Author Archives: Harpa

Geðlæknismeðferð í Danmörku 1850-1920

Þetta er framhald af fyrri færslu, Danskar geðlækningar 1850-1920, og hér verður sjónum beint að þeim úrræðum sem danskir geðlæknar beittu á tímabilinu (og voru fyrirmynd úrræða á Íslandi frá stofnun Klepps árið 1907).

Sem fyrr sagði var hælið sjálft (fagurt umhverfi, einangrun og vinna) mikilvægur liður í lækningunni. Í hlutverki yfirlæknis á geðveikrahæli fólst miklu meira en yfirlæknis á venjulegum spítala því hann varð að vera sjúklingum æðri í andlegum efnum og siðferði. Þetta hlutverk yfirlæknis endurspeglaðist í arkítektúr nýrra geðveikrahæla: Bæði í Árósum og Oringe (Vordingborg) var bústaður yfirlæknsins í aðalbyggingunni með gott útsýni yfir hælið svo hann gæti haft auga með sjúklingunum að ofan.

Geðveiki af sýfilisRáð til aga (valdbeiting) voru leyfileg hefðu þau lækningargildi. Breski geðlæknirinn John Connolly hafði frá því í lok fjórða áratugar nítjándu aldar haldið því mjög á lofti að þvingunarúrræði, s.s. spennitreyjur, ætti að forðast. Hugmyndin um fjötralausa, þ.e. „no restraint“, meðferð setti mark sitt á allar evrópskar geðlækningar. Hún var líka rædd í fyrstu kynslóð danskra geðlækna en viðhorf þeirra voru beggja blands. Selmer taldi t.d. að það að hætta alveg að nota þvingunarstól, spennitreyju og belti væri hvorki skynsamlegt né mannúðlegt. „Stundum eru verkfæri til þvingunar í rauninni ekki annað en nokkurs konar stuðningsumbúðir, sem hafa það að markmiði að hrinda vissum þerapískum möguleikum, eins og hlýju af sæng [eða] líkamlegri hvíld, í framkvæmd“ skrifaði hann árið 1856. Að mati Selmers átti ávallt að vega og meta hvað kæmi sjúklingnum best og ef þvingun væri best skyldi nota hana.

Myndin er af sjúklingi með dementia paralytica (sem Danir kölluðu svo), þ.e.a.s. geðsjúkdóm af völdum sýfilis. Hún birtist í merkilegu ljósmyndasafni ungverska geðlæknisins Nicolae G. Chernbach, útg. 1870.
 

Rúmlega
 

Strax eftir að sjúklingur hafði verið lagður inn var byrjað á að meta hvað væri að honum, skv. einkennum, og meðferð hafin þegar það var ljóst. Til að byrja með átti sjúklingurinn að vera sem mest í ró og forðast hugaræsing: „Svo lengi sem geðsjúkdómur er bráður (akut) verður hið sýkta líffæri – heilinn – að vera í fullkominni ró“ sagði Valdimar Steenberg á St. Hans Hospital 1890. Í kennslubók frá 1920, Vejledning i Sindssygepleje, er aðalatriðið að sjúklingurinn fái ró, sem mætti m.a. ná með „langvarandi rúmlegu þar sem hin hljóða einsleita tilvera er trufluð sem minnst.“ Bæði Knud Pontoppidan og Christian Geill rökstuddu lækningargildi langrar rúmlegu á líffræðilegan hátt. Geill sagði þær jafna blóðið í líkamanum, sem hefði verið í óstandi, og þannig leggja af mörkum til að truflanir á næringu í heila hverfi, í Om Sindsygdom, útg. 1899. Pontoppidan tekur í svipaðan streng í ráðleggingum um meðhöndlun þunglyndis (sjá neðar í færslunni) því rúmlega hafi áhrif á öndun og púls.

Fyrst eftir innlögn átti sem sagt sem fæst að raska ró sjúklings. Síðar meir mátti sjúklingurinn fá heimsóknir en þær þurfti þó yfirlæknir ævinlega að samþykkja fyrirfram. Sömuleiðis ritskoðaði yfirlæknirinn öll bréf frá sjúklingunum. (Slík ritskoðun tíðkaðist langt fram yfir síðari heimstyrjöld og einnig voru bréf til sjúklinga gerð upptæk ef þurfa þótti.)

Eiginleg læknismeðferðin var af tvennum toga: Líkamleg (somatisk) og sálarleg, þ.e. siðferðileg meðhöndlun („moralsk behandling“).

Undir líkamlega meðferð féllu lyf og fyrirbyggjandi aðgerðir, s.s. sérstakt mataræði og böð.
 
 

Lyf

Lyfin voru annars vegar svefnlyf og hins vegar róandi lyf. Það sem var mest notað var kloral/kloralhydrat, en einnig brómsölt, opíum og morfín. Yfirlæknirinn á „Sjette afdeling“ skrifaði 1875: „… við öllum byrjunareinkennum geðsjúkdóma, sem ég taldi að svöruðu læknismeðferð, [hef ég] notað slík, nefnilega hækkandi skammta af ópíum, morfínsprautum, bromkalium, Kloralhydrat o.s.fr.“ Læknarnir litu á lyfjagjöf sem einungis meðferð við ákveðnum einkennum (symptomer) og þess vegna voru sömu lyf gefin sjúklingum með ólíka sjúkdómsgreiningu svo framarlega sem einkennin voru svipuð.
 

Geðlæknar gerðu sér vel grein fyrir því að lyfjagjöf gat nýst prýðilega til að hafa stjórn á sjúklingunum, hún væri nokkurs konar þvingun/helsi eins og spennitreyjur, belti o.þ.h. Yfirlæknirinn á geðspítalanum í Árósum, Friedrich Hallager, skrifaði í grein frá 1910 að m.a. Sulfonal væri „ekki bara [notað] sem svefnlyf heldur einnig til að halda sjúklingunum í ró yfir daginn“ og kallaði slíka lyfjagjöf „efnafræðilega fjötra“, þ.e. „Chemical Restraint“. Mörgum árum áður hafði Pontoppidan nefnt lyfjagjöf af þessu tagi lyfjafjötra, „Medical Restraint“, og tekið skýra andstöðu gegn „svo augljósri óhæfu …. þar sem sjúklingurinn er sleginn niður með stórum skömmtum af Narcotica.“ Christian Geill taldi að einstrengingsleg „no restraint” stefna væri óæskileg og gæti haft í för með sér meiri skaða en gagn. Hann hafði svipað viðhorf til hins skoska „open-door princip“, það átti að vera leiðarljós í geðlækningum en „enginn sem hefur einhvern tíma sinnt geðsjúkum velkist í minnsta vafa um að það eru margir geðsjúkir sem ekki er bara nauðsynlegt heldur líka gagnlegt að halda undir lás og slá“ skrifaði hann 1895.
 

Böð
 

Böð við geðveikiTil róandi ráða tilheyrðu einnig löng böð. Þau gátu varað klukkustundum saman eða jafnvel dögum saman, þar sem sjúklingurinn var settur í baðkar, oft hulið lérefti eða laki. Auk heitra baða tíðkuðust strandböð og regnböð. Geill taldi árið 1895 að daglegt kalt regnbað hefði „mjög frískandi þýðingu fyrir stóran hluta sjúklinga sem hættir til að sökkva í sljóleika, leti og sóðaskap.“ Í fyrrnefndri kennslubók frá 1920, Vejledning i Sindssygepleje, er volgum/heitum böðum hampað og sagt að þau ættu að standa „marga tíma á dag, stundum jafnvel allan daginn.“ Alexander Friedenreich, prófessor í geðlæknisfræðum, sagði í kennslubók frá 1921 að áhrifin „af hinum lagvarandi böðum [væru] meira róandi en rúmlegur, en algerlega viðvarandi og hraðrar verkunar má ekki krefjast.“ August Wimmer, yfirlæknir á Sct. Hans, sagði að best væri að vatnið væri 28° heitt. Hann taldi að það væri allt í lagi að láta sjúklingana liggja í baðinu allan sólarhringinn.

Órólegum sjúklingum sem vildu upp úr var gefið róandi lyf eða þeir bundnir ofan í baðið með upprúlluðum lökum, sem voru vafin um mitti þeirra og endarnir bundnir saman undir baðkerinu. Í sjónvarpsþætti um sögu norskra geðlækninga (sem voru að miklu leyti sniðnar eftir þeim dönsku langt fram á tuttugustu öld), Spekter: Psykiatriens historie, er sagt að algengast hafi verið að hafa böðin 36° heit og svoleiðis langböð hafi getað staðið lengi; öfgafyllsta dæmið er af sjúklingi sem var hafður í baði í eitt og hálft ár!

Myndin er tekin á baðdeildinni á Sct. Hans Hospital árið 1916.
 
 
 

Siðferðileg/andleg meðferð
 

Andlega meðferðin var fyrst og fremst hugsuð sem siðferðileg meðferð (moralsk behandling). Hún átti að stilla sálarlífið og gera það skipulagðara eða snúa því á rétt ról. Þessu var náð með aga, skynsemi, góðu fordæmi og að hafa ofan af fyrir sjúklingunum. Undir aga heyrðu refsiaðgerðir sem miðuðu að því að beina sjúklingum á rétta braut, eiginlega ala þá upp.
 

Í enduruppeldis-meðferð hælanna vó iðjusemi og vinna þungt. Margir geðlæknar skrifuðu um og undirstrikuðu að líkamleg áreynsla hefði læknandi áhrif, virkaði til bóta bæði á sál og líkama sjúklinganna og hefði róandi áhrif á ólæknanlega geðsjúka. Sjúklingar unnu við ýmislegt á hælunum, jafnt innan húss sem utan. Sem dæmi um viðhorf geðlækna til vinnu má taka Valdimar Steenberg sem tók undir að „það væri vissulega þversögn en hitti þó naglann á höfuðið að sá af mestu og bestu geðlæknum Þýskalands hefði læknað fleiri sjúklinga með hjálp hjólbara en lyfjaskápsins síns“, í skrifum 1866.
 
 

Dæmi um geðlækningameðferð

Sem dæmi um ráðlagða lyfjameðferð við þunglyndi (melankólíu) má nefna eftirfarandi:

Knud Pontoppidan: Psychiatriske Forelæsninger og Studier, útg. 1892, kafli 2. Melancholia simplex. Momenter af Melancholiens Diagnose og Behandling. Fyrirlesturinn er frá því í desember 1891. Dæmið er af þunglyndri konu og Pontoppidan segir að svoleiðis sjúkling eigi fortakslaust að meðhöndla með rúmlegu því lárétt stelling hefur áhrif á púls og öndun og er besta róandi ráðið sem við höfum. Ópíum hefur einsök áhrif til sálrænnar verkjastillingar svo best er að gefa það: Byrja í lágmarkskammti, auka hratt í 10 Ctgr (= 100 milligrömm) og gefa síðan þrefaldan til fjórfaldan skammt á dag. Morfín virkar ekki eins vel en þó má sprauta sjúkling með morfíni ef hann er æstur eða í kvíðakasti því verkunin kemur strax fram.

Til að laga svefninn er best að gefa lítinn skammt af Chloral á kvöldin. Sulphonal virkar verr á þunglyndissjúklinga en aðra geðsjúklinga, segir Pontoppidan, svo betra er að prófa Amylenhydrat, auk þess sem löng vel heit böð um háttamál gefa góða raun.
 

Í meðhöndlun við maníu (s. 57-58 í sama riti) segir Pontoppidan að ópíum virki illa og miklu betra sé að nota klóral. Sulphonal virkar vel sé það gefið í réttum skömmum; 1 gramm er hámarksskammtur á kvöldin og svo er best að gefa 50 centigrömm (500 milligrömm) einu sinni til tvisvar á dag. Hyocinet [scopolamine] er að mínu mati hættulegra, segir Pontoppidan. Það hefur óstöðuga verkan og hefur valdið óþægilegum eitrunaráhrifum, jafnvel í gætilegum skömmum. Þetta lyf minnir mig á meðal í gamla daga, segir hann, sem var í hæsta máta óaðlaðandi læknismeðferð, nefninlega Tartras stibico-kalicu (uppsölumeðal) sem í háum skömmtum hélt sjúklingnum í viðvarandi örmögnun. Að mati Pontoppidan var svonalagað óæskilegir lyfjafjötrar, þ.e. „medical restraint“. Hyocinet notum við varla lengur nema til að snöggróa mjög erfiða sjúklinga því við hér á deildinni höfum séð sjúklinga halda áfram að veltast um með lafandi tungu og sljótt augnaráð eftir að lyfið hefur skilist úr líkamanum, segir hann í fyrirlestrinum.
 

Alexander Friedenreich ráðleggur mjög svipaða lyfjagjöf við þunglyndi í Kortfattet, speciel Psykiatri (útg. 1901, s. 33-36).
 

Hann tekur fyrst fram að ópíum virki miklu verr á þunglyndissjúklinga en aðra geðsjúklinga. Raunar virki róandi efni almennt mun verr á geðsjúka en aðra: „ … maður getur gefið geðsjúkum, sérstaklega æstum, risaskammt af svefnlyfjum án þess að þeir sofni, t.d. hafa óðum mönnum (delerister) verið gefin fleiri grömm af ópíum á dag til að þeir sofni en það hefur verið eins og að skvetta vatni á gæs“.

Þunglyndum má gefa 20-30-40 ctgr (200-400 milligrömm) af ópíum tvisvar á dag án þess að veruleg áhrif sjáist og án þess að sjúklingurinn verði háður efninu. Það má snögghætta að gefa lyfið án þess að fráhvarfseinkenna verði vart því ópíum virkar ekki eins á geðsjúka og venjulegt fólk. Sjálfur segist Friedenreich ekki beita ópíum mikið því aukaverkanir geti verið óheppilegar við langvarandi notkun lyfsins í stórum skömmtum, t.d. hægðartregða, niðurgangur, að matarlyst hverfi og það valdi jafnvel ofskynjunum.

Hann minnist á nýja breska læknisaðferð sem er að gefa Tyroidin (skjaldkirtilshormón) en álítur hana óheppilega því sjúklingurinn megrist mjög af þessu læknisráði.

Við svefnleysi má auðvitað prófa böð, heit böð í baðkeri, að pakka sjúklingunum inn í vot stykki eða sturtur, og svo nudd, leikfimi og hreyfingu en þau virka illa. Mun betra er að nota lyf.

Það svefnlyf sem virkar best er Kloral, 1 1/2-2-3 grömm en það getur verið hættulegt ef sjúklingur er hjartveikur (þótt Friedenreich segist hafi aldrei orðið vitni að slíku sjálfur). Síðan kemur Sulfonal (1 1/2 – 2 grömm) en það virkar hægt, stundum ekki fyrr en daginn eftir, aukaverkanir eru óþægilegur svimi og sljóleiki lengi á eftir. Það hefur og sýnt sig að vera hættulegt í langvarandi notkun, einkum konum. Hættuminna er Trional sem má gefa í sömu skömmtum. Bæði Trional og Sulfonal hafa þann kost að vera bragðlítil og má þess vegna lauma þeim í sjúklinginn blandað út í drykk. Amylenhydrat virkar stundum vel (í 3 gramma skömmtum) en er hvorki sterkt né áreiðanlegt svefnlyf. Paraldehyd virkar betur en sjúklingurinn finnur óþægilega lykt og það er enn verr að taka það inn en Kloral og Amylen.

Ópíum og morfín er eiginlega ekki hægt að nota sem svefnlyf vegna lélegrar verkunar en þau gefast vel til að slá á slæman kvíða. Sömuleiðis má nota löng heit böð til að slá á kvíða og óró. Böðin standa í 1-2 klukkustundir en sumir læknar hafa sjúklingana í svoleiðis baði allan daginn, jafnvel dag eftir dag, segir Friedenreich (og er e.t.v. að ýja að fylgismönnum Kraepelin hins þýska).
 

Við öðrum geðsjúkdómum nefnir Friedenreich, auk baða og svitakúra, sömu lyf og bromalium (í 4- 8 gramma skammtum), sem megi þó ekki gefa langvarandi því það geti valdið eitrun.
 

Aðrar lyflækningatilraunir danskra geðlækna

Danski geðlæknir gerðu tilraunir með aðrar lækningaraðferðir en upp hafa verið taldar eftir aldamótin 1900 en þær urðu ekki almennar nema malaríumeðferðin, frá þriðja áratug síðustu aldar og frameftir öldinni. Má nefna tilraunir F. Hallager, yfirlæknis á geðspítalnum í Árósum (og kennara Þórðar Sveinssonar) sem birti niðurstöður sínar 1915 í Ugeskrift for læger um tilraunameðferð á sýfils-geðveikum (sjúklingum með dementia paralytica). Þær fólust í að sprauta sjúklingana með „vökva Coleys“, þ.e.a.s. með streptókokkum o.fl. bakteríum. Sjúklingarnir fengu hita og Hallager sagði að eftir hitameðferðina hefðu þeir verið nógu frískir til að snúa til daglegs lífs.  Á þriðja ártugnum náði svo malaríumeðferðin, kennd við austurríska geðlækninn Wagner-Jauregg, talsverðum vinsældum í Danmörku en hún fólst í því að smita sjúklinga af malaríu í þeirri trú að hár hiti læknaði geðsjúkdóminn. Þá meðferð prófuðu danskir geðlæknar fyrst haustið 1921. Danski geðlæknirinn Kund Schroeder fann upp eigin aðferð við hitahækkun geðsjúkra, nefnilega sulfosin-meðferðina. Hún fólst í því að sprauta brennisteinsolíu í vöðva svo sjúklingar fengu háan hita. Schroeder taldi þetta góða lækningu við geðklofa, krónískri heilabólgu o.fl., birti niðurstöður sínar fyrst 1927 og hlaut heimsfrægð fyrir vikið. Annar danskur læknir, Paul Reiter, birti sama ár grein um sína meðferð í Ugeskrift for Læger, nefnilega að sprauta ýmsum málmsöltum í geðklofasjúklinga, einkum mangan. Hann hlaut ekki heimsfrægð en aðferð hans var prófuð á ýmsum dönskum geðspítölum.
 
 

Heimildir, auk efnis sem krækt er í úr texta:

Psykiatriens Historie i Danmark. Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh.
Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.
 

Danskar geðlækningar 1850-1920

Þessi færsla er framhald af Geðlækningar og geðveiki forðum og fjallar um danskar geðlækningar á seinni hluta nítjándu aldar fram á þá tuttugustu. Ástæða þess að ég hef sérstakan áhuga á sögu danskra geðlækninga er að það er ómögulegt að skilja upphaf geðlækninga á Íslandi, á tuttugustu öld, nema vita eitthvað um hugmyndaheiminn sem þær spruttu úr. Þess vegna legg ég  áherslu á að geta þess hugmyndaheims sem ætla má að Þórður Sveinsson, fyrsti starfandi geðlæknirinn á Íslandi, hafi kynnst á námsári sínu 1905-6 í Danmörku. Og raunar gætir áhrifa frá dönskum geðlækningum fram undir miðja tuttugustu öld hér á landi, ef ekki enn lengur.
 

Skyldur ríkisins við geðsjúka og hugmyndin um geðveikrahæli (asyl)

Fyrir miðja nítjándu öld voru geðveikrahæli fyrst og fremst hugsuð til að taka þá geðsjúklinga sem voru hættulegir öðrum úr umferð. En laust fyrir 1850 verður sú breyting á að farið er að sinna geðsjúkum markvisst þótt ekki þættu þeir hættulegir. Viðhorfsbreytingin kom ekki hvað síst fram í því að geðsjúklingar voru ekki lengur flokkaðir í hættulega – ekki hættulega heldur í læknanlega – ólæknanlega. Þá læknanlegu skyldi lækna á sérhæfðum stofnunum þar sem beitt væri læknisfræðilega viðurkenndum ráðum og byggt á læknisfræðilegum kenningum. Þá ólæknanlegu skyldi vista á sömu stofnunum. Ábyrgð á geðsjúkum færðist þ.a.l. í miklum mæli frá fjölskyldunni til ríkisins og var fest í lög.

Þessa breyttu hugmyndafræði varðandi geðsjúka má rekja til margra hugmyndastrauma þessara tíma. En til að stytta mál má kannski beina sjónum að geðlækninum Haraldi Selmer, sem stundum er kallaður faðir danskra geðlækninga. Að mati Selmer voru Danir aftarlega á merinni þegar kom að geðsjúkum enda hefðu þeir ekki fylgst með nýjustu stefnum og straumum í Evrópu. Hann taldi að meðferð geðsjúkra hefði hægt og bítandi orðið mannúðlegri en mikið skorti á að menn gerðu sér almennt grein fyrir að geðveiki væri sjúkdómur og sem slíkur oft læknanlegur. Skoðunum sínum lýsti Selmer í ritverkinu Almindelige Grundsætninger for Daarevæsenets Indrætning, sem kom út árið 1846 og hafði mikil áhrif.

Selmer hafði ákveðnar hugmyndir um hvers lags sjúkrastofnanir hentuðu geðsjúkum og vildi kalla þær hæli (asyl). Hann byggði þær raunar á hugmyndum franska geðlæknisins Jean Étienne Esquirol (1172-1840.) Hælin áttu að vera uppi í sveit, til að verja sjúklingana fyrir forvitnum augum, afskiptum ættingja og aðstæðum eða samskiptum sem ýttu undir sjúkdóminn. Það var mikilvægt að hælin væru í fögru umhverfi því margir sjúklingar hlytu bót af „fegurð náttúrunnar … friðsælu umhverfi og breytilegu landslagi“ sagði Selmer í fyrrnefndu riti. Loks taldi hann að það kost að hælin lægju að sjó svo nýta mætti sjóböð í meðferð sjúklinganna. Á hælunum skyldi reka búskap og sinna ræktun því vinna var geðsjúkum holl, líkamleg áreynsla var hluti af líkamlegri (sómatískri) lækningaaðferðum. Selmer sagði að vinna væri aðalatriðið í meðferðinni því hún styrkti „Selvfølelse og moralske Bevidshed“ sjúklinganna. Þessi skoðun á gildi vinnunnar sem lækningaraðferðar var ríkjandi langt fram á tuttugustu öld.

Harald Selmer varð fyrsti yfirlæknirinn á Jydske Asyl (einnig kallað Aarhus sindsygeanstalt  eða Sindsygeanstalten i Risskov, á opinberum pappírum hét stofnunin Sindsygeanstalten for Nørre-Jylland) þegar það var stofnað 1852. Jydske Asyl var fyrsta sjúkrastofnunin sem var sérstaklega byggð fyrir meðhöndlun geðsjúkra en fleiri fylgdu í kjölfarið; Á árunum 1852-1915 voru stofnaðir 5 stórir geðspítalar/hæli í Danmörku.
 

Geðlæknar vilja vera læknar með læknum
 

Geðlækningar á seinni hluta 19. aldar í Danmörku einkenndust talsvert af ströggli geðlækna við að vera taldir til lækna, þ.e.a.s. það var nánast róið lífróður að því að gera geðlækningar að viðurkenndri læknisfræði. En róðurinn sóttist seint og var oft á tíðum erfiður. Segja má að barist hafi verið á tvennum vígstöðvum; Annars vegar reyndu geðlæknar að sannfæra kollega sína í læknastétt um að geðlækningar væru jafngildar öðrum læknisaðferðum og hins vegar að andæfa þeirri skoðun að aðrir en geðlæknar gætu greint geðsjúkdóma; Síðarnefnda stríðið var einkum háð gegn leikmönnum, t.d. fjölskyldum geðsjúkra.

Kennari Þórðar SveinssonarFyrst og fremst lögðu geðlæknar á þessu tímabili þunga áherslu á að geðveiki væri líffræðilegur sjúkdómur. Christian Geill orðaði þetta þannig 1899: „Andlegur sjúkdómur er alltaf sjúkdómur í heilanum, alveg eins og lungnabólga er sjúkdómur í lungum.“ Sálin var ekki á könnu geðlækna, eða eins og Knud Pontoppidan, yfirlæknir á tauga-og geðsjúkdómadeildinni (svokallaðri „Sjette afdeling“) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn sagði 1891: „… það sem við fáumst við sem læknar er líkaminn; sé til eitthvað sem nefnist sjúkdómar sálarinnar getum við ekki gert neitt við þeim. Neikvæð og jákvæð sálarleg einkenni eru í okkar augum einungis tákn um hvað sé ekki í lagi og hvað sé í lagi í æðsta taugasetrinu.“

Þarf varla að taka fram að talsvert fram á tuttugustu öld áttu kenningar Freud ekki upp á pallborðið í Danmörku og voru yfirleitt hunsaðar með öllu. Vegna samhengis við upphaf íslenskra geðlækninga vek ég athygli á því að danskir framámenn í geðlækningum höfðu á hinn bóginn mikinn áhuga á spíritisma. Meðal félaga danska sálarrannsóknafélagsins (Selskabet for Psykisk Forening) árið 1905 var Alexander Friedenreich, yfirlæknir á „Sjette afdeling“ (geðdeildinni) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn 1898-1918 og  prófessor í geðlækningum við Kaupmannahafnarháskóla 1916-19. Síðarmeir gengu fleiri áhrifamiklir geðlæknar í félagið, t.d. eftirmaður Friedenreich, August Wimmer (yfirlæknir á „Sjette afdeling“ og prófessor í geðlækningum frá 1920). Þessir geðlæknar sátu öðru hvoru í stjórn danska sálarrannsóknarfélagsins. (Kragh, Jesper Vaczy. 2003.) En meðfram þáttöku í félaginu gagnrýndu þessir áhrifamiklu geðlæknar spíritisma stundum, t.d. hélt Friedenreich því fram í grein árið 1908 að miðilsfundir gætu orsakað geðrof. (Kragh, Jesper Vaczy. Ótímasett.)

Myndin er af Alexander Friedenreich. Friedenreich heldur á tilraunaglasi með vökva í, sem að sögn greinarhöfundar í Psykiatriens historie i Danmark á að undirstrika að geðlækningar væru vísindalegar ekki síður en aðrar undirgreinar læknisfræði.

En það var þrautin þyngri að sýna fram á að geðveiki væri líkamleg eða af líkamlegum orsökum. Áhugi á krufningum jókst mjög en ekkert sást á heilum geðsjúklinga. Þó voru menn stundum á réttri leið, t.d. Valdemar Steenberg, yfirlæknir á Sct. Hans geðsjúkrahúsinu laust eftir miðja nítjándu öld, sem lagði allt kapp á að sanna tengslin milli sýfilissmits og geðsjúkdómsins dementia paralytica og tókst að sýna fram á tengsl þótt tæknin væri frumstæð og ekki væri hægt að greina sýfilisbakteríuna í heilavef fyrr en áratugum síðar. (Dementia paralytica er lokastig sýfilis og um 20% sjúklinga á dönskum geðveikrahælum voru haldnir þessum sjúkdómi.)

Úr því ekki tókst að sýna fram á að geðsjúkdómar væru líkamlegir var tekinn annar póll í hæðina til að færa geðlæknisfræði nær viðurkenndri læknisfræði, nefnilega að flokka geðsjúkdóma á vísindalegan hátt (eins og aðrir læknar flokkuðu líkamlega kvilla á vísindalegan hátt). Flokkunin varð að byggjast á sjúkdómseinkennum því ekki var hægt að sýna fram á nein líffræðileg einkenni. Harold Selmer lagði fyrstur danskra geðlækna til sameiginlegt flokkunarkerfi geðsjúkdóma árið 1850. Hann notaði eftirfarandi flokka:

Moralsk afsindighed eller forrykthed (Siðferðileg geðveiki eða brjálsemi) ;
Vanvid (orðið þýddi andleg þroskaskerðing og er raunar algerlega samstofna íslenska orðinu vanvit);
Monomani (vangefni að hluta);
Demens (sljótt hugarástand, Selmer notaði orðið einnig um rugl);
Fatuitet (táknaði enn meira rugl, þ.e. skort á raunveruleikatengslum);
Melankoli og mani (þunglyndi og æði)
 

Þrátt fyrir tillögu Selmers ríkti engin eindrægni í flokkun geðsjúkdóma og flokkaði hver læknir eins og honum sýndist.  Flokkunin tók og stöðugum breytingum, t.d. var notað ólíkt flokkunarkerfi í þeim dönsku kennslubókum um geðlæknisfræði sem komu út á síðari hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu, flokkunum fjölgaði líka jafnt og þétt á þessu tímabili. Flokkun Kraepelin hins þýska á níunda áratug nítjándu aldar varð kunn í Danmörku og hafði einhver áhrif en ekki mikil. Þrátt fyrir að æ fleiri sjúkdómsheiti væru notuð í kennslubókum, fyrirlestrum og greinum um geðlækningar voru flokkarnir miklu samt færri í praxís, þ.e.a.s. í sjúkraskýrslum og vinnugögnum. Geðlæknar kvörtuðu sumir yfir því að flokkunaráráttan keyrði um þverbak, sjá t.d. síður úr skýrslu Valdemars Steenberg yfirlæknis á Sct. Hans Hospital frá 1871, næsta opna er hér. Það gerði líka flokkun geðsjúkdóma eftir einkennum mun erfiðari að geðlæknar voru sammála um að ekki skyldi taka mark á sjúklingum eða ættingjum þeirra í lýsingu einkennanna, slíkt var of óvísindalegt. Þess vegna varð að flokka hvern sjúkling eftir þeim einkennum sem hann sýndi eftir innlögn.

Knud Pontoppidan

Knud PontoppidanEinna áhrifamestur geðlækna á þessu tímabili var Knud Pontoppidan. Hann var yfirlæknir á „Sjette afdeling“ á  Kommunehospitalet  og gegndi fyrstu háskólastöðunni sem stofnuð var í geðlækningum, þ.e. varð dósent við Kaupmannahafnarháskóla árið 1888, varð síðar prófessor í réttarlæknisfræði við sama skóla. (Ætla má að hróður Knuds Pontoppidan hafi og aukist fyrir að hann var bróðir frægs skálds, Henrik Pontoppidans, sem hlaut Nóbelsverðlaun árið 1917.)

Pontoppidan var vinsæll fyrirlesari um fræðasvið sitt, sem var vel að merkja bæði geðlækningar og taugalækningar því ekki var greint milli þessa tveggja. Fyrirlestrarnir voru gefnir út og höfðu þannig enn meiri áhrif. Má lesa hluta þeirra, Den Almindelige Diagnostik af Centralnervesystemets Sygdomme (frá 1887). Raunar er þetta safn útgefinna fyrirlestra eftir Pontoppidan því á eftir þessari fyrirlestraröð fylgja á sömu vefslóð:

Kliniske forelæsninger over Nervesygdomme (frá 1898)
Eurastenien. Bidrag til skildringen af vor Tids Nervøsitet. (útg. 1886, birtist upphaflega í tímaritinu Bibliothek for Læger en var svo gefið út í þremur upplögum 1886)
Fire Chiatriske Foredrag (útg. 1891, haldnir 1888-1890)
Psychiatriske Forelæsninger og Studier (útg. 1892, sex fyrirlestrar haldnir 1891)
Psychiatriske Forelæsninger og Studier. Anden række (útg. 1893, sex fyrirlestrar haldnir 1892-93)
Psykiatriske Forelæsninger og Studier. Tredie Række. (útg. 1895, sex fyrirlestrar haldnir 1893-95)
 

Amalie SkramPontoppidan er m.a. minnst fyrir mannúðleg viðhorf til geðsjúkra auk fræðilegra geðlæknisstarfa. En hann öðlaðist óvænta frægð meðal almennings í Danmörku og raunar langt út fyrir landsteinana laust fyrir aldamótin 1900 þegar hann lenti í útistöðum við áhrifamikla sjúklinga: Fyrst og fremst við norsku skáldkonuna Amilie Skram. Hún var lögð inn á „Sjette afdeling“ árið 1894, í kjölfarið á hjónabandserfiðleikum, og hefur að öllum líkindum þjáðst af þunglyndi. Amalie dvaldi í mánuð á geðdeildinni og hugnaðist engan veginn framkoma starfsfólks við sjúklinga, sérstaklega þótti henni Knud Pontoppidan hrokafullur og ekki hvað síst hrokafullur og stjórnsamur í garð kvenkyns sjúklinga. Svo Amalie beitti sér í dönsku dagblöðunum gegn Pontoppidan og skrifaði svo lykilskáldsöguna Professor Hieronymus, útg. 1895, sem lýsir samskiptum þunglyndu konunnar Elsu við yfirlækninn Hieronymus og gerist á geðdeild. Professor Hieronymus hefur lifað góðu lífi síðan, einnig lykilskáldsagan Paa St. Jørgen eftir Skram, sem byggð er á mánaðardvöl hennar á Sct. Hans hospital en þangað fór hún af „Sjette afdeling“.

Eftir þessa óvæntu, og að margra mati óverðskulduðu frægð, sem hlaust af útistöðum við Amalie Skram, gróf undan veldi Pontoppidan á „Sjette afdeling“ og hann sagði upp stöðu sinni 1897, gerðist yfirlæknir á Jydske Asyl í Árósum. Pontoppidan reyndi sjálfur að beita sömu brögðum og Amalie Skram og skrifaði bæklinginn  Sjette Afdelings Jammersminde sér til varnar, útg. 1897. (Titillinn er sjálfsagt vísun í Jammers Minde Leonóru Christinu Ulfeldt, sem haldið var fanginni í Bláturni árum saman … orðið þýddi upphaflega kveinstafir en hefur verið þýtt Harmaminning á íslensku). Pontoppidan hafði ekki erindi sem erfiði með þessum bæklingi, hann endurheimti ekki orðstír sinn í þessum slag.

Erjur Amalie Skram (og fleiri sjúklinga sem hún studdi opinberlega) og Knuds Pontoppidan rötuðu meira að segja í dagblöð hér uppi á Íslandi, sjá Yfirlæknir bæjarspítalans í Khöfn í Fjallkonunni, 18. desember1894, þar sem samúðin er öll með sjúklingnum (Amalie Skram studdi þennan sjúkling dyggilega á opinberum vettvangi) og fréttamola í Bjarka, 24. desember 1897, þar sem samúðin er greinileg með hinum ofsótta Pontoppidan. Í grein Björnstjerne Björnsson, Nútíðarbókmenntir Norðmannna, sem birtist í janúarhefti Eimreiðarinnar 1898, er einnig drepið á þetta mál, í umfjöllun um Professor Hieronymus (s. 58-59). Ætla má að þetta málavafstur hafi því verið velþekkt á Íslandi í byrjun tuttugustu aldar.
 

Vísindaleg/læknisfræðileg grein gerð fyrir orsökum geðsjúkdóma

Þótt  tilraunir til að gera geðlækningar vísindalegar með skírskotun til líffræðilegra breytinga í heila eða með nákvæmri samræmdri flokkun hafi mistekist reyndu menn fleira til hins sama, t.d. að gera vísindalega grein fyrir orsökum geðsjúkdóma. Þar var fyrst og fremst horft til arfengi í víðum skilningi. Að vísu var mjög mismunandi hversu nákvæmlega einstakir geðlæknar túlkuðu arfgengi, sumir seildust ákaflega langt aftur í ættir, aðrir skemmra en allir reyndu þeir þó að fá upplýsingar hjá sínum sjúklingum um geðveika, vangefna eða drykkjusjúka ættingja þeirra (þetta var allt talið geðveiki). Auk þess sem við nútímamenn teljum arfgengi horfðu geðlæknar talsvert til arfgengrar úrkynjunar, algengrar hugmyndir á þessum tíma. Arfgeng úrkynjun (degeneration) fólst í því að ættin úrkynjaðist meir og meir með hverjum ættlið. Venjuleg arfgengi var ekki nærri eins ráðandi orsök geðsjúkdóma og arfgeng úrkynjun að mati geðlækna þessa tíma.

Auk arfgengi/úrkynjunar gátu geðsjúkdómar átt sér líkamlega orsök. Var oft nefnt sjálfsfróun, höfuðverkur eða einhver líkamlegur kvilli. Loks gat geðsjúkdómur kviknað af ytri aðstæðum, þ.e.a.s. einhverju sem kæmi fólki úr jafnvægi, til dæmis sorg, óhamingjusömu hjónaband, fjárhagserfiðleikum eða vonbrigðum. Í ársskýrslum geðdeilda/hæla frá þessum tíma eru líka tíndar til öllu langsóttari skýringar eins og pólitískar erjur, mormónatrú, ferðalag til Ameríku, að liggja í bókum síknt og heilagt o.fl. Aðaláherslan var þó að geðsjúkdómar ættu sér líkamlegar skýringar, ytri aðstæður eða áföll voru talin veigalítil og ólíkleg til að valda erfiðum geðsjúkdómum.

Tvær kennslubækur um geðsjúkdóma

Í lokin er rétt að benda á kennslubækur sem aðgengilegar eru á Vefnum og ætla má að hafi mjög mótað hugmyndir Þórðar Sveinssonar, fyrsta starfandi geðlæknisins á Íslandi.

Om Sindsygdom eftir Christian Geill, útg. 1899. Geill var einkum þekktur fyrir skrif sín um og störf við réttargeðlæknisfræði en hann var yfirlæknir á Jydske Asyl (einnig kallað Aarhus Sindsygeanstalt)  á árunum 1894-96. Frá 1901 var hann yfirlæknir á geðspítalanum í Viborg. Þórður Sveinsson, verðandi yfirlæknir á nýstofnuðum Kleppi, var kandídat á Aarhus Sindsygeanstalt í mars-ágúst 1906. Kannski hefur andi Geills enn svifið þar yfir vötnum þótt hann væri þá horfinn til svipaðra starfa í nágrenninu.

Riti Geills er skipt í þessa efnisþætti: Hvað er geðsjúkdómur?; Hverjar eru orsakir geðsjúkdóma; Hvernig lýsa geðsjúkdómar sér; Hvernig er hægt að fyrirbyggja geðsjúkdóm; Hvernig á að meðhöndla geðsjúkan heima; Hvernig er meðferð á stofnun háttað. Í ritinu kemur skýrt fram sú eindregna afstaða að geðsjúkdómar séu nánast allaf af líkamlegum toga. T.d. útskýrir Geill hvernig geðshræringar hafi líkamleg áhrif (og valdi þar með líkamlegum sjúkdómum), má nefna að roðna eða fölna, sem dregur úr blóðflæði til heilans, sem gæti valdi heilaskemmdum, s.s. geðveiki.

Kortfattet, speciel Psykiatri eftir Alexander Friedenreich, útg. 1901. Freidenreich varð yfirlæknir á „Sjette afdeling“ (geðdeildinni) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn 1898-1918, dósent í geðlækningum við Kaupmannahafnarháskóla 1898-1916 og prófessor í geðlækningum við sama skóla 1916-19. Það er líklegt að Þórður Sveinsson hafi verið nemandi Freidenreichs þegar hann kynnti sér geðlækningar í Kaupmannahöfn 1905-6 en Þórður starfaði m.a. á „Sjette afdeling“ og hlýtur að hafa eitthvað komið eitthvað nálægt háskólanámi í geðlæknisfræðum þennan vetur sem hann var í Kaupmannahöfn.
 

Af því ég er þunglyndissjúklingur athugaði ég af hvaða orsökum þessir ágætu menn telja að þunglyndi (melankólía) stafi. Umfjöllun í bók Geill var almennt um orsakir geðsjúkdóma og þar undirstrikað rækilega að þær væru aðallega arfgengi og líkamlegar orsakakir. Í  Kortfattet, speciel Psykiatri er sérstaklega fjallað um orsakir þunglyndis og arfgengar orsakir auðvitað fyrst taldar. Síðan er minnst á líkamlegar orsakir, nefnilega þessar:

Blóðleysi af ýmsum ástæðum, sjúkdómar sem draga úr þrótti, léleg næring, viðvarandi móðurlífsbólgur, bólgur í þörmum, lifrarsjúkdómar og þvagfærasjúkdómar. Ásamt með móðurlífsbólgum má telja óléttu, fæðingu og brjóstagjöf. Svo má nefna hjarta- og nýrnasjúkdóma, kransæðabólgur og sjúkdóma á borð við lungnabólgu og taugaveiki. Talsverð áhersla er lögð á að sjálfsfróun geti verið orsök þunglyndis (en er þó algengara að valdi öðrum geðsjúkdóma) og að hana beri að telja til líkamlegra orsaka þótt skaðinn geti líka talist sálrænn. (s. 19-21.)

Af sálrænum orsökum þunglyndis má nefna sorg, vonbrigði, að fara að heiman og ofreynslu. Hið síðastnefnda er algengara hjá karlkynssjúklingum en verður einnig vart hjá kennslukonum. Kennslukonur þurfa oft að hraða sér mjög í gegnum námið, af fjárhagsástæðum, og taka próf þótt kunnáttan sé léleg. Svo þurfa þær strax að fara að kenna. Margar einkakennslukonur eru „misnotaðar á grófan hátt og eru á heildina litið í erfiðri og oft vandræðalegri stöðu.“ Í tilvikum kennslukvenna kann því ofreynsla að vera sálræn orsök þunglyndis, segir Geill, en minnist ekkert á að aðrar konur geti ofreynt sig 🙂  (Sjá s. 23.)
 

  

Heimildir

Auk efnis sem vísað er í, í færslunni, studdist ég einkum við eftirfarandi kafla í Psykiatriens Historie i Danmark, útg. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh:

Nielsen, Trine Fastrup: Fra dårekiste til terapeutisk anstal. Dansk psykiatri 1800-1850;
Møllerhøj, Jette. Sindssygedom, dårevæsen og videnskap. Asyltiden 1850-1920;
Mellergård, Mogens: Nye svar på gamle spørgsmål. Psykiatriske trosetninger 1880-1930.

Einnig studdist ég við greinarnar:

Møllerhøj, Jette. On unsafe ground: the practises and institutionalization of Danish psychiatry, 1850-1920. History of Psychiatry, 19(3): 321-337, 2008. Aðgengileg á Vefnum og er krækt í hana.
Kragh, Jesper Vaczy. »Overtro og trolddom« – Selskabet for Psykisk Forskning 1905-1930. Fortid og Nutid, september 2003, s. 163-185. Greinin er aðgengileg á Vefnum og er krækt í hana.
Kragh, Jesper Vaczy. Danish Spiritualism, 1853-2011. Ótímasett. Aðgengilegt á vef.

Í næstu færslu geri ég grein fyrir hvernig læknismeðferð geðsjúkra var háttað á þessum tíma.

Geðlækningar og geðveiki forðum

Undanfarið hef ég verið að lesa svolítið um geðlækningar fyrri tíma og reynt að glöggva mig á hugmyndafræði að baki lækningum og viðhorfum til geðsjúkra. Ég er orðin dálítið þreytt á amrísku sjónarhorni í skrifum um sögu geðlækninga eða eilífum tilvitnunum í geðveikrahæli í Frakklandi og Bretlandi og keypti þess vegna bókina Psykiatriens historie i Danmark, eftir að hafa lesið marga feikigóða dóma um þá bók (sem kom út 2008). Bókin stendur algerlega undir væntingum. Kannski er það vegna þess að ritstjóri hennar, Jesper Vacsy Kragh, er sagnfræðingur en ekki geðlæknir/læknir? Altént hefur verið beitt ströngum sagnfræðilegum vinnubrögðum við samningu bókarinnar, þ.e.a.s. frumheimildir skoðaðar gaumgæfilega og reynt að setja umfjöllunarefnið í samhengi við tíðaranda hvers tíma.

Eiginlega er ég bara búin að lesa fyrsta hlutann almennilega, St. Hans Hospital i København 1612-1808, e. Barböru Zalewski. Hún er doktor í sagnfræði og reyndar sérfræðingur í daglegu lífi konungshirðarinnar í Danmörku á 17. öld og 18. öld, svona auk sérfræðiþekkingar í málefnum geðsjúkra á sama tíma … kannski skarast þessi fræðasvið  😉  Það sem vakti einkum athygli mína í þessari umfjöllun var að geðsjúkir höfðu það alveg sæmilegt á þessum tíma miðað við hag almennings í Kaupmannahöfn og umönnun þeirra verður seint talin einkennast af fjandsemi og nauðung.

Í dönskum lögum, allt frá Eriks Sjællandske Lov frá því um 1250, hefur verið að finna samsvarandi grein og í íslenskum lögum, allt frá Grágás, um að ættingjar eigi að sjá geðsjúkum/vitfirrtum farborða séu þeir ófærir um það sjálfir. Danska lagagreinin er raunar enn í gildi því hún hefur aldrei verið felld úr gildi og gengur ekki í berhögg við núverandi lög í landinu. En þótt “frænder” ættu að sjá um sína geðsjúklinga varð æ meiri þörf á að ríkið axlaði þær skyldur og fyrsta geðveikrahúsið, forveri St. Hans spítalans, var sett á fót 1612.

Í þessum fyrsta hluta bókarinnar er reynt að kæfa nokkrar lífseigar goðsagnir. Ein goðsögnin er að á sextándu og sautjándu öld hafi almennt verið talið að geðsjúkir væru haldnir illum anda. Zalewski tínir til heimildir fyrir því að svo hafi aldrei verið, meira að segja var það á könnu presta að greina milli þess hvort menn væru í alvörunni andsetnir eða geðveikir og prestar áttu ekki í neinum vandræðum með að skilja þar á milli. Og vissulega er það rétt að almenningur hafði stundum greindarskerta og geðveika (það var ekki greint þarna á milli) að dári og spéi en raunar höfðu Kaupmannahafnarbúar á 17. og 18. öld hvern þann að skotspæni sem skar sig úr fjöldanum.

Sömuleiðis er borið til baka að fólki í geðrofi hafi verið troðið í rimlabúr sem kölluðust dárakistur. Dárakisturnar voru ekki búr heldur pínulítil herbergi (þau minnstu voru 2,5 fermetrar … mætti kannski kalla þær skápa en örugglega ekki rimlabúr) með naglföstu rúmi, naglföstum kamri, sterkum veggjum og járnhurð. Þær voru byggðar af illri nauðsyn: Það var hreinlega ekki mannafli til að hemja stjórnlausa einstaklinga, sem brutu allt og brömluðu og voru hættulegir sjálfum sér og öðrum. Þetta er t.d. rökstutt með grunnteikningu af dárakistum spítalans frá 1738. Og fólk var ekki haldið í þessum pínuherbergjum til eilífðarnóns heldur sést á skrám spítalans að menn eru settir í dárakistu í stuttan tíma, svo fá þeir aftur að hverfa til sinna venjulegu herbergja þegar æðið rennur af þeim. Raunar kemur fram seint í þessum kafla að spennitreyjan (illræmda nútildags) hafi verið mikil frelsun fyrir þá sem á rann æði því eftir að spennitreyjur komu til sögunnar hafi ekki þurft að færa sjúklinga í sérstaklega rammbyggðu herbergin (dárakisturnar) niðri í kjallara heldur hafi mátt óla þá og leyfa þeim að vera áfram samvistum við aðra sjúklinga í mun skárri vistarverum.

Í bókinni Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga eftir Jón Ólaf Ísberg (útg. 2005) er því aðeins gefið undir fótinn að brennimerking fólks með geðsjúkdóma hafi verið óþekkt uns Kleppur var stofnaður, þ.e. uns „vísindalegar“ geðlækningar hófust á Íslandi. Ég hef svolítið velt þessu fyrir mér en sosum ekki komist að neinni niðurstöðu. Í leit á timarit.is má finna aldargamlar fréttir/frásagnir af melankólísku eða þunglyndu fólki (af báðum kynjum) sem fyrirfór sér en hvergi er neinn dómur felldur yfir því fólki, í rauninni er greint frá slíkum mannslátum á nákvæmlega sama kaldranalega hlutlausa háttinn og hverjum öðrum banaslysum. Sjá t.d. þessa frétt í Þjóðólfi 23.10. 1903:
 
 

Slysför .
Aðfaranóttina 4. þ. m. fyrirfór sér gipt kona frá Hvammi í Lóni Bergljót Jónsdóttir (frá Hofi í Öræfum Þorlákssonar). Hafði hún verið nokkra daga til lækninga á Reynivöllum í Suðursveit, en gisti á Stapa í Nesjum á leiðinni heim til sín laugardagskveldið 3. þ. m. Var horfin úr rúminu um morguninn og fannst dauð í Þveitinni, vatni fyrir innan Bjarnaneshverfið. Hún hafði verið þunglynd um hríð og heilsubiluð, en myndarkona. Var komin hátt á fertugsaldur.

Klassísk eldri dæmi má finna í  íslenskri málsögu, nefnilega af sr. Jóni Halldórssyni sem dó árið 1779. Einn annálaritari ritar að hann hafi verið „gamall klerkur og æðisgenginn“ meðan annar annálaritari segir hann hafa verið „frá sér numinn“. Hvorgur annálaritarinn gerir á nokkurn hátt lítið úr sr. Jóni þótt þeir noti orðalag sem okkur nútímamönnum kann að finnast skondið. Líklega þarf ég að leggjast í annálalestur til að reyna að glöggva mig á því hvort geðbiluðu fólki hafi verið eitthvað öðru vísi lýst en öðrum. Ef marka má bókina um sögu geðlækninga í Danmörku hafa menn tekið geðveiki eins og hverjum öðrum krankleik eða hundsbiti fyrr á öldum, meðan enn var ekkert opinbert geðlækningakerfi.

Hagur geðveikra í geðlækningabatteríinu danska snarversnar þegar komið er fram á 18. öld, þegar J.H. Seidelin varð yfirlæknir á St. Hans árið 1816 og uns hann var settur af, í kjölfarið á kvörtun sjúklings, árið 1831. Fyrir þann tíma virðast menn ekki hafa haft ýkja mótaðar hugmyndir um geðveika, reyndu bara að taka þá veikustu úr umferð, veita þeim sæmilega ummönnun og vonast til að þeim batnaði af sjálfu sér. Sárafáir þeirra sem komu að meðhöndlun geðsjúkra voru læknismenntaðir. En Seidelin var velmenntaður læknir og fylgdi nýjum hugmyndum um að geðsjúkir væru sjúklingar sem þyrftu meðferð á sjúkrastofnun rétt eins og aðrir sjúklingar. Að baki lá auðvitað það húmaníska viðhorf að gera ekki upp á milli sjúklinga eftir sjúkdómum. 

Seidelin taldi mikilvægt að beita læknisfræðilegum aðferðum, „psykiske kurmetoder“ í meðhöndlun geðsjúklinga. Því miður fólust þessar „psykiske kurmetoder“ oft í að aga sjúklinginn með líkamlegum refsingum ýmiss konar. Má nefna böð, spennitreyjur, stóla sem menn voru bundnir í, svelti, uppsölulyf, þorstameðferð (menn fengu ekkert að drekka langtímunum saman) o.s.fr. Það hlálega er að þessi meðferð Seidelins, sem vekur andstyggð okkar nútímamanna, byggði líklega á þeirri nýju hugmyndafræði að geðveiki væri líffræðilegur sjúkdómur („somatisk“), ekki ósvipuðum hugmyndum og eru hvað mest í móð meðal geðlækna nútímans. Ekki hefur varðveist mikið af efni eftir Seidelin sjálfan en samtímamaður hans, læknirinn  F.C Howitz, birti grein árið 1824 þar sem hann gerir grein fyrir þessum nýju „vísindalegu“ hugmyndum, þ.e. að uppruni geðsjúkdóma sé í líffærunum, og segir:
 

Afsindighet [orðið sem þá var notað yfir geðræna sjúkdóma] bestaaer i en Indskrænkning af Fornuften eller Fornuftens Brug formedelst en Sygdom i de materielle Organer for Sjælens Virksomhed. For saa vidt den yttrer sig i Handlingen bestaaer den i en Mangel af fornuftig Selvbestemmelse foranlediget af samme legemlige Aarsag.
 

Ég er ekki komin lengra í bókinni. En það er óneitanlega merkilegt að þær óhuggulegu læknisaðgerðir sem við teljum pyndingar skulu hafa komið til sögunnar þegar menn gerðust vísindalegir, þ.e. þegar læknisfræðin hóf innreið sína í meðhöndlun geðsjúkra.
 
 
 
 

Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld

Silkijakki frá 17. öldTalsvert hefur varðveist af skrautlegum útprjónuðum jökkum/treyjum frá 17. öld og má sjá þá á söfnum í Evrópu og Ameríku. Þeir eru munsturprjónaðir úr silki í tveimur litum eða silki og gull- eða silfurþræði. Stundum eru brugðnar lykkjur notaðar til að stykkið líkist damask-vefnaði (brókaði-vefnaði) en einnig til að draga enn frekar fram útprjónaða munstrið. (Til eru margar silkiprjónaðir treyjur með eingöngu einlitu útprjóni, svokölluðu damaskprjóni, en þær eru ekki til umræðu í þessari færslu. Stundum var saumað út í damaskprjónuðu treyjurnar.)

Mynstrin eru yfirleitt blómamynstur einhvers konar. Þau eru eftirlíkingar af munstrum ofinna silkidúka/silkiklæðis frá sama tíma, þ.e. á sautjándu öld. Silkiþráðurinn sem prjónað var úr var afar fíngerður og prjónarnir hljóta að hafa líkst nútímatítuprjónum að gildleika.

Silkitreyjurnar skrautlegu eru ekki prjónaðar í hring heldur saumaðir saman úr ferhyrndum stykkjum, sem hefur gefið þeirri hugmynd undir fótinn að efniviðurinn (stykkin) hafi verið prjónaður í prjónavél. En engar traustar heimildir eru fyrir því að prjónavélar (knitting frames) sem gátu prjónað brugðnar lykkjur hafi verið uppfundnar þegar þessir jakkar voru prjónaðir. (Krækja í stóra mynd af rauðu silkitreyjunni er neðar í færslunni.)

Sænskar heimildir nefna að árið 1685 hafi verið fluttir inn 436 prjónaðir silkijakkar, ýmist útsaumaðir eða ekki, þá væntanlega ýmist damaskprjónaðir eingöngu eða útprjónaðar með mislitu garni. Í dönskum vörulistum frá 17. öld eru taldar upp „nátttreyjur“ (orðið var notað um svona jakka, auk þess sem það merkti einlita damaskprjónaða jakka úr silki eða ull) úr silki, sumar „baldyrede“, þ.e.a. útsaumaðar með gull- eða silfurþræði. Má sem dæmi nefna skrá yfir lager kaupmannsins Eriks Jørgensen í Odense árið 1644:
 

6 stykker silche Nattrøyer med sølff och guld bardyret a 14 rdl.
6 stykker dito med flos a 19 rdl.
3 stykker store Mands Nattrøyer a 23 rdl.
1 Grøn silche Nattrøye med sølff och guld uflosset … 33 rdl.
( Østergaard, Else. 1984)

Þegar Leonora Christina var handtekin í London og færð í Bláturn (fangelsi) í Kaupmannahöfn, árið 1663, var hún klædd í silkiprjónaða „nátttreyju”. Eigur hennar voru teknar en seinna fékk hún til baka „tvende Nattrøjer, en silkebunden og den anden af hvidnuppet Tøj …“ Sagt var að Leonora Christina klæddist samkvæmt franskri tísku og má af þessari heimild ráða að silkiprjónaðar treyjur hafi enn verið hátíska seint á 17. öld, raunar voru svona treyjur/jakkar áfram notaðar talsvert fram á 18. öld. Yfirleitt er talið að Danir hafi flutt inn silkitreyjur/silkijakka, jafn damaskprjónaða sem útprjónaða í lit, frá Englandi, jafnvel Skotlandi. Enskumælandi höfundar kalla svona treyjur oft ítalska eða flórentínska jakka. Sjálfsagt eru þessar skrautlegu treyjur ekki upprunnar af einni rót heldur prjónaðir hér og þar í Evrópu þar sem listprjón hafði náð hæstu hæðum. Um þetta er raunar ekkert vitað með vissu.

Talið er að útprjónuðu silkitreyjurnar hafi tilheyrt óformlegum klæðnaði aðalsmanna (af báðum kynjum) og þess vegna sjáist þeirra engin merki á 17. og 18. aldar málverkum; fólk stillti sér nefnilega upp í sparifötunum. Margt bendir og til þess að treyjurnar hafi verið bornar innan undir jökkum eða upphlut.
 
 

Munstur á silkijakka frá 17. öldPrjónaður silkijakki frá 17. öldÍ safni Viktoríu og Alberts í London eru nokkrir svona jakkar (treyjur), allir fremur litlir (brjóstvídd er yfirleitt um 73 cm, síddin er um 55 cm). Jakkinn sem sést hér er 57 cm langur, prjónaður úr grænum silkiþræði og gullþræði (gullhúðuðum silkiþræði). Prjónafesta er 6 lykkjur á sentimetra. Neðst á bol og ermar er prjónaður borði með einföldu einlitu munstri með brugðnum lykkjum. Líklega var meiningin að líkja eftir damaskvefnaði. Jakkinn er saumaður saman og skotið inn geirum á hliðum neðst til að auka víddina. Talið er að geirarnir, sem eru ekki prjónaðir, séu síðari tíma viðbót til að tolla í tískunni. Jakkann má skoða vel á síðu The Victoria and Albert Museum.  Til hægri er teikning af munstrinu ef einhvern skyldi langa til að prjóna sér svona jakka 🙂  Sé smellt á munstrið opnast pdf-skjal.
 
 

Fleiri dæmi um prjónaða silkijakka/silkitreyjur (litlu myndirnar krækja í stórar myndir og upplýsingar um jakkana á Vefnum):
 
 

Silkitreyja frá 17. öld Silkijakki í Listasafninu í Cleveland, Ohio, Bandaríkjunum.
Náttreyja frá 17. öld Útsaumaður silkiprjónaður jakki á Þjóðminjasafninu í Osló.
Silkitreyja frá 17. öld Útprjónuð silkitreyja á Nordiska museet í Stokkhólmi.
 
 
Prjón á 17. öld Silkitreyja á V&A safninu í London.
17. aldar prjón Þessi rauða silkitreyja er geymd á Konunglega Ontario safninu í Kanada. 
Og hér er nærmynd af munstrinu
siklkijakkar á 17. öld Silkiprjónaður kvenjakki í Museo Stibbert, Flórens, Ítalíu.
Kvenjakki í Glasgow Museum, Skotlandi.
Enn einn prjónaði silkijakkinn á V&A safninu í London.

 Eldri en jakkarnir/treyjurnar sem fjallað hefur verið um er jakki sem eignaður hefur verið þýska greifanum Ottheinrich og talinn er með elstu prjónaflíkum sem varðveist hafa í Evrópu. Jakkinn er talinn ítalskur, frá miðri 16. öld, prjónaður úr silkigarni, og af lýsingu að dæma má ætla að brugðnar lykkjur myndi láréttar rendur. Þessi jakki er ákaflega víður sem rennir stoðum undir eigendasöguna því Ottheinrich var ákaflega digur ef marka má samtímamyndir. Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á mynd af jakkanum en hann er varðveittur í Heimatmuseum í Neuberg an der Donau í Bæjarlandi.

Ég reikna með að skrifa einhvern tíma framhaldsfærslur um damask-prjónuðu silkijakkana, sem einnig eru taldir frá sautjándu öld, damaskprjónaðar „nátttreyjur“ úr ullargarni, sem vinsælar urðu í Skandinavíu, og vonandi einnig færslu um silkijakkana sem tvö systkini Leonoru Christinu, þ.e. tvö börn Kirsten Munk og Christians IV Danakonungs, voru klædd þegar þau voru jarðsett laust fyrir 1630. 
 
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Rutt, Richard. A History of Hand Knitting. 1987. Colorado, Bandaríkjunum.

Harlow, Eva. The Art of Knitting. Garments for today from patterns of the past. 1977. William Collins Sons and Company Limited. Englandi.

Hoffmann, Marta. Of knitted “nightshirts” and detachable sleeves in Norway in the sevententh century. Opera Textilia Variorum Temporum. To honour Agnes Geijer on her ninetieth birthday 26th October 1988, s. 131-144. 1988. Statens Historiska Museum. Stockholm, Svíþjóð.

Østergaard, Else. Silkestrikkede trøjer og strømper fra begyndelsen af 1600-årene. Stickat och virkat i nordisk tradition, s. 42-45. 1984. Österbottens museum, Svíþjóð. 

Deborah Pulliam Knitted Silk and Silver: those mysterious jackets. Silk Roads, Other Roads: Textile Society of America 8th Biennial Symposium, Sept. 26–28, 2002, Smith College, Northampton, Massachusetts, Bandaríkjunum. Aðgengilegt á vef, sjá http://digitalcommons.unl.edu/tsaconf/541/
 

Tvöfalt prjón, frh.

Þessi færsla er framhald af hinni fyrri um tvöfalt prjón.
 
 

Að prjóna út letur með tvöföldu prjóni

Einfalda meginaðferðin, þ.e. að einbeita sér að sléttu lykkjunum í munstri og bakgrunnslit og passa alltaf að prjóna „brugðna tvíburann“ í andstæða litnum virkar ekki þegar prjóna á letur því þá birtist letrið speglað á „bakhliðinni“ og speglað letur er ólæsilegt. Það verður því að prjóna sitt hvort munstrið í einu.

Ég bý ævinlega til prjónamunstur í íslenska forritinu KnitBird. Þetta er ódýrt forrit, mjög einfalt að læra á það og nota það. Mæli sem sagt eindregið með þessu forriti! Í KnitBird er m.a. hægt að vista munstur sem pdf-skjal. Litla myndin hér að neðan sýnir uppskriftina að seinna nafninu á teppinu sem ég prjónaði (sjá mynd í fyrri færslu), þetta er nafnið Vala. Séð frá vinstri til hægri er Vala munstrað með bláu, séð frá hægri til vinstri er Vala munstrað með rauðu. (Litla myndin krækir í pdf-skjalið með þessu munstri.)

Letur � tvöföldu prjóni
 

Í munstrinu er önnur hliðin táknuð með hvítum (ólituðum) reitum og munsturlitur táknaður með bláum lit. Hin hliðin er táknuð með gulum reitum og munsturliturinn hafður rauður. Lesið er úr fyrstu línu munstursins einhvern veginn svona (miðað við að prjóna hliðina sem er táknuð með hvítum reitum, munstrið byrjar þá á fyrsta bláa reitnum, frá hægri til vinstri):

Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sem er reyndar sami litur og munsturliturinn á þessari hlið);
Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sami litur og munsturlitur á þessari hlið);
Slétt lykkja í aðallit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit;
Slétt lykkja í aðallit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit;
Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sem er munsturliturinn hinum megin á stykkinu);
o.s.fr.

Það þarf sem sagt að hugsa stíft um bæði litinn á hverri einustu sléttu lykkju og litinn á brugðnu lykkjunni við hlið hennar, lesa svo munstrið frá vinstri til hægri þegar prjónað til baka á hinni hliðinni. Ég þurfti að einbeita mér algerlega að þessu og gat ekki horft á sjónvarpið meðfram eins og ég geri venjulega þegar ég prjóna 🙂  Ef menn vilja prjóna mismunandi munstur á hvorri hlið þarf væntanlega að búa til uppskrift á svipaðan hátt og hér er sýnt, þ.e.a.s. að raða munstrunum saman í eitt.
 

Að prjóna tvöfalt prjón í hring

Það er í rauninni einfaldara en að prjóna flatt stykki því þá snýr sami aðallitur alltaf að manni. Aðalatriðið er að muna að hver slétt lykkja á sér brugðna tvíburalykkju í andstæðum lit. Ég gerði tilraun til að prjóna húfu með tvöföldu prjóni, misreiknaði að vísu stærðina svo þessi húfa passar á kött en að öðru leyti tókst tilraunin vel. Hún sést hér að neðan (ath. að ég prjóna brugðnu lykkjuna með austrænu snúnu prjóni svo áferðin á ljósbláu hliðinni er dálítið öðru vísi, ég snéri dökkbláu hliðinni að mér meðan ég var að prjóna húfuna).

Húfa með tvöföldu prjóni

Aðalatriðið í þessu húfuprjóni var að læra úrtöku í tvöföldu prjóni. (Úrtakan á prufuhúfunni er of laust prjónuð, ég laga það í næstu tilraun.) Til að taka úr þarf að raða saman tveimur sléttum lykkjum og tveimur brugðnum og pjóna saman. Handhægast er að hafa aukaprjón við verkið. Hér má sjá góða útskýringu á þessu í myndum.

Sjálf er ég ekki komin lengra en þetta í listinni að prjóna tvöfalt prjón og lýk færslunni á að krækja í efni á Vefnum sem mér finnst þess virði að skoða. Ég kræki ekki í YouTube myndbönd en bendi fólki á að fara á YouTube og leita með leitarorðinu Double knitting.
 

  • Nancy Kremer: Free Knitting Patterns – Heart Double Knit Hot Pad. Þetta er síða með einföldu munstri að tvöfalt prjónuðum pottaleppum. Á síðunni er vísað í myndband þar sem er sýnt hvernig þeir eru prjónaðir, mjög gott myndband að mínu mati þótt prjónaaðferðin sér ensk.
  • Stitch Diva Studios er með heilmikið kennsluefni með ljósmyndum um tvöfalt prjón (t.d. hvernig á að auka út, hvernig á að taka úr, hvernig á að prjóna „styttar umferðir“, þ.e. short rows, hvernig á að leiðrétta villu í munstri o.fl.). Ef litið er framhjá hvernig haldið er á garnendum (efnið er miðað við enska prjónaðaferð) er þetta mjög góð síða.
  • Vigdis Flowers er ljómandi fallegur trefill, uppskriftin er til sölu á Ravelry.

  • Apfelbluete er annar gullfallegur trefill, uppskriftin er til sölu á Ravelry.

  • Hér eru skemmtilegir tvöfaldir kisuvettlingar, Kittens Mittens, sem seld er uppskrift að á Ravelry.
  • En þessa ótrúlega fallegu vettlinga, Yuma Double Knitting Mittens, einnig til sölu á Ravelry, er líklega mun vandasamara að prjóna með tvöföldu prjóni.

 Svo er bara að vera dugleg(ur) að myndagúggla Double Knitting, jafnvel Extreme Double Knitting 🙂
 
 
 
 

Tvöfalt prjón

Bernateppi með tvöföldu prjóniÞað er fullt af kennsluefni um tvöfalt prjón á Vefnum en mér þótti sjálfri óþægilegt að í því er prjónað með „ensku prjóni“ sem er talsvert ólíkt þeirri aðferð sem flestir Íslendingar nota í prjóni. Svo ég ákvað að setja inn leiðbeiningar um tvöfalt prjón sem e.t.v. gætu hjálpað einhverjum til að læra þessa einföldu aðferð.

Frumraun mín í tvöföldu prjóni er þetta teppi sem sést hér til hliðar og ég gaf í skírnargjöf. (Sé smellt á myndina kemur upp stærri mynd.) Dæmin sem ég sýni hér að neðan eru prjónuð úr sama garni í sömu litum. Sé stykki prjónað með tvöföldu prjóni verður bæði framhlið og bakhlið sléttprjónuð og litir víxlast þannig að munstrið kemur speglað á annarri hliðinni. Það er einungis hægt að nota tvo liti. Munstrið má vera dreift (ólíkt hefðbundnu tvíbandaprjóni) því maður er alltaf með báða litina/báða garnþræðina á prjónunum. Þess vegna hentar tvöfalt prjón vel til að prjóna stóra, staka litaflekki.
 

Að fitja upp í tvöföldu prjóni

Á Vefnum eru ýmist gefnar leiðbeiningar um að fitja upp með báðum litunum eða bara öðrum. Mér fannst fallegra að hafa uppfitina í einum lit og fitjaði upp með bleikum. Af því maður fitjar upp lykkjurnar bæði á framhlið og bakhlið í einu þarf að fitja upp tvöfaldan fjölda lykkja (miðað við hvernig uppfit er venjulega hugsuð) og gera ráð fyrir tveimur kantlykkjum. Hér að neðan sést uppfit á stykki sem á að vera 20 lykkjur á framhlið (og 20 lykkjur á bakhlið): Fitjaðar eru upp 20 + 20 + 2 (kantlykkjur) = 42 lykkjur.

Fitja upp � tvöföldu prjóni
 

Byrjað að prjóna
 

Sjálfsagt er misjafnt hvernig menn vilja fara að í köntunum en mér þótt fallegast að taka fyrstu lykkju (fyrri kantlykkju) óprjónaða og prjóna síðustu lykkjuna (seinni kantlykkju) með báðum litum, þ.e. tvöfalda. Þá myndast nokkurs konar fléttukantur á jöðrunum.

Þess utan er bara prjónað hefðbundið tvöfalt prjón þannig:
Önnur hver lykkja slétt í öðrum hvorum litnum.
Hin hver lykkja brugðin í hinum litnum.

Ég byrjaði á bleiku hliðinni og:
– tók fyrstu lykkjuna óprjónaða;
– sléttprjónaði næstu lykkju bleika;
– prjónaði næstu lykkju hvíta brugðna;
– prjónaði næstu lykkju slétta bleika;
o.s.fr.
– prjónaði síðustu lykkjuna með hvorutveggja garninu (tvöföldu garni).

Hér sést bleika hliðin (að vísu eftir 2 umferðir):
 

Tvöfalt prjón

Svo er prjónað til baka á hvítu hliðinni þannig:

– fyrsta lykkjan (sú tvöfalda) tekin óprjónuð;
– hvít lykkja prjónuð slétt;
– bleik lykkja prjónuð brugðin;
– hvít lykkja prjónuð slétt;
o.sfr.
– endalykkjan prjónuð með báðum litum (tvöföld).

Þá lítur þetta svona út:

Tvöfalt prjón
 
 

Hvernig á að halda á garninu

Það vafðist fyrir mér að finna út hvernig ætti að bera sig við með litina tvo en mér fannst svo best að hafa garnið eins og þegar prjónað er tvíbanda. En aðalatriðið er að passa að aðalliturinn sé ofar á fingrinum, þ.e.a.s. sá litur sem er á sléttu lykkjum. Brugðnu lykkjurnar eru prjónaðar með neðra bandinu, þær sléttu með efra bandinu. Hér er skýringarmynd sem ég fann á Vefnum og aðlagaði að evrópskri prjónaaðferð (sem við Íslendingar notum):

Halda á garninu � tvöföldu prjóni
 

Hvernig á að prjóna munstur

Það er í rauninni ákaflega einfalt þegar maður hefur náð því að sléttu lykkjurnar eru þær sem birtast á viðkomandi hlið, þær brugðnu eru sléttu aðallykkjurnar á bakhliðinni/hinni hliðinni. Setjum svo að munstrið sé hjarta, sem hefst á einni lykkju í munsturlit, í næstu umferð eru þrjár lykkjur í munsturlit o.s.fr. Ef ég ætla að prjóna hvítt hjarta á bleiku framhliðina prjóna ég allar bleiku lykkjurnar sléttar og allar hvítu lykkjurnar brugðnar nema þar sem munstrið hefst: Þar víxla ég böndunum, hef hvíta litinn ofar á fingrinum og þann bleika neðar, prjóna eina slétta hvíta lykkju og eina brugðna bleika lykkju, víxla böndunum aftur í venjulegt horf og prjóna bleikar sléttar lykkjur og brugðnar hvítar lykkjur til enda.  Þegar ég sný stykkinu til að prjóna til baka eru hvítu lykkjurnar sléttar og þær bleiku brugðnar, nema ég sé auðvitað eina slétta bleika lykkju, sem er upphafið að munstrinu. Svo í þessari „hvítu [næstu] umferð“ prjóna ég þrisvar sinnum bleika slétta lykkju og hvíta brugðna þar sem munstrið er.

Mér fannst þægilegast að hugsa um lykkjurnar í pörum: Hvert par er slétt lykkja í „aðallit“ og tvíburi hennar brugðin í „aukalit“. Til að átta sig á munstrinu telur maður bara sléttu lykkjurnar en gleymir vitaskuld ekki að hver svoleiðis lykkja á sér brugðinn tvíbura í hinum litnum.

Hér er bleika hliðin eftir fimm umferðir:

Munstur � tvöföldu prjóni

Og hér sú hvíta:

Munstur � tvöföldu prjóni
 

Hvernig á að ganga frá endum?

Teppið sem ég prjónaði var 2×137 lykkjur + 2 kantlykkjur og varð u.þ.b. 150 cm langt. Svo dokkurnar kláruðust öðru hvoru og þurfti því að ganga frá endum. Á Vefnum er sumstaðar gefin sú ráðlegging að láta endana bara dingla lausa innan í stykkinu en ég gat ekki hugsað mér það; alin upp við að ganga alltaf frá endum!

Í rauninni er svona tvöfalt prjónað stykki eins og poki, a.m.k. þar sem litaflekkirnir eru stórir. Ég raðaði því saman svona 10-12 sléttum lykkjum á einn prjón, brugðnu tvíburalykkjunum á aukaprjón. Þá „opnaðist pokinn“ og mátti auðveldlega ganga frá endum á röngunni „ofan í pokanum“. Svo raðaði ég lykkjunum aftur rétt á prjóninn og hélt áfram að prjóna.

Á YouTube má finna myndband þar sem sýnt er hvernig má ganga frá endum „á réttunni“ án þess að það sjáist. Það er gott að kunna þá aðferð líka, t.d. til að ganga frá síðustu endunum ef prjónuð er húfa með tvöföldu prjóni.

Hér er framhaldsfærsla um hvernig maður getur prjónað sitt hvort munstrið, þ.e.a.s. ekki sama munstur á hvorri hlið, í tvöföldu prjóni, t.d. letur,  og hvernig úrtaka er þegar prjónað er svona tvöfalt. Í þeirri færslu kræki ég líka í það efni á Vefnum sem mér þykir skiljanlegast. (Ef menn vilja leita sjálfir þá heitir tvöfalt prjón Double Knitting á ensku.)
 
 
 
 

Er íslenski skautbúningurinn frá Normandí?

Prjónasaga getur leitt mann út um ótrúlegustu trissur. Í dag hef ég annars vegar lesið heilmikið um aftöku Karls I. Englandsskonungs og svo hins vegar reynt að glöggva mig á því af hverju íslenski skautbúningurinn virðist sniðinn eftir skautbúningum í Normandí. Ég vissi fyrir að fæst í íslenskum þjóðbúningum er sér-íslenskt; Ekki upphluturinn, ekki víravirkið, ekki baldýringin, ekki blómstursaumurinn/mislöngu sporin, ekki pilsið, ekki stakkurinn sem tilheyrir 19. aldar faldbúningi og líklega ekki peysan í peysufötunum heldur … kannski helst að skotthúfan sé séríslenskt fyrirbæri, þróuð úr norður-evrópskum karlmannshúfum fyrri tíma og endaði í skelfilega ópraktísku höfuðfati. Og ég vissi auðvitað að vinsæl útsaumsmunstur á 20. aldar faldbúningi og skautbúningi eru ekki íslensk, eitt það vinsælasta skreytir t.d. flest grísk hótelhandlæði. En ég hélt í alvörunni að Siggi séní hefði hannað faldinn upp úr sér og mætti þá kalla hann íslenskan.

Ástæðan fyrir því að ég fór að athuga þetta var að í ferðabók sem ég var að glugga í lýsir ensk ferðakona búningi íslenskrar stúlku um 1890 svona:
 
 

The dress consisted of a thickly-pleated black silk skirt, very full and somewhat short, embroidered round the bottom with a deep band of gold thread; a black bodice, also similarly embroidered with gold down the front and round the collar; a handsome necklet and girdle of silver gilt, and a high head-dress of white muslin, in appearance resembling a Normandy cap. This, she told us, she always wore on Sundays and great occasions, dressing like an Englishwoman on week days.
(Tweedy, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. Önnur útgáfa 1894, aðgengileg á Gutenberg.org.)

Bóndakona � Normand�Svo ég fór að skoða þetta mál, þ.e.a.s. pæla í því af hverju þessi hái höfuðbúnaður minnti ensku konuna á húfur í Normandí. Komst svo að því að faldur og skaut minna ekki bara á höfuðbúnað í Normandí heldur er þetta hreint og beint kóperað frá Normandí. (Ljósmyndin er af bóndakonu í Normandí, sú ber fald og blæju. Ég veit ekki hvenær hún er tekin.)

Snúum okkur nú að upphafsmanninum: Sigurði málara.
 

Sigurður Guðmundsson (f. 1833, d. 1874) hannaði sem fyrr sagði íslenska skautbúninginn sem fegurðardrottningar landsins skarta ávallt á 17. júní, okkur alþýðunni til yndis og ánægjuauka.

Sigurður gerði grein fyrir hugmyndum sínum um nýjan íslenskan kvenbúning í greininni Um kvennbúninga á Íslandi að fornu og nýju, sem birtist í Nýjum félagsritum árið 1857. Þetta er kostuleg og skemmtileg grein sem ég hvet alla til að lesa. Sigurði gekk ætlunarverk sitt feikilega vel, þ.e. að fá að ráða því hverju íslenskar konur klæddust. Elsa E. Guðjónsson segir í bæklingnum Íslenskir þjóðbúningar kvenna nú á dögum, árs. 1999 og aðgengilegur á vef:

Féllu breytingartillögur þessar í góðan jarðveg; lét Sigurður enda ekki sitja við orðin tóm heldur hjálpaði konum um myndir, snið og munstur og sagði fyrir um hvernig búningurinn ætti að vera í öllum smáatriðum. Var fyrsti skautbúningurinn kominn í notkun í Reykjavík þegar síðla árs 1859, og hefur haldist síðan svo til óbreyttur.

Hafi menn áhuga á konunum sem gerðu drauma og fantasíur Sigurðar málara að veruleika bendi ég á síðuna Hagleiksfólk og hugsuðir, á vef Byggðasafns Skagfirðinga, en þar segir frá Sigurlaugu Gunnarsdóttur í Ási, mikilli hannyrðakonu, sem var ein af þeim konum.   

Í greininni í Nýjum félagsritum fer Sigurður um víðan völl yfir íslenskar fornsögur og fornkvæði og er ekki feiminn að draga víðtækar ályktanir um klæðaburð til forna af lýsingum í þeim. Svo kemur kafli þar sem hann hneykslast mjög á klæðnaði íslenskra kvenna einmitt nú (þ.e. árið 1856-57), segir m.a. um höfuðbúnað þeirra sem klæða sig upp á:
 

Fyrir hinn þjóðlega fald, sem Freyja sjálf bar, eptir því sem hin gömlu kvæði vor kenna oss, höfum vér fengið hatta, sem í sniði varla líkjast neinu, sem konur hafa borið fyr eða síðar; þeir líkjast mest hellisskúta, svo að konur, sem bera þá, líkjast mest steinuglum, eða kattuglum, sem hnipra sig inn í skúta til að forðast dagsljósið. (s. 37)

Svo víkur Sigurður að öðrum þjóðum og segir: „… hvergi veit eg að bændafólk sé að sækjast eptir útlendum búníngum, jafnmikið og víðast á Íslandi … Í flestum löndum lætr bændafólk sér nægja að bera sinn eigin þjóðbúníng.“ (s. 39)

Þegar hann snýr sér að því að ræða æskilegan fald við æskilegan nýjan búning kemur þetta:
 

Í Norðmandí, sem að mörgu er álitið kjarninn úr Frakklandi, sér maðr faldinn enn í dag, og hefir hann haldizt við síðan á dögum Göngu-Hrólfs; þessvegna mun það vera, að Frökkum, sem koma til Íslands, verður svo starsýnt á faldinn, því hann er einn hluti þeirra gamla þjóðbúníngs. (s. 41)

Faldur frá Normand�Eftir að hafa stungið upp á að núverandi faldi (gamla spaðafaldinum) verði breytt, því „þessi þunni leggr lítr ekki vel út frá hlið að sjá, og er líkastr öngli“, sagt að ekki ættu konur að hylja hárið með faldinum (enda hefðu þær Guðrún Ósvífursdóttir og Helga hin fagra ekki gert það) og lagt til að „gamli“ höfuðdúkurinn væri settur yfir faldinn, ítrekar hann tenginguna við Normandí: „Ég hef áðr sýnt yðr, að konur í Norðmandí láta sér þykja sóma að bera fald enn í dag, en þær þykja fríðastar og dugmestar af frakkneskum konum.“ (s. 52) Myndin er af normönnskum faldi, án blæju, á Listasafninu í Boston. Hún krækir í síðu safnsins með stærri mynd og upplýsingum um faldinn.

Íslenskar konur hlýddu því strax að klæðast sams konar faldi og þær fríðustu og dugmestu meðal franskra kvenna, konurnar í Normandí á Frakklandi. Hefur sjálfsagt ekki spillt ef þær íslensku hafa trúað því að þessi faldur væri frá dögum þess hrausta danska víkings Göngu-Hrólfs. Og þær hafa örugglega viljað allt til vinna svo þær líktust ekki lengur steinuglum og kattuglum …

Íslenski faldurinn og skautið er svona:

Íslenskur faldur undir skautiFaldurinn sjálfur, sem einnig er nefndur faldhúfa, er króklaga og fremur lágur. Hann er saumaður úr hvítu lérefti, en tilsniðin lengja úr pappa eða eirþynnu (faldpappi, faldeir) höfð innan í honum ofanverðum. Þá er hann troðinn út með ull eða öðru viðeigandi tróði og fóðraður utan með hvítu smálérefti eða atlasksilki (satíni). Yfir faldinum er blæja, faldblæja, úr hvítu netefni, stundum með hvítum ídregnum saumi og/eða brydd samlitri blúndu, en utan um faldinn neðanverðan er gyllt koffur úr silfri, hlekkjað saman úr stokkum með mismunandi skrautverki, eða gyllt spöng, oftast nær slétt, úr silfri eða látuni. Faldhnútur, breitt hvítt hnýti (slaufa) úr silkiborða er undir blæjunni að aftan til þess að hylja samskeytin á blæjunni og koffrinu eða spönginni.
(Elsa E. Guðjónsson. 1999. Íslenskir þjóðbúningar kvenna nú á dögum. Myndin sýnir þegar verið er að festa faldinn á höfuð stúlku.)

Í svari Æsu Sigurjónsdóttur við spurningunni Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum? á Vísindavefnum 19. des. 2012 telur hún ekki ólíklegt að Sigurður málari hafi haft frelsishúfuna frönsku (bonnet de la Liberté) að fyrirmynd faldsins í skautbúningnum. Þessi húfa var upphaflega hvít en síðar rauð, í frönsku stjórnarbyltingunni. Hún var raunar vinsæl í ýmsum stjórnarbyltingum, t.d. hömpuðu Ameríkanar svona húfum í sínu frelsisstríði og kölluðu Liberty Caps. Frelsishúfurnar eru líklega þekktast nútildags á Strumpunum. Rök Æsu eru að amerísk kvenréttindakona sem sá íslenska skautbúninginn á kvennaþingi í Búdapest árið 1913 sagði í blaðagrein: „The head dress is a small white satin “liberty cap” in a golden coronet … surrounded by a sort of bridal veil. Freedom, modesty and beauty, courage and intellect – there was a warm welcome to Iceland.“

Sjálfri sýnist mér einsýnt að Sigurður málari Guðmundsson hafi einfaldlega gert höfuðbúnað kvenna í Normandí á 19. öld að sínum og þar með að aðalstássinu í flottasta íslenska búningnum, hátíðabúningnum: Skautbúningnum! Það er því hlálegt að hugsa til alls þess regluverks sem íslenskar konur hafa sett í kringum þennan búning síðan Sigurði datt þetta í hug.
 

Hvað ætli konum í þjóðbúningaráðinu í Normandí finnist um íslenska skautbúninginn?

Íslenskur skautbúningur og skautbúningur � Normand�
 
 
 
 
 
 
 
 

Útsaumaðir og útprjónaðir vettlingar

Hvorki útsaumaðir né útprjónaðir vettlingar eru sérlega gömul hefð hér á Íslandi. Hér á eftir er gerð grein fyrir því helsta sem um þetta er vitað. 

Ísaumaðir rósavettlingar

Jónas Jónasson segir í Íslenskum þjóðháttum: „Kvenvettlingar voru einþumlaðir, og þeir fínustu svartir með allavega litaðri rós, prjónaðri inn í handarbakið (rósavettlingar)“ og „Almennt var að konur prjónuðu rósir út í vettlinga og íleppa. Voru það ýmis blómamyndir með ýmsum litum eða þá sex- eða áttablaða rósir með ýmsum útbrotum.“ Hann er að lýsa vettlingum á 19. öld en þarna skjöplast þeim góða Jónasi: Rósirnar á vettlingunum voru ekki útprjónaðar heldur ísaumaðar enda ekki heiglum hent að prjóna út marglitt munstur á handarbakið eitt en hafa allt hitt einlitt.

RósavettlingarRósavettlingar eru varðveittir á Þjóðminjasafninu, byggðasöfnum og í norrænum söfnum, nokkrir frá 19. öld en flestir frá því um og eftir aldamótin 1900. Með þeim elstu er par með ísaumuðu K  ThD A á annan vettlinginn, á hinn vettlinginn ártalið 1827. Þá átti Katrín Þórðardóttir í Fljótshlíð (merkingin þýðir Katrín Þórðardóttir á) en dóttir hennar bjó lengi í Vestmannaeyjum og vettlingarnir eru varðveittir á byggðasafninu þar. Munstrið er áttblaðarós á uppábrot um úlnlið, einhvers konar rósaútfærsla af áttblaðarós saumað í þumla og áttblaðarós á handarbökum. (Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)

Myndin að ofan er af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu í Stokkhólmi (hún krækir í vefsíðu með stærri mynd). Þetta eru nokkuð dæmigerðir rósavettlingar íslenskir, með áttblaðarós inni í skreyttum tígli og uppábrotið skreyta stílfærð hreindýr. Samskonar munstur má sjá á skagfirsku rósavettlingunum sem gerð hafa verið góð skil í sérstakri bók. (Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. 2003). Fleiri myndir af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu sænska eru hér og hér.  Auk áttblaðarósar í ýmsum myndum eru blómamyndir/blómapottsmyndir mjög vinsælar á rósavettlingum, sjá mynd af rósavettlingum á textílsafninu á Blönduósi (af síðu Hélène Magnússon, Prjónakerling). Seinna meir er farið að blanda saman útsaumi og útprjóni í sömu vettlingana, a.m.k. bendir lýsing á vettlingum sem Þjóðminjasafninu áskotnuðust 1910 til þess:

Rósavetlingar, belgvetlingar, að mestu hvítir, en í laska, totu og þumal eru prjónaðir bekkir og blóm með svörtum, grænum, rauðum og fjólubláum lit, ennfremur eru saumuð með fléttusaum blóm með ýmsum lit á handabökin.
(Matthías Þórðarson. 1911.)

Elsa E. Guðjónsson lýsir rósavettlingum í eigu Þjóðminjasafnsins svona:

Talsvert er til af íslenzkum vettlingum frá 19. öld í Þjóðminjasafni Íslands. Flestir eru þeir belgvettlingar, margir svartir með marglitaðri, fléttusaumaðri rós á handarbaki, þ.e. rósavettlingar. Nokkrir rósaðir fingravettlingar hafa einnig varðveitzt, m.a. þeir sem hér birtist mynd af (Þjms. 5029). Eru þeir hvítir með aðallega rauðum, en einnig svolitlum fjólubláum ísaumi.

(Elsa E. Guðjónson. 1962.)

Konur með útsaumaða vettlinga á 19. öldSaumað var út í vettlingana með „gamla krosssaumnum“, þ.e. fléttusaumi. Sem fyrr segir er ekki vitað hve gömul rósavettlingahefðin er en auk þess að vita af elstu vettlingunum (að talið er) sem ársettir eru 1827 má benda á heimildir eins og bút úr þessu málverki eftir Auguste Mayer (sem var í föruneyti Paul Gaimard 1836) af heimilisfólki utan við bæinn á Hnappavöllum. Litla myndin krækir í stærri mynd og er engum blöðum um það að fletta að konurnar á myndinni eru íklæddar rósavettlingum. Sömuleiðis má benda á klausu í Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar en sagan er talin skrifuð 1835-36. Þar segir um systurina góðu: „Það leið ekki á löngu fyrr en systir mín kom með samanbrotinn tínupoka og snjóhvíta rósavettlinga á höndunum [- – – ].“

Norðmenn virðast líka hafa saumað rósavettlinga sem eru keimlíkir hinum íslensku, ef marka má myndir á Digitalmuseum.no. Því miður eru engar upplýsingar um hversu gamlir þessir vettlingar eru en má giska á að þeir séu allir af Mæri eða úr Romsdal. Sjá dæmi hér, hér og hér.

Ef einhvern langar til að prjóna og sauma út rósavettlinga bendi ég á skemmtilegt viðtal með myndum, í Morgunblaðinu 6. desember 2005, við Helgu Þórðardóttur á Mælifellsá í Skagafirði, sem prjónar og hannar svona vettlinga, og uppskrift eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur á síðunni Prjónakerling. Loks má nefna uppteiknað mynstur Elsu E. Guðjónsson af rósavettlingi í eigu Þjóðminjasafnsins í Húsfreyjunni 2. tbl. 1962 og annað mynstur í bókinni Íslenskur útsaumur eftir Elsu (sjónablað XIX, s. 91). Og ef menn treysta sér ekki til að sauma munstur með fléttusaumi má benda á að annars konar spor ætti að vera í góðu lagi, a.m.k. saumuðu skagfirskar konur í vettlinga með lykkjuspori árið 1918. (Margrjet Símonardóttir. 1918.)
 

Útprjónaðir vettlingar/tvíbandaprjónaðir vettlingar

Afar lítið hefur varðveist af íslensku útprjóni fyrr en kemur fram á seinni hluta 19. aldar. Það sem hefur fundist eldra er ofurlítil pjatla sem talin er frá 18. öld, mögulega frá 17. öld, og ekki er vitað úr hvers konar flík hún er. Pjatlan fannst í fornleifauppgreftri í Reykholti í Borgarfirði. Að sögn Elsu E. Guðjónsson sést á þessari prjónlespjötlu „tvíbanda bekkur í tveimur, litum […] en ofan og neðan við bekkinn leifar af einlitum, gráleitum grunni með sléttu prjóni.“ Af svarthvítri mynd sem fylgir grein Elsu má ráða að munstrið sé einfaldir samtengdir tíglar, Elsa segir síðan að „reitamunstur sömu gerðar og er á bekknum má sjá í sjónabókarhandriti frá 17. öld í eigu Þjóðminjasafnsins.“ (Elsa. E. Guðjónsson. 1992.) En raunar þarf ekki uppteiknað mynstur til að prjóna svo einfalt munstur svo tengingin við sjónabókarhandritið er líklega tilviljun sem engu skiptir.

�slenskir útprjónaðir vettlingarÍ Íslenzkum þjóðháttum, sem ætla má að lýsi því sem tíðkaðist á 19. öld, segir: „Tvíbandssparivettlingar tilhaldsstúlkna [voru] oft svart- eða rauðtíglóttir, 3 lykkjur í tígli og 3 umferðir, svo breytt um.“ (Jónas Jónasson. 1961, nmgr. s. 17.) Í sama riti segir og: „Annars konar útprjón [en ísaumaðir rósavettlingar sem Jónas telur ranglega að hafi verið prjónaðir] mun ekki hafa tíðkazt, nema stundum voru prjónaðir tvíbandaðir vettlingar með tveimur litum og voru þeir þá annaðhvort röndóttir eða tíglóttir.“ Í Norræna safninu í Stokkhólmi eru varðveittir íslenskir tíglóttir vettlingar frá 19. öld, sjá mynd hér til hliðar (sem krækir í síðu með stærri mynd). Þeir eru tvíþumla og óvíst hvort átti þá karl eða kona (konur notuðu líka tvíþumla vettlinga). Mér sýnist tíglamunstrið á þessum vettlingum vera alveg nákvæmlega eins og á litlu pjötlunni sem fannst í Reykholti og er elsta dæmi um íslenskt útprjón (sjá hér að ofan).

LaufaviðarvettlingurFljótlega eftir aldamótin 1900 var orðið algengt á Vestfjörðum að prjóna vettlinga með litskrúðugum tvíbanda bekkjum. Svona vettlingar ganga núna undir nafninu vestfirskir laufaviðarvettlingar. Ekki er vitað hvenær þetta útprjón hófst og óvíst hvort rekja megi það lengra en til seinni hluta 19. aldar. Útprjónuðu bekkirnir eru með laufaviðarmunstri, eins og nafnið bendir til, fuglamunstri (dúfnastreng) o.fl. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.) Vestfirskir laufaviðarvettlingar voru prjónaðir á fína prjóna, líklega nr. 1 ½, úr fínu tvinnuðu bandi úr góðu þeli. (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.)

Á myndinni sést minn eigin laufaviðarvettlingur (litla myndin krækir í stærri mynd). Fitjaðar eru upp 80 lykkjur og aukið út í 84 lykkjur eftir að úlnlið sleppir. Vettlingarnir voru keyptir á handverksmarkaði í Hólmavík fyrir mörgum árum og satt best að segja held ég að þeir séu prjónaðir í vél (af því úlnliðsstykkið er prjónað fram og til baka og síðan saumað saman). Hafi einhver áhuga á að prjóna sér laufaviðarvettlinga bendi ég á grein, uppskrift og mynstur sem birtust í Vikunni 17. apríl 1980, Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Á vef Þjóðminjasafnsins má sjá stóra mynd af tvennum vettlingum, aðrir eru laufaviðarvettlingar, en hvorir tveggja eru nýir að sjá.
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Elsa E. Guðjóndsson. Rósavettlingar. Húsfreyjan. 1. apríl 1962, síða 25-27.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Veröld. 1985.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir.Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. Skagfirskir rósavettlingar. Gefin út af höfundi 2003.

HANDVERK | Skagfirskir vettlingar á handverkssýningu. Blómum prýddir rósavettlingar. Morgunblaðið 6. desember 2005. Hér er krækt í greinina á mbl.is.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands. 1973, s. 14-15.

Jónas Hallgrímsson. Grasaferð. Jónas Hallgrímsson. Ritsafn. Helgafell. Fjórða útgáfa 1971.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir. Ísafoldarprentsmiðja. Þriðja útgáfa 1961. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Margrjet Símonardóttir. Heimilisiðnaður. Iðnfjelag Viðvíkurhrepps í Skagafirði. Hlín. Ársrit Sambandsfjelags norðlenskra kvenna II, 1. tölublað 01.01.1918 [Ath. að tölublað og dagsetning hlýtur að vera rangt  því greinin er dagsett 10. ágúst 1918], bls. 26-28.

Matthías Þórðarson. Skýrsla um viðbót við Þjóðmenjasafnið árið 1910. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1911, bls. 70-98.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands1984, s. 10-13

Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Vikan 17.04. 1980, bls. 28-29. (Þetta er endurbirtur stór hluti greinar eftir Jóhönnu Kristjánsdóttur í Hugi og hönd 1973.)
 
 
 

Íslenskir prjónaðir vettlingar

 Svo skemmtilega vill til að elsta prjónles sem fundist hefur á Íslandi er einmitt vettlingur: 
 

Vettlingur frá Stóru BorgÁrið 1981 fannst sléttprjónaður einþumla belgvettlingur í uppgreftri að Stóru-Borg undir Austur-Eyjafjöllum. Hann er líklega frá fyrri hluta 16. aldar, og því elsta varðveitta íslenskt prjónles sem vitað er um. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.)

Sem sjá má á myndinni er vettlingurinn allur sléttprjónaður og ekkert stroff enda lærðu menn líklega ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sautjándu öld, e.t.v. ekki fyrr en í upphafi 18. aldar. Hann er prjónaður gróft úr mórauðu tvíþættu ullarbandi, 3 lykkjur á sentimetra á hæðina en 4-5 lykkjur á sentimetra á breiddina. Annar einþumla belgvettlingur hafði fundist í uppgreftri á Bergþórshvoli 1927. Sá er einnig úr mórauðu spunnu ullarbandi og enn grófprjónaðri en sá sem fannst á Stóru-Borg, 3,5 lykkjur á cm á hæðina en 2,5 lykkjur á cm á breiddina. Vettlingurinn frá Bergþórshvoli er talinn heldur yngri eða frá því um 1600. Við fornleifaupparannsóknir í Kaupmannahöfn hefur fundist tugur tvíþumla vettlinga sem taldir eru íslenskt innflutt prjónles frá 17. öld. Þeir eru allir sléttprjónaði en með mismunandi lögun og úrtökum og ekkert sérlega líkir vettlingunum frá Stóru-Borg og Bergþórshvoli. (Elsa E. Guðjónsson. 1992.)

Þótt minjar séu fátæklegar er vitað að Íslendingar byrjuðu snemma að prjóna vettlinga, sjálfsagt nánast um leið og þeir lærðu að prjóna (einhvern tíma seint á 16. öld). Sokkar og vettlingar urðu mikilvæg útflutningsvara. Árið 1624 voru flutt út rúmlega 72 þúsund pör af sokkum og rúmlega 12 þúsund pör af vettlingum, nokkrar sveiflur voru í þessum útflutningi milli ára en nefna má að á dögum Almenna verzlunarfélagsins (1764-1773) voru árlega flutt út rúmlega 185 þúsund pör af sokkum og tæplega 71 þúsund pör af vettlingum. (Jón Aðils. 1971.) Óskráðir eru allir þeir vettlingar og önnur plögg sem íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn fengu send og seldu sjálfir, plögg sem Íslendingar seldu ýmissa þjóða sjómönnum við landið, sem og í vöruskiptaverslun innanlands.

Allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu: Peysur, sokka, vettlinga, húfur o.fl. Jón Aðils nefnir að menn hafi lagt stund á þessa iðju af því ekkert annað var að gera á veturna og halda þurfti fólki hvort sem var, jafnt gamalmenni sem börn „sem eigi voru til annars hæf.“ (Jón Aðils. 1971.) Síðari tíma heimildir nefna að börn urðu eins og aðrir að skila ákveðnu prjónlesmagni eftir vikuna, venjulega tveimur sjóvettlingspörum þegar þau voru átta ára og síðan meiru eftir því sem þau eltust. Gamall húsgangur er til vitnis um þetta:
 

Fyrst þú ert komin á fjórða ár
fara áttu að vinna.
Það er að læra listir þrjár
lesa, prjóna og spinna.
 

(Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)
 

Prjónlesið (prjónasaumurinn) greindist í tvo flokka: Eingirnisles (Enkelbaandsgods) og tvígirnisles (Dobbelbaandgods). Eingirnislesið var lika kallað púlsles eða duggarales, það var unnið úr grófu ótvinnuðu bandi. Duggaralesið var miklu algengara og hlaut nafn sitt af því að það seldist mest til hollenskra duggara á vorin en var allur gangur á hvernig gekk að selja það í kaupstað til útflutnings. Tvígirnislesið, einnig nefnt smáles eða tvíbandales, þótti fínna og var unnið úr fínu tvinnuðu bandi. Í smálessendingum frá fyrri hluta 18. aldar er minnst á belgvettlinga, venjulega einþumla en stundum tvíþumla, fingravettlinga og fleira prjónles. Duggaralesið/eingirnislesið var þó miklu algengara. (Jón Aðils. 1971.)

VettlingatréSokkar og vettlingar voru þæfðir og notuð sérstök sokka- og vettlingatré til að móta plöggin í rétta stærð. Eitthvað af af sokkatrjám hefur varðveist hér á landi en engin vettlingatré. Myndin af vettlingatré hér til hliðar er af slíku verkfæri sem var til sölu á eBay fyrir skemmstu og sagt gamalt. Líklega hafa íslensku vettlingatrén litið einhvern veginn svoleiðis út. Vettlinga og sokka þæfðu menn yfirleitt í höndunum og skv. Niels Horrebow, sem rannsakaði lifnaðarháttu hér á landi á árunum 1749-51, var allt þæft í keytu (stæku hlandi) með miklu erfiði og á frumstæðan hátt. (Áslaug Sverrisdóttir. 2004.) Horrebow segir reyndar að Íslendingar hafi nýtt heitar lindir (hveravatn) til að þæfa enda bæði þófni hraðar og plöggin verði hvítari með því móti. Svo bætir hann við að menn þæfi stundum sokka og vettlinga með því að sitja á þeim og aka sér fram og aftur og til hliðar; þetta komist upp í vana og menn sitji því og aki sér í sætinu þótt ekkert sé prjónaplaggið undir þeim. (Horrebow, Niels. 1752.) Líklega hefur Horrebow eitthvað misskilið athæfið því vandséð er hvernig hægt er að þæfa plagg með rasskinnunum! Haft er eftir konu fæddri 1841 að tíðkast hafi að ganga þannig frá vestfirskum laufaviðarvettlingum: „Þegar vettlingarnir voru búnir, voru þeir lóaðir, þæfðir og sléttaðir með því að sitja á þeim, meðan þeir þornuðu úr þófinu.“ (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.) Kann að vera að þessi siður sé gamall og Niels Horrebow hafi séð eitthvað svipað rúmri öld áður en misskilið.

Ljóst er að prjónlesið íslenska var afar misjafnt að gæðum og var frá upphafi útflutnings talsvert kvartað undan slælegum vinnubrögðum í íslensku prjóni og reynt að setja reglur þar um. Einþumlaðir vettlingar áttu að vera hæfilega stórir, tvíþumla vettlingar (sjóvettlingar) fullstórir og vel rónir, skv. dómi um duggarasokka frá 1606. (Jón Aðils. 1972.) Sé prjónað laust á grófa prjóna má dylja það ágætlega þegar búið er að svellþæfa flíkina, eins ef prjónið er misfast. Á hinn bóginn slitnar svoleiðis prjónles miklu hraðar en fastprjónað. Líklega hafa Íslendingar ekki gætt þess að prjóna fast og jafnt og enn er verið að kvarta undan svoleiðis vinnubrögðum seint á nítjándu öld:
 
 

Það er annars eptirtektavert með tvær þessa síðast töldu vöru tegundir [þ.e. „smáband og fingravetlinga“] hvað þær hafa selst illa erlendis nú hin næstliðnu ár, og hefir kaupstjóri Gránufjelagsins fært oss heim sanninn um það, að þetta væri mest því að kenna hvað varan hefði verið illa og óvandlega unnin. Fyrir fleiri árum síðan seldust fingravetlingar og jafnvel smáband fyrir það verð að töluverð atvinna var við að vinna þessa tóvöru enda var það þá stundað af allmiklu kappi hjer á Norðurlandi, en það var meinið að ekki var jafnframt hugsað um að láta vöruna vaxa að gæðum sem vexti, heldur þvert á móti einungis hugsað um parafjöldann og hvortveggi þessar vörur voru þá ver unnar sem fleiri stunduðu það, og meira var hugsað um að spara efnið. Á þenna lítt-nýta tóskap komst svo óorð og fyrirlitning svo hann hætti að seljast, og hafa menn þannig haft það fyrir óvandvirknina, að missa, að minnst kosti í bráð þess atvinnu, sem að vísu engan veginn gat heitið arðmikil, en þó var skaði fyrir þá að missa, er ekkert annað gátu gjört sjer að atvinnu í hins stað.
(Þingeyingur. 1880.)

Prjónaðir sokkar seldust fyrir miklu hærra verð en vettlingar frá upphafi útflutnings. Sem dæmi má nefna að árið 1616 jafngiltu: 24 duggarasokkar = 72 pör vettlingar = 48 pör valdari vettlingar = 1 hundrað fiskar.  Árið 1684 jafngiltu þrjú vettlingapör einu sokkapari. (Þorkell Jóhannesson. 1943.) Samt kepptust menn við að prjóna vettlinga uns kaupmenn sögðu stopp:

Í byrjun 18 aldar fóru Íslendingar að vinna miklu meira af vetlingum en sokkum, hvernig sem á því hefur staðið, en kaupmenn voru harðóánægðir með það og fengu því ráðið, að Íslendingum var bannað að vinna meira af vetlingum en til fimtunga við sokkana, og hélzt það upp frá því.
(Jón Aðils. 1971.)

Í verðlagsskrá frá 1861 kemur vel fram að enn borgaði sig engan veginn að prjóna vettlinga til sölu, sokkar voru mun vænlegri: Fyrir sjóvettlinga fengust aðeins 8 skildingar en fyrir eingirnissokka (duggarasokka) fengust 29 1/2 skildingur, 45 skildingar fyrir tvíbandssokka. (Verðlagsskrár. 1861.)
 

Hvernig voru vettlingarnir?

Fyrir utan fátæklegar minjar sem fundist hafa, eins og vettlingana á Stóru-Borg og Bergþórshvoli sem minnst var á í upphafi, er næsta lítið vitað hvernig vettlingar hér á landi voru gegnum tíðina eða hvernig vettlinga Íslendingar seldu út. Vettlingar eru þannig flíkur að þeim var slitið upp til agna og leifar þeirra fátíðar. Þó má e.t.v sjá vísbendingar um vettlingatísku séu skoðuð gömul málverk.

Hjón � Tálknafirði um 1700Vettlingar á 17. og 18. öldÁ myndinni hér til hliðar sjást líklega heiðurshjónin Þórður Jónsson og Guðný Einarsdóttir, sem bjuggu í Stóra-Laugardal í Tálknafirði um og fyrir aldamótin 1700. Myndirnar skreyta tvo kirkjubekki sem nú eru á Þjóðminjasafni Íslands. Bæði eru þau spariklædd og Guðný húsfreyja heldur á mórauðum vettlingum „með háum svartbekkjóttum (flosuðum?) löskum í vinstri hendi.“ (Elsa E. Guðjónsson. 1994.) Smelltu á myndina til að sjá stóra mynd af vettlingum Guðnýjar.

Það er ómögulegt að sjá af máluðu myndinni hvort Guðný heldur á prjónuðum eða saumuðum vettlingum en í ljósi þess að í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn eru varðveittir prjónaðir fingravettlingar frá sautjándu og/eða átjándu öld sem eru mjög svipaðir þessum (sjá myndina til hægri sem krækir í myndasýningu með stórum myndum af dönsku vettlingunum) og að Gunnister-vettlingarnir skosku, frá því seint á 17. öld, eru einnig svipaðir í laginu má allt eins gera því skóna að Guðný húsfreyja í Tálknafirði hafi átt prjónaða vettlinga skv. tísku þeirra tíma. Hún hefur e.t.v. ekki haft lag á að prjóna sér fingravettlinga en hefur haldið háu uppslögunum/löskunum og kannski flosað (afbrigði af því að rýja) rendurnar efst til að gera vettlingana enn fínni.

Kona � reiðfötum 1772Tæpri öld síðar eru svona vettlingar eða hanskar með háum uppslögum enn í tísku á Íslandi ef marka má málverk John Cleveley yngri frá 1772 af íslenskri konu í reiðfötum. (Sé smellt á myndina til hægri kemur upp stærri mynd af hönskunum hennar.) Cleveley var í föruneyti Joseph Banks sem heimsótti Ísland þetta ár. Reiðkonan prúðbúna á myndinni er líklega klædd saumuðum vettlingum, með útsaumuðum eða baldýruðum uppslögum og myndarlegu kögri. Ég veit ekki hversu sennilegur þessi búningur er en hún er a.m.k. í hefðbundnum sauðskinnsskóm á myndinni.

Þótt Guðný Einarsdóttir í Stóra-Laugardal hafi þurft að láta sér prjónaða vettlinga nægja var ekki svo um háttsettar konur. Í skrá yfir þá muni sem Margrét Halldórsdóttir, dáin 21. júlí 1670, kona Brynjólfs biskups Sveinssonar, lét eftir sig eru m.a. taldir upp „fernir hanzkar, einir hvítir, einir baldýraðir, einir svart-baldýraðir og einir með gullvírsborðum.“ (Jón Aðils 1971, nmgr. s. 457.) Jón Aðils segir: „[- – -] hefur hún þó víst eigi verið neitt sérlega tildursöm eða skrautgjörn“ og víst er að Brynjólfur biskup gekk sjálfur ætíð í heimaunnum vaðmálsfötum til að setja alþýðunni gott fordæmi. (Æsa Sigurjónsdóttir. 2004.) Kannski hafa hanskar Margrétar biskupsfrúar líkst eitthvað hönskum prúðbúnu reiðkonunnar sem John Cleveley málaði öld eftir lát Margrétar.

 

Íslenskir tvíþumla vettlingar

�slenskur sjóvettlingurÁ byggðasöfnum hringinn í kringum landið má sjá tvíþumla sjóvettlinga frá því seint á nítjándu öld til byrjun tuttugustu aldar. Svoleiðis vettlinga má og sjá á söfnum erlendis og oftar en ekki eru þeir sagðir íslenskir en raunar bendir margt til að aðrar þjóðir sem seldu ríkulega af prjónlesi á svipuðum markaði og Íslendingar hafi prjónað eins vettlingar, t.a.m. eru tvíþumla vettlingar meðal þess sem Jótar prjónuðu til sölu. (McGregor, Sheila. 1984.) Á Jótlandi ríkti álíka barnaþrælkun í prjóni og hérlendis og allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu, þæfðu og seldu. Hér má sjá sænska tvíþumla vettlinga, líklega innan við aldar gamla, og hér norska tvíþumla sjóvettlinga en myndin til hægri er af íslenskum tvíþumla vettlingi á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn.

Tvíþumla sjóvettlingar voru, eins og annað íslenskt prjónles, þæfðir vandlega og þurrkaðir og mótaðir á vettlingatrjám „og voru smátré sett í þumlana“. (Jónas Jónasson. 1961.) Þeir höfðu þann kost að þegar annar þumallinn slitnaði, af róðri og volki, mátti snúa vettlingnum og brúka hinn þumalinn óslitinn. Leitt hefur verið getum að því að sjóvettlingar hafi einmitt átt að vera óþarflega langir, „fullstórir“, því þá mátti brjóta endann inn í lófann til hlýinda. (Tilvitnun í Fred Hocker, starfsmann Vasa safnsins í Stokkhólmi, á vefsíðunni Ready to wear (1640s style). Þegar fiskimenn í nyrstu héruðum Noregs (Nordland og Troms) gerðu sig klára á fiskveiðar í Lofoten prjónuðu konurnar á þá sjóvettlinga út bestu ullinni, laust spunninni og lítt tvinnaðri, á grófa prjóna. Sjóvettlingarnar voru hafðir þrefalt stærri en venjulegir vettlingar því þeir áttu að fá endanlega lögun við þæfingu, annað hvort í sóda- eða sápuvatni – í fiskisúpu á stöku stað. (Nielsen, Ann Møller. 1988.) Eins og fyrr var sagt áttu íslenskir sjóvettlingar að vera vel rónir. Niels Horrebow lýsti aðferðinni þannig: „Þeir sem róa út á sjó klæðast vettlingunum, dýfa þeim öðru hvoru í hafið og þæfa þá þannig um leið og þeir róa, milli handanna og áranna – og þurfa ekkert að hafa fyrir þessu annað en að róa.“ (Horrebow, Niels. 1752.)

 

Tv�þumla vettlingur 1772Tv�þumla vettlingur 1772Ef marka má fyrri tíðar myndverk voru hvunndagsvettlingar karla almennt tvíþumla, þurfti ekki sjómenn til. Til vinstri er bútur úr málverki John Cleveley yngri af húsi og umhverfi þess við jaðar Garðahrauns 1772. Á annarri teikningu gerðri í för Banks hingað til lands 1772 sést lítil stelpa í tvíþumla vettlingi. (Báðar myndirnar krækja í stærri útgáfur.)

Tvíþumla vettlingar hafa stundum komið erlendum ferðamönnum spánskt fyrir sjónir, t.d. þessari ensku frú sem ferðaðist um Ísland laust fyrir 1890:

Þessir vettlingar […] eru gerðir eins barnsvettlingar, með þumal beggja vegna; og ef lófi vettlingsins slitnar þegar karlmaðurinn rær eða stundar aðra erfiða vinnu, snýr hann honum einfaldlega og notar hinn þumalinn. Þessir vettlingar eru venjulega prjónaðir úr grárri ull, þumlarnir hafði hvítir, og úr fjarlægð líkjast þeir kanínuhaus með löngum eyrum. (Tweedie, Alec. 1894.) 
 

P.S. Þríþumla vettlingar tíðkuðust á miðöldum í Evrópu og eitthvað lengur. Saga þeirra er rakin hér og finna má fleiri myndir á þessari síðu með leiðbeiningum fyrir miðaldahlutverkaleiki eða á teikningu Breu frá 1535-30 á British Museum. Mér vitanlega eru engar heimildir um að svoleiðis vettlingar hafi verið notaðir á Íslandi.
 
 

Um útsaumaða og útprjónaða vettlinga verður fjallað í næstu færslu.
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Áslaug Sverrisdóttir. Tóskapur. Ullarvinna í bændasamfélaginu. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands. 2004, s.197-203.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elsa E. Guðjónsson. Kirkjubekkir frá Stóra-Laugardal. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjasafn Íslands og Hið íslenska bókmenntafélag. 1994, s. 144-145.

Horrebow, Niels. Tilforladelige Efterretninger om Island med et nyt Landkort og 2 Aars Meteorologiske Observationer. 1752, s. 333-4. Aðgengileg á Google books og krækt í hana þar.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd 1973, s. 14-15.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir, þriðja útgáfa 1961. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón.  Hugur og hönd 1984, s. 10-13.

McGregor, Sheila. The Complete Book of Traditional Scandinavian Knitting. B.T. Batsford Ltd., London. 1984.

Nielsen, Ann Møller. Alverdens strikning – historie og teknik. Forlaged Ariadne, Fredericia. 1988

Tweedie, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. London. 1894, önnur útgáfa. Bókin er aðgengileg á Gutenberg.org og er krækt í hana þar.

Verðlagsskrár. Íslendingur, 8. mars 1861, s. 182.

Þorkell Jóhannesson. Ullariðnaður. Iðnsaga Íslands, síðara bindi, s. 135-153. Ritstjóri Guðmundur Finnbogason. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. 1943.

Þingeyingur. Nokkur orð um vöruvöndun og vörumat. Norðanfari 16. júní 1880, s. 80
 
Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðnaður og tíska. Breytingar á fatnaði í ellefu aldir. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands, 2004, s. 236-245. Greinina má einnig finna á vef Þjóðminjasafns og er krækt í hana hér.
 
 

Hver er dýrlingur prjóns?

Þótt prjónaskapur sé með göfugustu iðju er vafamál hvort nokkur dýrlingur hefur alfarið á sinni könnu að veita himneska hjálp við lykkjufalli eða redda prjónlesi með kraftaverki, það er ekki einu sinni á hreinu hvern best er að ákalla í þessum efnum. Þetta kemur óneitanlega á óvart því flest handverk/handverksmenn eiga sér sinn eigin dýrling – af hverju ekki prjónakonur (af báðum kynjum)?

Nokkrir eru þeir þó heilögu mennirnir (af báðum kynjum) sem sérstaklega eru tengdir prjóni en því miður hafa þeir ýmislegt annað á sinni könnu sem þeir eru þekktari fyrir, sumt ansi langt frá prjóni.

Í ritinu Dictionnaire Universel de Commerce, útg. 1723, eftir Savary des Bruslons, segir af gildi (iðnaðarmannasamtökum) prjónara í París, Gildi heilags Fiacra, sem stofnað var 1527. Dýrlingur prjónaranna var heilagur Fiacra, líklega valinn vegna þess að hann var talinn skoskur konungssonur og Frakkarnir höfðu það fyrir satt að prjónakunnátta hefði borist frá Skotlandi. Önnur yngri heimild segir að heilagur Fiacra hafi verið orðinn dýrlingur franskra húfugerðarmanna meir en 150 árum áður en prjónagildið valdi hann sem sinn dýrling.

Heilagur Fiacra var írskur munkur á sjöundu öld, sem þvældist um og endaði í Frakklandi. Hann undi sér við dæmigerða helgimannaiðju í lifanda lífi: Baðst fyrir, fastaði, sinnti sjúkum, ræktaði garðinn sinn o.s.fr. Honum var meinilla við konur og kvenfólki var alfarið bannaður aðgangur að klaustrinu sem hann stofnaði.

Fiacra dýrlingur prjónsSem dýrlingur er heilagur Fiacra þekktastur fyrir að vera verndari garðyrkju og lækningarjurta. En jafnframt er hann dýrlingur þeirra sem þjást af kynsjúkdómum (þetta hlutverk er tengt andúð hans á konum); dýrlingur þeirra sem þjást af gyllinæð (sem var kölluð veiki heilags Fiacra á miðöldum) og svo er hann dýrlingur leigubílstjóra! Miðað við þessi hlutverk heilags Fiacra finnst mér ekki sérlega gæfulegt að fela honum einnegin guðlega umsjá með prjónaskap þótt franskir prjónarar í iðnaðarsamtökum hafi kosið svo endur fyrir löngu.

Á myndinni sést stytta af heilögum Fiacra sem aðaldýrlingi írskra garðyrkjumanna. Fiacra starir á akarn sem hann heldur á.
 

Austurkirkjan býður upp á meira aðlaðandi dýrling fyrir trúaðar prjónakonur en sú rómversk-kaþólska, heilaga Paraskevu. Paraskeva er líka kölluð Petka, hugsanlega vegna þess að slavneskar goðsagnir af heiðinni gyðju með því nafni (nafnið þýðir föstudagur og paraskevi er gríska orðið yfir föstudag) hafi blandast við helgisögur af Paraskevu. Heilög Paraskeva er svo kennd við ýmis slavnesk lönd eftir smekk enda vinsæll dýrlingur þar eystra.

Petka dýrlingur prjónakvennaParaskeva fæddist í nágrenni Konstantínópel í Tyrklandi einhvern tíma á 11. öld og var dóttir velstæðra landeigenda. En þegar hún var tíu ára gömul boðaði raust guðs henni að fylgja sér og afneita öðru. Svo Petka litla gaf fátækum öll sín föt og allt sitt dót og hélt til Konstantínópel, foreldrum hennar til mikillar armæðu. Petka flæktist um (enda leituðu foreldrarnir hennar ákaft), gekk í klaustur, heimsótti Jerúsalem og lifði fábrotnu trúarlífi. Engill birtist henni í draumi þegar hún var 25 ára gömul og sagði henni að snúa heim, sem hún og gerði en tveimur árum síðar lést hún. Helgum dómum hennar (gripum og líkamsleifum) var dreift á kirkjur í nágrenninu, seinna meir voru þær fluttar til Belgrad, svo til Konstantínópel en á endanum var þeim safnað saman í kirkju í Rúmeníu.

Kannski er það vegna þess að Paraskeva gaf fátækum klæði sín að hún er höfuðdýrlingur spunakvenna, saumakvenna, vefara og prjónakvenna.
 

Í grísk-orþódoxu kirkjunni er 14. október helgidagur Petku/Parachevu.  Á síðunni sem krækt er í kemur fram að þennan dag, í Búlgaríu, megi konur helst ekki lyfta litla fingri og stranglega er bannað að spinna eða prjóna. (Í sumum búlgörskum þorpum ríkir algert bann við að snerta á ull næstu tólf dagana á eftir.) Samkvæmt þjóðtrúnni birtist heilög Petka í snákslíki þeim konum sem vinna með ull á helgidegi hennar. 

Litlum sögum fer af áhuga grísk-kaþólskra á að dubba upp nýjan prjónadýrling, enda Petka svo sem ágæt til starfans, en rómversk-kaþólskar prjónakonur eru sumar ekki hrifnar af honum Fiacra og vilja fá almennilegan einkadýrling prjóns. Eru þar helst nefndar sem kandídatar heilög Gemma Galgani (d. 1903 og tekin í heilagra manna tölu árið 1940) og heilög Rafqa (d. 1914 og tekin í heilagra manna tölu árið 2001). Báðar voru iðnar prjónakonur í lifanda lífi.

Vér lúterstrúar eða jafnvel vantrúar prjónakonur getum látið okkur fátt um finnast og haldið áfram að passa okkar lykkjur sjálfar. En það væri samt óneitanlega gaman að ótvíræður dýrlingur prjóns væri til …