Author Archives: Harpa

Lífið í Korsbæk

Maude VarnæsÁ laugardögum tek ég frá tímann milli sjö og átta til að horfa á Matador í danska sjónvarpinu. Ég hef horft á einhverjar tætlur af þessari seríu áður, minnir að hún hafi verið sýnd tvisvar í íslenska sjónvarpinu, en bæði missti ég af mörgum þáttum á sínum tíma og man ekki vel eftir þeim sem ég sá svo þetta er nánast nýtt fyrir mér.

Þættirnir voru fyrst sýndir í danska sjónvarpinu á árunum 1978-81 en eru endursýndir reglulega og alltaf jafn vinsælir: Þegar endursýning hófst núna kom í ljós að Matador var miklu vinsælla en landsleikur Dana í fótbolta! (Ég er svo sem ekkert hissa á því …)

Lífið í Korsbæk, uppdiktuðum bæ, á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar er ekta líf. Þótt Upstairs Downstairs þættirnir bresku hafi verið kveikja að Matador er síðarnefnda serían miklu líkari mannlífinu eins og flestir þekkja það. Persónur í Matador eru vissulega nokkuð ýktar sumar en samt held ég að flestir þekki einstaka drætti í persónusköpuninni úr sínu nærumhverfi. Í Matador er sögð almennileg saga með fjölbreyttum sögupersónum og það er auðvitað lykillinn að velgengni þáttanna. Hver nennir að horfa aftur og aftur á lélega sögu með gervikarakterum?

Uppáhaldspersónan mín er Maude Varnæs, sú sem sést á myndinni. Maude er óskaplega taugaveikluð og grípur gjarna til þess ráðs að leggjast í rúmið þegar eitthvað kemur henni úr jafnvægi. Í gær var dramatísk uppljóstrun sem hefði átt að leggja Maud í rúmið næstu vikurnar. En þá tók hún skyndilega á sig rögg … og mun sýna miklu meiri styrk héreftir. Ég veit ekki alveg af hverju ég held mest upp á Maude, til þessa hefur hún aðallega verið hlægilega móðursjúkt snobbhænsn. Kannski finnst mér svona varið í hana af því ég held að hún endurspegli erkitýpu þunglyndra kvenna, erkitýpu sem ég er alls ekki sátt við.

Sem betur fer er töluð eðaldanska í þessum þáttum, ég er nefnilega ekki nógu góð í dönsku til að horfa á ótextaðar myndir, a.m.k. ekki myndir sem eiga að gerast í nútímanum. Það væri samt gaman að eignast þessa þætti með dönskum texta … kannski kaupi ég þá einhvern tíma, þeir ku rokseljast enn þann dag í dag.

Neðst á þessari síðu eru nóturnar af titillaginu í Matador

Örblogg á degi íslenskrar tungu

Það er ekki allt jafn eymdarlegt í týndu árunum í lífi mínu. Þetta er úr bloggfærslu 15. júní 2006:

Drengbarnið: “Mig hlakkar svo til að fara til Krít.”

Ábyrg móðirin (= ég): “Ég hlakka svo til að fara til Krítar.

Drengbarnið (í skilningsríkum mæðutóni): “Já, hvern hlakkar ekki til? Krít er svo æðisleg.”

Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs

Ég hef heyrt sögur af geðlæknum sem vísa sjúklingum sínum á dyr tjái sjúklingarnir sig um sína sjúkrasögu og lesið beina tilvitnun í meðferðarsamning sem sjúklingi á geðsviði Landspítala var gert að undirrita þar sem kom fram að ef sjúklingur tjáði sig um meðferðina fengi hann ekki frekari meðferð (sjá færslurnar Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi? og Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi II?). Mér þótti þessi meðferðarsamningur þar sem sjúklingi er gert að afsala sér málfrelsi sem tryggt er í stjórnarskrá vera merkileg gjörð en hef haldið til skamms tíma að sagnir um geðlækna sem fleygja sjúklingum af því þeim hugnast ekki hvernig sjúklingarnir tjá sig væru kviksögur einar. En nú hef ég reynt þetta á eigin skinni og um það fjallar þessi bloggfærsla. Svo ég verði ekki sökuð um að „segja hálfsannleik“ eru mál rakin í talsverðum smáatriðum.
 

Frá árinu 2000 hefur Engilbert Sigurðsson verið geðlæknir minn, fyrst á stofu sem hann rak í nokkur ár. Engilbert lokaði stofunni árið 2004 þegar hann var gerður að yfirlækni á deild 32A á geðsviði Landspítala og frá þeim tíma hef ég sótt reglulega viðtöl við hann á göngudeild auk þess að hafa margoft verið lögð inn á deildina sem hann veitir forstöðu.

Ég hef bloggað um minn krankleik og læknismeðferð frá árinu 2004. Á tímabili hampaði Engilbert þessu bloggi við læknanema sem oft voru viðstaddir okkar göngudeildarviðtöl, allt þar til ég bað hann að hætta því. (Engilbert Sigurðsson hefur kennt læknanemum árum saman, hann er nú prófessor í geðlæknisfræðum við læknadeild HÍ.)

Í mars á þessu ári rann upp fyrir mér að ég myndi aldrei ná bata með þeim aðferðum sem reyndar hafa verið í meir en áratug, þ.e. lyfjagjöf og raflækningum. Ég hóf að skoða einstaka þætti þessara læknisaðferða og þróun sjúkdómsins (djúprar endurtekinnar geðlægðar án sturlunareinkenna, þ.e.a.s. svæsins þunglyndis). Ég nota sjúkraskýrslur og eigið blogg til verksins enda hafa meir en þrjú ár gersamlega þurrkast úr minni mínu, sem er afleiðing tveggja raflostmeðferða, og bæði sjúkdómurinn og mjög mikil lyfjagjöf hafa valdið miklum minnistruflunum. Um þessa vinnu og bráðabirgðaniðurstöður skrifaði ég nokkrar færslur, einnig hugleiðingar um erkitýpur þunglyndissjúklinga og hversu lífseigar hugmyndir um þær væru, um eigin fordóma og um hvernig væri að hætta á benzódíazepín lyfinu Rivotril sem mér hefur verið ávísað í 9 ár. Þessi skoðun á sögunni minni er einn þátturinn í nýrri leið sem ég reyni til að ná bata og virðist virka, velþekkt leið í bataferli óvirkra alkóhólista.

Þann 20. apríl sl. hringdi Engilbert Sigurðsson í mig síðla dags og tjáði óánægju sína með nokkrar bloggfærslur mínar. Mér skildist að aðallega væri hann ósáttur við tvennt: Að upplifun hans af sjúkdómi mínum væri ekki sú sama og upplifun mín og að ég léti þess ekki getið í bloggfærslum að ég hefði þegið viðtalsmeðferð hjá honum. Ég útskýrði fyrir honum að bloggfærslur snérust yfirleitt um eitt eða tvö umfjöllunarefni og þessar hefðu ekki snúist um viðtalsmeðferð, svo bauðst ég til að panta og greiða viðtalstíma ef hann vildi ræða þetta augliti til auglitis. Það vildi hann ekki en benti á að e.t.v. væri heppilegt fyrir mig að skipta um geðlækni. Ég þakkaði honum uppástunguna. Þetta var meir en klukkustundar langt símtal en að því loknu taldi ég mig hafa útskýrt nægilega vel að bloggfærslur mínar væru um mig og minn sjúkdóm en ekki um Engilbert, sem aldrei hefur verið nafngreindur á þessu bloggi fyrr en í núna þessari færslu. Í viðtalstíma þann 19. september síðastliðinn nefndi Engilbert hins vegar að sér hefði brugðið þegar hann sá vitnað í sjúkraskýrslur í þessum færslum í apríl. Þær tilvitnanir eru aðallega upptalning á lyfjaskömmtum sem mér voru ávísaðir árin 2007 og 2009.

Í septemberlok barst mér ábyrgðarbréf frá Engilbert Sigurðssyni, dagsett 27. september í Reykjavík en póstlagt í hans heimabæ, í umslagi Landspítala Háskólasjúkrahúss. Fyrir neðan undirskrift sína hefur Engilbert slegið inn Geðdeild Landspítala, 101 Reykjavík. Þetta er 6 bls. bréf, dálítið ruglingslegt og stór hluti þess eru endursagnir á köflum í sjúkraskrá þeirri sem Engilbert Sigurðsson hélt um mig á árunum 2000-2004. Ég bar saman þessar endursagnir við sjúkraskrána og komst að því að þær eru ónákvæmar og sums staðar réttu máli hallað, jafnvel rangt haft eftir, en þar fyrir utan skil ég ekki hvað bútar úr 8-12 ára gamalli sjúkraskrá koma málinu við og það liggur ekki í augum uppi við lestur bréfsins.

Í upphafi bréfsins segir Engilbert að hann hafi ákveðið að kíkja á bloggið mitt í gær af því í tölvupósti hafi ég boðið greiðslu fyrir vottorð sem ég hafi ekki áður þurft að borga fyrir: „Mér þótti þetta óvanalegt … og velti fyrir mér hvort það endurspeglaði breytta líðan.“ Svo skoðaði hann færsluna Af Rivotril-tröppun og fráhvörfum og „var satt að segja nokkuð brugðið við þennan lestur“. Þau atriði sem Engilbert brá við að sjá voru:

  • að læknanúmer sást á ljósmynd af Rivotril-glasi;
  • að ég segðist yfirleitt hafa reynt að taka minna af Rivotril en lækninum hefði þótt ráðlegt;
  • að ég „fullyrði[r] og set[ur] í blogg“ að læknirinn hefði sagt að bensóniðurtröppun tæki 4-6 vikur en hann hefði sagt í viðtalstíma þann 19. september að svoleiðis niðurtröppun tæki 6-8 vikur;
  • að hann hefði aldrei sagt að kjálkaverkur „gæti ekki stafað af slíku fráhvarfi, ég sagði að það væri sjaldgæft …“;
  • að ég hafi sagt að ég hefði ekki stuðning geðlæknis míns við að trappa niður Rivotril á níu mánuðum eftir níu ára notkun þess: „Fullyrðing þín um að þú hafir “engan stuðning við þetta baks” dæmir sig sjálf“ og Engilbert minnir á að ég hafi ekki rætt áform mín um að vilja trappa niður Rivotril við sig heldur við heimilislækni á Akranesi.

Undir lok bréfsins segir:

Að þessu sögðu er ljóst að ekki er nægilegt traust lengur á milli okkar til að það getir verið grunnur að meðferðarsambandi læknis og sjúklings. Ég mun áfram gera vottorð sem tengjast þeim tíma sem þú hefur verið í samskiptum við mig en sé mér ekki fært að vera þinn læknir. Þurfirðu á innlögnum að halda ertu sem fyrr velkomin á deild 32A en ég verð ekki læknir þinn á deildinni af sömu ástæðu.

Sama dag og mér barst bréfið breytti ég ljósmyndinni og blokkaði læknanúmer á Rivotril-glasinu þótt ég telji að ég hafi fullan rétt á að birta ljósmynd af töfluglasi í minni eigu. Menn geta svo borið saman bloggfærsluna við þau atriði sem Engilbert brá við að sjá, færslunni hefur ekki verið breytt.

Daginn eftir skrifaði ég Páli Matthíassyni, framkvæmdarstjóra geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss, og kvartaði undan því að læknir á ríkisreknu sjúkrahúsi tilkynnti sjúklingi að hann væri hættur að vera læknirinn sjúklingsins vegna þess að honum líkaði ekki bloggfærsla sjúklingsins, án þess þó að geta bent á nein haldbær rök fyrir því að að lækninum væri vegið. Getur læknir á ríkisspítala sagt upp sjúklingi að geðþótta sínum?, var spurning mín til Páls. Ég tók skýrt fram að okkur Engilbert Sigurðsson greindi ekki á um að affarasælast væri fyrir mig að fá annan geðlækni, enda hefði hann ráðlagt mér það sjálfur í apríl og ég reynt að fara að þeim ráðleggingum, enn án árangurs. Við tóku bréfaskipti næstu vikurnar. Af þeim bréfaskiptum var ljóst að Páll vildi ekki taka afstöðu til málsins og því vísaði ég þessu máli til embættis Landlæknis þar sem það er til meðferðar.

Laust eftir hádegi sama dag og ég sendi Páli Matthíassyni tölvupóst og kvartaði barst mér tölvupóstur frá Engilbert Sigurðssyni, sent af netfangi hans á Landspítala. Þar segir hann eftirfarandi:

  • að það sé minn misskilningur að hann hafi sent ábyrgðarbréfið vegna bloggfærslu og telur síðan upp eftirfarandi atriði:
  • að endurtekið hafi í samtölum okkar borið á góma „skipti á meðferðaraðila í gegnum árin“ allt frá árinu 2006 en ég hafi ekki viljað skipta;
  • að ég hafi hitt sálfræðing í samráði við Engilbert í tvígang „en H byrjaðirðu að hitta sjálf á þessu ári (án samráðs við mig sem er frekar óvanalegt ef sjúklingur telur sig treysta sínum geðlækni – þá er hefðin sú að upplýsa sinn lækni a.m.k. um þá ákvörðun áður en viðtöl hjá öðrum meðferðaraðila hefjast).“;
  • að ég hafi lýst því yfir í viðtali þann 19. september að ég hafi eingöngu komið til að fá tvö vottorð og afrit af þeim;
  •  að ég hafi bókað viðtalstíma með öðrum hætti en áður, þ.e.a.s. hringt og pantað tíma í stað þess að hafa samband við Engilbert í tölvupósti og biðja um tíma;
  • að ég hafi þann 19. september sagst vera á biðlista hjá tveimur geðlæknum og „Þú hafðir ekki beðið mig um ráð varðandi hvaða kollegum mínum ég myndi helst treysta til að freista þess að mæta meðferðarþörfum þínum líkt og þú treystir mér ekki til að hafa skoðun á því.“;
  • að ég hafi kvartað undan „niðurstöðu [ábyrgðar]bréfsins við Pál Matthíasson“ en „Sú niðurstaða er þó í raun ekki annað en staðfesting þess sem orðið er og ætti ekki að koma á óvart.“

Í sjúkraskrá sem Engilbert Sigurðsson færði um mig frá árinu 2000 til áramóta 2011/2012 er þess hvergi getið að „skipti á meðferðaraðila“ hafi borið á góma, ekki heldur á mínu bloggi. Þótt minni mitt sé brigðult frá því um mitt ár 2004 fram undir áramótin 2011/2012 hefur maðurinn minn stálminni og ég hef alltaf sagt honum hvað okkur Engilbert fór á milli eftir hvern viðtalstíma. Hann rekur minni til þess að „skipti á meðferðaraðila“ hafi einu sinni verið rædd, þegar ég vildi ekki hefja Marplan-töku sem Engilbert var áfram um að ég prófaði, sem á þá við útmánuði árið 2010.

Hafandi litla reynslu af geðlæknum öðrum en Engilbert Sigurðssyni kann ég ekki skil á þeirri hefð sem hann vísar í varðandi sálfræðiviðtöl. Ég hef hins vegar farið á HAM-námskeið við kvíða, prófað nálastungur og unnið sporavinnu á þeim tíma sem „meðferðarsamband“ okkar Engilberts hefur varað og sagt honum af því eftir á, án þess að hafa merkt að það hafi valdið honum hugarangri.

Vissulega sagði ég: „Ég kom bara til að fá vottorð“ þegar ég hitti Engilbert þann 19. september en það var nú ekki hugsað sem sérstök yfirlýsing, kannski frekast skýring á að ég væri mætt í viðtalstíma til hans. Og ég leiddi svo sannarlega ekki hugann að því að það að panta viðtalstíma á göngudeild geðsviðs Landspítala gegnum skiptiborð Landspítalans mætti túlka sem eitthvað annað en að panta tíma í gegnum síma.

Ég sagði aldrei að ég væri á biðlista hjá tveimur geðlæknum enda var ég ekki á neinum biðlistum. Aftur á móti sagðist ég hafa reynt að hlíta ráðum Engilberts sem hann gaf í símtalinu í apríl og hefði reynt að komast að hjá tveimur geðlæknum án árangurs og vildi því gjarna vera hjá honum áfram. Engilbert hefur aldrei viðrað neina skoðun á því til hvaða geðlæknis ég ætti að leita né boðið fram sína aðstoð í þeim efnum, hvorki í þeim mörgu tölvupóstum sem hann hefur skrifað mér á þessu ári né í símtalinu í apríl þegar hann ráðlagði mér að skipta um lækni.

Það að ég hafi kvartað undan því við yfirmann Engilberts Sigurðssonar að Engilbert tilkynnti mér að hann væri hættur að vera minn læknir að geðþótta sínum en engum haldbærum rökum eru vitaskuld ekki rök fyrir því að Engilbert geti tilkynnt að hann sé hættur að vera minn læknir …
 

Staða mála nú

Ég hef lagt inn formlega kvörtun til Landlæknisembættisins með ýmsum fylgiskjölum. Sú kvörtun hefur verið tekin til meðferðar en svoleiðis meðferð tekur marga mánuði, kannski ár. Það er í góðu lagi mín vegna því mikilvægast er að úr því verði skorið hvort geðlæknir geti sagt upp sínum sjúklingi að því er virðist vegna þess að honum hugnast ekki hvernig sjúklingurinn bloggar um sína eigin sjúkrasögu, líðan og hugrenningar. Úrskurður um þetta mál er mikilvægur öllum þeim geðsjúklingum sem vilja tjá sig um sinn sjúkdóm og læknismeðferð við honum, hvort sem þeir tjá sig á bloggi eða með öðrum hætti. Ég get sjálf alls ekki séð hvernig athöfn Engilberts samrýmist lögum um réttindi sjúklinga, læknalögum eða ábendingum Landlæknisembættisins um góða starfshætti lækna, auk þess sem um er að ræða málfrelsi mitt, sem tryggt er í stjórnarskrá, og ég get ekki samþykkt að sé háð forræði geðlæknis míns (eða hvaða annars læknis sem er). En ég er ekki löglærð og því finnst mér gott að Landlæknisembættið skuli ganga úr skugga um þetta.

Svona mál bar aðeins á góma á nýafstöðnu málþingi Læknafélags Íslands, sem haldið var 18. og 19. október, sjá Mikilvægt að gæta varúðar á samfélagsmiðlum – af málþingi LÍ eftir Hávar Sigurjónsson, í Læknablaðinu 11. tbl. 98. árg. 2012.  Þar virðist lögfræðingur Læknafélags Íslands, Dögg Pálsdóttir, hafa úrskurðað að sé læknir ósáttur við tjáningu sjúklings á netinu gæti hann sagt upp „trúnaðarsambandi“ við sjúklinginn, sem er vitaskuld merkileg ný túlkun á þeim lögum sem ég nefndi hér að ofan. Einnig má spyrja sig hvort sá sem notar opinbera þjónustu teljist gera „meðferðarsamninga“ eða „trúnaðarsamninga“ við einstaka opinbera starfsmenn og væri gaman að vita hvort hugmyndir um slíkt standist landslög. Í greininni er haft orðrétt eftir Dögg, þar sem hún ræðir fyrirspurnir úr sal:

Fram kom í umræðum um þetta efni að stundum væru það sjúklingar sem birtu upplýsingar um sjúkrasögu sína á netinu og lýstu þar óhikað reynslu sinni af meðferð og læknisheimsóknum. Þar væri stundum farið rangt með staðreyndir og sagður hálfsannleikur en læknar ættu mjög erfitt með að bregðast við slíku og hvort það hefði ekki afgerandi áhrif á trúnaðarsamband læknis og sjúklings.

Dögg sagði þetta sannarlega vandamál en hún væri þó ekki sammála því að læknir mætti ekki svara ef sjúklingur er búinn að viðra samskipti sín við lækni opinberlega. „Hvort það þjónar tilgangi er annað mál. Ég hef alltaf haldið því fram að ef sjúklingur opnar fyrir sína sjúkrasögu felst í því ákveðið samþykki hans fyrir því að opinberlega sé um hana fjallað. Læknar hafa síðan það ráð að segja upp slíku trúnaðarsambandi.“
  
  
  
  
  
  
 

Sálfræðingar og marklausar klínískar leiðbeiningar Lsp.

Í gær birtist fréttatilkynning frá Sálfræðingafélagi Íslands þar sem segir m.a.:

Sálfræðingafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af löngum biðlistum á Göngudeild Geðsviðs LSH. Eins og fram hefur komið í fréttum er lengsti biðtíminn eftir einstaklingsviðtölum við sálfræðinga vegna þunglyndis og kvíða. 

[- – -]
Sálfræðingafélagið vill hvetja heilbrigðisyfirvöld til að tryggja að farið sé eftir þeim klínísku leiðbeiningum sem settar hafa verið hér á landi. 

Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, var að vanda ómyrkur í máli og hélt því fram að stórum hluta þunglyndis- og kvíðalyfja væri sturtað í klósettið því fólk gæfist upp á að taka þau vegna aukaverkana og lélegrar virkni. Þótt þessari staðhæfingu hafi verið slegið sérstaklega upp var kjarninn í orðum Péturs:

Það sé sparnaður af því að bæta við þremur til fjórum stöðugildum á göngudeildina. Það sé sparnaður í lyfjakostnaði, í innlögnum, í skattfé, í minni forföllum fólks frá vinnu og svo framvegis.

Páll Matthíasson framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala mótmælti Pétri í kvöldfréttum RÚV og sagði að sálfræðingum á geðsviði Landspítalans hefði fjölgað en ekki fækkað eins og Pétur héldi fram. Hann tók svo undir orð Péturs um mikið álag á geðsvið og biðlista og kenndi heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um:

Meira sé af einfaldari vandamálum sem heilsugæslan ætti að geta sinnt heldur en maður sér í nágrannalöndunum. Það virðist vera svo að heilsugæslan sé í meira mæli að vísa málum til Landspítalans, en búast mætti við. 

Í sama streng tók formaður Geðlæknafélags Íslands, Kristinn Tómasson, í Síðdegisútvarpi Rásar 2, þ.e.a.s. að heilsugæslan ætti að sinna þunglyndis- og kvíðasjúklingum í meiri mæli og efla þyrfti færni í viðtalsmeðferð á heilsugæslunni.  Hann talaði heldur hlýlega um geðlyf við þunglyndi og kvíða og taldi af og frá að það myndi sparast svo mikið fé sem uppsláttur á orðum Péturs Tyrfingssonar gaf til kynna þótt aðgengi að sálfræðimeðferð yrði bætt. Kristinn taldi eðlilegt að sálfræðiþjónusta væri veitt af heilsugæslunni, hann líkti saman sjúkraþjálfun og sálfræðiþjónustu og taldi að sama ætti að gilda um hvort tveggja. Kristinn benti svo á að Starfsendurhæfingarsjóður byði upp á sálfræðiþjónustu. Þetta hef ég aldrei heyrt áður né hafði hugmynd um að lífeyrissjóður sá sem ég þigg örorkulífeyri frá er aðili að Starfsendurhæfingarsjóði VIRK.

Nú er spurningin hvort þessir ágætu menn sem ég hef vitnað í hér að ofan séu ósammála eða hvort þeir séu í rauninni ekki að tala um hið sama. Það getur t.d. vel verið að stöðugildum sálfræðinga á geðsviði Landspítala hafi fjölgað á sama tíma og sálfræðingum á göngudeild geðsviðs hafi fækkað. Um þetta hefði almennilegur fréttamaður spurt Pál Matthíasson. Sálfræðingurinn Pétur Tyrfingsson var væntanlega að lýsa núverandi ástandi á göngudeild geðsviðs, alveg eins og yfirlæknir geðsviðs gerði fyrir skömmu, og tók enga afstöðu til þess á hvers hendi sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða ætti að vera. Geðlæknarnir  Páll Matthíasson og Kristinn Tómasson leggja hins vegar höfuðáherslu á að sálfræðimeðferð eigi að vera á könnu heilsugæslunnar en skauta báðir framhjá þeim klínísku leiðbeiningum sem geðsvið Landspítalans gaf út í ágúst 2011, sjá færslu mína Klínískar leiðbeiningar sem ekki er farið eftir. Fréttatilkynning/ályktun Sálfræðingafélags Íslands vakti á hinn bóginn sérstaka athygli á að ekki væri farið eftir þessum klínísku leiðbeiningum.

Eigin reynsla 

Af eigin reynslu veit ég að sálfræðimeðferð er ekki flaggað framan í þunglyndis- og kvíðasjúklinga. Ég hafði þjáðst af felmtursröskun (ofsakvíðaköstum) í tæp 2 ár þegar geðlækninum mínum datt í hug að vísa mér til sálfræðings. Eftir þrjú viðtöl við sálfræðing á stofu úrskurðaði hann að ég væri of veik til að hafa gagn af HAM (hugrænni atferlismeðferð) við kvíða. Þetta var samt ákaflega gagnlegt fyrir mig því ég fékk fræðsluefni og nokkra nasasjón af því út á hvað HAM gengur. 

Árið 2009 fór ég sjálf að leita mér upplýsinga um mögulega sálfræðimeðferð við mínum krankleika enda farið að renna upp fyrir mér að ótal lyfjakokteilar gerðu ekkert gagn. Ég bar árvekni (Mindfulness) og gjörhygli (DAM, díalektíska hugræna atferlismeðferð) undir minn geðlækni og hann svaraði diplómatískt að þetta kynni að gagnast sumum. Í desember 2009 hitti ég sálfræðing sem er einn af frumkvöðlum DAM en leist ekki nægilega vel á og gaf frekari viðtöl við þann sálfræðing frá mér. (Á þessum tíma var ég fárveik, bæði af sjúkdómnum og af lyfjunum.)

Vorið 2010 skráði ég mig að eigin frumkvæði á HAM námskeið gegn kvíða á vegum Kvíðameðferðarstöðvarinnar.  Ég hafði enga trú á að þetta námskeið myndi virka en á hinn bóginn var ég búin að fá mig fullsadda af lyfjum og orðið ljóst að kvíðastillandi lyfið sem mér hafði verið ávísað allt frá árinu 2003 hafði ekki nokkur einustu áhrif til að koma í veg fyrir ofsakvíðaköst, ekki heldur öll hin lyfin sem ég hafði gaddað í mig öll þessi ár. Þrátt fyrir eigin fordóma gagnaðist námskeiðið frábærlega og mér opnaðist ný sýn!  Ég uppgötvaði að með því að beita aðferðunum sem ég lærði á þessu námskeiði gat ég ýmist dregið mjög úr einkennum ofsakvíðakasta eða komið í veg fyrir þau.

Síðla nýliðins sumars fór ég á HAM námskeið á vegum geðsviðs Landspítalans, að eigin frumkvæði. Þetta var sex vikna grunnnámskeið gegn þunglyndi og kvíða. Það námskeið gagnaðist mér a.m.k. jafn vel, gott ef ekki enn betur en námskeið Kvíðameðferðarstöðvarinnar. HAM er, eins og Kristinn Tómasson komst að orði, nokkurs konar sjúkraþjálfun hugans og líklega þarf maður að fara reglulega í svoleiðis sjúkraþjálfun, auk þess auðvitað að kappkosta að gera æfingarnar sjálfur. Það að ég skuli ekki vera orðin fárveik á þessum árstíma, eins og mörg undanfarin ár, þakka ég ekki hvað síst þessu ágæta námskeiði.

Í apríl á þessu ári hóf ég að ganga reglulega til sálfræðings sem kemur hingað upp á Skaga. Hann hefur verið mér ómetanleg stoð. Aftur á móti tók geðlæknirinn minn, starfandi yfirlæknir á geðsviði Landspítala,  það að ég skyldi sjálf panta tíma hjá sálfræðingi sem vantraustsyfirlýsingu á sig. Ég vona að þetta viðhorf þessa geðlæknis sé ekki lýsandi fyrir stéttina.

Sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða er örugglega ódýrari kostur þegar upp er staðið og gæti læknað fólk

Mér finnst ekki skipta máli hvort sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða er á könnu heilsugæslunnar eða geðsviðs Landspítala, aðalatriðið er að hún sé aðgengileg og ekki alltof dýr. Fyrir sjúklinga utan höfuðborgarsvæðisins er sjálfsagt þægilegra að hún sé á vegum heilsugæslu. Í þessu sambandi má og geta þess að í Noregi hafa menn um skeið gert tilraunir með hugræna atferlismeðferð á netinu sem virðist hafa gefið góða raun. Hvernig væri að nýta löngu gamla tækni til HAM-meðferðar?

Ef maður lítur á ástandið núna er yfirlýsing Sálfræðingafélags Íslands alveg rétt: Það er fáránlegt að geðsvið Landspítalans skuli hafa samþykkt klínískar leiðbeiningar fyrir meir en ári síðan en fari svo ekki eftir þeim. Þeir sem veikjast af þunglyndi og kvíða í fyrsta sinn leggjast yfirleitt ekki inn á geðdeild heldur reyna að nýta sér þjónustu göngudeildar/bráðamóttöku. Ef sálfræðingar þar eru alltof fáir skiptir það litlu máli hvort sálfræðingum á öllum deildum geðsviðs hefur fjölgað, þessi sjúklingahópur er ekki að fara að leggjast inn heldur reyna að koma í veg fyrir að þurfa á innlögn að halda í framtíðinni.

Ef ég horfi bara á eigin sjúkrasögu er kristaltært að mikið fé hefði sparast ríkinu hefði ég fengið sálfræðimeðferð í tæka tíð, svo ekki sé minnst á þá miklu mæðu sem hefði líklega orðið mun minni. Ég vona að minn ágæti samsveitungur, velferðarráðherra, geri sér grein fyrir þessu og beiti sér fyrir að aðgengi þunglyndis- og kvíðasjúklinga að sálfræðimeðferð verði greiðara og fólk njóti sömu niðurgreiðslu sjúkratrygginga í sálfræðimeðferð og læknis-og lyfjameðferð við þessum krankleik. Þegar upp er staðið verður það mun ódýrari kostur.

Ég hef aldrei hitt þann sjúkling sem hefur batnað þunglyndi og kvíði af lyfjum. 

Jákvæð færsla

Ég spurði manninn: “Um hvað ætti ég að blogga eitthvað jákvætt?” Hann stakk auðvitað upp á bloggi um gula einstaklinginn … en ég er nýbúin að blogga um hann. Svo ég reyni að tína til sittlítið af hvurju annað þótt auðvitað sé Fr. Dietrich óumdeilanlegt jákvætt viðfangsefni. (Ég hef nefnilega fengið nóg af neikvæðni og hef ákveðið að hætta að lesa “fréttir” sumra vefmiðla + athugasemdadræsur og sumt annað netkyns – það er mannskemmandi.)

Jákvætt? Tja … í lífi öryrkjans gerist sosum ekki margt en það má einblína á þá jákvæðu smámuni sem gefast í umhverfinu. Má nefna klukkustundarlabbitúr í dag um þann góða Skaga og upp í Garðalund. (Ég er nefnilega hætt að labba norðanmegin á nesinu því ég nenni ekki að ergja mig á eigendum lausra hunda og svo framarlega sem ég fæ mér sjálf ekki alminlegan sjeffer til að vappa lausan mér við hlið er ég alls ekki óhult þeim megin.) Á Langasandi er alltaf sól, líka þegar rignir.

Fór áðan á kaffihús með vinkonu minni; OK, þetta er ekki beinlínis kaffihús heldur ísbúð en þarna fæst besta kaffið á Skaganum. Svo við létum okkur hafa það að sitja á barstólum við skenk – hvað gerir maður ekki fyrir gott kaffi? Hugguleg stund að venju.

Helgin hefur verið ljúf og letileg, sloppadagur á Joe Boxer í gær, hangið yfir bókum, sunnudagskrossgátunni og auðvitað horft á Matador. Ég hef meira að segja misst mig í Solitaire af og til, sem ég hef ekki lagt í mörg ár. Núna er ég að lesa Klingivalsinn (Klinkevalsen) eftir Jane Aamund, mikinn uppáhaldshöfund. Alveg er ég handviss um að ég hef séð sjónvarpsþætti eftir þessari bók, án þess ég muni neitt eftir söguþræðinum … ég sé nefnilega aðalpersónuna fyrir mér svo ljóslifandi að ég hlýt að hafa séð hana á mynd.

Af nýjum bókum er ég búin að lesa stutta titla: Skáld og Rof. Og svo náttúrlega Mensalder og Kattasamsærið. Veit ekki hvort telst með að ég las textana í Orð, krydd & krásir og skoðaði myndirnar en sleppti því að lesa uppskriftir enda ber ég ekki við eldamennsku. Þetta eru allt fínar bækur af ólíku tæi.

Á hverjum degi, upp á síðkastið, læðist tómið mikla aftan að mér en með því að ríghalda í ljósa punkta, passa að einföld atriði séu í lagi (eins og að fara á fætur fyrir átta á morgnana alveg burtséð frá því hvenær mér tókst að sofna, fara í langan göngutúr svo framarlega sem veðrið er ekki snarvitlaust, setja mér fyrir eitthvað skemmtilegt á hverjum degi, leiðrétta hugsanaskekkjur o.s.fr. … þetta er voðalíkt meðmæltu alkaprógrammi og eflaust mörgu öðru) hefur mér til þessa tekist að hrekja tómið á brott. Svo ég er frískari en ég hef verið í mörg ár.

Það sem mig vantar helst er meiri umgengni við fólk. Ég kíkti áðan á stundaskrár og námsframboð í HÍ á vorönninni en fann fátt spennandi þar. Samt leitaði ég líka í guðfræðideildinni 😉  Mér leggst eitthvað til, það er ég viss um.    

Dagurinn, femínistinn og bækurnar

Jósef�na öskrarÉg vaknaði við að femínisti heimilsins stóð á öskrunum við rúmstokkinn. Sennilega hefur hún staðið lengi á öskrunum því hún er femínín femínisti og heyrist lágt í henni … samt sætir hún þöggun og jafnvel út-skúfun (fer ekki nánar út í það á opinberu bloggi). Þegar ég loksins hafði mig framúr og bjóst til að bursta tennur blasti ástæðan fyrir felmtri femínistans við: Hinn einbeitti innbrotsköttur Kuskur hreiðraði um sig í baðherbergisvaskinum, sæll og glaður og síbrotalegur á svip. Ég henti honum út og róaði femínistann.

Eftir að hafa stungið út úr nokkrum kaffibollum og lesið moggann (mannsins) var kominn tími á bloggrúntinn. Blessunarlega höfðu mínir uppáhaldsbloggarar skrifað sitt lítið af hvurju, þær Vilborg og Gurrí og Eva. Ég hafði raunar lesið færslu Evu kvöldið áður og skemmt mér ágætlega við að horfa á prinsessuvídjóið, skemmti mér við að horfa á það aftur í morgun; og ég las líka færslu Gurríar í gærkvöld en það mátti alveg lesa hana aftur enda er ég eins og venjulega sammála Gurrí (deili reynsluheimi með henni) og bæti hér með við að það að hluti Flatus-lifir-veggjarins hafi fokið hefur einnegin verið þaggað niður.

Svo var að kynna sér hvernig pólitískt réttir vindar blésu í dag. Aðalhitamálið virtist vera barnabækur, bleikar og bláar, alveg eins og í gær, og virðist stutt þar til blásið verður til bókabrenna (eins og systursamtök femínísta iðkuðu í henni Amríku á níunda áratugnum).

Ég valdi “sumur [er sæll] af verkum vel” úr sæluboðorðum Hávamála fyrir daginn í dag (þetta eru ágæt geðorð, ekki verri en hver önnur) og bjó manni mínum fagurt heimili = sinnti helgarþrifum. Á meðan reikaði hugurinn þægilega til barnæsku minnar og þeirra bóka sem ég las. Valið var einfalt: Ég las lestrarfélagsbækurnar. Bækurnar komust fyrir í einu herbergi og ég hafði aðgang að lyklinum.  Á norðurhjara landsins var ekki búið að finna upp uppeldi skv. kenningum þegar ég var krakki –  bæði er langt síðan og sveitin afskekkt. Þess vegna las ég Nonnabækurnar og Percy hinn ósigrandi, Kapítólu og Karlsen stýrimann, rauðu telpnabækurnar og bláu drengjabækurnar, Tópelíuz og Tamin til kosta, Fornaldarsögur Norðurlanda og Freuchen o.s.fr. Ég man að mér var bannað að lesa Gleðisögur Balzacs og þess vegna las ég þá bók einkar vandlega … þótti hún mjög leiðinleg.  Sömuleiðis var mömmu eitthvað illa við að ég læsi Tígulgosann … þess vegna las ég Tígulgosann innan í Æskunni en því miður komst það upp. Það komst líka upp að ég faldi bækur undir rúmi þegar gerð var tilraun til að skammta mér bækur á viku vegna þess að í gildi var sú norðlenska uppeldisaðferð að börn ættu að vera úti og ekki liggja alltaf í bókum því þá yrðu þau eins og hundaskítur í framan. (Ég hef mömmu grunaða um að hafa viljað losna við krakkana smástund á hverjum degi og upplagt að láta mig passa því ég var elst fremur en hún hafi raunverulega trúað þessari hundaskítshúðlitarkenningu … árangurinn var sá að ég fékk algera andúð á útivist og krökkum og var sérlega vond við yngri systkini mín. Og faldi bækur.)

Velti því svo fyrir mér hvort synir mínir hefðu beðið skaða af því að fyrir þá var lesinn allskonar pólitískt rangur barnalitteratúr, s.s. Litli svarti Sambó og Tíu litlir negrastrákar og Tinni og Enid Blyton komplett … ég man ekki einu sinni eftir öllum óhroðanum til að telja upp. Held þeir hafi sloppið fyrir horn sálarlega séð. Og það eina pólitískt rétta í þeirra uppeldi sem ég man eftir var þegar leikskóli eldri stráksins skar upp herör gegn vopnakyns leikföngum. Einn daginn sagði krakkinn hróðugur þegar pabbi hans sótti hann á leikskólann: “Við erum búnir að skjóta allar stelpurnar í dag!” Þá höfðu þeir notað sleifar til verksins, blessaðir drengirnir í bófahasarnum … Það rættist eigi að síður úr syninum og hann heldur sig örugglega réttu megin við lögin í dag, fullorðinn.

Við erum hugmyndafræðileg gauð hér á þessu heimili, fyrir utan femínista heimilisins en mynd af henni skreytir þessa færslu. Auk femínisma leggur hún stund á mannfræði og kveðskap, s.s. sést á þessari gömlu vísu:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum;
malandi læt rímið renna;
og raula fyrir málstað kvenna.

Fock, litíum og fréttir dagsins

Þetta er svona sittafhverjutæi-færsla. Ég ætti að gera meira af því að skrifa svoleiðis, mér finnst það gaman og slakandi.

Útsaumað bréf Mettu FockÉg var að klára bókina Mercurium eftir Anne Rosman. Einhverra hluta vegna hélt ég lengi vel að mercurium væri kvikasilfur en í eftirmála kom fram að það hefði verið notað um arsenik (sem gerði söguþráðinn auðvitað mun skiljanlegri). Ein bók Rosman hefur verið þýdd á íslensku, þ.e. Dóttir vitavarðarins. Ég fékk rafbókina Mercurium lánaða í sænsku rafbóksafni en ætla mér að kaupa fleiri rafbækur eftir Anne Rosman, á dönsku (sem mér finnst þægilegra að lesa en sænsku).

Mercurium er að hluta morðsaga en sú saga er ekki sérlega áhugaverð og raunar var mér slétt sama um hver var morðinginn … kom þó gleðilega á óvart að það var sá sem lesandi grunaði síst. Aðalsagan er saga Mettu Fock og gerist í byrjun 19. aldar. Metta þessi var aðalborin en giftist einfeldingi og þurfti að vinna hörðum höndum að kotbúskap því karlinn var gagnslaus. Hún missti tvö börn og síðan eiginmanninn. Sögur komust á kreik um að Metta hefði eitrað fyrir þeim með arseniki, magnaðist söguburðurinn æ meir og loks var hún hneppt í fangelsi. Í fangelsinu átti Metta illa ævi og á endanum játaði hún á sig morðin og var líflátin þótt í Mercurium sé tekin eindregin afstaða með því að hún hafi verið saklaus.

Metta reyndi að reka sitt mál úr fangelsinu en svo fór að hún var svipt pappír og skriffærum og höfð í algerri einangrun. Þá greip hún til þess ráðs að sauma saman pjötlur úr eigin klæðum og bróderaði langt bænarbréf til yfirvalda og bað um endurupptöku málsins. Bútur úr þessu bréf sést í upphafi færslunnar, sé smellt á litlu myndina opnast síða Norræna safnsins í Svíþjóð með mynd af bréfinu bróderaða og má stækka einstaka hluta hennar. Mér finnst hugmyndaauðgi Mettu aðdáunarverð og hannyrðahæfileikar hennar líka! Því miður kom þetta að litlu haldi.

Sænskur trúbadúr, Stefan Andersson, hefur samið ballöðu um Mettu Fock. Hér er Youtube myndband af flutningi hans og hér er textinn. Ég er náttúrlega hugfangin af þessari ballöðu í svipinn, nýbúin að lesa þessa ágætu bók.

Sem stendur er ég að lesa gegnum eigið blogg, er stödd síðsumars 2006. Sumt er ótrúlega fyndið en á heildina er þetta átakanlegur lestur. Þegar ég ber saman blogg og sjúkraskýrslur verður mér æ ljósara að þetta er saga um trúgirni og afneitun, sem sagt ekki skemmtileg saga. Á hinn bóginn mun ég aldrei verða frísk nema ég kanni þessa sögu ofan í kjölinn og nái fjarlægð frá henni: Þetta er fyrstasporsvinna þunglyndissjúklings. Líklega er skynsamlegt að vinna hana hægt … en bítandi.

Ég rakst á ýmis gullkorn um lítíum í dag. Litarexi var haldið stíft að mér árum saman, rökin voru fyrst þau að lítíum stillti sveiflur og mundi þ.a.l. koma í veg fyrir djúpar þunglyndisdýfur, a.m.k. grynnka þær, seinna urðu rökin þau að ég gæti verið með geðhvarfasýki II … fyrir þeirri sjúkdómsgreiningu voru engin haldbær rök og svo var bakkað með hana enda grunar mig að geðhvarfasýki II greining hafi bara verið almennt tískufyrirbrigði á tímabili. Litarex hafði aldrei nein áhrif til bóta og miðað við fræði Joanna Montcrieff sé ég ekki betur en ég hafi verið með snert af lítíum-eitun árum saman. Má nefna þetta:

Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkrum árum, þá ég át Litíum, kvartaði ég yfir skjálftanum við minn góða lækni. Honum þótti þetta nú heldur léttvægur skjálfti þegar ég teygði út hendurnar fyrir hann. Fólk hefur sjálfsagt mismunandi skoðanir á skjálfta … en sjálfri finnst mér helv. óþægilegt að skjálfa eins og eftir þriggja daga fyllerí, að geta ekki handskrifað, að spila eins og byrjandi á pjanófortið og eiga jafnvel erfitt með að nota lyklaborð. Kann að vera að svona “nettur” skjálfti hái konum lítið ef þær konur eru einungis í húsverkum (mér finnst samt erfitt að klemma þvott á snúrur og missti faktískt aðra hverja klemmuna í morgun) – kann að vera að til sé fólk sem skelfur miklu meira og tekur því með stöku æðruleysi – en þessi bloggynja þjáist hvorki af æðruleysi í óhófi né skorti á hobbíum eða vitsmunalegri störfum en ræstingu og þvotti (nú loksins þegar vitið er að skila sér svona soldið til baka).

Hm … það mætti kannski afsaka þetta með fyrirtíðarspennu, stöðu himintungla eða öðru tilfallandi … en ég sé ekki betur sjálf en þetta sé helv. lítíumið! Nú hef ég leikið samtal við minn góða lækni og veit að hann mundi annars vegar segja mér að gefa þessu lengri tíma, upp á að aukaverkanir réni með tímanum, og hins vegar ráðleggja mér að taka Rivotril til að slá á skjálftann ef á þarf að halda. Svo myndi hann benda á að í rauninni teldist þetta nú ekki mikill skjálfti … og ég mundi fyrtast við en segja ekki neitt af því ég kann mig svo vel … Svo mundi hann segja mér líka að þéttni Litíums í blóðtökunni í morgun væri í minnsta lagi miðað við þau millimól sem æskileg þykja og ég myndi heldur ekki segja neitt við því heldur horfa veluppalin á ‘ann.
(9. júní 2006.)

Skv. doktor.is er ég aumingi með örsjaldgæfar aukaverkanir, þar segir um Litarex: “Algengast er að aukaverkanir komi fram í upphafi meðferðar en hverfi síðan af sjálfu sér. … Algengar: Ógleði, niðurgangur, tíð þvaglát, þorsti og bjúgsöfnun í líkamanum með meðfylgjandi þyngdaraukningu, þreytutilfinning í höndum og fótum. Sumir verða skjálfhentir.”
Aha, svo “sumir verða skjálfhentir”? Ég skelf öll, er nánast með munnherkjur af skjálfta, gott ef ég gæti ekki talist skjálf-fætt! Sé ekki að þetta sé mikið að lagast eftir tveggja vikna lítíum-át.

[- – -]

Nú veit ég ekki hvort björgunarhringurinn um mittið á mér er “bjúgsöfnun með meðfylgjandi þyngdaraukningu” eða út af “aukinni matarlyst og þyngdaraukningu”. Mér er reyndar slétt sama um þetta, það eina sem plagar mig verulega er helvítis skjálftinn, sem ég slæ á með róandi, sem gerir mig svo rólega að ég koðna öll niður og leggst í bælið um hábjartan daginn (reyndar hefur viðrað einkar vel til miðdegisblunda hér á suðvestur-horninu undanfarið). Úr því þessi skjálfti er svona hroðalega sjaldgæfur þá er þessi bloggynja sennilega einfaldlega svona mikill aumingi. Í mínum huga skiptir ekki máli hvort skýringin er rétt, þetta er jafn óþægilegt fyrir það.
(15. júní 2006.)

— 

Fréttir dagsins komu nokkuð á óvart, þ.e.a.s. fréttir af því að bæjarstjórnin hefði sagt upp okkar góða bæjarstjóra. Skýringin sem hann gefur sjálfur er að einhverjir bæjarfulltrúar hafi verið orðnir leiðir á honum og hann á þeim, tekið fram að ekki sé um forustumenn bæjarins að ræða (sem núllar þá út Svein Kristinsson og eitthvað af samfylkingarliðinu, reikna ég með). Mér þætti gaman að vita hvað hefur eiginlega gengið á: valtaði bæjarstjórinn yfir rangan mann í rangri stöðu í þetta sinn?

Réttlætir tjáningarfrelsi einelti?

Nornahamar fem�nistaUndanfarna daga hafa netheimar logað eins og oft gerist og kveikjan er að þessu sinni Hildur Lilliendahl eins og oft gerist.

Upphaf máls í þetta sinn var að Fr. Lilliendahl var talin ein af áhrifamestu konum landsins skv. víðlesnu kvennablaði. Í umræðuþræði við frétt af þeirri upphefð skrifaði maður nokkur ósmekkleg skilaboð gegnum fésbókina sína; skilaboð þar sem hann grínast með að keyra yfir Hildi (ég tek glottmerkið sem svo að þetta hafi átt að vera grátt gaman eða einhvers konar vantrúarkaldhæðni) og storkar henni síðan til að birta þessi ummæli í víðfrægu albúmi sínu yfir karla sem ku hata konur. Hildur tók auðvitað umsvifalaust skjámynd af skilaboðunum en lét ekki duga að koma þeim bara fyrir í albúminu sínu heldur birti úrklippuna á fésbók.

Það varð til þess að einhver gerði símaat í sambýlismanni Hildar Lilliendahl og símaatið varð umsvifalaust að frétt: Úrklippan af smekklausu skilaboðunum fylgdi fréttinni. Nú er alls óvíst hvort sami maður og skrifaði fésbókarummælin stóð einnig fyrir símaatinu en tilefni atsins var úrklippan með smekklausu ummælunum. Um leið og fréttin af því að gert hefði verið símaat í sambýlismanninum út af smekklausu ummælunum birtist linkuðu rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur í fréttina og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins mátti sjá við svoleiðis linka.

Hið næsta sem gerist er að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl í fjórða sinn. Það er í sjálfu sér ekkert sérlega dularfullt því Hildur Lilliendahl braut notendaskilmála Facebook í fjórða sinn. Það er nefnilega óheimilt að birta skjáskot af ummælum annars Facebook-notanda nema með skriflegu leyfi þess notanda. Umsvifalaust birtast fréttir á netmiðlum um að aðgangi Hildar Lillendahl hafi verið lokað í fjórða sinn, menn fara mikinn og kalla þetta pólitískar ofsóknir (af hálfu Facebook væntanlega) og aðför að tjáningarfrelsinu o.s.fr. og meðfylgjandi eru birt smekklausu ummælin sem Hildur Lilliendahl tók skjámynd af, klippti til og birti. Rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur deila nú þeim fréttum ákaft og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins og Facebook má nú sjá við svoleiðis linka.

Bloggarinn ágæti, Eva Hauksdóttir, sem er nýbúin að blogga skemmtilega færslu um nornabrennur, kyndir nú undir einni slíkri í færslunni Verjum tjáningarfrelsi Hildar Lilliendahl. Í þeirri færslu er að sjálfsögðu birt skjáskot af smekklausu ummælunum – svona ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum – og Eva hefur skrifað, hringt og efnt til undirskriftasöfnunar, allt til að verja rétt Hildar Lilliendahl til að brjóta reglur þess amríska umræðuvettvangs Facebook. Og auðvitað linka réttsýnir femíniskir fésbókarnotendur í bloggið Evu og deila á sínum fésbókum og ýmis ósmekkleg o.s.fr.

Einhverjir eru búnir að fletta upp ósmekklega skilaboðamanninum í þjóðskrá og aðrir hafa flett honum upp á ja.is. Það er bara tímaspursmál hvenær einhverjir rétthugsandi tjáningarfrelsiselskendur færa sig úr sýndarheimum í kjötheima, henda grjóti í hús mannsins, teppa símann hans með hótunum, velta honum upp úr tjöru og fiðri eða þaðan af verra. Skjáskotið af ummælum hans lifir áfram víða á vefnum. Líklega er heppilegast fyrir hann að sækja um nafnbreytingu eða flytja úr landi úr því sem komið er: Skömm þessa manns verður uppi meðan netheimar byggjast.

Hildur Lilliendahl er Pussy Riot Íslands, hlutskipti hennar er jafnvel líkt við við aðstæður rithöfundarins Salman Rushdie eða pakistönsku stúlkunnar Malala Yousafzai. Hildur sætir jafn ómaklegum ofsóknum og þau fyrir skoðanir sínar: Ósmekklegum fésbókarummælum, símaati og fésbókarlokun! Eða eins og einn aðdáandi hennar orðar það:

Hins vegar ef við notum eitthað [svo] hlutlægt mat á hvað hetja er þá væri það einmitt einhver sem stendur á sinni sannfæringu samkvæmt sinni réttlætiskennd, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til skoðanakúgunar, þöggunar og hótanir um líkamsmeiðingar og skemmdarverk. Ég fæ ekki séð hver munurinn er á Hildi í þessu sambandi og Salmon [svo] Rushdie eða Malölu, Rushdie var aðeins hótað, líkt og Hildi, er hann ekki bara paranoid?

Réttsýnir og rétthugsandi netnotendur munu væntanlega halda áfram að úthrópa manninn sem var svo vitlaus að skrifa ósmekkleg fésbókarskilaboð um Hildi Lilliendahl og leggja sitt af mörkum til þess að Fr. Lillendahl megi brjóta reglur Facebook vegna þess að málstaður hennar er svo göfugur. Ég hugsa að hinir réttsýnu og rétthugsandi séu fjarskalega mikið á móti einelti á netinu en finnist í þessu tilviki í góðu lagi að leggja sjálfir smekklausa skilaboðamanninn í rækilegt óafturkræft einelti … allt er eineltið jú í þágu hins góða málstaðar.

Að lesa um sjálfa sig

Ég er næstum búin að lesa Pillret, sænska bók sem ég hef áður minnst á og fjallar um sjúkdómsgreiningar þunglyndis- og kvíða og lyfjameðferð í sögulegu ljósi (og raunar margt margt fleira). Höfundurinn Ingrid Carlberg hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir þessa bók.

Söguleg og fræðileg umfjöllun er brotin upp af lífreynslusögum og í gærkvöldi las ég söguna Annika och tröttheten. Mér brá nokkuð við þennan lestur því þótt aðstæður Anniku hafi verið ólíkar mínum var upphaf veikinda og meðferðin sem henni var veitt kannski ekkert svo ólíkt. Saga Anniku endaði vel en mér finnst lítið hafa ræst úr minni, vonast þó til þess að ná bata með tíð og tíma.

Þetta byrjaði allt með því að Annika var örmagna af svefnleysi. Hún var einstæð móðir tveggja barna og yngra barnið með viðvarandi magakrampa vegna mjólkuróþols og óþols fyrir fleiri fæðutegundum. Þegar hún loksins leitaði á náðir heilsugæslunnar í febrúarbyrjun, eftir að hafa ekki fengið nægan svefn í meir en hálft ár, fékk hún viðtal við læknanema sem taldi hana mögulega geta verið þunglynda: Þunglyndi lýsti sér ekkert endilega í að vera niðurdregin heldur gæti komið út sem svefnleysi og að grennast, sagði læknaneminn. Annika svaf lítið og hafði grennst töluvert. Hún fékk í kjölfarið viðtal við geðlækni sem ávísaði þunglyndislyfi. Þunglyndislyfið kveikti mikinn almennan kvíða og ofsakvíðaköst. Svo Annika fékk róandi lyf við kvíðanum. En henni leið bölvanlega og hvað eftir annað leitaði hún á náðir heilsugæslu og bráðamóttöku geðsviðs á næstu vikum og mánuðum. Annika tók eftir því að nú var lítið hlustað á það sem hún hafði að segja, allt var skrifað á geðheilsu hennar, meira að segja verkir í kinnholum.

Annika byrjaði að trappa niður þunglyndislyfið í samráði við heilsugæslulækni. Þá snarversnaði henni og hún var lögð inn á geðdeild, fært í sjúkraskrá að hún þyrfti líkast til sterkari geðlyf til að ráða bót á slæmu þunglyndi. Þáverandi þunglyndislyf var trappað út og Annika sett á nýtt lyf, við útskrift var skammturinn tvöfaldaður og Annika fékk áfram róandi lyf og nú svefnlyf að auki. Hún fékk líka sjúkdómsgreiningu við útskrift: F 322 Djúp geðlægð án sturlunareinkenna.

Viku síðar margfaldaðist kvíðinn. Annika reyndi næstu mánuði að benda á að sér versnaði bara af nýja lyfinu: “I februari, när jag första gången fick medicinen, uppfyllde jag inte ett enda symtom för depression. Nu kunde jag kryssa i nåstan alla rutorna i diagnosskalorna.” Og sjálfsvígshuganir urðu æ áleitnari. Á tímabili var hún í daglegu sambandi við yfirlækni geðdeildarinnar.

Snemma í júlí leitaði Annika enn einn ganginn á bráðamóttöku og talaði við óbreyttan lækni. Sá listaði upp lyfin sem hún var nú á, allar tólf sortirnar: Meirhlutinn var geðlyf en þremur tegundir af verkjalyfjum hafði einnig verið ávísað vegna lið-og vöðvaverkja. Yfirmaður hins óbreytta bókaði í sjúkraskrá að líðan Anniku stafaði af  aukaverkunum af lyfjum og ákveðið var að trappa lyfin ansi hratt niður.

Laust eftir miðjan júlí var Annika hætt á þunglyndislyfjunum. En svona hraðri niðurtröppun fylgdi skelfilegt fráhvarf, t.d. martraðir, kvíði, óþægindi í öllum skrokknum og tilfinning eins og rafstuð í höfði. Annika fór að velta fyrir sér hvort hún væri með heilaæxli og henni fannst að legið væri að detta úr sér. Svo hún leitaði til læknis.

Í sjúkraskrá var bókað að Annika væri illa haldin af þunglyndi og hefði ranghugmyndir sem minntu á geðrof, því til sönnunar bókuð absúrd hugmyndin um legið. Og Annika var aftur lögð inn á geðdeild.

Skv. sjúkraskrá bað hún sjálf um “nýtt kraftaverkalyf”. Yfirlæknirinn sem hafði sinnt henni síðast taldi Anniku nú hafa persónuleikaröskun auk svæsins þunglyndis. Hann velti fyrir sér að setja hana á enn sterkari lyf en ákvað á síðustu stundu að reyna fremur raflækningar.

Raflækningarnar reyndust hafa mjög góð áhrif og “hin gamla Annika” leit aftur dagsins ljós. Hún náði aftur tökum á eigin lífi.

Í viðtölum við Ingrid Carlberg kemur fram að Annika leitaði aftur til læknanna eftir að henni batnaði í leit að skýringum eða afsökunarbeiðni. Yfirlæknirinn á geðdeildinni sagði henni þá að sín skoðun hefði verið að fjórfalda ætti lyfjaskammtinn, að vandinn hefði falist í því að hún tók of lítið af lyfjum. Að auki talaði hann um vandræði fólks sem gerði of miklar kröfur til sjálfs síns (en hann hafði bókað svolítið um hve krefjandi starfi Annika sinnti og að hún gerði of miklar kröfur til sín í starfi).

Annika snéri aftur til starfa, í sitt “intellektuellt krävande arbet” og hefur þrifist ágætlega í því starfi í mörg ár. Sjálf heldur hún að ef hún hefði fengið fjögurra nótta óslitinn svefn í nóvember og desember hefði hún aldrei orðið svona veik og ekki leitað til heilsugæslu í febrúar … og hún hefði þá ekki tapað hálfu ári úr lífi sínu, segir hún.

Þremur árum eftir hina erfiðu reynslu Anniku af læknisaðferðum geðlækna fékk hún greiddar skaðabætur úr sjúklingatryggingu ríkisins “för det förlängda bristerna i sjukvårdens behandling och uppföljning inneburit för henne.”

Íþaka

Þegar þú heldur af stað til Íþöku skaltu
óska þess að ferðin verði löng,
lærdómsrík og full af ævintýrum.
Óttastu ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur reiðan sjávarguð.
Ef hugur þinn dvelur við háleit efni,
ef hold þitt og andi eru snortin því besta,
þá verða slíkir ekki á vegi þínum.
Þú hittir ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur trylltan sjávarguð
nema þú berir þá sjálfur í eigin sál,
nema sál þín reisi þá upp á móti þér.

Óska þess að ferðin verði löng,
að marga sumarmorgna komir þú
með unaði og gleði í ókunnar hafnir;
að í kaupstöðum Fönikíumanna,
staldrir þú við og eignist ágæta gripi,
perlumóðurskeljar, kóralla, raf og fílabein
og þokkafullan ilm af öllum gerðum,
sem allramest af þokkafullum ilmi;
að í borgum Egypta komir þú víða
og nemir, já nemir af þeim lærðu.

Hafðu Íþöku ávalt í huga.
Að komast þangað er þitt lokatakmark.
Gættu þess samt að herða ekki á ferðinni.
Betra er að hún endist árum saman;
þú takir land á eynni gamall maður,
auðugur af því sem þér hefur áskotnast á leiðinni
og væntir þess ekki að Íþaka færi þér neitt ríkidæmi.

Íþaka gaf þér stórkostlegt ferðalag.
Án hennar hefðir þú aldrei lagt af stað.
En hún hefur ekkert meira að gefa þér.

Þótt kostarýr virðist hafði Íþaka þig ekki að fífli.
Enda ert þú orðinn svo vitur, með slíka reynslu,
að þér hefur skilist hvað Íþökur þýða.

(Konstantinos P. Kavafis 1911. Atli Harðarson þýddi.)

Ég er lögð á stað til Íþöku …