd djúprar geðlægðar er 12-13 vikur taki sjúklingur ekki þunglyndislyf, skv. þessum rannsóknum (sem eru ekki nýjar af nálinni enda líklega erfitt nú að finna þunglyndissjúklinga sem ekki er ávísað lyfjum). Þunglyndislyf byrji ekki að virka fyrr en eftir nokkrar vikur og yfirleitt eru sjúklingar látnir taka þau mánuðum saman. Þetta bendi til þess að þunglyndislyfjamerðferð tefji fyrir sjálfkrafa bata í þunglyndiskasti. (Pasternak o.fl., sem margir vísa til, drógu þá ályktun af sinni rannsókn að meðallengd djúprar geðlægðar væri 23 vikur ef sjúklingar tækju þunglyndislyf.)

Þeir nefna að þunglyndissjúklingum sé í sívaxandi mæli ávísað ýmiss konar öðrum geðlyfjum með þunglyndislyfjum til að auka áhrif þeirra. Að mati Andrews og félaga ruglar þetta boðefnakerfi heilans enn meir sem gæti enn aukið hættuna á bakslagi þegar lyfjatöku er hætt.
 

Þeir sem hallast að því að niðurstöður rannsókna hafi takmarkað gildi þegar klínísk reynsla segi annað (eins og t.d. er marghamrað á í nýlegri yfirlýsingu Evrópsku geðlæknasamtakanna um gagnsemi þunglyndislyfja) hefðu gott af því að lesa grein geðlæknisins Joanna Moncrieff, Why is it so difficult to stop psychiatric drug treatment? It may be nothing to do with the original problem frá 2006 því þar vitnar hún oft í sína klínísku reynslu (auk ýmissa rannsókna). Af þeirri reynslu megi draga þá ályktun að það sé afar erfitt að hætta á geðlyfjum, jafnvel þótt niðurtröppun sé hæg. Hún fjallar síðan um ýmis geðlyf, þ.á.m. þunglyndislyf, og kemst að þeirri niðurstöðu að hvers kyns íhlutun í taugaboðefnakerfi heilans geti haft alvarleg eftirköst. Þegar sjúklingur hættir á lyfjum og veikist sé það oftar en ekki fráhvarfseinkenni eða önnur afleiðing af lyfjagjöfinni en ekki að sjúkdómurinn brjótist fram á ný. Í bókinni The Myth of the Chemical Cure fer hún miklu dýpra í efnið og vísar til fjölda rannsókna en meginniðurstaðan er hin sama.
 

Sú litla bót sem ég kann að hafa haft af þunglyndislyfjum í minni sjúkdómsgöngu eru líklega lyfleysuáhrif og þau heldur léleg. Og þegar ég byrjaði að kynna mér þunglyndislyf fyrir skömmu taldi ég að þau hefðu verið tiltölulega meinlaus miðað við mörg önnur þau lyf sem mér hafa verið ávísað.  En eftir að hafa lesið mér til og skrifað þrjár færslur um efnið hafa nú runnið á mig tvær grímur hvað þetta varðar. Hvað áhrif ætli stöðugt hringl með þunglyndislyfjategundir hafi haft í gegnum tíðina? Hvað eftir annað var ég látin snögghætta á einu þunglyndislyfi, því það reyndist ekki virka eða virkaði einungis mjög tímabundið, og byrja á öðru. Og oft voru lyfjaskammtarnir talsvert hærri en ráðlagðir dagskammtar.

Eina þunglyndislyfið sem ég man almennilega hvernig var að hætta á var það fyrsta, Seroxat (SSRI-lyf). Mér var ávísað því þegar ég veiktist fyrst, 1998, og tók það í tvö ár. Þá var ég hætt að þola þetta lyf, fékk hroðalega óþægilega fótaóeirð sem gerði það að verkum að ég átti mjög erfitt með að sofna. Mér leið illa skv. útfyllingu á Beck’s þunglyndiskvarðanum (en ég hef miklar efasemdir um gagnsemi þess kvarða núna) og var uppálagt að snögghætta á Seroxati og snöggbyrja á Remeron (heitir núna Míron og er ekki SSRI-lyf). Vikurnar á eftir upplifði ég eitthvað sem líktist mest fyrirtíðarspennu ættaðri úr helvíti: Ég hefði getað drepið mann og annan! Mér finnst ekkert skrítið þótt óvirkir alkar falli þegar þeir eru látnir snögghætta á Seroxat, eins og ég veit nokkur dæmi um, áhrifin eru þannig. Seinna meir var ég látin byrja aftur að taka Seroxat af því Míronið hafði þá aukaverkun að stytta tíðahring um viku og kannski gæti Seroxatið slegið á það … nú eða fyrirtíðarspennu sem Míronið magnaði upp … og svefnlyf löguðu aukaverkunina spennu og óeirð af Seroxati … og svo hætti Míron að virka … og svo framvegis.

Myndin sýnir Hippokrates frá Kos og þau frægu orð Primum non nocere (Umfram allt skaða ekki) sem Hippokrates sagði ekki. Í upprunalegum eiðstaf þeim sem kenndur er við Hippokrates og útskrifaðir læknanemar í Vesturlöndum sóru við segir: „Διαιτήμασί τε χρήσομαι ἐπ’ ὠφελείῃ καμνόντων κατὰ δύναμιν καὶ κρίσιν ἐμὴν, ἐπὶ δηλήσει δὲ καὶ ἀδικίῃ εἴρξειν.“, orðrétt: „Ég mun nota mataræði [lækningar] til að aðstoða þá sjúku eftir því sem ég hef mátt og dómgreind til og einnig halda mig frá því að skaða heilsu og [halda mig frá] óréttlæti.“ Í þeirri útgáfu Hippokratesareiðsins sem íslenskir læknar undirrita nú hefur þetta verið umorðað í „að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi.“ Annars staðar er haft eftir Hippokratesi „ἀσκέειν, περὶ τὰ νουσήματα, δύο, ὠφελέειν, ἢ μὴ βλάπτειν eða „Hvað varðar lækningu/hjúkrun við sjúkdómum, [þarf að hafa] tvennt [í huga], gjörið gagn, spillið/skaðið ei.“

Heimildir
 

Andrews, Paul W. o.fl. 2011. Blue Again: Perturbational Effects of Antidepressants Suggest Monoaminergic Homeostasis in Major Depression. Frontiers in Psychology 2. árg.

Andrews, Paul W. o.fl.  2012. Primum Non Nocere: An Evolutionary Analysis of Whether Antidepressants Do More Harm than Good. Frontiers in Psychology 3. árg.

Fava, Giovanni A. og Emanuela Offidania. 2011. The mechanisms of tolerance in antidepressant action. Progress in Neuro-Psychopharmacology and Biological Psychiatry 35:5 , s. 1593–1602.

Gardarsdottir, Helga o.fl. 2009. Duration of Antidepressant Drug Treatment and Its Influence on Risk of Relapse/Recurrence: Immortal and Neglected Time Bias. American Journal of Epidemiology 170:3, s. 280-285.

Elín I. Jacobsen, Einar S. Björnsson. 2010. Lyfjaspurningin: Of mikið serótónín í heilanum? Læknablaðið 12. tbl. 96.árg.

Elín I. Jacobsen, Einar S. Björnsson. 2012,  Lyfjaspurningin. Geta milliverkanir lyfja leitt til lengingar á QT-bili? Læknablaðið 10. tbl. 98. árg.

Herrell, Howard. 2000.  The Hippocratic Oath: A Commentary and Translation. Utilis.net.

Middleton, Hugh og Joanna Moncrieff.  2011. ‘They won’t do any harm and might do some good’: time to think again on the use of antidepressants? British Journal of  General  Practice. 1:61(582), s. 47–49. [Tímaritið hét áður The Journal of the Royal College of General Practitioners.]

Moncrieff, Joanna. 2006. Why is it so difficult to stop psychiatric drug treatment? It may be nothing to do with the original problem. Medical Hypotheses.[Greinin hefur átt að birtast í 68. árgangi þessa tímarits en ég fann einungis fyrirfram birta vefgrein þar sem tölublaðs og árgangs er ekki getið.]

Moncrieff, Joanna og David Cohen. 2006.  Do Antidepressants Cure or Create Abnormal Brain States? PLOS Medicine 3(7): e240.

Moncrieff, Joanna. The Myth of the Chemical Cure. A Critique of Psychiatric Drug Treatment. 2008.

Primum non nocere á Wikipedia.

Posternak o.fl. 2006. The naturalistic course of unipolar major depression in the absence of somatic therapy. Journal of Nervous & Mental Disease 194:5, s. 324-329.
Ekki er auðvelt að finna greinina í opnum aðgangi og  hér er krækt í skannaða útgáfu á síðu Robert Withaker.

Stefán B. Sigurðsson. 2006.  „Hvernig hljómar eiðurinn sem læknar sverja?“. Vísindavefurinn 24.3.2006.