Í gær voru hinir venjulegu maraþonfundir í annarbyrjun. Með annað eyrað stillt á mute gat ég rennt yfir og prentað út ýmist dót, s.s. kennsluáætlanir og það sem nota á í næstu viku. Á fundi 2, sem var í öðrum sal, sleppti ég tölvunni en er hreykin af því að hafa druslast með græjuna á fund 1.
Ég varð nefnilega fjúkandi vond á miðvikudaginn þegar ég var búin að sansa fælu af skjölum hér heima og ætlaði svo að prenta þau út gegnum fartölvu þá sem skólinn hefur skaffað. Tölvukvikindið var með alls konar uppástöndugheit og tölvunotandinn (ég) æ geðverri. Það var ekki fyrr en kerfisstjórinn (vinkona mín – sem ég þarf að biðja afsökunar á ónærgætnu orðavali um nýja innanhúskerfið) og maðurinn lögðust á eitt; þá fyrst tók fartölvan í mál að haga sér skikkanlega.
Ég er svo gersamlega búin að fá nóg af þessum fartölvudruslum. Fyrir það fyrsta er skjárinn yfirleitt það lélegur að myndvinnsla og vefsíðudúllerí er illmögulegt; svona álíka og þræða nál í myrkri ímynda ég mér. Í öðru lagi er ég ekki nógu sterk til að halda á fartölvu auk náms- og kennsluefnis og vatnskönnu í hvern tíma. Hér mætti nefna þau mótrök að úr því ég kenni alltaf í sömu stofunni þá gæti ég látið duga að burðast með tölvuna í fyrsta tíma og haft hana svo húkkaða við skjávarpa restina af kennsludeginum. (Ég veit að einhverjir kennarar hafa þetta svona.) Þá má reyndar spyrja á móti af hverju ein föst nettengd borðtölva sé ekki húkkuð á skjávarpatengið allan sólarhringinn …
Ég nota glærur talsvert þar sem það á við en ég ulla á glærusýningar! Yfirleitt verður að vera koldimmt í stofunni til að glærusýning geri sig. Bent hefur verið á að glærusýningar séu stórlega ofnotaðar og þegar nemendaskinnin eru farin að horfa á þetta 5 – 7 glærusjó daglega er nú gleðin yfir upplýsingatækni orðin heldur lítil.
Mér hefur gefist best að nota myndvarpa, svarthvítar glærur, prentaðar út og fjölfaldaðar handa nemendum og þá oft möguleikann 3 glærur per blað með línum fyrir glósur til hliðar.
Í rauninni mætti segja að fartölvan mín nýtist einungis til að færa inn fjarvistir einu sinni í viku (eftir útprentuðum kladda/ hópalistum); skoða tölvupóst; sækja dót sem ég kem fyrir á netþjóni skólans og prenta það út. Svo sem bent hefur verið á er tölva fjandi dýr glósubók og í rauninni gæti ég pikkað inn fjarvistirnar og þetta dót hér heima en á hins vegar miklu lélegri prentara en skólinn, til að prenta út kladda vikunnar.
Flestir aðrir kennarar nota fartölvurnar sínar meira en ég enda er oft um að ræða einu tölvuna sem kennari á. Menn eru duglegir að senda smámyndir og brandara sín á milli, una sér á MSN-inu við spjall, tékka á íþróttasíðum innan lands og utan, lesa moggann og moggabloggin og barnaland og 69.is og margt fleira. Við fyrstu sýn virðast þessir kennarar lúsiðnir; alltaf í tölvunni sinni! Vinnutengd afköst þurfa samt ekki að vera mikil.
Nemendur eru nákvæmlega eins og ég reikna með að flestir kennarar hafi áttað sig á því að blessuð börnin sem drösla tölvubyrðinni í kennslustund eru hreint ekki að glósa það sem kennarinn segir – satt best að segja eru þau að reyna að útiloka kennsluna (stilla eyrun á mute, jafnvel gerast svo gróf að tengja sig við tölvuna með nettum eyrnafíkjum)! Nemendur róa á svipuð mið og kennararnir, helst að Myspace sé meira nemendamiðað og tölvuleikirnir flóknari.
Ég hef heyrt því fleygt að einhverjir kennarar séu farnir að banna nemendum að koma með fartölvurnar sínar í tíma. Þetta er náttúrlega skynsamlegt ef kennararnir vilja endilega hafa fulla athygli nemenda. Einhverjir kennarar ganga nú ekki alveg svona langt en krefjast þess að nemendur hafi fartölvurnar lokaðar, sem gerir sama gagn.
Móðurleg sem ég nú er, í kennarahlutverkinu, hef ég einungis farið fram á það við mína elskanlegu nemendur að þeir leggi kapal eða spili kúluspil undir mínum fyrirlestrum – af eigin reynslu veit ég að auðvelt er að fylgjast með þótt verið sé í svona dútli. Nefni í forbífarten að ég vildi heldur sjá þá með litabók.
Ég veit að ég hef sagt þetta allt áður …
Ég vil fá borðtölvu með góðum skjá til að vinna við í skólanum og myndi glöð afhenda fútsí-símensuna á móti. (Maðurinn sagði að ekki væri pláss fyrir borðtölvu í mínum vinnubás. Ég benti manninum á að hér höfum við heila tréiðnadeild sem kynni að fara með sög og svoleiðis og þetta yrði sjálfsagt ekki vandamál.)
Sá að einhver ritfangaverslunin auglýsti eyrnapinna.
Til hvers?
Þú hlýtur að meina eyrnatappa …
Ah … svo fattaði ég að eyrnapinnar + spritt duga vel á lyklaborð tölva.
í mínum skóla er 1 fartölva = 3 borðtölvur eða 2 borðtölvur útbúnar til myndvinnslu.
Pingback: Menntun 2.0 » Saga, ræða og glærur
Pingback: Saga, ræða og glærur