Author Archives: Harpa

Lestur um geðlækningar

Af og til les ég um geðlækningar, einkum þunglyndislækningar. Þetta er ekki sérlega holl lesning því manni fallast ævinlega hendur yfir hve lækningaaðferðirnar líkjast kukli og þjóðsögum: Byggja á ósönnuðum tilgátum (sumum út í bláinn), rækilega hagræddum “rannsóknarniðurstöðum” og þegar jafnvel rökstuðning af þessu tagi þrýtur er gripið til þess að rökstyðja með “klínískri reynslu” geðlækna; gersamlega huglægu fyrirbæri og örugglega einstaklingsbundnu við hvern og einn lækni.

Það var áhugavert að lesa langloku um raflost/raflækningar í ritrýndu vísindariti, þar sem sett er fram sú tilgáta að raflost hafi sömu áhrif á heilann og alvarlegt áfall eða langvarandi streita. Langlokan er samin af fræðimönnum í geðheilbrigðisfræði og verður ekki merkt að þeir hafi neitt á móti raflostmeðferð, þeir eru að reyna að skýra hvað gerist þegar heilinn er stuðaður. Af hverju nokkrum heilvita manni dettur í hug að það að framkalla sömu áhrif í heilandum og við meiri háttar áfall geti verið “lækning” á einu eða neinu er ofar mínum skilningi.

Undanfarið hef ég fylgst með færsluflokki Steindórs J. Erlingssonar, A Journey into Madness and Back Again, á Mad in America. Hér er krækt í þriðja pistilinn en neðst í honum eru krækjur í fyrri tvo. Þetta eru vel skrifaðir pistlar þar sem Steindór rekur sögu sína í stuttu og hnitmiðuðu máli. Frásögnin er einlæg og hreinskilin. Mér finnst sérlega eftirtektarvert hve vel hann lýsir heilaþvotti þunglyndissjúklings, þ.e.a.s. hvernig sjúklingi er talin trú um að þunglyndið stafi af “efnaskiptaójafnvægi” í heila, þegar hann rekur sögu sína. Þessar skýringar á þunglyndi lifa enn góðu lífi í viðtölum þunglyndra við lækna (kannski einkum heimilislækna) þótt aldrei hafi tekist að færa nokkra stoð fyrir kenningunni um boðefnarugl í heila og raunar hafi fræðimenn í geðlækningum fyrir þónokkru afskrifað hana að mestu leyti. Kannski þykir þetta enn þægileg útskýring fyrir pöpulinn?

Mér fannst líka eftirtektarvert hvernig samtrygging geðlækningabatteríins lýsir sér: Í þessum þriðja pistli segir Steindór frá því þegar Genin okkar kom út, þar sem hann upplýsti m.a. um sölumennsku prófessors í geðlæknisfræðum á blóðprufum úr sjúklingum sínum, og skömmu síðar, þegar Steindór þurfti fárveikur að leggjast inn á geðdeild, hellti geðlæknir á þeirri deild sér yfir hann vegna umfjöllunarinnar í bókinni. Sá hefur væntanlega verið dyggur lærisveinn prófessorsins … Kannski tók ég sérstaklega eftir þessu atriði af því ég hef heyrt lýsingar á því hvernig geðsjúklingar eru látnir gjalda fyrir að fjalla um geðlækningar opinberlega, jafnvel þótt þeir hafi einungis verið að lýsa eigin reynslu. Mér finnst ólíklegt að svona gerðist þegar um aðrar stéttir en geðlækna er að ræða: Finnst einhverjum líklegt að psóríasis-sjúklingur sem hefur opinberlega lýst glímu sinni við psóríasis og misheppnuðum læknisaðferðum við þeim sjúkdómi fái þess vegna yfirhalningu starfandi húðsjúkadómalæknis á Landspítala næst þegar hann leggst þar inn?

Nú, ég keypti mér bókina Mad Science: Psychiatric Coercion, Diagnosis, and Drugs, sem hefur verið hrósað ótæpilega síðan hún kom út í vor. Einhverra hluta vegna næ ég ekki tengslum við umfjöllun hennar, finnst bókin leiðinleg og ekki vel skrifuð o.s.fr. Kannski er það vegna þess að ég er frekar lasin (af þunglyndi) þessar vikurnar, kannski hleyptu fyrirbærafræðilegar pælingar um hvernig hugsun okkar og viðhorf mótast af orðuðum hugtökum og hvernig orðin eru huglæg og merking þeirra breytingum háð o.s.fr. í mig einhverri mótþróaröskun, ég fékk mig nefnilega fullsadda af svona pælingum í lestri bókmenntafræði á sínum tíma. En ég ákvað að gefa bókinni annan séns einhvern tíma seinna þegar ég væri betur stemmd … ekki að efnið sé nýtt af nálinni, þ.e.a.s. umfjöllun um óforskammaða markaðssetningu lyfjafyrirtækja og þjónkun geðlæknisfræði við þau, þvingun geðsjúklinga af ýmsum toga, stórgallað sjúkdómsgreiningarkerfi o.s.fr.,  en þetta ku sett í nýtt samhengi í þessari bók.

Að lokum get ég ekki stillt mig um að benda á nýjar pælingar amrískra geðlækna í Psychiatric Times; Nei, þeir eru ekki að spá í líðan sjúklinga sinna sem undirgangast allra handa “lækningar”; Nei, þeir eru ekki að spá í hvernig rannsóknarniðurstöðunum sem þeir byggja sín fræði á hefur verið rækilega hagrætt og þær gylltar; Nei, þeir eru ekki að velta fyrir sér hvort boðefnaruglskenningin hafi nokkurn tíma átt sér nokkra stoð … Þeir eru að pæla í því hvort borgi sig ekki að vera fínna klæddur en sjúklingarnir! Þetta hefur verið tímamótagrein í Psychiatric Times því það er ekki oft sem maður sér jafn virka umræðu í því ágæta tímariti og þá sem fylgir í halanum við þessa grein 😉

Listin að lifa

er það sem ég æfi mig í þessa dagana. Ég er alltaf þunglynd, mismikið sem betur fer, og smám saman æfist ég í að tækla þunglyndið, yfirleitt umhugsunarlaust en ef það eykst þarf vissa vandvirkni á hverjum degi til að láta sjúkdóminn ekki trufla líf mitt of mikið.

Það sem plagar mig einkum núna eru draugatilfinningar og “jórturhugsanir” (ruminative thoughts) sem þeim fylgja. Svona draugatilfinningar eru tilfinningar sem kvikna út í bláinn, án þess að hægt sé að tengja þær við atvik eða tilefni eða þær kvikna af einhverju ómerkilegu tilefni og eru í engu samræmi við tilefnið: Eins og draugaverkir í löngu horfnum útlim.

Það sem hægt er að gera til að slá á þetta er að beita heilbrigðri skynsemi, hugsanaleiðréttingu eins og kennt er í HAM. Sem dæmi mætti taka að á föstudaginn fyrir viku síðan ákvað ég, í fljótræði, að beita hallærisleiðréttingu á stykki sem nemandi var að prjóna: Lykkjurnar voru of margar, nemandinn búinn að rekja upp einu sinni eða tvisvar áður, munstrið passaði ekki og ég ákvað að prjóna bara saman tvær lykkjur svo munstrið passaði. Svo helltist yfir mig viðbjóðsleg tilfinning, líktist eiginlega mest þeirri skömm og algeru örvæntingu sem alki finnur fyrir daginn eftir að hafa delerað rækilega á fylleríi! Hvernig gat ég gert þetta! Hvernig í ósköpunum datt svona aula eins og mér í hug að ég gæti kennt prjón! Hvað segja amma og mamma og langfrænkur nemandans þegar þær komast að þessu! hugsaði ég og hugsaði og hugsaði ekki um neitt annað fram á sunnudag, þegar ég talaði um þetta á AA fundi og tilfinningin hvarf. Nú er ég ekki að mæla því bót að vanda ekki prjónaskapinn og lofa að prjóna aldrei aftur saman tvær lykkjur á peysubol ef munstrið passar ekki … en það að finnast maður ekki geta horft framan í nokkurn mann framar út af svonalöguðu er vitaskuld ekki normal og bendir til þess að heilinn sé ekki alveg í lagi þá stundina.

Í þessari viku tók ég eftir að einn samstarfsfélagi minn leit eitthvað undarlega á mig á kennarastofunni, eða mér fannst eitt augnablik að kolleginn liti undarlega á mig. Svo fór hausinn á spinn: Líklega finnst henni að ég tali allt of mikið => líklega finnst henni og mörgum öðrum að ég sé algerlega óþolandi => líklega eru allir að hugsa: Af hverju var hún að koma aftur til starfa? => o.s.fr. Hugsanir um þetta spóluðu hring eftir hring í hausnum á mér og það þýðir ekkert að segja sér að þetta sé bara vitleysa í manni, einföld skilaboð þannig stoppa ekki tilfinninguna um að vera óalandi og óferjandi og utan við mannlegt samfélag.

Svo ég tók mig taki og hugsaði skipulega um þetta. Hversu líklegt er að fólki finnist ég tala of mikið? Heldur ólíklegt að margir séu að spá í það, það kjaftar hver tuskan á mörgum á kennarastofunni og ég sit þar einungis í matartíma fjórum sinnum í viku og ólíklegt að fólk sé almennt með tímamælingu á tali akkúrat í þeim matartímum. Kannski tala ég of mikið af því þetta er um það bil eina tækifæri dagsins til að tala við aðra en ketti og só what? Og kolleginn sem horfði á mig var kannski að hugsa um eitthvað allt annað, raunar finnst mér það trúlegast. Svo af hverju ætti ég að vera með móral yfir einhverju sem ég held að einhver hafi kannski verið að hugsa en var kannski alls ekkert að hugsa það? Og hvað geri ég sjálf ef mér finnst einhver tala of mikið? Raunar geri ég ekki neitt og fólk fer sjaldnast í taugarnar á mér … en ef svo bæri við myndi ég væntanlega bara færa mig … Svo get ég engan veginn tekið ábyrgð á hvað öðrum finnst um eitthvað í umhverfinu og ætti að hætta að reyna að lesa hugsanir enda les ég þær örugglega jafn vitlaust og aðrir … O.sfr. Þannig er hugsanaleiðrétting 😉 Og svona eru jórturhugsanir: Manni dettur eitthvað óþægilegt í hug eitt andartak en öfugt við normal þankagang spólar maður þessa óþægindakennd aftur og aftur í hausnum eins og bilaða grammófónplötu í gamla daga og spinnur sig niður í verulega bágt sálarástand.

Það er frekar leiðinlegt að þurfa að stunda hugsanaleiðréttingu á hverjum degi. En það er nauðsynlegt í þunglyndi. Flestir kannast við eitthvað svona sem ég lýsti að ofan en það sem er smotterí og kemur sjaldan fyrir heilbrigt fólk margfaldast og verður meiriháttar í þunglyndi. Af því allir hafa reynslu af því að vera svolítið domm og líða illa einstaka sinnum en ná að rífa sig upp með tiltölulega lítilli fyrirhöfn eiga sömu allir stundum erfitt með að skilja af hverju þunglyndir geta ekki gert þetta sama, gera sér ekki grein fyrir margföldunaráhrifunum sem fylgja sjúkdómnum. Alveg eins og sá sem hefur fengið harðsperrur en líður annars alla jafna prýðilega getur illa sett sig í spor fólks með slæma gigt.

Netumræðan um mál Jóns Baldvins

Ég hef lengi haft áhuga á að skoða hvernig netumræða raunverulega er og gafst gott tækifæri til þess núna. Mig langaði að vita hve margir taka þátt í netupphlaupi á borð við umræðuna um væntanleg störf Jóns Baldvins Hannibalssonar sem gestafyrirlesara í stjórnmálafræðiskor HÍ, hve margir þeirra tjáðu sig á fleiri en einum vettvangi, hvernig þátttaka í netumræðu skiptist eftir kynjum og hvaða afstöðu menn tækju í umræðunni.  Er líklegt að einhvers konar þjóðarsál endurspeglist í netumræðu?

Til þess að komast að þessu skoðaði ég umræðuna við 4 fréttir og 2 blogg eins og hún leit út kl. 16 í gær, sunnudaginn 1. september. Fréttirnar og bloggin voru:

Það fyrsta sem kemur í ljós þegar svona umræðuhalar eru skoðaðir nánar er að umræðan er ekki nærri eins umfangsmikil/innihaldsrík og hún virðist við fyrstu sýn. Við fréttina/bloggin birtast nefnilega tölur um fjölda ummæla en ekki fjölda ritenda, t.d. eru skráð 143 ummæli við Ætla ekki að taka ráðningu Jóns Baldvins þegjandi en höfundar ummælanna eru ekki nema 78 talsins. Í þeim umræðuhala telst t.d. slóð á bloggfærslu á Knúz.is vera 15 ummæli því sama manneskjan sendir slóðina 15 sinnum inn á umræðuvettvanginn. Svo verkið, að skoða umæðuna, var ekki eins óyfirstíganlegt og fljótt á litið mætti ætla.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Alls skrifuðu 221 manns athugasemdir við fréttirnar og bloggin sem ég taldi upp hér að ofan. Þetta voru 148 karlar og 73 konur. Það kom mér talsvert á óvart að karlarnir skyldu vera um tvöfalt fleiri í þessum hópi.

Rétt rúmlega 9,5% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (21 manns) tjáðu sig á fleirum en einum vettvangi. Tveir umræðumanna tjáðu sig á öllum þeim sex umræðuþráðum sem ég skoðaði.

Rúmlega 15% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (35 manns) eru á Facebook-vinalista Hildar Lilliendahl Viggósdóttur. Ég athugaði þetta sérstaklega af því allar fréttirnar nema sú fyrsta á listanum eru sprottnar af bloggfærslu Hildar og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, Háskóli Íslands – griðastaður dónakarla?, knuz.is 28. ágúst 2013.

Ég flokkaði athugasemdir þessara 221 þáttakenda í þrjá flokka: Þá sem taka undir með málflutningi Hildar Lilliendahl Viggósdóttur og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, þá sem lýsa sig andsnúna sama málflutningi og þá sem lýsa sig hlutlausa eða fjalla um annað í sínum athugasemdum. Hlutföllin eru þessi:

  • Sammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru rúmlega 18,5% (41 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Ósammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru tæplega 39% (86 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Hlutlausir eða með annars konar athugasemdir eru 42,5%  (94 af þeim sem leggja orð í belg).

Ég tek fram að hluti skýringarinnar á hve margir falla í flokk hlutlausra er að bloggfærsla Egils Helgasonar, Heiftin á netinu, snérist ekki sérstaklega um mál Jóns Baldvins og því tjáðu margir sig um eitthvað annað en akkúrat ráðningu Jóns Baldvins. Önnur skýring er að þeir sem nota Facebook átta sig ekki allir á að þeir eru að svara opinberlega þegar þeir skrifa athugasemd við eitthvað sem einhver Facebook vinur þeirra hefur skrifað við frétt eða blogg og því eru athugasemdir undir öðrum athugasemdum oft ómarkvissar. Þriðja skýringin er að hluti þeirra sem tjáir sig í þessari umræðu snýr sínum athugasemdum upp á eitthvað sem tengist málinu lítið, fjallar t.d. um skoðun Jóns Baldvins á Evrópusambandinu eða prófessorsstöðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við HÍ.

Santorini og Krít

Við erum komin heim eftir þriggja vikna velheppnað ferð til Santorini og Krítar. Ég hef sett upp myndasíðu úr ferðinni, þótt minnið hafi snarbatnað við að hætta að eta pillur er ágætt að hafa myndasíðu í bakhöndinni, svoleiðis síður hafa reynst mér ómetanlegar á stundum.

Einhvern daginn blogga ég um bækurnar sem ég las í fríinu … inn á milli morðbókmennta las ég sögulega skáldsögu sem gerist á Spinalonga, tvær bækur um sækópata (önnur er skáldsaga, sem ég las reyndar í annað sinn enda er hún helv. góð), eina bók um geðlyfjuð amrísk ungmenni og svo fyrstu íslensku rafbókina sem ég hef keypt, Hælið. Og svo má auðvitað blogga um yfirvofandi útdauða netkaffihúsa … tek spjaldið með mér næsta sumar.

Ég gerði mitt besta til að fylgjast með helstu hitamálum á netinu hér á klakanum og sá að þau snérust annars vegar um Brynjar Níelsson (sosum ekkert nýtt) og hins vegar um gullfiskinn Sigurwin. Svoleiðis að maður hafði einhver umræðuefni yfir kvöldverðinum 😉

En … þetta var frábær ferð (eins og allar hinar ferðirnar til grísku eyjanna) en það er líka gott að vera komin heim, mikil ósköp.

Sól og sumar og bloggfrí

Sólin skín og sumarið er komið og ég nenni æ sjaldnar að kveikja á tölvunni. Svoleiðis að þetta blogg er eiginlega bara tilkynning um að komið sé bloggsumarfrí. Það er skemmtilegra að yrkja garðinn sinn akkúrat núna, tsjilla á pallinum prjónandi, lesandi, sólbaðandi sig … lífið er einkar ljúft þessa dagana. Og nýdoktorinn að kalla á mig í kvöldmatinn í þessum skrifuðum orðum …

Drömun á Netinu

Það hefur fátt markvert borið til tíðinda upp á síðkastið. Kannski er það þess vegna sem netheimar loga dag eftir dag yfir smotteríi. Og orðbragðið í “umræðum netverja” (kommentum Facebook-notenda) er þess lags að alþýðukonu upp á Skaga setur hljóða.

Fyrst kom sú hryllingsfrétt að halda ætti Fegurðarsamkeppni Íslands í haust. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og aðrir vaskir femínistar skráðu sig eins og skot í keppnina, gættu þess að láta netmiðla vita af þessu og sumir femínistar fóru að safna handarkrikahári fyrir haustið. Facebook-kommenterar fóru offari yfir væntanlegri kúgun kvenna. Svona keppni er nefnilega kúgun kvenna og valdstjórnartæki illa innrættra karla því allir vita að ekki er hægt að keppa í fegurð. Það er hins vegar hægt að keppa í stauraburði og fótamennt og ýmsu öðru sem karlar keppa aðallega í. Femínistarnir hafa a.m.k. ekkert við svoleiðis að athuga. Þarf varla að taka fram að Fegurðarsamkeppni Íslands hefur aldrei verið eins rækilega auglýst og núna. Enda sett met í skráningu í hana.

DV gerði þá stórkostlegu uppgötvun að forsetafrúin hefði flutt lögheimili sitt til Englands fyrir hálfu ári. Kommenterar eru flestir á sveif Dorritar enda kemur hún alþýðlega fyrir, segir skemmtilegar vitleysur á íslensku, klæðist stundum lopapeysu og á hund sem hún elskar úr af lífinu. (Til skýringar: Það er sætt þegar útlendingar misþyrma íslenskri tungu. Það er ekki sætt þegar ambaga veltur upp úr Íslendingi, allra síst framsóknarmanni og allra allra síst framsóknarkonu.) Þess vegna fjalla kommentin við fréttina dévaffs og afleiddar fréttir netmiðla aðallega um að lögheimilislög séu hvort sem er svo vitlaus að það verði að breyta þeim svo forsetafrúin geti löglega átt lögheimili á Bretlandi og þurfi ekki að fremja lögbrot eða jafnvel að skilja við forsetann okkar allra. Ráðamenn sem DV hefur náð í hafa þau ein svörin að enginn hafi kært. Næsta holl hliðhollra kommentera bendir á að skattalögin séu hvort sem er svo vitlaus að það sé skiljanlegt að Dorrit hafi þurft að flytja lögheimilið til Englands. Raunar hefur komið fram að hún hefur aldrei greitt auðlegðarskatt hér á landi þótt lögheimilið hafi verið úti á Álftanesi en það skiptir ekki máli, skattalögin eru samt vitlaus. Engum hefur dottið í hug líkleg raunveruleg ástæða sem er að Dorrit vilji komast á svig við lög um gjaldeyrismál, sem sé komast hjá því að skipta pundunum sínum í krónur ef hún skyldi græða að ráði. Skiptir sosum ekki máli því allir vita hvað gjaldeyrislögin eru vitlaus. Niðurstaðan er hin sama: Aumingja forsetafrúin að þurfa að flytja til útlanda af því íslensk lög eru svo vitlaus og hún svo óheppin að vera svo auðug í útlandinu ….

Eftir tveggja daga netstorm um bágt hlutskipti forsetafjölskyldunnar, a.m.k. frúarinnar og Sáms, dró nýja bliku á loft og fljótlega var skollið á ofsaveður í netvatnsglasinu: Í ljós kom að aðstoðarmaður ráðherra hafði sent fundarboð á rangt netfang! Við tók drama sem í gærmorgun var farið að líkjast Dreyfusmálinu franska.

Kjarninn í málinu var að ráðherra vildi ræða við tvo forsvarsmenn undirskriftarsöfnunar. Mér finnst líklegast að aðstoðarmaður ráðherra hafi einfaldlega farið línuvillt í netfangalista tölvuþjónustu háskólans og sent boðið á netfangið aj, sem er netfang deildarstjórans yfir öðrum manninum (sem rekur velþekkt blogg undir skammstöfuninni AK).

Þessi mistök reyndust afdrifarík. Lögmaður mannanna taldi að í þeim fælust hótun um atvinnumissi og fór mikinn. Lögmaður þessi ratar reglulega í fréttir DV, síðast vegna þess að hún var yfir sig hneyksluð á að vera rukkuð fyrir styrktarsímtöl sonar síns.  Í netheimum er Helga Vala góður lögfræðingur, samfylkingarkona m.m., enda eldar hún reglulega grátt silfur við Brynjar Níelsson, sem alþýða netheima veit að er vondur lögfræðingur því hann er sjálfstæðismaður m.m. Maðurinn sem ekki fékk allan tölvupóstinn skrifaði tvær bloggfærslur um dramatíkina í lífi sínu, í hinni seinni kom fram að dagurinn hafi verið lýjandi og nóttin erfið og hann þarfnaðist sárt að fá hvíld og ró. Skiljanlegt í ljósi þeirra skelfilega örlaga sem biðu hans ef marka mátti Fb.kommentera og uppslætti dévaffsins.

Þegar ekki lá fyrir annað en að sparka þessum aðstoðarmanni ráðherra fyrir að hafa sent fundarboð á rangt netfang og helst ráðherranum með brast á blæjalogn. Maðurinn sem átti yfir höfði sér atvinnumissi (og kannski ríkisborgaramissi og guð-má-vita-hvar-etta-hefði-endað) birti bloggfærslu um að allt hefði þetta verið eðlilegt! Aðstoðarmaðurinn hafði víst líka hringt í hann og sent honum SMS, auk þess að senda tölvupóst á netföng sem hún taldi að tilheyrðu manninum: Fundarboðið hafði verið sent honum á einkanetfang en afrit á netfang yfirmannsins á vinnustaðnum. Aðstoðarmaðurinn hafði margbeðist afsökunar og gefið skýringar sem “fórnarlambinu” fundust fullkomlega trúverðugar.  Ef marka má þessa bloggfærslu var Dreyfusarmálið nýja aldrei neitt mál nema í vatnsglasi Facebook-sítengdra. (Ég tek fram að mér þykir ólíklegt að obbinn af þeim drekki latte.)

Nú er spurningin: Hvað næst? Mun einhver framsóknarráðherrann sjást með lausan hund? Mun Vigdís missa út úr sér málvillu? Mun Brynjar Níelsson tjá sig um Fegurðarsamkeppni Íslands eða handarkrikahár? Hverfur Lúkas á ný? Hvaða flog fá Facebook-kommentarar næst?

Fitjunarfræði, tækniorðaforði og tossar

Svo ég tengi fyrirsögnina: Ég er tossi þegar kemur að því að skilja skýringarmyndir! Hef fyrir löngu sjálfgreint mig með átakanlegan skort á rýmisgreind (sem fyrir daga greiningarfræðanna miklu hét rúmskynjun). Ekki skrítið í því ljósi að mér veittist nám í evklíðskri rúmfræði erfitt og fannst það hundleiðinlegt, álíka leiðinlegt og hin rúmfræðin sem átti að læra fyrr, dæmi á borð við: Ef keila dettur ofan í píramída fullan af vatni … o.s.fr. Því miður var ekki búið að starta frelsisbaráttu tossanna á þeim tíma svo ég neyddist til að leggja ómælda vinnu í að læra þetta helvíti til að ná prófum. Passaði að gleyma því strax eftir próf.

Nú er ég að setja mig inn í fitjunarfræði, merk vísindi sem ekki voru kennd í skólum í gamla daga nema mjög takmarkað. Þökk sé nýrri tækni, einkum YouTube og öðru vídjódóti á vefnum: Mér hefur loksins tekist að skilja silfurfit, ekki hvað síst eftir að ég fattaði að það myndi vera hið sama og heitir “twisted German cast-on” í flestum kennslumyndböndum (nema á Garnstudio þar sem aðferðin heitir “Gammel Norsk rett“, “Gömul norsk aðferð” í íslensku útgáfu síðunnar). Til að flækja málin er húsgangsfitin á Garnstudio kölluð silfurfit í íslenskri útgáfu síðunnar. Hin raunverulega og rétta silfurfit er víst stundum kölluð tvöföld fit.

Mér þótti fyrirfram augljóst að sú fit sem er kennd í skólum væri skólafit. En málið er ekki svo einfalt, það er nefnilega húsgangsfit sem er kennd í skólum, skólafit er aftur á móti prjónuð fit. Á hinn bóginn er til flóknara afbrigði af skólafit á Garnstudio sem er kallað keðjuaðferð en sagt vera “einnig kölluð prjónað uppfit.” (Mér þætti gaman að vita hver þýðir eiginlega textann á Garnstudio á íslensku, sá virðist halda að uppfit sé hvorukynsorð …). “Prjónaða uppfitið”, þ.e. “keðjuaðferðin” er hið sama og heitir kaðaluppfit í þeim prjónafræðum íslenskum sem ég er að lesa þessa stundina.

Eftir miklar spekúlasjónir um hvað væri eiginlega gullfit (engar nýtilegar upplýsingar að finna á Vefnum um hana nema að orðið er gamalt) datt mér í hug að skoða Íslenska orðabók, munandi að Elsa E. Guðjónsson skrifaði hannyrðaorðskýringarnar í þeirri bók. Elsa klikkaði ekki: Gullfit mun vera sama og hundafit. Og skólafit heitir líka breiðafit. Þegar ég sá að Elsa telur húsgangsfit og silfurfit það sama runnu á mig tvær grímur og ég hætti að treysta henni …

Eftir stendur: Hver fjandinn er Halldórufit? Ég veit að hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur, eins og Halldóruhællinn frægi (sem ég hef hugsað mér að vara fólk við því nýuppfundinn Tómatahæll virðist mun árennilegri) og ég veit að hún þótti léleg fit en mér hefur ekki tekist að komast að því hvernig Halldórufit er.   

Affellingafræði verða að bíða um sinn en þau eru sko ekki einfaldari en uppfitjunarfræðin! Næst liggur fyrir að kenna sjálfri mér að prjóna rétta brugðna lykkju. Ég prjóna nefnilega snúna brugðna lykkju, sem kemur yfirleitt ekki að sök því ef ég prjóna fram og til baka prjóna ég snúnar sléttar lykkjur á réttunni og tvöfaldur snúningur gerir ósnúið, alveg eins og tveir mínusar breyttust í plús í stærðfræðinni. Skv. Elsu E. Guðjónsson var svona snúið prjón (stundum kallað austrænt snúið prjón) algengasta prjónaaðferð á Íslandi frá því Íslendingar lærðu að prjóna. Á vorum rétttrúnaðartímum þykir þetta hins vegar ekki fínt, nú eiga allir að prjóna vestrænt og ósnúið. Svo ég verð að læra að prjóna ósnúna brugðna lykkju (kann ósnúna slétta lykkju). Til að flækja málin var brugðin lykkja kölluð snúin lykkja þar sem ég ólst upp svo raunar prjóna ég snúna snúna lykkju, skv. orðfæri bernsku minnar …

Svo er það tækniorðaforðinn sem ég á alveg eftir að tileinka mér. Fór í tvöfalda afmælisveislu áðan og notaði tækifærið til að stökkva á handavinnukennara í grunnskóla sem þar var gestkomandi og þýfga um prjónakennslu. Varð margs vísari nema fékk ekkert gott íslenskt orð yfir Entrelac. Kaðlaprjón, hélt handavinnukennarinn að þetta væri kallað. Það getur eiginlega ekki verið því kaðlaprjón hlýtur að vera að prjóna hefðbundna kaðla og fléttur … entrelac á lítið skylt við það. Einhver sem veit þetta?

—-

Svona smá innlegg í tossafræðin: Ég sakna þess að leikfimi, nútildags stundum kölluð íþróttir, sé ekki dregin inn í tossa-brottfalls-útaf-stöðnuðu-skólakerfi-s-umræðuna. Leikfimi er það aleiðinlegasta sem ég man eftir úr minni skólagöngu. Öll heimsins stærðfræði kemst ekki í hálfkvisti við leikfimi! Nú er ég stúdent í leikfimi en ég held að þetta sé eina fagið sem aldrei hefur komið að nokkrum einustu notum í mínu lífi. Ég tek fram að sum stærðfræði nýtist prýðilega í prjóni, t.d. margföldun tomma með sentimetrum eða sú ómissandi undirstöðuregla þríliða (sem mér skilst raunar að sé ekki lengur kennd í skólum). En ég hef aldrei þurft að fara í kollhnís, hvorki áfram né aftur á bak, aldrei þurft að (reyna að) standa á höfði né höndum og aldrei þurft að brúka megrandi og styrkjandi gólfæfingar fyrir kviðvöðva og læri, hvað þá að ganga í takt. Leikfimi var gersamlega handónýtt nám, sem eytt var óratíma í árum saman. Leikfimi og sund voru einu fögin sem ég var raunverulegur tossi í … svo það er kannski ágætt að þau reyndust gagnslaus þegar upp er staðið 😉 

Að lokum eru tvær vísur úr ágætu kvæði, Gripið í prjóna, sem birtist í Speglinum í janúar 1966. Í kvæðinu er fjallað um nýja tækni, hvernig skólakerfið klikkar nútildags og hvernig mætti bæta vinnulag á Alþingi: Allt eru þetta málefni sem eru mjög til umræðu akkúrat núna.

Þessi iðn nú þekkist valla
þrátt fyrir tækni-væðing alla,
langskólun og lærdómsstrit.
Fráleitt mundi finnast drengur
sem fær er um að þekkja lengur
húsgangs- eða hunda-fit.

Þetta er heilnæm handavinna
sem hollt þeim einkum væri að sinna,
er semja lög og sitja þing.
Vinnutímann vel skal nota,
þá væri ráð að sitja og pota
í duggarasokk og sjóvettling.

Spinalonga og morð

Svo ég vendi kvæði mínu strax í kross frá fyrirsögninni þá fór ég á bókasafnið áðan til að vita hvort þangað hefði borist bókin Hælið eftir Hermann Stefánsson. Enginn hafði heyrt á hana minnst og bókaverðir fengu upp það sama og ég í Gegni, nefnilega að ekkert bókasafn á þessa bók. (Og heldur ekki þessa eftir okkar nýja ágæta bæjarlistamann sem er með í 1005 hollinu, a.m.k. minnir mig að þetta sé talan 1005 sem heiti tímarits hefst á …)  Af prinsippástæðum kaupi ég bókina ekki sem rafbók, ég kaupi nefnilega ekki íslenska rafbók á höfundaréttarvörðu epub-formi fyrir 2.500 kr. til þess að þurfa svo að brjóta hana upp og konvertera til að geta lesið hana á mínum Kindli

En prinsipp eru náttúrlega til að brjóta þau svo ég upplýsi að ég var í þessu að fjárfesta í Polis eftir Nesbø, á sænsku reyndar. Hún var að vísu ólæst en auðvitað epub-skrá. Ég þarf nefnilega að vita hvort Harry Hole hjarir enn eftir að hafa verið skotinn í tætlur og rotta byrjuð að gæða sé á honum (líkinu) í lok síðustu bókar … það þarf væntanlega sterk bein til að vakna aftur til lífsins eftir svoleiðis trakteringar. 

Er nýbúin að lesa nýjustu bók Kristinar Ohlsson, Davidsstjärnor. Hún er helv. góð eins og hinar bækurnar hennar. Yfirleitt er ég svona tveimur þremur bókum á undan íslensku þýðingunum á skandinavískum reyfurum … get upplýst að Marco effekten hans Jussi Adler-Olsen er fantagóð en hef gefist upp á Mons Kallentoft, alkóhólískir órar hinnar skyggnu lögreglukonu eru orðnir of fyrirferðarmiklir.

Svo potast ég hægt og bítandi gegnum The Island eftir Victoriu Hislop. Þetta var metsölubók fyrir nokkrum árum, hefur verið þýdd á Norðurlandamálin nema íslensku. Eiginlega nenni ég alls ekki að klára hana en af því ég hef ákveðið að heimsækja Spinalonga (gríska nafnið er Kalydon), pínupons-eyju fast við Krít, í sumar verð ég náttúrlega að klára söguna frægu sem gerist akkúrat þarna. Á Spinalonga voru holdsveikir geymdir fram til 1957 en eyjan er nú óbyggð.

Til mótvægis við morðin og holdsveikrarómantíkina hef ég Ritið og TMM og Skírni og Sögu. Er búin að lesa nýjustu heftin af þeim þremur síðasttöldu og langt komin með að lesa um ýmsar tegundir af minni í Ritinu. Og svo les ég prjónauppskriftir lon og don af stakri ánægju. Verst að ég er of fljót að lesa, annars gæti ég lesið prjónandi. (Þarf að fletta svo hratt að það er ekki vinnandi vegur að prjóna á meðan.) Er á útkikki eftir prjónastykkjum sem eru einföld, helst fljótleg og ekki ljót. Þetta fer ekki vel saman svo það þarf að leita vel. Veðrið er mér einkar hliðhollt í þessu bardúsi.

Náttúrlega skanna ég helstu vefmiðla og blogg daglega en yfirleitt ristir þetta svo grunnt að tíu mínútur með morgunkaffinu duga prýðilega í svoleiðis lestur. Ég hef samt gaman af því að sjá hvernig fólk getur trompast yfir fegurðarsamkeppni einn daginn, lögheimilisflutningi Dorritar næsta dag … og fylgist grannt með rómantíseríngu tossanna, mikil ósköp 😉

Hvílíkur munur

Fyrir rúmum fjórtán mánuðum ákvað ég að hætta á lyfjum. Þetta potast svona hægt og bítandi, enn er et ég síðasta lyfið á listanum, Míron, en er komin ofan í rétt rúmlega fjórðung af dagskammti. Miðað við áætlun (sem byggist á mínus 3,75 mg á sex vikna fresti) klára ég að trappa Míronið niður einhvern tíma í september. Ég finn fyrir hverri tröppu þótt lág sé, fyrst í erfiðleikum að sofna og tveimur-þremur vikum eftir að trappa er tekin fæ ég hitasteypur og kölduhroll öðru hvoru í svona viku. Svo er það búið og ég sigli lygnan sjó næstu þrjár vikurnar, þá er næsta trappa. Þrátt fyrir áhuga geðlækna á breytingaskeiði kvenna hef ég aldrei fundið nokkurn skapaðan hlut fyrir sama breytingaskeiði en fæ þessi „dýrmætu“ kynni af hitasteypum af Míron-tröppun alltaf öðru hvoru 😉  Verandi orðin svona skínandi „clean and sober“ af lyfjum hugsa ég til þess með hryllingi þegar ég var látin trappa þrefaldan dagskammt af Míron út á tveimur vikum … sumir geðlæknar halda nefnilega (ranglega) að það sé ekkert mál að hætta á þunglyndislyfjum, líklega hafa þeir lesið það í greinum eftir aðra geðlækna.

Kjálkaverkur vinstra megin gerir mér enn lífið leitt, einkum á kvöldin. Stundum er erfitt að sofna af því mig verkjar svo í andlitið. Þessi verkur upphófst þegar ég byrjaði að trappa niður Rivotril og seinna Imovane. Röngtenmyndir hjá tannlækni og af öllum mínum skútum og kinnholum leiða ekkert misjafnt í ljós. Eftir hringferð um heilbrigðiskerfið hef ég fengið ýmsar skýringar á verknum og eru þessar helstar: Slit í hálsliðum (sjúkraþjálfarinn); skútabólga (heimilislæknir); sinaskeiðabólga í sin inni í munninum (sérfræðingur í kjálkaverkjum); bólgur í sina-og vöðvafestingum í hnakkagróf (kínverski læknirinn). Mesta gagnið hefur verið að nuddaranum sem hefur enga sérstaka skýringu á verknum en segist hafa haft kynni af fleirum með svipaða kvilla. Núna er ég komin í kuklið, gef höfuðbeina-og spjaldhryggsjöfnun, með dashi af iljanuddi, séns.

Munurinn á því að vera á lyfjum og að vera að mestu lyfjalaus er ótrúlegur! Lamandi þreytan er að mestu horfin og mér finnst ég hafa breyst aftur í mig sjálfa, er sem sagt orðin ég en ekki þunglyndissjúklingur. Vissulega finn ég alltaf fyrir þunglyndinu en það er allt annað að díla við það með sæmilegri orku og hausinn í lagi. Kvíðinn, jafnt  „almenn kvíðaröskun“ sem ofsakvíðaköst, hvarf gersamlega þegar ég hætti á kvíðastillandi lyfinu.

Ég er útskrifuð frá VIRK og sálfræðingnum. Þessir aðilar voru frábærir og veittu mér mikla aðstoð þegar á þurfti að halda. Það er undarlegt að mér skuli aldrei hafa verið bent á VIRK, hafandi verið dyggur kúnni geðsviðs Landspítala árum saman. Ætli menn hafi ekki frétt af VIRK þar á bæ? Fyrir tilviljun (af því að hlusta á útvarpsviðtal) komst ég að því að þetta batterí er til, starfar í mínum heimabæ og hefur á að skipa góðu og skynsömu fólki.

Næsti vetur lofar góðu. Ég held áfram í 25% starfi á haustönninni og er að fara að kenna nýjan áfanga, PRJÓN 103. Nú æfi ég mig að prjóna, sá að það gengur ekki annað en að kunna a.m.k. þrjár uppfitjunaðaðferðir og fjölbreytt prjónatækniatriði úr því ég ætla að kenna öðrum listina að prjóna. Og les uppskriftir … og ræði við reyndar prjónakonur og hannyrðakennara í grunnskóla. Það er raunar mun skemmtilegra að búa til kennsluefni í svona áfanga en búa til kennsluefni fyrir íslenskuáfanga, þótt það taki mun lengri tíma að prjóna sýnishorn en að hræra í gagnvirk krossapróf eða búa til hefðbundin verkefni. Svo krossa ég fingur upp á að kennslan gangi þokkalega, þetta verður a.m.k. spennandi tilraun. Á vorönninni næstu stefni ég á að kenna verklegan nýsköpunaráfanga með öðrum kennara, það þarf ýmislegt að ganga upp svo það verði að veruleika en ég reikna með að þetta gangi allt saman.

Svoleiðis að ég er aftur komin í þá stöðu að gera eitthvað nýtt, búa til áfanga og kennsluefni, sem ég gerði mikið af áður en ég veiktist illa eða öllu heldur lenti í lækningunum . Þetta er ótrúlega gaman! Markmiðið er að ná nógu góðri heilsu til að starfa í 50% kennslu. Það kann að vera fjarlægt í bili en ég mun ná því.

Þetta rúma ár hefur verið einkar lærdómsríkt. Að finna eigin styrkleika en vera um leið á varðbergi fyrir skekktri lífssýn og öðrum þunglyndiseinkennum, að sætta sig við þunglyndið en sætta sig ekki við að vera þunglyndissjúklingur, virðist vera lausnin, a.m.k. skilar þetta miklu betri árangri en meðhöndlun þess geðlæknis sem ég hef lengstum skipt við. Ég er líka önnum kafin við að æfa mig í að losna við reiði og biturð út af eigin lækningasögu. Að vera bitur er eins og að drekka fullt glas af eitri og vonast til að einhver annar drepist, las ég í vetur. Svoleiðis að ég reyni að nota þær ágætu aðferðir sem ég hef lært annars staðar en í geðlækningabatteríinu til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Mér finnst það ganga prýðilega. Ég gæti trúað að mínum nánustu, sem urðu ódeyfðir vitni að áhrifum „lækninganna“ árum saman, gangi kannski ekki alveg eins vel að losna við óþægilegar tilfinningar en hef sosum ekki rætt þetta sérstaklega við þá.

Sá um daginn einhverjar meldingar hjá einum netverjanum um að ég hataðist við geðlækna eftir að hafa verið dömpað af einum slíkum. Það er auðvitað algert rugl. Ég kann prýðilega við geðlækninn sem ég hitti reglulega núna. Ef það að skrifa gagnrýnið um sögu geðlækninga, virkni, eða öllu heldur skort á virkni, þunglyndislyfja o.þ.h. telst vera hatur á geðlæknum má með sömu rökum segja að allir bókmenntafræðingar hati skáld 😉 Það eina gagnrýniverða við bloggið mitt undanfarið er að ég hef vanrækt sögu handprjónaðra silkijakka á 17. og 18 öld algerlega svakalega …

Það hefur gert mér gott að blogga jafnóðum um það sem ég hef kynnt mér varðandi geðlyf, einkum þunglyndislyf, og geðlækningar. Minni mitt er talsvert skemmt eftir geðlækningaðferðir í rúman áratug og ég man betur ef ég skrifa. Svo fletti ég talsvert upp í eigin bloggi – raunar er mitt eigið blogg ómetanleg heimild um árin sem þurrkuðust út. Eina leiðin til að botna í því af hverju pundað er meiri og meiri lyfjum í þunglyndissjúkling eins og mig, þótt augljóst mætti vera hverjum manni að ég varð veikari og veikari af lyfjunum, er að nálgast hugmyndafræði geðlækninga gegnum sögu þessara lækninga. Eina leiðin til að botna í því af hverju lyfin skiluðu aldrei árangri til bóta er að skoða hvað klínískar rannsóknir á virkni þunglyndislyfja hafa leitt í ljós, hvernig þeim niðurstöðum hefur verið haganlega hagrætt í vísindatímaritum og hvernig geðlæknar hagræða þeim enn meir í samtölum við sína sjúklinga. Svo ekki sé minnst á vinnuna við að skilja vitleysisganginn sem einkennir fjöllyfjagjöf við þunglyndi. Í mínu tilviki var eina leiðin til að ná raunverulegri bót á þunglyndinu sú að setja mig inn í geðlækningar og geðlyfjafræði. Ég held að það sé einsdæmi að sjúklingur skuli þurfa að afla sér svona þekkingar til að eygja von um bata en af reynslunni mæli ég með því að þunglyndissjúklingar geri það.
 

Lífið er ljúft þessa dagana. Nú hef ég orku til að gera hitt og þetta og heilbrigða skynsemi til að meta hvað ég get gert og hvað ekki.
 
 

Geðveikar myndir II

 (Sjá einnig Geðveikar myndir, sem eru af öðrum toga en þessar.)
 
 

Thorazine er sama lyf og Largactil (klórprómazín).
Það var upphaflega markaðassett fyrir geðklofa sjúklinga og
sjúklinga í geðrofi (sturlaða sjúklinga).

Remeron er sama lyf og Míron (þunglyndislyf).

Mellaril var upphaflega markaðssett við geðklofa.

Loxapac var upphaflega ætlað við geðklofa og sturlun.
 


 

 

Þetta þunglyndislyf er á markaði hérlendis undir 
heitinu Noritren.
 

Það var hætt að blanda litium í 7 up árið 1950.
 

Sama bensólyf og Sobril.
 

  
  

Þetta er ekki auglýsing – en ketamin er bjartasta vonin í 
þunglyndislækningum núna. Sem stendur er ketamin þó þekktast
sem dóp, nauðgunarlyf og svæfingarlyf fyrir hross. Tilraunir
til að nota það til að lækna þunglyndi eru sagðar lofa góðu.