Ekki styðja SÁÁ!

Ef þetta er eina leiðin til að losna við Gunnar Smára Egilsson úr formannsstóli SÁÁ mæli ég eindregið með aðferðinni og hvet sem flesta til að segja sig úr þessum fyrrum ágæta félagsskap strax í dag! Málflutningur formanns SÁÁ einkennist nefnilega af tvennu (í þessu sem ég hef lesið eftir hann):

* Að reyna að gera annan þjóðfélagshóp að sökudólgi og viðskiptavini SÁÁ saklaus fórnarlömb þeirra sökudólga

Að kynna sér aldrei nein mál áður en hann tjáir sig stórkarlalega um þau

Fyrirsögnin er að því leytinu villandi að ég er ekki í SÁÁ og get því ekki gengið úr félaginu, því miður. Okkur hér á heimilinu hefur þótt nóg að annað hjóna greiddi í SÁÁ og hitt léti duga að kaupa álfa, geisladiska eða styðja félagið öðru vísi. Og eftir ómaklegar árásir Gunnars Smára á nafngreinda lækna sem sinna fólki með ADHD og ómerkilegar dylgjur í garð þess sjúklingahóps sagði maðurinn sig auðvitað úr SÁÁ og okkur kom saman um að álfakaupum og öðru væri sjálfhætt. Eftir að Gunnar Smári gerði framhaldsskólakerfið að sökudólgi þess að æ fleiri ungmenni leita til SÁÁ hvet ég alla aðra eindregið til að hætta að halda uppi manni sem Gunnari Smára með sínum framlögum (SÁÁ greiðir honum formannslaunin) og leggja ekki nafn sitt við SÁÁ meðan hann er í forsvari fyrir samtökin. Hvað verður næst gert að sökudólgi? Má ég stinga upp á: Öryrkjum, Þjóðkirkjunni, RÚV?

Þótt ég hafi ekki verið félagi í SÁÁ hef ég tekið nokkurn þátt í starfi samtakanna, sá t.d. mánaðarlega um AA fundi á Vogi um nokkurt skeið, fyrir mörgum árum. Og fór í meðferð hjá SÁÁ 1989 (raunar var það hinn útmálaði rítalínáskrifandi geðlæknir Grétar Sigurbergsson sem kom mér í þá meðferð og sýndi einstaka næmni í að greina alkóhólistann mig, mér tókst nefnilega að blekkja flesta aðra heilbrigðisstarfsmenn). Mér hefur verið vel til samtakanna síðan … þangað til í vor. En nú fer því fjarri að ég telji mig eiga nokkra einustu samleið með illkvittnum formanni og talsmanni SÁÁ, síst af öllu eftir að hafa lesið miðjuviðtalið í SÁÁ blaðinu sem birtist á föstudag. (Sjá SÁÁ blaðið, s. 8-9.)

Viðtalið heitir „Það skemmtilega er alltaf satt“ en er í rauninni varla viðtal heldur eintal því hinn anginn af sama meiði og Gunnar Smári, Mikael Torfason, sem „tekur viðtalið“, aktar helst sem bergmál í þessari langloku.

Í þessu „viðtali“ er innihaldið nokkurn veginn það að framhaldsskólakerfið hafi brugðist fíknum ungmennum og lausnin á vanda þeirra sé fólgin í því að nokkrir karlar komnir vel yfir miðjan aldur (þrír á fimmtugsaldri, fimm á sextugsaldri og svo Mikael Torfason sem nær einungis að vera hátt á fertugsaldri) muni messa yfir unglingunum og bjarga unga fólkinu til að: „(…) ná áttum, kynnast sjálfum sér, sættast við sig og finna hvað þeim finnst í raun gefandi og skemmtilegt […] Þetta er sambland af meðferð, skemmtun, námi, íþróttum, leiklist, vinnu og allskonar dóti.“ (Feitletrun í tilvitnun er mín.)

Af aldarfjórðungsreynslu sem framhaldsskólakennari þykir mér afar ólíklegt að unglingar líti á þessa menn öðru vísi en sem gamla karla, líklega gamla karla dauðans. Viðmið unglinga um aldur fólks er nefnilega svolítið öðruvísi en viðmið fólks á fimmtugs- og sextugsaldri. Sumir af körlunum eru sjálfsagt ágætismenn en halda menn virkilega að ræður Bubba, t.d. síbyljan um þegar hann reykti svartan afgan um árið eða yfirlýsingar hans um „þjóðfélagið í dag“ séu vænlegar til að unglingar „nái áttum, kynnist sjálfum sér o.s.fr.“? (Nema hann einskorði sig við Jeeeee í þessu fyrirhugaða björgunarstarfi, sem væri líklega mjög til bóta.)

Svo má náttúrlega líka spyrja sig að því hvernig 18 ára stúlkur sem eru fíklar samsami sig þessum gömlu körlum en það er fljótafgreitt í viðtalinu: „[…] og þegar talið berst að stelpum segir Bubbi Morthens að þær séu oft ekki jafn gallaðar og strákarnir hlæja flestir en Jón Gnarr bætir því við að þær stæri sig heldur ekki eins mikið af öllu ruglinu.“  („Strákarnir“ sem hlæja þarna eru karlarnir gömlu. Feitletrun er mín.) Skv. uppslætti í æviágripi þeirra virðast þeir flestir helst hafa unnið sér til ágætis að hafa fallið á samræmdu prófunum eða hætt í skóla eftir grunnskóla. (Raunar eru þeir flestir eða allir listamenn en það er svona meira aukaatriði, eins og þetta er sett fram á spássíu við einræðu Gunnars Smára.) Það er náttúrlega ánægjulegt að fá staðfestingu sjálfs Bubba og hinna „strákanna“ á að stelpur í meðferð séu „oft ekki jafn gallaðar“ og strákar í meðferð – þetta eru raunar nýjar fréttir fyrir mig og sjálfsagt marga aðra, hugsanlega gleðilegar fréttir?

Í viðtalinu heldur Gunnar Smári því fram að „kerfið“ sé „arfavitlaust“ og nefnir sem rök fyrir því að um 70% af árgangi fari í framhaldsskóla, vegna „óbærilegs þrýstings foreldra“ og 30% „finna sig ekki í náminu, leiðist og hætta. […] Það er ekkert að þessum krökkum. Það er hins vegar eitthvað alvarlegt að skólunum.“ (Feitletrun mín.)

Raunar eru tölur um brottfall úr framhaldsskóla mjög á reiki og fer allt eftir því hvernig talið er. Séu notuð viðmið OECD telst það brottfall ef nemandi lýkur ekki þremur árum í íslenskum framhaldsskóla. (Í Danmörku dugir að ljúka tveimur árum í framhaldsskóla til að teljast ekki brottfallinn því þar er nám til stúdentsprófs þriggja ára … þetta er því mismunandi eftir löndum. Í Noregi og Svíþjóð teljast nemendur hafa lokið framhaldsskóla hafi þeir tollað í skólanum þótt þeir hafi ekki staðist lágmarkskröfur en á Íslandi þarf að „ná“ ákveðinni lágmarkseinkunn í fögum. Samanburður milli landa, meira að segja bara Norðurlandanna, er því mjög erfiður.)

ASÍ hefur haldið því fram að rúm 30% fullorðins fólks hafi ekki lokið framhaldsskóla. Skv. OECD höfðu 64% Íslendinga á aldrinum 25-64 ára lokið framhaldsskólanámi árið 2008 og líklega byggir ASÍ á þeim tölum og aðlagar enda standast þær ekki því viðmið OECD passa ekki við Ísland. Í þeim hópi sem ekki teljast hafa lokið framhaldsskólanámi (og ASÍ telur væntanlega brottfall) eru t.d. allir sem luku verslunarprófi, gagnfræðaprófi, gagnfræðaprófi + tveggja ára framhaldsnámi o.s.fr. Skv. tölum Hagstofunnar hafa á síðustu árum um 85% fólks á aldrinum 15-19 ára verið í skóla á hverjum vetri. Inni í þeim 15% sem út af standa eru t.d. iðnnemar sem eru að ljúka starfsþjálfun á vinnustað. Samanburður við önnur Evrópulönd sýnir að skólasókn 15 til 19 ára unglinga getur tæpast verið öllu venjulegri en hér á landi, ef eitthvað er þá er hún ívið meiri en að meðaltali í OECD-löndum.

Svoleiðis að ég spyr: Hvaðan koma upplýsingar Gunnars Smára um að um 70% árgangs fari í framhaldsskóla og 30% þess hluta falli brott í framhaldsskólanámi? Fyrir utan það að þessar tölur eru bull þá þætti mér líka gaman að vita hvaðan honum kemur sú vitneskja að brottfallið stafi af því að nemendur „finni sig ekki í náminu“, leiðist og hætti. Ennfremur væri óskandi að hann upplýsti hvað er svo alvarlega að skólunum að vesalings nemendurnir hrökklast þaðan af leiðindum og villu síns vegar, þrátt fyrir að það sé „ekkert að þessum krökkum.“ Og hvernig þetta tengist starfi SÁÁ væri óskandi að formaðurinn upplýsti því ef ekkert er að þessum krökkum eru þau varla kúnnar hjá SÁÁ. (Síðast þegar ég vissi var Vogur skilgreindur sem sjúkrahús og þiggur fjármuni úr ríkissjóði sem sjúkrahús. Er Vogur kannski eitthvað annað? Æskulýðsmiðstöð? Skátabúðir? Ævintýraland?)

Kannanir sem lagðar hafa verið fyrir nemendur í íslenskum framhaldsskólum sjálfum benda til að flestir nemendur séu ánægðir með skólann sinn. (Svona kannanir eru einn liðurinn í sjálfsmati skólanna sem þeim er gert að uppfylla.) Þær kannanir er ekki hægt að nálgast opinberlega á einum stað en stundum eru birtar niðurstöður úr þeim á heimasíðum framhaldsskólanna. Það mætti ætla að rödd þeirra 30 prósenta af 70 prósentunum hans Gunnars Smára heyrðist í slíkum könnunum, væru þau til. En kannski eru greyin fallin brott áður en kannanirnar eru gerðar?

Þrátt fyrir að gengi nemenda í framhaldsskóla og menntunarstig þjóðarinnar sé með prýðilegu móti miðað við önnur Evrópulönd er ekki svo að brottfall sé ekki rætt innan veggja framhaldsskóla – slíkt var gert árlega í þennan aldarfjórðung sem ég starfaði við kennslu o.fl. innan þess kerfis og er örugglega enn rætt. Langflestir framhaldsskólar landsins bjóða upp á fjölbreytt námsúrval og námsleiðir. E.t.v. hefur farið fram hjá Gunnari Smára að annað aðalmarkmið framhaldsskólans er að mennta fólk til að vera þegnar í lýðræðissamfélagi. Hitt aðalmarkmiðið er að útskrifa fólk með formlega menntun, ýmist starfsréttindi eða stúdentspróf, sem gefur engin formleg réttindi nema til inntöku í háskóla. Hefðbundnir menntaskólar með bekkjarkerfi og einungis stúdentspróf í boði eru lítill minnihluti íslenskra framhaldsskóla. Heimurinn, þ.m.t. framhaldsskólakerfið, hefur nefnilega breyst talsvert síðan Gunnar Smári var milli tektar og tvítugs. Og ekki eru allar breytingar sjálfkrafa til hins verra.

Vinnumálastofnun, verkalýðsfélög, sveitarfélög og símenntunarmiðstöðvar hafa gengist fyrir margs konar námskeiðum eða starfi til eflingar atvinnulausum unglingum. E.t.v. hefur Gunnar Smári ekki heldur frétt af því. (Það er kannski öllu verra ef Jón Gnarr, borgarstjórinn í Reykjavík, hefur ekki heyrt af svoleiðis en mér er svo sem slétt sama um það – Reykvíkingum var nær að kjósa hann og brandarinn löngu hættur að vera fyndinn.)

Bara sem dæmi bendi ég á átakið Ungt fólk til athafna, þar sem einmitt er boðið upp á alls konar nám, skapandi starf og listir, sjálfseflingu og sálfræðilegan stuðning o.s.fr. Þetta er eitt dæmi af mörgum um verkefni sem hafa miðað að því gefa ungu fólki tækifæri til að  „ná áttum, kynnast sjálfum sér, sættast við sig og finna hvað þeim finnst í raun gefandi og skemmtilegt“, mætti í rauninni jafnvel kalla „sambland af meðferð, skemmtun, námi, íþróttum, leiklist, vinnu og allskonar dóti.“ Markhópurinn í verkefninu sem ég tengi í er fólk yngra en 25 ára og settar „hafa verið upp 5 leiðir sem til samans er ætlað að mynda yfir 2.000 ný starfs- eða námstækifæri fyrir ungt fólk“, í samstarfi við ýmsa aðila. En ég reikna raunar með að ekki hafi verið leitað sérstaklega eftir gömlum karlkyns fyllibyttum og dópistum og droppátum úr skóla til að kenna, heldur notaðar aðrar kríteríur í kennara- og leiðbeinendavali (sem útiloka svo sem alls ekki gamlar fyllibyttur o.þ.h. en gera þær ekki að aðalatriði) .

Ég nenni ekki að rekja meir bullið úr Gunnari Smára Egilssyni í viðtalinu „Það skemmtilega er satt“. Auðvitað vonast ég til að SÁÁ losi sig sem fyrst við manninn svo venjulegar gamlar fyllibyttur eins og ég geti verið þekktar fyrir að styrkja samtökin aftur. Og væri ég enn starfandi framhaldsskólakennari þætti mér helvíti hart að sitja undir ásökunum um að taka þátt í „kerfi“ sem gerði ungt fólk bókstaflega að aumingjum, fyllibyttum og dópistum, sem þeir Bubbi og hinir „strákarnir“ ætla nú að ráða bót á en auðvitað einungis ef við „Hin“ borgum. Viðtalinu við Gunnar Smára lýkur nefnilega á sníkjum.
 

Þeim sem vilja lesa frekari umfjöllun um þennan dæmalausa málflutning Gunnars Smára Egilssonar er bent á ágæta bloggfærslu Unnar H. Jóhannsdóttur, „Galinn Gunnar Smári!“ Og þeir sem nenna að setja sig inn í ruglandi sem einkennist af óskýru orsakasambandi, illa skrifuðum texta þar sem er vaðið úr einu í annað, sleggjdómum, úr sér gengnum hugmyndum „reiðra ungra manna um samfélagið í dag“ o.s.fr. er bent á að lesa „Það skemmtilega er alltaf satt“ í nýútkomnu SÁÁ blaði, sem ég tengdi í fremst í færslunni.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

24 Thoughts on “Ekki styðja SÁÁ!

  1. Sæl Harpa,

    Ég sé að við erum fullkomnlega sammála í þessu. Þetta er með ljótari lesningum sem ég hef haft lyst á, þurfti raunar að beyta mig hörku þvílýkan viðbjóð setur að mér.

    Að maðurinn skuli dirfast að gera nánast að athlægi lesblindu og aðra námsörðugleika gerir mig sem kennara svo reiðan að mér er næst skapi að leggja af stað upp vegginn.

    Ég tek undir þetta, SÁÁ losi sig við Gunnar Smára !!

  2. Valur Bjarnason on September 6, 2011 at 20:13 said:

    Á menningarnótt sagði Bubbi frá því að lagið svartur Afgan hafi orðið til í húsi þar sem hann var að reykja rautt hass. Um leið og hann byrjaði að tala um þetta sagði ég við konuna mína:, ,,byrjar hann eina ferðin enn á þessu kjaftæði, alveg óþolandi og ekki eins og þetta virki því krakkarnir segja sennilega ,,vá hann hefur reykt rautt hass”, en málið er að þetta rauða hass var í sölu hér á landi á árunum 1980-1983 og þótti voða merkilegt þrátt fyrir að áhrifin hafi verið eins og af hverju öðru hassi. Bubbi gerði sig bara hallærislegan með þessu bulli sínu. Miðaldra karl að monta sig yfir að hafa reykt rautt hass einhvern tíman. Já aðferðir við forvarnir eru ekki evona, það er nokkuð ljóst.

  3. Elín Sigurðardóttir on September 6, 2011 at 20:24 said:

    Er það orðið ávísun á atvinnumissi að gagnrýna lækna?

    http://don.blog.is/blog/don/entry/388872/

  4. Það var margt í þessu eintali Gunnars Smára sem fékk mig til að fyllast hrolli yfir að slíkur maður skuli talsmaður SÁÁ á opinberum vettvangi – hins vegar ákvað ég að tína einungis fram aðalatriði og benda fólki svo á að lesa ruglið í heild sjálft. Já, Valur, hann Bubbi hefur tuggið þessa sögu á hverjum tónleikum sem ég hef heyrt. Ég er mjög hrifin af mörgum lögum Bubba og enginn hefur túlkað Bellmann jafnvel og hann og Guðmundur Pétursson. En að hlusta á Bubba tala … nú er svo komið að ég spila frekar diskana hans, lét mig þó hafa að horfa á hluta af Menningarnæturtónleikunum, ekki hvað síst af aðdáun á Kristjönu og Rósu.

    Elín mín kær (og dyggur aðdáandi Gunnlaugs Haraldssonar “sagnaritara”): Þú hefur eitthvað mislesið þessa bloggfærslu, eða misskilið eða mistúlkað. Viltu bara ekki lesa hana aftur?

  5. Elín Sigurðardóttir on September 6, 2011 at 20:41 said:

    Sérðu nafn Gunnlaugs Haraldssonar í minni athugasemd Harpa? Viltu ekki lesa hana aftur?

  6. Ellert Grétarsson on September 6, 2011 at 21:13 said:

    Er ekki bara kominn tími á Gunnar Smára að kíkja í sjöunda sporið? Þið vitið, þetta með auðmýktina…sem er andstæða hrokans.

  7. Jakob Bragi Hannesso on September 6, 2011 at 21:58 said:

    Sæl Harpa

    Þakka þér fyrir skorinorta, beinskeitta og rökvísa grein. Ekki eykur Gunnar Smári hróður SÁÁ með þessum hrokapistli sínum.

  8. Ég sá reyndar eftir á að það var ekki fallega gert að spyrða þig saman við Gunnlaug, Elín, og biðst forláts á því.

    Nei, því miður er ég hrædd um, Jakob, að hann Gunnar Smári spilli mikið fyrir SÁÁ, sem er ótrúlega slæmt því ótal margir eiga samtökunum margt að þakka, jafnvel líf sitt. Ég vildi fegin geta stutt þessi samtök áfram. Það er hins vegar ekki hægt meðan þau lúta stjórn þessa formanns og brúka hann sem talsmann … þótt Þórarinn Tyrfingsson skelli sér fram á ritvöllinn eftir á og reyni að bera til baka verstu spjótalögin og rýtingsstungurnar í bak (eins og gerðist eftir að Gunnar Smári réðst á ADHD sjúklinga og lækna þeirra).

    Ellert: Ég man aldrei í hvaða röð og hvernig þessi spor eru nákvæmlega (enda held ég að þau séu hvort sem er öll innifalin í fyrsta sporinu) en tek þig alveg trúanlegan um innihald þess sjöunda 🙂

  9. Rúnar on September 7, 2011 at 00:44 said:

    Sæl,
    Ég verð að segja að Gunnar Smári hefur verið duglegur að benda á mál sem gera má betur. Eins og með ungmennin sem falla á milli skips og bryggju ár eftir ár í uppeldiskerfinu okkar.
    Ekki megum við falla í sömu gryfju og sauðfjárbóndinn sem vildi ritskoða kennara við HÍ um daginn.

  10. birna haraldsdóttir on September 7, 2011 at 01:01 said:

    mýgðu ekki í þann brunn sem þú hefur drukkið úr. þú getur varla talist aa manneskja, í það minnsta ekki í bata þar sem svona neikvæðnistuð sæmir ekki góðri aa manneskju. sumt fólk er bara gramt og þarf sífelt að vera að röfla út af einhverju þó það ætti að skella sér í meðferð en ekki ætla ég að lesa það þó ég hafi hnotið um þetta torf, eigðu betri daga, ég treysti mér ekki til að innbyrða meira en efstu línurnar,vonandi verður þér minna uppsigað við fólk í framtíðinni.

  11. Hildur Helga S. on September 7, 2011 at 03:47 said:

    Góð og athyglisverð grein hjá þér Harpa. AA og SÁÁ eru samtök sem í gegnum tíðina hafa bjargað fjölda mannslífa. Það ber að virða og tengist ekki Gunnari Smára Egilssyni með nokkrum hætti. Því miður virðast margir vera sammála þér um þá neikvæðu hluti sem nú eru að gerast þarna. Hvað í ósköpunum var verið að hugsa þegar þessi ennþá bitri og hatursfulli einstaklingur var látinn fá þessi mikilvægu samtök í hendur ?
    Hef alltaf styrkt þessi samtök eftir bestu getu, eins og stór hluti þjóðarinnar. Núna ? Held ekki.

  12. Ragnheiður Hilmarsd on September 7, 2011 at 05:52 said:

    Sæl Harpa og takk fyrir þessa grein. Ég fylgist ekki mikið með SÁÁ, enda ekki viðskiptavinur eða hvað það kallast. Hef þó keypt álfana enda veik fyrir loðnum smákvikindum.
    Nú ætla ég að lesa grein G.S.

  13. Sæl Harpa og þakka þér fyrir á köfllum ágætis pistil.
    Tek undir það með þér að það sætir furðu að talsmaður stórra samtaka sem SÁÁ geti ítrekað stigið fram með yfirlýsingar um hluti sem að hann virðist ekki hafa kynnt sér til hlítar, eins og yfirlýsingar hans um framhaldsskólakerfið virðast benda til. Þ.e.a.s. að alhæfa yfir heildina út frá upplifun hluta þýðisins er aldrei góð lenska.

    Mig langaði hins vegar að leggja til að þú kynntir þér 12 spora kerfið betur. Ekki í kaldhæðni eða dómhörku, heldur af kærleika og í þeirri fullvissu að það geti bætt líf þitt enn frekar.
    Eftir rúmt 21 ár sem meðlimur 12 spora samtaka tel ég mig geta fullyrt ýmislegt um kerfið sem að ég hef ástundað lengst af þennan tíma og get fullvissað þig um að öll sporin tólf eru ekki frekar fólgin í 1. sporinu, en að gjörvallt menntakerfið sé fólgið í 6 ára bekknum. Meginstef fyrsta sporsins er einmitt eins og 6 ára bekksins, að undirbúa þig fyrir að vinna og meðtaka hin sporin 🙂
    Yfirlýsing um slíkt er einmitt ekki ósvipuð yfirlýsingum G.S.E. um framhaldsskólana, kerfi sem að hann augljóslega þekkir ekki jafn vel til og þú miðað við ofangreint.

    Gangi þér vel 🙂

  14. Pingback: Á þurrum miðvikudegi « DR. GUNNI

  15. Ég hef raunar “kynnt mér” 12 spora kerfið – maður kemst nú eiginlega ekki hjá því stundandi AA fundi í meir en tvo áratugi 😉 Í gamla daga sótti ég stundum sporafundi, altso gamaldags sporafundi, sem mér fundust góðir fundir. Þá var lesið úr sporabókinni og síðan tjáðu menn sig um sporið / reynslu sína / hvað þeir höfðu gert til að nálgast að uppfylla sporið. Mér finnst líka að á hverjum AA fundi sem ég sæki berist málefni / inntak einhvers/einhverra spora í tal þótt þau séu ekki nefnd því öll AA hugmyndafræðin er reist á þessum sporum (sem byggjast svo sjálf á öðrum fræðum, sumum fornum – t.d. kenningum Ágústínusar kirkjuföður …)

    Með að sporin séu öll innifalin í fyrsta sporinu er ég að vísa til klausunnar “mér var orðið um megn að stjórna eigin lífi” og að sporin ellefu sem fylgja á eftir eru öll skref í áttina að því að ná stjórn á eigin lífi og líðan og reyna að verða skikkanleg manneskja.

    Fyrir einhverjum árum reyndi ég að “vinna sporin” skv. nútímauppskrift en hugnaðist illa aðferðin. Líklega verð ég bara að láta mig hafa það að vera “vitlaust edrú” úr þessu 😉

    Og þetta með að muna ekki sporin: Ég er alls ekki að kasta rýrð á þau með þeirri staðhæfingu, var einungis að vísa til þess að ég er haldin miklu minnisleysi af völdum annars sjúkdóms. Svo ég kann hvorki spor né erfðavenjur utan að þótt ég hafi einu sinni gert það. Mér finnst raunar ekkert sérlega eftirsóknarvert að geta romsað sporunum upp úr sér – aðalmálið er væntanlega að reyna að tileinka sér það sem í þeim felst, sem eru hugmyndir / lífsreglur en ekki orð.

    Mjög margt úr hugmyndafræði AA hefur nýst mér afar vel, einnig til að takast á við þunglyndið sem hefur gert mig að öryrkja. Ég er samtökunum mjög þakklát. Þótt það ætti að vera alger óþarfi að taka það fram þá snýst þessi bloggfærsla alls ekki um AA heldur um SÁÁ sem er allt annað fyrirbæri. Ég ætla rétt að vona að fleiri en Birna, sem skrifar hér athugasemd að ofan, rugli þessu tvennu ekki saman.

  16. Svo gleður mig að dr. Gunni skuli geta notað þessa færslu til að auglýsa fyrirlesturinn sinn um 27 ára klúbbinn (fyrirlestur sem ég efast ekki um að verði glimrandi). Ég reikna með að Óttar sjái um íslenska rómantíska / nýrómantíska drykkfellda skáldahópinn í 27 ára klúbbnum við sama tækifæri. Því miður á ég ekki heimangengt en hefði haft mjög gaman af því að hlusta á þá báða. Þetta eru klassafyrirlesarar með gott vit á því sem þeir ætla að fjalla um. Svo ég auglýsi dr. Gunna og Óttar á móti (og læt bakvísunina ekki duga) 🙂

  17. birna haraldsdóttir on September 8, 2011 at 20:00 said:

    hroki og hæðni er einmitt einkenni þeirra sem eru ekki á góðri leið í batanum harpa mín og sem aa kona veistu það væntanlega. þó svo þín skrif séu níð um sáá þá ætla ég rétt að vona að þeir sem kommenta á þau þurfi ekki að halda sig við það umræðuefni og geti leyft sér að hugsa sjálfstætt og jafnvel taka annan pól í hæðina án þess að þú vænir þá um heimsku.

    aa hefur hjálpað mörgum og það hefur sáá líka gert. að reyna að hvetja fólk til að fjársvelta sáá á þessum erfiðu tímum finnst mér mjög ljótur verknaður, álíka og ef einhverjum dytti í hug að ráðast með sama hætti gegn krabbameinssjúkum eða blindum, bara af því að viðkomandi líkar ekki við ákveðna manneskju sem vinnur þar. en verkin tala og bera okkur söguna og í þeim felst hinn mesti sannleikur sem orð geta ekki mælt, hversu sykursæt sem þau hljóma.

  18. “AA samtökin eru óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála.”

    Birna: Þessi færsla fjallar ekki um AA. Þótt ég hafi tekið þátt og leyft málefnalega umræðu um gildi 12 sporakerfisins á umræðuþræðinum við færsluna – í umræðuþráðum við bloggfærslur er stundum farið um víðan völl – ítreka ég að þessi færsla kemur AA ekki nokkurn skapaðan hlut við (sem ætti raunar að vera mjög augljóst og óþarfi að taka fram).

    Þessi færsla er heldur ekki “níð um sáá” heldur fjallar hún um málflutning tiltölulega nýskipaðs formanns SÁÁ, samtaka tengja sig að stórum hluta við ríkisstyrkta sjúkrastarfsemi. Þegar formaður slíkra samtaka hefur uppi atvinnuróg (sem er vel að merkja refsiverð háttsemi skv. lögum), slær fram órökstuddum staðhæfingum og tölum sem enginn fótur er fyrir o.s.fr. er full ástæða til að reyna að koma slíkum manni frá, a.m.k. hvetja fólk að vera ekki að styðja samtökin sem greiða honum formannslaunin og sem hann er í forsvari fyrir.

    Maður hlýtur að gera þá kröfu að formaður SÁÁ hafi lágmarksþekkingu á sjúkdómnum alkóhólisma og orsökum hans, eftir því sem best er vitað nú (af eintali hans í blaðinu er ekki að sjá að hann hafi náð að öðlast þá þekkingu). Og maður gerir þá kröfu til að formaður SÁÁ kynni sér önnur málefni áður en hann ræðst á mann og annan með hrokafullum, órökstuddum sleggjudómum.

    Þangað til að SÁÁ ræður formann og talsmann sem stendur undir nafni er full þörf á að hvetja fólk gegn hugsunarlausri meðvirkni með svona hegðun, sumsé að loka buddunni í bili og styrkja frekar önnur þurfandi samtök.

    Og einu sinni enn, Birna, svo þú náir þessu alveg örugglega: SÁÁ kemur AA-samtökunum ekkert við. AA-samtökin koma SÁÁ ekkert við. Ef þetta er enn óskýrt í þínum huga ættirðu að kynna þér erfðavenjur AA samtakanna og AA bókina. Og AA mennska mín kemur þessari umfjöllun um málflutning Gunnars Smára Egilssonar formanns SÁÁ ekkert við.

  19. Væri gaman að vita hvort það voru í alvörunni dr. Gunni og Óttar Guðmundsson sem töluðu á þessum þurra gærdegi – mér heyrðist ég heyra síbylju af auglýsingum frá SÁÁ um samkomuna laust fyrir kvöldfréttir í gærkvöld þar sem Óttar Proppé var auglýstur fyrirlesari (en er ekki viss, var inni í stofu og útvarpið í eldhúsinu …). Það er ansi mikill munur á Óttari Guðmundssyni og Óttari Proppé! Ef einhver sem les þetta mætti á svæðið þætti mér gaman að vita hvor Óttar-inn flutti tölu.

  20. Þráinn Kristinsson on September 9, 2011 at 18:25 said:

    Fátt er meira niðurdrepandi en vanþakklátir meðferðarþrælar…

  21. Tja … við getum ekki öll haft það sjálfstraust að lýsa okkur svona: “Jeg er generelt betragtet af mine kollegaer som ung, humoristisk, selvstændig, entusiastisk, idérig, hjælpsom og beslutsom kollega. Jeg bringer løsninger på bordet – ikke problemer.” Ég lít raunar ekki á mig sem þræl, á neinn máta, en hef óneitanlega lægra sjálfsmat en lesa má á:

    http://sites.google.com/site/erfarenprojektleder/
    og
    http://www.it-medarbetare.se/contactjobseeker.php?ID=5051

    þar sem Þráinn Kristinsson / Andreas Kristinsson (tveimur árum yngri en ég) lýsir mannkostum sínum og starfshæfni.

  22. Valdís on September 9, 2011 at 20:29 said:

    AA samtökin og SÁÁ er alls ekki sami hluturinn jafnvel þó að AA samtökin fái góðfúslega að halda AA fundi á Vogi og á meðferðarheimilinum. SÁÁ er ekki með neinar reglur um að koma ekki fram í fjölmiðlum undir nafni öfugt við AA og erfðavenjur AA samtakanna. Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt að allir starfsmenn SÁÁ taki þátt í þjóðfélagsumræðu sem og svari gagnrýni á SÁÁ. Það gerir AA ekki – eða mælist til með að gera ekki. (Með misjöfnum árangri þó)

    Langflestir AA menn sem hafa verið í sannarlegum bata frá alkóhólisma í langan tíma nefna það ekki að þeir séu í bata, hvað þá að þeir séu í AA samtökunum. Þeir þurfa þess ekki. Nýliðar sem þrá bata frá alkóhólisma klifa stöðugt á eigin bata og bataleysi annarra. Margir þeirra falla fljótt – því miður.

    Til ástríðufullra nýliða: Hlustið á lengra komna og takið mark á þeim. See how they walk.

  23. birna haraldsdóttir on September 12, 2011 at 09:57 said:

    ég nenni nú ekki að verja mínum tíma í að þræta við gamalt fólks sem fór á mis við lærdóminn í lífinu og hefur ekki náð að sigrast á hrokafullri framkomu og hefur þörf fyrir að upphefja sig með því að tala niður til annara og hangir á einhverjum besserwisser stafsetningar pervertisma 🙂 það er bara sorglegt. en veljir þú þér það líf þá færðu að visna þar ein og stendur á ímynduðum stalli þangað til og talar niður til okkar hinna. ég ætla bara að byðja þig um eitt að ef þú átt eitthvað sökótt við sáá, blindrafélagið, krabbameinsfélagið eða önnur góð samtök sem hafa með blóði svita og tárum unnið þakkarvert starf sem í það minnsta margir kunna að meta, þó ekki allir sé ég. ekki gera lítið úr þeirri vinnu og berðu það mikla virðingu fyrir starfsemi sem hefur veitt hundruðum manna nýtt líf að þú sjáir sóma þinn í því að mæta viðkomandi án þess að vera með opinbert steitment að henda ekki steinvölum úr glerhúsi í nafni tjáningarfrelsis í stað þess að fara rétta boðleið og sleppa óþarfa leiðindum og níð og eigðu svo góðan dag harpa, því ég nenni ekki að eiga frekari orðaskipti við þig vina eða fólk sem lætur reiðina blinda sig og hefur þörf fyrir að meiða aðra til að sýna fram á eigið ágæti en ef einhver er ekki ánægður með störf þess og bregst illa við því sem þeir setja fram mun sá hinn sami ekki njóta þess sem þú krefst að fá frá öðrum. valdís mín dæmdu ekki það sem þú ekki þekkir 🙂 en samt sætt af þér að reyna að standa upp fyrir vinkonu þinni þegar hún skýtur sig í fótinn. svo vil ég enda þetta á því að ég vona að sem flestir geri orð hörpu ómerk og styði sáá og það góða og mikla starf sem þau samtök hafa unnið í þágu alkahólista og aðstandanda þeirra.

  24. Mér finnst þið, sem ætlið að hætta að styrkja SÁÁ vegna ummæla Gunnars Smára, ættuð aðeins að hugsa ykkur tvisvar um.
    SÁÁ er samtök áhugafólks um áfengisvandann og samtökin byggja tilvist sína á fólki sem vill styrkja samtökin. Nú þegar hefur félögum í SÁÁ, fækkað á örfáum árum úr u.þ.b. 20 þúsund manns, í um 6.000.
    Það er komið að hættumörkum. Viljum við að starfsemi SÁÁ leggist af?
    Ég segi nei, þrátt fyrir Gunnar Smára Egilsson.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation