Monthly Archives: February 2014

You are browsing the site archives by month.

Leit í læknisfræðilegu efni á ensku á Netinu

Þetta dæmi er af sjúklingi sem ekki hefur fengið bót meina sinna í heilbrigðiskerfinu; hefur gengið milli lækna af ýmsu tagi og prófað ýmis læknisráð án árangurs. Sjúklingurinn er með verki sem ekki finnst skýring á, í þessu tilviki í kjálka. Í stað þess að læknar upplýsi hann um að í fjölmörgum tilvikum kunni læknisfræðin enga skýringu á verkjum eða ýmsum öðrum krankleik er sífellt lagt til að sjúklingurinn leiti til nýs og nýs sérfræðings í nýjum og nýjum greinum. Sjúklingurinn nennir loks ekki að taka þátt í frekari læknisleik og ákveður að kynna sér málið sjálfur.

Forsagan felur í sér að sjúklingurinn hefur lesið sér talsvert til á „ófræðilegum“ vefsíðum, t.d. Wikipedia-síðum eða upplýsingasíðum fyrir almenning. Það er almennt langbest að byrja á að lesa svoleiðis yfirlit, þótt ekki sé nema til að læra helsta orðaforða um sinn sjúkdóm.

Hvar á að leita upplýsinga?

Efni sem læknar taka mark á (þ.e. ritrýnt efni eftir aðra lækna eða þá sem hafa háskólagráðu í heilbrigðisvísindum) er skráð í ýmsa gagnabanka. Það er ekki sérlega árangursríkt að leita beint í þeim, aðallega af því það er svo seinlegt. Gagnabankarnir henta kannski betur læknum sem vilja velja bestu bitana fyrir sig, stunda það sem kallað hefur verið á lélegri íslensku „kirsuberjatínsla“,  þ.e.a.s. leita staðfestingar fræðinga á því sem fellur að þeirra eigin fyrirfram skoðun.

 

Hvernig á að leita upplýsinga?

Langöflugasta leitarverkfærið er enn og aftur Google, í þetta sinn sá angi þess sem kallaðist „Fræðasetur Google“, þ.e.a.s. scholar.google.com.  Þetta tól Google leitar í fræðigreinum í tímaritum, sem mörg eru aðgengileg í landsaðgangi, fræðibókum,en hluti þeirra er oft aðgengilegur á Google books, og fleiru efni. Það er auðvelt að stilla leitartólið og því tiltölulega fljótlegt að finna þær upplýsingar sem notandi er á höttunum eftir. Síðan má nota efni úr þeim, t.d. heimildir sem þær vísa í, til enn markvissari leitar (ef sjúklingurinn hefur hug á að gerast sérfræðingur í eigin sjúkdómi).

Hér að neðan sést skýringarmynd af Google scholar, stillingum og hvert krækjur vísa. Útskýringar eru fyrir neðan myndina. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.

Stillingar á Google Scholar

Lengst til vinstri eru stillingar sem voru valdar áður en leit hófst. Hér var valið að leita að efni frá 2010 til dagsins í dag. Stillt var á „Sort by relevance“ sem þýðir að upplýsingum er raðað eftir því hve vel þær tengjast leitarorðinu/leitarorðunum. Hakað var við „include citations“ til að sjá hvar hefur verið vitnað í efnið (sem gæti gefið vísbendingar um gæði þess).

Leitarorð geta verið mörg, í þessu tilviki er leitað að „atypical facial pain“ (ódæmigerðum andlitsverk). Önnur leitarorð sem hefðu komið til greina væru „myofascial face pain“ (andlitsverkir sem tengjast bandvefsvandamálum), „facial neuralgia“ (taugaverkir í andliti), „persistent idiopathic orofacial pain“ (stöðugur óútskýrður verkur í neðri hluta andlits eða munnholi) o.s.fr. Sjúklingurinn veit nú þegar að hann er ekki með TMD (Temporomandibular disorder, þ.e.a.s. einhverja skemmd sem tengist kjálkalið) og ekki með Trigeminal neuralgia (vangahvot, verki sem tengjast þríburatauginni) svo hann er ekkert að ómaka sig við að leita eftir þeim leitarorðum.

Fyrsta greinin sem kemur upp er aðgengileg sem vefsíða en einnig fylgir krækjan Landsaðgangur. Sé smellt á Landsaðgangur opnast nýr gluggi sem er hluti af landaðgangsleitarvélinni (bein slóð á landsaðgengi að greinum er hvar.is). Í þeim glugga kemur fram í hvaða gagnabanka greinina er að finna, í hvaða tímariti hún birtist, hvenær, á hvaða blaðsíðum o.s.fr. Vilji maður lesa grein í landsaðgangi er smellt á Go. Þá opnast greinin í viðkomandi tímariti, í þessu tilviki Scandinavian Journal of Pain. Þess ber að geta að oft er nýjasti árgangur fræðitímarits ekki aðgengilegur í landsaðgangi.

 

Hvernig á að meta leitarniðurstöðurnar?

Sjúklingurinn sem er að leita sér upplýsinga tekur eftir því að þótt Google Scholar raði greininni úr Scandinavian Journal of Pain efst í leitarniðurstöðum (vegna þess að leitarorðin koma fyrir í röð snemma í greininni) virðist þetta ekki talin mjög merkileg grein (eða háttskrifað tímarit). Það sést á því að einungis 4 hafa vitnað í hana síðan hún birtist: Cited by 4 gefur sumsé ákveðnar vísbendingar.

Neðar á fyrsta skjá birtast mun álitlegri krækjur (smelltu á myndina til sjá hana stærri):

Vægi greina á Google Scholar

 

Krækja í efni sem hefur verið vitnað í af 104, stærstur hluti þeirra eru væntanlega fræðimenn sem vitna til þessa efnis í sínum fræðiskrifum, virðist álitleg. Og skv. krækjunni lengst til hægri er efnið aðgengilegt sem pdf-skjal á rússnesku vefsetri (sem kann að vera vegna þess að Rússar eru ekki píetistar í höfundarétti og birtingin því kannski ekki fullkomlega lögleg … en það varðar sjúklinginn svo sem ekkert um. Raunar er heil bók aðgengileg á þessari slóð þótt Google kræki hér einungis í tólfta kafla hennar.). Það styður einnig meint vægi þessarar greinar að hún hefur birst í 8 útgáfum.

Sjúklingurinn kemst svo að því að þessi grein er í rauninni kafli í bók, Evidence-Based Chronic Pain Management, útg. 2010, og er afar gagnlegt yfirlit yfir andlitsverki af ýmsum toga og jafnt „sannreynd“ sem möguleg læknisráð við þeim. Meginniðurstaða umfjöllunarinnar er, eins og sjúkling grunaði, að læknavísindin vita sáralítið um svona kvilla og flest læknisráðin eru byggð á kerlingabókum lækna og ágiskunum en ekki öruggum rannsóknum.

Önnur grein af fyrsta skjá sem virðist fýsilegt að skoða er þessi sem 42 hafa vitnað í og er aðgengileg á 11 stöðum, birtist í tímaritinu Pain 2010. Þessi grein er aðgengileg sem pdf-skjal, auk þess að vera í landsaðgangi.  Miðað við titilinn fjallar hún um mögulegar orsakir andlitsverkja. Þetta er dæmigerð vísindagrein, skrifuð inn í ákveðið snið (template) eins og þær eru flestar.

Í næstu færslu verður fjallað um snið dæmigerðra læknisfræðigreina og hvernig sjúklingur getur nánast strax metið hvort borgar sig að lesa gegnum svoleiðis grein. Einnig verður fjallað um orðaforða í svona greinum; hvernig finnur maður hvað orðin þýða á íslensku og hvað er hægt að gera þegar íslensku heitin (íðorðin) eru gersamlega óskiljanleg?

Þessi færsla er framhald af færslunum:

Geðveik handavinna

Emil Kraepelin (1856-1926) var þýskur geðlæknir sem stundum er kallaður „faðir nútíma geðsjúkdómagreininga“. Hann lagði mikið kapp á að stúdera geðsjúka og flokka geðsjúkdóma eftir einkennum. Áhrif Kraeplin á geðlækningar um og fyrir aldamótin 1900 voru gífurleg. Hann gaf út marga doðranta um niðurstöður sínar og birti þar m.a. ljósmyndir af dæmigerðum geðsjúklingum enda taldi hann að mætti talsvert styðjast við útlitið eitt og sér til að greina sjúklinginn rétt. Fleira mátti nota til sjúkdómsgreiningar að mati Kraepelin, svo sem handskrift og jafnvel hannyrðir sjúklinganna.

Í sumum rita sinna lýsir Kraepelin sárasóttargeðveiki, þ.e. geðveiki af völdum sýfilis (dementia paralytica), sem var skelfilegur ólæknandi sjúkdómur og helsta áhyggjuefni geðlækna fram yfir heimstyrjöldina síðari en þá kom pensillín á markað og sárasótt varð auðlæknanleg. Kraepelin segir:

Ég á smásafn af hannyrðum sýfilisgeðveikra kvenna. Þar eru léleg vinnubrögð áberandi, stórar lykkjur, meiriháttar villur og lykkjuföll. Samfara þessu kemur geðveikin fram í undarlegri lögun, sérstaklega sokkanna; einn sjúklingur prjónaði þrönga endatotu á stærð við fingur á ólögulegan sokkabolinn, annar prjónaði endalausan strokk, sá þriðji lokaði sokknum í báða enda.
(Emil Kraepelin. Psychiatrie: Ein Lehrbuch für Studirende und Aerzte, útg. 1899, hér þýtt eftir enskri útgáfu frá 1913.)

Kraepilin insane knitting

Sokkurinn sem var lokaður í báða enda.

Líklega er það liðin tíð að geðlæknar greini sjúklinga eftir vinnubrögðum í hannyrðum.

 

Jakki Agnesar

Agnes Richter's jacket

Jakki Agnesar Richter

Af öðru tagi er hinn frægi jakki Agnesar, sem varðveittur er á Prinzhorn safninu í Heidelberg, Þýskalandi. Jakkinn var ekki verkfæri til sjúkdómgreiningar heldur mögulega eina verkfærið sem sjúklingurinn hafði til að tjá sig.

Agnes Richter var þýsk saumakona sem var lögð inn á geðsjúkrahúsið Hubertusburg (ekki langt frá Leipzig) laust fyrir aldamótin 1900. Nær ekkert er vitað um ævi hennar og sjúkdóm en giskað hefur verið á að hún hafi þjáðst af geðklofa.

Þessi jakki var var hluti af einkennisklæðnaði sjúklinganna í Hubertusburg, úr grófgerðu gráleitu lérefti og stimplaður með þvottanúmeri/númeri sjúklingsins, 583. Meðan á sjúkrahúsdvöl Agnesar stóð saumaði hún jakkann sinn allan út. Aðallega eru útsaumuð orð og setningar en einnig teikningar.

 

Jakki Agnesar Richter

Jakki Agnesar Richter

Erfitt eða ómögulegt er að lesa margt sem saumað er í jakkann. Sumstaðar eru ný og ný orð saumuð ofan í eldri orð, leturgerðin er illlæsileg og textinn sem tekist hefur að lesa úr er samhengislaus. Meðal þess sem lesið hefur verið úr eru orðin „ég“ og „minn“, sem eru margendurtekin; „börn“, „systir mín“, „bróðir frelsi? “, „hvítu sokkarnir mínir“, „sokkarnir mínir eru 11“, „Ég er í Hubertusburg / jarðhæð“, „kirsuber“, „engin kirsuber“ o.fl. Fyrir neðan „Ég er í Hubertusburg / jarðhæð“ er klausan „95 A. D. / A. I. B“ sem hefur verið túlkuð sem svo að Agnes hafi lokið við jakkann 1895. Innan á vinstri boðungi stendur „19. Juni 73 geb“ sem e.t.v. er þá fæðingardagur Agnesar. Víðar má lesa ártöl og eitthvað um fatnað (t.d. „jakkinn minn“) en margt er ólæsilegt og engan veginn hægt að vita í hvaða röð á að lesa textann, í hvaða átt á að lesa hann eða hvaða klausur, jafnvel einstök orð, heyra saman. Þvottanúmerið eða sjúklingsnúmerið 583 er saumað út um allt í jakkann.

Ermin á jakka Agnesar

 

Það gerir heldur ekki auðveldara fyrir að Agnes hefur sprett upp jakkanum og saumað hann saman upp á nýtt, t.d. þannig að önnur ermin er nú úthverf. Á ytra byrði er einungis útsaumur á ermunum en jakkinn er þakinn útsaumuðum orðum á röngunni. Sumir hafa túlkað þetta sem svo að Agnes hafi viljað hafa orðin næst sér. Kannski var hún að reyna að fullvissa sig stöðugt um að að hún væri „ég“ en ekki bara sjúklingur númer 583 á Hubertusburg-geðspítalanum?

 

Jakki Agnesar

Útsaumur á röngunni

Titilmynd og myndin af ermi á jakka Agnesar eru birtar með leyfi Liz Aldag, sem tók myndirnar. Þær birtust upphaflega á blogginu hennar, The Lulu Bird, í febrúar 2009.

 

Frekari upplýsingar um jakka Agnesar Richter má fá hér:

Prjónagaldur

Prjónagaldur

Prjónagaldur

Prjón er göldrum líkast: Með afar einföldum verkfærum, prjónum, og mismunandi merkilegum þræði má skapa ótrúlegustu flíkur og form; Áferðin getur verið fíngerð sem kónglóarvefur eða gróf og hnausþykk og allt þar á milli, lögunin getur verið hver sem er.

Prjón og galdrar tengjast raunar svolítið. Fyrsta nafngreinda prjónakonan í Noregi fékk nafn sitt skráð í söguna vegna þess að hún var ákærð fyrir galdra (raunar einnig þjófnað og flæking). Þetta var Lisbet Pedersdatter sem var ákærð ásamt Karen Eriksdatter  fyrir bæjarréttinum í Stavanger árið 1634.

Þær Karen og Lisbet voru förukonur og sáu sér m.a. farborða með göldrum gegn greiðslu og hnupli þegar tækifæri gafst. Í málsskjölum kemur fram Karen hafði haft Lisbet í þjónustu sinni í eitt ár. Lisbet skyldi bera föggur Karenar og prjóna sokka handa henni: „at schulle bere hendes goeds med hende. och spede hosser for hennde‟. Líklegt er talið að Karen hafi selt sokkana sem Lisbet prjónaði. Og að launum fékk Lisbet fæði og klæði.

Í fórum Lisbetar fundust smávegis galdragræjur en auðvitað neitaði hún að kunna nokkuð til fjölkynngi. Ég gat ekki séð hvaða refsing henni var gerð. En þakka má því að galdraákærur voru teknar alvarlega á þessum tíma að nafn og nokkur deili á prjónakonunni norsku hafa varðveist. Yfirleitt er talið að Norðmenn hafi lært að prjóna um svipað leyti og Íslendingar (kannski eilítið seinna þó) þ.e.a.s. seint á sextándu öld eða í upphafi þeirrar sautjándu, svo dæmi Lisbetar Pedersdatter er ómetanleg gömul heimild í norskri prjónasögu.

 

Á galdrasafni í Cornwall héraði á Englandi, The Museum of Witchcraft, eru til sýnis tól til galdra með prjóni. Þetta eru glerprjónar og hálfunnið prjónles úr svartri ull. Myndin efst í pistlinum er einmitt af galdraprjóns-græjunum, birt með leyfi safnsins.

Nú er óvíst hversu gömul þessi tiltekna galdraaðferð er en leiðbeiningarnar sem fylgja eru svona (lauslega snarað):

Nota skal nornaprjóna, þ.e. grófa, sljóa (ekki oddhvassa) prjóna úr gleri. Svart ullargarn hentar til bölbæna og hefndargaldurs, aðrir litir eru prýðilegir til hvítagaldurs. Sem hver lykkja er prjónuð skal söngla galdurinn (bölbænirnar eða annan galdur). Þegar þetta þykir hafa verið endurtekið nógu oft er prjónlesið tekið af prjónunum og brennt.

Eigi einhver prjónakona harma að hefna mætti kannski prófa svona galdur?

 

Frekari upplýsingar má sjá hér:

 

Meistarastykki

Agnus Dei knitting

Lamb guðs, miðja prjónateppis

 

Frá því á fjórtándu öld varð handprjón lögvernduð iðngrein víða í Evrópu, þ.e.a.s. prjónameistarar störfuðu í samtökum sem kölluð voru gildi. Eftir því sem prjónagildum óx fiskur um hrygg urðu inntökuskilyrði strangari. Talið er að á sautjándu og átjándu öld hafi tekið allt upp í sex ár til að læra til meistararéttinda í prjóni. Að sjálfsögðu voru bara karlmenn í þessum prjónagildum eins og í flestum iðngildum öðrum á þessum tíma.

Misjafnt var  hvers lags stykkjum prjónasveinn þurfti að framvísa til meistararéttinda en víða á svæðum sem lutu þýskri stjórn var prjónateppi eitt þeirra. Teppi er kannski dálítið misvísandi orð því svona meistarastykki voru notuð sem veggteppi, borðdúkar, rúmábreiður o.fl. Skv. heimildum tók það prjónasvein oftast 2-3 mánuði að prjóna teppi en dæmi eru um að það hafi tekið hálft ár eða verið full vinna árið allt.

Fyrir heimstyrjöldina síðari voru þekkt 28 slík teppi/reflar en a.m.k. átta þeirra voru eyðilögð í stríðinu (flest í Póllandi). Nú er vitað með vissu um 18 af þessum meistarastykkjum auk eins sem er óheilt. Þau eru dreifð um söfn í Evrópu og í Bandaríkjunum eða jafnvel í einkaeigu. Flest þekktustu teppin eru frá Slésíu (héraði sem er nú í Póllandi) og Alsace/Elsass (sem ýmist hefur tilheyrt Frakklandi eða Þýskalandi.

 

Knitted carpet

Jean George Mueller prjónaði þetta teppi 1748.

 

Þetta teppi er varðveitt í Musée de l’Œuvre Notre-Dame í Strassburg. Það var prjónað í Alsace/Elsass árið 1748. Nafn prjónameistarans er þekkt, Jean George Mueller. Teppið er 1,92 x 1,70 metrar, prjónað úr tíu mismunandi litum af ullargarni. Í miðjunni er mynd af guðslambinu og textinn sem aðskilur borða á jöðrum og aðalmyndina er úr velþekktum páskasálmi frá Alsace/Elsass:

O lamb Godes unscvltig am stamen des creidz geschlact alzeid gefvnten gedvldig wiewol dv wahrest veracht ale sind has dv gedragen sons miesten mir verzagen erbarm dich vnser o Iesv gib vns den friten o Iesu Amen.

 

Knitted carpet

Þetta teppi er líka meistarstykki frá Alsace/Elsass, frá 1781. Það er varðveitt í Victoria & Albert Museum í London. Teppið er 193 sm að hæð og 174,5 sm breitt. Myndefnið er eitt af þeim vinsælustu á prjónateppunum frá Alsace, þ.e.a.s. Draumur Jakobs. Í stuttu máli sagt þá var Jakob sá sem plataði frumburðarréttinnn út úr Esaú bróður sínum fyrir baunadisk, lagði seinna land undir fót,  á leiðinni lagði hann sig með stein fyrir kodda og dreymdi merkilegan draum:

Honum þótti stigi standa á jörðu og ná til himins og englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.Þá stóð Drottinn hjá honum og mælti: „Ég er Drottinn, Guð Abrahams, föður þíns, og Guð Ísaks. Það land, sem þú hvílist á, gef ég þér og niðjum þínum. Þeir munu verða fjölmennir sem duft jarðar og breiðast út til vesturs, til austurs, til norðurs og suðurs og allar ættkvíslir jarðarinnar munu blessun hljóta í niðjum þínum. (Sjá 1. Mósebók 25:10 o.áfr.)

Í kringum aðalmyndefnið er textinn: „Hilfe wirt Gott ferner schicken meinen Feinden zum Verdrus.“ (Guð mun halda áfram að senda hjálp þrátt fyrir óvini mína.) Efst í aðalmyndarammanum er svo nafn guðs, Jahve, ritað á hebresku.

Neðst á prjónateppinu sjást þau hjúin Adam og Eva í Paradís, um það bil að fara að gadda í sig eplum af skilningstré góðs og ills.

Sjá má mynd af teppinu og stækkaðan bút úr því á vef V&A safnsins.

 

Enn eitt teppið, frá 1791, má sjá á vef Metropolitan-safnsins í New York, en myndin af því er því miður svarthvít. Í lýsingu ættaðri frá safninu segir að grunnurinn sé grár, mynstrin í bleikum, bláum, hárauðum, grænum, gulum og svörtum litum; tvíhöfða örninn er svartur, ljónin rauð, einhyrningarnir ljósbrúnir og páfuglarnir dökkbláir.

 

Enginn veit hvernig þessi teppi voru nákvæmlega prjónuð, þ.e.a.s. hvort einhvers konar vél eða græja (knitting frame) hafi verið notuð við verkið. Teppin eru prjónuð fram og tilbaka. Flestir eru á því að einfaldlega hafi verið raðað mörgum prjónum í lykkjur hverrar umferðar, giskað er á 3-4 mjög langa prjóna, og prjónað af einum á annan. Sömuleiðis er erfitt að finna upplýsingar um prjónafestu því mörg teppanna voru þæfð, jafnvel svellþæfð og því ómögulegt að greina einstakar lykkjur.

 

Heimildir aðrar en krækt er í úr textanum

Turnau, Irene og K.G. Pointings. 1976. Knitted masterpieces. Textile History 7, s. 7-23.
Turnau, Irene. 1982. The Knitting Crafts in Europe from the Thirteenth to the Eighteenth centuryThe Bulletin of the Needle and Bobbin Club 65:1 og 2, s. 20-42.

 

Lambhúshettur í stríði og friði

Allir Íslendingar þekkja lambhúshettur enda nytsamt höfuðfat í svo köldu landi. En svona höfuðfat er dálítið merkilegt fyrir þær sakir að það er bæði tengt fiskeríi og styrjöldum, börnum og glæpamönnum, útivist og uppþotum og mörgu því öðru sem ólíkt er. Hér verður stiklað á stóru um ólík hlutverk lambhúshetta í rás sögunnar.

Á íslensku þekktust áður bæði nöfnin lambhúshetta og Mývatnshetta skv. Íslenskum þjóðháttum Jónasar Jónassonar, sem fæddist 1856. Í bókinni er þessi mynd af sauðsvörtum eða gráum hettunum til að sýna muninn:

Lambhúshetta eða Mývatnshetta

Nú er fátt hægt að hugsa sér friðsælla en fjárhús fullt af lömbum og íslenska heitið því einkar fallegt. En lambhúshettan hefur samt ekki hvað síst verið vinsæl í stríði. Eiginkonur, dætur og mæður hafa keppst við að prjóna lambhúshettur á sína karlmenn sem hímdu skjálfandi á vígstöðvunum.

Balablava í Krímstríðinu

Balaclava í Krímstríðinu

Á ensku og fleiri málum er lambhúshetta kölluð balaclava. Nafnið er dregið af orustunni við Balaclava, mikilvægri orustu í Krímstríðinu, sem stóð 1853-56. (Í því stríði börðust Englendingar og fleiri við Rússa um yfirráð yfir Krímskaga en hann tilheyrir nú Úkraínu.) Margir halda að lambhúshettan hafi verið fundin upp í þessu stríði en það er ekki rétt því árið 1848 var sótt um einkaleyfi á nákvæmlega eins flík á Englandi. Orustan við Balaclava tengist raunar fleiru í prjónasögu en lambhúshettum því í henni börðust bæði Jarlinn af Cardigan, en eftir honum heita hnepptar peysur cardigan á ensku, og Raglan lávarður en eftir honum heitir sérstök axlastykkisúrtaka (sem á íslensku er gjarna kölluð laskaúrtaka). Sá fyrrnefndi þótti sýna mikla hetjudáð í umræddri orustu en hinum síðarnefnda eru kenndar ýmsar ófarir.

Lambhúshetta úr Þrælastríðinu

Lambhúshetta úr Þrælastríðinu

Þessi lambhúshetta var prjónuð handa John T. Gilmore, yfirforingja og herlækni í liði Suðurríkjamanna í Þrælastríðinu/Bandaríska borgarastríðinu sem stóð 1861-1865. Sem stríðinu vatt fram varð æ meiri skortur á klæði og garni í Suðurríkjunum. Lambhúshettan er greinilega prjónuð úr alls konar afgöngum.

Lambhúshetta fyrir hermenn í fyrri heimstyrjöldinni.

Lambhúshetta fyrir hermenn í fyrri heimstyrjöldinni.

Forsíða þýska kvennablaðsins Die Schachenmayrin í ágúst 1942.

Forsíða þýska kvennablaðsins Die Schachenmayrin í ágúst 1942.

Í síðari heimstyrjöldinni hvöttu allir stríðsaðilar heimaverandi löndur sínar til að prjóna, ekki hvað síst lambhúshettur.

 

 

Lambhúshettur fyrir glæpamenn

Heilar lambhúshettur með göt fyrir augu og munn eru oftast tengdar glæpamönnum.

Í Noregi hefur lambhúshettan verið kölluð finlandshette til skamms tíma. Það heiti er náttúrlega ættað úr stríði.  Norðmenn lögðu nefnilega allt kapp á að prjóna lambhúshettur handa finnsku hermönnunum í Vetrarstríðinu 1939 (en þá réðust Sovétríkin á Finnland). Sagt er að finnski ambassadorinn í Noregi hafi beðið dagblöð nútímans að hættað nota orðið finnlandshetta þegar þeir minnast á lambhúshettu í fréttum því hún er núorðið svo mjög tengd allra handa skúrkum og öfgasinnum í pólitík, sem ekki vilja þekkjast. Það þarf því ekki að koma á óvart að í Svíþjóð er lambhúshettan oft kölluð rånarluva(ræningjahúfa) en stundum skidmask (skíðagríma) sem er ólíkt saklausara orð. Frændur vorir Danir kalla hana hins vegar elefantlue eða elefanthue (fílshúfu) og kann ég enga skýringu á því heiti.

 

Perúsk lambhúshetta

Perúsk lambhúshetta

Kannski áttu einhverjir íslenskir krakkar svona skrautlegar perúskar lambhúshettur áður fyrr, ég veit a.m.k. að tengdamóðir mín prjónaði svona handa sínum krökkum um 1970 eftir að hafa séð mynd af dýrindinu í dönsku blaði. En skrautlegar lambhúshettur eru svo sem ekkert endilega grín svo sem sjá má á næstu mynd.

Pussy Riot

Pönksveitin Pussy Riot og þeirra stuðningsmenn sérkenna sig með litskrúðugum lambhúshettum

 

Til að enda pistilinn á jafn friðsælum nótum og hann byrjaði er mynd af friðsömu íslensku barni í lambhúshettu. Ég veit að margir lesendur kannast prýðilega við lambhúshettur af þessu tagi.

Atli Harðarson

Þetta er skólameistarinn á Akranesi á yngri árum. Myndin var tekin 1961.

 

 

 

Leit að upplýsingum um sjúkdóm á Netinu

Netið er eins og bóksafn heimsins alls: Þar ægir saman vönduðum fræðum, þekkingarmolum og algeru drasli. Vandinn er að skilja sauðina frá höfrunum, að þekkja í sundur öruggar upplýsingar og bull.

Einnig þarf að greina sundur upplýsingar sem kunna að nýtast sjúklingi prýðilega og upplýsingar sem læknir sjúklingsins er líklegur til að samþykkja að séu traustar: Þetta tvennt fer alls ekki alltaf saman. Ein leiðin til að auðvelda manni þetta er markviss leit.

Leit að efni á íslensku

Setjum sem svo að sjúklingur sé með ofvirkan eða vanvirkan skjaldkirtil, annað hvort greindan af lækni eða sjúklinginn gruni að hann þjái annar hvor kvillinn. Ég gef mér, í eftirfarandi texta, að sjúklingurinn sá hafi enga þekkingu á skjaldkirtli og mjög litla reynslu af leit á Netinu.

Líklega myndu flestir byrja á að leita í Google og slá einfaldlega inn leitarorðið skjaldkirtill. (Sé sjúklingurinn alger byrjandi borgar sig að stilla Google líka á Myndir til að sjá hvar þetta líffæri er og hvernig það lítur út.)

Í þessu tilviki reynist venjuleg leit á Google prýðilega: Á fyrsta skjá birtast upplýsingar sem ætla má að séu áreiðanlegar, t.d. krækjur í tvö svör á Vísindavef og krækja í viðtal við innkirtlasérfræðing. En þarna er líka íslensk Wikipediasíða sem er hvorki fugl né fiskur, óvirk krækja í glósur úr einhverju kennsluefni í framhaldsskóla (FSS), bloggsíða sem vísar aðallega í efni annars staðar, síða hómópata (sem kann að vera ágæt en að nefna hómópata við suma lækna virkar svipað og að veifa rauðri dulu framan í naut) og síðan http://skjaldkirtill.info/, sem þrátt fyrir nafnið geymir fáar upplýsingar, skýringar eða fræðslu en er ágætis auglýsing fyrir lækni sem býður þá þjónustu að túlka blóðpróf gegn greiðslu.

Á næsta skjá er líka bland í poka, t.d. síðan http://www.skjaldkirtill.com/. Hún er að vísu merkt lógói Félags um skjaldkirtilssjúkdóma (sem engar upplýsingar eru um) en er langt í frá hálfkláruð auk þess sem enginn ábyrgðaraðili/höfundur er skráður fyrir henni. Almennt borgar sig ekki að taka mark á nafnlausum textum. Þessi síða gæti vel orðið góð einhvern tíma i framtíðinni en stenst ekki mál núna. Aftur á móti má ætla að lestur á síðunni Innkirtlasjúkdómar: vefsíða fyrir læknanema, sem birtist á öðrum skjá í almennri Google leit minni, skili einhverjum áreiðanlegum upplýsingum, auk þess sem hún segir örugglega eitthvað til um hvað læknanemum er innrætt í námi um skjaldkirtilsvandamál.

Markviss leit

Í þessu tilviki er sjúklingurinn ákveðinn í að afla sér fræðslu sem læknir gæti ekki sett út á. Það sem læknar setja ekki út á er aðallega efni eftir aðra lækna, þetta er með afbrigðum samheldin stétt.

Ef sjúklingurinn ákveður nú að leita í Læknablaðinu kemst hann strax að því að leitarvélin þar er handónýt: Leitarorðið skjaldkirtill skilar 7 niðurstöðum. Engar upplýsingar fylgja niðurstöðunum og raunar er augljóst að tvær þeirra, sem báðar heita Eldgos og heilsa, eru ólíklegar til að fræða sjúkling neitt um skjaldkirtilsvandamál.

Sem oft reynist Google besta leitarvélin. En í þetta sinn notar sjúklingur möguleikann á að leita að ákveðnu orði á ákveðnu vefsvæði. Það er gert með því að skrifa í leitargluggann:
site:slóð_vefsvæðis leitarorð

Google Læknablaðið

Þessi leitaraðferð skilar 8 skjáfyllum af því efni þar sem skjaldkirtill er nefndur og er aðgengilegt á laeknabladid.is. Fyrir utan titil hverrar krækju birtast tvær línur af texta þar sem orðið kemur fyrir og oft dugir það samhengi til að sjá í hendingskasti hvort borgi sig að lesa greinina/skoða efnið.

Efni Læknablaðsins sem er aðgengilegt á vef nær ekki nema aftur til ársins 2000. Þess vegna borgar sig stundum að leita í öðru safni læknisfræðilegra íslenskra greina sem heitir Hirsla og er gagnasafn Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þar má finna greinar sem hafa birst í eldri tölublöðum Læknablaðsins en frá 2000 og einnig fræðigreinar sem hafa birst annars staðar. Slóðin er hirsla.lsh.is

Á Hirslu er miklu skárri leitarvél en á Læknablaðinu. Leitarorðið skjaldkirtill skilar þar 17 niðurstöðum, raunar er samt augljóst af titlum að sumar greinarnar fjalla um allt annað. En Google hefur enn vinninginn í að þefa uppi efni: Leit með site:hirsla.lsh.is skjaldkirtill skilar um 30 niðurstöðum og sem fyrr er leitarorðið í samhengi í tveggja línu texta sem auðveldar að sigta út nýtilegt efni.

Ég ráðlegg uppdiktaða sjúklingnum einnig að leita með site:landlaeknir.is skjaldkirtill og site:doktor.is skjaldkirtill. Síðarnefnda vefsetrið hefur því miður fokkað upp sínum innviðum og því er ekki víst að krækjurnar sem Google finnur virki allar en sumar þeirra gera það.

Væri ég að leita að einhverju öðru en fróðleik um skjaldkirtil, segjum fróðleik um hjartsláttartruflanir, mundi ég einnig Google site-leita á skemman.is (safni lokaritgerða í háskólum) en skjaldkirtilsleit skilar þar fáu bitastæðu. (Ritgerðir háskólanema eru afar misjafnar að gæðum, sem annars vegar fer eftir deildum og hins vegar er góð almenn regla að taka ekki alltof mikið mark á BA/BS ritgerðum.) Leitarvélin á Skemmu sjálfri er sama marki brennd og leitarvél Læknablaðsins svo ég mæli enn og aftur með Google site leit.

Loks myndi ég athuga hvort eitthvert efni annað en það sem ég hef þegar fundið er að finna á bókasöfnum og leita í skráningarkerfi bókasafna á gegnir.is. Það kerfi tengir einnig í stafrænt efni (þ.e. efni sem er aðgengilegt á Vefnum).

Niðurstaða

Íslenskt málsvæði er pínulítið og íslenskir læknar ekkert alltof duglegir að skrifa/birta efni. Því tekur skamma stund að finna allt það fræðilega efni sem er í boði um skjaldkirtilssjúkdóma á íslensku, á Netinu. Söm væri raunin með flesta aðra sjúkdóma svo þeir sjúklingar sem geta lesið texta á öðrum málum (oftast ensku) byrja mjög fljótlega að leita sér upplýsinga á þeim. Næsta færsla fjallar um hvernig maður leitar í erlendum fræðigreinum. Þá verður tekið dæmi af öðrum krankleika.

P.s. Þótt þessi færsla fjalli einkum um markvissa leit að sæmilega fræðilegu efni á íslensku um skjaldkirtil/skjaldkirtilsvandamál er ekki þar með sagt að ég telji að annað efni komi sjúklingum ekki að gagni. Umfjöllun um aðra kosti má t.d. sjá í nýlegri bloggfærslu minni, Sjúklingar, læknar og samfélagsmiðlar.

Ef sjúklingur vill setja sig inn í eigin sjúkdóm

eru til þess nokkrar leiðir, sem ég ætla að gera grein fyrir í þessari og næstu færslum. Ég geri fyrirfram ráð fyrir að um sé að ræða sjúkling með þrálátan (krónískan) sjúkdóm eða sjúkling sem ekki telur sig fá fullnægjandi þjónustu frá þeim lækni/læknum sem hann hefur leitað til.

Sjúkraskrá og niðurstöður rannsókna

Fyrsta skrefið hlýtur að vera að setja sig inn í þau gögn um krankleikann sem liggja fyrir. Að frátöldum undantekningartilvikum á sjúklingur rétt á afriti af sjúkraskrá sinni, skv. lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009, enda á sjúklingurinn sjúkraskrána þótt hún sé vistuð á heilbrigðisstofnun. Allar rannsóknarniðurstöður (t.d. úr blóðprufum, myndatökum o.fl.), læknabréf frá sérfræðingum til heimilislæknis o.s.fr.  tilheyra sjúkraskrá.

Sjúklingur þarf ekki að gefa upp neina ástæðu fyrir ósk um afrit af sjúkraskrá og á að hafa samband við „umsjónarmann sjúkraskrár“ sem er yfirleitt ekki læknir sjúklingsins heldur annar aðili, gæti t.d. verið yfirmaður heilsugæslustöðvar. Líklega er best að hringja í ritara heilsugæslustöðvar/sjúkrahúss/læknis til að kanna hvaða aðili þetta er. Sjá nánar um þetta síðuna Sjúkraskrá á vefsetri Embættis landlæknis og svör Persónuverndar við spurningum um aðgang að sjúkraskrá (og gögnum tengdum örorkumati, sem verður að hluta að sækja á grundvelli persónuverndarlaga og að hluta á grundvelli upplýsingalaga).

Oftast þarf læknir sjúklingsins að lesa yfir sjúkraskrána áður en hún er afhent til að afmá allt sem haft er eftir þriðja aðila, þ.e.a.s. upplýsingar sem ekki eru frá sjúklingi eða heilbrigðisstarfsmanni komnar. Þetta er í verkahring læknisins og óþarft fyrir sjúkling að vorkenna honum fyrir þessa vinnu, þetta er ekki ólaunuð aukavinna eða greiði við sjúklinginn.

Sjúklingur kann að þurfa að borga fyrir afritið, það er misjafnt eftir stofnunum innan heilsugæslunnar.

Í samræmi við fyrrnefnd lög er ágæt regla að fá jafnóðum afrit af rannsóknarniðurstöðum og halda þeim saman í möppu. Setjum sem svo að sjúklingur fari í blóðprufu; þá er best að mæta fljótlega í viðtal við heimilislækninn til að fá helstu niðurstöður en fá í leiðinni útprent af niðurstöðunum, sem læknirinn getur prentað úr eigin tölvu á staðnum.

Sjúkraskrár eru yfirleitt auðskiljanlegar. Þó getur komið fyrir að einhver hluti textans sé skrifaður á hrognamáli, yfirleitt latínuskotnu (og þá yfirleitt þannig að það fer hrollur um latínulærða sjúklinga). En flestir læknar eru þokkalega skrifandi á íslensku, skv. minni reynslu.

Mín reynsla er sú að það gengur tiltölulega hratt og vel að fá afrit af eigin sjúkraskrá og útprentanir af rannsóknarniðurstöðum eru afhentar orðalaust. Eina undantekningin frá þessu var fyrrverandi sérfræðilæknir minn sem sá ástæðu til að hringja í mig og þýfga mig um af hverju ég vildi fá þetta afrit, hvort ég ætlaði kannski að skrifa bók?, spurði hann. Almennt kemur læknum það ekkert við af hverju sjúklingur vill afrit af sjúkraskrá og ég hygg að það sé afar fátítt að fá upphringingar eftir slíka beiðni.

Næst verður fjallað um hvernig sjúklingur getur leitað upplýsinga og umfjöllunar um sinn sjúkdóm á Netinu.

Sjúklingar, læknar og samfélagsmiðlar

Tveir læknar, þeir Davíð B. Þórisson, bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, og Teitur Guðmundsson  hafa nýverið vakið athygli á hvernig umhverfi læknisfræði/lækninga hefur breyst með sívaxandi hlut samfélagsmiðla í daglegu lífi fólks. Málflutningur beggja er skynsamlegur, áhugaverður og jákvæður og kveður þar við nokkuð annan tón en þegar síðast birtust fréttir af umfjöllun lækna um samfélagsmiðla, sjá greinina Mikilvægt að gæta varúðar á samfélagsmiðlum – af málþingi LÍ, í Læknablaðinu í nóvember 2012.

Mig langar að fjalla svolítið um þetta sama efni, af sjónarhóli sjúklings.

Einkaréttur á þekkingu færði völd – en ekki lengur

Eins og Teitur Guðmundsson bendir á í sinni grein hefur hlutverk læknis breyst töluvert, frá því sem hann kennir við „föðurlega læknisfræði“ til þess að haft sé samráð við upplýstan sjúkling um næstu skref eða ákvarðanir enda geti sjúklingar aflað sér fræðslu um eigin sjúkdóm mjög víða annars staðar en hjá lækni. Ég hef þó ástæðu til að ætla að margir læknar hafi alls ekki áttað sig á þessari breytingu.

Enn heyrir maður af læknum sem segja sjúklingum að rannsóknarniðurstöður „komi þeim ekki við” eða lýsa því yfir við kvalinn sjúkling að „það sé ekkert að þér“ eða haga sér á annan slíkan hátt sem ég myndi nú ekki kenna við föður heldur harðstjóra. Svoleiðis læknar halda ennþá að þeirra sé þekkingin og þar af leiðandi valdið. Þeir minna mig alltaf svolítið á skinnið hann Friðrik konung VI sem er helst minnst fyrir yfirlýsinguna: „Ingen uden Vi alene kan være i Stand til at bedømme, hvad der er til Statens og Folkets sande Gavn og Bedste“ (oft stytt í „Vi alene vide “)  ;)

En læknisfræði er ekki lengur einkagóss læknastéttarinnar. Hún er seinust af gömlu háskólamenntuðu embættisstéttunum til að átta sig á þeirri staðreynd að nú hefur hver sem er aðgang að stærra gagnasafni um fræðin; um heilsu, sjúkdóma og læknisfræði; en nokkur læknir kæmist yfir að lesa á sinni ævi. Þarna á ég ekki bara við venjulegar vefsíður sem gúgglast upp með lítilli fyrirhöfn heldur einnig gagnasöfn, t.d. eldri læknisfræðirita/bóka og landsaðgang að flestum sömu fagtímaritunum og læknar glugga af og til í (vitna a.m.k. af og til í), nýjum læknisfræðibókum sem berast á nokkrum sekúndum í lesbrettið manns eða tölvuna, upptökum af fyrirlestrum sérfræðinga, jafnvel ókeypis kúrsum í læknisfræði við virta háskóla o.s.fr.

Vægi sameiginlegrar reynslu sjúklinga

Það er löngu þekkt staðreynd að sjúklingar bera sig saman, um krankleik sinn (og einstaka sinnum um læknana sína). Í sumum kreðsum hefur það verið viðurkennt áratugum saman að það að deila sameiginlega reynslu sinni geti skipt sköpum í meðhöndlun sjúkdóma, nærtækasta dæmið er AA.

Á síðustu árum hafa samráðsvettvangur sjúklinga af ýmsu tagi blómstrað á Vefnum. Fyrst voru þetta aðallega umræðuborð (forums) en núna er slíkur umræðuvettvangur oftast hópur á Facebook. Mér vitanlega er langoftast um lokaðan vettvang að ræða, þ.e.a.s. fólk þarf að skrá sig sérstaklega (á umræðuborð) eða óska eftir inngöngu (í Facebook hóp), svona vettvangur hefur ákveðinn stjórnanda (venjulega stofnandann), og minnst er á þagmælsku um þá umræðu sem þarna fer fram. Þá sjaldan ég fellst á að prófa ný lyf núorðið hef ég það fyrir reglu að finna opið umræðuborð og renna yfir svona tvær-þrjár skjáfyllir af lýsingum af reynslu annarra af þessu lyfi. Má svo leggja þær upplýsingar saman við það sem læknirinn sagði og það sem maður les um viðkomandi lyf á Lyfjastofnun.is (ég er komin á þann aldur að meðfylgjandi fylgiseðlar sem liggja samanbrotnir í lyfjapakkanum eru mér gersamlega ólæsilegir).

Ég hef ekki tekið þátt í mörgum hópum af þessu tagi en sú reynsla sem ég hef af þeim er yfirleitt góð. Það gildir nokkurn veginn það sama í svona hópum og í AA: Maður tekur það sem maður getur notað og lætur hitt eiga sig. Og alveg eins og í AA er misjafnt eftir hverjum og einum hvað gagnast og hvað ætti að láta eiga sig.

Davíð B. Þórisson, sem ég gat í upphafi, stingur m.a. upp á því að læknar haldi sjálfir úti lokuðum umræðuhópum um ákv. sjúkdóma á samfélagsmiðlum: „Þá geti sjúklingar skipst á upplýsingum sín á milli, en læknirinn verið til reiðu til að grípa inn í þyki honum þörf á því.“

Mér finnst þessi hugmynd ekki góð og held að hún myndi ekki virka. Í mínum augum er þetta sambærilegt við að læknir yrði ávallt að leiða AA-fundi (enda alkóhólismi viðurkenndur sjúkdómur) og slíkt er ekki einu sinni praktíserað á Vogi sjálfum. Það að ætlast til að sjúklingar tjái sig sín í millum eigandi von á „leiðréttingum‟ læknisins hvenær sem er tel ég vonlausa hugmynd. Í lokuðum hópum, t.d. á Facebook er oft að finna ýmsar skrítnar ráðleggingar sem mér finnst út í hött eða lýsingar sem mér finnast ekki ríma við mína upplifun en gætu vel passað við upplifun einhvers annars og gætu verið ráð sem öðrum fyndist skynsamleg og gögnuðust þeim.

Það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er að sjúklingar deili reynslu sinni og ráðum sem hafa gefist vel. Eins og Teitur Guðmundsson bendir á í sinni grein er hefðbundin læknisfræði byggð á bestu þekkingu hvers tíma um sig. Í ljósi sögunnar hefur þessi „besta þekking‟ hvarflað alla vega á hverjum tíma, þess vegna milli andstæðra póla. Og í ljósi þess að því fer fjarri að læknisfræði geti útskýrt, fundið orsök fyrir eða læknað nema hluta sjúkdóma, að „evidence based medicine‟ er stundum alls ekki „evidence based“ heldur byggð á hagræddum rannsóknarniðurstöðum og greinum í læknatímaritum eftir leigupenna lyfjafyrirtækja (hér er ég að vísa til þess sem löngu hefur komið á daginn um algeng þunglyndislyf) þá er full ástæða til að leita einnig fanga í sameiginlegan þekkingarsjóð sjúklinga. Til eru nýleg dæmi um hvernig svoleiðis samræða og prófanir sjúklinga hafi skilað læknisráðum sem sumir læknar hafa endað með að samþykkja (eftir þrýsting sjúklinga), t.d. notkun LDN við vefjagigt og ýmsum ill-læknanlegum taugasjúkdómum.

Gætu læknar notað samfélagsmiðla?

Já, þeir geta það eflaust. Þeir gætu t.d. lært að nota tölvupóst á skilvirkan hátt, sem myndi sparað bæði þeim og sjúklingum þeirra dýrmætan tíma (viðtalstíma og símtöl, svo ekki sé minnst á alla biðina eftir viðtali eða símtali).

Ég tek undir hugmynd Davíðs um að læknar mættu „blogga sjálfir, og skrifa alvöru greinar um sjúkdómana sem þeir eru sérfróðir um,“ þótt mér finnist „föðurleg“ ábending hans í framhaldinu: „Þannig má draga úr líkum á því að sjúklingurinn gleypi við einhverri vitleysu á netinu.“ segja sitthvað um viðhorf hans (og líklega fleiri lækna) til vitsmuna sjúklinga, sem ég er fjarri því að samsinna.

Sem stendur blogga fáir íslenskir læknar og enn færri um læknisfræðileg efni. Í svipinn man ég eftir Vilhjálmi Ara Arasyni, sem nú bloggar undir merkjum DV  en rak áður blogg á Eyjunni; Teiti Guðmundssyni sem hefur verið fastur penni á Vísi í hálft ár  og Svani Sigurbjörnssyni, sem bloggar á Eyjunni, en hefur einnig birt færslur víðar, t.d. á Skoðun – vefsíður um þjóðfélagsmál og skoðanir, á gamla Húmbúkk vefnum á Eyjunni, á gamla moggablogginu sínu, á Raun-gegn gervivísindum, kukli og söluskrumi  (sá vefur virðist dáinn drottni sínum og er hér krækt í afrit á Vefsafninu) og á vef Vantrúar.

Þeir tveir fyrrnefndu blogga um fjölbreytt læknisfræðileg efni en Svanur Sigurbjörnsson bloggar nær eingöngu gegn hjálækningum (kukli), sem er hans mikið hjartans mál og litast málflutningur hans aukinheldur mjög af strangtrúarskoðunum hans. Má því ætla að hans blogg höfði til afmarkaðri hóps sjúklinga (og lesenda) en umfjöllun hinna tveggja.

 

Geta samfélagsmiðlar verið læknum hættulegir?


Ef marka má fréttaflutning Læknablaðsins 2012, sem ég minnist á hér að ofan gætir nokkurs ótta meðal lækna þegar samfélagsmiðlar eru annars vegar. Óttinn virðist fyrst og fremst snúast að því sem sjúklingar kunni að segja um þá, t.d. á bloggi. Túlkun lögfræðings Læknafélagsins á hvernig blogg sjúklings geti firrt lækni þagnarskyldu er afar áhugaverð frá lögfræðilegu sjónarhorni. Fyrir utan þessi atriði er fátt bitastætt í fréttinni nema almenn varnaðarorð um að halda þagnarskyldu og stofna ekki til kynna við sjúklinga á Facebook. Og læknum er bent á að stafræn fótspor eru óafmáanleg og því þarf að passa hvað maður segir á netinu. Þetta eru gömul tíðindi en voru kannski ný fyrir læknum á læknaþingi haustið 2012.

Það er samt kannski raunveruleg hætta fólgin í því fyrir lækni að tjá sig á samfélagsmiðlum, a.m.k. ef marka má frásögn læknis sem lenti í að vera sjúklingur. Á málþingi Geðhjálpar, Hvers virði er frelsið, sem haldið var 23. janúar sl. sagði Björn Hjálmarsson barnalæknir frá eigin reynslu af sjálfræðissviptingu og þvingunarinnlögn á geðdeild. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann tjáði sig um þetta, það hafði hann gert áður í riti og sjónvarpi. Í máli hans kom fram að Embætti landlæknis hefði margsinnis áminnt hann um að „halda Hippókratesareiðinn“ sem þýddi að hann mætti ekki segja frá því ofbeldi sem læknar á geðlækningasviði beittu hann. Þótt Björn myndi skila inn lækningaleyfi sínu væri hann bundinn eiðstafnum til æviloka að mati Embættis landlæknis. (Sjá Lögin eru misnotað árásartæki, Mbl.is 23.1. 2014 og myndband af fyrirlestri Björns á málþinginu.) Það sárgrætilega við þetta er auðvitað að í útvatnaða útdrættinum úr upphaflegum eiðstaf Hippokratesar sem íslenskir læknar undirrita, sjá Læknaeiðurinn á síðu Læknafélags Íslands, er ekki stafkrókur um að læknir sem verður sjúklingur megi ekki tjá sig um læknismeðferð. En kannski veldur Stórabróður-ægivald Landlæknisembættisins ótta einhverra lækna við að tjá sig á samfélagsmiðlum? Eða eru þær hræddir við viðbrögð kolleganna við einhverju sem þeir segja?

Framtíðin?


Í lokin er vert að geta þess að í ‘enni Amríku eru læknar búnir að læra á tölvupóst, að umgangast Facebook, að blogga og að veita læknisþjónustu gegnum Skype. (Sjá American Telemedicine Association  – einnig bendi ég á bráðskemmtilegt blogg geðlæknis sem lýsir fyrstu dögunum í vinnu sinni sem stafrænn geðlæknir.)

Íslenskir læknar eiga ansi langt í land með að ná kollegum sínum vestra í brúkun samfélagsmiðla, er ég hrædd um.