Þegar Jón er 17 ára sendir Snorri hann til Noregshöfðingja sem tryggingu fyrir friði milli Íslendinga og norskra kaupmanna. Þegar Jón kemur heim 3 árum síðar virðist Snorri vilja efla hann til nokkurs frama í landinu, enda eini skilgetni sonur hans, og lætur hann á næstu árum standa í ýmsu málavafstri á Alþingi. En þegar Jón ætlar sér að giftast Helgu, dóttur Sæmundar í Odda, biður hann Snorra um fé til kvonarmundar og Stafholts í Borgarfirði til staðfestu, segir Snorri honum að biðja frekar
móður sína og fá Borg á Mýrum til staðfestu. Þegar Snorri tekur svona í bón hans hættir hann við að gifta sig og ákveður í fússi að fara til Noregs. Snorri sér þá eftir framkomu sinni og býður Jóni Stafholt, en þá var það um seinan, Jón var of stoltur og þrjóskur til að taka því og hélt fast í þá ákvörðun að fara til Noregs. Hann gerðist þar hirðmaður og skutilsveinn, en var svo drepinn áður en hann komst nokkurn tímann heim til Íslands aftur.