Geðlæknismeðferð í Danmörku 1850-1920
Þetta er framhald af fyrri færslu, Danskar geðlækningar 1850-1920, og hér verður sjónum beint að þeim úrræðum sem danskir geðlæknar beittu á tímabilinu (og voru fyrirmynd úrræða á Íslandi frá stofnun Klepps árið 1907).
Sem fyrr sagði var hælið sjálft (fagurt umhverfi, einangrun og vinna) mikilvægur liður í lækningunni. Í hlutverki yfirlæknis á geðveikrahæli fólst miklu meira en yfirlæknis á venjulegum spítala því hann varð að vera sjúklingum æðri í andlegum efnum og siðferði. Þetta hlutverk yfirlæknis endurspeglaðist í arkítektúr nýrra geðveikrahæla: Bæði í Árósum og Oringe (Vordingborg) var bústaður yfirlæknsins í aðalbyggingunni með gott útsýni yfir hælið svo hann gæti haft auga með sjúklingunum að ofan.
Ráð til aga (valdbeiting) voru leyfileg hefðu þau lækningargildi. Breski geðlæknirinn John Connolly hafði frá því í lok fjórða áratugar nítjándu aldar haldið því mjög á lofti að þvingunarúrræði, s.s. spennitreyjur, ætti að forðast. Hugmyndin um fjötralausa, þ.e. „no restraint“, meðferð setti mark sitt á allar evrópskar geðlækningar. Hún var líka rædd í fyrstu kynslóð danskra geðlækna en viðhorf þeirra voru beggja blands. Selmer taldi t.d. að það að hætta alveg að nota þvingunarstól, spennitreyju og belti væri hvorki skynsamlegt né mannúðlegt. „Stundum eru verkfæri til þvingunar í rauninni ekki annað en nokkurs konar stuðningsumbúðir, sem hafa það að markmiði að hrinda vissum þerapískum möguleikum, eins og hlýju af sæng [eða] líkamlegri hvíld, í framkvæmd“ skrifaði hann árið 1856. Að mati Selmers átti ávallt að vega og meta hvað kæmi sjúklingnum best og ef þvingun væri best skyldi nota hana.
Myndin er af sjúklingi með dementia paralytica (sem Danir kölluðu svo), þ.e.a.s. geðsjúkdóm af völdum sýfilis. Hún birtist í merkilegu ljósmyndasafni ungverska geðlæknisins Nicolae G. Chernbach, útg. 1870.
Rúmlega
Strax eftir að sjúklingur hafði verið lagður inn var byrjað á að meta hvað væri að honum, skv. einkennum, og meðferð hafin þegar það var ljóst. Til að byrja með átti sjúklingurinn að vera sem mest í ró og forðast hugaræsing: „Svo lengi sem geðsjúkdómur er bráður (akut) verður hið sýkta líffæri – heilinn – að vera í fullkominni ró“ sagði Valdimar Steenberg á St. Hans Hospital 1890. Í kennslubók frá 1920, Vejledning i Sindssygepleje, er aðalatriðið að sjúklingurinn fái ró, sem mætti m.a. ná með „langvarandi rúmlegu þar sem hin hljóða einsleita tilvera er trufluð sem minnst.“ Bæði Knud Pontoppidan og Christian Geill rökstuddu lækningargildi langrar rúmlegu á líffræðilegan hátt. Geill sagði þær jafna blóðið í líkamanum, sem hefði verið í óstandi, og þannig leggja af mörkum til að truflanir á næringu í heila hverfi, í Om Sindsygdom, útg. 1899. Pontoppidan tekur í svipaðan streng í ráðleggingum um meðhöndlun þunglyndis (sjá neðar í færslunni) því rúmlega hafi áhrif á öndun og púls.
Fyrst eftir innlögn átti sem sagt sem fæst að raska ró sjúklings. Síðar meir mátti sjúklingurinn fá heimsóknir en þær þurfti þó yfirlæknir ævinlega að samþykkja fyrirfram. Sömuleiðis ritskoðaði yfirlæknirinn öll bréf frá sjúklingunum. (Slík ritskoðun tíðkaðist langt fram yfir síðari heimstyrjöld og einnig voru bréf til sjúklinga gerð upptæk ef þurfa þótti.)
Eiginleg læknismeðferðin var af tvennum toga: Líkamleg (somatisk) og sálarleg, þ.e. siðferðileg meðhöndlun („moralsk behandling“).
Undir líkamlega meðferð féllu lyf og fyrirbyggjandi aðgerðir, s.s. sérstakt mataræði og böð.
Lyf
Lyfin voru annars vegar svefnlyf og hins vegar róandi lyf. Það sem var mest notað var kloral/kloralhydrat, en einnig brómsölt, opíum og morfín. Yfirlæknirinn á „Sjette afdeling“ skrifaði 1875: „… við öllum byrjunareinkennum geðsjúkdóma, sem ég taldi að svöruðu læknismeðferð, [hef ég] notað slík, nefnilega hækkandi skammta af ópíum, morfínsprautum, bromkalium, Kloralhydrat o.s.fr.“ Læknarnir litu á lyfjagjöf sem einungis meðferð við ákveðnum einkennum (symptomer) og þess vegna voru sömu lyf gefin sjúklingum með ólíka sjúkdómsgreiningu svo framarlega sem einkennin voru svipuð.
Geðlæknar gerðu sér vel grein fyrir því að lyfjagjöf gat nýst prýðilega til að hafa stjórn á sjúklingunum, hún væri nokkurs konar þvingun/helsi eins og spennitreyjur, belti o.þ.h. Yfirlæknirinn á geðspítalanum í Árósum, Friedrich Hallager, skrifaði í grein frá 1910 að m.a. Sulfonal væri „ekki bara [notað] sem svefnlyf heldur einnig til að halda sjúklingunum í ró yfir daginn“ og kallaði slíka lyfjagjöf „efnafræðilega fjötra“, þ.e. „Chemical Restraint“. Mörgum árum áður hafði Pontoppidan nefnt lyfjagjöf af þessu tagi lyfjafjötra, „Medical Restraint“, og tekið skýra andstöðu gegn „svo augljósri óhæfu …. þar sem sjúklingurinn er sleginn niður með stórum skömmtum af Narcotica.“ Christian Geill taldi að einstrengingsleg „no restraint” stefna væri óæskileg og gæti haft í för með sér meiri skaða en gagn. Hann hafði svipað viðhorf til hins skoska „open-door princip“, það átti að vera leiðarljós í geðlækningum en „enginn sem hefur einhvern tíma sinnt geðsjúkum velkist í minnsta vafa um að það eru margir geðsjúkir sem ekki er bara nauðsynlegt heldur líka gagnlegt að halda undir lás og slá“ skrifaði hann 1895.
Böð
Til róandi ráða tilheyrðu einnig löng böð. Þau gátu varað klukkustundum saman eða jafnvel dögum saman, þar sem sjúklingurinn var settur í baðkar, oft hulið lérefti eða laki. Auk heitra baða tíðkuðust strandböð og regnböð. Geill taldi árið 1895 að daglegt kalt regnbað hefði „mjög frískandi þýðingu fyrir stóran hluta sjúklinga sem hættir til að sökkva í sljóleika, leti og sóðaskap.“ Í fyrrnefndri kennslubók frá 1920, Vejledning i Sindssygepleje, er volgum/heitum böðum hampað og sagt að þau ættu að standa „marga tíma á dag, stundum jafnvel allan daginn.“ Alexander Friedenreich, prófessor í geðlæknisfræðum, sagði í kennslubók frá 1921 að áhrifin „af hinum lagvarandi böðum [væru] meira róandi en rúmlegur, en algerlega viðvarandi og hraðrar verkunar má ekki krefjast.“ August Wimmer, yfirlæknir á Sct. Hans, sagði að best væri að vatnið væri 28° heitt. Hann taldi að það væri allt í lagi að láta sjúklingana liggja í baðinu allan sólarhringinn.
Órólegum sjúklingum sem vildu upp úr var gefið róandi lyf eða þeir bundnir ofan í baðið með upprúlluðum lökum, sem voru vafin um mitti þeirra og endarnir bundnir saman undir baðkerinu. Í sjónvarpsþætti um sögu norskra geðlækninga (sem voru að miklu leyti sniðnar eftir þeim dönsku langt fram á tuttugustu öld), Spekter: Psykiatriens historie, er sagt að algengast hafi verið að hafa böðin 36° heit og svoleiðis langböð hafi getað staðið lengi; öfgafyllsta dæmið er af sjúklingi sem var hafður í baði í eitt og hálft ár!
Myndin er tekin á baðdeildinni á Sct. Hans Hospital árið 1916.
Siðferðileg/andleg meðferð
Andlega meðferðin var fyrst og fremst hugsuð sem siðferðileg meðferð (moralsk behandling). Hún átti að stilla sálarlífið og gera það skipulagðara eða snúa því á rétt ról. Þessu var náð með aga, skynsemi, góðu fordæmi og að hafa ofan af fyrir sjúklingunum. Undir aga heyrðu refsiaðgerðir sem miðuðu að því að beina sjúklingum á rétta braut, eiginlega ala þá upp.
Í enduruppeldis-meðferð hælanna vó iðjusemi og vinna þungt. Margir geðlæknar skrifuðu um og undirstrikuðu að líkamleg áreynsla hefði læknandi áhrif, virkaði til bóta bæði á sál og líkama sjúklinganna og hefði róandi áhrif á ólæknanlega geðsjúka. Sjúklingar unnu við ýmislegt á hælunum, jafnt innan húss sem utan. Sem dæmi um viðhorf geðlækna til vinnu má taka Valdimar Steenberg sem tók undir að „það væri vissulega þversögn en hitti þó naglann á höfuðið að sá af mestu og bestu geðlæknum Þýskalands hefði læknað fleiri sjúklinga með hjálp hjólbara en lyfjaskápsins síns“, í skrifum 1866.
Dæmi um geðlækningameðferð
Sem dæmi um ráðlagða lyfjameðferð við þunglyndi (melankólíu) má nefna eftirfarandi:
Knud Pontoppidan: Psychiatriske Forelæsninger og Studier, útg. 1892, kafli 2. Melancholia simplex. Momenter af Melancholiens Diagnose og Behandling. Fyrirlesturinn er frá því í desember 1891. Dæmið er af þunglyndri konu og Pontoppidan segir að svoleiðis sjúkling eigi fortakslaust að meðhöndla með rúmlegu því lárétt stelling hefur áhrif á púls og öndun og er besta róandi ráðið sem við höfum. Ópíum hefur einsök áhrif til sálrænnar verkjastillingar svo best er að gefa það: Byrja í lágmarkskammti, auka hratt í 10 Ctgr (= 100 milligrömm) og gefa síðan þrefaldan til fjórfaldan skammt á dag. Morfín virkar ekki eins vel en þó má sprauta sjúkling með morfíni ef hann er æstur eða í kvíðakasti því verkunin kemur strax fram.
Til að laga svefninn er best að gefa lítinn skammt af Chloral á kvöldin. Sulphonal virkar verr á þunglyndissjúklinga en aðra geðsjúklinga, segir Pontoppidan, svo betra er að prófa Amylenhydrat, auk þess sem löng vel heit böð um háttamál gefa góða raun.
Í meðhöndlun við maníu (s. 57-58 í sama riti) segir Pontoppidan að ópíum virki illa og miklu betra sé að nota klóral. Sulphonal virkar vel sé það gefið í réttum skömmum; 1 gramm er hámarksskammtur á kvöldin og svo er best að gefa 50 centigrömm (500 milligrömm) einu sinni til tvisvar á dag. Hyocinet [scopolamine] er að mínu mati hættulegra, segir Pontoppidan. Það hefur óstöðuga verkan og hefur valdið óþægilegum eitrunaráhrifum, jafnvel í gætilegum skömmum. Þetta lyf minnir mig á meðal í gamla daga, segir hann, sem var í hæsta máta óaðlaðandi læknismeðferð, nefninlega Tartras stibico-kalicu (uppsölumeðal) sem í háum skömmtum hélt sjúklingnum í viðvarandi örmögnun. Að mati Pontoppidan var svonalagað óæskilegir lyfjafjötrar, þ.e. „medical restraint“. Hyocinet notum við varla lengur nema til að snöggróa mjög erfiða sjúklinga því við hér á deildinni höfum séð sjúklinga halda áfram að veltast um með lafandi tungu og sljótt augnaráð eftir að lyfið hefur skilist úr líkamanum, segir hann í fyrirlestrinum.
Alexander Friedenreich ráðleggur mjög svipaða lyfjagjöf við þunglyndi í Kortfattet, speciel Psykiatri (útg. 1901, s. 33-36).
Hann tekur fyrst fram að ópíum virki miklu verr á þunglyndissjúklinga en aðra geðsjúklinga. Raunar virki róandi efni almennt mun verr á geðsjúka en aðra: „ … maður getur gefið geðsjúkum, sérstaklega æstum, risaskammt af svefnlyfjum án þess að þeir sofni, t.d. hafa óðum mönnum (delerister) verið gefin fleiri grömm af ópíum á dag til að þeir sofni en það hefur verið eins og að skvetta vatni á gæs“.
Þunglyndum má gefa 20-30-40 ctgr (200-400 milligrömm) af ópíum tvisvar á dag án þess að veruleg áhrif sjáist og án þess að sjúklingurinn verði háður efninu. Það má snögghætta að gefa lyfið án þess að fráhvarfseinkenna verði vart því ópíum virkar ekki eins á geðsjúka og venjulegt fólk. Sjálfur segist Friedenreich ekki beita ópíum mikið því aukaverkanir geti verið óheppilegar við langvarandi notkun lyfsins í stórum skömmtum, t.d. hægðartregða, niðurgangur, að matarlyst hverfi og það valdi jafnvel ofskynjunum.
Hann minnist á nýja breska læknisaðferð sem er að gefa Tyroidin (skjaldkirtilshormón) en álítur hana óheppilega því sjúklingurinn megrist mjög af þessu læknisráði.
Við svefnleysi má auðvitað prófa böð, heit böð í baðkeri, að pakka sjúklingunum inn í vot stykki eða sturtur, og svo nudd, leikfimi og hreyfingu en þau virka illa. Mun betra er að nota lyf.
Það svefnlyf sem virkar best er Kloral, 1 1/2-2-3 grömm en það getur verið hættulegt ef sjúklingur er hjartveikur (þótt Friedenreich segist hafi aldrei orðið vitni að slíku sjálfur). Síðan kemur Sulfonal (1 1/2 – 2 grömm) en það virkar hægt, stundum ekki fyrr en daginn eftir, aukaverkanir eru óþægilegur svimi og sljóleiki lengi á eftir. Það hefur og sýnt sig að vera hættulegt í langvarandi notkun, einkum konum. Hættuminna er Trional sem má gefa í sömu skömmtum. Bæði Trional og Sulfonal hafa þann kost að vera bragðlítil og má þess vegna lauma þeim í sjúklinginn blandað út í drykk. Amylenhydrat virkar stundum vel (í 3 gramma skömmtum) en er hvorki sterkt né áreiðanlegt svefnlyf. Paraldehyd virkar betur en sjúklingurinn finnur óþægilega lykt og það er enn verr að taka það inn en Kloral og Amylen.
Ópíum og morfín er eiginlega ekki hægt að nota sem svefnlyf vegna lélegrar verkunar en þau gefast vel til að slá á slæman kvíða. Sömuleiðis má nota löng heit böð til að slá á kvíða og óró. Böðin standa í 1-2 klukkustundir en sumir læknar hafa sjúklingana í svoleiðis baði allan daginn, jafnvel dag eftir dag, segir Friedenreich (og er e.t.v. að ýja að fylgismönnum Kraepelin hins þýska).
Við öðrum geðsjúkdómum nefnir Friedenreich, auk baða og svitakúra, sömu lyf og bromalium (í 4- 8 gramma skammtum), sem megi þó ekki gefa langvarandi því það geti valdið eitrun.
Aðrar lyflækningatilraunir danskra geðlækna
Danski geðlæknir gerðu tilraunir með aðrar lækningaraðferðir en upp hafa verið taldar eftir aldamótin 1900 en þær urðu ekki almennar nema malaríumeðferðin, frá þriðja áratug síðustu aldar og frameftir öldinni. Má nefna tilraunir F. Hallager, yfirlæknis á geðspítalnum í Árósum (og kennara Þórðar Sveinssonar) sem birti niðurstöður sínar 1915 í Ugeskrift for læger um tilraunameðferð á sýfils-geðveikum (sjúklingum með dementia paralytica). Þær fólust í að sprauta sjúklingana með „vökva Coleys“, þ.e.a.s. með streptókokkum o.fl. bakteríum. Sjúklingarnir fengu hita og Hallager sagði að eftir hitameðferðina hefðu þeir verið nógu frískir til að snúa til daglegs lífs. Á þriðja ártugnum náði svo malaríumeðferðin, kennd við austurríska geðlækninn Wagner-Jauregg, talsverðum vinsældum í Danmörku en hún fólst í því að smita sjúklinga af malaríu í þeirri trú að hár hiti læknaði geðsjúkdóminn. Þá meðferð prófuðu danskir geðlæknar fyrst haustið 1921. Danski geðlæknirinn Kund Schroeder fann upp eigin aðferð við hitahækkun geðsjúkra, nefnilega sulfosin-meðferðina. Hún fólst í því að sprauta brennisteinsolíu í vöðva svo sjúklingar fengu háan hita. Schroeder taldi þetta góða lækningu við geðklofa, krónískri heilabólgu o.fl., birti niðurstöður sínar fyrst 1927 og hlaut heimsfrægð fyrir vikið. Annar danskur læknir, Paul Reiter, birti sama ár grein um sína meðferð í Ugeskrift for Læger, nefnilega að sprauta ýmsum málmsöltum í geðklofasjúklinga, einkum mangan. Hann hlaut ekki heimsfrægð en aðferð hans var prófuð á ýmsum dönskum geðspítölum.
Heimildir, auk efnis sem krækt er í úr texta:
Psykiatriens Historie i Danmark. Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh.
Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.
Danskar geðlækningar 1850-1920
Þessi færsla er framhald af Geðlækningar og geðveiki forðum og fjallar um danskar geðlækningar á seinni hluta nítjándu aldar fram á þá tuttugustu. Ástæða þess að ég hef sérstakan áhuga á sögu danskra geðlækninga er að það er ómögulegt að skilja upphaf geðlækninga á Íslandi, á tuttugustu öld, nema vita eitthvað um hugmyndaheiminn sem þær spruttu úr. Þess vegna legg ég áherslu á að geta þess hugmyndaheims sem ætla má að Þórður Sveinsson, fyrsti starfandi geðlæknirinn á Íslandi, hafi kynnst á námsári sínu 1905-6 í Danmörku. Og raunar gætir áhrifa frá dönskum geðlækningum fram undir miðja tuttugustu öld hér á landi, ef ekki enn lengur.
Skyldur ríkisins við geðsjúka og hugmyndin um geðveikrahæli (asyl)
Fyrir miðja nítjándu öld voru geðveikrahæli fyrst og fremst hugsuð til að taka þá geðsjúklinga sem voru hættulegir öðrum úr umferð. En laust fyrir 1850 verður sú breyting á að farið er að sinna geðsjúkum markvisst þótt ekki þættu þeir hættulegir. Viðhorfsbreytingin kom ekki hvað síst fram í því að geðsjúklingar voru ekki lengur flokkaðir í hættulega – ekki hættulega heldur í læknanlega – ólæknanlega. Þá læknanlegu skyldi lækna á sérhæfðum stofnunum þar sem beitt væri læknisfræðilega viðurkenndum ráðum og byggt á læknisfræðilegum kenningum. Þá ólæknanlegu skyldi vista á sömu stofnunum. Ábyrgð á geðsjúkum færðist þ.a.l. í miklum mæli frá fjölskyldunni til ríkisins og var fest í lög.
Þessa breyttu hugmyndafræði varðandi geðsjúka má rekja til margra hugmyndastrauma þessara tíma. En til að stytta mál má kannski beina sjónum að geðlækninum Haraldi Selmer, sem stundum er kallaður faðir danskra geðlækninga. Að mati Selmer voru Danir aftarlega á merinni þegar kom að geðsjúkum enda hefðu þeir ekki fylgst með nýjustu stefnum og straumum í Evrópu. Hann taldi að meðferð geðsjúkra hefði hægt og bítandi orðið mannúðlegri en mikið skorti á að menn gerðu sér almennt grein fyrir að geðveiki væri sjúkdómur og sem slíkur oft læknanlegur. Skoðunum sínum lýsti Selmer í ritverkinu Almindelige Grundsætninger for Daarevæsenets Indrætning, sem kom út árið 1846 og hafði mikil áhrif.
Selmer hafði ákveðnar hugmyndir um hvers lags sjúkrastofnanir hentuðu geðsjúkum og vildi kalla þær hæli (asyl). Hann byggði þær raunar á hugmyndum franska geðlæknisins Jean Étienne Esquirol (1172-1840.) Hælin áttu að vera uppi í sveit, til að verja sjúklingana fyrir forvitnum augum, afskiptum ættingja og aðstæðum eða samskiptum sem ýttu undir sjúkdóminn. Það var mikilvægt að hælin væru í fögru umhverfi því margir sjúklingar hlytu bót af „fegurð náttúrunnar … friðsælu umhverfi og breytilegu landslagi“ sagði Selmer í fyrrnefndu riti. Loks taldi hann að það kost að hælin lægju að sjó svo nýta mætti sjóböð í meðferð sjúklinganna. Á hælunum skyldi reka búskap og sinna ræktun því vinna var geðsjúkum holl, líkamleg áreynsla var hluti af líkamlegri (sómatískri) lækningaaðferðum. Selmer sagði að vinna væri aðalatriðið í meðferðinni því hún styrkti „Selvfølelse og moralske Bevidshed“ sjúklinganna. Þessi skoðun á gildi vinnunnar sem lækningaraðferðar var ríkjandi langt fram á tuttugustu öld.
Harald Selmer varð fyrsti yfirlæknirinn á Jydske Asyl (einnig kallað Aarhus sindsygeanstalt eða Sindsygeanstalten i Risskov, á opinberum pappírum hét stofnunin Sindsygeanstalten for Nørre-Jylland) þegar það var stofnað 1852. Jydske Asyl var fyrsta sjúkrastofnunin sem var sérstaklega byggð fyrir meðhöndlun geðsjúkra en fleiri fylgdu í kjölfarið; Á árunum 1852-1915 voru stofnaðir 5 stórir geðspítalar/hæli í Danmörku.
Geðlæknar vilja vera læknar með læknum
Geðlækningar á seinni hluta 19. aldar í Danmörku einkenndust talsvert af ströggli geðlækna við að vera taldir til lækna, þ.e.a.s. það var nánast róið lífróður að því að gera geðlækningar að viðurkenndri læknisfræði. En róðurinn sóttist seint og var oft á tíðum erfiður. Segja má að barist hafi verið á tvennum vígstöðvum; Annars vegar reyndu geðlæknar að sannfæra kollega sína í læknastétt um að geðlækningar væru jafngildar öðrum læknisaðferðum og hins vegar að andæfa þeirri skoðun að aðrir en geðlæknar gætu greint geðsjúkdóma; Síðarnefnda stríðið var einkum háð gegn leikmönnum, t.d. fjölskyldum geðsjúkra.
Fyrst og fremst lögðu geðlæknar á þessu tímabili þunga áherslu á að geðveiki væri líffræðilegur sjúkdómur. Christian Geill orðaði þetta þannig 1899: „Andlegur sjúkdómur er alltaf sjúkdómur í heilanum, alveg eins og lungnabólga er sjúkdómur í lungum.“ Sálin var ekki á könnu geðlækna, eða eins og Knud Pontoppidan, yfirlæknir á tauga-og geðsjúkdómadeildinni (svokallaðri „Sjette afdeling“) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn sagði 1891: „… það sem við fáumst við sem læknar er líkaminn; sé til eitthvað sem nefnist sjúkdómar sálarinnar getum við ekki gert neitt við þeim. Neikvæð og jákvæð sálarleg einkenni eru í okkar augum einungis tákn um hvað sé ekki í lagi og hvað sé í lagi í æðsta taugasetrinu.“
Þarf varla að taka fram að talsvert fram á tuttugustu öld áttu kenningar Freud ekki upp á pallborðið í Danmörku og voru yfirleitt hunsaðar með öllu. Vegna samhengis við upphaf íslenskra geðlækninga vek ég athygli á því að danskir framámenn í geðlækningum höfðu á hinn bóginn mikinn áhuga á spíritisma. Meðal félaga danska sálarrannsóknafélagsins (Selskabet for Psykisk Forening) árið 1905 var Alexander Friedenreich, yfirlæknir á „Sjette afdeling“ (geðdeildinni) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn 1898-1918 og prófessor í geðlækningum við Kaupmannahafnarháskóla 1916-19. Síðarmeir gengu fleiri áhrifamiklir geðlæknar í félagið, t.d. eftirmaður Friedenreich, August Wimmer (yfirlæknir á „Sjette afdeling“ og prófessor í geðlækningum frá 1920). Þessir geðlæknar sátu öðru hvoru í stjórn danska sálarrannsóknarfélagsins. (Kragh, Jesper Vaczy. 2003.) En meðfram þáttöku í félaginu gagnrýndu þessir áhrifamiklu geðlæknar spíritisma stundum, t.d. hélt Friedenreich því fram í grein árið 1908 að miðilsfundir gætu orsakað geðrof. (Kragh, Jesper Vaczy. Ótímasett.)
Myndin er af Alexander Friedenreich. Friedenreich heldur á tilraunaglasi með vökva í, sem að sögn greinarhöfundar í Psykiatriens historie i Danmark á að undirstrika að geðlækningar væru vísindalegar ekki síður en aðrar undirgreinar læknisfræði.
En það var þrautin þyngri að sýna fram á að geðveiki væri líkamleg eða af líkamlegum orsökum. Áhugi á krufningum jókst mjög en ekkert sást á heilum geðsjúklinga. Þó voru menn stundum á réttri leið, t.d. Valdemar Steenberg, yfirlæknir á Sct. Hans geðsjúkrahúsinu laust eftir miðja nítjándu öld, sem lagði allt kapp á að sanna tengslin milli sýfilissmits og geðsjúkdómsins dementia paralytica og tókst að sýna fram á tengsl þótt tæknin væri frumstæð og ekki væri hægt að greina sýfilisbakteríuna í heilavef fyrr en áratugum síðar. (Dementia paralytica er lokastig sýfilis og um 20% sjúklinga á dönskum geðveikrahælum voru haldnir þessum sjúkdómi.)
Úr því ekki tókst að sýna fram á að geðsjúkdómar væru líkamlegir var tekinn annar póll í hæðina til að færa geðlæknisfræði nær viðurkenndri læknisfræði, nefnilega að flokka geðsjúkdóma á vísindalegan hátt (eins og aðrir læknar flokkuðu líkamlega kvilla á vísindalegan hátt). Flokkunin varð að byggjast á sjúkdómseinkennum því ekki var hægt að sýna fram á nein líffræðileg einkenni. Harold Selmer lagði fyrstur danskra geðlækna til sameiginlegt flokkunarkerfi geðsjúkdóma árið 1850. Hann notaði eftirfarandi flokka:
Moralsk afsindighed eller forrykthed (Siðferðileg geðveiki eða brjálsemi) ;
Vanvid (orðið þýddi andleg þroskaskerðing og er raunar algerlega samstofna íslenska orðinu vanvit);
Monomani (vangefni að hluta);
Demens (sljótt hugarástand, Selmer notaði orðið einnig um rugl);
Fatuitet (táknaði enn meira rugl, þ.e. skort á raunveruleikatengslum);
Melankoli og mani (þunglyndi og æði)
Þrátt fyrir tillögu Selmers ríkti engin eindrægni í flokkun geðsjúkdóma og flokkaði hver læknir eins og honum sýndist. Flokkunin tók og stöðugum breytingum, t.d. var notað ólíkt flokkunarkerfi í þeim dönsku kennslubókum um geðlæknisfræði sem komu út á síðari hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu, flokkunum fjölgaði líka jafnt og þétt á þessu tímabili. Flokkun Kraepelin hins þýska á níunda áratug nítjándu aldar varð kunn í Danmörku og hafði einhver áhrif en ekki mikil. Þrátt fyrir að æ fleiri sjúkdómsheiti væru notuð í kennslubókum, fyrirlestrum og greinum um geðlækningar voru flokkarnir miklu samt færri í praxís, þ.e.a.s. í sjúkraskýrslum og vinnugögnum. Geðlæknar kvörtuðu sumir yfir því að flokkunaráráttan keyrði um þverbak, sjá t.d. síður úr skýrslu Valdemars Steenberg yfirlæknis á Sct. Hans Hospital frá 1871, næsta opna er hér. Það gerði líka flokkun geðsjúkdóma eftir einkennum mun erfiðari að geðlæknar voru sammála um að ekki skyldi taka mark á sjúklingum eða ættingjum þeirra í lýsingu einkennanna, slíkt var of óvísindalegt. Þess vegna varð að flokka hvern sjúkling eftir þeim einkennum sem hann sýndi eftir innlögn.
Knud Pontoppidan
Einna áhrifamestur geðlækna á þessu tímabili var Knud Pontoppidan. Hann var yfirlæknir á „Sjette afdeling“ á Kommunehospitalet og gegndi fyrstu háskólastöðunni sem stofnuð var í geðlækningum, þ.e. varð dósent við Kaupmannahafnarháskóla árið 1888, varð síðar prófessor í réttarlæknisfræði við sama skóla. (Ætla má að hróður Knuds Pontoppidan hafi og aukist fyrir að hann var bróðir frægs skálds, Henrik Pontoppidans, sem hlaut Nóbelsverðlaun árið 1917.)
Pontoppidan var vinsæll fyrirlesari um fræðasvið sitt, sem var vel að merkja bæði geðlækningar og taugalækningar því ekki var greint milli þessa tveggja. Fyrirlestrarnir voru gefnir út og höfðu þannig enn meiri áhrif. Má lesa hluta þeirra, Den Almindelige Diagnostik af Centralnervesystemets Sygdomme (frá 1887). Raunar er þetta safn útgefinna fyrirlestra eftir Pontoppidan því á eftir þessari fyrirlestraröð fylgja á sömu vefslóð:
Kliniske forelæsninger over Nervesygdomme (frá 1898)
Eurastenien. Bidrag til skildringen af vor Tids Nervøsitet. (útg. 1886, birtist upphaflega í tímaritinu Bibliothek for Læger en var svo gefið út í þremur upplögum 1886)
Fire Chiatriske Foredrag (útg. 1891, haldnir 1888-1890)
Psychiatriske Forelæsninger og Studier (útg. 1892, sex fyrirlestrar haldnir 1891)
Psychiatriske Forelæsninger og Studier. Anden række (útg. 1893, sex fyrirlestrar haldnir 1892-93)
Psykiatriske Forelæsninger og Studier. Tredie Række. (útg. 1895, sex fyrirlestrar haldnir 1893-95)
Pontoppidan er m.a. minnst fyrir mannúðleg viðhorf til geðsjúkra auk fræðilegra geðlæknisstarfa. En hann öðlaðist óvænta frægð meðal almennings í Danmörku og raunar langt út fyrir landsteinana laust fyrir aldamótin 1900 þegar hann lenti í útistöðum við áhrifamikla sjúklinga: Fyrst og fremst við norsku skáldkonuna Amilie Skram. Hún var lögð inn á „Sjette afdeling“ árið 1894, í kjölfarið á hjónabandserfiðleikum, og hefur að öllum líkindum þjáðst af þunglyndi. Amalie dvaldi í mánuð á geðdeildinni og hugnaðist engan veginn framkoma starfsfólks við sjúklinga, sérstaklega þótti henni Knud Pontoppidan hrokafullur og ekki hvað síst hrokafullur og stjórnsamur í garð kvenkyns sjúklinga. Svo Amalie beitti sér í dönsku dagblöðunum gegn Pontoppidan og skrifaði svo lykilskáldsöguna Professor Hieronymus, útg. 1895, sem lýsir samskiptum þunglyndu konunnar Elsu við yfirlækninn Hieronymus og gerist á geðdeild. Professor Hieronymus hefur lifað góðu lífi síðan, einnig lykilskáldsagan Paa St. Jørgen eftir Skram, sem byggð er á mánaðardvöl hennar á Sct. Hans hospital en þangað fór hún af „Sjette afdeling“.
Eftir þessa óvæntu, og að margra mati óverðskulduðu frægð, sem hlaust af útistöðum við Amalie Skram, gróf undan veldi Pontoppidan á „Sjette afdeling“ og hann sagði upp stöðu sinni 1897, gerðist yfirlæknir á Jydske Asyl í Árósum. Pontoppidan reyndi sjálfur að beita sömu brögðum og Amalie Skram og skrifaði bæklinginn Sjette Afdelings Jammersminde sér til varnar, útg. 1897. (Titillinn er sjálfsagt vísun í Jammers Minde Leonóru Christinu Ulfeldt, sem haldið var fanginni í Bláturni árum saman … orðið þýddi upphaflega kveinstafir en hefur verið þýtt Harmaminning á íslensku). Pontoppidan hafði ekki erindi sem erfiði með þessum bæklingi, hann endurheimti ekki orðstír sinn í þessum slag.
Erjur Amalie Skram (og fleiri sjúklinga sem hún studdi opinberlega) og Knuds Pontoppidan rötuðu meira að segja í dagblöð hér uppi á Íslandi, sjá Yfirlæknir bæjarspítalans í Khöfn í Fjallkonunni, 18. desember1894, þar sem samúðin er öll með sjúklingnum (Amalie Skram studdi þennan sjúkling dyggilega á opinberum vettvangi) og fréttamola í Bjarka, 24. desember 1897, þar sem samúðin er greinileg með hinum ofsótta Pontoppidan. Í grein Björnstjerne Björnsson, Nútíðarbókmenntir Norðmannna, sem birtist í janúarhefti Eimreiðarinnar 1898, er einnig drepið á þetta mál, í umfjöllun um Professor Hieronymus (s. 58-59). Ætla má að þetta málavafstur hafi því verið velþekkt á Íslandi í byrjun tuttugustu aldar.
Vísindaleg/læknisfræðileg grein gerð fyrir orsökum geðsjúkdóma
Þótt tilraunir til að gera geðlækningar vísindalegar með skírskotun til líffræðilegra breytinga í heila eða með nákvæmri samræmdri flokkun hafi mistekist reyndu menn fleira til hins sama, t.d. að gera vísindalega grein fyrir orsökum geðsjúkdóma. Þar var fyrst og fremst horft til arfengi í víðum skilningi. Að vísu var mjög mismunandi hversu nákvæmlega einstakir geðlæknar túlkuðu arfgengi, sumir seildust ákaflega langt aftur í ættir, aðrir skemmra en allir reyndu þeir þó að fá upplýsingar hjá sínum sjúklingum um geðveika, vangefna eða drykkjusjúka ættingja þeirra (þetta var allt talið geðveiki). Auk þess sem við nútímamenn teljum arfgengi horfðu geðlæknar talsvert til arfgengrar úrkynjunar, algengrar hugmyndir á þessum tíma. Arfgeng úrkynjun (degeneration) fólst í því að ættin úrkynjaðist meir og meir með hverjum ættlið. Venjuleg arfgengi var ekki nærri eins ráðandi orsök geðsjúkdóma og arfgeng úrkynjun að mati geðlækna þessa tíma.
Auk arfgengi/úrkynjunar gátu geðsjúkdómar átt sér líkamlega orsök. Var oft nefnt sjálfsfróun, höfuðverkur eða einhver líkamlegur kvilli. Loks gat geðsjúkdómur kviknað af ytri aðstæðum, þ.e.a.s. einhverju sem kæmi fólki úr jafnvægi, til dæmis sorg, óhamingjusömu hjónaband, fjárhagserfiðleikum eða vonbrigðum. Í ársskýrslum geðdeilda/hæla frá þessum tíma eru líka tíndar til öllu langsóttari skýringar eins og pólitískar erjur, mormónatrú, ferðalag til Ameríku, að liggja í bókum síknt og heilagt o.fl. Aðaláherslan var þó að geðsjúkdómar ættu sér líkamlegar skýringar, ytri aðstæður eða áföll voru talin veigalítil og ólíkleg til að valda erfiðum geðsjúkdómum.
Tvær kennslubækur um geðsjúkdóma
Í lokin er rétt að benda á kennslubækur sem aðgengilegar eru á Vefnum og ætla má að hafi mjög mótað hugmyndir Þórðar Sveinssonar, fyrsta starfandi geðlæknisins á Íslandi.
Om Sindsygdom eftir Christian Geill, útg. 1899. Geill var einkum þekktur fyrir skrif sín um og störf við réttargeðlæknisfræði en hann var yfirlæknir á Jydske Asyl (einnig kallað Aarhus Sindsygeanstalt) á árunum 1894-96. Frá 1901 var hann yfirlæknir á geðspítalanum í Viborg. Þórður Sveinsson, verðandi yfirlæknir á nýstofnuðum Kleppi, var kandídat á Aarhus Sindsygeanstalt í mars-ágúst 1906. Kannski hefur andi Geills enn svifið þar yfir vötnum þótt hann væri þá horfinn til svipaðra starfa í nágrenninu.
Riti Geills er skipt í þessa efnisþætti: Hvað er geðsjúkdómur?; Hverjar eru orsakir geðsjúkdóma; Hvernig lýsa geðsjúkdómar sér; Hvernig er hægt að fyrirbyggja geðsjúkdóm; Hvernig á að meðhöndla geðsjúkan heima; Hvernig er meðferð á stofnun háttað. Í ritinu kemur skýrt fram sú eindregna afstaða að geðsjúkdómar séu nánast allaf af líkamlegum toga. T.d. útskýrir Geill hvernig geðshræringar hafi líkamleg áhrif (og valdi þar með líkamlegum sjúkdómum), má nefna að roðna eða fölna, sem dregur úr blóðflæði til heilans, sem gæti valdi heilaskemmdum, s.s. geðveiki.
Kortfattet, speciel Psykiatri eftir Alexander Friedenreich, útg. 1901. Freidenreich varð yfirlæknir á „Sjette afdeling“ (geðdeildinni) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn 1898-1918, dósent í geðlækningum við Kaupmannahafnarháskóla 1898-1916 og prófessor í geðlækningum við sama skóla 1916-19. Það er líklegt að Þórður Sveinsson hafi verið nemandi Freidenreichs þegar hann kynnti sér geðlækningar í Kaupmannahöfn 1905-6 en Þórður starfaði m.a. á „Sjette afdeling“ og hlýtur að hafa eitthvað komið eitthvað nálægt háskólanámi í geðlæknisfræðum þennan vetur sem hann var í Kaupmannahöfn.
Af því ég er þunglyndissjúklingur athugaði ég af hvaða orsökum þessir ágætu menn telja að þunglyndi (melankólía) stafi. Umfjöllun í bók Geill var almennt um orsakir geðsjúkdóma og þar undirstrikað rækilega að þær væru aðallega arfgengi og líkamlegar orsakakir. Í Kortfattet, speciel Psykiatri er sérstaklega fjallað um orsakir þunglyndis og arfgengar orsakir auðvitað fyrst taldar. Síðan er minnst á líkamlegar orsakir, nefnilega þessar:
Blóðleysi af ýmsum ástæðum, sjúkdómar sem draga úr þrótti, léleg næring, viðvarandi móðurlífsbólgur, bólgur í þörmum, lifrarsjúkdómar og þvagfærasjúkdómar. Ásamt með móðurlífsbólgum má telja óléttu, fæðingu og brjóstagjöf. Svo má nefna hjarta- og nýrnasjúkdóma, kransæðabólgur og sjúkdóma á borð við lungnabólgu og taugaveiki. Talsverð áhersla er lögð á að sjálfsfróun geti verið orsök þunglyndis (en er þó algengara að valdi öðrum geðsjúkdóma) og að hana beri að telja til líkamlegra orsaka þótt skaðinn geti líka talist sálrænn. (s. 19-21.)
Af sálrænum orsökum þunglyndis má nefna sorg, vonbrigði, að fara að heiman og ofreynslu. Hið síðastnefnda er algengara hjá karlkynssjúklingum en verður einnig vart hjá kennslukonum. Kennslukonur þurfa oft að hraða sér mjög í gegnum námið, af fjárhagsástæðum, og taka próf þótt kunnáttan sé léleg. Svo þurfa þær strax að fara að kenna. Margar einkakennslukonur eru „misnotaðar á grófan hátt og eru á heildina litið í erfiðri og oft vandræðalegri stöðu.“ Í tilvikum kennslukvenna kann því ofreynsla að vera sálræn orsök þunglyndis, segir Geill, en minnist ekkert á að aðrar konur geti ofreynt sig 🙂 (Sjá s. 23.)
Heimildir
Auk efnis sem vísað er í, í færslunni, studdist ég einkum við eftirfarandi kafla í Psykiatriens Historie i Danmark, útg. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh:
Nielsen, Trine Fastrup: Fra dårekiste til terapeutisk anstal. Dansk psykiatri 1800-1850;
Møllerhøj, Jette. Sindssygedom, dårevæsen og videnskap. Asyltiden 1850-1920;
Mellergård, Mogens: Nye svar på gamle spørgsmål. Psykiatriske trosetninger 1880-1930.
Einnig studdist ég við greinarnar:
Møllerhøj, Jette. On unsafe ground: the practises and institutionalization of Danish psychiatry, 1850-1920. History of Psychiatry, 19(3): 321-337, 2008. Aðgengileg á Vefnum og er krækt í hana.
Kragh, Jesper Vaczy. »Overtro og trolddom« – Selskabet for Psykisk Forskning 1905-1930. Fortid og Nutid, september 2003, s. 163-185. Greinin er aðgengileg á Vefnum og er krækt í hana.
Kragh, Jesper Vaczy. Danish Spiritualism, 1853-2011. Ótímasett. Aðgengilegt á vef.
Í næstu færslu geri ég grein fyrir hvernig læknismeðferð geðsjúkra var háttað á þessum tíma.
Geðlækningar og geðveiki forðum
Undanfarið hef ég verið að lesa svolítið um geðlækningar fyrri tíma og reynt að glöggva mig á hugmyndafræði að baki lækningum og viðhorfum til geðsjúkra. Ég er orðin dálítið þreytt á amrísku sjónarhorni í skrifum um sögu geðlækninga eða eilífum tilvitnunum í geðveikrahæli í Frakklandi og Bretlandi og keypti þess vegna bókina Psykiatriens historie i Danmark, eftir að hafa lesið marga feikigóða dóma um þá bók (sem kom út 2008). Bókin stendur algerlega undir væntingum. Kannski er það vegna þess að ritstjóri hennar, Jesper Vacsy Kragh, er sagnfræðingur en ekki geðlæknir/læknir? Altént hefur verið beitt ströngum sagnfræðilegum vinnubrögðum við samningu bókarinnar, þ.e.a.s. frumheimildir skoðaðar gaumgæfilega og reynt að setja umfjöllunarefnið í samhengi við tíðaranda hvers tíma.
Eiginlega er ég bara búin að lesa fyrsta hlutann almennilega, St. Hans Hospital i København 1612-1808, e. Barböru Zalewski. Hún er doktor í sagnfræði og reyndar sérfræðingur í daglegu lífi konungshirðarinnar í Danmörku á 17. öld og 18. öld, svona auk sérfræðiþekkingar í málefnum geðsjúkra á sama tíma … kannski skarast þessi fræðasvið 😉 Það sem vakti einkum athygli mína í þessari umfjöllun var að geðsjúkir höfðu það alveg sæmilegt á þessum tíma miðað við hag almennings í Kaupmannahöfn og umönnun þeirra verður seint talin einkennast af fjandsemi og nauðung.
Í dönskum lögum, allt frá Eriks Sjællandske Lov frá því um 1250, hefur verið að finna samsvarandi grein og í íslenskum lögum, allt frá Grágás, um að ættingjar eigi að sjá geðsjúkum/vitfirrtum farborða séu þeir ófærir um það sjálfir. Danska lagagreinin er raunar enn í gildi því hún hefur aldrei verið felld úr gildi og gengur ekki í berhögg við núverandi lög í landinu. En þótt “frænder” ættu að sjá um sína geðsjúklinga varð æ meiri þörf á að ríkið axlaði þær skyldur og fyrsta geðveikrahúsið, forveri St. Hans spítalans, var sett á fót 1612.
Í þessum fyrsta hluta bókarinnar er reynt að kæfa nokkrar lífseigar goðsagnir. Ein goðsögnin er að á sextándu og sautjándu öld hafi almennt verið talið að geðsjúkir væru haldnir illum anda. Zalewski tínir til heimildir fyrir því að svo hafi aldrei verið, meira að segja var það á könnu presta að greina milli þess hvort menn væru í alvörunni andsetnir eða geðveikir og prestar áttu ekki í neinum vandræðum með að skilja þar á milli. Og vissulega er það rétt að almenningur hafði stundum greindarskerta og geðveika (það var ekki greint þarna á milli) að dári og spéi en raunar höfðu Kaupmannahafnarbúar á 17. og 18. öld hvern þann að skotspæni sem skar sig úr fjöldanum.
Sömuleiðis er borið til baka að fólki í geðrofi hafi verið troðið í rimlabúr sem kölluðust dárakistur. Dárakisturnar voru ekki búr heldur pínulítil herbergi (þau minnstu voru 2,5 fermetrar … mætti kannski kalla þær skápa en örugglega ekki rimlabúr) með naglföstu rúmi, naglföstum kamri, sterkum veggjum og járnhurð. Þær voru byggðar af illri nauðsyn: Það var hreinlega ekki mannafli til að hemja stjórnlausa einstaklinga, sem brutu allt og brömluðu og voru hættulegir sjálfum sér og öðrum. Þetta er t.d. rökstutt með grunnteikningu af dárakistum spítalans frá 1738. Og fólk var ekki haldið í þessum pínuherbergjum til eilífðarnóns heldur sést á skrám spítalans að menn eru settir í dárakistu í stuttan tíma, svo fá þeir aftur að hverfa til sinna venjulegu herbergja þegar æðið rennur af þeim. Raunar kemur fram seint í þessum kafla að spennitreyjan (illræmda nútildags) hafi verið mikil frelsun fyrir þá sem á rann æði því eftir að spennitreyjur komu til sögunnar hafi ekki þurft að færa sjúklinga í sérstaklega rammbyggðu herbergin (dárakisturnar) niðri í kjallara heldur hafi mátt óla þá og leyfa þeim að vera áfram samvistum við aðra sjúklinga í mun skárri vistarverum.
Í bókinni Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga eftir Jón Ólaf Ísberg (útg. 2005) er því aðeins gefið undir fótinn að brennimerking fólks með geðsjúkdóma hafi verið óþekkt uns Kleppur var stofnaður, þ.e. uns „vísindalegar“ geðlækningar hófust á Íslandi. Ég hef svolítið velt þessu fyrir mér en sosum ekki komist að neinni niðurstöðu. Í leit á timarit.is má finna aldargamlar fréttir/frásagnir af melankólísku eða þunglyndu fólki (af báðum kynjum) sem fyrirfór sér en hvergi er neinn dómur felldur yfir því fólki, í rauninni er greint frá slíkum mannslátum á nákvæmlega sama kaldranalega hlutlausa háttinn og hverjum öðrum banaslysum. Sjá t.d. þessa frétt í Þjóðólfi 23.10. 1903:
Slysför .
Aðfaranóttina 4. þ. m. fyrirfór sér gipt kona frá Hvammi í Lóni Bergljót Jónsdóttir (frá Hofi í Öræfum Þorlákssonar). Hafði hún verið nokkra daga til lækninga á Reynivöllum í Suðursveit, en gisti á Stapa í Nesjum á leiðinni heim til sín laugardagskveldið 3. þ. m. Var horfin úr rúminu um morguninn og fannst dauð í Þveitinni, vatni fyrir innan Bjarnaneshverfið. Hún hafði verið þunglynd um hríð og heilsubiluð, en myndarkona. Var komin hátt á fertugsaldur.
Klassísk eldri dæmi má finna í íslenskri málsögu, nefnilega af sr. Jóni Halldórssyni sem dó árið 1779. Einn annálaritari ritar að hann hafi verið „gamall klerkur og æðisgenginn“ meðan annar annálaritari segir hann hafa verið „frá sér numinn“. Hvorgur annálaritarinn gerir á nokkurn hátt lítið úr sr. Jóni þótt þeir noti orðalag sem okkur nútímamönnum kann að finnast skondið. Líklega þarf ég að leggjast í annálalestur til að reyna að glöggva mig á því hvort geðbiluðu fólki hafi verið eitthvað öðru vísi lýst en öðrum. Ef marka má bókina um sögu geðlækninga í Danmörku hafa menn tekið geðveiki eins og hverjum öðrum krankleik eða hundsbiti fyrr á öldum, meðan enn var ekkert opinbert geðlækningakerfi.
Hagur geðveikra í geðlækningabatteríinu danska snarversnar þegar komið er fram á 18. öld, þegar J.H. Seidelin varð yfirlæknir á St. Hans árið 1816 og uns hann var settur af, í kjölfarið á kvörtun sjúklings, árið 1831. Fyrir þann tíma virðast menn ekki hafa haft ýkja mótaðar hugmyndir um geðveika, reyndu bara að taka þá veikustu úr umferð, veita þeim sæmilega ummönnun og vonast til að þeim batnaði af sjálfu sér. Sárafáir þeirra sem komu að meðhöndlun geðsjúkra voru læknismenntaðir. En Seidelin var velmenntaður læknir og fylgdi nýjum hugmyndum um að geðsjúkir væru sjúklingar sem þyrftu meðferð á sjúkrastofnun rétt eins og aðrir sjúklingar. Að baki lá auðvitað það húmaníska viðhorf að gera ekki upp á milli sjúklinga eftir sjúkdómum.
Seidelin taldi mikilvægt að beita læknisfræðilegum aðferðum, „psykiske kurmetoder“ í meðhöndlun geðsjúklinga. Því miður fólust þessar „psykiske kurmetoder“ oft í að aga sjúklinginn með líkamlegum refsingum ýmiss konar. Má nefna böð, spennitreyjur, stóla sem menn voru bundnir í, svelti, uppsölulyf, þorstameðferð (menn fengu ekkert að drekka langtímunum saman) o.s.fr. Það hlálega er að þessi meðferð Seidelins, sem vekur andstyggð okkar nútímamanna, byggði líklega á þeirri nýju hugmyndafræði að geðveiki væri líffræðilegur sjúkdómur („somatisk“), ekki ósvipuðum hugmyndum og eru hvað mest í móð meðal geðlækna nútímans. Ekki hefur varðveist mikið af efni eftir Seidelin sjálfan en samtímamaður hans, læknirinn F.C Howitz, birti grein árið 1824 þar sem hann gerir grein fyrir þessum nýju „vísindalegu“ hugmyndum, þ.e. að uppruni geðsjúkdóma sé í líffærunum, og segir:
Afsindighet [orðið sem þá var notað yfir geðræna sjúkdóma] bestaaer i en Indskrænkning af Fornuften eller Fornuftens Brug formedelst en Sygdom i de materielle Organer for Sjælens Virksomhed. For saa vidt den yttrer sig i Handlingen bestaaer den i en Mangel af fornuftig Selvbestemmelse foranlediget af samme legemlige Aarsag.
Ég er ekki komin lengra í bókinni. En það er óneitanlega merkilegt að þær óhuggulegu læknisaðgerðir sem við teljum pyndingar skulu hafa komið til sögunnar þegar menn gerðust vísindalegir, þ.e. þegar læknisfræðin hóf innreið sína í meðhöndlun geðsjúkra.
Hafa þunglyndislækningar villst af leið?
Það var fyrir réttu ári síðan að augu mín opnuðust; Ég áttaði mig á því að ég myndi aldrei ná bata með hefðbundnum aðferðum geðlækna við þunglyndi. Svo merkilegt sem það nú er var það bókmenntafræði sem opnaði mér leið. Af rælni hafði ég fengið lánaða bókina Sykdom som litteratur á bókasafni, ætlaði raunar bara að glugga í kaflana um berkla og holdsveiki en kíkti svo líka í kaflann um þunglyndi. Allt í einu rann upp fyrir mér að ég var farin að gegna hlutverki bókmenntapersónu, klisju eða erkitýpu, en ekki persónu af holdi og blóði. Eitt er að lesa nýrómantískan harmagrát – allt annað að þurfa að leika nýrómantíska harmræna kvenpersónu upp á hvern dag og finna sig engan veginn í hlutverkinu.
Meðan ég var að átta mig á hvernig viðhorf geðheilbrigðisstarfsmanna til sjúklinga má að einhverju leyti skilja út frá bókmenntafræðikenningum bloggaði ég færslurnar Geð, sál, líkami, staðalímynd og Haltu kjafti og vertu … þunglynd?, sem reyndust fara sérstaklega fyrir brjóstið á þáverandi geðlækninum mínum. Í færslunum er tekið nokkuð djúpt í árinni og eftir að hafa kynnt mér hefðbundnar þunglyndislækningar í ár sé ég að málin eru flóknari en í þeim kemur fram. En þetta var góður byrjunarreitur fyrir mig og raunar er ég enn sammála megninu af færslunum. Ég rakst núna áðan á klausu eftir sálfræðinginn og geðhvarfajúklinginn Kay Redfield Jamison um tengsl þunglyndis og erktýpu kvenleikans:
Þunglyndið samræmist betur hugmyndum þjóðfélagsins um það hvernig konur séu í innsta eðli sínu, þ.e.a.s. hlédrægar, viðkvæmar, veiklyndar, bjargarlausar, grátgjarnar, ósjálfstæðar, ringlaðar, fremur leiðinlegar og ekki mjög metnaðarfullar. (S. 90 í Í róti hugans.)
Margt af ofantöldu voru sjúkdómseinkenni mín en eru hreint ekki hluti af mínu skapferli og sumu hef ég megnustu skömm á. Það má vel spyrja sig hvort viðmót einhverra þeirra sem sjúklingar á borð við mig mæta í geðheilbrigðiskerfinu mótist af trú þeirra á að þessi einkenni séu eftirsóknarverð fyrir konur.
Í Morgunblaði (mannsins) í dag er aðsend grein eftir þær Svövu Arnardóttur og Tinnu Ragnarsdóttur, Leiðir til lausna heitir greinin og fjallar um leiðir til bata í geðrænum veikindum. Ég er löngu búin að átta mig á því að það er ekki ég sem hef verið svona sérstaklega óheppin í viðskiptum við geðlækningakerfið heldur er saga mín saga margra. Í grein Svövu og Tinnu er lýst því sem fjölmörgum geðsjúkum er talin trú um:
Áður en ég kynntist Hugarafli hafði ég ekki hugmynd um að hægt væri að ná sér eftir geðræn veikindi. Þó hafði ég stundað sjálfsvinnu og glímt við þunglyndi og kvíða í áraraðir. Hafði sótt þjónustu til ýmissa sálfræðinga og geðlækna og hvergi fengið þau skilaboð að ég gæti náð mér og orðið heilbrigður einstaklingur á nýjan leik. Ég fékk hins vegar að heyra það að ég væri þunglynd að eðlisfari og ef ég væri dugleg að taka lyfin mín og tæki þau um ókomna framtíð gæti ég vonast til að halda þessum einkennum í skefjum. Slík skilaboð draga úr vonum og væntingum einstaklings …
Síðan lýsir mælandi hvernig hann lærði af samtölum við aðra, þ.e. heyrði „lífssögur einstaklinga sem voru komnir langt í bata en höfðu verið á sama stað og ég“, öðlaðist fyrirmyndir og mætti jákvæðu viðmóti „í viðtölum við fagaðila sem lýsti yfir trú á mér. Það þekkti ég ekki áður.“
Þessa hjálp sem skilaði árangri fékk höfundur greinarinnar hjá Hugarafli. Ég hef ekki leitað til Hugarafls, aðallega af því ég bý ekki í Reykjavík og hef oft á tíðum verið nánast ófær um að bregða mér af bæ. Ég hef hins vegar fengið svipaðan stuðning annars staðar, eftir að ég ákvað að taka mín mál og minn sjúkdóm í eigin hendur, hafandi treyst hefðbundnum geðlæknisaðferðum í blindni í meir en áratug þótt þær skiluðu engum árangri til bóta og yllu mér skaða í mörgum tilvikum. Með hjálp skynsamra og góðra manna hef ég náð miklu betri árangri á því ári sem liðið er en nokkru sinni gafst af pilludótinu og stuðunum. Ég hef fulla trú á að þessi aðferð skili árangri áfram og er voðalega fegin að vera hætt í pilluprófunum og hafa ákveðið að ekki verði flogað meir með rafmagni í heilanum á mér.
Pillusortum við þunglyndi fjölgar æ meir og heilaþvotturinn um að orsakir þunglyndis liggi í tiltölulega einföldu efnaójafnvægi í heila verður æ öflugri … en á sama tíma verður þunglyndi æ algengara og æ þyngri vá og æ meir ólæknandi í þeim skilningi að flestum þunglyndissjúklingum er sagt að þeir þurfi að eta þunglyndislyf til frambúðar. Má þá ekki draga þá ályktun að árangurinn af læknisaðferðunum sé sorglega lítill? Hvað klikkar? Er mögulegt að þunglyndislækningar nútímans séu, þegar allt kemur til alls, skelfilegt kukl en ekki vísindi?
Ein leið til að leita að svörum við þessu er að skoða söguna, hugmyndir fyrri tíðar manna og eldri lækningaðaferðir. Ég er þessa dagana að glugga í efni eftir aðra en geðlækna af því mér þykir, af minni fátæklegu reynslu af geðlæknum, að sýn geðlækna sé þröng, eiginlega má segja að vísindaleg læknisfræðileg sýn á þunglyndi sé gott dæmi um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Ég er satt best að segja eiginlega búin að fá mig fullsadda af greinum um þunglyndi eftir geðlækna. Svo ég skoða núna efni um þunglyndi eftir heimspekinga (sem gleður eflaust eiginmanninn mjög) og efni tengt hugmyndasögu og bókmenntum. Fyrir mörgum árum byrjaði ég að lesa The Anatomy of Melancholy (útg. 1621) eftir Robert Burton en gafst upp á að lesa gotneska letrið í útgáfunni sem bauðst þá á Vefnum – nú er ég búin að finna hana á Vefnum með nýmóðins latínuletri og ekkert því til fyrirstöðu að hraðfletta gegnum bókina. Og ég er niðursokkin í grein um tengsl hugmynda sautjándu og átjándu aldar manna um melankólíu við hugmyndir sömu manna um konur … sé ekki betur en kona sem erkitýpa þunglyndissjúklings sé ansi gömul hugmynd 😉
Og heilsan? Tja, leiðin virðist liggja upp á við ef marka má árangur í sunndagskrossgátu moggans og almennt geðslag. En ég glími við draugatilfinningar á hverjum degi. Og minnistruflanirnar geta gert mig geðveika! Ég er svo helvíti metnaðargjörn, sjálfstæð o.s.fr. skiljiðið …