Um áfallahjálp og áralanga reynslu í að halda sér á floti

Í útvarpinu áðan var geðlæknir að lýsa því hvernig fjármálahavaríið gæti sett fólk gjörsamlega úr sambandi og kvíðinn og þunglyndið tekið við. Skömmu áður hafði einhver gáfaður maður verið að lýsa ástandi þorra fólks sem sorgarviðbrögðum og mætti búast við ofboðslegri reiði þegar dofinn dvínar. Ég hraðrenndi svo gegnum langa bloggfærslu Péturs Tyrfingssonar um hverjir þurfa áfallahjálp og hverjir ekki (og hvers vegna) en nenni sosum ekki að tína þaðan neitt; fólki á kaldhæðnu línunni mun finnast færslan skemmtileg.

Ég hef engar áhyggjur af mér sjálfri.  Sama hvussu djúp kreppa verður og sama þótt áratuga sparnaður fari til fjandans: Ef maður er frískur þá er allt annað húmbúkk. Mínir geðsjúkdómar hafa aldrei tengst neinu í umhverfinu svo ég reikna ekkert sérstaklega með að verða veik eða veikari núna. Til allra lukku eru allir fjölmiðlar svo hundleiðinlegir í umfjöllun um okkar stóra vandamál að það er í rauninni sjálfkrafa slökkvandi á þeim. Svoleiðis að ég rísla mér við mín daglegu störf og forðast heimsósómatal á kennarastofunni eins og heitan eldinn.  – Vilji einhver sjá stærri útgáfu af þessum seðli sem hefur sirkúlerað í tölvupósti í dag er bara að smella á litlu myndina. Bankinn ku heita KGB. Svona andheimsómi er mér að skapi.

Aftur á móti hef ég dálitlar áhyggjur af unglingunum okkar, eftir að hafa gengið fram á nokkra talandi um vexti og verðbætur. Í kennslu skemmtilega óþæga hópsins í dag var ég spurð hvert mitt slagorð væri í þessari kreppu. Ég reyndi fyrst að pumpa hópinn hvort hann hefði ekki tekið eftir bolunum mínum tveimur sem skörtuðu nýjasta slóganinu eða frasanum. Þau mundu sum eftir þessum bláa (en voru ósammála því að hann minnti á Mömmu míu – þessi azúrblái litur … en ekki meir um það). Á bolunum er tilvitnun í Nikos Kazantzakis: Ég vænti einskis / Ég óttast ekkert / Ég er frjáls.

Börnin voru ekkert ginkeypt fyrir þessum frasa en mér sýndist þau betur vakandi meðan ég fór með æðruleysisbænina og mælti með henni til hjálpar í hvers kyns volæði. Auðvitað á ég að vera að kenna þeim hvernig skuli höggva mann og annan og einhver þúsund ára gömul ástardrömu (s.s. þjóðararfinn). En af því þetta er framhaldsskóli get ég blandað guði í málin án þess að hafa áhyggjur af því að trúleysisbolsévíkar blandi sér í málin 😉 Svo ekki sé nú minnst á vorönnina þegar ég eyði vikum í basl Þangbrands og hina ágætu kristnitöku sem tókst fyrir rest. En æðruleysisbænin hefur ávallt reynst mér vel til að hafa stjórn á krónískum kvíðanum og má ætla að hún nýtist öðrum áhyggjufullum einnig. Hvernig ætli því yrði tekið ef ég hengdi hana skrautskrifaða upp á vegg í kennslustofunni? Reyndar yrði það að vera feik-skrautskrift úr tölvu því stöðugur handskjálfti varð til þess að ég varð að leggja þetta hobbí á hilluna fyrir nokkrum árum.

Fyrir stórfjölskylduna í maski:  Skoðið myndasöfnin hans Steina! Nýlega voru m.a. settar inn myndir af laugvetnskum stúdentum, flestum hroðalega alvarlegum á svip! Sjálf er ég alveg stopp í myndvinnslunni af því ég þarf að sinna vinnunni og vér móðurmálarar erum yfirleitt að drukkna í heimaverkefnum.

3 Thoughts on “Um áfallahjálp og áralanga reynslu í að halda sér á floti

  1. Takk fyrir að minna mig á þessa tilvitnun (Ég vænti einskis…). Hún er akkúrat það sem ég þurfti á að halda núna.

  2. “trúleysisbolsévíkar”

    Jæja, þér tókst þó að vera frumleg. Það máttu eiga.

    (slakaðu á Máni, ég var ekki að ráðast á móður þína)

  3. Sigurður Guðjónsson on October 14, 2008 at 23:31 said:

    Boðorð bjartsýnismannsins: Ég vænti einskis – enda einskis að vænta!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation