Á
víkingaöld drottnuðu norrænir menn yfir norðurhöfum.
Þeir höfðu lært að beita seglum og notuðu
sólina og stjörnurnar til að rata eftir. Tvær
gerðir voru til af tréskipum víkinga, svokallað langskip
og knörr.
[Myndina af skipinu teiknaði Gerður.]
Víkingar
herjuðu á alla Evrópu, bæði í ránsferðum
og verslunarleiðangrum. En í úthafssiglingum voru
þeir mjög háðir vindum og því var algengt
að þeir lentu í hrakningum og bæru langt af leið.
Einnig gátu þeir villst ef mjög þungskýjað
var eða þoka svo ekki sást til himins. Í
slíkum hrakningum fundu þeir Ísland, Grænland
og Norður Ameríku.
Langskip
Langskip voru herskip víkinga. Þau
ristu grunnt og voru meðfærileg við landtöku, í
ám, og í þröngum fjörðum. Hægt
var að róa þeim styttri vegalengdir og hafði hver
maður pláss við sína ár þar sem hann
bæði vann og hvíldist. Gott dæmi um langskip
er Gaukstaðaskipið sem fannst í Gokstad í Noregi
árið 1880 en það er best varðveitta víkingaskip
sem fundist hefur. Það hefur verið 23,33 m langt og
5,25 m breitt en risti þó ekki nema um 1 m dýpst, fullhlaðið.
Borðstokkurinn hefur verið nokkuð hár
og 16 áragöt hvoru megin. Stýrið var svo stór
ár hægra megin á skipinu. Í skipinu fundust
64 skildir sem þykir benda til þess að í skipinu
hafi verið tvær áhafnir sem hafi skipst á
vöktum.
Af Gaukstaðaskipinu hafa verið gerðar nákvæmar
eftirlíkingar og hefur þá verið hægt að
sýna fram á hversu gott sjóskip það hefur
verið. Siglingarhraði þess hefur verið yfir 10
hnútar á fullu lensi og hægt að beita því
allt að 6° upp í vindinn.
Knörr
Knerrir
voru úthafsskip víkinga, belgmeiri og ristu dýpra
en langskip. Þeir voru því ekki eins meðfærilegir
en tóku meiri farm. Einn knörr fannst ásamt öðrum
skipum á hafsbotni í Hróarskeldufirði í
Danmörku árið 1962. Hann hefur verið 16,5 m langur
og 4,5 m hár eða minni en Gaukstaðaskipið. Það
hefur rist um 1 til 1,5 m fullhlaðið. Í miðju
skipinu er lest og burðargeta þess um 25 til 30 tonn. Við
albestu skilyrði hefur það náð 10 til 11 hnúta
hraða. Í lestinni hefur verið hægt að koma
fyrir varningi jafnt sem lifandi húsdýrum. Smíðuð
var eftirlíking af knerrinum en það skip brotnaði
úti fyrir Spáni árið 1992.