Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld

Silkijakki frá 17. öldTalsvert hefur varðveist af skrautlegum útprjónuðum jökkum/treyjum frá 17. öld og má sjá þá á söfnum í Evrópu og Ameríku. Þeir eru munsturprjónaðir úr silki í tveimur litum eða silki og gull- eða silfurþræði. Stundum eru brugðnar lykkjur notaðar til að stykkið líkist damask-vefnaði (brókaði-vefnaði) en einnig til að draga enn frekar fram útprjónaða munstrið. (Til eru margar silkiprjónaðir treyjur með eingöngu einlitu útprjóni, svokölluðu damaskprjóni, en þær eru ekki til umræðu í þessari færslu. Stundum var saumað út í damaskprjónuðu treyjurnar.)

Mynstrin eru yfirleitt blómamynstur einhvers konar. Þau eru eftirlíkingar af munstrum ofinna silkidúka/silkiklæðis frá sama tíma, þ.e. á sautjándu öld. Silkiþráðurinn sem prjónað var úr var afar fíngerður og prjónarnir hljóta að hafa líkst nútímatítuprjónum að gildleika.

Silkitreyjurnar skrautlegu eru ekki prjónaðar í hring heldur saumaðir saman úr ferhyrndum stykkjum, sem hefur gefið þeirri hugmynd undir fótinn að efniviðurinn (stykkin) hafi verið prjónaður í prjónavél. En engar traustar heimildir eru fyrir því að prjónavélar (knitting frames) sem gátu prjónað brugðnar lykkjur hafi verið uppfundnar þegar þessir jakkar voru prjónaðir. (Krækja í stóra mynd af rauðu silkitreyjunni er neðar í færslunni.)

Sænskar heimildir nefna að árið 1685 hafi verið fluttir inn 436 prjónaðir silkijakkar, ýmist útsaumaðir eða ekki, þá væntanlega ýmist damaskprjónaðir eingöngu eða útprjónaðar með mislitu garni. Í dönskum vörulistum frá 17. öld eru taldar upp „nátttreyjur“ (orðið var notað um svona jakka, auk þess sem það merkti einlita damaskprjónaða jakka úr silki eða ull) úr silki, sumar „baldyrede“, þ.e.a. útsaumaðar með gull- eða silfurþræði. Má sem dæmi nefna skrá yfir lager kaupmannsins Eriks Jørgensen í Odense árið 1644:
 

6 stykker silche Nattrøyer med sølff och guld bardyret a 14 rdl.
6 stykker dito med flos a 19 rdl.
3 stykker store Mands Nattrøyer a 23 rdl.
1 Grøn silche Nattrøye med sølff och guld uflosset … 33 rdl.
( Østergaard, Else. 1984)

Þegar Leonora Christina var handtekin í London og færð í Bláturn (fangelsi) í Kaupmannahöfn, árið 1663, var hún klædd í silkiprjónaða „nátttreyju”. Eigur hennar voru teknar en seinna fékk hún til baka „tvende Nattrøjer, en silkebunden og den anden af hvidnuppet Tøj …“ Sagt var að Leonora Christina klæddist samkvæmt franskri tísku og má af þessari heimild ráða að silkiprjónaðar treyjur hafi enn verið hátíska seint á 17. öld, raunar voru svona treyjur/jakkar áfram notaðar talsvert fram á 18. öld. Yfirleitt er talið að Danir hafi flutt inn silkitreyjur/silkijakka, jafn damaskprjónaða sem útprjónaða í lit, frá Englandi, jafnvel Skotlandi. Enskumælandi höfundar kalla svona treyjur oft ítalska eða flórentínska jakka. Sjálfsagt eru þessar skrautlegu treyjur ekki upprunnar af einni rót heldur prjónaðir hér og þar í Evrópu þar sem listprjón hafði náð hæstu hæðum. Um þetta er raunar ekkert vitað með vissu.

Talið er að útprjónuðu silkitreyjurnar hafi tilheyrt óformlegum klæðnaði aðalsmanna (af báðum kynjum) og þess vegna sjáist þeirra engin merki á 17. og 18. aldar málverkum; fólk stillti sér nefnilega upp í sparifötunum. Margt bendir og til þess að treyjurnar hafi verið bornar innan undir jökkum eða upphlut.
 
 

Munstur á silkijakka frá 17. öldPrjónaður silkijakki frá 17. öldÍ safni Viktoríu og Alberts í London eru nokkrir svona jakkar (treyjur), allir fremur litlir (brjóstvídd er yfirleitt um 73 cm, síddin er um 55 cm). Jakkinn sem sést hér er 57 cm langur, prjónaður úr grænum silkiþræði og gullþræði (gullhúðuðum silkiþræði). Prjónafesta er 6 lykkjur á sentimetra. Neðst á bol og ermar er prjónaður borði með einföldu einlitu munstri með brugðnum lykkjum. Líklega var meiningin að líkja eftir damaskvefnaði. Jakkinn er saumaður saman og skotið inn geirum á hliðum neðst til að auka víddina. Talið er að geirarnir, sem eru ekki prjónaðir, séu síðari tíma viðbót til að tolla í tískunni. Jakkann má skoða vel á síðu The Victoria and Albert Museum.  Til hægri er teikning af munstrinu ef einhvern skyldi langa til að prjóna sér svona jakka 🙂  Sé smellt á munstrið opnast pdf-skjal.
 
 

Fleiri dæmi um prjónaða silkijakka/silkitreyjur (litlu myndirnar krækja í stórar myndir og upplýsingar um jakkana á Vefnum):
 
 

Silkitreyja frá 17. öld Silkijakki í Listasafninu í Cleveland, Ohio, Bandaríkjunum.
Náttreyja frá 17. öld Útsaumaður silkiprjónaður jakki á Þjóðminjasafninu í Osló.
Silkitreyja frá 17. öld Útprjónuð silkitreyja á Nordiska museet í Stokkhólmi.
 
 
Prjón á 17. öld Silkitreyja á V&A safninu í London.
17. aldar prjón Þessi rauða silkitreyja er geymd á Konunglega Ontario safninu í Kanada. 
Og hér er nærmynd af munstrinu
siklkijakkar á 17. öld Silkiprjónaður kvenjakki í Museo Stibbert, Flórens, Ítalíu.
Kvenjakki í Glasgow Museum, Skotlandi.
Enn einn prjónaði silkijakkinn á V&A safninu í London.

 Eldri en jakkarnir/treyjurnar sem fjallað hefur verið um er jakki sem eignaður hefur verið þýska greifanum Ottheinrich og talinn er með elstu prjónaflíkum sem varðveist hafa í Evrópu. Jakkinn er talinn ítalskur, frá miðri 16. öld, prjónaður úr silkigarni, og af lýsingu að dæma má ætla að brugðnar lykkjur myndi láréttar rendur. Þessi jakki er ákaflega víður sem rennir stoðum undir eigendasöguna því Ottheinrich var ákaflega digur ef marka má samtímamyndir. Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á mynd af jakkanum en hann er varðveittur í Heimatmuseum í Neuberg an der Donau í Bæjarlandi.

Ég reikna með að skrifa einhvern tíma framhaldsfærslur um damask-prjónuðu silkijakkana, sem einnig eru taldir frá sautjándu öld, damaskprjónaðar „nátttreyjur“ úr ullargarni, sem vinsælar urðu í Skandinavíu, og vonandi einnig færslu um silkijakkana sem tvö systkini Leonoru Christinu, þ.e. tvö börn Kirsten Munk og Christians IV Danakonungs, voru klædd þegar þau voru jarðsett laust fyrir 1630. 
 
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Rutt, Richard. A History of Hand Knitting. 1987. Colorado, Bandaríkjunum.

Harlow, Eva. The Art of Knitting. Garments for today from patterns of the past. 1977. William Collins Sons and Company Limited. Englandi.

Hoffmann, Marta. Of knitted “nightshirts” and detachable sleeves in Norway in the sevententh century. Opera Textilia Variorum Temporum. To honour Agnes Geijer on her ninetieth birthday 26th October 1988, s. 131-144. 1988. Statens Historiska Museum. Stockholm, Svíþjóð.

Østergaard, Else. Silkestrikkede trøjer og strømper fra begyndelsen af 1600-årene. Stickat och virkat i nordisk tradition, s. 42-45. 1984. Österbottens museum, Svíþjóð. 

Deborah Pulliam Knitted Silk and Silver: those mysterious jackets. Silk Roads, Other Roads: Textile Society of America 8th Biennial Symposium, Sept. 26–28, 2002, Smith College, Northampton, Massachusetts, Bandaríkjunum. Aðgengilegt á vef, sjá http://digitalcommons.unl.edu/tsaconf/541/
 

2 Thoughts on “Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld

  1. Sæl Hapra

    Mikið er gaman að lesa bloggið þitt.

    Mig vantar upplýsingar um prjón. Ef til vill getur þú aðstoðað mig.

    Er stödd í Kóngsins København og er að skrifa prófverkenfi. Þar sem ég er m.a.að leita af upprunna ullarpeysunnar “islænder” Í bók Vibeke Lind, Strik med nordisk tradition, segir að það finnist heimildir frá 17 öld að þessar tvíbanda peysur hafi verið prjónaðar í Færeyjum og á Íslandi og verið mikil útflutningsvara. En ég finn ekkert sem bendir til þess að íslendingar hafi prjónað tvíbandapeysur. Veist þú um einhverjar heimildir sem staðfesta það að íslendingar hafi prjónað tvíbandapeysur fyrr á öldum?

    Kær kveðja Halla

  2. Kærar þakkir Halla. Ég sendi þér tölvupóst með fróðleik um peysuna hans Knud Rasmussen og því sem vitað er um íslenskt tvíbandaprjón.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation