Alkasamfélagið

Búin með bókina, hef fullt af skoðunum á henni en mun einungis tipla kringum örfá atriði.

Yfirlýst markmið Orra Harðarsonar með þessari bók er að benda fólki á að það geti orðið edrú og hamingjusamt án þess að blanda Guði eða AA-starfi (sem er gegnsósa af guði) í þá edrúgöngu. Ég bendi á að þetta hefur alltaf verið hægt og kallast “að vera á hnefanum”. Ólíkar fylkingar í bransanum hafa svo ólíkar skoðanir á hvursu jákvætt sé að vera á hnefanum.

Orri nær þessu markmiði sínu prýðilega:  Það er gjörsamlega geirneglt í haus lesanda að hægt sé að verða edrú án guðs.  Rök Orra eru, merkilegt nokk, flest sótt í smiðju AA eða Oxford-hreyfingarinnar og felst röksemdafærslan í að benda á hvað hinir eru vitlausir. Það er heimskulegt að trúa á hjálp guðs, spor, bænir o.s.fr. Þess vegna er kirkjan á Staðarfelli vond kirkja og gerir mann vitlaust edrú, talibanar eru illir o.s.fr. (Ég er reyndar sammála Orra um að talibanar reiði ekki endilega vitið í þverpokunum en maður verður að hafa samúð með fólki sem hefur einungis lesið eina bók um ævina og það AA-bókina.  Svo er soldið kjút þegar talibanar vilja koma saman og lesa saman í bókinni 🙂 Aftur á móti kýs ég aðra fundi en þá bænheitu talibanafundi.)

Úbbs, ég er komin út af sporinu …  Nema Orri minnir mig óskaplega mikið á afa minn heitinn. Báðir trúlausir í kirkjulegum skilningi, báðum í mun að berja sér á brjóst og upplýsa trúleysið á torgum og báðir trúandi á vitleysinga; afi hélt upp á Jósef Stalín, Orri er með Þórberg á hægra brjóstinu! Mér finnst alltaf svo merkilegt þegar mestu ofsatrúarmennirnir eru yfirlýstir guðleysingjar!  Og ég hef aldrei skilið af hverju Þórbergur er kallaður Meistari Þórbergur af ákveðinni intellígensíugrúppu þegar maðurinn gekk augljóslega ekki heill til skógar, hvort sem hann var nú sjálfbjarga einhverfur eða með Asberger syndróm. Af hverju þá ekki Meistari Birkiland? Eða Meistari Guð?

Bókin hans Orra er alltof hraðsoðin!  M.a. má finna knúsaðar setningar og málsgreinar, sem ég veit að er sjaldgæft í hans ritstíl – yfirleitt skrifar Orri ljósan og lipran texta. Alls konar sleggjudómar eru settir í gæsalappir en það er ekki fyrr vel er liðið á textann sem farið er að vitna í heimildir.  Í rauninni hefði þurft heimildaskrá í lokin því bókin er ein löng heimildaritgerð. Góður yfirlestur hefði sumsé bjargað miklu í þessari bók.  Besta björgin hefði þó verið að salta textann í einhverja mánuði og ná fjarlægð á efnið. Þetta er jú bók en ekki hraðskrifuð bloggfærsla.

Afi gat ekki farið á Vog af því þar var svo mikið trúboð! (Amma minntist alltaf á Vog við mig eftir að ég komst sjálf á snúruna, fyrir tæpum 20 árum.) Þegar ég hef verið að hugsa um huggandi texta eða lífsskoðanir undanfarið þá held ég að Jósef Stalín hefði dugað ættinni skammt!  Ég gæti aftur á móti vel trúað að gamli maðurinn hefði orðið hrifinn af Alkasamfélaginu, sérstaklega hugmyndunum í fyrri hluta bókarinnar þar sem verið er að sýna fram á að “þetta sé allt eitt stórt samsæri”, eins og vænisjúki Norðmaðurinn í Spaugstofunni hefði orðað það.

Orri ætlar bókina sína e.t.v. til eftirbreytni. Ég staðhæfi að það er minna gagn af lífsreglum Meistara Þórbergs en bænum, í þeirri þeytivindu sem full meðferð er. Ég skráði mig úr Þjóðkirkjunni fyrir um 30 árum. Það stóð mér ekki fyrir þrifum að hlusta á Davíðssálma í litlu kirkjunni og syngja Hærra minn guð til þín. Mér var sagt að gott væri að koma við í kirkjunni á morgnana, draga mannakorn og íhuga textann, ásamt því lesa bæn dagsins í Sálmabókinni. Mér var sagt að líta á þetta sem æfingu í að kyrra hugann. Þetta gerði ég og varð gott af.

Mér finnst svona bók eins og Alkasamfélagið Orra ansi hættuleg ákveðnum hópi.  Hvað með alla þá sem segja: Ég læt afvatna mig í Líbríumþjónustu Vogs; hitti svo bara Jón og Gunnu útí bæ yfir kaffisopa og læt þetta AA batterí alveg eiga sig: Það er hvort sem er búið að sýna hvað þetta er mikið kjaftæði allt saman! Vígstaða aðstandenda verður mun verri og möguleikar á virkri íhlutun þeirra, vinnuveitenda eða annarra sem vilja bata alkóhólista. Ég er doldið hrædd um að þessi ákveðni alkahópur líti lipurlega fram hjá þrettán ára linnulitlum tilraunum til edrúmennsku eða þeim misheppnuðu meðferðum sem á endanum leiddu til niðurstöðu Orra.  

Læt þá þessu tipli lokið … 

31 Thoughts on “Alkasamfélagið

  1. Þú segir:

    “Ég bendi á að þetta[að hætta að drekka án aðstoðar ósýnilegrar veru]hefur alltaf verið hægt og kallast “að vera á hnefanum”

    Þetta er afar hrokafull skoðun og særandi. Er ég s.s á “hnefanum”. Árangur minn ( 10 ár edrú) er bara vegna þess að ég er svona þrjóskur. Ef að ég er á hnefanum, ert þú ekki þá bara á einhverju öðru?

    Þessi skoðun þín ber vott um fávisku, hroka og sjálfshælni.

  2. Að hvaða leyti er orðatiltækið “vera á hnefanum” ljótt og lýsir hrokafullri skoðun? Hvað segirðu um “bretta upp ermarnar”; “spýta í lófana” eða önnur matsjó orðtök?

    Þegar ég fattaði að þú ert Teitur sem tókst BA í guðfræði til að hafa sterkari vígstöðu sem guðleysingi með gjallarhorn (myndhverft orðalag fyrir fjöldaskríbent um efnið) þá særði þessi síðasta lína mig ákaflega lítið.

    Ég hugsa að Orri sé ekkert mjög upprifinn yfir stuðningsmönnum á þinni línu, Teitur 😉

  3. orðatiltækið “að vera á hnefanum” er í sjálfu sér ekkert ljótt og hrokafullt.
    En að segja að sá sem hættir að drekka án aðstoðar ósýnilegrar veru sé bara “á hnefanum” er hrokafullt og særandi.

    -Þú hlýtur að sjá þetta ágæta Harpa.

    Ég fatta ekki tengslin milli greinarinnar þinnar, athugsasemdar minnar og síðan svarsins við téðri athugasemd að blanda persónu minni inn í umræðuna. Þú fullyrðir að ég hafi “tekið BA í guðfræði til að hafa sterkari vígstöðu sem guðsleysingi með gjallarhorn”…

    En lengi má manninn reyna. Fáviskan ríður jú sjaldan við einteyming. Þessi setning um “guðleysingjann með gjallarhornið” er reyndar fyrirtaksdæmi um fordóma. Ég bæti því þá við upptalninguna sem er hér að ofan.

    Skrif þín bera því ekki aðeins vott um fávisku, hroka og sjálfshælni, heldur eru þau einnig hrokafull.

    Ef þú vilt lesa um hversvegna ég gerðist trúleysingi í guðfræðideildinn þá er allt um það hér. http://www.eimreidin.is/2008/06/trlausi-gufringurinn.html

    Allt raus um að ég hafi náð mér í BA gráðu til þess að koma mér í e-a betri vígstöðu segir allt sem segja þarf um hvernig þú sjálf hugsar.

    Orðtakið, “margur heldur mig sig” á svo sannarlega við í þessu tilfelli.

  4. Teitur, hvar sagði Harpa „bara”?

    Ég tók þetta alls ekki sem eitthvað sem ætti að vera neitt bara.

  5. Ég sé ekkert “bara” í þessum orðum Hörpu.

    Yfirlýst markmið Orra Harðarsonar með þessari bók er að benda fólki á að það geti orðið edrú og hamingjusamt án þess að blanda Guði eða AA-starfi (sem er gegnsósa af guði) í þá edrúgöngu. Ég bendi á að þetta hefur alltaf verið hægt og kallast “að vera á hnefanum.

    Þarna segir hún að ekki sé hægt að vera edrú án hjálpar frá guðinum sínum. Þetta eruð orðin sem ég hnaut um.

    Það er pínulítið gaman af svona dellu og sérstaklega þegar reynt er að verja hana með hæpnum fullyðringum.

  6. Lyftustjórinn on October 9, 2008 at 18:22 said:

    Orð Hörpu: „Yfirlýst markmið Orra Harðarsonar með þessari bók er að benda fólki á að það geti orðið edrú og hamingjusamt án þess að blanda Guði eða AA-starfi (sem er gegnsósa af guði) í þá edrúgöngu. Ég bendi á að þetta hefur alltaf verið hægt og kallast “að vera á hnefanum.“
    Orð Teits: „Þarna segir hún að ekki sé hægt að vera edrú án hjálpar frá guðinum sínum. Þetta eruð orðin sem ég hnaut um.“

    Af því að ég er íslenskukennari ætla ég að lýsa því yfir að ég er læs. Ég væri reyndar líka örugglega læs þótt ég væri ekki íslenskukennari því móðir mín öldruð þótti einkar lunkin við að kenna börnum að lesa, enda var ég fluglæs fimm ára. Þess vegna kemur mér spánskt fyrir sjónir að Teitur fullyrðir að Harpa haldi því fram að ekki sé hægt að vera edrú án hjálpar guðanna. Þvert á móti segir hún að það hafi alltaf verið hægt að hætta að drekka án hjálpar guðanna hverju nafni sem þeir nefnast. Hvernig Teitur fær hið gagnstæða út er mér algjörlega óskiljanlegt; nema þá að hann sé ekki læs og það getur varla verið því ég er eiginlega sannfærður um að menn brautskrást ekki frá HÍ án þess að kunna að lesa. Og þó?

  7. Takk fyrir skjöldinn sem þú berð fyrir mig 🙂 Ég er að hugsa um að blogghugsa um Meistara einhvern tíma fljótlega. Meistari Jón (Vídalín) var sennilega þess virði að kalla meistara. Trendið á síðustu öld er aftur á móti eins og menn vilji gera gúrúa úr smáskrítnum (Kjarval, Þórbergi, Megasi og kannski fleirum). Svo má velta fyrir sér, sem bókmenntafræðingur, hvaða áhrif sífellt söngl á Meistara Jakob hafi haft á listamenn.

    Annars sá ég aðra umfjöllun um bók Orra hér: http://jenfo.blog.is/blog/jenfo/entry/668636/
    Kommentin sem fylgja eru akkúrat eins og ég reiknaði með að yrði eftir að hafa lesið bókina. Fylgismennirnir virðast hvorki jafnlyndir né sáttir og mér þykir heldur ólíklegt að Orra finnist akkur í slíkum.

  8. Jón Bragi Sigurðsson on October 12, 2008 at 19:44 said:

    Sæl vert þú Harpa.
    Ég veit varla hvar ég á að byrja en byrja hér:

    Þú skrifar:
    “Yfirlýst markmið Orra Harðarsonar með þessari bók er að benda fólki á að það geti orðið edrú og og hamingjusamt án þess að blanda Guði eða AA-starfi …” osfrv.
    Í viðtali í Kiljunni segir hann að tilgangurinn sé að vekja umræðu um hvort SÁÁ/AA sé eina rétta leiðin fyrir fólk með áfengis- og fíkniefnavandamál.
    Verið getur að hann hafi lýst þessum markmiðum sem þú segir á einhverjum öðrum stað. Látum það liggja á milli hluta.

    En ég er sammála þér um að þú “einungis tipla[r] kringum örfá atriði.” Þú svarar því ekki hvort hægt sé að ná bata með öðrum aðferðum en SÁÁ/AA að öðru leiti en því að án þess að blanda inn guði sé það kallað að “vera á hnefanu”. Þetta hugtak að vera á hnefanum er tiltölulega nýtt í íslensku og kom inn í hana einmitt í gegnum hugmyndafræði SÁÁ/AA fyrir kannske 30-40 árum.
    Og þú talar einsog beint uppúr biblíunni þeirra þar sem þetta er neikvætt; sá sem ekki hefur hætt að drekka eftir okkar hugmyndafræði, en hætt samt, hann er “á hnefanum” og verður fyrr eða síðan að koma krjúpandi að krossi vorum eða deyja ella af sjúkdómi sínum.

    “Úbbs, ég er komin út af sporinu …” Þar er ég þér sammála aftur. Í stað þess að ræða þessi mál af einhverri skynsemi og málefnalega þá reynir þú að gera Orra að ómerkingi; hann trúir á vitleysinga einsog afi þinn! Og þú teygir þig ekki styttra en svo að lýsa Þórberg Þórðarson geðveikan! Afi trúði á Stalín sem var einsog allir vita og Orri á Þórberg sem var geðveikur!

    Ef þú ert sögukennari þá hefur þú eflaust heyrt um það þegar póliitískir andstæðingar Jónasar frá Hriflu reyndu að fá hann dæmdan geðveikan og hvernig það fór. Passaðu þig að falla ekki í sömu gryfju.

    Að það skuli vera til kennari við íslenskan skóla (sögukennari skilst mér) sem lýsir Þórberg geðveikan ómerking geir mig hræddann. Ekki það að ég vilji verja stjórnmálaskoðanir hans en allir sem einhvert hundsvit hafa á íslenskum bókmenntum og íslenskum stíl vita hver hann var (og er) á því sviði.

    Ég hygg að nafnbót þeirra “meistara” sem þú telur upp sé fyrst og fremst til komin vegna listar þeirra en ekki lífshátta eða pólitískra skoðana.

    Ég get bætt við þeim þriðja sem trúði/trúir á vitleysinga af sömu gerð og Stalín. Pétur Tyrfingsson einn aðal gúrú hjá SÁÁ var lengi vel einn æstasti kommúnisti á Íslandi. Einn af aðal mönnunum í Fylkingunni á sínum tíma þar sem dýrkaðir voru Lenín, Maó, Castro og ráðamenn sultarríkisins Norður-Kóreu ásamt fleiri “góðum” drengjum.
    Að hvers konar manni gerir þetta Pétur Tyrfingsson í þínum augum? Ertu ekki með einhverjar heimasmíðaðar sjúkdómsgreiningar á takteinunum fyrir hann: sjálfbjarga einhverfur, Asberger eða kannske “cronicus AA/SÁÁ-ismus”?

    Og að lokum. Þú vísar til hennar Jennýar og segir að “Fylgismennirnir virðast hvorki jafnlyndir né sáttir…” Ég las yfir innleggið hennar Jennýar og öll kommentin aftur vel og vandlega og gat ekki séð annað en að allir væru í bærilegum balans, nema kannske að um einn var hægt að segja að hann væri ekki sáttur þ.e. undirritaður.

    Ég er að vísu bærilega sáttur við lífið og tilveruna í dag en ég er engan veginn sáttur við það viðmót sem ég mætti hjá SÁÁ á sínum tíma (http://jenfo.blog.is/blog/jenfo/entry/668636/) og tel mig hvorki þurfa né eiga að vera það. Er vel að merkja bærilega edrú í dag og varð það án þeirra hjálpar en það er allt önnur saga.

    Mér þykir afleitt ef ekki er hægt að ræða þessi mál án þess fólki ríghaldi sér í “marxisma” SÁÁ/AA-manna rétt einsog kommúnistum tókst að halda skynseminni frá sér með því að ríghalda í kenningarnar og neita að sjá veruleikan.
    Og ég vil taka það fram að ég er hvorki kommúnisti né guðleysingi.

    Lifðu heil

    P.s. Hann afi þinn blessaður kenndi mér ensku á sínum tíma og gat hann ekki stillt sig um það að lauma smá áróðri að í kennslunni stundum. Og nú ætla ég að spreyta mig á smá sjúkdómsgreiningu. Getur verið að í sumum ættum leynist meir tilhneiging en í öðrum að lenda í öfgum, stjórnmálalegum og/eða trúarlegum?
    Þetta sló mig núna; afi þinn að læða að okkur smá upplýsingum um ágæti Rússa og nú barnabarnið hans að gauka að sínum nemendum smá AA-tendensum og trúarbrögðum (og myndi greinilega vilja gera meir ef ekki væru skólayfirvöld í veginum…)

  9. Lyftustjórinn on October 13, 2008 at 20:59 said:

    Að sönnu þarf ég ekki að verja Hörpu vinkonu mína hún er fullfær um það sjálf. En þó get ég ekki orða bundist í tilefni þessara orða Jóns Braga: „Að það skuli vera til kennari við íslenskan skóla (sögukennari skilst mér) sem lýsir Þórberg geðveikan ómerking geir mig hræddann. Ekki það að ég vilji verja stjórnmálaskoðanir hans en allir sem einhvert hundsvit hafa á íslenskum bókmenntum og íslenskum stíl vita hver hann var (og er) á því sviði.“
    Ef til vill ætti Jón þessi að skoða þau mál sem hann leggur orð í belg um. Þegar Harpa segir: „ maðurinn gekk augljóslega ekki heill til skógar, hvort sem hann var nú sjálfbjarga einhverfur eða með Asberger syndróm.“ er hún ekki að búa eitthvað til til að níða Þórberg heldur vísar hún í umræðu sem upp kom á síðasta ári í kjölfar bókar Halldórs Guðmundssonar, Skáldalíf, en þar er á bls. 99 – 103 heilmikil vangavelta um geðheilsu meistarans og sannfærandi rök leidd að því að Þórbergur hafi einmitt verið einhverfur eða með asberger heilkenni. Og þótt Harpa sé ekki sögukennari, heldur kenni íslensku, og hér hefði Jón Bragi mátt kynna sér málin ögn betur, hefur hún vafalaust heyrt talað um stóru bombuna. Og þá vissi hún ugglaust að enginn hélt því fram annar en Jónas Jónsson að pólitískir andstæðingar hans ætluðu að fá hann dæmdan geðveikan. Og viðbrögð hans í því máli renndu nú óneitanlega stoðum undir þá kenningu, og þóttu ekki stórmannleg.
    En semsagt; ef Harpa vill bæta einhverju við þetta gerir hún það ugglaust.
    Þorvaldur Sigurðsson cand.mag.

  10. Takk Þorvaldur fyrir að koma veikara kyninu til bjargar. Ég hafði nú ekki hugsað mér að svara þessum Jóni Braga en augljóst að hann hafði misskilið flest í kross.

    Þótt ég sé alls ekki hrifin af læknisdómum Helga Tómassonar (t.d. hafði hann mikla andúð á stuðum) þá var auðvitað óhjákvæmilegt að ganga úr skugga um geðheilbrigði æðsta manns landins en um það ríkti talsverður vafi.

    Enn eitt: Ég mun aldrei gleyma Pétri Tyrfingssyni sem tók við mér og fleirum og bjó til kvennagrúppu á Vogi. (Þar áður hafði ég montrass í hvítum jakkafötum sem ráðgjafa.) Pétur var svo tillitssamur og einlægur í því sem hann var að gera að því verður ekki gleymt. Auk þess sé ég hann alltaf á mánaðar- eða sex vikna fresti, þegar ég fer til geðlæknisins míns á Lans og Pétur er úti að reykja. Mér finnst hann doldið lotlegur orðinn, karlinn.

  11. Jón Bragi Sigurðsson on October 13, 2008 at 22:01 said:

    Heyrðu Liftustjóri
    “Heilmikil vangavelta um geðheilsu meistarans “!
    Einmitt það. Menn hafa lengi verið með vangaveltur um geðheilsu margra manna og kvenna í gegnum tíðina. Með misjöfnum árangri. Allt frá 2000 árum fyrir og eftir Krist.
    En að vera að blanda því umræðuna um AA/SÁÁ þykir mérdálítið kindarlegt og bíð spenntur eftir svari frá Hörpunni

  12. Jón Bragi Sigurðsson on October 13, 2008 at 22:05 said:

    Hæ Harpa.
    Þessi maður sem henti mér útúr Vogi með ofstopa og bræði hét einmitt Pétur Tyrfingsson.

    Skemmtileg tilviljun…?

  13. Jón Bragi Sigurðsson on October 14, 2008 at 06:05 said:

    Það er rétt hjá þér lyftustjóri að mér skjátlaðist hvað varðar kennslufög Hörpu. Hún minnist á að hún væri að kenna nemendum sínum um kristnitökuna og þess vegna dró ég þessa ályktun.
    Mér líður satt að segja síst betur yfir því að hún skuli vera íslenskukennari.

    En þér skjátlast illilega þegar þú segir: “Og þá vissi hún ugglaust að enginn hélt því fram annar en Jónas Jónsson að pólitískir andstæðingar hans ætluðu að fá hann dæmdan geðveikan.”
    Helgi Tómasson kom inn á heimili Jónasar og lýsti því yfir við konuna hans að Jónas væri geðveikur.
    Umdeildur var Jónas en að ástæða hafi verið til að kanna geðheilsu hans frekar en annarra stjórnmálamanna á þeim tíma hef ég hvergi séð að ástæða hafi verið til að kanna geðheilsu hans.

  14. Lyftustjórinn on October 14, 2008 at 17:26 said:

    Að sönnu er ekki hagur í því að munnhöggvast um tittlingaskít, en þó er það svo að enginn gerði nokkru sinni tilraun til að höfða mál á hendur dómsmálaráðherra honum til embættismissis vegna þess að hann væri geðveikur. Stóra bomban var hins vegar skrifuð af Jónasi til að lýsa meintri aðför Helga Tómassonar að honum og er ákaflega einhliða lýsing á atburðum. Og í kjölfar þess urðu reyndar allmargir fullir grunsemdum um að Jónas væri klikkaður og lék grunur á að meira að segja væru til framsóknarmenn sem ekki væru alveg vissir um að hann væri með fulle femm.

  15. Jón Bragi Sigurðsson on October 14, 2008 at 18:08 said:

    Munnhöggvast um tittlingaskít segirðu. Mér finnst þetta mál mjög svo áhugavert og ekkert að því að við jögumst aðeins um það. Hef frekar áhyggjur af því að vera að misnota gestrisni Hörpu…

    Hvers vegna einginn gerði tilraun til þess að fá hann afsettan sökum geðveiki er í sjálfu sér merkilegt ef hinn meinta klikkun hans var svo augljós að jafnvel framsóknarmenn sáu að ekki var allt með felldu og ef sprenglærður geðlæknirinn Helgi sá það af fagmennsku sinni en ekki af neinum öðrum hvötum.

    Án þess að vera nokkur sérstakur aðdáandi Jónasar sem stjórnmálamanns þá var hann örugglega stórmenni á sinn hátt og ég er ekki frá því að öll stórmenni sögunnar hafi verið meira eða minna geðveikir ef útí það væri farið.
    Laxness skrifaði Jónasi til varnar og sagði eitthvað á þá leið að ef Jónas væri geðveikur þá bæði hann almættið um að gefa þjóðinni fleiri slíka vitfirringa!

    Ef lesið er um stjórmál og umræður í blöðum og á Alþingi frá þessum tíma er það sláandi hve orðbragðið og svívirðingarnar eru grófar miðað við það sem nú gerist.
    Menn hikuðu ekki við að bera geðveiki hver á annan og var Jónas ekki heldur saklaus af því.

    Getur það annars verið tilviljun að Helgi Tómasson fór að bera svona mikla umhyggju fyrir geðheilsu Jónasar einmitt á þeim tíma þegar deilur lækna við hann stóðu sem hæst?

    Og það voru og eru vissulega til fleiri en Jónas sjálfur sem álíta að þetta mál hafi verið pólitísk og ekki hafi verið um að ræða hreina og tæra læknisfræði.

  16. Sunna on October 15, 2008 at 21:22 said:

    …verð nú að segja að ég get ekk verið meira sammála drengnum svo sannarlega að liggur við það að sé orðrétt í bókinni sem ég var búin að gera ráð fyrir að stæði í henni…

    Mjög gott framtak hjá honum, meira að segja hlægileg á köflum… fyrir alla sem taka þessa afstöðu til AA og “eru á snúrunni”.

    Kíki á bloggið þitt stundum en verð nú að kvitta einu sinni..
    Kv. Sunna Th.

  17. Lyftustjórinn on October 15, 2008 at 22:02 said:

    Laxness kallaði nú Jónas líka þjóðfífl Íslendinga!
    Fyrirgefðu Harpa mín þetta tuð á þínu bloggi.

  18. Heimir on October 16, 2008 at 01:50 said:

    Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka!
    Þetta segir í inngangsorðum AA samtakana sem lesið er upp í upphafi hvers fundar.

    Ef þetta er flókið að skilja og menn vilja setja þetta í samhengi við flókna samsæriskenningar þá um að gera, ef þú verður edrú af því.

    AA samtökin eru ekki stofnun, SÁÁ á ekkert skylt við AA og ætti þeim sem nenna að kynna sér málið að vera það alveg ljóst, ef viðkomandi kemst að hinu gagnstæða og telur þetta vera einn og sama félagsskapinn, má hann það líka, ef hann nær að verða edrú af þeirri sannfæringu.

    Ég sjálfur er trúlaus í alla staði, er ekkert montinn af því en þetta er mín ákvörðun og ég læt engan leiða mig í einhvern sannleika með það að öll mín “edrúmennska” sé þar af leiðandi ekki eins góð og annara, þrátt fyrir veru mína í AA. Félagar mínir hafa aldrei reynt að sannfæra mig um annað en að ég sé að vinna vel í mínum málum, ég heyri aldrei minnst á guð á AA fundum né í meðferð….. Þannig að ég er ekki alveg að ná þessum fullyrðingum.

    Að vera “á hnefanum” á ekkert skylt við veru í AA né guðsótta. Þetta er orðatiltæki sem er lýsandi fyrir viðkomandi sem hættir að drekka en vinnur ekkert í sjálfum sér, hann er skapstyggur, óreiðumaður í fjármálum, lýgur og er ekki í hinum svokallaða “andlegum bata” , þá á ég við sálarlífið en ekki andlegan guð, þetta er annað orð yfir að setja bara tappann í flöskuna. Ekkert flókið, ekkert niðrandi, bara orðatiltæki.

    Ef Orri hefur verið að reyna í 13 ár og loksins fundið sinn frið , í því að kenna SÁÁ eða AA um ófarirnar, þá veit ég ekki um þann AA mann/konu sem ekki kemur til með að óska honum til hamingju með sigurinn og samfagnar honum í hljóði.

    Það sem Jón Bragi er að fullyrða hérna að honum hafi verið hent út af Vogi kemur mér reyndar mjög undarlega fyrir sjónir. Það eru aðeins tvær leiðir til þess að láta reka sig úr meðferð:
    1. Vera í neyslu inni á Vogi
    2. Stíga í vænginn við hitt kynið

    Þótt svo þú mundir drekka vatnið úr fiskabúrinu á neðrigangi á hverjum morgni, fengið þú að klára meðferðina óáreittur, þótt svo að þú fullyrtir að Tóti Tyrfings væri fábjáni og að öllum líkindum geðveikur, fengið þú að klára þína meðferð. Why? Af því að ég hef orðið vitni að hvorutveggja og báðir einstaklingarnir kláruðu meðferðina og eru edrú í dag 🙂

  19. Jenný Anna on October 16, 2008 at 16:44 said:

    Hér er þessi skemmtilega umræða í gangi og ég búin að missa af fjörinu, svona nærri því.
    Orri Harðarson sagðist vilja vekja upp umræðu um leiðir eftir áfengis- og fíkniefnameðferð.
    Heimir:
    “Ef Orri hefur verið að reyna í 13 ár og loksins fundið sinn frið , í því að kenna SÁÁ eða AA um ófarirnar..” skrifar þú. Orri hefur hvergi kennt einum eða öðrum um nema sjálfum sér og það vissir þú ef þú hefðir lesið bókina.
    Þessi leið til edrúmennsku og betra lífs hentar honum hins vegar ekki. Reyndar ekki mér heldur en það er ekki issjúið hér.
    Að vera á hnefanum er notað um þá sem eru í vondri líðan og það er yfirleitt talið tímaspursmál hvenær þeir falla, þ.e. í umræðum innan alkasamfélagsins um annarra manna bata eða bataleysi. Getum við ekki verið sammála um það?
    Það er skilningur flestra sem ég hef rætt við að þeir sem ekki fari AA leiðina séu í vondum málum þar til augu þeirra opnist fyrir boðskapnum. Það er alhæfing sem er einfaldlega ekki sönn svo langt frá því.
    Nú er ég enginn andstæðingur AA samtakanna, þvert á móti hef ég kynnst þar góðu fólki ég veit að þangað sækja margir bata sinn.
    Enginn sannleikur hefur verið fundinn til öruggs bata alkóhólisma, það er staðreynd og það væri ákaflega sorglegt ef ekki mætti leita fleiri leiða án þess að vera ásakaður um skort á jafnlyndi, að vera á hnefanum eða otherwise crazy.
    Takk Harpa fyrir þennan pistil.

  20. Heimir on October 16, 2008 at 17:20 said:

    Nú langar mig að spyrja einfaldra spurninga:

    Hafa AA samtökin gefið út opinberlega þá yfirlýsingu að þeir sem ekki fara þeirra leið komi ekki til með að ná árangri?

    Hefur SÁÁ einnig gefið út þá yfirlýsingu að þeirra meðferð sé sú eina sem er fær?

    Ég áttaði mig ekki alveg á innihaldi bókarinnar fyrr en ég fór að heyra í manninum, bæði á X-inu og viðtalið við hann í Kiljunni. Þá virtist þetta vera til grundvallar að hann var að reyna berja hausnum við sama steininn í 13 ár og þess vegna hafi árangurinn ekki verið í samræmi við erfiðið, hann var að spila eftir kerfi sem ekki hentaði honum.

    Og er búist við svari frá AA samtökunum? Eða er búist við því að einn og einn einsaklingur tali með sínu nefi?

    Þið verðið að fyrirgefa mér en ef fólk ætlast til að fá opinberar yfirlýsinga frá AA samtökunum þá má það bíða lengi.
    Því í erfðavenjum AA samtakana stendur: ” AA samtökin halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála”.
    Vitandi þetta hlítur Orri þar af leiðandi að hafa frjálsar hendur um sannleiksgildi og tilvitnanir, þar sem hann gengur út frá því vísu að engin kemur til með að gagnrýna þessi skrif opinberlega af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki í anda þessara samtaka. Samtökin eiga sér engan talsmann.

    Sama gildir um SÁÁ , þau geta ekki tjáð sig um málefni og sjúkrasögu sjúklinga sem leitað hafa til þeirra.

    Þannig að ef óskað er eftir umræðu, þá verður hún aldrei opinber nemað þá á einstaka bloggsíðum eða í kaffispjalli.
    Umræðan sem Orri óskar eftir er í algjörri pattstöðu.

    Enda eru bæði þessi samtök á sama máli og höfundur bókarinnar, þú getur leitað annara leiða til þess að ná fullkomnum bata.

  21. Jenný Anna on October 16, 2008 at 17:33 said:

    Ég er ekki að kalla eftir umræðu frá AA-samtökunum.
    Ég er að vona að sú umræða komi frá venjulegu fólki, þeim sem er málið skylt eða hafa á því skoðun.
    Ég sé enga pattstöðu í því máli.
    Auðvitað talar fólk með sínu nefi ég skil ekki vandamálið.

  22. Heimir on October 16, 2008 at 18:04 said:

    Ert þú Orri?

    Vandamálið er ekki neitt.
    Nema að því leitinu til að það eru allir sammála 🙂

  23. Það er mér algerlega að meinalausu að brúka þennan þráð til að ræða kenningar míns gamla umsjónarnemanda 🙂

    En mér þætti gaman að vita hver margir, sem hér tjá sig, hafa lesið bókina hans Orra, Alkasamfélagið. Ég keypti bókina og las hana um leið og hún kom út. Orri hefur verið duglegur að plögga í fjölmiðlum svo fólk hefur hugmynd um hvað hann er að fara … en auðvitað er út í hött að tjá sig um bók sem maður hefur ekki lesið, bara heyrt höfundinn lýsa henni.

  24. Jón Bragi Sigurðsson on October 16, 2008 at 19:24 said:

    Gaman að sjá að það er komið soldið líf í umræðuna, annað en þras okkar Lyftustjórans um meinta geðveiki Jónasar frá Hriflu.

    Til þín Heimir: “SÁÁ á ekkert skylt við AA…” Trúirðu þessu sjálfur? Og þið sem hafið kynnst starfsemi SÁÁ, trúið þið þessu? Auðvitað eru þau ekki sama stofnun með sama bókhald, kt. og svo framvegis. En, óskyld? Trúi því hver sem vill!
    Er það t.d. einber tilviljun að það er tengill á síðu SÁÁ yfir í AA en enga aðra meðferðarleið?
    Eins og Jenny er að benda á hér að ofan þá er Orri ekki að kenna SÁÁ/AA um ófarir sínar. Hann er einfaldlega að vekja athygli á því að ef til vill henti SÁÁ/AA-leiðin ekki öllum.
    Og að spurningum þínum:
    Hafa AA samtökin gefið út opinberlega þá yfirlýsingu að þeir sem ekki fara þeirra leið komi ekki til með að ná árangri?
    Svar: Eins og þú segir þá gefur AA engar opinberar yfirlýsingar, hvorki um það eða annað. En hafir þú verið í meðferð og á AA-fundum þá kemst þú ekki hjá því að heyra þær skoðanir sem þar eru ríkjandi.
    Hefur SÁÁ einnig gefið út þá yfirlýsingu að þeirra meðferð sé sú eina sem er fær?
    Svar: Nei, ekki heldur. Enda væru þeir illa ruglaðir ef þeir gengju svo langt. Hins vegar hef ég og margir aðrir ekki komist hjá því að sjá hvernig forsvarsmenn SÁÁ bregðast við ef svo mikið sem ymprað er á því að til séu aðrar jafn góðar ef ekki betri aðferðir en þeirra. Þeir bókstaflega blána af geðshræringu.
    Þú segir einnig um SÁÁ að: “þau geta ekki tjáð sig um málefni og sjúkrasögu sjúklinga sem leitað hafa til þeirra.” Og þess vegna sé málið í pattstöðu og ekki hægt að ræða það. Þvílík della!
    (Þau þ.e. starfsfólk SÁÁ voru þó ekki í neinum vandræðum með að blaðra persónulegum upplýsingum um mig í síma til leigusala míns og skýringin var sú að ég hefði ekki verið heima til að svara í símann! Þetta ásamt mörgu öðru gerði það að verkum að ég hef mjög lítið álit á prófessjónalisma þeirra. Þetta gerðist að vísu fyrir meira en fimtán árum og ég vona svo sannarlega að ástandið hafi batnað síðan.)
    Að sjálfsögðu eiga SÁÁ-menn ekki að ræða opinberlega um málefni einstakra sjúklinga. Það er enginn að tala um það. En þau geta rætt þá gagnrýni sem komið hefur fram og ég kalla þau léleg ef þau gera það ekki. (Ég hef varpað fram spurningum sem tengjast gagnrýni Orra á heimasíðu SÁÁ en ekki fengið nein viðbrögð enn.)
    Þú segir Heimir að það sé aðeins tvennt sem geti gert menn brottræka úr meðferð þ.e. Stíga í vænginn við hitt kynið (er í lagi með eigið kyn ef maður skyldi vera þannig stemmdur?) og að vera í neyslu. Hvorugt gerði ég mig sekan um. Brot mitt var að vilja ræða í rólegheitum og fullri vinsemd við þann fulltrúa sem mér hafði verið úthlutaður.
    Ég var rétt búinn að koma því útúr mér að ég væri í dálitlum vafa um hvort þetta prógramm hentaði mér þegar títtnefndur fulltrúi rýkur uppúr stól sínum og hreytir útúr sér að ef þetta passaði ekki þá skyldi ég bara fara. Það virtist enginn möguleiki á að ræða málin neitt. Ekkert spurt um það hvað það væri sem stæði í mér og reynt að útskýra og styðja. Nei það var bara stokkið uppá nef sér yfir því að ég dirfðist að hafa uppi efasemdir og spurningar.
    Það var beinlínis skrifað á veggina og á enni starfsfólksins að “Ég er drottinn guð þinn og þú skalt ekki aðra guði hafa”.
    Nú gætu sumir hugsað að þetta væri algert einsdæmi og þarna hefðu mæst tveir einstaklingar þar sem að minnsta kosti annar aðilinn átt slæman dag og því farið sem fór og enginn ástæða til að meta SÁÁ og þeirra meðferð útfrá þessu atviki.
    Því miður er það ekki svo. Því miður er það ekki mín reynsla. Í öllum mínum samskiptum við SÁÁ hef ég rekist á þessa óbilgirni og kreddur ef ekki hreinlega ofstopa. Enda var fátt fagmanna innan vébanda SÁÁ á þessum tíma heldur voru það nýþurrkaðir alkar sem léku þar sérfræðinga og greinilega ekki í góðum balans allir.
    En sem sagt þá vona ég að þetta hafi lagast eitthvað á síðustu fimtán árum.

  25. Jenný Anna on October 16, 2008 at 21:42 said:

    Ég keypti bókina um leið og hún kom út. Að sjálfsögðu enda mjög æst í að kynna mér nýjar skoðanir á málinu. Það er ekki eins og þær vaxi á trjánum nýjungarnar í málaflokknum.

  26. Það hefur verið reynt að stofna WfS (Women for Sobriety) deild hér á landi en ekki tekist. Stofnandi WfS var Jean Kirkpatrick. Í bókinni “Goodbye Hangover Hello Life” útlistar hún hugmyndir sínar og setur fram lífsreglur sem eru kallaðar einhverju öðru nafni en spor og mig minnir að þær séu 8 talsins.

    Ég á bókina inn í hillu en það er sjálfsagt einn og hálfur áratugur síðan ég las hana. Mig minnir að Kirkpatrick eyði talsverðu púðri í meintar kristilegar samsæriskenningar AA, svo svipað og Orri gerir í sinni bók.

    En aðalgagnrýni hennar snýst um það að drykkfelldar konur geti illa nýtt sér kerfi sem hvítir millistéttarkarlar bjuggu til fyrir áratugum.

    Sölvína Konráðs var eitthvað að reyna að stofna svona deildir hér á landi.

    Það hefur ekki vafist fyrir mér að sitja fundi með hvítum millistéttarkörlum eða að nýta Æðruleysisbænina af því minnst er á Guð í henni.

  27. Jón Bragi Sigurðsson on October 17, 2008 at 11:46 said:

    Harpa
    Fékkstu ekki meilið frá mér þar sem ég bað þig um að taka út nafn þess manns ég minnist á varðandi samskipti mín við SÁÁ?

    Ekki það að þetta sé ekki satt heldur finnst mér óviðeigandi að vera að gagnrýna menn sem ekki eru “á staðnum” með nafni þeirra.
    My mistake!

  28. Nei, ég fékk engan tölvupóst því viðvíkjandi. Mér finnst heldur ekki mitt hlutverk að laga eða prófarka annarra manna texta sem leggja skilaboð inn á bloggið mitt. Þetta er eins og þú bæðir ritstjóra dagblaðs að endurbirta lesendabréf frá þér og taka út eitt eða fleiri orð. Orð skulu standa.

  29. Jón Bragi Sigurðsson on October 18, 2008 at 06:48 said:

    Okey

    Ég vildi að þú tækir þetta út af tillitssemi við hann en ekki mig. En auðvitað ræður þú þessu.

  30. Þetta er fróðleg lesning allt saman. En, eins og Heimir bendir á þá er þetta ekkert flókið – en það eru alltaf einhverjir sem virðast hafa það helst markmiða í lífinu að gera einfalda hluti flókna. Þeir um það. Bloggfærslan þykir mér góð.

  31. In searching for sites related to web hosting and specifically comparison hosting linux plan web, your site came up.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation