Af fráhvörfum og erfiðu endurliti

Eftir að hafa verið laus við Rivotril í þrjár vikur byrjaði ég að trappa niður Imovane (zopiklon), þ.e. svefnlyfið sem ég hef tekið að staðaldri. Þá tók ekki betra við! Ég er búin að taka eina töflu (7,5 mg) í nokkra mánuði og hélt það yrði lítið mál að helminga skammtinn, hef oft gert það áður en þá ævinlega verið að taka Rivotril einnig. Á öðrum degi varð ég helvíti veik; fannst eins og höfuðið væri í skrúfstykki, ekkert blóð í höfðinu á mér, gat hvorki legið, setið né staðið o.s.fr. Og að sjálfsögðu fylltist ég kvíða yfir að vera að deyja af því mér leið eins og ég væri að deyja og tilhugsunin gerði líðanina enn skelfilegri svo mér fannst ég örugglega vera að deyja 😉  Þegar fæturnir voru farnir að skjálfa stjórnlaust undir mér gafst ég upp og tók hálfa Rivotril. Þar með hef ég öðlast reynsluna af því að falla, til þessa hefur fallreynsla mín einskorðast við að gefast upp á að hætta að reykja … þrisvar.

Nú, ég hafði samband við minn góða lækni og bað um ráð. Svo byrjaði ég upp á nýtt að hætta á Imovane með hægari tröppun og það gengur prýðilega eða þannig; ég þarf helst að vera á spani allan daginn og á bágt með að vera kjur en að öðru leyti er þetta svipað og Rivotril-tröppurnar. Skoðaði nokkrar greinar um z-lyfin (zopiklon, Stillnocht o.fl.) og sá að nútildags eru þau talin síst skárri en benzólyf, í Ashton-benzódrínlyfjafræðum er því meira að segja haldið fram að z-lyf séu eitraðri en benzólyf. Líklega voru það reginmistök að setja upp áætlun um að hætta á Rivotrili og taka samtímis svefnlyf – en þau mistök eru gerð og ekki aftur snúið með þau – nú spila ég úr þessu eftir bestu getu og skv. skynsamlegum ráðleggingum.

Svo er ég búin að fatta tvennt: Annars vegar að Voltaren-hlaup slær pínulítið á vöðvabólguna sem fylgir þessari lyfjatröppun og hins vegar að ég brenni eins og maraþonhlaupari og þarf að passa að borða á tveggja tíma fresti, annars lendi ég í blóðsykurfalli. Vonandi hægir þetta skynsamlega átlag líka á kílóatapinu sem fylgir lyfjahættingunum.

– – –

Ég er að lesa yfir eigið blogg frá janúar 2005 að telja, til að átta mig á gangi sjúkdómsins og hvort læknisráð hafi eitthvað virkað. Þegar ég hóf lesturinn ímyndaði ég mér að ég gæti lesið þetta eins og hverja aðra heimildaskáldsögu eða heimild; af því ég man nákvæmlega ekkert frá því á miðju ári 2004 til síðla árs 2007 og minningar síðan þá eru mjög brotakenndar taldi ég að ég gæti einhvern veginn nálgast þetta efni af fjarlægð, eins og ég væri að lesa um ævi ókunnrar manneskju. En því er ekki að heilsa. Mér finnst mjög erfitt að lesa hugsanir mínar og um líf mitt. Kannski er erfiðast af öllu að sjá vaxandi örvæntinguna sem fylgir síauknu þunglyndinu og hvernig ég og fjölskylda mín höfum haldið dauðahaldi í vonina, vonina um að nú myndi þessi eða hinn lyfjakokteillinn virka, vonina um að raflostmeðferðin fyrri virkaði o.s.fr. Þessar miklu vonir sem bregðast æ ofan í æ – þessi leit að hálmstráum, bara einu oggolitlu hálmstrái sem fyndist ef nógu vel væri að gætt – finnst mér hræðilega sorgleg. Ég held mér myndi finnast þetta jafn sorgleg lesning þótt ég vissi ekki að textinn fjallaði um mig.

Þegar í lestrinum var komið haust 2006 varð ég að leggja frá mér bloggið og taka mér nokkurra daga pásu. Um vorið 2006 fór ég í raflostameðferð og ég las færslu eftir færslu þar sem kom fram að fjölskyldan taldi að mér hefði batnað töluvert, að það væri allt annað upplit á mér, en í færslunum kemur fram samt vel fram vaxandi örvænting yfir tóminu sem ég upplifi; gleymi öllu jafnharðan, kann ekki á tölvuforrit, get ekki lesið, heimilisbankinn lokar hvað eftir annað aðgangi mínum og ég skrifa niður lykilorð en gleymi jafnharðan hvar ég hef lagt frá mér skrifuð minnisatriði … Yfir sumarið rennur upp fyrir mér að ég hef gleymt nokkrum vikum, svo nokkrum mánuðum og þar sem ég hætti að lesa er mér orðið ljóst að meir en ár hefur strokast gersamlega út úr lífi mínu: Ég á enga minningu ár aftur í tímann. Seinna meir á ég eftir að átta mig á því að blakkátið nær tvö og hálft ár aftur í tímann en ég gafst sem sagt upp á að lesa og persónan sem ég er að lesa um (ég sjálf) hefur ekki enn áttað sig á því. Og ekki heldur áttað sig á því að þessar minningar koma aldrei aftur.

Fyrir utan fráhvörf og sársaukafulla fyrsta spors vinnu segi ég allt fínt og líður með skásta móti, svona miðað við allt og allt. Sólin: Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann, eins og segir í kvæðinu. Og Langisandur hefur sjaldan verið eins langur, eins gylltur og eins þakinn börnum að leik og síðustu daga. Þetta er ekki veður til að blogga 🙂

Sviðsrannsókn í þunglyndisfræðum

Mýldur með pilluEitt af því sem borgar sig að skoða í vangaveltum um þunglyndi, þunglyndislyf og annars konar þunglyndismeðferð er hvar fókus geðlækninga er: Á hvað blína fræðimenn í geðlækningum? Fyrir skömmu rakst ég á sviðsrannsókn (scope review) á umfjöllun um meðferðarþolið þunglyndi (Treatment resistant depression). Ég minnist þess ekki að hafa séð akkúrat þessa aðferð notaða áður en sé í hendi mér hversu miklar vísbendingar aðferðin getur gefið. Í sviðsrannsókn felst að líta yfir sviðið og athuga umfjöllunarefni fræðilegra greina (ólíkt “review”rannsóknum þar sem farið er í saumana á mörgum rannsóknum á einhverju afmörkuðu efni).

Í þessari sviðsrannsókn var leitað í sex gagnabönkum (t.d. Medline, PsycArticles og PsychInfo) að fræðigreinum sem snertu meðferðarþolið þunglyndi. Sviðið var afmarkað við einpóla þunglyndi, greinar með enskum útdráttum, sjúklinga á aldrinum 18-65 ára og útgáfutíma á árunum 2005-2010. Sjá Emily Jenkins og Elliot M. Goldner. Approaches to Understanding and Addressing Treatment-Resistant Depression: A Scoping Review. Depression Research and Treatment 2012.  Hvorugur höfunda státar af gráðufjöld og líklega er þetta vefrit, sem byggir á Creative Commons dreifileyfi, ekki virðulegt ritrýnt rit en ég tel fullvíst að höfundarnir kunni að vel að telja og séu læsir og treysti því niðurstöðum þeirra. Alls fundu þau 345 greinar sem uppfylltu fyrrnefnd skilyrði. Síðan skoðuðu Jenkins og Goldner um hvað greinarnar fjölluðu.

Í ljós kom að stærstur hluti greinanna eða 80% þeirra fjallaði um einhvers konar ráð eða meðferð við sjúkdómnum en í einungis 10% greinanna var reynt að greina ástæður eða hvata þessa vágests, t.d. af hverju gengur svo illa að ráða bót á meðferðarþolnu þunglyndi. Annar tíundipartur snérist um greiningarviðmið og skilgreiningar, helstu stefnur og strauma í meðferð, vangaveltur um hvers lags rannsóknir vantaði o.fl..

Þegar skoðað var hvaða viðmið lágu að baki greinunum eða hvers lags rannsóknarrammi þeim var markaður reyndust yfir 80% greinanna í þessum gagnabönkum byggðar á líffræðilegum forsendum, alls 281 grein. Hægt var að skipa líffræðilegu viðmiðunum og meðferð byggðri á þeim nánar niður: 

  • Lyfjameðferð (145 greinar);
  • Taugaskurðlækninga eða taugafræðileg meðferð (104 greinar, um raflækningar, segulómunarörvun, skreyjutaugarörvun o.fl.); 
  • Greinar sem fjölluðu um mögulegar líffræðilegar orsakir meðferðarþolins þunglyndis (30 greinar sem fjölluðu m.a. um heilamyndatöku og líkamleg mælanleg einkenni sem mögulega tengjast slíku þunglyndi) 
  • Greinar sem ekki féllu undir áðurnefnt (2 talsins).

Sá hluti greinanna sem ekki fjallaði um líffræðilegt efni réðist af eftirtöldu: 

Sálfræðilegum viðmiðum, þetta voru 3% greinanna (11 talsins);
Félagsfræðileg viðmið lágu að baki 1% greinanna (2 greinum alls);
Á samþættum viðmiðum byggðust 2% greina í gagnabönkunum (6 greinar), þ.e. um sálfræðilega og líffræðilega meðferð notaða samtímis.
Aðrar greinar voru 13% greinafjöldans (45 talsins), t.d. greinar um skilgreiningu meðferðarþolins þunglyndis, greinar um stefnur og strauma í meðhöndlun þess o.fl.

Höfundarnir fjalla síðan stuttlega um helstu efnisþætti í flokkunum. Í stóra lyfjameðferðarflokknum eru mest áberandi greinar um ýmiss konar stoðlyfjagjöf (augmentation), þ.e.a.s. lyf af ýmsum toga sem gætu mögulega nýst þeim sem ekki ná bata af þunglyndislyfjum eingöngu. Þar er aragrúi greina um fámennar litlar rannsóknir sem menn telja að gefi vísbendingar um gagnsemi einhvers tiltekins lyfs í stoðlyfjagjöf en vantar tilfinnanlega stórar almennilega gerðar rannsóknir, að sögn Jenkins og Goldner. Sem dæmi um stoðlyfjaumfjöllun eru nefndar greinar um gagnsemi Seroquels, litíum, MAO hemla, þríhringlaga geðlyfja, skjaldkirtilsvakahormóna, svæfingarlyfs, sýklalyfs o.fl. Satt best að segja kannaðist ég við margt úr stoðlyfjaflórunni af eigin raun.

Næstvinsælasta þemað, þ.e. greinar sem tengdust taugaskurðlæknisfræði eða taugafræðilegri örvun, einkennist af umfjöllun um gagnsemi einstakra aðferða og mati á áhættuþáttum. Að sögn höfunda eru margar rannsóknir sem greint er frá fámennar, athugun á hvernig þátttakendum hefur reitt af stendur of stutt og niðurstöðum sumra rannsókna ber ekki saman.

Meirihluti þeirra ellefu greina sem byggðu á sálfræðilegum viðmiðum snérust um gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við meðferðarþolnu þunglyndi. Niðurstöðum úr þeim tveimur sem flokkaðar voru sem félagsfræðilegar bar ekki saman (í annarri var útkoman sú að áföll á lífsleiðinni tengdust meðferðarþolnu þunglyndi, í hinni kom út að engin tengsl væru milli áfalla og meðferðarþolins þunglyndis). Ég hirði ekki um að rekja aðra umfjöllun en mæli með grein Jenkins og Goldner hafi menn áhuga á þessu rannsóknarefni.

Meginniðurstaða höfunda þessarar sviðsrannsóknar er auðvitað sú að áherslan á lyfjameðferð við meðferðarþolnu þunglyndi yfirskyggi sviðið. Greiningin “meðferðarþolið þunglyndi” byggist einmitt á að svoleiðis þunglyndi svarar ekki þunglyndislyfjagjöf. Lyfjaáherslan beri vott um líffræðilega smættun – að sjónarhorn í geðheilbrigðisfræðum sé bjagað og veiti ekki nægilegt svigrúm til að gefa félagslegum og sálfræðilegum kveikjum sjúkdómsins almennilegan gaum, segja Jenkins og Goldner

Sortéringaráráttan og það sem henni fylgir

Allir ganga í gegnum sortéringar- og söfnunarskeiðið, líklega einhvern tíma í barnæsku en sumir vaxa aldrei upp úr þessari iðju. Ég man t.d. eftir nokkrum servéttusöfnunarskeiðum; þegar lífið snérist um að safna og flokka servéttur í seríur og sett … og býtta við aðra til að fullkomna seríurnar og settin og fylla í flokkana “fermingarservéttur”, “flugvélaservéttur” o.s.fr. … en var örugglega vaxin uppúr þessu fyrir ellefu ára aldur.  Eftir á séð held ég að servéttusöfnun og flokkun sé nákvæmlega einskis virði nema sem skemmtilegt dedú í sjálfri sér.

En margir trúa mjög á gagnsemi sortéringa, á ofmælt gagnið af því að setja allan andskotann í einhvers konar kerfi og finna stað. Í mínu fagi má nefna tilraun til að hanna einhvers konar alheimsmálfræði (Chomsky) eða hið eina rétta kerfi til að greina bókmenntaverk (nýrýni) eða hina einu réttu aðferð til að skrifa ritgerð (byggða á engilsaxneskum hefðum í ritun). Nú held ég að Chomsky hafi aldrei haldið því fram að hægt væri að smætta almennt málhæfi ofan í hríslumyndarfræði. Bókmenntafræðinga langaði suma mjög til að smætta bókmenntaverk ofan í föflu, fléttu, innri og ytri tíma o.s.fr. en fyrr eða síðar rann upp fyrir flestum að sköpunargáfa og gildi góðra bókmennta verður ekki mæld með svona flokkunarkerfi. Hugmyndir sem móðurmálskennarar sumir göptu við á sínum tíma, sem náðu kannski hámarki í þeirri staðhæfingu að í rauninni væri óþarfi að láta nemendur skrifa ritgerðir því aðalatriðið væri að þeir skiluðu nógu ítarlegri áætlun um óskrifaða ritgerð, hafa vonandi dáið drottni sínum.

Flokkunarkerfi geðsjúkdómaSortéringafræðin lifa samt góðu lífi í sumum fræðum. Líklega þykir einhverjum sem þau séu til marks um vísindalega hugsun. En í rauninni eru sortéringafræði fyrst og fremst einföld skólaspeki (enda rosalega þægilegt að prófa úr svoleiðis á krossaprófum). Að telja upp fimm ullabjökk heimsins á fingrum sér er ekki ósvipað og að telja upp fimm tegundir fornra íslenskra bókmennta, sjö hljóðskiptaraðir sterkra sagna í íslensku, þrjú grunnmarkmið (flokkana þekkingu, leikni og hæfni) sem eiga að nást alveg jafnt í íþróttaáföngum og stærðfræði skv. nýrri námskrá fyrir framhaldsskóla … svo ekki sé minnst á æ viðameira flokkunarkerfi í krankleik á geði. Öll svona sortéring gefur ólíkum fræðum vísindalegt yfirbragð. Þótt augljóst sé að upptalning á hljóðskiptaröðum í sterkum íslenskum sögnum hjálpar fólki ekki í baun í að tjá sig lipurt og ljóst á íslensku, að íslenskur bókmenntaarfur verður varla smættaður oní fimm velaðgreindar sortir, að hæfni í leikfimi hlýtur að vera annars konar en hæfni í stærðfræði … og að flokkun þunglyndis í skilgreinda og mælanlega undirflokka færir menn ekki nær skilningi á því hvernig þunglyndum sjúklingi líður. Einhvers staðar las ég að sá sem lýsti líðan í þunglyndi hefði áreiðanlega ekki upplifað þunglyndi sjálfur; það er nefnilega ólýsanlegur hryllingur.

Til að ljúka þessari stuttu pælingu um sortéringaráráttunni er tilvitnun í gamlan sortéringartexta. Nákvæm flokkunin gefur honum óneitanlega vísindalegt og fræðilegt yfirbragð og er gott að hafa fullkomlega á hreinu hvernig skapa má menn á fjóra ólíka vegu, ekki síður en þekkja sundur væga, meðalþunga og djúpa geðlægð, þunglyndi sem geðhvarfasýki II, ódæmigert þunglyndi, þunglyndi frá óyndi o.s.fr.:

[Um holdgan Drottins]

MAGISTER: Fjórum háttum skapaði Guð menn. Einum hætti fyrir utan föður og móður sem Adam. Að öðrum hætti af karlmanni einum sem Evu. Þriðja hætti frá karlmanni og konu sem altítt er. Fjórða hætti frá meyju einni saman sem Kristur var borinn.

(Elucidarius e. Honorius Agustodunensis, líklega saminn um 1100, elsta norræna handritið talið frá síðari hluta 12. aldar.)

Nýju lyfin keisarans

Ég er næstum búin að lesa The Emperor’s New Drugs eftir Irving Kirsch og finnst málflutningur hans vel rökstuddur og sannfærandi. Ég get heldur ekki séð að það hafi gengið vel að hrekja þann málflutning; einna helst reyna menn að stagla fram og aftur um hvort mælist sannanlega 16% bót mikið þunglyndra af þunglyndislyfjum og hvort megi kjafta það hlutfall upp með nýjum mælingartækjum. En meira að segja hörðustu andstæðingar Kirsch virðast núorðið samþykkja að batann sem lítið eða í meðallagi þunglyndir hljóta af lyfjum megi að mestu skrifa á lyfleysuáhrif.

LyfleysuáhrifFyrstu niðurstöður Kirsch o.fl. eftir að hafa skoðað 38 klínískar rannsóknir á virkni ýmiss konar þunglyndislyfja á meir en 3000 þunglyndissjúklinga (u.þ.b. 40% af þeim rannsóknarniðurstöðum voru aldrei birtar heldur dagaði uppi hjá Bandarísku matvæla- og lyfjaeftirlitstofnuninni) voru að þunglyndislyf sýndu bót umfram lyfleysu í um 25% tilvika. Eftir því sem hann skoðaði fleiri og nýrri rannsóknir lækkaði sú tala. Enginn munur mældist milli ýmissa lyfja, þ.e. ekkert eitt lyf virkaði betur en önnur í þessum rannsóknum. Þótt sjúklingum höldnum vægu eða meðalþungu þunglyndi batnaði talsvert í þessum rannsóknum var enginn munur á bata þeirra sem batnaði af lyfleysu og þeirra sem batnaði af virku lyfi. Eini raunverulegi munurinn sem mældist á lyfleysu og virku lyfi var í hópi þeirra sem greindir voru með alvarlegt þunglyndi.

Rétt er að taka fram að þeim sem batnar helst af lyfjum eru þeir sem eru haldnir vægu eða meðalþungu þunglyndi. Í þeirra tilvikum mælist samt enginn munur á bata hvort sem þeir eta lyfleysu eða  þunglyndislyf. Áhrifin eru þau sömu, þ.e. jafn jákvæð. En sjúklingum höldnum slæmu þunglyndi batnar síður. Munurinn sem mælist á virku lyfi og lyfleysu er ekki til marks um að þeim sjúklingum nýtist lyf betur en hinum minna veiku heldur skýrist af því að lyfleysa virkar síður á illa haldna þunglyndissjúklinga en á hina. Af hverju það stafar er síðan óvíst.

Kirsch setur fram tilgátur um af hverju lyfleysa virkar síður en þunglyndislyf á þá sem eru mikið þunglyndir, því síður eftir því sem sjúklingarnir eru veikari. Báðar tilgáturnar gera ráð fyrir að svoleiðis þátttakendur í lyfjarannsókn beri kennsl á lyf og lyfleysu og tvíblindni rannsóknanna sé því hjóm eitt. Annars vegar er líklegt að þessir mikið veiku sjúklingar hafi haft viðvarandi þunglyndi lengi og hafi prófað ýmis lyf áður en þeir tóku þátt í rannsókninni. Þeim séu því vel kunnar algengar aukaverkanir af þunglyndislyfjum og geti þannig þekkt hvort þeir eti lyfleysu eða lyf meðan á lyfjarannsókn stendur. Þeir geri sér engar vonir um að lyfleysa virki og af því þeir þekkja muninn skapist einhvers konar afleidd lyfleysuáhrif af vissunni, byggðri á reynslu, um að þeir þiggi nýtt virkt þunglyndislyf. Hin tilgátan er sú að vegna þess hve veikir þessir sjúklingar eru fái þeir hærri skammta af lyfinu sem verið er að prófa. Ekkert bendir til þess að hærri skammtar skili betri árangri en því hærri sem lyfjaskammturinn er því meiri eða algengari eru aukaverkanir af lyfinu. Hærri skammtur => meiri aukaverkanir => auðveldara fyrir þátttakanda í rannsókn að þekkja hvort hann tekur virkt lyf eða lyfleysu => vægi hreinna lyfleysuáhrifa minnkar.

Svo er spurningin: Hversu mikill var batinn sem mældist af lyfjum? Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) notar Hamilton geðlægðarskalann (HRDS) til að meta þunglyndi og það var gert í öllum þeim lyfjarannsóknum sem skilað var inn til FDA og Kirsch skoðaði. Læknar meta sjúklinga eftir þessum skala sem nær frá 1 upp í 51. T.d. er gefið 1 stig ef sjúklingi finnst lífið ekki þess virði að lifa því, 4 stig ef sjúklingur hefur gert alvarlega tilraun til sjálfsvígs, 2 batastig má fá fyrir að sofa út nóttina í stað árvöku o.s.fr. Klínískt marktækur bati af þunglyndislyfjum mældist að meðaltali tæp 2 batastig á Hamilton-kvarðanum, sem er lítill munur. Bresk heilbrigðisyfirvöld (NICE, þ.e. National Institute for Health and Clinical Excellence – Klínískar leiðbeiningar Landspítalans fyrir þunglyndi og kvíða eru byggðar á samsvarandi leiðbeiningum NICE) tekur einungis 3 stig eða meira gild sem klínískt marktækan bata.

Lyfjafyrirtæki hafa brugðist við þessum lélegu niðurstöðum með því að birta einungis jákvæðar rannsóknarniðurstöður, hampa þeim og margbirta þær jákvæðustu. Neikvæðu lyfjarannsóknarniðurstöðurnar líta ekki dagsins ljós svoleiðis að geðlæknar og aðrir læknar sjá þær ekki. Raunar má lyfjafyrirtæki láta gera eins margar rannsóknir og það vill og dugir að sýna fram á klínískt marktækan mun í tveimur rannsóknum af ótölulegum fjölda. Í mínum augum er það svipað og ef ég mætti kasta fimm teningum fimmtíu sinnum eða oftar og þegar ég fengi loksins sömu tölu á öllum teningum yrði það eina kast tekið gilt sem Yatzí en horft framhjá hinum atrennunum.

Gagnrýni á málflutning Kirsch

Enginn hefur borið brigður á tölfræðiúrvinnslu Kirsch og þ.a.l. ekki hrakið þá fullyrðingu að almennt og yfirleitt sýnist ekkert gagn af þunglyndislyfjum umfram gagn af lyfleysu. Svo virðist sem andstæðingar Kirsch einbeiti sér að þessum u.þ.b. 16% mjög þunglyndra sem virðast fá einhverja bót af þunglyndislyfjum umfram mælanleg lyfleysuáhrif. Markmið þeirra er fyrst og fremst að hrekja tilgátur Kirsch um að skýringin á batanum sé einfaldlega sú að lyfleysa virki verr á þessa sjúklinga en aðra. Til þess að hrekja tilgátur hans setja þeir fram aðrar tilgátur og reyna jafnvel að meta lyfjarannsóknargagnagrunninn upp á nýtt. Dæmi um þetta er nýleg grein Michael E. Thase o.fl. Assessing the ‘true’ effect of active antidepressant therapy v. placebo in major depressive disorder: use of a mixture model  í  British Journal of Psyciatry desember 2011 þar sem ákv. mælingarmódel var notað til að meta upp á nýtt fimm lyfjarannsóknir á escitalopram (Cipralex). Sú niðurstaða fékkst að 20-25% mjög þunglyndra sjúklinga fengju klínískt marktæka bót af lyfinu. Gagnrýni á þessa grein felst svo einkum í gagnrýni á mælingarmódelið …

Í annarri grein eftir Michael E. Thase, sem hefur að eigin sögn tekið þátt í öllum þunglyndislyfjarannsóknum lyfjafyrirtækja frá dögum Prozac á níunda áratug síðustu aldar, viðurkennir hann að tölfræðilegar niðurstöður Kirsch verði ekki hraktar, sjá The Small Specific Effects of Antidepressants in Clinical Trials: What Do They Mean to Psychiatrists? í Current Psychiatry Reports desember 2011. Greinin virðist fyrst og fremst vörn fyrir geðlækna (afskaplega léleg vörn finnst mér, sem betur fer reynir Thase ekki að verja þunglyndislyfjarannsóknirnar sem hann tók sjálfur þátt í að gera og hvernig lyfjafyrirtæki hafa hagrætt niðurstöðum þeirra með sérstöku úrvali birtra niðurstaðna). Niðurstaða hans er að af því þunglyndislyf geti hugsanlega nýst einhverjum litlum sjúklingahópi sé stundum rétt að ávísa þeim, ofboðslega aukningu í þunglyndislyfjareseptum megi skrifa á heimilislækna fyrst og fremst og í takt við tískuna klikkir hann út með að gott sé að beitt sé samtímis sálfræðimeðferð og lyfjameðferð við djúpu þunglyndi. Meðferðin sem geðlæknar veita sé mikilvægari en lyfin þegar komið er út í lífið sjálft, þ.e. út fyrir ramma tilbúinna rannsóknaraðstæðna, segir Thase. Hann virðist þó gera því skóna að meðferð hjá geðlækni feli ávallt í sér lyfjameðferð þegar mikið veikir þunglyndissjúklingar eiga í hlut.

Eftir 60 Minutes þáttinn um Kirsch og Nýju lyfin keisarans í febrúar sl. sendu Bandarísku geðlæknasamtökin (APA) frá sér tilkynningu þar sem skoðanir Kirsch eru fordæmdar, hann sakaður um að kynda undir hættulegar hugmyndir o.fl. En í tilkynningu APA eru engin rök fyrir staðhæfingum samtakanna. Raunar minnir þessi tilkynning mig mjög á „En hvað nýju fötin keisarans eru glæsileg og sitja vel og hvað slóðinn er stórkostlegur” í sögunni frægu 😉

Um miðjan mars 2012 kom tilkynning frá stjórnarformanni Bandarísku geðlæknasamtakanna, John M. Oldham, þar sem hann segir að CBS, sjónvarpsstöðin sem gerði 60 Minutes þáttinn um niðurstöður Kirsch, hafi meinað sér  að koma fram í þættinum. (Sjá Antidepressants and the Placebo Effect, Revisited í Psychiatric News 16. mars 2012.) Oldham segist hafa sent CBS bréf og beðið um að það væri birt á heimasíðu þáttarins en ekki varð orðið við þeirri ósk. Í bréfinu segist hann hafa lagt áherslu á að mörgum sjúklingum farnist vel á þunglyndislyfjum undir handleiðslu síns heimilislæknis eða sérfræðilæknis og þátturinn gæti hvatt þá til að hætta lyfjatöku, jafnvel hætta í viðtölum hjá sínum lækni, sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Oldham tekur undir með Michael Thase (sjá krækju í greinar hans hér að ofan) um að meðferð geðlækna sé aðalatriði en lyfin aukaatriði. En þess utan sé sannað mál að þunglyndislyf skipti meginmáli í meðhöndlun alvarlegs þunglyndis, af þeim hljóti fólk oft tímabundinn bata, þau komi í veg fyrir endurtekin veikindi og þau bjargi mannslífum.

Andsvör Kirsch við tilkynningu Bandarísku geðlæknasamtakanna má sjá hér.

Eigin niðurstaða

Nýju fötin keisaransTja … eftir að hafa lesið megnið af Nýju lyfjunum keisarans (The Emperor’s New Drugs), horft á 60 Minutes innslagið um málflutning Kirsch og skoðað gagnrýni þeirra sem ætla má að vert sé að taka mark á hallast ég óneitanlega að því sem Kirsch heldur fram. Ég get ekki annað séð að nýju lyfin keisarans geri álíka gagn og skjólið sem nýju fötin keisarans veittu: Sumsé ekkert.

Til vara má hugga sig við að lyfleysuáhrifin framkalla bata hjá mjög mörgum sem eta þunglyndislyf og til frekari vara að e.t.v. virki þunglyndislyf eitthvað á alvarlegt þunglyndi. Því miður eru þessar varaskeifur til lítils gagns fyrir mig ef ég skoða eigin reynslu af miklu lyfjaáti síðasta áratuginn: Ég get ekki séð að nokkurt gagn hafi verið í þeim lyfjum nema e.t.v. einu þeirra sem hætti að virka eftir 3-4 mánuði og hefur sannanlega ekki virkað síðan … hafi það þá yfirhöfuð virkað á sínum tíma. Aukaverkanir af lyfjatöku hafa oft verið slæmar og eftir á séð stundum rýrt lífsgæði mín verulega.

Loks er ég sammála Thase og Oldham um að meðferð hjá geðlækni feli í sér ótal margt annað en lyf og geti verið mjög til bóta fyrir sjúklinginn.

Máttur lyfleysunnar

LyfleysaSem stendur er ég að lesa mér til um rannsóknir á virkni þunglyndislyfja, kannski öllu heldur gagnrýni á slíkar rannsóknir. Mér var bent á bók Irving Kirsch The Emperor’s New Drugs: Exploding the Antidepressant Myth, sem kom út 2009, og innslag í 60 Minutes frá því núna í febrúar þar sem talað er við Kirsch o.fl. Ég hlóð strax niður bókinni en vegna einmuna veðurblíðu undanfarið hef ég ekki borið við að lesa bók í tölvu. Hins vegar er ég búin að horfa á þáttinn, skanna umræðu um hann og nokkra umræðu um staðhæfingar Kirsch. Sjálfsagt blogga ég um bókina þegar ég er búin að lesa hana.

Eftir því sem ég les mér meira til verður mér ljósara hve þunglyndislyfjagjöf stendur á ótraustum grunni. Kenningar um að þunglyndi stafi af boðefnarugli í heila eru hugmyndasmíð en hafa aldrei verið “vísindalega sannaðar” með neins konar mælingum. Og svo virðist sem vísindalegu rannsóknarniðurstöðurnar sem eiga að sýna fram á verkan einstakra þunglyndislyfja séu aðallega jákvætt úrval úr rannsóknafjöld; þegar grannt er skoðað sýna margar rannsóknir litla sem enga verkun en þeim niðurstöðum er hins vegar ekki flaggað. Til að auka enn á vaxandi tortryggni mína eru svo upplýsingar sem sýna hvernig skilgreiningar/mælikvarði þunglyndis og uppfynding lyfja sem byggja á akkúrat þessum skilgreiningum eða mælikvörðum haldast í hendur; hænan og eggið eru upp fundin á sama tíma. (Fínt yfirlit yfir þetta er kafli Joanna Moncrieff  The Myth of the Antidepressant: An Historical Analysis í De-Medicalizing Misery. Psychiatry, Psychology and the Human Condition, útg. 2011. Þá bók má, eins og bók Kirsch, auðveldlega hlaða frítt niður af vefnum.)

Ég horfði sem sagt á 60 Minutes þáttinn með viðtalinu við Irvin Kirsch en eiginlega finnst mér þó þægilegra að lesa lungann úr handriti þáttarins. Kirsch heldur því eindregið fram að virkni þunglyndislyfja mælist sáralítið meiri en virkni lyfleysu (hveitipilla). Hann hefur fjallað um þetta efni frá því á tíunda áratug síðustu aldar og auðvitað hlotið óvægna gagnrýni. Meginrök hans eru að máttur lyfleysu sé almennt mjög mikill til bóta hvers konar krankleik en sviðsljósið beinist þó mest að rannsóknarniðurstöðum hans á þunglyndislyfjarannsóknum. Helstar eru þær að í vægu eða meðalþungu þunglyndi sýni þunglyndislyf engu meiri jákvæða virkni en lyfleysa, í djúpu þunglyndi mælist örlítill munur þunglyndislyfjum í hag.

Irving Kirsch nýtti sér amrísk upplýsingalög og fékk afhentar ALLAR rannsóknir sem lyfjafyrirtæki höfðu látið gera á virkni nokkurra þunglyndislyfja. Einungis þær rannsóknir sem sýndu fram á meiri virkni lyfsins sem verið var að prófa en lyfleysu voru birtar. Ég blogga betur um þetta þegar ég hef lesið bók Kirsch en bendi á að aðrir hafa fundið sama út, sjá t.d. grein Ericks H. Turner, Roberts Rosenthal o.fl., Selective Publication of Antidepressant Trials and Its Influence on Apparent Efficacy  sem birtist í New England Journal of Medicine snemma árs 2008. Mér finnst svolítið uggvekjandi að sjá niðurstöðurnar um þunglyndislyfið sem ég et, Mirtazapín (Míron), sjá mynd 3 í greininni. Birtar greinar og rannsóknir sýna umtalsvert betri verkan lyfsins en kemur fram þegar allar rannsóknarniðurstöður sem Bandaríska lyfjaeftirlitið hefur fengið um gagnsemi þessa lyfs eru skoðaðar, munurinn er raunar mjög mikill. 

Ég tek fram að ég kann lítið í tölfræði og get því ekki staðið í tölfræðilegum deilum um þetta efni en mér sýndist á þeirri fræðilegu umræðu sem ég skoðaði um rannsókn Turner, Rosentahl o.fl. og skoðanir Kirsch að menn væru yfirleitt að hnotbítast um smáatriði. Raunar eru Turner og Rosentahl ósammála Kirsch í túlkun þótt niðurstöður þeirra um muninn mikla á birtum lyfjafræðirannsóknum og öllum rannsóknum séu nánast samhljóða því þeir telja að þunglyndislyf sýni nokkurn marktækan klínískan mun umfram lyfleysu. (Sjá Efficacy of antidepressants í British Medical Journal apríl 2008.

Málefnalegustu rökin gegn Kirsch finnast mér vera þau að skýringin á því að enginn marktækur munur mælist á virkni algengra þunglyndislyfja og lyfleysu gegn vægu og meðaldjúpu þunglyndi í öllum klínískum rannsóknum sé sú að í hópi þeirra sem prófuðu væru líklega einhverjir sem væru ekkert haldnir þunglyndi heldur bara eitthvað domm af öðrum orsökum. Ef þátttakandi er alls ekki haldinn þeirri boðefnavillu sem á að leiðrétta þá leiðréttist náttúrlega ekki neitt með sérhannaða lyfinu og þ.a.l. mælist enginn árangur. Það að þunglyndislyf sýni nokkuð betri verkun en lyfleysa við djúpu/alvarlegu þunglyndi sýni að þunglyndislyfið virkar. Til að trúa þessum rökum þarf auðvitað að gefa sér að þunglyndi stafi af einhvers konar ójafnvægi í boðefnaskiptum í heila og að í rannsóknarhópa í klínískum rannsóknum á geðlyfjum hafi ekki verið nógu vel valið.

Mótrök Kirsch o.fl. eru að lyfleysa virki almennt og yfirleitt miklu verr á mikið veika þunglyndissjúklinga en þá sem eru haldnir vægu eða meðaldjúpu þunglyndi, sem er svo sem ekkert ótrúlegt miðað við hve maður verður yfirmáta vonlaus á allt eftir endurteknar djúpar þunglyndisdýfur.

En … þetta er byrjunin á vangaveltum um hversu lengi það hefur verið vel vitað að þunglyndislyf skila litlum sem engum bata umfram oblátur (hveitipillur/lyfleysu), hvort borgi sig yfirleitt að eta þunglyndislyf og pælingum um hvenær geðlæknum hefði mátt vera ljóst að kenningar um boðefnarugl í heila sem orsök þunglyndis standast ekki …

Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi, II?

Ég er enn jafn bit á þessum lið í meðferðarsamningi geðdeildar/geðlæknis Landspítalans við Láru Kristínu Brynjarsdóttur, sem ég bloggaði stutt um í gær (sjá feitletruðu klausuna): ““Lára Kristín skuldbindur sig [- – -] Þá mun hún ekki ræða meðferðina í fjölmiðlum eða á samskiptasíðum á netinu.” 

Á opinni Facebook sinni segir Lára Kristín í dag: 

Ég sjálf ! Já ég sit með fleiri spurningar í raun, því ég var rekin frá lækni mínum í gær eftir viðtalið. Hún sagði að refsing fyrir að brjóta samning væri meðferðarfrí í nokkra mánuði, semsagt er það ekki refsing ??? Ég held að þeir séu bara á þrotum að vernda sig fyrir mistökum sem verða í störfum á geðdeildinni ! punktur Allavega stend ég uppi með engan lækni vegna þess að ég sagði frá ! …….. Ég hefði haldið að þá væri verið að hafna mér meðferð; ég er svo heppinn að einhverfuhópurinn hugsi vel um mig núna.

Í DV  í dag er haft eftir Páli Matthíassyni framkvæmdarstjóra geðsviðs Landspítala:

Páll segir slíka samninga oft gerða og þá í þágu sjúklinga: Meðferðarsamningar eru gerðir til þess að skýra línur á milli meðferðaraðila og sjúklings. Hann tiltekur meðferðarúrræðin og hvernig skuli bregðast við í ákveðnum aðstæðum. Svo sem ef til neyðarinnlagnar  kemur og annað slíkt”. [-  – -] Páll  kannast ekki við að Láru Kristínu hafi verið bannað að sækja þjónustu geðsviðs og segir sjúklingum ekki refsað séu samningar sem þessir brotnir. “Það er af og frá, hún mun áfram fá þjónustu og verður ekki vísað frá.” (DV 16. maí 2012, s. 3.)

Það er vissulega gott að fá staðfest að sjúklingi er ekki refsað fyrir að tjá sig í fjölmiðli enda annað óhugsandi í lýðræðissamfélagi. Lára Kristín hlýtur að hafa misskilið sinn geðlækni og sá misskilningur verður væntanlega leiðréttur með hraði. Auðvitað getur Páll Matthíasson ekki tjáð sig um málefni einstakra sjúklinga. En ég sakna svara hans við spurningunni hvernig í ósköpunum stendur á því að sjúklingi geðsviðs Landspítalans er gert að skrifa undir samning sem felur í sér afsal eða brot á stjórnarskrárbundnum rétti sama sjúklings, þ.e. málfrelsi?  

Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi?

Broskarl með rennilásÉg fjárfesti í DV áðan til að lesa viðtal við Láru Kristínu Brynjólfsdóttur. Hafandi gefið mér að ævinlega eru tvær hliðar á hverju máli og að DV rær á hamfarabloggendamið og gerir út á dramatík las ég viðtalið, sem er góð heimild um hennar upplifun en kannski eru fleiri fletir á sögunni sem ekki koma fram.

En það sem vakti sérstaka athygli mína var tilvitnun í svokallaðan meðferðarsamning sem Láru Kristínu er “ætlað að undirrita”. Af viðtalinu er einna helst að ráða að þessi meðferðarsamningur sé gerður við einhverja deild geðsviðs Landspítalans og að blaðamaður DV hafi skoðað hann. Segir að í sjötta lið samningsins standi eftirfarandi:

“Lára Kristín skuldbindur sig til að ræða beint við meðferðarðila sína ef óánægja kemur upp hjá henni við meðferðina. Treysti hún sér ekki til að ræða þetta beint er henni velkomið að koma skriflegri kvörtun áleiðis í bréfi. Hún mun hins vegar ekki senda tölvupóst á framkvæmdastjóra geðsviðs eða aðra aðila innan spítalans. Þá mun hún ekki ræða meðferðina í fjölmiðlum eða á samskiptasíðum á netinu.” (DV mánudaginn 14. maí 2012, s. 13. Leturbreyting mín.)

Ég get vel skilið að einhverjum starfsmönnum geðdeildar eða geðlækni á Landspítalanum finnist þægilegt og skynsamlegt að gera einhvers konar samning um fyrirhugaða meðferð sjúklings enda kemur fram að í þessum samningi sé að finna “skipulag viðtala og reglur um samráð”. En það að ætlast til að sjúklingur afsali sér stjórnarskrárbundnu tjáningarfrelsi með undirskrift svona samnings finnst mér afar einkennilegt og velti fyrir mér hvort slíkur gjörningur ríkisrekins sjúkrahúss standist lög. (Sama gildir raunar um hvern þann geðlækni sem er.) Getur einhver lesenda svarað þessu? Og vita menn önnur dæmi þess að meðferð sjúklings á ríkisspítala eða hjá starfandi sérfræðilækni innan íslenska heilbrigðiskerfisins sé háð því að sjúklingurinn afsali sér tjáningarfrelsi? Ætli séu dæmi þess að kvensjúkdómalæknar, skurðlæknar, innkirtlasérfræðingar eða aðrir sérfræðilæknar krefjist þess að sjúklingar þeirra grjóthaldi sér saman um meðferðina á Facebook eða hvers kyns netmiðlum og fjölmiðlum og skrifi undir þagnarskyldusamning þar að lútandi?

Fráhvörf

Á þriðjudaginn steig ég lokatröppuna og hætti alveg Rivotril áti. Það verður að segjast eins og er að fráhvörfin eru viðbjóðsleg! Skv. tröppun til þessa má ætla að þau skáni eilítið eftir tvær vikur en það er svo sem ekki mikil huggun í dag. Í einhverjum benzó-fráhvarfafræðum sá ég að fráhvörf af þessu lyfi voru kölluð “flue-like symptoms” og er alveg sammála þeirri lýsingu: Að hætta á Rivotril er eins og að kalla yfir sig 40 stiga hita vikum og mánuðum saman!

Þetta er sem sagt þriðji mánuðurinn í að hætta. Tröppurnar hafa verið 1 mg oní 0,5 mg, svo oní 0,25 mg og loks niður í 0 mg. Í dag er eins og hausinn á mér sé í skrúfstykki, mig svimar, jafnvægisskynið er truflað (eins gott að ég bý að langri reynslu af Akraborgarferðum), mér er flökurt, ég fæ skelfilegan kölduhroll og tímaskynið hefur fokkast verulega upp; þessi dagur er a.m.k. 72 klst langur.

Einu ráðin í stöðunni eru að pína sig í langa hraðgöngutúra (eigin endorfínframleiðsla slær aðeins á einkennin, liðkar vöðva sem eru í hnút og opnar æðar sem eru líklega samanherptar) og taka einn klukkutíma í einu á þessum ógurlega löngu dögum … eiginlega hlakka ég mest til að sofna í kvöld og sleppa aðeins út úr þessu. Mér dettur ekki í hug að reyna þetta án þess að nota svefnlyf og lít á niðurtröppun af Imovane sem seinni tíma vandamál. Það er annað en segja það að píska sig áfram í langan labbitúr þegar manni líður sem fráveikum af flensu. En endorfínið sem fæst með áreynslunni virkar smá stund á eftir.

Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að svo löng og hrikalega slæm fráhvörf fylgdu því að hætta á ekki stærri skammti af þessu helvítis lyfi. En hafi maður tekið Rivotril um langt skeið, í mínu tilviki næstum áratug, má víst búast við þessu. Mér finnst orðið ansi vafasamt að setja fólk á þetta lyf yfirhöfuð þótt ég viðurkenni fúslega að kvíði og ofsakvíðaköst séu svo sem ekkert gamanmál. Svo hugsa ég til þess með hryllingi þegar Rivotril var trappað úr 1,5 mg oní 0,5 mg á nokkrum vikum í síðustu geðdeildarvist; ekki skrýtið að ég hafi skolfið af kulda seinnipartinn og á kvöldin, íklædd hverri peysunni yfir aðra og undir sæng að auki!  Þá var ég stjörf af þunglyndi sem hefur þann eina kost að deyfa kvíða eins og allt annað en linar líklega ekki Rivotril-fráhvörf að ráði. Núna er ég tiltölulega vel haldin af þunglyndinu og finn þá kannski meira fyrir fráhvörfunum … á hinn bóginn gæti ég aldrei gengið í gegnum þennan hrylling ef ég væri ekki sæmilega frísk, hugsa ég.

Ég get ekki ímyndað mér annað en það að hætta að reykja sé létt verk og löðurmannlegt hjá því að hætta á Rivotril. Kannski ég prófi það í haust þegar ég verð orðin vel verseruð í sjálfspyndingum 😉

Skáld heimilisins

Tveir heimspekingarÉg renndi yfir helstu fréttir og blogg og datt ekkert í hug sem hægt væri að blogga um, ekkert merkilegt að ske, greinilega. En þótt ég sé svona skoðanalaus er skáld heimilisins, Fr. Jósefína Dietrich, mjög pólitísk og afdráttarlaus í skoðunum á mannlífinu og ýmsu öðru. Hún styttir sér stundir með yrkingum, milli sinna miklu mannfræðistúdía og tvíblindra atferlismeðferðarrannsókna. Það er því handhægt fyrir andlausan bloggara að blogga bókmenntafræðilega færslu um skáldmæringinn Jósefínu Dietrich. (Myndin sýnir tvo heimspekinga heimilisins … ætti að blasa við hvor er hærra settur.)

Jósefína orti í gær um Núbó nokkurn sem hún dáir mjög enda er sá gulur … og lét á sinni Facebook fylgja háðsglósu um ráðherra sem hún hefur nákvæmlega ekkert álit á (sá er hvorki gulur né duglegur að merkja):

Mín vegna má skömmin hann Ömmi vera á bömmer. Við þessi gulu stöndum saman:

Kominn upp á Núbós náð!
Nú fá gulir völdin hér!
Kátir eins’og kisa’að bráð
Kínverjarnir leika sér.

Jósefína deilir ekki skoðunum á forsetaframbjóðendum með neinum á þessu heimili enda grundvallar hún þær á öðru en við fávíst fólkið: “Mjá, mjá, mjá … búinn að mjálma meira en allir hinir til samans .. en það gildir ekki bara að mjálma … það þarf að merkja” segir hún um ákveðinn frambjóðanda sem henni er svona heldur í nöp við.  Í þessu eins og öðru ráðast skoðanir hennar af þeirri vissu að gulir séu bestir og að það fressið sem er duglegast að merkja sé réttborið yfirfress. Aðdáun sína greipir dýrið litla svo í kveðskap:

Einhver var að hlæja þegar ég kom inn
kannski að það hafi verið fressinn minn.
Jæja, nú jæja og látum hann hlæja
á Bessastaði fer hann nú í fimmta sinn.

Annað dæmi:

Fressið Dalai dásama ég daga’og nætur,
hversu langt það gengið getur,
geri aðrir lamar betur.

Bessastaða fagurt fressið frægast er,
mjög á staði marga fer
og merkir sér.

Þá sjaldan Fr. Dietrich nennir að tjá sig um trúmál sést að hún hugsar dýpra og er í sterkari tengslum við alheimsköttinn en nokkur af alþýðu heimilisins. T.d. þessi tilvitnun um daginn: „Og ég sá hundtík sitja á skarlatsrauðri ryksugu og hafði hún lafandi tungu og tíu skott.“ (Úr Opinberunarbók Jósefínu)”. Til að gleðja vissan lesendahóp bloggsins míns má og nefna að Jósefína tjáði sig auðvitað um hjálækningar og hindurvitni: “Mjá, mjá, mjá – sjálf hef ég gert tvö kraftaverk – annað með vísikló á vinstri loppu og hitt með rófunni – en það voru nú ekki gerðar heimildamyndir um það” og fékk þessa lýsandi athugasemd frá aðdáanda: “Þér eruð sjálf eitt gangandi kraftaverk mjá mjáhhhhhh.” Sem er vissulega rétt.

Jósefína er femínisti eins og sést á þessu ljóði:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum,
malandi læt rímið renna,
raula fyrir málstað kvenna.

Og hefur raunsætt sjálfsmat ólíkt mörgum tvífættum femínistanum:

Kattþrifin með kattartungu kattarrófu
þvær og snyrtir loðna loppu
læða gul með fríða snoppu.

Áhugasömum unnendum góðra ljóða er bent á Nokkur gullfalleg ljóð sem Jósefínan sjálf hefur frumort (2. útgáfa aukin mjög og endurbætt). Ljóðabókin er myndskreytt af og með skáldinu sjálfu. Þar má finna kaflana Tregróf, Breiðfjörð, Jólasálma, Nokkur pólitísk ljóð o.fl.

Einkennist baráttan gegn hindurvitnum af hindurvitnum?

Í gærkvöldi sýndi RÚV myndina Living Matrix: A film on the new science of healing. Ætla mætti af bloggum og vefmiðlum að um væri að ræða megnan heilaþvott sem við hrekklausa og einfalda fólkið værum fyrirfram berskjölduð gegn og mikil þörf á að þeir veraldarvanari og vellesnu verðu okkur gegn svona viðbjóðsmynd og lífshættulegum hugmyndum.

Sem dæmi um pössun hinna vellesnu og veraldarvönu má nefna bloggfærslu Valgarðs Guðjónssonar vantrúarfélaga, Á RÚV að sýna svona rugl?, og 111 ummæli (í þessum skrifuðum orðum) um hana; pistil ritstjórnar Vantrúar, Kjaftæði í sjónvarpinu; örfærslu Matthíasar Ásgeirssonar vantrúarfélaga, Skilaboð til RÚV, (mögulega þarf að líma Vantrúar- og Örvitaslóðirnar í nýjan glugga út af tiktúrum Matta sem banna beinan aðgang af blogginu mínu á þessar síður), bloggfærslu Jónasar Kristjánssonar, Kraftaverk í sjónvarpi, og líklega má finna fleiri bannbloggfærslur ef maður nennir að leita.   

Mér finnst ansi fyndið að lesa þessi blogg og umræðuhala við þau. Sem dæmi má taka:

  • Hin vísindalega aðferð mun vinsa úr ruglið á endanum (Hansi – í umræðu á bloggi Valgarðs)
  • Myndi þú sitja þegjandi hjá ef RÚV sýndi „heimildamynd“ þar sem fullt af fólki kæmi fram og fullyrti að það væri ekkert að því að gleypa blásýru? (Valgarður – í umræðu á bloggi Valgarðs)
  • Aldrei hefur verið vísindalega sýnt fram á virkni kraftaverkalækninga. [- – -] Ríkissjónvarpið á ekki að leggja sitt lóð á vogarskál hjáfræða og kraftaverka handa trúgjörnum. (Blogg Jónasar Kristjánssonar)
  • Myndir á borð við þessa gera ekkert nema koma inn ranghugmyndum hjá áhorfendum og ýta undir notkun á skottulækningum og afneitun á þeim aðferðum sem sýnt er að virki. (Vefur Vantrúar)
  • Það eru engar óhefðbundnar lækningar; það eru einungis lækningar sem búið er að sýna fram á að virki og svo kjaftæði (Halldór L – nærsveitungi minn – á vef Vantrúar)

Hippókrates kennir � KosÍ stuttu máli sagt má segja að umfjöllun um þessa mynd einkennist annars vegar af löngun til að banna kynningu á öðru en viðurkenndri vestrænni læknisfræði og hins vegar bláeygri tröllatrú á þessari sömu viðurkenndu vestrænu læknisfræði. Ég hef nú öðlast meir en áratugs reynslu af viðurkenndri vestrænni læknisfræði til bóta á mínum velskilgreinda sjúkdómi skv. amrískum og evrópskum stöðlum og sjúkdómsgreiningum byggðum á viðurkenndum vestrænum sálfræðiprófum. Læknisráðin byggjast á vísindalegum rannsóknum og eru einkum fólgin í pillum og rafmagnsstuðum. Því miður verð ég að hryggja þá vellesnu og veraldarvönu og umhyggjusömu með því að þegar betur að gáð reynist velskilgreindi sjúkdómurinn álíka skiljanlegur og hann var á dögum Hippokratesar; v.v. sálfræðiprófin mæla ekki endilega það sem þau eiga að mæla enda má svindla á þeim; niðurstöðurnar úr vísindalegu rannsóknunum eru úrval þóknanlegra niðurstaðna en endurspegla ekki raunveruleikann og í stuttu máli sagt virkar þetta vísindalega vestræna læknisráðadót afar illa! Og mér er vel ljóst að þessi staðreynd á ekki bara við um minn sjúkdóm, þunglyndi, heldur marga aðra sjúkdóma. Af hverju ætti fólk ekki að prófa eitthvað annað þegar  „lækningar sem búið er að sýna fram á að virki“ virka alls ekki og er raunar ekkert endilega búið að sýna fram á að virki þótt sæmilega vellesinn haldi það? (Styttan er af Hippokrates að kenna nemendum, í Kos á Grikklandi.)

Hvað með gildi reynslunnar þótt vísindalegar sannanir skorti? Psoriasis-sjúklingar uppgötvuðu sjálfir að vatnið í manngerðu Bláa lóninu virkaði til bóta … voru það ekki skottulækningar sem bar að steinþegja yfir og banna með öllu? Ég þekki persónulega til MS-sjúklinga og fólks með vefjagigt eða alvarlega síþreytu sem hefur hlotið bót af LDN (Low Dose Naltrexone) en það er upp og ofan hvort sérfræðilæknar fást til að skrifa upp á lyfseðla fyrir því lyfi af því engar tvíblindar rannsóknir eru til sem sýna fram á virkni lyfsins við þessum sjúkdómum.  Sem gæti kannski hangið saman við að þetta er gamalt, ódýrt lyf og ekkert lyfjafyrirtæki sér möguleika á að stórgræða á því … 

Hvað með AA, hið eina sem virðist skila sæmilegum árangri til að alkóhólistar og fíklar nái bata; Eru AA ekki svakalega óvísindaleg samtök sem einkennast af hindurvitnum? Þar tíðkast meira að segja að fara með BÆN og blanda guði inn í málin! Mér vitanlega hafa AA samtökin aldrei verið rannsökuð „með vísindalegum aðferðum“. Er þessi eina aðferð sem virkar sæmilega gegn alkóhólisma í rauninni bölvaðar skottulækningar? Og ætti þess vegna að banna samtökin og setja meðlimina beint á Antabus, sem er einmitt vísindalega gjörprófað vestrænt læknislyf?

Ég er orðin dálítið þreytt á bláeygum trúgjörnum talsmönnum vestrænnar læknisfræði sem vilja hafa vit fyrir okkur hinum, aumingjunum, og passa að við leggjumst nú ekki í eitthvað sem ekki er „vísindalega sannað“. Mér sýnist að þeir sem vilja einkum banna sjúklingum að nota annað en það sem fæst í apóteki og læknir veltalandi á íslenska tungu hefur ávísað séu einmitt svona frekar stálhraustir og þurfi sjálfir ekki á lækningu að halda. Af hverju er hinum stálhraustu svo umhugað um að veikir fari sér ekki að óvísindalegum voða?

Er mögulegt að helstu sjálfskipuðu kjaftæðisvaktendur og andstæðingar hindurvitna haldi sjálfir fram hindurvitnum?  Þeim hindurvitnum að einu lækningarnar sem virki séu af meiði vestrænnar læknisfræði?

P.S. Nei, ég horfði ekki á myndina á RÚV, var að gera annað. En ég hef álíka lítinn áhuga á að banna svona myndir og ég er áhugalaus um að banna fótbolta (sem getur haft virkilega slæmar aukaverkanir, ég hef unnið með og kennt það mörgum fótboltastrákum til að gera mér grein fyrir því) … horfi aldrei á þetta spark en get vel unnt öðrum þess. Og hef tröllatrú á að fólk sé almennt með fullu viti, þokkalega dómgreind og það þurfi ekki að passa upp á hvað það horfir á í sjónvarpi.