Bárður Brynjólfsson


Bárður var sonur Brynjólfs Björgólfssonar.  Hann varð snemma mesti myndarmaður. Bárður var jafngamall Hildiríðarsonum, þótt þeir væru hálfbræður pabba hans.

Þegar Bárður hafði tækifæri til gerðist hann hirðmaður Haralds konungs hárfagra.  Við hirðina kynntist hann Þórólfi Kveld-Úlfssyni og urðu þeir strax mestu mátar enda báðir hinir glæsilegustu menn og miklir kappar.  Bárður fékk vin sinn Þórólf með sér norður í Sandnes þegar hann kvæntist Sigríði, dóttur bóndans þar.

Þegar Brynjólfur dó erfði Bárður búið að Torgum og embætti skattheimtumanns á Finnmörk.  Hann neitaði að láta Hildiríðarsyni fá nokkurn hluta af arfinum.

Í mikilli orustu, sem Haraldur konungur háði við Hafursfjörð, særðust þeir báðir Bárður og Þórólfur.  Fljótlega varð ljóst að Þórólfur myndi jafna sig en sár Bárðar væru banvæn.  Bárður fékk leyfi konungs til að ráðstafa eigum sínum og tilkynnti að Þórólfur skyldi erfa allt eftir sinn dag;  búið að Torgum, skattheimtuna og helst einnig konu sína og son.   Síðan dó Bárður.

Ætt Hildiríðarsona