Ný-ný rómantík og rasismi

Undanfarið hef ég aðeins fylgst með athugasemdum við fréttir af því að kínverskur auðmaður hafi keypt Grímsstaði á Fjöllum og Grímstungu að hluta og hyggist byggja þar hótel. (Líklega er þó réttara að umræddur Kínverji ætli að kaupa þessar jarðir og landeigenda vegna vona ég að kaupin gerist.) Umræðan hefur einnig borist inn á Facebook. Að stærstum hluta virðist þessi umræða litast af tvennu: Annars vegar botnlausri þjóðernisrómantík og hins vegar andúð á fólki utan Evrópu, í þessu tilviki fólki með skásett augu og annan húðlit.

Satt best að segja efast ég um að margir þeirra sem tjá sig um að búið sé að selja Landið hafi mikið lagt leið sína út fyrir þjóðveg 1. Samt grípur þetta fólk klisjur á lofti og gott ef er ekki bara talað um landráðamenn, a.m.k. hafa einhverjir áhyggjur af því að þetta sé bara byrjunin: Nú verði Ísland allt selt útlendingum! Mér þætti raunar gaman að sjá hvort fáist einhverjir kaupendur að Íslandi 😉

Í umræðuna fléttast saman gamaldags rómantík (Hver á sér fegra föðurland-klisjur), ný-ný rómantík vinstrigræningja, einkum af höfuðborgarsvæðinu, (Draumalands-klisjur, sem m.a. birtast í fótósjoppuðum náttúru-myndböndum undir söng Diddúar og Egils), Geysir, Sigríður í Brattholti og Fossamálin. Hvernig menn tengja þetta Grímsstöðum á Fjöllum er frekar óskiljanlegt. (Ég hvet fólk eindregið til að skoða loftmynd af staðnum, einfalt mál að nota map.google.com. Þar sést ekkertið prýðilega.)

Tilraun til að koma nokkrum (óskyldum) staðreyndum á hreint

Geysir var seldur írskum manni á sínum tíma, og vonuðust menn meira að segja til þess að hann sýndi staðnum meiri sóma en Íslendingar höfðu gert til þessa. Málið var bara það að fjölskyldu og vinum þess írska þótti lítið til staðarins koma og á endanum var hann keyptur aftur (væntanlega fyrir slikk) og gefinn íslenska ríkinu. Gullfoss var líka leigður íslenskum bissnissmönnum, af ábúandanum í Brattholti. Hinn 20. febrúar 1909 gerðu Tómas í Brattholti og Halldór á Vatnsleysu samning við Þorleif um leigu á Gullfossi til iðnreksturs. Samningurinn, sem var til 150 ára, gilti frá 1. september 1912. (Sjá Eyrún Ingadóttir. 1994. Sigríður í Brattholti og Gullfoss. Mbl. 21. des. 1994.) Málaferlin í kjölfarið voru ekki út af samningnum sjálfum heldur út af því að Þorleifur [Guðmundsson] framseldi samninginn og fékk Tómas í Brattholti til að skrifa undir samning sem heimilaði það – Tómas hélt því fram að sá samningur væri ógildur því hann hefði ekki lesið hann yfir áður en hann skrifaði undir. Að sjálfsögðu tapaði hann málinu. Og Tómas var ekki of góður til að þiggja leiguna; hann notaði féð m.a. til að greiða málskostnað sinn.

Sigríður Tómasdóttir í Brattholti virðist hafa verið afar sérsinna kona. Að sumu leyti minnir hún á fyrrverandi lögreglumann í Vík, þ.e. bæði hafa ríslað sér við að eyðileggja girðingar. En þar sem ég hygg að hinn núlifandi lögreglumaður sé heill heilsu og aðgerðir hans og fleiri séu fyrst og fremst andspyrna við frekju eins eða tveggja landeigenda þá held ég að hún Sigríður blessunin hafi ekki verið algerlega andlega heilbrigð og í dag hefði hún jafnvel verið látin taka pillur (sem er æðislega ógrænt og ónáttúrulegt, eins og allir vita). Ég vísa í hina ágætu grein Eyrúnar Ingadóttur um Sigríði þessu til rökstuðnings. (Og sagnir um að Sigríður hafi hótað að henda sér í Gullfoss væri hann virkjaður eru þjóðsagnir úr Tungunum. Þjóðsagnir eru stundum sannar og stundum ekki. Það getur sosum vel verið að kona sem líklega var ekki heil á geði hafi verið með einhverjar munnlegar yfirlýsingar um sjálfsvíg en engar heimildir eru fyrir þessari hótun Sigríðar, bara óstaðfestur orðrómur síðari tíma manna.)

Og af því núna seinnipartinn eru menn farnir að splæsa honum Þórarni Nefjólfssyni og Grímsey inn í fyrirhuguð jarðarkaup er rétt að upplýsa: A) Þórarinn er frægastur fyrir afspyrnu ljótar tær og B) Grímsey er, þrátt fyrir nafnið, ansi langt frá Grímsstöðum.

Almennt um friðunarkjaftæði

Friðun landsins er tískufrasi þessara ára. Rökin fyrir friðun eru einkum að afhenda beri næstu kynslóðum ósnortið land. Ef helvítis friðunin næst í gegn, í þeim mæli sem hún virðist fyrirhuguð, gengur þetta örugglega eftir. Raunar má reikna með að stór hluti landsins verði óbyggilegur og þ.a.l. í hinu æskilega eyði eftir nokkra áratugi. Þegar heimamenn andmæla algerri friðun eru þeir snöggafgreiddir með að hagsmunir þjóðarinnar vegi þyngra en hagsmunir þeirra sem byggja eða eiga landið sem um er rætt. Nærtækt dæmi er Gjástykki, þar sem bæði hefur verið bent á að talsverður hluti þess fyrirhugaða gjörfriðaða lands er í eigu Reykjahlíðar í Mývatnssveit og að umhverfisráðherra viti ekki einu sinni hvaða sveitarfélagi stærstur hluti Gjástykkis tilheyri en er þó alveg gasalega til í að gjörfriða það, skv. yfirlýsingum hennar. Klisjan um að hagsmunir þjóðarinnar núlli út réttinda eigenda datt út úr iðnaðarráðherra í Kastljósi á dögunum, einmitt þegar verið var að ræða Gjástykki. Í beggja augum eru þetta hvort sem er staðir út á landi og þar með sjálfkrafa „eign þjóðarinnar”.

Nú er ég svo heppin að eytt blauta barnsbeininu og æskunni í sveitum sem að vísu hafa ekki verið formlega friðaðar en eru að friðast nokkuð vel af sjálfu sér því nær enga atvinnu er þar að hafa og atvinnurekstur í nágrannasveitum er jafnóðum sleginn af, af umhverfis- og verndarsjónarmiðum. Ef fólk ætlar að senda börnin sín í framhaldsskóla er hyggilegast að flytja. Hinn ágæti fæðingarstaður minn þar sem ég sleit bernskuskónum, Raufarhöfn, er einmitt á Sléttunni, þeirri Sléttu sem Andri Snær sækir heim á sumrum, á eyðibýlið sem ættin hans á, og fyllist innblæstri sem skilar sér í nýnýrómantískri náttúrulýrík. Nú er meira að segja búið að leggja nýjan veg svo Sléttan fer örugglega algerlega í eyði og ný-ný rómantískar listaspírur úr Reykjavík geta unað sér í kyrrðinni (sem er raunar ekki rétt því þar heyrist alla jafna ekki mannsins mál fyrir kríugargi) og miðnætursólinni sem skín svo fallega á ísaldarjökulsruðninginn. Meira að segja andskotans lúpínan, sem er réttdræp því hún er útlend og auk þess blá (himinbláar plöntur eru einungis gjaldgengar í íslenskri náttúru séu þær örsmáar, t.d. dýragras) vex ekki á Sléttunni. Þó kann að vera að helvítið hafi tekið sér þar bólfestu á síðustu árum, ég hef ekki komið til Raufarhafnar síðan 2005 enda fátt þar að heimsækja nema leiðin í kirkjugarðinum. Þrífist lúpína í þorpinu er það í rauninni guðsþakkarvert (en auðvitað afar ónáttúrlegt og óumhverfisvænt) – þessi staðhæfing styðst við áratugatilraunir ömmu minnar til að rækta garð á grjótmulningnum þar nyrðra, með afar lélegum árangri.

Þorpið Raufarhöfn, sem upphaflega byggðist af umsvifum illra útlendinga (norskra, í þessu tilviki, hér er ekki ráðrúm til að tala um eldri hollenskar vindmyllur eða umsvif annarra þjóða) en síðan góðra íslenskra bissnissmanna (t.d. Óskars Halldórssonar, þess fræga útrásarvíkings sem HKL gerði ódauðlegan í Guðsgjafarþulu), er á góðri leið með að fara í eyði. Ekki einu sinni Pólverjarnir tolla. Eftir nokkra áratugi verður Raufarhöfn eitt af þessum smart eyðiþorpum, svipað og Hesteyri og Aðalvík, sem er svo gaman að heimsækja. Það verður meira að segja hægt að skrönglast þetta á fínum áljeppa! Húsin eru óseljanleg, í skólanum fækkar ár frá ári, búið er að loka pósthúsinu og bankanum, næsti læknir er í tuga kílómetra fjarlægð (ef hann þá er til staðar, það hefur verið upp og ofan hvernig gengur að fá lækna á norðausturhornið), prestar tolla misvel svo það er stundum vesen að jarða þessar fáu hræður sem enn tóra á staðnum þá þær hrökkva upp af.

Lausnin á vanda Raufarhafnar er auðvitað umhverfisvæn ferðamennska, en ekki hvað! Þess vegna hefur verið reistur blóthringur til að lokka ferðamenn í einhverja heimatilbúna athöfn í miðnætursólinni. Svoleiðis á þetta að vera: Efla tengslin við náttúruna, móður jörð, söguna (hvaða andskotans sögu er mér ekki ljóst en líklega mun átt við jarðsögu) o.s.fr. Og passa að tengja við norrænan arískan arf. Ég legg til að Svandís og vinstri græningjarnir friði Sléttuna næst. Þar er ómetanlegt fuglalíf og gott ef ekki stærsta kríuvarp í heimi!

Í rauninni vil ég ganga enn lengra og skora á vinstrigræna ráðherra að friða allt Ísland nema Stór-Reykjavíkursvæðið fyrir lúpínu og óarísku fólki og friða Ómar Ragnarsson í leiðinni! Líklega er best að setja friðunarákvæðin í hina nýju stjórnarskrá.

P.S. Af því þetta er bloggfærsla er vaðið úr einu í annað og lítt- eða óskyldum efnum blandað og þau hrist í blogg-kokteil, alveg eins og tíðkast í umræðunni á Netinu, sem ég vísaði í fremst í færslunni.

2 Thoughts on “Ný-ný rómantík og rasismi

  1. frábært blogg, orð í tíma töluð

  2. Steini on August 31, 2011 at 23:09 said:

    Mikið andskoti get ég verið sammála þér stundum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation