Þyrnirósar-ritnefndin og Saga Akraness

kindur_i_hrutatungurett

Hér er fjallað um langvarandi sofandahátt Ritnefndar um Sögu Akraness og spurt hvort þriðji grunnsamningurinn sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug Haraldsson sagnaritara teljist  gildur samningur þar sem forsendur þess að hann tæki gildi voru aldrei uppfylltar. (En, s.s. fjallað verður um síðar, kom það ekki í veg fyrir að Akranesbær greiddi sagnaritaranum vegleg laun árin 2012 og 2013.)

Í síðustu færslu var þess getið að Ritnefnd um Sögu Akraness átti að fara yfir og taka út fyrri vinnu Gunnlaugs Haraldssonar við bindi III og samningurinn sem skrifað var undir þann 22. júní 2012 ekki að „öðlast endanlega samþykkt af hálfu Akraneskaupstaðar nema ritnefnd hafi afgreitt hana með jákvæðum hætti sem grundvöll fyrir samningum í heild sinni“ (4. gr., s. 2 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi –).

Þessi fyrri vinna Gunnlaugs hafði raunar verið rækilega greidd, jafnvel metin, á sínum tíma, því í fyrsta samningnum sem gerður var við hann, 1997, var tilskilið að hann skyldi byrja á að skrifa bindi um byggðasögu Akraness 1700-1900 og því bindi átti hann að skila í síðasta lagi 1. október 1999. (Núverandi III bindi á að fjalla um sögu Akraness 1800-1900.) Ritnefnd um sögu Akraness, undir forystu Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra, staðfesti skil á þessu bindi þann 19. nóvember 2001, svo sem segir í 3. lið þeirrar fundargerðar:

3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning. Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið. Nefndin telur mikilvægt að verkinu verði haldið áfram og leggur til við bæjarráð að samningur bæjarins við söguritara verði framlengdur.

Það er áhugavert í þessu sambandi að í ritnefndinni, sem staðfesti síðla árs 2001 skil á handriti að byggðasögu Akraness 1700-1900 svo Gunnlaugur Haraldsson gæti fengið vel greitt fyrir það verk og framlengdan samning um meiri greiðslur, sat einmitt Hrönn Ríkharðsdóttir, sú hin sama og samþykkti í bæjarráði snemma vors 2012 að greiða Gunnlaugi Haraldssyni 14,5 milljón fyrir að ganga frá handriti að sögu Akraness 1800-1900. Í þriggja manna bæjarráðinu sem samþykkti viðbótarsamning við Gunnlaug í samræmi við þessa hvatningu ritnefndarinnar þann 20.12. 2001 sat einmitt Guðmundur Páll Jónsson og má því ætla að honum hafi verið kunnugt um að staðfest hafi verið skil á efninu þegar hann greiddi atkvæði sitt í bæjarráði snemma vors 2012 að greiða Gunnlaugi Haraldssyni aftur fyrir að ganga frá sama handriti.

Í síðari hluta bloggfærslu minnar, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku.  (17. júní 2011) eru raktar misvísandi upplýsingar sagnaritarans, útgefanda Sögu Akraness I og II, formanns Ritnefndar um sögu Akraness o.fl. um hvort III bindið sé tilbúið, hversu tilbúið það sé eða hvort það sé kannski ekki tilbúið.

Fyrirskipuð úttekt Ritnefndar um Sögu Akraness 2012

Ég óskaði eftir upplýsingum frá síðasta formanni Ritnefndar um Sögu Akraness, Jóni Gunnlaugssyni, um hvort sú úttekt og mat á vinnu sagnaritara við III bindi sem kveðið er á um í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi – hefði farið fram og þá með hvaða hætti. Í svari hans, tölvupósti til mín þann 8. des. 2014, staðfestir Jón einfaldlega að öllu starfi ritnefndarinnar sé lýst í fundargerðum hennar.

Til eru tvær fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness sem aldrei hafa birst opinberlega, önnur frá 3. október 2012 (83. fundur nefndarinnar) og hin frá 9. júlí 2013 (ótölusettur en væntanlega 84. fundur nefndarinnar). Í þessu sambandi er rétt að geta þess að allar fundargerðir nefnda Akraneskaupstaðar eiga að liggja frammi á vef bæjarins nema um trúnaðarmál sé að ræða. Fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness geta engan veginn fallið undir trúnaðarmál en það er svo sem ekkert nýtt að Akraneskaupstaður reyni að fela þær sjónum almennings.

Af óbirtri fundargerð ritnefndarinnar þann 3. okt. 2012 er ekki hægt að ráða að neitt starf hafi farið fram í ritnefndinni eftir að samningurinn við Gunnlaug var undirritaður þann 22. júní sama ár. Allir fimm nefndarmennirnir voru viðstaddir þennan fund, auk Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra, Jóns Pálma Pálssonar bæjarritara og sagnaritarans Gunnlaugs Haraldssonar.

Ritnefndin kemur ekkert við sögu á þessum fundi nema formaður setti fund (liður 1 í fundargerð) og sleit honum.

Bókað er að Árni Múli hafi farið yfir „þá vinnu sem unnin hafi verið varðandi verksamning við söguritara um áframhald á Sögu Akraness“ (liður 2); Jón Pálmi útskýrði samninginn lið fyrir lið (liður 3); Gunnlaugur Haraldsson lagði fram skrá yfir gögn í átta möppum sem ætti að afhenda Héraðsskjalasafni Akraness (liður 4) og fór yfir verkáætlun III bindis (liður 5). Í lið 6 í fundargerð segir: „Ákveðið að hafa stöðufund í lok nóvember“ og svo er fundi slitið.

Nóvemberfundurinn fyrirhugaði var aldrei haldinn. Bókaður kostnaður Akraneskaupstaðar vegna Ritnefndar um sögu Akraness árið 2012 er 96.109 kr., sem passar við nefndarlaun þessara fimm sem mættu á fundinn 3. okt. 2012 og þeirra tveggja nefndarmanna sem höfðu mætt á fund 23. mars sama ár (en um hann var fjallað í síðustu færslu, þótt næsta lítið verði ráðið af ör-fundargerð hans).

Niðurstaðan er því sú að Ritnefnd um sögu Akraness hafi aldrei metið eða tekið út vinnu Gunnlaugs Haraldssonar við III bindið sem átti að vera forsenda þess að samningurinn öðlaðist gildi. Og þá vaknar auðvitað spurning um hvort samningur Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar frá 2. júní 2012 sé gildur samningur eða bara gamniplagg til að fóðra greiðslur til sagnaritarans?

Þyrnirósarsvefn Ritnefndar um sögu Akraness

Í rauninni er algerlega óskiljanlegt hvaða hlutverki Ritnefnd um sögu Akraness hefur átt að gegna í þau 26 ár sem hún hefur starfað því hún hefur aldrei axlað neina ábyrgð á verkinu né sýnt nokkurn lit á að leita eftir sérfræðiaðstoð, t.d. sagnfræðings, til að meta verk og verklag sagnaritara. Hins vegar hefur þetta löngum verið dýrasta nefnd bæjarfélagsins í þeim skilningi að hún hefur haldist fjölskipaðri en aðrar nefndir í fjölda ára.

Fyrsta áratuginn sem ritnefndin starfaði var ofurlítið líf í henni, þ.e.a.s. hún lagði sig nokkuð í líma við að vera andstyggileg við þáverandi sagnaritara. (Þetta er rakið í plagginu Sögu Sögu Akraness og verður ekki tíundað frekar hér.) Seinni sextán árin sem Ritnefnd um sögu Akraness hefur starfað virðist nefndin hafa gegnt hlutverki Þyrnirósar: Sofið og beðið eftir að prinsinn birtist (eða skilaði einhverju af sér). Þyrnirós svaf í heila öld en ritnefndin hefur eytt 70 mannárum í svipaða iðju. Þyrnirós var launalaus prinsessa en ritnefndarmenn hafa þegið prýðileg laun í 26 ár. Þyrnirós fékk prinsinn sinn að lokum en Saga Akraness er enn óskrifuð. (Þótt vissulega sé búið að framleiða mikinn glanspappír í að skrifa sögu Hvalfjarðarsveitar í annað og þriðja sinn, ævintýralegar fabúleringar um fyrsta íslenska óskráða dýrlinginn og uppruna Bresasona, sem og valda endursagnarparta úr Íslandssögunni, með samþykki sofandi ritnefndarinnar, er ekki enn komið þar sögu hjá Gunnlaugi Haraldssyni að Akranes sé annað en örfá örreytiskot sem fáum sögum fer af.)

 

Sem betur fer hefur sú bæjarstjórn sem tók við völdum hér á Skaganum sl. vor ekki skipað í Ritnefnd um sögu Akraness og má vona að ritnefndin verði ekki ræst til starfa í náinni framtíð – til þess eins að vera stungin svefnþorni á ný.

 

Óbirt gögn sem vísað er til í þessari færslu eru fengin frá Akraneskaupstað þann 1. desember 2014, þ.e. tvær fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness, samantekt á greiðslum vegna Sögu Akraness árin 2012 og 2013 og Samningur um ritun Sögu Akraness – III bindi -.

Myndin er af kindum í Hrútatungurétt, tekin af Atla Harðarsyni þann 8. september 2012.

Gengið til samninga við Gunnlaug

hofrungur_i_dumbungi

Hér verður fjallað um aðdraganda nýjasta samnings Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um ritun þriðja bindis Sögu Akraness og örlítið um samninginn sjálfan. Í næstu færslu verður gerð grein fyrir efndunum.

Aðdragandinn

Ritnefnd um sögu Akraness kom saman þann 23. mars 2012.  Raunar er álitamál hvort ritnefndin sjálf kom saman því formaður hennar og tveir aðrir nefndarmenn boðuðuð forföll, einungis tveir óbreyttir nefndarmenn mættu á fundinn. En maður kemur í manns stað og fundurinn var ekkert sérlega fámennur þrátt fyrir fjarveru meirihluta ritnefndar. Fundinn sátu nefnilega einnig Árni Múli Jónasson bæjarstjóri (sem tók pokann sinn í nóvemberbyrjun sama ár); Jón Pálmi Pálsson bæjarritari (sem tók við af Árna Múla sem bæjarstjóri en tók pokann sinn um miðjan desember sama ár); Kristján Kristjánsson, útgefandi (en bókaforlagið hans, Uppheimar, lagði upp laupana á liðnu ári) og Gunnlaugur Haraldsson söguritari. (Gunnlaugi farnaðist að venju vel í fjárhagslegum samskiptum við Akraneskaupstað allt til þessa árs en ekki er gert ráð fyrir að spreða í hann neinum peningum í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015.)

Fundargerð Ritnefndarinnar er vægast sagt varlega orðuð þegar þessum klukkutíma og korters langa fundi er lýst:

Fyrir tekið:
1. Saga Akraness, 3. bindi
Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Mér er ekki ljóst hvaða aðilar málsins skoðuðu málið nánar en ég giska á það hafi verið þeir sem mættu á þennan fund og ekki sátu í Ritnefndinni. Sú nefnd hélt ekki aftur fund fyrr en í október 2012 og í fundargerð hans er þess ekki getið að ritnefndarmeðlimir hafi innt nein störf af hendi í millitíðinni.

Líklega hefur Árni Múli Jónasson bæjarstjóri verið sá sem var mest áfram um að gera frekari samninga við Gunnlaug Haraldsson um sagnaritun. Stórkarlalegar yfirlýsingar Árna Múla um ágæti fyrri bindanna tveggja af Sögu Akraness og viðbrögð við gagnrýni á þau benda til þess að hann hafi gerst sérlegur verndari (patrón) sagnaritarans fljótlega eftir að hann tók við starfi bæjarstjóra hér.

Niðurstaðan af þessari skoðun „aðila málsins“  á málinu  varð að útbúa nýjan samning við sagnaritarann. Sá samningur var lagður fram í bæjarráði þann 22. júní 2012  og bæjarráð samþykkti hann.  Ástæða þess að það dugði að þriggja manna bæjarráð samþykkti þetta er auðvitað sú að bæjarstjórn starfaði ekki – hún fór í sumarleyfi tíu dögum fyrr.

Í bæjarráði sátu:

  • Guðmundur Páll Jónsson, formaður bæjarráðs. Guðmundur Páll hafði greitt atkvæði sitt með fyrri samningum og viðbótarsamningum við Gunnlaug Haraldsson frá upphafi, 1997, og setið í Ritnefnd um sögu Akraness um tíma. Guðmundur Páll lýsti og mikilli hrifningu á merkri uppgötvun sagnaritans á uppruna landnámsmanna hér á Skaganum, sjá bloggfærsluna glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til, 9. júní 2011.
  • Hrönn Ríkarðsdóttir, varaformaður bæjarráðs. Hrönn hafði stutt fyrri samninga og viðbótarsamninga við sagnaritarann frá því hún tók sæti í bæjarstjórn árið 2002. Hún sat í Ritnefnd um sögu Akraness frá upphafi, 1987 (en í þeirri ritnefnd sat Gunnlaugur Haraldsson einmitt til ársins 1990), til ársins 2002.
  • Þröstur Þór Ólafsson aðalmaður. Þröstur sat einungis eitt kjörtímabil í bæjarstjórn og virðist aldrei hafa gert neinar athugasemdir við greiðslur vegna sagnaritunar bæjarins ef marka má fundargerðir bæjarráðs og hljóðupptökur af bæjarstjórnarfundum.

Á þessum fundi bæjarráðs lét áheyrnarfulltrúi minnihlutans, Einar Brandsson bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins, bóka þá athugasemd að vegna fjárhagsstöðu Akraneskaupstaðar væri ekki forsvaranlegt að ganga til samninga um ritun III. bindis Sögu Akraness. Sú bókun skipti auðvitað engu máli og samdægurs skrifaði Jón Pálmi Pálsson undir Samning um ritun Sögu Akraness – III bindi – fyrir hönd Akraneskaupstaðar, að fyrirmælum bæjarráðs.

Samningurinn

Þessi samningur var þriðji grunnsamningurinn sem Akraneskaupstaður hefur gert við Gunnlaug Haraldsson um sagnaritun. (Hinir eru frá 23. apríl 1997 og 30. nóvember 2006. Auk þess hafa sömu aðilar gert með sér 4 viðaukasamninga gegnum tíðina. Gunnlaugur stóð ekki við neinn þessara fyrri grunn- og viðbótarsamninga, sjá Sögu Sögu Akraness.)

Samingur um ritun Sögu Akraness – III. bindi-, undirritaður 22. júní 2012, sker sig ekki tiltakanlega úr hinum samningunum: Kveðið er á um ákveðna skiladaga verkhluta og að greiðslur fyrir verkið séu háðar skilum eins og tíðkast hefur í hinum samningunum; Launakjör Gunnlaugs eru góð, jafnvel enn betri en fyrr; Ritnefndin á að hafa eftirlit með verkinu eftir því sem því vindur fram o.s.fr. Það er bara tvennt sem má telja alger nýmæli í þessum þriðja grunnsamningi:

1. Hluti samningsins er upp á krít. Alls er samið um 14.520.000 kr. greiðslu fyrir að ganga frá III. bindi á þremur árum svo það sé tækt til útgáfu árið 2015 en sérstaklega tekið fram: „Verkþættir skv. 3. og 4. tl. og fjárveiting til þeirra árin 2013 og 2014 eru með fyrirvara um að fjárveiting til þeirra verði veitt í fjárhagsáætlun hvors árs um sig“ (5. grein, s. 3 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi).

2. Það á að skoða og meta fyrri vinnu sagnaritara við þetta bindi og samningurinn tekur ekki gildi fyrr en þetta hefur verið gert: „Við upphaf verks skal ritnefnd um Sögu Akraness yfirfara og gera nauðsynlega úttekt á stöðu verksins í samvinnu við söguritara. Slík úttekt er forsenda samningsins og öðlast hann ekki endanlega samþykkt af hálfu Akraneskaupstaðar, nema ritnefnd hafi afgreitt hana með jákvæðum hætti sem grundvöll fyrir samningnum í heild sinni“ (4. gr., s. 2 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi –).

 

Hér verður látið staðar numið í bili en í næstu færslu fjallað nánar um launakjör, greiðslur, skil og efndir þessa samnings.

 

Samningur um ritun Sögu Akraness – III bindi er fenginn frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014.

Myndin sem fylgir færslunni er af Höfrungi og tekin af Atla Harðarsyni 6. ágúst 2008.

Millikafli í sögu af sagnaritun

Hér er einföld mynd þar sem sjást helstu viðburðir í sagnarituninni endalausu, þ.e. Gunnlaugs sögu Haraldssonar um Akranes, frá því Sögu Sögu Akraness (fyrsta bindi) lauk. Ég ákvað að æfa mig frekar í PictoChart en skrifa upp svívirðingar og yfirlýsingar sem tóku út yfir allan þjófabálk frá sumri 2011 fram yfir áramót 2012 og varða viðbrögð við útkomnum bindum I og II í Sögu Akraness en þó einkum viðbrögð við viðbrögðunum.

Athugið að allar textagreinar krækja í fréttir, viðtöl eða annað efni á Vefnum þar sem sjá má miklu viðameiri umfjöllun, nema sú sem segir af fyrstu greiðslu til sagnaritarans. Í næstu færslu verður fjallað ítarlega um samninginn, greiðslur/kostnað Akraneskaupstaðar árin 2012 og 2013, afraksturinn og algeran skort á eftirliti með verkinu.

Startholur í sögunni endalausu

Ég vinn nú undirbúningsvinnu fyrir annað bindi í Sögu Sögu Akraness. Þetta er tímafrek vinna og minnir í rauninni meir á sakamálarannsókn en sagnfræðirannsókn að því leytinu að gögn leynast víða og verður að rekja sig að þeim eftir alls kyns vísbendingum sem maður finnur á ótrúlegustu stöðum.

Ég lauk fyrsta bindinu í Sögu Sögu Akraness í júlí 2011. Síðan hef ég bloggað örfáar bloggfærslur  á stangli um framhaldið (sjá efnisflokkinn Saga Sögu Akraness á gamla blogginu mínu). Þegar ég komst að því að sagnaritari Sögu Akraness hefði verið á launum hjá Akraneskaupstað bæði árið 2012 (sem ég vissi) og árið 2013 (sem ég vissi ekki) og jafnvel árið 2014 (sem ég veit nú að slapp fyrir horn, þ.e. við bæjarbúar sluppum við að horfa upp á bæjarstjórnina spreða í hann pening en það er ekki bæjarstjórninni að þakka) ákvað ég að kanna þessi mál og óskaði eftir gögnum frá bænum. Það var af því að fyrir tilviljun sá ég sundurliðað yfirlit ársreikninga og fjárhagsáætlun bæjarins á bóksafninu og áttaði mig á að samningurinn sem  Árni Múli Jónasson þáverandi bæjarstjóri beitti sér fyrir að gerður yrði við Gunnlaug Haraldsson sumarið 2012, að hluta upp á krít, hélt þótt Árni Múli væri væri látinn axla sín skinn. Af því óvart hefur verið tekinn upp meir en klukkustundarlangur þáttur af þögn einmitt þegar bæjarstjórnin var að ræða fjárhagsáætlun seint á árinu 2013 – og umræða er ekki bókuð í fundargerðum bæjarstjórnar af því menn eiga að geta hlustað á hana í hljóðskrá – veit ég ekki einu sinni hvort þetta hefur neitt verið rætt opinberlega í bæjarstjórninni … En sem sagt: Ég óskaði eftir gögnum frá Akraneskaupstað, t.d. samningnum, fylgiskjölum, yfirliti yfir greiðslur til Gunnlaugs og einni fundargerð Ritnefndar sem ég sá að greidd höfðu verið nefndarlaun fyrir, í þessu sundurliðaða yfirliti á bókasafninu.Til öryggis bætti ég við ósk eftir öðrum gögnum sem tengdust þessu.

Þegar þau gögn bárust eftir dúk og disk (nánar tiltekið bárust gögn sem ég óskaði eftir þann 6. október mér þann 1. desember, örfá plögg vel að merkja) kom ýmislegt í ljós. Í þeim leyndust ekki ein heldur tvær fundargerðir Ritnefndar um Sögu Akraness sem aldrei höfðu verið birtar opinberlega. Í eldri fundargerðinni kom í ljós að Ritnefndin hafði skilað 8 “bréfabindum” úr fórum sagnaritara bæjarins, Gunnlaugs Haraldssonar, seint á árinu 2012, til skjalasafns bæjarins. Þetta áttu, skv. lýsingu,  að vera afrit frumgagna sem sagnaritarinn hefði aflað og nýtt til ritunar Sögu Akraness I og Sögu Akraness II en þyrfti ekki á að halda við framhaldsritun Sögu Akraness. Gunnlaugur Haraldsson hefur áður lýst yfir því örlæti að ómetanleg ljósrit hans af frumgögnum yrðu látin af hendi svo þau mættu nýtast öðrum sem vildu glöggva sig á sögu Akraness og byggja á almennilega fræðilegum gögnum sem hann hefur aflað af sinni miklu elju.

Næst lá leiðin á skjalasafnið. Ég nýt þess vafasama heiðurs að vera fyrsta manneskjan sem skoðar þessi gögn. Raunar er ég alls ekki búin að skoða þau því þetta virðist slíkur fjársjóður að það tekur langan tíma að fara í gegnum þau og mér tókst á fyrsta degi að klára tónerinn í ljósritunarvél bókasafnsins og þar með er ég í tímabundinni pásu uns nýr tóner kemur. Í fyrsta kassanum er nefnilega handritið að sögu Jóns Böðvarssonar að Akranes II (sem átti að spanna tímabilið frá 1885 til ?), það handrit afhenti Gísli Gíslason þáverandi bæjarstjóri og formaður Ritnefndar Gunnlaugi árið 1997 og hefur ekki til þess spurst síðan. Ég hef leitað talsvert að þessu handriti án árangurs – en nú er ég búin að finna það og ákvað að ljósrita og lesa.

Alls kíkti ég í þrjá skjalakassa. Í þeim kenndi ýmissa grasa, m.a. afrita af samingum sem Gunnlaugur Haraldsson hefur gert um ýmislegt annað en ritun Sögu Akraness. Þarna fann ég samning um ritun IV. bindis Æviskráa MA stúdenta, samning um ritun sögu á Long ættarinnar og svolítið af týndum gögnum sem hefðu átt að fylgja fundargerðarbókum Ritnefndar um Sögu Akraness. Má nefna frumrit af bréfskiptum Gísla Gíslasonar og Jóns Böðvarssonar á árinu 1994, en þá var Jón Böðvarsson sagnaritari bæjarins og Gunnlaugur Haraldsson sat ekki í Ritnefndinni. (Akranes, saga Jóns Böðvarssonar til 1885, kom úr 1992.) Ég er svolítið hissa á að sjá að svona gögn skuli hafa ratað úr fórum Ritnefndar um Sögu Akraness til Gunnlaugs Haraldssonar og sé raunar ekki hvaða gagn sá síðarnefndi hefði mögulega getað haft af þeim.

Eitthvað pínulítið sá ég í einum kassanum af ljósritum af hinum merkilegu frumgögnum en á eftir að skoða þau betur. Raunar þarf náttúrlega að fara skipulega í gegnum alla kassana (skjalasafnið hefur skipt hinum 8 bréfamöppum upp í 10 skjalakassa) til að skoða dótið sem þar kanna að leynast inn á milli. Ef ég verð heppin finn ég kannski ómetanlegar frumheimildir sem snerta prjónasögu í ómetanlegu gögnunum, a.m.k. þótti mér ljósrituð Uppskrift Guðmundar Þorlákssonar af Bréfabók Brynjólfs biskups Sveinssonar  1657-1658 dálítið interessant, sérstaklega ef þessi Guðmundur hefur verið svo natinn að skrifa upp öll bréfin með sinni ljómandi skiljanlegu rithönd árið 1900-1901 og Gunnlaugur ljósritað alla uppskriftina. Jafnfram velti ég því fyrir mér hvort  frumrit bréfabóka Brynjólfs sé að hluta glatað úr því Gunnlaugur þurfti að styðjast við uppskriftina.

En, sem sagt: Ég grautaði aðeins í þremur kössum og datt svo ofan í ljósritun týnda handritsins og er ekki komin lengra í að skoða þessi merkilegu gögn (sem eru þó aðeins brot af gögnum Gunnlaugs, líklega þarf hann enn á hátt í 192 bréfbindum með merkilegum gögnum að halda til að skrifa framhaldsbindin tvö, sbr. frétt Skessuhorns/inngang að viðtali við Gunnlaug Haraldsson þann 13. apríl 2011. Sem er eins gott því okkar góða skjalasafn er ekki í það stóru húsnæði.)

Það má telja nýjum vöndum sem nú sópa Ráðhúsið til hróss að þeir leggja sig ekki eins fram um að leyna upplýsingum um ritun Sögu Akraness og hinir gömlu. Þess vegna fékk ég strax að vita að það sem Gunnlaugur hefur nú skilað af svokölluðu III. bindi Sögu Akraness (þ.e.a.s. nýjasta útgáfan af þeim margskrifaða og margborgaða texta) er varðveitt í Ráðhúsinu og mér er velkomið að skoða það. Kannski sé ég einnig í góssinu sem geymt er þar skýringuna á þeim 2,2 milljónum sem Gunnlaugur fékk greiddar 2012 (skilgreint sem 10 vikna starf á verktakalaunum) því mér hefur ekki tekist að fá svar frá þáverandi formanni Ritnefndar um það fyrir hvað hann fékk greitt (ég trúi því nefnilega ekki að óreyndu að 1 A-4 blað sé 2,2 milljóna virði) og annað atriði sem ég hef spurt hann um og varðar samninginn sjálfan. Kannski hefur þáverandi formaður Ritnefndar um Sögu Akraness einfaldlega ekki haft tíma til að svara tölvupóstinum mínum ennþá, þetta voru samt bara tvær mjög einfaldar spurningar sem ég lagði fyrir hann, ásamt skýrum skýringum (kennslufræðilega séð).

Það stefnir í áhugaverða detektiv-vinnu framundan; Hvað leynist í góssi Gunnlaugs?; Hvaða gögn er að finna í Ráðhúsinu?; Fyrir hvað fékk sagnaritarinn greitt árin 2012 og 2013? o.s.fr. Og svo verður auðvitað að gera grein fyrir sorglegum afrifum síðasta patróns Gunnlaugs, Árna Múla Jónassyni, í bæjar- og landspólitík, sem og bæjarritarans sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd bæjarins og Ritnefndarinnar sem hefur þegið óspart úr kjötkötlum bæjarins án þess að axla ábyrgð eða skila sýnilegu vinnuframlagi.  Káboj-stríðinu mikla sumarið 2011, milli Árna Múla og Páls Baldvins  hef ég engan veginn gert nægilega góð skil enda var ég stödd í smáþorpum á grískum eyjum, í stopulu netsambandi, þá minn karlmannlegi bæjarstjóri þeysti út á gresjuna, og raunar búin að fá dálítið nóg af hasarnum sem tengdist útkomu bindanna tveggja, þ.á.m. svívirðingum míns karlmannlega bæjarstjóra um sjálfa mig. En Saga Sögu Akraness II á eftir að innihalda alla efnisþætti sem prýða mega góða sögu: Reyfarakennda rannsókn, óvænta fjársjóðsfundi, tragísk örlög sumra aðalpersóna og kómíska baráttu í anda Don Kíkóta ! Og þótt mér sækist verkið kannski dálítið hægt verð ég örugglega ekki tíu til fimmtán ár að skrifa hana (sem  raunin er með óútgefna Sögu Akraness III).

 

Mér þykir næsta augljóst að Gunnlaugur eignast engan patrón í okkar núverandi bæjarstjóra. Og peð til stuðnings sagnaritaranum eru vandfundin á kjörtímabili núverandi bæjarstjórnar; Það hefur ekki einu sinni verið skipað í hina fimm manna Ritnefnd um Sögu Akraness. Horfurnar á að hala inn allar tæpu fimmtán milljónirnar sem Árni Múli gekkst fyrir að semja um við hann (og er auðvitað mun meira fé því náttúrlega er þessi upphæð verðtryggð frá undirritun samnings 2012) eru  verulega slæmar, að mínu mati.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Marklaus mæling á þunglyndi

Aðalrannsóknarspurningin í Suðurnesjamannarannsókninni 2004, sem ég hef fjallað um í undanförnum  færslum, var hversu vel  þrír mælikvarðar á þunglyndi (spurningalistar) féllu að geðlæknismati sem byggði á greiningarlykli DSM-IV í viðtölum við þunglynda karla (Sigurdsson o.fl., 2013). Í síðustu færslu var gerð grein fyrir mælikvörðunum og bent á hveru óáreiðanlegt plagg DSM-IV er vegna fjárhagslegra tengsla semjenda þess við lyfjafyrirtæki.

Viðtalstækni geðlæknanna byggði á úreltri fyrirmynd

Hálfstaðlaða (semi-structured) viðtalstæknin sem geðlæknarnir tveir í rannsókninni beittu til greina þunglynda Suðurnesjamenn hafði að fyrirmynd rannsókn sem gerð var á Gautaborgarbúum á níræðisaldri, af báðum kynjum, árið 1987, þar sem kannað var algengi geðrænna sjúkdóma skv. greiningarmerkjum DSM-III (Skoog o.fl., 1993). Hálfstaðlaða viðtalstæknin sem Skoog beitti fólst í spurningum í þessari röð: Um sjúkdóma og áföll í lífi sænsku öldunganna og fjölskyldu þeirra, um flogaveiki, hjartaáföll, áfengisneyslu, sögu um geðræna sjúkdóma fyrr á ævinni, elliglöp og geðræna sjúkdóma hjá nánum ættingjum, hugsanir um dauðann og sjálfsvíg, geðræn sjúkdómseinkenni síðustu mánuðina fyrir viðtalið, virkni í kynlífi og svefnmynstur. (Í þessari endursögn er örfáum spurningum sleppt.)

Það er dálítið einkennilegt að hafa viðtalstækni sem byggð var á úreltum geðgreiningarlykli og beitt á mjög ólíkan hóp viðmælenda að fyrirmynd í Suðurnesjamannarannsókninni. Mögulega skýrist það af því að þessi sami Skoog var aðalleiðbeinandi í doktorsverkefni annars geðlæknisins. Raunar voru báðir geðlæknarnir doktorar í geðheilsu gamalmenna, sem og heimilislæknirinn sem vann að Suðurnesjamannarannsókninni, öll útskrifuð frá Gautaborgarháskóla á fárra ára millibili, svo kannski var akkúrat þessi rannsókn á öldungunum í Gautaborg þeim vel kunn.

Af vísindalegri nákvæmni var þátttakendum í rannsókninni á Suðurnesjum fækkað stig af stigi uns eftir voru 38 karlar, s.s. rakið var í færslunni Vísindaleg rannsókn á þunglyndi karla. 14 þeirra dæmdu geðlæknarnir þunglynda (hér eru þessir 2 með óyndi meðtaldir) en 24 þeirra lausa við þunglyndi. Í töflu 1 í greininni sem ég hef verið að fjalla um undanfarið, Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study (Sigurdsson o.fl., 2013) koma fram upplýsingar sem snerta skor á mælikvörðunum sem notaðir voru o.fl. Samanburður við töflu 2 í sömu grein sýnir hins vegar að upplýsingar skortir um ýmist 1 eða 2 þátttakendur þegar að þessu sama skori kemur (á BDI og GMDS spurningalistunum). Mér finnst óskiljanlegt að þessa sé ekki getið í töflu 1 og er þessi ónákvæmni síst til þess fallin að auka trú á vísindaleg vinnubrögð í ritun greinarinnar. (Það að glutra niður gögnum sem tengjast beint aðalrannsóknarspurningu rannsóknarinnar er svo kapítuli út af fyrir sig.)

Hvernig bar mælikvörðunum saman við álit geðlæknanna byggt á viðtölum?

Í stuttu máli sagt bar niðurstöðum þessa illa saman. Sem dæmi má nefna að að meðalskor óþunglyndra á BDI-kvarðanum var 10.1 (staðalfrávik 7.3) og meðalskor þunglyndra á sama kvarða var 17.3 (staðalfrávik 6.2). 14-19 stig á BDI-II gefa vísbendingar um vægt þunglyndi en ítrekað skal að í Suðurnesjamannarannsókninni var einungis leitað að alvarlegu þunglyndi (og óyndi). Staðalfrávikið er það stórt að meðaltalið segir tæpast hvernig dæmigerðir einstaklingur í hópunum eru. Samanburð á grundvelli meðaltals innan hópa verður því að taka með hæfilegum fyrirvara.

GMDS-kvarða niðurstöðurnar voru í svipuðum dúr og BDI-II niðurstöðurnar en MADRS mældi hins vegar gífurlegan mun á hópunum tveimur. (Í síðustu færslu var fjallað ítarlega um þessa mælikvarða, sjá Vísindaleg huglægni í mælingu þunglyndis.)

Ályktunin sem greinarhöfundar draga af þessu er:

“In the present data, the GMDS and BDI reported false positive cases, given that the semi-structured psychiatric interview is the golden standard, while the MADRS scale was too conservative. These inconsistencies could be explained by the fact that the MADRS is assessed by trained interviewers.”
(Sigurdsson o.fl., 2013, s. 150).

Í stuttu máli sagt telja greinarhöfundar sem sagt að það hafi verið lítið  að marka sjálfsmatskvarðana og kvarðann sem heilbrigðisstarfsmaður fyllti út. Hið eina sem er marktækt til að greina þunglyndi er “hið gullna viðmið”, þ.e. hálfstaðlað viðtal geðlæknis.

 

Hvernig bar lyfjanotkun og sjúkdómsgreiningu saman?

Svo sem kom fram í færslunni Sjö melankólískir Suðurnesjamenn  skilaði mæling kortisóls í munnvatnssýni einungis marktækum niðurstöðum hjá helmingi þunglyndisgreindu karlanna og var skýringin talin sú að hinn helmingurinn tók geðlyf og þunglyndislyf. Í greininni kemur ekki fram hver geðlyfin (psychotropics) voru né hvort þunglyndislyf (antidepressants) voru innifalin í flokknum geðlyf eða talin sem sérstakur flokkur, sem er auðvitað aðfinnsluvert í ritrýndri grein.

Þótt nefnt sé að geðlyfja- og þunglyndislyfjanotkun hafi verið marktækt algengari hjá þeim sem voru greindir talsvert þunglyndir með hið gullna viðmið, geðlæknaviðtölin, að vopni er ekkert gert úr þeirri staðreynd að tæp 17% hinna gersamlega óþunglyndu brúkuðu geðlyf og 12.5% þeirra tóku þunglyndislyf. Leikmaður spyr sig auðvitað af hverju svo hátt hlutfall óþunglyndra karlmanna á Suðurnesjum át þunglyndislyf fyrir áratug en því er s.s. ósvarað.  Mögulega er það vegna þess sem gefið er í skyn, að geðlæknarnir sem tóku þátt í rannsókninni hyggist skrifa sérstaka grein um sínar niðurstöður. Þegar/ef hún birtist verða niðurstöðurnar löngu úreltar því nú er liðinn áratugur frá rannsókninni og margt sem hún byggðist á er ekki lengur brúkað, ályktunum sem dregnar eru um serotónín-búskap og þunglyndi hefur verið varpað fyrir róða o.s.fr. Fyrir svo utan það að þau gögn sem týndust/vantar, svo sem áður var nefnt, draga mjög úr áreiðanleika niðurstaðnanna.

 

Er þunglyndi karla vangreint?

Þessari spurningu er nánast ómögulegt að svara. Ástæðan fyrir því er að hugmyndir geðlækna um hvað sé þunglyndi breytast með hverri nýrri útgáfu DSM. Þær hugmyndir hafa svo margföldunaráhrif meðal annarra heilbrigðistétta og almennings. Nú er svo komið að í sama sjúkdómspakkanum, kölluðum þunglyndi, má finna allt frá fárveikum melankólíusjúklingum sem varla komast fram úr rúminu upp í fólk sem telur sig eiga rétt á meiri hamingju en það telur sér hafa hlotnast í lífinu eða lífsleiðar nöldurskjóður af öðru tagi. Skilgreiningin á “þunglyndi” er orðin svo víð að það er ekkert gagn að henni nema til að ýta undir fordóma.

Þeim sem hafa sérstakan áhuga á að lesa um þá algengu fordóma geðlækna og starfsfólks á geðsviði um að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla er bent á tvo fyrirlestra eftir Arnþrúði Ingólfsdóttur:

“Við erum með aðeins viðkvæmari heila”. Tengsl hins líffræðilega og sálfélagslega í orðræðu geðlækna (Arnþrúður Ingólfsdóttir, 2010) og Staðreyndir lífsins.“ Orðræða geðlækna um tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna (Arnþrúður Ingólfsdóttir og Gloria Wekker, 2010).

Þeim sem hafa almennan áhuga á hvernig svona goðsagnir og fordómar verða til, þ.e. að konum hætti meir til þunglyndis er körlum er bent á færslu mína frá 17. mars 2013, Þjóðsagnir um þunglyndi og konur, og að lesa sér til í aðalheimild hennar sem er vönduð yfirlitsgrein.

Ofangreindar heimildir benda til þess að (raunverulegt) þunglyndi sé álíka algengt meðal karla og kvenna. Mögulegt er að þunglyndi karla sé vangreint en það er þá vegna fordóma geðheilbrigðiskerfisins og trúar starsmanna þess  á þjóðsagnir og goðsagnir í stað vísinda.

 

Þær einu tvær ástæður sem mér detta í hug fyrir birtingu tveggja greina og boðaðri þriðju grein, um þessa Suðurnesjamannarannsókn, sem gerð var fyrir áratug og virðist ekki hafa verið vandað til, s.s. ég hef rakið í þessari og fyrri bloggfærslum, er að einhvern höfundanna vanti punkta til að ljúka námi eða ná framgangi í starfi; Hin ástæðan kann að vera að styðja við markaðssetningu þunglyndislyfja á sviðum sem enn eru illa nýtt, sem eru einkum meðal karla og barna. Eftir því sem betur kemur á daginn að þunglyndislyf nýtast ekkert við þunglyndi (nema í undantekningartilvikum) er auðvitað mikilvægara fyrir lyfjarisana að finna fyrir þau ný not og fiska á nýjum miðum.

 

Heimildir

Arnþrúður Ingólfsdóttir og Gloria Wekker. (2010). Staðreyndir lífsins.“ Orðræða geðlækna um tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna. Þjóðarspegillinn. Rannsóknir í félagsvísindum XI. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2010. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík. Ritstjóri: Silja Bára Ómarsdóttir. Krækt er í greinina á Academia.edu en hana má einnig nálgast á rafrænu formi á Skemmunni.

Arnþrúður Ingólfsdóttir. (2010). “Við erum með aðeins viðkvæmari heila”. Tengsl hins líffræðilega og sálfélagslega í orðræðu geðlækna. Fyrirlestur hjá Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum 23.09.’10.  Academia.edu

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. (2013). Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry 67(3), s. 145-152.

Skoog, I., Nilsson, L., Landahl, S., & Steen, B. (1993). Mental disorders and the use of psychotropic drugs in an 85-year-old urban population. International Psychogeriatrics5(01), 33-48.

 

Vísindaleg huglægni í greiningu þunglyndis

 

greining_thunglyndis

Enn held ég áfram að velta fyrir mér efni greinar um rannsókn á þunglyndum körlum á Suðurnesjum (Sigurdsson, B. o.fl. 2013), sjá fyrri færslur hér og hér. Í greininni birtist nefnilega í hnotskurn flest sem hefur verið mjög til umræðu á þessari öld um starfsaðferðir geðlækna, einkum þann vægast sagt óstöðuga grunn sem þunglyndisgreiningar þeirra byggja á.

Þessi færsla fjallar einkum um greiningartæki geðlæknanna í rannsókninni. Í framhaldsfærslu verður skoðað hvernig eða hvort þau nýttust til að greina milli þunglyndra og heilbrigðra karla á Suðurnesjum í ársbyrjun 2004.

Hvað átti að rannsaka?

Aðal rannsóknarspurningin í Suðurnesjamannarannsókninni var  hversu vel tveir mælikvarðar á þunglyndi (spurningalistar) féllu að geðlæknismati sem byggði á greiningarlykli DSM-IV í viðtölum við þunglynda karla.

Greiningartæki til að meta þunglyndi

Marga sjúkdóma má greina með nákvæmum líffræðilegum prófum en svo er ekki með þunglyndi. Í þunglyndisgreiningu er það fyrst og síðast huglægt mat eins manns, geðlæknisins eða heimilislæknisins sem leitað er til, sem sker úr um hvort einstaklingur teljist þunglyndur eða ekki, mögulega örfárra slíkra lækna ef sjúklingur leitar til fleiri en eins.

Gjarna er bent á að „klínísk reynsla“ geðlækna nýtist vel í greiningu og meðhöndlun þunglyndis. Þetta hugtak er hugsað alveg eins og „kennslureynsla“ kennara, „uppeldisreynsla“ foreldra o.fl. „Klínísk reynsla“ er reynsla læknis af sjúklingum sem hann hefur sinnt. Í sumum fræðigreinum  virðast persónulegar skoðanir geðlækna sem byggðar eru á klínískri reynslu teljast tækt mælitæki til að meta bæði þunglyndi og verkan svokallaðra þunglyndislyfja.

Hið huglæga mat geðlæknis, byggt á reynslu af sjúklingum sem hann hefur sinnt, er stutt greiningarlyklum læknisins og krossaprófasvörun sjúklings. Af því hvoru tveggja greiningarlyklarnir og krossaprófin eru byggð á huglægu mati þeirra sem bjuggu þetta til á hvað skuli teljast þunglyndi er vafasamt að telja þetta vísindaleg mælitæki.

DSM

DSM er skammstöfun fyrir ritið Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders sem Amerísku geðlæknasamtökin gefa út. Þetta er, eins og nafnið gefur til kynna, handbók handa geðlæknum til að þeir geti greint geðræna kvilla. Frá og með útgáfu DSM-III, árið 1980, hafa geðlæknar haft fyrir satt það sem í ritinu stendur. Í Suðurnesjamannarannsókninni var stuðst við DSM-IV en ritsins ekki getið í heimildaskrá greinarinnar (Sigurdsson, B. o.fl. 2013). Ég reikna með að það eigi sér svipaðar skýringar og ef guðfræðingar sæju ekki endilega ástæðu til að hafa Biblíuna með í heimildaskrá greinar um guðfræði. Þótt hérlendis sé í heilbrigðismálum skylt að nota staðal Alþjóðaheilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, ICD-10, til að greina og flokka sjúkdóma taka margir íslenskir geðlæknar það ekki til sín: Þeirra Biblía er samt sem áður þessi ameríski greiningarlykill.

Í DSM er engin tilraun gerð til að skýra orsök eða uppruna geðsjúkdóma heldur er talinn upp listi einkenna hvers sjúkdóms og síðan gefið upp hve mörg einkennanna sjúklingur þurfi að sýna til að greinast með þennan eða hinn geðsjúkdóminn.

Með hverri útgáfu lengist þessi greiningarlykill og inniheldur æ fleiri einkenni í hátterni eða líðan sem teljast til marks um geðrænan sjúkdóm þótt almenningur hafi hingað til talið sumt þessarar líðanar eða hátternis nokk eðlilegt (Shorter. 2013). Sömuleiðis fjölgar geðsjúkdómum með hverri nýrri útgáfu. Má nefna sem dæmi að DSM-III var 495 síður sem gerði 265 sjúkdómsgreiningum skil, í DSM-IV, sem kom fyrst út 1994, hafði skilgreindum geðsjúkdómum fjölgað í 297 og bókin var orðin 886 blaðsíður, DSM-5, sem kom út í maí í fyrra er 947 síður en ég veit ekki tölu sjúkdóma þar.

Sýnt hefur verið fram á mjög sterk tengsl lyfjaiðnaðarins við þá sem semja efnið í DSM og er það vatn á myllu þeirra sem halda því fram að eitt markmið DSM sé að sjúkdómsvæða sem flest til að auka lyfsölu. Í ljós hefur komið  að um helmingur þeirra sem sömdu sjúkdómslýsingar/skilgreiningarmerki sjúkdóma í DSM-IV hafði einhver fjárhagsleg tengsl við lyfjaiðnaðinn. Þegar um var að ræða sjúkdóma þar sem lyf eru yfirleitt fyrsti lækningarkosturinn, s.s. geðklofa eða lyndisraskanir (en þunglyndi fellur undir slíkar raskanir) voru tengslin enn sterkari: Allir í nefndunum sem sömdu skilgreiningar og greiningarmerki fyrir þá sjúkdóma höfðu fjárhagsleg tengsl við lyfjaiðnaðinn (Cosgrove, L. o.fl. 2006)!

Í DSM-IV eru greindar nokkrar sortir af þunglyndi og þær misalvarlegar. Hér verður sjónum einkum beint að alvarlegu þunglyndi. Greiningarlykillinn fyrir alvarlegt þunglyndi er eins í DSM-IV, sem kom út 1994 og DSM-IV-TR, endurskoðaðri útgáfu sem kom út árið 2000 (Diagnostic criteria for Major Depressive Episode, án ártals) svo slæleg heimildaskráning í grein Bjarna Sigurðssonar og félaga (Sigurdsson o.fl. 2013) kemur ekki eins mikið að sök. Þetta er fjölbreyttur listi 9 einkenna sem snerta hátterni og líðan. Til þess að sjúklingur greinist með alvarlegt þunglyndi þurfa 5 þeirra að hafa látið á sér kræla í hálfan mánuð samfleytt, þar af verður eitt einkennanna að vera annað hvort þungsinni (lækkað geðslag) eða sinnuleysi (finna hvorki fyrir áhuga né ánægju).

Í Suðurnesjamannarannsókninni greindu geðlæknarnir 12 karla með alvarlegt þunglyndi og 2 karla með óyndi (Dysthymic Disorder) en sjá má skilmerki fyrir þann sjúkdóm í DSM-IV-TR ofarlega á þessari vefsíðu (Substance Abuse and Mental Health Services Administration. 2008). Í DSM-5 sem kom út í fyrra er óyndi ekki lengur talin sérstök lyndisröskun (Hiller. 6/6 2013).

 

krossaval

Þunglyndiskvarði Beck

Til stuðnings huglægu mati á hvort sjúklingur sé haldinn þunglyndi miðað við upptalningu einkenna í DSM geta geðlæknar haft til hliðsjónar spurningalista sem eiga að vera mælikvarði á þunglyndiseinkenni. Vinsælastur þeirra er Beck þunglyndiskvarðinn (Beck Depression Inventory) , krossapróf sem sjúklingur fyllir sjálfur út. Krækt er í BDI-II, útg. 1996, á ensku, en sá kvarði var  væntanlega notaður í Suðurnesjamannarannsókninni. Sjá má gamla útgáfu kvarðans frá 1979 á íslensku (Eiríkur Örn Arnarson. 1990). Beck þunglyndiskvarðanum var breytt 1996 svo hann félli að breyttum greiningarskilmerkjum þegar DSM-IV tók við af DSM-III.

Stigin fyrir framan útfylltu möguleikana eru lögð saman og oftast er miðað við að skor undir 14 stigum þýði að útfyllari sé laus við þunglyndi, 14-19 stig gefa vísbendingu um vægt þunglyndi, 20-28 stig benda til talsverðs eða alvarlegs þunglyndis, 29-63 stig þykja endurspegla illvígt þunglyndi.

Gotlenski mælikvarðinn á þunglyndi karla (GMDS)

Wolfang Rutz o.fl. hönnuðu þetta krossapróf 1999 sem miðar, eins og nafnið bendir til, að því að greina betur þunglyndi karla en hinn vinsæli kvarði Beck. Kvarðinn heitir The Gotland Male Depression Scale, skammstafað GMDS. Hér er krækt í spurningalistann á ensku á vefsíðu Cure4you. Fyrsti krossamöguleiki gefur 0 stig, sá næsti 1 stig, sá þriðji 2 stig og sá fjórði 3 stig. Mat á stigafjölda er útskýrt í sama skjali. Á síðari árum hefur komið fram að kvarðinn nýtist einnig prýðilega til að greina þunglyndi þeirra kvenna sem ekki falla að uppskrift DSM-IV að þunglyndi (Möller-Leimkühler. 2010. Angeletti. 2013).

Þunglyndiskvarði Montgomery-Åsberg

krossaval_litilMontgomery–Åsberg Depression Rating Scale (MADRS) var þriðji mælikvarðinn sem geðlæknarnir í Suðurnesjamannarannsókninni studdust við. Þessi mælikvarði er ólíkur þeim sem taldir voru hér að ofan að því leyti að það er ekki sjúklingur sem fyllir hann út heldur heilbrigðisstarfsmaður (líklega einn af læknunum fjórum í umræddri rannsókn á Suðurnesjum). MADRS-kvarðann má sjá hér á ensku (Psy-World, án ártals).

MADRS er fylltur út í samtali við sjúkling. Það samtal á að hefja á opnum spurningum, skv. fyrirmælum á kvarðanum sjálfum, en reyna síðan að beina samtalinu að þeim einstöku atriðum sem krossa skal við á kvarðanum. Ákveðinn sveigjanleiki er innbyggður í mat heilbrigðisstarfsmannsins á svörum sjúklingsins.

Stigin eru síðan lögð saman og yfirleitt metið sem svo að 7-19 stig gefi vísbendingu um vægt þunglyndi, 20-34 stig benda til talsverðs eða alvarlegs þunglyndis, fleiri en 34 stig endurspegla líklega illvígt þunglyndi.

 

Heimildir

Angeletti, Gloria o.fl. 2013. Short-Term Psychodynamic Psychotherapy in Patients with “Male Depression” Syndrome, Hopelessness, and Suicide Risk: A Pilot Study. Depression Research and Treatment 2013(408983). http://www.hindawi.com/journals/drt/2013/408983/

BDI-II, útg. frá 1996, birt án ártals eða heimildatilvísunar á The Ibogaine Dossier.

Cosgrove, L o.fl. 2006. Financial ties between DSM-IV panel members and the pharmaceutical industry. Psychotherapy And Psychosomatics 75(3), s. 154-160.

Diagnostic criteria for Major Depressive Episode [DSM-IV-TR og DSM_IV]. BehaveNet.

Eiríkur Örn Arnarson. 1990. Mælikvarði Becks á geðlægð (Beck Depression Inventory, 1979). Geðvernd 21(1), s. 31-33.

Hiller, Anne. 6/6 2013. Highlights of Changes from DSM-IV-TR to DSM-5. DSM-5 Development. American Psychiatric Association.

ICD-10 Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála, aðgengileg á SKAFL. Landlæknisembættið, án ártals.

Montgomery Asberg Depression Rating Scale. Psy-World.

Möller-Leimkühler, A. M., & Yücel, M. 2010. Male depression in females? Journal of affective disorders 121(1), s. 22-29.

Shorter, Edward. 2013. How Everyone Became Depressed: the Rise and Fall of the Nervous Breakdown. New York, Oxford University Press.

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. 2013. Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry 67(3), s. 145-152.

Substance Abuse and Mental Health Services Administration. 2008. Managing Depressive Symptoms in Substance Abuse Clients During Early Recovery. Treatment Improvement Protocol (TIP) Series, No. 48. Rockville, HHS Publication, s. 143-144.

Lífsmörk

Narcissus

Narcissus

Á dögunum las ég bók Ara Jóhannessonar, Lífsmörk, og þótti hún mikil ágætissaga. Þeir fáu sem ég hef talað við um bókina eru líka hrifnir en svo virðist sem mismunandi þættir hennar falli mismunandi fólki í geð; Sumum líkar kaldhæðnisleg og raunsæ lýsing á álaginu á spítalanum, þar sem aðalpersónan er svæfingarlæknir, sumum annað … það lesa sem sagt ekki allir bókina á sama hátt. Og einhvers staðar las ég (sjálfsagt í ritdómi) að vendipunkturinn í sögunni væri ansi ótrúlegur. Raunsætt séð er hann það en ég get ekki séð að hægt hefði verið að kúvenda aðstæðum aðalpersónunnar Sölva á algerlega raunsæjan máta, hvað þá þannig að sú kúvending gerði það að verkum að Sölvi næði að einhverju leyti áttum, miðað við hvers lags manngerð hann er.

Ég gat ekki varist þeirri hugsun að þetta væri lykilróman, að aðalpersónan væri byggð á ákveðnum manni. Inn á milli datt mér þó í hug að þetta væri vitleysa, akkúrat þessi manngerð í akkúrat  þessu umhverfi væri kannski ekki sjaldgæf. Svo fannst mér aftur að þetta væri um mann sem ég kannaðist við.

Það var gaman að þekkja sumt sögusviðið vel: Sölvi elst upp í Laugardal, pabbi hans er grár og gugginn kennari (Héraðsskólanum og Menntaskólanum er dálítið slegið saman í sögunni og ekki auðvelt að átta sig á í hvorum skólanum pabbinn kenndi dönsku) og hjólhýsahverfinu (sem stundum var kallað sígaunahverfið ef ég man rétt) eru gerð prýðileg skil.

Þema sögunnar er hybris (ofmetnaður). Gulldrengurinn, Sölvi súper, læknirinn sem tekur allar aukavaktirnar, til að vera ómissandi og baða sig í aðdáun annarra,  til að halda uppi almennilegum lífsstandard í flotta einbýlishúsinu í Garðabæ, sem á réttu eiginkonuna, flottu börnin, stundar rétta heilsusamlega lífstílinn (hlaup) og er sá vinælasti og klárasti á deildinni sinni  er náttúrlega að fara með sig á þessu: Dramb er falli næst. Og fall hans er hátt.

Fallið kemur samt ekki svo mjög við Sölva til að byrja með. Kannski er það vegna þess að þótt hann missi allt, læknisleyfið, familíuna, flotta húsið, flotta bílinn og fínu fjölskylduvinina (sem eru jafninnantómir og hann sjálfir) þá hefur það ótrúlega lítil áhrif á hann vegna þess að í grunninn elskar hann engan nema sig sjálfan: Stóra ástin í lífi Sölva er Sölvi sjálfur. Sá eini sem Sölvi dáist að er Sölvi sjálfur þótt hann hafi auðvitað verið mjög þurfandi fyrir aðdáun allra í kringum sig einnig. Vinnufélaginn Andrés, sem einn kolleganna heldur sambandi við Sölva eftir fallið mikla miðlar það mikið af (takmarkaðri) þekkingu sinni á geðlæknisfræðum að það verður að líta á hann sem málpípu höfundar, sem er kannski óþarfi því hafi lesandi ekki kveikt á því að Sölvi er haldinn narsissíkri persónuleikaröskun á háu stigi þegar hér er komið sögu er ólíklegt að sá lesandi sé bættari með útlistunum Andrésar.

Nú veit ég ekki hvort mögulegt er að fólki með narsissíska persónuleikaröskun batni einhvern tíma. En í lok bókarinnar er gefið í skyn að Sölvi hafi á endanum lært eitthvað sem gæti orðið honum til bjargar, sem gæti gert líf hans að einhverju leyti innihaldsríkt en ekki bara innantóma sýndarmennsku, jafnvel gert honum kleift að vera ekki nákvæmlega sama um aðra en sig.

Þeim sem ekki hugnast pælingar um  tómleika hins fullkomlega sjálfhverfa manns er bent á að lesa bókina sem táknsögu um veltiárin og hrunið 😉

 

Sjö melankólískir Suðurnesjamenn?

Þessi færsla er framhald af Vísindaleg rannsókn á þunglyndi karla. Hér verður fjallað örlítið um kortisólpróf/greiningu til að mæla m.a. þunglyndi, sögu þess og af hverju aðferðin var þögguð niður.

Melankoli eftir Edvard Munch, málið 1894

Melankoli eftir Edvard Munch, málið 1894

Kortisól, DST-próf og mæling kortisóls í munnvatnssýnum

Kortisól er sterahormón sem er framleitt í berki nýrnahettanna. Það er oft kallað „stress-hormónið“ því framleiðsla þess eykst við álag og dægursveiflur þess í blóði geta verið miklar. Áhrif kortisóls eru margvísleg, m.a. hefur það áhrif á blóðþrýsting og efnaskipti.

Til er alvarlegur krankleiki sem nefnist heilkenni Cushings og stafar af ofgnótt kortisóls. Ein aðferðin til að greina þetta heilkenni með vissu er að sprauta 1 mg af dexametasóni (sykurstera) í sjúkling seint að kvöldi og mæla kortisól í blóði morguninn eftir. Ef kortisólið mælist hátt eru yfirgnæfandi líkur á að hann sé haldinn Cushings heilkenni. Þessi prófun kallast dexamethasone suppression test (DST). Flestir aðrir mælast nefnilega með lágt kortisól að morgni, líka eftir svona DST próf. (Rafn Benediktsson, án ártals).

Nýleg aðferð til hins sama er að safna munnvatnssýnum í sólarhring og greina í þeim kortisólið: Um miðnætti eru kortisól-gildi í sjúklingum með Cushing heilkenni marktækt hærri en í heilbrigðu fólki (Diagnosis and Treatment of Cushing’s syndrome, án ártals).

Caroll og kortisólmæling til að greina melankólíu

Árið 1968 komst ástralski geðlæknirinn Barney Carroll að því að DST-prófið væri örugg mæling á ákveðinni gerð þunglyndis, þess þunglyndis sem öldum saman var kallað melankólía. Hann birti niðurstöður sínar í British Medical Journal (Caroll 1968). Þessar niðurstöður vöktu nokkra athygli á áttunda áratug síðustu aldar en svo fjaraði áhuginn út, af ástæðum sem tengjast þróun Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders (DSM). Samt var þetta öruggt próf og sýndi með óyggjandi hætti að líffræðilega stafar melankólía af öðru en annars konar þunglyndi því prófið virkaði ekki á neitt annars konar þunglyndi eða sjúkdóma sem líktust þunglyndi (Shorter 2012).

Í greininni Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study (Sigurdsson o.fl. 2013) er ein tilvísun í Carroll 1976 og vitnað er með óbeinum hætti í gagnsemi uppgötvunar hans í yfirlitsgrein (Christensen og Kessing 2001) þar sem því er haldið fram að DST próf Carroll hafi ekki virkað sem skyldi. Höfundar yfirlitgreinarinnar vitna máli sínu til stuðnings í Carroll o.fl. 1981 en hafa misskilið textann því skv. útdráttum úr þeirri grein (ég hef ekki aðgang að greininni í heild) virkaði prófið ágætlega til að greina melankólíu, sem á þeim tíma var oftast innifalin í safni þeirra þunglyndissjúkdóma sem kölluðust innlæg geðlægð. Að mínu mati hefði verið skynsamlegt fyrir íslensku höfundana að skoða frumheimild í stað þess að taka athugasemdalaust upp misskilning Christensen og Kessing í yfirlitsgreininni.

Áhrif DSM

Ástæða þess að uppgötvun Carroll féll nánast í gleymskunnar dá var að það var ekki hagkvæmt og heppilegt fyrir geðlæknisfræði og geðlækna að horfast í augu við að til væri afmörkuð tegund þunglyndis, sem hefði líffræðileg sérkenni, þ.e.a.s. að hægt væri að greina sjúkdóminn með líffræðilegum aðferðum á nánast óyggjandi hátt. Melankólía hefur um aldir verið talin grafalvarlegur sjúkdómur en „því miður“ er hún ekki algengur sjúkdómur. „Því miður“ er í þessu samhengi séð frá sjónarhóli lyfjafyrirtækja sem hafa haft beinan hag af því að sem flestir væru greindir þunglyndir og hafa haft ómæld áhrif á skilgreiningar alls konar þunglyndis sem einungis verður greint með huglægum hætti, stundum dulbúnum sem mælikvörðum en jafn huglægt fyrir því. Þessi áhrif hefur lyfjaiðnaðurinn einkum haft gegnum DSM (Shorter 2012). Þau rit, einkum DSM-IV og DSM-5, eru biblíur og guðspjöll geðlækna um allan heim, þar á meðal íslenskra. Um þetta sameiginlega afrek lyfjaiðnaðarins og geðlækna verður fjallað í næstu færslu.

 

En það hvarflar svona aðeins að mér að hinir sjö þunglyndu lyfjalausu Suðurnesjamenn sem skiluðu munnvatnssýnum með vel háu kortisóli undir kvöld og síðla kvölds (Sigurdsson o.fl. 2013), hafi, þegar allt kemur til alls, ekki þjáðst af sérstöku nýuppgötvuðu karlaþunglyndi heldur af gamaldags velþekktri melankólíu. Það væri í fullu samræmi við uppgötvun Carroll árið 1968 og kæmi kyni ekkert við.

Heimildir

Diagnosis and Treatment of Cushing’s syndrome, án ártals. Stanford School of Medicine.

Carroll, B. J., Martin, F. I. R., & Davies, B. 1968. Resistance to suppression by dexamethasone of plasma 11-OHCS levels in severe depressive illness. British Medical Journal 3(5613), s. 285-297.

Carroll, Bernard J; Feinberg, Michael; Greden, John F.; Tarika, Janet; Albala, A. Ariav; Haskett, Roger F.; James, Norman; Kronfol, Ziad; Lohr, Naomi; Steiner, Meir; De Vigne, Jean Paul; Young, Elizabeth. 1981. A specific laboratory test for the diagnosis of melancholia: Standardization, validation, and clinical utility. Archives of General Psychiatry 38(1), s. 15-22.
Útdrætti úr greininni má sjá hér og hér .

Christensen MV, Kessing LV. 2001. The hypothalamo-pituitary-adrenal axis in major affective disorder: a review. Nordic journal of psychiatry 55(5), s. 359–363.

Rafn Benediktsson. Nýrnahettur. Innkirtlasjúkdómar: vefsíða fyrir læknanema. Án ártals.

Shorter, Edward. 2013. How Everyone Became Depressed: the Rise and Fall of the Nervous Breakdown. New York, Oxford University Press.

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. 2013. Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry, 67(3), s. 145-152.

Vísindaleg rannsókn á þunglyndi karla

Í þessari færslu er rakið hvernig aðferðafræði getur borið vísindamenn ofurliði svo ómældum tíma, fé og fyrirhöfn er eytt í verk sem varla er fyrirhafnarinnar virði.

Gagnrýni á rannsóknir á sviði hugvísinda, félagsvísinda, ekki hvað síst kynjafræði, eða menntavísinda byggist oftar en ekki á því að úrtakið sem niðurstöðurnar eru byggðar á sé alltof lítið til að draga megi af því ályktanir sem eru einhvers virði eða að verið sé að klæða augljós sannindi í fræðilegan búning. Gjarna er bent á rannsóknir á sviði raunvísinda til hliðsjónar og því haldið fram að þar séu sko stunduð betri vinnubrögð (sem þá eru kölluð „vísindaleg vinnubrögð“).

Fyrir nokkru birtust fréttir af íslenskum lyfjafræðingi, Bjarna Sigurðssyni, sem hefði, ásamt samstarfsmönnum, þróað nýja aðferð til að greina þunglyndi karla (RÚV 10. 6. 2014). Í fréttinni segir að Bjarni og félagar hafi fylgt hugmyndum sínum eftir með rannsókn á Suðurnesjum:

Fimmhundruð þrjátíu og fjórir karlar, af 2000 manna úrtaki, tóku þátt í henni. …
Mæld voru hormónin cortisol og testosterone hjá körlunum. Hormónin tengjast hvatvísi og örlyndi sem ekki eru dæmigerð þunglyndiseinkenni. „Niðurstöðurnar eru þær að við sjáum það að þeir sem eru með þunglyndi eru líklegri til að vera með hækkað cortisole og testosteron á kvöldin. Þetta eru hormón sem eru svona frá náttúrunnar hendi eru svona frekar virkjandi og þau eiga að vera mjög lág á kvöldin.“
(RÚV 10. 6. 2014.)

Ennfremur kemur fram í fréttinni að tvær greinar hafa verið birtar um niðurstöðurnar í vísindatímaritinu Nordic Journal of Psychiatry.

Mér tókst einungis að komast yfir aðra greinina, Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study, sem birtist í þessu tímariti árið 2013. Þessi grein var afar áhugaverð fyrir margra hluta sakir og verður byrjað að fjalla um hana í þessari færslu.

Hin greinin heitir Saliva testosterone and cortisol in male depressive syndrome, a community study: The Sudurnesjamenn Study, og birtist 2014.

Höfundar beggja greinanna eru lyfjafræðingurinn Bjarni Sigurðsson, lyflæknirinn Magnús Jóhannsson, geðlæknarnir Sigurður Páll Pálsson og Ólafur Ævarsson og María Ólafsdóttir heimilislæknir.

Hvorug greinin hefur vakið sérstaka athygli í vísindaheimum enn sem komið er því einungis einn vísindamaður hefur vitnað í greinina frá 2014 og eina tilvitnunin í greinina sem ég las er hjá höfundunum sjálfum sem vitna í hana í seinni greininni sinni. Tilvitnanir eru góður mælikvarði á hvort grein/rannsókn teljist einhvers virði og því tek ég þetta fram. Raunar reikna ég með að efnislega séu þessar greinar náskyldar en oft er ástæðan fyrir að efni er margbirt með smávegis tilbrigðum í ritrýndu(m) tímariti/tímaritum sú að þá fá höfundarnir margfalt fleiri punkta fyrir greinaskrif í slík tímarit, sem skiptir miklu máli þegar frammistaða í starfi eða námi er metin.

Tíu litlir negrastrákar

… en eftir urðu níu /… og þá voru eftir átta. O.s.fr.

Hvernig urðu fimmhundruð þrjátíu og fjórir karlar að sjö körlum?

Hér verður gerð grein fyrir hvernig rúmlega 2.500 karla slembiúrtak verður að 534 körlum í rannsókn, sem síðan urðu að 134 körlum í rannsókn sem loks urðu 38 karlar í undirrrannsókn sem endaði með því að ályktanir voru dregnar af svörun 7 karla í undirrannsókninni sem er aðalefni greinarinnar.

Rannsóknin á Suðurnesjamönnum hófst laust eftir áramót 2004. Upphaflega var tekið slembiúrtak úr þjóðskrá 2003 þar sem þess var gætt að úrtakið endurspeglaði aldursdreifingu karla á aldrinum 18-80 ára á svæðinu. Það reyndust 2.512 karlar. Síðan voru dregnir frá dánir, brottfluttir, fjarverandi, útlendingar o.fl. og þá endað í 2.148 körlum.

Þessum 2.148 körlum var sent bréf með beiðni um þátttöku í rannsókn. Bréfinu fylgdu spurningalistar, þ.e. Beck þunglyndismælirinn og annar mælingarlisti, GMDS (Gotland Male Depression Scale), sem menn voru beðnir að fylla út. Upphaflegur tilgangur rannsóknarinnar var nefnilega að kanna hversu góð fylgni væri milli niðurstaðna þessara spurningalista/mælistika og niðurstaðna geðlæknisviðtala þar sem geðlæknar byggðu á DSM-IV (greiningarlykli Amerísku geðlæknasamtakanna) í karlahópi.

Þrátt fyrir tvær skriflegar ítrekanir bárust einungis svör frá fjórðungi þeirra sem fengu bréfin. Það voru fimmhundruð þrjátíu og fjórir karlar. (Raunar mætti í þessu sambandi velta fyrir sér hvort þeir þunglyndustu séu ekki einmitt líklegir til að sleppa því að svara og það vekur efasemdir um að sá hluti úrtaksins sem náðist í hafi verið besti hópurinn til að rannsaka … en látum svo vera.)

Sextíu og fimm þessara karla sýndu einhver merki um þunglyndi, skv. spurningalistunum sem þeir fylltu út. Svo geðlæknarnir tveir tóku viðtöl við þá. Jafnframt var búinn til sextíu og níu manna viðmiðunarhópur með slembiúrtaki úr þeim fjölda sem sýndi engin merki þunglyndis. Geðlæknarnir töluðu líka við þá (en einhverra hluta vegna skortir á rannsóknarupplýsingar um þrjá þeirra. Það er ekki skýrt nánar í greininni sem ég las enda ætla höfundarnir að skrifa fleiri greinar um þessa rannsókn).

Þegar kom að því að rannsaka kortisól og þunglyndi sérstaklega var 51 karli boðin þátttaka. Hún fólst í því að taka munnvatnssýni fimm sinnum frá morgni til kvölds á einum degi (kl. 7, 10, 12, 18 og 22), skila sýnunum og „ljúka geðlæknisviðtali“. Það er engin skýring á því af hverju akkúrat þessum 51 karli var boðin þátttaka öðrum fremur en af því enn vantar á rannsóknargögn um þrjá þeirra óþunglyndu hljóta þeir að vera úr af þessum 134 (65+69) körlum sem var væntanlega boðin þátttaka í aðalrannsókninni.

Fjörtíu karlar sinntu þessu hvoru tveggja: Skiluðu munnvatnssýnum og mættu í viðtal við geðlæknana. Þegar öll gögn höfðu verið greind var tveimur úr hópnum úthýst, öðrum vegna þess að hann notaði lyf sem innhélt prednisólón, hinum vegna þess að tölfræðiprófun (Grubbs-próf) greindi hann sem jaðartilvik.

Þá voru eftir 38 karlar sem rannsóknarniðurstöður þessarar undirrannsóknar byggja á. Þeir skiptust í tvo hópa, 14 þeirra töldu geðlæknarnir vera þunglynda (nánar tiltekið voru 12 haldnir alvarlegu þunglyndi/geðlægð og 2 haldnir óyndi). 24 karlar voru að mati geðlæknanna lausir við þunglyndi og því heppilegir í samanburðarhóp.

Engin tölfræðilega marktækur munur reyndist á magni kortisóls í munnvatnssýnum þessara 38 karla nema í sýnum sem tekin voru kl. 18 og kl. 22. Sá tölfræðilega marktæki munur sást aðeins hjá þeim sem geðlæknarnir höfðu greint þunglynda (eða með óyndi) og ekki tóku nein geðlyf (skv. töflu 1 í greininni voru geðlyfin þunglyndislyf í öllum tilvikum nema einu). Þeir sem þetta átti við voru nákvæmlega 7 karlar.

Svoleiðis að hinar merku niðurstöður greinarinnar um að hækkað kortisól í munnvatnssýni sem tekið er að kvöldi sé betri mælikvarði en hefðbundnar aðferðir til þess að mæla þunglyndi karla eru reistar á nákvæmlega 7 körlum á Suðurnesjum sem tveir geðlæknar mátu þunglynda á huglægan hátt, þ.e. með viðtölum. Sjálfsagt skiptir fjöldinn (öllu heldur fámennið) ekki máli í að niðurstaðan sé rétt en:

 

Aðferðin virðist vera í stuttu máli: Finnum nokkra þunglynda karla og gáum hvort munnvatnið í þeim er öðru vísi en í öðrum körlum. Þessi aðferð er varla slæm í sjálfri sér – en sennilega hefði verið hægt að finna 7 þunglynda geðlyfjalausa karla á Suðurnesjum og nokkra glaðlynda til hliðsjónar með minni fyrirhöfn og kostnaði. Spurning hvort Mjallhvít hefði ekki klórað sig fram úr því án neinna styrkja …

Og auk þess eru það ekki nýmæli að rugl á kortisólbúskap sé skýr og vel nothæf greining á melankólíu. Sú uppgötvun var gerð 1968.

 

Viðtöl geðlæknanna voru „semi-structured interview“ sem byggði á viðtalstækni sem notuð var til að greina geðræna sjúkdóma og geðlyfjanotkun meðal Gautaborgarbúa á níræðisaldri á níunda áratug síðustu aldar. Um þau, niðurstöður þeirra og tengsl niðurstaðnanna við algeng mælitæki á þunglyndi (spurningalista) verður fjallað í næstu færslu(m). Sömuleiðis verður eilítið fjallað um fyrri rannsóknir á tengslum kortisóls við eina ákveðna tegund þunglyndis og velt upp ýmsum spurningum, t.d. af hverju það tekur níu ár og lengur að vinna úr rannsókn á borð við The Sudurnesjamenn Study og hvaða áhrif þessi langi tími hefur á gildi/mikilvægi niðurstaðna þá loksins þær birtast. Loks verður bent á hvernig villa virðist hafa ratað í greinina af því höfundar hafa ekki haft sinnu á að lesa frumheimild.

Það kemur ekki fram hvað The Sudurnesjamenn study kostaði en hún var styrkt úr þremur sjóðum: The Landakot Medical Foundation (sem ég giska á að sé Styrktarsjóður Sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala); Vísindasjóði Félags íslenskra heimilislækna og Minningarsjóði Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar.

 

Heimild:

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. (2013). Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry, 67(3), 145-152.

Kimilsungia og Kimjongilia

kimil_baeklingur Þegar sonurinn skilaði sér heim frá Norður-Kóreu fyrir þremur vikum færði hann móður sinni og afa að gjöf tvær merkilegar plöntur. (Kannski er ekki hvað síst merkilegt að honum skyldi hafa tekist að halda lífi í plöntunum í Kínastoppinu í bakaleiðinni og á þvælingnum aftur heim á skerið- hingað til hefur sonurinn nefnilega ekki sýnt mikla takta í stofublómaumhirðu.)

Þessar merkisplöntur voru Kimilsungia og Kimjongilia, báðar ræktaðar til heiðurs þeim góðu landsfeðrum í Norður-Kóreu svo sem fram kemur í ítarlegum bæklingi sem fylgdi þeim.

Innan á kápu bæklingsins er rauðletraður texti, bein tilvitnun í Kim Jong Il:

Kimilsungia er blóm sem táknar mikilleika Kim Il Sung forseta, sem lýsti fram veginn fyrir heiminn allan með Juche hugmynd sinni [Juche er pólitísk stefna, einnig kölluð Kimilsungismi, orðið er illþýðanlegt], og jurt sem hefur blómstrað í hjörtum fólks á tímum sjálfstæðis til heiðurs mikilmenni.

Á Wikipediu kemur svo fram að Kimjongilia sé tákn fyrir visku, ást, réttlæti og frið og sé blómið svo uppræktað að það blómstri árlega á afmælisdegi Kim Jong Il, þ.e. þann 16. febrúar.

Þetta eru sem sagt magnaðar plöntur!

En … líklega eiga þær erfitt uppdráttar í stofuglugga á Akranesi, þótt ég hugsi hlýlega til þeirra dag hvern. Og raunar eiga Kimilsungiurnar okkar tengdapabba mér þegar líf að launa því Kóreufarinn og faðir hans ruku út í gróðurhús í svartamyrkri seint um kvöld og pottuðu öllum plöntunum í mold, vökvuðu svo duglega. Á meðan las ég bæklinginn. Í honum kom fram að Kimilsungia er orkídea svo ég var fram yfir miðnætti að bjarga þeim úr klesstri pottamoldinni, skola ræturnar og umplanta í þann dularfulla mulning sem orkídeum hugnast.

Allt um það: Kimilsungian hjarir ennþá þótt skv. leiðbeiningarbæklingnum góða þurfi hún að lágmarki 12 klst. sól á dag, raka og hátt í 30 stiga hita. Kimjongilian bærir ekki á sér. Hún er begónía og ég ætla rétt að vona að þeir feðgar hafi ekki snúið hnýðinu á hvolf í pottinum (sýnist þó ekki). Garðyrkjumaðurinn tengdafaðir minn segir þetta alveg eðlilegt miðað við árstíma. En ef hún er forrituð til að blómstra þann 16. febrúar – fer þá ekki allt í vitleysu?

Hér að neðan er mynd af greyjunum eins og þau líta út núna.

kimil