Author Archives: Harpa

Rétttrúnaður í prjóni

Ef marka má prjónauppskriftir og prjónaumfjöllun síðustu ára skal nota þá eina rétta aðferð við handprjón: Slétt lykkja skal vera slétt og brugðin lykkja skal og vera slétt. Samt eru til margar aðrar aðferðir og er því jafnvel fleygt að hægt sé að prjóna brugðna lykkju á sextán mismunandi vegu! Þetta eru áhrif frá amrískum og enskum prjónauppskriftum og stundum hefur verið bent á að fyrirmyndin að þessum rétttrúnaði sé prjónles úr prjónavélum. Sjálfri finnst mér út í hött að handprjón eigi helst af öllu að líkjast vélprjóni! Þessi færsla er yfirlit yfir helstu prjónapólitísk hitamál:  Slétt eða snúið?; Vestrænt eða austrænt?; Gamlar prjónahefðir eða nýmóðins ameríkanísering?

slétt eða snúin slétt lykkja
Slétta lykkjan á myndinni hægra megin er í samræmi við rétttrúnað nútímans, sumsé slétt slétt lykkja. Fremri lykkjuboginn er framar á prjóninum og í hann skal prjóna.

Slétta lykkjan á vinstri myndinni er svokölluð snúin slétt lykkja. Aftari lykkjuboginn er framar á prjóninum og liggur beint við að stinga prjóninum gegnum hann.

Snúin slétt lykkja á Garnstudio Slétt slétt lykkja á Garnstudi
Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig snúin slétt lykkja er prjónuð. Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig slétt slétt lykkja er prjónuð.
Brugðin lykkja eins og prjónuð er á Íslandi  

Slétt brugðin lykkja 

 

Til vinstri er sýnd sú aðferð sem kennd er í íslenskum skólum og langflestir Íslendingar nota nú, að ég held.

Bandið er fyrir aftan prjónlesið, alveg eins og þegar slétt lykkja er prjónuð. Það er vitaskuld hagræði að þurfa ekki að flækjast með garnið framfyrir til að prjóna brugðna lykkju, t.d. þegar prjónað er stroff (sléttar og brugðnar lykkjur til skiptis).

Prjóninum er stungið í fremri lykkjuboga og þetta er því slétt brugðin lykkja (vestræn ósnúin brugðin lykkja).

Myndin er stilla úr myndbandi á Garnstudio og krækir í myndbandið. Þar er þetta sögð “almenn aðferð sem notuð er í Noregi og Danmörku”. Enskumælandi virðast kalla aðferðina “Norwegian purl”.

Brugðið fyrir odd slétta brugðna lykkju
Þessi aðferð hefur verið kölluð að bregða fyrir odd.Augljós ókostur við þessa aðferð er að það þarf að færa garnið framfyrir prjónlesið og þ.a.l. að flækjast með garnið framfyrir og afturfyrir þegar prjónaðar eru brugðnar og sléttar lykkjur til skiptis á sama prjóni, t.d. í stroffi eða tvöföldu prjóni.Prjónað er í fremri lykkjuboga og lykkjan verður slétt brugðin.  Í myndbandinu sem stillan er úr er þetta sögð evrópsk aðferð (continental purl). Aðferðin er vestrænt ósnúið prjón.

Smelltu á myndina til að sjá skýringarmyndbandið á Garnstudio.

Austræn ósnúin brugðin lykkja

Elsa E. Guðjónsson hefur haldið því fram að Íslendingar hafi prjónað brugðnar lykkjur eins og sést á þessari mynd allt til þess að handavinnukennsla hófst í skólumHún segir þetta vera austrænt ósnúið prjón og styðst við þessa skýringarmynd í Mary Thomas’s Knitting Book. Þetta er að því leytinu rangnefni að svona brugðin lykkja er snúin á prjóninum, þ.e. þegar garnið er veitt í gegnum lykkjuna með prjónoddinum gegnum aftari lykkjubogann.

Elsa hlýtur að hafa gert ráð fyrir að Íslendingar hafi prjónað austræna ósnúna slétta lykkju (sem nútildags er yfirleitt kölluð snúin slétt lykkja, sjá efst í þessari færslu) á móti. Sé prjónuð snúin slétt lykkja í sléttri umferð og svona snúin brugðin lykkja i brugðnum umferðum verður áferðin nauðalík venjulegu sléttprjóni (með ósnúnum sléttum og brugðnum lykkjum) og þess vegna er prjónið kallað ósnúið austrænt.  Að sögn Mary Thomas verður prjón þó þéttara með þessu móti heldur en með vestrænu ósnúnu prjóni.

Bandið er lagt fram fyrir prjónlesið en í stað þess að snúa upp á það eins og í dæminu hér næst að ofan er það einfaldlega krækt eða veitt í gegnum lykkjuna. Þetta er einfaldari aðferð en sú að ofan en sömu annmarkar fylgja henni, nefnilega að þurfa að færa bandið framfyrir.

Sjá einnig Blandaða aðferð neðar í færslunni.

Vestrænt snúið prjón eða snúið sléttprjón
Snúið vestrænt prjón (western crossed) er þannig að slétta lykkjan er prjónuð í aftari lykkjuboga (s.s. snúin slétt lykkja, sjá efst í færslunni); brugðna lykkjan er brugðin fyrir odd, sjá sérstakt dæmi um svoleiðis ofar í færslunni, en í stað þess að fara með prjóninn inn í fremri lykkjuboga eins og í því dæmi er farið gegnum aftari lykkjubogann.

Þetta kallast snúið sléttprjón í nýútkominn Prjónabiblíunni og er staðhæft að vindingur komi í flöt stykki prjónuð með þessari aðferð. Ég hef vissar efasemdir um að þessi fullyrðing standist þótt vissulega fylgi henni mynd af undinni prjónaprufu.

Mary Thomas’s Knitting Book er komin til ára sinna (fyrst gefin út 1938) sem skýrir dæmin sem hún tekur:  Hún segir að snúið vestrænt prjón sé teygjanlegra en venjulegt sléttprjón (ósnúið vestrænt prjón) og henti því betur í ýmslegt svo sem belti, sokkabönd og sárabindi 😉

Snúið austrænt prjónSnúið austrænt prjón (eastern crossed) er einfaldara/þægilegra og fallegra (finnst mér) en snúna vestræna prjónið.

Slétta lykkjan er prjónuð slétt (þ.e.a.s. prjónuð er sú slétta lykkja sem flestir kunna og nota, þar sem prjóninum er stungið í fremri lykkjubogann).

Brugðna lykkjan er prjónuð snúin: Hér er sýnd einföld aðferð til þess sem er að leggja bandið framan við prjónlesið og veiða það gegnum lykkjuna til að prjóna nýja lykkju, gegnum fremri lykkjubogann.

Áferðin á snúnu austrænu prjóni minnir svolítið  á nálbrugðin stykki, þ.e.a.s. stykkið er eins og það sé fléttað.

Slétt og snúið prjón: Blönduð aðferðBlönduð aðferð (combination knitting)

Þekktur amerískur prjónahönnuður, Ann Modesitt, hefur lagt sig fram við að koma þessari prjónaaðferðir á framfæri. (Myndirnar eru teknar af vefsíðu hennar.) Hún heldur því fram að prjónles verði óvenju fallegt og þétt prjónað með blönduðu aðferðinni.

“Austræn slétt brugðin lykkja” er raunar snúin brugðin lykkja en sé prjónuð snúin slétt lykkja á móti verður áferðin á prjónlesinu nokkurn veginn slétt.

Það er dálítið skondið til þess að hugsa að líklega er þetta sama prjónaðferð og Íslendingar notuðu áður en farið var að kenna prjón í skólum, a.m.k. ef marka má hugmyndir Elsu E. Guðjónsson, sem minnst var á hér að ofan. Skyldu Kanar hafa uppgötvað hefðbundið íslenskt prjón núna alveg nýlega? 😉

Brugðnar lykkjur Cat BordhiÍ lokin er kannski rétt að geta þess hvernig ég prjóna sjálf: Ég prjóna snúna brugðna lykkju, með bandið fyrir aftan prjónlesið og sting í fremri lykkjubogann en sný upp á lykkjuna í stað þess að snúa bandinu um prjóninn líkt og gert er í skandínavísku sléttu brugðnu lykkjunni sem flestir landar mínir nota. Þetta eykur auðvitað hraða því hreyfingum fækkar. Þegar ég prjóna flatt stykki (fram og til baka) prjóna ég sléttu lykkjurnar snúnar svo áferðin á prjónlesinu verður slétt. Það gildir nefnilega um þetta eins og í dæminu hér að ofan um blönduðu aðferðina að tveir snúnigar gera slétt (eins og tveir mínusar í stærðfræði gera plús).

Þetta er sú prjónaaðferð sem ég lærði í bernsku af ömmu minni. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir rétttrúnaðarskoðanir nútímans ættaðar vestan úr Amríkuhreppi og er hæstánægð með minn prjónaskap …

Mér til mikillar ánægju hefur svo einn af þekktustu prjónatæknifræðingum heims, Cat Bordhi, tekið þessa aðferð upp á arma sína og heldur hún því fram að akkúrat svona brugðnar lykkjur séu fastari og betri en allar aðrar. Sjá má myndband þar sem hún sýnir aðferðina – smelltu á myndina til hliðar til að opna myndbandið.

P.S. Ef einhvern langar að prjóna með virkilega flottri snúinni/fléttaðri áferð þá mæli ég með:

Sléttum sléttum lykkjum á réttu;
Snúnum brugðnum lykkjum prjónuðum í aftari lykkjuboga (þ.e. gömlu íslensku aðferðinni við að prjóna brugðnar lykkjur) á röngu.

Prjónakonur hvetja til voðaverka

Þótt prjón sé einkar friðsamleg iðja má tengja það við stríð og átök. Hér á eftir er stiklað á stóru yfir þátt prjónakvenna í blóðugum átökum frönsku byltingarinnar. Í næstu færslum verður fjallað áfram um hlutdeild prjónakvenna í ófriði.

Les tricotuesesLes Tricoteuses (Prjónakonurnar) létu eftirminnilega til sín taka í frönsku byltingunni. Sagt er að fjöldi kvenna, e.t.v. þeirra sömu hungruðu og þjáðu markaðskvenna og stóðu fyrir Brauðgöngunni/Kvenngöngunni til Versala árið 1789, hafi vanið komur sínar að fallöxinni og stutt frönsku ógnarstjórnina dyggilega. Frá þeim glumdu ýmist hvetjandi reiðiöskur og fagnaðaróp yfir hverjum hausnum sem féll eða þær sátu þöglar og prjónuðu meðan þær fylgdust með böðlinum undirbúa næsta fórnarlamb.

Les Tricoteuses urðu tákngerving þeirrar óskaplegu reiði og haturs sem knúði frönsku byltinguna. Enski rithöfundurinn Charles Dickens gerir einni Prjónakonunni, heldur óyndislegri persónu, góð skil í skáldsögunni A Tale of Two Cities. Madame Defarge, kona vínkaupmannsins, liggur á hleri í vínbúðinni og prjónar nöfn óvina og njósnara með einhvers konar dulmáli í munstrið á sínu prjónlesi. Svo styðst hún við það þegar hún upplýsir um óvini byltingarinnar. Tifandi prjónarnir Madame Defarge koma mönnum á fallöxina. Hún vekur hvarvetna ugg, meira að segja meðal samherja sinna:

He always remembered with fear and trembling, that that terrible woman had knitted when he talked with her, and had looked ominously at him as her fingers moved. He had since seen her, in the Section of Saint Antoine, over and over again produce her knitted registers, and denounce people whose lives the guillotine then surely swallowed up. He knew, as every one employed as he was did, that he was never safe; that flight was impossible; that he was tied fast under the shadow of the axe …

Segja má að Madame Defarge skapi mönnum aldurtila með prjóni. Hún og vinkonur hennar eru svo dyggir áhorfendur að aftökunum með fallöxinni.

Les tricoteuses
Þessi mynd er líklega eftir franska listamanninn Jean-Baptiste Lesueur (gæti þó verið eftir bróður hans) og heitir Tricoteuses. Hún er talin gerð 1789 og vatnslitamynd sem sýnir sama mótíf er talin vera frá 1799. Á myndinni sjást Prjónakonurnar og þær eru væntanlega að horfa á aftökur í fallöxinni frægu. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.
Les Tricoteuses � kvikmynd
Les Tricoteuses � kvikmynd
Ég veit ekki úr hvaða kvikmynd þessar tvær myndir eru en líklega er það ein myndanna sem gerðar hafa verið eftir A Tale of Two Cities. Þær sýna Prjónakonurnar tvö augnablik og er auðvelt að giska á hvað muni vera á seyði á þessum augnablikum. Smelltu á hvora mynd ef þú vilt sjá stærri útgáfur.
A Tale of Two Cities eftir Dickens
Þessi myndskreyting eftir John McLenan birtist í Harper’s Weekly 3. des. 1859. Saga Dickens var framhaldssaga í tímaritinu. Þarna líkjast Prjónakonurnar þremur refsinornum (fúríum).  E.t.v. er það Madame Defarge sem stendur þarna í miðjunni.
Úr A Tale of Two Cities:

Darkness closed around, and then came the ringing of church bells and the distant beating of the military drums in the Palace Courtyard, as the women sat knitting, knitting. Darkness encompassed them. Another darkness was closing in as surely, when the church bells, then ringing pleasantly in many an airy steeple over France, should be melted into thundering cannon; when the military drums should be beating to drown a wretched voice, that night all potent as the voice of Power and Plenty, Freedom and Life. So much was closing in about the women who sat knitting, knitting, that they their very selves were closing in around a structure yet unbuilt, where they were to sit knitting, knitting, counting dropping heads. (XVI. kafli, Still Knitting, í öðru bindi, The Golden Thread.)

The ministers of Sainte Guillotine are robed and ready. Crash!—A head is held up, and the knitting-women who scarcely lifted their eyes to look at it a moment ago when it could think and speak, count One.

The second tumbril empties and moves on; the third comes up. Crash!—And the knitting-women, never faltering or pausing in their Work, count Two. (XV. kafli, The Footsteps Die Out For Ever, í þriðja bindi, The Track of a Storm.).

Treyjan Karls I

Karl I BretakonungurÞann 30. janúar árið 1649 var Karl I Englandskonungur gerður höfðinu styttri. Hann hafði átt í útistöðum við ýmsa sína landsmenn, t.d. út af sinni meintu pápísku trú sem ekki féll í kramið, og lent í átökum við breska þingið sem taldi hann stefna að einveldi. Á málverkinu hér til hliðar sést Karl eftir aftökuna. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.)

Sagnir herma að Karl hafi ekki viljað sjá á sér nein hræðslumerki og til að koma örugglega í veg fyrir skjálfta á þessum kalda janúardegi klæddist hann tveimur skyrtum eða treyjum innanundir fínu fötunum. Önnur treyjan er til umfjöllunar hér.

William Sanderson sem skrifaði æviminningu Karls I (útg. 1658) segir að biskupinn af London, William Juxon, hafi liðsinnt Karli við síðustu handtökin: “Biskupinn setti á hann nátthúfuna og afklæddi hann að himinbláu satín-vestinu.” Himinbláa (öllu heldur ljósbláa) treyjan komst svo í eigu dr. Hobbs, læknisins hans Karls, þegar líkið var afklætt og flíkunum skipt milli fólks sem viðstatt var aftökuna. Hún er nú geymd í Museum of London.

Það sem gerir treyjuna sérlega spennandi eru blettirnir í henni sem mögulega eru blóðblettir. Þessir blettir voru rannsakaðir árið 1959 og aftur árið 1989 en niðurstöðurnar voru ekki ótvíræðar; ekki komst á hreint hvað blettaði treyjuna. Eins og blóðblettir gera ljóma þessir fagurlega í útfjólubláu ljósi en það gera því miður einnig svitablettir og ælublettir. Fyrir þremur árum rataði sú frétt í breska fjölmiðla að gera ætti DNA-rannsókn á þessum blettum til að ganga úr skugga um hvort þetta væri í alvörunni blóð Karls. Fallið var frá DNA-rannsókninni því svo oft er búið að handleika þessa treyju í tímans rás að ómögulegt þótti að nokkuð greindist sem mark væri á takandi.

Það þykir dálítið grunsamlegt að enga blóðbletti er að finna kringum hálsmálið, eins og ætla mætti að væri raunin hefði einhver verið hálshöggvinn í þessari treyju. Vegna ónógrar þekkingar á hálshöggi get ég því miður ekki dæmt um hversu mikið blóð spýtist úr strjúpa og hvert það leitar. Hefur og heyrst sú skoðun að einhver ótíndur áhorfandi hafi klæðst skyrtunni og staðið fullnálægt þegar konungurinn var hálshöggvinn. Líklega er samt best að hafa það fyrir satt að þetta sé treyjan sem Karl I klæddist síðustu mínúturnar í sinni jarðvist og að innri skyrtan (sem var úr líni) hafi drukkið í sig blóðdropana sem láku með hálsinum …

Skyrtan (sem er oft kölluð jakki, jacket, eða vesti, waistcoat, á enskum síðum) er prjónuð úr fíngerðu ljósbláu silkigarni. Prjónafestan er 8 1/2 lykkja á sentimetra. Skyrtan er prjónuð í hring, að neðan og upp. Hún er saumuð saman á öxlum og sömuleiðis eru ermarnar saumaðar í. Þær eru einnig prjónaðar í hring.

Karl I var enginn beljaki. Treyjan er 80 cm löng og yfirvíddin er 44 cm, neðst er treyjan 70 cm víð. Ermasídd er 52,5 cm.

Munstrið er svokallað “damaskmunstur” (brocade pattern kalla enskumælendur þetta), þ.e.a.s. upphleypt einlitt munstur, myndað af brugðnum lykkjum á sléttum grunni. Svipuð ljósblá treyja frá sama tíma er varðveitt í Drummond kastala í Skotlandi og önnur svipuð en rauð að lit í danska Þjóðminjasafninu. Ekkert er vitað um uppruna þessara treyja, þær gætu verið prjónaðar hvar sem er í Evrópu.

Svona damaskmunstur urðu seinna mjög vinsæl á dönskum “náttreyjum” úr ull, sem eru enn hluti af mörgum svæðisbundnum þjóðbúningum í Danmörku.

Hér eru myndir af silkiskyrtunni hans Karls og henni tengdar. Smelltu á litlu myndirnar ef þú vilt sjá stærri útgáfur.

Skyrta Karls I � Museum of London
Treyja Karls I í Museum of London.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Skyrta Karls I � útfjólubláu ljósi
Treyjan í útfjólubláu ljósi, sem sýnir (blóð)blettina vel.
Hálsmál á skyrtu Karls I
Hálsmálið á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Nærmynd af ermi á skyrtu Karls I
Nærmynd af ermi á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Aðalmunstur á treyju Karls I
Aðalmunstrið á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal
með munstrinu.)
Munstur á berustykki á treyju Karls I
Munstrið á berustykkinu á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal
með munstrinu.)

 

Heimildir:

Hoffmann, Marta. Of knitted “nightshirts” and detachable sleeves in Norway in the seventeenth century. Opera Textilium Variorum Temporum To honour Agnes Gejer on her nintieth birthday 26th October 1988. Statens Historiska Museum, Svíþjóð.

Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Bandaríkjunum. Upphaflega gefin út 1987.

Thomas, Mary. 1972. Mary Thomas’s Book of Knitting Patterns. Dover Publications, Bandaríkjunum. Önnur útgáfa, upphaflega gefin út 1943 á Englandi.<<<<<<<<<

Was this the waistcoat that Charles I was wearing when he was beheaded? 19. feb. 2010. Daily Mail.

Lengri útgáfa af sömu grein á Canadian Content, 18. feb. 2010.

Undershirt. Museum of London.

Damask Knitting – A Danish tradition. NORDIC UNVENTIONS.

Prjónaði silkijakkinn hans Ottheinrich

Upplýsingar um silkijakka þýska greifans/hertogans og kjörfurstans Ottheinrich liggja hreint ekki á lausu, hvorki á vefnum né í prjónasögubókum. Samt er þetta ótrúlega merkilegur jakki/treyja því um er að ræða elstu prjónuðu flík sem varðveist hefur í Evrópu, að frátöldum sokkum og hönskum. Og auðvitað elsta prjónaða silkijakkann sem varðveist hefur. Þessi silkijakki er ólíkt hversdagslegri en síðar tíðkaðist, sjá færsluna Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld.

Hver var Ottheinrich?

OttheinrichOttheinrich, sem hét fyrst bara Otto Heinrich, fæddist árið 1502 og dó 1559. Afi hans var hertogi af Bæheimi og Ottheinrich fékk, í félagi við bróður sinn, yfirráð yfir nýju hertogadæmi, Herzogtum Pfalz-Neuburg, þegar hann hafði aldur til. Höfuðborg þess var Neuburg an der Donau.

Ottheinrich var hálfgerður útrásarvíkingur síns tíma. Hann barst mjög á, byggði t.d. kastala og safnaði listmunum, tók þátt í ýmsu valdabrölti og hélt sér á floti með nýjum og nýjum lántökum þótt hann væri löngu orðinn gjaldþrota. Að lokum hrökklaðist hann frá völdum en endurheimti þau seinna, var hækkaður í tign og gerður að kjörfursta yfir Pfalz Neuburg. Í síðari valdatíð sinni hlúði Ottheinrich mjög að listum og vísindum, átti frábært bókasafn, lét útbúa eitt glæsilegasta biblíuhandrit allra tíma, sem við hann er kennt, og margt fleira vann hann sér til ágætis.

Kannski er líka rétt að taka fram að þótt Ottheinrich hafi verið ljómandi myndarlegur maður á yngri árum, ef marka má málverk af honum, þá fitnaði hann mjög eftir því sem árin færðust yfir hann. Talið er að hann hafi verið hátt í 200 kg þungur síðustu árin sem hann lifði.

Silkijakkinn

Silkijakki OttheinrichJakkinn ber offitu Ottheinrich vitni því yfirvíddin er 2,20 metrar! Hann er prjónaður úr ólituðu silki og munstrið er ákaflega einfalt, s.s. sjá má sé smellt á litlu myndina af jakkanum sjálfum. Nánar tiltekið er munstrið úr lóðréttum röðum af samtengdum þríhyrningum sem eru prjónaðir brugðið á sléttum grunni. Hver munsturröð er 2,5-3 cm breið og hæðin á þríhyrningunum er 1 cm. Talning á umferðum og lykkjum á myndum bendir til þess að hann sé prjónaður úr grófara garni en síðari tíma útprjónuðu silkijakkarni, þ.e.a.s. prjónafestan virðist um 5 lykkjur á sentimetra. Sé smellt á myndina af jakkanum kemur upp stærri mynd af munstrinu.

Ottheinrich hefur líklega eignast þennan jakka í kringum 1540 því hans er getið í gögnum sem varðveist hafa. Af þeirri lýsingu að dæma hefur prjónaefnið verið keypt frá Ítalíu og jakkinn síðan sérsaumaður á karlinn.
Núna er þessi merkilegi jakki varðveittur á Heimatmuseum í Neuburg an der Donau í Bæjarlandi. Hér að neðan er mynd af nútímaeftirgerð jakkans, sem, eins og sjá má, rúmar léttilega fimm krakka.

Eftirl�king af silkijakka Ottheinrich

Aðalheimild:
Feyerlein, Heinrich. 1976. Eine Strickweste des Pfalzgrafen Ottheinrich. Neuburger Kollektaneenblatt. Jahrbuch 129/1976. Heimatverein – Historischer verein. Neuburg a.d. Donau. (Myndir af jakkanum og munstrinu eru skannaðar af ljósriti þessarar greinar.)

Melankólía gáfaðra karla og hvunndagsleg geðlægð kvenna

Ég hef undanfarið verið að lesa bók eftir Karin Johannisson, Melankoliska rum. Om ångest, leda och sårbarhet i förfluten tid och nutid, sem kom út árið 2009. Er ekki nema rétt hálfnuð með bókina en finnst margt í henni athyglisvert. Karin þessi er sagnfræðingur með hugmyndasögu sem sérsvið (idéhistoriker). Hún hefur skrifað margar bækur um sjúkdóma og hugmyndasögu og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir.

Í upphafi bókarinnar er gerð góð grein fyrir hvernig lýsingar á tilfinningum breytast í tímans rás og hve erfitt, eða jafnvel ómögulegt, getur verið að túlka lýsingar fyrri tíma með hugtökum og orðum nútímans. Eftir að sá varnagli hefur verið sleginn fer Karin að velta fyrir sér melankólíu og hvernig henni hefur verið lýst um aldir, í læknisfræði, bókmenntum, sjúkraskrám o.fl.

Hún telur að hugtakið melankólía hafi a.m.k. þrjár víddir sem snerta tilfinningar, geðslag og sjúkdóm. Gömul orð yfir melankólíu sem tilfinningu er fjölmörg og í þeim felst mismunandi mikill þungi. Karin telur upp sænsk orð yfir þetta en á íslensku eru eftirfarandi orð sögð samheiti við melankólíu: Geðveiki, samviskuveiki, þunglyndi, sturlun, fálæti, fáleiki, hjartveiki, hrelling, hugtregi og hugarvíl (Sveinn Pálsson. 1788.)

En þessi orð tengjast ekki sjúkdómi, segir Karin, heldur felst í þeim ákveðið þema: Einhvers konar missir, stol eða -leysi. Melankólía getur verið missir tilgangs (tilgangsleysi) en einnig bókstaflega missir tungmáls (væntanlega hæfileikans til að tjá sig), missir atorku eða missir orku til að koma sér fram úr rúminu.
Þótt melankólíu fylgi erfiðar tilfinningar hefur henni, sögulega séð, verið eignuð uppbót sem er glöggskyggni og sköpunarkraftur. Á koparstungu Dürer, Melencolia I, frá 1514, sést þetta vel: Þungbúinn engill situr (svo sannarlega) í þungum þönkum; Andlitið er dökkt og augun dauf en í kringum hann liggja tákn vísindanna. Á sextándu öld var þessi tegund af melankólíu kölluð melancholia generosa, hin gjafmilda melankólía.

[Hér mætti og skjóta inn dæmi um rómantíska sýn á melankólíu, þ.e. eftirfarandi tilvitnun í Drauminn eftir Byron (1788-1824), í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar:

Því þunglyndisins skarpa og skyggna sjón
Er geigvæn gáfa þeim, sem hana hlaut.
Hvað er hún nema sannleiks sjónarauki,
Sem fjarlægð sviptir töfrum tálarmynda,
Sem nálgast lætur líf í tómri nekt
Og harðan sannleik helzt til sannan gjörir.]

Hugtakið depression er miklu þrengra. Það er búið til með hliðsjón af deprimere= að sökkva eða þrýsta niður. Myndhverfingin í því orði vísar til þess að einstaklingurinn
er niðurdreginn/þrúgaður niður. (Í íslenskun geðgreiningarlykla nútímans hefur verið búið til orðskrípið geðlægð til að þýða depression. Almenningur kallar depression þunglyndi, sem er eitt gömlu orðanna yfir melankólíu.)

Í melankólíu geta falist sterkar tilfinningar og sköpunarkraftur en í depression-hugtakinu felst aðallega hindrun. Karin vísar til Jennifer Radden, sem hefur farið kerfisbundið gegnum greiningarkerfi nútímageðlækninga og sýnt fram á að það sem seint á 19. öld var skilgreint sem tilfinningar hafi síðan þá þróast yfir í skilgreiningar á hátterni (s.s. svefn-, matar- og einbeitingartruflanir, hreyfhömlun og þreyta).

Melankólía karla breytist í geðlægð kvenna

Það sem mér þótti þó athyglisverðast við þessa melankólíuumfjöllun Karin Johannisson var umfjöllun um hvernig melankólía karla varð að depression kvenna. Þar víkur nefnilega sögunni að mínu uppáhaldi þessa dagana: Staðalmyndum (stereotýpum).

Karin staðhæfir að söguleg staðaltýpa melankólíunnar sé hinn útvaldi karlmaður. En staðaltýpa nútímans af þunglyndi sé nafnlausa konan.

Melankólía var tengd við gáfur og sköpunarkraft … en bara þessa eiginleika karla. Væri minnst á melankólíu í sambandi við konur var hún gjarna tengd kynferðismálum, eins og í sjúkdómsgreiningunni erotomani. “Hoon vaar … så spaak, som ett litet deggie-lam, och gick i kärlig melancholij”, skrifar sænski 17. aldar læknirinn Urban Hjärne. Sú þögn sem ríkir um melankólískar konur, í sögunni, er tæplega vegna þess að þær hafi ekki verið til heldur sýnir þögnin frekar hve lágan status melankólía kvenna hefur haft í karllægri hefðinni: Þegar melankólíu er hampað eru konur ekki taldar með. Karin vitnar í Juliana Schiesari sem heldur því fram að melankólía kvenna hafi verið umrituð, annað hvort í eitthvað þýðingarminna og hversdagslegra eða í eitthvað hættulegra, t.d. hýsteríu og brjálæði. Og Karin tekur dæmið: Af hverju má bara kalla svartsýni yðar en ekki mína svartsýni melankólíu? spurði óánægð skáldkona í bréfi til sænska ljóðskáldsins P.D.A. Attenbom (1790-1885). Hann svaraði: Af því að til þess er ætlast að konan sé glaðleg og saklaus.

Kyn melankólíunnar er sem sagt skilgreint karllægt. Þótti hinn melankólíski karl sé viðkvæmur og brothættur tapar hann ekki karlmennsku sinni. Melankólíuhugtakið leyfir þvert á móti karlkyns gáfumönnum að innlima hið kvenlega inn í hið karlmannlega. Á sama hátt hefur hystería karlmanna verið tengd við sérstaklega skapandi viðkvæmni, í menningarsögunni, ólíkt hysteríu kvenna.

Nútildags eru konur greindar í geðlægð (depressívar) í tvöfalt meiri mæli en karlar. Staðalmynd geðlægðar/nútíma þunglyndis rennur saman við staðalmynd hins kvenlega: óvirkni, lágan róm, lélega sjálfsmynd, segir Karin Johannisson. Hún tekur síðan ýmis dæmi úr ævisögulegum skrifum frægra þunglyndra kvenna til að sýna hvernig þær upplifa þunglyndið sem “ekki-tilveru”, óvirkni, lamandi ástand o.þ.h.

Sú kona sem ekki er meðfærileg, ekki glöð og saklaus o.s.fr., heldur niðurdregin, óánægð og jafnvel galin, á í hættu að vera dæmd, ekki bara af karlmönnum og vísindaheiminum heldur einnig af sér sjálfri. Þannig kona er jú skilgreind, og skilgreinir sjálfa sig, sem sjúka. Vandinn felst í þessu ómeðvitaða vali kvenna, segir Karin, að dempa sitt sjálf (ego) en ekki að upphefja það, að leita innávið en ekki útávið, að bregðast við í vörn en ekki í sókn. Svo víkur hún talinu að kenningum Juliu Kristevu og fleiri sálkönnuða en þá hætti ég að lesa …

Skiptir þetta einhverju máli?

Þótt ég sé ekki sammála öllu í umfjöllun Karin Johannisson og hafi rekið mig á slælega umgengni hennar við heimildir í þessari bók finnst mér margt áhugavert í því sem hún segir. Mér finnst t.a.m. spennandi að velta því fyrir mér hvaða máli það skiptir að melankólía var karlanna, í menningarsögunni, en geðlægð er kvennanna, í nútímageðlæknisfræði. Hvaða máli skiptir svoleiðis fyrir status og staðalmyndir, þ.e.a.s. þá þætti sem einkum skipta máli í fordómum og brennimerkingu/stimplun?

Og passar þetta við Ísland?
Á hinn bóginn er ég ekki viss um að hve miklu leyti megi heimfæra umfjöllun hennar upp á íslenska menningu í tímans rás. Sveinn Pálsson segir í lýsingu á melankólíu árið 1788 : “Þat sýnisz og at fleiri séu konur enn karlar veikindum þessum undirorpnir.” Í annarri lýsingu sem birtist árið 1794 segir Sveinn að byrjunareinkenni melankólíu geti verið ofurlítið misjöfn eftir kynjum en virðist svo gera ráð fyrir að sjúkdómurinn lýsi sér eins hjá konum og körlum þegar hann elnar:

Géð- eðr Sinniveiki (Melancholia, Tungsindighed), er svo almennur sjúkleikr hér at ekke veitti af heille bók um hann, kynni þar með einhverium at verða hiálpar, byrjar hann optar með miltisveike eða vaniflasótt (Hypochondria, Miltsyge), hjá karlmønnumm, eðr móðursyke hiá kvennfólki, sem eru nærstumsømu veikleikar, og hvarum høndlat skal í [grein] 58, ríðr þá miøg svo á strax í fyrstu at bera sig að koma í veg fyrer hið verra; géðveikt fólk misser fyrst matarlyst, regluligan svefn og náttúrligar hægðir; elskar einsetur og veit þó ei giorla hvar fyrir; þeinkia jafnann um hið sama, fá jafnvel hatr á øllum mønnum og sér siálfum með; eru ofr sorgfullir eðr og þeigiandi og hræðast stundum alla hluti, með mørgu fleiru sem bagt er upp að reikna, um síðer vex þúnglyndit æ meir og meir, þar til siúklingr annað hvert fyrirfer sér siálfr þegar minst varer, elleger missir vitit og nefniz þá vitfirring […]

Reiði og alhæfingar

Bloggfærsla Ástu Svavarsdóttur, Haltu kjafti, vertu sæt og éttu skít., hefur vakið nokkra athygli og umræðu á Facebook enda mikill reiðilestur. Málflutningi hennar hefur verið svarað á öðrum bloggum en þessu, t.d. á bloggi Eiríks Arnar Norðdahl (sjá færsluna Trigger warning: Klám, klám og klám) og verður sjálfsagt svarað meir. Í þessari færslu ætla ég einungis að beina sjónum að því sem Ásta segir um námsefni í íslensku í framhaldsskólum.

Hún segir:

Í framhaldsskólum eru kenndar nokkrar sömu skáldsögurnar. M.a.  Brennu Njáls sagaSalka Valka og smásagnasafnið Uppspuna.
Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.
Njála býr yfir þekktustu kvenpersónu Íslendingasagna, sjálfri Hallgerði langbrók sem hefur verið hötuð og fyrirlitin síðastliðin átta hundruð ár.
Salka Valka býr yfir kvenfrelsishetjunni Sölku sem vill ekki vera kona! Salka Valka er mín uppáhaldssaga og sýnir hversu mikill snillingur Kiljan var að geta skrifað svona um konu 1930.
Uppspuni er nýjust, gefin út 2003 og flokkast því undir samtímabókmenntir og lumar á ýmsu.
Nú ætla ég að leyfa mér að tengja saman það sem er kennt í framhaldsskólum landsins og þann veruleika sem ungmennin okkar búa við. Gætu verið tengsl þarna á milli? Erum við fullorðna fólkið að skapa þennan veruleika?

Síðan túlkar Ásta valin atriði úr þessum bókum og tengir við klámvæðingu, bága stöðu kvenna, karllægt val o.s.fr. Ég geri túlkun hennar ekki að umræðuefni hér en hnaut um staðhæfinguna: Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.

Hallgerður langbrókMér er auðvitað ljóst að Njála er víða lesin í fornsagnaáfanga í framhaldsskólum en kannaðist satt best að segja ekki við að hinar tvær bækurnar væru algengar. Svo ég athugaði málið: Fletti upp bókalistum í 25 framhaldsskólum (en alls eru taldir vera 32 framhaldsskólar á Íslandi ef ég man rétt) og kíkti á kennsluáætlanir ef upplýsingar á bókalistum voru ekki fullnægjandi. (Raunar kíkti ég á síður fleiri framhaldsskóla en hjá sumum þeirra liggja þessar upplýsingar hreint ekki á lausu, t.d. hjá Kvennó og ML. Og sumstaðar eru upplýsingarnar af mjög af skornum skammti, t.d. hjá MTR og MH, sem er auðvitað afskaplega lélegt!)

Eftir að hafa skoðað upplýsingar á síðum: FVA, MA, VMA, FSH, MTR, VA, ME, FAS, FL, FNV, MH, MR, FB, FÁ, MS, BHS, FG, FSU, FSS, FSN, MÍ, MB, FMOS, TÍ og Verzló) er niðurstaðan þessi (með þeim fyrirvara að þessar bækur hefðu getað verið kenndar á fyrri önnum en haustönn 2013):

Einu framhaldsskólarnir sem kenna allar þessar þrjár bækur sem Ásta nefnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík (skólinn í hennar heimasveit) og Framhaldsskólinn á Höfn.

Eini skólinn sem kennir Sölku Völku fyrir utan þá tvo ofantöldu er Menntaskólinn á Ísafirði. Flestir skólar sem kenna langa sögu eftir Laxness velja Sjálfstætt fólk, stöku skóli kennir Íslandsklukkuna.

Smásagnasafnið Uppspuni er kennt við eftirtalda skóla: FSH, FAS, VA, Verzló, FÁ, FMOS, MB, TÍ og MS.

Brennu Njáls saga er kennd í sumum skólanna, Egils saga, Grettis saga eða Laxdæla í sumum, sums staðar er skipt um sögu aðra hvora önn. Ég taldi ekki hlutföllin milli þessara Íslendingasagna.

Þegar öllu er á botninn hvolft stenst fullyrðing Ástu um að það sé farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins engan veginn nema menn kjósi að túlka orðið flestallir sem afar teygjanlegt orð en teygjanleg orð ku í tísku um þessar mundir 😉

Myndin er af Hallgerði Höskuldsdóttur langbrók.

Er nýjasta trendið alltaf best?

 

Ég er nógu gömul til að muna eftir bæði sveitasíma og steinolíulömpum í mínum uppvexti. En í þessari færslu ætla ég að rifja upp aðeins nýrri tíma en bernskuna.

 

Veturinn 1985-86 stundaði ég kennsluréttindanám. (Verður að segjast eins og er að nánast ekkert úr því námi hefur nýst í starfi mínu sem framhaldsskólakennari en það er annar handleggur.) Eitt af því sem kennt var var svokölluð nýsitækni svo við gætum notað nýjustu tæki og tól til að lífga upp á kennsluna. Við lærðum að búa til flettilglærur, þ.e.a.s. föndra saman plastglærur í mismunandi litum og lögum. Mig minnir að ég hafi búið til glæru af óléttri konu (enda ólétt sjálf á þeim tíma), þar sem fletta mátti upp á henni kviðnum og sjá fóstrið undir: Gasalega sætt í myndvarpanum, fannst mér. Svo lærðum við að taka slæds-myndir af litmyndum í bókum.

Ég hef aldrei búið til flettiglæru síðan. Og aldrei tekið slæds-myndir af litmyndum í bókum, til að setja í framköllun og halda skuggamyndasýningu fyrir nemendur.

 

 

1986 kom fyrsta tölvan inn á heimili mitt. Mér þótti þetta mikil búbót enda hafði ég lært vélritun árið áður, ég fór nefnilega í landspróf og landsprófsnemendur lærðu ekki vélritun enda var búist við að við yrðum öll háskólaborgarar með ritara á okkar snærum þegar við yrðum fullorðin. Svo ég lærði að vélrita eftir að hafa lokið BA-prófi. Sambýlismaður minn (seinna eiginmaður) bjó sjálfur til ritvinnsluforrit í tölvuna, ágætis verkfæri nema það mátti alls ekki snerta einn ákveðinn takka á lyklaborðinu því þá þurrkaðist allt út. Í fyrstu tilraun minni til að nota þessa flottu nýju græju rak ég mig auðvitað í þann takkann og glataði merkri ritsmíð um uppeldis-og kennslufræði … en lét það ekki stöðva mig í að nota þessi nýju tæki áfram, tölvurnar altso.

 

 

Haustið 1986 byrjaði ég að kenna við Fjölbrautaskóla Akraness (sem nú heitir Fjölbrautaskóli Vesturlands). Í skólanum voru tölvur og mig minnir að Windows hafi ekki verið til þá. Einhvern tíma skömmu síðar stóð ég fyrir tilraunaverkefni í tölvustofunni sem hét Ritsmiðja. Það fólst í því að hjálpa nemendum að semja texta og ganga frá honum, eftir skólatíma. Obbinn af vinnunni var samt að hjálpa nemendum að brúka WordPerfect og Works ritvinnsluforritin.

 

Svo hef ég fylgst með þróun í tölvutækni allar götur síðar, byrjaði að nota internetið í janúar 1991, gegnum Imbu sálugu á Kópaskeri, Vefinn þegar hann kom til sögunnar o.s.fr. Ég hef unnið mýgrút af þróunarverkefnum tengdum þessari tækni, sem öll snérust um hvernig væri hægt að nota tæknina í kennslu og nám, í mínu tilviki íslenskukennslu.

 

Undanfarið hefur, í umræðu um skólamál, verið haldið mjög á lofti að í skólum sé ekki fylgst nógu vel með og þar sé ekki notuð ný tækni. Skólabækur séu óþarfar og allir eigi að nota Ipad eða önnur spjöld. Óþarft sé að kenna þekkingaratriði því nemendur geta alltaf og ævinlega flett upp á Vefnum. Nýafstaðið samræmt próf í íslensku þykir hallærislegt, jafnvel vont, af því á því birtust gamlir textar, spurt var út í óinteressant þekkingaratriði í stafsetningu o.fl. og prófið vakti alls ekki áhuga nútíma nemenda á móðurmáli sínu eða gekk út frá veruleik nútíma nemenda. Og þannig mætti lengi áfram halda.

 

Akkúrat núna erum við stödd í Ipad- og Iphone- og allrahandaspjaldvæðingunni miklu. En hver er þess umkominn að spá hvað verður eftir áratug, svo ég tali nú ekki um eftir nokkra áratugi? Ættu skólar að stökkva á þessar nýju græjur til að vera móðins og fylgjast með og vekja nægan áhuga? Ættu kennarar að hætta að kenna “steingeldar staðreyndaþulur” af því Gúgull frændi á svör við öllum spurningum? Eiga próf að hætta að mæla þekkingu og mæla eitthvað allt annað í staðinn eða yfirhöfuð alls ekki að mæla neitt heldur virka sem einhvers konar spennandi áhugahvöt?

 

Ég held að borgi sig að fara sér hægt. Hver veit nema spjöldin þyki jafn hallærisleg og slædsmyndir þykja nú, eftir áratug. Hver veit nema Vefurinn fyllist svo af óábyggilegu rusli að ekki einu sinni Gúgull frændi finni réttu svörin eftir nokkur ár. Hver veit nema Gúgull sjálfur deyi drottni sínum, eins og Altavista sáluga eða IRC-ið o.s.fr.

 

Ég sé sem sagt ekki ástæðu til að umbylta skólastarfi bara af því menn hafa eignast nýjar græjur. Á hinn bóginn finnst mér lofsvert hve menn eru duglegir að prófa þessar nýju græjur í kennslu og fara nýjar leiðir að markinu. Öll tilraunaverkefni kennara eru af hinu góða því hafi kennarinn áhuga á því sem hann er að gera (t.d. prófa eitthvað nýtt) þá skilar það sér í betri kennslu. Tilraunir í kennslu hafa nefnilega sams konar lyfleysuáhrif og þau frægu þunglyndislyf. Og um þetta gildir hið sama: Þegar verið er að meta árangurinn verður að hafa lyfleysuáhrifin í huga.

 

 

 

 

Dulinn menningarkimi

Færslan hefði auðvitað eins getað heitið Prjón því hún er um þá göfugu list.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað ræður því hvaða menning (í víðu samhengi) er opinber (í þröngu samhengi) og hver ekki. Íþróttir er t.d. afar opinber menning, það verður ekki þverfótað fyrir íþróttafréttum og umræðu um þær og annað sem tengist íþróttum, í öllum fjölmiðlum. Þetta er sjálfsagt gott og gaman fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum (en ég velti því stundum fyrir mér hversu stór hluti þjóðarinnar það raunverulega er). Fyrir okkur hin er ósköp auðvelt að sleppa því að lesa, horfa og hlusta og því hef ég akkúrat ekkert við mikla íþróttaumfjöllun að athuga.

En umfjöllun um prjón er óneitanlega dálítið ósýnileg. Það er ekki gefinn út sérstakur prjónakálfur með mogganum oft í viku, ekki sagðar prjónafréttir í lok hvers fréttatíma og engir netstormar með prjónatengdum upphrópunum geisa reglulega. Samt er ótrúlega mikill fjöldi prjónenda hérlendis. (Þori ekki annað en nota orðskrípið prjónandi til að þóknast femínistum með rörið á orðanna hljóðan, þótt miklu eðlilegra sé auðvitað að tala um prjónakonur.) Eini netmiðillinn sem ég man eftir að birti reglulega prjónafróðleik er innihald.is.

Prjónamenning lifir góðu lífi á netinu þótt hún sjáist ekki á yfirborðinu. Fjöldi prjónablogga er til vitnis um það en þau eru ekki skráð á blogggáttina og af því lítið er um upphrópanir og garg þegar prjón ber á góma er þeim heldur ekki deilt á Facebook í stórum stíl. (Sé samt alveg fyrir mér fyrirsögnina: “Segir engu máli skipta hvernig slétt lykkja snýr!” og meðfylgjandi gargið í “virkum í athugasemdum” … en er dálítið fegin að prjón skuli ekki teljast til hitamála.) Á Facebook eru stórir og virkir umræðuhópar prjónenda sem ræða málin án þess að skerist nokkru sinn í odda með þeim; þar fer allt fram í fullkomnu systrerni.

Svo eru það uppskriftirnar og kennslan … maður lifandi! Hver prjónakona með snefil af sjálfsvirðingu er áskrifandi að Knitting Daily og Interweave og meðlimur í Ravelry. Drops/Garnstudio.no byrjaði að birta uppskriftir á íslensku einnig, á þessu ári. Viti maður ekki hvernig skal prjóna þetta eða hitt er hægur vandi að finna YouTube myndband og læra listina. Kennslumáttur netsins er hvergi meiri og auðsærri en í prjóni. Sú staðreynd virðist hafa farið fram hjá Æpad-trúboðum skólakerfisins og vendikennsluboðendum, einhverra hluta vegna.

Svo er það geðræktarhlutverk prjóns, þáttur sem er sorglega lítið fjallað um. Að prjóna er sérdeilis róandi og huggandi og alveg upplagt þegar maður getur ekki gert neitt annað, til að drepa helv. tímann sem verður stundum helsti óvinur þunglyndra … tíminn sem aldrei ætlar að líða. Mín reynsla af geðdeildarvistunum er að prjón bjargar manni algerlega frá því að koðna ofan í ekki neitt þar inni. Þar er nefnilega nánast ekkert að gera nema auðvitað bíða eftir næsta pilluskammti. Þeir sem sinna geðdeildarsjúklingum mest eru sjúkraliðar (og vaktstrákarnir en af því þeir hafa lítið með prjón að gera eru þeir ekki til umræðu í þessari færslu, tek þó fram að þetta eru miklir ágætismenn sem sinna sjúklingunum einkar vel). Mín reynsla er sú að sjúkraliðar eru dásamlega þolinmóðar konur, góðar konur, mannþekkjarar …  og margar þeirra mjög flinkar prjónakonur, prjónakennslukonur einnig. Það bjargar ótrúlega miklu að fá hjálp og kennslu og aðstoð við að prjóna í Húsi þjáningarinnar, þ.e. geðdeildum Lans. Án prjóns er nær ekkert að gera nema mæla gangana, nú eða spekúlera í gardínunum og litnum á hurðunum, ef menn eru þannig innstilltir …

Þarf sosum ekki þunglyndi til, til að meta gildi prjónaskapar. Að setjast niður og iðja með höndunum smástund á degi hverjum fær alla til að slaka á og bætir geð og léttir lund.

Með þessari færslu er ég ekki að hvetja til neinna breytinga. Það ber að þakka fyrir að hafa fjölmennan menningarkimann prjón í friði fyrir æsingarliði 😉

Þunglyndið

virðist ekkert í rénum. Því miður. Ég er enn ólæs, stoppaði í miðju kafi í spennandi glæpasögu og er föst í byrjuninni á Íslenskir kóngar, bók sem mér finnst mjög skemmtileg. Það er fúlt að vera ólæs bókmenntafræðingur og ólæs “kona sem liggur alltaf í bókum” en í augnablikinu er ekkert við því að gera. Þetta lýsir sér þannig að ég les nokkrar síður og velti því svo fyrir mér hvað í ósköpunum ég hafi verið að lesa eða hver þessi persóna sem allt í einu dúkkar upp er eiginlega, kann allt eins að vera aðalpersóna sem ég veit ekki lengur nein deili á. Og hvað gera ólæsar konur? Tja … ég leysi þetta með því að fá lánaðar “skoðibækur” á bókasafninu, bækur sem maður flettir en les ekki frá orði til orðs. Æxlaði mér Íslenska silfursmíði og Garðyrkjuritið og slatta af prjónabókum/blöðum núna áðan. Svo má gá hvort ég næ svona þremur-fjórum blaðsíðum af Íslenskum kóngum … kannski ef ég hlusta á tónlist og syng með, á meðan …

Annað sem truflar mig þessa dagana er almenn heilaþoka. Þetta hugtak, heilaþoka, er velþekkt í vefjagigtarfræðum og Sjögrens-heilkennisfræðum og ábyggilega víðar en hins vegar lítið brúkað í geðlækningafræðum. Aftur á móti hugsa ég að allir þunglyndissjúklingar þekki fyrirbærið ágætlega af eigin raun. Fyrir utan almennan athyglisbrest mismæli ég mig alla vega í kross (sagði t.d. þrisvar sinnum “vettlingar” og meinti “trefill” núna í morgun) og man ekki orð, svo ekki sé nú minnst á nöfn.

Í fyrstu skiptin sem heilaþokan lagðist yfir mig, segjum fyrstu tuttugu skiptin, snarbrá mér og ég fór ævinlega að velta fyrir mér hvort ég væri komin með Alzheimer eða einhvern annan heilahrörnunarsjúkdóm. En svo lærir þunglyndissjúklingur eins og ég að þetta gengur ævinlega til baka, milli kasta. Maður verður bara að sætta sig við þetta meðan það varir – sem er ákaflega erfitt fyrir fullkomnunarsinna eins og mig. Versta tilvikið var 2010, þá lenti ég því að hafa steingleymt hvernig fitjað er upp! Nú fitjar maður ósjálfrátt upp og spáir ekki mikið í hvernig það er gert, alveg eins og þeir sem hlaupa, synda o.s.fr. eru ekki að velta því fyrir sér hvernig skref er tekið eða nákvæmlega hvernig bringusundsfótatak er framkvæmt. Þegar ég sat með garnið og prjónana og uppgötvaði að ég kunni ekki lengur að fitja upp, þarna um árið, féllust mér gersamlega hendur (og það einnig í bókstaflegri merkingu, eins og gefur að skilja). Ráðið? Ja, ég fór út að reykja og prófaði aftur, svona tíu mínútum síðar … þá kunni ég aftur að fitja upp 😉

Dagarnir eru svolítið misjafnir því inn á milli koma dagar þar sem mér finnst ég hafa háan hita og finn mikið fyrir jafnvægistruflunum og er flökurt. Á móti kemur að þá daga er ég þægilega sljó og slétt sama um allt, þ.á.m. eigin líðan. Aðra daga er ég betri tengslum við sjálfa mig og umhverfið.

Aðalatriðið er, finnst mér, að nota “Fake it till you make it”, velþekktan frasa úr alkageiranum. Svoleiðis að á hverjum morgni kem ég mér á lappir á skikkanlegum tíma, fer í sturtu og hrein föt og reyni svona svolítið að líta út eins og “snyrtileg kona á sextugsaldri” erkitýpan á að lúkka. (Þetta er sömuleiðis afbrigði af “clean and sober” alkalögmálinu …) Og klikka ekki á að mæta í vinnuna, þetta hlutastarf sem ég sinni. Enda þori ég alls ekki að sleppa því, það gæti allt eins verið að ég kæmist þá ekki til vinnu fyrr en eftir margar vikur. Hanga í helv. rútínunni, það er málið! Og fyrirgefa sér á hverjum degi að vera ekki fullkomin og mega segja þess vegna þrisvar sinnum vettlingar í staðinn fyrir trefill í eigin prjónakennslustund, eins og hver annar auli.

Sem betur fer snýr mitt þunglyndi þannig að mér líður skást á morgnana en verst seinnipartinn og á kvöldin. Það er heppilegt miðað við rútínu allra hinna, hinna heilbrigðu. Á kvöldin má hanga yfir sjónvarpinu, ég get fylgst með sjónvarpi ef ég prjóna á meðan (trix sem athyglisbrostnir hafa fattað fyrir óralöngu en ég efast um að það sé viðurkennt í geðlæknisfræðum). Ef sjónvarpsgláp er mér um megn spila ég ómerkilegan tölvuleik, Bubble Town. (Ég næ ekki nokkru sambandi við Candy Crush, sem allar hinar “snyrtilegu konurnar á sextugsaldri” spila þessa dagana, mér finnst hann leiðinlegur.) Ég gladdist mjög þegar ég las grein eftir þunglyndis-og kvíðasjúkling í einhverjum netmiðlinum fyrir skömmu, þar sem hún sagði frá því að hún spilaði Bejewelled ef hún væri mikið veik. Einstaka sinnum spila ég nefnilega Bejewelled undir sömu kringumstæðum, oftar þó Atomica eða Bubble Town en það skiptir ekki máli: Fyrir mig var mikilvægt og frábært að vita af öðrum sem nota sömu aðferð, ómerkilega “raða þremur saman” tölvuleiki til að kljást við þunglyndi.

Svona tekur maður einn dag í einu þangað til kastið rénar … sem það gerir alltaf á endanum. Og það er mikill léttir og stór plús að þurfa ekki að glíma við aukaverkanir geðlyfja á sama tíma, það er eiginlega bara fyrir fullfrískt fólk að éta svoleiðis! Þessar 20+ lyfjategundir sem ég hef gaddað í mig á mínum sjúkdómsferli hafa ekki haft neitt að segja til bóta sjúkdómnum en á hinn bóginn haft helling af neikvæðum verkunum í för með sér. Nú eru rúmar tvær vikur síðan ég steig síðustu tröppuna í niðurtröppun þunglyndislyfsins Míron, tók út síðasta tíundapartinn af dagskammti. Enda hrekk ég upp á hverri nóttu og fæ kölduhroll nokkrum sinnum á dag, en veit, af því ég hef skrifað niður hjá mér helstu einkenni niðurtröppunar síðan ég byrjaði að trappa lyfið niður í mars, að þessi einkenni hverfa eftir þrjár vikur á tröppunni. Sem nálgast óðfluga.  Sem betur fer, þannig séð, byrjaði þetta þunglyndiskast áður en ég steig síðustu tröppuna og sem betur fer, þannig séð, fékk ég slæmt kast í desember sem stóð svo í marga mánuði, verandi þó þá á ráðlögðum dagskammti af þessu þunglyndislyfi … svo ég þarf ekkert að ímynda mér að það að vera á eða hætta á þessu lyfi hafi haft nokkurn skapaðan hlut að segja í þunglyndinu. Klínísk reynsla mín af mér segir það 😉

Jæja: Í dag náði ég að líta út eins og erkitýpa snyrtilegu-konunnar-á-sextugsaldri, mæta í vinnuna, ljósrita helling (dásamleg iðja fyrir þá sem búa í heilaþoku) og útbúa þannig kennsluefni, fara á bókasafnið, ondúlera kettina, þvo nokkrar þvottavélar, blogga … Sem er flottur árangur miðað við heilsuna. Skítt með þótt ég hafi ekki náð að lesa neitt, treysti mér ekki til að prjóna munstur (og þ.a.l. liggja nokkur hálfkláruð prjónastykki tvist og bast hálfkláruð áfram), get ekki haldið áfram að vinna upp heimasíðuna mína í aulaheldu heimasíðuumhverfi á vefnum o.s.fr. Þetta verður allt klárað í fyllingu tímans þegar betur stendur á. Ég hef komist að því að “Aldrei fresta því til morguns sem hægt er að gera í dag” er alger steypa og að í rauninni er iðjusemi stundum rót alls ills …

Tilfinningaklám og staðalmyndir

Nú stendur yfir söfnun fyrir gjörgæslugeðdeild á Landspítala. Deildin er fyrir sjúklinga sem þarf að hafa sérstakt eftirlit með, s.s. sturlaða sjúklinga (þ.e. í geðrofi, alvarlegu örlyndi eða hættulega öðrum) og þá sem eru í bráðri sjálfsvígshættu. Það er auðvitað hið besta mál að safna fé svo gera megi svona deild sem best úr garði. En að mínu mati er seilst ansi langt í að snapa samúð almennings og kynda undir staðalmyndahugmyndir um aumingja geðsjúka fólkið í þessu átaki. Mér er algerlega óskiljanlegt hvernig í ósköpunum konunum sem standa (myndarlega) að Á allra vörum datt í hug að samþykkja auglýsingaherferðina sem fylgir þessu söfnunarátaki! Er þetta sú mynd sem þeim hugnast að gefa af geðsjúku fólki? Er aðalatriðið að raka inn peningum en aukaatriði að hamra á ímyndum sem eru síst til þess fallnar að slá á fordóma og ranghugmyndir um geðsjúkdóma?

Myndaserían sem Á allra vörum birtir nú ótt og títt á heilsíðum dagblaða og á Vefnum sýnir erkitýpur þunglyndissjúklinga (en þunglyndissjúklingar verða aldrei nema brotabrot af sjúklingaflóru deildarinnar sem verið er að safna fyrir). Þetta eru dökkar og napurlegar myndir, af konum með rytjulegt úfið hár og körlum sem hafa mátt muna fífil sinn fegri, meira að segja fylgir eitt heldur ótótlegt stúlkubarn.  Fyrirsæturnar eru með tárvot augu og afar þjáningarfullar á svipinn, minna kannski mest á þau mæðgin Maríu mey og Jesús á harmfyllstu rómantísku málverkum fyrri tíma eða í nútíma kraftaverkastyttum sem gráta blóði. Til að bæta enn á þjáningarfullan svip hinna hrjáðu fyrirsæta eru sprungur í andlitum þeirra og jafnvel niður á háls, annað hvort eru þetta djúpir farvegir eftir stöðugan og langvarandi táraflauminn eða tákna að þessar manneskjur eru ekki heilar, þær eru sprungnar, sem sagt bilaðar.

Ég er illa haldin af þunglyndi og stundum ansi veik af sjúkdómnum (til dæmis þessa dagana). En ég geng ekki um eins og argintæta til höfuðsins og andlitið á mér er ekki sprungið enda er ég heilsteypt persóna þótt ég hafi þennan sjúkdóm. Eins og aðrir þunglyndissjúklingar get ég oftast brosað og set (vonandi) aldrei  upp svip þeirrar eilífu þjáningar sem er meitlaður í módel Á allra vörum. Mér finnst það móðgun við mig og aðra geðsjúka að birta svona myndir í umfjöllun um geðræna sjúkdóma!

Hér að neðan eru nokkrar myndir til samanburðar auglýsingamyndunum. Með því að smella á þær koma upp flennistórar útgáfur á síðu Á allra vörum, vilji menn aðgæta þjáninguna og sprungurnar á þessum langgrátnu geðsjúku andlitum betur.

Hamilton þunglyndistýpanÞetta er hluti af mynd IV í bókinni Types of insanity, an illustrated guide in the physical diagnosis of mental disease, gefin út 1883.  Bókin er eftir  Allan McLaine Hamilton. Myndskreytingar í geðlækningabókum á nítjándu öld áttu að hjálpa læknum að greina geðsjúkdóma, þ.e.a.s. myndirnar gegndu svipuðu hlutverki og DSM-staðll nútímans (eins og sést berlega af titli bókarinnar). Þessi mynd á að sýna hvernig sjúklingur með viðvarandi þunglyndi lítur út. Í myndatexta segir: X hefur verið þunglyndur í nokkur ár og sjúkdómurinn er að þróast í vitglöp. erkitýpa á Á allra vörumHefur eitthvað breyst síðan Hamilton birti greiningarmyndir af geðsjúkum fyrir 130 árum síðan?
Mad womanBrjálaða konan, málverk eftir Eugene Delacroix, dáinn 1863. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Hafa hugmyndir um erkitýpu brjáluðu konunnar breyst frá tímum rómantíkur? Erkitýpa brjáluðu konunnar
Mar�a grætur blóðiMaría mey er “móðir mædd af sorgum” (mater dolorosa). Kemur því ekki á óvart að sumar styttur af Maríu gráti reglulega. Þessi er í Kaliforníu og grætur blóði. Myndin krækir í umfjöllun um þetta merkilega fyrirbæri. Ég sé ekki betur en erkitýpa þunglyndu konunnar á Á allra vörum gráti líka blóði enda er erkitýpa þunglyndu konunnar einhvers konar konar femina dolorosa. Mar�uerkitýpa þunglyndu konunnar

P.s. Ég fetti ekki fingur út í ofurvæmna myndbandið sem er auglýsing átaksins nema bendi á að litla skólastúlkan í skólapilsinu getur varla verið uppi á okkar tímum því í skólanum hennar er gamaldags krítartafla. Sömuleiðis mætti benda á að mamman virðist liggja árið um kring grátandi í rúminu (hún líkist að vísu ekki nokkrum þunglyndissjúklingi sem ég hef séð en fellur væntanlega ágætlega að þeirri staðalímynd og brennimerkingu sem forsvarmenn þessarar söfnunar eru að gera sitt besta til að festa í sessi).