Ég held ég skilji geðlækna

  

7 janúar 2011 var ég dregin með valdi frá vinnu minni, sett í lögreglubíl og keyrð á geðdeild. Þar var ég látin dvelja inni í herbergi án nokkura útskýringa hvers vegna. Það var föstudagur og ég fekk engin svör fyrr en á mánudegi eftir að hafa legið fyrir alla helgina með þunga hugun og bugað stolt. Næstu 3 mánuðir eru í móðu – en ég man þó að hurðar deildarinnar voru læstar og ef ég varð hrædd þá fékk ég sprautur og var látin sofa úr mér hræðsluna. Ég fékk ekki að vita hvaða lyf var verið að dæla í líkamann minn né hversvegna – sterkir menn sáu um að halda mér þegar ég barðist fyrir lífi mínu.Læknirinn minn talaði vart við mig og sagði mig sjúka – að ég væri í geðrofsástandi og að það yrði að dæla í mig lyfjum til þess að ná mér góðri. Andlegt ástand mitt var engu verra en fyrri mánuði og ár – geðrofsástand var ekki til staðar. Ég er einhverf og átti því erfitt með að umgangast fólk og horfa í augu þess – vegna vanþekkingar þá þótti ég geðrofsleg.

16 mars 2011 fékk ég sprautu – mjög sterka blöndu ætluð veikustu geðklofasjúklingunum – ég reyndi að kalla á hjálp á meðan 6 stæðir karlmenn héldu mér niðri og girtu niður nærbuxurnar mínar til þess að hjúkrunarfræðingurinn gæti sprautað efninu í rasskinn mína.

Ég var svo hrædd að ég upplifði mig fara út úr líkamanum og horfa á ástandið, andliti mínu var þrýst ofaní koddann svo ég gat ekki andað. Ég upplifði sjálfa mig sem misnotað dýr – því ég var ekki meira í hugum þessa manna en óþekkt dýr sem var ekki kjurrt á meðan það var verið að misþyrma því.

Dögum síðar óskaði ég svara um það hvað sprauturnar höfðu að geyma – mér var sagt að hver sprauta væri inni í líkamanum í 6 vikur – en að endurtaka þyrfti lyfjagjöf á 2 vikna fresti – það var gert í eitt skipti eftir þetta.

2 vikum síðar lá ég nær meðvitundarlaus í fósturstellingu uppi í rúmi hágrátandi – og óskandi eftir mömmu minni við rúmstokkinn. Brjóstin mín voru full af mjólk vegna aukaverkanna lyfjanna svo ég varð að mjólka mig eins og eftir barnsburð. Ég lá fyrir hágrátandi í rúmlega 3 mánuði – aukaverkanir lyfja drápu mig næstum því. Ég var svo kvalin að ég get ekki lýst með orðum hversu veik ég var – mamma mín fór grátandi frá mér og grátbað læknanna að hætta að pynta mig.

Til þess að niðurlægja mig enn frekar var ég látin pissa í glas til þess að athuga hvort ég væri ólétt – læknarnir trúðu ekki að allar þessar breytingar á líkama mínum væru vegna þeirra mistaka – þrátt fyrir að ég hafi sagt þeim að ég ætti engan mann og hefði ekki sofið hjá lengi þá sögðu þeir mig of geðveika til þess að muna eftir því hefði það gerst.

Í 6 mánuði var mér haldið inni á læstri deild, þegar ég reyndi að segja læknunum að ég væri ekki haldin geðrofsjúkdóm þá hristu þeir hausinn og sögðu mig í afneitun. Það var ekki fyrr en ég var send frá deild 33c til kleppspítala að læknar sáu berlega að ég var engin geðrofssjúklingur. Lyfjagjöf var því stöðvuð og fóru næstu 3 mánuðir í það að draga mig fram úr rúmi og halda mér lifandi. Áhrif lyfja vörðu í líkama mínum í 12- 15 vikur og var ég ílla kvalinn í þann tíma – svo ílla kvalin að ég get varla hugsað til þess ástands sem ég var í. Ég bað mömmu mína eitt skiptið að drepa mig – ég gat ekki farið fram úr rúminu, baðað mig eða klætt.
(Úr færslunni Tunglið Tunglið taktu mig og berðu mig upp til skýja!, 10. desember 2012, á larakristin.com, krækt er í afrit á Vefsafninu.)

Þessi lýsing er ekki frá dögum hrossalækninganna miklu, geðlækninga fram yfir miðja síðustu öld, heldur greinir í textanum frá atburðum sem gerðust í hittifyrra. Í færslunni kemur og fram að geðlæknirinn hefur ekki beðið sjúklinginn afsökunar á meðferðinni, þótt Landspítalinn hafi beðið hann formlega afsökunar (þetta var ekki í fyrsta sinn sem sjúklingurinn var lagður inn á geðdeild, haldið í einangrun og gefin sterk geðklofalyf). Sjúklingurinn var síðar greindur einhverfur og hefur aldrei þjáðst af geðklofa, geðrofi eða neinum þeim sjúkdómi sem yfirlæknir geðdeildarinnar greindi hann með og sveifst einskis til að lækna. Forræði yfir barni var dæmt af sjúklingnum vegna þess að hann átti sögu um innlagnir á geðdeild Landspítala – þrátt fyrir að yfirmaður geðsviðs hafi útskýrt fyrir dómstólum að sjúkdómsgreiningin hafi verið röng og að meðferðin sem yfirlæknir geðdeildar stjórnaði hefði valdið geðklofa/geðrofseinkennunum.

Þegar þetta mál komst í hámæli í fjölmiðlum bjóst ég við að einhver geðlæknir myndi tjá sig eitthvað í sambandi við það … má t.d. ætla að sjúkdómsgreining sé alla jafna jafnmikið lottó og í þessu tilviki? Væri ekki rétt að upplýsa almenning um á hvaða vísindum geðlæknar byggja í sjúkdómsgreiningu? Þótti íslenskum geðlæknum þetta dæmi vera það saklaust að enginn sá tilefni til að segja skoðun sína á því? Eða er samtrygging geðlækna á Íslandi svo mikil, þörf þeirra fyrir að snúa bökum saman og slá um sjálfa sig skjaldborg, að enginn þeirra þorir að tjá sig?

Eftir að hafa lesið tvær bækur um sögu geðlækninga í Danmörku (Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983 og Psykiatriens Historie i Danmark), ásamt auðvitað A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac eftir Edward Shorter og talsvert af greinum um efnið, er mér ljóst að:

A) Geðlækningar byggjast ekki og hafa aldrei byggst á vísindalegum grunni. Hér er átt við að orsakir geðsjúkdóma eru jafn huldar og fyrrum, lækningaaðferðir eru sjaldnast studdar vísindalegum forsendum (t.d. veit enginn hvernig raflost virka á heila, forsendur þunglyndislyfja, boðefnaruglið, er getgáta sem núorðið er talin heldur ósennileg, virkni þunglyndislyfja umfram lyfleysu er ekki mælanlega læknisfræðilega (klínískt) marktæk. Um þetta hef ég bloggað margar færslur og vísa í þær helstu, þar sem jafnan er getið heimilda: Nýju lyfin keisarans, Virka þunglyndislyf eða er verkunin aðallega lyfleysuáhrif? og  Virka þunglyndislyf?

Af því að geðlækningar lúta svipuðum lögmálum og kukl, þ.e.a.s. þær eru byggðar á ósönnuðum tilgátum og vísindalegum tilraunum sem ekki hafa sýnt þær niðurstöður sem geðlækningar vilja hafa fyrir satt, er skiljanlegt að yfirlækni á íslenskri geðdeild finnist sjálfsagt að sprauta sjúkling með sterkum geðlyfjum eftir greiningu sem byggð er á tilgátu út í bláinn eins og lýst var í dæminu hér að ofan. Klínísk reynsla þessa læknis er væntanlega að margir sjúklingar með uppástöndugheit verði mun rólegri þegar búið er að sprauta þá duglega með þessum lyfjum og mætti kalla það að sjúklingunum batni við læknisaðgerðina. Þetta er ekki ósvipað og álit geðlækna á síðustu öld var á gagnsemi sjóðheitra baða, brennisteinsolíusprautunar í vöðva, lóbótómíu og daglegra insúlínlosta við geðveiki af ýmsum toga.
 

B) Geðlæknum var og er mjög í mun að teljast vísindamenn meðal annarra lækna og meðal almennings. Í sögu geðlækninga úir og grúir af vísindalega þenkjandi geðlæknum/taugalæknum sem bjuggu til vísindalegar skýringar á aðferðum sínum eftir á (alveg eins og þunglyndislyfjaframleiðendur nútímans stunda með góðum árangri), t.d. upphafsmaður raflostmeðferðar, Cerletti, sem setti fram þá tilgátu að raflost létu heilann framleiða örvandi efni sem hann kallaði „agro-agonime“ eftir að geðlæknar fóru í stórum stíl að stuða heila sjúklinga sinna. Eða Þórður Sveinsson sem ályktaði um samband truflunar í svitakirtlum og geðveiki eftir að hafa áratugum saman sett sjúklinga sína í heit böð.

Ágætt dæmi úr nútímanum, um hvernig reynt er að skjóta vísindalegum stoðum undir þunglyndislyfjagjöf (sem hvílir á brauðfótum), er yfirlýsing Evrópsku geðlæknasamtakanna um þunglyndislyf, en álit þeirra reynist, þegar öllu er á botninn hvolft, hvíla á klínískri reynslu sem er ómælanleg með öllu. (Um þessa yfirlýsingu er fjallað í færslunni Afstaða evrópskra geðlækna til þunglyndislyfja og krækt í hana þaðan.)

Saga geðlækninga er lituð af þrá geðlækna til að teljast læknar með læknum og er gott að skoða raflost sérstaklega í því sambandi:

Helgi Tómasson sagði um raflost árið 1955:
 

 Þótt trú fólks á lyf sé mikil, mun sönnu næst, að mun meiri sé trú þess á alls konar „tæki“, og á það ekki síður við um læknana sjálfa. Hér fengu geðlæknar upp í hendurnar tæki, sem lét gerast eitthvað, sem þeir og fólk sáu, tæki, sem var auðvelt í meðförum og fljótt álitið virtist ekki gera skaða, eða a.m.k. ekki mikinn skaða. Það var því freistandi að nota það, stundum meira en minna. Samvizkuna mátti friða með því, að eitthvað hefði verið gert og e.t.v. hefði sjúklingnum reitt verr af, ef það hefði ekki verið gert.
(Sjá færsluna Raflost við geðveiki hérlendis, þaðan sem vísað er í heimildir og vitnað í mismunandi sjónarmið íslenskra geðlækna á sjötta áratug síðustu aldar.)

Í bókinni Unhinged, sem kom út árið 2010, segir geðlæknirinn David Carlat um raflost (í kaflanum The Seductions of Technology, s. 167-68):
 

   The major problem with ECT is identical to the problem with psychiatric medications. While ECT works, we have no idea how or why. […] I wonder why psychiatrists need to be present at all. My role was the pusher of buttons, the turner of dials, and the observer of brain waves. [- – -] If something went wrong, and the patient had a cardiatric arrhythmia or a drop in blood pressure, I moved out of the way, and let the specialists sweep in to administer emergency treatment. [- – -]
    But if we left ECT to techs, we would lose the only technical procedure that we can call our own. This would be another insult to our sense of being part of the community of physicians.

Saga geðlækninga frá því á 19. öld hefur einnig á stundum markast af baráttu geðlækna gegn almenningi, þ.e.a.s. hve mikilvægt þeim hefur þótt að afneita því að almenningur, t.d. sjúklingar, hefði minnsta vit á geðsjúkdómum og meðferð þeirra. Deilur Knuds Pontoppidan við Amalie Skram o.fl. (sjá færsluna Danskar geðlækningar 1850-1920) snérust að hluta til um þetta, grein Guðfinnu Eydal um kaffæringar og illa meðferð á sjúklingum á Kleppi í tíð Þórðar Sveinssonar og svar Þórðar við gagnrýninni eru líka gott dæmi um vörn geðlæknis gegn áliti sjúklings byggðu á heilbrigðri skynsemi. (Sjá færsluna Upphaf geðlækninga á Íslandi.)

Í tilviki sjúklingsins sem ég vitnaði í efst í þessari færslu var eftir atvikin sem hún lýsir sett sem skilyrði fyrir þjónustu geðsviðs að sjúklingurinn tjáði sig ekki í fjölmiðlum (sjá færsluna Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi?). Ef illmögulegt er að verja „læknismeðferð“ fyrir heilbrigðri skynsemi almennings er kannski best að ekkert vitnist. Til eru dæmi þess að sjúklingurinn sjálfur sé ekki upplýstur um sjúkdómsgreininguna sem bendir til að geðlæknar telji almenning ekki botna mikið í þeirra miklu fræðum og því óþarft að nefna þetta. (Sjá fréttina Siðanefnd læknafélagsins fær á baukinn, í DV 9. feb. 2012.) Sjálf hef ég reynslu af því að vera „sagt upp sem sjúklingi“ af því geðlækninum mínum fyrrverandi hugnaðist ekki að ég fjallaði um geðlækningar á bloggi, eigin sjúkrasögu þar með talda (sjá færsluna Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs).

Af þessum dæmum dreg ég þá ályktun að allt frá í árdaga geðlækninga og til dagsins í dag hafi geðlæknum líkað einkar illa að ótíndur pöpullinn byggði á eigin skynsemi um geðlækningar eða læsi sér til um geðlækningar, svo ekki sé talað um að hann tjái sig um reynslu af geðlækningum. Landsaðgangur að vísindatímaritum um geðlæknisfræði hlýtur að fara í taugarnar á þeim einhverjum …
 

C) Til að styrkja stöðu sína standa geðlæknar saman, forðast gagnrýni, forðast jafnvel gagnrýna hugsun, og gæta að orðspori stéttarinnar. Edward Shorter hefur bent á að geðlæknar séu „líklegri til að stjórnast af hjarðhegðun en læknar í öðrum greinum læknisfræðinnar, þar sem raunveruleg þekking á orsökum sjúkdóma auðveldar mönnum að halda meðferðartískubólum í skefjum“ (bls. 5 í Before Prozac: The troubled history of mood disorders in psychiatry, útg. 2009, tilvitnun tekin úr Steindór J. Erlingsson. Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni. Tímarit félagsráðgjafa, 5(1): 5-14, 2011.) Geðlæknar tjá sig ekki um geðlækningar starfsbræðra sinna (af báðum kynjum), þeir halda hjörðinni saman og gæta þess að enginn rási útundan sér. Eina undantekningin frá þessu sem ég hef rekist á er Helgi Tómasson, sem ekki lét rekast í hóp íslenskra geðlækna á sínum tíma.

Geðlæknar spyrja sig ekki óþægilegra spurninga heldur taka orð hver annars fyrir sönn og hlúa þannig að nútímagoðsögum. Dæmi um þetta er sú „staðreynd“ sem þeir halda gjarna á lofti að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla. (Sjá um þetta t.d. erindi Arnþrúðar Ingólfsdóttur og Gloriu Wekker, „Staðreyndir lífsins“ Orðræða geðlækna um tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna og færsluna Þjóðsagnir um þunglyndi og konur.)

Geðlæknum er sumum illa við að sjúklingar þeirra leiti álits annarra (ein ávirðingin sem fyrrum geðlæknir minn ber mér á brýn er að ég hafi talað við sálfræðing án þess að biðja hann leyfis fyrst) og vilja halda á lofti sinni sjúkdómsgreiningu á sínum sjúklingum fram í rauðan dauðann (eins og saga Matthildar Kristmannsdóttur er gott dæmi um, sjá bloggfærslu hennar Heilbrigðiskerfið brást og viðtalið Kvaldist í þrjú ár vegna læknamistaka í Fréttatímanum 31. jan. 2013).

Geðlæknar gæta þess síðan í hvívetna þegar þeir fjalla um geðlækningar (t.d. í fjölmiðlum og sögulegum skrifum) að ekki falli blettur á stéttina, þar er enga gagnrýni að finna heldur minnir umfjöllun yfirleitt á aðlaðandi trúboð.

Ég held sem sagt að ég sé langt komin með að skilja geðlækna, að skilja af hverju geðsjúkdómurinn (greindur með réttu eða röngu) skiptir í þeirra huga meginmáli, sem og (óvísindalegar) læknisaðgerðir við sjúkdómnum, en sjúklingurinn sjálfur skiptir litlu máli. A, B og C liðirnir í færslunni, og færslurnar á undan þessari, skýra hirðuleysi geðlækna um aukaverkanir, upp í stórskaðlegar aukaverkanir, af læknisaðferðum þeirra. Umfjöllunin svarar líka spurningu sjúklingsins sem ég vitnaði í fremst í færslunni:

Lífið mitt er markað af mistökum eins læknis  – afhverju fær hann að sofa vel á hverju kvöldi en ég þjáist vegna mistaka hans ?

 

 

 

8 Thoughts on “Ég held ég skilji geðlækna

  1. Helga Volundar on June 3, 2013 at 02:30 said:

    Þessu þarf að dreifa.

  2. Mér fannst dálítið merkilegt að finna í pósthólfinu mínu núna í morgun ábendingu um nýja grein í New York Times, Heroes of Uncertainty, sem fjallar á sömu nótum um geðlækningar þótt viðhorf til geðlækna sé ólíkt jákvæðar en í minni færslu. Menn komast sem sagt að svipaðri niðurstöðu beggja vegna Atlantshafsins 😉

  3. Karl Löve on June 3, 2013 at 16:00 said:

    Ég samhryggist þér innilega við að hafa lent í höndunum á þessum lögvernduðu dópsölum sem geð”læknar” heita. Ég býð fram stuðning minn ef þú vilt leggjast í baráttu við þetta stórhættulega kukl því það er önnur hlið á þessu.
    Þetta kukl má og er notað sem stjórntæki því eins og þú veist að vegna hroðalegra fordóma hér á landi gagnvart geðsjúkdómum þá er það í höndum þessara kuklara að setja á okkur stimpil geðsjúklings ef þeim hentar. Þegar sá stimpill er kominn á þá er ekkert hlustað á þig.
    Þetta er grafalvarlegt mál að þessi “vísindi” fái að grassera hér og það meira að segja á háskólasviði. Það segir meira um gengisfellingu háskólanna en nokkuð annað.
    Kveðja, Karl Löve

  4. Er þetta nú ekki nokkuð djúpt í árinni tekið, Karl Löve? Ég fellst ekki á að geðlæknar séu “lögverndaðir dópsalar” því flest geðlyf geta ekki fallið undir að vera dóp. (Venjulega miða ég við “Hvað gæti ég selt á Hlemmi?” þegar ég met hvort lyf séu dóp eður ei.) Þau hafa hins vegar aukaverkanir, stundum slæmar aukaverkanir.

    Ég fellst heldur ekki á að geðsjúkdómar setji á mann þann stimpil að það sé ekkert hlustað á mann, sem þunglyndissjúklingur til fjölda ára. Það er til fordómafullt fólk, satt er það, en það er sem betur fer í miklum minnihluta, skv. minni reynslu. Ég efast um að geðlæknar beiti sjúkdómsgreiningum markvisst sem stjórntæki á mann og annan. Þeir mættu hins vegar hafa það í huga að geðsjúkdómagreiningar eru ævinlega huglægar og eru ekki vísindi – þess meiri ástæða til að vanda sig við svoleiðis greiningar.

    Hugmyndafræði geðlækninga segir ekkert um gengisfellingu háskólanna. Háskólar kenna fullt af greinum sem einkennast af túlkun en ekki staðreyndum, t.d. mitt eigið fag (íslenskar bókmenntir). Túlkunarfræði eru jafnvönduð fræði og raunvísindi. Skekkjan í hugmyndafræði geðlækninga er fólgin í því að líta á þær sem raunvísindi. Bara það að viðurkenna að geðlækningar eru fyrst og fremst hugvísindi en ekki raunvísindi myndi, að mínu mati, skila miklum árangri til bóta.

    Takk fyrir tilboðið um stuðninginn 🙂 Ég ætla svo sem ekki að leggjast í sérstaka baráttu við geðlækna, kann vel við þá suma. Ég ætla hins vegar að halda áfram að blogga um hve hæpnar forsendur geðlækningaaðferða margra eru og af því bloggið mitt er mest heimsótt gegnum Google og gúgglast prýðilega (færslur um geðheilbrigðismál meðtaldar) er ágætt að sú umfjöllun liggi frammi til mótvægis við algengan áróður. Þar á ég t.d. við almennt samþykktar goðsagnir um virkni þunglyndislyfja og meinleysi raflosta. Svoleiðis áróður er rekinn af mörgum, ekki bara geðlæknum, enda eðli goðsagna að verða almenningseign.

  5. Herdís on June 3, 2013 at 17:21 said:

    Nú útskrifast fólk frá sálfræðideild Háskóla Íslands með B.S. gráðu í sálfræði en ekki B.A. gráðu. Hvað finnst þér um það Harpa?

  6. Mér finnst það ekki skipta neinu máli hvort lægsta háskólagráða er kennd við listir eða vísindi … heiti gráðunnar er ævagamalt og líklega hippsum happs hvorum megin hryggjar nýrri fög liggja. Doktorsgráða er ævinlega skammstöfuð Phd., sem er stytting á philosophiae doctor … eru menn þó oftast doktorar í öðru en heimspeki 😉 Svoleiðis að ef menn vilja kalla lægstu háskólagráðu í sálfræði B.S/B.Sc þá tengist það svo sem ekkert endilega vísindum, þannig lagað.

  7. Þetta er frábær grein og frábær síða, ég verð bara að segja. Virkilega vel skrifaðar greinar. Ég hélt að greinin um geðlækningar í Danmörku væri hluti úr einhverri mastersritgerð þegar ég rakst fyrst á hana. Það er svo mikil þörf fyrir þessar upplýsingar, erfitt að verða sér úti um upplýsingar á Íslandi um þessi erfiðu mál. Sjálfur held ég reyndar að þetta með ofbeldi og stjórntæki séu engar ýkjur. Og annað í þessu er að geðlæknar trúa fyrst og fremst á líkamlegar orsakir sem eru líklega ekki til einar og sér, meðan þorri almennings trúir á að atburðir og annað í lífi einstaklinga vegi þyngst sem er að koma í ljós að sé nærri sannleikanum. Fyrir utan það að geðsjúkdómar eru náttúrulega ekki til, þú veist það og það er önnur saga.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation