Í Íslenzku fornbréfsafni (Diplomatarium Islandicum) kennir ýmissa grasa. Þar á meðal er skrá um illa daga, öllu heldur illar stundir á illum dögum, sem ber sérstaklega að varast, einkum í sambandi við lækningar. Má ætla að algerlega vonlaust sé að fá bót meina sinna akkúrat á þessum tilteknum klukkutímum. Ég reikna með að stundir séu taldar frá miðnætti.
Þessi bloggfærsla er innlegg í safn annarra „náttúrulegra“ læknisráða (á borð við púl og puð (líkamsrækt) gegn þunglyndi, árulestur, lithimnugreiningu, heilun, handayfirlagningu o.fl.). Ég reikna með að stöðug varúð eftir þessari skrá skili a.m.k. jafngóðum árangri og þau önnur læknisráð sem ég taldi upp. Og ef ég finn fleiri „náttúruleg ráð“ eða kukl sem pilluátsandstæðingar kynnu að vilja taka upp á sína arma mun ég að sjálfsögðu opinbera þau á blogginu.
Skráin er talin frá 1363 eða fyrr og er efalítið byggð á reynsluvísindum.1 Í formála segir (stafsett með nútímastafsetningu):
Tveir eru þeir dagar í hverjum mánuði er að bókmáli kallast dies mali, en það þýðist illir dagar. Það er ein stund á sérhverjum þeirra er ónýt er til allra lækninga þeirra sem menn vænta sér heilsu af nema Guð vilji með jarteiknum græða.
Hin nytsama skrá er í 3. bindi Íslenzks fornbréfasafns, s. 183 og hvet ég menn til að skoða frumtextann. Það ágæta safn er nú aðgengilegt á baekur.is. Í leit að réttum dagsetningum notaði ég (fyrir utan þær góðu græjur Wikipediu og Google): „Saga daganna“ á Borgarfjarðarprófastsdæmi. Upplýsingavefur kirkjunnar í héraði…, „Almanaksskýringar“ eftir Þorstein Sæmundsson á vef Almanaks Háskóla Íslands og „Dýrlingatal“ á vef Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.
Her greinir um dismala daga
Janúar | 1. janúar (8. dagur jóla), hin níunda stund 25. janúar (Pálsmessa), hin sjötta stund |
Febrúar | 4. febrúar (næsti dagur eftir Blasius-messu), hin áttunda stund 20. febrúar (tveimur nóttum fyrir Péturs-messu), hin tíunda stund |
Mars | 1. mars, hin fyrsta stund 30. mars (fimm nóttum eftir Maríu-messu), önnur stund |
Apríl | 10. apríl (sex nóttum eftir Ambrosíus-messu), fyrsta stund 20. apríl (þremur nóttum fyrir Jóns-messu Hólabiskups), hin ellefta stund |
Maí | 3. maí (Krossmessa), hin sjötta stund 25. maí (Urbanus-messa), hin tíunda stund |
Júní | 8. júní („in festo mediardi ok gillardi“, líklega Medardusdagur), hin sjötta stund 16. júní (einni nóttu fyrir Bótólfs-messu), hin fjórða stund |
Júlí | 13. júlí (tveimur nóttum eftir „translacionem benedicti“, þ.e. flutning helgra líkamsleifa Benedikts frá Núrsíu til benedikta-klausturins í Fleury, Frakklandi), hin tólfta stund 22. júlí (á messu Maríu Magdalenu), hin ellefta stund |
Ágúst | 1. ágúst, fyrsta stund 30. ágúst („in festo felicis“, væntanlega á messudegi heilags Felix píslarvottar), hin sjöunda stund |
September | 3. september (tveimur nóttum eftir Egidíus-messu), hin þriðja stund 21. september (á messu Mattheusar guðspjallamanns og postula), hin fjórða stund |
Október | 3. október (einni nótt fyrir messu Fransicus / Frans frá Assisi), hin tíunda stund 23. október (á Severinus-messu), hin nítjánda stund |
Nóvember | 5. nóvember (einni nótt fyrir Leonardus-messu), hin áttunda stund 28. nóvember (tveimur nóttum fyrir Andrésar-messu), hin fimmta stund |
Desember | 8. desember (tveimur nóttum eftir Nikulásar-messu), hin fjórtánda stund 22. desember (einni nótt fyrir Þorláks messu), hin sjötta stund |
1 Merkilegt nokk voru þessir illu dagar einnig nefndir egifskir dagar meðal útlendra, sem aðalfræðingur þessa heimilis telur sanna yfirburði Egifta í dagareikningi og lukku ekkert síður en í öðrum afrekum. Sjá um þetta „Dismal (bad days)“ á English Word Information. Word info about English Vocabulary. Á ensku síðunni eru ekki nákvæmlega sömu dagsetningar og í útreikningum skv. íslensku skránni en auðvitað er mun meir mark takandi á fornum íslenskum fræðum en fornum útlendum. Til öryggis kann þó að vera gott að passa sig báða dagana þegar dagsetningum ber ekki saman.