Geðlækningar og geðveiki forðum

Undanfarið hef ég verið að lesa svolítið um geðlækningar fyrri tíma og reynt að glöggva mig á hugmyndafræði að baki lækningum og viðhorfum til geðsjúkra. Ég er orðin dálítið þreytt á amrísku sjónarhorni í skrifum um sögu geðlækninga eða eilífum tilvitnunum í geðveikrahæli í Frakklandi og Bretlandi og keypti þess vegna bókina Psykiatriens historie i Danmark, eftir að hafa lesið marga feikigóða dóma um þá bók (sem kom út 2008). Bókin stendur algerlega undir væntingum. Kannski er það vegna þess að ritstjóri hennar, Jesper Vacsy Kragh, er sagnfræðingur en ekki geðlæknir/læknir? Altént hefur verið beitt ströngum sagnfræðilegum vinnubrögðum við samningu bókarinnar, þ.e.a.s. frumheimildir skoðaðar gaumgæfilega og reynt að setja umfjöllunarefnið í samhengi við tíðaranda hvers tíma.

Eiginlega er ég bara búin að lesa fyrsta hlutann almennilega, St. Hans Hospital i København 1612-1808, e. Barböru Zalewski. Hún er doktor í sagnfræði og reyndar sérfræðingur í daglegu lífi konungshirðarinnar í Danmörku á 17. öld og 18. öld, svona auk sérfræðiþekkingar í málefnum geðsjúkra á sama tíma … kannski skarast þessi fræðasvið  😉  Það sem vakti einkum athygli mína í þessari umfjöllun var að geðsjúkir höfðu það alveg sæmilegt á þessum tíma miðað við hag almennings í Kaupmannahöfn og umönnun þeirra verður seint talin einkennast af fjandsemi og nauðung.

Í dönskum lögum, allt frá Eriks Sjællandske Lov frá því um 1250, hefur verið að finna samsvarandi grein og í íslenskum lögum, allt frá Grágás, um að ættingjar eigi að sjá geðsjúkum/vitfirrtum farborða séu þeir ófærir um það sjálfir. Danska lagagreinin er raunar enn í gildi því hún hefur aldrei verið felld úr gildi og gengur ekki í berhögg við núverandi lög í landinu. En þótt “frænder” ættu að sjá um sína geðsjúklinga varð æ meiri þörf á að ríkið axlaði þær skyldur og fyrsta geðveikrahúsið, forveri St. Hans spítalans, var sett á fót 1612.

Í þessum fyrsta hluta bókarinnar er reynt að kæfa nokkrar lífseigar goðsagnir. Ein goðsögnin er að á sextándu og sautjándu öld hafi almennt verið talið að geðsjúkir væru haldnir illum anda. Zalewski tínir til heimildir fyrir því að svo hafi aldrei verið, meira að segja var það á könnu presta að greina milli þess hvort menn væru í alvörunni andsetnir eða geðveikir og prestar áttu ekki í neinum vandræðum með að skilja þar á milli. Og vissulega er það rétt að almenningur hafði stundum greindarskerta og geðveika (það var ekki greint þarna á milli) að dári og spéi en raunar höfðu Kaupmannahafnarbúar á 17. og 18. öld hvern þann að skotspæni sem skar sig úr fjöldanum.

Sömuleiðis er borið til baka að fólki í geðrofi hafi verið troðið í rimlabúr sem kölluðust dárakistur. Dárakisturnar voru ekki búr heldur pínulítil herbergi (þau minnstu voru 2,5 fermetrar … mætti kannski kalla þær skápa en örugglega ekki rimlabúr) með naglföstu rúmi, naglföstum kamri, sterkum veggjum og járnhurð. Þær voru byggðar af illri nauðsyn: Það var hreinlega ekki mannafli til að hemja stjórnlausa einstaklinga, sem brutu allt og brömluðu og voru hættulegir sjálfum sér og öðrum. Þetta er t.d. rökstutt með grunnteikningu af dárakistum spítalans frá 1738. Og fólk var ekki haldið í þessum pínuherbergjum til eilífðarnóns heldur sést á skrám spítalans að menn eru settir í dárakistu í stuttan tíma, svo fá þeir aftur að hverfa til sinna venjulegu herbergja þegar æðið rennur af þeim. Raunar kemur fram seint í þessum kafla að spennitreyjan (illræmda nútildags) hafi verið mikil frelsun fyrir þá sem á rann æði því eftir að spennitreyjur komu til sögunnar hafi ekki þurft að færa sjúklinga í sérstaklega rammbyggðu herbergin (dárakisturnar) niðri í kjallara heldur hafi mátt óla þá og leyfa þeim að vera áfram samvistum við aðra sjúklinga í mun skárri vistarverum.

Í bókinni Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga eftir Jón Ólaf Ísberg (útg. 2005) er því aðeins gefið undir fótinn að brennimerking fólks með geðsjúkdóma hafi verið óþekkt uns Kleppur var stofnaður, þ.e. uns „vísindalegar“ geðlækningar hófust á Íslandi. Ég hef svolítið velt þessu fyrir mér en sosum ekki komist að neinni niðurstöðu. Í leit á timarit.is má finna aldargamlar fréttir/frásagnir af melankólísku eða þunglyndu fólki (af báðum kynjum) sem fyrirfór sér en hvergi er neinn dómur felldur yfir því fólki, í rauninni er greint frá slíkum mannslátum á nákvæmlega sama kaldranalega hlutlausa háttinn og hverjum öðrum banaslysum. Sjá t.d. þessa frétt í Þjóðólfi 23.10. 1903:
 
 

Slysför .
Aðfaranóttina 4. þ. m. fyrirfór sér gipt kona frá Hvammi í Lóni Bergljót Jónsdóttir (frá Hofi í Öræfum Þorlákssonar). Hafði hún verið nokkra daga til lækninga á Reynivöllum í Suðursveit, en gisti á Stapa í Nesjum á leiðinni heim til sín laugardagskveldið 3. þ. m. Var horfin úr rúminu um morguninn og fannst dauð í Þveitinni, vatni fyrir innan Bjarnaneshverfið. Hún hafði verið þunglynd um hríð og heilsubiluð, en myndarkona. Var komin hátt á fertugsaldur.

Klassísk eldri dæmi má finna í  íslenskri málsögu, nefnilega af sr. Jóni Halldórssyni sem dó árið 1779. Einn annálaritari ritar að hann hafi verið „gamall klerkur og æðisgenginn“ meðan annar annálaritari segir hann hafa verið „frá sér numinn“. Hvorgur annálaritarinn gerir á nokkurn hátt lítið úr sr. Jóni þótt þeir noti orðalag sem okkur nútímamönnum kann að finnast skondið. Líklega þarf ég að leggjast í annálalestur til að reyna að glöggva mig á því hvort geðbiluðu fólki hafi verið eitthvað öðru vísi lýst en öðrum. Ef marka má bókina um sögu geðlækninga í Danmörku hafa menn tekið geðveiki eins og hverjum öðrum krankleik eða hundsbiti fyrr á öldum, meðan enn var ekkert opinbert geðlækningakerfi.

Hagur geðveikra í geðlækningabatteríinu danska snarversnar þegar komið er fram á 18. öld, þegar J.H. Seidelin varð yfirlæknir á St. Hans árið 1816 og uns hann var settur af, í kjölfarið á kvörtun sjúklings, árið 1831. Fyrir þann tíma virðast menn ekki hafa haft ýkja mótaðar hugmyndir um geðveika, reyndu bara að taka þá veikustu úr umferð, veita þeim sæmilega ummönnun og vonast til að þeim batnaði af sjálfu sér. Sárafáir þeirra sem komu að meðhöndlun geðsjúkra voru læknismenntaðir. En Seidelin var velmenntaður læknir og fylgdi nýjum hugmyndum um að geðsjúkir væru sjúklingar sem þyrftu meðferð á sjúkrastofnun rétt eins og aðrir sjúklingar. Að baki lá auðvitað það húmaníska viðhorf að gera ekki upp á milli sjúklinga eftir sjúkdómum. 

Seidelin taldi mikilvægt að beita læknisfræðilegum aðferðum, „psykiske kurmetoder“ í meðhöndlun geðsjúklinga. Því miður fólust þessar „psykiske kurmetoder“ oft í að aga sjúklinginn með líkamlegum refsingum ýmiss konar. Má nefna böð, spennitreyjur, stóla sem menn voru bundnir í, svelti, uppsölulyf, þorstameðferð (menn fengu ekkert að drekka langtímunum saman) o.s.fr. Það hlálega er að þessi meðferð Seidelins, sem vekur andstyggð okkar nútímamanna, byggði líklega á þeirri nýju hugmyndafræði að geðveiki væri líffræðilegur sjúkdómur („somatisk“), ekki ósvipuðum hugmyndum og eru hvað mest í móð meðal geðlækna nútímans. Ekki hefur varðveist mikið af efni eftir Seidelin sjálfan en samtímamaður hans, læknirinn  F.C Howitz, birti grein árið 1824 þar sem hann gerir grein fyrir þessum nýju „vísindalegu“ hugmyndum, þ.e. að uppruni geðsjúkdóma sé í líffærunum, og segir:
 

Afsindighet [orðið sem þá var notað yfir geðræna sjúkdóma] bestaaer i en Indskrænkning af Fornuften eller Fornuftens Brug formedelst en Sygdom i de materielle Organer for Sjælens Virksomhed. For saa vidt den yttrer sig i Handlingen bestaaer den i en Mangel af fornuftig Selvbestemmelse foranlediget af samme legemlige Aarsag.
 

Ég er ekki komin lengra í bókinni. En það er óneitanlega merkilegt að þær óhuggulegu læknisaðgerðir sem við teljum pyndingar skulu hafa komið til sögunnar þegar menn gerðust vísindalegir, þ.e. þegar læknisfræðin hóf innreið sína í meðhöndlun geðsjúkra.
 
 
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation