Í nútímamáli er stundum tekið svo til orða að einhver gangi berserksgang undir áhrifum áfengis. Átt er við að einhver missi gjörsamlega stjórn á sér og brjóti allt og bramli í kringum sig, jafnt húsmuni sem fólk. Slíkt æði er svipað og æðið sem rann á berserki til forna, þótt þeir hafi væntanlega ekki neytt áfengis í miklum mæli áður. Á tímbili naut sú skoðun nokkurrar hylli að berserkir víkingaaldar hefðu neytt einhverra sveppa til að æðið rynni á þá. Af þessari skoðun dregur berserkjasveppur nafn sitt (Amanita muscaria). Þessi skoðun þykir þó mjög ósennileg nú.
Miklu líklegra er að berserkir hafi þjáðst af einhvers konar sjúkdómum sem hafi lýst sér í slíku æði sem berserksgangur er. Má þar nefna ýmsa geðsjúkdóma eða flogaveiki. Slíkt kann að hafa gengið í ættir, enda þess víða getið að berserksgangur eða hamremmi hafi erfst í karllegg.
Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir