Spakmæli og hóglífi

Eiginlega nenni ég ekkert að blogga þessa dagana.  Sennilega er ég orðin of góðu vön eftir hina löngu pásu sumarsins.

Allt gengur mér í haginn, sjálfsagt af hinu nýja sláandi lífsmottó “Ég vænti einskis / ég óttast ekkert / ég er frjáls!” ?  Ég hallast að því að hinu góða slagorði sé að þakka t.d. það að ég mætti upp í skóla rúmlega átta, tók til í vinnubásnum mínum í 2 tíma (henti aðallega pappírsdrasli en raðaði einhverju í möppur), fékk svo leiðbeiningar um rosasniðugt útprentifyrirtæki á vefnum og sá þar lausn fyrir póstkortavinnuna sem ég er lögst í …

og svo nennti ég engu meir og fór heim og lagði mig.  Las af ísskápnum eitthvað um langhlaup ekki spretthlaup (geðorðasegullinn), muldraði “Festina lente” og skreið undir sæng. Mikið rosalega er þægilegt að hafa aðgang að mjög mörgum spakmælum úr ýmsum áttum sem brúka má við ólíkar aðstæður og uppákomur! Uppáhaldið mitt eru Hávamál en þau segja því miður ekkert um að maður skuli leggja sig.

Við fórum í árlegu Ráðleysubrennuna í gær, heldur fámennari en vant er því Máni og unnustan fóru til Parísar sama dag og unglingurinn kom heim af Færeyskum dögum í Ólafsvík, ósofinn en annars nokkuð vel til reika. 

Á morgun ætla ég að skvera upp kennsluáætlunum í mínum áföngum og hitta fleira fólk en í dag. Aðalmarkmið morgundagsins verður að hraðganga lengst upp í sveit og stinga bréfi í póst. Hér í okkar góða kardimommubæ fannst Íslandspósti heppilegt að flytja pósthúsið úr nokkurn veginn miðjum bænum upp í útjaðar bæjarins. Ég veit ekki hver stjórnar skipulagi bæjarins en allt stefnir nú í það að hér verði þrír miðbæir.  Sem betur fer bý ég í þessum í miðjunni. Það er náttúrlega gott fyrir mig að fá tækifæri til hunskast til að hreyfa mig eitthvað en mér hefur orðið hugsað til fólks sem er ekki alveg eins frátt á fæti. (OK – ég er ekki frá á fæti en verð það því ég skipti yfir í apótekið við hliðina á pósthúsinu in-the-middle-of-nowhere!) Það fólk verður bara að búa við það að geta ekki sent póst.

Sem sagt: Morgundagur planaður, ég komin með góða græju (sem ég á bara eftir að læra aðeins á) fyrir útgáfu á 100 póstkortum, sumum aldargömlum, og ég fékk Atla til að bera heim hljómborðið sem var í básnum mínum í morgun (sú sem fékk það lánað er búin að biðja mig að sækja það alltaf öðru hvoru í eitt og hálft ár). Ég fann góðan stað fyrir þetta bak við hurð enda ekki miklar líkur á að manneskja sem ekki nennir að grípa í sitt pjanóforte sé að glamra á rafmagnsgræju – ó, nei! En maður getur sosum ekki gert allt svo það er um að gera að vænta einskis, óttast ekkert og vera frjáls (og þá ekki eins og Sumarhúsaslektið skildi orðið).

4 Thoughts on “Spakmæli og hóglífi

  1. Eygló on August 19, 2008 at 17:08 said:

    Hvað flottheita útprentifyrirtæki er þetta, Harpa mín??

  2. Slóðin er blurb.com

    Ert þú komin á Flickr eins og allir hinir (nema ég)?

    Svo er mér kunnugt um að Prentverk Akraness prentar ljósmyndir á striga en veit engin smáatriði um það.

  3. Ég ætti kannski að upplýsa dyggu lesendurna sem eru smám saman að tínast inn á bloggið mitt um að öll hin fögru fyrirheit gærdagsins fóru fyrir lítið því í nótt datt ég á olnbogann …

    Þetta hljómar undarlega en er gert þannig að maður (í þessu tilviki ég) fer hálfsofandi að pissa um miðja nótt og treystir á að rata blindandi. Ég rak mig á kommóðuræfil og datt beint aftur fyrir mig; sem betur fer setti ég hægri olnboga fyrir mig og fékk þess vegna ekki kúlur á hvirfilinn. Olnbogin / beinaruslið er ekki brotið heldur bara myndarlega bólgið. En nú hef ég fengið fatla og teygjusmokk og úða í mig lífselexírnum Ibufen – svo kannski get ég barist útí útnárann og komið dóti í póst 😉

    Það má vorkenna mér, þetta var helv. vont í morgun! Og mér sýnist fólk horfa undirfurðulega á Atla minn í stað þess að bekena skýringuna “fór að pissa og datt á olnbogann” sem er í rauninni mjög trúleg.

  4. Eygló on August 19, 2008 at 23:16 said:

    Jamm…ég er með aðgang að Flickr…en nota það minnst lítið 🙂
    Hins vegar nota ég spurl.net og finnst það snilld.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation