Landnám Íslands stóð
frá um 870 til 930 eftir Krist og er þessi tími kallaður
landnámsöld. Áður en landnámsöldin
hófst, segir í Íslendingabók
að papar (írskir einsetumunkar) hafi dvalið hér á
landi um stund. Paparnir fóru svo héðan um það
leyti er landnámsmennirnir komu, líklega vegna þess
að þeir vildu ekki vera í samfélagi með heiðnu
fólki. [1]
Landnáma
segir að víkingurinn Naddoddur frá Færeyjum hafi
komið hingað fyrstur norænna manna. Hann stoppaði hér
stutt en gaf landinu þó nafnið Snæland.[2]
Sænskur víkingur, Garðar Svavarsson,
á að hafa komið hingað á eftir Naddoddi. Sagt
er að hann hafi siglt í kringum landið og verið fyrstur
manna til að dvelja hér um vetur. Hann skýrði landið
Garðarshólma
en þegar hann fór urðu eftir þrír förunautar
hans og voru þeir fyrstu norrænu mennirnir sem settust að
á Íslandi en eru þó ekki sagðir landnámsmenn.
[3]
Norskur víkingur, Hrafna-Flóki var sá
síðasti sem kom til landsins á undan fyrsta landnámsmanninum.
Hann tók með sér búfé og fylgdarlið
því hann ætlaði að setjast að á landinu.
Flóki gleymdi að afla vetrarforða fyrir búféð
um sumarið svo það var allt dautt eftir veturinn. Eftir þessi
mistök Flóka fór hann aftur til Noregs og skírði
landið sínu núverandi nafni, Ísland.[4]
Fyrsti landnámsmaður Íslands og sá
frægasti var Ingólfur Arnarson. Hann er sagður vera sá
fyrsti er hér nam land vegna þess að hann settist að
á Íslandi til frambúðar sem hinir fyrrnefndu gerðu
ekki. Ingólfur Arnarson var frá Dalsfirði í Noregi.
Hann kom til landsins ásamt fóstbróður sínum,
Hjörleifi, vegna deilna sem þeir komu sér í í
heimabæ sínum. Fyrst komu þeir til landsins í
þeim tilgangi að kanna það og dvöldu hér
í um eitt ár. Að nokkrum árum liðnum komu
þeir aftur til að nema land. Ingólfur byggði sér
bæ í Reykjavík og lagði undir sig allt land vestan
Ölfusár, Öxarár og Brynjudalsár. Hjörleifur
var aftur á móti ekki jafn heppinn og Ingólfur og
var drepinn áður en hann náði að helga sér
land. [5]
Á
eftir Ingólfi komu fleiri og fleiri landnámsmenn til Íslands,
aðallega norrænir víkingar. Þeir menn sem ætluðu
að nema land urðu að vera sæmilega hraustir og duglegir
því að leiðin til Íslands var mikið þrekvirki
og einnig var landið sjálft torfært. Vegna þessa
gátu einungis um 20 til 30 manns verið um borð í
hverju skipi.[6]
[Myndin sýnir þær Elvu
og Irmu, afkomendur þessara hraustu
víkinga! Sé ýtt á litlu myndina kemur
stærri og skýrari mynd.]
Talið er að víkingar hafi farið í
þessar ferðir aðallega vegna mikillar fólksfjölgunar
og plássleysis í þeirra heimalandi. Tækniframfarir
á þessum tíma voru miklar og þá sérstaklega
í siglingum sem gerði það að verkum að víkingar
gátu ferðast æ víðar og siglt til fjarlægra
landa s.s Íslands sem áður var nánast ógerningur.
[7]
Landnáma greinir frá því
að er landnámi lauk hafi um 435 manns numið land á
Íslandi. Þá bjuggu 107 á Suðurlandi, 137
á Vesturlandi, 118 á Norðurlandi og 73 á Austurlandi.
Árið 930 er sagt að landnámi hafi lokið og menn
hætt að flytja til landsins. [8]
[1] Árni D. Júlíusson og Jón
Ó. Ísberg. 1991. Söguatlas frá öndverðu
til 18. aldar. Iðunn. Rvk. bls. 36.
Björn Þorsteinsson. 1991. Íslandssaga til okkar
daga. Sögufélag. Rvk. bls 13-15.
[2] Árni D. Júlíusson og Jón
Ó. Ísberg. 1991. Söguatlas frá öndverðu
til 18. aldar. Iðunn. Rvk. bls. 36.
[3] Árni D. Júlíusson og Jón
Ó. Ísberg. 1991. Söguatlas frá öndverðu
til 18. aldar. Iðunn. Rvk. bls. 36.
[4] Björn Þorsteinsson. 1991. Íslandssaga
til okkar daga. Sögufélag. Rvk. bls. 24.
[5] Árni D. Júlíusson og Jón
Ó. Ísberg. 1991. Söguatlas frá öndverðu
til 18. aldar. Iðunn. Rvk. bls. 37-38.
[6] Árni D. Júlíusson og Jón
Ó. Ísberg. 1991. Söguatlas frá öndverðu
til 18. aldar. Iðunn. Rvk.
Björn Þorsteinsson. 1991. Íslandssaga til okkar
daga. Sögufélag. Rvk. bls 18-25.
[7] Frosti F. Jóhannsson (ritstj.). 1987. Íslensk
þjóðmenning; Uppruni og umhverfi. Bókaútgáfan
Þjóðsaga. Rvk. bls.76-81.
[8]Árni D. Júlíusson og Jón
Ó. Ísberg. 1991. Söguatlas frá öndverðu
til 18. aldar. Iðunn. Rvk. bls. 36.