Dularfulla systirin

Geðkvarðinn hækkaði um leið og ég fékk gömlu albúmin (það vantar samt ennþá eitt albúm, þetta með myndum frá forsetaheimsókninni í Ásbyrgi … en ég hef ekki brjóst í mér til að bögga gamalmennið meir!) og póstkortin. Myndirnar í albúmunum eru afar illa farnar og verður spennandi að sjá hverjum má bjarga og hversu langt borgar sig að ganga í fiffun.

Svo fólk haldi ekki að ég sé sjálfbjarga einhverf þá tók ég hlé í myndavinnunni til að þrífa húsið almennilega og einnig til að fara með elsku manninum í berjamó í gær. Jafnframt leituðum við að Maríuhöfn og fundum af hyggjuvitinu einu saman – heimkomin fletti ég korti Danska herforingjaráðsins og sá svart á grænu hve við hjón höfðum haft rétt fyrir okkur!

Aðallega er ég samt að skanna kort.  Það er óhugnalega seinlegt því á hverju korti þarf að skanna framhlið og bakhlið og reyna einhvern veginn að sortéra í leiðinni. Ég hugsa að þetta séu hátt í hundrað kort.

Íslendingabók er grunnurinn til að reisa svona ættarsögu. Í Íslendingabók stendur klausan til vinstri, um hana Pálínu langömmu, sem ýmist var titluð öllum sínum nöfnum eins og hér, Hildarnafninu oft sleppt, Pálína Einarsson eftir að hún giftist Jóni Einarssyni langafa … og í Legstaðaskrá á gardur.is heitir hún Pálína Einarsdóttir og er algerlega óþekkt, þ.e. fæðingardagur, dánardagur, jarðsetningardagur o.þ.h. er ekki vitað.

Mér finnst Legstaðaskrá soldið líta á hana Pálínu eins og niðursetning og ég er handviss um að hún hefði aldrei verið sátt við það!

Jæja … hafandi þessar upplýsingar reiknaði ég með að Hlaðgerður litla María, sem fæddist árið 1867, hafi dáið í bernsku. Það gæti skýrt það að dánarárs er ekki getið, í Íslendingabók.

  

Ég tékkaði samt á Legstaðaskrá og með því að gefa alla kirkjugarða landsins sem leitarstað fann ég þessar þrjár Hlaðgerðar. Hlaðgerður Laxdal var heillandi möguleiki uns ég sá að fæðingarárið passaði ekki. Svo hefði verið soldið skrítið að hafa aldrei heyrt minnst á þessa Hlaðgerði Laxdal, hefði hún verið langömmusystir mín og lifað til 1970. (?)

Textinn:

Elsku systir mín!

Jeg sendi þjer þetta kort að gamni mínu og vona að guð gefi að það hitti þig fríska eftir hætti [?]. Jeg kem oft til H [?] / K [?]*  frænku því jeg æfi mig á flygelið.

Mamma segir þjer frjettir.

Vertu blessuð og sæl elsku systir

þín Lúlla (?)

*K=Katrín Viðar?

  • Er þessi Lúlla systir Pálínu?
  • Er Lúlla stytting fyrir Hlaðgerður? (Eina Hlaðgerðurin sem ég man eftir á Raufarhöfn var kölluð Della …)
  • Ef Pálína hefur átt systur sem lifði langt fram á síðustu öld; Hvernig stendur á því að maður hefur aldrei heyrt á hana minnst? Nú skora ég á móður mína að útskýra Lúllu, Hlaðgerði eða aðrar konur sem kalla Pálínu Hildi systur sína 🙂

(Kannski er rétt að taka fram að Íslendingabók nefnir allskyns klúður í manntölum og kirkjubókum á tímabilinu 1880-1900. Sem betur fer á ég góðkunningja í Þjóðskjalasafni og ætti kannski næst að róa á þau mið?)

P.s. Ég á í bölvuðum vandræðum með að fá formatið á texta og mynd til að virka.  Nú nenni ég þessu ekki lengur og verður að hafa það þótt síðari hluti færslunni líti ekki eins lekker út og óskandi væri.

4 Thoughts on “Dularfulla systirin

  1. “Mamma segir þjer fréttir” gæti þýtt að þetta kort hafi farið samferða bréfi frá mömmu til Pálínu.

    Mikið er þetta allt dularfullt.

  2. Já, þetta er einmitt líkleg ábending. Auk þess er hvorki stimpill né ummerki um frímerki á kortinu. (Einhver ættinginn, sennlega amma, hefur rifið frímerkin af öllum póstkortunum, því miður …)

    En – ef “Mamma” er mamma Pálínu og hinnar dularfullu systur þá er kortið / bréfið sent milli 1898 (Pálína flyst á Raufarhöfn) og 1914 (Guðrún Laxdal, mamma Pálínu, deyr). Reyndar dvaldi þessi mamma hjá Pálínu síðustu æviárin.

    Ef H er K og ef K er Katrín Viðar (sem er ekki ólíklegt því hjá henni lærði amma á píanó) þá er kortið sent úr Reykjavík. Nema K sé Katrín Norðmann (sama manneskjan) og þá ógefin í föðurgarði á Akureyri?

  3. Guðrún on August 12, 2008 at 10:16 said:

    Hæ.
    Lúlla er Lúðvíka Lund dóttir Rannveigar Lund. Það virðist vera að allir skrifuðu “bróðir” og “systir ” þegar skrifast var á. Þetta er að finna á fleiri kortum þótt ekki sé um systkini að ræða. Hlaðgerður systir ömmu dó í æsku og munaði ekki nema einu hári að ég fengi nafn hennar.
    Rannveig Dýrleif og hennar fjölskylda (Ísaksfólkið) fluttust á Neskaupsstað og eru þar enn.
    kv. mamma

  4. Ég sé að eitt símtal hefði leyst vandann – en jafnframt kippt grundvellinum undan þessari ágætu bloggfærslu 🙂

    Takk fyrir upplýsingarnar, mamma. Ég hefði nú verið til í að heita Hlaðgerður; mér finnst svona voldug nöfn falleg. En hættan á svívirðilegum styttingum og kósí og kjút gælunöfnum er náttúrlega fyrir hendi.

    Mig hálfminnti að hafa heyrt þetta stuttnefni “Lúlla Lund” en hélt sjálf að ég væri að rugla við “Stúllu Lund” sem er að sjálfsögðu allt önnur manneskja.

    Þessar bakgrunnsupplýsingar skýra vel hvers vegna skynsamir foreldrar okkar systkinanna gáfu okkur öllum einnefni sem ekki er hægt að stytta … nema náttúrlega Einari en hjá því var ekki komist í ljósi aðstæðna.

    Já, ég veit að Rannveig Dýrleif og Pálína Hildur og afkomendur eru þarna fyrir austan (tékkaði á Legstaðaskrá). Væri gaman ef hægt væri að ná mynd af þeim … ég sem við Rögnu þegar hún verður orðin alveg frísk. Nema ég hringi enn og aftur í lystigarðshemúlinn í Garðabæ?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation