Geð, sál, líkami, staðalímynd

Ég ákvað að hverfa til upphafsins og blogga af fingrum fram, örsnöggt … eins og í gamla daga … vangaveltur en ekki heimildablogg.

Undanfarið hef ég verið að reyna að fá einhverja yfirsýn yfir 12 ára sjúkrasögu mína, kannski öllu heldur yfirsýn yfir “lækningasögu” þessarar löngu þrautagöngu. Af því stór hluti þessara ára er í blakkáti og minnistruflanir hrjá mig töluvert reyndi ég að fara skipulega gegnum sjúkraskýrslur, setja upp aðalatriðin í töflu og fletta svo upp frekari upplýsingum á eigin bloggi (sem kemur í ljós að er ómetanleg gagnageymsla).

Ég er sosum ekki komin að neinni niðurstöðu ennþá, á eftir að vinna úr skipulegu töflunni. En mig langar að setja fram tvær tilgátur sem ég á eftir að skoða hvort standist: Geðlækningabatteríið virðist í fyrsta lagi greina sál frá líkama og í öðru lagi byggja á eigin kennisetningum fremur en veikindum sjúklings. Þessar bráðabirgðaniðurstöður komu mér mjög á óvart. Fyrirfram bjóst ég við að sálfræðingar væru kannski frekar á vængnum “sál” versus “líkami” en læknismenntaðir litu frekar á heildina. (Til að rugla mann í ríminu er í tísku að hampa sálfræði sem raunvísindum, þ.e. leggja ofuráherslu á tækni í sálfræðimeðferð, yfirleitt byggðri á atferlisfræðum einhvers konar. Einblíning á HAM (og afleiður, s.s. DAM) nálgast áherslur hörðustu sporatalibana á skýrslutæknivinnuna í tólf spora vinnu.  En sálfræðimeðferð er annars ekki til umræðu í þessari færslu.)

Eftir þeim upplýsingum sem finna má í sjúkraskýrslum um mig að dæma virðist óþol fyrir lyfjum hafa skipt litlu máli ef um var að ræða möguleika á að lækna þunglyndið með lyfjum. Þótt komi fram að ég sé með stöðugan handskjálfta eða líði einhvern veginn frekar illa af lyfjum skal samt gjörprófað hvort þau geti læknað þunglyndið. Dæmi um slíkt er Lítíum, sem ég át árum saman. Af hverju ég var sett á Litíum er mér ekki ljóst því sú sjúkdómsgreining sem væntanlega lá til grundvallar var ekki kynnt mér fyrr en mörgum árum síðar en virðist hafa verið tilgáta sem lengi var haldið til streitu. Fyrir þeirri tilgátu eru engin rök. Það virðist sem sagt ekki hafa skipt miklu máli þótt ég gæti illa spilað á píanó, ætti erfitt með hannyrðir (skjálfhentar prjónakonur ættu að geta sett sig í þessi spor) eða almennt og yfirleitt hafi mér liðið illa á þessu lyfi. (Ég get tekið miklu meir krassandi dæmi af lyfjagjöf og aukaverkunum en Lítíum er ágætt svona vægt meðaldæmi, gerði mig ekki sérlega veika en mér leið illa á því árum saman og það truflaði hvunndaginn, “minnkaði lífsgæði” myndi geðlækningafrasinn hljóma.)

Svona eftir á séð finnst mér merkilegt að “líkamlegar” aukaverkanir hafi ekki þótt skipta neinu sérstöku máli af því markmiðið var að lækna “geðsjúkdóm”. Þetta kannast auðvitað margir geðsjúklingar við: Fólk er látið gadda í sig SSRI-lyfjum þótt því sé pínulítið flökurt alla daga, kynhvötin hverfi og alls konar leiðindi fylgi með. Svo versnar í því þegar lækninum dettur í hug að prófa eldri lyf eða lyf sem eru alls ekkert ætluð við akkúrat þeim sjúkdómi sem sjúklingurinn er haldinn o.s.fr.

Sem stendur, í minni athugun,  finnst mér því ofuráhersla geðlækningabatteríisins á að finna lyf sem læknar geðsjúkdóm eða heldur honum niðri burtséð frá því að sjúklingnum líður bölvanlega á þessu lyfi benda til þess að í geðlækningum sé alls ekki horft á líkama og sál sem heild. Þar á bæ er til eitthvað sem heitir “geð” og á að lækna. Ef eitthvað annað gengur úr skorðum við þessar lækningatilraunir verður bara að hafa það. (Öfgarnar á hinn veginn eru að greina alls ekki milli líkama og geðslags. Það sést þegar öfgafólki í líkamsrækt og lyfjaandstöðu dettur í hug að mikil kroppatamning, helst hlaup, geri líkamann óheyrilega frískan og komi þá einnig í veg fyrir geðsjúkdóma; Að “mens sana in corpore sano” sé óumdeild staðreynd sem ekki þurfi að ræða meir.)

Að greina svo skýrt milli sálar/geðs og líkama eins og gert er í lyfjagjöf eða raflækningum geðlæknisbatteríisins væri kannski ásættanleg afstaða ef tækist alla jafna að lækna geðsjúkdóma á auðveldan hátt með lyfjum. En í mínu tilviki (og margra) hefur það hreint ekki tekist. Og þrátt fyrir stöðugt Lítíum-át á árum áður ýmist versnaði mér eða batnaði, líklega algerlega ótengt þessu lyfi. Fyrstu árin fékk ég stök þunglyndisköst en lagaðist á milli. Þau voru tilviljanakennd, þ.e. ekki bundin árstíma eða aðstæðum. Svo fjölgaði þunglyndisköstum á hverju ári, þau stóðu lengur og nú er svo komið að mér hefur ekki batnað neitt að ráði í meir en ár. Allskonar lyfjakokteilar hafa litlu breytt um þetta.

Hitt sem ég tel mig hafa tekið eftir er að ég uppfylli ekki kennisetningar eða staðlaða ímynd geðlækningabatteríisins um þunglyndissjúkling. Staðlaða myndin virðist vera sprottin úr bókmenntum, svei mér þá! Þótt búið sé að hanna allslags kóða og greiningarlykla fyrir þunglyndi, sem meðferð er síðan miðuð við að einhverju marki, er grunnhugmyndin enn gamla melankólían og heimshryggðin. Líklega á hinn góði þunglyndissjúklingur að hnípa þegjandi úti í horni með tárvota vanga og svartsýnina skínandi úr hverjum andlitsdrætti.

Mín ógæfa (þegar kemur að hlutverki hins staðlaða geðsjúklings) er af þrennum toga.

Í fyrsta lagi sný ég öfugt (í þessu eins og öðru), þ.e.a.s. líður skást á morgnana en verst seinni part dags og á kvöldin. Sjúklingaviðtöl á geðdeildum eru ævinlega á morgnana. Og raunar hitti ég geðlækninn minn líka ævinlega á morgnana. Eðlilega (fyrir mig) er ég með hressasta móti akkúrat þá. Ég man eftir að hafa hitt einn sjúkling sem snéri eins og svo lesið um annan, í Sýnilegu myrkri. Alla jafna er upplitið á öðrum þunglyndissjúklingum á geðdeild voðalega trist á morgnana, sömu sjúklingar eru svo þokkalega hressir að horfa á sjónvarp á kvöldin. En ekki ég. Þess vegna er ég oft “kvótuð” sem “hress” eða “glaðleg” í þessum skýrslum. Líka þegar ég hef verið fárveik. Enda eru fáir til vitnis um annað því starfsfólkið er náttúrlega flest að sinna sjúklingum sem eru frammi og ég hef yfirleitt dregið mig í hlé eftir kvöldmat (sem á spítölum er kl. 17.30). Geðlæknirinn minn hefur ekki séð mig síðla dags í um áratug.

Í öðru lagi hverfur mér ekki mál nema fárveikri og þá seinnipartinn og á kvöldin. Ég hafði atvinnu af því í aldarfjórðung að tala, tala og tala, allan daginn, ýmist ein upp við töflu/kennaraborð eða vafrandi milli vinnandi nemenda eða á kennarastofu (venjulegar kennarstofur líkjast talsvert fuglabjargi). Og eiga stanslaus samskipti við uppundir hundrað manns á hverjum degi. Þetta skilja allir framhaldsskólakennarar. En í vöktun á geðdeildum er það að blanda geði við aðra sjúklinga, t.d. taka þátt í samræðum, eða eiga sæmilega auðvelt með að tjá mig á skýran og skilmerkilegan hátt á morgunfundum, talið merki þess að ég sé hreint ekki svo mjög veik.

Og í þriðja lagi vann ég svo lengi svo veik að ég er sérfræðingur í að setja upp grímu, reyna að líta út eins og normal manneskja og akta normal fram í rauðan dauðann. Man ennþá þegar niðurstaða úr einhverju mati nemenda á mér var nær einróma sú að ég væri sérstaklega glaðlyndur og skapgóður kennari. Þá þurfti ég að hafa mig alla við að mæta í vinnuna og lagðist örskömmu síðar inn á geðdeild. Önnur ástæða fyrir því að ég kann afar illa við að gráta fyrir framan aðra eða bera harminn sem skikkju er að í ákv. kreðs sem ég hef stundað í meir en tvo áratugi eru manni kennd ýmis trix til að komast í gegnum daginn. Meðal þeirra verkfæra eru “Fake it till you make it” og svo náttúrlega að “taka Pollýönnu á’etta”.

Þannig að ég fell illa að hinu harmræna þögla lúkki og hollingu sem er staðalímynd þunglyndissjúklings meðal þeirra sem vinna við geðlækningar og geðhjúkrun.

Af reynslu og af þeim gögnum sem ég hef verið að skoða undanfarið virðist það hvað sjúklingurinn segir um eigin líðan ekki skipta nærri eins miklu máli og hve vel hann fellur að fyrirfram tilbúinni staðalímynd. Tilbúnar óumbreytanlegar kennisetningar um hvernig þunglyndissjúklingur skuli líta út og bera sig ráða ríkjum í geðlækningabatteríinu. Þetta er í rauninni enn verri brennimerking en þunglyndissjúklingur eins og ég finnur fyrir frá venjulegu fólki í umhverfi sínu.

Þetta eru ennþá bara tilgátur. En ég er ansi hrædd um að þær standist og verði enn skýrari þegar ég hef skoðað þetta betur. Sérstaklega verður áhugavert að skoða hvernig lyfjagjöf, líðan og sjúkdómsmynstur falla saman (öllu heldur er tilgátan sú að þetta falli alls ekki saman) og velta fyrir sér rökunum fyrir lyfjagjöfinni.

Sagan endalausa: Einkaflipp bæjarstjórans og vasapeningar handa ritnefndinni

Nokkuð kyrrt hefur verið um Sögu Akraness undanfarið, a.m.k. opinberlega. En því fer fjarri að ævintýrinu sé lokið. Og áfram borgum við Skagamenn brúsann, bæði af einkaútspili móðgaðs bæjarstjóra og væntanlega af huggulegum fundarhöldum hinnar eilífu fimm manna ritnefndar – í bæ þar sem allt er skorið við nögl, allar gjaldskrár hækkaðar í botn núna um áramótin, öllum stofnunum gert að spara sem mest …  og heyra má þær raddir að endar nái samt ekki saman.
 

Örlítil upprifjun

ReiðurSvo sem unnendur Sögu Sögu Akraness kannast við hótaði okkar góði bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, ritdómararnum Páli Baldvini Baldvinssyni lögsókn vegna ritdóms sem hinn síðarnefndi skrifaði um Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson. Árni Múli sagði að sér fyndist þessi bók „bullandi fín“ og „þrælgóð“ og í kompaníi við Kristján Kristjánsson, útgefanda bókarinnar, og Gunnlaug sagnaritara lét Árni Múli einn lögfræðing Akraneskaupstaðar skrifa Páli Baldvini bréf þar sem þess var krafist að hann leiðrétti og bæðist afsökunar á fimmtán ummælum í ritdómnum.(Sjá Kaupstaður, höfundur og útgefandi vilja leiðréttingu og afsökunarbeiðni í Fréttatímanum 19. ágúst 2011. Neðst í þessari frétt er krækt í ritdóminn sem fór svo fyrir brjóstið á mínum góða bæjarstóra. Bæjarstjórinn hafði svo sem ekki sparað stóru orðin frá því ritdómurinn hans Páls Baldvins birtist, sjá t.d. Segir ritdóm bera með sér einkenni fúllyndis og lítilmennsku í Skessuhorni 14. júlí 2011. Á  því skemmtilega Islandsbloggen. Nyheter og nedslag från ett afläggset grannland er sagan endalausa í hópi endalausra frétta, sjá Praktverk om Akranes sågas – kommun hotar stämma, 30. júlí 2011, þaðan er linkað í fyrri fréttir af stórmerkilegri sagnaritun á vegum Akraneskaupstaðar.)

Páll Baldvin Baldvinsson svaraði í sömu mynt og hótaði Árna Múla Jónassyni lögsókn því hann hefði vegið að æru sinni og starfsheiðri. (Sjá Páll Baldvin í hart vegna Sögu Akraness. Stendur við hvert orð í bókardómi sínum á Eyjunni 23. september 2011.)

Páll Baldvin tók síðan saman langt varnarskjal, öllu heldur upptalningu á staðreyndum sem rökstuddu hverja einustu staðhæfingu sem hann hafði haldið fram í ritdómnum. Þetta er ekki fögur lesning, öllu heldur mjög ófagur vitnisburður um óhóflegan myndastuld og subbuleg vinnubrögð sagnaritara Akraneskaupstaðar. (Sjá Skýtur fyrst og spyr svo, Fréttatímanum 30. september 2011, sem hefst raunar með nokkrum (venjubundnum) mergjuðum upphrópunum bæjarstjórans okkar og ljómandi fallegri mynd af sama bæjarstjóra, en greinargerð Páls Baldvins fylgir í kjölfarið.  Þeir sem eiga bágt með að lesa langa texta ættu kannski að láta greinargerðina eiga sig).

Þann 4. janúar 2012 sendi Árni Múli Jónasson frá sér yfirlýsingu í nafni Akraneskaupstaðar um að fallið væri frá málsókn á hendur Páli Baldvini Baldvinssyni vegna ritdómsins: 

Að vandlega íhuguðu máli er það því þeirra ákvörðun að eyða ekki frekari tíma, orku eða fé til að elta ólar um þessi mál við Pál Baldvin. Sú ákvörðun byggist meðal annars á því að frá því að Páll Baldvin birti umræddan ritdóm sinn í Fréttatímanum hafa virtir menn á þessu sviði, Guðmundur Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, Jón Torfason, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands og Jón Þ. Þór, sagnfræðingur og sagnaritari birt ritdóma sína um Sögu Akraness og farið mjög lofsamlegum orðum um hana,“ segir í yfirlýsingu Árna Múla. (Sjá Elta ekki ólar við Pál Baldvin, Fréttatímanum 5. janúar 2012.)

Það má náttúrlega spyrja sig hvað hefði gerst ef þessir „virtu menn á þessu sviði“ hefðu ekki farið lofsamlegum orðum um bókina? Hefði Árni Múli þá kært? Jóns Torfasonar er reyndar sérstaklega getið í fámennum kreditlista Gunnlaugs Haraldssonar í formála að Sögu Akraness I og þökkuð aðstoðin við efnisöflun svo hann er nú kannski ekki alveg hlutlaus aðili. (Hér er krækt er í þennan lofsamlega dóm Jóns Torfasonar, sem birtist í Skessuhorni 10. ágúst 2011.) Dómur Jóns Þ. Þór var afar stuttur, megnið af honum greinargerð fyrir efnisyfirliti bókarinnar og ég held að hann hafi aldrei ratað á vef DV þótt aðrir bókardómar fyrir jólin birtust þar einnig. Þær örfáu málsgreinar sem ekki voru um efnisskiptingu voru lofsamlegar. Ritdómur Guðmundar Magnússonar, fyrrverandi forstöðumanns Þjóðmenningarhúss, birtist í Þjóðmálum, sömuleiðis stuttur og talsverðum hluta eytt í að rekja efnisþætti en vissulega var hann lofsamlegur.

 

 
Við borgum móðgelsi bæjastjórans

 

Bæjarbúar borga lögfræðikostnað Árna MúlaÞegar Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, leitaði til lögfræðings til að kanna grundvöll fyrir meiðyrðamáli og fékk aðstoð hans við að semja hótanirnar gegn Páli Baldvini gerði hann það að eigin frumkvæði og án þess að fá leyfi bæjaryfirvalda. Þessi „tími, orka og fé“  sem fór í að reyna að hanka ritdómararann er hins vegar ekki tekinn af vinnustundum, brennslu eða úr vasa bæjarstjórans heldur erum við íbúar Akraness látnir borga þetta uppistand. Og það var ekki eins og Árni Múli (sem er vel að merkja sjálfur lögfræðingur að mennt) hefði svona rétt látið skanna þennan 550 orða ritdóm Páls Baldvins til að meta mögulegar forsendur fyrir meiðyrðamáli. Nei, keypt var 28,25 klst. vinna lögmanns til verksins. Hún kostaði 484.487 kr. með virðisaukaskatti en við íbúarnir, sem borgum, getum glaðst yfir að Akraneskaupstaður fær endurgreiddan virðisaukaskattinn svo heildarkostnaðurinn er 385.452 kr. Kannski ekki svo há tala í bæjarhítinni en mér finnst nokkuð mikið að punga út slíkri upphæð bara út af móðgelsi bæjarstjórans enda finnst mér, af fréttum og hljóðritunum af bæjarstjórnarfundum, að hann sé svona heldur móðgunargjarn. Vonandi fer hann ekki að stunda það að rjúka í lögfræðing í hvert sinn sem honum rennur í skap, það gæti orðið ansi dýrt fyrir þá sem borga. Og það er ekki hann.

Varla þarf að taka fram að þetta framtak okkar ágæta bæjarstjóra hefur hvergi verið rætt á opinberum fundum í stjórnsýslu bæjarins, ef marka má fundargerðir.

  

 
Karlarnir í ritnefndinni þurfa náttúrlega áfram að geta hist og spjallað um stórvirkið sem þeir sjá í ævarandi í hillingum

 

Það hefur heldur ekki verið bókað neins staðar sérstaklega að bæjarstjórn hefur samþykkt að gera ráð fyrir „kaupum á sérfræðiþjónustu“ vegna vinnu við Sögu Akraness á árinu 2012 fyrir rúmlega 4 milljónir króna. „Þeirri fjárhæð hefur ekki verið ráðstafað að neinu leyti ennþá, en gert er ráð fyrir að ritnefnd um Sögu Akraness fjalli um áframhald og geri tillögur til bæjarstjórnar um ráðstöfun þess fjár í samráði við bæjarstjóra“ segir í svari Akraneskaupstaðar við fyrirspurn minni nú seint í febrúar. Líklega er þessi upphæð falin einhvers staðar í fjárhagsáætlun bæjarins en ef einhver veit hvar sjá má hana opinberlega og sundurliðaða á vef bæjarins fagna ég ábendingu þar um.
  
 

Leikskólabörn geta snapað gams en Saga Akraness blívur

 

Svoleiðis að í bæjarfélagi sem er á kúpunni (núna í kvöld voru foreldrar einmitt að funda um fjórar niðurskurðartillögur og gjaldskrárhækkanir á leikskólum bæjarins, en hver þeirra er talin spara um 3-4 milljónir) eru samt til fjórar milljónir handa ritnefnd um sögu Akraness til að leika sér með ásamt bæjarstjóranum. Sú ritnefnd er fimm manna þannig að fundirnir eru dýrir.

Í samanburði má nefna að þetta vesalings bæjarfélag, Akraneskaupstaður, hefur ekki efni á nema þriggja manna fjölskylduráði, sem fer með alla málaflokka sem snerta leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, félagsmál, félagslega aðstoð og íþróttamál.

 

Móðguð ritnefnd um sögu AkranessRitnefndin margmenna hefur ekki fundað síðan í júníbyrjun en þá hittust karlarnir fimm og sömdu yfirlýsingu þar þeir hörmuðu hvað ég hefði skrifað illa um tæpan fjórðung þeirrar góðu bókar, Sögu Akraness I, í Skessuhorni (tæpa eina A-4 síðu langa aðsenda grein), lýstu því yfir að þetta væri „stórt og glæsilegt verk“ og luku sinni ritsmíð þannig: „Nefndin lýsir yfir fullu trausti á verðleika höfundar til fræðistarfa og hvetur bæði hann og bæjaryfirvöld til að halda verki áfram.“  Þessi fundur karlanna kostaði bæinn, þ.e.a.s. okkur útsvarsgreiðendur, 64.000 krónur. Líklega hafa nefndarlaunin hækkað eitthvað síðan.

 

Ég er sammála ritnefndinni um að þetta eru stór verk og þung eru þau. En Saga Akraness I og II fékkst á tæpar 16.000 krónur (bæði bindin saman) í okkar góðu bókabúð, Pennanum, fyrir jólin, sem verður að teljast ódýrt per kíló (sambanborið við t.d. sæmilegt kjöt).

 

 
  
  
 

Úrklippur Hildar Lilliendahl

Nú um stundir virðist í tísku að klippa út ummæli á netinu og brúka sér til athygli, yndis og ánægjuauka. Í takt við tískuna klippti ég smávegis út (þótt ég hafi lítið stundað slíkt síðan ég óx upp úr dúkkulísuleikjum) … valdi blogg Hildar Lilliendahl Viggósdóttur til úrklippulistaverksins. Gersovel!
 
 

Konan sem elskar náungann
 
 
Kirkjudóni og helvítis trunta
Hildur Lilliendahl blogg
(19. febrúar 2011)
Berja Hlín Einars fyrir mig
  
Hildur Lilliendahl blogg
(12. nóvember 2010)
Útnefning nauðgaravinar dagsins

Hildur Lilliendahl blogg
(15. maí 2011)

 

Fávitar … þ.m.t. á Barnalandi

  

Hildur Lilliendahl blogg
(1. júní 2011)

 
 

Fleiri fávitar á Barnalandi – hér er rætt um unglingsstúlkur
 Hildur Lilliendahl blogg
(11. janúar 2011)

 

 

Snilldarmynd greinilega

 
 Hildur Lilliendahl blogg
(4. mars 2011)
 

Þessar úrklippur eru fengnar af bloggi Hildar Lilliendahl.

Vantrú gegn Bjarna Randver

Vantrú gegn Bjarna Randver pdf-skjalÉg hef tekið saman allar bloggfærslurnar um þetta mál í eitt pdf-skjal. Með því að smella á myndina til vinstri opnast skjalið.

  

   

Samantekt: Vantrú og siðanefnd HÍ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Þann fjórða febrúar 2010 kærði Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður félagsins Vantrúar, stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir siðanefnd HÍ. Kæruefnið voru lítill hluti glæra sem notaður var í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem Bjarni Randver kenndi á haustmisseri 2009 í guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. Samtímis voru afhent kvörtunarbréf yfir því sama til rektors HÍ og deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar. Erfitt er að meta hve margir félagar í Vantrú stóðu að baki kærunni og kvörtunum en af þeim heimildum sem ég hef skoðað má ætla að þeir hafi verið fáir, líklega innan við tugur manns.

  

LeikbrúðustjórnandiReynir Harðarson virðist hafa skipulagt aðgerðir Vantrúar fyrirfram og nokkrir félagar í Vantrú fylgdu kæru og kvörtunum stíft eftir með greinaskrifum á vef Vantrúar, bloggum þessara vantrúarfélaga, þátttöku á umræðuþráðum við annarra manna blogg, bréfum til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og rektors, og með því að senda bréf og greinargerðir til fjölmiðla. Þar sem þessi mikla umfjöllun var öll af sjónarhóli Vantrúar gaf hún vitaskuld mjög takmarkaða sýn á málið. Vantrúarfélagar höfðu engar forsendur til að meta glærurnar í samhengi því enginn þeirra hafði setið námskeiðið. Sá þeirra sem líklega hefði átt að átta sig eitthvað á umfjölluninni, t.d. um Helga Hóseasson og þá frægu glæru um málflutning fylgismanna Dawkins, Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, virðist hafa kosið að fatta ekki samhengið eða líta fram hjá því sem ætla mætti að hann skildi.

  

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild afgreiddi málið með bréfi deildarforseta þann 9. mars 2010, þar sem lýst var yfir að tekið yrði tillit til athugasemda Vantrúar ef námskeiðið væri kennt aftur, um það væru hann og Bjarni Randver sammála. Í sama bréfi lýsti deildarforseti yfir að Bjarni Randver nyti fyllsta trausts síns sem kennari í trúarbragðafræði.

  

Stigaganga � verki EscherÞegar siðanefnd HÍ hóf afskipti af málinu aðeins seinna (því formaður nefndarinnar hafði verið fjarverandi) kom annað hljóð í strokkinn. Siðanefnd HÍ undir forsæti Þórðar Harðarsonar þverbraut eigin starfsreglur. Í stað þess að skoða kæruna almennilega og úrskurða hvort hún varðaði yfirleitt siðareglur HÍ, eins og átti að vera fyrsta skref í ferli máls í siðanefnd HÍ, einhenti siðanefndin sér í að fá guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ til að skrifa undir opinbera sátt við Vantrú þar sem hinn kærði, Bjarni Randver Sigurvinsson, væri sakfelldur. Guðfræði- og trúarbragðfræðideild bar að „viðurkenna og harma, að kennsluefnið felur ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn“ og taka athugasemdir Reynis Harðarsonar „og samtaka hans […] til jákvæðar skoðunar, þegar og ef til þess kemur, að námskeiðið verði endurtekið.“

  

Raunar er ekki nóg með að siðanefnd HÍ hafi kosið að draga guðfræði- og trúarbragðafræðideild inn í málið (þótt deildin hafi ekki verið kærð til siðanefndar) heldur virðast einstakir nefndarmenn, einkum formaðurinn Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, siðanefndarfulltrúi, hafa reynt að kúga deildina til þátttöku með því að hóta að ella yrði hinum kærða stundakennara, Bjarna Randveri, fórnað, þ.e. að siðanefnd myndi úrskurða að hann hefði brotið siðareglur HÍ, sem hefði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir starf og frama Bjarna Randvers sem fræðimanns. Þetta er a.m.k. skilningur þáverandi deildarforseta, Péturs Péturssonar, á óformlegum samskiptum við þessa siðanefndarfulltrúa.

  

Hvað varðar óformleg samskipti siðanefndar við málsaðila aðra en hinn kærða, sem var hunsaður með öllu, voru þau ótrúleg. Svo virðist sem Þórður Harðarson formaður siðanefndar hafi haft tíð samskipti við formann Vantrúar, Reyni Harðarson, og farið vel á með þeim, liggur við að hægt væri að kalla að þeir hafi átt samstarf í málinu. Þórður Harðarson hefur seinna útskýrt þessi samskipti sem merki um sinn samstarfsvilja og sáttfýsi. Hann hefur líkt störfum sínum við störf sáttasemjara í kjaradeilu. Þórði Harðarsyni yfirsést að sáttasemjari í kjaradeilu talar í fyrsta lagi við báða aðila máls og í öðru lagi að slíkur sáttasemjari hefur ekki neitt vald til að víta annan aðilann en líkja má úrskurði um brot á siðareglum HÍ við vítur – með grafalvarlegum afleiðingum.

  

Eftir að kennurum við Hugvísindasvið HÍ barst vitneskja um þann ótrúlega feril sem mál Bjarna Randvers var í hjá siðanefnd HÍ gripu þeir til aðgerða enda ljóst að aðfarir Þórðar Harðarsonar og félaga hans voru í fyrsta lagi engri siðanefnd sæmandi og fólu í öðru lagi í sér beina aðför að akademísku frelsi kennara. Sá sem upplýsti kennara utan guðfræði- og trúarbragðafræðdeildar fyrst um málavöxtu var Guðni Elísson prófessor. Hópur kennara sem vissi deili á málinu fór hratt stækkandi. Þeir beindu spurningum til siðanefndar HÍ sem voru nógu óþægilegar til að Þórður Harðarson sagði af sér sem formaður siðanefndar. Sérfræðingar í túlkunarfræðum fóru að eigin frumkvæði yfir kennslugögn í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar og sáu ekkert athugavert við þær í samhengi við markmið, námsefni og kennslu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Kennarar skrifuðu greinargerðir um mál Bjarna Randvers, jafnt glærurnar og umfjöllunarefni námskeiðsins, sem vinnubrögð siðanefndar. (Þegar félagið Vantrú hafði dregið kæruna til baka skrifuðu nokkrir nemendur greinargerðir um reynslu sína af kennslu Bjarna Randvers í Nýtrúarhreyfingum, að beiðni Guðna Elíssonar prófessors. Hvorug siðanefndin sá ástæðu til að leita upplýsinga hjá nemendum.)

  

Þegar Ingvar Sigurgeirsson var skipaður sérstakur formaður sérstakrar siðanefndar, sumarið 2010 (eftir afsögn Þórðar formanns, raunar skipaði svo Háskólaráð nýja siðanefnd tveimur dögum eftir að Ingvar tók við þessari sérstöku – og raunar var Þórður Harðarson aftur skipaður formaður siðanefndar að tillögu Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors og Þorsteinn Vilhjálmsson aftur skipaður siðanefndarfulltrúi, að tillögu Félags prófessora), var hann og þau hin í nokkrum vanda stödd. Hefði hin sérstaka siðanefnd farið að starfa eftir starfsreglum siðanefndar HÍ og einbeitt sér að réttum ferli máls, þar sem fyrsta reglan var að kanna hvort kæran eins og hún var fram sett snerti siðareglur HÍ og vísa henni ella frá  … hefði málinu verið vísað frá. Það hefði aftur á móti verið nánast vantraustsyfirlýsing á fyrri formann, Þórð Harðarson, og fyrri siðanefnd, en svo vildi til að sömu siðanefndarfulltrúar sátu í hinni sérstöku siðanefnd og þeirri á undan, Þorsteinn Vilhjálmsson og Sigríður Þorgeirsdóttur. Þorsteinn hafði að auki verið endurskipaður í „alvöru“ siðanefnd HÍ um leið og sú sérstaka tók til starfa. Það hefði náttúrlega verið ansi slæm lending fyrir HÍ að lýsa því óbeint yfir að þeir Þórður og Þorsteinn hefðu klúðrað málum gersamlega þegar nýbúið var að endurskipa þá í siðanefnd HÍ til ársins 2013!

  

Reyna að lista atriði kæruIngvar Sigurgeirsson brá á það ráð að fá tvo aukafulltrúa til liðs við siðanefndina sína. Þessir fulltrúar voru líklega kunningjar hans og væntanlega fullnuma í nýsitækni (þ.á.m. glærugerð) enda höfðu þeir lengi kennt á sama vettvangi og Ingvar, þ.e.a.s. starfað við menntun grunnskólakennara og þá menntun sem framhaldsskólakennurum er gert skylt að ljúka til að fá kennsluréttindi. Síðan reyndi hin sérstaka siðanefnd að leita með logandi ljósi að einhverju sem gæti mögulega hankað kennarann á að hafa brotið siðareglur HÍ. Á tímabili setti siðanefndin hinum kærða, Bjarna Randveri Sigurvinssyni, að greina kæruatriði Vantrúar svo þau pössuðu við siðareglur HÍ og semja svör við þeim greindu kæruatriðum. Síðar spreyttu annar aukafulltrúinn og lögmaður HÍ á þessari greiningu. Þær tilraunir virðast engu hafa skilað.

  

Ingvar formaður siðanefndar, sem er prófessor á Menntavísindasviði, lét sér detta í hug að fá úrlausnir 7 nemenda á einni spurningu á lokaprófi í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, þar sem nemendur áttu að beita mismunandi skilgreiningum trúarlífsfélagsfræðinga í greiningu á Siðmennt og Vantrú. Sett voru ákveðin skilyrði fyrir að siðanefnd fengi þessar úrlausnir, s.s. að hver nemendanna gæfi upplýst samþykki sitt, en siðanefnd fylgdi þessari beiðni aldrei eftir. Seinna kenndi Ingvar þrýstingi háskólakennara um að siðanefndin hefði ekki fengið prófúrlausnirnar.

  

Ingvar Sigurgeirsson kenndi líka afskiptum háskólakennara um að hinnu sérstöku siðanefnd undir hans stjórn varð ekkert ágengt með þetta mál, auk þess að kenna því um að Bjarni Randver Sigurvinsson hefði fengið sér lögmann til að gæta réttinda sinna. Satt best að segja verður það að teljast skynsamleg ráðstöfun Bjarna Randvers í ljósi þess hvernig siðanefnd undir stjórn Þórðar Harðarsonar hafði hagað sér og hvernig siðanefnd undir stjórn Ingvars virtist ætla að feta svipaða braut enda kannski um heiður fyrri siðanefndarmanna að tefla og Bjarni Randver var áfram eins og hvert annað peð í kærumálinu gegn honum sjálfum.

  

Svo kom að því að Ingvar Sigurgeirsson fékk nóg og hótaði að segja af sér. Þá loksins greip rektor HÍ í taumana, hélt fund með Ingvari og fulltrúum Vantrúar og á þeim fundi dró Vantrú kæruna til siðanefndar HÍ til baka, þann 28. apríl 2011. Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor virðist hafa lofað Vantrú og Ingvari að óháðir aðilar tækju þetta mál út, skv. því sem bæði hún og Vantrú hafa sagt. En skv. bókun Háskólaráðs þann 5. maí 2011 virðist ráðið hafa farið að áskorunum fjölda háskólakennara og skipað þess vegna óháða nefnd til að taka út feril málsins innan HÍ.

  

Skýrsla óháðu nefndarinnar var birt opinberlega þann 13. október 2011. Hún ber störfum siðanefndar HÍ ófagurt vitni, sérstaklega þeirrar sem Þórður Harðarson var í forsvari fyrir en finnur einnig ýmislegt að störfum nefndarinnar undir stjórn Ingvars Sigurgeirssonar.

  

Í kjölfarið á birtingu þessarar skýrslu og sérstaklega eftir að ítarleg fréttaskýring um málið birtist í Morgunblaðinu snemma í desember síðastliðnum hefur margt og mikið verið fjallað um þennan málarekstur sem hófst með kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni og stóð linnulítið í meir en ár í höndum siðanefndar HÍ, raunar miklu lengur af hálfu Vantrúar en félagið lagði áfram kapp á að rægja Bjarna Randver á sínum vettvangi á Vefnum og úthúða stuðningsmönnum hans. Í rauninni má segja að einelti Vantrúar, á tímabili með dyggum stuðningi hluta siðanefndar HÍ, hafi ekki lokið fyrr en skýrsla óháðu nefndarinnar birtist, um einu ári og átta mánuðum eftir að kæran barst siðanefnd HÍ.

  

Frá því fyrrnefnd fréttaskýring um málið birtist í byrjun desember og viðtal í Kastljósi við Bjarna Randver Sigurvinsson rétt á eftir hefur málflutningur forsvarsmanna Vantrúar breyst í samræmi við kenningar um hefðbundna afneitun gerenda eineltis: Á vef Vantrúar fóru að birtast greinar um að félagið Vantrú sé hið eina sanna fórnarlamb í þessu máli og hafi sætt ómaklega einelti háskólakennara sem komið hafi í veg fyrir að saklaust erindi félagsins hafi fengið réttláta málsmeðferð innan HÍ. Formaður Vantrúar, Reynir Harðarson sálfræðingur, sem stjórnaði málflutningi Vantrúar lengst af og átti að öllum líkindum drjúgan þátt í skipulagningu hans í upphafi, hefur verið algerlega ósýnilegur á Vefnum og í fjölmiðlum síðan snemma í október 2011. Matthías Ásgeirsson tók þá að sér að koma fram fyrir hönd félagsins, í fjölmiðlum og í bloggskrifum.

  

Reiða kisaViðbrögð Matthíasar og nokkurra vantrúarfélaga við þessari bloggfærsluröð minni má lesa í umræðuþræði við bloggfærsluna Punktar um umfjöllun, á bloggi Matthíasar, Örvitanum. (Mögulega lokar Matthías á aðgang að umræðuþræðinum af þessu bloggi, hann hefur þegar lokað aðgangi að vef Vantrúar af blogginu mínu. Lesendum er bent á að afrita slóðina í annan glugga vefskoðara ef til þess kemur.) Félagið Vantrú hefur einungis gert athugasemdir við eina færslu í þessari færsluröð, þ.e. færsluna um félagið Vantrú. Grein Hjalta Rúnars Ómarssonar á vef Vantrúar er frá 17. janúar í ár og heitir Hin stranga og öfgasinnaða Vantrú.

  

Nú fyrir skömmu, um miðjan febrúar 2012, hefur Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, hreinsað Bjarna Randver Sigurvinsson af öllum áburði um að hann hafi nokkru sinni brotið siðareglur HÍ í kennslu, í bréfi til starfsmanna HÍ og í fréttaviðtölum vegna þess bréfs. Það ber að vona að háskólarektor beiti sér af megni fyrir að Bjarna Randveri verði bætt mannorðstjón og kostnaður sem hann ber af þessu máli.

  

En eftir sem áður sitja þeir Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson í siðanefnd HÍ, nú ásamt Eyju Margréti Brynjarsdóttur, sem stjórn Félags Háskólakennara útnefndi sinn fulltrúa í desemberbyrjun 2011, eftir að Salvör Nordal sagði sig úr siðanefnd HÍ. Þórður Harðarson er formaður siðanefndarinnar.

  
 
 
 
 
 

Skýrsla óháðu nefndarinnar og eftirmál

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Á fundi háskólaráðs 5. maí sl. skipaði háskólaráð nefnd þriggja óháðra aðila um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. Nefndinni var jafnframt falið að fara yfir starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands og eftir atvikum að gera tillögur til úrbóta í ljósi reynslunnar.

Nefndin skilaði skýrslu til Háskólaráðs þann 14. september 2011 og hún var til umfjöllunar á fundi Háskólaráðs þann 13. október 2011. Í fundargerð þess fundar er tengt í skýrsluna.

Háskólaráð samþykkti að breyta starfsreglum siðanefndar í kjölfar úttektar óháðu nefndarinnar. Breytingarnar eru smávægilegar og einna helst þær að skerpa á starfsreglunum eins og þær voru fyrir. Í ályktun Háskólaráðs vegna skýrslunnar, þann 13. október síðastliðinn, segir m.a.: 

Kæra í máli siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010 var dregin til baka og er málinu þar með formlega lokið. [—]

Fyrir liggur að ekki var tekin efnisleg afstaða til álitaefnisins í máli siðanefndar nr. 1/2010 og hinni óháðu nefnd var ekki falið það viðfangsefni.

Af hálfu Háskóla Íslands er af málinu í heild dreginn sá lærdómur að tryggja verður eftir mætti formfestu og trúnað í meðferð mála siðanefndar innan háskólans. [—]

Í annan stað eru athugasemdir og ábendingar um aðkomu yfirstjórnar og stjórnsýslu háskólans að málinu teknar til greina. [—]

Síðan segir að Háskólinn muni gera sitt til að sárindi vegna málsins megi gróa um heilt og að fela þremur starfsnefndum Háskólaráðs „að standa sameiginlega að faglegri umfjöllun um siðferðilegar hliðar akademísks frelsis í kennslu og rannsóknum fyrir lok janúar 2012, með opnu málþingi um efnið.“
 

Áfellisdómur óháðu nefndarinnarMeginniðurstaða Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð var að siðanefnd hefði ekki í upphafi máls lagt sjálfstætt mat á hvort kæra Vantrúar snerti siðareglur Háskóla Íslands, eins og henni bar að gera skv. 4 gr. starfsreglna siðanefndar og að siðanefnd hafi heldur ekki gert þetta á síðari stigum. Aðrar niðurstöður eru m.a. gagnrýni á óformleg samskipti einstakra nefndarmanna við málsaðila í stað þess að tala við þá á fundum siðanefndar, að lögfræðingur HÍ skuli hafa verið látinn starfa fyrir siðanefndina, að siðanefnd hafi staðið fyrir að reyna að sætta Vantrú og guðfræði- og trúarbragðafræðideild án nokkurrar aðkomu Bjarna Randvers Sigurvinssonar og að óviðunandi sé, fyrir HÍ og málsaðila, að ekki skuli hafa tekist að ljúka málinu efnislega. (Sjá s. 6-9 í þessari skýrslu.)

Þann 4. desember 2011 birti Morgunblaðið fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, þar sem málarekstur gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, byggður á kærum Vantrúar, var rakinn frá upphafi til þess dags. (Raunar var greinin Heilagt stríð Vantrúar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og var því dreift daginn áður, þann 3. desember 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Henni var fylgt eftir með annarri grein viku síðar, Einelti vantrúarfélaga, en sú grein er læst öðrum en kaupendum Morgunblaðsins.)

Fréttaskýringin vakti strax mjög mikla athygli. Til þessa höfðu birst fréttir af málinu á stangli, eftir að háskólakennarar gerðust stuðningsmenn Bjarna Randvers í æ ríkari mæli, en aðallega hafði verið fjallað um málið af hálfu Vantrúar, í gífurlegum fjölda greina á vef félagsins og bloggum félagsmanna.

Þann 5. desember 2011 birtist grein eftir Guðmund Andra Thorsson í Fréttablaðinu. Greinin heitir Banntrúarmenn. Í henni fjallar Guðmundur Andri um upplifun sína af lestri fréttaskýringar Barkar Gunnarssonar, um félagið Vantrú eins og það kemur honum fyrir sjónir, um akademískt frelsi og loks undrast hann mjög vinnbrögð siðanefndar. Í greininni segir Guðmundur Andri m.a.:
 

Sem sagt. Það á að þurfa mikið til að grípa fram fyrir hendurnar á kennara og veita honum áminningu. Þegar kennari í guðfræðideild víkur að félagsskapnum Vantrú í tímum í guðfræði er hann væntanlega að skoða þennan félagsskap í tilteknu samhengi sinna fræða, á tiltekinn akademískan hátt eins og honum er bæði frjálst og skylt að gera í þessu umhverfi. Félagsskapurinn Vantrú hafði fregnir af því að Bjarni Randver hefði fjallað um starfsemi hans og annarra félaga. Þeir sáu þá gullið tækifæri til að gera guðfræðideild HÍ og þessum kennara alveg sérstaklega lífið leitt, sem svo sannarlega hefur tekist: Bjarni Randver situr nú uppi með mikinn lögfræðikostnað og mikla armæðu við að verjast atlögum hinna kátu félaga í Vantrú, sem samkvæmt grein Barkar virðast hafa skipulagt látlausar árásir á Bjarna til að hrekja hann úr starfi fyrir þær sakir að hafa ekki farið þeim orðum um félagsskapinn sem félagsmenn töldu tilhlýðilegt. Ekki er að sjá að Siðanefnd hafi gætt þess að Bjarni fengi sanngjarna málsmeðferð og það er ekki fyrr en Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði, gengur í málið vegna þess að honum ofbýður málatilbúnaðurinn, að Bjarni fær stuðning innan veggja HÍ.

Það er alltaf hættulegt þegar hugmyndabaráttan fer yfir á svið lögfræðinnar. Það er alltaf ömurlegt þegar hópur manna hefur samráð um að ráðast að einum einstaklingi.
 
 

Þann 5. desember 2011 var viðtal við Bjarna Randver Sigurvinsson í Kastljósi á RÚV þar sem hann gerði grein fyrir þessu máli. Yfirskriftin var Vantrú gegn stundakennara HÍ (hér er krækt í þennan hluta Kastljóss.)

Fréttir af máli Bjarna RandversDaginn eftir, 6. desember 2011, birtust a.m.k. tvær fréttir þar sem Eyjan dró taum vantrúarfélaga, Einelti fjarri lagi segja Vantrúarmenn. Hafna málatilbúnaði stundakennara, (sem nutu þó lítils stuðnings í umræðuþræði við fréttina) og Morgunblaðið lýsti sjónarmiðum Bjarna Randvers og Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors, Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað. Eins og titill síðarnefndu fréttarinnar ber með sér vill Bjarni Randver fá bættan sinn skaða. Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ segir þar að Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi unnið í góðri trú og „viljað leita sátta þannig að enginn teldi á sig hallað.“ Hún vísar til þess að almennt hafi lögfræðikostnaður sem stofnað er til vegna kæru til siðanefnda ekki verið greiddur af stofnunum sem reki siðanefndirnar [en Bjarni Randver vill að HÍ greiði lögfræðingnum sem hann neyddist til að fá sér í meðferð siðanefndar.). Kristín áréttar sjálfstæði siðanefndar HÍ og þess vegna hafi rektor ekki átt að skipta sér neitt af málinu. Að lokum er haft eftir Kristínu Ingólfsdóttur í þessari frétt: „Kristín hafnar því að skýrslan sé áfellisdómur yfir siðanefnd. Málið hafi undið upp á sig af mörgum ástæðum og orðið að stóru máli.“ (Feitletranir eru mínar.)
 
 

Þann 8. desember 2011 birti Morgunblaðið aðsenda grein Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar HÍ, Greinargerð í siðanefndarmáli. (Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar en Þórður veitti Vantrú leyfi fyrir birtingunni. Lesendur athugi að Vantrú hefur lokað fyrir aðgang að eigin síðum af þessu bloggi. Ég hef fjallað um hluta þessarar greinar í færslunni Meðferð kæru Vantrúar í höndum Þórðar Harðarsonar o.fl. í siðanefnd HÍ.) Gagnrýni óháðu nefndarinnar á störf Þórðar og siðanefndar undir hans stjórn svarar Þórður svona:
 

Loks er að geta um niðurstöður hinnar óháðu nefndar háskólaráðs um störf siðanefndar. Ekkert kemur fram í niðurstöðum hennar, sem kalla má áfellisdóm um þau. Til dæmis er ekkert tekið undir ásakanir um hlutdrægni. Tvennt er einkum gagnrýnt:

1) Nefndin tók ekki kæruna formlega fyrir. Því er til að svara, að með því að fara í sáttatilraunir var kæran tekin fyrir. Annars hefði henni verið vísað frá.

2) Of mikið af starfi nefndarinnar (formanns) fór fram utan funda nefndarinnar. Því er til að svara, að formaður kann ekki aðra aðferð en trúnaðarsamtöl, ef leita á sátta milli aðila í viðkvæmu deilumáli

Þann 9. desember 2011 andmælti Pétur Pétursson, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ og starfandi deildarforseti í siðanefndartíð Þórðar, honum harkalega í grein í Morgunblaðinu, Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar. (Greinin er læst öðrum en kaupendum Morgunblaðsins. Ég vitnaði í þessa grein í sömu færslu og fyrr var vísað til). Pétur lauk máli sínu þannig:

Þórður Harðarson telur sig ekki hafa neitt vald sem formaður siðanefndar og starfa eingöngu í sáttahug. Hvorugt er rétt. Áminning af hálfu siðanefndar gerir út um frama viðkomandi einstaklings innan háskólasamfélagsins. Í skugga þess valds starfar formaðurinn og hann beitir því bæði af lagni og lævísi. Það hef ég fundið á eigin skinni frá upphafi og nú í þessari Morgunblaðsgrein hans. Það er óásættanlegt að hann sitji áfram sem formaður siðanefndarinnar eftir þann áfellisdóm sem óháð rannsóknarnefnd á vegum Háskólaráðs felldi yfir störfum hans í skýrslu sinni í október sl.
 

hópur stuðningsmannaÞann 13. desember 2011 birtist yfirlýsing yfir hundrað háskólakennara um málarekstur gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni í höndum siðanefndar HÍ í mörgum fjölmiðlum. Hér er krækt í hana í Fréttablaðinu, Yfirlýsing vegna kæru á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Í yfirlýsingunni segir m.a.:
 

Meginatriði málsins eru þó einföld. Strax í upphafi kæruferlisins, snemma árs 2010, braut Siðanefnd Háskóla Íslands á rétti stundakennara við HÍ með svo alvarlegum hætti að hún spillti málinu öllu. Siðanefnd lagði fram sáttatillögu þar sem fallast átti á sekt kennarans án samþykkis hans. Þetta gerðist áður en siðanefndin hafði aflað sér gagna í málinu og var kennaranum með öllu haldið utan við málsmeðferðina.

Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kennarinn hafi á neinn hátt gerst brotlegur við siðareglur HÍ. [- – -]

Skýrsla rannsóknarnefndar þeirrar sem háskólaráð skipaði er alvarlegur áfellisdómur um vinnubrögð siðanefndarinnar, sem því miður tók afstöðu gegn Bjarna Randveri með sáttatillögu þar sem Guðfræði- og trúarbragðafræðideild átti að „viðurkenna og harma, að kennsluefnið feli ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn.“ Kærandinn fékk sáttatillöguna í hendur og hefur beitt henni í opinberum málflutningi sínum enda þótt tillögunni væri með öllu hafnað á kennarafundi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.
[- – -]
Gagnrýni formanns siðanefndar HÍ í Morgunblaðinu 8. des. sl. er sorglegur vitnisburður um þekkingarleysi á því hvað felst í kennslu á sviðum hug- og félagsvísinda.

Sama dag, 13. desember 2011, birti Morgunblaðið tvær fréttir þar sem málflutningur Vantrúar kom fram. Í annarri þeirra, Skorti fagleg vinnubrögð, er grein á vef Vantrúar endursögð, þar sem því er haldið fram að háskólakennararnir hafi ekki sýnt fagleg og akademísk vinnubrögð því enginn þeirra hafi talað við félagið Vantrú um málið. Í hinni, Málið snúist um útúrsnúninga, er rætt við Matthías Ásgeirsson fyrrv. formann Vantrúar þar sem hann heldur því fram að almennt viðhorf félagsmanna í Vantrú hafi verið að „senda þyrfti siðanefnd HÍ erindi háskólans sjálfs vegna.“  Megintilefni til kæranna [Vantrú kærði Bjarna Randver fyrir þremur mismunandi aðilum innan Háskóla Íslands] sé afbökun Bjarna Randvers, skv. tilvitnun í Matthías í lok greinarinnar: „Við teljum að Bjarni Randver hafi beinlínis afbakað upplýsingar þegar hann tekur tilvitnanir frá okkur eða klippir þær í sundur. Við sjáum ekki Vantrú í þessari kennslu. Hann tekur ekkert af greinum okkar eða því sem félagið hefur sagt opinberlega,“

Í hádeginu þann 13. desember 2011, sama dag og yfirlýsingar háskólakennara höfðu birst í fjölmiðlum, sendi Ingvar Sigurgeirsson, ad hoc formaður siðanefndar HÍ í kærumálinu gegn Bjarna Randver, bréf á póstlista starfsfólks við Háskóla Íslands. Helstu atriði þess bréfs voru rakin í frétt RÚV daginn eftir, Leggur til að Bjarni fái bætur. Í fréttinni segir eftir Ingvari að: 

Það hafi verið verkefni siðanefndarinnar að kynna sér málið til hlítar. Þau áform hafi þó ekki náð fram að ganga, þar sem Bjarni sjálfur hafi kosið að ræða ekki við nefndina og hafi talið nefndarmenn alla vanhæfa. Þá bendir hann á að nokkrir þeirra sem undirita yfirlýsinguna hafi með formlegum hætti lagst gegn því að nefndin fengi tiltekin gögn í málinu.
[…]
Ingvar segir umræðuna hafa einkennst af hroka. Á öllum stigum málsins hefði verið hægt að leysa það með yfirvegaðri og málefnalegri samræðu. Þá leggur hann til að Bjarni Randver fái sanngjarnar bætur vegna þess skaða sem hann hafi orðið fyrir en bendir jafnframt á að málið hafi skaðað marga aðra, sem og skólann.

Á vef Vantrúar var bréf Ingvars birt í heild sama dag og RÚV birti sína frétt, undir titlinum Yfirlýsing frá Ingvari Sigurgeirssyni. (Óvíst er hvort Ingvar Sigurgeirsson gaf leyfi fyrir þessari birtingu. Lesendum er bent á að Vantrú hefur lokað aðgangi að sínum vef sé hann heimsóttur af mínu bloggi.) Svo sem nokkuð hefur borið á góma í umræðuþráðum við bloggfærslur mínar er það í þessu bréfi sem Ingvar lýsir því að formaður Vantrúar [Reynir Harðarson sálfræðingur] hafi orðið „hvumsa við þegar hann var boðaður á fund siðanefndar til að útskýra kæru félagsins. Samtökin hefðu aldrei kært neinn, heldur gert alvarlegar athugasemdir við kennslugögn á námskeiði þar sem m.a. var fjallað um félagið og einstaklinga innan þess.“

Gæðanefnd og Kennslumálanefnd Háskóla Íslands ásamt vísindanefnd háskólaráðs stóðu fyrir málþingi um akademískt frelsi í kennslu og rannsóknum föstudaginn 27. janúar 2012, í samræmi við ákvörðun Háskólaráðs þann 13. október 2011. Málþingið fór fram í Öskju og þar ræddu fjórir prófessorar af ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands um akademískt frelsi út frá mismunandi sjónarhornum. Sjá má myndband af málþinginu á síðu Kennslumiðstöðvar Háskólans og myndband af umræðum að loknum fyrirlestrum.
 

Þann 15. febrúar 2012 lýsti Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor því yfir í bréfi sem hún sendi á póstlista starfsfólks við Háskóla Íslands að „ekkert hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til þess að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi.“  Með þessu er hún líklega að „bregðast við því að ekki fékkst efnisleg niðurstaða í málið“ sem hún segir að sé „bagalegt“ og að ljúka málinu. Í bréfinu kallar hún kæru Vantrúar „umkvörtun“. (Sjá fréttina Var ekki brotlegur í starfi í Morgunblaðinu 16. febrúar, þar má finna bréf Kristínar í heild. Feitletrun er mín.) RÚV birti frétt um þetta sama bréf þann 19. febrúar 2011, Tryggja að málið endurtaki sig ekki. Það sem háskólarektor telur að tryggi að svona mál endurtaki sig ekki er: „Við höfum endurskoðað starfsreglur siðanefndarar og formfestu sem varðar málsmeðferð og ég held að við séum búin að fullvissa okkur um það að atburðarás af þessu tagi endurtaki sig ekki.“

Endurskoðaðar starfsreglur siðanefndar HÍ má sjá neðst í þessu skjali. Breytingar / endurskoðunin er innan hornklofa og stjörnumerkt. Veigamesta breytingin með hliðsjón af málarekstri siðanefndar í kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni er viðbótin framan á fjórðu grein starfsreglnanna: „[Áður en siðanefnd tekur mál til umfjöllunar kannar hún]* hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands.“

Skipunartími siðanefndarfulltrúa er þrjú ár. Í siðanefnd Háskóla Íslands sitja núna:
 

  • Þórður Harðarson prófessor emeritus, formaður nefndarinnar, skipaður af Kristínu Ingólfsdóttur háskólarektor sumarið 2010; 
  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir sem situr fyrir hönd Félags háskólakennara frá því snemma í desember 2012. Sumarið 2010 skipaði Félag háskólakennara Salvöru Nordal, forstöðumann Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og kennara í heimpeki sem fulltrúa í siðanefnd HÍ. Salvör sagði sig úr siðanefndinni seint á haustmisseri 2011 og úr varð að Eyja Margrét, kennari í heimspeki, tók sæti hennar.
     

  
  
  
  
  
 

Störf ad hoc siðanefndar í máli Bjarna Randvers og inngrip Háskólaráðs

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Þann 28. júní 2010 skipaði rektor Ingvar Sigurgeirsson ad hoc [þ.e. sérstakan] formann siðanefndar í máli nr. 1/2010. Skv. lögum Háskóla Íslands á Háskólaráð að staðfesta skipun rektors á formanni siðanefndar en það var ekki gert í tilviki Ingvars. Á fimmta fundi siðanefndar HÍ, þann 9. júlí 2010, var ákveðið að nýta heimild í starfsreglum siðanefndar til að skipa tvo fulltrúa til viðbótar við þau Þorstein Vilhjálmsson og Sigríði Þorgeirsdóttur, sem áfram sátu í nefndinni auk hins nýja formanns. Viðbótarfulltrúarnir voru valdir að ósk Ingvars, þau Gerður G. Óskarsdóttir, kennari í uppeldis-og kennslufræði í HÍ um langt skeið á árum áður, og Guðmundur Heiðar Frímannsson heimspekingur, prófessor í kennaradeild Háskólans á Akureyri.
 

Á fimmta fundi nefndarinnar, fyrsta fundinum undir forsæti Ingvars, var farið yfir málið, greinargerð Bjarna Randvers Sigurvinssonar, Svar við kæru Vantrúar, skoðuð og bókuð ábending um að svör Bjarna miðaðist ekki við kæru og væri ekki að öllu leyti beint til siðanefndar. „Ákveðið að kanna hvort. Bjarni vildi stytta svör sín og afmarka þau betur við hvern kærulið áður en lengra er haldið.“
 

Í ljósi þess að siðanefnd HÍ hafði ekki sjálf afmarkað kæruliði Vantrúar enda afar erfitt miðað við kærubréfið sjálft, meðfylgjandi feitetraða og undirstrikaða búta úr siðareglum HÍ og greinargerðinni sem fylgdi er undarlegt að hinum kærða, Bjarna Randver Sigurvinssyni, skuli vera falið að afmarka þessa kæruliði og miða svör sín við þau. Auk þess hefur siðanefnd ævinlega haldið því fram að enginn hafi myndað sér efnislega skoðun á kæru Vantrúar, hvorki fyrir þennan tíma né í það tæpa ár sem hún starfaði eftir þetta, undir stjórn Ingvars Sigurgeirssonar. Hvernig er hægt að afmarka kæruliði í óljósu plaggi og máta við siðareglur HÍ án þess að efnisleg skoðun liggi þar að baki?
 

Eftir að Bjarni Randver Sigurvinsson fékk sér lögmann, Ragnar Aðalsteinsson, til að gæta réttar síns haustið 2010, fór lögmaðurinn fram á að þau Þorsteinn Vilhjálmsson og Sigríður Þorgeirsdóttir vikju sæti úr þessari sérstöku (ad hoc) siðanefnd. Því hafnaði siðanefnd HÍ en svaraði ekki formlega fyrr en eftir dúk og disk, í bréfi dags. 11. mars 2011: 
 

 Rangt er að á framangreindu tímabili sáttaviðræðna [mars og apríl 2010] hafi afstaða siðanefndar til málsins mótast. Siðanefnd hafði ekki aflað gagna í málinu og því voru engar forsendur til að taka afstöðu til kæruefnisins af hálfu nefndarinnar. Liður í sáttatillögu þeirri sem lögð var fram var að kæran til siðanefndarinnar yrði dregin til baka og þótti af þeim sökum eðlilegt að beðið væri með efnislega meðferð málsins þar til niðurstaða sáttaviðræðna lægi fyrir. Í sáttatillögunni kemur ekki fram hvort Bjarni hafi brotið siðareglur háskólans, en það á samkvæmt starfsreglum nefndarinnar að koma fram í áliti hennar ef til þess kemur. Siðanefnd áréttar að hugsanlegar ályktanir félagsmanna Vantrúar um stöðu sáttatillögunnar eða afstöðu siðanefndar til hennar hafa enga þýðingu í málinu.
 

 Með vísan til framanritaðs er það álit siðanefndar að þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi ekki tekið afstöðu til kæru Vantrúar áður en Bjarna gafst kostur á að skýra sína hlið málsins. Sáttatillagan fól að engu leyti í sér álit siðanefndar eða einstakra siðanefndarmanna í málinu.
 (Skýrsla óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011, s. 48-49. Feitletrun mín. Hér eftir verður vísað í þetta plagg sem Skýrslu óháðu nefndarinnar.)
 

Í síðustu færslu var gerð grein fyrir sáttatillögunni sem ber á góma í þessu bréfi Ingvars Sigurgeirssonar. Vissulega kemur ekki fram í henni hvort Bjarni Randver hefði brotið siðareglur HÍ enda átti guðfræði- og trúarbragðafræðideild að sakfella Bjarna Randver í þessari sáttatillögu sem Þórður Harðarson, formaður siðanefndar HÍ, samdi. Siðanefnd hefði þannig orðið stikkfrí málinu en sök staðfest hjá guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Sú deild var þó aldrei kærð til siðanefndar HÍ.

Bjarna Randveri bauðst ekki að skýra sína hlið á málinu fyrr en laust fyrir miðjan maí 2010. Þegar siðanefnd HÍ skrifar bréfið 11. mars 2011 voru fulltrúar siðanefndar búnir að skoða spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ í boði Vantrúar og hefði mátt ætla að siðanefndarmenn gerðu sér sjálfirmætavel grein fyrir „hugsanlegum ályktunum félagsmanna Vantrúar um stöðu sáttatillögunnar eða afstöðu siðanefndar til hennar“ þótt þeir kysu nú að telja slíkt engu skipta. Siðanefnd HÍ virðist alfarið hafa litið  fram hjá verulega miklum samskiptum Þórðar Harðarsonar og Reynis Harðarsonar, sem kemur rækilega fram á þessum spjallvef, og hvernig Þórður bar upplýsingar í Reyni og útskýrði fyrir honum hvernig t.d. sáttatillagan sem átti að þvinga guðfræði- og trúarbragðafræðideild til að skrifa undir myndi nýtast félaginu Vantrú í frekari málflutningi þess.
 

Þann 1. september 2010, á sjötta fundi nefndarinnar er hún enn við sama heygarðshornið: 

 Nefndarmenn voru á einu máli um að kæruliðir séu ekki nægilega afmarkaðir með vísun til greina siðareglnanna svo og að skil í svörum Bjarna við hverjum lið kærunnar séu óljós. Siðanefnd heldur sig eingöngu við kæruna og þarf að meta hvort og/eða hvaða greinar siðareglnanna eigi við efni hverrar glæru og hvort um brot sé að ræða í hverju tilviki.

 Guðmundi Heiðari og Ingibjörgu [Haraldsdóttur lögfræðingi HÍ) falið að lista upp öll kæruatriði Vantrúar og svör við þeim í greinargerð Bjarna.

Á sjöunda fund siðanefndar, 24. september 2010, mættu fulltrúar Vantrúar, þeir Reynir Harðarson, Matthías Ásgeirsson og Birkir Baldurson. Þeir gerðu grein fyrir því hvaða ákvæði siðareglna HÍ þeir töldu að hefðu verið brotnar og hvernig.

Á tíunda fund nefndarinnar þann 13. janúar 2011 mættu, að eigin ósk, Reynir Harðarson og Matthías Ásgeirsson, fulltrúar Vantrúar og gerðu grein fyrir skriflegum svörum sínum við greinargerð lögmanns Bjarna Randvers frá 16. desember 2010. Í kjölfarið buðu þeir siðanefnd til sín að skoða gögn á innri vef Vantrúar.
 

Samt höfðu siðanefndarfulltrúar alls ekki tekið neina efnislega afstöðu til kæruefnisins ennþá.
 

Siðanefndin ákvað að einbeita sér að frekari upplýsingaöflun, kannski til að geta einhvern tíma tekið efnislega afstöðu til kæru Vantrúar?  Fyrri siðanefnd hafði unnið að slíku einnig, þ.e.a.s. Þorsteinn Vilhjálmsson hafði kynnt sér félagsskapinn Vantrú og Sigríður Þorgeirsdóttir hafði kynnt sér fyrri mál siðanefndar til að leita að mögulegum fordæmum (ég reikna hér með að þau hafi farið eftir því sem þeim var sett fyrir að gera á fyrsta fundi nefndarinnar). Bjarni Randver Sigurvinsson hafði afhenti sína greinargerð, Svar við kæru Vantrúar, í maí 2010. Siðanefndinni undir stjórn Þórðar Harðarsonar hafði ekki dottið í hug að skoða námskeiðsgögn en Ingvar Sigurgeirsson bætti úr því og á fundi siðanefndar fyrsta september 2010 kemur fram að nefndarmenn hafi fengið kennsluáætlun, próf og önnur gögn af vefsvæði námskeiðsins Nýtrúarhreyfingar með leyfi Bjarna Randvers. Sömuleiðis höfðu siðanefndarfulltrúar fengið niðurstöður kennsluskönnunar (sem er staðlað mat nemenda á kennslu í háskólanámskeiðum) í Nýtrúarhreyfingum.
 

Þetta þótti siðanefndinni ekki nóg. Í bréfi þann 17. nóvember 2010 til kennslustjóra Hugvísindasviðs, óskaði siðanefnd eftir aðgangi að prófúrlausnum nemenda í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Í kjölfarið krafðist lögmaður Bjarna Randvers rökstuðnings fyrir nauðsyn aðgangs að prófúrlausnunum. Svaraði formaður nefndarinnar, Ingvar Sigurgeirsson, því m.a. með tölvupósti til lögmanns Bjarna Randvers þann 26. nóvember 2010 og sagði: „Meginrök fyrir þessari beiðni eru þau að svör nemenda við umræddri spurningu (og mat kennara á þeim) kunna að varpa ljósi á umfjöllun um það efni sem kært hefur verið (efnistök, áherslur, heimildir).“
 

 ——————————————————————————————————

Innskot: Um prófúrlausnir og prófspurningu

Af því í umræðuþráðum við fyrri bloggfærslur mínar um þetta mál hefur verið talsvert minnst á þessar prófúrlausnir er rétt að geta eftirfarandi staðreynda um þær:

Nemendur svörðuð lokaprófinu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar undir nafni og kennitölu en ekki prófnúmerum. Spurning 4 á lokaprófinu (en ekki í sjúkraprófi) var þannig:
 

 Veldu annað hvort ritgerðarverkefni A eða B. (30%)
 A) Gerðu grein fyrir Madame Blavatsky, ævi hennar, starfi og kenningum og rökstyddu mat þitt á þeim áhrifum sem hún hefur haft á ýmsar trúarhreyfingar og þeirri gagnrýni sem hún hefur helst sætt. Færðu rök fyrir því hvernig trúarlífsfélagsfræðingar myndu skilgreina þessar trúarhreyfingar félagslega.

 B) Gerðu grein fyrir félögunum Siðmennt og Vantrú, sögu þeirra, skoðunum og starfsháttum og færðu rök bæði með og á móti því að þau geti talist trúarhópar. Rökstyddu mat þitt á því hvort trúarlífsfélagsfræði geti nýst til skilnings á þessum félögum.

Alls tóku 20 nemendur aðalprófið. Þar af völdu 13 eða rétt um 2/3 nemenda ritgerðarverkefnið um Madame Blavatsky og guðspeki en aðeins 7 eða rétt um 1/3 nemenda völdu ritgerðarverkefni um Siðmennt og Vantrú og ólíkar skilgreiningar á trúarhugtakinu.

Kennarinn, Bjarni Randver Sigurvinsson, var algerlega andvígur því að afhenda siðanefnd HÍ úrlausnirnar því þær kæmu kæru Vantrúar á hendur sér ekki við enda kærði Vantrú hvorki próf né yfirferð. Hann benti á að með því að krefjast prófúrlausna að hluta eða í heild væri siðanefnd í raun að brjóta eigin starfsreglur þar sem kveðið er á um að hún megi ekki taka upp mál að eigin frumkvæði. Einnig leit Bjarni Randver svo á brotið væri á friðhelgi einkalífs nemenda með því að framvísa prófúrlausnum þeirra til óviðkomandi.

En Bjarni Randver hafnaði beiðni siðanefndar þó ekki með öllu. Hann setti það skilyrði að: „[…] hver og einn nemandi [verði] að veita skriflegt leyfi fyrir því að prófúrlausnunum sé framvísað til utanaðkomandi starfsmanna háskólans og þá því aðeins eftir að sérhver nemandi hefur kynnt sér sjónarmið siðanefndarinnar og sjónarmið mín þar sem ég mæli gegn því að þær séu afhendar.“
(Ýmis skjöl frá hinum kærða. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu sem ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í).

Siðanefnd fylgdi málinu ekki frekar eftir og skoðaði ekki svör þessara sjö nemenda við B-möguleikanum í valspurningu nr. 4 í prófinu. Enda vandséð hvernig í ósköpunum þau svör hefði átt að nýtast siðanefnd í að taka efnislega afstöðu til kæru Vantrúar vegna glæra í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar.

 —————————————————————————————————————————-

Hin sérstaka siðanefnd í þessu máli hélt áfram að halda fundi en komst ekkert áfram. Hún fór í sama farveg og siðanefndin undir stjórn Þórðar Harðarsonar og vildi afgreiða málið með með því að afgreiða það ekki, þ.e.a.s. koma á einhvers konar sættum milli guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, sem var ekki kærð til siðanefndar, og félagsins Vantrúar. Á tímabili var reynt að sansa Vantrú (og koma í veg fyrir kæra Ragnars Aðalsteinssonar yfir vanhæfi siðanefndar væri tekin fyrir í Háskólaráði) með því að bjóða 750.000 kr. í einhvers konar útgáfu fræðilegs rits um trú- og guðleysi sem og samtök er tengjast slíkri afstöðu í samvinnu við Vantrú. Umræður um þetta fóru fram með vitund og vilja stjórnsýslu HÍ og Ingvars Sigurgeirssonar formanns siðanefndar. (Sjá Börkur Gunnarsson. Heilagt stríð Vantrúar. Morgunblaðið 4. desember 2011, s. 20. Hér er krækt í fréttaskýringu Barkar á mbl.is.) Þegar stjórn Hugvísindasviðs varð þessara áforma áskynja voru þau slegin af.
 

Eftir tólfta fund nefndarinnar, sem haldinn var 21. mars 2011 og framhaldið 23. mars var mesti vindurinn úr siðanefnd. Ingvar Sigurgeirsson var að því kominn segja af sér störfum: „Rétt er að taka fram að ég hefði einnig sagt af mér formennsku ef Vantrú hefði ekki dregið kæru sína til baka á fundi með rektor Háskólans fimmtudaginn 28. apríl sl.“ (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 64).

Siðanefnd undir forsæti Þórðar Harðarsonar hafði unnið ötullega að því að draga guðfræði- og trúarbragðafræðideild inn í kærumál Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni. Sérstök siðanefnd undir forsæti Ingvars Sigurgeirssonar þurfti að kljást við ýmsar óþægilegar spurningar og kvartanir æ fleiri kennara og fræðimanna innan HÍ og annarra háskóla. Félagið Vantrú hélt uppiteknum hætti í greinarskrifum gegn Bjarna Randveri og guðfræði- og trúarbragðafræðideild, einkum á Vefnum. Þessi greinarskrif beindust svo gegn stuðningsmönnum Bjarna Randvers í hópi háskólamanna. En félaginu Vantrú ætíð hefur legið gott orð til beggja siðanefndarformanna.

Á fundi rektors með Ingvari og fulltrúum Vantrúar þann 28. apríl 2011 dró Vantrú kæru sína til baka og aðkomu siðanefndar lauk þá sjálfkrafa. Félagið Vantrú hefur haldið því fram að þetta hafi það gert vegna þess að Vantrú hafi verið lofað að óháð nefnd tæki út störf siðanefndar: „Ein af forsendum þess að Vantrú dró erindið til baka var að stofnuð yrði óháð nefnd til að rannsaka sögu málsins, þar með talið tilraunir utanaðkomandi aðila til að hafa áhrif á störf siðanefndar. Því til staðfestingar má benda á minnisblað rektors frá 28. apríl, fyrir fund háskólaráðs og sama dag og Vantrú dró erindið til baka“ í Aðför Guðna Elíssonar að siðanefnd HÍ og Vantrú á vef Vantrúar 11. maí 2011 og athugasemd Baldvins (líklega Baldvins Arnar Einarssonar, varaformaður Vantrúar) við sömu grein: „Málið var komið í algjöran hnút og við ákváðum að skera á hann með þessum hætti gegn því m.a. að ferill málsins yrði skoðaður af óháðum aðilum.“ (Krækt er í greinina og athugasemdahalann á Vefsafninu því Vantrú hefur lokað á aðgang á sinn vef af bloggsíðum mínum. Feitletrun mín.)

Þessa minnisblaðs er ekki getið í fundargerð Háskólaráðs þann 17. maí þar sem talin eru upp gögn og ákveðið að setja á stofn óháða nefnd sem fari ofan í saumana á gangi málsins innan Háskóla Íslands
 
 

Afskipti háskólakennara af höndlun kærumáls Vantrúar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni hjá siðanefnd HÍ

Þann 30. apríl 2010 héldu kennarar og doktorsnemar við Hugvísindasvið fund þar sem fjallað er um kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Í kjölfarið var sent bréf til siðanefndar undirritað af 22 af þeim 23 sem voru á fundinum. Þórður Harðarson þáverandi formaður siðanefndar svaraði bréfinu en bréfriturum hugnaðist illa svarið.

Í september og október 2010 rituðu ellefu einstaklingar greinargerðir til stuðnings Bjarna Randveri Sigurvinssyni, þar af voru átta kennarar við Hugvísindasvið HÍ, forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, rektor í Skálholti og einn nemenda Bjarna Randvers (að eigin frumkvæði). Sumar þessara greinagerða voru sendar til siðanefndar í september og október en lögmaður Bjarna Randvers sendi þær síðan allar formlega til siðanefndar með tölvupósti þann 7. desember 2010. Niðurstaða allra greinargerðanna er að Bjarni Randver hafi ekki gerst brotlegur við siðareglur með kennslu sinni.

Þann 15. desember 2010 mótmæltu 10 kennarar við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst skriflega ósk siðanefndar um að fá að kynna sér prófúrlausnir úr námskeiði Bjarna Randvers „Nýtrúarhreyfingar“. Þeir hvöttu líka siðanefnd til að kalla eftir umsögnum nemenda úr námskeiðinu „telji hún nauðsynlegt að afla frekari gagna í málinu.“

Þann 23. mars 2011 rituðu 12 háskólakennarar Háskólaráði Háskóla Íslands bréf út af meðferð á kæru Vantrúar til siðanefndar Háskóla Íslands, en þar segir m.a.:

 Við undirritaðir kennarar við Háskóla Íslands lýsum þungum áhyggjum af því hvernig unnið hefur verið úr kæru Vantrúar til Siðanefndar Háskóla Íslands vegna umfjöllunar um félagið í kennslu Bjarna Randvers Sigurvinssonar, stundakennara í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, [- – -] Við skorum á Háskólaráð að skipa óháða rannsóknarnefnd um málið, aðdraganda þess og málsmeðferð alla, þar sem ekkert verði dregið undan. Fulltrúar þessarar nefndar eiga ekki að vera starfsmenn við Háskóla Íslands og án tengsla við alla málsaðila, svo að tryggja megi að fullu sjálfstæði hennar.
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 66- 67.)

Þann 28 apríl 2011 rituðu 40 akademískir starfsmenn bréf til Háskólaráðs um meðferð á kæru Vantrúar til Siðanefndar Háskóla Íslands. Þar segir m.a.:
 

 Undirritaðir akademískir starfsmenn við íslenskar Háskóla- og rannsóknarstofnanir ítreka efnisatriði þau sem rakin voru í bréfi 12 háskólakennara til háskólaráðs HÍ dags 23. mars 2011.
 [- – -]
 Við skorum á Háskólaráð að skipa óháða rannsóknarnefnd um málið […]

 Ljóst er að þetta mál hefur vegna mistaka Siðanefndar HÍ farið í óæskilegan farveg sem ekki verðu hjá komist að háskólayfirvöld bregðist við. Ekki nægir að vísa málinu frá á tæknilegum forsendum úr því sem komið er. Þess vegna ítrekum við nauðsyn þess að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd um meðferðina á kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni, en mikilvægt er að í henni sitji einstaklingar sem engin tengsl hafa við málið.
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar s. 63.)
 
 

Ákvörðun Háskólaráðs

Á fundi Háskólaráðs þann 5. maí 2011 voru tekin til umfjöllunar erindi er höfðu borist háskólaráði vegna máls nr. 1/2010 hjá siðanefnd Háskóla Íslands. Á fundinum var eftirfarandi bókað um dagskrárliðinn:

 Erindi til háskólaráðs vegna máls 1/2010 hjá siðanefnd Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
 Fyrir fundinum lágu eftirfarandi gögn: Bréf prófessors við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, dags. 21. mars sl., þrjú bréf hóps [svo] kennara Háskóla Íslands, dags. 23. mars sl., 28. apríl sl. og 3. maí sl., og bréf formanns siðanefndar Háskóla Íslands, dags. 3. maí sl. Inn á fundinn kom Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ingibjörg spurningum ráðsmanna.

 – Háskólaráð samþykkir að skipa nefnd óháðra aðila um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. Nefndin fari yfir alla meðferð málsins innan háskólans frá því það hófst, meðferð siðanefndar Háskóla Íslands, vinnubrögð og samskipti við aðila máls og aðra innan háskólans og utan, sem og afskipti annarra af meðferð málsins. Hlutverk nefndarinnar verði að lýsa atvikum á hlutlægan hátt og meta hvort eðlilega hafi verið staðið að meðferð málsins. Nefndinni er ekki ætlað að taka efnislega afstöðu til kæruefnisins. Nefndinni verði jafnframt falið að fara yfir starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands og eftir atvikum að gera tillögur til úrbóta. Nefndin verði skipuð þeim Þórhalli Vilhjálmssyni, aðallögfræðingi Alþingis, Sigurði Þórðarsyni, fyrrverandi ríkisendurskoðanda og Elínu Díönnu Gunnarsdóttur, dósent við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.
 
 

Þann 17. maí 2011 ritaði Ingvar Sigurgeirssonar prófessor bréf til rektors Háskóla Íslands en þar kemur fram m.a.: 

 Ég leyfi mér að árétta að ég lagði mig í framkróka við að stýra þessu máli í samræmi við starfsreglur siðanefndar og stjórnsýslulög og af virðingu við alla másaðila [svo]. Áhersla var lögð á að rannsaka þetta mál til hlítar með því að ræða við alla málsaðila og skoða rækilega þau gögn sem varpað gætu ljósi á málið. Þetta reyndist ekki unnt, m.a. af ástæðum sem ég hef áður gert þér og háskólaráði grein fyrir. Málinu var spillt.
 […]
 Ég hafði kosið að halda mér [svo] til hlés í þessu máli meðan það er til rannsóknar af nefnd þeirri sem skipuð hefur verið af háskólaráði til að fara yfir það, en neyðist nú til að halda uppi vörnum. Ég hlýt að mælst [svo] eindregið til þess að þú hlutist til um að nefndinni verði tryggður nauðsynlegur starfsfriður, um leið og ég átel og harma að starfsmenn Háskólans komi fram með þessum hætti á opinberum vettvangi.
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar s. 73. Feitletrun mín.)
 
 
 

Í næstu færslu verður gerð grein fyrir meginniðurstöðu óháðu nefndarinnar (helstu niðurstöður hennar varðandi störf siðanefnda(r) HÍ voru raktar í færslunni Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa) og eftirmálum sem fylgdu í kjölfar þess að skýrslan varð opinber. Jafnframt verður gerð grein fyrir núverandi siðanefnd HÍ. Síðan verður skrifuð lokafærsla þar sem reynt verður að draga helstu þætti þessa undarlega máls saman.
 
 

Meðferð kæru Vantrúar í höndum Þórðar Harðarsonar o.fl. í siðanefnd HÍ

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í stuttu máli má segja að málsmeðferð siðanefndar undir stjórn Þórðar Harðarsonar hafi einkennst af því að sniðganga hinn kærða, Bjarna Randver Sigurvinsson, með öllu en reyna að neyða guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands til að sakfella Bjarna opinberlega. Allt var þetta unnið undir yfirskini sáttfýsi og sáttaumleitana.Guðfræði- og trúarbragðafræðideild hafði lokið sinni umfjöllun um kæru Vantrúar til deildarinnar með bréfi til Vantrúar þann 9. mars 2010, þess óvitandi að Vantrú hefði einnig kært Bjarna Randver fyrir siðanefnd. En svo virðist sem formaður siðanefndar HÍ hafi reynt að þvinga guðfræði- og trúarbragðardeildtil frekari þátttöku í málinu með því hóta að ella myndi siðanefndin úrskurða að Bjarni Randver hefði brotið siðareglur HÍ. Það hefði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir frama Bjarna Randvers sem fræðimanns og kennara. Til þessa hefur Þórður Harðarson líklega haft fulltingi Þorsteins Vilhjálmssonar, sbr. tilvitnun í Þorstein neðst í þessari færslu, en erfitt er að vita hvort þriðji fulltrúinn í siðanefnd fylgdi þeim að málum eða lögfræðingarnir sem sátu fundi siðanefndar.

Um þetta segir Pétur Pétursson í greininni Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar H.Í. í Morgunblaðinu 9. desember 2011 (hér er krækt í greinina á mbl.is en hún er einungis aðgengileg kaupendum Morgunblaðsins):
 

Það er rétt sem Þórður segir í greinargerð sinni að ég vonaðist eftir sáttum en sáttaviljinn hjá honum var yfirskin eitt. Þetta var mér fljótt ljóst. Ég sagði mig þá frá þessum skrípaleik með eftirfarandi bréfi til næsta yfirmanns míns, Ástráðs Eysteinssonar forseta Hugvísindasviðs. Bréfið er stílað 27. apríl 2010. Á þeim tíma sátu með Þórði í siðanefnd prófessorarnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson.

„Með þessu bréfi tel ég beinni eða formlegri aðild minni að málinu lokið. Ég beitti mér mjög fyrir sáttamöguleikanum vegna þess að Þórður og aðrir nefndarmenn gerðu mér það alveg skýrt að nefndin mundi gera athugasemdir við glærur Bjarna. Þórður staðfesti það enn og aftur við mig í símtali í gær. Ég vildi ganga langt til að forðast það því það mundi skaða stöðu Bjarna sem fræðimanns og kennara og um leið vera áfellisdómur yfir þeirri stefnu og starfi sem ég hef staðið fyrir í uppbyggingu trúarbragðafræða við deildina frá því að mér var falin forstaða þeirra af deildarfundi fyrir tæpum áratug. Hvað eftir annað hef ég reynt að koma sjónarmiðum Bjarna að t.d. með því að fara á heimili formannsins með leiðbeiningarbréf Bjarna til nemenda í umræddu námskeiði þar sem hann útskýrir hvernig nemendur eigi vinna með þessar glærur og skoða þær á gagnrýninn hátt. Ég lét einnig senda þetta sama bréf til annars nefndarmanna. Í símtali í gær staðfestir Sigríður að hún viti ekkert af þessu bréfi. Það virðist ekki enn vera meðal þeirra gagna sem nefndin vinnur með í þessu máli. Ég hef einnig fundið fyrir því að nefndarmenn virðast líta á þetta mál eins og einhverskonar uppgjör milli félagsins Vantrúar og „guðfræðideildar“ sem mér finnst vera út í hött. Ég er í raun furðu lostinn yfir þessum vinnubrögðum.“

Þórður Harðarson telur sig ekki hafa neitt vald sem formaður siðanefndar og starfa eingöngu í sáttahug. Hvorugt er rétt. Áminning af hálfu siðanefndar gerir út um frama viðkomandi einstaklings innan háskólasamfélagsins.

 

 
 

Samskipti Þórðar Harðarsonar, formanns siðanefndar HÍ og Reynis Harðarsonar sálfræðings, formanns Vantrúar

Þótt Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ hefði ekkert samband við hinn kærða, Bjarna Randver Sigurvinsson, hafði hann töluverð samskipti við fulltrúa kæranda, Reyni Harðarson sálfræðing. Heimild mín fyrir samskiptum þeirra er Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010), óopinbert skjal í vinnslu sem ég hef heimild Bjarna Randvers til að vitna í. Hér eftir verður vísað til þess sem Tímatöflu Bjarna Randvers. Heimild Bjarna Randvers fyrir samskiptum Þórðar Harðarsonar og Reynis Harðarsonar eru ummæli hins síðarnefnda á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Ég auðkenni beinar tilvitnanir Bjarna Randvers í þennan spjallþráð með rauðum lit.

 

Eins og getið var í fyrri færslu samþykkti siðanefnd HÍ umboð handa Þórði Harðarsyni formanni til þess að hafa samband við Reyni Harðarson formann Vantrúar, á sínum fyrsta fundi um kærumálið gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, þann 25. mars 2010. Þórður hringdi í Reyni þann 6. apríl 2010 og bauð honum að koma á óformlegan fund heim til sín daginn eftir þar sem þeir gætu rætt málin einslega.

   

* Eftir þennan klukkutíma langa fund sagði Reynir Harðarson félögum sínum af honum á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Að sögn Reynis tilkynnti Þórður að siðanefndarmönnum væri verulega brugðið yfir kennsluefninu og líkleg niðurstaða nefndarinnar verði að um brot sé að ræða. Siðanefnd vilji samt að Guðfræði- og trúarbragðafræðideild sættist við Vantrú með því að lýsa yfir að kennsluefnið gefi „ranga og villandi mynd af félaginu Vantrú, trúleysi og einstaklingum tengdum hvoru tveggja“ og muni Þórður skrifa uppkastið að slíkri sátt. Jafnframt hafi Þórður tekið undir þau orð Reynis að það sé „lélegt“ að Vantrú sé ekki þegar búin að fá þau skilaboð frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Loks tilkynnti Þórður Reyni að „það væri í raun stærri sigur fyrir [Vantrú] að fá viðurkenningu á því að illa hafi verið staðið að verki frá guðfræðideild í stað þess að einn stundakennari fengi ákúrur fyrir að hafa ekki staðið sig“. Það sem Guðfræði- og trúarbragðafræðideild þyrfti að gera væri að „fórna bara BR“.

Reynir Harðarson mat þetta svo í endursögn sinni á fundinum að þetta væru bara vopn í vopnabúr félagsins þar sem vantrúarfélagar gætu þá „hæðst að þeirri afgreiðslu deildarinnar“. Í framhaldi af greinargerð sinni um samtalið við Þórð Harðarson segir Reynir að afgreiðsla nefndarinnar yrði líklega sigur en sættir yrðu mikið til á forsendu Vantrúar og yrðu þær þá ekki leynisættir heldur gætu vantrúarfélagar „flaggað játningu deildarinnar hvar og hvernig“ sem þeir vilja. Að lokum segir Reynir að Þórður Harðarson virðist alfarið á skoðun Vantrúar í málinu. 

Um þennan fund segir Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ:
 

Í byrjun apríl þá Reynir Harðarson (RH) heimboð formanns. Hann tók ekki ólíklega í sættir, þótt síðar kæmi í ljós, að ekki voru allir samherjar hans fylgjandi þeim. Bæði PP og RH skildu, að einhvers konar tilslökun hlyti að koma til sögunnar hjá guðfræðideild eða BRS í skiptum fyrir, að Vantrú drægi kæruna til baka. Hinn 14. apríl var kæra Vantrúar til umræðu á deildarfundi guðfræðideildar. Þar mun hafa verið rætt um möguleika á sáttum.
(Þórður Harðarson. Greinargerð í siðanefndarmáli. Morgunblaðinu 8. desember 2011. Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar.)

   

Þegar hér var komið sögu hafði Þórður Harðarson ekki fengið nein gögn frá hinum kærða í málinu ef undan er skilið bréf Bjarna Randvers til nemenda sinna í desember 2009, sem Pétur Pétursson afhenti honum að eigin frumkvæði. Það er merkilegt að siðanefndin skuli hafa ákveðið eftir einn fund (og án þess að bóka það í fundargerð) að guðfræði- og trúarbragðafræðideild skyldi sættast við félagið Vantrú, sérstaklega í ljósi þess að Vantrú kærði ekki þessa deild fyrir siðanefnd HÍ. Þórður virðist strax hafa haft mjög mótaða skoðun á málinu án þess að hafa kynnt sér málsgögn sem gengur auðvitað þvert á starfsreglur siðanefndar HÍ, hafi Reynir Harðarson rétt eftir honum.

 

* Þann 13. apríl 2010 hringdi Reynir Harðarson formaður Vantrúar í Þórð Harðarson formann siðanefndar HÍ til að kvarta undan því að Pétur Pétursson deildarforseti guðfræði- og trúarbragðadeildar hafi ekki svarað bréfum hans.

 

* Þremur dögum síðar, 16. apríl 2010, hringdi Þórður svo í Reyni. Í lýsingu Reynis á samtalinu við Þórð á innri vefnum segir m.a.: „Staða BR er orðin afar þröng og slæm – sama má segja um Pétur (og Hjalta). Þessar hugmyndir um fund um einstakar glærur virðist frá BR komin – og það er erfitt fyrir Pétur að standa gegn því að BR fái að sprikla. BR er með einhverjar hugmyndir um málþing mikilsmetandi manna um Vantrú – veit svo sem ekki mikið meira um það. Þórður sagði Pétri að hann hefði miklar efasemdir um að mikið kæmi út úr fundi okkar með BR (og Pétri) og hann óttaðist að allt færi í hund og kött. [- – -] Þórður sagði að hann og nefndin gæti auðvitað ekki lagst gegn því að menn töluðu saman og ef menn næðu sáttum fyrir utan nefndina væri það auðvitað hið besta mál. Hann leggur til að við förum til fundar við þessa menn, án aðkomu nefndarinnar – og heyrum hvað þeir hafa að segja án þess að fara út í miklar samræður við BR og alls ekki deilur. Ef okkur finnst lítið til hugmyndanna koma lítum við og Þórður svo á að sáttaferlið sé ennþá í gangi í nefndinni.

   

* Þórður Harðarson hringdi svo aftur í Reyni Harðarson sama dag og fagnaði því að Pétur Pétursson hefði hætt við að halda fund með Bjarna Randveri Sigurvinssyni og vantrúarfélögum. Jafnframt benti Þórður Reyni á að „sáttatillaga“ siðanefndar HÍ (þar sem guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ væri neydd til að sættast við Vantrú) yrði birt á vef háskólans þar sem fjölmiðlar hefðu aðgang að henni og geti vantrúarfélagar gætu notað hana eins og þá lysti.

   

*  19. apríl 2010 kemur fram á spjallþræði Vantrúar, „Söguskoðun Bjarna Randvers“ að  Þórður Harðarson hafi „óvart“ framsent bréfaskipti Péturs Péturssonar og sín til Vantrúar þar sem Pétur var að upplýsa Þórð um hvernig Bjarni Randver sæi fyrir sér möguleika til að koma til móts við félagið Vantrú.

   

26. apríl 2010 tilkynnti Reynir Harðarson formaður Vantrúar að hann hafi fengið hringingu frá Þórði Harðarsyni. Þar segist Reynir hafa hafnað hugmyndinni um „málþing og bla bla“ og hafa áréttað „að hugmyndir um samstarf með BR, útgáfu rits með hans hugmyndum (auk okkar að vísu) væri ekki mjög traustvekjandi“. Jafnframt lætur hann vantrúarfélaga vita að „eftir niðurstöðu nefndarinnar getum við auðvitað frábeðið nokkra aðkomu BR“ í tengslum við hugsanlega „ráðstefnu og rit“. Að sögn Reynis sagði Þórður að Guðni Elísson prófessor „færi nú mikinn og væri afar umhugað um akademískt frelsi kennara“ en sjálfur liti hann svo á að frelsið væri ekki ótakmarkað. Reynir áréttar að afstaða Þórðar sé „jafnskýr og áður“.

   

* 29. apríl 2010 svaraði Þórður Harðarson  netbréfi Reynis Harðarsonar formanns Vantrúar með því að tilkynna að „sáttatilraunum“ hennar sé lokið og verði málið tekið til efnislegrar meðferðar á næstu dögum. Jafnframt minnti Þórður á það þegar hann hringdi í Reyni „til að útskýra mína sýn á stöðu mála í kjölfar fundarins í guðfræðideild“. Loks þakkaði Þórður Reyni fyrir „hnökralaus samskipti“ og sagðist vona að siðanefndin kæmist að farsælli niðurstöðu.

   

* 18. maí 2010 trúði Þórður Harðarson Reyni Harðarsyni formanni Vantrúar fyrir því bréfleiðis að hann mundi kannski segja sig frá málinu í vikulok en hann ætti eftir að tilkynna siðanefnd það og heyra aftur í rektor.

   

* 8. júní 2010 hringdi Reynir Harðarson í Þórð Harðarson sem trúði honum fyrir því að ef Guðni Elísson prófessor drægi ekki „kvörtun sína skilyrðislaust og að fullu til baka“ myndi hann segja af sér sem formaður siðanefndar daginn eftir.
 
 
 

Óháða nefndin sem skipuð var að frumkvæði Háskólaráðs segir um háttalag Þórðar Harðarsonar og fleiri í siðanefndinni:

Samskipti einstakra nefndarmanna við málsaðila áttu sér stað utan formlegra funda nefndarinnar. Formleysi af þessum toga dregur úr gagnsæi og er til þess fallið að veikja nauðsynlegt traust aðila til siðanefndarinnar. Nefndin gerir alvarlegar athugasemdir við þetta verklag siðanefndarinnar.

(Sjá Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011, s. 40-41. Hér eftir verður vísað í þetta plagg sem Skýrslu óháðu nefndarinnar.)

   

Ég veit ekki að hve miklu leyti óháða nefndin er að vísa til þessara samskipta Þórðar Harðarsonar og Reynis Harðarsonar. Þar sem ólíklegt verður að teljast að guðfræði-og trúarbragðafræðdeild hafi verið málsaðili í kærumálinu sem siðanefndin vann í er efitt að meta hvort óháða nefndin taldi samskipti við Hjalta Hugason og Pétur Pétursson hér með. Samskiptin við sakborninginn Bjarna Randver voru eitt símtal, þ.e. Bjarni Randver hringdi í Þórð Harðarson 14. apríl 2010, að ráði Péturs Péturssonar. 
  
 

  
 
Stefna siðanefndar og störf hennar í formannstíð Þórðar Harðarsonar
 

Þann 31. mars 2010 ræddi Pétur Pétursson deildarforseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar við Þorstein Vilhjálmsson siðanefndarfulltrúa í síma. Pétur mat út frá því samtali að Bjarni Randver Sigurvinsson yrði dæmdur af siðanefndinni. T.d. gerði Þorsteinn honum grein fyrir alvarleika þess að vitna í biblíuritskýringar Níelsar Dungals prófessors. (Tímatafla Bjarna Randvers.)
 

Á öðrum fundi siðanefndar HÍ þann 15. apríl 2010 segir skv. fundargerð að rædd hafi verið sáttaleið sem fæli í sér yfirlýsingu frá Guðfræði og trúarbragðafræðideild, gegn því málið yrði dregið til baka. „Starfandi forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar sem kemur fram í þessu máli f.h. Bjarna“, hafi fallist á óformlega á þessa leið. Síðan muni siðanefnd birta fréttatilkynningu á vef Háskóla Íslands um að sátt hafi náðst í málinu og skuli guðfræði-og trúarbragaðdeild og siðanefnd HÍ koma sér saman um orðalag tilkynningarinnar.

   

Daginn áður hafði Þórður Harðarson hringt í Pétur Pétursson forseta guðfræði-og trúarbragðafræðideildar og tilkynnt honum hvernig siðanefndin muni afgreiða málið og lesið fyrir hann drög að sáttatillögunni. Pétur Pétursson kom alls ekki fram í þessu máli „fyrir hönd Bjarna Randvers“ og Pétri hefur líklega ekki dottið sú túlkun Þórðar Harðarsonar í hug, sem var byggð á ónákvæmu minnisbréfi til að leiðrétta hugmynd Þórðar um hver væri í forsæti deildarinnar. Pétur hefur líklega talið að Þórður hringdi í sig sem forseta deildarinnar. Honum brá mjög við tíðindin, hringdi tafarlaust í Bjarna Randver Sigurvinsson og hvatti hann til að hafa strax samband við Þórð Harðarson, gera honum grein fyrir sjónarmiðum sínum og fá hann til að hætta við þessa afgreiðslu málsins. Það gerði Bjarni Randver, snemma kvölds fyrir þennan fund siðanefndar. Bjarni skrifaði minnispunkta um símtalið strax að því loknu og í þeim segir:

Þórður Harðarson reyndist kurteis í viðmóti á yfirborðinu en afdráttarlaus. Hann hafði engan áhuga á að hitta mig og ræða málin við mig. Þess í stað sagði hann að ég ætti eingöngu að ræða við Pétur Pétursson um málið og láta í ljós afstöðu mína við hann. Í raun hefði ég þó ekkert um málið að segja því að það væri í höndum deildarinnar að skera úr um tilhögun kennslu minnar með þeirri yfirlýsingu sem siðanefndin legði fram. Hann játti því að yfirlýsingin fæli í sér áfellisdóm yfir mér og kennslu minni og sagði mér að þessi niðurstaða væri mér fyrir bestu því að siðanefndin liti glærurnar frá mér svo alvarlegum eða illum augum að það gæti komið mér verulega illa ef málið yrði tekið fyrir með formlegum hætti hjá siðanefndinni. Ég mótmælti því (eins kurteislega og mér var unnt) að ég hefði dregið upp ósanngjarna mynd af Vantrú og sagðist ekki sætta mig við það að deildin myndi gefa út yfirlýsingu þess efnis. Jafnframt lýsti ég því yfir að ég stæði við glærurnar og teldi í versta falli hægt að tala um örfá atriði sem álitamál eða smekksatriði. Ég hefði hins vegar á engan hátt brotið siðareglur HÍ. Þegar ég greindi Þórði frá því að ég væri að vinna ítarlega greinargerð til að svara gagnrýni vantrúarmanna á mig og væri svo til búinn með kaflann um Helga Hóseasson sem ég myndi gjarnan vilja fá að senda á hann reyndist hann með öllu áhugalaus, sagði að það ritverk gæti gagnast ef málið yrði tekið formlega fyrir og yrði þá mögulega birt á vettvangi háskólans en eins og staðan væri núna væri ekki þörf á því.
[- – -]
Ég reyndi að gera Þórði grein fyrir þeirri sáttaleið sem ég hef ávallt haldið á lofti gagnvart Pétri Péturssyni og öðrum kennurum deildarinnar þess efnis að hafa m.a. samvinnu við Vantrú um tilhögun kennsluefnisins en kom aðeins hluta þess til skila með herkjum því að hann sýndi engan áhuga á því sem ég hafði að segja. Hann sagði aðeins að ef deildin kæmist að einhvers konar samkomulagi við Vantrú sem fæli í sér að kæran yrði dregin til baka væri málið komið út af borði hans. Símtalið við Þórð Harðarson var mér mikil og sár vonbrigði. Augljóst var af máli hans að hann og aðrir nefndarmenn höfðu þegar gert upp huga sinn hvað varðar kæruna á hendur mér og metið stöðuna þannig að ég hafi klárlega brotið af mér. Hann hafði þegar rætt við Reyni Harðarson en sýndi engan áhuga á að ræða við mig eða kynna sér málflutning minn og hafnaði því raunar alfarið að funda með mér. Þvert á móti væri ætlast til þess að Guðfræði- og trúarbragðafræðideildin myndi hlýta fyrirmælum siðarnefndarinnar um svo kallaðar „sættir“ sem fælu það í sér að mér yrði veitt efnisleg áminning fyrir kennsluna opinberlega, þ.e. að deildin felli yfir mér áfellisdóm eins og það var orðað. Það væri mér fyrir bestu því að ella gæti ég og jafnvel deildin líka hlotið verra af.
(Minnispunktar! Símtal við Þórð Harðarson, formann Siðanefndar HÍ, skömmu fyrir kvöldmat miðvikudaginn 14. apríl 2010. Þeir eru í skjalinu Ýmis skjöl frá hinum kærða. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010) sem er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í.)

Um þetta símtal og fleira segir Þórður Harðarson: 

Hinn 14. apríl var kæra Vantrúar til umræðu á deildarfundi guðfræðideildar. Þar mun hafa verið rætt um möguleika á sáttum.

Sama dag eða daginn eftir ræddi formaður við PP um sáttatexta og féllst hann efnislega á tillögu að inntaki textans. BRS hringdi í formann, sem sagði honum, að hann ætti að sjálfsögðu óskoraðan andmælarétt, en ekki væri tímabært að nefndin fjallaði efnislega um málið meðan fulltrúar guðfræðideildar og Vantrúar reyndu að ná sáttum. BRS virðist síðar hafa misskilið þetta þannig, að formaður hafi neitað að ræða við hann yfirleitt.
 (Þórður Harðarson. Greinargerð í siðanefndarmáli. Morgunblaðið 8. desember 2011. Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar.)

 

Um afgreiðslu guðfræði- og trúarbragðafræðideildar á málinu, þ.á.m. þessum sáttatexta sem Þórður minnist á, segir í Skýrslu óháðu nefndarinnar:

Í fundargerð deildarfundar í guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem haldinn var 14. apríl 2010 kemur fram undir dagskrárliðnum „bókuð bréf og erindi“ að erindi Vantrúar og svar Péturs til þeirra hafi verið lagt fram og að deildarforseti hafi gert grein fyrir málinu. Fundarmönnum var boðið að ræða málið undir liðnum „önnur mál“ en ekkert var skráð í fundargerð um innihald þeirra. (Skýrsla óháðu nefndarinnar s. 52.) [ – – – ] Að mati [óháðu] nefndarinnar var erindi Vantrúar til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, dags. 4. febrúar 2010, svarað með tölvupósti deildarforseta deildarinnar 9. mars 2010. Aðkoma starfsmanna guðfræði- og trúarbragðafræðideildar síðar hafi fyrst og fremst verið einstaklingsbundin í tengslum við beiðnir frá þv. formanni siðanefndar deildarinnar. Verður ráðið að áform þeirra hafi verið að leita sátta í málinu í þeirri trú að þannig yrði gætt hagsmuna hins kærða. (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 55.)

Þannig að Þórður Harðarson virðist hafa oftúlkað afgreiðslu guðfræði- og trúarbragðafræðideildar á tillögum hans að sáttatexta. Væntanlega er bókunin á öðrum fundi siðanefndar um málið, þann 15. apríl, byggð á upplýsingum Þórðar enda endurtekur hann sömu staðhæfingar í greinargerðinni sem hann birti í desember 2011:
 

Annar fundur siðanefndar var haldinn 15. apríl. Formaður kynnti, að PP hefði fallist óformlega á sáttaleið, sem fæli í sér yfirlýsingu frá GT, gegn því að málið yrði dregið til baka. Lögfræðingur háskólans benti á andmælarétt Bjarna sem guðfræðideild þyrfti að veita honum áður en málið væri afgreitt í siðanefnd og yfirlýsing birt.
(Þórður Harðarson. Greinargerð í siðanefndarmáli. Morgunblaðið 8. desember 2011. Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar.)

 
Til þessa hafði siðanefnd HÍ ekki hugkvæmst að hafa samband við hinn kærða en á þessum öðrum fundi hennar þann 15. apríl 2010 voru viðstaddir tveir lögfræðingar, Jónatan Þórmundsson og Ingibjörg Halldórsdóttir, og benti sá síðarnefndi á að „Guðfræðideild“ þyrfti að veita Bjarna Randveri andmælarétt áður en málið yrði afgreitt í siðanefnd og og yfirlýsing birt. (Þetta var svo gert með bréfi siðanefndar HÍ dagsettu 29. apríl 2010, sem fyrir handvömm barst Bjarna Randveri ekki fyrr en þann 10. maí 2010).

Daginn eftir þennan fund, þann 16. apríl 2010, lagði Þórður Harðarson fram tillögu að sáttayfirlýsingu í bréfi, þeirri sömu og hann hafði lesið drög að fyrir Pétur Pétursson daginn fyrir fundinn og kynnt Reyni Harðarsyni formanni Vantrúar þann 13. apríl 2010. Bréf Þórðar var svona:

Sæl öll, (sendi þennan póst til nefndarmanna, málsaðila og lögfræðinganna Ingibjargar og Jónatans).

Vísa til síðasta bréfs Péturs Péturssonar. Þar kemur fram, að kennarafundur verði haldinn í guðfræðideild á miðvikudaginn [21. apríl] m.a. til að fjalla um hugmynd siðanefndar að sáttum. Farið er fram á drög á sáttabréfi.

Eftirfarandi tillögu að sáttabréfi hef ég nú borið óformlega undir Pétur Pétursson og Reyni Harðarson og hafa báðir lýst jákvæðri afstöðu til þess. Siðanefnd er ekki tilbúin að gera róttækar breytingar á tillögunni, nema ljóst sé að báðir aðilar telji þær til bóta. Hins vegar gætu minni háttar orðalagsbreytingar verið til skoðunar, ef brýna nauðsyn ber til slíkra breytinga.
 

 Reykjavík ————

Meðal kennsluefnis guðfræðideildar Háskóla Íslands er námskeiðið Nýtrúarhreyfingar. Bjarni Randver Sigurvinsson hefur annast kennslu á námskeiðinu.Með bréfi dagsettu 4. febrúar 2010 barst siðanefnd Háskóla Íslands erindi frá Reyni Harðasyni sálfræðingi fyrir hönd félagsins Vantrúar, þar sem kennsluefni, sem snerti félagið var gagnrýnt með ýmsum hætti.

Að beiðni siðanefndarinnar hafa deildarforseti og varadeildarforseti guðfræðideildar farið yfir umrætt kennsluefni.

Þeir viðurkenna og harma, að kennsluefnið felur ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn. Athugasemdir Reynir [svo] Harðarsonar og samtaka hans verða teknar til jákvæðar skoðunar, þegar og ef til þess kemur, að námskeiðið verði endurtekið.
 

 Pétur Pétursson (og Hjalti Hugason?)

Jafnframt og samtímis þessari yfirlýsingu gerir siðanefnd ráð fyrir yfirlýsingu frá Reyni Harðasyni (formaður hefur rætt það við Reyni), þar sem erindi hans til siðanefndar er dregið til baka.

Í ljósi ofangreindrar yfirlýsingar frá guðfræðideil [svo]  Háskóla Íslands dreg ég til baka erindi mitt til siðanefndar Háskóla Íslands dags 4 [svo] febrúar 2010.

 Reynir Harðarson.

 (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 37-38. Feitletrun mín. Ég veit ekki hvort stafsetningar- og innsláttarvillur eru í frumritum eða hvort þær eru á ábyrgð óháðu nefndarinnar.)
 
 

 
Kennararfundur í guðfræði- og trúarbragðafræðideild hafnaði því að þessi sakfellandi sáttatillaga væri afgreidd í nafni deildarinnar. Í bréfi til Þórðar Harðarsonar þann 21. apríl 2010 lýsti Pétur Pétursson þessu og ítrekaði að Bjarni Randver sé tilbúinn að funda með Vantrú um glærurnar sem félagið kvartaði yfir og að bæði hann og Pétur séu tilbúnir í samstarf við Vantrú um umræðu á akademískum vettvangi. Að öðru leyti vísaði Pétur í afgreiðslu deildarinnar á kæru Vantrúar frá 9. mars 2010.

   

Þórður svaraði Pétri þann 26. apríl 2010 og sagði m.a.: „Siðanefnd virðist, að með því sé hafnað þeim drögum að yfirlýsingu, sem nefndin taldi að aðilar væru sáttir við. Þar með er ekki sagt, að sættir komi ekki til greina.“ (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 38.)
 

Þriðji fundur siðanefndar HÍ var haldinn 6. maí 2010. Á honum voru samþykktar fundargerðir fyrsta og annars fundar „með orðalagsbreytingum“. Þess ber að geta að þegar lögmaður Bjarna Randvers Sigurvinssonar fékk fundargerðir fyrsta og annars fundar loksins afhentar fékk hann þessar samþykktu fundargerðir „með orðalagsbreytingum“ en aftur á móti hefur óháða nefndin sem skipuð var af Háskólaráði fengið frumgögn. Þ.a.l. er ljóst að málsgrein sem bókuð var upphaflega í fundargerð fyrsta fundar siðaefndar 28. mars, um „að fyrir næsta fund hennar myndi Þorsteinn Vilhjálmsson skoða heimasíðu Vantrúar og Sigríður athuga fordæmi“ hefur verið felld út. (Sjá Skýrslu óháðu nefndarinnar, s. 35.) Svoleiðis ritskoðun kalla ég, sem íslenskufræðingur, ekki „orðalagsbreytingu“. Væri gaman að vita hvort fleiri heilar málsgreinar hafi verið felldar úr fundargerðunum.

Á þessum þriðja fundi var annars fjallað um bréf Péturs Péturssonar um umfjöllun málsins í guðfræði- og trúarbragðafræðideild og núna loksins lagt fram bréf Bjarna Randvers Sigurvinssonar til nemenda sinna, bréfið sem Pétur Pétursson afhenti Þórði Harðarsyni þann 23. mars 2010. Lagt var fram bréf frá Guðna Elíssyni sem hann skrifaði fyrir hönd 22 kennara og doktorsnema við Hugvísindasvið HÍ til siðanefndar. Að því búnu er bókað: „Málið var rætt og áhersla lögð á að farið sé að formreglum stjórnsýslulaga um meðferð þess. Áréttað var að öðrum en málsaðilum verði haldið utan við málið á vettvangi siðanefndar.“ Loks var bent á að frestur Bjarna Randvers til andmæla væri liðinn og ekkert hefði frá honum heyrst. [Skýringin var sú að Bjarna Randveri hafði ekki borist bréf siðanefndar því það var sett í rangt pósthólf.] Ákveðið var að hafa aftur samband við Bjarna Randver, að siðanefnd „fari fyrir [svo] andmælin“ og síðan verði málsaðilar kallaðir á fund siðanefndar, fyrst kærandi. Þessi fundargerð var samþykkt á næsta fundi siðanefndar, þann 1. júní 2010.

   

Þann 17. maí 2010 skilaði Bjarni Randver Sigurvinsson skýrslunni Svar við kæru Vantrúar til Amalíu Skúladóttur ritara siðanefndar HÍ (sömu skýrslunni og hann hafði boðið Þórði Harðarsyni formanni siðanefndar rúmum mánuði áður en Þórður hafði engan áhuga á). Málsmeðferð siðanefndar spurðist æ víðar út innan Háskóla Íslands.

Þann 12. maí fór Þórður Harðarson formaður Siðanefndar HÍ á fund Kristínar Ingólfsdóttur rektors HÍ og gerði henni grein fyrir þeim möguleika að hann segði af sér í kærumálinu.

Þann 14. maí 2010 sendi formaður Vantrúar tölvuskeyti til siðanefndar þar sem eftirfarandi kom fram:

Okkur í Vantrú þætti vænt um að fá formlegar upplýsingar um stöðu málsins.

Við höfum heyrt af upphlaupi nokkurra kennara í Hugvísindadeild, sem eru ekki aðilar að málinu. Okkur skilst að þeir hafi sent frá sér ályktun þar sem talað er um „úrskurð „ eða“ niðurstöðu“ siðanefndar, þótt hún hafi engan úrskurð kveðið eða komist að niðurstöðu.

Siðanefnd reyndi sættir og sættir hljóta að fela í sér að komið sé til móts við þann sem telur á sér brotið, annað er frávísun eða hunsun. Ekki hefði verið látið reyna á þessari sættir án þess að forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar teldi þær réttan leik [í] stöðunni.

Við hörmum ef bornar voru brigður á heilindi nefndarmanna í þessu máli af óviðkomandi aðilum, algjörlega að ósekju. Við vonum að nefndin fái að sinna störfum sínum óáreitt og að enginn dómur verði kveðinn upp um störf hennar fyrr en hún hefur lokið þeim störfum.

Aðfinnslur og athugasemdir einhvers þrýstihóps innan háskólans eru í hæsta máta óeðlilegar á þessu stigi málsins og afar sérkennilegt ef reyna á með þessu hætti að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar, vægast sagt. Takist það er allt málið í uppnámi frá upphafi til enda.

Á Vantrú að treysta niðurstöðu siðanefndar sem er sérskipuð með tilliti til kvörtunar manna sem telja sig máið [svo] varða innan Háskóla Íslands?. [svo] 
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar s. 39-40.)

Fjórði fundur Siðanefndar HÍ var haldinn þann 1. júní 2010. Ingibjörg Halldórsdóttir lögfræðingur HÍ var viðstödd. Þórður Harðarson formaður nefndarinnar féllst á að fresta afsögn sinni og hugleiða málið frekar. Ingibjörgu var falið að hafa samband við Bjarna Randver Sigurvinsson áður en greinargerðin Svar við kæru Vantrúar væri send til Vantrúar til umsagnar. (Þessi fundargerð var ekki afhent Bjarna Randveri Sigurvinssyni fyrr en 10. nóvember 2011 þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Sú skýring var gefin að fundargerðin hafi aldrei verið samþykkt af Siðanefnd HÍ. Á næsta fundi nefndarinnar var nefnilega frestað að samþykkja þessa fundargerð og svo virðist hún hreinlega hafa gleymst.)

Þann 9. júní 2010 sagði Þórður Harðarson af sér sem formaður siðanefndar HÍ.

Í tengslum við afsögn sína afhenti formaður siðanefndar rektor minnisblað í tengslum við ákvörðun sína, en þar segir m.a.:

„Miklu moldvirði [svo] hefur verið þyrlað upp í tengslum við umfjöllun og vinnubrögð siðanefndar í þessu máli. Einkum hefur verið veist að formanni siðanefndar, þar sem hann hafði tekið að sér hið viðkvæma hlutverk sáttasemjarans. Formaður telur sig hafa hreinan skjöld, en það virðist ekki álit stórs hóps kennara á hugvísindasviði, sem hafði raunar ekki talið nauðsynlegt að leita sjónarmiða formannsins. Formaður er sakaður um að hafa tekið afstöðu í kærumálinu án þess að kynna sér nauðsynleg gögn. Svör formanns að verkefni hans hafi í upphafi einungis verið hefðbundið sáttasemjarahlutverk og að málið hafi alls ekki verið tekið enn til efnislegrar umfjöllunar taka umræddir kennarar ekki gild.

Miklu skiptir, að siðanefnd njóti óskoraðs trausts í háskólasamfélaginu. Ekki er það síst mikilsvert í nánasta starfsumhverfi deiluaðila. Slíkt traust virðist ekki fyrir hendi á hugvísindasviði.

Hætt er við, að niðurstaða núverandi siðanefndar verði tortryggð, hvernig sem henni verður háttað. Verði umrædd kennslugögn talin fela í sér brot á siðareglum, getur það túlkast sem staðfesting á því að siðanefnd hafi snemma tekið ótímabæra afstöðu á ónógum forsendum og geti ekki snúið við blaðinu.

Verði kennslugögnin hins vegar talin samrýmast siðareglum, má túlka það svo, að siðanefnd hafi látið undan ytri þrýstingsaðgerðum.

Formaður siðanefnda [svo] telur því affarasælast fyrir siðanefndina og háskólann, að hann segi sig frá málinu eða ný nefnd, sem skipuð verður í sumar taki málið til umfjöllunar.

Má eitthvað læra af þessu máli?

Kannski ætti sá boðskapur erindi við háskólasamfélagið, að siðanefnd Háskóla Íslands fái í framtíðinni frið til að fjalla um kærumál án ytri þrýstings og að menn geymi sér gagnrýni á störf nefndarinnar, þar til hún hefur lokið umfjöllun sinni. …„ [svo]
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 40-41. Feitletrun mín.)

Afsögn Þórðar þurfti svo sem ekki að koma á óvart því félagið Vantrú hafði sent fimm síðna greinargerð til fjölda fjölmiðla skömmu áður en einungis Smugan birti eitthvað úr henni. Daginn áður en Þórður sagði af sér hafði yfirvofandi afsögn hans komið fram í þeirri frétt. Ennfremur kom fram í fréttinni að Þorsteinn Vilhjálmsson kenndi guðfræði- og trúarbragðafræðideild um að siðanefnd hafi ekki getað lokið málinu: 

Siðanefnd Háskólans reyndi sættir í málinu og samþykktu Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, og Pétur Pétursson, forseti guðfræði- og trúarbragðadeildar að bera sáttatillögu undir sína menn. [- – -]

Sáttatillagan var hins vegar felld á kennarafundi guðfræði- og trúarbragðadeildar og samkvæmt heimildum Vantrúarmanna hefur Þórður Harðarson, formaður siðanefndar, íhugað afsögn nefndarinnar í kjölfar málsins – en Þórir [svo] var ekki tilbúinn til þess að tala við blaðamann um málið. [- – -]

Í augnablikinu er málið því í höndum siðanefndar – og eru bæði Vantrú og Bjarni Randver sammála um að þetta ferli hafi tekið óvenju langan tíma, en Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, lýsir þessu svona: „Formaður siðanefndar, Þórður Harðarson, má ekki vamm sitt vita og vegna þessa hefur hann íhugað afsögn nefndarinnar vikum saman, en á meðan hefur nefndin auðvitað verið lömuð og ekkert gerist í málinu.“

Þetta telur Þorsteinn Vilhjálmsson, einn þriggja meðlima í Siðanefndinni, að sé misskilningur. „Vantrú  sendi kæru til siðanefndar og jafnframt til guðfræði- og trúarbragðadeildar. Það þurfti eiginlega að ljúka síðarnefnda málinu fyrst, og það er aðalástæðan fyrir töfum á störfum siðanefndar. En það er ekki alveg ljóst á þessari stundu hvernig framhaldið verður. Það er bréf á leiðinni til Reynis um þetta.“
(Vantrú deilir við guðfræðiprófessor í HÍ. Smugan 8. júní 2010. Hér er krækt í fréttina á Vefsafninu. Feitletrun mín.)

 

 

Vert er að minna á að guðfræði- og trúarbragðafræðideild afgreiddi kæru Vantrúar til deildarinnar með bréfi til Vantrúar þann 9. mars 2010.
 
 
 
 
 
 
 
 

Fyrstu viðbrögð siðanefndar HÍ við kæru Vantrúar

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Vantrú afhenti kærur vegna glæra í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar á haustönn 2009 til þriggja aðila innan Háskóla Íslands þann 4. febrúar 2010. Þar vó þyngst kæra Vantrúar til siðanefndar HÍ. Kærubréfin voru að miklu leyti samhljóða. Í bréfinu til siðanefndar HÍ er Bjarni Randver Sigurvinsson kennari beinlínis kærður fyrir:

* meðferð á tilvitnunum í félagsmenn, og uppsetningu [væntanlega á glærunum]; hvort tveggja taldi félagið Vantrú vera hreinan áróður og skrumskælingu á afstöðu félagsins og brot á siðareglum HÍ;

* siðlaust efnisval og efnistök. Má ætla af kærubréfinu að siðlausa efnisvalið sé m.a. að mati Vantrúar að aðaláherslan er lögð á persónuleg skrif félagsmanna Vantrúar en ekki greinar sem birst hafa á vantru.is;

* birtingu mynda af félagsmönnum án þess að geta myndhöfunda.

Annað í bréfinu sjálfu fellur ekki undir að vera beinar kærur en félagið Vantrú setur fram þá túlkun sína að umfjöllun um Vantrú hafi e.t.v. litast af tengslum kennarans við Þjóðkirkjuna; tekur fram að kennarinn hafi aldrei haft samband við félagið Vantrú og fer fram á að siðferði kennsluefnisins um Vantrú verði metið. (Í bréfinu til deildarstjóra guðfræði- og trúarbragðafræðideildar var ekki farið fram á þetta heldur að kennsluefnið og hæfni Bjarna Randvers sem kennara væri metið.) Jafnframt lýsir félagið Vantrú þeirri skoðun sinni að eigi guðfræði- og trúarbragðafræðideild að vera eittthvað annað en „guðfræðideild eða prestaskóli ríkiskirkjunnar“ sé „þörf á gagngerri endurskoðun þessa áfanga Bjarna Randvers.“ Vantrú lét fylgja afrit af nokkrum siðareglum HÍ, þar sem einstök orð eða setningar eru feitletaðar og sumt einnig undirstrikað. Fylgiskjöl voru glærur um Deista o.fl. og Vantrú, ásamt sömu greinargerð og fylgdi hinum kærunum. (Sjá má þessa greinargerð í bréfinu til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar á vef Vantrúar.) Vantrú tengir hvergi klögumál um einstakar glærur í greinargerðinni við einstakar siðareglur HÍ. Kærubréf Vantrúar til siðanefndar HÍ er birt í heild neðst í þessari færslu.

Í siðanefnd sátu og höfðu setið frá 2007 þau Þórður Harðarson prófessor í læknisfræði, Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor í eðlisfræði og Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor í heimspeki. Þegar kæra Vantrúar var afhent þann 4. febrúar 2010 var formaður siðanefndar staddur erlendis en væntanlegur til landsins um miðjan mars. Ritari siðanefndar, Amalía Skúladóttir, sendi hinum tveimur fulltrúunum í siðanefnd tölvupóst þann 16. febrúar og fól þeim „að skoða málið fram að þeim tíma og hvernig á því skuli tekið með Jónatani Þórmundssyni.“ (Lögfræðingurinn Jónatan hefur líklega tekið þátt í umboði háskólarektors sem hafði vísað bréfi Vantrúar til sín til áfram til siðanefndar.) Fyrsti fundur siðanefndar um málið var síðar boðaður og skyldi hann haldinn þann 25. mars 2010. (Sjá Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011, s. 32. Hér eftir er vísað í þetta plagg sem Skýrslu óháðu nefndarinnar.)
 
 

Einleikur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar Háskóla Íslands
 

Fyrir fyrsta fund siðanefndar hafði Þórður Harðarson formaður nefndarinnar þó einhent sér í þetta mál. Erfitt er að meta hvort hann gerði það með vitund og vilja hinna í siðanefndinni en samtal hans við Pétur Pétursson bendir til þess að hann hafi þá þegar rætt málin við þau Þorstein Vilhjálmsson og Sigríði Þorgeirsdóttur, a.m.k. lét Þórður í veðri vaka að hann deildi áliti siðanefndar, sem þó hafði ekki fundað um málið. Þann 18. mars 2010 hafði Þórður nefnilega samband við Hjalta Hugason prófessor við guðfræði- og trúarbragðadeild, sem Þórður hélt að væri deildarforseti en Hjalti var í leyfi. Hjalti lét Pétur Pétursson deildarforseta vita og Pétur hafði strax samband við Þórð. Þórður tilkynnti bæði Hjalta og Pétri að Bjarni Randver Sigurvinsson hefði verið kærður fyrir siðanefnd HÍ og að nefndin liti kæruna og meðfylgjandi glærur úr námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar grafalvarlegum augum. (Bjarni Randver Sigurvinsson. Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í það. Hér eftir verður vitnað til þess sem Tímatöflu Bjarna Randvers.)

Um samtal þeirra Þórðar og Péturs segir Þórður að Pétur hafi þegið heimboð sitt til viðræðna um kæruna fáum dögum fyrir fyrsta fund siðanefndar. Þar hafi Þórður reifað möguleika á sáttum „eins og gert er ráð fyrir í 7. gr. starfsreglna siðanefndar.“ (Þórður Harðarson. Greinargerð í siðanefndarmáli. Morgunblaðið 8. desember 2011. Hér er krækt í greinina á vef Vantrúar þar sem þess er getið að Þórður hafi leyft birtingu greinargerðar sinnar.)

Þórður lætur þess ógetið í sinni greinargerð að skv. starfsreglum siðanefndar HÍ á nefndin fyrst að ákvarða hvort kæra heyri undir siðareglur Háskóla Íslands áður en siðanefnd kannar hvernig afgreiða eigi málið. Og vel að merkja hafði siðanefnd ekki einu sinni fundað um málið þegar Þórður brá sér í þetta sáttasemjarahlutverk. Gerðist hann sáttasemjari upp á eigið eindæmi? Og hvernig samrýmist svoleiðis einleikur starfsreglum siðanefndar HÍ?

Raunar ber Pétur Pétursson þessa frásögn af heimboði Þórðar og sáttavilja Þórðar til baka. Pétur segir:
 

Á þessum tíma hafði formaðurinn ekki haft fyrir því að kynna mér það að einnig siðanefnd hefði borist kæra frá félaginu Vantrú. Ég frétti það hjá Hjalta Hugasyni prófessor sem hann hafði haft samband við og upplifun Hjalta var sú að málið væri mjög alvarlegt og ljóst væri að ef ekki næðust sættir þá myndi Bjarni verða áminntur af siðanefnd. Ég set mig því að sjálfsögðu strax í samband við Þórð og fæ þessa túlkun Hjalta staðfesta. Stuttu seinna banka ég svo óboðinn á dyr hjá formanninum með gögn frá Bjarna, bréf sem hann sendi nemendum í umræddu námskeiði, leiðbeiningar um það hvernig þeim bæri að túlka umræddar glærur og taldi ég og samstarfsfólk mitt í deildinni að það væri mjög mikilvægt að formanninum bærust þessi gögn sem fyrst og það fyrir næsta fund nefndarinnar. Formaðurinn hafði engan áhuga á þessu efni sem þó er hluti af kennslugögnunum. Seinna komst ég að raun um að hann hafði stungið þessu bréfi undir stól. Hann hafði heldur engan áhuga á afgreiðslu Guðfræðideildar frá 9. mars 2010.
Pétur Pétursson. Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar H.Í. Morgunblaðið 9. desember 2011. Krækt er í grein Péturs á mbl.is en hún er einungis aðgengileg kaupendum Morgunblaðsins. Feitletrun mín.)
 

Hvað taldi Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ að Vantrú hefði kært?

Þórður Harðarson segir í sinni greinargerð í Morgunblaðinu í des. 2011: 

Þegar formaður [þ.e. Þórður] sýndi Pétri kennslugögn BRS virtist hann sleginn, en þar var m.a. að finna afar klámfengna vísu um mikils metinn biskup, föður hans. Þessi vísa var ekki einsdæmi. Formaður og Pétur skildu í miklu bróðerni og lýsti Pétur því yfir, að sér væri mjög létt við finna, að e.t.v. væri kostur á sáttum.

Pétur Pétursson var auðvitað fyrir löngu búinn að skoða þessar glærur því kæra Vantrúar til hans, sem deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, var afhent þann 4. febrúar 2010 og höfðu þeir Pétur og Bjarni Randver fundað um hana, alls óvitandi um að Bjarni Randver hefði einnig verið kærður fyrir siðanefnd. Svo lýsing Þórðar Harðarsonar á því hve Pétur var „sleginn“ þegar Þórður sýndi honum „kennslugögn BRS“ er í hæsta máta ótrúverðug. Upplifun Péturs Péturssonar af fundi þeirra Þórðar og afstöðu Þórðar var allt önnur:
 

Hann [Þórður] sagði við mig fyrst þegar við töluðum um glærur Bjarna: “Svona efni á ekki að nota í kennslu við H.Í. og allra síst í Guðfræðideild.” Þórður ávarpaði mig alltaf sem “séra Pétur” eins og hann gengi út frá því að kennarar við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild væru vígðir prestar í Þjóðkirkjunni og að full ástæða væri fyrir því að biðja félagið Vantrú afsökunar á því. Hann gerði sér ekki grein fyrir því að ég er félagsfræðingur og að Nýtrúarhreyfinganámskeiðið sem ég hef umsjón með er kennt á forsendum trúarbragðafélagsfræði. Hvorki kennarar eða nemendur í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild eru játningabundnir og geta verið í hvaða trúfélagi sem er eða utan allra. Af greinargerðinni sem formaður Siðanefndar lét birta í Mbl þá er hann við sama heygarðshornið í þessum efnum. Ég sé ekki betur en að hann hafi 18. aldar sýn á guðfræði og guðfræðikennslu og viti ekkert um það og vilji ekki vita að þýski heimspekingurinn og guðfræðingurinn Friedrich Schleiermacher upphafsmaður nútíma túlkunarvísinda endurskilgreindi hlutverk guðfræðinnar innan evrópskra háskóla í löndum mótmælenda fyrir tveimur öldum. Túlkunarfræði guðfræði- og trúarbragðafræða byggir á sömu forsendum og bókmenntafræði yfirleitt og menningarfræði almennt.” (Pétur Pétursson. 19. janúar 2012. Athugasemd nr. 5 við bloggfærsluna Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti.)

Um málflutning Þórðar Harðarsonar á þessum fundi þeirra Péturs Péturssonar segir í Tímatöflu Bjarna Randvers – hvað varðar akkúrat þessa tilvitnun þá hefur Pétur Pétursson staðfest í símtali að rétt sé eftir haft:

18. mars 2010 [ – – -] Meðal athugasemda Þórðar er að Bjarni Randver skuli tilgreina biblíuritskýringar Níelsar Dungals prófessors (sem reynist kennari Þórðar) og vitna í bók hans Blekkingu og þekkingu. Hann megi ekki heldur nefna Helga Hóseasson á nafn (enda veikur á geði) og vitna í kveðskap hans. Síðast en ekki síst hafi Bjarni Randver brotið af sér með því að vitna í forystumenn Vantrúar (því að bloggskrif hafi ekkert með akademísk fræði að gera), birta myndir af þeim í láréttri röð (svonefnd sakamannauppstilling að mati Þórðar) og sérstaklega eina af vantrúarfélaganum Vésteini Valgarðssyni í kristsgervi, fjalla um mögulegar afleiðingar neikvæðrar orðræðu um trúarbrögð, trúarhópa og trúaða einstaklinga og birta grein með neikvæðum myndum af Múhameð spámanni sem dæmi um neikvæðan málflutning utan félagsins. Ekkert af þessu sé sæmandi Háskóla Íslands „og allra síst í guðfræðideild“. Svipuð viðhorf koma fram hjá öðrum siðanefndarfulltrúum þegar Pétur ræðir við þá næstu daga. Þórður kallar Pétur eftirleiðis „séra“ þótt Pétur sé óvígður og fyrst og fremst félagsfræðingur og kirkjusagnfræðingur. Margar af athugasemdum Þórðar koma ekki fyrir í kæru Vantrúar [- – -].  (Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í það.)

Í fyrrnefndri Greinargerð Þórðar Harðarsonar um siðanefndarmál, frá 8. desember 2011, túlkar Þórður hver sé „þungamiðja kærunnar“:

Kannski er þungmiðjan í kærunni röð af glærum, þar sem BRS birtir óviðfelldnar og klámfengnar vísur um þekkt fólk: Forseta, tvo ráðherra, tvo biskupa og a.m.k einn prest. Kveðskapurinn er eftir látinn mann, sem ekki mun hafa gengið heill til skógar, en tengdist Vantrú. Töldu vantrúarmenn, að BRS vildi með þessu sýna nemendum sínum dæmigerðan málflutning Vantrúar.

Miðað við kærubréf félagsins Vantrúar til siðanefndar HÍ er ómögulegt að sjá að þetta sé þungamiðjan í kæru þeirra. Vissulega er kvartað undan þessum glærum í greinargerðinni sem fylgdi bréfinu (sjá s. 4 í sömu greinargerð sem fylgdi bréfinu til forseta guðfræði-og trúarbragðadeildar) en Vantrú kvartar undan ótal atriðum í glærunum og getur þessara tilteknu glæra ekki sérstaklega í kærubréfinu sjálfu. Það hlýtur því alfarið að vera túlkun Þórðar Harðarsonar að akkúrat þessar glærur séu þungamiðjan í kæru Vantrúar. Má ætla að sú túlkun byggist fyrst og fremst á tepruskap hans sjálfs? Og einhverjum furðulegum misskilningi Þórðar að ekki megi vitna í útgefin rit fólks sem „ekki gengur heilt til skógar“?
 

Sé rétt eftir Þórði Harðarsyni haft þá hefur hann litla hugmynd haft um kæruefni Vantrúar þegar hann dreif sig í „sáttaumleitanir“ í persónulegum samtölum. Það er kristaltært af kærubréfi Vantrúar að kæra þeirra beinist ekki sérstaklega að þeim atriðum sem hann telur vera þungamiðju í kærunni og sum atriðin sem hann telur upp í samtali við Pétur Pétursson, s.s. „sakamannauppstilling“ var ekki einu sinni kærð heldur er einungis túlkun Þórðar sjálfs á sömu glærum. Harka Þórðar í málinu og lítill sáttahugur (að mínu mati, byggðu á skoðuðum heimildum) gæti verið sprottin af því að hann sýndi engan lit á að setja sig inn í efni námskeiðsins, ekki einu sinni námskeiðslýsinguna, hann var gamall nemandi Níelsar Dungal og þótti kannski ómaklega vegið að Níelsi með því að bregða upp beinum tilvitnunum í Blekkingu og þekkingu (þótt það tengist raunar óumdeildum heiðri Níelsar Dungal sem vísindamanns ekki nokkurn skapaðan hlut) og mögulega hefur Þórður einhverjar gamaldags og úreltar skoðanir á þeim sem haldnir eru geðrænum sjúkdómum. „Sakamannauppstillingin“ er væntanlega einhver grilla í Þórði því með sömu rökum hafði Bjarni sýnt fjölda annarra forkólfa nýtrúarhreyfinga sem „sakamenn“ á öðrum glærum og höfundar margra kennslubóka væru illa staddir ef mannamyndaraðir væru almennt túlkaðar sem „sakmannauppstilling“, svo ekki sé minnst á þá sem kynna í fjölmiðlum efstu menn í prófkjöri eða þingmenn ákveðins kjördæmis eða íþróttakeppendur … í láréttri röð.

Ég er sammála Pétri Péturssyni um að sýn Þórðar Harðarsonar á guðfræði og guðfræðikennslu sé 18. aldar manns, miðað við greinargerð Þórðar í Morgunblaðinu, sem fyrr var vitnað til, sem gæti einnig skýrt hinn skrítna málflutning Þórðar í samtölum við Hjalta Hugason og Pétur. En þess utan var kúrsinn Nýtrúarhreyfingar miklu frekar á sviði félagsfræði en guðfræði, sem Þórður Harðarson hefði auðveldlega getað séð hefði hann gefið sér tíma til að lesa námskeiðslýsinguna. Í símtali mínu við Pétur Pétursson þann 11. febrúar 2012 kom fram að siðanefndin hafði ekki lagt á sig að fara inn á Uglu, innri vef HÍ, og skoða námskeiðslýsinguna, þegar Pétur hafði fyrst samband við Þórð þann 18. mars 2010.
 

Hvernig átti siðanefnd HÍ að starfa skv. skilningi Þórðar Harðarsonar og e.t.v. hinna siðanefndarfulltrúanna?

Á fyrsta nefndarfundinum 25. mars [2010] var staðfestur áhugi siðanefndarmanna á sáttum. Þá lá fyrir nefndinni bréf til formanns frá PP, þar sem sagði meðal annars: “Heill og sæll. Varðandi kæru félagsins Vantrúar út af kennsluefni í námskeiði um nýtrúarhreyfingar. Ég átti fund með Bjarna Randver, Hjalta Hugasyni og Einari Sigurbjörnssyni í dag og við erum sammála um að ræða við siðanefndina á þeim forsendum að ná sáttum eða samkomulagi […]
Við urðum [einnig] ásáttir um að það heyrði helst undir mig að ræða við nefndina (mín auðkenning), þar sem ég er nú starfandi deildarforseti, var umsjónarmaður með umræddu námskeiði og er leiðbeinandi Bjarna Randvers sem er í doktorsnámi í trúarbragðafræði…”

Siðanefndin hlaut að sjálfsögðu að starfa í samræmi við þetta bréf og leit á PP, en ekki BRS sem nánasta aðila að sáttaviðleitninni. Sú kvörtun BRS, að hafa ekki verið kvaddur á fund nefndarinnar á þessu stigi er því ástæðulaus. Sú skoðun kom raunar líka fram á siðanefndarfundinum, að kæran beindist ekki aðeins að BRS, heldur einnig guðfræðideild. Engin efnisleg umræða fór fram um kennsluefnið, enda vildi nefndin gæta hlutleysis meðan sáttatilraunir stæðu yfir. Sagt er í nýlegri Mbl-grein að Einar kannist ekki við, að fundurinn, sem PP sagði frá, hafi verið haldinn. Einnig er sagt að bréfið hafi týnst.
(Greinargerð Þórðar Harðarsonar um siðanefndarmál, frá 8. desember 2011, krækt er í greinargerðina á vef Vantrúar. Feitletrun mín.)
 

Þessu hefur Þórður Harðarson haldið fram víðar. En bréf Péturs Péturssonar þjónaði raunar einungis þeim tilgangi að gera Þórði Harðarsyni ljóst hver væri deildarforseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar enda hafði Þórður verið óklár á því. Þannig að ef Þórður eða siðanefndin hefði eitthvað hugsað sér að ræða við guðfræði- og trúarbragðafræðideild um kæruna gegn Bjarna Randver ætti að snúa sér til Péturs Péturssonar.

Bréfritarinn Pétur Pétursson staðfestir þetta, þ.e. að fyrst og fremst hafi hann viljað leiðrétta hugmynd Þórðar Harðarsonar um það hver væri forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og hefði einnig minnst á við hverja hann hefði talað um málið (hvern í sínu lagi þótt Þórður hafi misskilið orð hans um það):

Í þessu ljósi ber að skilja það bréf sem ég sendi honum 23. mars 2010 þar sem ég vil leggja áherslu á að ég en ekki Hjalti Hugason komi fram fyrir hönd deildarinnar. Áður en ég sendi þetta bréf átti ég einnig fundi með Einari Sigurbjörnssyni prófessor og fleirum og þeir voru mér sammála um að ég kæmi fram fyrir hönd deildarinnar.
Pétur Pétursson. Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar H.Í. Morgunblaðið 9. desember 2011. Krækt er í grein Péturs á mbl.is en hún er einungis aðgengileg kaupendum Morgunblaðsins. Feitletrun mín.)

Seinna hefur Þórður Harðarson (og e.t.v. fleiri í siðanefnd HÍ) kosið að túlka þetta stutta ónákvæma bréf (hér er krækt í ljósmynd af bréfinu á vef Vantrúar) sem eitthvert ægilega mikilvægt plagg þar sem Pétur lýsi því yfir að Bjarni Randver sé umbjóðandi sinn og Pétur fulltrúi hans í viðræðum við siðanefnd. Við þessa túlkun er það að athuga að Pétur Pétursson hafði ekkert umboð til að koma fram fyrir hönd Bjarna Randvers Sigurvinssonar. Siðanefndinni hefði átt að vera ljóst að skriflegt umboð Bjarna Randvers, hins kærða, sent til siðanefndar hefði verið eina tæka ástæðan til að blanda Pétri Péturssyni í málsmeðferð sína. Með siðanefnd HÍ starfaði lögfræðingur HÍ og það er ótrúlegt að hann skuli ekki hafa bent á þetta augljósa atriði. Vantrú kærði aldrei guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ til siðanefndar heldur einstakling, kennara sem sýndi glærur sem Vantrú voru ekki að skapi. Siðanefnd HÍ ber að starfa sjálfstætt og ákvörðun nefndarinnar að blanda deild í Háskóla Íslands í málið er mjög vafasöm, jafnvel þótt siðanefndinni hafi verið kunnugt um að félagið Vantrú hefði einnig kært Bjarna Randver til forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar (sem er raunar óvíst að siðanefnd hafi vitað áður en Þórður Harðarson hafði tal af Hjalta Hugasyni).  

Eftir að Þórður Harðarson hefur tíundað mikilvægi þessa stutta og ónákvæma bréfs Péturs Péturssonar í fréttaskýringu Morgunblaðsins í desember 2011 bætir hann við:
 

Ég vil taka það fram að það er vinnuvenja í nefndinni að leita sátta, ég hafði starfað í henni í þónokkurn tíma og Þorsteinn Vilhjálmsson er líka með mikla reynslu af störfum í nefndinni. Þessi nefnd okkar hafði afgreitt 7 mál án þess að verða fyrir gagnrýni og helmingi þeirra mála hafði lokið með sáttum.
(Heilagt stríð Vantrúar. Morgunblaðið 4. des. 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Feitletrun mín.)

Þetta er einfaldlega rangt hjá Þórði Harðarsyni. Af þeim 7 málum sem siðanefnd skipuð honum, Þorsteini og Sigríði Þorgeirsdóttur, hafði haft til umfjöllunar áður en kæra Vantrúar barst hafði meirihluta verið vísað frá, þ.e. 4 málum, 2 málum lauk með sátt og brot var staðfest í 1 máli. (Sjá Skýrslu óháðu nefndarinnar, s. 26. Feitletrun mín.)
 
 

Hver var kærður?

Þegar Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ gerðist sáttasemjari upp á eigin spýtur, þann 18. mars 2010, með misskilin kæruefni í farteskinu, var honum einnig ekki ljóst hver var kærður fyrir siðanefnd. Af kærubréfi félagsins Vantrúar til siðanefndar HÍ virðist nokkuð ljóst að félagið Vantrú er að kæra kennarann Bjarna Randver, í stutta kærubréfinu sjálfu er hann nefndur átta sinnum á nafn. En Þórður talaði ekkert við Bjarna Randver heldur fyrst við Hjalta Hugason prófessor, í misgripum, og í kjölfarið hafði Pétur Pétursson, deildarforseti guðfræði- og trúarbragðadeildar samband við Þórð. Í fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar í Morgunblaðinu 4. desember segir:
 

Þegar Þórður er spurður hvers vegna ekki hafi verið haft samband við Bjarna Randver svarar hann því þannig til: „Sumir nefndarmenn töldu að kæra Vantrúar beindist að einhverju leyti að guðfræðideildinni auk Bjarna,“ segir Þórður. (Börkur Gunnarsson. Heilagt stríð Vantrúar. Morgunblaðið 4. des. 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Feitletrun mín.)

Þetta bendir til þess að annað hvort Þorsteinn Vilhjálmsson eða Sigríður Þorgeirsdóttir hafi verið sammála Þórði um að Vantrú hafi kært þessa háskóladeild auk Bjarna Randvers áður en fyrsti fundur siðanefndar um málið var haldinn. (Þau voru bara þrjú í siðanefndinni.) Mögulega hefur lögfræðingur HÍ, Jónatan Þórmundsson, tekið undir þá skoðun því honum var einnig falið að skoða kæruna áður en fyrsti fundur var haldinn. Hvernig þeir eða þau túlkuðu slíkt af kærubréfi Vantrúar (sjá neðst í þessari færslu) er mér óskiljanlegt.

Í fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar segir og:
 

Það ber að taka fram að nefndarmenn hafa orðið margsaga um hvort þeir hafi skilið það þannig að Bjarni hafi verið kærður eða hvort það hafi verið deildin. Þetta skiptir máli, því ef deildin var kærð en ekki Bjarni mætti réttlæta það að nefndin hefði ekki haft samband við Bjarna. En þetta virðist þó ekki liggja alveg skýrt fyrir ef marka má orð nefndarmanna sjálfra. Þorsteinn Vilhjálmsson segir í tölvupósti til blaðamanns Morgunblaðsins núna á fimmtudaginn: „Kæra Vantrúar til siðanefndar er vissulega skýr að því leyti að það er Bjarni Randver sem er kærður, vegna tiltekins kennsluefnis.“ Hann skrifaði hinsvegar annað í bréfi til rektors í haust, eftir að hafa haft málið á borði sínu í yfir 20 mánuði: „Einnig tel ég ótímabært að fullyrða fyrirfram, án efnismeðferðar málsins, hver eða hverjir séu raunverulega kærðir í málinu.“ Þegar honum er bent á þetta misræmi svarar hann: „Þegar ég segi þarna „hverjir séu raunverulega kærðir“ meina ég í rauninni „hverjir beri ábyrgð“.“ (Börkur Gunnarsson. Heilagt stríð Vantrúar. Morgunblaðið 4. des. 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Feitletrun mín.)
 

Fyrsti fundur siðanefndar og ákvarðanir hennar um málsmeðferð
 

Á fyrsta fundi siðanefndar þann 25. mars 2010, var ákveðið að fyrir næsta fund hennar myndi Þorsteinn Vilhjálmsson skoða heimasíðu Vantrúar og Sigríður athuga fordæmi. (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 35. Raunar er búið að afmá þessa klausu í þeirri útgáfu fundargerðar siðanefndar sem afhent var lögmanni Bjarna Randvers.) Það hefur eflaust verið fróðlegt fyrir Þorstein Vilhjálmsson að skoða heimasíðu Vantrúar því frá því um miðjan febrúar 2010 og fram í byrjun mars hafði félagið Vantrú birt ellefu greinar um glærurnar sem félagið kærði og fylgir löng athugasemdaromsa hverri umfjöllun. (Sjá greinar I-XI í efnisflokknum Háskólinn á vef Vantrúar.) Að auki hafði félagið Vantrú og nokkrir félagsmenn í Vantrú vísað dyggilega í þessar greinar, af athugasemdum á Vantrú og í eigin bloggum. Má sem dæmi taka athugasemd formanns Vantrúar, Reynis Harðarsonar sálfræðings, við greinina Prestalógík á vef Vantrúar en hann skrifar þann 21. mars 2010: „Magnús, það er hefð að drulla yfir trúleysingja og sú íþrótt er kennd í Háskóla Íslands.“ Síðari krækjan er krækja í síðustu grein Vantrúar um glærurnar.

Mig rekur ekki minni til þess að Þórður Harðarson formaður siðanefndar á þessum tíma eða einstakir siðanefndarmenn hafi nokkru sinni ýjað að því að siðanefnd hefði ekki fengið frið til að sinna störfum sínum af hálfu Vantrúar. E.t.v. hefur Þorsteini Vilhjálmssyni yfirsést þessi ellefu greina flokkur á vef Vantrúar, Háskólinn, og margar aðrar greinar og athugasemdir þegar hann fór að skoða heimasíðu Vantrúar seint í mars 2010? Eða honum hafi fundist fullkomlega eðlilegt að kærandinn, félagið Vantrú, fjallaði ítarlega um sína hlið á málinu áður en siðanefnd var svo mikið sem búin að halda sinn fyrsta fund um kæru Vantrúar?

Um annað sem ákveðið var á þessum fyrsta fundi siðanefndar HÍ um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni segir í Skýrslu óháðu nefndarinnar, s. 33:

Í fundargerð kemur fram að nefndarmenn hafi farið yfir athugasemdir formanns Vantrúar með hliðsjón af glærunum og voru á einu máli að fjalla ætti um málið út frá faglegu sjónarmiði í guðfræði- og trúarbragðafræðideild, samhliða athugun siðanefndar á því hvort siðareglur háskólans hafi verið brotnar. Formaður kvaðst hafa rætt við starfandi forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar um að reynt yrði að leita sátta í málinu. Ákveðið var að fulltrúar deildarinnar kæmu á fund siðanefndarinnar. Þá var eftirfarandi bókað í fundargerðinni: „Samþykkt var að veita formanni umboð til að boða kærandann, Reynir Harðarson, á sinn fund til að leita leiða til sátta. Takist það ekki verði að kalla alla málsaðila fyrir siðanefnd, fyrst kærandann“. (Feitletrun mín.)

Þetta er áhugaverð fundargerð. Í henni kemur fram að siðanefnd telur sig þess umkomna að ákveða hvað guðfræði- og trúarbragðafræðideild eigi að gera og vill fulltrúa þeirrar deildar á sinn fund. Siðanefnd samþykkir að formaður hennar, Þórður Harðarson, tali einslega við fulltrúa kæranda, Reyni Harðarson sálfræðing, formann Vantrúar. Loks kemur fram forgangsröðunin hjá siðanefnd komi til formlegra viðtala við nefndina: Þar er kærandinn fyrstur.

Ekkert í fundargerð fyrsta fundar siðanefndar bendir til þess að siðanefndarfulltrúar ætli sér að skoða námskeiðslýsingu (nema það sé innifalið í „athugun siðanefndar á því hvort siðareglur háskólans hafi verið brotnar“ – vel að merkja fór sú athugun aldrei fram í þau rúmu tvö ár sem siðanefnd HÍ var að væflast með þetta mál). Þau gögn sem Pétur Pétursson hafði afhent Þórði Harðarsyni þann 23. mars 2010 og vörðuðu beint hin kærðu atriði, þ.e. bréf Bjarna Randvers til nemenda sinna sent fyrir prófið í desember 2009 þar sem tilgangur glæranna og gildi í námsefni til prófs var ítrekað, voru ekki lögð fram.

Síðasta dag marsmánaðar 2010 kom fram í símtali Péturs Péturssonar við Þorstein Vilhjálmsson siðanefndarfulltrúa að Þorsteini var ókunnugt um þetta bréf Bjarna Randvers til nemenda í Nýtrúarhreyfingum. Þriðji fulltrúinn í siðanefnd, Sigríður Þorgeirsdóttir, frétti ekki af bréfinu fyrr en talsvert löngu seinna.

Siðanefnd HÍ virðist ekki hafa komið til hugar að ræða við þann kærða í málinu, þ.e. Bjarna Randver Sigurvinsson.
 
 
 


Kæra Vantrúar til siðanefndar HÍ
 

Garðabæ 4. febrúar 2010

Reynir Harðarson
formaður Vantrúar
Holtsbúð 14
201 GarðabæSiðanefnd Háskóla Íslands
Sæmundargötu 2
101 Reykjavík.

Félagsmenn í Vantrú hafa undir höndum glærur úr kúrsinum „Nýtrúarhreyfingar“ sem  Bjarni Randver Sigurvinsson guðfræðingur kennir við HÍ í guðfræði- og trúarbragðadeild. Að okkar mati hefur Bjarni Randver orðið guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands til minnkunar í umfjöllun sinni um  trúlausa og félagið Vantrú þar sem meðferð hans á tilvitnunum í félagsmenn, uppsetning o.fl. er hreinn áróður og skrumskæling á afstöðu okkar.

Við teljum að efnisval Bjarna Randvers siðlaus [svo] og aðaláherslan er lögð á persónuleg skrif félagsmanna Vantrúar þó enginn skortur sé á efni sem hefur verið  skrifað í nafni félagsins sjálfs. Á vef Vantrúar, www.vantru.is, eru hundruð greina sem vitna má í.

Við gerum einnig athugasemdir við að Bjarni Randver noti myndir af félagsmönnum án þess að geta myndhöfunda.

Við bendum á að Bjarni Randver Sigurvinsson hefur slík tengsl við Þjóðkirkjuna að ætla má að þau hafi litað málflutning hans í garð Vantrúar, sem hefur haldið uppi harðri gagnrýni á þá stofnun.  Bjarni Randver er guðfræðingur og formaður starfshóps Þjóðkirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð. (Sjá: http://www.tru.is/sida/hofundar/bjarni_randver_sigurvinsson )

Bjarni Randver hefur aldrei haft samband við Vantrú til að fá upplýsingar um félagið sem hefðu verið auðsóttar. Kynningu á félagsskapnum fögnum við en afskræmingu frábiðjum við okkur. Við förum fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið í ljósi þeirra athugasemda sem við komum hér á framfæri. Niðurstaða þess mats endurspeglar vonandi faglegan og fræðilegan metnað Háskóla Íslands.

Á vef H.Í. segir: „Auk þess að leggja stund á hefðbundnar greinar guðfræðinnar kosta  starfsmenn deildarinnar kapps um að mæta þörfum fjölmenningarlegs samfélags. Árið 2000 var í því skyni sett á laggirnar þverfaglegt nám í almennum trúarbragðafræðum.“ Þarfir fjölmenningarlegs samfélags eru tvímælalaust þær að afstaða ólíkra hópa sé kynnt af sanngirni og hlutleysi. Ef guðfræði- og trúarbragðafræðideild á að vera eitthvað annað en guðfræðideild eða prestaskóli ríkiskirkjunnar er þörf á gagngerri endurskoðun þessa áfanga  Bjarna Randvers.

Við teljum ástæðu til að huga sérstaklega að eftirfarandi greinum siðareglna H.Í::
 

1.2.1 Starfsfólk Háskólans sinnir störfum sínum af kostgæfni.2.1.1 Kennarar, sérfræðingar og nemendur vinna í anda þeirra almennu sanninda að þekking hafi gildi í sjálfu sér auk gildis hennar fyrir einstaklinga og samfélag. Þeim ber umfram allt að ástunda fræðileg vinnubrögð, leita sannleikans og setja hann fram samkvæmt bestu vitund.

2.1.2 Kennarar, sérfræðingar og nemendur leitast við að varðveita og efla faglega hæfni sína. Störf þeirra skulu sýna að þeim er umhugað um góða starfshætti á eigin fræðasviði.

2.1.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur eru gagnrýnir á sjálfa sig og vanda dóma sína. Þeir falsa ekki eða afbaka upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna. Þeir gæta þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu. Þeir forðast hvers kyns mistök og villur í rannsóknarstarfinu. Verði þeim á mistök viðurkenna þeir þau og gera það sem þeir geta til að bæta fyrir þau.

2.1.4 Kennarar, sérfræðingar og nemendur setja ekki fram hugverk annarra sem sín eigin. Þegar þeir nýta sér hugverk annarra geta þeir ávallt heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

2.1.5 Kennarar, sérfræðingar og nemendur forðast að hagsmunatengsl hefti rannsóknafrelsi og hamli viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum. Þeir upplýsa um þau hagsmunatengsl sem til staðar eru.

2.2.1 Kennarar stuðla að menntun nemenda með vandaðri leiðsögn, viðeigandi kröfum, hvatningu og góðu fordæmi.

2.2.3 Kennarar temja nemendum sínum heilindi í ræðu og riti. Þeir haga kennslu, leiðsögn og þjálfun samkvæmt ýtrustu kröfum fræðigreinar sinnar um vönduð vinnubrögð. Þeir taka jafnframt mið af þeim starfsháttum við kennslu og próf sem Háskólinn viðurkennir.

2.4.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur huga á ábyrgan hátt að afleiðingum kennslu sinnar og rannsókna fyrir samfélag, umhverfi og náttúru.

Við gerum athugasemdir við tvær glæruraðir.:
A: Deistar o.fl. 37 glærur.
B: Vantrú. 37 glærur.
Glærur þessar auk nokkurra athugasemda eru í fylgiriti
 

Virðingarfyllst:
                                       _____________________________________
                                                   Reynir Harðarson, formaður
                                                        fyrir hönd Vantrúar 
  

Hvað sögðu nemendur og kennarar um kennslu og glærur Bjarna Randvers?

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Sjö nemendur sem setið höfðu þann fræga kúrs Nýtrúarhreyfingar á haustmisseri 2009 skrifuðu greinargerðir um reynslu sína af kennslu Bjarna Randvers Sigurvinssonar. Fyrsta greinargerðin var skrifuð í desember 2010 en hinar í maí 2011. Tvær greinargerðanna voru sendar inn að frumkvæði nemendanna sjálfra en hinar að beiðni háskólakennara um að nemendur lýstu reynslu sinni. Siðanefnd HÍ var afhent a.m.k. fyrsta greinargerðin (sem nemandinn skrifaði að eigin frumkvæði). Ég veit ekki hvort siðanefndin fékk hinar greinargerðirnar en siðanefnd óskaði sjálf aldrei eftir greinargerðum frá nemendum í námskeiðinu. Hefði þó mátt ætla að nemendur væru tilbúnir að greina heiðarlega frá reynslu sinni, hafandi lokið þessu námskeiði og fengið einkunn í því. Aftur á móti datt þeirri siðanefnd sem laut forystu Ingvars Sigurgeirssonar prófessors í kennaradeild Menntavísindasviðs HÍ í hug að fá aðgang að prófúrlausnum nemenda [!] en hafði þá fengið niðurstöður kennslukönnunar í Nýtrúarhreyfingum í hendurnar og ýmis önnur gögn um kúrsinn. Næstu færslur verða um siðanefnd HÍ og hennar störf og verður hún ekki meir til umræðu hér.

Heimild mín fyrir greinargerðum nemenda og háskólakennara er Greinargerðir og andmæli. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers Sigurvinssonar fyrir að vitna í það. Að sögn Bjarna Randvers gáfu nemendur og háskólakennarar leyfi fyrir því að vitnað væri opinberlega í greinargerðir sínar. Í færslunni kýs ég að nafngreina ekki nemendur í hópi greinargerðahöfunda.
 

Í greinargerðum nemenda gengur sem rauður þráður vottun þeirra um að Bjarni Randver hafi sérstaklega gætt hlutleysis í umfjöllun, svo mjög að eftir var tekið, sem og reynt að leggja þunga áherslu á gagnrýna hugsun og sjálfstætt eigið mat nemenda á því efni sem til umfjöllunar var. Sem dæmi má nefna þessa klausu úr bréfi nemanda sem kom úr annarri deild en tók þennan kúrs og nokkra aðra í guðfræði-og trúarbragðafræðideild, skrifað í desember 2010 (nemandinn var ekki jafnhrifinn af kúrsunum sem hann sat hjá öðrum kennurum í deildinni):
 

 Þar fann ég að kvað við annan tón, þar sem megináherslur Bjarna í þessum þremur námskeiðum voru að nota gagnrýna hugsun og hann hvatti ávallt til þess að málefnin væru skoðuð frá sem flestum sjónarhornum. Hann hvatti nemendur til að kynna sér sjálfir vel það efni sem til umfjöllunar var. Hann benti á heimasíður, bækur, blaðageinar [svo], sjónvarpsþætti, kvikmyndir og sá m.a. til þess að nemendur gætu heimsótt kirkjudeildir og trúarhópa. Þær bækur og kvikmyndir sem hann benti nemendum á gerði hann okkur einkar aðgengilegar með því að hafa bækurnar meðferðis í tíma og við fengum þar með beinan aðgang að viðkomandi ritum. Á mínum námsferli innan HÍ upplifði ég hvergi eins góða leiðsögn um ýtarefni og aðgengi að gögnum eins og undir leiðsögn Bjarna Randvers. Þar að auki var hann alltaf reiðubúin [svo] að veita nemendum aðgang að gagnasafni sínu og spjalli um viðkomandi málefni […].
 [- – -]
 Ég lít svo á að það sé Háskólanum til sóma að hafa slíkan kennara. Mann sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á efninu, sem og góðan aðgang að heimildum. Mann sem er ávalt reiðubúninn að ræða málin fordómalaust við nemendur.
 

Nemendum virðist hafa komið talsvert á óvart að einmitt þessi kennari hafi verið kærður fyrir „siðleysi“ í kennslu, þ.e. það sem félagið Vantrú taldi siðleysi byggt á túlkun félagsmanna á örlitlum hluta kennsluefnis. Í maí 2011 skrifar annar nemandi:
 

 Mér er kunnugt um ásakanir þær er Bjarni Randver situr undir að ósekju. Sem nemandi varð ég ekki vör við neitt í kennslu Bjarna Randvers, framkomu hans eða orðavali sem gæti rennt stoðum þær. Þvert á móti er það mat mitt, að kennarinn hafi verið málefnalegur í allri kennslu sinni og umræðu um trúarbrögð, trúfélög, samtök, lífsskoðanir, stefnur og strauma, hverju nafni sem það gengur undir. Engu var slegið fram án rökstuðnings, ekkert sagt sem ekki var hægt að vísa til í efni kennara, jafnt glærum sem öðru kennsluefni. Mér þykja þær ásakanir furðu sæta er Bjarni Bjarni Randver sætir og er kunnugt um að aðrir nemendur er sátu námskeiðið eru einnig forviða yfir málinu í heild sinni. Sé ekki unnt að stunda kennslu við æðstu menntastofnun íslensku þjóðarinnar, án þess að eiga á hættu að fá kæru fyrir það eitt að segja sannanlega og málefnalega frá viðfangsefnum, aðstæðum og atburðum, þá tel ég að verið sé að vega að trúfrelsi, málfrelsi, skoðanafrelsi, akademískum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun. Illa mun komið fyrir æðstu menntastofnun þjóðarinnar, þegar ekki er talið æskilegt að ræða efni, þótt málefnalega sé með farið, sem hagsmunahópar telja að varpi óæskilegu ljósi á sig og sína. Hvar er þá gagnrýnin hugsun og akademísk vinnubrögð? Er hér verið að fórna akademískum heilindum fyrir popúlisma?

Eins og þessi nemandi bendir á er viss hætta fólgin í því ef háskólakennsla á að litast af þjónkun við þá aðila sem eru til umfjöllunar í kennslunni. Þá verði akademísk vinnubrögð fyrir bí. Raunar virðast allir nemendur sem skiluðu inn greinargerðum vera sama sinnis. Og allir ljúka þeir miklu lofsorði á kennslu einmitt þessa kennara, yfirburðaþekkingu hans á viðfangsefninu (nýtrúarhreyfingum) og stöðuga hvatningu til að skoða mál frá sem flestum hliðum. Það er dálítið merkilegt að enginn nemandi sér ástæðu til að taka hið minnsta undir gagnrýni félagsins Vantrúar. Hafi félagið Vantrú átt sér einhvern málsvara í hópi nemendanna hefur sá a.m.k. ekki þorað að stíga fram og senda umsögn þar að lútandi.

Einn nemandinn tekur fram að hann sé guðleysingi og hafi verið vel kunnugur Vantrú áður en námskeiðið hófst þótt hann sé ekki sammála félaginu um allt, en sammála sumu, s.s. baráttu félagsins Vantrúar fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Þessi nemandi segir, í maí 2011:

 Ég fyrir mitt leyti má til með að segja að ég var búin að kynna mér Vantrú löngu áður en ég sat þennan kúrs og þótti mér umfjöllunin í kúrsinum ekki sverta álit mitt á félaginu að neinu leyti. Ég man sérstaklega eftir því að Bjarni benti á heimasíðu Vantrúar, eins og hann gerði yfirleitt þegar hann vissi af aðgengilegum heimasíðum þeirra hópa sem fjallað var um í námskeiðinu. Ég man þetta vegna þess að [ég] hafði ekki farið inná vef Vantrúar þá í nokkurn tíma og smellti mér einmitt inná vefinn annað hvort í þessum sama tíma eða eftir tímann.

 Ég má einnig til með að benda á að ég veit lítið hverjir af kennurum mínir tengjast Þjóðkirkjunni og hverjir ekki. Ég þekkti heldur ekki neitt til Bjarna áður en ég sat kúrsinn, hef aldrei spjallað við hann einan eða kynnt mér hans skoðanir persónulega. T.d. þykir mér mjög athugaverð gagnrýni sem snýr að því að Bjarni sé með einhversskonar trúvörn fyrir Þjóðkirkjuna. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að alla önnina sat ég og velti því fyrir mér í hvaða trúfélagi Bjarni væri eigilega í, ef einhverju, því ég var sannfærð um að hann gæti allavega ekki verið í Þjóðkirkjunni. Líklega var það vegna þess hve gagnrýninn kennari Bjarni er. Aldrei komst ég að neinni niðurstöðu, og ekki spurði ég hann, en þóttist ég nú aldeilis viss að hann væri allavega ekki kristinn og líklega guðleysingi eins og ég!

Sami nemandi lýsti glærunotkun í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar:

 Bjarni er einn af þeim fjölmörgu kennurum sem nota glærur mikið til hliðsjónar og raunar hefur oft komið til að ekki hefur náðst að fara í gegnum allar glærurnar í tíma hjá Bjarna þar sem hann er frekar langorður og mjög duglegur að svara spurningum nemanda. Það má alveg geta þess að Bjarni eins og margir kennarar sem ég hef haft getur stundum talað á bilinu 5-35 mínútur á meðan ein og sama glæran er fyrir aftan hann, og farið um víðan völl án þess að viðkomandi glæra sé endilega einhver samantekt á því sem hann er að kenna hverju sinni. Auðvitað eru oft svoleiðis glærur inn á milli, ekki síst þegar kemur að kenningum og fræðilegum hugtökum og skilgreiningum sem þarfnast stuttrar hnitmiðaðrar útskýringar. Það eru ekki allir kennarar sem mata nemendur með þurri samantekt af fyrirlestrinum sem fólk ætti að geta hlustað á. Bjarni er einmitt einn þeirra sem hafa glærur sem eru ekki endilega með meginatriðum, heldur kannski bara til þess að benda á eitthvað áhugavert, eða t.d. myndir, bókarkápur eða eitthvað sem kann að vera til vitnis um það sem fjallað er um, eða jafnvel glærur sem innihalda alger aukaatriði, annað hvort á undan langri ræðu eða á eftir. Því má segja að ég skilji áhyggjur Vantrúar varðandi þetta því ég sé hvernig sumar glærurnar geta virst utanaðkomandi aðila sem ekki sat námskeiðið skringilegar. En það ætti vonandi nú að vera orðið ljóst að það að skoða glærurnar sem koma fram í tímum er ekki besta leiðin til þess að komast að því hvað fram fór í tímum. Að skoða glærurnar eru [svo] þannig í raun svipað eins og að lesa bók og skoða bara myndirnar.

 


Tíu háskólakennarar skrifuðu greinargerðir sem tengdust kærum Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, í september og október 2010. Þær voru afhentar siðanefnd HÍ þann 7. desember 2010. Í þessum greinargerðum reyndu háskólakennarnir að meta hvort hin kærðu atriði ættu við rök að styðjast, þ.e.a.s. hvort eitthvað væri athugavert við þessar glærur og kennslu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Auðvitað kynntu háskólakennararnir sér einnig í hvaða samhengi glærurnar voru notaðar. Niðurstaða allra er að kæra Vantrúar sé byggð á vanþekkingu og misskilningi, að glærurnar passi ágætlega inn í kennsluefnið og hvorki glærur né kennsluefni brjóti gegn siðareglum Háskóla Íslands. Þeir sem finna að glærunum nefna að þær séu full margar og of mikið efni á þeim sumum, til dæmis að Bjarni Randver hefði mátt stytta tilvitnanir að mun. Skýrt er tekið fram að gagnrýnin „of margar glærur og of mikið efni“ lúti að kennslufræði, kæra Vantrúar hafi ekki snúist um kennslufræði og auk þess séu úrskurðir um kennslufræðilegar aðferðir ekki á könnu siðanefndar Háskóla Íslands.Hér verður gripið niður í nokkrar klausur í örfáum greinargerðum háskólakennaranna en enginn vegur er að gera grein fyrir öllu sem í þeim kemur fram eða vitna í allar greinargerðir. Það er líka óþarfi því í þeim kemur yfirleitt fram hið sama þótt hver skrifi óháð öðrum. Menn nefna gjarna í greinargerðunum hvað felst í akademískum vinnubrögðum og rökstyðja að slík vinnubrögð séu æskileg í háskólakennslu (alveg eins og nemendur gera, t.d. þessi sem spurði hvort ætti að fórna akademískum vinnubrögðum fyrir pópúlisma).

 Af gögnum þeim sem Bjarni Randver leggur fram má ráða að hann er einkar samviskusamur kennari. Hann horfist í augu við að hann hefur sérhæft sig í efni sem menn hafa afar skiptar skoðanir á og leitast við að vinna í samræmi við það. Hann setur viðfangsefnið í sögulegt og félagslegt samhengi; vísar nemendum á margvíslegt fræðiefni og kynnir ekki aðeins þær kenningar og þau hugtök sem hann nýtir frekast heldur greinir frá gagnrýni á hvorttveggja. Þar með sinnir hann einni meginskyldu hákólakennara: Hann skapar í upphafi námskeiðs grundvöll sem nemendur geta unnið á – burtséð frá þeirri leið sem hann velur sjálfur að fara í kennslunni – og ýtir undir að þeir tileinki sér námsefnið sem sjálfstæðar, hugsandi og gagnrýnar manneskjur. Til fyrirmyndar má kallast að þessu fylgir hann eftir í lok námskeiðs þegar hann vekur nemendur með formlegu bréfi sérstaklega til umhugsunar um hlutlægni og bendir á að „félagslegur bakgrunnur […], umhverfi og skoðanir setja óhjákvæmilega mark sitt á framsetningu […] og áherslur“ manna (Svar við kæru Vantrúar, bls. 19). Eftirtektarvert er að í kæru Vantrúar er hvergi vikið að grundvelli námskeiðsins og þeim ramma sem því er settur heldur einvörðungu fjallað um glæruhópa og stakar glærur.

 Glærur Bjarna vitna meðal annars um hve einlægan áhuga hann hefur á viðfangsefni sínu, hversu miklu efni hann hefur safnað og hve óspart hann miðlar þekkingu sinni til nemenda. Á mörgum glæranna er greining á atriðum sem hann hefur fyrr vikið að – t.d. dæmastiklur um viss einkenni á verkum ákveðinna manna/hreyfinga eða tengsl hugmynda tiltekinna manna – og því eru þær harla fánýtt umræðuefni séu þær slitnar úr samhengi eins og gert er í kæru Vantrúar. En þar eð kæran byggist ekki síst á túlkun á glærum slitnum úr samhengi er vert að taka dæmi um hvernig túlkunin er:

 [- – -]

 […] Vantrú vekur sérstaka athygli á ákveðnum glærum t.d. þeirri sem heitir Orðbragð. Á henni setur Bjarni upp lista yfir orð sem ýmsir vantrúarfélagar hafa notað um þá sem þeir hafa litlar mætur á. Vantrúarmenn telja þetta vera „lista af dónaskap“ sem Bjarni hafi „dundað sér við að safna“ […], og finna að því að orðin séu slitin úr samhengi. Aftur er höfðað til tepruskapar lesenda og í sömu mund reynt að draga upp mynd af Bjarna sem manni er unir sér við „dónaskap“. Þegar menn fást við að greina orðræðu er það nauðaalgengt að þeir dragi fram ákveðin einkenni hennar, hvort sem það eru sértæk lýsingarorð, samtengingar af ákveðnu tagi, stóryrði eða útdráttur. Athugasemd Vantrúarmanna er því gagnrýni á hversdagsvinnubrögð við textagreiningu – svo ekki sé minnst á hve ósannfærandi það er að þeir telja „óhæfu að birta svona lista án samhengis“ […]  – í sömu mund og kæra þeirra byggir á efni slitnu úr samhengi.
 [- – -]
 Vantrúarmenn gagnrýna Bjarna Randver einkum fyrir beinar tilvitnanir sem hann tekur og þeir telja m.a. að ættu að vera aðrar en þær eru eða þeir geta sér til um að hann setji í þetta eða hitt samhengið – sem þeim líkar ekki. Eftir að hafa lesið svar Bjarna kemst ég sem trúleysingi að annarri niðurstöðu en Vantrú. Mér finnst Bjarni hafa lagt mér í hendur kenningar, skilgreiningar og hugtök sem ég get farið í samræðu við og dregið af þær ályktanir sem mér og trúleysi mínu henta. Og einmitt þannig á háskólakennari að standa að verki. Eins og ég vék að fyrr, þarf hann að gera viðfangsefni sínu þau skil að aðrir geti nýtt sér það á annan veg en hann; þá gerir hann sitt til að kveikja nýjar hugmyndir og nýja sýn.

 Ég fæ í stystu máli ekki betur séð en Bjarni Randver sé grandvar kennari sem hafi vandað sig mjög við kennslu sína og eigi síst af öllu skilið áminningu fyrir hana.
 

 (Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum Íslensku- og menningardeild, Háskóla Íslands.)

Í sama streng tekur annar kennari og vísar sérstaklega í gagnrýni félagsins Vantrúar sem kemur fram í kæru félagsins til siðanefndar HÍ og fleiri aðila:

 Málatilbúnaður þessi vekur nokkra furðu, svo ekki sé minna sagt, og virðist kærandi ekki gera sér alveg ljóst hvað opinbert rými er og hvað opinber umræða felur í sér. Ekkert siðleysi getur falist í því að taka til umræðu opinber skrif félagsmanna eða annarra um trúmál þótt ekki séu þau birt á vef félagsins eingöngu. Ef forsvarmaður félags tjáir sig um meginmarkmið þess á öðrum vettvangi, t.d. í blaðagrein, á bloggsíðu eða tímariti, þá telst það til opinberrar umræðu og það væri meira en umtalsverð skerðing á rannsóknarfrelsi fræðimanna og háskóla yfirleitt að mega ekki taka það til umfjöllunar í fræðum sínum og kennslu. Hlutverk fræðimanna og háskóla er m.a. að greina slíka hluti í opinberri umræðu.

 Gagnrýnin er einnig afar mótsagnakennd, þar sem gefið er í skyn að upplýsingar um félagsskapinn séu slitnar úr samhengi, en um leið er kæruefnið nokkrar glærur úr kennsluefni heils námskeiðs, án nokkurs frekara samhengis, hvorki annarra glæra í námskeiðinu og það sem mikilvægara er, kennslunnar sjálfrar. Með þessum aðferðum mætti taka nokkra tilvitnanir fræðimanns í aðra og saka viðkomandi síðan um siðleysi fyrir að nota þær.
 [- – -]
 Ekki verður heldur ráðið af glærunum að um skrumskælingu sé að ræða, enda má sjá á greinargerð Bjarna Randvers að þá hefði hann haft úr verra efni frá forystumönnum Vantrúar að moða og sýnist mér lítil innistæða fyrir siðferðilegri vandlætingu þeirra.

 Sú athugasemd að Bjarni Randver hafi ekki „haft samband við Vantrú“ er í besta falli kjánaleg; fræðimenn vinna út frá þeim opinberu gögnum sem fyrir liggja en eru ekkert skyldir til að leita til einstaklinga til „útskýringar“ á þeim. Fræðimenn eru ekki dómarar í rétti sem fella einhverja lokadóma eftir vitnaleiðslu, heldur standa fyrir opinberri og gagnrýninni umræðu. Bókmenntafræðingar hringja til dæmis ekki í lifandi höfunda lon og don í þeim tilgangi að fá að vita hvað þeir voru að hugsa, heldur greina verkin sjálf sem þeir eru að rannsaka og þeir geta og eiga að skoða allt sem máli skiptir í því samhengi, einnig t.d. önnur skrif höfundar. Sama á við í mörgum greinum hug- og félagsvísinda.
 [ – – -]
 Eftir nákvæma skoðun á glærunum öllum fæ ég engan veginn séð að hægt sé að túlka þær á nokkurn hátt sem siðlausar. Sá samanburður sem þar er gerður er fullkomlega réttlætanlegur og í fullu samræmi við vísindalegar aðferðir. Sem menntaður þýðinga- og menningarfélagsfræðingur get ég fullyrt að greiningin á mismuninum á trú- og guðleysi og þau þýðingavandamál sem fylgja orðinu atheism eru mjög athyglisverð.
 [- – -]
 Hvar sem litið er á þetta mál ber allt að sama brunni. Það virðist sem svo að Vantrúarmenn, sem vissulega mega  gagnrýna Þjóðkirkjuna og Háskóla Íslands hart, hafi kosið að ráðast að einum einstaklingi sem vogaði sér að skoða aðferðir þeirra í fræðilegu samhengi. Kannski er það til að koma höggi á stofnanirnar. Hvort sem það er rétt eða ekki, er enginn vafi í mínum huga að kæra þessi er algjörlega tilefnislaus og órökstudd. Það sem verra er, hún er aðför að rannsóknarfrelsi fræðimanna sem er þeim nákvæmlega jafn dýrmætt og málfrelsið.

 (Gauti Kristmannsson, dr. phil., dósent í þýðingafræði við Háskóla Íslands.)
 

Um glærugerðina sérstaklega segir hér í enn einni greinargerðinni:
 

 Glærugerð Bjarna er þó mjög einföld. Hann nýtir eitt af algengari skapalónum glæruforritsins sem gefur efninu ofurlítið hversdagslegt yfirbragð. Hann nýtir myndefni eða grafík hvergi þannig að halda megi því fram að framsetningin feli á einhvern hátt í sér skrumskælingu eða fordæmingu. Myndir eru birtar á lóðréttum eða láréttum röðum eftir því sem forritið leyfir og texti ýmist inni í þar til gerðum gluggum eða sem myndir sem kóperaðar eru inn í forritið. Textar eru ekki birtir í heild, þó að Bjarni hafi tilhneigingu til að setja of mikinn texta og of miklar upplýsingar á hverja glæru. Það mætti jafnvel benda á að glærurnar séu alltof margar og alltof efnismiklar. En það er kennslufræðileg athugasemd hefur ekkert með kæruna að gera og er raunar í andstöðu við hana.
 [- – -]
 Kærendur virðast því í raun ætlast til þess af honum að hann líti framhjá öllu því efni sem þeim finnst að kunni að skaða málstað þeirra. Augljóslega væri hann hinsvegar að bregðast nemendum sínum ef slík sjónarmið stjórnuðu vali hans á tilvitnunum og textum. Mér virðist miklu nærtækara að gagnrýna Bjarna fyrir að vinsa of lítið úr, taka of mikið efni til umfjöllunar í tíma frekar en hitt að hann velji úr því á óeðlilegan hátt. En það er, sem fyrr segir, kennslufræðileg athugasemd, ekki ásökun um misferli eða siðferðilega ámælisvert athæfi.

 (Jón Ólafsson, prófessor og forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst)

 


   Ég ítreka að í greinargerðum háskólakennara koma fram sömu aðalatriði, þ.e.a.s. að kennarinn er ákaflega vel að sér um efnið, að glærurnar séu í fullu samræmi við efnistök í námskeiðinu, að efni námskeiðsins sé afar áhugavert og stundum er látið að því liggja að kæra félagsins Vantrúar „virðist borin fram af umhyggju fyrir einhverju öðru en heiðri akademíunnar“ (eins og Sigurður Pálsson guðfræðingur og dr. í menntunarfræði orðaði svo).

Mér fannst mjög gaman að lesa í gegnum þessar greinargerðir ýmissa háskólakennara úr ólíkum deildum og nemenda sem sátu undir þessari „kærðu“ kennslu. Kannski var sérstaklega áhugavert að sjá að þetta fólk virtist hafa komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og ég gerði sjálf, þá nýbyrjuð að skoða málið og blogga um það. Niðurstöðu mína þá byggði ég nær eingöngu á eigin reynslu sem framhaldsskólakennari og nemandi í til nokkuð langs tíma í þeirri deild sem nú heitir íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, auk þess sem ég las Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, óopinbert skjal í vinnslu eftir Bjarna Randver Sigurðsson, til að glöggva mig á samhengi einstakra glæra við kennsluna og námskeiðið. Ég las ekki þessar greinargerðir nemenda og kennara fyrr en í gær.