Category Archives: Uncategorized

Notalegt á Skaganum og smávegis um ritunarkennslu

Veðrið er aldrei þessu vant dýrvitlaust, hér á okkar góða Skaga. Venjulega eru hryðjurnar báðum megin við okkur, undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi; hins vegar logn á Skaganum. Svo er ekki nú. Mér finnst samt ósköp notalegt að sjá varla út vegna seltu á rúðunum og heyra rigninguna belja á húsinu í hryðjum.  Þá er nefnilega svo kósí að kúra sig inni 🙂

Að vísu bíður mín það leiðindaverk að fara yfir 29 ritgerðir um Hávamál*.  Ekki samt að ég haldi ekki að þær séu góðar – ég gæti meira að segja ímyndað mér að sumar væru skemmtilegar einnig. Þetta liggur í mér sjálfri, þ.e.a.s. að eftir 20 ár í kennslu hef ég ímugust á ritgerðum en hef sömuleiðis sannfærst um að það er ekki hægt að kenna fólki að skrifa nema láta það skrifa. Learning by doing!  Kjaftæðiskenningar sem ganga út á að fólk geti lært að skrifa ritgerð með því að “hanna ritgerð” niður í smæstu atriði, í einhvers konar grind eða fiskmynd (fiskinn tel ég sýna kristilegan áróður sem læðst hefur inn í móðurmálarafræði) … sem sagt er akkúrat ekkert gagn að þessu nema fólk skrifi. Af því ég vil kenna fólki að skrifa með því að skrifa stend ég fyrir dagbóka-handskrifum, mjög misjafnlega þokkuðum meðal dagbókarskrifenda, og gamaldags ritgerðum. Þetta minnir mig á að koma því að að leikni nemenda í handskrift verður minni með hverju árinu. Það veitir sko ekki af að einn kennari og eitt fag andæfi og banni tölvur til dagbókaskrifa!

* Ég ætti að fá tíu ritgerðir í viðbót frá mínum góðu fjarnemendum, um helgina. Gaman!

Það sem tálmar yfirferð einna mest í kvöld er reyfari eftir Läckberg, Ulykkesfuglen heitir sá og er fjórða bók höfundar. (Eftir að hafa klárað Steinsmiðinn, þriðju bókina, gat ég varla beðið eftir þeirri fjórðu! Sem betur fer átti maðurinn leið í Arnold Busck í Köben og var með sérfræðilegan minnislista með sér og hringdi að auki heim – í sérfræðinginn – og kom svo færandi hendi með bókargjöf handa sinni konu!)

Ég gæti náttúrlega talið mér trú um að þar sem mig vanti ábyggilega 2 – 3 ritgerðir sé ekki hægt að byrja yfirferð fyrr en allt sé komið í hús, til að verja sig fyrir ólöglegum afritum og tvíritum …

Hringsól, hraðall og endurtekningar

Ég er alltaf jafn ofurlítið hissa á hvernig allt endurtekur sig,  gott ef allt streymir ekki? og þá væntanlega í hring, eins og niðurfall í vaski. (Sem minnir mig á ógislega fyndinn Simpson þátt hvar Bart hringdi til Ástralíu til að komast að því í hvaða átt sturtið í klósettinu rynni … en ekki meir um það …)

Tökum dæmi af yfirvofandi heimsendi sem krakkarnir mínir voru svolítið áhyggjufullir yfir (sumir) í síðustu viku.  Ég huggaði margan nemandann með því að til væru nákvæmar uppskriftir af heimsendi í flestum trúarbrögðum og að þær tvær uppskriftir sem ég kannaðist við væru ekki framkomnar og þ.a.l. enginn heimsendi í sjónmáli. Svo ætla ég rétt að vona að blessuð börnin hræddu hafi tekið mark á kennaranum sínum!

Ég hafði enda séð í hendi mér að ef hættan væri mikil hefðu hinir ágætu bæjarstjórnendur hér lánað Akraneshöllina (feikilegt gímald og ljótt eftir því) undir svall og stóðlífi þessa síðustu nótt lífsins alveg eins og Hitaveitutankurinn við Hlemm var brúkaður 1927. Hinir ágætu bæjarstjórnendur hafa hins vegar haft nóg að gera við áhyggjum og ramakveini út af gengi ÍA-liðsins.  Ég veit ekki einu sinni hvort er hægt að kalla þetta “gengi”; hvort ekki verður að svissa yfir í “fallbraut”, eða jafnvel “hvínandi fallbraut”! Þetta er náttúrlega agalegt! (Hef engan áhuga á fótbolta en þegar staðan er þessi stöndum við Skagamenn saman!)

Góðu fréttirnar eru náttúrlega að hægt er að veifa sjálfsmörkum og markaleysi liðsins framan í manninn og rökstyðja þar með að sjóböð geri ekki gagn úr því að böð í ísköldu vatni í fiskikörum – íbætt ísmolum til hátíðabrigða – virka akkúrat ekki neitt!

Í gær átti ég afmæli. (Ég er samt í biðröð með afmæliskringlu á vinnustað því blóminn af kennaraliðinu á afmæli um þessar mundir.  Mér hefur verið úthlutað miðvikudegi.) Hingað kom fólk með blóm og gúmmelaði og við áttum óskup huggulegan afmælissunnudag. Maðurinn hefur aukinheldur fundið það út að áhrif hraðalsins í Sviss hafi einkum verið þau að nú líði afmælisdagar aftur á bak. Maðurinn telur sumsé að ég hafi yngst um eitt ár í gær. Þetta er gott ef satt er. Aftur á móti held ég að maðurinn sé í afneitun. En eftir að hafa LESIÐ í Fréttablaðinu að maðurinn sé gáfaður trúi ég því enda alin upp við að það sem er skjalfest – það blívur.

Í skólanum í skólanum er …

ekki alltaf jafn skemmtilegt að vera!  A.m.k. ef mar sé kennari (hér sýni ég leikni mína í málsniði blessaðra unganna). Ég hef hugsað mér að koma nokkuð inn á vinnuna mína í þessari færslu og beini til móðursjúkra baddnlendinga að stoppa lestur hér svo þær fái ekki flog.

Í það heila er ég með fína krakka. Ég get sosum skilið að innanlandspólitík í Noregi um 850 – 60 er ekki mjög heillandi viðfangsefni. Sem betur fer er alltaf sami gaurinn hafður vondi kallinn í mörgum Íslendingasögum (sem er kóngurinn Haraldur lúfa/hárfagra). Þannig að setningin “Við erum stödd í Noregi um 850/60, jafnvel 880, gerir sig vel í öllum áföngum, enda höfum við vísu kennararnir troðið Íslendingasögum í þá alla. Ég get samt skilið að þotuliðið í Laxdælu heillar ekki jafn mikið og Amy Winehouse eða sú fagra Britney Spears, sem er tvímælalaust kvenna vænst um þessar mundir.  Svo er ég svo lukkuleg að kenn enn einn ganginn hina ágætu hryllingssögu Börnin í Húmdölum, með kennsluaðferðinni “kennarinn les fyrir bekkinn”, sem allir eru hæst ánægðir með.

Inn á milli, í nýnemahópum, verð ég áþreifanlega vör við stelpu-stjan grunnskólans. Ég reikna með að þetta eigi við flesta grunnskóla, þ.e.a.s. á unglingastiginu er sætum, penum, kvenlegum stúlkukindum hyglað á kostnað strákanna, sem eru taldir óalandi og óferjandi af litlum sökum (akkúrat hérna tala ég af reynslu, hef reyndar átt syni í báðum grunnskólum bæjarins og sé ekki mun á þeim). Skilningsríkir femíniskir grunnskólakennarar gera meira ógagn en gagn. Svo ég ýki nú þá er árangurinn sá að meðal fyrsta árs strákur hefur það á tilfinningunni að hann sé glæpon en meðal fyrsta árs stelpa telur að hún sé nafli alheimsins. Þessir hópar ganga náttúrlega ferlega illa saman!

Ég hef, ásamt mörgum öðrum kennurum, ákveðið að láta þessa félagsmótun grunnskólans sem vind um eyru þjóta.  Mér er slétt sama hvort sextán ára fegurðardís mæti með þrjú eða fimm lög af maskara í tíma til mín: Þangað komin á hún að læra og innifalið í því er að læra að allir nemendur eiga jafnan rétt á tíma og athygli kennarans. Maskarann lít ég ekki á!

Mér er ljóst að grunnskólakennarar eru njörvaðir niður í sínu starfsumhverfi* enda má bókstaflega ekki blaka við nemendum án þess að fá foreldrasettið yfir sig. En þegar ég fæ nemendur sem voru kerfisbundið reknir út úr kennslustundum á morgnana og látnir mæla gangana frá 7. bekk þá grunar mig að lært hjálparleysi grunnskólakennara sé fullmikið.

* Um þetta hefur elskulegur eiginmaður minn skrifað langar og lærðar greinar, sjá bloggið hans.

Jæja, þá er ég búin að koma pirringnum út í bili 🙂   

—-

Út í búð áðan sá ég eina af þessum slæðukonum sem ónefndur Skagamaður kallaði í fjölmiðlum “blæjukeddlíngar með barnavagna”. (Ónefndi Skagamaðurinn er víst búinn að skrifa 400 síðna bók um efnið sem kemur út fyrir jólin … verður spennandi að sjá hvernig hann útfærir hugmyndir sínar um flóttamenn og Ísland.) Þessi fíngerða slæðukona var með slæðu í stíl við buxurnar, í gylltum sjatteríngum, og alveg hreint bráðmyndarleg.(Talsvert myndarlegri en ónefndur Skagamaður verð ég að segja!)   Tvo krakkaskott fylgdu henni eftir um búðina og augljóslega var þarna íslensk kona stuðningsaðili.

Í Mogganum í morgun var fjallað um flóttamennina okkar og ég var stolt yfir að vera Akurnesingur og að bærinn minn fengi að taka á móti þessu fólki. Að vísu fór aðeins um mig, af ástæðum sem ég læt ekki uppi á opinberu bloggi, en sjálfsagt þarf ekki að hafa áhyggjur af því með svona fjölmennt stuðningsapparat í kringum þetta.

Ég er soldið að spá í að ganga með slæðu … þetta virðist geta verið ljómandi klæðilegt og þá þarf kona aldrei framar að hafa áhyggjur af útstæðum eyrum eða einum-og-hálfum hvirfli.

Ekki hætt

Ég er alls ekki hætt að blogga en hef haft ansi mikið umleikis upp á síðkastið og þá er ég of tóm í hausnum til að blogga.

Andleg vakning um beini!

Þegar ég vaknaði af bjútíblundi föstudagsins brá svo við að heimilið var sambandslaust við umheiminn (nema gegnum síma og bréfdúfur – hugsanlega). Ég hringdi í bilanaþjónustu símnets og talaði lengi við agalega huggulegan strák, sem reyndi að leiðbeina mér í að fixa samstarf routers og símalínu. Þegar pilturinn komst að því að ég væri íslenskukennari skipti hann yfir í orðið “beinir” og á tímabili spjölluðum við þannig að hann sagði beinir og ég sagði router … Svo dáðist hann að fornminjum sem ég gat boðið upp á, þ.e.a.s. Netscape.

Ekki gekk þetta hjá okkur og þegar maðurinn kom niður af fjallinu (hann var að leysa íþróttakennara útivistarhóps af) gekk hann blautur og hrakinn í að fixa nettenginguna. Hann talaði við konu og ég held að þeirra samtal hafi verið mun lengra en mitt og piltsins, árangurinn aftur á móti hinn sami og lauk með því að þau, maðurinn og símastúlkan, gáfu út dánarvottorð beinisins /routersins.

Ég sat döpur í dyngju minni, búin að fatta að ég hafði reist mér hurðarás um öxl í vinnunni og netleysið minnti enn betur á að ég myndi sligast eða eitthvað slæmt! Auk þess gat ég ekki unnið í hobbíinu mínu því þá þarf ég að vera tengd amrískri tölvu.

Hvað gera konur þá? Þær taka hálfa svefntöflu og fara að sofa klukkan 21!

Eftir vöknun II í morgun frétti ég að allur Skaginn hefði verið meira og minna sambandslaus í gær svoleiðis að meint andlát routersins var bara firra og vandræðin öll Símans-megin. Þá sá ég náttúrlega í hendi mér að þetta sambandsleysi var leið æðri máttar til að benda enn frekar á hurðarásinn og öxlina! Eftir að hafa fengið þessa andlegu bendingu er tvennt kristaltært:

a) ég kem af mér hurðarásnum með einhverjum leiðum;

b) ég fer í æðruleysismessu annað kvöld!

Blogg á símaskjá

Blessaðir ungarnir mínir hafa aðeins fattað upp á að lesa bloggið mitt í kennslustund, í gegnum farsíma. Ég er annars vegar standandi bit á tækninni, sem einnig má nota til góðs því annar nemandi las Hávamál Netútgáfunnar meðan ég tætti yfir einstakar vísur – hins vegar er náttúrlega bannað að vera með rafræna smádótið í kennslustundum … Mig langar ekki í svona síma því ég hef verið fjötruð fjöðrum Netsins í óhófi … í denn. En mér þykir svona nett símagræja ólíkt huggulegri og tvímælalaust kvenlegri en fartölva!

Mín elskanlegu spurðu út í vandræði sem þau höfðu heyrt að ég hefði lent í og af því þetta eru nú svo skemmtilegir og húmorískir krakkar sagði ég þeim söguna af blaðadrengnum og  rassálfabombunni baddnalandsins* og brúkaði svo hótanir sjávarþörunga til að kenna börnunum að ekki er allt sem sýnist þarna úti og gott að brynja sig fyrirfram fyrir fólki sem ekki gengur heilt til skógar.

Svo undum við okkur í Laxdælu hvar fyrsta kynslóð söguhetja hrynur nú niður eins og flugur til að skapa rúm fyrir nýtt enn smartara sett. Hér kann að vera rétt að taka fram að ég brúka ekki sama málsnið inni í kennslustundum og á þessu bloggi.

*Hafandi ekki leitt hugann að kvennafansi þessa vefborðs í marga marga mánuði var ótrúlegt að fá annars vegar spurningu og rekast einnegin á tengil sem rekur heimsendaáróður sama spjallborðs. Ég nennti nú ekki að lesa langt í vísindapistlum notenda barnalands en í fljótheitum virtust þeir / þær reikna með heimsendi eftir 2 sólarhringa. Hér er samantekt á spjallþráðum barnlendinga.

Uppvakningur í bloggheimum

Ég hef tekið þrjár atrennur að þessari færslu en undanfarið hefur tölvuskömmin ákveðið að endurræsa sig í hvert sinn sem ég hef skrifað eina efnisgrein í bloggfærslu. Þar með er allt týnt og tapað í það sinnið. Elsku maðurinn féllst á að skoða tölvuskinnið og reyna að sjúkdómsgreina (stór hluti tölvukunnáttu minnar lenti í Óminninu mikla) – kom í ljós að sambúðarerfiðleikar tveggja vírusvarnarforrita höfðu ginnt notandann til að slökkva á eldvegg Windaugans og var nú leiðin greið fyrir alls kyns kvikindi sem ekki teljast veirur eða ormar. Ég ímynda mér að þetta séu stafrænar marflær, frænkur þeirra silfurskottur og ein og ein silaleg grápadda. Maðurinn lagðist yfir spyware og addaware og allskyns – ware forrit, gerði svo góð kaup og nú ætti að vera búið að kemba alla óværuna úr minni tölvu. Þessi færsla sem ég minntist á í upphafi er auðvitað næsta efnisgrein …

Ég hef sumsé horft sorgmædd á litla teljarann minn (neðst á hægri hliðarrein), sem sýnir hvað ég er orðin ofur-viðkvæmur bloggari. Það er af sem áður var, þegar tölur dagsins sýndu 200 – 250, og ég var viss um að þessir gestir læsu bloggið mitt en væru ekki smelli-smell-mogga-bloggara-vinir sem kíkja og smella umsvifalaust til baka.

Þegar maður (í þessu tilviki kona) hefur hætt bloggun með háværum yfirlýsingum og flugeldasýningu (vegna þess að þessi kona nennti ekki að eiga yfir höfði sér nagg og níð og jafnvel tillögur að sjálfsvígi, frá einhverjum farandi minnipokamönnum) … þegar þetta hefur verið haft svona til að halda friðinn, þá er doldið erfitt að byrja að blogga aftur. En hafi Blefken haft rétt fyrir sér um íslenskar afturbatapíkur þá get ég gerst afturbatabloggynja, risið úr öskustó, vaknað upp frá bloggdauðum o.s.fr.

Sumsé er ég blogg-uppvakningur frá og með nú. Sníkjubloggandi systkini eru boðin velkomin á bloggvöllinn!

P.s. Í lokin bendi ég á krækjuna sem ég setti í blogg Vilborgar, Líf í varurð. Þetta er blogg sem ég mæli mjög með og hef í rauninni alltof lítið lesið sjálf.

Stönníng

Vinkona mín og sessunautur sagði, með aðdáunarsvip: “You look more stunning every day!” – í morgun. Satt best að segja var ég frekar sammála henni þótt auðvitað hafi ég ekki getað tekið þessu hrósi nema af kvenlegu lítillæti … Frá því skóli hófst (afar nýverið) hef ég reynt að dressa mig upp svo ég standi ekki nýnemapíunum alltof langt að baki. Þetta kostar kannski ekki blóð, svita og tár, en kostar óþægileg föt og háa hæla öðru hvoru (ég er nú enn á 2 cm stiginu). Af reynslu veit ég að fljótlega upp úr næstu viku flyt ég bara í lopann og verð þjóðleg en kannski doldið minna stönning.

 Það gladdi mig mjög að Páll Ramses skyldi loksins komast heim til Íslands! Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn upp á Skaga; flest er það í óminninu nema eljan sem hann sýndi við trúboð: Pál langaði mjög til að ég skírðist í hvítasunnusöfnuðinn, enda prestur sjálfur. En þótt mér þyki gospel skemmtileg tónlist fannst mér full langt gengið að láta skírast (eru þetta ekki niðurdýfingarskírnir? Jafnvel sjóböð?). Mig minnir að Páll hafi tekið þessari þrjósku af fullkomnu æðruleysi.

Má ekki vera að meiru bloggi því nú á að leggjast í reitingar leggja (sbr. auglýsinguna gömlu: “Styggðu ekki steggina með loðnum leggjum!”) … ekki þó svo að skilja að ég ætli að fara að mæta í stuttkjólum í skólann …

P.s. Gleymdi að taka fram að börnin (mín) eru dásamleg!  Allir hópar líta mjög gáfulega út og hver og einn hefur pússað sinn geislabaug í sumar 😉  Viskum vona að ekki falli alltof fljótt á baugana skínandi!

Heilsufar, afbrigðilegar læknisaðferðir og dásamleg sundföt

Til að byrja með er rétt að væla yfir því að Statcounter-teljarinn minn á bloggsíðunni “dó”. Sá teljari hafði þann kost að sýna hvaðan lesendur komu; þótt ekki hafi sosum verið mikið að græða á IP-tölunum gáfu nöfn tölva eða netþjóna fínar vísbendingar um einstaka lesendur. Ég get sosum látið núverandi teljara (sem ég læt nú birtast) duga … þótt hann sýni sorglega fáa lesendur. En ég er náttúrlega uppvakningur í bloggheimum! Einnig reyndi ég að setja inn mynd af mér í prófíl, sem var ekki mál en reyndist ómögulegt að fá litlu myndina til að krækja í stærri. Ég sýni þá stærri útgáfuna hér og nú og málið er dautt!

Heilsufar mitt er með betra móti, finnst mér. Ég tók tímann í morgun og niðurstaðan er sú að frá vöknun og framundir klukkan 11 hríðskelf ég.  Ég hugsa að ég meiki að krota F og S í kladdann en ekki mikið meira en það. En í fyrra vatt ég mínu kvæði í kross, af sömu ástæðu, og gerðist heilmikill glærukennari, af því ég á svo erfitt með að skrifa á töfluna fyrri hluta dags. Mínum góða lækni fannst að ég væri farin að gadda óhóflega í mig pillum sem eitthvað virka á skjálfta og þ.a.l. væru þær hættar að virka á akkúrat hann. Ég ákvað að trappa mig niður á núllið og nota pillurnar eingöngu spari – svona tek ég mikið mark á mínum góða lækni 🙂

Maðurinn (minn) heldur hins vegar mjög á lofti sjósundi, sem allsherjar lækningu við hverslags kvilla. Ég veit samt ekki til þess að maðurinn hafi nokkurn tíma synt í sjó norðar en Miðjarðarhafið en vissulega er það rétt hjá honum að sumir brúki þessa aðferð, t.d. einhver Benedikt, kona í Stykkishólmi, Grettir Ásmundsson og fleiri. Miðað við þann síðastnefnda virðist sjósund ekki alltaf virka vel á geðveiki.

Ég harðneita að synda í sjó en labbaði Sandinn í dag og horfði á öldurnar … hafandi ekki hreyft mig lengi var þetta fínn skammtur af hreyfingu.  Mér til yndis og ánægju hitti ég gamlan uppáhaldsnemanda á Langasandi og var knúsuð og kysst á báðar kinnar 🙂 [Er búin að segja manninum frá því!]

Stúlkan hér til hliðar stundar greinilega sjósund og er óskaplega hraust að sjá. Þetta er mynd úr skóreimaalbúminu öðru, sjálfsagt tekin einhvers staðar í útlöndum fyrir fyrri heimstyrjöld. Kosturinn við þessa mynd er að henni má bjarga, þ.e. hún er í skárra ástandi en flestar hinar í albúminu. Gallinn er aftur á móti sá að sennilega veit enginn hver þetta er eða hvar stödd. (Ég veðja þó á Stavanger 🙂 Sundfötin eru æði!  Skjólgóð, víð og þægileg … ég gæti vel hugsað mér að spóka mig svona klædd á sólarströndu, jafnvel Langasandi þessa tvo daga á sumri sem gefast fyrir ekta strandlíf.

Enn einn pistillinn um tölvuáþjánina

Í gær voru hinir venjulegu maraþonfundir í annarbyrjun. Með annað eyrað stillt á mute gat ég rennt yfir og prentað út ýmist dót, s.s. kennsluáætlanir og það sem nota á í næstu viku. Á fundi 2, sem var í öðrum sal, sleppti ég tölvunni en er hreykin af því að hafa druslast með græjuna á fund 1.

Ég varð nefnilega fjúkandi vond á miðvikudaginn þegar ég var búin að sansa fælu af skjölum hér heima og ætlaði svo að prenta þau út gegnum fartölvu þá sem skólinn hefur skaffað. Tölvukvikindið var með alls konar uppástöndugheit og tölvunotandinn (ég) æ geðverri. Það var ekki fyrr en kerfisstjórinn (vinkona mín – sem ég þarf að biðja afsökunar á ónærgætnu orðavali um nýja innanhúskerfið) og maðurinn lögðust á eitt; þá fyrst tók fartölvan í mál að haga sér skikkanlega.

Ég er svo gersamlega búin að fá nóg af þessum fartölvudruslum. Fyrir það fyrsta er skjárinn yfirleitt það lélegur að myndvinnsla og vefsíðudúllerí er illmögulegt; svona álíka og þræða nál í myrkri ímynda ég mér. Í öðru lagi er ég ekki nógu sterk til að halda á fartölvu auk náms- og kennsluefnis og vatnskönnu í hvern tíma. Hér mætti nefna þau mótrök að úr því ég kenni alltaf í sömu stofunni þá gæti ég látið duga að burðast með tölvuna í fyrsta tíma og haft hana svo húkkaða við skjávarpa restina af kennsludeginum. (Ég veit að einhverjir kennarar hafa þetta svona.) Þá má reyndar spyrja á móti af hverju ein föst nettengd borðtölva sé ekki húkkuð á skjávarpatengið allan sólarhringinn …

Ég nota glærur talsvert þar sem það á við en ég ulla á glærusýningar! Yfirleitt verður að vera koldimmt í stofunni til að glærusýning geri sig. Bent hefur verið á að glærusýningar séu stórlega ofnotaðar og þegar nemendaskinnin eru farin að horfa á þetta 5 – 7 glærusjó daglega er nú gleðin yfir upplýsingatækni orðin heldur lítil.

Mér hefur gefist best að nota myndvarpa, svarthvítar glærur, prentaðar út og fjölfaldaðar handa nemendum og þá oft möguleikann 3 glærur per blað með línum fyrir glósur til hliðar.

Í rauninni mætti segja að fartölvan mín nýtist einungis til að færa inn fjarvistir einu sinni í viku (eftir útprentuðum kladda/ hópalistum); skoða tölvupóst;  sækja dót sem ég kem fyrir á netþjóni skólans og prenta það út. Svo sem bent hefur verið á er tölva fjandi dýr glósubók og í rauninni gæti ég pikkað inn fjarvistirnar og þetta dót hér heima en á hins vegar miklu lélegri prentara en skólinn, til að prenta út kladda vikunnar.

Flestir aðrir kennarar nota fartölvurnar sínar meira en ég enda er oft um að ræða einu tölvuna sem kennari á. Menn eru duglegir að senda smámyndir og brandara sín á milli, una sér á MSN-inu við spjall, tékka á íþróttasíðum innan lands og utan, lesa moggann og moggabloggin og barnaland og 69.is og margt fleira. Við fyrstu sýn virðast þessir kennarar lúsiðnir; alltaf í tölvunni sinni! Vinnutengd afköst þurfa samt ekki að vera mikil.

Nemendur eru nákvæmlega eins og ég reikna með að flestir kennarar hafi áttað sig á því að blessuð börnin sem drösla tölvubyrðinni í kennslustund eru hreint ekki að glósa það sem kennarinn segir – satt best að segja eru þau að reyna að útiloka kennsluna (stilla eyrun á mute, jafnvel gerast svo gróf að tengja sig við tölvuna með nettum eyrnafíkjum)! Nemendur róa á svipuð mið og kennararnir, helst að Myspace sé meira nemendamiðað og tölvuleikirnir flóknari.

Ég hef heyrt því fleygt að einhverjir kennarar séu farnir að banna nemendum að koma með fartölvurnar sínar í tíma.  Þetta er náttúrlega skynsamlegt ef kennararnir vilja endilega hafa fulla athygli nemenda. Einhverjir kennarar ganga nú ekki alveg svona langt en krefjast þess að nemendur hafi fartölvurnar lokaðar, sem gerir sama gagn. 

 Móðurleg sem ég nú er, í kennarahlutverkinu, hef ég einungis farið fram á það við mína elskanlegu nemendur að þeir leggi kapal eða spili kúluspil undir mínum fyrirlestrum – af eigin reynslu veit ég að auðvelt er að fylgjast með þótt verið sé í svona dútli. Nefni í forbífarten að ég vildi heldur sjá þá með litabók.

Ég veit að ég hef sagt  þetta allt áður …

Ég vil fá borðtölvu með góðum skjá til að vinna við í skólanum og myndi glöð afhenda fútsí-símensuna á móti. (Maðurinn sagði að ekki væri pláss fyrir borðtölvu í mínum vinnubás. Ég benti manninum á að hér höfum við heila tréiðnadeild sem kynni að fara með sög og svoleiðis og þetta yrði sjálfsagt ekki vandamál.)