Af og til les ég um geðlækningar, einkum þunglyndislækningar. Þetta er ekki sérlega holl lesning því manni fallast ævinlega hendur yfir hve lækningaaðferðirnar líkjast kukli og þjóðsögum: Byggja á ósönnuðum tilgátum (sumum út í bláinn), rækilega hagræddum “rannsóknarniðurstöðum” og þegar jafnvel rökstuðning af þessu tagi þrýtur er gripið til þess að rökstyðja með “klínískri reynslu” geðlækna; gersamlega huglægu fyrirbæri og örugglega einstaklingsbundnu við hvern og einn lækni.
Það var áhugavert að lesa langloku um raflost/raflækningar í ritrýndu vísindariti, þar sem sett er fram sú tilgáta að raflost hafi sömu áhrif á heilann og alvarlegt áfall eða langvarandi streita. Langlokan er samin af fræðimönnum í geðheilbrigðisfræði og verður ekki merkt að þeir hafi neitt á móti raflostmeðferð, þeir eru að reyna að skýra hvað gerist þegar heilinn er stuðaður. Af hverju nokkrum heilvita manni dettur í hug að það að framkalla sömu áhrif í heilandum og við meiri háttar áfall geti verið “lækning” á einu eða neinu er ofar mínum skilningi.
Undanfarið hef ég fylgst með færsluflokki Steindórs J. Erlingssonar, A Journey into Madness and Back Again, á Mad in America. Hér er krækt í þriðja pistilinn en neðst í honum eru krækjur í fyrri tvo. Þetta eru vel skrifaðir pistlar þar sem Steindór rekur sögu sína í stuttu og hnitmiðuðu máli. Frásögnin er einlæg og hreinskilin. Mér finnst sérlega eftirtektarvert hve vel hann lýsir heilaþvotti þunglyndissjúklings, þ.e.a.s. hvernig sjúklingi er talin trú um að þunglyndið stafi af “efnaskiptaójafnvægi” í heila, þegar hann rekur sögu sína. Þessar skýringar á þunglyndi lifa enn góðu lífi í viðtölum þunglyndra við lækna (kannski einkum heimilislækna) þótt aldrei hafi tekist að færa nokkra stoð fyrir kenningunni um boðefnarugl í heila og raunar hafi fræðimenn í geðlækningum fyrir þónokkru afskrifað hana að mestu leyti. Kannski þykir þetta enn þægileg útskýring fyrir pöpulinn?
Mér fannst líka eftirtektarvert hvernig samtrygging geðlækningabatteríins lýsir sér: Í þessum þriðja pistli segir Steindór frá því þegar Genin okkar kom út, þar sem hann upplýsti m.a. um sölumennsku prófessors í geðlæknisfræðum á blóðprufum úr sjúklingum sínum, og skömmu síðar, þegar Steindór þurfti fárveikur að leggjast inn á geðdeild, hellti geðlæknir á þeirri deild sér yfir hann vegna umfjöllunarinnar í bókinni. Sá hefur væntanlega verið dyggur lærisveinn prófessorsins … Kannski tók ég sérstaklega eftir þessu atriði af því ég hef heyrt lýsingar á því hvernig geðsjúklingar eru látnir gjalda fyrir að fjalla um geðlækningar opinberlega, jafnvel þótt þeir hafi einungis verið að lýsa eigin reynslu. Mér finnst ólíklegt að svona gerðist þegar um aðrar stéttir en geðlækna er að ræða: Finnst einhverjum líklegt að psóríasis-sjúklingur sem hefur opinberlega lýst glímu sinni við psóríasis og misheppnuðum læknisaðferðum við þeim sjúkdómi fái þess vegna yfirhalningu starfandi húðsjúkadómalæknis á Landspítala næst þegar hann leggst þar inn?
Nú, ég keypti mér bókina Mad Science: Psychiatric Coercion, Diagnosis, and Drugs, sem hefur verið hrósað ótæpilega síðan hún kom út í vor. Einhverra hluta vegna næ ég ekki tengslum við umfjöllun hennar, finnst bókin leiðinleg og ekki vel skrifuð o.s.fr. Kannski er það vegna þess að ég er frekar lasin (af þunglyndi) þessar vikurnar, kannski hleyptu fyrirbærafræðilegar pælingar um hvernig hugsun okkar og viðhorf mótast af orðuðum hugtökum og hvernig orðin eru huglæg og merking þeirra breytingum háð o.s.fr. í mig einhverri mótþróaröskun, ég fékk mig nefnilega fullsadda af svona pælingum í lestri bókmenntafræði á sínum tíma. En ég ákvað að gefa bókinni annan séns einhvern tíma seinna þegar ég væri betur stemmd … ekki að efnið sé nýtt af nálinni, þ.e.a.s. umfjöllun um óforskammaða markaðssetningu lyfjafyrirtækja og þjónkun geðlæknisfræði við þau, þvingun geðsjúklinga af ýmsum toga, stórgallað sjúkdómsgreiningarkerfi o.s.fr., en þetta ku sett í nýtt samhengi í þessari bók.
Að lokum get ég ekki stillt mig um að benda á nýjar pælingar amrískra geðlækna í Psychiatric Times; Nei, þeir eru ekki að spá í líðan sjúklinga sinna sem undirgangast allra handa “lækningar”; Nei, þeir eru ekki að spá í hvernig rannsóknarniðurstöðunum sem þeir byggja sín fræði á hefur verið rækilega hagrætt og þær gylltar; Nei, þeir eru ekki að velta fyrir sér hvort boðefnaruglskenningin hafi nokkurn tíma átt sér nokkra stoð … Þeir eru að pæla í því hvort borgi sig ekki að vera fínna klæddur en sjúklingarnir! Þetta hefur verið tímamótagrein í Psychiatric Times því það er ekki oft sem maður sér jafn virka umræðu í því ágæta tímariti og þá sem fylgir í halanum við þessa grein 😉