ÍSL 313

29. febrúar

Verkefni

Hér á eftir fer listi yfir "vefverkefni" sem þarf að vinna. Æskilegt er að vinna þau í 2-3 manna hópum. Þið megið velja ykkur verkefni til að vinna, en ef margar útgáfur af sömu lausn berast verður að velja milli þeirra. Verkefnin miðast við efni í fyrstu 30. köflum Eglu.

1. Búa til 1. tölublað fréttablaðs, þar sem aðalatriði söguþráðar eru rakin.

Hér þarf að velja nafn á blaðið og sjá um að teikna blaðhaus. (Hugsanlega getur þessi hópur ráðið sér teiknara.) Það þarf að skrifa svona 5- 6 fréttir. E.t.v fylgja fréttamyndir (ekki fleiri en 2-3).


2. Búa til 1. tölublað ómerkilegs slúðurblaðs.

Velja þarf nafn á blaðið og sjá um blaðhaus. Skrifa svona 4-5 fréttir. E.t.v. fylgja fréttamyndir.


3. Skrifa stuttan pistil um helstu persónur í fyrri hluta Eglu (þ.e. ca. 1.- 30. kafla). Þessi hluti ætti alls ekki að vera lengri en 1 blaðsíða.


4. Skrifa pistil um Þórólf Kveldúlfsson. Hér ætti að koma fram ýmislegt um ævi hans og störf, útlit o.fl. sem ykkur finnst skipta máli, einnig ævilok. Helst þarf að skaffa mynd af Þórólfi.


5. Skrifa pistil um Skalla-Grím Kveldúlfsson. Sömu fyrirmæli og við 4. verkefni.


6. Noregur á 9. öld. Hér þarf að leita heimilda og reyna að lýsa ástandinu í Noregi á 9. öld, segja frá Haraldi hárfagra, valdabaráttu hans og hvernig umhorfs var við norsku hirðina á þessum tíma. Finnið heimildir á bókasafninu (einkum í söguhillunum) og spyrjið sögukennarann :) E.t.v. má eitthvað græða á formála Egils sögu.


7. Hildiríðarsynir. Þetta á að vera stuttur pistill sem aðallega kynnir Hárek og Hrærek, útskýrir hvers vegna þeir fara út í það að rægja Þórólf og þið verðið að leggja mat á það (og rökstyðja) hvort þeir hafa eitthvað til síns máls eða ekki. Munið eftir ævilokum þeirra.


8. Það þarf að teikna upp skýringarkort sem sýnir helstu sögustaði í Noregi, þ.e. hvar Kveldúlfur og Skallagrímur búa, hvar Sandnes og Torgar eru, hvar konungur heldur sig oftast... annað verðið þið að meta hvort eigi erindi inn á kortið. Kortið í útgáfu Eglu er alltof ítarlegt. Þetta á að vera fallegt og snyrtilegt kort, helst í lit.


9. "Spæjarahópur". Borist hefur kvörtun frá finnskum náunga sem kann illa við að Egils saga sé táknuð með hyrndum hjálmi. Hann segir að víkingar hafi alls ekki haft horn á hjálmunum sínum. Finnið út úr þessu - er þetta rétt hjá honum? Hvenær og hvers vegna komst þessi hornatíska þá á? Annað sem þessi hópur á að finna út er hvort Íslendingar, sem námu land á Vínlandi, hafi haft með sér hesta. Um það barst fyrirspurn nú í morgun (frá Ameríkana, að ég held...). E.t.v mætti skoða Grænlendingasögu og Eiríks sögu rauða til að finna það síðarnefnda út. Annars verðið þið að skoða bækur um víkinga, sögu o.þ.h. Við verðum að fá svör!


10. Staða kvenna á víkingatímum, eins og hún birtist í Egils sögu. Skrifið stuttan pistil um konur í fyrrihluta Eglu (þær eru aðallega Hildiríður og Sigríður, kannski líka Salbjörg og Bera). Hvernig er staða þeirra í samfélaginu og örlög þeirra? Ekki sakar að kíkja í bækur um víkinga og gá hvort finna mætti þar einhvern fróðleik.


Góða skemmtun

Harpa

Ps. Það vantar sjálfboðaliða í verkefnið að lesa upphaf Heimskringlu inn á segulband. Innifalið í því er að fara á bókasafn og redda sér fyrsta bindi Heimskringlu, koma sér upp í tónlistarskóla, semja við Lárus um tíma til upptöku o.þ.h. Ef margir sjálfboðaliðar bjóða sig fram þá greiðum við atkvæði :)

Næstu verkefni í Eglu

Síðustu verkefni í Eglu