Category Archives: Uncategorized

Loksins (næstum) búið!

Maðurinn er á þessari stundu að festa hillur í skápana sína, hita Span dótið sitt upp í 200° (eða kannski er bakarofninn ekki Span? Gæti verið Spikk …) Jafnframt er maðurinn búinn að troðfylla uppþvottavélina af rykugu leirtaui og mundi eftir að setja salt á botninn á vélinni (!?!). Kannski er hann byrjaður að raða í skápana, hvað veit ég.

Sé ekki betur en eldhúsgræjurnar séu alltof fullkomnar og tæknilegar fyrir litla konu eins og mig.

Sem góð eiginkona var ég náttúrlega langt komin með að ryksuga sagið í eldhúsinu og dusta af marmaraeftirlíkingarplötunni sem teygir sig eins og Miðgarðsormur eftir eldhúsinu, þegar maðurinn kom heim úr matvörubúðinni.  Við erum nefnilega ekki með eyju. Í gamla daga, meðan ég vann í bókabúð og sjoppum, þótti agalega smart að hafa eyju og eimháf þar fyrir ofan.  Ég sá aldrei pojntið í þessu þar sem þessi eyjudrusla gerði umferð um eldhúsið mun snúnari. Í glanstímaritum fyrri tíma var alltaf mynd af “henni” eða “honum” að “blanda salat” á eyjunni. Augljóslega meira vit að brúka vaskaborðið til þess … nema þau hafi vanið sig á að fá það óþvegið.  Eyjulaus höfum við eldhúsbekkina í ormslíki.

(Nú veldur minnisskortur því að hugsanlega eru Sörlaskjólskarríerhjónin með eyju – þeirra íbúð strokaðist úr mér við stuðin. Sé svo skulu Sörlskælingar ýta á delete fyrir málsgreinina að ofan.)

Allavega er eldhúsið þannig: Hvítt korkparkett á gólfi, eldhúsinnrétting úr hlyni og reyklituðu gleri (nýju hurðirnar í allri íbúðinni eru líka úr hlyni – þær verða settar upp í janúar), hvítur ask-panell á veggjum þar sem ekki eru skápar eða svoleiðis dót og svört borðplata á láréttum flötum og verður á matarborðinu þá það kemur á morgun.  Þetta er nú ekki alveg eins og hrafntinna eða eitthvað þannig heldur svartur marmari. Eldhúsið er smíðað eftir teikningu mannsins (og á tímabili var umræðan farin að minna mig á “Eldhús eftir máli” með einhvern veginn öfugri kynskiptingu. Auðvitað er ekkert af þessu ekta heldur allt spónlagt. (Hafandi búið í ekta flottri íbúð í Napólí á sínum tíma er ég ekki mikið fyrir ekta.  Ég vil t.d. geta gengið berfætt um íbúðina mína og ekki þurfa að horfa í hvert fingrafar.)

Ég er aðeins að breytast í homo sapiens.  Kannski eru það nýju pillurnar sem valda. Ég er a.m.k. orðin aðeins hressari en morrinn svo eitthvað virka pillurnar. Helsta aukaverkun þeirra er að fólki hættir til að hætta að reykja. En kona hefur látið sig hafa verri aukaverkanir en þessa. Svo á ég nú eftir að sjá hvussu heftandi aukaverkunin er því ég hef alls ekki hugsað mér að hætta að reykja. Í verstu dýfunum eru mínir einu vinir sígarettur og þykk sæng (sem brúkast ekki saman).  Og ef einhver reynir að segja langt leiddum þunglyndissjúklingi að eitthvað sé e.t.v. lífshættulegt – þá setur sjúklingurinn upp steinfésið því hún er of veik til að hlæja hæðnislega.

Endurhlaðið (Refreshed) heimili og endurhlaðinn eiginmaður

Maðurinn tók sig til í gær og fór með fjórar kerrur af rusli til Sorpu (svo nú er minn góði sólpallur auður á ný); Skúraði alla íbúðina okkar og bónaði stofuna og ryksugaði húsgögnin (steinryk hefur þann leiða eiginleika að smjúga um allt) – bar svo allt okkar dót úr hústökuíbúðinni uppi og hingað niður nema eldhúsdótið því við höfum ekki eldhús enn.

Myndin sýnir ekki ektamanninn eins og glöggt má sjá af hári fyrirsætunnar.  Aftur á móti gæti maðurinn tekið upp þetta verklag miðað við afköstin í gær!

 Ég þvoði eina þvottavél rúmlega 7 um morguninn og hélt á nokkrum tuskum af mér sjálfri niður í okkar íbúð, rétt meikaði að hengja þær upp. Maðurinn straujaði hins vegar fælu af skyrtum og brókum af sér sjálfum.

Myndin til hægri gæti sýnt mig ef ég færi einhvern tíma í freyðibað … það er þetta letilega lúkk sem passar við mig og myndin ágæt til mótvægis við manninn í baðinu …

Maðurinn hefur auk þess undanfarið steypt í tvær gamlar ristar, sparslað og málað. Ég hef hlustað kurteislega á upplýsingar um hversu mátulega þykkt steypuna verði að blanda og hvað gerist ef hún er of þykk eða of þunn. Hef hlustað á þetta þrisvar og þykir ekki mikið miðað við hve hallar á mig í framkvæmdum.  Það verður aldeilis munur þegar frumburðurinn lítur við því hann er mikill steypusérfræðingur og getur rætt þetta fræðilega við föður sinn!

Maðurinn er búinn að setja upp svolítið af National Lampoon’s jólaljósum. Ég hef hins vegar keypt eina hýasintu og látið það duga.

Með einbeittan valvilja og tvo minnislista að vopni fór ég í tvær búðir í gær. Í dag ætla ég að fara og skila tveimur gjöfum og fá aðrar í staðinn.  Gríðarlegur valkvíði er fylgifiskur þunglyndis og þótt maður eyði klukkutímum í að fletta bóka- og plötutíðindum og skrifa skipulega gjöf á kjaft þá fer náttúrlega allt úr böndunum þegar maður fer að skoða. Ég held að ég fengi alvöru taugaáfall ef ég reyndi að fara í Kringluna!

Svo hringdi ég í stærðfræðinginn til að fá útreiknað hvernig gjöfum verður komið til skila: Lagt inn og sótt. Eitthvað var stærðfræðingurinn hvumpinn – e.t.v. að reikna – og talaði í norðlenskum tón en ekki því sem synir mínir kalla “sænskan vælutón” og segja að ég taki upp þegar ég er mjög veik. (Sorrí litla systir … þetta eru náttúrlega fordómar í krakkakvikindunum!)

Niðurstaðan var að koma þessu öllu á litla bróður enda geymir hann kjötið okkar. Það hefur aftur á móti ekki náðst í litla bróður til að fá samþykki (sem er nú óþarfi því hann er pappírslega séð minnstur …) og hvussu skuli bera sig að með allar gjafir utan Eskifjarðar, Tenerife líka. Ég reikna með að litla fjölskyldan sé einhvers staðar á reginfjöllum eins og flestar helgar og skipulegg á morgun.

Ég er að fara að pakka inn. Hef uppgötvað að ég gleymdi að kaupa merkimiða og límband en treysti á að maðurinn hafi gert það um daginn (hann er búinn að ganga frá öllu sínu, þessi elska).

Þið sem lásuð þessa löngu færslu: Ef ég verð alveg lens með fé kann að vera að ég bjóði upp manninn á ebay. Fylgist með! 

Vímuð

Ég er svo vímuð af epoxy-lyktinni að ég hugsa varla skýrt.  Skil ekki hvernig nokkur maður getur haldið út að verða lím-fíkill! Ég man eftir þessu trendi í gamla daga, fyrir svona 30 árum síðan …

En mikið déskoti er ask-panellinn flottur!!

Hef reiknað út að ég fer yfir rúmar 1000 síður í þessari prófatörn (og svoleiðis törnum almennt). Rúmlega 100 nemendur og rúmlega 10 síður í nær öllum prófunum gera 1000, er það ekki?  (Held ég sé of epoxy-uð til að finna þetta út. Maður fer að skilja af hverju fíklar og alkar sækja í bókmenntir – sjálf meðtalin – þar sem ekkert er skilið jarðlegri spekt.)

Ef ég les einu sinni enn “Honum var beitt ofbeldi” eða “Henni var beitt ofbeldi” læt ég leggja mig inn! Ég höndla gömlu villurnar ágætlega ekki síður þær nýrri af nálinni.

Sumt potast en annað ekki

Jákvæðu tíðindin eru að nú er næstum allt búið nema eldhúsið. Og eldhúsið verður sett upp í næstu viku, reiknum við með. Svoleiðis að nú er bara ein vika eftir í útilegunni á efri hæðinni – en við höfum dvalið þar í góðu yfirlæti þannig séð.

Hurðir og dyrastafir kunna að frestast fram í janúar. Ég hef margoft gefið í skyn við okkar góðu tréiðnakennara að ég vilji eftirmynd af Valþjófsstaðahurðinni  sem útidyrahurð … en ævinlega fengið blankt augnaráð og ekkert svar. Í gær stakk Atli upp á að fræst yrðu nöfnin okkar, í útidyrahurðina en þeim tréiðnakennara fannst það ekki sniðugt. Hvenær ætla þessir menn að nota tölvustýrða fræsarann?  Ég bara spyr … En úr því innihurðir eru tilbúnar og spónlagðar með öllu er sjálfsagt ekki hægt að fræsa neitt spennandi í þær hurðir. 

Þótt sumt sé að verða svo fínt að það sé of fínt! Má nefna að eftir lökkun korkparketts  glansar það svo mjög að konur geta ekki verið í pilsi hér inni, þetta er eins og að labba á spegli. Samt stóð á dollunni Silk Mat, segir lakkarinn. Já, þótt sumt sé orðið þannig últra-fínt má finna drusluleg bæli eða afkima (kolbítsins) innan um fínheitin og nefna að við erum eina fólkið í götunni sem ekki er búið að skreyta með svo mikið sem einni peru!  Mér datt í hug að okkar góðu flóttamenn yrðu glaðir að sjá þetta og teldu fólkið í þessu húsi vera upplýst fólk, trúmálalega séð, eftir að hafa séð gyðingakertastjaka í hverju einasta húsi í bænum, tvo og þrjá sumstaðar.

Ætli maður verði ekki að setja upp eitthvert ljósadót?  Menn skreyta sko ekki við sleitur hér á Skaganum og sumir setja ekkert fyrir sig mismunandi uppruna, sbr. jötusenuna með snjókarli öðrum megin og kókjólasveini hinum megin, í næstu götu … Eina ljósadótið sem við eigum hefði sómt sér vel í National Lampoon’s Christmas … og á hverju ári vona ég að það sé ónýtt! Þeir feðgar hafa alltaf skreytt kirfilega einn glugga, þ.e. mokað öllu jólaljósakyns í stofugluggann. Það lítur að sjálfsögðu hörmulega út en við skerum okkur þá ekki úr götumyndinni á meðan.

Ég skoða með að moka út úr helli kolbítsins eftir dúr. Það er alltaf línudans hversu mikið má gera þegar manni líður þokkalega því eftirköstin daginn eftir geta verið slæm. Og á morgun eru mín minnstu börn í prófi og þurfa bjartsýnislegan kennara sem getur talað / hvíslað og man orð. Sami kennari þarf að geta horft hlýlega og óþunglynt á hvern nemanda og helst að brosa uppörvandi (sem er verulega erfitt sé kona djúpt sokkin).

Mía litla skreytir aldrei fyrir jólin eða hvað? 

Búleikur

(ég kunni ekki við að hafa titilinn “Barbídúkka í búleik” ef einhverjir skyldu enn kannast við þann gamla brandara.)

Í heilan mánuð hafa iðnaðarmenn skrælt hálfa íbúðina oní stein og byggt hana svo upp á nýtt. Það versta var tíminn þegar verið var að skoða skólplagnir með myndavélarkafbát og leggja þær upp á nýtt, innan í þeim gömlu, sem voru á síðasta snúningi. (Ath. Ef hús er um 50 ára gamalt og skólplagnir eru úr steini og einhvern tíma fyrir ekki langalöngu var skipt yfir í hitaveitu með hitaveituafrennslisskólpvatni – ÞÁ ættu menn að fá Ásgeir með röramyndavélina.

En sumsé meðan strákarnir með rörin á sinni könnu voru að leita að endum röranna var doldið ókræsilegt hér um að litast því grafa þurfti gíga hér og þar um gólfin og einnig djúpa gröf úti í garði. (Þeir slepptu því að grafa oní garðgröfina og mér þótti það vel við hæfi því ég var að kenna Grafarþögn akkúrat þá … Atli er búinn að hálfmoka oní hana.)

Núna er komið glansandi nýtt og fínt og æðislegt baðherbergi. Komið er ljóst korkparkett á hálfan flötinn sem það á að lenda á, sennilega stærri parturinn af íbúðinni. (Öll gólf flotuð þegar búið var að steypa í gígana og mér fannst þau æðisleg enda höfum við einu sinni gert þau mistök að leggja parket á óflotað gólf.)

Eldhúsið var endanlega skrælt í gærkvöldi og núna áðan fór ég að dást að litunum: Þetta eldhús hefur verið pastel-blátt, pastel-bleikt, dökk-grænt, dökk-lambaskítsgult, ÍA-gult og nú síðast þokkalega ljósgult (sem ég málaði sjálf yfir ÍA og dökkgræna litinn). Í dag smíðuðu strákarnir nýjan sökkul undir nýju eldhúsinnréttinguna sem er verið að smíða úti í bæ. Á morgun geta þeir ríslað sér við að kork-parkettleggja að sökklinum, reikna ég með.

Sirka 50% af þeim fjölda iðnaðarmanna sem nú hafa komið við sögu eru gamlir nemendur. Hins vegar var Pólverjinn Róman ekki gamall nemandi og hélt að hann gæti eitthvað skipað mér fyrir verkum í minni eigin íbúð með því að benda á nýmálað eldhúsloftið og segja: “Mála, mála fínt! Ekki reykja inni!” og skálma svo einbeittur fram í þvottahús til að kveikja í og svo út. Ég þóttist ekkert skilja.  Hann hefur sjálfsagt haldið að ég væri lítil pen kona sem gerði eins og mennirnir segðu. Svona gerast kúltúrsjokkin.

Sem betur fer búum við á efri hæðinni (þökk sé okkar ágætu nágrönnum sem við söknum sárt) og þar er eldhús og baðherbergi og svona dót sem maður vill hafa í kringum sig.

Af heilsufari er bara þetta sama gamla leiðinlega að frétta: Ég þurfti að melda mig veika í yfirsetu í dag.  Hugsanlega var ég með svona slæma magapest – hugsanlega var þetta enn ein birtingin á þunglyndi / kvíða og því drasli. Ef ég læt undan þessu á morgun enda ég á að komast ekki út úr húsi. Svo ég ætla í yfirsetur á morgun.  Prófayfirferð í einum áfanga er lokið en ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið jafnlengi að fara yfir próf! Ég er orðin svo leið á að vera aumingi að ég gæti gubbað!

Troða halir helveg …

Púff!  Eins gott að ég er ekki halur! Þá væri veruleg ástæða til að hafa áhyggjur! Nei, ég er kván og get haldið mér kjurri með því að hnipra mig saman eins og lítil kanína og eyða helst megninu af sólarhringnum í þröngri hlýrri holu, sem búin er til úr tveimur sængum.

Þetta er í rauninni svipuð sængurhola og unglingar vilja búa sér til í sínu herbergi.  Sennilega er margt líkt með miðaldra þunglyndum konum og unglingum; annað sem mætti nefna er að hvorugan hópinn langar minnstu vitund til að mæta í skólann á morgnana! (Þetta passar reyndar ekki vel við mig því ég er öfugsnúin í þunglyndi sem öðru og líður skást á morgnana.)

Líf mitt litast af mistökum og sauðshætti. T.d. leitaði ég í meir en korter að lausu músinni við tölvuna uppi í skóla áður en rifjaðist upp fyrir mér og ég sá að þetta er fartölva með skafmiðamús … Ég er bara búin að nota tölvuskömmina í nokkur ár (held ég).

Mér tókst ekki að panta á internetinu og fór fjúkandi vond oní bankann minn … skýringin reyndist vera að í þremur atrennum hafði mér ekki tekist að slá inn réttan gildistíma korts!

Það fer náttúrlega ekki framhjá mínum góðu nemendum að sitthvað er bogið við þeirra kennara … t.d. þegar ég afrekaði í vikunni að leggja saman 2 og 4 og fá út 7, á töfluna!  Svo hripa nöfn nemenda úr mér hraðar en auga á festir. Sem betur fer eru nemendur umburðarlyndir við kennara og ég hef bara sagt þeim eins og er; að kennarinn þeirra sé geðveikur og versni sífellt geðið. Unga liðið hefur ekki sérstaklega mikla fordóma gegn geðveiki. Hið sama verður ekki sagt um fólk á mínum aldri. Þeir sem eru á brún geðveikinnar eru náttúrlega fordómafyllstir allra.

Eins og venjulega hef ég þennan klukkutíma – tvo tíma þar sem ég hugsa nokkuð skýrt og hitti á lyklaborð eins og ekkert sé. Eftir það fer allt á verri veg. Elskulegur maðurinn minn á megingjarðir inn í skáp og hefur sinnt sósíallífi og þrifum þessa heimilis, auk fjarkennslu og þessa tvöfalda djobbs sem hann gegnir – án stimpilklukku. Íbúðin mín er að verða íbúðarhæf að hluta, þ.e. komið klósett sem virkar og ekki lengur gígar í gólfinu. Maðurinn þreif líka íbúðina uppi meðan ég kúrði mig í fjóra tíma í sængurholu, án þess að sofna, en líðandi heldur skár undir sænginni.

Myndin er þjófstolin af NASA síðu og sýnir hvernig sól tér sortna … gæti verið mjög lýsandi mynd af mínu sálarlífi frá hádegi og frameftir deginum. Man því miður ekki hvar ég stal myndinni ofar í færslunni.

Ástandið

Myndir lýsir deginum í dag. Hve stutt er þar til ég hætti alveg að geta talað eða lagt saman 2 + 2 eða lesið léttan reyfara er erfitt að meta. Ég væri til í að býtta á þunglyndinu í flesta aðra sjúkdóma en slíkt býðst því miður ekki. Enginn ljós punktur í dag og mikil uppgjöf.

Þetta endar alltaf eins: Kona verður fangi þunglyndis, í lengri eða skemmri tíma.

   

Pottþétt sparnaðarráð!

Í byrjun af heilsufari: Það er ömurlegt, rétt að ég sé normul milli 5 og 7 á morgnana. Seinnipartinn er ég farin að tala eins og Paul Robson syngur Deep River … ekki mjög kvenlega og ekki mjög hratt. Ég tek nú eina eykt í einu, dagur er of stór biti. Spennan liggur í hvort ég lafi út önnina, prófatímabilið með. Ég skal!

En nú af hinu góða sparnaðarráði sem ég vil benda fólki á. Inn um bréfalúguna hjá mér hrynja bæklingar um rosa sparnaðartilboð á bókstaflega öllu, frá inniskóm til höggbors. Allt er þetta á sérstökum kjörum og hefur snarlækkað. Því miður vantar mig ekki höggbor og hafði hugsað mér að setja kanínufóðraða inniskó á jólaóskalistann.  Svo ég sá ekki fram á að spara neitt.

Ég skal að vísu játa það að ég er afskaplega ódugleg og klén að fara á útsölur í mínum heimabæ. Þó heitir þetta ekki því simpla nafni útsala heldur hafa þessar verslanir forframast í “Outlet” sölur, sem mun þýða “útsölur” (en ekki “Útlát” sem fáfróðir gætu haldið og skilið sem andstæðu útsölu). Þetta minnir mig alltaf á Bör Börson og nú bíð ég spennt eftir pípukerfi í Ozone (íþróttfataverslun) svo hægt sé að “gefa ordrur” um verslunina.

Í fyrradag komst ég hins vegar að því hvernig ég get hrúgað upp sparnaði á engri stund! Ég fór í apótekið og keypti þar tvo minnstu pakka af Nicotinell tyggjói – því stundum viðrar illa til að reykja úti í frímínútum. Einn svona pakki, með 24 tuggum, kostar 1.351 kr. VÁ!! Einn langur Winston, með 20 stykkjum, hefur kostað á bilinu 550 – 600 kr. Líklegast hefur hann hækkað eilítið en af því ég geri magninnkaup (= kaupi karton í einu) veit ég ekki af hækkun ennþá.

Það þarf náttúrlega engan Einstein til að sjá að tuggudótið, sem ekki truflar viðkvæmt lyktaskyn reyklausra er meir en tvöfalt dýrara, auk þess sem maður notar faktískt meira af því en sígarettum yfir daginn. Samt er það margfalt eitraðra miðað við magn nikótíns og gjöreyðileggur slímhimnur í munni, hef ég eftir áreiðanlegum lækni. 

Allir sem vilja spara rosalega ættu nú að hefja reykingar og kaupa ekki nikótínlyf heldur gleðjast yfir því að á degi hverjum spara þeir svona 600 – 700 kall, með puðrinu!

Eiginlega ættu þeir hinir reyklausu, svo ég tali nú ekki um vammlausu, á vinnustaðnum að safna í sjóð handa okkur reykspúandi eymingjunum svo við höfum efni á að hætta að spara og tyggja okkur gegnum daginn, eftir að “Lebensraum” þeirra reyklausu kemst til fullra framkvæmda eftir áramót.   

Kraftaverkakennari … en að öðru leyti óskup mikil dula!

Elín G. Ólafsdóttir hefur verið svo vinsamleg að láta mig vita af því að ég sé kraftaverkakennari í Gestabók og í persónulegu bréfi.  Ég þakka henni kærlega fyrir það! Önnur færslan í Gestabók er svona:

“Til hamingju með lífið Harpa. Ég vildi að ég væri aftur orðin ung og hress kennslukona að springa úr áhuga og hugmyndaauðgi til að vinna með nemendum.
Þú og ég erum nefndar í sama orðinu í grein Magnúsar Þorkelssonar í Netlu KHI.is. Heiður og sómi.
Baráttukveðjur og gott gengi,
Elín G.”

Ég verð að viðurkenna að ég hef íhugað þessi orð nokkuð: Ég er hvorki ung né hress né að springa úr neinu nema helv… þunglyndinu sem versnar dag frá degi! Núna felast kraftaverkin aðallega í því að komast yfir götuna í skólann – einn dag í einu!  Sem betur fer eru nemendurnir tiltölulega jákvæðir og til í að leiðrétta sinna kennara þegar hann segir Kjartan í stað Bolla eða ísskápur í staðinn fyrir sverð. Öfugt við það sem margir halda eru unglingar oft vænsta fólk.

Ég fletti náttúrlega upp í Netlu (þótt litla systir lesi þetta daglega erum við meira útúr hér í dreifbýlinu).  Grein Magnúsar Þorkelssonar, aðstoðaskólameistara í Flensborg, heitir

Um breytingar í skólastarfi og viðspyrnu við þeim 

Ég hraðskannaði greinina og kannaðist við margt sem þar var rætt, síðan fyrir 5 – 6 árum þegar allir voru að ræða svipuð mál. Mig minnir að ég hafi haft skoðanir á þessu mörgu fyrir löngu síðan en ég hef engar skoðanir lengur. Rétt að maður nenni að stíga fast á tær þeirra sem eru með múður, innan bloggs og utan.

“Á sama tíma má lesa um kraftaverkakennara sem gera allskonar snilldarlega hluti alveg án þess að til sé hliðrað í stundatöflu, húsnæði eða þeim lagðir til sérlega valdir nemendur (Elín G. Ólafsdóttir, 2004; Harpa Hreinsdóttir, án árs; Herdís Egilsdóttir, 2007; Sverrir Páll Erlendsson, 2002). Þannig virðist mér að getan og viljinn til þróunarstarfa séu að miklu leyti sjálfsprottin og það ráðist af getu og vilja hversu mikil hindrun verði af öðrum þáttum. Nær allar ofangreindar heimildir nefna beint eða óbeint að stuðningur stjórnenda við breytingarnar sé lykilatriði (sjá einnig McKinsey og Company, 2007). Þar með er auðvelt að sjá hvernig einstaklingur í kennarahópi ryður sér leið til umbóta, jafnvel lítill hópur.”

Þetta stendur einhvers staðar í miðri grein og maður hefði haldið að litla systir léti mann vita … en svo er ekki! Mér finnst gaman að vera kölluð kraftaverkakennari og sögð geta snilldarlega hluti! Að vísu get ég þetta ekki í augnablikinu en sá tími mun eflaust koma.

Af því þetta gladdi mig (ekki margt sem gerir það) ákvað ég að blogga um hrósið þótt ég viti að Janteloven ríki á kennarastofunni og ákveðinn hópur fær þarna vatn á sína kvörn.