Um femíníska kennslu

Fem�nistamerkiÉg var búin að velta fyrir mér nokkrum öðrum titlum á þessa færslu, t.d. „Helgar tilgangurinn alltaf meðalið?“ eða „Ábyrgð kennara á birtu efni nemenda“ eða „Eru engin takmörk fyrir því hvernig kennarar beita nemendum sínum fyrir málstaðinn?“ o.s.fr. Hér verður fjallað um efni nemenda í KYN 103 í Borgarholtsskóla og fjölmiðlaáföngum í MA og spurt hver sé ábyrgð kennara þegar efni nemenda birt í fjölmiðlum er hluti af námsmati í áfanga/fagi. Dæmin eiga það sameiginlegt að kennararnir eru femínistar sem telja „vitundarvakningu“ (orð Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur, kennara í KYN 103, í símtali í dag) eða að vekja athygli á kynjamisrétti (óbein tilvitnun í Geir Hólmarsson, kennara í fjölmiðlun í MA) réttlæti opinbera birtingu á óvönduðu efni eftir nemendur í fjölmiðlum/netmiðlum. Ég tek skýrt fram að ég hef ekki ástæðu til annars en að ætla að báðir þessir kennarar séu mjög góðir kennarar, heitir hugsjónamenn og frumkvöðlar á sínu sviði.

Sem dyggur lesandi Knúzsins rak ég augun í grein eftir nemanda í KYN 103 sem birtist í dag. Greinin heitir Þetta sjúka samfélag og fjallar um klámvæðinguna miklu sem ku dafna vel akkúrat núna. Í greininni eru margar sláandi staðhæfingar en þær eru hins vegar ýmist rangar eða máli verulega hallað. Engin krafa virðist hafa verið gerð um vandaða heimildavinnu eða gagnrýna hugsun og ég hlýt því, sem framhaldsskólakennari með aldafjórðungs reynslu, m.a. reynslu í því að reyna að kenna nemendum að nota heimildir skynsamlega og hugsa eilítið út fyrir gúgulrammann, að furða mig á opinberri birtingu svo illa unnins texta. Má nefna að í greininni er því slegið fram að „4 ára litlar stelpur geta nú fengið PINK eða Hello Kitty g-strengi í Hagkaupum“. Ég spurðist fyrir um þetta í Hagkaup og afgreiðslufólk kannast ekki við að selja þessar vörur. Í greininni er vitnað í niðurstöður kannana án þess að merkt verði að ritandi textans hafi skoðað þessar kannanir.

Í norrænu netkönnuninni á klámsskoðun unglinga, Unge, køn og pornografi i Norden. Kvantitative studier, útg. Norræna ráðherranefndin 2007, var í rauninni mest sláandi hve lítill hluti íslenska úrtaksins svaraði könnuninni en svarhlutfall var einungis 23% (323 af 1428), „which under most circumstances would be unacceptable“ segir í skýrslunni um þessa könnun. Það er því spurning hversu mikið mark eigi að taka á þessari könnun. Ein niðurstaða könnunarinnar var að 71% svarenda vildu að klám yrði gert löglegt hér á landi og raunar eru bæði stelpurnar og strákarnir almennt jákvæð í garð kláms í svörum sínum. Ýmsar staðhæfingar um þessa könnun í grein nemandans eru rangar eða villandi, t.d.

  • „Það sem þykir hinsvegar mjög athyglisvert er að ungmennin töldu sig líka hafa séð klám í allskonar dagblöðum og öðrum óaldurstakmörkuðum tímaritum“ en í skýrslunni kemur fram að um 50 svarendur höfðu rekist á klám í farsíma, í dagblöðum og í venjulegum tímaritum, síðan er þess getið til skýringar að DV prenti auglýsingar um símasex en að öðru leyti vekja svör þessara fáu þátttakenda ekki eftirtekt.
  • „Flestum stelpum fannst klám ógeðfellt og leiða til nauðgana á meðan strákum fannst ekkert athugavert við það og sögðu að það gæfi þeim góðar upplýsingar um kynlíf.“  17 strákar (5,3%) og 59 stelpur (18,3%) hökuðu við möguleikann á að klám leiddi til nauðgana, 17 strákar (5,3%) og 73 stelpur (22,6%) hökuðu við að klám væri ógeðslegt.
  • „Í könnuninni kom í ljós að 1 af hverjum 5 strákum sér klám daglega en aðeins 2% af stelpum sögðust sjá klám það oft.“ Í könnuninni merktu 26 strákar (8%) og 4 stelpur (1,2%) við að sjá klám „nánast daglega“.
  • „Strákar þóttu líka líklegri til þess að hafa prófað eitthvað sem þeir höfðu séð í klámmyndum.“ Þetta kemur ekki fram í niðurstöðuskýrslunni um könnunina.
  • „Stelpurnar sögðu að klámið fyllti þær ótta við að standa ekki undir þeim væntingum og kröfum sem gerðar eru til þeirra í rúminu.“ 47 stelpur (14,6%) og 22 strákar (6,8%) merktu við þennan möguleika.

Tilvitnun í tólf ára gamla rannsókn sem sýndi að 20% fimm ára amrískra stúlkubarna væru hrædd um að vera of feit er ónákvæm, því það sem rannsóknin sýndi aðallega voru tengsl milli megrunarorðræðu mæðra og fimm ára dætra þeirra. (Sjálfri finnst mér mun merkilegra að 20% þessara fimm ára stúlkubarna voru of þung eða akfeit og að 70% mæðranna voru of þungar eða akfeitar.)

Staðhæfing nemandans í KYN 103 í þessu nemendaverkefni, mögulega niðurstaða hans: „Strákar eru margir orðnir það heilaþvegnir af klámi að þeir þurfa að horfa á klám á meðan þeir stunda samfarir – sem ætti að teljast frekar móðgandi í garð stelpnanna“ er að mínu mati heilaspuni.
 

Fem�nistatáknÉg hef gert heldur smásmugulega grein fyrir rangfærslum í þessari grein sem birtist á Knúzinu í dag en álíka greinar hafa birst af og til í fjölmiðlum í heilt ár enda er ritun blaðagreinar þáttur í námsmati í KYN 103 í Borgarholtsskóla, vegur 10% af einkunn að sögn kennarans, Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur. (Sjá t.d. Kynjafræði í framhaldsskólum í Fréttablaðinu 6. desember 2011 eða Kynferðisleg áreitni- hvað er það? á Knúz.is 2. nóv. 2012.)

Allir kennarar þekkja að nemendur skila misvel unnum verkefnum og baráttan við að efla gagnrýna hugsun þeirra og kunnáttu í að greina milli gúgul-slúðurs (eða bara slúðurs, eins og í greininni sem ég var að fjalla um) og tækra heimilda er oft á tíðum erfið. En ef það er gert að hluta námsmats að birta efni í fjölmiðli (netmiðlar eru þar meðtaldir) hlýtur að verða að gera þá kröfu til kennarans að hann sjái til þess að að efnið sé tækt til birtingar. Um þetta erum við Hanna Björg Vilhjálmsdóttir ósammála því í símtali við hana í dag kom fram að vitundarvakning væri aðalatriði, þetta sem ég hef fundið að væru smáatriði. Þegar ég spurði hana hvort gæti ekki verið að verslunin Hagkaup tæki það óstinnt upp að í birtri grein í fjölmiðli væri staðhæft að verslunin seldi g-strengi fyrir fjögurra ára gamlar stelpur sagði Hanna Björg að það gæti svo sem verið að það væri ekki sannleikanum samkvæmt en Hagkaup hefði á sínum tíma selt boli fyrir litlar stelpur með áletruninni „I’m a Porn Star“, það hefðu foreldrar sagt henni. Því miður finnur Gúgull frændi ekki barnaboli með þessari áletrun og ég þekki ekki þessa foreldra sem eru heimild Hönnu Bjargar, fyrir svo utan það að þetta eru ekki tæk rök fyrir að ósönn fullyrðing um sölu g-strengja fyrir smástelpur sé í lagi.
 

Hitt dæmið sem ég nefni í þessari færslu eru nethamfarir sem urðu eftir að nemendahópur í fjölmiðlun í Menntaskólanum á Akureyri birti frásögn af dónalegu orðfæri 18 ára samnemanda, orðum sem hann lét falla á einhvers konar íþróttauppistandsdegi í MA. Gargendur á netinu ætluðu af göflunum að ganga og 18 ára dónalegi pilturinn sá sig knúinn til að biðjast opinberlega afsökunar. (Ég tengi ekki í fréttir og netumræðu og nethamfarir sem af þessu spunnust því mér finnst óþarft að halda nafni delikventsins dónalega á lofti.) Allir sem hafa starfað við framhaldsskóla vita að nemendur haga sér ekki alltaf eins og gestir í ensku teboði og á stundum er menntaskólahúmor sérdeilis grófur. Það er ekki ætlun mín að bera í bætiflákann fyrir þennan pilt en ég set stórt spurningarmerki við útreiðina sem hann hlaut á netinu og það sem hratt henni á stað.

Í einhverjum af fjölmiðlaáföngunum í MA reka nokkrir hópar nemenda fréttavefi, þ.á m. emmafrettir.com. Þar birtist frétt um dónaskap piltsins en þeirri frétt hefur nú verið eytt og jafnframt er búið að bæta við titil vefjarins að hann sé „Fréttasíða óháð Menntaskólanum á Akureyri”. Upplýsingar um hverjir standa að síðunni eru ekki aðgengilegar. Í fréttinni var pilturinn nafngreindur og birt mynd af honum en fréttin var ekki skrifuð undir nöfnum heldur upphafsstöfum fjölmiðlunarnemanna. Í viðtali við DV þann 9. nóvember sl. er haft eftir kennaranum:

„Hér er því um að ræða samfélagslega ábyrga nemendur sem stendur ekki á sama um menningu og brag skóla síns. Þeir ætla ekki að þola kynjamisrétti eða að einhver niðurlægi eða hefji sig upp á kostnað annarra,“ segir Geir Hólmarsson, kennari félagsgreina við Menntaskólann á Akureyri. Hann segir skólafréttasíðuna, sem afhjúpaði pilt við skólann í dag fyrir niðrandi ummæli hans í garð stúlkna á Íþróttadegi skólans, vera hluta af áfanga í fjölmiðlafræði.

Umrædd síða er að sögn Geirs ein af þremur sem reknar eru í tengslum við áfanga í skólanum á þessari önn. Nemendurnir, sem allir séu í fjórða bekk MA, hafi ákveðið að taka málin í sínar eigin hendur, draga piltinn til ábyrgðar á gjörðum sínum og axla svo sjálf ábyrgð á afhjúpuninni.
„Þeim fannst það standa þeim nær að taka á málinu heldur en að vísa því alltaf til skólameistara eða kennara,“ segir Geir.

„Þau vissu að ef þau myndu birta þessa frétt þá væri líkur á að henni yrði slegið upp.“

Þar sem þessi vefur, emmafrettir.com, er hluti af vinnuframlagi nemenda til einkunnar í fjölmiðlaáfanga hlýtur maður að gera þá kröfu að kennari áfangans axli ábyrgð á því sem þar birtist og afleiðingum birtingarinnar. Það gerir Geir Hólmarsson þó ekki heldur ásakar aðra fjölmiðla um að hafa tekið upp fréttina með nafngreiningu piltsins og mynd:

Það að fréttin rataði í aðra miðla setti þetta í annað samhengi og það sem keyrði málið út var umræðan á netsíðum í kjölfarið þar sem fólk afgreiddi hlutaðeigandi og ályktaði án þess að hafa nokkrar forsendur til þess. Það er eins og ekki sé tekið tillit til að drengurinn er ungur og hann er í framhaldsskóla. Því fylgir að maður gerir mistök og lærir af þeim. Hann baðst afsökunar og er orðin fyrirmynd en samt skapaðist mjög ósanngjörn [svo] refsiauki.
[- – -]
Jú, málið varð allt miklu sterkara af því að hann var nafngreindur. En var í lagi að fórna honum til að fá fram umræðu? Ég hef verið spurður að því.
(Það er herjað á ungmenni. Akureyri 17. nóvember 2012.)

Ég hef einmitt mikinn áhuga á að vita hvernig Geir Hólmarsson myndi svara spurningunni: Er í lagi að fórna mannorði nemanda til að fá fram umræðu? En það gerir hann ekki í þessu viðtali heldur fer undan á flæmingi. Í máli Geirs, í viðtalinu við Akureyri, kemur fram að það sé „búið að skjóta sendiboðana líka, þá sem greindu frá málinu. Það er líka athyglisvert að stelpurnar sem voru á þessu íþróttamóti og upplifðu heilmikil sárindi vegna brandaranna þorðu ekki að koma fram undir nafni.“ Hafi einhverjir sendiboðar sem greindu frá málinu verið skotnir hefur það verið utan sviðsljóss netmiðla því nöfn þeirra hafa hvergi birst og erfitt er að hæfa ósýnilegt fólk. Hins vegar get ég ekki betur séð en að kennarinn Geir Hólmarsson hafi sjálfur gefið veiðileyfi á þennan 18 ára dónalega strák. Ég á erfitt að sjá fyrir mér að slíkt yrði liðið í þeim skóla sem ég starfa í en kannski eru samkennarar sáttfúsari í Menntaskólanum á Akureyri.

Fem�nistamerkiAf þessum tveimur dæmum sem ég hef rakið hér að ofan má ætla að sé vitundarvakning í þágu góðs málstaðar æskileg skipti ekki máli hversu vönduð eða siðleg vinnubrögð sjáist í opinberlega birtum nemendaverkefnum. Hlutverk kennarans er ekki lengur að leiðbeina um góð vinnubrögð og axla ábyrgð á sinni kennslu (námsmat og verkefnavinna er hluti kennslu) heldur að ota þeirri vinnu nemenda sem samrýmist hugsjón kennarans í fjölmiðla, burtséð frá gæðum og burtséð frá afleiðingunum: Aðalatriðið er að láta nemendur vitna (í anda Hjálpræðishersins)! 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Þankar um femínisma, pjatt og froðu

 Tákn fem�nistaNethamfarir dagsins snérust um auglýsingu Kvikmyndaskóla Íslands þar sem notuð var mynd af jólavaralitun, sem einhverjum þótti klámfengin og texti auglýsingarinnar auk þess tvíræður: Svo alvarlegt var málið að Fr. Lilliendahl sá sig knúna til að skrifa opið bréf til skólastjórans og birta það á Knúzinu. Þetta vakti mig til umhugsunar … hvorki þó um Kvikmyndaskólann né jólavaralitun heldur um merki femínista.

Tákn kvennaFemínistatáknið puntar þessa bloggfærslu efst. Ég held að það sé ekki sérlega gamalt en ítarleg gúgglun skilaði fáum upplýsingum um sögu táknsins. Það er samsett úr tákni kvenna og krepptum hnefa, líklega er fyrirmyndin að hnefanum fengin úr réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á seinni hluta síðustu aldar. Kvennatáknið notaði grasafræðingurinn Linné fyrstur markvisst fyrir kvenkyns, í sínum flokkunarfræðum. En merkið sjálft er gamalt, táknaði reikistjörnuna Venus og í fræðum alkemista stóð það fyrir kopar. Táknið er afleitt úr gríska f-stafnum því Venus kallaðist Fosfóros (Ljósberi) sem morgunstjarna. (Frekari upplýsingar um þetta má lesa hér.)

Venus með spegilFæðing Venus eftir IngresKvennatáknið er tengt Venus á fleiri máta en reikistjörnunni Venus. Það er talið eiga að tákna spegil gyðjunnar Venus, lítinn handspegil. Venus var mikil pjattrófa eins og sést á myndunum hér til hliðar: Myndin af Venus með spegilinn er af styttu frá 1. eða 2. öld eftir Krist sem komst í eigu Freud, hin er af málverki Ingres, Venus Anadyomene, þar sem Venus er nýsköpuð að greiða á sér hárið upp úr bárulaugunum … (Áhugaverða túlkun á hvað vantar á styttuna frægu af Venus frá Míló má sjá hér – en athugið að þetta er grein frá 1908.)

Venus var frjósemisgyðja Rómverja og samsvaraði Afródítu hjá Grikkjum. Venus stóð fyrir ást, fegurð, kynlíf, frjósemi, ríkidæmi og sigur. Nafn hennar, venus, þýðir á latínu losti eða erótísk ást. Hún var sköpuð úr sjávarlöðri, sem sagt froðu.
 

Sú gyðja í norrænni goðatrú sem samsvarar þeim Venus og Afródítu er Freyja. Freyja var lauslát með afbrigðum (eins og þær Venus og Afródíta) og átti nokkra góða gripi, ekki þó spegil. Í eigu hennar eru m.a. tveir kettir sem draga vagninn hennar. Það er því vel við hæfi að eini femínisti þessa heimilis sé felina docta – hún er að vísu nýfemínisti.

Niðurstaðan? Ja, tákn femínista er samsett úr krepptum hnefanum blökkumanna og tákni kvenna, sem rekja má til lauslátrar hégómlegrar gyðju sem sköpuð var úr froðu einni saman …
 
 

Hrakspá sem ekki gengur eftir

Erkitýpa þunglyndissjúklingsÍ morgun fór ég og talaði við ráðgjafa hjá VIRK. Ég frétti af þessu fyrirbæri um daginn, heyrði fyrir tilviljun minnst á Starfsendurhæfingarsjóð í útvarpsviðtali, fór að gúggla og fann VIRK. Þetta var fínt viðtal og ég var ánægð að heyra af kostunum sem mér bjóðast hjá VIRK. Ég hef nefnilega sett mér það markmið að losa um örorkuhelsið og gerast að einhverju leyti nýtur þjóðfélagsþegn enda finnst mér ég hafa heilsu til þess.

Í hádeginu las ég yfir vottorð sem geðlæknirinn minn gaf út daginn áður en hann dömpaði mér. (Sjá Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs.) Hafði nú reyndar lesið þetta áður en þurfti að gá að ákveðnum upplýsingum … las fyrir manninn klausuna um álit læknisins á mínu heilsufari, að útséð sé að ég geti snúið aftur til starfa á þessum vetri til kennslu og ólíklegt að svo geti orðið á næsta ári … og hafði á orði við manninn að þetta væri afar svört spá (hún minnir mig dálítið á kollega minn forðum sem staglaðist æ oftar á hendingunum “Það bjargast ekki neitt/ það ferst, það ferst …” þegar líða tók á annirnar). Maðurinn sagði að bragði: Við hverju býstu? Hann getur náttúrlega ekki viðurkennt að þér hafi þá fyrst farið að batna þegar þú ákvaðst að hætta að taka lyfin sem hann hefur dælt í þig! Hm … ég ætla að ígrunda þetta.

En auðvitað er það ekki svo einfalt að mér hafi farið að batna einfaldlega við að ákveða að hætta að taka lyf. Fyrir svo utan það að ég er alls ekki hætt að taka lyf, á eftir síðustu flísina af Rivotrili, ca. 6 mg, og ætla ekki að hrófla við Míron fyrr en í lúshægri niðurtröppun svona í apríl, eftir að hafa lesið “case study” grein um sjúkling sem snögghætti að taka Míron  Mér fór að batna þegar ég áttaði mig á því að þær hefðbundnu geðlæknisaðferðir sem beitt hafði verið á mig höfðu ekki skilað neinum árangri og líklega oft verið til hins verra. Mér fór að batna þegar ég sá að ef ég tæki ekki mín mál í eigin hendur myndi mér aldrei batna. Mér fór að batna þegar ég ákvað að nota “kukl-aðferðir” á borð við sálfræðiaðstoð (svoleiðis aðstoð er ekki greidd af heilbrigðiskerfinu svo kerfið virðist ekki viðurkenna hana, þó stundum sé í orði en örugglega ekki á borði), sumt úr aðferðum AA og loks að afla mér þekkingar á hversu haldbær vísindaleg rök lægju að baki lyfjasulli við þunglyndi.

Það er ekki einfalt mál að kúvenda eigin skoðunum og horfast í augu við heilaþvott og eigin fordóma. En það er hægt. Þetta gengur, hægt og bítandi.

Það sem mér veitist erfiðast er að skoða eigin sjúkrasögu. Ég verð reið, bitur og sorgmædd. Þess vegna skoða ég hana í smáskömmtum og læt líða tíma á milli. Sem stendur er ég að skoða áhrif tveggja raflostsmeðferða (raflækninga), eftirköst þeirra og lyfjagjöfina á undan og eftir. Sá bútur er hryllingssaga, að mínu mati. En ég álít að til þess að öðlast frelsi frá því sem ég hef reynt þurfi ég að skoða þetta, ná einhvers konar fjarlægð frá viðfangsefninu (æðruleysi væntanlega) og losna við reiði, biturð og sorg. Þá hef ég traustan grunn til að byggja á. Þetta er í meginatriðum líkt og fyrstaspors vinna í AA fræðum.

Það er minna mál að gera þá litlu en mikilvægu hluti sem skipta máli dagsdaglega, eins og að fara örugglega í labbitúr (ef hreyfing skyldi virka á þunglyndi), að leggja sig ekki á daginn (ég er að læra að sofa upp á nýtt, eftir áralanga notkun Rivotrils og langvarandi notkun svefnlyfs … er að verða fullnuma í þeirri list), að hafa hugsanavillur í huga og leiðrétta hugsanaskekkjur, að hafa sem mest fyrir stafni o.s.fr.

Það er nákvæmlega ekkert mál að setja sig inn í grundvöll lyflækninga í geðlækningum, ekki heldur lostin. Með landsaðgangi opnaðist greið leið að sömu læknatímaritum og læknarnir lesa (þetta er nokkuð sem ég held að læknar átti sig alls ekki á) og kunni maður á annað borð að greina milli fræðilegs efnis og gúgulslúðurs tekur ekki langan tíma að átta sig sig á “fræðasviðinu”. Raunar var ég búin að fatta talsverðu áður hvernig best væri að sigta út viðurkennd fræði og hismið og hvernig borgar sig ævinlega að gá að tengslum höfunda greina og rannsóknarskýrsla við lyfjafyrirtæki og framleiðendur rafmagnsgræja ætluðum þunglyndum. Til hægðarauka þunglyndissjúklingi sem vill setja sig inn í eigin sjúkdóm og vestrænar læknisaðgerðir við honum eru margar bækur sem komið hafa út um efnið í seinni tíð.

Það skiptir mig engu máli þótt síðasta vottorð geðlæknisins míns til tólf ára feli í sér svartnættisspá fyrir sjúklinginn mig. Það skiptir mig öllu máli að ég hef í áraraðir ekki verið jafnfrísk á þessum árstíma og nú. Þótt nístandi tómleikakenndin bæri á sér suma daga, með tilheyrandi jafnvægistruflunum, hefur mér til þessa tekist að vinna á henni og hver minn dagur síðan í aprílbyrjun hefur verið góður, kannski misgóðir dagar en ljósárum frá svartnættinu sem umlukti mig í 22 mánuði á undan. Af því komin er þetta löng reynsla og þetta langur góður tími finnst mér að draga megi þá ályktun að ég geti viðhaldið þessum bata með aðferðunum sem ég lýsti hér á undan.

Og af því ég er nýbúin að spjalla á kaffihúsi um sjúklingavæðinguna miklu skreytir þessa færslu næstvinsælasta gúgulmyndin af “depression”: Erkitýpa þunglyndissjúklings, sem er hnípin kona, sorgmædd, þreytt, grátandi … og sjálfsagt rosalega þæg. Ég er ekki svona og ætla ekki að vera það. Enda sökka erkitýpur!

  

FabLab og myndafíkn

Snjókorn skorið út með leisiStundum heyrir maður talað um tölvuleikjafíkla og netklámfíkla. En nethannyrðafíkn er ekki eins viðurkennd. Samt þekki ég margar konur sem eiga erfitt með að slíta sig úr hannyrðaskoðun á netinu. Sjálf missi ég mig gang på gang í að myndagúggla handavinnu: Get alveg setið daglangt við að skoða prjónaflíkur, prjónaaðferðir, prjónauppskriftir, prjónamyndbönd o.s.fr. Hef meira að segja dottið aðeins í hekl!

Nýja dellan er skefjalaus myndagúgglun þess sem hægt væri að brúka til að skera út í leisi-skera. Ég hafði mig loksins yfir götuna til að skoða FabLab í fyrradag. FabLabbið er ábyggilega búið að vera opið í tvö ár og ég hafði svona óljósa hugmynd um að þetta fyrirbæri væri til. Í síðustu viku fór svo kollegi minn á teikninámskeiðinu (ég sæki byrjendanámskeið í teikningu til Reykjavíkur, fæ væntanlega tvær framhaldsskólaeiningar fyrir en ykkur að segja er ég ekki efnileg á þessu sviði) að spyrja mig eitthvað út í FabLab (sem ég vissi ekkert um) og það dugði til hleypa í mig döngun: Ég fór og skoðaði FabLab í fyrradag og sá um leið hversu ótrúlega sniðug þessi smiðja er.

Nú er ég búin að hlaða niður teikniforritinu sem FabLab brúkar, í morgun vaknaði ég með a.m.k. tíu hugmyndir í hausnum og miðað við aðra hannyrðareynslu má ætla að ein eða tvær af tíu hugmyndum sé vel brúkleg. Og í dag hef ég hangið í tölvunni (fyrir utan geðræktarlabbitúrinn) og bölvað sjálfri mér fyrir að hafa aldrei nennt að læra vektorateikningu í myndvinnsluforritinu sem ég brúka dagsdaglega … og myndagúgglað alveg út í eitt! Það prjónast náttúrlega ekki á meðan og krókódílaheklið sem ég kenndi sjálfri mér um helgina verður að bíða aðeins. Ég hef ákveðið að nota sömu aðferð og gefst yfirleitt best, þ.e.a.s. “learning by doing”, sem þýðir að ég kenni sjálfri mér það í vektorateikningu og í nýja teikniforritinu   svona nokkurn veginn jafnóðum og ég þarf á hverri aðferð að halda. Þetta er seinleg aðferð til náms en á hinn bóginn situr betur í manni það sem maður lærir með henni.

Akkúrat núna sagði ég við sjálfa mig: Nú skaltu blogga um FabLab og leggjast svo á sófa með hitapoka og reyfara, það er ekkert vit að hanga lengur í tölvuskömminni! Og ég er að hugsa um að hlýða þessu … eru einhvers staðar til GHA samtök fyrir fólk með myndagúgglunarhannyrðafíkn?

Eins og í öðru gengur FabLabbið mér í haginn: Ég fékk tíma í leisi-skeranum laust fyrir miðjan desember og þá verð ég örugglega búin að hanna dótið sem mig langar að gera, sjá hvaða hugmyndir virka og hverjar virka ekki og kenna mér nóg á myndvinnsluforritin til að mæta með fullbúnar teikningar.

Myndin við færsluna sýnir leisi-skorið snjókorn. Ég ætla reyndar ekki að búa til neitt þessu líkt en það er gaman að skoða á vefnum hvað menn hafa verið að gera í svona græju, þannig fær maður hugmyndir.

Gengur allt í haginn

Blómstrandi AmaryllisLífið leikur við mig þessa dagana. Ég finn að vísu dálítið fyrir þunglyndinu en hefur tekist að höndla það nokkuð vel, a.m.k. hef ég ekki hrapað ofan í Helvítisgjána djúpu og myrku. Með því að halda mér fast í HAM-fróðleik, nota þau hollu bjargráð sem gefast í mínu nærumhverfi og standa mig í labbitúr dagsins er þunglyndið vel viðráðanlegt. Ég þarf ekki einu sinni að sparka í smádrekana sem dúkka upp á vegi mínum, þeir færa sig sjálfir. Það sem reynist mér ótrúlega vel þessa dagana er vefurinn Gedheilsa.net og blogg Lindu Rósar. T.d. las ég “Það er ekki hegðun annarra sem raskar ró þinni, heldur viðbrögð við þeirri hegðun!” akkúrat þegar ég þurfti á því slagorði að halda …  

Bara sem dæmi um hvernig allt gengur í haginn:

Ég fékk uppáskrifaða beiðni til sjúkraþjálfarans vegna kjálkaverkja sem ekkert lát er á. (Afþakkaði að fyrra bragði gabapentín og Lyrica enda hef ég prófað þau lyf og þau ollu hörmulegri líðan á sínum tíma … þau eru í safninu “alls konar lyf sem mætti prófa á þunglyndisjúklingi”.)  Sjúkraþjálfarinn var að fara í frí svo ég gat ekki fengið tíma strax. Svoleiðis að ég hringdi í hinn ágæta nuddara sem oft hefur hjálpað mér með ýmislegt, sagði honum að ég gæti bara alls ekki legið á nuddbekk með andlitið niður, út af þessum verkjum. Það er ekkert mál, sagð’ann, ég kem bara heim til þín og nudda þig við eldhúsborðið. Og það gerði hann … að vísu við stofuborðið því maðurinn var að elda kvöldmatinn. Hann fann ansi mikið af helaumum punktum en nuddið virkaði svolítið og ég hef þá trú að það muni þá á endanum virka. Nuddarinn heimsækir mig aftur 🙂 Og eftir nóttina í nótt er ég á því að svokallaður heilsukoddi eigi sinn þátt í þessum kjálkaverkjum … nú hendi ég honum inn í skáp og tek upp venjulega tveggja kodda sýstemið aftur.

Í morgun var hringt og tilkynnt að sálfræðitíminn sem ég átti á morgun félli því miður niður … og það var ansi langt þar til ég gat fengið og komist í næsta tíma. Þessi viðtöl við sálfræðinginn gagnast mér ótrúlega mikið svo ég tékkaði á lausum tíma hjá sama sálfræðingi í Reykjavík: Fékk tíma eftir viku, sem er aldeilis ágætt.

Fékk áðan tíma í litun og klippingu eins og skot en ég hef sannreynt að svoleiðis aðgerðir má meta til þriggja stiga á þunglyndiskvarða Beck’s 😉

Þess utan ganga samskipti við opinberar stofnanir prýðilega, ég mæti hvarvetna kurteisu viðmóti og það sem ég er garfa í virðist allt ætla að leysast algerlega átakalaust.

Og amaryllisinn í stofuglugganum er farinn að blómstra …

Lífið í Korsbæk

Maude VarnæsÁ laugardögum tek ég frá tímann milli sjö og átta til að horfa á Matador í danska sjónvarpinu. Ég hef horft á einhverjar tætlur af þessari seríu áður, minnir að hún hafi verið sýnd tvisvar í íslenska sjónvarpinu, en bæði missti ég af mörgum þáttum á sínum tíma og man ekki vel eftir þeim sem ég sá svo þetta er nánast nýtt fyrir mér.

Þættirnir voru fyrst sýndir í danska sjónvarpinu á árunum 1978-81 en eru endursýndir reglulega og alltaf jafn vinsælir: Þegar endursýning hófst núna kom í ljós að Matador var miklu vinsælla en landsleikur Dana í fótbolta! (Ég er svo sem ekkert hissa á því …)

Lífið í Korsbæk, uppdiktuðum bæ, á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar er ekta líf. Þótt Upstairs Downstairs þættirnir bresku hafi verið kveikja að Matador er síðarnefnda serían miklu líkari mannlífinu eins og flestir þekkja það. Persónur í Matador eru vissulega nokkuð ýktar sumar en samt held ég að flestir þekki einstaka drætti í persónusköpuninni úr sínu nærumhverfi. Í Matador er sögð almennileg saga með fjölbreyttum sögupersónum og það er auðvitað lykillinn að velgengni þáttanna. Hver nennir að horfa aftur og aftur á lélega sögu með gervikarakterum?

Uppáhaldspersónan mín er Maude Varnæs, sú sem sést á myndinni. Maude er óskaplega taugaveikluð og grípur gjarna til þess ráðs að leggjast í rúmið þegar eitthvað kemur henni úr jafnvægi. Í gær var dramatísk uppljóstrun sem hefði átt að leggja Maud í rúmið næstu vikurnar. En þá tók hún skyndilega á sig rögg … og mun sýna miklu meiri styrk héreftir. Ég veit ekki alveg af hverju ég held mest upp á Maude, til þessa hefur hún aðallega verið hlægilega móðursjúkt snobbhænsn. Kannski finnst mér svona varið í hana af því ég held að hún endurspegli erkitýpu þunglyndra kvenna, erkitýpu sem ég er alls ekki sátt við.

Sem betur fer er töluð eðaldanska í þessum þáttum, ég er nefnilega ekki nógu góð í dönsku til að horfa á ótextaðar myndir, a.m.k. ekki myndir sem eiga að gerast í nútímanum. Það væri samt gaman að eignast þessa þætti með dönskum texta … kannski kaupi ég þá einhvern tíma, þeir ku rokseljast enn þann dag í dag.

Neðst á þessari síðu eru nóturnar af titillaginu í Matador

Örblogg á degi íslenskrar tungu

Það er ekki allt jafn eymdarlegt í týndu árunum í lífi mínu. Þetta er úr bloggfærslu 15. júní 2006:

Drengbarnið: “Mig hlakkar svo til að fara til Krít.”

Ábyrg móðirin (= ég): “Ég hlakka svo til að fara til Krítar.

Drengbarnið (í skilningsríkum mæðutóni): “Já, hvern hlakkar ekki til? Krít er svo æðisleg.”

Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs

Ég hef heyrt sögur af geðlæknum sem vísa sjúklingum sínum á dyr tjái sjúklingarnir sig um sína sjúkrasögu og lesið beina tilvitnun í meðferðarsamning sem sjúklingi á geðsviði Landspítala var gert að undirrita þar sem kom fram að ef sjúklingur tjáði sig um meðferðina fengi hann ekki frekari meðferð (sjá færslurnar Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi? og Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi II?). Mér þótti þessi meðferðarsamningur þar sem sjúklingi er gert að afsala sér málfrelsi sem tryggt er í stjórnarskrá vera merkileg gjörð en hef haldið til skamms tíma að sagnir um geðlækna sem fleygja sjúklingum af því þeim hugnast ekki hvernig sjúklingarnir tjá sig væru kviksögur einar. En nú hef ég reynt þetta á eigin skinni og um það fjallar þessi bloggfærsla. Svo ég verði ekki sökuð um að „segja hálfsannleik“ eru mál rakin í talsverðum smáatriðum.
 

Frá árinu 2000 hefur Engilbert Sigurðsson verið geðlæknir minn, fyrst á stofu sem hann rak í nokkur ár. Engilbert lokaði stofunni árið 2004 þegar hann var gerður að yfirlækni á deild 32A á geðsviði Landspítala og frá þeim tíma hef ég sótt reglulega viðtöl við hann á göngudeild auk þess að hafa margoft verið lögð inn á deildina sem hann veitir forstöðu.

Ég hef bloggað um minn krankleik og læknismeðferð frá árinu 2004. Á tímabili hampaði Engilbert þessu bloggi við læknanema sem oft voru viðstaddir okkar göngudeildarviðtöl, allt þar til ég bað hann að hætta því. (Engilbert Sigurðsson hefur kennt læknanemum árum saman, hann er nú prófessor í geðlæknisfræðum við læknadeild HÍ.)

Í mars á þessu ári rann upp fyrir mér að ég myndi aldrei ná bata með þeim aðferðum sem reyndar hafa verið í meir en áratug, þ.e. lyfjagjöf og raflækningum. Ég hóf að skoða einstaka þætti þessara læknisaðferða og þróun sjúkdómsins (djúprar endurtekinnar geðlægðar án sturlunareinkenna, þ.e.a.s. svæsins þunglyndis). Ég nota sjúkraskýrslur og eigið blogg til verksins enda hafa meir en þrjú ár gersamlega þurrkast úr minni mínu, sem er afleiðing tveggja raflostmeðferða, og bæði sjúkdómurinn og mjög mikil lyfjagjöf hafa valdið miklum minnistruflunum. Um þessa vinnu og bráðabirgðaniðurstöður skrifaði ég nokkrar færslur, einnig hugleiðingar um erkitýpur þunglyndissjúklinga og hversu lífseigar hugmyndir um þær væru, um eigin fordóma og um hvernig væri að hætta á benzódíazepín lyfinu Rivotril sem mér hefur verið ávísað í 9 ár. Þessi skoðun á sögunni minni er einn þátturinn í nýrri leið sem ég reyni til að ná bata og virðist virka, velþekkt leið í bataferli óvirkra alkóhólista.

Þann 20. apríl sl. hringdi Engilbert Sigurðsson í mig síðla dags og tjáði óánægju sína með nokkrar bloggfærslur mínar. Mér skildist að aðallega væri hann ósáttur við tvennt: Að upplifun hans af sjúkdómi mínum væri ekki sú sama og upplifun mín og að ég léti þess ekki getið í bloggfærslum að ég hefði þegið viðtalsmeðferð hjá honum. Ég útskýrði fyrir honum að bloggfærslur snérust yfirleitt um eitt eða tvö umfjöllunarefni og þessar hefðu ekki snúist um viðtalsmeðferð, svo bauðst ég til að panta og greiða viðtalstíma ef hann vildi ræða þetta augliti til auglitis. Það vildi hann ekki en benti á að e.t.v. væri heppilegt fyrir mig að skipta um geðlækni. Ég þakkaði honum uppástunguna. Þetta var meir en klukkustundar langt símtal en að því loknu taldi ég mig hafa útskýrt nægilega vel að bloggfærslur mínar væru um mig og minn sjúkdóm en ekki um Engilbert, sem aldrei hefur verið nafngreindur á þessu bloggi fyrr en í núna þessari færslu. Í viðtalstíma þann 19. september síðastliðinn nefndi Engilbert hins vegar að sér hefði brugðið þegar hann sá vitnað í sjúkraskýrslur í þessum færslum í apríl. Þær tilvitnanir eru aðallega upptalning á lyfjaskömmtum sem mér voru ávísaðir árin 2007 og 2009.

Í septemberlok barst mér ábyrgðarbréf frá Engilbert Sigurðssyni, dagsett 27. september í Reykjavík en póstlagt í hans heimabæ, í umslagi Landspítala Háskólasjúkrahúss. Fyrir neðan undirskrift sína hefur Engilbert slegið inn Geðdeild Landspítala, 101 Reykjavík. Þetta er 6 bls. bréf, dálítið ruglingslegt og stór hluti þess eru endursagnir á köflum í sjúkraskrá þeirri sem Engilbert Sigurðsson hélt um mig á árunum 2000-2004. Ég bar saman þessar endursagnir við sjúkraskrána og komst að því að þær eru ónákvæmar og sums staðar réttu máli hallað, jafnvel rangt haft eftir, en þar fyrir utan skil ég ekki hvað bútar úr 8-12 ára gamalli sjúkraskrá koma málinu við og það liggur ekki í augum uppi við lestur bréfsins.

Í upphafi bréfsins segir Engilbert að hann hafi ákveðið að kíkja á bloggið mitt í gær af því í tölvupósti hafi ég boðið greiðslu fyrir vottorð sem ég hafi ekki áður þurft að borga fyrir: „Mér þótti þetta óvanalegt … og velti fyrir mér hvort það endurspeglaði breytta líðan.“ Svo skoðaði hann færsluna Af Rivotril-tröppun og fráhvörfum og „var satt að segja nokkuð brugðið við þennan lestur“. Þau atriði sem Engilbert brá við að sjá voru:

  • að læknanúmer sást á ljósmynd af Rivotril-glasi;
  • að ég segðist yfirleitt hafa reynt að taka minna af Rivotril en lækninum hefði þótt ráðlegt;
  • að ég „fullyrði[r] og set[ur] í blogg“ að læknirinn hefði sagt að bensóniðurtröppun tæki 4-6 vikur en hann hefði sagt í viðtalstíma þann 19. september að svoleiðis niðurtröppun tæki 6-8 vikur;
  • að hann hefði aldrei sagt að kjálkaverkur „gæti ekki stafað af slíku fráhvarfi, ég sagði að það væri sjaldgæft …“;
  • að ég hafi sagt að ég hefði ekki stuðning geðlæknis míns við að trappa niður Rivotril á níu mánuðum eftir níu ára notkun þess: „Fullyrðing þín um að þú hafir “engan stuðning við þetta baks” dæmir sig sjálf“ og Engilbert minnir á að ég hafi ekki rætt áform mín um að vilja trappa niður Rivotril við sig heldur við heimilislækni á Akranesi.

Undir lok bréfsins segir:

Að þessu sögðu er ljóst að ekki er nægilegt traust lengur á milli okkar til að það getir verið grunnur að meðferðarsambandi læknis og sjúklings. Ég mun áfram gera vottorð sem tengjast þeim tíma sem þú hefur verið í samskiptum við mig en sé mér ekki fært að vera þinn læknir. Þurfirðu á innlögnum að halda ertu sem fyrr velkomin á deild 32A en ég verð ekki læknir þinn á deildinni af sömu ástæðu.

Sama dag og mér barst bréfið breytti ég ljósmyndinni og blokkaði læknanúmer á Rivotril-glasinu þótt ég telji að ég hafi fullan rétt á að birta ljósmynd af töfluglasi í minni eigu. Menn geta svo borið saman bloggfærsluna við þau atriði sem Engilbert brá við að sjá, færslunni hefur ekki verið breytt.

Daginn eftir skrifaði ég Páli Matthíassyni, framkvæmdarstjóra geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss, og kvartaði undan því að læknir á ríkisreknu sjúkrahúsi tilkynnti sjúklingi að hann væri hættur að vera læknirinn sjúklingsins vegna þess að honum líkaði ekki bloggfærsla sjúklingsins, án þess þó að geta bent á nein haldbær rök fyrir því að að lækninum væri vegið. Getur læknir á ríkisspítala sagt upp sjúklingi að geðþótta sínum?, var spurning mín til Páls. Ég tók skýrt fram að okkur Engilbert Sigurðsson greindi ekki á um að affarasælast væri fyrir mig að fá annan geðlækni, enda hefði hann ráðlagt mér það sjálfur í apríl og ég reynt að fara að þeim ráðleggingum, enn án árangurs. Við tóku bréfaskipti næstu vikurnar. Af þeim bréfaskiptum var ljóst að Páll vildi ekki taka afstöðu til málsins og því vísaði ég þessu máli til embættis Landlæknis þar sem það er til meðferðar.

Laust eftir hádegi sama dag og ég sendi Páli Matthíassyni tölvupóst og kvartaði barst mér tölvupóstur frá Engilbert Sigurðssyni, sent af netfangi hans á Landspítala. Þar segir hann eftirfarandi:

  • að það sé minn misskilningur að hann hafi sent ábyrgðarbréfið vegna bloggfærslu og telur síðan upp eftirfarandi atriði:
  • að endurtekið hafi í samtölum okkar borið á góma „skipti á meðferðaraðila í gegnum árin“ allt frá árinu 2006 en ég hafi ekki viljað skipta;
  • að ég hafi hitt sálfræðing í samráði við Engilbert í tvígang „en H byrjaðirðu að hitta sjálf á þessu ári (án samráðs við mig sem er frekar óvanalegt ef sjúklingur telur sig treysta sínum geðlækni – þá er hefðin sú að upplýsa sinn lækni a.m.k. um þá ákvörðun áður en viðtöl hjá öðrum meðferðaraðila hefjast).“;
  • að ég hafi lýst því yfir í viðtali þann 19. september að ég hafi eingöngu komið til að fá tvö vottorð og afrit af þeim;
  •  að ég hafi bókað viðtalstíma með öðrum hætti en áður, þ.e.a.s. hringt og pantað tíma í stað þess að hafa samband við Engilbert í tölvupósti og biðja um tíma;
  • að ég hafi þann 19. september sagst vera á biðlista hjá tveimur geðlæknum og „Þú hafðir ekki beðið mig um ráð varðandi hvaða kollegum mínum ég myndi helst treysta til að freista þess að mæta meðferðarþörfum þínum líkt og þú treystir mér ekki til að hafa skoðun á því.“;
  • að ég hafi kvartað undan „niðurstöðu [ábyrgðar]bréfsins við Pál Matthíasson“ en „Sú niðurstaða er þó í raun ekki annað en staðfesting þess sem orðið er og ætti ekki að koma á óvart.“

Í sjúkraskrá sem Engilbert Sigurðsson færði um mig frá árinu 2000 til áramóta 2011/2012 er þess hvergi getið að „skipti á meðferðaraðila“ hafi borið á góma, ekki heldur á mínu bloggi. Þótt minni mitt sé brigðult frá því um mitt ár 2004 fram undir áramótin 2011/2012 hefur maðurinn minn stálminni og ég hef alltaf sagt honum hvað okkur Engilbert fór á milli eftir hvern viðtalstíma. Hann rekur minni til þess að „skipti á meðferðaraðila“ hafi einu sinni verið rædd, þegar ég vildi ekki hefja Marplan-töku sem Engilbert var áfram um að ég prófaði, sem á þá við útmánuði árið 2010.

Hafandi litla reynslu af geðlæknum öðrum en Engilbert Sigurðssyni kann ég ekki skil á þeirri hefð sem hann vísar í varðandi sálfræðiviðtöl. Ég hef hins vegar farið á HAM-námskeið við kvíða, prófað nálastungur og unnið sporavinnu á þeim tíma sem „meðferðarsamband“ okkar Engilberts hefur varað og sagt honum af því eftir á, án þess að hafa merkt að það hafi valdið honum hugarangri.

Vissulega sagði ég: „Ég kom bara til að fá vottorð“ þegar ég hitti Engilbert þann 19. september en það var nú ekki hugsað sem sérstök yfirlýsing, kannski frekast skýring á að ég væri mætt í viðtalstíma til hans. Og ég leiddi svo sannarlega ekki hugann að því að það að panta viðtalstíma á göngudeild geðsviðs Landspítala gegnum skiptiborð Landspítalans mætti túlka sem eitthvað annað en að panta tíma í gegnum síma.

Ég sagði aldrei að ég væri á biðlista hjá tveimur geðlæknum enda var ég ekki á neinum biðlistum. Aftur á móti sagðist ég hafa reynt að hlíta ráðum Engilberts sem hann gaf í símtalinu í apríl og hefði reynt að komast að hjá tveimur geðlæknum án árangurs og vildi því gjarna vera hjá honum áfram. Engilbert hefur aldrei viðrað neina skoðun á því til hvaða geðlæknis ég ætti að leita né boðið fram sína aðstoð í þeim efnum, hvorki í þeim mörgu tölvupóstum sem hann hefur skrifað mér á þessu ári né í símtalinu í apríl þegar hann ráðlagði mér að skipta um lækni.

Það að ég hafi kvartað undan því við yfirmann Engilberts Sigurðssonar að Engilbert tilkynnti mér að hann væri hættur að vera minn læknir að geðþótta sínum en engum haldbærum rökum eru vitaskuld ekki rök fyrir því að Engilbert geti tilkynnt að hann sé hættur að vera minn læknir …
 

Staða mála nú

Ég hef lagt inn formlega kvörtun til Landlæknisembættisins með ýmsum fylgiskjölum. Sú kvörtun hefur verið tekin til meðferðar en svoleiðis meðferð tekur marga mánuði, kannski ár. Það er í góðu lagi mín vegna því mikilvægast er að úr því verði skorið hvort geðlæknir geti sagt upp sínum sjúklingi að því er virðist vegna þess að honum hugnast ekki hvernig sjúklingurinn bloggar um sína eigin sjúkrasögu, líðan og hugrenningar. Úrskurður um þetta mál er mikilvægur öllum þeim geðsjúklingum sem vilja tjá sig um sinn sjúkdóm og læknismeðferð við honum, hvort sem þeir tjá sig á bloggi eða með öðrum hætti. Ég get sjálf alls ekki séð hvernig athöfn Engilberts samrýmist lögum um réttindi sjúklinga, læknalögum eða ábendingum Landlæknisembættisins um góða starfshætti lækna, auk þess sem um er að ræða málfrelsi mitt, sem tryggt er í stjórnarskrá, og ég get ekki samþykkt að sé háð forræði geðlæknis míns (eða hvaða annars læknis sem er). En ég er ekki löglærð og því finnst mér gott að Landlæknisembættið skuli ganga úr skugga um þetta.

Svona mál bar aðeins á góma á nýafstöðnu málþingi Læknafélags Íslands, sem haldið var 18. og 19. október, sjá Mikilvægt að gæta varúðar á samfélagsmiðlum – af málþingi LÍ eftir Hávar Sigurjónsson, í Læknablaðinu 11. tbl. 98. árg. 2012.  Þar virðist lögfræðingur Læknafélags Íslands, Dögg Pálsdóttir, hafa úrskurðað að sé læknir ósáttur við tjáningu sjúklings á netinu gæti hann sagt upp „trúnaðarsambandi“ við sjúklinginn, sem er vitaskuld merkileg ný túlkun á þeim lögum sem ég nefndi hér að ofan. Einnig má spyrja sig hvort sá sem notar opinbera þjónustu teljist gera „meðferðarsamninga“ eða „trúnaðarsamninga“ við einstaka opinbera starfsmenn og væri gaman að vita hvort hugmyndir um slíkt standist landslög. Í greininni er haft orðrétt eftir Dögg, þar sem hún ræðir fyrirspurnir úr sal:

Fram kom í umræðum um þetta efni að stundum væru það sjúklingar sem birtu upplýsingar um sjúkrasögu sína á netinu og lýstu þar óhikað reynslu sinni af meðferð og læknisheimsóknum. Þar væri stundum farið rangt með staðreyndir og sagður hálfsannleikur en læknar ættu mjög erfitt með að bregðast við slíku og hvort það hefði ekki afgerandi áhrif á trúnaðarsamband læknis og sjúklings.

Dögg sagði þetta sannarlega vandamál en hún væri þó ekki sammála því að læknir mætti ekki svara ef sjúklingur er búinn að viðra samskipti sín við lækni opinberlega. „Hvort það þjónar tilgangi er annað mál. Ég hef alltaf haldið því fram að ef sjúklingur opnar fyrir sína sjúkrasögu felst í því ákveðið samþykki hans fyrir því að opinberlega sé um hana fjallað. Læknar hafa síðan það ráð að segja upp slíku trúnaðarsambandi.“
  
  
  
  
  
  
 

Sálfræðingar og marklausar klínískar leiðbeiningar Lsp.

Í gær birtist fréttatilkynning frá Sálfræðingafélagi Íslands þar sem segir m.a.:

Sálfræðingafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af löngum biðlistum á Göngudeild Geðsviðs LSH. Eins og fram hefur komið í fréttum er lengsti biðtíminn eftir einstaklingsviðtölum við sálfræðinga vegna þunglyndis og kvíða. 

[- – -]
Sálfræðingafélagið vill hvetja heilbrigðisyfirvöld til að tryggja að farið sé eftir þeim klínísku leiðbeiningum sem settar hafa verið hér á landi. 

Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, var að vanda ómyrkur í máli og hélt því fram að stórum hluta þunglyndis- og kvíðalyfja væri sturtað í klósettið því fólk gæfist upp á að taka þau vegna aukaverkana og lélegrar virkni. Þótt þessari staðhæfingu hafi verið slegið sérstaklega upp var kjarninn í orðum Péturs:

Það sé sparnaður af því að bæta við þremur til fjórum stöðugildum á göngudeildina. Það sé sparnaður í lyfjakostnaði, í innlögnum, í skattfé, í minni forföllum fólks frá vinnu og svo framvegis.

Páll Matthíasson framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala mótmælti Pétri í kvöldfréttum RÚV og sagði að sálfræðingum á geðsviði Landspítalans hefði fjölgað en ekki fækkað eins og Pétur héldi fram. Hann tók svo undir orð Péturs um mikið álag á geðsvið og biðlista og kenndi heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um:

Meira sé af einfaldari vandamálum sem heilsugæslan ætti að geta sinnt heldur en maður sér í nágrannalöndunum. Það virðist vera svo að heilsugæslan sé í meira mæli að vísa málum til Landspítalans, en búast mætti við. 

Í sama streng tók formaður Geðlæknafélags Íslands, Kristinn Tómasson, í Síðdegisútvarpi Rásar 2, þ.e.a.s. að heilsugæslan ætti að sinna þunglyndis- og kvíðasjúklingum í meiri mæli og efla þyrfti færni í viðtalsmeðferð á heilsugæslunni.  Hann talaði heldur hlýlega um geðlyf við þunglyndi og kvíða og taldi af og frá að það myndi sparast svo mikið fé sem uppsláttur á orðum Péturs Tyrfingssonar gaf til kynna þótt aðgengi að sálfræðimeðferð yrði bætt. Kristinn taldi eðlilegt að sálfræðiþjónusta væri veitt af heilsugæslunni, hann líkti saman sjúkraþjálfun og sálfræðiþjónustu og taldi að sama ætti að gilda um hvort tveggja. Kristinn benti svo á að Starfsendurhæfingarsjóður byði upp á sálfræðiþjónustu. Þetta hef ég aldrei heyrt áður né hafði hugmynd um að lífeyrissjóður sá sem ég þigg örorkulífeyri frá er aðili að Starfsendurhæfingarsjóði VIRK.

Nú er spurningin hvort þessir ágætu menn sem ég hef vitnað í hér að ofan séu ósammála eða hvort þeir séu í rauninni ekki að tala um hið sama. Það getur t.d. vel verið að stöðugildum sálfræðinga á geðsviði Landspítala hafi fjölgað á sama tíma og sálfræðingum á göngudeild geðsviðs hafi fækkað. Um þetta hefði almennilegur fréttamaður spurt Pál Matthíasson. Sálfræðingurinn Pétur Tyrfingsson var væntanlega að lýsa núverandi ástandi á göngudeild geðsviðs, alveg eins og yfirlæknir geðsviðs gerði fyrir skömmu, og tók enga afstöðu til þess á hvers hendi sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða ætti að vera. Geðlæknarnir  Páll Matthíasson og Kristinn Tómasson leggja hins vegar höfuðáherslu á að sálfræðimeðferð eigi að vera á könnu heilsugæslunnar en skauta báðir framhjá þeim klínísku leiðbeiningum sem geðsvið Landspítalans gaf út í ágúst 2011, sjá færslu mína Klínískar leiðbeiningar sem ekki er farið eftir. Fréttatilkynning/ályktun Sálfræðingafélags Íslands vakti á hinn bóginn sérstaka athygli á að ekki væri farið eftir þessum klínísku leiðbeiningum.

Eigin reynsla 

Af eigin reynslu veit ég að sálfræðimeðferð er ekki flaggað framan í þunglyndis- og kvíðasjúklinga. Ég hafði þjáðst af felmtursröskun (ofsakvíðaköstum) í tæp 2 ár þegar geðlækninum mínum datt í hug að vísa mér til sálfræðings. Eftir þrjú viðtöl við sálfræðing á stofu úrskurðaði hann að ég væri of veik til að hafa gagn af HAM (hugrænni atferlismeðferð) við kvíða. Þetta var samt ákaflega gagnlegt fyrir mig því ég fékk fræðsluefni og nokkra nasasjón af því út á hvað HAM gengur. 

Árið 2009 fór ég sjálf að leita mér upplýsinga um mögulega sálfræðimeðferð við mínum krankleika enda farið að renna upp fyrir mér að ótal lyfjakokteilar gerðu ekkert gagn. Ég bar árvekni (Mindfulness) og gjörhygli (DAM, díalektíska hugræna atferlismeðferð) undir minn geðlækni og hann svaraði diplómatískt að þetta kynni að gagnast sumum. Í desember 2009 hitti ég sálfræðing sem er einn af frumkvöðlum DAM en leist ekki nægilega vel á og gaf frekari viðtöl við þann sálfræðing frá mér. (Á þessum tíma var ég fárveik, bæði af sjúkdómnum og af lyfjunum.)

Vorið 2010 skráði ég mig að eigin frumkvæði á HAM námskeið gegn kvíða á vegum Kvíðameðferðarstöðvarinnar.  Ég hafði enga trú á að þetta námskeið myndi virka en á hinn bóginn var ég búin að fá mig fullsadda af lyfjum og orðið ljóst að kvíðastillandi lyfið sem mér hafði verið ávísað allt frá árinu 2003 hafði ekki nokkur einustu áhrif til að koma í veg fyrir ofsakvíðaköst, ekki heldur öll hin lyfin sem ég hafði gaddað í mig öll þessi ár. Þrátt fyrir eigin fordóma gagnaðist námskeiðið frábærlega og mér opnaðist ný sýn!  Ég uppgötvaði að með því að beita aðferðunum sem ég lærði á þessu námskeiði gat ég ýmist dregið mjög úr einkennum ofsakvíðakasta eða komið í veg fyrir þau.

Síðla nýliðins sumars fór ég á HAM námskeið á vegum geðsviðs Landspítalans, að eigin frumkvæði. Þetta var sex vikna grunnnámskeið gegn þunglyndi og kvíða. Það námskeið gagnaðist mér a.m.k. jafn vel, gott ef ekki enn betur en námskeið Kvíðameðferðarstöðvarinnar. HAM er, eins og Kristinn Tómasson komst að orði, nokkurs konar sjúkraþjálfun hugans og líklega þarf maður að fara reglulega í svoleiðis sjúkraþjálfun, auk þess auðvitað að kappkosta að gera æfingarnar sjálfur. Það að ég skuli ekki vera orðin fárveik á þessum árstíma, eins og mörg undanfarin ár, þakka ég ekki hvað síst þessu ágæta námskeiði.

Í apríl á þessu ári hóf ég að ganga reglulega til sálfræðings sem kemur hingað upp á Skaga. Hann hefur verið mér ómetanleg stoð. Aftur á móti tók geðlæknirinn minn, starfandi yfirlæknir á geðsviði Landspítala,  það að ég skyldi sjálf panta tíma hjá sálfræðingi sem vantraustsyfirlýsingu á sig. Ég vona að þetta viðhorf þessa geðlæknis sé ekki lýsandi fyrir stéttina.

Sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða er örugglega ódýrari kostur þegar upp er staðið og gæti læknað fólk

Mér finnst ekki skipta máli hvort sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða er á könnu heilsugæslunnar eða geðsviðs Landspítala, aðalatriðið er að hún sé aðgengileg og ekki alltof dýr. Fyrir sjúklinga utan höfuðborgarsvæðisins er sjálfsagt þægilegra að hún sé á vegum heilsugæslu. Í þessu sambandi má og geta þess að í Noregi hafa menn um skeið gert tilraunir með hugræna atferlismeðferð á netinu sem virðist hafa gefið góða raun. Hvernig væri að nýta löngu gamla tækni til HAM-meðferðar?

Ef maður lítur á ástandið núna er yfirlýsing Sálfræðingafélags Íslands alveg rétt: Það er fáránlegt að geðsvið Landspítalans skuli hafa samþykkt klínískar leiðbeiningar fyrir meir en ári síðan en fari svo ekki eftir þeim. Þeir sem veikjast af þunglyndi og kvíða í fyrsta sinn leggjast yfirleitt ekki inn á geðdeild heldur reyna að nýta sér þjónustu göngudeildar/bráðamóttöku. Ef sálfræðingar þar eru alltof fáir skiptir það litlu máli hvort sálfræðingum á öllum deildum geðsviðs hefur fjölgað, þessi sjúklingahópur er ekki að fara að leggjast inn heldur reyna að koma í veg fyrir að þurfa á innlögn að halda í framtíðinni.

Ef ég horfi bara á eigin sjúkrasögu er kristaltært að mikið fé hefði sparast ríkinu hefði ég fengið sálfræðimeðferð í tæka tíð, svo ekki sé minnst á þá miklu mæðu sem hefði líklega orðið mun minni. Ég vona að minn ágæti samsveitungur, velferðarráðherra, geri sér grein fyrir þessu og beiti sér fyrir að aðgengi þunglyndis- og kvíðasjúklinga að sálfræðimeðferð verði greiðara og fólk njóti sömu niðurgreiðslu sjúkratrygginga í sálfræðimeðferð og læknis-og lyfjameðferð við þessum krankleik. Þegar upp er staðið verður það mun ódýrari kostur.

Ég hef aldrei hitt þann sjúkling sem hefur batnað þunglyndi og kvíði af lyfjum. 

Jákvæð færsla

Ég spurði manninn: “Um hvað ætti ég að blogga eitthvað jákvætt?” Hann stakk auðvitað upp á bloggi um gula einstaklinginn … en ég er nýbúin að blogga um hann. Svo ég reyni að tína til sittlítið af hvurju annað þótt auðvitað sé Fr. Dietrich óumdeilanlegt jákvætt viðfangsefni. (Ég hef nefnilega fengið nóg af neikvæðni og hef ákveðið að hætta að lesa “fréttir” sumra vefmiðla + athugasemdadræsur og sumt annað netkyns – það er mannskemmandi.)

Jákvætt? Tja … í lífi öryrkjans gerist sosum ekki margt en það má einblína á þá jákvæðu smámuni sem gefast í umhverfinu. Má nefna klukkustundarlabbitúr í dag um þann góða Skaga og upp í Garðalund. (Ég er nefnilega hætt að labba norðanmegin á nesinu því ég nenni ekki að ergja mig á eigendum lausra hunda og svo framarlega sem ég fæ mér sjálf ekki alminlegan sjeffer til að vappa lausan mér við hlið er ég alls ekki óhult þeim megin.) Á Langasandi er alltaf sól, líka þegar rignir.

Fór áðan á kaffihús með vinkonu minni; OK, þetta er ekki beinlínis kaffihús heldur ísbúð en þarna fæst besta kaffið á Skaganum. Svo við létum okkur hafa það að sitja á barstólum við skenk – hvað gerir maður ekki fyrir gott kaffi? Hugguleg stund að venju.

Helgin hefur verið ljúf og letileg, sloppadagur á Joe Boxer í gær, hangið yfir bókum, sunnudagskrossgátunni og auðvitað horft á Matador. Ég hef meira að segja misst mig í Solitaire af og til, sem ég hef ekki lagt í mörg ár. Núna er ég að lesa Klingivalsinn (Klinkevalsen) eftir Jane Aamund, mikinn uppáhaldshöfund. Alveg er ég handviss um að ég hef séð sjónvarpsþætti eftir þessari bók, án þess ég muni neitt eftir söguþræðinum … ég sé nefnilega aðalpersónuna fyrir mér svo ljóslifandi að ég hlýt að hafa séð hana á mynd.

Af nýjum bókum er ég búin að lesa stutta titla: Skáld og Rof. Og svo náttúrlega Mensalder og Kattasamsærið. Veit ekki hvort telst með að ég las textana í Orð, krydd & krásir og skoðaði myndirnar en sleppti því að lesa uppskriftir enda ber ég ekki við eldamennsku. Þetta eru allt fínar bækur af ólíku tæi.

Á hverjum degi, upp á síðkastið, læðist tómið mikla aftan að mér en með því að ríghalda í ljósa punkta, passa að einföld atriði séu í lagi (eins og að fara á fætur fyrir átta á morgnana alveg burtséð frá því hvenær mér tókst að sofna, fara í langan göngutúr svo framarlega sem veðrið er ekki snarvitlaust, setja mér fyrir eitthvað skemmtilegt á hverjum degi, leiðrétta hugsanaskekkjur o.s.fr. … þetta er voðalíkt meðmæltu alkaprógrammi og eflaust mörgu öðru) hefur mér til þessa tekist að hrekja tómið á brott. Svo ég er frískari en ég hef verið í mörg ár.

Það sem mig vantar helst er meiri umgengni við fólk. Ég kíkti áðan á stundaskrár og námsframboð í HÍ á vorönninni en fann fátt spennandi þar. Samt leitaði ég líka í guðfræðideildinni 😉  Mér leggst eitthvað til, það er ég viss um.