Category Archives: Uncategorized

Ekki dauð úr öllum æðum!

Titillinn er eiginlega tvívísandi, þ.e.a.s. annars vegar á “frýs í æðum blóð” vel við þegar mér finnst renna ískalt eitthvað inni í mér.  Mest er þetta aftan á höfðinu – skrítin tilfinning en ekki slæm. Bókmenntaleg túlkun er að ég sé ekki blóðheit persóna. Mér þætti gaman að vita hvort blóðheitar + þunglyndar persónur kvenkyns finnist óverhóved í heimsbókmenntunum.

Hins vegar á fyrirsögnin við það að í gær varð ég svo reið að ég hefði getað drepið mann!  Þetta er yndisleg tilfinning þegar maður hefur verið alsljór og freðinn í langan tíma. Í gær var nefnilega húllumhæið Skammhlaup í skólanum mínum og var frá upphafi ljóst að betra hefði verið að sitja heima!

Mér skilst að íþróttaþrautirnar hafi ekki gefið amrískum herskólaæfingum neitt eftir í áhrifum og ástandi þátttakenda eftir fúttið,  auk þess sem þær tóku helmingi lengri tíma en áætlað var.

Tímasetning annarra atriða var þar með í hönk. Mér var sama því ég nýtti tímann í að vinna neyðar-kennslugögn því ég er svo á eftir miðað við kennsluáætlun. Þegar litlu ljósin komu í sína íslenskuþraut kom í ljós að nánast enginn kann aðra braglínu þjóðsöngsins en nánast allir kunna 4. línu Piparkökusöngsins.  (Ég sting því að Teiti Atlasyni, góðkunningja mínum, og félögum hans að berjast fyrir að “Þegar piparkökur bakar ….” verði gerður að þjóðsöng enda hvergi minnst á guð í þeim ágæta texta.)

Ég gaf fyrir mína þraut og raðaði liðum skv. þar til gerðu matsblaði – júróvissjónröðun var talin alheppilegust í ár. Óumflýjanlega stóðu nokkur lið sig jafn vel, hér og þar á skalanum og því voru t.d. 3 lið með 7 rétt af 10. Svo ég gaf þremur liðum einkunnina 12 (douze points) o.s.fr.

Þegar ég skilaði blaðinu inn þannig varð allt vitlaust:  Svona átti nefnilega ekki að gera og einungis 1 lið að fá 12 stig. Ég spurði stjórnandann hvernig svo mætti búa um hnúta ef gerð væri skítlétt þraut í 10 liðum. Svarið var að ég hefði átt að hafa ritunarspurningu! Ég hafði ekki heyrt þetta fyrr og tilkynnti að ég tæki aldrei aldrei aftur þátt í þessu hallæris-húllumhæi og væri þar af leiðandi skítsama. Í sama mund kom eðlisfræðikennarinn með akkúrat eins útfyllt blað og ég (margar tólfur).

Uppi í vinnuherbergi hitti ég Sögukennara A sem hafði fyrirfram vitað af ritunarspurningunni, fékk upplýsingarnar frá Sögukennara B.  Aftur á móti hafði Íslenskukennara C verið sagt eftir á að raða nemendum á listann eftir því hver af hæsta hópi kom fyrstur og hver annar o.s.fr. og hafði hann einmitt þurft að grufla svolítið yfir því að muna hvenær hver og einn keppandi mætti. Ég tilkynnti þarna að aldrig í livet tæki ég þátt í svona geggjun aftur!

Niðri við stigavörsluna var hins vegar allt á suðupunkti því sumir í framkvæmdastjórninni höfðu sagt liðunum að þau mættu keppa í bóknámsþrautunum í hvaða röð sem þau vildu. Af hyggjuviti mínu, þótt lítil kona sé, sá ég að þetta myndi nú ekki ríma sérlega vel við tímaröðun efstustiga-liða …

Í ár var keppt í að safna sígarettustubbum í kringum skólann.  Þetta er náttúrlega svo brjálæðislega nasísk hugmynd, í besta falli sprottin af illgirni, að ég reiknaði aldrei með að skólameistari tæki hana í mál. En stundum verður að reikna aftur og aftur: Þegar ég var að fara heim, guðsfegin, mætti ég tveimur af mínum nemendum með plastpoka, rennblauta sígarettustubba og blessunarlega hafði einhver haft vit á því að gera þá út með einnota plasthanska.  Ég var svona að vona að strákarnir mínir ættu séns en fyrir utan skólann stóð nemandi með tvo risastóra glæra poka, fulla af sígarettustubbum og sígarettupökkum. Ég reikna með að eldri nemendur hafi ekið einn hring um plássið og losað úti-öskubakka og jafnvel rótað í ruslatunnum bæjarins. Þeir nemendur hafa ábyggilega einir náð douze points í stubbaþrautinni.

Næsta ár liggur beint fyrir að safna tyggjóklessum, ef nota á nemendur sem þrifnaðarafl stofnunarinnar. Sennilega er betra að vigta afraksturinn en telja hverja klessu fyrir sig. Klárir nemendur myndu fara yfir alla rusladalla skólans og tína upp nikótínklessurnar út úr kennurum sínum, sem verður orðið svo harð-, harðbannað að reykja nema hinum megin við götuna. Einnota plasthanskar dygðu til að slá á raddir um slef út út öðrum, alveg eins og núna.

Muldrandi fyrir munni mér: “Aldrei meir … aldrei meir” fór ég heim og fór að undirbúa kennslu og nám sem fer ekki fram með fíflagangi.

Pirringur

Ég var últra-geðvond í gær út af ýmsu í umhverfi mínu sem ég fæ vitaskuld ekki breytt. (Að sjálfsögðu á þessi yfirlýsing ekki við nemendur – mér leið skást inni hjá þeim.) Það sem pirrar mig mest hefur verið lengi til staðar en yfirleitt tekst mér að líta fram hjá því, hugsa með vorkunn eða færa mig annað. Þarna er gott að hanga á Al-anon frasanum “Live and Let Live”.

Svo er Skammhlaup á morgun, sem þýðir að allur skólinn keppir í öllu mögulegu.  Þetta fyrirbæri var fundið upp af íþróttakennara (en ekki hvað!) og mér finnst drepleiðinlegt að taka þátt í því.  Mætti þó hugga sig við að ég fæ að gera “íslenskuþraut” (sem verður að vera lauflétt og löðurmannleg) en er ekki send ár eftir ár til að meta Limbó eða kaðlaklifur í íþróttahúsinu! Eins og svo margt annað er þetta Skammhlaup komið til að vera og dæmi um það sem ég fæ ekki breytt; Ætti þ.a.l. að sætta mig við það.

Svona raðast upp æðruleysisæfingar allt í kringum mann, óumbeðnar.

Tilkynningarskyldan

Var að vakna … eftir þriggja tíma bjútíblund => er nokkuð normul í augnablikinu.  Það gekk allt á afturfótunum hjá mér í morgun, í Eglu, því ég mismælti mig þvers og kruss í Vínheiðarorustupakkanum! Var þó útsofin en blessuð börnin bentu mér á að nú segði ég Aðalsteinn Skotakonungur og gott ef ég var ekki komin með Ólaf Englandskonung … maður þakkar fyrir að hafa drepið réttan mann (Þórólf) og leyft Agli að lifa.

Þetta er frekar fúlt þegar þess er gætt að ég ætti að kunna Eglu utanað. 

Annað sem ég þurfti að bardúsa hér heima og uppi í skóla gekk ljómandi vel.  Ég knúsaði nýja námsráðgjafar-nemann sem er Vala frænka úr nágrannabyggðinni.

Nú er að leggjast í sófa og lesa Sálfræðiritið (eða eitthvað svoleiðis) en megnið af því fjallar um þunglyndi frá öllum hliðum, endum og köntum. Ég er hins vegar bara búin að lesa fyrstu greinina sem fjallar um fólk sem nagar göt á sig sjálft.  Áhugavert!

Mamma ætlar að sofna / því mamma er svo þreytt …

Nú er ég búin að beita því læknisráði sem mér hefur reynst best hingað til; sofa, sofa og sofa alla helgina. Enda líður mér snöggtum skár. Gallinn við þetta ágæta ráð er að ég þarf að vinna á rúmhelgum dögum og get ekki unnið sofandi. (A.m.k. er ég hrædd um að það myndi fattast!)

Eitt sinn sagði minn ágæti læknir mér að í eldgamla daga hefðu menn stundum reynt að halda þunglyndissjúklingi vakandi  sólahringum saman uns hann svissaði yfir í maníu. Mér finnst þetta hafa verið vondir menn og dauðvorkenni sjúklingunum. Auk þess hef ég aldrei farið í maníu (því miður segja þeir sem hafa reynt á sínum kroppum og sál). Sonur minn útskýrði fyrir mér tengslin milli maníu-depressívu og vísitölunnar undanfarið.  Þetta virðist merkilega líkt, sett upp í graf.

Austfirska fjölskyldan leit hér við milli dúra húsfreyju.  Ég er sammála þér Einar að það er vart greinanlegur pólski hreimurinn í máli þeirra. Mér þótti agalega gaman að fá þessa heimsókn því ég sé Austfirðingana sjaldnast, af systkinasettinu.

Við svefngenglarnir (svefngangar vanans er nú voðalega slitin klisja!) gerum eðlilega fátt.  Má nefna að ég hunsa algerlega nafnleynda fundi mánuðum saman, núna.  Þó datt mér í hug að fólki héldi kannski að ég væri á sömu snúru og kunningi minn einn, sem hefur gefið út bók um sína snúru og verið duglegur að auglýsa bókina sína í fjölmiðlum. Þetta var hið besta mál því mér er einmitt umhugað um að vera ekki splæst við þá snúru og aldrei að vita nema þetta verði skúbbið sem kemur mér á nafnleynda oggukristilega samkomu.

Í tilefni þess er smábútur úr Haustvísunni, sem hvetur mann til að flýta sér að drífa af hlutina áður en það verður of seint. Nýuppgötvuð Zarah Leander flytur.

Brothættir tímar framundan

eða á ég að segja “brothætt lífsleiðin framundan” þar sem tímar geta augljóslega ekki verið brothættir … hitt er bara svo helv. hátíðlegt.

Ég meldaði mig veika á föstudag og lagðist í maraþon-svefn. Blíðlega sagði ég sjálfri mér að þetta væru eftirstöðvar af flensusprautu fyrr í vikunni. Kalt raunsætt mat ber á móti og segir algera dellu. Svo reikna ég með að einhvers staðar sé fólk sem finnist að þessir kennaraaumingjar geti sko vel mætt meðan báðir fætur eru jafnlangir!

Minn krankleiki er ekki í fótum heldur höfði. Enda á ég ekki hvítar sokkabuxur heldur nokkra hatta.

Ég gafst upp á svefni kl. 4.15 í morgun. Það var sosum ekkert alslæmt því ég er þá búin að klára ritgerðahauginn, lokins, fyrir 7 í morgun!  Þetta athæfi gerir mig að hinum fullkomna kennara, sem fer yfir verkefnin á nóttunni.

Ég sleppti bíóferð með fjölskyldunni á föstudagskvöld og sleppti fjölskyldu-flatböku-orgíu í gær. Mér þótti það mjög leiðinlegt, sérstaklega að missa af austfirsku systurinni. En málið var að öll einkennin virtust vera að leggjast á mig (hér væri betra að segja að allar sorgirnar væru að leggjast á mig, þungar sem blý!) og því tók ég ekki sénsinn á að fara til þurrabúðar og umgangast fólk.

Vonandi gengur þetta nett yfir, eins og hver önnur pest, en endar ekki í Helvítisgjánni eins og svo oft áður. Vingjarnlegar leiðbeiningar eru afþakkaðar: Ég kann öll þessi ráð, frá “fara út að hreyfa sig soldið” upp í “sjósund er allra meina bót”. Af minni reynslu er aukasæng skásta ráðið og taka klukkutíma í einu. Verst að ég get ekki notað nema hálft ráðið, í vinnunni. 

Týnda barnið

Meðan ég las gegnum Konuna í köflótta stólnum var mér hugsað til þess hvað gæti átt við mig og hvað ekki.  Mjög margt átti við, t.d. svissið úr klassískum verkum í popplög, þess vegna ABBA. Báðar hafa þessar konur, sú í stólnum og ég, prófað aðferðina “drekkja sorgum sínum”, árangurslaust. (Ath. að þetta er bara aðferð en af því sorgirnar geta synt þá skilar hún aldrei neinum árangri.) En þar sem mér fannst Konan í köflótta stólnum vera tímamótaverk fyrir 10 árum þá fannst mér hún nú vera gömul klisja, að vísu ágætlega stíluð klisja en klisja samt.

Ég gat engan veginn samsamað mig því uppátæki konunnar að láta sjá fyrir mér í áratug meðan ég eyddi öllum eigin launum í sálkönnun. Léti ég sjá svona fyrir mér tæki ég jafnframt upp búrku, af skömm. Auðvitað veit ég í stórum dráttum út á hvað svona sálkönnun gengur, las að mig minnir ævisögu sálkönnuðar konunnar um sömu jól og við sem höfum gengið gegnum barnabókmenntakúrs í HÍ erum nokk verseruð í Freud! (Aftur á móti lærir maður voðalega lítið um börn eða þeirra uppáhaldsbækur í svona kúrsi.  Svoleiðis lærist líka best “hands on”!)

Mestan part virtist meðferðin byggjast á einhverju svipuðu og spor AA (mínus kristilegheit) og svolítið að greina líf konunnar í tímabil, kölluð fasar, sem minntu soldið á gamla trú á tunglið og tíðir og þess háttar. Til að enda þessa umfjöllun um konuna í köflótta stólnum staðhæfi ég að hún hefði verið nokk betur sett inni á geðdeild prufandi þríhyrningslyf og talandi við einhvern með fætur á jörðu, sem ekki vökvar blómin í geðlæknistímanum.

Þessi bók kom að góðum notum fyrir mig því ég fór að hugsa og rifja upp og reyna að muna hvenær ég hefði orðið ga-ga. Mjög lengi hélt ég að sjúkdómurinn hefði vaknað þegar við fluttum suður og ég var 11 ára. Það er erfitt að flytja að norðan út af minnimáttarkennd Sunnlendinga þegar kemur að framburði og hreim. En ég held að það sé ekki einn sérstakur trigger (enda hef ég ekki trú á að sjálfið mitt hafi “brotnað sundur” á tilteknum tímapunkti … og ég svo keyrt á  undirvitund og yfirsjálfi það sem eftir var). Sennilega er myndin til hægri tekin haustið 1970 og ég dauðvorkenni stúlkubarninu að þurfa að ganga með hallæristíkarspena sem gerðu útstæðu eyrun enn útstæðari og hárið er svo þunnt og læpulegt að annað hvort er það aldrei þvegið eða stúlkan þjáist af næringarskorti. Á hún ennþá bara eina peysu?

Ég held hins vegar að ég hafi verið orðin talsvert veik 10 – 11 ára gömul.  Ég var einræn, vildi helst sitja útí horni og lesa og loka heiminn þannig af.  Það hefði sjálfsagt virkað ef barnungir foreldrar mínir hefðu ekki haft þá skoðun að lestur væri óholl iðja í óhófi.  Af þessu lærði ég að fela bækur (hafði lykil að lestrarfélaginu fyrir norðan og las nánast allar bækurnar í því) og vissi um leið og ég heyrði klisjuna “Börn barna eru gæfubörn” (Organistinn í Atómstöðinni) að þessi klisja væri algert kjaftæði og í rauninni  ranghermi!

Ég man eftir ofboðslegum kvíðaköstum sem voru afgreidd með “krakkinn er myrkfælinn”!  Enda satt að ég var skelfingu lostin af tilhugsuninni um Grýlu og íslenskar þjóðsögur þaðan í frá! Ég man eftir að hafa legið í rúminu fast upp við vegginn og að hafa átt í mestu vandræðum með að ná andanum – hjartað komið upp kok.

Einhvern tíma leit á mig læknir, á Raufarhöfn.  Ég hugsa að ég hafi verið svona 6 – 7 ára gömul. Þá hætti mér til að fá mikla verki í brjósthol sem leiddu niður í handlegg. Þessi læknir var ein af miðaldra fyllibyttunum sem voru sendar þarna norður í sukkið (síldar- eða síldarleysis). Þarna fyrir norðan var þessi læknisýpa alltaf afsökuð með því að þeir væru a.m.k. góðir handverksmenn þótt þeir væru ansi oft fullir. Þessi læknir greindi mig móðursjúka og gott ef ég átti ekki að taka lýsi. Hann hlustaði þó eftir hvort ég væri hjartveik og ég tel honum það til tekna.

Núna, búin að vera fullorðin og geðveik í áratug sé ég í hendi mér að þessi “millirifjagigt”, hjartsláttur og andnauð voru algengustu birtingarform kvíða. Það sem hefði gert mér gott var ummönnun  og  samúð – ekki norðurþingeysk prótótýpa af “uppeldi”, svo ekki sé minnst á almennilegan lækni sem héngi ekki á hnefanum milli túra.

Ég veit að ég fór í fyrsta sinn á ævinni til tannlæknis hér á Akranesi. Sjálfsagt hefur það verið tengt flutningunum suður. Ég man að ég fór til hans nokkra daga í röð – veit að gert var við fælu af tönnum og skemmdar tennur rifnar úr. En þessi dvöl hjá tannlækninum er í algeru blakkát!  Hvernig má annað vera?  Hann var frægur fyrir fantatök. Alla ævi hef ég verið skíthrædd við tannlækna, lyktin á stofunni er nóg til að skelfingin geri var við sig. Hins vegar hef haft ég príma tannlækni árum saman sem er svo elskulegur að deyfa mig upp að augum áður en hann svo mikið sem skoðar tennurnar ; )

Ég get auðvitað haldið áfram og áfram … um svefnsýkina sem greip mig 13 ára og félagsfælnina upp úr því og alltaf hreint sambúðina við helv. kvíðann, uns ég fattaði að hann mætti deyfa með brennivíni og svo öll sú sorgarsaga upp úr því.

Nei, það sem ég er að velta fyrir mér er hvort ættgengur kvíði (jafnvel þunglyndi líka) geti gert vart við sig mjög snemma á barnsaldri. Og ef svo er hvernig má lækna / laga hann? Ég staðhæfi að lestur Mjallhvítar eða Gilitruttar eða einhvers annars ævintýris hefði ekki virkað hætis hót til lækningar, hvað sem Bettelheim segir og snýtir út úr Freud.

Það sem ég ætla að gera er að nýta mér trikk úr FBA (Fullorðin börn alkóhólista) og reyna að hugga stelpuna hér að ofan.  Taka utan um hana í huganum, losa um ömurlega tíkarspenana og vera virkilega virkilega góð við hana. Kannski verður hún líkari stúlkunni sem var, þessari 7 ára á myndinni hér til hliðar (sem gat spilað sig fríska). Kannski getum við sameinast, týnda barnið og ég, báðum til hagsbótar.

HARPA: 1, MÚS: 0

Það fór þó aldrei svo að við hjónin lytum í lægra haldi fyrir músarkvikindi! Nei, maðurinn beitti súkkulaðirúsínunum sínum (takk fyrir tipsið, Sóley!) og það gerði gæfumuninn.  Ég hugsa að Samúel Örn, minn gamli bekkjarbróðir, hefði sagt að nú hefði músin mátt lúta í gras fyrir íbúum þessa heimilis!

Eftir langar og gáfulegar samræður við tengdamömmu um hvort músin gæti hafa verið svart-rottu-ungi (eiginlega örugglega ekki) eða ætti sér hreiður og unga bak við fataskápinn minn (ég harðneitaði að fara út í ruslatunnu til að tékka mjólk í spenum á músarlíkinu) og vísindalega leit á Vefnum hef ég greint kvikindið sem mus musculus, reyndar áreiðanlega kvenkyns því hún var svo hrikalega gáfuð og smart í að forðast gildrur. Og ég var aðeins farin að venjast henni og hætt að reka upp kóngulóaröskrið í hvert sinn sem ég sá hana bruna hér milli herbergja. (Litla myndin krækir í stærri mynd.)

Á Vísindavefnum má lesa um hversu vel af guði gerðar svona húsamýs eru. Sjá “Húsamús getur stokkið um 30 cm. Hún getur hlaupið níu metra upp vegg og stokkið niður 2,4 metra án þess að meiða sig.”  Vá! Vala Flosa og Þórey Edda eru núll og nix miðað við músina okkar sálugu.  Ég er samt voðalega fegin að hafa ekki haft þessar upplýsingar um stökkfimi músarinnar fyrr en eftir að hún var dauð því sennilega eru u.þ.b. 30 cm frá gólfi upp í hjónarúm og dýrið hafði tekið sér bólfestu í svefnherberginu okkar.

Eftir að hafa myndskreytt undanfarið með þægum, prúðum og búttuðum yngri systkinum sýni ég mína stöðu í þessum pissudúkkufansi:


Myndin er tekin í apríl 1970. (Og enn er það Steina að þakka að ég get tínt þessar myndir eins og ber …)

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því að það er tært brjálæði að henda sínum krökkum út í stuttbuxum í apríl í Kelduhverfi! Sérstaklega börnum án fitulags!

Mér hefur sjálfsagt verið sett fyrir að passa yngri systurnar (Oj!) því ég sé ekki aðra skynsamlega ástæðu fyrir því að ég sé með þeim á mynd. Sjálf horfi ég dreymandi oní ána (held að myndin sé tekin á brúnni yfir Litlá, það myndi líka skýra vaðstígvélin sem ég er í), sem kann að stafa af því að ég sá hvort sem er ekki neitt.  Sjónin versnaði hratt á þessum árum, augnlæknar lágu ekki á lausu lengst norður í rassgati, og ég ólst því upp í umhverfi sem leit út eins og Gaussian-blur filter hefði verið lagður yfir allt og alla. En kannski er draumkenndur svipurinn af því ég sé að velta fyrir mér að henda annarri hvorri systurinni í ána … svona til að heyra öskrin?

Tímavarpan, myndir og hljóð

Undanfarnir 3 sólarhringar hafa verið um einn mánuð að líða. Þetta er sjúkdómseinkenni (nokkurs konar “pas på” áminning til bloggynju) en þarf ekki að leiða til neins slæms, sérstaklega ekki núna því miðannarfríið er í næstu viku. Á morgun fæ ég 55 ritgerðir. Ég sé til með líðan, ástand og heilsu og met hvort borgar sig að nýta fríið í rauða skrift eða pakka þeim upp í hillu og nota síðan hugræna atferlismeðferð til að gleyma því að þessar ritgerðir séu til.

Til hliðar má sjá Rögnu og ráðuneytismanninn.

Í svona tímavörpun kemur maður engu í verk.  Ég ætlaði að mæta á prjónasvall með edrú-vinkonu minni í kvöld en nenni ómögulega út úr húsi (og úr náttbuxum ef út í það er farið …) Prjónasvallið er á Skrúðgarðinum, sem er huggulegt kaffihús og krá. Oftast er fólk í kaffinu enda fjöldamargar sortir til af því! Í kvöld kemur hönnuður og kynnir verk sín og bók sem hún er að gefa út. Sem betur fer benti ég einum hópnum mínum á að mæta þarna í kvöld og yrði ekki hissa þótt nokkrir gerðu það.  Þetta er byggt á eigin reynslu að hafa prjónað mig gegnum menntaskóla (enda óhugnalega leiðinlegir kennarar inn á milli) og sagði ég litlu ungunum mínum að prjón og litabók væri betra en tölvuleikir, í íslenskutímum. Sagði svo festulega við einn nemandann: “X minn, viltu taka puttana svo ég klemmi þig ekki” og lokaði enn festulegar tölvunni hans og hef eflaust rústað hraðkeyrsluleiknum sem hann var í. (Ragna systir var aftur á móti alltaf soooo þæg!)

Hingað inn er flutt lítil dökk mús. Við greindum hana sem húsamús en hún hefur einstaka sinnum þotið yfir gólfið og skrensað á bóninu fyrir horn.  Atli bjó til huggulega föndraða músagildru (fötu-trikkið, án vatns því hann er svo mikill dýravinur). Músin okkar var alltof heimsk til að geta gengið í gildruna.  Þá föndruðum við alls konar stiga og klifurbrautir handa músinni en árangurinn var enginn. Kannski vildi músin ekki sterklyktandi eðalostinn mannsins?

Við teljum okkur vita hvar músin hefur sest að: Inni í lagnastokkum í svefnherberginu okkar. En maðurinn kom færandi hendi úr þurrabúðinni áðan, þ.á.m. með einhvers konar gildru sem algerlega vangefnar mýs geta gengið í. Ef þetta virkar ekki fæ ég lánaðan kött hjá nágrönnunum!

Annað er sosum ekki títt nema ég ætla að lesa Konuna í köflótta stólnum í kvöld – tíu ár síðan ég las hana síðast – og fá lánaða Truntusól á bæjarbókasafninu fyrir helgi – eflaust 20 ár síðan ég las hana”. Það verður ósköp slakandi að lesa ekki um morð og mannvíg, eins og venjulega.

Myndskreytingar við þessa færslu eru aðallega af Rögnu, sem var óskaplega fallegt barn og undi sæl sín fyrstu þrjú ár í föðurgarði … þangað til “Þið voruð þrjár þessar systur / og þú varst sú í miðið …” varð að veruleika. (Úr ljóði eftir Davíð Stefánsson, sem ég held ekki að hafi verið ga ga á neinn hátt en hins vegar sennilega gei og hefur þ.a.l. aldrei fengið viðurnefnið “Meistari”.)

Ég vil þó taka fram að Ragna er ekki þessi með byssuna. 

Má ekki vera að því að skrifa um hljóðið en það var uppgötvun á söngkonu, Zarah Leander.  Hlustið á hana syngja Ave Maria.

Auðn og tóm í miðju einskisins

(Steinn Steinarr vildi nú meina að auðnin og tómið væru bak við þá grímu sem þú berð … þetta er ansi svartsýnn partur af “Það bjargast ekki neitt, það ferst, það ferst …”  Ég er of frísk til að fíla Stein almennilega!)

Nema ég skrapp í bankann á Neðri-Skaga og fékk útskýrt hvað er nokk sikkert og hvað er ansi óstabílt og hvernig hægt er að spá á þessari stundu. Elsku maðurinn var búinn að fara með svipaðar þulur svo ég gat aktað hæfilega gáfulega. (Dæmi: “Áttu þá við að 62% af þessum sjóði, sem er 71% af heildinni, muni sennilega bjargast?”) Í tilefni þess hve ánægð ég er með mig er hér til vinstri mynd af stærðfræðingi familíunnar. Er ekki örgrannt um að brosmilt barnið sé feitt, eða hvað finnst glöggum lesendum?

Svo lagði ég í gönguna miklu – upp í nýja miðbæinn (sem helgast af Bónusi) og tókst að finna gangstéttir næstum alla leið. Þegar ég nálgaðist Apótek Vesturlands og gekk fram hjá heilu hverfunum af næstum-því-tilbúnum-húsum og fyrirtækjum sem glömpuðu í sólinni rann allt í einu upp fyrir mér að þarna var dauðaþögn! Ekki eitt hamarshögg!  Ekki einu sinni krúnk í hrafni! Bílastæðin auð svo langt sem augað eygði. Mér leið soldið eins og á Hornströndum.

En lyfin mín fékk ég, á ágætis prís miðað við kílóverð reikna ég með. Svo ekki fer ég að leggjast í sorg og sút yfir efnahagsmálum í augnablikinu. (Einum sjóðnum, sem ég hafði núllað fyrir mér, hafði nú verið bjargað að verulegu leyti svo gleðjast má yfir því.) Almennt og yfirleitt hef ég ekki hugsað mér að láta undan sútinni þegar hún bankar á hjartað. Almennt og yfirleitt er það gert með því að sofa eins og ungabarn / gamalmenni um miðjan daginn.  

Barninu hér til hliðar var gjörspillt frá blautu barnsbeini. Það að fæðast strákur í fjölskyldu með þremur eldri systrum er ávísun á (þvingaða) þátttöku í dúkkuleikjum og fleira sissí stússi. Mesta furða hvað varð úr’onum 🙂

Hver er?