Bolli Þorleiksson

Bolli Þorleiksson er ein af aðalsögupersónum Laxdælu. Hann fór í fóstur til Ólafs pá og Þorgerðar og var því uppeldisbróðir Kjartans Ólafssonar. Bolli giftist Guðrúnu Ósvífursdóttur og bjuggu þau í Sælingsdalstungu.

Bolli var mjög glæsilegur og fríður. Hann var vel vaxinn og sterkur og var kurteislegur og rólegur. Hann var mjög góður í íþróttum og kom alltaf næst á eftir Kjartani Ólafssyni. Þannig var það líka í vinsældum. Bolli var vinsæll en þó ekki eins vinsæll og Kjartan. Samt unnust þeir fóstbræður mjög.

Bolli var sonur Þorleiks Höskuldssonar sem var hálfbróðir Ólafs pá, föður Kjartans. Hann fór í fóstur til Ólafs og Þorgerðar Egilsdóttur, konu hans, þegar hann var 3 ára. Þau bjuggu í Hjarðarholti en það hét áður Hrappsstaðir.

Bolli, Kjartan og Guðrún Ósvífursdóttir voru öll mjög góðir vinir og hittust gjarnan í heitri laug að Laugum. Kjartan og Guðrún voru búin að vera að draga sig saman þegar hann og Bolli ákváðu að fara til útlanda. Guðrún vildi fara með en Kjartan vildi það ekki og bað Guðrúnu að bíða sín í þrjú ár. Kjartan og Bolli sigla utan og Kjartan er tekinn í gíslingu. Bolli fer til Íslands og þegar Guðrún spyr hann af Kjartani, ýkir hann kjaftasöguna sem var að ganga um Ingibjörgu, systur Noregskonungs, og Kjartan. Bolli ýjar að því við Guðrúnu að þau skuli giftast og þegar ekkert heyrist frá Kjartani giftist Guðrún Bolla að ráði föður síns.

Kjartan verður fúll þegar hann loks kemur aftur til Íslands og sér að Bolli og Guðrún eru gift. Eftir þetta fer að slitna upp úr vinskap Kjartans og Bolla.

Eftir að Bolli giftist Guðrúnu varð líf hans frekar dapurlegt því hjónabandið var kalt af Guðrúnar hálfu. Eftir að ósætti Bolla og Kjartans hófst var Kjartan stöðugt að eyðileggja fyrir Bolla og áreita hann. Bolli reyndi að fá fram sættir en Kjartan móðgaði hann og þáði ekki gjafir.

Að lokum setti Guðrún Bolla skilmála og Bolli þorði því ekki annað en að taka þátt í að drepa Kjartan, eins og Guðrún vildi. Það fór því svo að Bolli drap sinn eiginn fóstbróður.

Nokkrum árum síðar fóru synir Ólafs pá, fósturbræður Bolla, ásamt fleirum og hefndu Kjartans, að ráði Þorgerðar, móður þeirra og fósturmóður Bolla. Bolli var í seli sínu þegar mennirnir komu að og reyndi hann að verjast. Á endanum var hann þó drepinn og sá sem veitti honum banasár hét Helgi Harðbeinsson. Seinna var Helgi svo drepinn af Bolla Bollasyni, syni Bolla Þorleikssonar.



Egils Saga Snorra Edda Snorri Sturluson