Eru geðlyf vond og geðlæknar spilltir?

Ég ætlaði að blogga færsluflokk um þunglyndi og óskiljanlegar árásir alls konar fólks á geðlyf og geðlækna. En nú nenni ég því eiginlega ekki, þetta verða strjálar færslur enda hef  ég margoft tjáð mig um efnið og yfirleitt verið að andmæla sama fólkinu sem heldur uppiteknum hætti í áróðri sem er nokkurn veginn svona:

  • Geðsjúkdómar eru ofgreindir;
  • Alltof mörgum eru gefin geðlyf;
  • Alltof mörgum er gefið alltof mikið af geðlyfjum;
  • Margir geðlæknar þiggja einhvers konar fríðindi frá lyfjafyrirtækjum og má því ætla að þeir séu nánast á mála hjá sömu fyrirtækjum;
  •  Síðasttalda staðhæfingin er ýmist skýring eða forsenda hinna fyrri.

Þessi áróður er klæddur í mismunandi fræðilegan búning, allt eftir hver skrifar. Gott dæmi um grein sem virðist ákaflega fræðileg, í þeim skilningi að þar er vísað út og suður í heimildir, er „Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni“, eftir Steindór J. Erlingsson, birt í Tímariti félagsráðgjafa 1. tbl. 2011, s. 5-13.  Niðurstöðurnar eru í stuttu máli þessar:

  • Geðlæknisfræði getur engan veginn sagt með vissu hver orsök geðraskana sé í raun og veru;
  • Flokkunar- og greiningarkerfi sjúkdóma (DSM og ICD) hafa haft þær afleiðingar að
    • 1) Fjöldi þeirra, sem greinast með geðraskanir og eru meðhöndlaðir sem sjúklingar virðist talsvert umfram það sem eðlilegt getur talist,
    • 2) lyfjafyrirtækin hafa nýtt sér þetta veika kerfi til að auka gríðarlega ávísun geðlyfja á Vesturlöndum og víðar.

Í greininni er svo bent á þá augljósu staðreynd að af því ekki er hægt að greina orsök geðraskana með vissu og rannsóknir á virkni lyfja gefi misvísandi niðurstöður byggi sjúkdómsgreining ævinlega að einhverju leyti á huglægu mati.

Ég hef í sjálfu sér ekkert við þessa lokaniðurstöðu að athuga, horfandi á hana sem þunglyndissjúklingur með viðamikla reynslu af lyfjaáti og öðrum aðferðum. En að mínu mati gildir nákvæmlega þetta sama um fjölda annarra sjúkdóma. Þar er hins vegar minna um að nokkrir einstaklingar fylki sér í krossferð gegn lyfjum og læknum.

En ég set stórt spurningarmerki við staðhæfingar á borð við að fjöldi þeirra sem greinast með geðraskanir og eru meðhöndlaðir sem sjúklingar virðist talsvert umfram það sem eðlilegt getur talist. Hver er þess umkominn að vita hver „eðlilegur“ fjöldi fólks með geðraskanir er? Er ekki mjög líklegt að geðraskanir hafi verið vangreindar til þessa og séu jafnvel enn?

Hvað gefur einstaklingum skotleyfi á akkúrat þennan sjúklingahóp? Þrátt fyrir yfirlýsingar á borð við að hlusta beri á sjónarmið þeirra sem nýta sér þjónustu geðheilbrigðiskerfisins „því ekki er hægt að líta á það sem sjálfsagt mál að þekking hinna faglærðu standi alltaf framar þeirri þekkingu sem notendur þjónustunnar búa yfir“ (s. 12 í fyrrnefndri grein Steindórs) kemur það alls ekki í veg fyrir að alls konar fólk fyllist forræðishyggju fyrir hönd geðsjúklinga og vilji hafa vit fyrir þeim. Sem öfgadæmi í þá áttina má nefna ýmsa umfjöllun sem heimilislæknirinn Vilhjálmur Ari Arason (sérmenntaður í sýklalyfjanotkun barna), Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi og Gunnar Smári Egilsson, blaðamaður, fyrir hönd SÁÁ, hafa viðhaft. (Í síðastnefnda tilvikinu hefur t.d.verið um beinar árásir á ADHD-sjúklinga og lækna þeirra að ræða.) Steindór J. Erlingsson hefur verið áberandi í samskonar umræðu en má eiga það að hann hefur ólíkt hinum bein kynni af þjónustu geðheilbrigðiskerfisins sem sjúklingur og  kynnir sér umfjöllunarefnið vel. Samt fellur Steindór raunar í þá óvísindalegu gryfju að fjalla einungis um efnið frá einni hlið. (Dugir t.d. að renna yfir fyrirsagnir á blogginu hans í október til að sjá hve einspora málflutningur hans er.)

Tökum sem dæmi aðra oft illlæknanlega sjúkdóma og illskiljanlega sjúkdóma. Húðsjúkdómar koma ágætlega til greina til samanburðar. Mér er ókunnugt um hvort einhver hafi haldið því fram að fjöldi þeirra sem greinist með húðsjúkdóma sé talsvert umfram það sem eðlilegt getur talist – enda blasir við sami vandinn og í geðsjúkdómum: Hver er eðlilegur fjöldi húðsjúkdómasjúklinga?

Oft er það svo að heimilislæknir er fyrsti aðili sem leitað er til. Viðtal hjá heimilislækni er í hæsta lagi korterslangt og vísast að sá ávísi á einhver húðlyf. Þegar þau virka ekki er leitað til sérfræðings í húðsjúkdómalækningum, sem ávísar sennilega á önnur lyf, eftir stutta skoðun. Ef þau virka ekki eru reynd önnur lyf. Og önnur. E.t.v. er sjúklingurinn sendur í einhver próf, t.d. ofnæmispróf, til að reyna að finna skýringuna. Hugsanlega kemur eitthvað út úr þeim prófum, hugsanlega ekki. Sjúklingurinn sjálfur reynir að afla sér fræðslu og prófar ýmsar óhefðbundnar aðferðir, frá jurtasmyrslum til þess að breyta um mataræði. (Ég tek fram að ég hef náin kynni af akkúrat svona píslargöngu sjúklings.) Þegar upp er staðið finnst kannski engin varanleg lausn; sjúklingurinn hefur kannski með tilraunastarfsemi og læknishjálp komist að einhverjum mögulegum orsökum sem koma af stað kasti og forðast þær en þær orsakir skýra ekki sjúkdóminn að fullu og hann getur alltaf blossað upp. Þá er gripið til lyfja til að slá á einkennin, oft sterkra steralyfja sem eru almennt talin heldur óholl og geta haft slæmar aukaverkanir.

Af hverju er ekki ráðist á þennan sjúklingahóp og þeirra lækna? Húðsjúkdómafræði getur ekki sagt með vissu hver er orsök margra húðsjúkdóma. Sífellt koma á markaðinn ný húðlyf og má því ætla að lyfjafyrirtæki sjái sér hagnaðarvon í markaðssetningu nýrra húðsjúkdómalyfja, sem virka á suma en ekki á aðra. Jafnvel getur verið að lyfjafyrirtæki í þessum geira snyrti til sínar niðurstöður og hagræði þeim, um það veit ég ekki. Hjálækningar í þessum málaflokki blómstra, ekki síður en í geðsjúkdómabissnissnum – jurtasmyrsl af öllu tagi, sull í Bláa lóninu, leirböð á Náttúrulækningarhælinu, detox-meðferð hjá Jónínu, fæðubótarefni alls konar … gott ef Fontana (Montana) rær ekki á sömu mið. Án þess ég viti það kæmi mér ekki á óvart þótt handayfirlagning, kristallalækningar, heilun og annað af því tagi væri líka í boði fyrir sjúklinga með slæma illlæknanlega húðsjúkdóma, jafnvel HAM, DAM og gjörhygli. Og ég reikna með að hægt sé að misnota einhver húðsjúkdómalyf, t.d. eta sterakremin, eta einhverjar pillur í óhófi eða misnota á annan hátt: Margskonar lyf er hægt að misnota ef viljinn er fyrir hendi.

Þrátt fyrir þetta hafa velmeinandi aðilar ekki verið nærri því eins duglegir að reyna að fá húðsjúkdómasjúklinga til að hætta að skipta við húðsjúkdómalækna og hætta að nota lyfin sín eins og þeir hafa hamrað á geðsjúkum. Gæti skýringin verið sú að geðsjúkir liggja miklu betur við höggi og eru ólíklegri til að bera hönd yfir höfuð sér, sjúkdómsins vegna, en þeir sem eru með ólæknandi exem? Er mögulegt að einhverjir þeirra sem hæst hafa um meinta ráðsmennsku geðlækna í garð sinna sjúklinga séu ekki hvattir áfram af velmeintum velferðarsjónarmiðum heldur einfaldri valdafíkn, þ.e.a.s. vilji fá að stjórna þessum sjúklingahópi því það er svo gaman að hafa vit fyrir fólki og fá að stjórna því? Og að svoleiðis innréttað fólk hafi séð í hendi sér að aðrir sjúklingahópar væru ólíklegir til að lúta stjórn fólks sem er stundum illa menntað eða ómenntað í þeim fræðum sem það vill endilega fá að ráðskast í?

——————————————————————————————————————————————————————–

Þetta er orðin nokkuð löng færsla og mál að linni. Ég hef þó áhuga á að blogga aðra færslu um muninn á sálfræðilegri nálgun þunglyndis og lyfjanotkun við þunglyndi, öllu heldur þau grundvallarsjónarmið sem liggja þar að baki og er kannski meginorsök þess að liðið í sálfræðibatteríinu (sálfræðingar, félagsráðgjafar, áfengisráðgjafar o.fl.) leggja allt undir til að ota sínum tota gegn geðlæknum, með dyggri aðstoð örfárra geðsjúklinga sem ekki hafa fengið bót meina sinna innan geðlækningakerfisins. Raunar held ég samt að aðalástæðan fyrir slíkri umræðu hér á landi sé fjárhagsleg: Menn eru að bítast um fé! Þeir sem lenda á milli stríðandi fylkinga, sjúklingarnir, skipta því miður oft litlu máli.

   
  
 

5 Thoughts on “Eru geðlyf vond og geðlæknar spilltir?

  1. Þorvaldur lyftustjór on October 16, 2011 at 14:32 said:

    Eyjólfur hefur nú hresstst þegar á pistilinn leið þótt þú segðist í upphafi illa nenna að blogga. Þetta er prýðilegt hjá þér, eins og þín var svosem von og vísa. Bið að heilsa þér og þínum.

  2. Harpa on October 16, 2011 at 16:20 said:

    Takk Þorvaldur minn 🙂 Já, miðað við eigið geðsjúkdómamat (t.d. árangur í sunnudagskrossgátu moggans en það próf gefur Becks-kvarðanum ekkert eftir) er ég að hressast. Eftir hroðalega erfitt kast, sem ég lýsi einhvern tíma seinna. Til að dreifa huganum er gott að blogga … ekki get ég hangið yfir hannyrðum allan minn vökutíma 😉

  3. Gott að þú sért að hressast! Og fínn pistill.

  4. Ingibjörg on October 20, 2011 at 13:51 said:

    Takk fyrir góð skrif, endilega halda áfram 😉

  5. Kannski rétt að taka fram að nú í lok apríl 2012 er ég orðin hjartanlega sammála Steindóri J. Erlingssyni. En það er ágætt að sjá hvers sinnis ég hef verið í október 2011.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation