Author Archives: Harpa

Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi, II?

Ég er enn jafn bit á þessum lið í meðferðarsamningi geðdeildar/geðlæknis Landspítalans við Láru Kristínu Brynjarsdóttur, sem ég bloggaði stutt um í gær (sjá feitletruðu klausuna): ““Lára Kristín skuldbindur sig [- – -] Þá mun hún ekki ræða meðferðina í fjölmiðlum eða á samskiptasíðum á netinu.” 

Á opinni Facebook sinni segir Lára Kristín í dag: 

Ég sjálf ! Já ég sit með fleiri spurningar í raun, því ég var rekin frá lækni mínum í gær eftir viðtalið. Hún sagði að refsing fyrir að brjóta samning væri meðferðarfrí í nokkra mánuði, semsagt er það ekki refsing ??? Ég held að þeir séu bara á þrotum að vernda sig fyrir mistökum sem verða í störfum á geðdeildinni ! punktur Allavega stend ég uppi með engan lækni vegna þess að ég sagði frá ! …….. Ég hefði haldið að þá væri verið að hafna mér meðferð; ég er svo heppinn að einhverfuhópurinn hugsi vel um mig núna.

Í DV  í dag er haft eftir Páli Matthíassyni framkvæmdarstjóra geðsviðs Landspítala:

Páll segir slíka samninga oft gerða og þá í þágu sjúklinga: Meðferðarsamningar eru gerðir til þess að skýra línur á milli meðferðaraðila og sjúklings. Hann tiltekur meðferðarúrræðin og hvernig skuli bregðast við í ákveðnum aðstæðum. Svo sem ef til neyðarinnlagnar  kemur og annað slíkt”. [-  – -] Páll  kannast ekki við að Láru Kristínu hafi verið bannað að sækja þjónustu geðsviðs og segir sjúklingum ekki refsað séu samningar sem þessir brotnir. “Það er af og frá, hún mun áfram fá þjónustu og verður ekki vísað frá.” (DV 16. maí 2012, s. 3.)

Það er vissulega gott að fá staðfest að sjúklingi er ekki refsað fyrir að tjá sig í fjölmiðli enda annað óhugsandi í lýðræðissamfélagi. Lára Kristín hlýtur að hafa misskilið sinn geðlækni og sá misskilningur verður væntanlega leiðréttur með hraði. Auðvitað getur Páll Matthíasson ekki tjáð sig um málefni einstakra sjúklinga. En ég sakna svara hans við spurningunni hvernig í ósköpunum stendur á því að sjúklingi geðsviðs Landspítalans er gert að skrifa undir samning sem felur í sér afsal eða brot á stjórnarskrárbundnum rétti sama sjúklings, þ.e. málfrelsi?  

Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi?

Broskarl með rennilásÉg fjárfesti í DV áðan til að lesa viðtal við Láru Kristínu Brynjólfsdóttur. Hafandi gefið mér að ævinlega eru tvær hliðar á hverju máli og að DV rær á hamfarabloggendamið og gerir út á dramatík las ég viðtalið, sem er góð heimild um hennar upplifun en kannski eru fleiri fletir á sögunni sem ekki koma fram.

En það sem vakti sérstaka athygli mína var tilvitnun í svokallaðan meðferðarsamning sem Láru Kristínu er “ætlað að undirrita”. Af viðtalinu er einna helst að ráða að þessi meðferðarsamningur sé gerður við einhverja deild geðsviðs Landspítalans og að blaðamaður DV hafi skoðað hann. Segir að í sjötta lið samningsins standi eftirfarandi:

“Lára Kristín skuldbindur sig til að ræða beint við meðferðarðila sína ef óánægja kemur upp hjá henni við meðferðina. Treysti hún sér ekki til að ræða þetta beint er henni velkomið að koma skriflegri kvörtun áleiðis í bréfi. Hún mun hins vegar ekki senda tölvupóst á framkvæmdastjóra geðsviðs eða aðra aðila innan spítalans. Þá mun hún ekki ræða meðferðina í fjölmiðlum eða á samskiptasíðum á netinu.” (DV mánudaginn 14. maí 2012, s. 13. Leturbreyting mín.)

Ég get vel skilið að einhverjum starfsmönnum geðdeildar eða geðlækni á Landspítalanum finnist þægilegt og skynsamlegt að gera einhvers konar samning um fyrirhugaða meðferð sjúklings enda kemur fram að í þessum samningi sé að finna “skipulag viðtala og reglur um samráð”. En það að ætlast til að sjúklingur afsali sér stjórnarskrárbundnu tjáningarfrelsi með undirskrift svona samnings finnst mér afar einkennilegt og velti fyrir mér hvort slíkur gjörningur ríkisrekins sjúkrahúss standist lög. (Sama gildir raunar um hvern þann geðlækni sem er.) Getur einhver lesenda svarað þessu? Og vita menn önnur dæmi þess að meðferð sjúklings á ríkisspítala eða hjá starfandi sérfræðilækni innan íslenska heilbrigðiskerfisins sé háð því að sjúklingurinn afsali sér tjáningarfrelsi? Ætli séu dæmi þess að kvensjúkdómalæknar, skurðlæknar, innkirtlasérfræðingar eða aðrir sérfræðilæknar krefjist þess að sjúklingar þeirra grjóthaldi sér saman um meðferðina á Facebook eða hvers kyns netmiðlum og fjölmiðlum og skrifi undir þagnarskyldusamning þar að lútandi?

Fráhvörf

Á þriðjudaginn steig ég lokatröppuna og hætti alveg Rivotril áti. Það verður að segjast eins og er að fráhvörfin eru viðbjóðsleg! Skv. tröppun til þessa má ætla að þau skáni eilítið eftir tvær vikur en það er svo sem ekki mikil huggun í dag. Í einhverjum benzó-fráhvarfafræðum sá ég að fráhvörf af þessu lyfi voru kölluð “flue-like symptoms” og er alveg sammála þeirri lýsingu: Að hætta á Rivotril er eins og að kalla yfir sig 40 stiga hita vikum og mánuðum saman!

Þetta er sem sagt þriðji mánuðurinn í að hætta. Tröppurnar hafa verið 1 mg oní 0,5 mg, svo oní 0,25 mg og loks niður í 0 mg. Í dag er eins og hausinn á mér sé í skrúfstykki, mig svimar, jafnvægisskynið er truflað (eins gott að ég bý að langri reynslu af Akraborgarferðum), mér er flökurt, ég fæ skelfilegan kölduhroll og tímaskynið hefur fokkast verulega upp; þessi dagur er a.m.k. 72 klst langur.

Einu ráðin í stöðunni eru að pína sig í langa hraðgöngutúra (eigin endorfínframleiðsla slær aðeins á einkennin, liðkar vöðva sem eru í hnút og opnar æðar sem eru líklega samanherptar) og taka einn klukkutíma í einu á þessum ógurlega löngu dögum … eiginlega hlakka ég mest til að sofna í kvöld og sleppa aðeins út úr þessu. Mér dettur ekki í hug að reyna þetta án þess að nota svefnlyf og lít á niðurtröppun af Imovane sem seinni tíma vandamál. Það er annað en segja það að píska sig áfram í langan labbitúr þegar manni líður sem fráveikum af flensu. En endorfínið sem fæst með áreynslunni virkar smá stund á eftir.

Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að svo löng og hrikalega slæm fráhvörf fylgdu því að hætta á ekki stærri skammti af þessu helvítis lyfi. En hafi maður tekið Rivotril um langt skeið, í mínu tilviki næstum áratug, má víst búast við þessu. Mér finnst orðið ansi vafasamt að setja fólk á þetta lyf yfirhöfuð þótt ég viðurkenni fúslega að kvíði og ofsakvíðaköst séu svo sem ekkert gamanmál. Svo hugsa ég til þess með hryllingi þegar Rivotril var trappað úr 1,5 mg oní 0,5 mg á nokkrum vikum í síðustu geðdeildarvist; ekki skrýtið að ég hafi skolfið af kulda seinnipartinn og á kvöldin, íklædd hverri peysunni yfir aðra og undir sæng að auki!  Þá var ég stjörf af þunglyndi sem hefur þann eina kost að deyfa kvíða eins og allt annað en linar líklega ekki Rivotril-fráhvörf að ráði. Núna er ég tiltölulega vel haldin af þunglyndinu og finn þá kannski meira fyrir fráhvörfunum … á hinn bóginn gæti ég aldrei gengið í gegnum þennan hrylling ef ég væri ekki sæmilega frísk, hugsa ég.

Ég get ekki ímyndað mér annað en það að hætta að reykja sé létt verk og löðurmannlegt hjá því að hætta á Rivotril. Kannski ég prófi það í haust þegar ég verð orðin vel verseruð í sjálfspyndingum 😉

Skáld heimilisins

Tveir heimspekingarÉg renndi yfir helstu fréttir og blogg og datt ekkert í hug sem hægt væri að blogga um, ekkert merkilegt að ske, greinilega. En þótt ég sé svona skoðanalaus er skáld heimilisins, Fr. Jósefína Dietrich, mjög pólitísk og afdráttarlaus í skoðunum á mannlífinu og ýmsu öðru. Hún styttir sér stundir með yrkingum, milli sinna miklu mannfræðistúdía og tvíblindra atferlismeðferðarrannsókna. Það er því handhægt fyrir andlausan bloggara að blogga bókmenntafræðilega færslu um skáldmæringinn Jósefínu Dietrich. (Myndin sýnir tvo heimspekinga heimilisins … ætti að blasa við hvor er hærra settur.)

Jósefína orti í gær um Núbó nokkurn sem hún dáir mjög enda er sá gulur … og lét á sinni Facebook fylgja háðsglósu um ráðherra sem hún hefur nákvæmlega ekkert álit á (sá er hvorki gulur né duglegur að merkja):

Mín vegna má skömmin hann Ömmi vera á bömmer. Við þessi gulu stöndum saman:

Kominn upp á Núbós náð!
Nú fá gulir völdin hér!
Kátir eins’og kisa’að bráð
Kínverjarnir leika sér.

Jósefína deilir ekki skoðunum á forsetaframbjóðendum með neinum á þessu heimili enda grundvallar hún þær á öðru en við fávíst fólkið: “Mjá, mjá, mjá … búinn að mjálma meira en allir hinir til samans .. en það gildir ekki bara að mjálma … það þarf að merkja” segir hún um ákveðinn frambjóðanda sem henni er svona heldur í nöp við.  Í þessu eins og öðru ráðast skoðanir hennar af þeirri vissu að gulir séu bestir og að það fressið sem er duglegast að merkja sé réttborið yfirfress. Aðdáun sína greipir dýrið litla svo í kveðskap:

Einhver var að hlæja þegar ég kom inn
kannski að það hafi verið fressinn minn.
Jæja, nú jæja og látum hann hlæja
á Bessastaði fer hann nú í fimmta sinn.

Annað dæmi:

Fressið Dalai dásama ég daga’og nætur,
hversu langt það gengið getur,
geri aðrir lamar betur.

Bessastaða fagurt fressið frægast er,
mjög á staði marga fer
og merkir sér.

Þá sjaldan Fr. Dietrich nennir að tjá sig um trúmál sést að hún hugsar dýpra og er í sterkari tengslum við alheimsköttinn en nokkur af alþýðu heimilisins. T.d. þessi tilvitnun um daginn: „Og ég sá hundtík sitja á skarlatsrauðri ryksugu og hafði hún lafandi tungu og tíu skott.“ (Úr Opinberunarbók Jósefínu)”. Til að gleðja vissan lesendahóp bloggsins míns má og nefna að Jósefína tjáði sig auðvitað um hjálækningar og hindurvitni: “Mjá, mjá, mjá – sjálf hef ég gert tvö kraftaverk – annað með vísikló á vinstri loppu og hitt með rófunni – en það voru nú ekki gerðar heimildamyndir um það” og fékk þessa lýsandi athugasemd frá aðdáanda: “Þér eruð sjálf eitt gangandi kraftaverk mjá mjáhhhhhh.” Sem er vissulega rétt.

Jósefína er femínisti eins og sést á þessu ljóði:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum,
malandi læt rímið renna,
raula fyrir málstað kvenna.

Og hefur raunsætt sjálfsmat ólíkt mörgum tvífættum femínistanum:

Kattþrifin með kattartungu kattarrófu
þvær og snyrtir loðna loppu
læða gul með fríða snoppu.

Áhugasömum unnendum góðra ljóða er bent á Nokkur gullfalleg ljóð sem Jósefínan sjálf hefur frumort (2. útgáfa aukin mjög og endurbætt). Ljóðabókin er myndskreytt af og með skáldinu sjálfu. Þar má finna kaflana Tregróf, Breiðfjörð, Jólasálma, Nokkur pólitísk ljóð o.fl.

Einkennist baráttan gegn hindurvitnum af hindurvitnum?

Í gærkvöldi sýndi RÚV myndina Living Matrix: A film on the new science of healing. Ætla mætti af bloggum og vefmiðlum að um væri að ræða megnan heilaþvott sem við hrekklausa og einfalda fólkið værum fyrirfram berskjölduð gegn og mikil þörf á að þeir veraldarvanari og vellesnu verðu okkur gegn svona viðbjóðsmynd og lífshættulegum hugmyndum.

Sem dæmi um pössun hinna vellesnu og veraldarvönu má nefna bloggfærslu Valgarðs Guðjónssonar vantrúarfélaga, Á RÚV að sýna svona rugl?, og 111 ummæli (í þessum skrifuðum orðum) um hana; pistil ritstjórnar Vantrúar, Kjaftæði í sjónvarpinu; örfærslu Matthíasar Ásgeirssonar vantrúarfélaga, Skilaboð til RÚV, (mögulega þarf að líma Vantrúar- og Örvitaslóðirnar í nýjan glugga út af tiktúrum Matta sem banna beinan aðgang af blogginu mínu á þessar síður), bloggfærslu Jónasar Kristjánssonar, Kraftaverk í sjónvarpi, og líklega má finna fleiri bannbloggfærslur ef maður nennir að leita.   

Mér finnst ansi fyndið að lesa þessi blogg og umræðuhala við þau. Sem dæmi má taka:

  • Hin vísindalega aðferð mun vinsa úr ruglið á endanum (Hansi – í umræðu á bloggi Valgarðs)
  • Myndi þú sitja þegjandi hjá ef RÚV sýndi „heimildamynd“ þar sem fullt af fólki kæmi fram og fullyrti að það væri ekkert að því að gleypa blásýru? (Valgarður – í umræðu á bloggi Valgarðs)
  • Aldrei hefur verið vísindalega sýnt fram á virkni kraftaverkalækninga. [- – -] Ríkissjónvarpið á ekki að leggja sitt lóð á vogarskál hjáfræða og kraftaverka handa trúgjörnum. (Blogg Jónasar Kristjánssonar)
  • Myndir á borð við þessa gera ekkert nema koma inn ranghugmyndum hjá áhorfendum og ýta undir notkun á skottulækningum og afneitun á þeim aðferðum sem sýnt er að virki. (Vefur Vantrúar)
  • Það eru engar óhefðbundnar lækningar; það eru einungis lækningar sem búið er að sýna fram á að virki og svo kjaftæði (Halldór L – nærsveitungi minn – á vef Vantrúar)

Hippókrates kennir � KosÍ stuttu máli sagt má segja að umfjöllun um þessa mynd einkennist annars vegar af löngun til að banna kynningu á öðru en viðurkenndri vestrænni læknisfræði og hins vegar bláeygri tröllatrú á þessari sömu viðurkenndu vestrænu læknisfræði. Ég hef nú öðlast meir en áratugs reynslu af viðurkenndri vestrænni læknisfræði til bóta á mínum velskilgreinda sjúkdómi skv. amrískum og evrópskum stöðlum og sjúkdómsgreiningum byggðum á viðurkenndum vestrænum sálfræðiprófum. Læknisráðin byggjast á vísindalegum rannsóknum og eru einkum fólgin í pillum og rafmagnsstuðum. Því miður verð ég að hryggja þá vellesnu og veraldarvönu og umhyggjusömu með því að þegar betur að gáð reynist velskilgreindi sjúkdómurinn álíka skiljanlegur og hann var á dögum Hippokratesar; v.v. sálfræðiprófin mæla ekki endilega það sem þau eiga að mæla enda má svindla á þeim; niðurstöðurnar úr vísindalegu rannsóknunum eru úrval þóknanlegra niðurstaðna en endurspegla ekki raunveruleikann og í stuttu máli sagt virkar þetta vísindalega vestræna læknisráðadót afar illa! Og mér er vel ljóst að þessi staðreynd á ekki bara við um minn sjúkdóm, þunglyndi, heldur marga aðra sjúkdóma. Af hverju ætti fólk ekki að prófa eitthvað annað þegar  „lækningar sem búið er að sýna fram á að virki“ virka alls ekki og er raunar ekkert endilega búið að sýna fram á að virki þótt sæmilega vellesinn haldi það? (Styttan er af Hippokrates að kenna nemendum, í Kos á Grikklandi.)

Hvað með gildi reynslunnar þótt vísindalegar sannanir skorti? Psoriasis-sjúklingar uppgötvuðu sjálfir að vatnið í manngerðu Bláa lóninu virkaði til bóta … voru það ekki skottulækningar sem bar að steinþegja yfir og banna með öllu? Ég þekki persónulega til MS-sjúklinga og fólks með vefjagigt eða alvarlega síþreytu sem hefur hlotið bót af LDN (Low Dose Naltrexone) en það er upp og ofan hvort sérfræðilæknar fást til að skrifa upp á lyfseðla fyrir því lyfi af því engar tvíblindar rannsóknir eru til sem sýna fram á virkni lyfsins við þessum sjúkdómum.  Sem gæti kannski hangið saman við að þetta er gamalt, ódýrt lyf og ekkert lyfjafyrirtæki sér möguleika á að stórgræða á því … 

Hvað með AA, hið eina sem virðist skila sæmilegum árangri til að alkóhólistar og fíklar nái bata; Eru AA ekki svakalega óvísindaleg samtök sem einkennast af hindurvitnum? Þar tíðkast meira að segja að fara með BÆN og blanda guði inn í málin! Mér vitanlega hafa AA samtökin aldrei verið rannsökuð „með vísindalegum aðferðum“. Er þessi eina aðferð sem virkar sæmilega gegn alkóhólisma í rauninni bölvaðar skottulækningar? Og ætti þess vegna að banna samtökin og setja meðlimina beint á Antabus, sem er einmitt vísindalega gjörprófað vestrænt læknislyf?

Ég er orðin dálítið þreytt á bláeygum trúgjörnum talsmönnum vestrænnar læknisfræði sem vilja hafa vit fyrir okkur hinum, aumingjunum, og passa að við leggjumst nú ekki í eitthvað sem ekki er „vísindalega sannað“. Mér sýnist að þeir sem vilja einkum banna sjúklingum að nota annað en það sem fæst í apóteki og læknir veltalandi á íslenska tungu hefur ávísað séu einmitt svona frekar stálhraustir og þurfi sjálfir ekki á lækningu að halda. Af hverju er hinum stálhraustu svo umhugað um að veikir fari sér ekki að óvísindalegum voða?

Er mögulegt að helstu sjálfskipuðu kjaftæðisvaktendur og andstæðingar hindurvitna haldi sjálfir fram hindurvitnum?  Þeim hindurvitnum að einu lækningarnar sem virki séu af meiði vestrænnar læknisfræði?

P.S. Nei, ég horfði ekki á myndina á RÚV, var að gera annað. En ég hef álíka lítinn áhuga á að banna svona myndir og ég er áhugalaus um að banna fótbolta (sem getur haft virkilega slæmar aukaverkanir, ég hef unnið með og kennt það mörgum fótboltastrákum til að gera mér grein fyrir því) … horfi aldrei á þetta spark en get vel unnt öðrum þess. Og hef tröllatrú á að fólk sé almennt með fullu viti, þokkalega dómgreind og það þurfi ekki að passa upp á hvað það horfir á í sjónvarpi.

Morð og drykkjuskapur

Í síðustu viku hamstraði ég bókafjöld á bókasafni Norræna hússins. Auðvitað var megnið morðsögur en eins og venjulega kippti ég einni annars konar bók með. Og svo hef ég legið í bókum eins og húsfreyjan forðum, án þess að Gilitrutt ræki inn nefið. Góðar morðsögur eru eins og góð krossgáta eða algebra: Í upphafi er allt í óreiðu og sagan snýst um að raða saman brotum og leysa málið, þætta og stytta. Morðsögur henta fólki sem er hallt undir skipulag og hreingerningu afskaplega vel!

PanserhjerteFyrsti maí fór ekki í kröfugöngu eða Nallasöng … nei, fyrsti maí fór að mestu í Panserhjerte hans Jons Nesbø.  Þetta er feikilega skemmtileg saga með alls kyns útúrsnúningum og “ekki er allt sem sýnist” kúvendingum. Morðin voru samt það óhugguleg að ég lagði ekki í að lýsa þeim fyrir mínu heimilisfólki. En aumingja Harry Hole er enn við sama heygarðshornið, hangir þurr á hnefanum og fellur inn á milli, ber ekki við að fara á AA fundi. Að sjálfsögðu er hann dökk hetja og óhamingjusamur með afbrigðum … kemst samt lifandi úr ótrúlegustu mannraunum og kröggum. Ég veit að svona bækur eru ekki raunsæisbókmenntir en stend mig öðru hvoru að því að hugsa: Æi, karlanginn, af hverju poppar hann ekki inn á fund?  Best að skrá sig á biðlista eftir Gjenferd … kannski lagast fundarsóknin í þeirri bók.

Ekki tekur betra við frá alkafræðum séð þegar maður vindur sér yfir í sænskar morðbókmenntir. Hún Malin Fors okkar í Linköbing fór í meðferð, í síðustu bók sem ég las, enda konan gegnsósa af Tequila. Nú er liðið meir en ár síðan, í Vårlik (eftir Mons Kallentoft), og Malin slæst við áfengislöngunina af ekki minna krafti en Harry Hole en hefur sigur, ólíkt honum. Kannski af því hún er svo dugleg að lyfta lóðum? Í Linköbing virðast engir AA-fundir og Malin leiðir ekki einu sinni hugann að svoleiðis, líklega eru AA fundir óþekktir í Suður-Svíþjóð. Sem betur fer er hún klár og verður skyggnari með hverri bók … svoleiðis að mál eru snyrtilega leyst að lokum. Malin nær sér meira að segja í ágætis hjásvæfu þrátt fyrir síðhvörfin. Hefði samt að ósekju mátt stytta bókina um svona 100 síður.

Í Danaveldi er drykkjuskapur líklega ekki álitinn sérstakt vandamál en hvunndags-sálfræðiflækjur eru þess fyrirferðarmeiri. Louise Rick leysir auðvitað gátuna í Dødsenglen (e. Söru Blædel) en þótt hún sé rosaflink í að þætta og stytta morðflækjur er hún á eilífum bömmer yfir að standa sig ekki sem fósturmamma og vinkona hennar á eilífðar bömmer yfir fortíðardraugum. Ef maður skrunar hratt yfir tilvistarflækjur aðalpersónanna má þó hafa gaman af bókinni.

Nú er ég byrjuð á Skrig under vand (e. Øbro og Tornbjerg). Þar er aðalpersónan einhvers konar réttarsálfræðingur (profilingsekspert) og auðvitað með óuppgerð persónuleg mál í massavís. Eftir þessar velskrifuðu sögur sem ég taldi upp að ofan virkar Skrig under vand stirð og barnalega skrifuð. Eiginlega hef ég takmarkaðan áhuga á hver drap fæðingarlækninn og hvernig morðið tengist einhverjum fortíðarslitrum um barnamorð. Í skandinavískum morðlitteratúr eru þessar fortíðarslitrur farnar að vera skyldubundið frásagnartrix, líklega sprottið af vinsældum Läckberg og Theorin?  Svo á ég bók um Dicte Svendsen ólesna enn en sé að á baksíðu er sérstaklega tekið fram að “På hjemmfronten må Dicte udkæmpe sin helt egen kamp …” svoleiðis að ég vænti þess að dágóður blaðsíðufjöldi verði tekinn undir trámað að búa með sér yngri manni og eiga dóttur á táningsaldri. Stundum hef ég á tilfinningunni að frændur okkar Danir hafi sökkt sér um of ofaní Sjöwall og Wahlöö í gamla daga en Svíar séu aðeins að skríða upp úr sósíal-realisma-hefðinni.

Bókin sem er ekki morðsaga ber samt morðtititil: Hundemordet i Vimmelskaft – og andre fortællinger fra 1700-tallets København. Ég er búin með um þriðjung og ekki komin að hundamorðinu. Hef hins vegar lesið dramatískar lýsingar á óþefnum í Kaupmannahöfn á 18. öld, hlutskipti betlara og vændiskvenna af öllum stigum og götulífið almennt. Í kaflanum “De fattiges horehus” var áhugaverð koparstunguröð sem sýndi leiðina til glötunar. Upphaflega voru þetta fjórar koparstungur en fjórða myndin hefur glatast. Á þeim þremur sem eftir eru má sjá lífsferil ungrar konu frá því hún er svo vitlaus að láta fallerast og til þess að mamma hennar er byrjuð að gera hana út (úr því meydómurinn er farinn virðist fátt annað í stöðunni) … í fátæklegu herbergi situr stúlkan örvingluð (milli kúnna reikna ég með) en mamman er komin í brennivínið og drekkur af stút. Maður getur bara ímyndað sér hvað fjórða og týnda koparstungan sýndi.  Næsti kafli heitir “Friere og falskspillere. Noget om drink og dobbel” og verður örugglega krassandi lesning … með tíð og tíma kemst ég svo í kaflann um hundamorðið fræga.

Í tilefni þess að ég er stödd á 18. öld horfði ég á þátt Péturs Gunnarssonar um 18. öld á Íslandi, á RÚV. Því miður vissi ég allt sem fram kom í þættinum en reikna með að næsti þáttur verði meira um eitthvað sem ég veit ekki fyrir. Og vissulega löptu Íslendingar dauðann úr skel á þessari öld en það var svo sem enginn draumur í dós að búa í Kaupmannahöfn heldur, fyrir alþýðu manna.

Á meðan ég sökkvi mér ofan í morð og ódó á blaðsíðum með bókalykt les maðurinn í sínum Kindli og dásamar Kindilinn. Hann er að lesa Nýja testamentið á grísku og sækist í að ræða efni þess og málsögu við sína konu. Sem betur fer tók ég kúrs í gotnesku á sínum tíma (valdi hann einungis út á kennarann, í skyldubundnum þremur málfræðikúrsum sem um var að velja virtist kennarinn í þessum einna normalastur). Það er fátt til á gotnesku annað en Nýja testamentisþýðing Úlfs litla og þótt ég sé búin að gleyma álnarlöngum beygingardæmum gotneskum situr textinn eftir. Vangaveltur um málsögulegar breytingar í gegnum tíðina eru hins vegar meiri höfuðverkur fyrir mig … hvenær hætti lýsingarháttur nútíðar að beygjast og af hverju urðu samsvarandi sérhljóðabreytingar í ólíkum indóevrópskum málum á sama tíma? Myndi láta manninn horfa á þætti Stephens Fry ef ekki vildi svo til að á sama tíma er Foyle í danska sjónvarpinu og ég er heilluð af þeim góðu þáttum …

Lokapæling um þunglyndi … að sinni

Áður en ég sný mér að efni færslunnar vil ég taka fram að ég er ekki veik núna þótt ég bloggi um reynslu mína af þunglyndi og læknistilraunum. Fyrir utan helvítis fráhvörfin af Rivotrilinu er ég „bara góð“ (eins og unglingarnir myndu orða það). Þessar færslur eru fyrst og fremst til að festa mér eigin skoðunarskipti í minni og hjálpa mér að glöggva mig betur á sögu minni og þeim ályktunum sem ég get dregið af henni. Ég kenndi nú einmitt árum saman að ein leiðin til að hugsa skipulega um eitthvað sé að orða hugsanir sínar í riti …

Niðurstaðan hefur ekki breyst frá því ég byrjaði að blogga um þetta. Hún er enn sú að lyfjagjöf hafi ekki skilað bata að ráði, að stundum hafi lyfjagjöf verið óhófleg og litið hafi verið um of framhjá slæmum aukaverkunum, og loks sú að lyfjagjöf hafi jafnvel verið til skaða. Sama gildir um tvær raflækningameðferðir, vorin 2006 og 2007. En niðurstaða mín er einnig sú að ég hefði engan veginn getað dregið þessar ályktanir, komist að þeirri niðurstöðu sem ég nú trúi að sé rétt, hefði ég ekki prófað alla þessa lyfjakokteila og stuðin.

Styrmi Gunnarssyni, höfundi Ómunatíðar, verður tíðrætt um að honum og fjölskyldu hans hafi ekki verið stætt á öðru en treysta læknunum. Því er ég alveg sammála. Ég hef í meir en áratug trúað því að þunglyndi væri velrannsakaður sjúkdómur og við því hefðu verið þróuð lyf sem virkuðu. Þetta var prýðilega útskýrt fyrir mér og bæði ég og fjölskylda mín sáum alveg rökin í málinu og þótti þau skynsamleg. Rökin eru til dæmis upplýsingar um boðefnaskipti í heila, hvernig þau geta riðlast, hvernig einstök lyf virka sem blokkar á boðefnaupptaka og „þvinga heilann“ til að framleiða meir af „ferskum“ boðefnum o.s.fr. Hér er líka rétt að taka fram að geðlæknar veita ýmiss konar samtalsmeðferð, tala við sína sjúklinga, halda fjölskyldufundi eða tala við aðstandendur o.þ.h. Ég vona að enginn taki það sem ég hef verið að skrifa sem svo að læknirinn minn hafi einfaldlega ávísað fjölda lyfja orðalaust og ekki gert annað – því fer fjarri. En óneitanlega hefur samt sú meðferð sem mér hefur staðið til boða gegnum tíðina snúist mjög um lyf og meintan mátt þeirra.

Nú mætti segja að ég hafi árum saman haft allar forsendur til að átta mig á því að þótt þunglyndi sé velrannsakaður sjúkdómur er langt í frá að menn skilji þann sjúkdóm almennilega og að þunglyndislyfin eru alls ekki byggð á þeim trausta grunni sem gefið er í skyn, hvað þá ýmis stoðlyf (lyf ætluð við öðrum geðsjúkdómum sem stundum hafa þótt vera til bóta þunglyndissjúklingum). Þær forsendur nýtti ég mér ekki fyrr en nýverið.

GleðipillurMér hefur fundist afar erfitt að rýna í það sem er sársaukafullt og stendur mér mjög nærri, sumsé eigið þunglyndi. Þótt ég geti vel skilið slatta í greinum og rannsóknum um þetta efni forðaðist ég að lesa mér til eins og heitan eldinn. Mér hefur lengstum fundist afskaplega óþægilegt þegar menn á borð við Steindór J. Erlingsson voru að  benda á að raunvísindalegur grunnur geðsjúkdómagreiningar og lyfja væri ekki eins ótvíræður eða traustur og ætla mætti af málflutningi lækna og lyfjaframleiðenda. Málflutningur eins og finna má í fyrirlestrinum Eiga geðlæknisfræði og trúarbrögð eitthvað sameiginlegt?  eða greinunum Hugmyndafræðileg kreppa geðlækninga  og Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni  (krækt er í Tímarit félagsráðgjafa 1. tbl. 5. árgangur 2011,  greinin hefst á s. 5)  fóru virkilega í taugarnar á mér. Þetta viðhorf má t.d. sjá á minni eigin bloggfærslu í okt. síðastliðnum Eru geðlyf vond og geðlæknar spilltir?  Raunar útskýrir Steindór þetta viðhorf einhvers staðar sjálfur ágætlega, eitthvað á þessa leið: Þegar mikið veikur sjúklingur heyrir efasemdir um gagn lyfjanna sem hann etur í einlægri trú á að þau lækni hann eða lini sjúkdóminn er það sambærilegt við að manni í hjólastól sé sagt að standa upp því dekkin undir stólnum séu hvort sem er ónýt. Það er sumsé erfiður biti að kyngja og ekki skrítið að ég hafi veigrað mér við því að horfast í augu við þá staðreynd að lyf hafa langoftast ekki gagnast mér hætis hót. Mér til málsbóta bendi ég á að aðrir algerlega ógeðveikir, með óbrenglað minni og ályktunarhæfni, hafa líka lengstum trúað þeim vísindalegu rökum sem lyfjagjöfin ku grundvallast á, meira að segja klárt og velmenntað fólk á borð við eiginmann minn.

Ég hef svolítið verið að hugsa þessi mál út frá alkóhólisma. Ég þekki engan sem orðið hefur edrú á bóklegri þekkingu um alkóhólisma eingöngu; Hef aldrei hitt þann alka sem las fullt af tvíblindum rannsóknum sem allar leiddu í ljós að óhófleg drykkja væri skaðleg og hætti þess vegna að drekka áfengi. Nei, allir þeir alkar sem ég hef kynnst þurftu að finna sinn botn og fara í meðferð, sjálfviljugir eða vegna íhlutunar annarra, þegar þeim var ekki stætt á öðru en viðurkenna vanda sinn. Og þess vegna held ég að ég hefði aldrei getað misst trúna á lyfjameðferð, þar á meðal allra handa fjöllyfjameðferð (lyfjakokteilum), og raflækningum ef ég  hefði ekki prófað þetta rækilega og reynt á eigin skinni (öllu heldur eigin heila og kroppi). Mér hugnast vel vísindi byggð á tilraunum og þykja sannfærandi, meira sannfærandi en flest annað. Og það getur vel verið að geðlyf virki á einhverja aðra þunglyndissjúklinga, a.m.k. vona ég það. En þau virka ekki á mig.

Það er samt ótrúlega skrítið að hugsa um hvernig geðlæknir eða geðdeild geti mögulega nýst fólki eða sinnt fólki sem ekki vill taka lyf. Líka þótt um sé að ræða fólk sem er faktískt búið að prófa megnið af þeim lyfjakokteilum sem til greina kemur að hrista handa einum þunglyndissjúklingi. Ég sé þetta ekki almennilega fyrir mér, verð líkast til að komast að því af reynslunni eins og ég hef uppgötvað af reynslunni að pillur úr boxi hafa ekki reynst mér vel.

Þótt í Klínískum leiðbeiningum um þunglyndi og kvíða, sem gefnar voru út í ágúst á liðnu ári, sé hamrað á að bjóða þunglyndissjúklingum eins og mér þunglyndislyf og HAM (hugræna atferlismeðferð) samhliða hefur mér aldrei verið boðin HAM-meðferð á geðsviði Landspítalans til þessa. Mögulega stakk læknirinn minn upp á DAM-viðtalsmeðferð á sálfræðistofu í lok ársins 2009. Ég man ekki hvort okkar átti hugmyndina en sé á blogginu mínu að ég hef verið að velta fyrir mér árvekni (mindfullness) og gjörhygli (DAM) á þessum tíma. Svo hitti ég sálfræðing einu sinni, leist ekki á þetta og ekki varð meira úr.

PavlovEn, sem sagt, eftir því sem ég best man og byggt á gögnum sem ég get flett upp í, þ.m.t. eigin bloggi, hefur megináherslan í lækningatilraunum á mínum sjúkdómi legið á lyfjum. Kannski eru þessar áherslur að breytast eitthvað núna, eftir að þessar klínísku leiðbeiningar fyrir geðsvið Landspítalans tóku gildi?

Á móti kemur að það er mjög stutt síðan ég fékk einhverja trú á að HAM gæti virkað, það gerðist um leið og ég öðlaðist frelsið sem fylgdi því að líta upp úr lyfjaboxinu. Ég tek skýrt fram að ég hef enga tröllatrú á HAM, finnst tilraunir til að „sanna aðferðina vísindalega“ með heilamyndatökum jafn ótrúverðugar og vísindalega „sannaðar“ niðurstöður lyfjaprófana / lyfjarannsókna og trúi því ekki að tæknin ein og sér skipti öllu máli en tengsl við meðferðaraðila engu. Ég get samt ekki vitað hvort HAM virkar eða virkar ekki gegn mínu þunglyndi nema prófa.
 
Niðurstaða mín er aðallega sú að ég hefði ekki getað komist að niðurstöðunni að lyf og rafmagn virka ekki mér til bóta nema vera búin að prófa lyfin og stuðin. Alveg eins og alkóhólisti er aldrei tilbúinn til að  viðurkenna vanmátt sinn gagnvart áfengi fyrr en hann er búinn að drekka sér og öðrum til óbóta. Líklega er engin fær leið að svona niðurstöðu nema reynslan.

Langir eru dagar og enn lengri nætur …

Þessi færsla fjallar um bið. Ég reikna með að flestir þunglyndissjúklingar kannist vel við hina endalausu bið … bið eftir að lyfin fari að virka; bið eftir að þunglyndiskastið láti undan síga; bið eftir að komast inn á geðdeild; bið eftir … hverju?

   

BiðÞunglyndislyf hafa m.a. þann ókost að virknin kemur ekki fram fyrr en tveimur-þremur vikum eftir að byrjað er að taka þau. Svo kemur  stundum í ljós að lyfið virkar ekki og þá þarf að byrja upp á nýtt, byrja að taka nýtt lyf og bíða, milli vonar og ótta, eftir að það virki (eða virki ekki). Allt eins getur verið að lyfið hafi slæmar aukaverkanir og þá hefjast prófanir á öðrum  lyfjum sem gætu kannski slegið á þær, mögulega með eigin aukaverkunum …

Það segir sig sjálft að þegar maður er fárveikur, hver mínúta er kvöl, hæfileikarnir hafa plokkast af manni hver af öðrum og jafnvel er svo komið að maður á erfitt með gang og hreyfingar, mál, getur ekki talað í síma því maður getur í fyrsta lagið ekki valið númerið og í öðru lagi ekki talað, einbeitingarskorturinn er svo alger að lestur, sjónvarpsgláp, jafnvel prjónaskapur er óhugsandi …. þá er biðin óþolandi og líðanin óþolandi: í merkingunni Ó-ÞOLANDI. Samt er ekki um annan kost að velja en þreyja þessa bið.

Í svona ástandi er sjúklingur eins og ég tilbúinn að prófa hvað sem er. Enda vofir sjálfsvígshættan alltaf yfir: Á stundum hefur mér fundist að ég höndlaði ekki eina mínútu í viðbót í þessari kvöl og tilhugsunin um að stimpla sig út úr þessu lífi verður æ meir lokkandi: Eiginlega þráir maður fyrst og fremst að þetta taki enda og er meir fús til að ýta á slökkvarann lífsins.

Mér er, eins og mörgum þunglyndissjúklingum, fullljóst að þunglyndi er lífshættulegur sjúkdómur. Málið væri einfalt ef maður væri einn í heiminum. En í kringum mig eru ástvinir og það er sjálfsögð skylda mín að biðja um innlögn á geðdeild þegar svo er komið að ég treysti mér ekki orðið til að standa gegn sjálfsvígshugsunum. Það gerist alltaf öðru hvoru þegar þrekið er nánast uppurið í slæmu þunglyndiskasti. Og ævinlega hefur staðið til að prófa eitthvað nýtt og bíða svo eftir því að það virki (eða virki ekki).

Ég er heppin að hafa lækni sem hefur getað komið því til leiðar að ég gæti lagst inn þegar ég hef þurft á því að halda. Biðin eftir innlögn hefur samt stundum verið mjög erfið. Mig minnir að oft hafi ég beðið heima … verið var að sjá til hvort mér skánaði ekki eitthvað eða vega og meta hvort ég þyrfti virkilega á geðdeildarvist að halda enda eru plássin fá og mikið veikir sjúklingar margir.

Allar geðdeildardvalir hafa svo snúist mjög um að prófa eitthvað annað, ný lyf, nýja lyfjasamsetningu, raflost … og bíða eftir að mér færi að líða skár, að lyfin eða lostin færu að virka, að bíða og bíða …

Biðin langaÞegar ég lít núna um öxl inn í þokuna sem umlykur síðustu ár í lífi mínu finnst mér ósjálfrátt eins og líf mitt hafi verið meira og minna „á hóld“. Hvers konar líf er það? Hvers konar líf er það að bíða (og vonast) endalaust eftir að „lausnin“ finnist?

Það er talsvert síðan ég missti trú á að ég hlyti algera bót minna meina. En alveg þar til nýverið hef ég samt ríghaldið í trúna á að eitthvað úr hatti geðlæknisfræðanna gæti nú samt linað sjúkdóminn, gert hann bærilegri, grynnkað dýfurnar oní Helvítisgjána o.s.fr. Það er algerlega nýtilkomið að ég velti fyrir mér mögulegum skaða sem lyfin eða lostin kunna að hafa valdið, líka hvort eitthvað af þeim skaða sé óafturkræfar breytingar. Á hinn bóginn sé ég ekki ástæðu til að dvelja mikið við svoleiðis vangaveltur, það þýðir ekki að garfa í „hvað ef“ og „hvað mundi hafa gerst ef“ eða yfirhöfuð að skoða líf sitt í viðtengingarhætti og þáskildagatíð.

Þegar ég gerði skipulegt yfirlit yfir eigin sjúkrasögu fyrir nokkru reyndi ég að átta mig á hvort væri eitthvert samband milli bata og lyfjagjafar eða raflosta. Við fyrstu sýn virðist svo ekki vera. Einhver slembilukka sýnir stundum samhengi en það virðist tilviljunarkennt eins og slembilukkan er. Ég sæi þetta væntanlega betur ef ég setti þetta upp grafískt. En á móti kemur að það sem virðist bati kann að hafa orðið sjálfkrafa þótt hann hitti á sama tíma og einhver ný lyf í það og það skiptið. Eða raflostmeðferð (sú fyrri var talin hafa virkað, sú síðari ekki).

Ég hef aðeins velt því fyrir mér hvort eða hvernig geðdeildardvöl gæti nýst mér ef ég held mig við þá ákvörðun að hætta að taka lyf, á þeim forsendum að lyf hafi hingað til langoftast ekki bætt neitt og mögulega orðið til hins verra á stundum. Geðdeildarvist gæti áfram þjónað þeim tilgangi að passa mig fyrir sjálfri mér þegar ég sé ekki út úr sortanum og lífið er engan veginn þess virði að lifa því. Geðlæknar veita auðvitað nokkra samtalsmeðferð og  líklega getur maður fengið að tala við sálfræðing á geðdeild. En biðinni miklu, biðinni eftir að lyfin fari að virka, biðinni eftir að nýjar tilraunir skili árangri, biðinni eftir einhverri lausn úr pilluglasi eða með rafmagnsgræjum held ég að sé sjálfhætt núna.  Sú langa bið hefur ekki skilað neinu þegar upp er staðið.

Spurningin er: Hvað geri ég næst þegar „beigurinn og geigurinn gríp’um hjartarætur“? Sest í sölvafjöru og græt?

Farðu í rassgat Rivotril!

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að í þessum bloggfærslum / pælingum mínum um eigin sjúkdóm og reynslu af læknisaðgerðum er ég ekki að leita að sökudólgi. Einu mögulegu sökudólgarnir eru einhverjir áar lengst aftur í ættir sem hafa skaffað óæskileg gen. Á maður að ergja sig yfir því? Ég vil taka skýrt fram að mér hefur fundist starfsfólk á geðdeild vera einstaklega almennilegt og leggja sig fram við að sjúklingum líði sem skást miðað við aðstæður. Og einnig taka skýrt fram að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að geðlæknirinn minn hafi ávallt borið hag minn fyrir brjósti og gripið til þeirra læknisráða hverju sinni sem hann taldi myndu nýtast best til að slá á sjúkdómseinkenni eða gera líf mitt bærilegra, frá sínum sjónarhóli séð.

Mamma � s�ldinni á RaufarhöfnEn efni þessarar færslu er eigin hroki og fordómar. Þess vegna er titillinn óbein vísun í frægt hrokafullt og meinyrt kvæði Suður-Þingeyings um minn fæðingarbæ. Tek þó fram að tilfinningar mínar í garð Rivotrils eru ekki nærri eins beiskjublandnar og tilfinningar Húsvíkingsins. Til að draga úr áhrifum vísunarinnar er mynd af mömmu í síldinni á Raufarhöfn, hún hefur bæði jákvætt viðhorf til síldar og Raufarhafnar auk þess að hafa aldrei etið Rivotril 😉

Rivotril er benzódíazapem-lyf, þ.e. lyf af sama meiði og Xanax, Libríum, Díazepam (Valíum) o.fl. Flest eru þessi lyf flokkuð sem róandi eða kvíðastillandi en Rivotril er reyndar flokkað sem flogaveikilyf þótt því sé oft ávísað sem kvíðastillandi lyfi. Helmingunartími lyfsins er óvenju langur og þess vegna þykir það ólíklegra til að valda fíkn en mörg önnur kvíðastillandi lyf úr benzólyfjaflokknum.

Ég hef ástæðu til að ætla að ég hafi haft kvíðaröskun frá blautu barnsbeini. En fyrsta slæma ofsakvíðakastið sem ég man eftir á sjúkdómsferli mínum upplifði ég við mjög erfiðar og átakanlegar aðstæður, í kirkjuathöfn árið 2002. Þá hafði ég ekki hugmynd um hvað þetta væri en fannst að það væri að líða yfir mig og upplifði þessa hryllilegu líðan sem ofsakvíðakast er. Í rauninni er dálítið misvísandi að kalla þetta ofsakvíðakast því svona köst líkjast ekki kvíða eins og venjulegt fólk skilur orðið. Maður kvíðir í rauninni ekki fyrir neinu heldur líkist kastið miklu frekar hjartaáfalli (andnauð, yfirliðatilfinning, sár verkur fyrir brjósti og niður handlegg o.s.fr.) enda eru mörg dæmi þess að fólk leiti á hjartadeild vegna ofsakvíðakasts. Þegar kvíðasjúklingur hefur áttað sig á að þessi köst koma við tilteknar aðstæður verður kvíði fyrir yfirvofandi kasti svo mikill að hann einn og sér getur valdið kvíðakasti í hvert sinn sem viðkomandi lendir í þessum aðstæðum.

Það er mjög erfitt að eiga við ofsakvíða því grípi maður til hins nærtækasta, sem sé forðast aðstæðurnar sem kveikja kvíðakastið, eykst kvíðinn og kvíðaköstin koma við fleiri aðstæður. Ofsakvíði er nákvæmlega eins og púkinn á fjósbitanum, sem fitnaði af bölvi einu saman. Ef maður reynir að komast undan honum með því að forðast aðstæður fitnar helv. kvíðapúkinn af forðuninni og verður enn ágengari.

Í mínu tilviki færðist ofsakvíðinn úr kirkjunni yfir á stór rými almennt og svo á Hvalfjarðargöngin. Merkilegt nokk skildu margir að ég skyldi fá kvíðakast í göngunum, það má skrifa það á innilokunarkennd sem margir þjást af. Það var hins vegar erfiðara fyrir aðra að skilja að ég ætti erfitt með að fara í bíó eða leikhús: Af hverju ætti maður að upplifa hjartaáfallseinkenni í bíó eða leikhúsi? En ofsakvíði (stundum kallaður felmtursröskun) er engan veginn lógískur fjandi! Spurningunni: “Við hvað ertu hrædd?” er ekki hægt að svara. Á tímabili fékk ég aðkenningu að ofsakvíðaköstum í minni eigin kennslustofu … og meira að segja í stofunni heima hjá mér.

Til að slá á þessi einkenni fékk ég ávísað Rivotril í litlum skömmum ári eftir fyrsta slæma ofsakvíðakastið, þ.e. árið 2003. Síðan hef ég tekið þetta lyf að staðaldri og í mismunandi skömmtum, stundum tiltölulega háum, stundum lágum.

Hlekkjuð snorkstelpaSumarið 2009 reyndi læknakandídat á heilsugæslunni hér á Skaganum að benda mér á að ég væri orðin mjög háð Rivotrili og Seroqueli. Ég hafði pantað aukaskammt af þessum lyfjum af því ég var að fara í frí til útlanda. Þessi læknakandídat hringdi í mig, sagði mér að ég væri alltof háð þessu og gaf jafnframt í skyn að ég væri að safna birgðum fyrir sjálfsvíg. Ég varð ofboðslega reið yfir að vera vænd um að vera lyfjafíkill í sjálfsvígshugleiðingum og klagaði kandídatinn umsvifalaust fyrir yfirmanni heilsugæslustöðvarinnar.

Haustið 2009 var mér aftur bent á að það væri óskynsamlegt að taka Rivotril að staðaldri. Ég brást aftur við með hrokann að vopni og bloggaði í nóv. 2009:

Þegar tekin var af mér sjúklingaskýrsla inni á deild 32 A fyrir rúmum mánuði síðan gaf hjúkrunarfræðingurinn í skyn að ég væri Rivotril-fíkill. Blessunarlega var ég sjóuð í því kjaftæði síðan ég kynntist ógleymanlegum læknanema í sumar, sem greindi mig óséða gegnum símtal  Sú á Lans sagðist hafa “lært það í skólanum” að Rivotril mætti einungis nota í 3 vikur samfleytt. (Ég veit að alls konar vitleysa er kennd í skólum; sjálf kenni ég t.d. stundum að jörðin sé flöt og regnboginn brú upp í Ásgarð og þrjár nornir skapi mönnum örlög … eða að allt muni deyja og fölna nema orðstírinn … og fleiri svona dilluverk sem ég reikna með að sr. Eðvarð væri ekki fullkomlega sammála.  Svo ég er ekkert að rengja það að í hjúkrunardeild HÍ eða HA sé kennt að ekki megi nota Rivotril nema í 3 vikur. Það þýðir hins vegar ekki að fólk eigi að gleypa allt hrátt sem því er sagt í skóla.)

En hef þó greinilega eitthvað verið að hugsa minn gang því í sömu færslu segir:

Ég hef svo lélega dómgreind að mig brast vit til að greina milli þess sem ég get breytt og þess sem ég get ekki breytt. Svo í einhverju bríaríi, sem engan veginn hæfir svo skynsamri manneskju, fór ég að trappa niður Rivotril-ið. Það virtist ganga vel í fyrstu en í morgun vaknaði ég hríðskjálfandi klukkan 5.30 … fór á fætur mest til að geta etið morgunskammtinn af téðu Rivotrili og fór að hræra saman í próf. Allt gekk þetta þolanlega fram undir hádegi en þá hrundi ég hér inn um dyrnar heima og fór að hágrenja. Reyndi að leggja mig en leið bara verr … þangað til ég horfðist í augu við að ég væri mikið veik og ætti að vera í bælinu og gera sem minnst. Og tók Rivotril en má eiga það að ég kenni hjúkkunni á 32 A þó ekki um – það að ná úr mér samviskubitinu yfir þessu ræfils lyfi er mitt eigið mál og ábyrgð.

Núna sé ég að þessar konur höfðu alveg rétt fyrir sér. Ég var sjálf blinduð af hroka og eigin fordómum. Það hvarflaði ekki að mér eitt augnablik að taka mark á þessum velmeinandi athugasemdum. Núna skammast ég mín fyrir viðbrögðin og er raunar að velta fyrir mér að hafa samband við læknakandídatinn og biðja hana afsökunar.

Vorið 2010 ákvað ég einhverra hluta vegna að hætta á öllum lyfjum. Líklega hefur undirmeðvitundin sagt mér að stöðug og vaxandi lyfjagjöf síðustu ára hefði ekki skilað neinum árangri, ég skildi þetta sumsé “með randen af forstanden” eins og familían orðar þetta stundum. Ég man aðeins eftir þessari tilraun, lítið minningarbrot um þegar ég var að fara að arka Langasand í þriðja sinn sama daginn vegna þess að ef ég var kjur skalf ég eins og hrísla poppar upp í kollinn á mér. En þessi óskynsamlega tilraun, að snögghætta á Rivotrili, rann út í sandinn og í snemma í apríl 2010 hef ég bloggað:

Af heilsu er það að frétta að ég hef ákveðið að byrja að eta pillur við kvíða. Er fullkomlega sátt við það enda ástandið óbærilegt og eitthvað verður að gera. Í tannlæknaheimsókn kom í ljós að verkir og helaumt tannhold hefur ekkert að gera með ástand tanna og tannholds. (Mig grunaði það en vildi síður fá slæma tannrótarbólgu bara af því ég hefði skrifað allt á kvíðareikninginn.) Skv. blóðprufu er ég stálhraust. En rúm 10 kg hafa hrunið af mér síðan í janúar og kílóarýrnun er enn í fullum gangi … reikna með að ég brenni eins og maraþonhlaupari þótt ég sitji meira eða minn kjur. Kvíði er afar grennandi kvilli.

Aðeins seinna í sama mánuði er ég komin í vörn:

Og enn eitt: Vissulega hætti ég á lyfjum. En það kom nú ekki til af því að ég héldi að súrefni og vatn myndu gera mig heilbrigð. Nei, eftir að hafa prófað á þriðja tug lyfja var ég orðin úrkula vonar um að það fyndist lyf sem virkaði á mitt þunglyndi og kvíða. Hef í tímans rás séð mörg dæmi þess að lyf skiptu sköpum og er almennt fylgjandi lyflækningum, raflækningum líka. Kannski mun ég öðlast döngun til að halda áfram að prófa (verst hvað ég þoli helv. aukaverkanirnar illa). Næsta skref hjá mér er hvorki fjórða spors “vinna” né niðurdýfingarskírn heldur kvíðanámskeið; er að reyna að komast á svoleiðis, veit ekki hvort það virkar en það get ég náttúrlega ekki vitað nema prófa. Og ég er voðalega mikið til í að prófa ansi margt gegn þessu helvíti þótt ég sé ekki heit fyrir nýmóðins sporavinnu, a.m.k. ekki ef árangurinn af henni er í líkingu við það sem ég varð vitni af í dag.

Raunar er nokkuð augljóst að ég var bæði að verja Rivotril-töku og  reyna að hætta henni, vorið 2010.  En hef þó eitthvað reynt að klóra í bakkann með því að skrá mig á námskeið hjá Kvíðamiðstöðinni og píndi mig til að sitja það námskeið. (Ég man eftir samningum við sjálfa mig á borð við: “Nú labbarðu út á strætóstöð og þegar þú ert komin þangað máttu ákveða að hætta við að fara” …)  Fyrirfram hafði ég enga trú á að HAM-námskeið gegn kvíða kæmi að minnsta gagni en raunin varð önnur. Þetta námskeið er eitt af fáum verulega gagnlegum bjarghringjum í sjúkdómssögu minni.

Sem betur fer varð ákveðið atvik til þess núna á útmánuðum að ég fór í alvöru að velta fyrir mér mínum málum, gera yfirlit yfir sjúkrasöguna mína (sem var nauðsynlegt því stórir hlutar hennar eru í óminni) og draga ályktanir af því yfirliti. Undir niðri hafa kannski efasemdir um Rivotrilneyslu kraumað, þökk sé þessum ábendingum sem ég var of hrokafull á sínum tíma til að skoða?

Vaxandi minnistruflanir hafa pirrað mig ær meir. Þær hafa verið skýrðar fyrir mér þannig að í þunglyndi skrái heilinn ekki minningarnar rétt og þess vegna geti ég ekki kallað aftur fram margar minningar. (Ég hef gert mér í hugarlund að þetta væri eins og að vista Word-skjal undir endingunni .jpg og geta svo ekki hvorki opnað skjalið í Word né myndvinnsluforriti.) Ég held að þessi kenning geti vel útskýrt vaxandi minnistruflanir en er þess fullviss núna að hluta þessara minnistruflana má allt eins rekja til Rivotril-töku, a.m.k. ef marka má reynslusögur Rivotril-neytenda.

Svo ég tók þá ákvörðun að hætta að taka Rivotril. Sem skynsamur óvirkur alkóhólisti hringdi ég auðvitað á Vog til að biðja um leiðbeiningar. Hefði allt eins getað reynt að tala við ísskápinn heima hjá mér. Þá brá ég á það ráð að lesa mér til á Vefnum. Ég mæli sérstaklega með síðunum BENZODIAZEPINES: HOW THEY WORK AND HOW TO WITHDRAW / The Ashton Manual og Benzodiazepine Withdrawal Support.

Eftir að hafa lesið mér til m.a. á þessum síðum sá ég að það er ekkert grín eða gamanmál að hætta á Rivotril. Helsti kosturinn, hinn langi helmingunartími sem á að minnka líkur á fíkn í lyfið, er jafnframt helsti ókosturinn, þ.e. gerir það að verkum að það er mjög erfitt að hætta að taka þetta lyf.

Ég setti upp þriggja mánaða áætlun, sá að happadrýgst yrði líklega að nota svefnlyf a.m.k. allan þann tíma (ég hef ekki náð upp eðlilegum svefni frá Marplan-tilrauninni, sem ég lýsti í síðustu færslu – las raunar talsvert um slæm áhrif Imovane og ávanahættu af því en það er seinni tíma vandamál) og sá að ég ætti að nýta mér það eina ráð sem mér tókst að tosa út úr hjúkrunafræðingi á Vogi, sumsé að hafa samráð við lækni. Svo ég setti heimilislækni, sem ég treysti vel og þekkir vel til mín og minna mála, inn í málin. Að auki setti ég fjölskylduna, bestu vinkonu mína og AA-deildina mína inn í þetta sem ég er að gera og byrjaði að ganga til sálfræðings hér uppi á Skaga, fyrst og fremst til að “fá lánaða dómgreind” (eins og alkafrasinn hljómar).

Þetta hefur gengið eftir til þessa. Fyrsta trappan var úr 1 mg niður í 0,5 mg og hún var mjög erfið! (Mögulega var ég að taka meir en 1 mg á sólarhring, ég er ekki viss því það hefur verið ansi mikið hringl á Rivotril skömmtum í vetur.) Næsta trappa, sem ég er stödd á núna, niður í 0,25 mg, er líka mjög erfið (því miður, ég hélt að hún yrði kannski dálítið skárri en það gekk ekki eftir).

Fráhvarfseinkennin eru ógeð! Ég hef það á tilfinningunni að það tennurnar séu að poppa úr jöxlunum vinstra megin og vinstra augað að poppa úr tóttinni. Seinnipartinn og á kvöldin er ég koldofin í höfði og herðum, finn stundum ekki fyrir snertingu á húðinni og allir vöðvar eru í hnút. Eina ráðið við þessu eru langir hraðgöngutúrar og löng heit sturta, það slær aðeins á einkennin. Svo rígheld ég í þá ágætu aðferð “taka hálfan dag í einu”, sem ég er þaulæfð í að nota. Mér sýnist að í hvorri tröppu hafi 10.-12. dagurinn verið verstur og eftir þrjár vikur skáni ástandið svolítið. Miðað við það sem ég hef lesið á Vefnum má ætla að það taki heilann í mér u.þ.b. ár að verða normal á ný eftir svo margra ára Rivotril töku. Og það er óraunhæft að fara að floga í svefnlyfjatöku fyrr en síðsumars.

Auðvitað koma sjúkdómseinkennin tvíefld til baka þegar Rivotril-töku er hætt. Ég hef þegar upplifað nokkur ofsakvíðaköst. Og hvað get ég gert í því? Jú, ég reyni að rifja upp það sem ég lærði á því góða námskeiði hjá Kvíðamiðstöðinni og nýta mér. Og svo hefur geðlæknirinn minn lagt inn beiðni, að minni ósk, svo ég komist á HAM-námskeið á Landspítalanum. Mig minnir að það sé ekki nema rúmur mánuður síðan ég lýsti því yfir á umræðuþræði á eigin bloggi að ég myndi aldrei nokkurn tíma fara á HAM-námskeið á Landspítalanum …

Það er hollt að láta af eigin fordómum. En það er líka helvíti erfitt að viðurkenna eigin hroka og hleypidóma, éta ofan í sig eigin staðhæfingar og skipta um skoðun! Þessi bloggfærsla er nauðsynleg æfing í þessu, fyrir mig.

Haltu kjafti og vertu … þunglynd?

Fyrir langalöngu vakti smásagnasafnið Haltu kjafti og vertu sæt (eftir Vitu Andersen) mikla athygli. Sögurnar áttu það sammerkt að fjalla um hlutgervingu og smættun kvenna og lýsa kvenfjandsamlegum heimi. Ég reikna með að femínistar séu enn hrifnir af þessum sögum.

Ég hef langa reynslu af því bæði að vera kona og að vera þunglyndissjúklingur og leyfi mér að fullyrða að  hlutgerving og smættun kvenna er hjóm eitt hjá hlutgervingu og smættun geðsjúklinga! Stundum velti ég því fyrir mér hvort þessi hneigð beinist bara að fólki með geðræna sjúkdóma eða hvort þetta er hlutskipti allra sem eru langveikir? Hefur ástandið eitthvað breyst frá því Auður Haralds skrifaði Læknamafíuna? (Sem hefur undirtitilinn: Lítil pen bók … en veikar konur og allrahelst geðveikar konur eiga helst að vera litlar og penar konur, hefur mér skilist af reynslunni.)

Í fyrsta lagi gengur geðlækningakerfið ansi langt í að smætta fók niður í sjúklinga, að mínu mati. Eðalsjúklingur etur sín lyf þegjandi og hefur ekki skoðanir. Ég hef, í gegnum tíðina, alltaf öðru hvoru viðrað efasemdir um gagnsemi fjöllyfjagjafar og kvartað undan aukaverkunum sem voru oft mjög slæmar. En slíkar efasemdir hafa yfirleitt verið kveðnar í kútinn með niðurstöður (tvíblindra) rannsókna að vopni. Á tímabili var ég farin að hata þær systur Tvíblindi og Þríblindi! Kvartanir yfir aukaverkunum hafa verið vegnar og léttvægar fundnar. Ég er farin að hallast að þeirri skoðun að í geðlæknisfræðum ráði gamaldags tvíhyggja að hætti Decartes: Sál og líkami eru algerlega aðgreind nema nútildags er sálin kölluð “boðefnaskiptarugl í heila”. Áhersla er lögð á að lækna sálina (leiðrétta/laga boðefnaskiptarugl í heila) og skiptir þá litlu máli hvaða líkamleg óþægindi sjúklingurinn hefur af lækningunni. Þetta kallast vísindi en ekki trúarbrögð á þeim forsendum að til sé mýgrútur rannsókna sem sýni fram á lækningamátt lyfjanna, sjúkómurinn (í mínu tilviki þunglyndi og kvíði eða þunglyndi með kvíða) sé vísindalega skilgreindur í stöðlum (DSM eða ICD) og lyfin vísindalega uppfundin í samræmi við staðlana og batinn loks vandlega kortlagður með vísindalegum sálfræðilegum prófum (t.d. kvíða- og þunglyndiskvarða Beck’s).

Ég get tekið sem dæmi síðustu alvarlegu lækningatilraunina sem hófst á haustmisseri 2010. Í algerri örvæntingu og djúpu þunglyndiskasti hafði ég fallist á að prófa Marplan. Þetta lyf er ekki lengur á markaði hérlendis en er stöku sinnum reynt þegar aðrir lyfjaflokkar þykja fullprófaðir. Lyfið telst til óafturkræfra MAO-blokka og þarf að gera ákveðnar varúðarráðstafanir í mat og drykk, sem og öðrum lyfjum, því sumt getur valdið lífshættulegum aukaverkunum sé það innbyrt meðan sjúklingur notar þetta lyf. Sumir sjúklingar þola ekki Marplan og þess vegna er sniðugt að prófa það fyrst inni á geðdeild því hún er í hæfilegri nálægð við hjartadeild Landspítalans.

Jæja, eftir að hafa orðið æ veikari hér heima í þrjár vikur lagðist ég inn á geðdeild og byrjaði á þessu lyfi. Á geðdeild var ég í sjö vikur, sem er persónulegt met í geðdeildardvöl. Marplan lækkaði blóðþrýstinginn niður í mátulegan blóðþrýsting fyrir eins árs barn en af því ég er með ansi lágan blóðþrýsting fyrir fann ég ekki svo mikið fyrir þessu nema ég var að drepast úr kulda alltaf hreint.  Síðla dags og á kvöldin pakkaði ég mér inn í lopapeysur og flíspeysur, hvert lagið yfir öðru, og skreið undir sæng að auki. Faktískt leið mér djöfullega seinnipartinn og á kvöldin en statusinn er tekinn í morgunviðtölum svo líklega kom ég betur fyrir en raunin var. (Núna veit ég að hluti þessarar slæmu líðanar var Rivotril-fráhvörf … blogga betur um þau síðar.) Og svefninn var stundum slæmur og lyf við slíku virkuðu ekki.

Eftir sjö vikur fyllti ég út spurningalista, þunglyndispróf Becks ef ég man rétt. Það vantaði nokkur stig upp á að ég mældist þriðjungi frískari en þegar ég var lögð inn en mér skildist að þriðjungs bati teldist marktækur bati og nægur til að útskrifast af geðdeild.  Ég hafði farið í leyfi heim í tvo daga til að testa hvort ég höndlaði að vera heima og notaði tækifærið og lét sjæna mig á hárgreiðslustofu. Svo ég stakk upp á því að hárlitun, augabrúnalitun og klipping teldist sem nokkur stig og þar með vorum við komin með þriðjungs bata á hreint og hægt að útskrifa mig. Allir voru glaðir yfir þessu: Ég yfir að komast heim (geðdeild er nú ekki beinlínis skemmtistaður) og staffið yfir að ég skyldi geta útskrifast.

Heima hélt ég áfram að vera helvíti veik, gat ekki keypt jólagjafir, komst ekki í nein fyrirjólaboð eða jólaboð, gat illa lesið eða fylgst með sjónvarpi, minnið fokkaðist meira og minna upp o.s.fr. Svo hætti ég að geta sofið, svaf um þrjá tíma á nóttunni frá því um miðjan desember og fram í febrúarlok, náði stundum að sofna klukkutíma í viðbót upp úr átta að morgni. Við þessu fékk ég svefnlyf, síðan róandi lyf, síðan sterkt geðlyf og loks júníversallyfið gamla: Seroquel. Mögulega virkaði Seroquelið eitthvað en mér fannst svo helvíti vont að hrökkva upp undir áhrifum að ég valdi að sofa klukkutíma styttra og hrökkva upp edrú.

Ég varð stjörf af svefnleysi. Á tímabili túlkuðu bæði ég og fjölskyldan þetta ástand sem bata. Skapsveiflurnar, pirringurinn og ofsaleg grátköst þar sem ég náði ekki andanum voru úr sögunni. En svo varð okkur ljóst að þetta gengi ekki, ég myndi ekki halda sönsum með þriggja til fjögurra tíma svefni mánuðum saman. Ég ákvað sjálf að hætta á Marplan í febrúarlok 2011, án samráðs við lækninn minn.

Eftir á séð held ég að Marplan hafi einungis haft þau áhrif að breyta ódæmigerðu þunglyndi í dæmigert þunglyndi, sem var síst skárra. Þ.e.a.s. ég hef alltaf þurft óvenju mikinn svefn, helst 9 klst. á nóttu, og enn meiri þegar ég hef lent í þunglyndisdýfum. Þess í stað kom dæmigerð árvaka og svefnleysi. En bati? Ég held ekki. Þegar ég kvartaði yfir að ég gæti ekki sofið takandi Marplan var brugðist við því eins og venjulega, þ.e. með fleiri lyfjum til að slá á aukaverkanir aðallyfsins (fyrst Truxal, svo Nozinan, loks Seroquel). Þau lyf gerðu mig bara hífaða en löguðu ekki svefninn. Imovane virkaði ekki því það var ekki vandamál að sofna heldur að sofa. Minnistruflanir  voru skrifaðar á þunglyndið. Handskjálftinn var skrifaður á kvíðann. Sjálf held ég, eftir á séð, að Marplan hafi ekki haft nein áhrif til bata en ógagnið hafi verið verulegt: Þið getið bara prófað að sofa aldrei meir en fjóra klukkutíma á sólahring í meir en tvo mánuði og athugað hvernig ykkur líður!

En … vissulega hélt ég kjafti og var hinn góði þunglyndissjúklingur … alveg til febrúarloka 2011. Mér þætti gaman að vita hve lengi þessi hrossalækningartilraun hefði staðið hefði ég ekki sjálf ákveðið að komið væri nóg!

Þessi Marplantilraun kenndi mér loksins að þótt sjúklingurinn kvarti yfir óæskilegum aukaverkunum er það ekki endilega talið marktækt eða eitthvað sem skipti einhverju máli. Það að ég gæti ekki sofið, skylfi stöðugt, væri að drepast úr kulda, gæti hvorki lesið né prjónað o.s.fr. vó ekki þungt á móti möguleikanum á að lækna “sálina”, þ.e. meint boðefnaruglið í heilanum á mér. Af þessari tilraun lærði ég endanlega að séð með gleraugum geðlæknisfræði endar líkaminn við háls og svo tekur “sálin” við – í geðlæknisfræði einbeita menn sér að “sálinni” (þótt kölluð sé öðru nafni) => sjúklingurinn er smættaður niður í eigin heilastarfsemi. Þetta var þörf lexía fyrir mig sem hafði alltof lengi gleypt stórasannleik hráan. Það hefur hins vegar tekið mig meir en ár að melta þennan lærdóm og nýta mér loks til gagns.

M�mla systir M�u litluAuk geðlækningabatteríisins telur bæði sjúklingurinn sjálfur og nánasta fjölskylda hans að hálfgert uppvakningsástand af lyfjum eða aukaverkunum lyfja sé bati. Þunglyndissjúklingar eru nefnilega ekki nándar nærri eins rómantískir og þeim er lýst í bókmenntum. Þunglyndi fylgja miklar geðsveiflur og pirringur út í allt og alla, jafnvel óskiljanleg reiðiköst. Myndin af rómantíska þunglynda snillingnum sem hímir einmana hokinn af heimshryggð og “bakvið mig bíður dauðinn” fílingurinn er goðsögn. Svoleiðis að “haltu kjafti” hlutverkið verður stundum eftirsóknarverðara en hlutverkið “geðvonda konan” og stjarfinn og skoðanaleysið talið batamerki. Ég blogga bráðum um eigin fordóma sem hafa staðið mér mjög fyrir þrifum og eru líklega verstu fordómarnir, a.m.k. er ævinlega erfiðast að eiga við eigin fordóma. (Myndin er af grenjuskjóðunni Mímlu sem er líklega eðalþunglyndissjúklingur. Annars getið þið prófað að myndagúggla depression og fullvissa ykkur þannig um að staðalmyndin af þunglyndissjúklingi er kona í hnipri, líklega grátandi og alveg örugglega þegjandi!)

Þegar þunglyndissjúklingur eins og ég er orðinn öryrki af völdum þunglyndisins verður heimurinn æ smærri og lífið æ fátæklegra. Smám saman fer maður að hafa asklok fyrir himin. Og ósjálfrátt festist maður í hlutverki sjúklingsins, sem er hundleiðinlegt, andstyggilegt og óæskilegt hlutverk. Þetta er versta hlutskipti sem ég hef hlotið á lífsleiðinni og ég myndi fagna því mjög að sleppa við að einhverju leyti við það, þótt ekki væri nema fá brotabrot af starfsorkunni aftur.

Enn einn höfuðverkurinn er að díla við opinbera kerfið. Þegar ég varð öryrki reyndist aðallífeyrissjóðurinn minn mér mjög vel. Öll samskipti við fólk þar hafa verið til fyrirmyndar. Satt best að segja held ég að þessi ágætu samskipti og sérstaklega góða þjónusta sé undantekning. Allt aðra sögu er að segja af Tryggingastofnun ríkisins. Þaðan vildi ég einungis fá örorkuskírteini en ekkert fé. TR hefur þá stefnu að taka ekki mark á læknisvottorðum ef örorka er af völdum geðröskunar en tekur stundum mark á læknisvottorðum um örorku af öðrum toga. Þess vegna var ég pínd í viðtal í fyrra við heimilislækni í Mosfellsbæ, annan af þeim tveimur læknum sem TR treystir til að meta örorku vegna geðsjúkdóma. Heimild mín fyrir vinnureglu TR sem mismunar öryrkjum eftir eðli krankleika er þessi læknir. TR þrjóskaðist líka við að þvinga mig til að veita stofnuninni aðgang að öllum upplýsingum um fjárhag minn (skattaskýrslum, bankareikningum o.fl.) þangað til Persónuvernd úrskurðaði að stofnuninni væri þetta óheimilt. (Það gekk ekki átakalaust því TR lagði sig í líma við að veita Persónuvernd villandi upplýsingar.) Þrátt fyrir úrskurð Persónuverndar í lok síðasta sumars náði TR ekki að búa til nýtt eyðublað í tæka tíð og ég endurnýjaði örorkuskírteinið einhvern veginn “bakdyramegin” núna á vormisseri, þ.e. með tölvupóstsamskiptum við lögfræðing og fulltrúa á skrifstofu. Hef ekki gáð hvort stofnuninni hefur tekist að búa til eyðublað í samræmi við úrskurð Persónuverndar á allra síðustu mánuðum … reikna svona síður með því.

Úrklippa úr Sk�rni 1909

   

Þegar ég fyllti út skattframtal núna tók ég eftir að upphæð smáauranna sem ég fæ frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda hafði breyst. (Sjúkdómur minn veldur því m.a. að ég gaumgæfi ekki rafræn skjöl í heimabanka sem tómstundargaman.) Ég hringdi í SL og fékk að vita að  bæklunarlæknir, sem er embættislæknir SL, hefði ákveðið í nóvember að ég væri 25% vinnufær og þ.a.l. 75% öryrki. Ég hef aldrei hitt þennan lækni en læknirinn minn sendi SL vottorð í október og mér þykir ólíklegt að sá geðlæknir sem hefur stundað mig frá árinu 2000 hafi allt í einu vottað að ég hefði náð þetta góðum bata án þess að segja mér frá því.

Ég hringdi sem sagt í konuna sem hefur með mín mál að gera hjá SL og óskaði eftir skýringum, fékk að vita að ég væri búin að vera svona helvíti frísk síðan í nóvember að mati fjargreinandi bæklunarlæknis, sendi svo konunni tölvupóst með beiðni um afrit af örorkumati og þeim gögnum sem það væri byggt á. Tæpum mánuði seinna hringdi ég aftur en þá sagðist hún ekki hafa fengið tölvupóstinn. Ég sendi hann aftur fyrir rúmri viku. Svo hringdi ég í gær til að vita af hverju ég væri ekki búin að fá ljósrit/afrit af þessum gögnum. Í símtalinu sagði ég líka kristaltært að mér fyndist það alger vanvirðing að einhver læknir sem aldrei hefur barið mig augum ákveði upp á sitt eindæmi að ég sé fjórðungi frísk – ég er þá væntanlega bara letidýr og upp á mitt eigið hopp og hí, svona kannski að gamni mínu, óvinnufær með öllu? Yfirlýsing um að ég mundi fylgja þessu máli eftir dugði til að konan hringdi til baka, læknirinn hefur “sett mitt mál í forgang” og ég má búast við að fá þessi gögn á morgun eða á mánudag. Kannski hjálpaði til að ég sagðist álíta að ég ætti örorkumatið og mitt leyfi dygði til að fá það sent (alveg eins og ég á sjúkraskýrslurnar um mig, skv. lögum). Það verður áhugavert að sjá rökstuðning þessa bæklunarlæknis fyrir hinum skyndilega bata mínum, sem ég hef ekki tekið eftir sjálf því ég er búin að vera helvíti veik í vetur! Og að sama skapi oftast helvíti þæg … en hef ákveðið að halla mér aftur að Míu litlu sem fyrirmynd og droppa væluskjóðufyrirmyndinni systur hennar.

   

Sem sagt: Enn ein birtingarmyndin af þeirri ráðandi  skoðun að þunglyndissjúklingur eigi að halda kjafti, vera þægur og taka því sem að honum er rétt sést í vinnureglum Tryggingarstofnunar ríkisins og vinnubrögðum trúnaðarlæknis Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Kannski grunar læknana sem starfa hjá þessum stofnunum að óvinnufærir þunglyndissjúklingar séu aðallega haldnir ráðleysi og leti?