Kannski hefði fyrirsögnin frekar átt að vera “námskrárfræði og geðraskanastaðlar” … Ég hef sumsé brugðið mér í gamalt hlutverk, “hinnar greindu alþýðukonu”, og lesið yfir ritgerð mannsins um stefnur og strauma í námskrárfræðum: Sé ekki betur en margt sé líkt með skyldum, þ.e. poppfræðum sem varða skóla og geðveiki.
Nú eru nokkur ár síðan ég var eitthvað í alvörunni að pæla í námskrá framhaldsskóla og hvernig maður matsaði kennsluáætlun þokkalega við svoleiðis. Og ég er búin að gleyma miklu og hef alveg misst af umræðu síðustu ára um nýju námskrána með skemmtilega geggjuðu yfirmarkmiðunum. En eftir að hafa gegnt hlutverkinu “greind alþýðukona sem les námskrárfræði” síðasta árið (maðurinn hefur nefnilega alltaf prófað sínar greinar og texta á mér: Skilji ég ekki textann þarf að laga hann) hef ég einhverja hugmynd um út á hvað þessi nýja námskrá gengur, út á hvað síðasta námskrá gekk og að framhaldsskólakennarar eru almennt ekki svo vitlausir að halda að þetta skipti einhverju máli í kennslu.
Skömmu eftir stríð (seinni heimstyrjöldina) hófust vinsældir “ferskrar skynsamlegrar markmiðssetningar” í námskrá. Ég man eftir helstu uppskriftarfræðingunum úr ukkinu; Bobbit og Tyler og Bloom og kannski Taba. Í einfölduðu máli má segja að uppskriftarpoppfræðingarnir sem eru sívinsælir á Menntavísindasviði og líklega í félagsfræðigreinum almennt telji að í námskrárgerð sé best að byrja með hreint borð (sumsé kasta öllum hefðum fyrir róða), setja yfirmarkmið og greina svo æ smærri undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum beint, án tillits til faga og fræðigreina. Þessi undirskipun eða beina þjónkun er hins vegar ómöguleg í flestum fögum.
Ég skrunaði yfir almennan kafla nýju námskrárinnar og þrátt fyrir aldarfjórðungsreynslu af kennslu í framhaldsskóla fannst mér að textinn hlyti að fjalla um eitthvað annað en skóla – er hann kannski saminn af fólki sem hefur lítið komið inn í svoleiðis stofnanir? Hvað í ósköpunum er “menntun til sjálfbærni”, hugtak sem er margtuggið í þessum texta? Ég sé helst fyrir mér áfanga í tóvinnu … Taldir eru upp sex grunnþættir alls náms, síðan níu svið lykilhæfni o.s.fr.; Námskráin er sumsé draumur hvers sortéringarsinna!
Svo tékkaði ég á markmiðum í mínu fagi, íslensku (s. 93), sem eiga á mjög dularfullan og illskiljanlegan hátt að þjóna hinum sex grunnþáttum og hinum níu lykilhæfnisviðum og sé ekki betur en námskröfur slagi hátt í mastersnám á háskólastigi, t.d.:
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að lesa allar gerðir ritaðs máls að fornu og nýju sér til gagns og gamans, skilja lykilhugtök og greina mismunandi sjónarmið.
eða
Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að sýna þroskaða siðferðisvitund, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í málflutningi sínum, umfjöllun og verkum.
Ég er ansi hrædd um að helstu ráðamenn þjóðarinnar, t.d. þeir sem sitja í ríkisstjórn eða á Alþingi hafi nú ekki náð þessum tveimur markmiðum, a.m.k. ekki því síðarnefnda. Er raunhæft að krefast þessarar getu af nýstúdentum? Hver ætli séu þessi lykilhugtök og mismunandi sjónarmið sem talin eru í fyrra dæminu? Og heldur einhver í alvöru að nemendur leggist almennt í Grágás, Íslensku hómilíubókina, dróttkvæði, annála, stærðfræðitexta, rannsóknarskýrslur, manntöl, áttvísi, læknisfræði o.m.fl. sér til gagns og gamans, skilji þar í einhver dularfull lykilhugtök og greini mismunandi sjónarmið í hvers lags texta sem er eins og að drekka vatn, eftir að hafa klárað stúdentspróf?
Blessunarlega hugsa ég að fólkið á gólfinu, þ.e. nemendur og kennarar, láti þá hátimbruðu smíð sem nýja námskráin er bara eiga sig og haldi áfram að kenna og (vonandi) læra eins og tíðkast hefur til þessa.
En mér datt í hug, lesandi um þessa tæknihyggju í námskrárgerð, þ.e. að halda að hægt sé að setja einhver absólút yfirmarkmið ótengd fögum (sem má þess vegna kalla grunnþætti og svið lykilhæfni) og fella síðan allt nám og öll fög í undirmarkmið sem eiga að þjóna yfirmarkmiðunum … að sams konar tæknihyggja speglist ákaflega vel í sjúkdómastöðlum og þeirra sortéringum. Má nefna DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) Bandarísku geðlæknasamtakanna sem fyrst kom út 1952 eða náfrænda hans, ICD (International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems) sem Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna gefur út og er einmitt brúkaður hér á landi.
DSM á rætur sínar að rekja til flokkunarkerfis Bandaríska hersins, sem spratt m.a. af þörf á að greina alls kyns krankleik á geði þeirra hermanna sem snéru heim úr seinna stríði. Í hverri nýrri útgáfu DSM hefur skilgreindum geðröskunum fjölgað og skilgreiningar orðið nákvæmari. Fyrstu þunglyndislyfin, þríhringlaga geðlyfin, voru upp fundin (óvart) laust eftir 1950. Svo merkilegt sem það nú er hefur þróun þunglyndislyfja og aukið framboð haldist nokkuð í hendur við aukna smásmygli í og aukið framboð á skilgreiningum þunglyndis í DSM.
Alveg eins og tæknihyggja í námskrárgerð hefur ekki sýnt sig í betra námi eða betri skólum hefur tæknihyggja í þunglyndisgreiningu og fleiri gerðir þunglyndislyfja sem passa við sífellt nákvæmari skilgreiningar og undirgreiningar ekki sýnt sig í fækkun þunglyndissjúklinga. Kannski mætti líta á lyfin eins og undirmarkmiðin í tæknihyggjunámskrárgerð: Lýsingarnar hljóma sosum ljómandi vel en praktísk not eru heldur léleg.
Kann að vera að nákvæmlega sama aðalatriðið gleymist: Við erum nefnilega að tala um eitthvað sem snertir fólk, þátttakendur í margbreytilegu mannlífi. Kann að vera að hátimbruð markmið og smættun ofaní mælanleg undirmarkmið líti vel út á pappír en gagnist minna þegar fólk á að nota þau á annað fólk, hvort sem er til að koma því til nokkurs þroska og til að mennta það eða til að lækna það.
Sem betur fer held ég að bæði góðir kennarar og góðir geðlæknar geri sér þessar takmarkanir vel ljósar. Alveg eins og kennari þarf að geta tekið því að nemendur kjósi að baka Borg á Mýrum og bjóða öllum upp á að éta hana, í stað þess að flytja fyrirlestur um Borg eða skrifa ritgerð um Borg, tekur góður geðlæknir tillit til umhverfis og væntinga síns sjúklings og styður hann í því sem hann vill gera til síns bata. Eftir margra daga bakstur, mælingar og útreikninga og kökumódelsmíð með glassúr má ætla að nemendur gjörþekki umhverfið á Borg á Mýrum, líklega betur en hefðu þeir búið til Power Point glærusýningu og flutt fyrirlestur um efnið. Eftir vandlegar og ítarlegar pillutilraunir árum saman og raflostmeðferðir má ætla að þunglyndissjúklingur þekki orðið nokkuð vel hvað virkar, öllu heldur hvað virkar ekki, við sínum sjúkdómi.
Í praxís taka góðir geðlæknar væntanlega jafnlítið mark á DSM/ICD og þunglyndislyfjaáróðri og góðir íslenskukennarar taka lítið mark á vaðli um grunnþætti, lykilhæfnisvið og innantómu markmiðskjaftæði í námskrá.
—
Svona aukalega sting ég því inní þessa færslu að lokum að sem ég var að lesa eigið blogg árið 2006 komst ég að því að síðsumars það ár hef ég hnakkrifist við Helga nokkurn Ingólfsson og ekki vandað honum kveðjurnar (sem var að vísu gagnkvæmt). Ásteitingarsteinninn var fyrirhuguð stytting náms til stúdentsprófs … Það er svo sem ekkert allt jafn sorglegt í lestrinum um lífið mitt sem hvarf í blakkátið/tómið mikla 😉