Hvernig er hægt að skilja geðlækna?

Síðan ég fór að lesa mér til um geðlækningar, einkum tilraunir geðlækna til að lækna þunglyndi, fyrir rúmu ári síðan, hefur þessari spurningu verið ósvarað. Hvernig stendur á því að geðlækningar eru kynntar sjúklingum sem vísindi, t.d. að þunglyndi stafi af boðefnarugli í heila, að þunglyndislyf lækni þunglyndi í flestum tilvikum, að raflost séu áhrifaríkt læknisráð til að lækna þunglyndi og hafi engar alvarlegar aukaverkanir og margt fleira í sama dúr? Hvernig stendur á því að geðlæknar telja sig hafa vald til að gera alls konar lyfjatilraunir og fleiri tilraunir á sjúklingum sínum algerlega án tillits til þess hvort lyfin eru við þeim geðsjúkdómi sem sjúklingurinn er haldinn og án þess að skeyta, að því er virðist, hætishót um þann skaða sem lyfin og lostin valda? Hvaðan kemur geðlæknum þetta vald og af hverju eru þeir, líklega einir í læknastétt, stikkfrí af einni af grundvallarhugmyndinni í siðfræði lækna, „umfram allt ekki skaða“ (primum non nocere)?

Ein leiðin til að nálgast svarið er að skoða sögu geðlæknisfræða. En þá blasir við það vandamál að sagan er mismunandi skrifuð eftir því hver staða höfundarins er. Skýrt dæmi um þetta er saga norskra geðlækninga, sem hefur annars vegar verið skrásett af geðlækni (Einar Kringlen) og hins vegar af sagnfræðingi (Per Haave). Ég hef hvoruga bókina lesið en af greinum eftir þessa tvo og viðtölum við þá má ráða að sjónarmið þeirra er afar ólíkt. Vinnubrögðin litast af sjónarmiðinu. Eftir að hafa lesið langa yfirlitsgrein eftir Einar Kringlen um sögu norskra geðlækninga var ég satt best að segja litlu nær um hlutskipti sjúklinga í þeirri sögu, greinin fjallaði nefnilega aðallega um merkilega nafngreinda karla í geðlæknastétt, fjölda geðveikrahæla á ýmsum tímabilum, pólítískar ákvarðanir í geðheilbrigðismálum o.þ.h. Í heimildaskránni úði og grúði af greinum eftir merkilega nafngreinda karla í geðlæknastétt. Per Haave vill hins vegar fjalla um aðbúnað sjúklinga, meðferðina sem þeir hlutu á geðspítölum og taka lýsandi dæmi af einstaklingum. Heimildir hans eru aðallega sjúkraskrár og önnur frumgögn af geðveikrahælum/geðspítölum. Það er himinn og haf milli ályktana dregnum af þessum gögnum og ályktana sem dregnar eru af greinum geðlækna í tímaritum, s.s. þeirri opinberu mynd sem þeir hafa sjálfir skapað af sér og sínum störfum. Þetta vandamál, hver skrifar söguna, sést alls staðar í sögu geðlækninga.

Eina íslenska geðlækningasagan er Kleppur í 100 ár eftir Óttar Guðmundsson. Óttar má eiga það að hann reynir að fjalla um sögu Klepps undir mjög víðu sjónarhorni, bindur sig ekki við fræga karla í geðlæknastétt (kannski líka af því þeir eru afskaplega fáir í íslensku sögunni), lætur orð sjúklinga sjást o.þ.h. En það er samt auðséð að hann er alltof háður sínu geðlæknishlutverki, yfir sumt (óyndislegt) er skautað á hundavaði og annað fegrað full mikið fyrir minn smekk. Auk þess er ég búin að finna svo margar villur í bókinni að ég get ómögulega mælt með henni sem traustri sagnfræði. Yfirlitsgrein um íslenskar geðlækningar eftir Óttar í History of Psychiatry (erlendu tímariti) reyndist alveg í anda Einars Kringlen og sagði þ.a.l. fátt um geðlækningar.

Þegar rennt er yfir sögu geðlækninga langt fram eftir síðustu öld blasir við að geðlæknar/taugalæknar voru oftast að reyna að finna lækningu við geðklofa og þegar hún virkaði ekki var henni í skyndi snúið upp í lækningu við þunglyndi. Má nefna lostlækningar og lóbótómíu sem dæmi, seinna meir geðlyfin. Uppfinningarnar voru yfirleitt taldar afar merkilegar og stór skref fram á við í geðlæknisfræðum. Aldrei var nein skynsamleg skýring á því af hverju þessar aðferðir virkuðu. Þær spruttu af tilraunum út í bláinn, svo var sagt að tilraunirnar hefðu gefið frábæra raun (og þar með er hugmyndin um sönnunargildi klínískrar reynslu komin fram), þegar þær náðu lýðhylli geðlækna og í ljós kom að árangurinn var lítill sem enginn, var gripið til þess að beita þeim á aðra geðsjúkdóma, s.s. finna sjúkdóminn sem aðferðin gat gagnast við, og þar var þunglyndi vinsælasti flokkurinn.

Augljóslega voru þessar aðferðir fram yfir miðja síðustu öld hreinustu hrossalækningar. En tveir hrossalækningaruppfinningamenn fengu samt Nóbelsverðlaun fyrir vísindi sín, þeir Wagner-Jauregg fyrir að fatta upp á að smita sýfilisgeðveika með malaríu, og Egan Moniz fyrir að fatta upp á að hræra í framheila geðsjúkra með oddhvössu áhaldi. Hérlendis gripu menn þessar frábæru uppfinningar fegins hendi; að vísu þurfti að framkalla háan sótthita í geðveikum með því að sprauta brennisteinsolíu í vöðva á þeirri malaríulausu eyju Íslandi, hér þurfti sem sagt ódýra eftirlíkingu af frábærri uppfinningu Wagner-Jauregg og líklega var henni beitt á aðra sjúklinga en sýfilisgeðveika. Lóbótómíuna mátti hins vegar framkvæma „vísindalega“ eftir amerísku útgáfunni hér á landi og voru geðlæknar hreint ekki sparir á hana um leið og þeir komust upp á lagið. Í deilum geðlækna hér við Helga Tómasson, sem virðist hafa verið sérlega skynsamur maður og var þ.a.l. alfarið á móti lóbótómíu og raflostum, kom skýrt fram þrá þeirra eftir að beita nýjustu aðferðum og hræðslan við að útlendir kollegar myndu líta niður á þá ef þeir fylgdu ekki stefnum og straumum í geðlækningum. Þeir vildu teljast læknar með læknum og nota tæki og tól (skurðlækningargræjur Bjarna Oddssonar á Landakotssptíala eða eigin ferðaraflosttæki) eins og almennilegir læknar nota tæki og tól.

Eina hrossalækningin sem lifði áfram var raflost. Þar er sama uppi á teningnum og var þegar hinar aðferðirnar voru í tísku; Raflost eru sögð einkar áhrifarík aðferð en enginn hefur hugmynd um hvernig þau virka á heila fólks. Eins og í mismunandi skrifuðum geðlækningasögum er himinn og haf milli þeirra greina sem geðlæknar skrifa um árangur og eftirköst raflosta og þeirra greina sem óháðir aðilar skrifa og byggja á reynslu sjúklinga sem hafa hlotið raflostmeðferð. Í upplýsingabæklingi Landspítala handa sjúklingum um raflost, útg. 2010, segir: „Fólk getur orðið óáttað og skert skammtímaminni getur gert vart við sig, mislengi eftir einstaklingum …“.  Árið 2004 segir í umfjöllun um raflost á Persona.is að raflostum geti fylgt „tímabundin minniskerðing, en ekki langtímaaukaverkanir.“ Geðlæknirinn sem er skrifaður fyrir þessum texta sendi mig tvisvar í raflostmeðferð, vorin 2006 og 2007. Ætli hann trúi því ennþá að raflostum fylgi bara tímabundin minnisskerðing en ekki langtímaaukaverkanir?

Um haustið 2006 var ljóst að tvö ár höfðu þurrkast út úr minni mínu. Og næsta ljóst að mér hafði lítið batnað við raflostin (raunar hafði mér ekkert batnað, sé ég sjálf af heimildum). Samt sendi hann mig aftur í raflost 2007. Vissulega er bókað í sjúkraskrá að ég hafi óskað eftir þessu sjálf, en hvernig á fárveik manneskja á sjö mismunandi geðlyfjum (flest við ýmsum geðsjúkdómum öðrum en þunglyndi, sum ekki einu sinni ætluð við geðsjúkdómum af neinu tagi, sjá má upptalningu í færslunni Lyfjakokteilar eða kemískar lóbótómíutilraunir?) að taka upplýsta ákvörðun? Og þegar ofan í ruglingslegan og tætingslegan hug eftir raflostin 2006 er hamrað á því að mér hafi víst batnað af raflostunum og að til sé aragrúi vísindarannsókna sem sýni fram á ótvíræðan lækningarmátt raflostmeðferðar við þunglyndi? Samskipti okkar geðlæknisins voru auk þess fyrir löngu orðin alveg eins og samskipti konununnar sem fór í lóbótómíu að ráði berklalæknisins síns og vitnað var í undir lok síðustu færslu. Upplýsta samþykkið sem ég skrifaði undir var ekki tekið hátíðlegar en svo að það gleymdist að láta mig samþykkja svæfingarnar ellefu vorið 2007. (Ég þarf varla að taka fram að tímabilið frá vori 2006 fram á mitt ár 2007 þurrkaðist algerlega út úr mínu minni og bættist við eyðuna miklu, a.m.k.  tvö ár fyrir fyrri raflostin. Og minnistruflanir hafa gert mér lífið leitt síðan.)
 

Ég hef sem sagt reynt að skilja AF HVERJU geðlækninum mínum fannst sjálfsagt að senda mig í aðra raflostmeðferð, vitandi hvaða hroðalegu eftirköst sú fyrri hafði. Og af hverju honum fannst sjálfsagt að ég prófaði nýjar og nýjar lyfjasamsetningar og fleiri og fleiri lyf í hærri og hærri skömmtum þótt hann vissi vel að aukaverkanir margra þessara lyfja voru mér þungbærar og alltaf kæmi í ljós að lyfjakokteilarnir gögnuðust ekkert við þunglyndinu. Og af hverju honum datt í hug að sjúkdómsgreina mig með annan geðsjúkdóm (geðhvarfasýki) þótt ég uppfyllti engin skilyrði fyrir slíkri sjúkdómsgreiningu (hvorki staðfest dæmi um maníu eða ólmhug) og miðaði lyfjagjöf við sjúkdóm, sem ég hef aldrei verið haldin.

Ég held ég sé farin að nálgast svarið, þ.e. farin að átta mig aðeins á þankagangi geðlækna, en færslan er orðin nokkuð löng svo ég skrifa framhaldið síðar.
 

P.s. Ég hef áhuga á að láta leiðrétta upplýsingabækling Landspítala fyrir notendur (þ.e. sjúklinga sem eru sendir í raflost). Ætti ég að tala við þann góða landlækni um slíkt? Er kannski heppilegra að samtök á borð við Geðhjálp gerðu athugasemd?
 
 
 
 
 
 

4 Thoughts on “Hvernig er hægt að skilja geðlækna?

  1. Herdís on May 31, 2013 at 21:13 said:

    Það er erfitt að segja hvort er betra. Ætli það sé samt ekki áhrifaríkast að hafa þrýstinginn sem mestan og reyna að fá sem flest svona samtök til að gera athugasemd. Annars ert þú líka ansi öflug bara ein og sér : ) Blogg þitt um geðheilbrigðismál er stórfínt. Haltu endilega áfram.

  2. Tek hatt minn ofan fyrir þér, Harpa. Ég hef engar fræðilegar forsendur til að meta skrif þín um geðlækningar en þau geisla af íhygli og byggja á reynslu. Hvorttveggja gerir athugasemdir þínar bæði sannfærandi og aðkallandi. Takk fyrir mig.

  3. Friðrik Gíslason on January 8, 2015 at 23:57 said:

    Hæ, eru raflost notuð enn hér á landi? Ef svo er er hægt að gera eitthvað við því og öðrum ómannúðlegum aðferðum í notkun! Athugaðu cchr.org sem (CCHR) hefur nefndir í mörgum löndum, láttu mig vita, nýlega fluttann hingað

  4. Já, raflost eru enn notuð hér á landi, meira að segja töluvert mikið notuð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation