Undanfarnir 3 sólarhringar hafa verið um einn mánuð að líða. Þetta er sjúkdómseinkenni (nokkurs konar “pas på” áminning til bloggynju) en þarf ekki að leiða til neins slæms, sérstaklega ekki núna því miðannarfríið er í næstu viku. Á morgun fæ ég 55 ritgerðir. Ég sé til með líðan, ástand og heilsu og met hvort borgar sig að nýta fríið í rauða skrift eða pakka þeim upp í hillu og nota síðan hugræna atferlismeðferð til að gleyma því að þessar ritgerðir séu til.
Til hliðar má sjá Rögnu og ráðuneytismanninn.
Í svona tímavörpun kemur maður engu í verk. Ég ætlaði að mæta á prjónasvall með edrú-vinkonu minni í kvöld en nenni ómögulega út úr húsi (og úr náttbuxum ef út í það er farið …) Prjónasvallið er á Skrúðgarðinum, sem er huggulegt kaffihús og krá. Oftast er fólk í kaffinu enda fjöldamargar sortir til af því! Í kvöld kemur hönnuður og kynnir verk sín og bók sem hún er að gefa út. Sem betur fer benti ég einum hópnum mínum á að mæta þarna í kvöld og yrði ekki hissa þótt nokkrir gerðu það. Þetta er byggt á eigin reynslu að hafa prjónað mig gegnum menntaskóla (enda óhugnalega leiðinlegir kennarar inn á milli) og sagði ég litlu ungunum mínum að prjón og litabók væri betra en tölvuleikir, í íslenskutímum. Sagði svo festulega við einn nemandann: “X minn, viltu taka puttana svo ég klemmi þig ekki” og lokaði enn festulegar tölvunni hans og hef eflaust rústað hraðkeyrsluleiknum sem hann var í. (Ragna systir var aftur á móti alltaf soooo þæg!)
Hingað inn er flutt lítil dökk mús. Við greindum hana sem húsamús en hún hefur einstaka sinnum þotið yfir gólfið og skrensað á bóninu fyrir horn. Atli bjó til huggulega föndraða músagildru (fötu-trikkið, án vatns því hann er svo mikill dýravinur). Músin okkar var alltof heimsk til að geta gengið í gildruna. Þá föndruðum við alls konar stiga og klifurbrautir handa músinni en árangurinn var enginn. Kannski vildi músin ekki sterklyktandi eðalostinn mannsins?
Við teljum okkur vita hvar músin hefur sest að: Inni í lagnastokkum í svefnherberginu okkar. En maðurinn kom færandi hendi úr þurrabúðinni áðan, þ.á.m. með einhvers konar gildru sem algerlega vangefnar mýs geta gengið í. Ef þetta virkar ekki fæ ég lánaðan kött hjá nágrönnunum!
Annað er sosum ekki títt nema ég ætla að lesa Konuna í köflótta stólnum í kvöld – tíu ár síðan ég las hana síðast – og fá lánaða Truntusól á bæjarbókasafninu fyrir helgi – eflaust 20 ár síðan ég las hana”. Það verður ósköp slakandi að lesa ekki um morð og mannvíg, eins og venjulega.
Myndskreytingar við þessa færslu eru aðallega af Rögnu, sem var óskaplega fallegt barn og undi sæl sín fyrstu þrjú ár í föðurgarði … þangað til “Þið voruð þrjár þessar systur / og þú varst sú í miðið …” varð að veruleika. (Úr ljóði eftir Davíð Stefánsson, sem ég held ekki að hafi verið ga ga á neinn hátt en hins vegar sennilega gei og hefur þ.a.l. aldrei fengið viðurnefnið “Meistari”.)
Ég vil þó taka fram að Ragna er ekki þessi með byssuna.
—
Má ekki vera að því að skrifa um hljóðið en það var uppgötvun á söngkonu, Zarah Leander. Hlustið á hana syngja Ave Maria.