Tvær ólíkar bækur

Fyrir hálfum mánuði þurfti ég að fara til borgar óttans og til að gera ferðina álitlegri og skaffa góða dúsu fyrir svo leiðinlega ferð setti ég Bókasafn Norræna hússins á planið: Kom heim með tvo poka af bókum, álíka þunga og 2 eintök af fyrra bindinu í Sögu Akraness … Og síðan hef ég verið að lesa gegnum staflann. Þetta eru að sjálfsögðu mikið til morðbókmenntir (nema kannski eru algerlega laus við morð bækurnar Fra fiber til tøy og Norsk folkekunst … raunar tók ég einnig Folkekunst i Norge en fattaði þegar heim var komið að þetta var sama bókin, endurútgefin). Ég er einstaklega heilluð af tveimur bókanna sem ég hef lesið / er langt komin með að lesa og ákvað að blogga um þær. Í leiðinni ætti ég kannski að vara við Fra fiber til tøy því hún er æðislega leiðinleg 😉  Þótt maður hafi vissan fyrirframáhuga á ullar-, hör-, lín- og netluvinnslu og hafi alltaf langað að vita hvað er strý.

Önnur bókanna sem ég er svo hrifin af er Kongemordet eftir Hanne-Vibeke Holst. Ég man eftir að hafa oft séð bækur eftir þennan höfund, hún raðast nefnilega í nágrenni við Anne Holt og Kirsten Holst á bókasöfnum, en hafði, einhverra hluta vegna, ákveðið að Hanne-Vibeke Holst væri leiðinlegur höfundur. Man ekki hvers vegna. En fyrir tilviljun horfði ég á Drottningarfórnina á RÚV nú í sumar og skömmu síðar Kronprinsessen á DR 1. Röðin í þessum þríleik er: Krónprinsessan (hefur verið þýdd á íslensku) – KongemordetDronningeofret svo ég komst inn í hann í kolvitlausri röð en það kemur svo sem ekki að sök. Og sjónvarpsþættirnir eru sænskir og snúast þ.a.l. um sænska pólitík þótt bækurnar séu danskar … pínulítið ruglandi en kemur svo sem heldur ekki að sök.

KongemordetMér fannst Kongemordet bera af hinum en það er kannski af því ég las ekki þær bækur heldur horfði á sjónvarpsseríur gerðar eftir þeim. Hún fjallar um sömu persónurnar en í bókinni kemur skýrt fram hve siðblindur Gert Jacobsen, sem rær að því öllum árum að verða forsætisráðherra Danmerkur, er. Þeir sem hafa áhuga á því hvernig siðblindir akta í pólitík, taka þátt í pólitískri refskák og standa sig vel í valdataflinu, með gersamlega innantómu orðagjálfri því þeim er vitaskuld sama um alla aðra en sjálfa sig, ættu að lesa þessa bók. Og auðvitað lítur lengst af út fyrir að kvikindinu Gert takist það sem hann ætlar sér. Hann er háttsettur í det socialdemokratiske parti en en eins og gefur að skilja er allur hans sósíalismi utanaðbókarlærðir frasar og hugsjónir hefur hann engar, nema ná sem mestum völdum. En hann leikur vin alþýðunnar alveg glettilega vel og slær ryki í augu stuðningsmanna og flokksmanna.

Kvennamál Gerts koma nokkuð við sögu og ofbeldið sem hann beitir þegar enginn sér til. Aðalfórnarlambið er eiginkona hans, Linda. Eftir því sem lesandanum verður ljósar hve innantóm skel þessi Gert er og hvers lags bölvað kvikindi hann geymir skilur maður Lindu æ betur. Öfugt við Gert er heilmikið í hana spunnið. En Kongemordet er breið saga með fjölda persóna, þ.á.m. fær Charlotte Damgaard heilmikið rými (hún er krónprinsessa flokksins, heitir Charlotte Ekeblad í sænsku sjónvarpsgerðinni af hinum tveimur bókunum). Þó mætti segja að Linda og Gert séu aðalpersónur. Á myndinni er Gert fremstur og Linda í rauðum kjól.

Ég fer auðvitað ekki að skemma fyrir þeim sem ekki hafa lesið þessa bók með því að rekja söguþráðinn – lofa þó að endirinn kemur á óvart og gleður lesandann mjög! Og get þess að fremst í Kongemordet er tilvitnunin: Politics gives guys so much power that they tend to behave badly around women. And I hope I never get into that.” – Bill Clinton, amerikansk præsident.

Það er ljóst að í næstu heimsókn á Bókasafn Norræna hússins tek ég góðan stafla af bókum Hanne-Vibeke Holst! Og krossa fingur fyrir því að RÚV eða DR 1 sýni seríuna Kongemordet fljótlega (hún var gerð árið 2008). Hafa þessir þættir kannski verið sýndir hér á landi? (Óminnishegrinn tekur æ stærri toll af minningum eftir því sem veikindi mín ná yfir stærri hluta ársins.)

Hin bókin er af allt öðrum meiði. Hún er eftir Arnfinn Kolerud (sem ég veit hvorki haus né sporð á en virðist vera margverðlaunaður norskur barnabókahöfundur sem einnig skrifar fullorðinsbækur – eða er ég kannski að lesa barnabók eftir hann?) og heitir Når ein først skal skyte nokon. Ég er varla hálfnuð með hana, hef hana meðfram Kurt Wallander sögu sem er svo langdregin að ég er við það að gefast upp …

Når ein først skal skyte nokonNår ein først skal skyte nokon er ekki morðsaga þótt nafnið gæti bent til þess heldur er þetta skáldsaga um málvernd og málvöndun. Ég gæti trúað að Eiður Svanberg hefði gaman af henni 😉  Sagan gerist í Vassbygda, eða Vassbygdi (íbúarnir eru ekki sammála um nafnið), litlu þorpi þar sem sumir vilja halda dauðahaldi í nýnorsku og útrýma helvítis bókmálinu. Alharðasti málverndunarsinninn heitir Bendik Uføre. Hann stundar það að leggja upplýsingablað um nýnorsku í póstkassann hjá öllum nýjum íbúum og notar hvert tækifæri til að fá menn til að brúka fornar beygingar og endingar. Eins og segir í bókinni:

Ein måtte passe på heila tida. Det var det Uføre gjorde. Passa på nynorsken, og særleg i-målet. Han kvilte ikkje ofte. Han sette seg i bilen og køyrte til Volda og Ulsteinvik, Byrkjelo og Sykkylven og Stryn, Fjærland og Florø og Førde. Det var arbeid å gjere overalt. Hann stoppa der to ungar sat i ei busslomme og selde jordbær for “25 kr pr korg”. Da han reiste derifrå, stod det i staden “25 kr korgi”.

Bendik Uføre hefur tekist að koma því í kring að í skólanum í Vassbygdi (eða Vassbygda) eru ekki a- og b- bekkir eins og annars staðar heldur a- og i-bekkur. Og hann lagði það á sig að líma yfir merkið á bílnum sínum svo hann ekur ekki um á Toyota heldur Toyoti! Raunar held ég að málfarsleiðréttingar Bendiks séu sumar kannski á misskilningi byggðar (eins og stundum verður einnig í leiðréttingum mjög ákafra málfarsfasista íslenskra) en kann ekki nóg í nýnorsku til að fatta alla svoleiðis brandara. Þó má nefna að í munni Bendiks heitir landið hans Norike, sem mér finnst afskaplega hæpið að nokkru sinni hafi verið notað yfir Norge. (Ég var samt soldið skúffuð yfir að það skyldi ekki heita Noriki …)

Söguþráðurinn er vægast sagt absúrd; ótrúlega undarleg atvik henda en gjörðir manna eru ævinlega sprottnar af ást á tungunni, þ.e. nýnorsku, hvort sem um er að ræða að stela póstbílnum og aka honum í höfnina eða vera tekinn í búningsklefa í kvennærfatabúð lesandi hástöfum kvæði á nýnorsku … Og sagan er brjálæðislega fyndin!

Skv. því sem stendur fremst í bókinni er þetta fyrsta bók í þríleik og ég sé að ég verð að lesa þær allar og mun þá skilja öfga-málverndunarsinna miklu betur, auk þess að læra alveg helling í nýnorsku (sem mér hefur nú alltaf þótt gaman að lesa). Vonandi læri ég ekki of mikið í i-málinu í leiðinni 🙂

3 Thoughts on “Tvær ólíkar bækur

  1. Vala G. on August 25, 2011 at 02:03 said:

    Takk fyrir ábendinguna! Norska bókin hljómar eins og algjör perla.

  2. Hanne-Vibeke er dóttir Kirsten 🙂

  3. Harpa on August 25, 2011 at 08:35 said:

    Norska bókin er perla. Skila henni fyrir 10. sept. 🙂

    Svo Hanne-Vibeke er dóttir Kirsten Holst? Spennandi! Ég var orðin leið á morðsögum eftir Kirsten en hef lesið einhverjar sögulegar skáldsögur eftir hana og líkað vel. Minnir að ég hafi hlustað á fyrirlestur Kirsten fyrir mörgum árum – fór á námskeið í norrænum glæpasögum, haldið á einhverri sænskri eyju (?) og þar tróðu Kirsten Holst og Kim Småge uppi, ásamt Håkon Nesser. Mér þótti mest til Kim Småge koma, hún var svo ótrúlega glæsileg! (Auk þess finnst mér bækurnar hennar skemmtilegar en það er nokkuð langt síðan kom út ný, held ég.) Af glæpasagnanámskeiðinu man ég annars mest eftir frekar leiðinlegum námskeiðshöldurum sænskum, mjög skemmtilegum hópi Íslendinga, endalausri sól og heimsókn til Vadstena …

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation