Category Archives: Uncategorized

Fórnarlömb siðblindra: Konur

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er: http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.)

Fórnarlömb siðblindra: Konur, makar og börn

Ef við treystum niðurstöðum Roberts Hare o.fl. um að siðblindir séu um 1% fólks1 og gerum ráð fyrir að a.m.k. 5 manns tengist hverjum þeirra nánum böndum þá er augljóst að hver og einn siðblindur veldur miklum skaða. Seinna fjalla ég verður fjallað um siðblinda á ýmsum sviðum samfélagsins. En næstu færslur eru um áhrif siðblindra á þá sem standa þeim næst, þ.e. elskendur, maka, börn; byrjað á ástkonum. Almennt gildir að siðblindir reyna að ná algeru valdi yfir minni máttar.

Siðblindir leita sér ekki hjálpar af sjálfsdáðum enda sjá þeir ekki að neitt sé að sér. En innan velferðarkerfisins rekst fólk óbeint á hina siðblindu, gegnum alla þá sem siðblindir hafa áreitt og alla þá sem bera varanlegan skaða eftir þá reynslu.

Með því að þekkja einkenni siðblindu getur maður betur áttað sig á slíkum einstaklingum þegar maður hittir þá, til að geta vikið sér undan. Sé maður þegar fastur í vef hins siðblinda er tvennt sem kemur til greina: Að láta hart mæta hörðu við hinn siðblinda eða forða sér. Hvort tveggja tekur tíma, er erfitt, sársaukafullt og jafnvel hættulegt en borgar sig þegar til lengri tíma er litið.

Með aukinni þekkingu má vonast til að færri hafni í greipum siðblindra og að allir sem þegar eru fastir í heljargreipum þeirra geri sér það ljóst og sleppi.2
 

Konur

Hvernig konur höfða einkum til siðblindra og hvað ber að varast?

* Svo virðist sem siðblindir sækist fyrst og fremst eftir konum sem á einhvern hátt eiga undir högg að sækja, eru einmana eða veikar fyrir á einhvern hátt (t.d. andlega). Kaldlynd misnotkun hinna einmana er aðalsmerki siðblindra.3   Sjá Dæmi 1.

* Bent hefur verið á að þeir hafi óhugnalega gott auga fyrir konum sem eru móðurlegar í eðli sínu, þ.e.a.s. sem vilja hjálpa og aðstoða aðra af bestu getu. Margar slíkar konur vinna við umönnunarstörf, s.s. hjúkrun, félagsráðgjöf eða annars konar ráðgjöf – og hættir til að leita að góðmennsku í öðrum og yfirsjást eða draga úr um leið göllunum. „Hann á vissulega við vandamál að stríða en ég get hjálpað honum“ eða „Hann átti svo erfiða bernsku, allt sem hann þarfnast er einhver sem vill faðma hann“. Þessar konur munu líklega þola mikla misnotkun í þeirri staðföstu trú sinni að þær geti hjálpað; þær eru tilbúnar til að láta skilja sig eftir tilfinningalega, sálarlega og efnahagslega máttvana.4   Sjá Dæmi 2.

* Góðmennska fer í taugarnar á siðblindum og þeir reyna oft að nappa góðar konur.5

* Robert Hare vitnar í grein sem birtst í New Woman tímaritinu [bresku tímariti sem kemur ekki lengur út]  og hét „The Con Man’s New Victim“. Í greininni var bent á þann ófyrirséða möguleika að konur sem stæðu fjárhagslega á eigin fótum, sem er núorðið afar algengt, gætu orðið siðblindum að bráð þegar þær eru í leit að elskhuga. Siðblindir sitji um svoleiðis konur sem jafnframt eru á einhvern hátt viðkvæmar fyrir, á börum, í heilsurækt og í félagsstarfi. Þótt svindlarinn þekki konurnar auðveldlega úr í mannþrönginni, fellur hann sjálfur inn í hvaða hóp sem er. Benda má á að hann lítur oft vel út, er heillandi, málglaður, sjálfsöruggur, vill ráðskast með fólk og er vafalaust hægt að verða ástfangin af honum.6
Fyrir utan það að þekkja einkenni siðblindu og gæta sín á mönnum sem konur hitta augliti til auglitis borgar sig að hafa einnig eftirfarandi í huga:

Hannibal the cannibalSumir siðblindir, sérstaklega þeir sem sitja í fangelsi, notfæra sér einkamáladálka, segir Robert Hare.  Sjá Dæmi 3. Nú veit ég ekki hvað einkamáladálkar eru mikið notaðir nútildags en í staðinn hafa komið tölvusamskipti. Með Netinu hafa veiðilendur hinna siðblindu margfaldast. Donna Anderson skrifaði bókina Love Fraud—How marriage to a sociopath fulfilled my spiritual plan um hjónaband sitt og siðblinda svindlarans James Montgomery. Þau kynntust í gegnum tölvupóst. Hann rúði hana inn að skinni í þessu hjónabandi. Tíu árum eftir skilnaðinn (árið 2009) komst Donna að því að James var enn að reyna að stofna til kynna við konur á Netinu.7 Það er því full ástæða til að vara konur við, í samskiptum og kynnum á Facebook eða spjallrásum.
 

Siðblindir hafa reyndar oftast ekki áhuga á langtímasamböndum. Sá siðblindi yfirgefur fórnarlambið þegar hann hefur haft af því nægt gagn og gæði, enda er hann spennufíkill og leiðist auðveldlega. Þegar um ástarsamband er að ræða hefur sá siðblindi oftast hafið samband við næsta fórnarlamb áður en hann slítur fyrra sambandi. Stundum er hann með þrjár í takinu; Eina sem hann var að skilja við, eina sem er haldið heitri og þá þriðju sem hann er að byrja að bera víurnar í. Fórnarlambið sem er snögglega yfirgefið hefur oft verið algerlega grunlaust um að fleiri séu í myndinni.8  Og sú yfirgefna fyllist stundum vantrú, reiði, vonleysi, finnst hún einskis virði og hefur á tilfinningunni að sér hafi verið hent á haugana.9
 

Næsta færsla verður: Í hjónbandi með siðblindum
 

1 Margar rannsóknir hafa verið gerðar á glæpamönnum í fangelsum en á seinni árum hafa menn beint sjónum sínum að samfélaginu almennt og reynt að meta hversu algeng siðblinda er innan þess. Nefna má rannsóknina Psychopathic Traits in a Large Community Sample: Links to Violence, Alcohol Use, and Intelligence, sem Craig S. Neumann og Robert D. Hare gerðu og birtist í Journal of Consulting and Clinical Psychology, 2008, 76(5), s. 893-899. Greinin er aðgengileg á Vefnum. Skoðað var tilviljanakennt úrtak úr annarri fjölmennari rannsókn (MacArthur Violence Risk Study (Monahan et al., 2001), alls 514 manns, af báðum kynjum, jafnt hvítir sem  „Bandaríkjamenn af afrískum uppruna“ og notuð skimunarútgáfan af greiningarlykli Hare (PCL-SV). Niðurstöðurnar voru flestir skoruðu 3 stig eða lægra á siðblindukvarðanum en að 1-2% þáttakenda skoruðu meir en 12 stig, sem gefur til kynna einkenni um siðblindu. (Ath. að skimunarútgáfan PCL-SV er annar kvarði en PCL-R, sá fyrrnefndi nær frá 0 – 24 og þeir sem skora 18 stig og hærra eru sambærilegir þeim sem skora 30 stig og hærra á PCL-R.) Enginn munur mældist eftir kynþætti. Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra sambærilegra rannsókna.

2 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 13. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

3 „Sumir siðblindir eru tækifærissinna árásargjörn rándýr sem er alveg sama hvern þeir misnota. Aðrir eru þolinmóðari og bíða eftir fullkomnu, saklausu fórnarlambi sem villist á veg þeirra. Í báðum tilvikum hefur sá siðblindi fyrst og fremst í huga hvernig megi nýta fórnarlambið til fjár, valda, kynlífs eða áhrifa. Sumir siðblindra hafa gaman af áskorun meðan aðrir einbeita sér að því að leggjast á fólk sem er viðkvæmt fyrir. Siðblindur getur metið veikar hliðar fórnarlambsins og mun nota sér þær til að draga það á tálar.“ Basic manipulative strategy of a psychopath í Psychological manipulation, Wikipedia. 

4 Robert D. Hare. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of  Psychopaths Among Us, s. 149. Peter Tranberg segir um þetta: „Í sambandi við mál Peters Lundin þá fékk ég á tilfinninguna að slatti af kvenkyns kunningjum hans léti stjórnast af Móður-Theresu þráhyggju, því þær vildu bjarga „aumingja manninum“ frá grimmu fangelsisumhverfinu og kenna honum að gjalda gagnkvæma ást. Í hans augum er þetta markmið merki um veikleika og í grundvallaratriðum ómögulegt að uppfylla.“ Tranberg, Peter. Psykopati – en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett, s. 61.

5 „Siðblindum sjúklingum hættir til að finna til öfundar í garð þeirra sem eru góðir og sýna árásargirni gegn gæskunni sem þeir skynja til að losna við þessar óþægilegu tilfinningar [öfundsýkina]“ segir í „Psychological Defenses“, Personality Characteristics and Treatment Prognosis á vef American Medical Network (en textinn fjallar um persónuleikaraskanir af ýmsum toga).
 „Öfund er mest áberandi í sjúklingi sem hatar gæskuna sjálfa“, segir J. Reid Meloy í bókinni The Psychopathic Mind – Origins, Dynamics and Treatment, 1988, s. 105. Meloy útskýrir þetta þannig að öfundin sé ekki meðvituð því hún ógni stórmennskuhugmyndum hins siðblinda um eigið ágæti. En hann reynir að eyðileggja góðmennskuna, í ferli sem hefst á meðvituðu hugsuninni „Ég verð að fá“ og endar á meðvituðu hugsuninni „Þetta var einskis virði“. Tilvitnanir í Meloy eru teknar úr lokariterð danska sálfræðingsins Peter Tranberg, Psykopati – en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett, s. 55. 

6 Robert D. Hare. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of  Psychopaths Among Us, s. 153.

7 Sjá „James Montgomery. Using the Internet to meet and defraud women“ á Lovefreud.com.
Fundið hefur verið upp sérstakt hugtak yfir siðblinda sem nýta netið til að komast yfir fórnarlömb, annað hvort til að svindla af fólki fé eða komast yfir konur, sem er hugtakið Cyberpath.  Sjá t.d. bloggfærsluna „The successful psychopath“ og „Cyberpath“ á Enpsychopedia.  

8  „Basic manipulative strategy of a psychopath“ í Psychological manipulation, Wikipedia.

9 Hartoonian, Linda S og  Liane J. Leedom. „The aftermath of psychopathy as experienced by romantic partners, family members and other victims“ í Aftermath. Surviving Psychopathy.  

  

  
 

Dásemdir læsis

Prjónaður heiliUndanfarna mánuði hef ég verið ólæs í þeim skilningi að ég hef ekki getað haldið þræði í bók og gleymt jafnharðan því sem ég las. Fyrir svona mánuði síðan komst ég upp á lag með að skanna vefsíður og vefmiðla … svo tókst að skanna bækur og taka úr þeim punkta og skoða í þeim myndirnar, ekki mikið meira.

Af þessu hefur leitt að ég hef einkum lesið (og skrifað) um tvö áhugamál mín, sem hafa undanfarið verið saga prjónatækninnar og siðblinda. Þarf varla að taka fram hve hamingjusöm ég varð þegar ég fann frétt um konu sem samþættir einmitt þetta tvennt: Áhuga á geðveilum og áhuga á prjónaskap! Sú er geðlæknir og hefur lagt á sig að prjóna heilan heila … ég sé reyndar strax í hendi mér að heilaprjón er bráðsniðug aðferð til að nýta afganga. Til vinstri sést prjónaði heilinn, smella má á myndina til að glöggva sig betur á stykkinu (eða heilanum) og fréttina um geðlækninn sem prjónaði hann má lesa hér.

En í gærkvöldi las ég heila bók, var reyndar enga stund að því enda bókin stutt og ég gjörkunnug efninu. Þetta var stór áfangi! Bókin sú arna heitir Sýnilegt myrkur. Frásögn um vitfirringu og er eftir William Stryker (kom út núna fyrir jólin í ritröðinni Lærdómsrit bókmenntafélagsins). Höfundurinn er heimsþekktur rithöfundur, sennilega kannast flestir við bók hans (eða myndina sem gerð var eftir bókinni) Sophie’s Choice. Hana hef ég ekki lesið og ekki séð myndina af því ég veit söguþráðinn og er of viðkvæm sál fyrir svoleiðis.

Satt best að segja bjóst ég ekki við sérlega miklu fyrirfram, fordómafull sem ég er, auk þess sem undirfyrirsögnin, “Frásögn um vitfirringu” truflaði mig. En bókin kom gleðilega á óvart: Þetta er fantagóð bók um þunglyndi, sem ég mæli mjög með. Reyndar tekur höfundurinn það skýrt fram að ekki sé hægt að lýsa þunglyndi fyrir þeim sem aldrei hafa veikst af sjúkdómnum. Samt er þetta ein besta lýsing sem ég hef lesið en ég get náttúrlega ekki gert mér í hugarlund hvernig einhver sem ekkert þekkir til þessa hryllilega sjúkdóms upplifir eða skilur bókina. Það eina sem mér fannst að henni var að hún er ekki nógu vel þýdd og enskan skín ansi mikið í gegn. (Þetta kom mér líka á óvart, ég hélt að kröfurnar sem gerðar eru til Lærdómsrita bókmenntafélagsins væru mjög miklar.)

Tvíefld eftir að hafa komist gegnum Sýnilegt myrkur á engri stund skellti ég mér í Af heimaslóðum. Brot af sögu Helgu og Árna Péturs í Miðtúni og samfélagsins við Leirhöfn á Melrakkasléttu, eftir Níels Árna Lund. Mér fannst fyrsti fjórðungurinn frekar skemmtilegur en það sem eftir er bókarinnar er tæplega áhugavert fyrir aðra en þá sem þekkja þetta fólk. Ég veit bara hvaða fólk þetta er, sumt, get ekki sagt að ég þekki það neitt. Svo ég lagði frá mér bókina og fór að skoða dúkkulísufræði (Pigedrømme – om danske påklædninsdukkers historie … frábær myndabók) og prjónafræði (Kvardagsstrik. Kulturskattar fra fillehaugen … einnig frábær bók með hellingi af myndum). Í kvöld verður gerð atlaga að reyfara.

Eiginlega varð ég svolítið móðguð yfir hvað Níels Árni Lund skautar framhjá forfeðrum mínum. Ég meina: Það voru bara tvö hús á Raufarhöfn snemma í sögunni, í öðru bjuggu langafi hans og amma – seinna afi hans og amma  og í hinu langafi minn og langamma – auk afa og ömmu seinna. Og langafi Níelsar var bróðir langömmu minnar – þannig að hann hefði nú mátt minnast meir á mitt fólk en bara í setningunni: “Þetta þykir nokkuð fínt fólk, bráðmyndarlegt og yfir því mikil reisn.” (s. 36) Ekki svo að skilja að ég sé ekki sammála þessari lýsingu á langafa og langömmu og er ekki frá því að yfirbragðið hafi erfst allar götur síðan 😉

Gr�mur LaxdalEn ég las samviskusamlega um Grím Laxdal, bróður langömmu sem fluttist til Vesturheims. Hafði einstaklega kvikindislegt gaman af því hvernig Níels Árni reynir að draga úr vísbendingum um að karlinn hafi verið alki og fannst athyglisvert að sjá hvað hægt er að kóa mörgum kynslóðum seinna. T.d. lá það orð á Grími Laxdal meðan hann bjó á Íslandi að hann hefði verið nokkuð drykkfelldur (sem kæmi mér ekkert á óvart að liggi kannski í þessum Laxdals-genum þvers og kruss). Um Grím segir í bókinni: “Grímur var orðlagt glæsimenni og mikill persónuleiki … Það fylgir sumum frásögnum um Grím að honum hafi þótt sopinn góður hér heima á Íslandi og verið talinn nokkur bóhem. Varlegt getur verið að treysta slíkum sögum; í þeim efnum getur fjöðrin orðið að hænsnahópi fyrr en varir. Vel má hins vegar vera að hann hafi á sínum yngri árum neytt víns umfram aðra, en víst er að hann hefði ekki notið þeirrar virðingar í Vesturheimi, eftir að fjölskyldan flutti þangað sem fjöldi staðreynda ber vitni um, ef hann hefði látið Bakkus stjórna lífi sínu.” Svo er vitnað í konu hans, Sveinbjörgu, sem sagði víst þegar hún var spurð út í hegðun eiginmannsins “að horfa skyldi einnig á björtu hliðarnar – og “líttu til annarra”. Átti þar við að aðrir hefðu það ekki betra en hún. “(s. 38)

Af áratuga reynslu af ölkum og aðstandendum af öllu tagi sá ég strax að Sveinbjörg var meðvirkari en allt sem meðvirkt er, af þessum orðum að dæma. Svolítið seinna í bókinni er vitnað í barnabarn þeirra vestra sem segir: “Já það er rétt að lengst af bjuggu þau lítið saman Grímur og Sveinbjörg en ástæða þess gæri hafa verið fjármálalegum ástæðum og einnig hitt að þau eignuðust í raun aldrei neitt heimili … Amma og afi bjuggu alltaf hjá börnum sínum en ekki alltaf á sama tíma.” (s. 53) Sama barnabarn segir líka: “Með aldrinum varð hann bráðari í skapi. Honum líkaði ekki líkamleg vinna og gafst upp á heimilinu og hélt til hjá börnum sínum.” (s. 42) Aftur á móti er snyrtilega breitt yfir þetta ástand í minningargrein um Sveinbjörgu: “Frú Sveinbjörg var um flest mikil gæfukona; hún naut um langa ævi samvistar ágæts eiginmanns, börn þeirra mönnuðust vel …” (s. 55).

Af þessum tilvitnunum er nokkuð augljóst hvernig var ástatt fyrir þeim Grími og Sveinbjörgu. En lýsingin í bókinni minnti mig dálítið á þá sem ekki mega heyra á það minnst að Jónas Hallgrímsson hafi verið langt genginn alkóhólisti þegar hann lést (þótt krufningarskýrslan sé til … minnir að megi lesa hana í Tímanum og tárinu hans Óttars Guðmundssonar) eða eru uppfullir af þeirri hugmynd að Kristján Fjallaskáld hafi óvart drukkið sig í hel út af ástarsorg (og þ.a.l. beri einhver stúlkukind á Hólsfjöllum alla sök á dauða skáldins) eða einhverjum álíka bábiljum. Ég get ekki séð að það kasti neinni rýrð á Jónas að hann hafi verið veikur alki; snilldarverk hans á sviði skáldskapar og náttúrufræði verða enn rismeiri ef maður veit að maðurinn hafði ekki fulla starfsorku. Og Grímur langömmubróðir minn var jafn merkilegur maður þótt hann hafi sennilega verið alki, sem meðvirka eiginkonan gafst að lokum upp á.

(Myndin er af Grími og Þórði syni hans. Sjá má stærri mynd með því að smella á þá litlu. Þetta var vissulega glæsimenni og Níels Árni getur verið stoltur af langafa sínum!)

  

Á hverju þekkist siðblindur og hvernig kemst maður heill frá slíkum kynnum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, II. hluti  
 

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.)

 

Ted BundyÁ Vefnum má finna fjölda sjálfshjálparhópa fyrir fórnarlömb siðblindu og ýmsa gátlista svo fólk geti áttað sig á því sem fyrst að það á við siðblindan einstakling að etja eða er komið í mismunandi náin tengsl við slíkan. Ég reyni hér að halda mig við sæmilega áreiðanlegar útgáfur á svoleiðis varúðarlistum og valdi þrjár nokkuð ólíkar. Ráðlegg lesendum að lesa gegnum þær allar; þeir sem hafa kynnst siðblindum einstaklingi áður munu eflaust kannast við margt í þessum listum.

Myndin er af Ted Bundy, frægasta raðmorðingja Bandaríkjanna, sem var líflátinn 1989. Hann þótti einstaklega viðkunnalegur maður, sem er oft lýsandi fyrir siðblinda einstaklinga, þ.e. að oft er flagð undir fögru skinni. Sjá nánar um Bundy í greinarstubbi á íslensku Wikipediu eða langri umfjöllun á ensku Wikipediu 
 

Þessi færsla  yrði alltof löng ef allur textinn væri settur á eina síðu. Því er fyrst birtur listi aðalgúrúins, hins kanadíska Roberts D. Hare, en krækt er í undirsíður með hinum tveimur listunum (sem ég hef þýtt á íslensku). Þeir eru:
 

Sænskur gátlisti (höfundarlaus). Sá sænski er stuttur og neðan við hann er krækt í gagnvirkt próf, á sænsku, sem fólk getur tekið til að fá vísbendingu um hvort það er í tygjum við eða umgengst siðblindan náunga.

Bandarískur gátlisti yfir hvers konar raddbeiting og líkamstjáning einkennir siðblindu. Sjálfri finnst mér þessi listi áhugaverðastur.
 
 

Hér fer á eftir listi Roberts Hare yfir hvernig sýna skal varúð og þekkja siðblinda einstaklinga, jafnframt því sem ráðlagt er hvernig lágmarka megi skaðann af kynnum við slíka. Listinn er undirgreinin „A Survival Guide, s. 4-5 í This Charming Psychopath. How to spot social predators before they attack á vefútgáfu Psychology Today. (Greinin birtist 1. janúar  1994 og vefútgáfan var síðast endurskoðuð 1. júní 2010.) Raunar er þetta útdráttur úr 13. kafla, „A Survival Guide“, í Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us eftir  Robert Hare, fyrst útg. 1993.
 

Leiðarvísir til að komast af

Þótt enginn sé algerlega ónæmur fyrir vélabrögðum hins siðblinda þá eru nokkur atriði sem hægt er að hafa í huga til að lágmarka skaðann sem hann gæti valdið þér.

* Gerðu þér grein fyrir við hvað við er að etja. Þetta hljómar auðvelt en getur í rauninni verið mjög erfitt. Allar heimsins fræðibækur gera þig ekki ónæma(n) fyrir eyðileggjandi áhrifum siðblindra. Allir, þar á meðal sérfræðingar, geta látið hrífast, blekkjast og staðið ráðvilltir eftir. Flinkur siðblindingi getur leikið konsert á hjartastrengi hvers sem er.

*Ekki falla fyrir sýndarmennsku eða leikmunum (props). Það er ekki auðvelt að komast fram hjá heillandi brosi, aðlaðandi líkamstjáningu og  hröðu tali hins dæmigerða siðblindingja því allt þetta blindar okkur sýn á raunverulega ætlan hans. Mörgum finnst erfitt að höndla hið ákafa „rándýrsaugnaráð“ siðblindra. En hið starandi augnaráð er fremur forleikur að sjálfsfullnægju og leikur að valdi en venjulegur áhugi eða samúðarfull umhyggja fyrir viðmælandanum.1)

Blátt auga[Í kaflanum í Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, s. 208, bætir Hare við: „Sumum finnst kalt augnaráð hins siðblinda vera einkar óþægilegt og líður eins og bráð andspænis rándýri. Aðrir verða gagnteknir, jafnvel agndofa, komast á vald hans og skilja lítt eigin viðbrögð.  Hver sem sálfræðileg merking augnaráðsins kann að vera  þá er á hreinu að sterkt augnsamband er mikilvægur þáttur í hæfileikum sumra siðblindra til að ráðskast með og drottna yfir öðrum.“ Ráðið er að loka augunum eða snúa sér undan og einbeita sér að því hvað viðkomandi er í rauninni að segja.]

* Ekki bera blöðkur fyrir báðum augum. Byrjaðu hvert samband með augun opin. Eins og gildir með okkur öll þá byrja flestir siðblindir sjónhverfingamenn og flagarar á að fela sínar myrku hliðar og skarta sínu besta. En svo myndast sprungur í grímunni sem þeir bera. Samt er erfitt að sleppa úr blekkingavef þeirra án þess að skaðast fjárhagslega og tilfinningalega.2)

* Vertu á varðbergi á hættuslóðum. Sumar aðstæður eru sem klæðskerasniðnar fyrir siðblinda: Barir fyrir einhleypa, lystiskipaferðir, flugvellir í útlöndum o.s.fr. Á svona stöðum er fórnarlambið oft einmana og í leit að skemmtun, spennu eða félagsskap. Venjulega er einhver til í að veita slíkt en endurgjaldið sem krafist er getur komið á óvart.

* Þekktu sjálfa(n) þig. Siðblindir eru flinkir í að finna veikar hliðar og notfæra sér þær samviskulaust. Besta vörnin gegn þessu er að þekkja sína eigin veikleika og vera sérstaklega á verði gegn þeim sem einbeitir sér að akkúrat þeim.
 
 

Því miður þá kemur jafnvel stakasta varúð ekki endilega í veg fyrir að þú lendir í viljasterkum siðblindingja. Það eina sem þú getur gert í þeirri stöðu er að reyna að lágmarka skaðann. Það er ekki auðvelt en hér eru nokkrar leiðir sem gætu hjálpað:

* Leitaðu þér faglegrar hjálpar. Vertu viss um að fagmaðurinn sem þú leitar til hafi þekkingu á fræðum um siðblindu og hafi reynslu í að fást við siðblinda.

* Ekki ásaka sjálfa(n) þig. Það skiptir ekki máli hvaða ástæður urðu til þess að þú tengdist siðblindum einstaklingi heldur er mikilvægt að þú axlir ekki ábyrgð á viðmóti hans og hegðun. Siðblindir leika sama leikinn eftir sömu reglum við alla – sínum eigin reglum.

Samskipti við siðblinda* Gerðu þér grein fyrir hvert er fórnarlambið. Siðblindir reyna oft að láta líta svo út að þeir þjáist og fórnarlambið sé syndaselurinn sem valdi þjáningunni. Ekki eyða samúð þinni á þá.

* Áttaðu þig á því að þú ert ekki ein(n). Flestir siðblindir skilja eftir sig slóð fórnarlamba. Sá siðblindi sem særði þig hefur örugglega valdið fleirum sorg.

* Farðu varlega í valdatafl. Hafðu í huga að siðblindir hafa sterka þörf fyrir sálarlegt og líkamlegt vald yfir öðrum. Það þýðir ekki að þú eigir ekki að gæta réttar þíns en það er sennilega erfitt að gera það án þess að eiga á hættu alvarlegt tilfinningastríð eða líkamsskaða.

* Settu skýr mörk. Þótt valdatafl við siðblindingja sé varasamt þá gætirðu sett bæði þér og þeim siðblinda mörk til að gera líf þitt auðveldara og hefja hina erfiðu leið frá fórnarlambi til sjálfstæðrar manneskju.

* Ekki búast við dramatískum breytingum. Að mestu leyti er persónuleiki hins siðblinda sem meitlaður í stein.

* Lágmarkaðu skaðann. Undir lokin  finnst flestum fórnarlamba siðblindra  þau sjálf vera hálfrugluð og vonlaus og eru sannfærð um að vandamálin séu aðallega þeim að kenna. En því meir sem þú gefur eftir því meir verðurðu (mis)notuð vegna óseðjandi eftirsóknar hins siðblinda í vald og stjórn yfir öðrum.

* Notaðu sjálfshjálparhópa. Þegar þú hefur fengið grunsemdir þínar um siðblindu staðfestar þá veistu að framundan er löng og torsótt leið. Vertu viss um að þú fáir allan þann tilfinningalega stuðning sem þú getur nýtt þér.
 
 

1) Orðlaus samskipti siðblindra hefur verið rannsökuð. Í ósögðum skilaboðum felst ýmis hegðun, t.d. svipbrigði, bendingar og raddbeiting. Rime, Bouvy og Roillon (1978) uppgötvuðu að siðblindir hafa tilhneigingu til að ota sér inn á persónulegt svið spyrjanda með því að halla sér fram og með því að halda löngu augnsambandi. Af því augnsamband er venjulega talið andstætt við óheiðarleika getur verið að þessi samskiptanálgun sé hluti af verkfærasafni siðblindra, hannað til að sannfæra aðra um að þeim sé treystandi.“ Louth, Shirley M;, Williamson, Sherrie; Alpert, Murray; Pouget, Enirique R; Hare, Robert D. Acoustic Distinctions in the Speech of Male Psychopaths“ í Journal of Psycholinguistic Reseach, 27. árg., 3. tbl., 1998. Skoðað á Vefnum í janúar 2011. 

Robert D. Hare vitnar í konu sem siðblindur hafði svindlað á: „Ég fylgdist ekki með öllu sem hann sagði en hann sagði allt mjög fallega. Hann hefur svo yndislegt bros.“ Without Conscience. The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, s. 146. 

2) Formáli bókarinnar Without Conscience. The Disturbing World of the Psychopaths Among Us eftir Robert D. Hare (fyrst útg. 1993) hefst þannig: „Siðblindir eru rándýr í samfélagi manna, sem heilla, ráðskast með og ryðja sér vægðarlaust braut gegnum lífið og skilja eftir sig slóð af brotnum hjörtum, væntingum og tómum veskjum. Þeir svífast einskis í eigin þágu, enda samviskulausir og ófærir um að setja sig í annarra spor. Reglur mannlegra samskipta eru fótum troðnar án minnstu sektarkenndar eða eftirsjár.“ (S. xi, hér er einnig stuðst við þýðingu Nönnu Briem í „Um siðblindu“, Geðvernd, 38. tbl. 2009.)
 

Sjá einnig fyrri færslu: Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda I. hluti
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, I. hluti

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:http://sidblinda.com

Borgarnóttin

Þófamjúk rándýr sem læðast
með logandi glyrnum
í lævísu myrkri
-og skógur með kvikum trjám

(Hannes Sigfússon) 

 

Inngangur

ÚlfurÞessi færsla og fleiri eru skrifaðar fyrst og fremst sem glósur fyrir mig sjálfa því mér hættir til að gleyma býsna hratt því sem ég les þessa dagana. Fróðleikinn um siðblindu hyggst ég nota í ákveðnum skrifum en vonast til að einhverjir fleiri en ég hafi áhuga á fyrirbærinu, jafnvel að þessi skrif nýtist einhverjum sem víti til varnaðar, því talið er að allir kynnist siðblindum einstaklingum einhvern tíma á lífsleiðinni og slíkir geta valdið ómældum skaða. Þá má nefnilega finna allstaðar, í öllum stéttum og störfum.

Siðblinda (áður kölluð geðvilla) er notað um það sem á ensku kallast psychopathy, psykopati á skandinavískum málum (nú orðið oftast dyssociale personlighedsforstyrrelse eða sociopat á dönsku, haft innifalið í antisocial personlighetsstörning á sænsku)  o.s.fr. Orðið er samsett úr grísku orðunum psyche, sem þýðir sál og pathos, sem þýðir þjáning/ kvöl. Varla er þó átt við að siðblindir þjáist á sálinni heldur að þeir valdi öðrum miklum þjáningum. Pathos getur líka þýtt sjúkdómur og vissulega hafa siðblindir sjúka sál þótt ekki teljist þeir geðveikir. Ég blogga meir um orðalag tengt siðblindu síðar.

Þegar menn heyra orðið erlenda orðið „sækópat“  sjá flestir fyrir sér fræga morðingja kvikmyndasögunnar, s.s. Hannibal Lechter í Lömbin þagna eða Alex í Clockwork Orange. Fólk gerir sér sennilega ekki grein fyrir því að einungis lítill hluti glæpamanna greinist siðblindur (um 20% fanga greinast siðblindir) en siðblindir einstaklingar eru taldir á bilinu 0,5 – 1% fólks utan fangelsismúranna, skv. Robert D. Hare.1)  Svipað algengi kemur út úr breskri rannsókn á almennu þýði.2)  Skandinavískar tölur eru hærri.3) Það þýðir t.d. að hér á þeim góða Skaga eru sennilega milli 30 -50 siðblindir einstaklingar, miðað við bandarískar og breskar rannsóknir. Fjöldinn á Íslandi er á bilinu 1500 – 3000 manns. 4)

Siðblinda er ekki geðveiki heldur ein alvarlegasta persónuleikaröskunin sem fyrirfinnst. Hún er almennt talin ólæknandi enda telja siðblindir sig hreint ekki þurfa lækningar við, sama hversu miklum skaða þeir valda öðrum.

Ég fékk mikinn áhuga á siðblindu fyrir skömmu en komst að því að ekki hefur verið skrifað mikið á íslensku um fyrirbærið. Nanna Briem, geðlæknir hefur einna mest fjallað um þetta efni og má nefna grein hennar  „Um siðblindu“, sem birtist í 38. tbl. Geðverndar 2009, s. 25 – 29 (greinin er aðgengileg á netinu hér ) og leiðarann „Siðblinda“ í Læknablaðinu 96. tbl. 2010 (á netinu hér) , einnig eftir Nönnu Briem. Sjá má frægan fyrirlestur Nönnu Briem, Siðblinda og birtingarmyndir hennar, sem hún hélt í Háskólanum í Reykjavík þann 3. febrúar 2010 og horfa má á á netinu.  Loks er handhægt að skoða glærusýningu Nönnu, Um siðblindu, til að fá yfirlit yfir efnið.

Aðrar íslenskar heimildir eru af skornum skammti, einna helst að finna megi greinar eða örstuttar tilvísanir í dagblöðum eftir að menn beindu sjónum sínum að siðblindu stjórnenda í viðskiptalífinu. Um slíkt hefur verið skrifað töluvert á erlendum málum, þar af er frægust bókin Snakes in Suits: When Psychopaths Go to Work, eftir Robert Hare og  P. Babiak, sem kom út árið 2006. (Sjá má stutta umfjöllun Kristjáns G. Arngrímssonar um þessa bók, „Snákar í jakkafötum“ í Mbl. 7. júní 2006.)

En ég hef meiri áhuga á siðblindum einstaklingum almennt. Þeir eru nefnilega fjöldamargir, eins og áður sagði, en þrátt fyrir alls konar vandræði og skaða sem þeir valda öðrum kemst einungis lítill hluti þeirra í kast við lögin. Miklu stærri hluti siðblindra eru karlar, þótt siðblindar konur finnist líka, og því er ævinlega notað orðið „hann” hér þegar talað er um siðblindan einstakling. [Viðbót 1. febrúar 2011: Robert Hare hefur síðar haldið því fram að hugsanlega sé þetta vegna þess að siðblindar konur séu greindar öðruvísi vegna viðtekinna skoðana á hlutverki og framkomu kynjanna. Hann segir að ef karl og kona sýni öll kjarnaeinkenni siðblindu muni læknir greina karlinn siðblindan eða með andfélagslega persónuleikaröskun en konuna með sefapersónuleikaröskun (histrionic PD) eða sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (narcissistic PD) því konan sýnir kannski fá andfélagsleg hegðunareinkenni. Ekki er ólíklegt að hún reyni að herma eftir þeirri staðalímynd kynsystra sinna sem þykir eftirsóknarverð og láti lítið fyrir sér fara, virki hlý, ástrík og undirgefin. Hare nefnir engar tölur um hlutfall siðblindra kvenna í þessu sambandi. Sjá Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 101-102. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins, New York. Bókin kom fyrst út árið 2006.]  

[Viðbót 7. febrúar: Lára Hanna Einarsdóttir hefur klippt saman (úr bútum á YouTube) heimildarmyndir um siðblindu og skal bent á:

Ég þakka Láru Hönnu kærlega fyrir verkið og að benda mér á þetta og leyfa krækjur í efnið.] 

  
Einkenni siðblindu

Hervey CleckleyÞað hafa margir sett fram greiningarlykla fyrir siðblindu.5)  Sá sem fyrstur gat sér verulega frægð fyrir umfjöllun um hana var geðlæknirinn Hervey Cleckley, í bók sinni The Mask of Sanity sem kom út 1941. Hún var byggð á rannsóknum hans á siðblindum föngum og er enn talin til grundvallarrita í siðblindufræðum og marg-endurútgefin. Bókina er hægt að nálgast á Vefnum.  Myndin til hægri er af Cleckley.

Cleckley taldi eftirfarandi 16 einkenni í hegðun siðblindra einstaklinga 6)

  1. Yfirborðskenndir persónutöfrar og góð greind
  2. Engin blekkjandi eða óraunhæf hugsun
  3. Engin taugaveiklun eða hugsýki
  4. Ekki hægt að treysta
  5. Óheiðarleiki og fals
  6. Skortur á eftirsjá og skömm
  7. Fljótfær andfélagsleg hegðun
  8. Léleg dómgreind og lærir ekki af reynslunni
  9. Sjúkleg sjálfselska og vanhæfni til að elska
  10. Vanmáttur í að bregðast við sterkum tilfinningum
  11. Ákveðinn skortur á innsæi
  12. Skortur á viðbrögðum í almennum félagslegum tengslum
  13. Ótrúleg og ógeðfelld hegðun þegar áfengi er drukkið og stundum edrú
  14. Hótanir um sjálfsvíg leiða sjaldan til sjálfsvígs
  15. Kynlíf er ópersónulegt, hversdagslegt og ekki litað af ástríðu
  16. Vangeta til að fylgja eftir markmiðum í lífinu

Sálfræðingurinn Robert D. Hare hefur varið stórum hluta starfsævi sinnar í rannsóknir á siðblindu. Um hana hefur hann skrifað fjölda greina og bóka. Frægust bóka hans er líklega Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, sem kom fyrst út 1993.

Hare byggði að einhverju leyti á gátlista Cleckleys og hannaði sérstakt greiningartæki til að greina siðblinda einstaklinga, PLC-R („the pscyhopathy check list“ eða gátlista yfir siðblindu) ásamt fleiru. Vel að merkja leggur Hare þunga áherslu á að einungis reynt fagfólk geti greint siðblindu og handbókin um notkun listans er ekki afhent hverjum sem er (m.a. vegna þess að siðblindir fangar gætu þá lært á viðtalstæknina og logið til um svörin). Greiningin felst í hálf-stöðluðum viðtölum, ítarlegri skoðun á sögu  viðkomandi o.fl. en grunnurinn að greiningunni er þessi gátlisti. Þótt Hare taki almenningi vara fyrir að greina aðra siðblinda opinberlega (því slíkt sé einungis á færi reyndra fagmanna) er honum mjög í mun að fólk þekki einkenni siðblindu vel, til að það geti varað sig á siðblindum einstaklingum í samfélaginu.

Gr�ma siðblinduÍ PCL-R eru talin upp 20 einkenni sem eru dæmigerð fyrir siðblinda einstaklinga. „Helmingur einkennanna eru svokölluð kjarnaeinkenni siðblindu og hafa með tilfinningalíf og samskipti við aðra að gera. Hinn helmingurinn lýsir lífsstíl og andfélagslegri hegðun … Fyrir hvert einkenni er gefið 0-1-2 stig; 0 ef einkennið er ekki til staðar, 2 ef það er afgerandi til staðar og 1 ef það er einungis til staðar að hluta til. Til verður þá litróf frá 0 – 40, þar sem mest siðblindu einstaklingarnir eru með 40 stig, venjulegir þjóðfélagsþegnar með undir 5 stigum, og næst 0 stigum líklega ekki aðrir en helgustu dýrlingar. Til að fá  siðblindugreiningu þarf 30 stig (25 stig sums staðar, t.d. á Norðurlöndunum.“7)  (Nanna Briem, 2009, s. 25-26.)

Það dugir sem sagt ekki að hafa einhver einkenni af listanum því siðblinda er heilkenni, þ.e.a.s. fjöldi tengdra einkenna. Og auðvitað eru margir sem hafa einhver neðantalinna einkenna, án þess að vera siðblindir.

Einkennin í greiningarkvarða/ gátlista Roberts D. Hare8) eru þessi:  (Íslenska þýðingin er að stórum hluta byggð á grein Nönnu Briem, 2009, s. 26)

Factor 1
Aggressive narcissism

  1. Glibness/superficial charm
  2. Grandiose sense of self-worth
  3. Pathological lying
  4. Cunning/manipulative
  5. Lack of remorse or guilt
  6. Emotionally shallow
  7. Callous/lack of empathy
  8. Failure to accept responsibility for own actions
Þáttur 1
Ógnandi sjálfsdýrkun

  1. Tungulipurð / yfirborðskenndir persónutöfrar
  2. Stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti
  3. Lygalaupur
  4. Slóttugur, falskur, drottnunargjarn
  5. Skortir á eftirsjá eða sektarkennd
  6. Yfirborðskennt tilfinningalíf
  7. Kaldlyndur / skortir samhygð 9)
  8. Ábyrgðarlaus um eigin hegðun (kennir öðrum um)
Factor 2
Socially deviant lifestyle

  1. Need for stimulation/proneness to boredom
  2. Parasitic lifestyle
  3. Poor behavioral control
  4. Promiscuous sexual behavior
  5. Lack of realistic, long-term goals
  6. Impulsiveness
  7. Irresponsibility
  8. Juvenile delinquency
  9. Early behavioral problems
  10. Revocation of conditional release
Þáttur 2
Afbrigðilegur félagslegur lífstíll

  1. Spennufíkill / leiðist auðveldlega
  2. Sníkjudýr (á öðrum eða „kerfinu“)
  3. Léleg sjálfstjórn
  4. Lauslæti
  5. Skortir raunsæ langtímamarkmið
  6. Hvatvísi
  7. Ábyrgðarleysi
  8. Afbrot á unglingsárum
  9. Hegðunarvandamál í æsku
  10. Brot á skilorði
Traits not correlated with either factor

  1. Many short-term marital relationships
  2. Criminal versatility
Einkenni sem tengjast hvorugum þættinum

  1. Mörg skammtíma ástarsambönd
  2. Fjölskrúðugur afbrotaferill

  

Þáttur 1 mælir svokölluð kjarnaeinkenni siðblindu og snýr að tilfinningalífi og samskiptum við aðra. Þáttur 2 lýsir lífsstíl og andfélagslegri hegðun. Loks eru tvo einkenni sem tilheyra hvorugum meginþáttanna.  Siðblindur einstaklingur mun skora hátt á báðum aðalþáttunum meðan sá sem er haldin andfélagslegri persónuleikaröskun skorar einungis hátt í þætti 2.

„Meðalstigafjöldi [bandarískra] karlkyns- og kvenkyns glæpamanna eru 22 og 19 stig. Einstaklingur með stig á bilinu 10 – 19 er með væga siðblindu, ef stigafjöldinn er á bilinu 20 -29 [24] eru  siðblindueinkennin töluverð …“ (Nanna Briem, 2009, s. 26). Áréttað skal að í Svíþjóð og Danmörku duga 25 stig til að teljast með fulla siðblindu. Því miður veit ég ekki hvernig þessu er varið á hinum Norðurlöndunum.

Ég þýddi útlistun Robert D. Hare á hvernig nokkur aðaleikenni siðblindu koma fram, sjá Nánari útlistun á sumum einkennum siðblindu í gátlista Roberts D. Hare (PLC).

Svo bendi ég á norska síða, „Kjenntegn på psykopati“, á doktoronline sem telur einkenni siðblindu nokkuð öðru vísi enda byggir greiningin ekki á gátlista Hare heldur annars amerísks geðlæknis.

    

Ég reikna með að blogga fleiri færslur um siðblindu og hugsanlega endar þetta efni einhvern tíma á vefsíðum.

Sjá einnig Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, II. hluti.

   

Tilvísanir (því miður gengur ekki að krækja í akkeri í þessu bloggumhverfi svo uppsetningin er dálítið óhöndugleg).

1. Hare, Robert D. 1999, bls. tal vantar. Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us. Guilford Press, New York.

2. Coid J, Yang M, Ullrich S, Roberts A, Hare RD. 2009. „Prevalence and correlates of psychopathic traits in the household population of Great Britain“ í
International  Journal of  Law and Psychiatry. 2009 Mar-Apr;32(2):65-73. Hér er vitnað í PubMed útdráttinn,  skoðaður 6. jan. 2011.

3. Sjá t.d. Poulsen, Henrik Day. 2004. „Hverdagens psykopater“ í Psykiatri-Information 2004/1, útg. af PsykiatriFonden: „Der er en klar overvægt af mænd, idet man regner med, at 2-4% af alle mænd, men kun ca. 1% af alle kvinder, er psykopater. Det vil med andre ord sige, at man kan regne med, at der i Danmark findes omkring 200.000 psykopater …“ og

DYSSOCIAL PERSONLIGHEDSFORSTYRRELSE, á NetPsykiater.dk, skoðað 6. janúar 2011: „I alt skønnes det at ca. tre procent af mændene og en procent af kvinderne har denne personlighedsforstyrrelse“ og

Personlighetsstörningar – kliniska rigtlinjer för utredning och behandling, Svensk psykiatri nr .9, 2006, útg. af Svenska psykiatriska Föreningen och Gothia, s. 59: „Prevelansen af antisocial personlighettstörning  i normalbefolkningen har rapporteras til 1-3%.“

Líkast til liggur munurinn á meintu algengi í mismunandi flokkunarkerfum. Hugsanleg en ekki líkleg skýring er að á Norðurlöndunum er gerð krafa um lægra skor á PCL-R greiningarlykli Roberts D. Hare en í Bandaríkjunum (sjá tilvísun nr. 7).

4. Nanna Briem. 2009. „Um Siðblindu“ í Geðvernd 38. tbl., s. 25.

5. Sjá t.d. Hervé, Hugues. 2004. „Psychopathic subtypes: Historical and Contemporary Perspectives“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 431-460. Routledge, Bandaríkjunum, Skoðað á Google bækur þann 6. janúar 2011.

6. Cleckley, Hervey M. 1988, 5. útg. The Mask of Sanity, s. 338-339 í pdf-skjali af bókinni

7. Svo virðist að glæpamenn í fangelsum í Svíþjóð, Kanada og Bretlandi skori lægra á gátlista Hare yfir siðblindu en bandarískir glæpamenn  þótt þeir hafi að öðru leyti jafnsterk einkenni siðblindu og forspárgildi greiningarinnar fyrir endurteknum glæpum sé hið sama. Sjá um þetta t.d.  Hare, Robert D., Danny Clark,  Martin Grann; David Thornton, „Psychopathy and the predictive validity of the PCL-R: an international perspective“ í Behavioral Sciences & the Law, okt. 2000, 18. árg., 5. tbl., s. 623-645. Sjá einkum s. 625. Skoðað á Vefnum (pdf.skjal) þann 6. janúar 2011.

8.  Hare, Robert D. 1999, s. 33-34. Sjá einnig PCL-R listann og umfjöllun á Wikipediu.

Gátlisti og greiningaraðferð Hare hefur ekki verið viðurkennd í þeim tveimur greiningarkerfum geðlæknisfræðinnar sem einkum er stuðst við í hinum vestræna heimi, þ.e. evrópska kerfið frá Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (WHO) og kerfi Bandarísku geðlæknasamtakanna (APA). Þessi greiningarkerfi gera ráð fyrir andfélagslegri persónuleikaröskun en Hare og fleiri hafa haldið því fram að siðblinda sé tiltölulega fámennur undirflokkur hennar. (Sjá um þessi greiningarkerfi síðuna „Antisocial personality disorder“ á Wikipediu.) Bandarísku geðlæknasamtökin gefa út Greiningar- og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) og er nú notuð útgáfan DSM-IV. Þar er fjallað um andfélagslega persónuleikaröskun en það er miklu víðari skilgreining en siðblindugreiningarlykill Roberts Hare.

Aftur á móti er þessi Greiningarhandbók í endurskoðun og er stefnt að útgáfu DSM-5 í maí 2013. Skilgreiningu á andfélagslegri persónuleikaröskun hefur verið gerbreytt í drögum að DSM-5 og segir:  „The work group is recommending that this disorder be reformulated as the Antisocial/Psychopathic Type“ og telur svo upp höfuðeinkenni í lista Hare. Sjá „301.7 Antisocial Personality Disorder“ í  American Psychiatric Association DSM-5 Development, skoðað 6. jan. 2011.

Það má því ætla að greiningarlykill Hare muni hafa æ meiri áhrif á næstu árum.

9. „Empathy“ er ýmist þýtt sem samhygð eða samkennd (samlíðan kæmi líka til greina). Átt er við hæfileikann til að finna til samkenndar með öðru fólki þegar það upplifir tilfinningar eins og t.d. gleði eða sorg. Venjulegt fólk ber ekki aðeins kennsl á slíkar tilfinningar annarra heldur getur líka fundið þær hjá sjálfu sér; samglaðst eða samhryggst.
 

Ekki sama öryrki og öryrki

Þunglyndi eftir Van GoghÉg er 100% öryrki og hef verið metin svo til loka árs 2012 (ekki þar fyrir – ég myndi fagna því mjög að þurfa ekki að vera öryrki og batna eitthvað fyrir þann tíma … öfugt við það sem einhverjir virðast halda þá “gerast” menn ekki öryrkjar að gamni sínu).

Nú datt mér í hug að gott væri að eignast örorkuskírteini því það veitir af afslátt af  læknisþjónustu og fleiru. Þess vegna hringdi ég í LSR því ég þigg örorkulífeyri þaðan (sem eru áunnin réttindi mín í þessum lífeyrissjóði). Rétt er að taka fram að það tekur um fjóra mánuði að afgreiða örorkuumsókn hjá LSR, senda þarf inn margvísleg gögn og ítarlegt læknisvottorð og öryrkjamatið er framkvæmt af trúnaðarlækni, sem vill svo til að er sérfræðingur í mínum sjúkdómi. LSR gefur ekki út örorkuskírteini en vísaði á Tryggingarstofnun ríkisins.

Ég hringdi þangað áðan og tók um hálftíma að ná sambandi við manneskju af holdi og blóði. Sú svaraði því til að Tryggingastofnun ríkisins gæfi eingöngu út örorkuskírteini fyrir öryrkja á sínum vegum, þ.e.a.s. þá sem þiggja örorkulífeyri frá TR. Ég sagði henni að ég ætti náttúrlega engan rétt á örorkubótum frá TR af því ég sæki örorkulífeyri úr mínum lífeyrissjóði. Konan svaraði því til að ég ætti samt að sækja um örorkulífeyri hjá TR, það gerðu margir sem ekki ættu neinn rétt á fébótum en vildu öðlast réttindi; Ekki væri nóg að senda afrit af örorkumati LSR því læknar TR yrðu að meta hvert tilvik fyrir sig og annað ekki tekið gilt. Það tæki 6 – 8 vikur að afgreiða umsóknina.

Mér finnst ákaflega merkilegt að hjá TR skuli starfa læknar sem eru æðri öðrum sérfræðilæknum eða trúnaðarlæknum sem meta örorku fyrir hönd lífeyrissjóða. Þetta hljóta að vera miklir læknasnillingar.

Nú er talsvert mál að sækja um svonalagað, þarf að senda vottorð (ég átta mig reyndar ekki á hver er munurinn á læknisvottorði og “skoðun hjá sérfræðilækni” en hvort tveggja þarf að uppfylla), tekjuáætlun, umsókn, fylla út fáránlegan sjálfsmatslista ( sjá Spurningalisti vegna færniskerðingar ) o.fl. 

Auk þess veitir umsækjandi TR leyfi til víðtækra persónunjósna um sig, með undirskriftinni á umsókninni (heimilar “Tryggingastofnun og umboðsmönnum að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis, þegar við á, með rafrænum hætti eða á annan hátt”).  Til samanburðar má nefna að LSR hefur ekki aðgang að slíkum gögnum en lætur umsækjanda sjálfan senda inn afrit af skattframtali síðustu þriggja ára, sem er í sjálfu sér vesen en miklu skárra en leyfa öðrum að snuðra í svoleiðis gögnum, “með rafrænum hætti eða á annan hátt”.

Miðað við allt vesenið og skotleyfið sem maður gefur á sitt einkalíf held ég að ég sleppi frekar þessu öryrkjakorti. En mér finnst fáránlegt að í “velferðarkerfinu” skuli ekki vera sama Jón og séra Jón; að öryrki sé ekki sama og öryrki og TR skuli akta sem einhvers konar einkaleyfisskrifstofa fyrir öryrkjaskírteini. Er ekki réttara að kalla öryrkjaskírteini “öryrkjaskírteini TR”? Er þetta ekki eitthvað sem hann Gutti þyrfti að huga að?

Lífið á gamla árinu og nýja árinu

Ég er orðin svolítið leið á að blogga heimildablogg – en á móti kemur að þær færslur gúgglast auðveldlega og koma því til góða í þeirri framtíð sem maður enn sér internetið. Auk þess er bloggið fín gagnageymsla fyrir uppkast að einhverju sem á að enda á vefsíðum (eins og hannyrðafróðleikurinn). Þessi færsla verður spjallfærsla.

Það er rólegt í kotinu núna því synirnir eru báðir í útlöndum; Annar í heimsókn í Gautaborg og hinn í sollinum á Tenerife. Þeir fóru milli jóla og nýjárs og fara að skila sér heim. Áramótin voru því einstaklega hugguleg hjá okkur “gömlu” hjónunum og kettinum Jósefínu – við skutum ekki upp einni rakettu enda óþarfi því hér logaði allt í kring og kötturinn slapp út og hvarf um stund, okkur til angurs, en hún skilaði sér aftur heim þegar fírverkinu var lokið. Yfir hverfinu lá dimmt ský og mér finnst þetta algert óhóf í sprengingum enda skíthrædd við þær sjálf.

Á gamlársdag skruppum við á Laugarvatn í sjötugsafmæli föður míns, gullbrúðkaup foreldra minna og aukalega var tilkynnt að þetta væri skírnarafmæli föður míns og fimm systkina hans (sem ég vissi nú ekki að hefðu verið skírð á einu bretti þarna fyrir fimmtíu árum). Atli tók nokkrar myndir sem sjá má hér. Þetta er fyrsta samkoman sem ég sæki síðan guð-má-vita-hvenær og lukkaðist bara vel þótt ég yrði örmagna á eftir. Ég missti af öllum júlefrókostum og fjölskyldusamkomum fyrir jól enda uppvakningur.

Mér er ljóst að ég man ekkert eftir síðustu jólum og áramótum og reyndar er stór hluti síðasta árs í óminni. Ef ég tel saman þá var ég veik allan veturinn en náði, fyrir kraftaverk, fjórum og hálfum mánuði alfrísk yfir sumarið. Satt best að segja hef ég ekki orðið svona frísk í mörg ár. Þökk sé hinu ágæta lyfi sem ég fékk en því miður hætti það að virka einn daginn seint í september og ég fékk fría ferð til heljar, einu sinni enn. Núna er ég hægt og bítandi að skríða upp á við aftur, rosalega hægt eins og venjulega en “með hægðinni hefst það” eins og tuggið er í ónefndum samtökum og er holl og góð lífspeki. Eitraða lyfið virðist vera að virka eitthvað, ekki bara að skaffa mér óþægilegar aukaverkanir, og ég reyni að hugsa ekki þá hugsun til enda hvað hægt verður til bragðs að taka þegar það hættir að virka, eins og öll hin lyfin. Ætli ég gerist ekki bara fastagestur á 32 A? Den tid den sorg … Og ég náði að sofa út nóttina í nótt, í þriðja sinn frá því einhvern tíma í nóvember, sem er væntanlega batamerki. Ég held að það hjálpi til að slökkva á tölvunni klukkan átta á kvöldin og snúa sér að öðru.

Núna get ég aðeins orðið hugsað, er nýbyrjuð að horfa á sjónvarp og hef borið við að lesa, einkum hannyrðafræði og um sögu fatnaðar en einnig um annað áhugamál sem ég er upptekin af þessa dagana og endar sjálfsagt í uppkasts-bloggfærslum. Á gamlársdag tók ég fram hrúguna af garnafgöngum sem ég á, horfði á hana og hugsaði: “Hvað myndi Kaffe Fassett gera?” Svarið var augljóst: Kaffe Fassett myndi prjóna formlausa peysu með æðislega flottri mynd af sólarlagi við “dýpstu sjónarrönd”, miðað við litina. En mig langar bara ekkert í formlausa flott-myndprjónaða peysu með rauðbleik-appelsínugula sólina að síga í hafið. Svo ég ákvað að impróvísera kjól, í öllum regnbogans litum. Er byrjuð að prjóna og nota bara málband og þríliðu til að reikna út enda gengur mér yfirleitt miklu betur að prjóna upp úr mér heldur en eftir uppskriftum. Svo er spurning hvort verður eitthvað úr þessu eða hvort ég rek endalaust upp … en ég get þá alltaf búið til litríkt munstur af sólarlagi og skellt mér á myndprjónið og einhvers konar kaftan-peysu.

Úr því prjónaskap ber á góma: Í gær varð mér ljóst að ég verð að eignast biblíu prjónasögunnar þótt prjónakonur Vefjarins séu nokkuð sammála um að hún sé ótrúlega leiðinleg. Svo ég pantaði History of handknitting eftir enska sérann og biskupinn Richard Rutt í gegnum Amazon í gær – tímdi auðvitað ekki að kaupa ónotað eintak enda ótrúlega dýr bók (miðað við væntanleg leiðindi). Og það er ótrúlega hallærislegt að bókin sú skuli ekki vera til á einu einasta bókasafni landsins! Ég ætti að fá bókina einhvern tíma í byrjun febrúar.

Hafandi lesið nokkra texta eftir Bellmann í gærkvöldi, bæði orginala og glæsilegar þýðingar og staðið sjálfa mig að því að syngja “Ef þér virðist gröfin gína köld / þá er gott að fá sér staup í kvöld” o.s.fr. ákvað ég að tími væri kominn til að sækja fund hjá algerlega nafnleyndu samtökunum nú á eftir. Ég hef ekki farið á svoleiðis fund síðan í september, fyrir utan einn sem við héldum nokkrir sjúklingar á 32 A inni á setustofu einn morguninn eldsnemma (og var einn af bestu fundum sem ég hef setið). Já, þetta er tvímælalaust dagur til að ala sig svolítið upp og faðma karla! Kominn tími til!

Hvernig verður svo nýja árið? Satt best að segja borgar sig engan veginn að spá nokkuð í það. Taka einn dag í einu er aðferð sem ég er orðin verulega flink í (mætti gjarna útskrifast úr þeirri aðferð en svo verður ekki svo ég hef hugsað mér að brúka hana áfram). Svoleiðis að þótt ég hafi einhver plön um hvað ég vil iðja hér heima er alltaf ljóst að það koma tímar þar sem þeim plönum er sjálffrestað og ég verð að setja allt líf mitt “á hóld”, tímabundið um lengri eða skemmri tíma (aðallega lengri, núorðið). Það eina sem ég er ákveðin að gera er að fara með manninum til einhverrar grískrar eyju í sumar, aftur á móti erum við ekki búin að ákveða eyjuna. Þótt ég megi ekki borða feta-ost …

  

Hvað er íslensk peysa?

ÍslandspeysaUppskriftin hér til hægri birtist í Húsfreyjunni 1.tbl. 8. árg., marz 1957, s. 17. (Sé smellt á myndina kemur öll uppskriftin upp.) Fyrirsögnin er: “SVÍAR NEFNA ÞESSA GERÐ AF PEYSUM ÍSLANDSPEYSU“. Uppruna uppskriftarinnar er ekki getið né þýðanda hennar.  

Mér dettur þó í hug að Elsa E. Guðjónsson hafi þýtt uppskriftina því í aftanmálsgrein Astrid Oxaal, við greinina Et norsk strikkemønster fra Grønland, í Kunst og kultur 3/03, s. 171, þar sem hún vísar í Susanne Pagoldh, Stickat från Norden, Stockholm 1987, s. 41, segir: “Opplysningen har referanse til konservator Elsa Gudjónssons beskrivelse at hun, i en ny svensk strikkebok fra ICA-kurien i 1956, hadde sett en genser med rundstrikket mønster i fargene rødt, blått og hvitt, og som ble kalt for islandstrøie. Guðjónsson ble så begeistret for genseren at hun publiserte den året etter i Húsfreyan [svo!] som var den islandske kvinneforeningens medlemsblad”.

Sé uppskriftin skoðuð sést að peysan er ekki með hringúrtöku enda er hún hneppt að aftanverðu og prjónuð opin, fram og til baka. Hún er heldur ekki prjónuð með tvíbandaprjóni því  munstrið er gert með því að taka upp óprjónaðar lykkjur úr umferðinni á undan. (Skemmtileg aðferð sem ég hafði einmitt hugsað mér að prófa, reyndar í garðaprjónstrefli en ekki peysu …)

  

Tv�bandapeysaTil vinstri er svo mynd af tveimur peysum, svokölluðum tvíbandapeysum. Þær birtust í Húsfreyjunni árið eftir, í 1. tbl. 9. árg., janúar-marz 1958, s. 17-18. Eins og tíðkaðist er hvorki uppruna né þýðanda getið. Sé smellt á myndina kemur uppskriftin.

Vinstri peysan er með hringúrtöku en sú til hægri er með laskaúrtöku. Mér finnst sú vinstra megin líkjast norskum “eskimópeysum”, t.d. þeim sem Unn Søiland hannaði, en sú til hægri líkist mun meir Bohus peysunum sænsku.

Unn Søiland � eskimo-peysu Unn Søiland, sem bætti Dale við nafnið sitt þegar hún giftist, var norsk fyrirsæta með meiru en gerðist svo  hönnuður og stofnaði prjónavörufyrirtækið Lillunn Sport A/S. 1951 sló hún í gegn með þessari Eskimo peysu. Á bæklingnum, útg. 1951, situr hún sjálf fyrir íklædd eskimópeysunni.

Sagt er að þegar hún var að vinna sem fyrirsæta í London hafi hún dag nokkurn séð mynd af dönsku konungsfjölskyldunni íklæddri grænlenskum þjóðbúningum. Það gaf henni hugmyndina að eskimó-munstrinu og peysu prjónaðri í einu lagi, með hringúrtöku. (Sjá heimild hér.)

Þetta er skemmtileg saga … en því miður hannaði Unn Søiland eskimópeysuna 1951 og danska konungsfjölskyldan heimsótti ekki Grænland fyrr en 1952. Það mælir samt svo sem ekkert á móti því að Unn hafi séð grænlenska perlukraga einhvers staðar eða að danska konungsfjölskyldan hafi pósað í grænlenskum búningi áður. Mér finnst þó allt eins líklegt að hún hafi kynnt sér hönnun Annichen Sibbern, sem ég bloggaði um í síðustu færslu, og vitað hugmyndina á bak við hana. 

Danska konungsfjölskyldanFyrir rojalista á borð við mig er hér mynd af kóngafamilíunni, tekin 1952 skv. Vibeke Lind, sjá tilvísun í heimild til hægri, og má sjá stærri mynd með því að smella á litlu myndina.

Ingrid Bergman � eskimo peysuEskimo-peysulína Unn Søiland varð feikivinsæl og frægt fólk sóttist eftir að eiga svona peysur. Hér má sjá Ingrid Bergman með börnum sínum og eru öll klædd í þessar norsku Eskimo peysur frá Lillunn Sport A/S. 

Þeir sem vilja kynna sér Unn Søiland Dale ættu að kíkja á grein um hana í Store norske leksikon eða bara gúggla. Stundum er nafnið stafsett Søyland.

  

  

Blå skimmer frá Bohus StickningFjórum árum áður en Unn hin norska markaðssetti sína eskimó-línu, eða 1947, hannaði hin sænska Anna-Lisa Mannheimer Lunn, hönnuður hjá Bohus Stickning í Svíþjóð, peysuna Blå skimmer. Sú sló rækilega í gegn og er sögð hafa verið fyrsta sænska peysan með hringlaga berustykki. Þó var hún ekki byggð á hefðbundnu sænsku prjóni heldur perlusaumuðum þjóðlegum kraga (“This first-ever yoked sweater was not based on a traditional Swedish knitted sweater, but on a netted folk collar.”), segir í ágætri úttekt á Bohus-peysunum

Ingrid Bergman � Bohus-peysuEnn er því bent á grænlenska perlukragann sem fyrirmynd, í þetta sinn að sænsku Bohus-peysunum. Þetta er farið að líkjast ansi mikið þjóðsögu, að mínu mati!

(Af því Ingrid Bergman sést hér að ofan í norskri Eskimo-peysu er rétt að gera ekki upp á milli og setja inn mynd af henni í sænskri Bohus peysu líka. Þetta er peysan Röda randen, sem Anna-Lisa Mannheimer Lunn hannaði um 1945. Ingrid dvaldi einmitt löngum í Fjällbacka í Bohusléni.)

ÍslandstrojaMannen i islandstrojaPeysan til vinstri er það sem Svíar nefndu til skamms tíma Islandströja. Slík peysa er: “patentstickad ylletröja, vit med tvärgående ränder i rött och blått. Den har troligen fått sitt namn av att importerad isländsk ull använts till stickgarn” segir á Nationalencyklopedin 2010

Svona peysur voru / eru líka kallaðar “fiskartröja” og “pippi-tröja“, hið síðarnefnda sennilega til heiðurs Línu langsokk …

Raunar virðist nútímaskilningur Svía á Islandströja enn yfirgripsmeiri, sem sjá má á þessari auglýsingu (mér finnst sú peysa líkjast helst færeyskri peysu eða því sem Norðmenn og Danir kölluðu Íslandspeysu áður fyrr.)

Styttan hér til hægri stendur í Kristianstad og heitir Mannen i islandströja, gerð af Ivar Johansson 1933. Sé smellt á litlu myndina opnast síða með stórri mynd (sem auk þess má stækka enn fremur) og ættu allir að geta séð að þessi maður er a.m.k. alls ekki í íslenskri lopapeysu, hvað þá peysu með hringlaga berustykki  🙂 

  

Knud RasmussenTil að flækja málin er þessi mynd af pólfaranum danska Knud Rasmussen, tekin um 1920. Í myndatexta segir hann sé “iført en islandsk sweater.” Litla myndin krækir í stærri og skýrari mynd.Myndin er tekin úr bók Vibeke Lind, Strik með nordisk tradition, 2. útg. 1995, Høst og Søns Forlag, København, s. 50.     

Þar kemur fram að “Islændere” hafi verið ætlaðar sjómönnum og þeim sem unnu hörðum höndum; þetta hafi verið tvíbanda, símunstraðar peysur, tvílitar og oftast í sauðlitunum. Þær voru úr grófu garni og sniðið afar einfalt – klippt fyrir ermum og þær saumaðar beint í. (Sjá s. 48-49.) 

Elsa Guðjónsson segir að sænsku peysurnar hafi verið fyrirmyndin að íslenskum peysum í sama dúr: “Seint á sjöunda áratugnum voru hin vinsælu erlendu peysumunstur með hringlaga axlabekkjum – upprunnin í Svíþjóð laust fyrir 1950 – tekin upp og aðlöguð lopaprjóni. Hefur þessi síðarnefnda munsturgerð orðið og er enn höfuðeinkenni íslenskra lopapeysa.” (Elsa Guðjónsson: “Um prjón á Íslandi”, Hugur og hönd, Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands, 1985, s. 12.) 

Miðað við aðra peysuna sem sést á myndinni hér að neðan, sem fylgdi viðtali sem Elsa tók sjálf, er ekki rétt að þessi munstur hafi “verið aðlöguð lopaprjóni” seint á sjöunda áratugnum. Væri nær að miða við seint á sjötta áratugnum. 

Lopapeysur 1958Þessi mynd birtist í viðtali Elsu E. Guðjónson við Sigrúnu Stefánsdóttur, framkvæmdarstjóra Íslenzks heimilisiðnaðar 1958. (Sjá “Okkur vantar góða heimaþvegna ull”, Húsfreyjan 9. árg. 3. tbl., júlí-sept. 1958, s. 18 og 19.) Mynd krækir í stærri útgáfu. Í viðtalinu segir: “Eftirsóttasta varan sem við höfum á boðstólum eru þó peysurnar. – Frú Sigrún seilist upp í hillu og dregur fram allavega tvíbanda sportpeysur, margar með “grænlenzku” sniði. – Þær eru úr tvöföldum eða þreföldum þellopa. Grunnurinn er alltaf í sauðalit, þótt litir séu stöku sinnum notaðir í bekkina. Sauðalitirnir eru sérkennandi fyrir íslenzkan ullariðnað og er alltaf meiri sala í vöru með sauðalit. Í fullorðinspeysur hefur okkur reynzt bezt að nota sauðaliti að langmestu leyti, en barnapeysur mega vera í björtum og skærum litum.” (s. 18).

(Elsa birtir einmitt eigin teikningar af þessum peysum með grein sinni “Um prjón á Íslandi”, 1985, sem vitnað er í hér að ofan.) 

Sem sjá má líkist sú “hefðbundnari íslenska”, þ.e. sú til hægri, talsvert mikið fyrstu eskimóapeysu Unn Søland sem mynd er af ofar í færslunni.

Talsvert löngu áður hafa konur verið byrjaðar að prjóna peysur í þessum dúr, úr öðru garni en lopa. T.d. er mynd af litskrúðugri barnapeysu sem Jóhanna Hjaltadóttir segist hafa prjónað um 1950 og líkist bæði norsku eskimópeysunum hennar Unn Søland Dale og sænsku eskimópeysum Anna-Lisa Mannheimer Lunn, í Hugi og hönd 1999.

Um þá peysu er sagt: “Um 1950 prjónar Jóhanna barnapeysu með rúnnuðu berustykki en þá var aftur fáanlegt erlent prjónagarn. Munstrið fékk hún úr dönsku blaði, Familie Journal eða Hjemmet. Þetta munstur prjónaði hún aldrei úr lopa og man ekkki fyrir víst hvenær hún byrjaði að prjóna “hefðbundnu lopapeysuna” sem slíka. Hér er um sömu gerð af peysu að ræða oe Elsa getur um hér að framan og hafi verið vinsæl í Svíþjóð. Af þessu má draga að sams konar peysur með hringlaga herðastykki hafi verið algengar og vinsælar á Norðurlöndunum um þetta leyti og munstrin hafi borist hingað bæði með peysum og prjónablöðum en vegna skorts á prjónagarni hafa konur aðlagað munstrin að lopanum.” (Kristín Schmidhauser Jónsdóttir: Íslenska lopapeysan – prjónalist – listiðnaður”,  Hugur og hönd, Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands, 1999, s. 13.)

   

Þegar allt kemur til alls þá held ég að bæði norski og sænski hönnuðurinn sem ég hef fjallað um hér að ofan, hafi byggt ansi mikið á hugmynd Annichen Sibbern um að nota grænlenskan perlukraga sem fyrirmynd að berustykki eða munstri á peysu. Hennar peysa kom löngu fyrr fram á sjónarsviðið (sjá fyrri færslu) og hún fann upp á að nota hringúrtöku. Víst er að Unn Søland þekkti vel til Annichen Sibbern því hún notaði t.d. bók Annichen, Norske strikkemønstre, sem kom fyrst út 1929 og hefur verið margendurútgefin, í hönnun á þeirri frægu Mariuspeysu. Eskimopeysa Annichen Sibbern varð afar vinsæl á sínum tíma og var sýnd á mörgum sýningum. Má því ætla að hróður hennar hafi borist víða um Skandinavíu.

Sennilega hefur svo hver hermt eftir öðrum, munstrin hlotið nafnið eskimó eða grænlenskt eftir því sem hverjum hentaði og þótti eksótískast og að lokum varð þetta að íslensku lopapeysunni eins og flestir þekkja hana. (Reyndar kemur upp lopapeysufjöld þegar leitað er að Islandströja eða Islandsk sweater á Google, þótt þessi nöfn hafi lengstum verið notuð um allt annars konar peysur.)

Það er því stór spurning um hvað er séríslenskt í þessu stóra peysumáli … Og í rauninni svolítið fyndið að kveikjan að öllu saman hafi verið kvikmynd og tenging við pólitískt bitbein Dana og Norðmanna á fjórða áratugnum, nefnilega eignarhald á Grænlandi
 

Sjá einnig færslurnar:

Hin eina sanna Eskimó peysa; Í tilefni 80 ára afmælis;

Íslenska lopapeysan;

og jafnvel

Friðarey

Hin eina sanna Eskimó peysa; Í tilefni 80 ára afmælis

Í haust byrjaði ég að setja mig inn í sögu prjónaskapar en neyddist til að leggja það áhugamál á hilluna þegar ég veiktist – því er í rauninni sjálffrestað fram á næsta ár. En eitthvað langar mig að skrifa um efnið og bloggið er ágætis geymsla fyrir pistla sem betur má vinna síðar. Efni þessarar færslu er fyrsta “eskimóapeysan” en vinsældir slíkra peysa urðu mjög miklar næstu áratugina og má rökstyðja að þær séu fyrirmynd íslensku lopapeysunnar. (Sjá fyrri færslu, Íslenska lopapeysan.)

Þessi fyrsta Eskimó-peysa var hönnuð fyrir 80 árum. Höfundurinn var afar merkileg norsk kona, Annichen Sibbern (1905-1978), sem bætti svo Bøhn, ættarnafni mannsins síns, aftan við sitt nafn síðar. (Ævi þessarar konu er svo merkileg að hún er efni í aðra færslu og verður ekki rakin hér en lesa má helstu æviatriði í pdf-skjalinu “Annichen Sibbern Bøhn Preserver of Norway’s Knitting history, Wartime Resistance fighter”  .)

Eskimópeysa Annichen SibbertMyndin af Eskimo peysunni birtist í norska kvennablaðinu Urd (nr. 48) árið 1930. Sama ár gaf Annichen Sibbern út uppskrift af peysunni í sérhefti en árið eftir var uppskriftin með í bókinni Strikkeopskrifter. (Sé smellt á litlu myndina birtist stærri útgáfa. Í sumum heimildum er sagt að það sé Annichen Sibbern sjálf sem klæðist peysunni en það ber dóttir hennar, Sidsel Kringstad, til baka.)

Peysan varð strax gífurlega vinsæl. Til þess lágu einkum tvær ástæður; Annars vegar féll hún að þáverandi baráttu Samtaka um hagnýta listsköpun (Foreningen Brukskunst) fyrir því sem þau kölluðu “fegurri hvunndag” (“en vakrere hverdag”) og hins vegar var hún tengd hápólitísku máli, nefnilega baráttu norskra yfirvalda fyrir yfirráðum yfir hluta Grænlands, vegna  fiski- og veiðréttinda þar. Norðmenn höfðu allt frá árinu 1916 krafist yfirráða yfir óbyggðum í landnámi Eiríks rauða, þ.e.a.s. hluta Austur-Grænlands enda dýrmætar veiðlendur og fiskimið þar. Norska ríkisstjórnin eignaði sér svo þessi landsvæði 1931 og 1932 en þá kærðu Danir fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag, sem úrskurðaði 1933 að eignarhald Norðmanna væri ólöglegt. Á árunum 1930 -33 var heit umræða í Noregi um þetta meinta eignarhald. Peysa Annichen Sibbern verður að skoðast í ljósi þessarar umræðu og einnig mikils almenns áhuga í Noregi á menningu við Íshafið, sem hafði blómstrað allt frá því að Friðþjófur Nansen kannaði Grænland 1888.

Kvikmyndin EskimoUpphaf peysunnar tengist þó fremur kvikmyndagerð (sem tengist einnig pólitískum áhuga Norðmanna og Dana á Grænlandi). Fyrsta norska talmyndin (sem var nú reyndar danskt-norskt samvinnuverkefni) var myndin Eskimo, byggð á skáldsögu eftir Ejnar Mikkelsen (danska pólfarann) en handritið var eftir Helge Bangsted, danskan blaðamann sem m.a. hafði fylgt Knúti Rasmussen í fjölda Grænlandsferða. Myndin var frumsýnd árið 1930.

Kvikmyndin Eskimo segir frá ungum dönskum yfirstéttarmanni sem lendir í sjávarháska við Grænland og ung inúítakona bjargar honum af ísjaka. Þau verða ástfangin og enda á að giftast. (Á myndinni úr kvikmyndinni sést að inúítakonan Evaluk er klædd í þjóðbúning fra Vestur-Grænlandi. Leikkonan hét Mona Mårtenson.)

Hér er vert að taka fram að sá grænlenski þjóðbúningur sem við sjáum oftast er ekki nema u.þ.b. 50 ára gamall. Perlukragarnir komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en um aldamótin 1900 og voru þá tiltölulega einfaldir að gerð. Þeir urðu síðan æ flóknari og stærri með tímanum enda aðgengi að lituðum perlum æ meira. (Á  myndasíðu Danska þjóðminjasafnsins má sjá nokkra gamla grænlenska perlukraga.)

Til að gera langa sögu stutta: Annichen Sibbern fór í bíó og sá myndina Eskimo. Hún varð strax hugfangin af grænlenska búningnum og hannaði sína Eskimó-peysu, sumir segja á næstu dögum. Eskimó-peysan var hönnuð bæði fyrir vélprjón og handprjón.

Það var svo ekki fyrr en 1947 sem fyrsta peysan frá hinu sænska Bohus Stickning með hringprjónuðu munstruðu berustykki leit dagsins ljós (hin fræga Blå skimmer) og enn síðar (1951) sem Unn Søiland Dale (norsk) markaðssetti sína línu af eskimópeysum. Skv. Elsu Guðjónson (Astrid Oxaal vísar í grein hennar “Traditionel islandsk strikning” í Stickat och virkat í nordisk tradition, Österbotten Museum 1984, s. 52) var peysa með eskimómunstri, sem birtist í Húsfreyjunni 1957, líklega kveikjan að því sem við þekkjum sem íslensku lopapeysuna. Ég held að Elsa hafi þýtt uppskriftina sjálf, úr dönsku blaði. Það er dálítið skondið að hinar frægu Farmers market peysur nútímans minna svolítið á upphaflegu peysuna hennar Annichen Sibbert með sínum háa kraga og einnig yfirbragð munstursins, einkum á það við peysuna Gil

Annichen SibbertSvo Annichen Sibbern er tvímælalaust frumkvöðull í hönnun á eskimóa-peysu, hátt í 20 árum á undan öðrum. Þetta er spennandi fyrir Íslending því af peysu Annichen þróuðust aðrar peysur í sama dúr sem enduðu sem “hefðbundin” íslensk lopapeysumunstur. (Myndin til vinstri er af Annichen Sibbern Bøhn.)

Hér er upphafleg uppskrift Annichen Sibbern af peysunni Eskimo. Það sem er sérstakt við þessa peysu, að mínu mati, er að fitjað er upp á kraganum og peysan síðan prjónuð niður; sú aðferð við peysuprjón er einmitt að ryðja sér til rúms aftur á allra síðustu árum.

Ég hef áhuga á að prjóna þessa peysu, í tilefni 80 ára afmælis hennar (eða 81 árs afmælis, ég næ nú ekki að prjóna hana fyrir áramót enda er ég rétt byrjuð að prófa ýmiss konar garn til að ná réttri prjónafestu). Þess vegna þýddi ég uppskriftina á íslensku og teiknaði upp munstrið. 

Þýdda uppskriftin og munstrin eru hér. Væri gaman að heyra ef einhver prófar að prjóna Eskimo-peysu Annichen Sibbern. Sjálf reyni ég að birta mynd af mér í dýrindinu einhvern tíma um mitt næsta ár, ef heilsan leyfir 🙂

Heimildir:

Bøhn Kringstad, Sidsel og Annichen Bøhn Kassel: “Norske strikkemønstre”: KVINNEN bakom boken”, Kulturarven 47, 2009, s. 46-48.
Oxaal, Astrid: “Et norsk strikkemønster fra Grønland”, Kunst og kultur 3, 2003, s. 158-171.
Shea, Terri: “Annichen Sibbern Bøhn Preserver of Norway’s Knitting history, Wartime Resistance fighter”, Piecework Magazine, Interweave Press LLC. Aðgengileg sem pdf-skrá á vefnum, án síðutals, slóð http://www.interweave.com/needle/projects/Norwegian-Article-100802.pdf
Sundbø, Annemor: Unsynlege trådar i strikkekunsten, 3. útg. 2009 (upphafleg gefin út 2005), Det Norske Samlaget.
Bréfaskipti mín við Sidsel Kringstad (dóttur Annichen Sibbert) og Annemor Sundbø.  

Gleðileg jól!

Jólakort

   

   

Jesse rót

Flestum finnst sálmurinn “Það aldin út er sprungið” vera ómissandi þegar jólahelgin gengur í garð. Mér til andlegrar upplyftingar nú áðan ákvað ég að kanna hvað orðalagið “af fríðri Jesse rót” þýðir eiginlega. Man nefnilega eftir því að hafa pælt sem krakki (meðan ég enn sótti messur) í því hvað þetta “jesserót” væri og aldrei almennilega komist til að kanna það … fyrr en núna.

Jesse rótJesse rót á við tré eða ættartré Jesse, sem var faðir Davíðs konungs. Það flækir málið að náunginn heitir núna Ísaí, í íslensku biblíuþýðingunni. Í Jesaja 11:1 segir: “Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans …” (Í latnesku Vulgata biblíunni sem notuð var á miðöldum er klausan þannig: “et egredietur virga de radice Iesse et flos de radice eius ascendet ” eða “og sproti og blóm mun rísa af rót Jesse”. Jesús er Virga Jesse eða sproti Jesse.) Á miðöldum var vinsælt að sýna ættartré Jesú frá Jesse með ýmiss konar myndrænum hætti, s.s. sést á myndinni hér til hliðar (en hún er úr frönsku miðaldahandriti). Bæði María og Jósef voru af húsi og kynþætti Davíðs svo þau voru afkomendur Ísaí / Jesse.

Sálmurinn sem sr. Matthías þýddi á íslensku á sér langa sögu. Hér er þýðing Matthíasar og upphaflegi þýski textinn, tvö erindi úr Es ist ein Ros entsprungen:

Það aldin út er sprungið
og ilmar sólu mót,
sem fyrr var fagurt sungið
af fríðri Jesse rót.
Og blómstrið það á þrótt
að veita vor og yndi
um vetrar miðja nótt.
  
 
Es ist ein’ Ros’ entsprungen, 
aus einer Wurzel zart.
Wie uns die Alten sungen,
von Jesse war die Art.
Und hat ein Blüm’lein ‘bracht;
mitten im kalten Winter,
wohl zu der halben Nacht.
   
   
Þú ljúfa liljurósin,
sem lífgar helið kalt
og kveikir kærleiksljósin
og krýnir lífið allt.
Ó, Guð og maður, greið
oss veg frá öllu illu
svo yfirvinnum deyð.    
Das Blümelein, so kleine, 
das duftet uns so süß;
mit seinem hellen Scheine
vertreibt’s die Finsternis.
Wahr’r Mensch und wahrer Gott!
Hilft uns aus allem Leide,
rettet von Sünd’ und Tod.
 
Matthías Jochumsson
 

Enginn veit hver samdi upphaflega textann. Hann birtist fyrst í Gebetbuchlein des Frater Conradus, útg. 1582 eða 1588. Þá var þetta 19 erinda kaþólskur sálmur með áherslu á Maríu mey, sem er líkt við þá dularfullu rós sem Salómon konungur lofsyngur í sínum Ljóðaljóðum: “Ég er rós í Saron, lilja í dölunum.” Sálmurinn er talinn upprunninn í Trier og honum tengist sú saga að munkur í borginni hafi fundið blómstrandi rós úti í skógi, á jólanótt. Hann setti rósina í vasa á altari Maríu meyjar. Sumar heimildir benda til að sálminn megi rekja allt aftur til 14. aldar.

Mótmælendur tóku svo þennan sálm upp og áherslan færðist af Maríu til Jesú, með tilvísun í Jesaja 11:1. Ættartré Jesse / Ísaí er oft sýnt í miðaldaverkum sem rósarunni. Reyndar hefur verið bent á að óvíst sé hvort í upphafi sálmsins eigi að vera Ros (rós) eða Reis (grein).

 

PraetoriusHin lúterska gerð sálmsins, eins og hann þekkist í dag, birtist fyrst í einu af níu binda verki Þjóðverjans Michaels Praetorius, Musae Sioniae árið 1609. Fyrir misskilning er Praetorius stundum eignað lagið. Flestir telja þó að þetta sé þjóðlag sem Praetorius hafi einungis útsett. Útsetning hans á Es ist ein Ros entsprungen er sú sem oftast heyrist þótt fleiri hafi útsett lagið (t.d. Brahms).

Praetorius þessi (1571-1621) var sonur lútersks prests og starfaði lengst af sem organisti í Frankfurt og Wolfenbüttel, þótt hann hefði háskólamenntun bæði í guðfræði og heimspeki. Hann var mikilvirkt tónskáld og útsetti líka fjölda verka fyrir flutning í kirkjum.

 

 

Það verður að segjast eins og er að þótt mér finnist lagið undurfagurt þá hef ég aldrei verið sérlega hrifin af texta Matthíasar, fremur en öðrum hans ljóðum. Því er gott til þess að vita að til er mjög fallegur jólasálmur, eftir sr. Sigurð Einarsson í Holti, sem sunginn er undir sama lagi. Þessari færslu lýkur á honum:

Enn bregður Drottins birtu
á byggðir sérhvers lands,
því líkn Guðs eilíf lifir
og leitar syndugs manns.
Þú birtist, jólabarn,
sem æðsta ástgjöf Drottins
og ímynd veru hans.
Allt böl og stríð skal batna,
oss brosir Drottins náð.
Öll sorg og kvöl skal sefast,
öll synd skal burtu máð.
Ó, blessað jólabarn!
Þér föllum vér til fóta
og felum allt vort ráð.
Sigurður Einarsson í Holti
Jesúbarnið