Böðvar Egilsson var myndarlegur piltur, sonur Egils og Ásgerðar.  Hann drukknaði í Borgarfirði þegar hann fór með húskörlum að sækja timbur í skip sem lá við festar í Hvítá.  Böðvar var þá á unglingsaldri.  Egill hélt mjög upp á Böðvar og varð hugstola af sorg þegar hann dó.  Sagt er að Egill hafi þrútnað (bólgnað) svo mjög þegar Böðvar var heygður að fötin rifnuðu utan af honum.  Egill reið sjálfur með lík sonar síns í fanginu út á Borgarnes og heygði hann í haugi Skalla-Gríms, sem enn sést í Skalla-Grímsgarði.

Eftir þetta reyndi Egill að svelta sig í hel en Þorgerður dóttir hans fékk hann ofan af því og stakk upp á að Egill semdi erfiljóð.  Egill fór að ráðum hennar og orti Sonatorrek.