Author Archives: Harpa

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlareru það sem á ensku kallast Social Media. Menn hafa reynt að afmarka hugtakið við ýmislegt en í rauninni má segja að Vefurinn eins og hann leggur sig sé samfélagsmiðill því núorðið er allra handa efni deilt og það rætt eða a.m.k. „líkað“. Útstöðvar þessarar tækni eru líka að renna saman í snjallsímum og spjaldtölvum (það verður örugglega fljótlega hægt að hringja úr spjöldum – sé það ekki hægt nú þegar – og samruninn verður fullkominn).

Ég byrjaði að nota internetið í janúar 1991. Það var fyrir daga Vefjarins og tengingin við alheimsnetið var í gegnum tölvuna Imbu (sálugu) á Kópaskeri. Það sem maður notaði einkum var tölvupóstur (Elm forritið í óvingjarnlegu Unix-umhverfi), leit í gagnabönkum, skrif á spjallborð sem kölluðust ráðstefnur og einstaka sinnum möguleikann „Talk“, sem var undanfari IRC-sins og í rauninni alveg nákvæmlega eins og Facebook-spjall nútímans. Frá því Vefurinn leit dagsins ljós hér á landi, svona 1994-1995, hef ég notað hann bæði til að leita mér upplýsinga og til að setja inn upplýsingar. Ég byrjaði að blogga í upphafi árs 2005 og hef gert það allar götur síðar. (Fyrsta tölvan á okkar heimili var keypt 1985 en ég geri hana ekki að umtalsefni hér.)

En ég kæri mig ekki um að vera sítengd. Þess vegna á ég ekki snjallsíma, ég nota raunar farsíma afar sjaldan. Og ég er enn nógu háð ritmáli (er svakalega fljót að pikka) til að kæra mig ekki um spjaldtölvu … er hins vegar dálítið veik fyrir krílum því núna loksins eru fartölvur orðnar raunverulega far- eitthvað, þ.e.a.s. nógu léttar til að drösla þeim með sér með léttum leik.

Í mínum augum er Vefurinn sambærilegur við sjónvarp, það borgar sig að velja og hafna og sýna hóf í notkun svoleiðis tækja. Vinsælt kvörtunarefni kennara nútildags er hve nemendur eru háðir farsímunum sínum. Ég er svo sem sammála því að það getur verið ótrúlega erfitt að fá unglinga til að missa sjónar af sínum snjallsímadýrgrip í klukkustund en held að þetta gildi alveg eins um marga þá sem teljast fullorðnir, a.m.k. er mér minnisstætt þegar sessunautur minn dró upp símann sinn og opnaði Facebook á HAM námskeiði síðsumars á liðnu ári … vitandi það að enginn sótti þetta námskeið nema af brýnni þörf og veigamiklum ástæðum. Ef menn geta gert tvo hluti vel í einu er ekkert því til fyrirstöðu að vera sítengdur, reynsla mín er hins vegar sú að fáir höndla slíkt, einna helst eru það flinkar prjónakonur.

Mér finnst notkun persónulegs tölvupósts vera heldur að minnka, a.m.k. breytast. Kunningjar og fjölskylda senda allt eins Facebook skilaboð og tölvupóst, Facebook-hópar koma að mörgu leyti í stað póstlista. Á hinn bóginn er líklega orðið algengara að menn sendi ýmis erindi sín í tölvupósti en hringi, svo ekki sé talað um yfirvofandi dauða sniglapósts. Eiginmaður minn er skólameistari og hann kveðst fá að meðaltali kringum 100 tölvupósta á dag, yfirleitt fljótsvöruð erindi og símtölum hefur fækkað að mun á móti. Hann telur að tölvupóstur sé skilvirkari og fljótlegri leið en símtöl eða viðtöl. Ég hugsa að þetta sé rétt hjá honum og tek reyndar eftir því að núorðið er það hending að kennari sé kallaður fram til að tala við nemanda í frímínútum … mestallan minn kennaraferil hefur glumið oft í kallkerfinu í hverjum frímínútum … og líklega er það vegna þess að nemendur eru óragir við að senda fyrirspurnir eða skilaboð inn á lokað kennsluumhverfi.

Blogg

Blogg eru orðin sjaldséðari eftir að Facebook varð til og eftir að netmiðlar tóku upp athugasemdakerfi (núorðið nýta þeir flestir Facebook sem athugasemdamöguleika). Stóra bloggsprengingin varð þegar mbl.is bauð upp á notendavænt bloggumhverfi. En bloggararnir þar, á blog.is, voru sjaldnast raunverulegir bloggarar heldur nýttu bloggumhverfið sem athugasemdakerfi. Ágætt dæmi um það er frétt á mbl.is frá 2007 sem gekk í endurnýjun lífdaga á Facebook fyrir skömmu: Við fréttina Elsta systkinið gáfaðast eru 32 blogg!  Það eimir enn eftir af þessari „moggabloggs-hefð“, þ.e. bloggum sem eru bara nokkrar línur og oftast er viðkomandi að tjá sig um einhverja frétt. Og það er áreiðanlega grundvöllur fyrir moggabloggshefðinni ennþá því meðal vinsælustu bloggara landins, skv. Blogggáttinni sem vel að merkja er ótraustur mælikvarði, eru Jónas Kristjánsson og Eiríkur Jónsson, fyrrum blaðamenn (blogg hins síðarnefnda er raunar flokkað sem vefrit á Blogggáttinni) en báðir blogga þeir örstutt og stundum oft á dag, Jónas er yfirleitt með eigin yfirlýsingar um eitthvað sem hefur ratað í fréttirnar þann daginn, Eiríkur birtir fremur myndir eða slúðursögur af ýmsu tagi. Enn einn mjög vinsæll bloggari sem bloggar jafnvel oft á dag er Egill Helgason sem alla jafna bloggar í styttri kantinum en umfjöllun hans er oftast mun bitastæðari en þessara tveggja sem ég nefndi. Og ég tek fram að þeir sem blogga á blog.is fylgja hreint ekki allir gömlu moggabloggs-hefðinni. Bloggsetrið skiptir ekki máli þótt veran á blog.is sé vissulega vísbending um gæði bloggs.

Sjálf reyni ég að blogga langar færslur. Annars vegar gefur það kost á að reifa efnið að einhverju leyti en ekki bara upphrópunum í æsifréttastíl. Hins vegar kemur svoleiðis háttalag ágætlega í veg fyrir að ákveðinn hópur lesenda þvælist mikið á mínu bloggi, þ.e.a.s. lesendur sem höndla ekki að lesa nema nokkrar línur af texta á skjá og byrja síðan að garga hástöfum byggt á þessari agnarögn sem þeir lásu. Ég vil gjarna vera laus við svoleiðis lesendur og þykir ágætt að þeir haldi sig við kommentakerfi óvandaðra netmiðla, sem þjóna slíkum lesendahópi ágætlega með örfréttum undir stríðsfyrirsögnum og reyna ævinlega að draga eitthvað krassandi fram í örfréttunum.

Það er erfitt að meta hvort blogg séu vinsæl eða ekki. Ein leiðin er að skoða Blogggáttina en það er mjög takmörkuð vitneskja sem fæst úr þeim lista. Á honum er líka fjöldi gamaldags moggabloggara. Heimsóknartölur á mitt blogg eru kringum hundrað þá daga sem ég blogga ekki (og því fer fjarri að ég bloggi daglega), undir eðlilegum kringumstæðum. Stór hluti þeirra heimsókna er gegnum Google. Tölurnar eru fljótar að hækka ef einhver vekur athygli á einhverri (oft eldri) bloggfærslunni, sem oft gerist, ég sé það gerast gegnum önnur blogg, gegnum Facebook, einstaka sinnum gegnum netmiðla, gegnum spjallvefi o.s.fr. Sólarhringinn eftir að ég sendi inn bloggfærslu eru yfirleitt í kringum 200-250 heimsóknir á bloggið mitt. Fjalli færslan um einhver „heit“ málefni og sé deilt mikið á Facebook fara heimsóknir fljótt yfir þúsundið.

Dags daglega sé ég miklu hærri tölur á teljurum sumra gamaldags moggabloggara en í ljósi þess að nánast aldrei eru skrifaðar athugasemdir við svoleiðis blogg held ég að smellirnir á þau séu „óvart-smellir“ þeirra sem lesa viðkomandi frétt á mbl.is (sem tengir í bloggin um fréttina). Veit ég þó að athugasemdir segja æ minni sögu því talsvert af athugasemdum við mínar eigin færslur fæ ég gegnum Facebook, einstaka sinnum í tölvupósti.

Af mínu eigin bloggi að dæma virðist vera að því ómerkilegri sem færsla er því vinsælli mælt í hreinum teljaratölum, t.d. er Úrklippur Hildar Lilliendahl langvinsælasta færslan, með talsvert yfir 15.000 lesendur. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta í rauninni ekki færsla heldur skjámyndasafn. Satt best að segja er mér ekki kappsmál að margir lesi bloggið mitt. Mér finnst miklu meira virði að hafa fáa góða (t.d. í merkingunni fluglæsa og þokkalega klára) lesendur heldur en að búa við það að fá holskeflu af misvitrum athugasemdum inn á bloggið mitt – það er t.d. umtalsverð vinna að halda orðbragði svoleiðis hópa í skefjum.

Það er allur gangur á því hvort blogg sem ég les sjálf að staðaldri séu skráð á Blogggáttina. Skv. minni reynslu er þetta kynskipt: Ég les talsvert af bloggfærslum eftir konur sem einhverra hluta vegna kjósa að skrá ekki bloggin sín í RSS-veitu. Af þeim sem ég les eru þetta ýmist blogg um þunglyndi eða blogg um hannyrðir en ég hef svo sem enga yfirsýn yfir óskráð blogg almennt og man ekki eftir óskráðu bloggi eftir karlmann. Ég veit því miður ekki um neinn góðan mælikvarða til að meta vinsældir bloggs eftir að blogg og Facebook og Google og líklega Twitter runnu saman, líklega er sá mælikvarði ekki til.

Hannyrða-heimurinn

Það er kannski ekki úr vegi að nefna stóran og vinsælan en svo til ósýnilegan kima á Vefnum öðrum en þeim sem áhuga hafa sem er efni tengt hannyrðum. Sem dæmi má nefna Prjónabloggið, eitt margra prjónablogga á íslensku sem eru ekki skráð í Blogggáttina, en eigandi þess tilkynnti nýverið:

Ég hef verið með blogigð [svo] mitt í tæp 3 ár og þar sem heimsóknir á síðuna eru komnar yfir 200.000 á þaim [svo] tíma og fara yfir nokkur hundruð og jafnvel nokkur þúsund á dag, þá hef ég ákveðið að gera facebook síðu líka. Inn á þessa síðu kem ég til með að setja inn myndir af því sem ég er að gera ásamt því að láta ykkur, kæru lesendur vita þegar ég set inn nýjar færslur á bloggið mitt 🙂
 

Það er til talsvert af sambærilegum síðum á Facebook, áhugasömum er bent á að leita með leitarorðinu prjón eða knitting 🙂 Eðli Facebook sem samfélagsmiðils eru gerð skemmtileg skil í færslu Gísla Ásgeirssonar frá sl. nóvember, Kvittað, lækað og deilt.Gary Grant prjónar

Fyrir utan prjónablogg og uppskriftavefi (t.d. garnstudio.no) og prjónakennsluvefi (t.d. Wool and the Gang) og prjónavefi tengda garni eða tímaritum (t.d. Knitting Daily) og prjónafacebook og Google til að leita að svoleiðis er YouTube ótæmandi uppspretta hannyrðafræða. Kennslumyndbönd í ýmsum hannyrðum létta fólki eins og mér (sem á erfitt með að skilja uppskriftir, vegna meðfædds skorts á rýmisgreind) lífið ótrúlega mikið! Raunar er YouTube náma hvers kyns efnis: Tónlistar; hljóðs; myndbanda; kvikmynda; glærusýninga; fyrirlestra o.s.fr. og löngu orðið órjúfanlegur hluti annarra samskiptamiðla, fyrir utan að það að vera samskiptamiðill sjálft því á YouTube tjá notendur sig óspart um efnið og krækja í aðra umfjöllun.

Loks verður að nefna Pintrest, stafræna korktöflu þar sem festa má myndir sem tengjast áhugasviði hvers og eins. Pintrest er auðvitað draumur hverrar hannyrðakonu því maður gleymir ótrúlega fljótt fyrir hvað hvert bókamerki í vafranum stóð en sjái maður mynd af því sem var á síðunni sem alls ekki átti að lenda í glatkistunni er miklu auðveldara að passa upp á það sem átti að muna eftir. Ég skoða Pinterest síður þeirra sem hafa svipuð áhugamál og ég, endurfesti myndir af þeirra töflum, sé hvaðan þeir fengu myndirna, kíki á þær síður og Pinterest-töflur o.s.fr. … það er ótrúlega auðvelt að festast í Pinterest-skoðun og eyða í hana mörgum klukkustundum! Pinterest má nota um hvaða áhugamál sem er þótt ég hafi fellt þessa umfjöllun undir hannyrðir á netinu, ég er t.d. með Pinterest-töflu yfir myndir sem tengjast Snorra-Eddu sem ég get notað í kennslu (eða ekki notað). Pinterest-töflurnar mínar eru á http://pinterest.com/harpahreins/ ef einhver lesandi hefur ekki séð svona korktöflur. (Af því ég er nýbyrjuð að nota þetta á ég ekki margar korktöflur.) Ég sé fyrir mér að Pinterest muni skipta álíka máli og Google í framtíðinni í að veita heimsóknum inn á vefsíður og blogg.

Akkúrat núna: Ég á líf og I’m a Cow

Íslenska Eurovission lagiðÁgætt dæmi um hvernig samskiptamiðlar virka má sjá akkúrat núna: Komið hefur í ljós að íslenska Eurovission-lagið sem var kosið í gærkvöldi er nauðalíkt öðru lagi eftir kanadíska hljómsveit. Í athugasemdir við frétt netmiðla af þessari kosningu er alls staðar vakin athygli á þessu og krækt í myndbönd á YouTube. Á YouTube eru skrifaðar athugasemdir við tónlistarmyndbönd af I’m a Cow og vakin athygli á líkindum þess og íslenska Eurovision-lagsins Ég á líf. Strax í gærkvöldi bloggaði Gísli Ásgeirsson um þessi óheppilegu líkindi, “Ég á líf ” eða I Am Cow -Kom út í Kanada 2006 og aftur í dag, Búkolla og systur hennar í Kanada. (Gísli er einn af mínum uppáhaldsbloggurum sem skýrir af hverju ég vitna svona oft í hann í þessari færslu.) Á Facebook ganga nú grín-rím-statusar um texta og líkindi laganna, með krækjum í blogg Gísla og YouTube myndbönd og Láru Hönnu sem hefur sett saman lögin tvö á SoundCloud. Sjálf nota ég ekki Twitter en efast ekki um að mikið hefur verið tíst um akkúrat þetta. Laust eftir hádegi í dag fóru að berast fréttir af þessu á netmiðlum, t.d. Líkt en ekki stolið á ruv.is og  Er framlag Íslands í Eurovision stolið? á visir.is, og eflaust er þegar farið að deila þeim fréttum á Facebook og ræða þær, sem gæti orðið uppspretta einhverra blogga, sem gætu ratað í netmiðla, sem gætu síðarmeir orðið fóður í fræðilega grein um meint stolin Eurovision-lög, sem gæti orðið uppspretta frétta, sem gæti verið deilt á Facebook o.s.fr. Og yfir öllu þessu vakir sjálfur Google og gætir að það týnist ekki.

Í þessari færslu ætlaði ég að nefna algeng umfjöllunarefni blogga, fjalla um afstöðu eða afstöðuleysi ákveðinna stétta til samskiptamiðla, um gífurlegt gagn landsaðgangs að fræðigreinum o.fl. en þótt ég hafi þá stefnu að skrifa langar bloggfærslur sé ég að þessi má ekki lengri vera svo þetta verður að bíða betri tíma.
 
 
 

Ósjálfrátt

hefur sagan Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur verið mér ofarlega í hug frá því ég kláraði hana um síðustu helgi. Ég heillaðist gersamlega af þessari bók og horfði með angist á ólesnum síðunum fækka og fækka … þetta er ein þeirra bóka sem maður óskar sér að klárist aldrei.

   

Nú fylgist ég ekki mikið með umfjöllun um bækur, vil frekar lesa þær sjálf og mynda mér skoðun á þeim. En ég hef það á tilfinningunni að því hafi einkum verið hampað að Ósjálfrátt fjallaði um hvernig skáld verður til, hvernig bók eða rithöfundur fæðist. Vissulega fjallar hún um það en kannski mætti frekar segja að bókin fjallaði um gildi þess að skrifa, hvað það er sem gerir skrif eftirsóknarverð og frelsandi. Fólk sem venur sig á skriftir kannast mætavel við þetta, maður þarf ekki að vera skáld til þess, maður þarf ekki einu sinni lesanda því skrifin ein og sér gera öllum gott. Fáar konur hafa þó reynsluna af því að skrifa í sig barn eins og Eyja 🙂

Í Ósjálfrátt býr svo ótal margt. Það sem höfðaði fyrst og fremst til mín, fyrir utan aðalersónuna, var lýsingin á fjölskyldu Eyju og lýsingin á alkóhólisma; alkóhólistum og áhrifum  sjúkdómsins á alla þá sem lifa og hrærast kringum alkann. Oft á tíðum er lýst kaldranalegum aðstæðum og nöprum uppákomum en frásögnin litast ævinlega af hlýju og húmorinn er ekki langt undan. Það er undirstrikað rækilega að lífið er ekki svarthvítt, að ekki er hægt að skipta fólki í sökudólga og fórnarlömb, að hver er sinna gæfu smiður en er jafnframt háður því umhverfi sem hann hrærist í og erfðum.

Í mínum huga er Ósjálfrátt saga um konur. Hún er sagan af Eyju, systur hennar, móður hennar og ömmu, meira að segja langmæðgur koma við sögu, og sagan af konunum í kringum þær. Þessar konur hafa sína galla enda af holdi og blóði en kostirnir yfirskyggja gallana. Örlög og líf þessara kvenna fléttast í rúmi og tíma. Sífellt tímaflakk í bókinni kemur ekki að sök heldur virkaði fullkomlega eðlilegt, hvort sem um var að ræða endurlit eða kafla sem gerðist í framtíð aðalsögutímans.

Það hvarflaði reyndar að mér við lesturinn að einhverjir myndu hvorki skilja haus né sporð í þessari frásögn. Ég held að til þess að skilja Ósjálfrátt þurfi að hafa einhverja svipaða upplifun og þær sem bókin lýsir en það kann auðvitað að vera minn misskilningur.  Aðalatriðið er að ég get glaðst yfir að hafa fengið tækifæri til að lesa svona frábæra bók sem situr eftir í huga mér og fyllir mig hlýju. 
 
 

Smart markmið og leiðarstjörnur

Ég var að koma af löngum kennarafundi í öðrum landsfjórðungi. Fyrir hádegi hlýddum við á erindi þar sem m.a. var minnst á svokölluð SMART-markmið og eftir hádegi bárust ýmiss konar markmið og leiðir að þeim í tal á fagkennarafundi. Í vetur hef ég talsvert velt fyrir mér markmiðum, ekki sérstaklega markmiðum í kennslu heldur kannski frekar almennt. Þessi færsla fjallar um svoleiðis.

Í áramótaheitstrengingaumræðunni nýliðinni bárust SMART markmið oft í tal og þóttu æskilegust markmiða. SMART stendur fyrir: Skýr – Mælanleg – Alvöru – Raunhæf – Tímasett. Þetta er náttúrlega amrískt fyrirbæri, skv. Wikkunni sem allt veit var klisjan notuð fyrst 1981, og raunar stingur íslenska orðið Alvöru í stúf en sjálfsagt hefur mönnum ekki hugkvæmst skárra íslenskt orð sem byrjar á A (enska orðið er Attainable, þ.e. það sem er kleift að ná/uppfylla). Skv. SMART-fræðum er ekki vænlegt til árangurs að setja sér markmiðið „Ég ætla að léttast á árinu“ (svo ég vitni nú í þá tegund áramótaheita sem vinsælust er) heldur er æskilegra að markmiðið hljómi einhvern veginn svona:  „Ég ætla að léttast um 500 gr í janúar 2013 og 1 kíló í febrúar“ og svo eru settar fram leiðir til að ná þeim markmiðum, t.d. „Ég hætti að eta sælgæti nema á laugardögum og fer í salinn þrisvar í viku“ eða eitthvað svoleiðis.

Í HAM (hugrænni atferlismeðferð) er fólki einmitt kennt að setja sér SMART-markmið. Ég er hrifin af HAM-aðferðinni og fellst því fúslega á að SMART-markmið megi stundum nota. Þau eiga hins vegar alls ekki alltaf við og eru stundum til mikils trafala. Skýrasta dæmið um villigötur sem menn rata í reyni þeir að gera leiðarstjörnumarkmið (sjá neðar í færslunni) að SMART-markmiðum er svokölluð  „sporavinna“ AA félaga: Ég þekki engan sem hefur batnað hætis hót við að fylla út pappír og tala við sporasponsor daglega, raunar þekki ég ansi marga sem hafa kolfallið eftir svona „sporavinnu“, kannski af því þeir gættu ekki að því að sporin tólf eru aldrei fullstigin og verða ekki mæld í útfyllingum og símtölum.

Ég gæti alls ekki sett mér markmiðið „Ég ætla að verða 25% minna þunglynd í febrúarlok“, það sér hver maður! Ég gæti mér sett markmið eins og  „Ég ætla að fara út að labba í a.m.k. 30 mínútur að minnsta kosti fjórum sinnum í viku“ og mögulega myndi svoleiðis hreyfing gera mig minna þunglynda, mögulega skiptir hún engu máli (af reynslunni veit ég að hún skiptir engu máli til að koma í veg fyrir eða bæta svæsið þunglyndiskast en hún gerir dagana sem ég er minna veik heldur betri).

Nú hef ég ríslað mér við það í meir en ár að lesa yfir greinar og doktorsritgerð eftir eiginmanninn þar sem markmið og markmiðssetningu ber talsvert á góma. Í þeim er m.a. fjallað um markmið af því taginu sem minn ágæti eiginmaður kýs að kalla  „leiðarstjörnur“, þ.e.a.s. markmið sem stefnt er að en nást aldrei að fullu. 

Í dag barst í tal hverju við móðurmálarar viljum gjarna ná með lestri bókmennta. Það er kannski lýsandi fyrir fagið mitt að engum datt í hug að setja SMART-markmið um lesnar blaðsíður á mældum tíma! Nei, við vorum sammála um að tækist að gera nemendur mennskari, í merkingunni skilningsríkari og umburðarlyndari í garð annars fólks og sinn eigin, með lestri góðrar bókar væri þeim tíma afskaplega vel varið. Ég held að þetta sé bjartasta leiðarstjarnan sem við viljum að vísi okkur veginn í íslenskukennslu. En vitaskuld getum við aldrei höndlað hana og vegurinn til stjarnanna getur verið púl. Og það er svo sem ekki eins og við séum að finna upp kennslufræðihjólið, góðum kennara var í gömlu reyfurunum lýst þannig:  „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“

Ég strengdi engin áramótaheit fremur en venjulega. Þetta árið ætla ég að halda mig við sömu gömlu leiðarstjörnurnar og árin mörgu á undan, þ.e.a.s. að leitast við að ná betri stjórn á lífi mínu, að ná betri heilsu, að verða betri manneskja. Mér finnast svona spor á vegi sem leiðarstjörnur lýsa, lítil sem þau eru, mun gæfulegri en nýmóðins markaðsfræði-markmið þótt þau kunni að vera ósmartari.
 
 

Siðanefnd lækna og ábyrgðarmaður Læknablaðsins fundin sek – taka siðareglur til þessara aðila?

Í síðustu viku féll dómur í máli sem höfðað var gegn Læknafélagi Íslands (vegna siðanefndar félagsins) og ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Dómurinn birtist á netinu í dag. Færslan fjallar um þetta undarlega mál.

Málavextir

Málið hófst með deilum tveggja lækna sem sjúklingur blandaðist í með óbeinum hætti því hann sagði öðrum lækninum hvað hinn læknirinn hefði sagt um hann. Sá læknir kærði ummælin til siðanefndar Læknafélags Íslands (hér eftir skammstafað LÍ).

Siðanefnd LÍ birti úrskurð sinn í Læknablaðinu í september 2011 (hér er tengt í vefútgáfu Læknablaðins á Vefsafninu, afritið er frá því seint í október 2011 og hefur þá verið afmáður kóði og sjúkdómsheiti úr sjúkraskýrslu sjúklingsins sem birtur var upphaflega). Í umfjöllun og úrskurði siðanefndar LÍ voru birt bréf annars læknisins þar sem hann vitnar í sjúkraskýrslur sjúklingsins og dregur fram sjúkdómsgreiningu sem sjúklingnum sjálfum var ókunnugt um. Af umfjöllun siðanefndar sem birtist í Læknablaðinu má auðveldlega þekkja hver sjúklingurinn er enda bjó hann í litlu plássi úti á landi.

Úrskurður siðanefndar LÍ var að læknirinn sem sendi ívitnuð bréf hafi brotið siðareglur lækna með því að fara í sjúkraskrá sjúklings að nauðsynjalausu og miðla úr henni upplýsingum til siðanefndar.

Í næsta tölublaði Læknablaðsins birtist annar úrskurður siðanefndar LÍ þar sem segir að vegna klúðurs í vinnslu málsins hjá siðanefndinni sé fyrri úrskurður felldur úr gildi. Þar með eru deilur læknanna tveggja úr sögunni því siðanefnd ómerkti eigin úrskurð.

Sjúklingurinn sem blandaðist í málið kvartaði við Persónuvernd, Landlæknisembættið o.fl. aðila því birtar voru persónugreinarlegar klausur úr hans sjúkraskrá í Læknablaðinu. Persónuvernd úrskurðaði í málinu í janúar 2012 og gerði Læknablaðinu að eyða þessum úrskurði siðanefndar LÍ úr netútgáfu blaðsins. Það var gert og nú sér hans engin merki í 9. tbl. 97. árg. Læknablaðsins á vefsetri blaðsins (en auðvitað liggur vefútgáfa sama tölublaðs frá því í október 2011 áfram frammi á Vefsafninu). Þess er ekki gerið í vefútgáfu þessa tölublaðs á vefsetri Læknablaðsins að eytt hafi verið úr því.

Landlæknisembættið virðist einnig hafa fjallað um málið skv. málavöxtum sem lýst er í nýföllnum dómi, a.m.k. var lagt fram bréf frá embættinu í meðferð málsins.

Sjúklingurinn höfðaði mál gegn Læknafélagi Íslands (v. siðanefndar félagsins) og Engilbert Sigurðssyni, ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Sjúklingurinn vann það mál í síðustu viku.

   

Málsmeðferð

Málsvörn LÍ, vegna siðanefndar félagsins, og Engilberts Sigurðssonar snýr einkum að því hve stór skaði þessa sjúklings geti verið. Báðir aðilar játa rangan verknað, þ.e. að birting upplýsinga úr sjúkraskrá í Læknablaðinu hafi ekki verið rétt. Raunar kjósa báðir að kalla þetta „gáleysi“ en telja að „gáleysi þeirra geti aldrei talist meiriháttar eða verulegt“, síðan er þessi birting upplýsinga úr sjúkraskrá kölluð „hin slysalegu atvik”. Í bréfi siðanefndar LÍ til Persónuverndar var þetta í munni siðanefndar LÍ „þau leiðu mistök“ og siðanefnd LÍ staðhæfir að „Hefði hann sleppt því að stíga sjálfur fram hefði enginn vitað með vissu að hann er þessi sjúklingur sem um ræðir í þessu máli.“ Í vörn hinna stefndu í dómsmálinu er ítrekað að fórnarlambið sjálft sé sökudólgurinn í málinu: „Það virðast hafa verið hans fyrstu viðbrögð við fréttinni og ábendingunni um hana að tryggja að það yrði alþjóð kunnugt að hann væri sjúklingurinn í umræddri frétt.“ Að mati Persónuverndar voru þau rök ekki tæk. Héraðsdómur Reykjaness féllst heldur ekki á þau rök.

LÍ og Engilbert Sigurðsson gerðu auk þess þá athugasemd að lagagreinar þær sem þeir voru kærðir fyrir að brjóta snertu ekki málið:
 

Stefndu gera þá athugasemd við málatilbúnað stefnanda að hann vísi til fjölmargra lagaákvæða sem stefndu telja að eigi ekki við í máli þessu, eins og lög nr. 55/2009 um sjúkraskrár, lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, læknalög nr. 53/1988 og lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Gyðja réttlætisinsÞetta er að því leyti einkennileg vörn að Persónuvernd var búin að úrskurða (17. janúar 2012) að málið varðaði lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga og að á grundvelli þeirra laga hefði verið óheimilt að birta persónugreinanlegar upplýsingar um sjúkrasögu mannsins. Persónuvernd gaf siðanefnd LÍ stuttan frest til að eyða þessum upplýsingum úr vefútgáfu 9. tbl. 97. árg. Læknablaðsins og líklega hafa siðanefnd og ritstjóri blaðsins gripið til þess að eyða öllum umræddum úrskurði siðanefndar úr blaðinu í janúar 2012, a.m.k. er hann horfinn núna. Persónuvernd skar ekki úr um hvort málið snerti önnur lög því sá hluti átti að vera á könnu landlæknisembættisins og úrskurður þess er ekki opinber (eitthvert skjal frá landlæknisembættinu var lagt fram í réttarhöldunum en kemur ekki fram hvað í því stóð).

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að bæði sé litið til þessara laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem og 2. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár en þar segir að við færslu og varðveislu sjúkraskráa og aðgang að þeim skuli mannhelgi og sjálfsákvörðunarréttur sjúklinga virtur, þess gætt að sjúkraskrár hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og að sjúkraskrárupplýsingar eru trúnaðarmál:

Héraðsdómur Reykjaness féllst ekki á þann málatilbúnað stefndu um að þeir hafi einungis gerst sekir um minniháttar gáleysi heldur voru þeir fundnir sekir um „ólögmæta meingerð“. Í greinargerð með frumvarpi að skaðabótalögum nr. 50/1993 kemur fram að til að eitthvað teljist „ólögmæt meingerð“ þurfi að vera um saknæma háttsemi að ræða og gáleysi þarf að vera verulegt til að atvik teljist ólögmæt meingerð. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness er að þessi skilyrði séu uppfyllt og því eigi Læknafélag Íslands og Engilbert Sigurðsson að greiða manninum miskabætur.

Dómsorðið hljóðar svo:

    Stefndu, Læknafélag Íslands og Engilbert Sigurðsson, greiði stefnanda, Páli Sverrissyni, in solidum, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 [laga um vexti og verðtryggingu] frá 13. mars 2012 til greiðslu dags.
    Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 627.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
 
 

Ná siðareglur lækna yfir siðanefnd Læknafélags Íslands?

Þetta er ótrúlegt mál og furðulega að því staðið. Siðanefnd LÍ úrskurðaði á sínum tíma að læknirinn Magnús Kolbeinsson hefði brotið 13. grein Siðaregla lækna (Codex Ethicus) með því að fara í sjúkraskrá sjúklings að nauðsynjalausu, hirða þaðan upplýsingar og senda í bréfi til siðanefndar LÍ án leyfis sjúklingsins. En svo gerði siðanefnd LÍ hið sama og hún fann Magnús Kolbeinsson sekan um, þ.e. birti upplýsingar úr þessari sjúkraskrá þessa sjúklings í málgagni LÍ, Læknablaðinu, án leyfis sjúklingsins. Braut siðanefndin þá siðareglur lækna? Mun hún fjalla um eigið mál af sjálfsdáðum?

Formaður siðanefndar lækna frá því í nóvember 1990 hefur verið Allan Vagn Magnússon, lögfræðingur og dómstjóri Héraðsdóms Vesturlands. Hann er því væntanlega undanþeginn siðareglum lækna (Codex Ethicus) því hann er ekki læknir. Hinir tveir siðanefndarfulltrúarnir eru læknar. Ætla má að Allan Vagn sé vel að sér í lögum. Eigi að síður var siðanefnd LÍ undir hans forsæti (raunar Læknafélag Íslands því Læknafélagið ber ábyrgð á því sem siðanefnd félagsins gerir) dæmd fyrir ólögmæta meingerð og LÍ dæmt til að greiða skaðabætur.

Ná siðareglur lækna yfir ábyrgðarmann Læknablaðsins?

Dómsmálið sem hér hefur verið fjallað um var einnig höfðað gegn ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Það hlýtur að vera næsta ljóst að sá ritstjóri og ábyrgðarmaður les ekki yfir allt efni Læknablaðsins sem hann fær greitt fyrir að ritstýra og axla ábyrgð á. (Hinn möguleikinn er of fjarstæðukenndur, þ.e.a.s. að Engilbert Sigurðssyni prófessor í geðlæknisfræðum við læknadeild HÍ og yfirlækni á Landspítalanum þyki það engu máli skipta að birtar séu persónugreinanlegar endursagnir á sjúkraskrá sjúklings sem blandast inn í deilur tveggja lækna í Læknablaðinu sem hann ritstýrir.) Nú vaknar auðvitað einnig sú spurning hvort siðareglur lækna nái einnig yfir ritstjóra og ábyrgðarmann Læknablaðsins og hvort siðanefnd Læknafélags Íslands ætli að fjalla um það mál.
 

 Viðbrögð við dómsmálinu og dómnum hafa enn sem komið er verið lítil sem engin enda dróst í viku að birta dóminn eftir að hann féll. Ekki virðist hafa hvarflað að siðanefnd LÍ eða ábyrgðarmanni Læknablaðsins að segja af sér þegar þeir voru kærðir (málið var dómtekið 21. nóvember 2012, skaðabótakrafa stefnanda var sett fram 13. janúar 2012). Í frétt Vísis þann 21. janúar sl. er haft eftir Þorbirni Jónssyni formanni LÍ að Læknafélag Íslands hafi haft efasemdir um greiðslu miskabóta (sem liggur auðvitað í augum uppi því annars hefði félagið varla látið málið fara fyrir dómstóla).
 
 

Netbúrkur, hótanir, mannorðsmorð …

Mér hefur af og til runnið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég les athugasemdadálka við fréttir á netmiðlum, einkum dv.is og eyjan.is. Blessunarlega þaggaði úttekt áramótaskaupsins aðeins niður í verstu netböðlunum en bara í nokkra daga … svo tóku þeir á ný við að rótast eins og naut í flagi.

Fyrir tilviljun eða öllu heldur misskilning fékk ég lánaða glænýja rafbók sem heitir Skrivbordskrigarna, eftir sænska blaðamanninn Lisu Bjurwald (í því ágæta sænska rafbókasafni sem bókasafn Norræna hússins veitir aðgang að). Misskilningurinn var að ég hélt að bókin fjallaði um netsóða almennt en hún fjallar um öfgahópa á netinu, frá öfga-múslimum til nýnasista og öfgahægrimanna. En vissulega kemur Lisa Bjurwald inn á netsóðaskap almennt, fyrsti kaflinn heitir Nätets mörka sida. Í upphafi hans tínir Lisa til nokkur dæmi um óðgeðsleg nafnlaus komment sem hafa verið skrifuð um hana sjálfa og hið fyrsta stakk í augu því það hefði svo vel getað birst um Hildi Lilliendahl! Eins og allir vita hefur Hildur Lilliendahl Viggósdóttir orðið einna verst fyrir barðinu á úrhrökum netsins, sem eru því miður of mörg þótt þau séu fá. Þetta er fyrsta dæmið um komment í garð Lisu Bjurwald:

Skulle knappast tacka nej till at straffknulla den här korsade horan och lägga min ariska såd i munnen på henne.

(Af umræðuþræðinum “SKVALLER om journalisten Lisa Bjurwald?” á Flashback.org 7. júní 2011.)

Íslensk ógeðskomment í líkum dúr beinast yfirleitt gegn femínistum. En Lisa Bjurwald er ekki talskona femínista heldur hefur hún fjallað um nýnasisma í mörg ár, rasisma, pólitíska öfgahópa o.s.fr. Svo ég fór að velta fyrir mér hvort einföldum aumum körlum á netinu dytti ævinlega í hug þetta sama gamla til að ná sér niðri á konum sem þeir eru ósammála eða þeirra ættmennum, sumsé að fífla konuna. Í Íslendingasögunum eru fíflingar af sama meiði og víg, munurinn er sá að aumingjarnir sem þora ekki í manninn brúka það ráð að fífla frænku hans eða systur eða einhverja þá konu sem hetjan telur sig vandabundna. Fáum sögum fer af því hvernig þessum kvenkyns aukapersónum þótti að láta fífla sig en yfirleitt náðu aumingjarnir takmarki sínu, sem var að æsa upp hin sönnu karlmenni. Í þessu kommenti hér að ofan dettur þessum sænska netminnipokamanni það helst í hug að fífla hana Lísu. Er mögulegt að íslenskir netminnipokamenn hóti femínistum nauðgun af því þeir eru of miklir aumingjar til að beita öðru en aumingjahótun?

Nú, af algerum áhugaskorti á þeim banala fulltrúa lágkúrunnar Breivik og liði af hans tagi (bókin fjallar að stórum hluta um þetta) hraðrenndi ég í gegnum hina kaflana. En tók þó eftir talsverðri umfjöllun um fyrirbærið dold.se og fór að skoða það á netinu.

Í Svíþjóð virðist einkar blómlegur markaður fyrir þá þjónustu að fela netspor manna. A.m.k. benda ábendingar í færslunni Surfa anonymt: Här är bästa tjänsterna! á TkJ Sveriges största IT-blogg til þess, þar sem talin eru upp sjö fyrirtæki sem selja mönnum “órekjanleika” á netinu. Á vefsíðu dold.se segir: Vafraðu nafnlaust – það er fylst með þér! Og síðan:

Visste du at din internetoperatör lagrar varje länk du följer på internet, varje sökning du gör på Google (inklusive de ord du söker på!) och subjectraden i varje mail du skickar? Din IP-adress avslöjar vart du bor och vad du gör på nätet.

Hm … líklega er allt svona um mig skráð sjálfkrafa hjá Vodafone en hverjum er ekki sama? Og hver ætti sosum að kíkja á þetta? Svo fremi sem maður er ekki á kafi í glæpsamlegu athæfi held ég að þetta skipti frekar litlu máli (og á kafi í glæpsamlegu athæfi eru örugglega meir aðkallandi vandamál en möguleg skráning Gúguls-athæfis á IP-tölu). Eini maðurinn sem ég hef kynnst (og það einungis í netkynnum) sem hefur sýnt sérstakan áhuga á IP-tölum er Matthías Ásgeirsson vantrúarfélagi 😉

En Svíum þykir greinilega vænt um sitt anonymitet, annars þrifust ekki auðkenningarafskrúbbunarfyrirtækin. Haustið 2011 reyndi dagblaðið Dagens Nyheter að loka nafnlausum athugasemdavettvangi við sínar fréttir en neyddist til að bakka með þá ákvörðun. Akkúrat núna geta menn skrifað undir dulnefni en þurfa að vísu að skrá sig inn á svoleiðis dulnefnisvettvang svo blaðið getur væntanlega alltaf rakið hver stendur að baki hverri athugasemd. Auk þess er gefinn kostur á að skrifa athugasemdir gegnum Facebook.

Ég sleppi því að fjalla um sjóræningjabanka, gósenland barnaníðinga sem svona auðkenningarafskrúbbun færir þeim, áskorun dönsku löggunnar um að banna svoleiðis skrúbbun í Danmörku o.s.fr. Skrúbbunina hefur ekki borið á góma á Íslandi svo ég viti.

Hér uppi á því kalda Íslandi bera menn yfirleitt ekki netbúrkur. Yfirleitt ekki … en frá því eru of margar undantekningar. Í athugasemdamöguleikum við fréttir netmiðla er núorðið krafist að menn noti Facebook-aðgang sinn. Það kostar því það vesen og fyrirhöfn að falsa Facebook (og raunar þarf að byrja á að stofna netfang undir fölsku flaggi, því Facebook krefst virks netfangs) vilji menn íklæðast netbúrku. Ég er samt viss um að hver einasti sæmilega virkur notandi á Facebook kannast við feik-Feisbúkk-síður. Það er enginn vandi að verða svoleiðis netbúrka, stofna t.d. Facebook síðu undir nafninu Karlmenni að vestan og bauna síðan naugðunarhótunum og hótunum um limlestingar, illgjörnu slúðri, hvatningum til að kasta grjóti í heimili manna og rústa bílunum þeirra o.s.fr. á athugasemdadálka netmiðla. Þeir sem eiga að vakta athugasemdadálka Eyjunnar og DV eru líklega sofandi sauðir hefur mér sýnst.

Á mínu eigin bloggi er upp og ofan hvort fólk skrifar undir fullu nafni, fornafni eða dulnefni. Stundum er vel skiljanlegt að fólk noti ekki fullt nafn/nafn, t.d. í kommentum við færslur sem fjalla um persónulegan vanda eða sjúkdóma. Stundum skýrist þetta eingöngu af því að umfjöllunarefnið höfðar sérstaklega til netbúrkuhópa, t.d. færslur um Vantrú eða femínísta. Ég fullvissa netbúrkurnar um að ég nenni alls ekki að fletta upp IP-tölunum þeirra svo það er óþarfi að logga sig inn á eitthvert millistykki/þjón í útlöndum til að fela hana, bara vesen …

Nafnlaus blogg eru orðin svo fáséð hérlendis að það tekur því ekki að minnast á svoleiðis. 

Eftir stendur að vissulega er áhugavert að lesa um netósóma í Svíþjóð, öflugt starf öfgahópa á Norðurlöndum á netinu og fá nasasjón af þrá Svía til að vera órekjanlegir á internetinu. En miklu miklu merklegra er að sjá ósómann og ógeðið sem vellur upp úr dálitlum hópi Íslendinga (ég giska á sá hópur sé langt innan við hundraðið, við dyggan lestur fer maður að þekkja sömu nöfnin æ ofan í æ) á athugasemdadálkum netmiðla, undir fullu nafni og mynd af viðkomandi! Þetta eru líklega svo miklir aumingjar að þeir megna ekki einu sinni að íklæðast netbúrku …

  

Helvítis þunglyndið!

Milli jóla og nýárs fór þunglyndið að versna. Ég ól þá von í brjósti að eðlileg óregla spilaði þar inn í, þ.e. að ég var farin að sofna seint að nóttu og sofa fram að hádegi og hékk inni og slaufaði hollum labbitúrum o.þ.h. Í byrjun ársins tók ég upp meinta hollari lífshætti en það hafði ekki neitt að segja: Ég finn verulega fyrir þunglyndinu ennþá!

Fyrir utan einkenni sem ég þekki ágætlega af langri reynslu (fánýtistilfinningu, firringartilfinningu, jafnvægistruflunum, truflunum á tímaskyni, sorgar/sútartilfinningu eins og einhver mér nákominn hafi dáið o.s.fr.) sýnir eina ótvíræða geðlægðarmælitækið sem ég hef kynnst, sunnudagskrossgáta moggans, verulega niðursveiflu. Ég gat svona 30% af krossgátu sunnudagsins! Þessi krossgáta byggir töluvert á hugrenningatengslum og þegar ég er mikið veik af þunglyndi lamast hugarstarf æ meir. Ástandið gæti vissulega verið verra, ég man eftir köstum þar sem ég hef getað ráðið eitt eða ekkert orð, en það er svo sem engin huggun í því. Nú er kominn tími til að betrekkja heimilið með minnismiðum … út af athyglisbrestinum sem fylgir þunglyndisköstum.

Þetta er fyrsta þunglyndiskastið sem ég tekst á við ein og sjálf. Venjulega hef ég leitað til míns geðlæknis sem hefur ævinlega snarlega skaffað nýja(r) pillusort(ir) eða hrist í nýjan lyfjakokteil. Árangurinn af þeim tilraunum hefur verið enginn og raunar hafa þær langoftast gert ástandið verra en af því sá læknir hafði það fyrir reglu að taka lítið mark á aukaverkana- eða aðalverkanakvörtunum síns sjúklings ef hann hafði lesið einhverja grein einhvern tíma sem sýndi fram á árangur pillanna þýddi lítið að andæfa þeim lærðu meintu vísindalegu vestrænu geðlæknistilraunum. Þrátt fyrir þunglyndisþokuna sé ég í hendi mér að ég er miklu betur sett núna eftir að hafa áttað mig á hve skelfilega lítil þekking hefðbundinnar læknisfræði er á þunglyndi, eiginlega get ég ekki séð að henni hafi þokað neitt frá dögum Hippokratesar. Verandi lítt höll undir kukl sé ég engin ráð í þeirri deildinni. Líklega er skást að beita heilbrigðri skynsemi.

Sú heilbrigða skynsemi segir mér að með því að gera mitt best til að láta ekki þunglyndið yfirskyggja allt mitt daglega líf muni ég verða minna veik en ég hef orðið til þessa. Ef ég samþykki ekki að gegna hlutverki sjúklings hundraðprósent verð ég ekki hundraðprósent sjúklingur. Gildir einu þótt ég eigi alls konar pappíra upp á að ég sé hundraðprósent öryrki og það svartsýnasta læknisvottorð frá því í haust sem ég hef séð.

Svoleiðis að ég hjúpa mig afneitun og dúkka upp sem hundraðprósent-í-lagi kennari einu sinni á dag, píni mig út á meðal fólks á hverjum degi, hef mig á lappir á morgnana og fer í clean-and-sober-leikinn, set upp stundarskrá fyrir sjálfa mig með nokkrum atriðum sem mér þætti gaman að undir eðlilegum kringumstæðum, hugsa sem minnst um helvítis þunglyndið og hef á stefnskránni að gera en ekki hugsa um að gera. Þetta hefur virkað vel.

Ég hitti sálfræðinginn núna áðan og jós þessu yfir hann, finnandi mjög til þess hvað var erfitt að tala og orða hugsanir mínar og hafandi á tilfinningunni að ég liti fyllibyttulega út til augnanna. Það er eru mjög venjuleg og skýr þunglyndiseinkenni. Eins og venjulega var gott að tala við sálfræðinginn. Því oftar sem ég hitti þennan sálfræðing því betur verður mér ljóst að til þess að sinna þunglyndu fólki þarf innsæi, mannþekkingu og opinn hug. Ég hafði ekki hitt minn fyrrverandi geðlækni nema nokkrum sinnum þegar mér var orðið ljóst að hann hafði ekkert af þessu til að bera en ég hélt í meir en áratug að “vísindalega þekking” hans myndi vega það upp og verða mér haldreipi. Svo reyndist ekki og miðað við það sem ég hef lesið á síðasta ári er vísindaleg þekking geðlæknisfræða afskaplega óvísindaleg þegar grannt er skoðað, eiginlega miklu skyldari kukli en vísindum.

Fyrir utan helsi þunglyndisins gengur allt prýðilega í mínu lífi. Mér tekst ennþá að lesa (sem er mikil guðsgjöf) og ég kenni í kringum hádegið, á þeim tíma er ég yfirleitt nokk normal því mitt þunglyndi er verst seinnipartinn og á kvöldin. Undirbúningi og yfirferð má sinna á morgnana, mínum ógeðveikasta tíma. Það er gulls ígildi að sinna starfi sem ég veit að ég stend mig vel í og takmarkalaus hamingja að endurheimta eitthvert hlutverk í lífinu! (Aðalhlutverk eiginkonu/móður/miðaldra konu hefur aldrei hentað mér og mér finnst í rauninni kjánalegt að ætlast til að nokkur manneskja með fúlle femm sinni bara einhverju múmínmömmuhlutverki á okkar dögum;  baki pönsur eða kökur í sunnudagskaffi handa familíunni, eldi mat á hverjum degi, gott ef ekki riggi upp kvöldhressingu handa sínum manni og börnum … í alvörunni!) Kjálkaverkurinn sem hefur plagað mig mjög allar götur síðan í mars er að dofna talsvert, líklega af því hann var langvinn fráhvarfseinkenni af því að hætta á bensólyfi og z-svefnlyfi frekar en nokkurt gagn hafi verið af sjúkraþjálfuninni, sem ég sæki þó ennþá. Svefninn er enn talsvert í klessu en þeim fækkar hægt og bítandi nóttunum sem ég ligg lengi andvaka. Ég hef lært nokkrar nýjar hannyrðaaðferðir, hannað svolítið af stykkjum sem hafa lukkast vel, og leyft mér að húkkast á Pinterest sem magnar mynda-Gúguls-fíkn í annað veldi 😉 Og lent í dýrlegu rifrildi um kennsluaðferðir …

Sem sagt: Ég mun halda mínu striki svo lengi sem heilsan versnar ekki meir og draga minn djöful af list. Kosturinn er sá að ég get a.m.k. lýst Hel af mikilli innlifun í næstu viku.

Eru nýir kennsluhættir afturhvarf til miðalda?

Ég er byrjuð að kenna aftur eftir þriggja ára hlé. Þess vegna les ég af áhuga ýmislegt um kennslu, þ.á m. ýmislegt um hvernig upplýsingatækni (netið og tölvudót hvers konar) er talin kalla á einhvers konar gjörbyltingu í kennsluháttum, svo og um nýja menntastefnu sem Menntamálaráðuneytið samþykkti 2011, á að taka gildi að fullu árið 2015 en miðað við að vinnuveitandi framhaldsskólakennara, ríkið, er ekki tilbúið að greiða kennurum fyrir vinnuna við að koma þessari stefnu á koppinn er fjarskalega ólíkt að svo verði.

Hugmyndir um að upplýsingatækni valdi eða eigi að valda gjörbyltingu í kennsluháttum eru svo sem ekki nýjar af nálinni. Í hvert sinn sem ný tækni hefur orðið almenn hafa menn ýmist jesúsað sig eða dásamað tæknina og séð fyrir sér að hér með verði hefðbundið skólastarf (í skólastofu, með kennara sem kennir og bekk/námshópi sem lærir, í kennslustund) úr sögunni. Þetta gerðist t.d. þegar sjónvarp var fundið upp. Og þegar internetið varð til. Og þegar Vefurinn varð til. Og núna er dýrðin fólgin í spjaldtölvubrúki.

Upplýsingatækni nútímans felst fyrst og fremst í greiðum aðgangi að óhóflegu magni upplýsinga af hvers kyns toga, þar er drasl og gagnlegt efni í ósorteruðum haug. Þeir sem hafa séð upplýsingatækniljósið halda því fram að alltof mikil áhersla sé lögð á þekkingu, hún sé mikið til óþörf því nú geti nemendur fundið þekkingaratriði á Vefnum ef á þarf að halda. Í stað kennara sem beitir þeirri illu aðferð „ítroðslu“ kemur Google. Kennslan felst þá væntanlega í einhvers konar tæknikennslu, þ.e.a.s. að kenna nemendum að leita að þekkingunni og hvetja þá til að brúka þekkingarmolana sem þeir hirða upp til einhverra skynsamlegra verka. (Ágætt dæmi um þennan málflutning má sjá í bloggfærslu Ragnars Þórs Péturssonar, Tækni og tilgangur, frá 5. jan. sl. Ragnar hefur verið duglegur að blogga um dásemdir spjaldtölva og æskileg áhrif þeirra á skólastarf, sjá efnisflokkinn Maurildi um menntamál á blogginu hans. Hann er velskrifandi og skemmtilegur bloggari svo ég hvet kennara sem hafa áhuga á þessari hugmyndafræði til að lesa pistlana hans.)

Nú er ég byrjuð að kenna Snorra-Eddu, miðaldakennslubók sem skrifuð var á 13. öld til að kenna skáldum þann grunn sem þau þurftu til að geta hnýtt sæmilegar kenningar eða brúkað annað myndmál í sínum kvæðum. Sá hluti Snorra-Eddu sem kenndur er í framhaldsskólum er settur upp eins og tíðkaðist í kennslubókum miðalda, nefnilega þannig að „nemandinn“ spyr og „kennarinn“ svarar. Kennslufræði kennarans (Óðins í líki kennarateymis) samrýmist ekki alveg nútíma pólitískt réttri kennslufræði því hann gerir oft lítið úr nemandanum, hnýtir „eigi er fróðlega spurt“ eða öðrum þessháttar meldingum við svörin við þeim spurningum sem birta algera vanþekkingu eða heimsku, að mati kennarans. 

Í nútímanum hefur Google tekið við af Óðni. Nú geta nemendur spurt Google að hverju því sem þá lystir að vita hvenær sem er því nú eru allir sítengdir gegnum snjallsíma eða spjaldtölvu eða fartölvu eða jafnvel borðtölvu (ef þeir eru mjög gamaldags, eins og sú sem þetta ritar). Nú er alger óþarfi að festa sér neitt í minni því öllu má fletta upp á Vefnum. Eða þannig hljómar hið heilaga orð upplýsingatæknisinna …

En Gúgull er ekki síðra ólíkindatól en Óðinn! Hvernig í ósköpunum eiga nemendur að meta hvort upplýsingarnar sem þeir afla með hjálp Gúguls séu traustar eða ótraustar, bull eða rétt þekking?

Ég prófaði að setja mig í stellingar nemanda í ÍSL 212 sem hefur nútímalegan kennara (sem ekki vill verða mannlegur steingervingur og allt það …). Nemandinn hefur ekki þurft að tileinka sér agnar ögn af þekkingu á efni  Snorra-Eddu en er þess upplýstari um hvernig fólk hefur um aldir leitast við að búa til skipulag í heimsmynd sinni og gott ef kennarinn hefur ekki tínt til sambærilegar goðsagnir úr helstu trúarbrögðum heims í sinni kennslu, kennt í forbífarten smávegis í mannfræði, sálfræði og kynjafræði og sýnt skemmtileg vídeóbrot, frá Monty Python og uppúr. Nemandinn á í þykjustunni að skrifa stutta ritgerð um æsi en hann kann ekki að beygja orðið ás enda er það óþarfi því hann getur bara flett upp beygingunni. Nemandinn gúgglar „æðsti guðinn“. Gúgull skaffar honum fullt af upplýsingum, þær fyrstu eru:

Google � námi

Eftir að hafa eytt tíma í að skoða fyrstu skjáfylli af krækjum … gefum okkur til hægðarauka að fyrsta krækja í efni á forræði kennarans birtist ekki … rifjast upp fyrir nemanda að líklega heiti æðsti guðinn í námsefninu í þessum áfanga Óðinn. Svo hann gúgglar „Óðinn“.
 

Google � námi

Sjálfsagt finnur nemandinn á endanum þær upplýsingar sem hann er að leita að. Og raunverulegur nemandi mundi auðvitað gúggla allrafyrst „ritgerð um Snorra-Eddu“ 😉 En tíminn sem það tekur að finna upplýsingarnar á Vefnum er óhóflegur miðað við þann tíma sem það tæki að fletta upp sömu upplýsingum í Snorra-Eddu ef nemandinn hefði þá lágmarksþekkingu á efninu að vita svona nokkurn veginn hvar væri hægt að finna þær eða skrifa frá eigin brjósti byggt á þekkingu sem nemandinn hefði öðlast á efninu.

Í litlu verkefni sem ég lagði fyrir nemendur fyrir mörgum árum síðar kristallaðist takmörkun Vefjarins í þekkingaröflun og ofurtrú nemenda á sama miðli. Þetta var spurningalisti og fyrirmælin voru að leita á Vefnum og í kennslubókinni. Ein spurningin var: „Hvaða handrit Egils sögu liggur til grundvallar kennsluútgáfunni sem þið lesið?“ Enginn nemendanna gat svarað þessari spurningu en þeir fullvissuðu mig um að þeir hefðu reynt að gefa upp alls konar leitarorð og lagt mikla vinnu í leitina að svarinu, án árangurs. Engum nemendanna datt í hug að fletta formálanum að Egils sögu sem þeir þó lögðu við hliðina á tölvunum (þetta var í gamla daga svo nemendur unnu á borðtölvur, í sérstakri tölvustofu). Svarið er ekki mikilvægt í þekkingu á námsefninu en leitin að því slær eilítið á blinda trúna á að Google sé alvitur og almáttugur og að þeim verði ljóst að stundum er miklu fljótlegra að leita í kennslubók/bók.

Ég er ekki viss um að þessi miðaldaðferð, discipulus spyr magister, hafi nokkru sinni virkað sérlega vel í námi. Ég held það breyti litlu þótt Google sé núorðið í hlutverki magisters. Áðan hraðskrunaði ég yfir nýútkominn bækling Menntamálaráðuneytisins Læsi – Grunnþáttur menntunar á öllum skólastigum, á tölvutæku formi auðvitað og því fór lesturinn fram á hundavaði. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að enginn sem kom að ritun þessa bæklings hefur þá menntun til að kenna íslensku á framhaldsskólastigi sem krafist er nútildags eða reynslu af því starfi blasir við það vafamál að höfundur og ritnefnd hafi sérstakt vit á lestri, a.m.k. lestri fólks sem er eldra en fimmtán-sextán ára. Annar kafli bæklingins, Litbrigðin og læsið, hefst svona:

Kvöld nokkurt, þegar höfundur þessarar samantektar hafði lesið of stóran skammt af blaðaviðtölum og greinum um læsi, sá hann fyrir sér konu sem honum fannst vera persónugervingur læsisfræðanna, konu sem hægt væri að rekja úr garnirnar varðandi lestur og ritun. Um hvað spyrðu blaðamenn slíka konu, spurði höfundurinn sjálfan sig, ef þeir ættu viðtal við hana á alþjóðlegri læsisráðstefnu sem haldin væri í stóru húsi við Reykjavíkurhöfn, og hvernig myndi hún hugsanlega svara? Það er ekki gott að segja en það má hugsa um það fram og til baka.

Svo hefur upp ímyndað samtal þar sem höfundur bæklingsins, fjölmiðlafræðingurinn Stefán Jökulsson, ímyndar sér að hann sé blaðamaður og spyr kvenkyns persónugerving læsisfræðanna, kallaða Fræðikonu,  …  í anda miðaldarita!
 
 
 

Er þetta afturhvarf til miðalda, að þekking sé óþarfi því það megi spyrja Google að öllu, almennt samþykkt meðal framhaldsskólakennara?
 
 
 
 
 
 

Hugs

Ég hef dálítið verið að hugsa um hvernig maður hugsar, upp á síðkastið. Kveikjan að þessu hugsi um hugs var grein sem ég las eftir Keith Oatley sem fjallaði um hvernig ritun skáldverka kallaði á sérstaka tegund hugsunar og einnig um hvaða máli lestur skáldverka skipti fyrir hugsun manna. Svo er ég með fleiri greinar eftir sama mann ólesnar og vonast til að finna í þeim meira um hvernig fólk hugsar … er fjarri því komin að neinni niðurstöðu og þessi færsla því tómar vangaveltur út í bláinn en meinholl eigi að síður fyrir mína eigin hugsun.

Í baghovedet dúkkaði upp klausan fræga Decartes, cogito ergo sum! Til að stytta mér leið spurði ég heimspeking heimilisins út í þessa klausu (hefði svo sem eins getað brúkað Gúgul frænda en það fer vel á því að kona spyrji mann sinn heima eins og allir vita). Heimspekingurinn sagði að Decartes hefði verið að velta fyrir sér hvort hann væri mögulega blekktur um alla hluti og það sem honum þætti veruleiki væri einungis blekking og tál, eiginlega sýndarveruleiki. (Í rauninni er miklu merkilegra, finnst mér, að Decartes hampaði hugmynd um sýndarveruleikann heldur en þessi klisja sem höfð er eftir honum!) Og Decartes komst að þeirri niðurstöðu að þótt veruleikinn væri e.t.v. blekking og tál væri að minnsta kosti eitt sem hann gæti verið viss um að væri raunverulega til, nefnilega hugsun hans sjálfs/hann sjálfur sem hugsandi vera. Þegar þar var komið sögu var hann ekki enn viss um að líkami sinn væri til en svo verður hann viss um fleira og fleira … ég rek ekki þá sögu lengur hér.

Sem sagt: Decartes vissi að hann var til af því hann hugsaði. Ég hugsa um hugs og er enn fjarri því að véfengja eigin tilveru: Cogito cogitandi ergo sum! Samt hef ég margoft upplifað að umhverfið verður óraunverulegt, að ég sjálf sé óraunveruleg eða a.m.k. ósýnileg og alls konar aðra vitleysu sem fylgir djúpu þunglyndi. Tek fram að þessi undarlega tilfinning, eiginleg firring, á ekkert skylt við að missa raunveruleikatengsl því maður gerir sér algerlega grein fyrir því að tilfinningin er röng þótt hún sé mjög sterk; Ég veit ósköp vel að ég er í alvöru ekki inni í ísmola eða bakvið hljóðhelt spegilgler þótt mér finnist það. Þessi krókur inn í lýsingu á velþekktri þunglyndistilfinningu er annars útúrdúr …

Fólk hugsar í orðum … en fæstir hugsa í heilum setningum. Og fólk hugsar í myndum. Sumir, þ.á.m. ég, tengja liti við allt mögulegt, mér finnast nöfn og hvers lags tónlist ævinlega hafa mismunandi liti. Svo hugsar fólk í tilfinningum, skv. Oatley, sem ég held að sé alveg örugglega rétt: Tilfinningar hafa áhrif á hugsun og hugsun kveikir tilfinningar – eru einhver merkjanleg skil milli þessa?

Áhugi minn á Keith Oatley kviknaði aðallega vegna þess að hann hefur skrifað mikið um hvernig skáldbókmenntir geti beinlínis gert fólk klárara og hæfara. Þær eru ekki bara til að “auðga andann” á einhvern óljósan hátt. Ég er hins vegar ekki búin að lesa nóg eftir Oatley til að fjalla um þetta í þessari færslu, skilningur minn á málflutningi hans er enn frekar yfirborðskenndur. En það gleður mig ósegjanlega að fá staðfestar, meira að segja með vísindalegum aðferðum (!), þær hugmyndir sem við móðurmálskennarar höfum lengi haft að leiðarljósi, nefnilega að það sé nemendum hollt og mannbætandi að lesa bókmenntaverk og æfa sig að skrifa sæmilegan texta, og spillir ekki að fá sönnun þess að þetta athæfi geri nemendur væntanlega klárari.

Mér fannst merkilegt að lesa um spennubókarhöfundinn Howard Engel. Hann fékk heilablóðfall sem hafði þær afleiðingar að hann gat ekki lesið, þ.e.a.s. hann gat kveðið að og stautað sig þannig fram úr orðum á blaði og skildi merkingu þeirra þegar hann sagði þau upphátt en ekki skilið orðin eins og þau stóðu á blaðinu. Engel gat samt áfram samið texta og skrifað bækur. Hann var sem sagt með alexiu án agraphiu – lesstol án skrifstols? Mér fannst þetta aðallega merkilegt af því að í djúpu þunglyndiskasti hætti ég oft að geta lesið en þau skipti sem ég hætti að geta skrifað eru teljandi á fingrum annarrar handar. Ég hætti sem sagt að ná nokkru sambandi við texta á blaði / skjá, get vissulega lesið öll orðin en næ ekki merkingunni, næ ekki að halda athyglinni, næ ekki að muna það sem ég les: Töfrar textans hverfa. En ég get yfirleitt bloggað eða skrifað annan texta. Miðað við sögu Engels er þessi virkni þá væntanlega ekki á sama stað í heilanum.

Það var líka áhugavert að lesa um rannsókn sem rússneski sálfræðingurinn Luria gerði í Úzbekistan á fjórða áratug síðustu aldar. Hann bar saman tvo 15 manna hópa fólks, annar hópurinn var ólæs með öllu en hinn hópinn skipaði fólk sem hafði eitthvað lesið þótt lítið væri. Ein þrautin sem hann lagði fyrir hópana var: “Lengst í norðri, þar sem allt er þakið snjó, eru allir birnir hvítir. Novaya Zemlya er lengst í norðri. Hvernig eru birnirnir þar á litinn?” Af þeim 15 ólæsu sem spurðir voru gátu einungis 4 svarað spurningunni. Hinir fóru undan á flæmingi, sögðu t.d. að þeir vissu ekki svarið því þeir hefðu aldrei komið til Novaya Zemlya. Allir 15 í læsa hópnum svöruðu spurningunni rétt þótt skólaganga þeirra hefði verið örstutt og sumir væru rétt stautfærir.

Í hugsinu um hugs velti ég því líka fyrir mér hvort það geti ekki verið hamlandi, jafnvel forheimskandi, að binda hugsanir sínar á klafa þess eins sem hægt er að sannprófa. Mætti segja að hinir ólæsu Novaya Zemlya búar gerðu einmitt það. Er hægt að vera svo vísindalega þenkjandi að það leiði til einfeldni, jafnvel heimsku? Sá sem einungis sér sólarljósið sem hvítan geisla og skilur ljóðið einungis eftir orðanna hljóðan og skynjar mannlífið einungis eftir tölulegum upplýsingum lifir snauðu lífi og hans geð er lítið.

Ljóðið einfalt og tært
eins og ljós sólar
í einum lit
fyrir augum þínum
eins og ljós sólar
unz þú lýkur því upp

allt eins og dropinn
sem opnar hinn hvíta geisla

(Heimar eftir Hannes Pétursson)
 

P.s. Þessi færsla er líklega ruglingsleg en hvernig má annað vera þegar kona reynir að orða hugsanir sínar um hugs?
 
 
 

HAM og Hávamál

Hávamál eru safn kvæða frá óvissum tíma, oft eru þau talin frá 12. eða 13. öld en einstakar vísur kunna að vera talsvert eldri.  Þekktast þessara kvæða er Gestaþáttur, 77 (eða 79) erindi sem fjalla fyrst og fremst um æskilega hegðun og æskileg viðhorf í lífinu. Hermann Pálsson kallaði umfjöllunarefni Gestaþáttar Geðspeki. Þeir sem lesið hafa kvæðið eru sjálfsagt sammála því. Síðan ég sótti námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM) við þunglyndi og kvíða snemma í haust hef ég af og til velt fyrir mér hvort Gestaþáttur Hávamála væri kannski HAM fyrri alda. Færslan er tilraun til að svara þeirri spurningu.

Hugræn atferlismeðferð gerir ráð fyrir að hugsanir, hegðun og líðan hangi saman og hafi áhrif hvert á annað. Vilji menn breyta líðan þarf að breyta hugsunum (hugrænum þáttum) og besta leiðin til að breyta hugsunum er að breyta hegðun sinni (atferli). Þessi áhersla á að breytt hegðun geti haft áhrif á hugarfar sem hafi áhrif á líðan er notuð víðar en í HAM, t.d. kannast þeir sem eru virkir í AA samtökunum mætavel við allt talið um „litlu hlutina sem verða að vera í lagi“; oft er þar vísað til þess að hafa reglu á svefni og mataræði, hreyfa sig reglulega og fleira svoleiðis smotterí sem skilar sér í betra jafnvægi.

Í hugrænni atferlismeðferð er lögð áhersla á að laga hugsanaskekkjur. Lista yfir þær algengustu má sjá hér í HAM. Meðferðarhandbók Reykjalundar.

Gestaþáttur Hávamála dregur nafn sitt af því að fyrstu erindin fjalla um hvernig gestur á bæ ætti að haga sér og hvernig gestgjafar ættu að haga sér. Síðan er fjallað um æskilega hegðun í víðara samhengi og seint í kvæðinu er farið að fjalla um hvað gefi lífinu gildi og sé mikilsverðast í lífi hvers manns. Víða er bent á hvað sé skynsamleg hegðun og hvað sé heimskuleg hegðun, einnig hvað séu skynsamleg viðhorf og hvað óskynsamleg.

Segja má að fjöldi erinda miði að því að leiðrétta algengar hugsanaskekkjur. Fyrir það fyrsta boðar Gestaþáttur Hávamál eindregið að hóf sé best á hverjum hlut. Menn eiga að tala mátulega mikið, hvorki of né van, menn eiga að drekka og eta mátulega mikið, hvorki fasta né hella/graðga í sig, o.s.fr. Það er því unnið einart gegn allt-eða-ekkert hugsunarskekkjunni, sem og ýkjum eða minnkun. Það er meira að segja óæskilegt að vera of vitur: „Því að snoturs manns hjarta/verður sjaldan glatt/ef sá er alsnotur er á“! Eftirsóknarverðast er að vera hæfilega vitur, þeir menn lifa fegurstu lífi.

Í Gestaþætti er staðhæft að illt sé að spegla sig í áliti annarra og vænlegra að hafa næga skynsemi og rétt sjálfsmat til að bera: „Sá er sæll/er sjálfur um á/ lof og vit meðan lifir“. Sá sem byggir sjálfsálit sitt á viðmóti annarra er heimskur: „Ósnotur maður/hyggur sér alla vera/viðhlæjendur vini.“

Hörmungarhyggja er algeng hugsanaskekkja, nokkurs konar sambland af hrakspám og ýkjum svo menn trúa því að eitthvað svo hræðilegt muni gerast að þeir muni ekki þola það eða að allt fari á síversnandi veg. Hávamál andæfa þessum hugsunarhætti annars vegar með því að segja að það sé slæmt að vera svo vitur að menn viti örlög sín, hins vegar að það sé heimskulegt að kvíða fyrir öllu: „ósnjallur maður/uggir hotvetna“.

Gestaþáttur leggur áherslu á reglusemi í mataræði og svefni. Menn eiga að „rísa ár“, þ.e. fara snemma á fætur, og borða snemma. E.t.v. mætti heimfæra þetta upp á virkni-boðskap HAM fræða, mikilvægi þess að vera virkur og halda stundarskrá. Sama má segja um áherslu Hávamála á að umgangast fólk og rækja vináttu. Ómannblendni gerir manninn heimskan: „Maður af manni/verður að máli kunnur/en til dælskur af dul.“ Hamingja mannsins felst í félagsskap: „Maður er manns gaman.“

Neikvæð rörsýn og að afskrifa jákvæða reynslu, frammistöðu og hrós eru hugsanaskekkjur skv. hugrænni atferlismeðferð. Í Hávamálum er bent á að þótt maður eigi lítið af efnislegum gæðum, t.d. lítið bú eða lélegan hest og klæðnað, geti menn glaðst yfir að vera sjálfstæðir og þurfi ekki að skammast sín fyrir fátækt svo lengi sem þeir eru þvegnir og mettir. Mikið fé er ekki eftirsóknarvert því „margur verður af aurum api“ og „svo er auður/ sem augabragð:/hann er valtastur vina.“ Undir lok Gestaþáttar er undirstrikað að það eitt að vera lifandi sé næg ástæða til að finna hamingju. Menn geta ævinlega fundið eitthvað til að gleðjast yfir, einnig þótt heilsan sé slæm:

Erat maður alls vesall,
þótt hann sé illa heill:
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.

Reynsla mín af því að lesa Gestaþátt Hávamála með unglingum er mjög góð. Þeim þykir yfirleitt mikið til lífspeki kvæðisins koma enda eiga flest hollráðin og ábendingarnar vel við enn þann dag í dag því Gestaþáttur Hávamála boðar einkum heilbrigða skynsemi. Hugræn atferlismeðferð miðast og við að vekja fólk til umhugsunar um heilbrigða skynsemi og æfa það í henni. Margt er því líkt með þessu tvennu.