Reiði og alhæfingar

Bloggfærsla Ástu Svavarsdóttur, Haltu kjafti, vertu sæt og éttu skít., hefur vakið nokkra athygli og umræðu á Facebook enda mikill reiðilestur. Málflutningi hennar hefur verið svarað á öðrum bloggum en þessu, t.d. á bloggi Eiríks Arnar Norðdahl (sjá færsluna Trigger warning: Klám, klám og klám) og verður sjálfsagt svarað meir. Í þessari færslu ætla ég einungis að beina sjónum að því sem Ásta segir um námsefni í íslensku í framhaldsskólum.

Hún segir:

Í framhaldsskólum eru kenndar nokkrar sömu skáldsögurnar. M.a.  Brennu Njáls sagaSalka Valka og smásagnasafnið Uppspuna.
Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.
Njála býr yfir þekktustu kvenpersónu Íslendingasagna, sjálfri Hallgerði langbrók sem hefur verið hötuð og fyrirlitin síðastliðin átta hundruð ár.
Salka Valka býr yfir kvenfrelsishetjunni Sölku sem vill ekki vera kona! Salka Valka er mín uppáhaldssaga og sýnir hversu mikill snillingur Kiljan var að geta skrifað svona um konu 1930.
Uppspuni er nýjust, gefin út 2003 og flokkast því undir samtímabókmenntir og lumar á ýmsu.
Nú ætla ég að leyfa mér að tengja saman það sem er kennt í framhaldsskólum landsins og þann veruleika sem ungmennin okkar búa við. Gætu verið tengsl þarna á milli? Erum við fullorðna fólkið að skapa þennan veruleika?

Síðan túlkar Ásta valin atriði úr þessum bókum og tengir við klámvæðingu, bága stöðu kvenna, karllægt val o.s.fr. Ég geri túlkun hennar ekki að umræðuefni hér en hnaut um staðhæfinguna: Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.

Hallgerður langbrókMér er auðvitað ljóst að Njála er víða lesin í fornsagnaáfanga í framhaldsskólum en kannaðist satt best að segja ekki við að hinar tvær bækurnar væru algengar. Svo ég athugaði málið: Fletti upp bókalistum í 25 framhaldsskólum (en alls eru taldir vera 32 framhaldsskólar á Íslandi ef ég man rétt) og kíkti á kennsluáætlanir ef upplýsingar á bókalistum voru ekki fullnægjandi. (Raunar kíkti ég á síður fleiri framhaldsskóla en hjá sumum þeirra liggja þessar upplýsingar hreint ekki á lausu, t.d. hjá Kvennó og ML. Og sumstaðar eru upplýsingarnar af mjög af skornum skammti, t.d. hjá MTR og MH, sem er auðvitað afskaplega lélegt!)

Eftir að hafa skoðað upplýsingar á síðum: FVA, MA, VMA, FSH, MTR, VA, ME, FAS, FL, FNV, MH, MR, FB, FÁ, MS, BHS, FG, FSU, FSS, FSN, MÍ, MB, FMOS, TÍ og Verzló) er niðurstaðan þessi (með þeim fyrirvara að þessar bækur hefðu getað verið kenndar á fyrri önnum en haustönn 2013):

Einu framhaldsskólarnir sem kenna allar þessar þrjár bækur sem Ásta nefnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík (skólinn í hennar heimasveit) og Framhaldsskólinn á Höfn.

Eini skólinn sem kennir Sölku Völku fyrir utan þá tvo ofantöldu er Menntaskólinn á Ísafirði. Flestir skólar sem kenna langa sögu eftir Laxness velja Sjálfstætt fólk, stöku skóli kennir Íslandsklukkuna.

Smásagnasafnið Uppspuni er kennt við eftirtalda skóla: FSH, FAS, VA, Verzló, FÁ, FMOS, MB, TÍ og MS.

Brennu Njáls saga er kennd í sumum skólanna, Egils saga, Grettis saga eða Laxdæla í sumum, sums staðar er skipt um sögu aðra hvora önn. Ég taldi ekki hlutföllin milli þessara Íslendingasagna.

Þegar öllu er á botninn hvolft stenst fullyrðing Ástu um að það sé farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins engan veginn nema menn kjósi að túlka orðið flestallir sem afar teygjanlegt orð en teygjanleg orð ku í tísku um þessar mundir 😉

Myndin er af Hallgerði Höskuldsdóttur langbrók.

Er nýjasta trendið alltaf best?

 

Ég er nógu gömul til að muna eftir bæði sveitasíma og steinolíulömpum í mínum uppvexti. En í þessari færslu ætla ég að rifja upp aðeins nýrri tíma en bernskuna.

 

Veturinn 1985-86 stundaði ég kennsluréttindanám. (Verður að segjast eins og er að nánast ekkert úr því námi hefur nýst í starfi mínu sem framhaldsskólakennari en það er annar handleggur.) Eitt af því sem kennt var var svokölluð nýsitækni svo við gætum notað nýjustu tæki og tól til að lífga upp á kennsluna. Við lærðum að búa til flettilglærur, þ.e.a.s. föndra saman plastglærur í mismunandi litum og lögum. Mig minnir að ég hafi búið til glæru af óléttri konu (enda ólétt sjálf á þeim tíma), þar sem fletta mátti upp á henni kviðnum og sjá fóstrið undir: Gasalega sætt í myndvarpanum, fannst mér. Svo lærðum við að taka slæds-myndir af litmyndum í bókum.

Ég hef aldrei búið til flettiglæru síðan. Og aldrei tekið slæds-myndir af litmyndum í bókum, til að setja í framköllun og halda skuggamyndasýningu fyrir nemendur.

 

 

1986 kom fyrsta tölvan inn á heimili mitt. Mér þótti þetta mikil búbót enda hafði ég lært vélritun árið áður, ég fór nefnilega í landspróf og landsprófsnemendur lærðu ekki vélritun enda var búist við að við yrðum öll háskólaborgarar með ritara á okkar snærum þegar við yrðum fullorðin. Svo ég lærði að vélrita eftir að hafa lokið BA-prófi. Sambýlismaður minn (seinna eiginmaður) bjó sjálfur til ritvinnsluforrit í tölvuna, ágætis verkfæri nema það mátti alls ekki snerta einn ákveðinn takka á lyklaborðinu því þá þurrkaðist allt út. Í fyrstu tilraun minni til að nota þessa flottu nýju græju rak ég mig auðvitað í þann takkann og glataði merkri ritsmíð um uppeldis-og kennslufræði … en lét það ekki stöðva mig í að nota þessi nýju tæki áfram, tölvurnar altso.

 

 

Haustið 1986 byrjaði ég að kenna við Fjölbrautaskóla Akraness (sem nú heitir Fjölbrautaskóli Vesturlands). Í skólanum voru tölvur og mig minnir að Windows hafi ekki verið til þá. Einhvern tíma skömmu síðar stóð ég fyrir tilraunaverkefni í tölvustofunni sem hét Ritsmiðja. Það fólst í því að hjálpa nemendum að semja texta og ganga frá honum, eftir skólatíma. Obbinn af vinnunni var samt að hjálpa nemendum að brúka WordPerfect og Works ritvinnsluforritin.

 

Svo hef ég fylgst með þróun í tölvutækni allar götur síðar, byrjaði að nota internetið í janúar 1991, gegnum Imbu sálugu á Kópaskeri, Vefinn þegar hann kom til sögunnar o.s.fr. Ég hef unnið mýgrút af þróunarverkefnum tengdum þessari tækni, sem öll snérust um hvernig væri hægt að nota tæknina í kennslu og nám, í mínu tilviki íslenskukennslu.

 

Undanfarið hefur, í umræðu um skólamál, verið haldið mjög á lofti að í skólum sé ekki fylgst nógu vel með og þar sé ekki notuð ný tækni. Skólabækur séu óþarfar og allir eigi að nota Ipad eða önnur spjöld. Óþarft sé að kenna þekkingaratriði því nemendur geta alltaf og ævinlega flett upp á Vefnum. Nýafstaðið samræmt próf í íslensku þykir hallærislegt, jafnvel vont, af því á því birtust gamlir textar, spurt var út í óinteressant þekkingaratriði í stafsetningu o.fl. og prófið vakti alls ekki áhuga nútíma nemenda á móðurmáli sínu eða gekk út frá veruleik nútíma nemenda. Og þannig mætti lengi áfram halda.

 

Akkúrat núna erum við stödd í Ipad- og Iphone- og allrahandaspjaldvæðingunni miklu. En hver er þess umkominn að spá hvað verður eftir áratug, svo ég tali nú ekki um eftir nokkra áratugi? Ættu skólar að stökkva á þessar nýju græjur til að vera móðins og fylgjast með og vekja nægan áhuga? Ættu kennarar að hætta að kenna “steingeldar staðreyndaþulur” af því Gúgull frændi á svör við öllum spurningum? Eiga próf að hætta að mæla þekkingu og mæla eitthvað allt annað í staðinn eða yfirhöfuð alls ekki að mæla neitt heldur virka sem einhvers konar spennandi áhugahvöt?

 

Ég held að borgi sig að fara sér hægt. Hver veit nema spjöldin þyki jafn hallærisleg og slædsmyndir þykja nú, eftir áratug. Hver veit nema Vefurinn fyllist svo af óábyggilegu rusli að ekki einu sinni Gúgull frændi finni réttu svörin eftir nokkur ár. Hver veit nema Gúgull sjálfur deyi drottni sínum, eins og Altavista sáluga eða IRC-ið o.s.fr.

 

Ég sé sem sagt ekki ástæðu til að umbylta skólastarfi bara af því menn hafa eignast nýjar græjur. Á hinn bóginn finnst mér lofsvert hve menn eru duglegir að prófa þessar nýju græjur í kennslu og fara nýjar leiðir að markinu. Öll tilraunaverkefni kennara eru af hinu góða því hafi kennarinn áhuga á því sem hann er að gera (t.d. prófa eitthvað nýtt) þá skilar það sér í betri kennslu. Tilraunir í kennslu hafa nefnilega sams konar lyfleysuáhrif og þau frægu þunglyndislyf. Og um þetta gildir hið sama: Þegar verið er að meta árangurinn verður að hafa lyfleysuáhrifin í huga.

 

 

 

 

Dulinn menningarkimi

Færslan hefði auðvitað eins getað heitið Prjón því hún er um þá göfugu list.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað ræður því hvaða menning (í víðu samhengi) er opinber (í þröngu samhengi) og hver ekki. Íþróttir er t.d. afar opinber menning, það verður ekki þverfótað fyrir íþróttafréttum og umræðu um þær og annað sem tengist íþróttum, í öllum fjölmiðlum. Þetta er sjálfsagt gott og gaman fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum (en ég velti því stundum fyrir mér hversu stór hluti þjóðarinnar það raunverulega er). Fyrir okkur hin er ósköp auðvelt að sleppa því að lesa, horfa og hlusta og því hef ég akkúrat ekkert við mikla íþróttaumfjöllun að athuga.

En umfjöllun um prjón er óneitanlega dálítið ósýnileg. Það er ekki gefinn út sérstakur prjónakálfur með mogganum oft í viku, ekki sagðar prjónafréttir í lok hvers fréttatíma og engir netstormar með prjónatengdum upphrópunum geisa reglulega. Samt er ótrúlega mikill fjöldi prjónenda hérlendis. (Þori ekki annað en nota orðskrípið prjónandi til að þóknast femínistum með rörið á orðanna hljóðan, þótt miklu eðlilegra sé auðvitað að tala um prjónakonur.) Eini netmiðillinn sem ég man eftir að birti reglulega prjónafróðleik er innihald.is.

Prjónamenning lifir góðu lífi á netinu þótt hún sjáist ekki á yfirborðinu. Fjöldi prjónablogga er til vitnis um það en þau eru ekki skráð á blogggáttina og af því lítið er um upphrópanir og garg þegar prjón ber á góma er þeim heldur ekki deilt á Facebook í stórum stíl. (Sé samt alveg fyrir mér fyrirsögnina: “Segir engu máli skipta hvernig slétt lykkja snýr!” og meðfylgjandi gargið í “virkum í athugasemdum” … en er dálítið fegin að prjón skuli ekki teljast til hitamála.) Á Facebook eru stórir og virkir umræðuhópar prjónenda sem ræða málin án þess að skerist nokkru sinn í odda með þeim; þar fer allt fram í fullkomnu systrerni.

Svo eru það uppskriftirnar og kennslan … maður lifandi! Hver prjónakona með snefil af sjálfsvirðingu er áskrifandi að Knitting Daily og Interweave og meðlimur í Ravelry. Drops/Garnstudio.no byrjaði að birta uppskriftir á íslensku einnig, á þessu ári. Viti maður ekki hvernig skal prjóna þetta eða hitt er hægur vandi að finna YouTube myndband og læra listina. Kennslumáttur netsins er hvergi meiri og auðsærri en í prjóni. Sú staðreynd virðist hafa farið fram hjá Æpad-trúboðum skólakerfisins og vendikennsluboðendum, einhverra hluta vegna.

Svo er það geðræktarhlutverk prjóns, þáttur sem er sorglega lítið fjallað um. Að prjóna er sérdeilis róandi og huggandi og alveg upplagt þegar maður getur ekki gert neitt annað, til að drepa helv. tímann sem verður stundum helsti óvinur þunglyndra … tíminn sem aldrei ætlar að líða. Mín reynsla af geðdeildarvistunum er að prjón bjargar manni algerlega frá því að koðna ofan í ekki neitt þar inni. Þar er nefnilega nánast ekkert að gera nema auðvitað bíða eftir næsta pilluskammti. Þeir sem sinna geðdeildarsjúklingum mest eru sjúkraliðar (og vaktstrákarnir en af því þeir hafa lítið með prjón að gera eru þeir ekki til umræðu í þessari færslu, tek þó fram að þetta eru miklir ágætismenn sem sinna sjúklingunum einkar vel). Mín reynsla er sú að sjúkraliðar eru dásamlega þolinmóðar konur, góðar konur, mannþekkjarar …  og margar þeirra mjög flinkar prjónakonur, prjónakennslukonur einnig. Það bjargar ótrúlega miklu að fá hjálp og kennslu og aðstoð við að prjóna í Húsi þjáningarinnar, þ.e. geðdeildum Lans. Án prjóns er nær ekkert að gera nema mæla gangana, nú eða spekúlera í gardínunum og litnum á hurðunum, ef menn eru þannig innstilltir …

Þarf sosum ekki þunglyndi til, til að meta gildi prjónaskapar. Að setjast niður og iðja með höndunum smástund á degi hverjum fær alla til að slaka á og bætir geð og léttir lund.

Með þessari færslu er ég ekki að hvetja til neinna breytinga. Það ber að þakka fyrir að hafa fjölmennan menningarkimann prjón í friði fyrir æsingarliði 😉

Þunglyndið

virðist ekkert í rénum. Því miður. Ég er enn ólæs, stoppaði í miðju kafi í spennandi glæpasögu og er föst í byrjuninni á Íslenskir kóngar, bók sem mér finnst mjög skemmtileg. Það er fúlt að vera ólæs bókmenntafræðingur og ólæs “kona sem liggur alltaf í bókum” en í augnablikinu er ekkert við því að gera. Þetta lýsir sér þannig að ég les nokkrar síður og velti því svo fyrir mér hvað í ósköpunum ég hafi verið að lesa eða hver þessi persóna sem allt í einu dúkkar upp er eiginlega, kann allt eins að vera aðalpersóna sem ég veit ekki lengur nein deili á. Og hvað gera ólæsar konur? Tja … ég leysi þetta með því að fá lánaðar “skoðibækur” á bókasafninu, bækur sem maður flettir en les ekki frá orði til orðs. Æxlaði mér Íslenska silfursmíði og Garðyrkjuritið og slatta af prjónabókum/blöðum núna áðan. Svo má gá hvort ég næ svona þremur-fjórum blaðsíðum af Íslenskum kóngum … kannski ef ég hlusta á tónlist og syng með, á meðan …

Annað sem truflar mig þessa dagana er almenn heilaþoka. Þetta hugtak, heilaþoka, er velþekkt í vefjagigtarfræðum og Sjögrens-heilkennisfræðum og ábyggilega víðar en hins vegar lítið brúkað í geðlækningafræðum. Aftur á móti hugsa ég að allir þunglyndissjúklingar þekki fyrirbærið ágætlega af eigin raun. Fyrir utan almennan athyglisbrest mismæli ég mig alla vega í kross (sagði t.d. þrisvar sinnum “vettlingar” og meinti “trefill” núna í morgun) og man ekki orð, svo ekki sé nú minnst á nöfn.

Í fyrstu skiptin sem heilaþokan lagðist yfir mig, segjum fyrstu tuttugu skiptin, snarbrá mér og ég fór ævinlega að velta fyrir mér hvort ég væri komin með Alzheimer eða einhvern annan heilahrörnunarsjúkdóm. En svo lærir þunglyndissjúklingur eins og ég að þetta gengur ævinlega til baka, milli kasta. Maður verður bara að sætta sig við þetta meðan það varir – sem er ákaflega erfitt fyrir fullkomnunarsinna eins og mig. Versta tilvikið var 2010, þá lenti ég því að hafa steingleymt hvernig fitjað er upp! Nú fitjar maður ósjálfrátt upp og spáir ekki mikið í hvernig það er gert, alveg eins og þeir sem hlaupa, synda o.s.fr. eru ekki að velta því fyrir sér hvernig skref er tekið eða nákvæmlega hvernig bringusundsfótatak er framkvæmt. Þegar ég sat með garnið og prjónana og uppgötvaði að ég kunni ekki lengur að fitja upp, þarna um árið, féllust mér gersamlega hendur (og það einnig í bókstaflegri merkingu, eins og gefur að skilja). Ráðið? Ja, ég fór út að reykja og prófaði aftur, svona tíu mínútum síðar … þá kunni ég aftur að fitja upp 😉

Dagarnir eru svolítið misjafnir því inn á milli koma dagar þar sem mér finnst ég hafa háan hita og finn mikið fyrir jafnvægistruflunum og er flökurt. Á móti kemur að þá daga er ég þægilega sljó og slétt sama um allt, þ.á.m. eigin líðan. Aðra daga er ég betri tengslum við sjálfa mig og umhverfið.

Aðalatriðið er, finnst mér, að nota “Fake it till you make it”, velþekktan frasa úr alkageiranum. Svoleiðis að á hverjum morgni kem ég mér á lappir á skikkanlegum tíma, fer í sturtu og hrein föt og reyni svona svolítið að líta út eins og “snyrtileg kona á sextugsaldri” erkitýpan á að lúkka. (Þetta er sömuleiðis afbrigði af “clean and sober” alkalögmálinu …) Og klikka ekki á að mæta í vinnuna, þetta hlutastarf sem ég sinni. Enda þori ég alls ekki að sleppa því, það gæti allt eins verið að ég kæmist þá ekki til vinnu fyrr en eftir margar vikur. Hanga í helv. rútínunni, það er málið! Og fyrirgefa sér á hverjum degi að vera ekki fullkomin og mega segja þess vegna þrisvar sinnum vettlingar í staðinn fyrir trefill í eigin prjónakennslustund, eins og hver annar auli.

Sem betur fer snýr mitt þunglyndi þannig að mér líður skást á morgnana en verst seinnipartinn og á kvöldin. Það er heppilegt miðað við rútínu allra hinna, hinna heilbrigðu. Á kvöldin má hanga yfir sjónvarpinu, ég get fylgst með sjónvarpi ef ég prjóna á meðan (trix sem athyglisbrostnir hafa fattað fyrir óralöngu en ég efast um að það sé viðurkennt í geðlæknisfræðum). Ef sjónvarpsgláp er mér um megn spila ég ómerkilegan tölvuleik, Bubble Town. (Ég næ ekki nokkru sambandi við Candy Crush, sem allar hinar “snyrtilegu konurnar á sextugsaldri” spila þessa dagana, mér finnst hann leiðinlegur.) Ég gladdist mjög þegar ég las grein eftir þunglyndis-og kvíðasjúkling í einhverjum netmiðlinum fyrir skömmu, þar sem hún sagði frá því að hún spilaði Bejewelled ef hún væri mikið veik. Einstaka sinnum spila ég nefnilega Bejewelled undir sömu kringumstæðum, oftar þó Atomica eða Bubble Town en það skiptir ekki máli: Fyrir mig var mikilvægt og frábært að vita af öðrum sem nota sömu aðferð, ómerkilega “raða þremur saman” tölvuleiki til að kljást við þunglyndi.

Svona tekur maður einn dag í einu þangað til kastið rénar … sem það gerir alltaf á endanum. Og það er mikill léttir og stór plús að þurfa ekki að glíma við aukaverkanir geðlyfja á sama tíma, það er eiginlega bara fyrir fullfrískt fólk að éta svoleiðis! Þessar 20+ lyfjategundir sem ég hef gaddað í mig á mínum sjúkdómsferli hafa ekki haft neitt að segja til bóta sjúkdómnum en á hinn bóginn haft helling af neikvæðum verkunum í för með sér. Nú eru rúmar tvær vikur síðan ég steig síðustu tröppuna í niðurtröppun þunglyndislyfsins Míron, tók út síðasta tíundapartinn af dagskammti. Enda hrekk ég upp á hverri nóttu og fæ kölduhroll nokkrum sinnum á dag, en veit, af því ég hef skrifað niður hjá mér helstu einkenni niðurtröppunar síðan ég byrjaði að trappa lyfið niður í mars, að þessi einkenni hverfa eftir þrjár vikur á tröppunni. Sem nálgast óðfluga.  Sem betur fer, þannig séð, byrjaði þetta þunglyndiskast áður en ég steig síðustu tröppuna og sem betur fer, þannig séð, fékk ég slæmt kast í desember sem stóð svo í marga mánuði, verandi þó þá á ráðlögðum dagskammti af þessu þunglyndislyfi … svo ég þarf ekkert að ímynda mér að það að vera á eða hætta á þessu lyfi hafi haft nokkurn skapaðan hlut að segja í þunglyndinu. Klínísk reynsla mín af mér segir það 😉

Jæja: Í dag náði ég að líta út eins og erkitýpa snyrtilegu-konunnar-á-sextugsaldri, mæta í vinnuna, ljósrita helling (dásamleg iðja fyrir þá sem búa í heilaþoku) og útbúa þannig kennsluefni, fara á bókasafnið, ondúlera kettina, þvo nokkrar þvottavélar, blogga … Sem er flottur árangur miðað við heilsuna. Skítt með þótt ég hafi ekki náð að lesa neitt, treysti mér ekki til að prjóna munstur (og þ.a.l. liggja nokkur hálfkláruð prjónastykki tvist og bast hálfkláruð áfram), get ekki haldið áfram að vinna upp heimasíðuna mína í aulaheldu heimasíðuumhverfi á vefnum o.s.fr. Þetta verður allt klárað í fyllingu tímans þegar betur stendur á. Ég hef komist að því að “Aldrei fresta því til morguns sem hægt er að gera í dag” er alger steypa og að í rauninni er iðjusemi stundum rót alls ills …

Tilfinningaklám og staðalmyndir

Nú stendur yfir söfnun fyrir gjörgæslugeðdeild á Landspítala. Deildin er fyrir sjúklinga sem þarf að hafa sérstakt eftirlit með, s.s. sturlaða sjúklinga (þ.e. í geðrofi, alvarlegu örlyndi eða hættulega öðrum) og þá sem eru í bráðri sjálfsvígshættu. Það er auðvitað hið besta mál að safna fé svo gera megi svona deild sem best úr garði. En að mínu mati er seilst ansi langt í að snapa samúð almennings og kynda undir staðalmyndahugmyndir um aumingja geðsjúka fólkið í þessu átaki. Mér er algerlega óskiljanlegt hvernig í ósköpunum konunum sem standa (myndarlega) að Á allra vörum datt í hug að samþykkja auglýsingaherferðina sem fylgir þessu söfnunarátaki! Er þetta sú mynd sem þeim hugnast að gefa af geðsjúku fólki? Er aðalatriðið að raka inn peningum en aukaatriði að hamra á ímyndum sem eru síst til þess fallnar að slá á fordóma og ranghugmyndir um geðsjúkdóma?

Myndaserían sem Á allra vörum birtir nú ótt og títt á heilsíðum dagblaða og á Vefnum sýnir erkitýpur þunglyndissjúklinga (en þunglyndissjúklingar verða aldrei nema brotabrot af sjúklingaflóru deildarinnar sem verið er að safna fyrir). Þetta eru dökkar og napurlegar myndir, af konum með rytjulegt úfið hár og körlum sem hafa mátt muna fífil sinn fegri, meira að segja fylgir eitt heldur ótótlegt stúlkubarn.  Fyrirsæturnar eru með tárvot augu og afar þjáningarfullar á svipinn, minna kannski mest á þau mæðgin Maríu mey og Jesús á harmfyllstu rómantísku málverkum fyrri tíma eða í nútíma kraftaverkastyttum sem gráta blóði. Til að bæta enn á þjáningarfullan svip hinna hrjáðu fyrirsæta eru sprungur í andlitum þeirra og jafnvel niður á háls, annað hvort eru þetta djúpir farvegir eftir stöðugan og langvarandi táraflauminn eða tákna að þessar manneskjur eru ekki heilar, þær eru sprungnar, sem sagt bilaðar.

Ég er illa haldin af þunglyndi og stundum ansi veik af sjúkdómnum (til dæmis þessa dagana). En ég geng ekki um eins og argintæta til höfuðsins og andlitið á mér er ekki sprungið enda er ég heilsteypt persóna þótt ég hafi þennan sjúkdóm. Eins og aðrir þunglyndissjúklingar get ég oftast brosað og set (vonandi) aldrei  upp svip þeirrar eilífu þjáningar sem er meitlaður í módel Á allra vörum. Mér finnst það móðgun við mig og aðra geðsjúka að birta svona myndir í umfjöllun um geðræna sjúkdóma!

Hér að neðan eru nokkrar myndir til samanburðar auglýsingamyndunum. Með því að smella á þær koma upp flennistórar útgáfur á síðu Á allra vörum, vilji menn aðgæta þjáninguna og sprungurnar á þessum langgrátnu geðsjúku andlitum betur.

Hamilton þunglyndistýpanÞetta er hluti af mynd IV í bókinni Types of insanity, an illustrated guide in the physical diagnosis of mental disease, gefin út 1883.  Bókin er eftir  Allan McLaine Hamilton. Myndskreytingar í geðlækningabókum á nítjándu öld áttu að hjálpa læknum að greina geðsjúkdóma, þ.e.a.s. myndirnar gegndu svipuðu hlutverki og DSM-staðll nútímans (eins og sést berlega af titli bókarinnar). Þessi mynd á að sýna hvernig sjúklingur með viðvarandi þunglyndi lítur út. Í myndatexta segir: X hefur verið þunglyndur í nokkur ár og sjúkdómurinn er að þróast í vitglöp. erkitýpa á Á allra vörumHefur eitthvað breyst síðan Hamilton birti greiningarmyndir af geðsjúkum fyrir 130 árum síðan?
Mad womanBrjálaða konan, málverk eftir Eugene Delacroix, dáinn 1863. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Hafa hugmyndir um erkitýpu brjáluðu konunnar breyst frá tímum rómantíkur? Erkitýpa brjáluðu konunnar
Mar�a grætur blóðiMaría mey er “móðir mædd af sorgum” (mater dolorosa). Kemur því ekki á óvart að sumar styttur af Maríu gráti reglulega. Þessi er í Kaliforníu og grætur blóði. Myndin krækir í umfjöllun um þetta merkilega fyrirbæri. Ég sé ekki betur en erkitýpa þunglyndu konunnar á Á allra vörum gráti líka blóði enda er erkitýpa þunglyndu konunnar einhvers konar konar femina dolorosa. Mar�uerkitýpa þunglyndu konunnar

P.s. Ég fetti ekki fingur út í ofurvæmna myndbandið sem er auglýsing átaksins nema bendi á að litla skólastúlkan í skólapilsinu getur varla verið uppi á okkar tímum því í skólanum hennar er gamaldags krítartafla. Sömuleiðis mætti benda á að mamman virðist liggja árið um kring grátandi í rúminu (hún líkist að vísu ekki nokkrum þunglyndissjúklingi sem ég hef séð en fellur væntanlega ágætlega að þeirri staðalímynd og brennimerkingu sem forsvarmenn þessarar söfnunar eru að gera sitt besta til að festa í sessi).

Lestur um geðlækningar

Af og til les ég um geðlækningar, einkum þunglyndislækningar. Þetta er ekki sérlega holl lesning því manni fallast ævinlega hendur yfir hve lækningaaðferðirnar líkjast kukli og þjóðsögum: Byggja á ósönnuðum tilgátum (sumum út í bláinn), rækilega hagræddum “rannsóknarniðurstöðum” og þegar jafnvel rökstuðning af þessu tagi þrýtur er gripið til þess að rökstyðja með “klínískri reynslu” geðlækna; gersamlega huglægu fyrirbæri og örugglega einstaklingsbundnu við hvern og einn lækni.

Það var áhugavert að lesa langloku um raflost/raflækningar í ritrýndu vísindariti, þar sem sett er fram sú tilgáta að raflost hafi sömu áhrif á heilann og alvarlegt áfall eða langvarandi streita. Langlokan er samin af fræðimönnum í geðheilbrigðisfræði og verður ekki merkt að þeir hafi neitt á móti raflostmeðferð, þeir eru að reyna að skýra hvað gerist þegar heilinn er stuðaður. Af hverju nokkrum heilvita manni dettur í hug að það að framkalla sömu áhrif í heilandum og við meiri háttar áfall geti verið “lækning” á einu eða neinu er ofar mínum skilningi.

Undanfarið hef ég fylgst með færsluflokki Steindórs J. Erlingssonar, A Journey into Madness and Back Again, á Mad in America. Hér er krækt í þriðja pistilinn en neðst í honum eru krækjur í fyrri tvo. Þetta eru vel skrifaðir pistlar þar sem Steindór rekur sögu sína í stuttu og hnitmiðuðu máli. Frásögnin er einlæg og hreinskilin. Mér finnst sérlega eftirtektarvert hve vel hann lýsir heilaþvotti þunglyndissjúklings, þ.e.a.s. hvernig sjúklingi er talin trú um að þunglyndið stafi af “efnaskiptaójafnvægi” í heila, þegar hann rekur sögu sína. Þessar skýringar á þunglyndi lifa enn góðu lífi í viðtölum þunglyndra við lækna (kannski einkum heimilislækna) þótt aldrei hafi tekist að færa nokkra stoð fyrir kenningunni um boðefnarugl í heila og raunar hafi fræðimenn í geðlækningum fyrir þónokkru afskrifað hana að mestu leyti. Kannski þykir þetta enn þægileg útskýring fyrir pöpulinn?

Mér fannst líka eftirtektarvert hvernig samtrygging geðlækningabatteríins lýsir sér: Í þessum þriðja pistli segir Steindór frá því þegar Genin okkar kom út, þar sem hann upplýsti m.a. um sölumennsku prófessors í geðlæknisfræðum á blóðprufum úr sjúklingum sínum, og skömmu síðar, þegar Steindór þurfti fárveikur að leggjast inn á geðdeild, hellti geðlæknir á þeirri deild sér yfir hann vegna umfjöllunarinnar í bókinni. Sá hefur væntanlega verið dyggur lærisveinn prófessorsins … Kannski tók ég sérstaklega eftir þessu atriði af því ég hef heyrt lýsingar á því hvernig geðsjúklingar eru látnir gjalda fyrir að fjalla um geðlækningar opinberlega, jafnvel þótt þeir hafi einungis verið að lýsa eigin reynslu. Mér finnst ólíklegt að svona gerðist þegar um aðrar stéttir en geðlækna er að ræða: Finnst einhverjum líklegt að psóríasis-sjúklingur sem hefur opinberlega lýst glímu sinni við psóríasis og misheppnuðum læknisaðferðum við þeim sjúkdómi fái þess vegna yfirhalningu starfandi húðsjúkadómalæknis á Landspítala næst þegar hann leggst þar inn?

Nú, ég keypti mér bókina Mad Science: Psychiatric Coercion, Diagnosis, and Drugs, sem hefur verið hrósað ótæpilega síðan hún kom út í vor. Einhverra hluta vegna næ ég ekki tengslum við umfjöllun hennar, finnst bókin leiðinleg og ekki vel skrifuð o.s.fr. Kannski er það vegna þess að ég er frekar lasin (af þunglyndi) þessar vikurnar, kannski hleyptu fyrirbærafræðilegar pælingar um hvernig hugsun okkar og viðhorf mótast af orðuðum hugtökum og hvernig orðin eru huglæg og merking þeirra breytingum háð o.s.fr. í mig einhverri mótþróaröskun, ég fékk mig nefnilega fullsadda af svona pælingum í lestri bókmenntafræði á sínum tíma. En ég ákvað að gefa bókinni annan séns einhvern tíma seinna þegar ég væri betur stemmd … ekki að efnið sé nýtt af nálinni, þ.e.a.s. umfjöllun um óforskammaða markaðssetningu lyfjafyrirtækja og þjónkun geðlæknisfræði við þau, þvingun geðsjúklinga af ýmsum toga, stórgallað sjúkdómsgreiningarkerfi o.s.fr.,  en þetta ku sett í nýtt samhengi í þessari bók.

Að lokum get ég ekki stillt mig um að benda á nýjar pælingar amrískra geðlækna í Psychiatric Times; Nei, þeir eru ekki að spá í líðan sjúklinga sinna sem undirgangast allra handa “lækningar”; Nei, þeir eru ekki að spá í hvernig rannsóknarniðurstöðunum sem þeir byggja sín fræði á hefur verið rækilega hagrætt og þær gylltar; Nei, þeir eru ekki að velta fyrir sér hvort boðefnaruglskenningin hafi nokkurn tíma átt sér nokkra stoð … Þeir eru að pæla í því hvort borgi sig ekki að vera fínna klæddur en sjúklingarnir! Þetta hefur verið tímamótagrein í Psychiatric Times því það er ekki oft sem maður sér jafn virka umræðu í því ágæta tímariti og þá sem fylgir í halanum við þessa grein 😉

Listin að lifa

er það sem ég æfi mig í þessa dagana. Ég er alltaf þunglynd, mismikið sem betur fer, og smám saman æfist ég í að tækla þunglyndið, yfirleitt umhugsunarlaust en ef það eykst þarf vissa vandvirkni á hverjum degi til að láta sjúkdóminn ekki trufla líf mitt of mikið.

Það sem plagar mig einkum núna eru draugatilfinningar og “jórturhugsanir” (ruminative thoughts) sem þeim fylgja. Svona draugatilfinningar eru tilfinningar sem kvikna út í bláinn, án þess að hægt sé að tengja þær við atvik eða tilefni eða þær kvikna af einhverju ómerkilegu tilefni og eru í engu samræmi við tilefnið: Eins og draugaverkir í löngu horfnum útlim.

Það sem hægt er að gera til að slá á þetta er að beita heilbrigðri skynsemi, hugsanaleiðréttingu eins og kennt er í HAM. Sem dæmi mætti taka að á föstudaginn fyrir viku síðan ákvað ég, í fljótræði, að beita hallærisleiðréttingu á stykki sem nemandi var að prjóna: Lykkjurnar voru of margar, nemandinn búinn að rekja upp einu sinni eða tvisvar áður, munstrið passaði ekki og ég ákvað að prjóna bara saman tvær lykkjur svo munstrið passaði. Svo helltist yfir mig viðbjóðsleg tilfinning, líktist eiginlega mest þeirri skömm og algeru örvæntingu sem alki finnur fyrir daginn eftir að hafa delerað rækilega á fylleríi! Hvernig gat ég gert þetta! Hvernig í ósköpunum datt svona aula eins og mér í hug að ég gæti kennt prjón! Hvað segja amma og mamma og langfrænkur nemandans þegar þær komast að þessu! hugsaði ég og hugsaði og hugsaði ekki um neitt annað fram á sunnudag, þegar ég talaði um þetta á AA fundi og tilfinningin hvarf. Nú er ég ekki að mæla því bót að vanda ekki prjónaskapinn og lofa að prjóna aldrei aftur saman tvær lykkjur á peysubol ef munstrið passar ekki … en það að finnast maður ekki geta horft framan í nokkurn mann framar út af svonalöguðu er vitaskuld ekki normal og bendir til þess að heilinn sé ekki alveg í lagi þá stundina.

Í þessari viku tók ég eftir að einn samstarfsfélagi minn leit eitthvað undarlega á mig á kennarastofunni, eða mér fannst eitt augnablik að kolleginn liti undarlega á mig. Svo fór hausinn á spinn: Líklega finnst henni að ég tali allt of mikið => líklega finnst henni og mörgum öðrum að ég sé algerlega óþolandi => líklega eru allir að hugsa: Af hverju var hún að koma aftur til starfa? => o.s.fr. Hugsanir um þetta spóluðu hring eftir hring í hausnum á mér og það þýðir ekkert að segja sér að þetta sé bara vitleysa í manni, einföld skilaboð þannig stoppa ekki tilfinninguna um að vera óalandi og óferjandi og utan við mannlegt samfélag.

Svo ég tók mig taki og hugsaði skipulega um þetta. Hversu líklegt er að fólki finnist ég tala of mikið? Heldur ólíklegt að margir séu að spá í það, það kjaftar hver tuskan á mörgum á kennarastofunni og ég sit þar einungis í matartíma fjórum sinnum í viku og ólíklegt að fólk sé almennt með tímamælingu á tali akkúrat í þeim matartímum. Kannski tala ég of mikið af því þetta er um það bil eina tækifæri dagsins til að tala við aðra en ketti og só what? Og kolleginn sem horfði á mig var kannski að hugsa um eitthvað allt annað, raunar finnst mér það trúlegast. Svo af hverju ætti ég að vera með móral yfir einhverju sem ég held að einhver hafi kannski verið að hugsa en var kannski alls ekkert að hugsa það? Og hvað geri ég sjálf ef mér finnst einhver tala of mikið? Raunar geri ég ekki neitt og fólk fer sjaldnast í taugarnar á mér … en ef svo bæri við myndi ég væntanlega bara færa mig … Svo get ég engan veginn tekið ábyrgð á hvað öðrum finnst um eitthvað í umhverfinu og ætti að hætta að reyna að lesa hugsanir enda les ég þær örugglega jafn vitlaust og aðrir … O.sfr. Þannig er hugsanaleiðrétting 😉 Og svona eru jórturhugsanir: Manni dettur eitthvað óþægilegt í hug eitt andartak en öfugt við normal þankagang spólar maður þessa óþægindakennd aftur og aftur í hausnum eins og bilaða grammófónplötu í gamla daga og spinnur sig niður í verulega bágt sálarástand.

Það er frekar leiðinlegt að þurfa að stunda hugsanaleiðréttingu á hverjum degi. En það er nauðsynlegt í þunglyndi. Flestir kannast við eitthvað svona sem ég lýsti að ofan en það sem er smotterí og kemur sjaldan fyrir heilbrigt fólk margfaldast og verður meiriháttar í þunglyndi. Af því allir hafa reynslu af því að vera svolítið domm og líða illa einstaka sinnum en ná að rífa sig upp með tiltölulega lítilli fyrirhöfn eiga sömu allir stundum erfitt með að skilja af hverju þunglyndir geta ekki gert þetta sama, gera sér ekki grein fyrir margföldunaráhrifunum sem fylgja sjúkdómnum. Alveg eins og sá sem hefur fengið harðsperrur en líður annars alla jafna prýðilega getur illa sett sig í spor fólks með slæma gigt.

Netumræðan um mál Jóns Baldvins

Ég hef lengi haft áhuga á að skoða hvernig netumræða raunverulega er og gafst gott tækifæri til þess núna. Mig langaði að vita hve margir taka þátt í netupphlaupi á borð við umræðuna um væntanleg störf Jóns Baldvins Hannibalssonar sem gestafyrirlesara í stjórnmálafræðiskor HÍ, hve margir þeirra tjáðu sig á fleiri en einum vettvangi, hvernig þátttaka í netumræðu skiptist eftir kynjum og hvaða afstöðu menn tækju í umræðunni.  Er líklegt að einhvers konar þjóðarsál endurspeglist í netumræðu?

Til þess að komast að þessu skoðaði ég umræðuna við 4 fréttir og 2 blogg eins og hún leit út kl. 16 í gær, sunnudaginn 1. september. Fréttirnar og bloggin voru:

Það fyrsta sem kemur í ljós þegar svona umræðuhalar eru skoðaðir nánar er að umræðan er ekki nærri eins umfangsmikil/innihaldsrík og hún virðist við fyrstu sýn. Við fréttina/bloggin birtast nefnilega tölur um fjölda ummæla en ekki fjölda ritenda, t.d. eru skráð 143 ummæli við Ætla ekki að taka ráðningu Jóns Baldvins þegjandi en höfundar ummælanna eru ekki nema 78 talsins. Í þeim umræðuhala telst t.d. slóð á bloggfærslu á Knúz.is vera 15 ummæli því sama manneskjan sendir slóðina 15 sinnum inn á umræðuvettvanginn. Svo verkið, að skoða umæðuna, var ekki eins óyfirstíganlegt og fljótt á litið mætti ætla.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Alls skrifuðu 221 manns athugasemdir við fréttirnar og bloggin sem ég taldi upp hér að ofan. Þetta voru 148 karlar og 73 konur. Það kom mér talsvert á óvart að karlarnir skyldu vera um tvöfalt fleiri í þessum hópi.

Rétt rúmlega 9,5% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (21 manns) tjáðu sig á fleirum en einum vettvangi. Tveir umræðumanna tjáðu sig á öllum þeim sex umræðuþráðum sem ég skoðaði.

Rúmlega 15% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (35 manns) eru á Facebook-vinalista Hildar Lilliendahl Viggósdóttur. Ég athugaði þetta sérstaklega af því allar fréttirnar nema sú fyrsta á listanum eru sprottnar af bloggfærslu Hildar og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, Háskóli Íslands – griðastaður dónakarla?, knuz.is 28. ágúst 2013.

Ég flokkaði athugasemdir þessara 221 þáttakenda í þrjá flokka: Þá sem taka undir með málflutningi Hildar Lilliendahl Viggósdóttur og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, þá sem lýsa sig andsnúna sama málflutningi og þá sem lýsa sig hlutlausa eða fjalla um annað í sínum athugasemdum. Hlutföllin eru þessi:

  • Sammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru rúmlega 18,5% (41 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Ósammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru tæplega 39% (86 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Hlutlausir eða með annars konar athugasemdir eru 42,5%  (94 af þeim sem leggja orð í belg).

Ég tek fram að hluti skýringarinnar á hve margir falla í flokk hlutlausra er að bloggfærsla Egils Helgasonar, Heiftin á netinu, snérist ekki sérstaklega um mál Jóns Baldvins og því tjáðu margir sig um eitthvað annað en akkúrat ráðningu Jóns Baldvins. Önnur skýring er að þeir sem nota Facebook átta sig ekki allir á að þeir eru að svara opinberlega þegar þeir skrifa athugasemd við eitthvað sem einhver Facebook vinur þeirra hefur skrifað við frétt eða blogg og því eru athugasemdir undir öðrum athugasemdum oft ómarkvissar. Þriðja skýringin er að hluti þeirra sem tjáir sig í þessari umræðu snýr sínum athugasemdum upp á eitthvað sem tengist málinu lítið, fjallar t.d. um skoðun Jóns Baldvins á Evrópusambandinu eða prófessorsstöðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við HÍ.

Santorini og Krít

Við erum komin heim eftir þriggja vikna velheppnað ferð til Santorini og Krítar. Ég hef sett upp myndasíðu úr ferðinni, þótt minnið hafi snarbatnað við að hætta að eta pillur er ágætt að hafa myndasíðu í bakhöndinni, svoleiðis síður hafa reynst mér ómetanlegar á stundum.

Einhvern daginn blogga ég um bækurnar sem ég las í fríinu … inn á milli morðbókmennta las ég sögulega skáldsögu sem gerist á Spinalonga, tvær bækur um sækópata (önnur er skáldsaga, sem ég las reyndar í annað sinn enda er hún helv. góð), eina bók um geðlyfjuð amrísk ungmenni og svo fyrstu íslensku rafbókina sem ég hef keypt, Hælið. Og svo má auðvitað blogga um yfirvofandi útdauða netkaffihúsa … tek spjaldið með mér næsta sumar.

Ég gerði mitt besta til að fylgjast með helstu hitamálum á netinu hér á klakanum og sá að þau snérust annars vegar um Brynjar Níelsson (sosum ekkert nýtt) og hins vegar um gullfiskinn Sigurwin. Svoleiðis að maður hafði einhver umræðuefni yfir kvöldverðinum 😉

En … þetta var frábær ferð (eins og allar hinar ferðirnar til grísku eyjanna) en það er líka gott að vera komin heim, mikil ósköp.

Sól og sumar og bloggfrí

Sólin skín og sumarið er komið og ég nenni æ sjaldnar að kveikja á tölvunni. Svoleiðis að þetta blogg er eiginlega bara tilkynning um að komið sé bloggsumarfrí. Það er skemmtilegra að yrkja garðinn sinn akkúrat núna, tsjilla á pallinum prjónandi, lesandi, sólbaðandi sig … lífið er einkar ljúft þessa dagana. Og nýdoktorinn að kalla á mig í kvöldmatinn í þessum skrifuðum orðum …