Ég var búin að velta fyrir mér nokkrum öðrum titlum á þessa færslu, t.d. „Helgar tilgangurinn alltaf meðalið?“ eða „Ábyrgð kennara á birtu efni nemenda“ eða „Eru engin takmörk fyrir því hvernig kennarar beita nemendum sínum fyrir málstaðinn?“ o.s.fr. Hér verður fjallað um efni nemenda í KYN 103 í Borgarholtsskóla og fjölmiðlaáföngum í MA og spurt hver sé ábyrgð kennara þegar efni nemenda birt í fjölmiðlum er hluti af námsmati í áfanga/fagi. Dæmin eiga það sameiginlegt að kennararnir eru femínistar sem telja „vitundarvakningu“ (orð Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur, kennara í KYN 103, í símtali í dag) eða að vekja athygli á kynjamisrétti (óbein tilvitnun í Geir Hólmarsson, kennara í fjölmiðlun í MA) réttlæti opinbera birtingu á óvönduðu efni eftir nemendur í fjölmiðlum/netmiðlum. Ég tek skýrt fram að ég hef ekki ástæðu til annars en að ætla að báðir þessir kennarar séu mjög góðir kennarar, heitir hugsjónamenn og frumkvöðlar á sínu sviði.
Sem dyggur lesandi Knúzsins rak ég augun í grein eftir nemanda í KYN 103 sem birtist í dag. Greinin heitir Þetta sjúka samfélag og fjallar um klámvæðinguna miklu sem ku dafna vel akkúrat núna. Í greininni eru margar sláandi staðhæfingar en þær eru hins vegar ýmist rangar eða máli verulega hallað. Engin krafa virðist hafa verið gerð um vandaða heimildavinnu eða gagnrýna hugsun og ég hlýt því, sem framhaldsskólakennari með aldafjórðungs reynslu, m.a. reynslu í því að reyna að kenna nemendum að nota heimildir skynsamlega og hugsa eilítið út fyrir gúgulrammann, að furða mig á opinberri birtingu svo illa unnins texta. Má nefna að í greininni er því slegið fram að „4 ára litlar stelpur geta nú fengið PINK eða Hello Kitty g-strengi í Hagkaupum“. Ég spurðist fyrir um þetta í Hagkaup og afgreiðslufólk kannast ekki við að selja þessar vörur. Í greininni er vitnað í niðurstöður kannana án þess að merkt verði að ritandi textans hafi skoðað þessar kannanir.
Í norrænu netkönnuninni á klámsskoðun unglinga, Unge, køn og pornografi i Norden. Kvantitative studier, útg. Norræna ráðherranefndin 2007, var í rauninni mest sláandi hve lítill hluti íslenska úrtaksins svaraði könnuninni en svarhlutfall var einungis 23% (323 af 1428), „which under most circumstances would be unacceptable“ segir í skýrslunni um þessa könnun. Það er því spurning hversu mikið mark eigi að taka á þessari könnun. Ein niðurstaða könnunarinnar var að 71% svarenda vildu að klám yrði gert löglegt hér á landi og raunar eru bæði stelpurnar og strákarnir almennt jákvæð í garð kláms í svörum sínum. Ýmsar staðhæfingar um þessa könnun í grein nemandans eru rangar eða villandi, t.d.
- „Það sem þykir hinsvegar mjög athyglisvert er að ungmennin töldu sig líka hafa séð klám í allskonar dagblöðum og öðrum óaldurstakmörkuðum tímaritum“ en í skýrslunni kemur fram að um 50 svarendur höfðu rekist á klám í farsíma, í dagblöðum og í venjulegum tímaritum, síðan er þess getið til skýringar að DV prenti auglýsingar um símasex en að öðru leyti vekja svör þessara fáu þátttakenda ekki eftirtekt.
- „Flestum stelpum fannst klám ógeðfellt og leiða til nauðgana á meðan strákum fannst ekkert athugavert við það og sögðu að það gæfi þeim góðar upplýsingar um kynlíf.“ 17 strákar (5,3%) og 59 stelpur (18,3%) hökuðu við möguleikann á að klám leiddi til nauðgana, 17 strákar (5,3%) og 73 stelpur (22,6%) hökuðu við að klám væri ógeðslegt.
- „Í könnuninni kom í ljós að 1 af hverjum 5 strákum sér klám daglega en aðeins 2% af stelpum sögðust sjá klám það oft.“ Í könnuninni merktu 26 strákar (8%) og 4 stelpur (1,2%) við að sjá klám „nánast daglega“.
- „Strákar þóttu líka líklegri til þess að hafa prófað eitthvað sem þeir höfðu séð í klámmyndum.“ Þetta kemur ekki fram í niðurstöðuskýrslunni um könnunina.
- „Stelpurnar sögðu að klámið fyllti þær ótta við að standa ekki undir þeim væntingum og kröfum sem gerðar eru til þeirra í rúminu.“ 47 stelpur (14,6%) og 22 strákar (6,8%) merktu við þennan möguleika.
Tilvitnun í tólf ára gamla rannsókn sem sýndi að 20% fimm ára amrískra stúlkubarna væru hrædd um að vera of feit er ónákvæm, því það sem rannsóknin sýndi aðallega voru tengsl milli megrunarorðræðu mæðra og fimm ára dætra þeirra. (Sjálfri finnst mér mun merkilegra að 20% þessara fimm ára stúlkubarna voru of þung eða akfeit og að 70% mæðranna voru of þungar eða akfeitar.)
Staðhæfing nemandans í KYN 103 í þessu nemendaverkefni, mögulega niðurstaða hans: „Strákar eru margir orðnir það heilaþvegnir af klámi að þeir þurfa að horfa á klám á meðan þeir stunda samfarir – sem ætti að teljast frekar móðgandi í garð stelpnanna“ er að mínu mati heilaspuni.
Ég hef gert heldur smásmugulega grein fyrir rangfærslum í þessari grein sem birtist á Knúzinu í dag en álíka greinar hafa birst af og til í fjölmiðlum í heilt ár enda er ritun blaðagreinar þáttur í námsmati í KYN 103 í Borgarholtsskóla, vegur 10% af einkunn að sögn kennarans, Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur. (Sjá t.d. Kynjafræði í framhaldsskólum í Fréttablaðinu 6. desember 2011 eða Kynferðisleg áreitni- hvað er það? á Knúz.is 2. nóv. 2012.)
Allir kennarar þekkja að nemendur skila misvel unnum verkefnum og baráttan við að efla gagnrýna hugsun þeirra og kunnáttu í að greina milli gúgul-slúðurs (eða bara slúðurs, eins og í greininni sem ég var að fjalla um) og tækra heimilda er oft á tíðum erfið. En ef það er gert að hluta námsmats að birta efni í fjölmiðli (netmiðlar eru þar meðtaldir) hlýtur að verða að gera þá kröfu til kennarans að hann sjái til þess að að efnið sé tækt til birtingar. Um þetta erum við Hanna Björg Vilhjálmsdóttir ósammála því í símtali við hana í dag kom fram að vitundarvakning væri aðalatriði, þetta sem ég hef fundið að væru smáatriði. Þegar ég spurði hana hvort gæti ekki verið að verslunin Hagkaup tæki það óstinnt upp að í birtri grein í fjölmiðli væri staðhæft að verslunin seldi g-strengi fyrir fjögurra ára gamlar stelpur sagði Hanna Björg að það gæti svo sem verið að það væri ekki sannleikanum samkvæmt en Hagkaup hefði á sínum tíma selt boli fyrir litlar stelpur með áletruninni „I’m a Porn Star“, það hefðu foreldrar sagt henni. Því miður finnur Gúgull frændi ekki barnaboli með þessari áletrun og ég þekki ekki þessa foreldra sem eru heimild Hönnu Bjargar, fyrir svo utan það að þetta eru ekki tæk rök fyrir að ósönn fullyrðing um sölu g-strengja fyrir smástelpur sé í lagi.
Hitt dæmið sem ég nefni í þessari færslu eru nethamfarir sem urðu eftir að nemendahópur í fjölmiðlun í Menntaskólanum á Akureyri birti frásögn af dónalegu orðfæri 18 ára samnemanda, orðum sem hann lét falla á einhvers konar íþróttauppistandsdegi í MA. Gargendur á netinu ætluðu af göflunum að ganga og 18 ára dónalegi pilturinn sá sig knúinn til að biðjast opinberlega afsökunar. (Ég tengi ekki í fréttir og netumræðu og nethamfarir sem af þessu spunnust því mér finnst óþarft að halda nafni delikventsins dónalega á lofti.) Allir sem hafa starfað við framhaldsskóla vita að nemendur haga sér ekki alltaf eins og gestir í ensku teboði og á stundum er menntaskólahúmor sérdeilis grófur. Það er ekki ætlun mín að bera í bætiflákann fyrir þennan pilt en ég set stórt spurningarmerki við útreiðina sem hann hlaut á netinu og það sem hratt henni á stað.
Í einhverjum af fjölmiðlaáföngunum í MA reka nokkrir hópar nemenda fréttavefi, þ.á m. emmafrettir.com. Þar birtist frétt um dónaskap piltsins en þeirri frétt hefur nú verið eytt og jafnframt er búið að bæta við titil vefjarins að hann sé „Fréttasíða óháð Menntaskólanum á Akureyri”. Upplýsingar um hverjir standa að síðunni eru ekki aðgengilegar. Í fréttinni var pilturinn nafngreindur og birt mynd af honum en fréttin var ekki skrifuð undir nöfnum heldur upphafsstöfum fjölmiðlunarnemanna. Í viðtali við DV þann 9. nóvember sl. er haft eftir kennaranum:
„Hér er því um að ræða samfélagslega ábyrga nemendur sem stendur ekki á sama um menningu og brag skóla síns. Þeir ætla ekki að þola kynjamisrétti eða að einhver niðurlægi eða hefji sig upp á kostnað annarra,“ segir Geir Hólmarsson, kennari félagsgreina við Menntaskólann á Akureyri. Hann segir skólafréttasíðuna, sem afhjúpaði pilt við skólann í dag fyrir niðrandi ummæli hans í garð stúlkna á Íþróttadegi skólans, vera hluta af áfanga í fjölmiðlafræði.
Umrædd síða er að sögn Geirs ein af þremur sem reknar eru í tengslum við áfanga í skólanum á þessari önn. Nemendurnir, sem allir séu í fjórða bekk MA, hafi ákveðið að taka málin í sínar eigin hendur, draga piltinn til ábyrgðar á gjörðum sínum og axla svo sjálf ábyrgð á afhjúpuninni.
„Þeim fannst það standa þeim nær að taka á málinu heldur en að vísa því alltaf til skólameistara eða kennara,“ segir Geir.„Þau vissu að ef þau myndu birta þessa frétt þá væri líkur á að henni yrði slegið upp.“
Þar sem þessi vefur, emmafrettir.com, er hluti af vinnuframlagi nemenda til einkunnar í fjölmiðlaáfanga hlýtur maður að gera þá kröfu að kennari áfangans axli ábyrgð á því sem þar birtist og afleiðingum birtingarinnar. Það gerir Geir Hólmarsson þó ekki heldur ásakar aðra fjölmiðla um að hafa tekið upp fréttina með nafngreiningu piltsins og mynd:
Það að fréttin rataði í aðra miðla setti þetta í annað samhengi og það sem keyrði málið út var umræðan á netsíðum í kjölfarið þar sem fólk afgreiddi hlutaðeigandi og ályktaði án þess að hafa nokkrar forsendur til þess. Það er eins og ekki sé tekið tillit til að drengurinn er ungur og hann er í framhaldsskóla. Því fylgir að maður gerir mistök og lærir af þeim. Hann baðst afsökunar og er orðin fyrirmynd en samt skapaðist mjög ósanngjörn [svo] refsiauki.
[- – -]
Jú, málið varð allt miklu sterkara af því að hann var nafngreindur. En var í lagi að fórna honum til að fá fram umræðu? Ég hef verið spurður að því.
(Það er herjað á ungmenni. Akureyri 17. nóvember 2012.)
Ég hef einmitt mikinn áhuga á að vita hvernig Geir Hólmarsson myndi svara spurningunni: Er í lagi að fórna mannorði nemanda til að fá fram umræðu? En það gerir hann ekki í þessu viðtali heldur fer undan á flæmingi. Í máli Geirs, í viðtalinu við Akureyri, kemur fram að það sé „búið að skjóta sendiboðana líka, þá sem greindu frá málinu. Það er líka athyglisvert að stelpurnar sem voru á þessu íþróttamóti og upplifðu heilmikil sárindi vegna brandaranna þorðu ekki að koma fram undir nafni.“ Hafi einhverjir sendiboðar sem greindu frá málinu verið skotnir hefur það verið utan sviðsljóss netmiðla því nöfn þeirra hafa hvergi birst og erfitt er að hæfa ósýnilegt fólk. Hins vegar get ég ekki betur séð en að kennarinn Geir Hólmarsson hafi sjálfur gefið veiðileyfi á þennan 18 ára dónalega strák. Ég á erfitt að sjá fyrir mér að slíkt yrði liðið í þeim skóla sem ég starfa í en kannski eru samkennarar sáttfúsari í Menntaskólanum á Akureyri.
Af þessum tveimur dæmum sem ég hef rakið hér að ofan má ætla að sé vitundarvakning í þágu góðs málstaðar æskileg skipti ekki máli hversu vönduð eða siðleg vinnubrögð sjáist í opinberlega birtum nemendaverkefnum. Hlutverk kennarans er ekki lengur að leiðbeina um góð vinnubrögð og axla ábyrgð á sinni kennslu (námsmat og verkefnavinna er hluti kennslu) heldur að ota þeirri vinnu nemenda sem samrýmist hugsjón kennarans í fjölmiðla, burtséð frá gæðum og burtséð frá afleiðingunum: Aðalatriðið er að láta nemendur vitna (í anda Hjálpræðishersins)!