Category Archives: Geðheilsa

Upphaf lost-lækninga við geðveiki

  
  
Insúlín-lost Manfreds Sakel

Manfred Sakel fæddist í Austurrísk-ungverska keisaradæminu og stundaði nám í Vín. Árið 1927 gegndi hann störfum geðlæknis á hæli fyrir eiturlyfjafíkla í Berlín. Ýmsir listamenn leituðu sér hjálpar á þessu hæli, þar á meðal leikkona sem var morfínfíkill en að auki sykursjúk. Fyrir mistök gaf Sakel henni of stóran skammt af insúlíni og hún féll í dá. Þegar hún rankaði við sér aftur virtist morfínfíknin á bak og burt. Sakel prófaði því að gefa öðrum fíklum stóra skammta af insúlíni og taldi sig hafa uppgötvað lækningu gegn fíkn. Uppgötvun hans fékk engan hljómgrunn en þegar hann flutti aftur til Vínar, árið 1933, hélt hann áfram insúlín-tilraunum sínum.

Insulin lostSvo háttaði til að Sakel hafði umsjón með deild geðklofasjúklinga í Vín. Hann reyndi insúlínið á þeim enda þóttist hann hafa merkt í fyrri tilraunum að insúlín hefði góð róandi áhrif á geðsjúka. Sakel sprautaði sjúklingana með stórum insúlínskömmtum, blóðsykur þeirra féll mjög og þeir féllu í djúpt dá. Áður en þeir misstu meðvitund fengu margir þeirra krampa. Til að lífga sjúklinga aftur úr insúlíndáinu hellti Sakel ofan í þá sykurlausn, ca. 150 g af sykri uppleystum í vatni.

Manfred Sakel hafði enga skýra kenningu um það af hverju þessi meðferð virkaði. Hann taldi að kannski blokkeraði insúlínið virkustu heilafrumurnar – sem yllu geðveikinni – og á sama tíma styrkti það „eðlilega virkni“ í heilanum. Eða að insúlínið hefði „afeitrunaráhrif“, ef vera kynni að seinna kæmi í ljós að geðklofi stafaði af einhvers konar eitrun. Að mati Sakel skipti þetta litlu máli, aðalatriðið var að meðferðin virkaði.

Sakel gaf út fyrstu niðurstöður sínar á tilraunum með stóra insúlínskammta árið 1933, tveimur árum síðar gaf hann út bókina Neue Behandlungsmethode der Schizophrenie. Í bókinni hélt hann því fram að árangurinn væri undraverður: Yfir 70% geðklofasjúklinga hefðu náð fullum bata og allt í allt hafði 88% af sjúklingunum batnað eitthvað. Þetta spurðist um heim allan enda geðklofi sérlega erfiður viðureignar og á geðveikrahælum beggja vegna Atlandshafsins var insúlín-lost-meðferðin umsvifalaust tekin upp.

Danski geðlæknirinn Otto Jul Nielsen sótti Sakel heim í Vínarborg, sá með eigin augum árangurinn og byrjaði að prófa á sínum sjúklingum á Frederiksberg Hospital 1936. Fljótlega fylgdu ríkisreknu geðsjúkrahúsin í kjölfarið, fyrst Sindssygehospitalet í Árósum, síðan Vordingborg og svo koll af kolli.

Vagn Askgaard, yfirlæknir á Vordingborg, skrifaði grein í Månedsskrift for Praktisk Lægegerning þar sem hann lýsti reynslunni á Vordingborg og framkvæmd insúlínlosta þar. Eins og í Vínarborg byrjum við snemma á morgnana og sjúklingarnir eru sprautaðir klukkan 7, sagði Askgaard. Stuttu eftir sprautuna byrjuðu sjúklingarnir að svitna gífurlega og slefan rann í stríðum straumum. Áður en meðvitundarleysið tók við fengu sjúklingarnir kippi og krampa og stundum flog sem líktist flogaveiki. Svo féllu þeir í dá og engin viðbrögð við áreiti voru merkjanleg. Í dáinu lágu þeir með opin augun. Til að vekja sjúkling úr dái var leidd sonda gegnum nös ofan í maga og hellt í sykurvatni um trekt. Venjulega gefum við sykurinn um 11-11.30 leytið og svo verður að bíða í 8-10 mínútur uns sjúklingurinn rankar úr rotinu. Vaninn er að gefa hverjum sjúklingi lost 6 sinnum í viku í allt að þrjá mánuði.

Árið 1937 ákváðu danskir geðlæknar á fundi Danska geðlæknafélagsins að taka saman yfirlit yfir árangurinn af insúlín-lostunum (og raunar cardiazol-lostunum líka). Sú vinna tók tímann sinn því um leið þurfti að ná samkomulagi um greiningu geðsjúkdóma, þ.e.a.s. hanna samræmda greiningu. Niðurstöðurnar litu ekki dagsins ljós fyrr en á fundi í janúar 1941 og voru birtar opinberlega í tímaritinu Acta Psychiatrica et Neurologica árið 1942. Í hópi 162 ótvíræðra geðklofasjúklinga hafði einungis 4 batnað við insúlín-lostin. „Þetta var eins og ísköld vatnsgusa“, sagði geðlæknirinn Villars Lunn seinna um fundinn, „en kom okkur þó ekki að óvörum. Því við vissum hver skýringin var – nefnilega þær stífu og ófrávíkjanlegu kröfur sem við hérlendis gerum skylt að uppfylla til að sjúkdómsgreina geðklofa.“ Í þessari úttekt kom einnig í ljós að um 1% sjúklinganna hafði dáið af meðferðinni. Ýmsar aðrar óheppilegar aukaverkanir fylgdu henni, t.d. vandamál tengd hjarta og lungum og beinbrot af ýmsum toga. En fundarmenn samþykktu einróma að „þrátt fyrir ýmsa erfiðleika“ væru bæði insúlín-lost og cardiazol-lost „óvenju stórt framfaraspor innan geðlækninganna.“  Danskir geðlæknar héldu áfram að nota bæði insúlín-lost og cardizol-lost eftir þetta þótt raflost og lóbótómía leystu þau fljótlega að hluta til af hólmi. Þeir héldu einnig áfram að skrifa lofsamlega um bæði insúlín-lost og cardiazol-lostin, þrátt fyrir niðurstöðurnar sem fengust 1941.

Hér má sjá myndband af sjúklingi sem fær insúlínlost. Menn ættu ekkert að horfa á það nema þeir séu sterkir á taugum … Og í upphafi norska sjónvarspþáttarins/fréttarinnar Sjokkbehandling i norsk psykiatrihistorie sést sjúklingur fá insúlínlost, um miðbikið sést meir af sama atburði.
 

Að sögn Óttars Guðmundssonar (2007, s. 73) hafði Helgi Tómasson, yfirlæknir á Nýja-Kleppi, áhuga á insúlínlost-meðferðinni og vildi senda hjúkrunarfræðing til útlanda til að kynna sér aðferðina en „hún virðist aldrei hafa komist í almenna notkun.“ Kristján Þorvarðsson geðlæknir skrifar í greininni Rotlækningar geðveikra (Shock therapia) í Læknablaðinu 1947 mjög lofsamlega um insúlínlost-aðferðina, segir: „Árangurinn hefir orðið misjafn, en flestir eru þó sammála um, að insúlin-lækningin gefi betri árangur við schizophrenia en nokkur önnur lækningaðaðferð sem enn hefir verið reynd við sjúkdómi þessum.“ Máli sínu til sönnunar vitnar Kristján í bandaríska könnun. Hann segir að batinn haldist misjafnlega lengi, fáar vikur til eins árs hafi sjúkómurinn staðið lengi en „hafi veikin aðeins varað stutt, getur batinn haldizt árum saman.“ Kristján nefnir að insúlínlost gefist og afar vel við „confusio mentis psychogenia, paranoid psychogen psychosum og neurosum“. Það er engin leið að meta af grein hans hvort hann hefur prófað þetta sjálfur á sínum sjúklingum eða byggir einungis á því sem hann hefur lesið. Kristján nam geðlækningar í Danmörku, starfaði á ýmsum geðveikraspítölum þar á árunum 1937-44, og var búinn að lesa niðurstöður Danska geðlæknafélagsins sem birtust 1942 en vitnar ekki í þær þegar hann fjallar um árangur insúlínlostanna.

Í grein Alfreðs Gíslasonar, Bjarna Oddssonar og Kristjáns Þorvarðssonar, Lobotomia, sem birtist í Læknablaðinu 1952, eru raktar margar sjúkrasögur. Ein þeirra er saga 44 ára gamallar ógiftrar konu:
 

[Hún hefur verið] geðveik í 17 ár, byrjaði með exaltio, breyttist brátt í schizophren mynd (katakonia).  Fékk insulinlost 1936 (Jón heitinn Geirsson læknir) í 3 vikur, án árangurs. 1937 cardiazol-lost, 20 aðgerðir (J. G.) með allgóðum árangri. Bati hélzt stutt.

Jón Geirsson var fæddur 1905 og starfaði sem heimilislæknir á Akureyri frá 1934 til æviloka árið 1950. Hann hlýtur að hafa beitt þessum meðferðum á sjúkrahúsinu þar.

Af ofansögðu er ómögulegt að ráða í hve miklum mæli insúlín-losti var beitt á geðklofa sjúklinga á Íslandi. Sjálfsagt hefur það ekki verið ýkja mikið því það þurfti að gera þetta á sjúkrahúsi, með aðstoðarfólk við höndina og helst að hafa tiltækt adrenalín ef sjúklingurinn vaknaði ekki úr dáinu.
 
 

Cardiazol-lost Ladislas Meduna

Um svipað leyti og Manfred Sakel fann upp insúlín-lost fann Ladislas J. Meduna upp cardiazol-lostin. Meduna þessi var ungverskur geðlæknir sem hafði, af klínískri reynslu sinni, tekið eftir að geðklofasjúklingar voru nánast aldrei flogaveikir. Hann fór að velta fyrir sér af hverju þetta gæti stafað. Hann rannsakaði heila bæði flogaveikra og geðklofasjúklinga og taldi sig sjá að í heilum hinna fyrrnefndu var meira taugatróð (vefur til styrktar taugafrumum, heitir glia á ensku) en eðlilegt gat talist og að sama skapi minna taugatróð en eðlilegt gat talist í heilum geðklofasjúklinganna. Af því dró hann þá ályktun að flog/krampar gætu aukið taugatróðið í geðklofasjúklingum sem myndi þá lækna sjúkdóminn.

Meduna hóf strax leitina að efni sem framkallaði krampa Hann byrjaði á því að gera tilraunir á dýrum og var loks á því að kamfóra virkaði skást í þessum tilgangi (eftir að hafa prófað koffein, stryknín, o.fl.) Svo fór hann að gera kamfóru-tilraunir á geðklofa sjúklingum sínum í Lipotmez, rétt fyrir utan Búdapest. Þótt Meduna þættist merkja að sjúklingunum batnaði talsvert við að vera sprautaðir með kamfóru var hann ekki nógu ánægður með áhrif hennar og skipti yfir í cardiazol (efnið pentylenetetrazol, einnig kallað metrazol). Áður hafði cardiazol verið notað sem hjartalyf en væri því sprautað í stórum skömmtum olli það nánast umsvifalaust krampa, virkaði miklu hraðar en kamfóran. Medina birti fyrstu niðurstöður sínar á tilraunum til að sprauta cardiazoli í 26 geðklofasjúklinga (þar sem hann hélt því fram að tíu hefði alveg batnað og þremur batnað að hluta) árið 1935 og aðalritverk hans, Die Konvulsionstherapie der Schizophrenie,  kom út 1937. Í því segir hann frá árangri meðferðarinnar á 110 sjúklingum og staðhæfir að helmingi þeirra hafi batnað. (Þegar seinni tíma menn fóru ofan í saumana á rannsóknum Medina kom í ljós að hann hafði hagrætt niðurstöðunum töluvert.) Geðlæknar um alla Evrópu tóku aðferð Medina fagnandi, geðlæknar í Ameríku fögnuðu henni enn meir, og cardiazol-lostin voru hvarvetna notuð á geðklofasjúklinga.

cardiazol lostÍ Danmörku voru geðlæknar við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn fyrstir til að nota cardiazol-lost, svo Vordingborg og svo hver spítalinn á fætur öðrum. Í Vordingborg tóku menn daginn snemma: Sjúklingurinn sem átti að meðhöndla var látinn liggja á bakinu í rúmi sínu með útlimi teygða frá sér. Koddi var settur undir höfuðið og samanbrotinn koddi undir axlir til að draga úr slysahættu af ofsafengnum krömpunum. Sjúklingurinn var svo sprautaður með 500-700 milligrömmum af uppleystu cardizoli. Tíu sekúndum eftir sprautuna þurfti læknirinn að grípa um úlnliði sjúklings og halda föstum, jafnframt að ýta niður öxlum hans. Næstu 50 sekúndurnar fékk sjúklingurinn slæmt flog, húðin blánaði, hendur og fætur kipptust til ótt og títt og loks missti sjúklingurinn meðvitund.

Á YouTube er örstutt myndband af sjúklingi sem er sprautaður með cardizol. Ég vara viðkvæma við að horfa á það.

Til er lýsing sjúklings á þessari meðferð, tæplega fertugs karlmanns sem var lagður inn á Vordingborg og greindur manio-depressívur. Yfirlæknar lásu yfir öll bréf til og frá sjúklingum og héldu eftir bréfum ef þeim sýndist, bréfin hafa svo varðveist með sjúkraskrám. Sama skikk var á Kleppi og þess vegna hefur fjöldi bréfa sjúklinga varðveist, að sögn Óttars Guðmundssonar (2007). Maðurinn á Vordingborg skrifaði fjölskyldu sinni og sagði frá cardiazol-lostmeðferðinni sem hann var beittur árið 1938:
 

Undanfarið hef ég fengið ca. 5-7 sprautur með einhverju sem heitir cardiazol. Sprautað er í venu (æð sem liggur til hjartans) í hægri olnbogabót. Þetta er eitthvað nýtt segir Dr. Hahnemann. Það hefur mjög sterka verkun, allt öðru vísi en allt annað, sem ég hef hingað til verið sprautaður með. Ca. 10 sekúndum eftir að maður hefur verið sprautaður er eins og manni sé kippt út úr sjálfum sér inn í annan heim, en samt sér maður þá sem standa hjá eins og í gagnsærri þoku. Þetta er algerlega óþolandi og fullkomlega ómögulegt að komast út úr þessu. Stundum er verkunin sterkari, stundum veikari; þegar hún er sterk sér maður sýnir. Stofan sem maður liggur í fer að líkjast helvíti og það er eins og maður brenni í ósýnilegum eldi. Þetta er mjög óhugnalegt. En nú er þessu sem betur fer lokið.

Verkunin af cardiazol var svo óhugnaleg að margir sjúklingar voru skelfingu lostnir af tilhugsuninni um sprauturnar. „Það kom fyrir að við, oft fjórir karlmenn, þurftum bókstaflega að brjóta mótspyrnu sjúklinganna á bak aftur“ sagði Villars Lunn, sem starfaði á Vordingborg (og varð seinna yfirlæknir á Rigshospitalet). Í sjúkraskrám Vordingborg er víða nóterað eitthvað um sjúklinga sem voru dauðhræddir við cardiazolmeðferðina. Ein kona var „svo hrædd við líkurnar á að henni yrði gefið annað lost, að hún hefur æpt hástöfum frá því snemma í morgun“ og „hótað að hárreyta deildarlækninn“.Yfirlæknirinn á Vordinborg, Victor Hahnemann, skrifaði grein um frábæran árangur af cardiazol-meðferðinni þar á árunum 1937-38 og birti í Ugeskrift for Læger í júní 1939. Þar segir hann að af 207 sjúklingum með geðklofa hafi 19% náð fullum bata, 33% náð nokkrum bata en enginn bati sjáist hjá 48% þeirra. Auk þeirra hafi hann meðhöndlað 24 þunglyndissjúklinga og 15 maníusjúklinga: Öllum batnaði. Niðurstaða hans var að cardiazol-lost væru ekki bara dýrmætt verkfæri til að fást við geðklofa heldur einnig lundarfars-geðveiki (stemnings-psykoser).

En … þegar Danska geðlæknafélagið fór að athuga kerfisbundið hverju cardiazol-lostin (og insúlin-lostin) hefðu skilað (sjá um þessa ákvörðun ofar í færslunni) og birti niðurstöðurnar fyrst á fundi 1941, síðar í fagriti 1942, varð ljóst að draumalækningin sem Hahnemann taldi sig hafa séð var tálsýn. Einungis 9 geðklofasjúklingum af 782 hafði batnað að fullu! Í hópi annrra geðsjúklinga (manio-depressivra, þeirra sem ekki var öruggt að væri geðklofa o.fl.) var árangurinn miklu betri, eða fullur bati hjá tæplega 40% þeirra. Cardiazol-lostin reyndust ekki eins hættuleg og insúlín-lostin en samt dóu 0,5% þeirra sem meðferðinni voru beittir. Talsvert var um skaða í lungum, hjartakvilla, sprungur á hrygg, upphandlegg og í hálsi.

Þótt menn kæmust upp á lag með að nota curare sem vöðvaslakandi lyf í lost-meðferðum fljótlega upp úr 1940 byrjuðu Danir ekki að nota það fyrr en 1948. Upp úr 1950 var hætt að nota cardiazol og insúlín til að framkalla krampa í geðsjúklingum, raflostin urðu þá allsráðandi.

Það er athyglisvert að þegar Kristján Þorvarðsson, danskmenntaður geðlæknir hér á landi, lýsir niðurstöðum Danska geðlæknafélagsins (í greininni Rotlækningar geðveikra í Læknablaðinu 1947) orðar hann þetta svona:
 

Árið 1942 lét Dansk psykiatrisk Selskab safna skýrslum um árangurinn af cardiazolaðgerðinni á schizophrenum sjúklingum. 11,3% urðu albata, þeirra, sem ekki höfðu verið veikir lengur en 1 ár.

Þarf varla að taka fram að Kristjáni þótti þetta mikil ágætis-lækningaraðferð og hann bætir við, með tilvísun í dönsku niðurstöðugreinina:
 

Cardiazol-meðferðin hefir verið reynd við psychogen psychosur, depressio mentis (bæði endogen og psychogen depressio), einnig við depressionir í klimakteríum, mani og psychoneurosum. Árangurinn er oftast góður og batinn fæst venjulega eftir fáar aðgerðir, fullur bati eða allgóður í yfir 75% tilfella. (Acta psych. 1942).

Því miður hef ég ekki aðgang að greininni í Acta Psychiatrica et Neurologica árið 1942 og get því ekki rakið nákvæmlega hvernig Kristján fegrar mynd sína af árangri cardiazol-losta. Hann telur raunar að raflost séu mun heppilegri því árangurinn sé ekki síðri af þeim og sjúklingarnir ekki nærri eins hræddir við raflostin.
 
 

Ómögulegt er að segja til um í hve miklum mæli cardiazol-lost voru notuð á Íslandi. Í sjúkrasögunni sem vitnað var í fyrr í færslunni kemur fram að sjúklingurinn (44 ára gömul kona) hafði árið 1937 verið sprautuð með cardiazol tuttugu sinnum, á Akureyri. Nær öruggt er að þessa meðferð hefur ekki verið hægt að veita nema á sjúkrahúsi. Á eina geðsjúkrahúsi landsins, Kleppi, var hún ekki notuð því Helgi Tómasson hafði illan bifur á cardiazol-lostum. Í greininni Rafrot við geðveiki, sem birtist árið 1955 segir Helgi:
 

    Tortryggni mín kom þegar upp við lestur fyrstu greinar v. Meduna um krampaaðgerðirnar, þar sem hann ályktar út frá því, sem vitanlega var rangt, þ. e. andstæðu geðklofa og flogaveiki.
    Það jók tortryggni mína, þegar ég sá sjúkling, sem telja varð lítið veikan, með cardíazolkrampa, sams konar krampa og maður árum saman hafði verið að berjast á móti, hafði jafnvel séð sjúkling deyja af, og manni gat aldrei skilizt, að nokkur sjúklingur hefði nema illt af krömpunum. Það bætti ekki um, þegar maður fékk nokkra sjúklinga til meðferðar á spítala eða utan spítala með sjúkdóm, sem manni virtist hefði átt að albatna, en sjúklingarnir höfðu í þess stað fengið „vefræn“ einkenni í viðbót, að því er bezt varð séð, vegna þeirrar rotmeðferðar sem þeir höfðu sætt hjá öðrum lækni.

Helgi fór nær árlega utan til að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í geðlækningum. Það kann vel að vera að suma sjúklingana sem hann lýsir í þessu broti hafi hann séð ytra en kann líka að hafa verið hérlendis.
 
 
 
 
 

Heimildir aðrar en krækt er í úr  færslunni:
 

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson. Lobotomia. Læknablaðið 36. árg., 7. tbl., s. 97-112. 1952.

Helgi Tómasson. Rafrot við geðveiki. Heilbrigðisskýrslur 1951. 1955.

Kragh, Jesper Vaczy. Psykiatriske chokbehandlinger. Magasinet Humaniora nr. 4, s. 4-7. 2005.

Kragh, Jesper Vaczy. Shock Therapy in Danish Psychiatry. Medical History, 54. árg., s. 341-364. 2010.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Kristján Þorvarðsson. Rotlækningar geðveikra (Shock therapia). Læknablaðið 32. árg., 2. tbl., s. 17-22. 1947.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Psykiatriens Historie i Danmark. Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh.

Shorter, Edward. A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac. John Wiley & Sons, Inc. Bandaríkjunum. 1997.
 
 
 
 
 

Malaría, brennisteinsolía og hiti við geðveiki

Julius Wagner-Jauregg starfaði sem geðlæknir í Vínarborg og af klínískri reynslu sinni þóttist hann hafa tekið eftir að geðsjúklingum af sýfilis sem fengu hitasótt skánaði geðveikin. Wagner-Jauregg fór því að prófa sig áfram með að framkalla hitasóttarviðbrögð í sjúklingum sínum, prófaði m.a. að sýkja þá með streptókokkum og turbeculini (efni unnið úr berklabakteríunni, var talið gagnast til að lækna berkla en reyndist ónothæft til þess, hins vegar var það seinna notað til að prófa húðviðbrögð þegar skimað er fyrir berklum) en hafði ekki erindi sem erfiði. Lukkuhjólið snérist honum í hag þegar hann fékk malaríusmitaðan hermann á taugadeildina sína. Malaría var miklu viðráðanlegri en önnur alvarleg hitasótt því kínín var uppfundið og mátti gefa við malaríu. Wagner-Jauregg sprautaði blóði malaríusmitaða sjúklingsins í tvo sjúklinga með sýfilisgeðveiki (dementia paralytica) þann 14. júní 1917; svo notaði hann blóðið úr þeim til að sýkja lítinn hóp sýfilis-geðveikis-sjúklinga. Þessir sjúklingar fengu háan hita. Þegar hitinn hafði náð hámarki nokkrum sinnum var þeim gefið kínín gegn malaríunni. Og voru þá frískir af geðveikinni, að mati Wagner-Jauregg.

Wagner-Jauregg birti niðurstöður tilrauna sinna árið 1918. Í þeim hélt hann því fram að uppundir 70% sjúklinganna hefði batnað geðveikin við að sýkjast af malaríu. Á þessum tíma var geðveiki af völdum sýfilis stórt vandamál á evrópskum geðveikrahælum; Hún var gersamlega ólæknandi og dauðdaginn hræðilegur. Frá því veikin braust út og þar til menn dóu liðu að jafnaði þrjú ár. Svo menn tóku uppgötvun Wagner-Jauregg fagnandi og árið 1927 fékk hann Nóbelsverðlaunin fyrir uppfinningu sína, fyrstur geðlækna.

Sokkur sýfilsgeðveiks sjúklingsÍ Danmörku vildu menn auðvitað reyna þetta líka. Sjúklingar með dementia paralytica voru margir þar: Árið 1924 var áætlað að þeir væru 10%-20% af öllum innlögnum á geðveikahæli í Danmörku, við síðari tíma athugun á innlögnum á Sct. Hans spítalann í Hróarskeldu á árabilinu 1915-1921 reyndust sjúklingar með sýfilis-geðveiki vera 18% allra innlagðra.

Yfirlæknirinn á Sct. Hans í Hróarskeldu, Axel Bisgaard, lýsti dementia paralytica á þessa leið, árið 1923:

Fyrstu merki sjúkdómsins eru venjulega minnistruflanir, að sjúklingurinn er illa áttaður og lundin er ýmist svartsýn eða í skýjunum. Oft er göngulag skrykkjótt og vöðvakippir í andlitinu, einkum kringum munninn. Sjúklingurinn á erfitt með mál, skrift hans er hrafnaspark og hann gerir urmul af villum. Sjáöldrin eru sem títuprjónar. Sé sjúklingur í skýjunum slær hann um sig með stórfenglegum hugmyndum og loftköstulum, sem tengjast á furðulegan hátt og orðfæri er undarlegt. Seinna meir lamast svona sjúklingar oft að hluta og fá krampaköst, samfara því að sjúklingurinn verður æ sljórri og að lokum alveg út úr heiminum.  

Myndin er úr Psychiatrie: Ein Lehrbuch für Studirende und Aerzte eftir Emil Kraepelin (útg. 1899) og sýnir sokk sem sýfilisgeðveikur sjúklingur prjónaði. Sem sjá má kemst enginn í þennan sokk.
 

Fyrstur til að prófa malaríumeðferðina í Danmörku var Axel Bisgaard, yfirlæknir á Sct. Hans. Hann fór með tvo sjúklinga sína til Vínarborgar, til Wagner-Jauregg, og lét smita þá þar. Blóðið úr þeim var svo notað til að smita fleiri og þannig koll af kolli á geðsjúkrahúsum um alla Danmörku. Fyrirmælum Wagner-Jauregg var fylgt: Sjúklingarnir skyldu fá 10 hitatoppa, þar sem hitinn væri 40°-41°stig og svo mátti gefa þeim kínín. Þetta var auðvitað hrossalækning og talverð hætta á að deyja af henni. Niðurstöður deildarlæknis á Sct. Hans, sem skoðaði afdrif hundrað malaríusýktra kvenna, árið 1939, voru að 13% hefðu látist úr malaríunni. 1944 fóru menn aftur yfir tölurnar á Sct. Hans og þá var niðurstaðan sú að af öllum sjúklingum sem þessi lækningaraðferð var prófuð á hefðu 7% látist af meðferðinni. En jafnframt virtist 30-50% hafa batnað svo dönsku geðlæknarnir voru áfram jákvæðir í garð þessarar meðferðar.

Menn höfðu samt ekki hugmynd um af hverju malaríusýkingin virkaði. Sumir héldu að malarían truflaði einhvern veginn sýfilisbakeríuna, sumir héldu að hitinn sjálfur væri læknandi, sumir héldu að malarían styrkti líkamann til að framleiða mótefni sem hægði á sárasóttinni (sýfilisnum).

Smám saman dró úr notkun þessarar aðferðar í Danmörku. Kom þar ýmislegt til, t.a.m. erfiðleikar við að halda malaríunni við, þ.e.a.s. að hafa alltaf til reiðu smitaða sjúklinga í mörgum blóðflokkum svo hægt væri að smita aðra sjúklinga, nýjar hitahækkandi aðferðir eins og hitakassar (sjá undir lok þessarar færslu), sem komu líkamshitanum í 40°, héldu innreið sína 1942 og loks þegar pensillínið kom á markað eftir síðari heimsstyrjöldina vann það á sýfilis og dementia paralytica varð sárasjaldgæfur geðsjúkdómur. Samt sem áður var haldið eitthvað áfram að smita sýfilisgeðveika með malaríu, t.d. var þeirri meðferð beitt á 13 sjúklinga árið 1948 og 22 sjúklinga árið 1949 á Sct. Hans geðsjúkrahúsinu. En svo hættu menn þessu.

Mér þykir afar ólíklegt að malaríumeðhöndlun hafi nokkru sinni verið reynd á Íslandi, þó ekki væri nema vegna fámennis og erfiðleika við að halda malaríu hér við. Dementia paralytica virðist heldur ekki hafa verið algengur geðsjúkdómur hérlendis. Í fyrirlestrinum Áhrif föstu á undirvitundina, sem Þórður Sveinsson flutti í Læknafélagi Reykjavíkur í desember 1922, sagðist hann ekki hafa fengið sjúkling með dementia paralytica hérlendis en hefði séð þá hundruðum saman í Þýskalandi og Danmörku. Í lista yfir 300 sjúklinga sem voru lagðir inn á Klepp 1933-36 hafa fimm karlar og ein kona þessa sjúkdómsgreiningu, þ.e. 2% sjúklinganna. (Helgi Tómasson o.fl. 1937.) Svo það var engin knýjandi þörf fyrir lækningu á þessum geðsjúkdómi hérlendis.
 
 

Brennisteinsolíu-meðferð

Góður árangur af malaríumeðferðinni við dementia paralytica blés geðlæknum nýrri von i brjóst um að finna sambærilegar meðferðir við öðrum erfiðum geðsjúkdómum. Menn horfðu þar helst til geðklofa, sem danskur yfirlæknir kallaði „hið mikla ólæknandi botnfall sem fyllir geðveikraspítalana.“ Yfirleitt er talið að 50-60% sjúklinga á geðspítölum í Evrópu hafi verið haldnir geðklofa. Helgi Tómasson segir í greininni Æði hjá sjúklingum með schizophreni sem birtist í Læknablaðinu 1932 um geðklofa/geðklofasjúklinga:
 

Engin tæki eru þekt, né útbúnaður, sem geti stöðvað óróaköst þeirra [- – -] ef ekkert væri aðhafst myndu sjúklingarnir æða til dauða eða koma stórslasaðir úr köstunum, því hér er um hina bandóðustu allra brjálaðra manna að ræða.

Og svo alveg sé  ljóst sé við hvað var að etja er hér hluti af sjúkrasögu úr grein Helga:
 

I. 27 ára karlmaður, V. K., No 207/98, veikur í 8 ár af mjög svæsinni schizophreni. Hér á spítalanum síðan 1931. Er sljór og uppleystur en fær öðru hvoru altaf hin hroðalegustu æðisköst, sem standa nokkra daga til 2-3 vikur, ræðst á allt og alla, brýtur og bramlar, er mjög misskynjandi, skammast og öskrar, neytir hvorki svefns né matar. Virðist í lok kastanna oft alveg aðframkominn, grásvartur á lit, þurr og altekinn.
    14.08. 1934: Byrjandi kast undir kvöldið. Fyrst ekki mjög æstur og fær því kl. 20,30 1 g. Medinal. Róast ekki vel af því og fær því kl. 22 1,5 g. Chloral. Þetta dugar ekkert, hann verður æstari og æstari, nær í ofngrindina og rífur hana upp, hendir henni í gluggann og mölbrýtur margar rúður. Hann hefir frá gamalli tíð verið í belti í rúminu, dansar nú með rúmið um stofuna, og ber og lemur. Fær kl. 23,30 scop.-morfin (1,5 mg-1 ctg.) og 10 mín. síðar aftur sama skamt. Verður smámsaman rólegur af þessu og fellur í mók, en vaknar kl. 4 engu betri. Fékk þá aftur scop.-morfin, helmingi minni dosis, róast aðeins lítið, og er kl. 10 orðinn mjög óður og óviðráðanlegur. Brýtur rúðu með hnefanum, sker sig dálítið, virðist eins og átta sig snöggvast, kvartar um ófrelsi sitt og ilsku og hágrætur. Stuttu síðar aftur alveg sjóðvitlaus […]

Lyflæknirinn Knud Schroeder, yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Óðinsvéum, fór að gera tilraunir með nýja hitaframkallandi meðferð, sem hann hugsaði í upphafi sem viðbót eða valkost við malaríumeðferðina og átti að beita á dementia paralytica. Hann fann upp á að nota nýtt efni, brennisteinsolíu (sulfosin), sem olli háum hita þegar því var sprautað í vöðva. Schroeder hélt því fram að það væri auðveldara að eiga við brennisteinsolíuna en malaríu og taldi líka að hún gæti gagnast við fleiri geðsjúkdómum en dementia paralytica, t.d. geðklofa (sem í Danmörku var ýmist kallaður dementia præcox eða skizofreni), það væri um að gera að prófa. Í greinunum sem hann skrifaði setti hann aldrei fram neina skýringu á því af hverju innsprautun með brennisteinsolíu ætti að virka á aðra sjúkdóma en dementia paralytica, lét duga að staðhæfa að hár hiti virtist hafa góð áhrif á geðklofasjúklinga.

Fyrstu niðurstöður á prófunum hans á brennisteinsolíu voru birtar 1927, vöktu mikla athygli og gerðu Knud Schroeder heimsfrægan. Aðferðin var notuð víða um heim og auðvitað í Danmörku. Á áratugnum 1928-38 voru t.d. mörg hundruð sjúklingar á Vordinborg (Oringe) geðveikrahælinu sprautaðir með brennisteinsolíu. Samt hafði yfirlæknirinn þar, Hjalmar Helweg, skrifað neikvæðan dóm um meðferðina í Ugeskrift for Læger 1929, sagt að lækningarmáttur hennar gegn geðklofa væri ekki sannfærandi. Geðlæknirinn Jørgen Ravn, sem vann á Sct. Hans geðsjúkrahúsinu, skrifaði grein um brennisteinsolíumeðferðina í Nordisk Medicinsk Tidsskrift 1934 þar sem hann hélt því fram að ekki væri hægt að telja batahlutfall geðklofasjúklinga sem sprautaðir voru með súlfosan neitt hærra en það hlutfall slíkra sjúklinga sem batnaði án læknismeðferðar. Hann sagði og frá því að hann hefði þurft að hætta þessari meðferð vegna slæmra og hættulegra aukaverkana: Sjúklingana sárkenndi til þegar sprautað var í vöðva, nokkrir höfðu kastað upp, fengið köldu, horast og veikst í meðferðinni. Í einum sjúklingi vildi hitinn ekki lækka aftur og þegar greinin var skrifuð hafði sjúklingurinn haft hita í fimm mánuði og myndi líklega ekki lifa af, sagði Ravn. Óttar Guðmundsson segir í Kleppi í 100 ár: „Þessi meðferð þótti vísindalegri [en malaríumeðferðin] og féll sjúklingum betur í geð.“ (s. 70). Ég veit ekki á hvaða heimild Óttar byggir þetta.

Helgi Tómasson, sem var ráðinn læknir á Nýja Kleppi árið 1929 og varð yfirlæknir á Kleppi 1939, stundaði sitt læknisnám í Danmörku. Hann útskrifaðist með cand. med gráðu 1922 og dokorsgráðu 1927, hvort tveggja frá Kaupmannahafnarháskóla. Helgi vann m.a. í Vordinborg, á Sjette afdeling Kommunehospitalets í Kaupmannahöfn og á Nykøbing Sindssygehospital. Líklega höfðu þessi sterku tengsl við Danmörku eitthvað að segja í því að Helgi notaði brennisteinsolíu-meðferðina töluvert á sína sjúklinga á Kleppi. Óttar Guðmundsson (2007, s. 73) lýsir henni svona:
 

Sjúklingarnir fengu sprautur að kveldi og síðan var fylgst með hitanum. Venjulega voru það læknanemar sem gáfu sprauturnar og skráðu hitahækkunina. Ekki fer miklum sögnum af árangri þessarar meðferðar.

Í grein Helga Tómassonar, Æði hjá sjúklingum með schizophreni (í Læknablaðinu 1934), minnist hann á brennisteinsolíumeðferð (sulfosin) í tilvitnunum í tvær sjúkrasögur af þremur. Vel að merkja er greinin skrifuð til að hampa gjöf örvandi lyfja (ephedrin) við geðklofa og kemur fram í þessum dæmum að sulfosin hafi ekki virkað: „Frá miðjum sept. til miðs okt. reyndur sulfosinkúr. En heldur virtist honum fara aftur á meðan heldur en hitt“ segir í öðru dæminu.
 
 
 

Önnur hitameðferð til geðlækninga

Í Læknablaðinu jan.-feb. 1934 birtist meðal erlendra frétta:
 

Mikið hefur verið skrifað um þýðingu hitasóttar, sem venjulega fylgir farsóttum, og hefir hún verið ýmist skoðuð sem blessun eða bölvun. Enn er þetta mikla mál óútrætt.
    Þegar Wagner-Jauregg tók upp malarialækning sína við paralysis generalis var um það deilt, hvort heldur lækningin væra [svo] að þakka hitasóttinni eða einhverju öðru. Hvort heldur sem er, þá varð þetta til þess að dr. W. R. Whitney kom til hugar að hita mætti sjúklingana með rafmagnsstuttbylgjum, og bjó hann til áhald til þessa. Gat hann hitað menn með því svo mikið og svo lengi sem vera skyldi. Þetta var síðan reynt við paralysis gener., en þótti ekki gefast jafnvel og gamla aðferðin.
    Síðan hefir þessi hitalækning verið reynd við marga kvilla. Dr. C. F. Tenny (New York) segir hana hafa gefist vel við bólgur í grindarholi, arthritis, trega blóðrás í útlimum, neuritis, syfilis og gonorhoe.
    Þessi hitalækning er enn á tilraunastigi, svo erfitt er um að dæma. Þó má ganga að því vísu, að þessi merkilega uppgötvun reynist nýtileg til margra hluta.
    (Dumaresq les Bas í Lancet 27. febr. ’34).

Þessi litla frétt sýnir að hérlendis fylgdust læknar vel með nýjungum í hinum stóra heimi. Hún sýnir líka trú á lækningargildi hita við ýmsum kvillum og trú á möguleika rafmagns til lækninga en það átti aldeilis eftir að hafa áhrif í geðlækningum nokkrum árum síðar og hefur enn þann dag í dag.

HydrotermÍ Danmörku fóru menn að nota hitakassa til að lækna sýfilissjúklinga árið 1942 (á Rigshospitalet – tveimur árum síðar á Sct. Hans). Í hitakössum mátti hækka líkamshita sjúklinganna og þurfti þá ekki lengur malaríuna til þess. Hitakassarnir voru þannig að í þeim hélst 45-60° hiti og rakastigið var 35-70%. Þetta var sem sagt eins og velheit finnsk sána og væri sjúklingur hafður nógu lengi í kassanum hækkaði líkamshitinn duglega. Ekki voru allir hrifnir, t.d. kvartaði yfirlæknirinn á Sct. Hans undan því í bréfi til heilbrigðisyfirvalda að þetta væri alltof dýrt, malaríumeðhöndlunin væri mun ódýrari því „apparatið notar 3.000 – 5.000 wött á klukkustund [svo].“ Auk þess, sagði hann, hefur malaríumeðhöndlun þann kost að hana mátti „beita líka mjög órólega sjúklinga, sem er erfitt í hitakassanum.“

Myndin er af hitakassa og einungis höfuð sjúklingsbrúðunnar stendur upp úr honum. Þessi hitakassi er á Glore Psychiatric Museum í Missouri, Bandaríkjunum.

Ég veit ekki til þess að svona hitakassar hafi verið notaðir á Íslandi (en óneitanlega minnir aðferðin mjög á svita-vatnslækningar Þórðar Sveinssonar undir lok starfsferil hans, sjá færsluna Upphaf geðlækninga á Íslandi). Einhverjir eru enn við sama heygarðshornið ef marka má þessa nýju auglýsingu frá geðlæknadeildinni við háskólann í Arizona þar sem auglýst er eftir þunglyndissjúklingum til að prófa glænýja læknismeðferð við þunglyndi, nefnilega hitameðferð 😉

Helgi Tómasson notaði talsvert, eins og fyrr sagði, brennisteinsolíu (sulfosan) til að láta geðklofasjúklinga fá hita. Hann notaði fleiri aðferðir til hins sama, t.d. hef ég eftir munnlegri heimild að árið 1955 hafi sumum sjúklingum Helga verið tekið blóð (úr bláæð í handlegg) og blóðinu strax á eftir sprautað í vöðva. Viðmælandi minn taldi að þetta hefði verið gert til að „fá hitareaksjón“ en hvaða tilgangi hún átti að þjóna vissi hann ekki.

Helgi skrifaði yfirlitsgreinina Shock í desemberhefti Læknablaðsins 1934. Þar fjallar hann um efni sem eru til þess að framkalla shock og þar á meðal:

Blóð er tekið úr venu, 10-20 cm3, og inj. subcutant eða intramusculært. Blóðið má taka úr sjúklingnum sjálfum, án þess að blanda það nokkru antikoagulerandi efni, autohæmoterapi, eða úr öðrum, heterohæmotherapi. Autohæmoterapi er bæði auðveldari og framkallar vægari shock.

Um einkennin af þessu segir hann: „[einkennin koma] eftir 4-6 klt.[svo], oft aðeins kuldahrollur, almenn vanlíðan, 38-39,5°, eða aðeins smáhækkun á hita.“ Og um lækningargildið segir Helgi:
 

Við ýmsa taugasjúkdóma er shock-therapi mikið notuð, fyrst og fremst dem. paralytica og aðrar myndir af lues [sýfilis] í taugakerfinu […] Við fjölda annarra taugasjúkdóma og geðsjúkdóma hefir ýmiskonar shock-therapi og verið reynd, en um ábyggilega verkun verður ekki talið að hafi verið að ræða.

Nú er afar ólíklegt að Helgi hafi haft marga sýfilisgeðveika sjúklinga árið 1955, e.t.v. engan slíkan, svo hann hefur brúkað þessa aðferð við einhverju öðru. Kannski bara einfaldlega til að róa illmeðfærilega sjúklinga með því að láta þá fá hita eða hitavellu?
 
 
 

Heimildir aðrar en efni sem krækt er í úr færslunni:
 

H. Guðm. Hitaveiki til lækninga. Læknablaðið 20. árg., s. 30. 1934.

Helgi Tómasson. Shock. Læknablaðið 20. árg., s. 54-58. 1934

Helgi Tómasson. Æði hjá sjúklingum með schizophreni. Læknablaðið 20. árg., s. 204-7. 1934.

Helgi Tómasson, Oddur Ólafsson og Viðar Pétursson. „Líkamlegir“ sjúkdómar geðveikra. Læknablaðið 23. árg., s. 35-63. 1937.

Kragh, Jesper Vaczy. »Den værste fjende vi have at kæmpe imod« Malariabenhandling og dementia paralytica i Danmark. Bibliotek for Læger. Júní 2006.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Psykiatriens Historie i Danmark. Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh.

Shorter, Edward. A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac. John Wiley & Sons, Inc. Bandaríkjunum. 1997.

Þórður Sveinsson. Áhrif föstu á undirvitundina. Fyrirlestur í Læknafélagi Reykjavíkur þann 11. desember 1922. Læknablaðið 9. árg, s. 226-31. 1923.
 
 
 
 

Upphaf geðlækninga á Íslandi

Forsagan

Talsvert hefur verið gert úr illum aðbúnaði geðsjúkra hérlendis áður en Kleppur var stofnaður og þá jafnan bent á tvær heimildir, annars vegar heilbrigðisskýrslu Þorgríms Johnsen héraðslæknis, sem hann skrifaði 1872 og sendi heilbrigðisyfirvöldum í Danmerku, hins vegar skrif Christians Schierbeck frá 1901, dansks læknis sem hafði áhuga á að koma geðveikrahæli á fót á Íslandi. Báðir nefna þeir að „slegið sé utan um” brjálaða sjúklinga og þeir geymdir í einhvers konar búrum eða fjötraðir, jafnvel í útihúsum. Mér vitanlega eru ekki aðrar heimildir um þessa meðferð og engin slík búr hafa fundist hérlendis. Þar fyrir utan getur þetta vel verið satt og rétt. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að í íslenska bændasamfélaginu (samfélagsgerð sem var ríkjandi langt fram eftir tuttugustu öld) þekkjast mörg dæmi um að farið hafi verið illa með þá sem ekki gátu unnið, þurfti ekki geðveiki til. Í neyð hefur sjálfsagt þurft að fjötra óða menn með einhverjum hætti og þarf ekki að hafa verið af illsku.

Á nítjándu öld var einn Íslendingur sérmenntaður í geðlæknisfræðum (þess tíma), nefnilega Jón Hjaltalín (1807-1882). Hann starfaði þó ekkert að slíkum lækningum hérlendis svo vitað sé. Eitthvað var um að geðsjúkir væru sendir utan, a.m.k. þeir sem gátu greitt fyrir sig. Sem dæmi má nefna Gunnlaug Blöndal, fyrrum sýslumann í Barðastrandarsýslu, sem dó á geðveikraspítala í Vordingborg árið 1884 (Ísland var á upptökusvæði þess spítala). Ein rök Schierbeck fyrir að reisa geðveikrahæli á Íslandi voru einmitt hve dýrt væri að greiða fyrir uppihald geðsjúkra á dönskum hælum (kostnaðurinn var mismunandi því dönsku geðveikrahælin voru stéttskipt, þ.e.a.s. aðbúnaður var misjafn eftir því hve mikið var greitt fyrir sjúklinginn).

Um fjölda geðsjúkra á landinu fyrir og eftir stofnun Klepps segir í endursögn á Skýrslum [Guðmundar Björnssonar landlæknis] um heilsufar og heilbrigðismálefni á Íslandi 1907 og 1908:
 

Geðveiki virðist fara vaxandi. Árið 1887 voru 81, en 1901 133 geðveikir menn á landinu. Skýrslur eru ekki til frá seinni árum Á Kleppi voru rúmlega 60 sjúklingar við hvor árslok, 1907 og 1908. Hér á landi er geðveiki miklu algengari í konum en körlum 97:36 árið 1901. I öðrum löndum er hún álíka algeng í körlum og konum. Ekki getur landlæknir um af hverju það muni stafa, en ætli það eigi ekki töluvert rót sína að rekja til þess, að sjúkdómar, sem orsakast af stöðugri áfengisnautn, eru hér sjaldgæfir, í samanburði við önnur lönd, og við þeim sjúkdómum er karlmönnum míklu hættara en konum?
    Brennivínsæði fengu 21 maður 1907 en 18 1908.

 Kleppur og Þórður Sveinsson

Árið 1905 var ákveðið að reisa sérstakan geðveikraspítala, Klepp, og var hann opnaður vorið 1907. Á fyrstu þremur árunum sem spítalinn starfaði voru lagðir inn 118 sjúklingar en eftir það einungis fáir á ári því spítalinn var meira og minna fullur af langveiku fólki. Samkvæmt blaðafregnum frá 1910 hefur verið pláss fyrir rúmlega 60 sjúklinga á Kleppi.

Þegar hyllti undir að Kleppur tæki til starfa var Þórður Sveinsson sendur utan til að kynna sér geðlækningar. Þórður var bóndasonur úr Húnavatnssýslu, fæddur 1874. Hann var illa haldinn af berklum sem barn og heldur pasturslítill, ólst upp við kröpp kjör og var talsvert eldri en skólabræður hans þegar hann útskrifaðist úr læknadeild háskólans vorið 1905. Kann að vera að áhrifamiklir sveitungar hans, Guðmundur Björnsson landlæknir og Guðmundur Magnússon prófessor í læknisfræði, hafi séð í honum mann sem ekki var líklegur til að höndla erfitt embætti héraðslæknis en gæti orðið frambærilegur yfirlæknir á hefðbundnu geðveikrahæli uppi í sveit, a.m.k. handvöldu þeir Þórð sem fyrsta yfirlækni á Kleppi og beittu sér fyrir því að hann kæmist til Danmerkur (og síðar Þýskalands) til að kynna sér geðlækningar í rúmt ár. Í Danmörku lærði Þórður hjá Alexander Friedenreich,  sótti líklega fyrirlestra Knuds Pontoppidan og setti sig inn í strauma og stefnur í dönskum geðlækningum þessa tíma (sjá nánar um þetta færsluna Geðlæknismeðferð í Danmörku 1850-1920). Svo fór hann til Þýskalands og naut þar handleiðslu Emils Kraepelin. Ætla má að Þórður hafi verið vel læs á dönsku og þýsku og hafi því einkum byggt kunnáttu sína í geðlæknisfræðum á ritum þessara dönsku og þýsku geðlækna, einkum Kortfattet, speciel Psykiatri eftir Friedenreich, (útg. 1901) og Psychiatrie: Ein Lehrbuch für Studirende und Aerzte eftir Kraepelin (fyrsta bindi útg. 1899, sjá fleiri bækur Kraepelin hér.) Sömuleiðis má ætla að hann hafi fylgst með skrifum danskra geðlækna í fagritinu Ugeskrift for Læger og e.t.v. lesið bækur um geðlækningar á dönsku og þýsku á starfsævi sinni.

Óttar Guðmundsson segir í bók sinni Kleppur í 100 ár að þýsk áhrif hafi sett mark sitt á meðferð Þórðar. En danskir geðlæknar voru undir miklum áhrifum af fræðum Kraepelin og fleiri Þjóðverja svo það er líklega erfitt að greina hvað Þórður tíndi upp í Danmörku og hvað í Þýskalandi.
 

Læknismeðferð Þórðar Sveinssonar

Fyrst eftir að Kleppur tók til starfa fór fáum sögum af starfsemi þar, ef frá eru taldar fréttir af tveimur sjálfsvígum (og meðfylgjandi gagnrýni um að fólks væri ekki nægilega vel gætt á spítalanum) og gróusögur um að yfirhjúkrunarkonan væri vond við sjúklingana og misþyrmdi þeim (sjá yfirlýsingu Þórðar og annars starfsfólks gegn þessum orðrómi, 1910).

Óttar Guðmundsson segir í Kleppi í 100 ár að flestir sjúklinganna sem lagðir voru inn 1907 og 1908 hafi greindir með annað hvort geðklofa eða geðhvarfasýki en aðrar greiningar hafi verið kvíðagreiningar, flogaveiki, móðursýki og alkóhólismi. Þórður Sveinsson segist aldrei hafa haft sjúkling með dementia paralytica (geðveiki af völdum sýfilis – stundum eru slíkir sjúklingar taldir hafa verið um 10% geðsjúklinga á dönskum geðveikrahælum á nítjándu öld og fram undir lok síðari heimstyrjaldar, þegar pensillín komst í notkun og læknaði sýfilis). Margir sjúklinganna höfðu verið veikir árum saman og von um bata var lítil. Í bók Óttars kemur margoft fram að Þórður hafi haft litla trú á lyflækningum og notað lyf lítið. Óttar vísar ekki neinar heimildir fyrir þessu en hlýtur að byggja á einhverjum lyfjakaupalistum því sjúkraskrár voru í miklum ólestri á tímum Þórðar og finnast ekki nema slitur af slíkum nú. Þórður úttalar sig um lyfjagjöf í fyrirlestri sem hann flutti í Læknafélagi Reykjavíkur 11. desember 1922 (en vakin er athygli á að þarna er hann að líta yfir fimmtán ára farinn veg og kann að vera að þessar hafi ekki verið skoðanir hans í upphafi):
 

Eins og áður er tekið fram, þá er það viljinn, er veiklast eða lamast í geðveikinni. Og það er sama hvort hún er hrein geðveiki eða móðursýki. Þar af leiðir, að öll deyfandi meðöl eru eitur öllum geðveikum sjúklingum. Þau verða beinlínis til þess, að ýta undir hinar sjúku ímyndanir sjúklingsins. Narcotica lama viljann, og er það á allra vitorði. Hugurinn beinist að veikinni, sem hann þarf sífelt að vera að stríða við með hinum og þessum svæfandi meðulum. Viljamagnið verður að þoka fyrir meðalatrúnni. Þess vegna nota ég aldrei deyfandi meðul við slíka sjúklinga.

Um sumt byggði Þórður þó á viðurkenndri geðlæknisfræði í upphafi tuttugustu aldar, t.d. „vinnulækningu“, þ.e.a.s. sjúklingar unnu við stórbúið á Kleppi, eigin fatagerð o.þ.h.  Hann var sammála dönskum geðlæknum um að „no restraint“ meðferð væri óframkvæmanleg og lét loka óða sjúklinga í einangrunarklefum uns bráði af þeim. Þessir klefar, sellurnar, voru innréttaðir þannig að sjúklingurinn gæti ekki skaðað sig, t.d. var ekki rúmstæði í þeim heldur einungis fleti, gluggar upp undir loft og vírnet fyrir þeim.  Þórður var alveg sammála kenningum lærifeðra sinna danskra og þýskra um arfgengi geðsjúkdóma og þá einkum arfgenga úrkynjun ef marka má blaðagreinar hans Geðveiki – áfengi – úrkynjun (júní 1907) og Fábjánar – áfengi (júlí 1907). Honum hugnaðist og meðferð með böðum svo sem tíðkaðist í Danmörku og Þýskalandi þegar hann lærði þar, en ólíkt dönskum kollegum sínum hélt hann sig eindregið við þá aðferð allt til starfsloka 1939.

Ef marka má kersknislega smá„frétt“ frá 1909 hefur áhersla á baðmeðferð, jafnt heit sem köld böð, verið lögð frá upphafi enda í fullu samræmi við viðteknar lækningaðferðir þá í Danmörku og Þýskalandi. Í „fréttinni“ er þetta reyndar talin refsing en ekki læknisaðferð, því talað er um „hegningar-bað (líklega líkt og er á Kleppi, þar sem það er haft til refsingar á óþæga vitfirringa að kasta þeim allsnöktum í kalt bað og halda þeim nauðugum niðri í því unz þeir sefast)“. Í riti sínu Vatnslækningar, útg. 1923, segir Þórður um þetta (á s. 18-19):
 

Jeg hef kaffært menn, það er alveg satt. Jeg hef gert það stöku sinnum, þegar jeg hefi talið það alveg sjálfsagt að reyna, hvort ekki væri unt að gera gagn með því, enda er reynsla fyrir því, að geðveikir menn hafi læknast af skyndilegum áhrifum. Einstöku sinnum hefir það gert mikið gagn að bregða sjúklingi ofan í baðker með köldu vatni. Eina konu hefi jeg gert alheilbrigða með einni dýfu; hún hafði legið rúmföst í tvö ár. Þrem vikum eftir kaffæringuna var hún orðin þvottakona á Kleppi og hefir verið alfrísk síðan.

Svo virðist sem Þórður hafi snemma ákveðið að byggja á „klínískri reynslu“ í meðhöndlun geðsjúkra fremur en því sem viðtekið var í fræðunum sem hann nam. Með tilraunum og af reynslu sinni útfærði Þórður vatnslækningarnar frá böðum til innvortis vatnslækninga. Hann segir (í ritinu Vatnslækningar, s. 3-5):
 

Af tilviljun rakst jeg, fyrir rúmum 12 árum, á lækningu við geðveiki, sem jeg rak strax augun í, að bar fljótari árangur heldur en þær aðferðir, sem jeg áður hafði átt að venjast við sumar tegundir geðveiki. Það vildi svo til haustið 1910: Jeg hafði á Kleppi geðveika konu, sem þá var búin að vera þar í nærri 3 ár. Geðveiki hennar lýsti sjer í því, að hún fjekk köst, sem stóðu yfir frá 6 vikum upp í hálft ár, og var hún með köflum alveg æðisgengin. [- – -] En það var einkennilegt við þennan sjúkling, að hann var altaf horaður, þegar köstin endurðu, hvernig sem með hann var farið. Þá datt mjer í hug að reyna, hvort ekki væri hægt að stytta köstin með því að svelta sjúklinginn, úr því að hann varð altaf horaður áður en honum batnaði, og að reyna að láta hann einungis hafa vatnskost. [- – -] Sjúklingnum var svo sagt frá því, að nú fengi hann ekkert annað en heitt vatn, engan mat, til þess að vita, hvort kastið yrði ekki styttra. Svo var þetta gert […] og kastið byrjaði. en það komst aldrei á verulega hátt stig, varð verst á 7.-8. degi. Á 10. degi var hann orðinn svo rólegur og skynsamur, að jeg áleit, að ekki þyrfti lengur að svelta hann. Það kastið var búið.

Í sama riti segist Þórður einungis nota vatnskost við geðveiki á byrjunarstigi enda sé áreiðanlega auðveldast að lækna geðveiki í byrjun. „Við menn, sem lengi eru búnir að vera geðveikir, reyni ég yfirleitt ekki vatnskostinn, nema í því skyni að draga úr æðisköstum“, segir hann (s. 7). Vatnið á að vera „álíka heitt og kaffi, sem menn drekka heitast“ (s. 17) og skv. lýsingu Þórðar á að drekka 2-3 lítra á dag, þótt hann viti dæmi af manni sem drakk 19 lítra af heitu vatni á 12 klukkustundum (s. 37).

Þórður sagði frá tilraunum sínum um vatnsdrykkju við geðveiki í fyrirlestri í Læknafélagi Reykjavíkur þann 11. desember 1922. Þar byrjar hann mál sitt á að staðhæfa að geðveikir menn fái miklu síður umgangspestir en aðrir. Veikist þeir af öðrum sjúkdómi en geðveiki þjáist þeir „að jafnaði mjög lítið.“ Einnig beri oft við að vitskertir sjúklingar fái ráð sitt og rænu rétt fyrir andlátið. Þetta telur Þórður stafa af starfsemi undirvitundarinnar „er verður með einhverjum hætti þess valdandi, að þetta hvorttveggja, næmleiki fyrir farsóttum og dauðinn eða andlátið, verður öðru vísi með geðveikum mönnum en hinum, sem ekki eru geðveikir.“ Þórði datt því í hug „að hafa áhrif á undirvitundina með föstu og hreinum vatnskosti“ og fór að gera tilraunir með það. Niðurstaða tilraunanna er þessi:
 

Reynsla mín er sú, að hreinn vatnskostur sé sú lækningaraðferð, er virðist fljótast lækna ýmis konar psychosur og geðveiki. Batinn kemur á mjög svipuðum tíma, hvernig sem geðveikinni er háttað og tíminn er tíu, fjórtán og upp að tuttugu dögum. Geðveikin hefir verið af þessum venjulegu flokkum; exaltationes, phobiur, depressivar og paranoiskar hystero-neurastheníur. [- – -] Vatnskosturinn kemur í stað sedatíva, sem annars eru notuð.

Þórður útskýrir hvernig sum tegund geðveiki („depression eða hræðslu-geðbilun“) lýsir sér í því að sjúklingurinn er fastur í óæskilegu hugsanamynstri og þrátt fyrir viljastyrk sjúklings og fortölur annarra geti slíkur sjúklingur „ekki um annað hugsað en sínar eigin ímyndanir. Og allar eru þær honum til meiri og minni kvalar.“ En sé svoleiðis sjúklingur sveltur, þ.e. látinn lifa á vatni einu saman, beinist hugurinn að föstunni og hverfur frá meinlokunum. „Viljinn vaknar og taumarnir dragast úr höndum ímyndunarlífsins“ eftir því sem hungurtilfinningin eykst. Sjúklingurinn fer að líta á meðferðina sem „mikla hjálp og heilsubótarmeðal og þá er autosuggestionin komin í það horf, sem hún á að komast. Hann telur sér trú um, að honum batni, er hann kemst á vatnskost, eins og líka er.“ Í lok fyrirlestrarins nefnir Þórður að sólarljós hafi, skv. sinni reynslu, mjög góð áhrif á geðveika menn. Lægju menn naktir í sólbaði eins og berklasjúklingar hefði það eflaust góð áhrif en því miður er geðsjúklingum mjög á móti skapi að gera það.
 

Undir lok starfsferils síns sem yfirlæknir á Kleppi var Þórður enn að þróa kenningu sína um vatnsdrykkju sem meðal við geðsjúkdómum og gagnsemi baða við ýmsum krankleik. Hann var kominn á þá skoðun að truflun í svitakirtlum ylli geðveiki. Í viðtali í Alþýðublaðinu í janúar 1940 vitnar hann í Jón Steingrímsson, eldklerkinn fræga, sem segi á einum stað í ævisögu sinni: „Þegar ég missti svitann, fór mér að líða ver“ og Þórður segist í starfi sínu hafi tekið eftir að „geðveikissjúklingar svitna aldrei“. Hann fór því að reyna koma svitanum út á sjúklingunum með ýmsum ráðum. Það sem virkaði best var að setja þá í 45° heitt bað í 20-60 mínútur og hafa þá vafða í umbúðir áfram eftir baðið, segir Þórður í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu vorið 1939. Þá hækki líkamshiti sjúklinga í  41.5°- 42°, hefur hæstur mælst 42.6° í tilraunum hans. Þórður tekur fram að ekki megi setja sjúkling í svona bað „nema með tóman maga og nýútskoluðu rectum.“ Hann staðhæfir í viðtalinu að tveir geðklofasjúklingar hafi orðið albata með þessari aðferð:
 

Annar er 26 ára gamall, var búinn að vera veikur í 10 ár, en hjer í 5 ár. Veiki hans var schizophrenia simplex. Hann fekk 15 böð alls. Þykir mjer það sjálfum ótrúlega Iítið. En maðurinn er prýðilega greindur og get jeg mjer til, að það og persónuleiki hans hafi hjer ráðið nokkru um. Hinn er um þrítugt. Búinn að vera geðveikur í 3—4 ár  […] Hann var með schizophrenia paranoides (ofsóknargeðveiki). Hann fekk um 40 böð og er nú heilbrigður og fer brátt heim til sín. Síðustu dagana stjórnaði hann sjer sjálfur í baðinu, og svitinn hefir streymt af honum eins og hverjum öðrum heilbrigðum manni.

Samkvæmt Þórði virðast sjúklingarnir ekkert alltaf hafa verið áfram um að fara í baðið holla en með því að reifa þá eins og tíðkaðist við ungabörn, svo þeir geti sig ekki hrært, er það vandamál úr sögunni. Í Morgunblaðsviðtalinu 1939 lýsir hann þessu svona:
 

En það er vissara með alla geðveikisjúklinga að leggja þá í umbúðir strax. — Hendurnar eru lagðar niður með síðunum, og laki vafið utan um þá. Síðan er strigi látinn utan yfir og bundinn, svo að sjúklingarnir geti ekki losað sig. Eftir baðið eru þeir látnir í þurt eða rakt lak, þar utan yfir er ullarábreiðu vafið og loks striga. Hendurnar eru fyrst lagðar niður með hliðunum, eins og fyr, og sjúklingarnir látnir í rúm sitt. Þá halda þeir áfram að svitna um allan líkamann.

Þessa svitameðferð taldi Þórður sína eigin uppgötvun og hana merka (líkt og sveltikúrana áður) en birti aldrei neinar vísindagreinar um hana.
 
 
 Gagnrýni á læknisaðferðir Þórðar Sveinssonar

Í spænsku veikinni 1918 vann Þórður sem almennur læknir en beitti sömu aðferðum á þá sem veiktust af þessari alvarlegu inflúensu og hann beitti á sjúklinga sína á Kleppi, nefnilega vatnsdrykkju og svelti. Aðrir læknar klöguðu hann fyrir Guðmundi Björnssyni landlækni en landlæknir hélt hlífiskildi yfir Þórði.

Þann 9. mars 1923 birtist greinin Geðveikrahælið á Kleppi í Alþýðublaðinu og vakti mikla athygli. Greinina skrifaði Guðfinna Eydal og í henni lýsir hún reynslu sinni af dvöl á Kleppi frá því síðsumars 1919 til haustsins 1920. Guðfinna segist hafa kynnt sér sambærilegar stofnanir í Danmörku, Englandi, Þýskalandi og víðar og að hvergi séu notaðar eins ómannúðlegar aðferðir og á Kleppi:
 

Ég hika ekki við að segja, að  meðferð á sjúklingum á Kleppi  er andstyggileg, og gæti ég  komið með mörg dæmi því til sönnunar úr daglega lífinu á  Kleppi þessa 15 mánuði, er ég var þar sjúklingur. Einna hrottalegastar fundust mér kaffæringarnar. Menn álíta nú máske, að þær séu lækningatilraun, en svo er ekki ætíð að minsta kosti. Þær eru blátt áfram refsing á sjúklingana fyrir ýmsar yfirsjónir […] [sjúklingurinn er] miskunnarlaust keyrður á kaf ofan í baðker, sem áður er hálffylt með ísköldu vatni. Það er ekki látið nægja að dýfa sjúklingunum í eitt skifti, heldur hvað eftir annað og er þeim haldið niðri í því, þar til þeir eru komnir að köfnun […]

Síðan nefnir Guðfinna sveltið sem hún telur að hafi dregið nokkra sjúklinga til dauða enda séu menn látnir svelta í alltof langan tíma. Hún slær varnagla um að svelti geti verið gild lækningaðferð: „Það má vel vera, að nokkurra daga svelta í ýmsum geðveikitilfellum geti verið heilsusamleg; ég skal ekkert um það fullyrða. En að læknirinn hafi leyfi til að svelta sjúklinga sína svo að segja takmarkalaust, — það get ég ekki skilið.“ Guðfinna rekur svo þrjár sorgarsögur af illri meðferð sjúklinga á þeim tíma sem hún lá á Kleppi og lýkur máli sínu þannig: „Mér finst, að læknir á geðveikrahæli þurfi að vera lýsandi stjarna í myrkri þessara vesalinga, en ekki hræða.“

Sjálfsagt hefur Guðfinnu verið kunnugt um skrif Amalie Skram gegn geðlækninum Knud Pontoppidan laust fyrir aldamótin 1900 og talið vænlegt til árangurs að birta gagnrýni sína opinberlega. Þórður Sveinsson brást og eins við og Knud Pontoppidan: Hélt fyrirlestur sér til varnar og gaf síðan fyrirlesturinn út (bæklinginn Vatnslækningar). En ólíku er þó saman að jafna: Guðfinna Eydal var ekki velþekkt skáldkona heldur húsfreyja á Akureyri. Og Þórður Sveinsson fór með sigur af hólmi og var talsvert skrifað honum til varnar.

Í maí 1923 birti Guðmundur Þorkelsson, sem starfað hafði sem hjúkrunarmaður á Kleppi undanfarna 20 mánuði, „Opið brjef til ríkisstjórnarinnar” í tímaritinu Stefnunni. Í bréfinu óskar hann eftir því að stjórnarráðið rannsaki ástandið á Kleppi því „lækningaaðferðir og framkoma læknisins gagnvart sjúklingunum er svo gjörólík því, er ég sem hjúkrunarmaður á geðveikrahælum erlendis hef vanizt um fult 7 ára bil“. Guðmundur hafði, skv. meðfylgjandi vottorðum, starfað á ýmsum geðveikrahælum í Noregi. Hann virðist hafa gert sér ágæta grein fyrir samtryggingu lækna á Íslandi því hann óskar, í bréfinu, eftir því að útlendur geðlæknir verði fenginn til að taka út læknismeðferð á Kleppi. Engar heimildir eru fyrir því að opinber yfirvöld hafi rannsakað læknismeðferð Þórðar á Kleppi í kjölfarið á þessu opinberlega birta bréfi.
 
 

Niðurlag

Annað hvort hefur Þórður Sveinsson ekki tekið sérlega vel eftir í sínu sérfræðinámi í Danmörku og Þýskalandi eða ekki haft mikla trú á þeim geðlækningaðferðum sem þar voru praktíseraðar, nema böðunum. Hann virðist og ekki hafa fylgst með þróun geðlækninga í þessum löndum heldur snemma hafa tekið þann pólinn í hæðina að gera eigin tilraunir á sjúklingum sínum og þróa eigin aðferðir. Þær minna að sumu leyti á geðlækningaaðferðir fyrir miðja nítjándu öld, að sumu leyti á nýmóðins detox meðferð.

Stundum hefur verið bent á áhuga Þórðar á spíritisma sem skýringu á þessum aðferðum, að hann hafi reynt að svelta illa anda úr sjúklingunum, en í opinberri vörn sinni fyrir lækningaðferðunum minnist hann vitaskuld ekkert á slíkt. Hitt er og víst að Þórður var algerlega trúlaus, raunar svarinn andstæðingur kirkjunnar, en eindreginn spíritisti, fór m.a. sálförum um víða veröld. Þótt ekki væri Þórður trúaður á spíritisma á námsári sínu í Danmörku hefur honum sjálfsagt verið fullkunnugt um að helstu framámenn í geðlækningum þar tóku virkan þátt í danska sálarrannsóknarfélaginu, enda töldu menn sálarrannsóknir vísindalegar á þessum tíma. Þátttaka í stofnun íslenska sálarrannsóknafélagsins 1918 og virk þátttaka í því hefur því líklega, í augum Þórðar, ágætlega samrýmst starfi hans sem eina geðlæknis landsins.

Í snarpri ritdeilu Þórðar og Ágústs H. Bjarnasonar prófessors, sem gaf út þýðingu sína á ritinu Geðveikin árið 1920, kemur fram að Þórður hafði enga trú á sállækningum í anda Freud. Samt greip hann til hugtaka úr þeirri smiðju í vörn sinni fyrir sveltimeðferðinni, þ.e.a.s. útlistar áhrif undirmeðvitundarinnar á geðveiki.

Kannski mætti segja að viðhorf og vörn Þórðar fyrir sínum lækningaaðferðum kristallist í orðum hans: „Hvernig stendur á því, að jeg má ekki reyna að hjálpa að hjálpa veikum mönnum með þeim aðferðum, sem jeg álít sjálfur, að sjeu betri heldur en aðrar?“ (s. 24 í Vatnslækningar.) Í í rauninni má segja að þetta viðhorf sé enn ríkjandi í geðlækningum, hérlendis sem erlendis. Geðlæknar hampa „klínískri reynslu“ til að rökstyðja lyfjagjöf sem engar vísindalegar rannsóknir styðja, t.d. svokallaðra „off label“ lyfja við ýmsum geðsjúkdómum (ekki hvað síst þunglyndi), eða raflækningar sem enn er umdeilt hvort séu til gagns eða skaða. Þeir nota sem sagt gjarna það sem þeir álíta sjálfir að sé betri aðferðir en aðrar, alveg eins og Þórður Sveinsson gerði. Munurinn liggur helst í því að læknisaðferðir Þórðar Sveinssonar, ógeðfelldar og kukl-kenndar sem þær kunna að þykja nútímamönnum, voru mun ólíklegri til að valda sjúklingum varanlegum skaða en þær lyfjagjafir sem lærifeður hans beittu, svo ekki sé minnst á seinni tíma geðlækningaaðferðir, aðferðir nútímageðlækna þar ekki undanskildar.
 
 
 
 
 
 

Heimildir, auk efnis sem krækt er í úr færslunni:
 
 

Guðmundur Þorkelsson. Opið brjef til ríkisstjórnarinnar. Stefnan, maí 1923. 

Hildigunnur Hjálmarsdóttir. Danska frúin á Kleppi. Bréf Ellenar Kaaber Sveinsson. Skrudda, 2007.

Jóhannes Bergsveinsson. Um Þórð Sveinsson og upphaf Kleppsspítala. Læknablaðið 2007/93, s. 780-785.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Tómas Helgason. Stutt ágrip af sögu Kleppsspítalans. Kleppsspítalinn 75 ára. 1907-1982. Sérprentað fylgirit Læknablaðsins 1983, s. 3-7..

Þórður Sveinsson. Vatnslækningar. Erindi flutt í Nýja Bíói 14.03 1923, vegna árásar Alþýðublaðsins á hjúkrunarfólk og lækna á Kleppi. Bókaverslun Guðmundar Gamalíelssonar, 1923.

Þórður Sveinsson. Áhrif föstu á undirvitundina. Fyrirlestur í Læknafélagi Reykjavíkur þann 11. desember 1922. Læknablaðið 1923:9, s. 226-31.
 
 
 

Geðveikar myndir

  
 

Melencholia Durers

Melencholia eftir Albrecht Dürer (1514).

A Mad Woman eftir Eugène Delacroix (1822). 

The Madwoman eða The Obsession of Envy eftir Theodore Gericault (1822).

Kona í spennitreyju eftir Ambroise Tardieu  (hluti af Des Maladies Mentales) (1838).

Religious Melancholia and Convalescence, úr bók John Conolly, Physionomy of Insanity, (1858).

Úr bók læknanna Désiré-Magloire Bourneville og Paul Regnard, 
Iconographie Photographique de la Salpêtrière (1877-1888).

Sarah Gardner, 26 ára þunglyndissjúklingur á Bethlem sjúkrahúsinu í Englandi (1850-1860).

Sjúklingur á Springfield geðveikrahælinu í Englandi, myndin tekin af Hugh Welch Diamond (1850-1860).

Þunglynd kona á West Riding Lunatic Asylum, Wakefield, Englandi. Myndin er tekin af Henry Clark (1869). 

L

jósmynd af Elizabeth Tappenden, þunglyndri konu á bresku geðveikrahæli 1876. 

Þunglynd kona eftir John Williamsson (1890).
 

Dæmi úr kennslubók eftir Emil Kraepelin 1899.

Dæmi um hreyfingar hysterískrar konu, úr kennslubók Emils Kraepelin 1899.

Dæmi um hysteríu. Myndirnar eru teknar af Walter Baer Weidler (1912).

 

Laura Stephen, systir Virginíu Woolf, dvaldi líklega meira og minna á Earlswood geðveikrahælinu frá 1901 til æviloka.

 

Levera D., sjúklingur á Vilardebó sjúkrahúsinu í Úrugvæ (1907-1909)..

Emmi G., sextán ára þýsk vinnukona greind með geðklofa. Hún var gerð ófrjó og síðan

send til Meseritz-Obrawalde þar sem hún var tekin af lífi með risaskammti af róandi

lyfjum 7. desember 1942. 

Depression eftir Marion Patrick (1975).

Geðlæknismeðferð í Danmörku 1850-1920

Þetta er framhald af fyrri færslu, Danskar geðlækningar 1850-1920, og hér verður sjónum beint að þeim úrræðum sem danskir geðlæknar beittu á tímabilinu (og voru fyrirmynd úrræða á Íslandi frá stofnun Klepps árið 1907).

Sem fyrr sagði var hælið sjálft (fagurt umhverfi, einangrun og vinna) mikilvægur liður í lækningunni. Í hlutverki yfirlæknis á geðveikrahæli fólst miklu meira en yfirlæknis á venjulegum spítala því hann varð að vera sjúklingum æðri í andlegum efnum og siðferði. Þetta hlutverk yfirlæknis endurspeglaðist í arkítektúr nýrra geðveikrahæla: Bæði í Árósum og Oringe (Vordingborg) var bústaður yfirlæknsins í aðalbyggingunni með gott útsýni yfir hælið svo hann gæti haft auga með sjúklingunum að ofan.

Geðveiki af sýfilisRáð til aga (valdbeiting) voru leyfileg hefðu þau lækningargildi. Breski geðlæknirinn John Connolly hafði frá því í lok fjórða áratugar nítjándu aldar haldið því mjög á lofti að þvingunarúrræði, s.s. spennitreyjur, ætti að forðast. Hugmyndin um fjötralausa, þ.e. „no restraint“, meðferð setti mark sitt á allar evrópskar geðlækningar. Hún var líka rædd í fyrstu kynslóð danskra geðlækna en viðhorf þeirra voru beggja blands. Selmer taldi t.d. að það að hætta alveg að nota þvingunarstól, spennitreyju og belti væri hvorki skynsamlegt né mannúðlegt. „Stundum eru verkfæri til þvingunar í rauninni ekki annað en nokkurs konar stuðningsumbúðir, sem hafa það að markmiði að hrinda vissum þerapískum möguleikum, eins og hlýju af sæng [eða] líkamlegri hvíld, í framkvæmd“ skrifaði hann árið 1856. Að mati Selmers átti ávallt að vega og meta hvað kæmi sjúklingnum best og ef þvingun væri best skyldi nota hana.

Myndin er af sjúklingi með dementia paralytica (sem Danir kölluðu svo), þ.e.a.s. geðsjúkdóm af völdum sýfilis. Hún birtist í merkilegu ljósmyndasafni ungverska geðlæknisins Nicolae G. Chernbach, útg. 1870.
 

Rúmlega
 

Strax eftir að sjúklingur hafði verið lagður inn var byrjað á að meta hvað væri að honum, skv. einkennum, og meðferð hafin þegar það var ljóst. Til að byrja með átti sjúklingurinn að vera sem mest í ró og forðast hugaræsing: „Svo lengi sem geðsjúkdómur er bráður (akut) verður hið sýkta líffæri – heilinn – að vera í fullkominni ró“ sagði Valdimar Steenberg á St. Hans Hospital 1890. Í kennslubók frá 1920, Vejledning i Sindssygepleje, er aðalatriðið að sjúklingurinn fái ró, sem mætti m.a. ná með „langvarandi rúmlegu þar sem hin hljóða einsleita tilvera er trufluð sem minnst.“ Bæði Knud Pontoppidan og Christian Geill rökstuddu lækningargildi langrar rúmlegu á líffræðilegan hátt. Geill sagði þær jafna blóðið í líkamanum, sem hefði verið í óstandi, og þannig leggja af mörkum til að truflanir á næringu í heila hverfi, í Om Sindsygdom, útg. 1899. Pontoppidan tekur í svipaðan streng í ráðleggingum um meðhöndlun þunglyndis (sjá neðar í færslunni) því rúmlega hafi áhrif á öndun og púls.

Fyrst eftir innlögn átti sem sagt sem fæst að raska ró sjúklings. Síðar meir mátti sjúklingurinn fá heimsóknir en þær þurfti þó yfirlæknir ævinlega að samþykkja fyrirfram. Sömuleiðis ritskoðaði yfirlæknirinn öll bréf frá sjúklingunum. (Slík ritskoðun tíðkaðist langt fram yfir síðari heimstyrjöld og einnig voru bréf til sjúklinga gerð upptæk ef þurfa þótti.)

Eiginleg læknismeðferðin var af tvennum toga: Líkamleg (somatisk) og sálarleg, þ.e. siðferðileg meðhöndlun („moralsk behandling“).

Undir líkamlega meðferð féllu lyf og fyrirbyggjandi aðgerðir, s.s. sérstakt mataræði og böð.
 
 

Lyf

Lyfin voru annars vegar svefnlyf og hins vegar róandi lyf. Það sem var mest notað var kloral/kloralhydrat, en einnig brómsölt, opíum og morfín. Yfirlæknirinn á „Sjette afdeling“ skrifaði 1875: „… við öllum byrjunareinkennum geðsjúkdóma, sem ég taldi að svöruðu læknismeðferð, [hef ég] notað slík, nefnilega hækkandi skammta af ópíum, morfínsprautum, bromkalium, Kloralhydrat o.s.fr.“ Læknarnir litu á lyfjagjöf sem einungis meðferð við ákveðnum einkennum (symptomer) og þess vegna voru sömu lyf gefin sjúklingum með ólíka sjúkdómsgreiningu svo framarlega sem einkennin voru svipuð.
 

Geðlæknar gerðu sér vel grein fyrir því að lyfjagjöf gat nýst prýðilega til að hafa stjórn á sjúklingunum, hún væri nokkurs konar þvingun/helsi eins og spennitreyjur, belti o.þ.h. Yfirlæknirinn á geðspítalanum í Árósum, Friedrich Hallager, skrifaði í grein frá 1910 að m.a. Sulfonal væri „ekki bara [notað] sem svefnlyf heldur einnig til að halda sjúklingunum í ró yfir daginn“ og kallaði slíka lyfjagjöf „efnafræðilega fjötra“, þ.e. „Chemical Restraint“. Mörgum árum áður hafði Pontoppidan nefnt lyfjagjöf af þessu tagi lyfjafjötra, „Medical Restraint“, og tekið skýra andstöðu gegn „svo augljósri óhæfu …. þar sem sjúklingurinn er sleginn niður með stórum skömmtum af Narcotica.“ Christian Geill taldi að einstrengingsleg „no restraint” stefna væri óæskileg og gæti haft í för með sér meiri skaða en gagn. Hann hafði svipað viðhorf til hins skoska „open-door princip“, það átti að vera leiðarljós í geðlækningum en „enginn sem hefur einhvern tíma sinnt geðsjúkum velkist í minnsta vafa um að það eru margir geðsjúkir sem ekki er bara nauðsynlegt heldur líka gagnlegt að halda undir lás og slá“ skrifaði hann 1895.
 

Böð
 

Böð við geðveikiTil róandi ráða tilheyrðu einnig löng böð. Þau gátu varað klukkustundum saman eða jafnvel dögum saman, þar sem sjúklingurinn var settur í baðkar, oft hulið lérefti eða laki. Auk heitra baða tíðkuðust strandböð og regnböð. Geill taldi árið 1895 að daglegt kalt regnbað hefði „mjög frískandi þýðingu fyrir stóran hluta sjúklinga sem hættir til að sökkva í sljóleika, leti og sóðaskap.“ Í fyrrnefndri kennslubók frá 1920, Vejledning i Sindssygepleje, er volgum/heitum böðum hampað og sagt að þau ættu að standa „marga tíma á dag, stundum jafnvel allan daginn.“ Alexander Friedenreich, prófessor í geðlæknisfræðum, sagði í kennslubók frá 1921 að áhrifin „af hinum lagvarandi böðum [væru] meira róandi en rúmlegur, en algerlega viðvarandi og hraðrar verkunar má ekki krefjast.“ August Wimmer, yfirlæknir á Sct. Hans, sagði að best væri að vatnið væri 28° heitt. Hann taldi að það væri allt í lagi að láta sjúklingana liggja í baðinu allan sólarhringinn.

Órólegum sjúklingum sem vildu upp úr var gefið róandi lyf eða þeir bundnir ofan í baðið með upprúlluðum lökum, sem voru vafin um mitti þeirra og endarnir bundnir saman undir baðkerinu. Í sjónvarpsþætti um sögu norskra geðlækninga (sem voru að miklu leyti sniðnar eftir þeim dönsku langt fram á tuttugustu öld), Spekter: Psykiatriens historie, er sagt að algengast hafi verið að hafa böðin 36° heit og svoleiðis langböð hafi getað staðið lengi; öfgafyllsta dæmið er af sjúklingi sem var hafður í baði í eitt og hálft ár!

Myndin er tekin á baðdeildinni á Sct. Hans Hospital árið 1916.
 
 
 

Siðferðileg/andleg meðferð
 

Andlega meðferðin var fyrst og fremst hugsuð sem siðferðileg meðferð (moralsk behandling). Hún átti að stilla sálarlífið og gera það skipulagðara eða snúa því á rétt ról. Þessu var náð með aga, skynsemi, góðu fordæmi og að hafa ofan af fyrir sjúklingunum. Undir aga heyrðu refsiaðgerðir sem miðuðu að því að beina sjúklingum á rétta braut, eiginlega ala þá upp.
 

Í enduruppeldis-meðferð hælanna vó iðjusemi og vinna þungt. Margir geðlæknar skrifuðu um og undirstrikuðu að líkamleg áreynsla hefði læknandi áhrif, virkaði til bóta bæði á sál og líkama sjúklinganna og hefði róandi áhrif á ólæknanlega geðsjúka. Sjúklingar unnu við ýmislegt á hælunum, jafnt innan húss sem utan. Sem dæmi um viðhorf geðlækna til vinnu má taka Valdimar Steenberg sem tók undir að „það væri vissulega þversögn en hitti þó naglann á höfuðið að sá af mestu og bestu geðlæknum Þýskalands hefði læknað fleiri sjúklinga með hjálp hjólbara en lyfjaskápsins síns“, í skrifum 1866.
 
 

Dæmi um geðlækningameðferð

Sem dæmi um ráðlagða lyfjameðferð við þunglyndi (melankólíu) má nefna eftirfarandi:

Knud Pontoppidan: Psychiatriske Forelæsninger og Studier, útg. 1892, kafli 2. Melancholia simplex. Momenter af Melancholiens Diagnose og Behandling. Fyrirlesturinn er frá því í desember 1891. Dæmið er af þunglyndri konu og Pontoppidan segir að svoleiðis sjúkling eigi fortakslaust að meðhöndla með rúmlegu því lárétt stelling hefur áhrif á púls og öndun og er besta róandi ráðið sem við höfum. Ópíum hefur einsök áhrif til sálrænnar verkjastillingar svo best er að gefa það: Byrja í lágmarkskammti, auka hratt í 10 Ctgr (= 100 milligrömm) og gefa síðan þrefaldan til fjórfaldan skammt á dag. Morfín virkar ekki eins vel en þó má sprauta sjúkling með morfíni ef hann er æstur eða í kvíðakasti því verkunin kemur strax fram.

Til að laga svefninn er best að gefa lítinn skammt af Chloral á kvöldin. Sulphonal virkar verr á þunglyndissjúklinga en aðra geðsjúklinga, segir Pontoppidan, svo betra er að prófa Amylenhydrat, auk þess sem löng vel heit böð um háttamál gefa góða raun.
 

Í meðhöndlun við maníu (s. 57-58 í sama riti) segir Pontoppidan að ópíum virki illa og miklu betra sé að nota klóral. Sulphonal virkar vel sé það gefið í réttum skömmum; 1 gramm er hámarksskammtur á kvöldin og svo er best að gefa 50 centigrömm (500 milligrömm) einu sinni til tvisvar á dag. Hyocinet [scopolamine] er að mínu mati hættulegra, segir Pontoppidan. Það hefur óstöðuga verkan og hefur valdið óþægilegum eitrunaráhrifum, jafnvel í gætilegum skömmum. Þetta lyf minnir mig á meðal í gamla daga, segir hann, sem var í hæsta máta óaðlaðandi læknismeðferð, nefninlega Tartras stibico-kalicu (uppsölumeðal) sem í háum skömmtum hélt sjúklingnum í viðvarandi örmögnun. Að mati Pontoppidan var svonalagað óæskilegir lyfjafjötrar, þ.e. „medical restraint“. Hyocinet notum við varla lengur nema til að snöggróa mjög erfiða sjúklinga því við hér á deildinni höfum séð sjúklinga halda áfram að veltast um með lafandi tungu og sljótt augnaráð eftir að lyfið hefur skilist úr líkamanum, segir hann í fyrirlestrinum.
 

Alexander Friedenreich ráðleggur mjög svipaða lyfjagjöf við þunglyndi í Kortfattet, speciel Psykiatri (útg. 1901, s. 33-36).
 

Hann tekur fyrst fram að ópíum virki miklu verr á þunglyndissjúklinga en aðra geðsjúklinga. Raunar virki róandi efni almennt mun verr á geðsjúka en aðra: „ … maður getur gefið geðsjúkum, sérstaklega æstum, risaskammt af svefnlyfjum án þess að þeir sofni, t.d. hafa óðum mönnum (delerister) verið gefin fleiri grömm af ópíum á dag til að þeir sofni en það hefur verið eins og að skvetta vatni á gæs“.

Þunglyndum má gefa 20-30-40 ctgr (200-400 milligrömm) af ópíum tvisvar á dag án þess að veruleg áhrif sjáist og án þess að sjúklingurinn verði háður efninu. Það má snögghætta að gefa lyfið án þess að fráhvarfseinkenna verði vart því ópíum virkar ekki eins á geðsjúka og venjulegt fólk. Sjálfur segist Friedenreich ekki beita ópíum mikið því aukaverkanir geti verið óheppilegar við langvarandi notkun lyfsins í stórum skömmtum, t.d. hægðartregða, niðurgangur, að matarlyst hverfi og það valdi jafnvel ofskynjunum.

Hann minnist á nýja breska læknisaðferð sem er að gefa Tyroidin (skjaldkirtilshormón) en álítur hana óheppilega því sjúklingurinn megrist mjög af þessu læknisráði.

Við svefnleysi má auðvitað prófa böð, heit böð í baðkeri, að pakka sjúklingunum inn í vot stykki eða sturtur, og svo nudd, leikfimi og hreyfingu en þau virka illa. Mun betra er að nota lyf.

Það svefnlyf sem virkar best er Kloral, 1 1/2-2-3 grömm en það getur verið hættulegt ef sjúklingur er hjartveikur (þótt Friedenreich segist hafi aldrei orðið vitni að slíku sjálfur). Síðan kemur Sulfonal (1 1/2 – 2 grömm) en það virkar hægt, stundum ekki fyrr en daginn eftir, aukaverkanir eru óþægilegur svimi og sljóleiki lengi á eftir. Það hefur og sýnt sig að vera hættulegt í langvarandi notkun, einkum konum. Hættuminna er Trional sem má gefa í sömu skömmtum. Bæði Trional og Sulfonal hafa þann kost að vera bragðlítil og má þess vegna lauma þeim í sjúklinginn blandað út í drykk. Amylenhydrat virkar stundum vel (í 3 gramma skömmtum) en er hvorki sterkt né áreiðanlegt svefnlyf. Paraldehyd virkar betur en sjúklingurinn finnur óþægilega lykt og það er enn verr að taka það inn en Kloral og Amylen.

Ópíum og morfín er eiginlega ekki hægt að nota sem svefnlyf vegna lélegrar verkunar en þau gefast vel til að slá á slæman kvíða. Sömuleiðis má nota löng heit böð til að slá á kvíða og óró. Böðin standa í 1-2 klukkustundir en sumir læknar hafa sjúklingana í svoleiðis baði allan daginn, jafnvel dag eftir dag, segir Friedenreich (og er e.t.v. að ýja að fylgismönnum Kraepelin hins þýska).
 

Við öðrum geðsjúkdómum nefnir Friedenreich, auk baða og svitakúra, sömu lyf og bromalium (í 4- 8 gramma skammtum), sem megi þó ekki gefa langvarandi því það geti valdið eitrun.
 

Aðrar lyflækningatilraunir danskra geðlækna

Danski geðlæknir gerðu tilraunir með aðrar lækningaraðferðir en upp hafa verið taldar eftir aldamótin 1900 en þær urðu ekki almennar nema malaríumeðferðin, frá þriðja áratug síðustu aldar og frameftir öldinni. Má nefna tilraunir F. Hallager, yfirlæknis á geðspítalnum í Árósum (og kennara Þórðar Sveinssonar) sem birti niðurstöður sínar 1915 í Ugeskrift for læger um tilraunameðferð á sýfils-geðveikum (sjúklingum með dementia paralytica). Þær fólust í að sprauta sjúklingana með „vökva Coleys“, þ.e.a.s. með streptókokkum o.fl. bakteríum. Sjúklingarnir fengu hita og Hallager sagði að eftir hitameðferðina hefðu þeir verið nógu frískir til að snúa til daglegs lífs.  Á þriðja ártugnum náði svo malaríumeðferðin, kennd við austurríska geðlækninn Wagner-Jauregg, talsverðum vinsældum í Danmörku en hún fólst í því að smita sjúklinga af malaríu í þeirri trú að hár hiti læknaði geðsjúkdóminn. Þá meðferð prófuðu danskir geðlæknar fyrst haustið 1921. Danski geðlæknirinn Kund Schroeder fann upp eigin aðferð við hitahækkun geðsjúkra, nefnilega sulfosin-meðferðina. Hún fólst í því að sprauta brennisteinsolíu í vöðva svo sjúklingar fengu háan hita. Schroeder taldi þetta góða lækningu við geðklofa, krónískri heilabólgu o.fl., birti niðurstöður sínar fyrst 1927 og hlaut heimsfrægð fyrir vikið. Annar danskur læknir, Paul Reiter, birti sama ár grein um sína meðferð í Ugeskrift for Læger, nefnilega að sprauta ýmsum málmsöltum í geðklofasjúklinga, einkum mangan. Hann hlaut ekki heimsfrægð en aðferð hans var prófuð á ýmsum dönskum geðspítölum.
 
 

Heimildir, auk efnis sem krækt er í úr texta:

Psykiatriens Historie i Danmark. Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh.
Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.
 

Danskar geðlækningar 1850-1920

Þessi færsla er framhald af Geðlækningar og geðveiki forðum og fjallar um danskar geðlækningar á seinni hluta nítjándu aldar fram á þá tuttugustu. Ástæða þess að ég hef sérstakan áhuga á sögu danskra geðlækninga er að það er ómögulegt að skilja upphaf geðlækninga á Íslandi, á tuttugustu öld, nema vita eitthvað um hugmyndaheiminn sem þær spruttu úr. Þess vegna legg ég  áherslu á að geta þess hugmyndaheims sem ætla má að Þórður Sveinsson, fyrsti starfandi geðlæknirinn á Íslandi, hafi kynnst á námsári sínu 1905-6 í Danmörku. Og raunar gætir áhrifa frá dönskum geðlækningum fram undir miðja tuttugustu öld hér á landi, ef ekki enn lengur.
 

Skyldur ríkisins við geðsjúka og hugmyndin um geðveikrahæli (asyl)

Fyrir miðja nítjándu öld voru geðveikrahæli fyrst og fremst hugsuð til að taka þá geðsjúklinga sem voru hættulegir öðrum úr umferð. En laust fyrir 1850 verður sú breyting á að farið er að sinna geðsjúkum markvisst þótt ekki þættu þeir hættulegir. Viðhorfsbreytingin kom ekki hvað síst fram í því að geðsjúklingar voru ekki lengur flokkaðir í hættulega – ekki hættulega heldur í læknanlega – ólæknanlega. Þá læknanlegu skyldi lækna á sérhæfðum stofnunum þar sem beitt væri læknisfræðilega viðurkenndum ráðum og byggt á læknisfræðilegum kenningum. Þá ólæknanlegu skyldi vista á sömu stofnunum. Ábyrgð á geðsjúkum færðist þ.a.l. í miklum mæli frá fjölskyldunni til ríkisins og var fest í lög.

Þessa breyttu hugmyndafræði varðandi geðsjúka má rekja til margra hugmyndastrauma þessara tíma. En til að stytta mál má kannski beina sjónum að geðlækninum Haraldi Selmer, sem stundum er kallaður faðir danskra geðlækninga. Að mati Selmer voru Danir aftarlega á merinni þegar kom að geðsjúkum enda hefðu þeir ekki fylgst með nýjustu stefnum og straumum í Evrópu. Hann taldi að meðferð geðsjúkra hefði hægt og bítandi orðið mannúðlegri en mikið skorti á að menn gerðu sér almennt grein fyrir að geðveiki væri sjúkdómur og sem slíkur oft læknanlegur. Skoðunum sínum lýsti Selmer í ritverkinu Almindelige Grundsætninger for Daarevæsenets Indrætning, sem kom út árið 1846 og hafði mikil áhrif.

Selmer hafði ákveðnar hugmyndir um hvers lags sjúkrastofnanir hentuðu geðsjúkum og vildi kalla þær hæli (asyl). Hann byggði þær raunar á hugmyndum franska geðlæknisins Jean Étienne Esquirol (1172-1840.) Hælin áttu að vera uppi í sveit, til að verja sjúklingana fyrir forvitnum augum, afskiptum ættingja og aðstæðum eða samskiptum sem ýttu undir sjúkdóminn. Það var mikilvægt að hælin væru í fögru umhverfi því margir sjúklingar hlytu bót af „fegurð náttúrunnar … friðsælu umhverfi og breytilegu landslagi“ sagði Selmer í fyrrnefndu riti. Loks taldi hann að það kost að hælin lægju að sjó svo nýta mætti sjóböð í meðferð sjúklinganna. Á hælunum skyldi reka búskap og sinna ræktun því vinna var geðsjúkum holl, líkamleg áreynsla var hluti af líkamlegri (sómatískri) lækningaaðferðum. Selmer sagði að vinna væri aðalatriðið í meðferðinni því hún styrkti „Selvfølelse og moralske Bevidshed“ sjúklinganna. Þessi skoðun á gildi vinnunnar sem lækningaraðferðar var ríkjandi langt fram á tuttugustu öld.

Harald Selmer varð fyrsti yfirlæknirinn á Jydske Asyl (einnig kallað Aarhus sindsygeanstalt  eða Sindsygeanstalten i Risskov, á opinberum pappírum hét stofnunin Sindsygeanstalten for Nørre-Jylland) þegar það var stofnað 1852. Jydske Asyl var fyrsta sjúkrastofnunin sem var sérstaklega byggð fyrir meðhöndlun geðsjúkra en fleiri fylgdu í kjölfarið; Á árunum 1852-1915 voru stofnaðir 5 stórir geðspítalar/hæli í Danmörku.
 

Geðlæknar vilja vera læknar með læknum
 

Geðlækningar á seinni hluta 19. aldar í Danmörku einkenndust talsvert af ströggli geðlækna við að vera taldir til lækna, þ.e.a.s. það var nánast róið lífróður að því að gera geðlækningar að viðurkenndri læknisfræði. En róðurinn sóttist seint og var oft á tíðum erfiður. Segja má að barist hafi verið á tvennum vígstöðvum; Annars vegar reyndu geðlæknar að sannfæra kollega sína í læknastétt um að geðlækningar væru jafngildar öðrum læknisaðferðum og hins vegar að andæfa þeirri skoðun að aðrir en geðlæknar gætu greint geðsjúkdóma; Síðarnefnda stríðið var einkum háð gegn leikmönnum, t.d. fjölskyldum geðsjúkra.

Kennari Þórðar SveinssonarFyrst og fremst lögðu geðlæknar á þessu tímabili þunga áherslu á að geðveiki væri líffræðilegur sjúkdómur. Christian Geill orðaði þetta þannig 1899: „Andlegur sjúkdómur er alltaf sjúkdómur í heilanum, alveg eins og lungnabólga er sjúkdómur í lungum.“ Sálin var ekki á könnu geðlækna, eða eins og Knud Pontoppidan, yfirlæknir á tauga-og geðsjúkdómadeildinni (svokallaðri „Sjette afdeling“) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn sagði 1891: „… það sem við fáumst við sem læknar er líkaminn; sé til eitthvað sem nefnist sjúkdómar sálarinnar getum við ekki gert neitt við þeim. Neikvæð og jákvæð sálarleg einkenni eru í okkar augum einungis tákn um hvað sé ekki í lagi og hvað sé í lagi í æðsta taugasetrinu.“

Þarf varla að taka fram að talsvert fram á tuttugustu öld áttu kenningar Freud ekki upp á pallborðið í Danmörku og voru yfirleitt hunsaðar með öllu. Vegna samhengis við upphaf íslenskra geðlækninga vek ég athygli á því að danskir framámenn í geðlækningum höfðu á hinn bóginn mikinn áhuga á spíritisma. Meðal félaga danska sálarrannsóknafélagsins (Selskabet for Psykisk Forening) árið 1905 var Alexander Friedenreich, yfirlæknir á „Sjette afdeling“ (geðdeildinni) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn 1898-1918 og  prófessor í geðlækningum við Kaupmannahafnarháskóla 1916-19. Síðarmeir gengu fleiri áhrifamiklir geðlæknar í félagið, t.d. eftirmaður Friedenreich, August Wimmer (yfirlæknir á „Sjette afdeling“ og prófessor í geðlækningum frá 1920). Þessir geðlæknar sátu öðru hvoru í stjórn danska sálarrannsóknarfélagsins. (Kragh, Jesper Vaczy. 2003.) En meðfram þáttöku í félaginu gagnrýndu þessir áhrifamiklu geðlæknar spíritisma stundum, t.d. hélt Friedenreich því fram í grein árið 1908 að miðilsfundir gætu orsakað geðrof. (Kragh, Jesper Vaczy. Ótímasett.)

Myndin er af Alexander Friedenreich. Friedenreich heldur á tilraunaglasi með vökva í, sem að sögn greinarhöfundar í Psykiatriens historie i Danmark á að undirstrika að geðlækningar væru vísindalegar ekki síður en aðrar undirgreinar læknisfræði.

En það var þrautin þyngri að sýna fram á að geðveiki væri líkamleg eða af líkamlegum orsökum. Áhugi á krufningum jókst mjög en ekkert sást á heilum geðsjúklinga. Þó voru menn stundum á réttri leið, t.d. Valdemar Steenberg, yfirlæknir á Sct. Hans geðsjúkrahúsinu laust eftir miðja nítjándu öld, sem lagði allt kapp á að sanna tengslin milli sýfilissmits og geðsjúkdómsins dementia paralytica og tókst að sýna fram á tengsl þótt tæknin væri frumstæð og ekki væri hægt að greina sýfilisbakteríuna í heilavef fyrr en áratugum síðar. (Dementia paralytica er lokastig sýfilis og um 20% sjúklinga á dönskum geðveikrahælum voru haldnir þessum sjúkdómi.)

Úr því ekki tókst að sýna fram á að geðsjúkdómar væru líkamlegir var tekinn annar póll í hæðina til að færa geðlæknisfræði nær viðurkenndri læknisfræði, nefnilega að flokka geðsjúkdóma á vísindalegan hátt (eins og aðrir læknar flokkuðu líkamlega kvilla á vísindalegan hátt). Flokkunin varð að byggjast á sjúkdómseinkennum því ekki var hægt að sýna fram á nein líffræðileg einkenni. Harold Selmer lagði fyrstur danskra geðlækna til sameiginlegt flokkunarkerfi geðsjúkdóma árið 1850. Hann notaði eftirfarandi flokka:

Moralsk afsindighed eller forrykthed (Siðferðileg geðveiki eða brjálsemi) ;
Vanvid (orðið þýddi andleg þroskaskerðing og er raunar algerlega samstofna íslenska orðinu vanvit);
Monomani (vangefni að hluta);
Demens (sljótt hugarástand, Selmer notaði orðið einnig um rugl);
Fatuitet (táknaði enn meira rugl, þ.e. skort á raunveruleikatengslum);
Melankoli og mani (þunglyndi og æði)
 

Þrátt fyrir tillögu Selmers ríkti engin eindrægni í flokkun geðsjúkdóma og flokkaði hver læknir eins og honum sýndist.  Flokkunin tók og stöðugum breytingum, t.d. var notað ólíkt flokkunarkerfi í þeim dönsku kennslubókum um geðlæknisfræði sem komu út á síðari hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu, flokkunum fjölgaði líka jafnt og þétt á þessu tímabili. Flokkun Kraepelin hins þýska á níunda áratug nítjándu aldar varð kunn í Danmörku og hafði einhver áhrif en ekki mikil. Þrátt fyrir að æ fleiri sjúkdómsheiti væru notuð í kennslubókum, fyrirlestrum og greinum um geðlækningar voru flokkarnir miklu samt færri í praxís, þ.e.a.s. í sjúkraskýrslum og vinnugögnum. Geðlæknar kvörtuðu sumir yfir því að flokkunaráráttan keyrði um þverbak, sjá t.d. síður úr skýrslu Valdemars Steenberg yfirlæknis á Sct. Hans Hospital frá 1871, næsta opna er hér. Það gerði líka flokkun geðsjúkdóma eftir einkennum mun erfiðari að geðlæknar voru sammála um að ekki skyldi taka mark á sjúklingum eða ættingjum þeirra í lýsingu einkennanna, slíkt var of óvísindalegt. Þess vegna varð að flokka hvern sjúkling eftir þeim einkennum sem hann sýndi eftir innlögn.

Knud Pontoppidan

Knud PontoppidanEinna áhrifamestur geðlækna á þessu tímabili var Knud Pontoppidan. Hann var yfirlæknir á „Sjette afdeling“ á  Kommunehospitalet  og gegndi fyrstu háskólastöðunni sem stofnuð var í geðlækningum, þ.e. varð dósent við Kaupmannahafnarháskóla árið 1888, varð síðar prófessor í réttarlæknisfræði við sama skóla. (Ætla má að hróður Knuds Pontoppidan hafi og aukist fyrir að hann var bróðir frægs skálds, Henrik Pontoppidans, sem hlaut Nóbelsverðlaun árið 1917.)

Pontoppidan var vinsæll fyrirlesari um fræðasvið sitt, sem var vel að merkja bæði geðlækningar og taugalækningar því ekki var greint milli þessa tveggja. Fyrirlestrarnir voru gefnir út og höfðu þannig enn meiri áhrif. Má lesa hluta þeirra, Den Almindelige Diagnostik af Centralnervesystemets Sygdomme (frá 1887). Raunar er þetta safn útgefinna fyrirlestra eftir Pontoppidan því á eftir þessari fyrirlestraröð fylgja á sömu vefslóð:

Kliniske forelæsninger over Nervesygdomme (frá 1898)
Eurastenien. Bidrag til skildringen af vor Tids Nervøsitet. (útg. 1886, birtist upphaflega í tímaritinu Bibliothek for Læger en var svo gefið út í þremur upplögum 1886)
Fire Chiatriske Foredrag (útg. 1891, haldnir 1888-1890)
Psychiatriske Forelæsninger og Studier (útg. 1892, sex fyrirlestrar haldnir 1891)
Psychiatriske Forelæsninger og Studier. Anden række (útg. 1893, sex fyrirlestrar haldnir 1892-93)
Psykiatriske Forelæsninger og Studier. Tredie Række. (útg. 1895, sex fyrirlestrar haldnir 1893-95)
 

Amalie SkramPontoppidan er m.a. minnst fyrir mannúðleg viðhorf til geðsjúkra auk fræðilegra geðlæknisstarfa. En hann öðlaðist óvænta frægð meðal almennings í Danmörku og raunar langt út fyrir landsteinana laust fyrir aldamótin 1900 þegar hann lenti í útistöðum við áhrifamikla sjúklinga: Fyrst og fremst við norsku skáldkonuna Amilie Skram. Hún var lögð inn á „Sjette afdeling“ árið 1894, í kjölfarið á hjónabandserfiðleikum, og hefur að öllum líkindum þjáðst af þunglyndi. Amalie dvaldi í mánuð á geðdeildinni og hugnaðist engan veginn framkoma starfsfólks við sjúklinga, sérstaklega þótti henni Knud Pontoppidan hrokafullur og ekki hvað síst hrokafullur og stjórnsamur í garð kvenkyns sjúklinga. Svo Amalie beitti sér í dönsku dagblöðunum gegn Pontoppidan og skrifaði svo lykilskáldsöguna Professor Hieronymus, útg. 1895, sem lýsir samskiptum þunglyndu konunnar Elsu við yfirlækninn Hieronymus og gerist á geðdeild. Professor Hieronymus hefur lifað góðu lífi síðan, einnig lykilskáldsagan Paa St. Jørgen eftir Skram, sem byggð er á mánaðardvöl hennar á Sct. Hans hospital en þangað fór hún af „Sjette afdeling“.

Eftir þessa óvæntu, og að margra mati óverðskulduðu frægð, sem hlaust af útistöðum við Amalie Skram, gróf undan veldi Pontoppidan á „Sjette afdeling“ og hann sagði upp stöðu sinni 1897, gerðist yfirlæknir á Jydske Asyl í Árósum. Pontoppidan reyndi sjálfur að beita sömu brögðum og Amalie Skram og skrifaði bæklinginn  Sjette Afdelings Jammersminde sér til varnar, útg. 1897. (Titillinn er sjálfsagt vísun í Jammers Minde Leonóru Christinu Ulfeldt, sem haldið var fanginni í Bláturni árum saman … orðið þýddi upphaflega kveinstafir en hefur verið þýtt Harmaminning á íslensku). Pontoppidan hafði ekki erindi sem erfiði með þessum bæklingi, hann endurheimti ekki orðstír sinn í þessum slag.

Erjur Amalie Skram (og fleiri sjúklinga sem hún studdi opinberlega) og Knuds Pontoppidan rötuðu meira að segja í dagblöð hér uppi á Íslandi, sjá Yfirlæknir bæjarspítalans í Khöfn í Fjallkonunni, 18. desember1894, þar sem samúðin er öll með sjúklingnum (Amalie Skram studdi þennan sjúkling dyggilega á opinberum vettvangi) og fréttamola í Bjarka, 24. desember 1897, þar sem samúðin er greinileg með hinum ofsótta Pontoppidan. Í grein Björnstjerne Björnsson, Nútíðarbókmenntir Norðmannna, sem birtist í janúarhefti Eimreiðarinnar 1898, er einnig drepið á þetta mál, í umfjöllun um Professor Hieronymus (s. 58-59). Ætla má að þetta málavafstur hafi því verið velþekkt á Íslandi í byrjun tuttugustu aldar.
 

Vísindaleg/læknisfræðileg grein gerð fyrir orsökum geðsjúkdóma

Þótt  tilraunir til að gera geðlækningar vísindalegar með skírskotun til líffræðilegra breytinga í heila eða með nákvæmri samræmdri flokkun hafi mistekist reyndu menn fleira til hins sama, t.d. að gera vísindalega grein fyrir orsökum geðsjúkdóma. Þar var fyrst og fremst horft til arfengi í víðum skilningi. Að vísu var mjög mismunandi hversu nákvæmlega einstakir geðlæknar túlkuðu arfgengi, sumir seildust ákaflega langt aftur í ættir, aðrir skemmra en allir reyndu þeir þó að fá upplýsingar hjá sínum sjúklingum um geðveika, vangefna eða drykkjusjúka ættingja þeirra (þetta var allt talið geðveiki). Auk þess sem við nútímamenn teljum arfgengi horfðu geðlæknar talsvert til arfgengrar úrkynjunar, algengrar hugmyndir á þessum tíma. Arfgeng úrkynjun (degeneration) fólst í því að ættin úrkynjaðist meir og meir með hverjum ættlið. Venjuleg arfgengi var ekki nærri eins ráðandi orsök geðsjúkdóma og arfgeng úrkynjun að mati geðlækna þessa tíma.

Auk arfgengi/úrkynjunar gátu geðsjúkdómar átt sér líkamlega orsök. Var oft nefnt sjálfsfróun, höfuðverkur eða einhver líkamlegur kvilli. Loks gat geðsjúkdómur kviknað af ytri aðstæðum, þ.e.a.s. einhverju sem kæmi fólki úr jafnvægi, til dæmis sorg, óhamingjusömu hjónaband, fjárhagserfiðleikum eða vonbrigðum. Í ársskýrslum geðdeilda/hæla frá þessum tíma eru líka tíndar til öllu langsóttari skýringar eins og pólitískar erjur, mormónatrú, ferðalag til Ameríku, að liggja í bókum síknt og heilagt o.fl. Aðaláherslan var þó að geðsjúkdómar ættu sér líkamlegar skýringar, ytri aðstæður eða áföll voru talin veigalítil og ólíkleg til að valda erfiðum geðsjúkdómum.

Tvær kennslubækur um geðsjúkdóma

Í lokin er rétt að benda á kennslubækur sem aðgengilegar eru á Vefnum og ætla má að hafi mjög mótað hugmyndir Þórðar Sveinssonar, fyrsta starfandi geðlæknisins á Íslandi.

Om Sindsygdom eftir Christian Geill, útg. 1899. Geill var einkum þekktur fyrir skrif sín um og störf við réttargeðlæknisfræði en hann var yfirlæknir á Jydske Asyl (einnig kallað Aarhus Sindsygeanstalt)  á árunum 1894-96. Frá 1901 var hann yfirlæknir á geðspítalanum í Viborg. Þórður Sveinsson, verðandi yfirlæknir á nýstofnuðum Kleppi, var kandídat á Aarhus Sindsygeanstalt í mars-ágúst 1906. Kannski hefur andi Geills enn svifið þar yfir vötnum þótt hann væri þá horfinn til svipaðra starfa í nágrenninu.

Riti Geills er skipt í þessa efnisþætti: Hvað er geðsjúkdómur?; Hverjar eru orsakir geðsjúkdóma; Hvernig lýsa geðsjúkdómar sér; Hvernig er hægt að fyrirbyggja geðsjúkdóm; Hvernig á að meðhöndla geðsjúkan heima; Hvernig er meðferð á stofnun háttað. Í ritinu kemur skýrt fram sú eindregna afstaða að geðsjúkdómar séu nánast allaf af líkamlegum toga. T.d. útskýrir Geill hvernig geðshræringar hafi líkamleg áhrif (og valdi þar með líkamlegum sjúkdómum), má nefna að roðna eða fölna, sem dregur úr blóðflæði til heilans, sem gæti valdi heilaskemmdum, s.s. geðveiki.

Kortfattet, speciel Psykiatri eftir Alexander Friedenreich, útg. 1901. Freidenreich varð yfirlæknir á „Sjette afdeling“ (geðdeildinni) á Kommunehospitalet í Kaupmannahöfn 1898-1918, dósent í geðlækningum við Kaupmannahafnarháskóla 1898-1916 og prófessor í geðlækningum við sama skóla 1916-19. Það er líklegt að Þórður Sveinsson hafi verið nemandi Freidenreichs þegar hann kynnti sér geðlækningar í Kaupmannahöfn 1905-6 en Þórður starfaði m.a. á „Sjette afdeling“ og hlýtur að hafa eitthvað komið eitthvað nálægt háskólanámi í geðlæknisfræðum þennan vetur sem hann var í Kaupmannahöfn.
 

Af því ég er þunglyndissjúklingur athugaði ég af hvaða orsökum þessir ágætu menn telja að þunglyndi (melankólía) stafi. Umfjöllun í bók Geill var almennt um orsakir geðsjúkdóma og þar undirstrikað rækilega að þær væru aðallega arfgengi og líkamlegar orsakakir. Í  Kortfattet, speciel Psykiatri er sérstaklega fjallað um orsakir þunglyndis og arfgengar orsakir auðvitað fyrst taldar. Síðan er minnst á líkamlegar orsakir, nefnilega þessar:

Blóðleysi af ýmsum ástæðum, sjúkdómar sem draga úr þrótti, léleg næring, viðvarandi móðurlífsbólgur, bólgur í þörmum, lifrarsjúkdómar og þvagfærasjúkdómar. Ásamt með móðurlífsbólgum má telja óléttu, fæðingu og brjóstagjöf. Svo má nefna hjarta- og nýrnasjúkdóma, kransæðabólgur og sjúkdóma á borð við lungnabólgu og taugaveiki. Talsverð áhersla er lögð á að sjálfsfróun geti verið orsök þunglyndis (en er þó algengara að valdi öðrum geðsjúkdóma) og að hana beri að telja til líkamlegra orsaka þótt skaðinn geti líka talist sálrænn. (s. 19-21.)

Af sálrænum orsökum þunglyndis má nefna sorg, vonbrigði, að fara að heiman og ofreynslu. Hið síðastnefnda er algengara hjá karlkynssjúklingum en verður einnig vart hjá kennslukonum. Kennslukonur þurfa oft að hraða sér mjög í gegnum námið, af fjárhagsástæðum, og taka próf þótt kunnáttan sé léleg. Svo þurfa þær strax að fara að kenna. Margar einkakennslukonur eru „misnotaðar á grófan hátt og eru á heildina litið í erfiðri og oft vandræðalegri stöðu.“ Í tilvikum kennslukvenna kann því ofreynsla að vera sálræn orsök þunglyndis, segir Geill, en minnist ekkert á að aðrar konur geti ofreynt sig 🙂  (Sjá s. 23.)
 

  

Heimildir

Auk efnis sem vísað er í, í færslunni, studdist ég einkum við eftirfarandi kafla í Psykiatriens Historie i Danmark, útg. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh:

Nielsen, Trine Fastrup: Fra dårekiste til terapeutisk anstal. Dansk psykiatri 1800-1850;
Møllerhøj, Jette. Sindssygedom, dårevæsen og videnskap. Asyltiden 1850-1920;
Mellergård, Mogens: Nye svar på gamle spørgsmål. Psykiatriske trosetninger 1880-1930.

Einnig studdist ég við greinarnar:

Møllerhøj, Jette. On unsafe ground: the practises and institutionalization of Danish psychiatry, 1850-1920. History of Psychiatry, 19(3): 321-337, 2008. Aðgengileg á Vefnum og er krækt í hana.
Kragh, Jesper Vaczy. »Overtro og trolddom« – Selskabet for Psykisk Forskning 1905-1930. Fortid og Nutid, september 2003, s. 163-185. Greinin er aðgengileg á Vefnum og er krækt í hana.
Kragh, Jesper Vaczy. Danish Spiritualism, 1853-2011. Ótímasett. Aðgengilegt á vef.

Í næstu færslu geri ég grein fyrir hvernig læknismeðferð geðsjúkra var háttað á þessum tíma.

Geðlækningar og geðveiki forðum

Undanfarið hef ég verið að lesa svolítið um geðlækningar fyrri tíma og reynt að glöggva mig á hugmyndafræði að baki lækningum og viðhorfum til geðsjúkra. Ég er orðin dálítið þreytt á amrísku sjónarhorni í skrifum um sögu geðlækninga eða eilífum tilvitnunum í geðveikrahæli í Frakklandi og Bretlandi og keypti þess vegna bókina Psykiatriens historie i Danmark, eftir að hafa lesið marga feikigóða dóma um þá bók (sem kom út 2008). Bókin stendur algerlega undir væntingum. Kannski er það vegna þess að ritstjóri hennar, Jesper Vacsy Kragh, er sagnfræðingur en ekki geðlæknir/læknir? Altént hefur verið beitt ströngum sagnfræðilegum vinnubrögðum við samningu bókarinnar, þ.e.a.s. frumheimildir skoðaðar gaumgæfilega og reynt að setja umfjöllunarefnið í samhengi við tíðaranda hvers tíma.

Eiginlega er ég bara búin að lesa fyrsta hlutann almennilega, St. Hans Hospital i København 1612-1808, e. Barböru Zalewski. Hún er doktor í sagnfræði og reyndar sérfræðingur í daglegu lífi konungshirðarinnar í Danmörku á 17. öld og 18. öld, svona auk sérfræðiþekkingar í málefnum geðsjúkra á sama tíma … kannski skarast þessi fræðasvið  😉  Það sem vakti einkum athygli mína í þessari umfjöllun var að geðsjúkir höfðu það alveg sæmilegt á þessum tíma miðað við hag almennings í Kaupmannahöfn og umönnun þeirra verður seint talin einkennast af fjandsemi og nauðung.

Í dönskum lögum, allt frá Eriks Sjællandske Lov frá því um 1250, hefur verið að finna samsvarandi grein og í íslenskum lögum, allt frá Grágás, um að ættingjar eigi að sjá geðsjúkum/vitfirrtum farborða séu þeir ófærir um það sjálfir. Danska lagagreinin er raunar enn í gildi því hún hefur aldrei verið felld úr gildi og gengur ekki í berhögg við núverandi lög í landinu. En þótt “frænder” ættu að sjá um sína geðsjúklinga varð æ meiri þörf á að ríkið axlaði þær skyldur og fyrsta geðveikrahúsið, forveri St. Hans spítalans, var sett á fót 1612.

Í þessum fyrsta hluta bókarinnar er reynt að kæfa nokkrar lífseigar goðsagnir. Ein goðsögnin er að á sextándu og sautjándu öld hafi almennt verið talið að geðsjúkir væru haldnir illum anda. Zalewski tínir til heimildir fyrir því að svo hafi aldrei verið, meira að segja var það á könnu presta að greina milli þess hvort menn væru í alvörunni andsetnir eða geðveikir og prestar áttu ekki í neinum vandræðum með að skilja þar á milli. Og vissulega er það rétt að almenningur hafði stundum greindarskerta og geðveika (það var ekki greint þarna á milli) að dári og spéi en raunar höfðu Kaupmannahafnarbúar á 17. og 18. öld hvern þann að skotspæni sem skar sig úr fjöldanum.

Sömuleiðis er borið til baka að fólki í geðrofi hafi verið troðið í rimlabúr sem kölluðust dárakistur. Dárakisturnar voru ekki búr heldur pínulítil herbergi (þau minnstu voru 2,5 fermetrar … mætti kannski kalla þær skápa en örugglega ekki rimlabúr) með naglföstu rúmi, naglföstum kamri, sterkum veggjum og járnhurð. Þær voru byggðar af illri nauðsyn: Það var hreinlega ekki mannafli til að hemja stjórnlausa einstaklinga, sem brutu allt og brömluðu og voru hættulegir sjálfum sér og öðrum. Þetta er t.d. rökstutt með grunnteikningu af dárakistum spítalans frá 1738. Og fólk var ekki haldið í þessum pínuherbergjum til eilífðarnóns heldur sést á skrám spítalans að menn eru settir í dárakistu í stuttan tíma, svo fá þeir aftur að hverfa til sinna venjulegu herbergja þegar æðið rennur af þeim. Raunar kemur fram seint í þessum kafla að spennitreyjan (illræmda nútildags) hafi verið mikil frelsun fyrir þá sem á rann æði því eftir að spennitreyjur komu til sögunnar hafi ekki þurft að færa sjúklinga í sérstaklega rammbyggðu herbergin (dárakisturnar) niðri í kjallara heldur hafi mátt óla þá og leyfa þeim að vera áfram samvistum við aðra sjúklinga í mun skárri vistarverum.

Í bókinni Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga eftir Jón Ólaf Ísberg (útg. 2005) er því aðeins gefið undir fótinn að brennimerking fólks með geðsjúkdóma hafi verið óþekkt uns Kleppur var stofnaður, þ.e. uns „vísindalegar“ geðlækningar hófust á Íslandi. Ég hef svolítið velt þessu fyrir mér en sosum ekki komist að neinni niðurstöðu. Í leit á timarit.is má finna aldargamlar fréttir/frásagnir af melankólísku eða þunglyndu fólki (af báðum kynjum) sem fyrirfór sér en hvergi er neinn dómur felldur yfir því fólki, í rauninni er greint frá slíkum mannslátum á nákvæmlega sama kaldranalega hlutlausa háttinn og hverjum öðrum banaslysum. Sjá t.d. þessa frétt í Þjóðólfi 23.10. 1903:
 
 

Slysför .
Aðfaranóttina 4. þ. m. fyrirfór sér gipt kona frá Hvammi í Lóni Bergljót Jónsdóttir (frá Hofi í Öræfum Þorlákssonar). Hafði hún verið nokkra daga til lækninga á Reynivöllum í Suðursveit, en gisti á Stapa í Nesjum á leiðinni heim til sín laugardagskveldið 3. þ. m. Var horfin úr rúminu um morguninn og fannst dauð í Þveitinni, vatni fyrir innan Bjarnaneshverfið. Hún hafði verið þunglynd um hríð og heilsubiluð, en myndarkona. Var komin hátt á fertugsaldur.

Klassísk eldri dæmi má finna í  íslenskri málsögu, nefnilega af sr. Jóni Halldórssyni sem dó árið 1779. Einn annálaritari ritar að hann hafi verið „gamall klerkur og æðisgenginn“ meðan annar annálaritari segir hann hafa verið „frá sér numinn“. Hvorgur annálaritarinn gerir á nokkurn hátt lítið úr sr. Jóni þótt þeir noti orðalag sem okkur nútímamönnum kann að finnast skondið. Líklega þarf ég að leggjast í annálalestur til að reyna að glöggva mig á því hvort geðbiluðu fólki hafi verið eitthvað öðru vísi lýst en öðrum. Ef marka má bókina um sögu geðlækninga í Danmörku hafa menn tekið geðveiki eins og hverjum öðrum krankleik eða hundsbiti fyrr á öldum, meðan enn var ekkert opinbert geðlækningakerfi.

Hagur geðveikra í geðlækningabatteríinu danska snarversnar þegar komið er fram á 18. öld, þegar J.H. Seidelin varð yfirlæknir á St. Hans árið 1816 og uns hann var settur af, í kjölfarið á kvörtun sjúklings, árið 1831. Fyrir þann tíma virðast menn ekki hafa haft ýkja mótaðar hugmyndir um geðveika, reyndu bara að taka þá veikustu úr umferð, veita þeim sæmilega ummönnun og vonast til að þeim batnaði af sjálfu sér. Sárafáir þeirra sem komu að meðhöndlun geðsjúkra voru læknismenntaðir. En Seidelin var velmenntaður læknir og fylgdi nýjum hugmyndum um að geðsjúkir væru sjúklingar sem þyrftu meðferð á sjúkrastofnun rétt eins og aðrir sjúklingar. Að baki lá auðvitað það húmaníska viðhorf að gera ekki upp á milli sjúklinga eftir sjúkdómum. 

Seidelin taldi mikilvægt að beita læknisfræðilegum aðferðum, „psykiske kurmetoder“ í meðhöndlun geðsjúklinga. Því miður fólust þessar „psykiske kurmetoder“ oft í að aga sjúklinginn með líkamlegum refsingum ýmiss konar. Má nefna böð, spennitreyjur, stóla sem menn voru bundnir í, svelti, uppsölulyf, þorstameðferð (menn fengu ekkert að drekka langtímunum saman) o.s.fr. Það hlálega er að þessi meðferð Seidelins, sem vekur andstyggð okkar nútímamanna, byggði líklega á þeirri nýju hugmyndafræði að geðveiki væri líffræðilegur sjúkdómur („somatisk“), ekki ósvipuðum hugmyndum og eru hvað mest í móð meðal geðlækna nútímans. Ekki hefur varðveist mikið af efni eftir Seidelin sjálfan en samtímamaður hans, læknirinn  F.C Howitz, birti grein árið 1824 þar sem hann gerir grein fyrir þessum nýju „vísindalegu“ hugmyndum, þ.e. að uppruni geðsjúkdóma sé í líffærunum, og segir:
 

Afsindighet [orðið sem þá var notað yfir geðræna sjúkdóma] bestaaer i en Indskrænkning af Fornuften eller Fornuftens Brug formedelst en Sygdom i de materielle Organer for Sjælens Virksomhed. For saa vidt den yttrer sig i Handlingen bestaaer den i en Mangel af fornuftig Selvbestemmelse foranlediget af samme legemlige Aarsag.
 

Ég er ekki komin lengra í bókinni. En það er óneitanlega merkilegt að þær óhuggulegu læknisaðgerðir sem við teljum pyndingar skulu hafa komið til sögunnar þegar menn gerðust vísindalegir, þ.e. þegar læknisfræðin hóf innreið sína í meðhöndlun geðsjúkra.
 
 
 
 

Þjóðsagnir um þunglyndi og konur

Nútíma þjóðsögur eru oft skemmtilegar, t.d. sú um að Hagkaup selji öðru hvoru G-strengi fyrir fimm ára stúlkubörn eða sú um að í máli eskimóa séu óteljandi orð yfir snjó. Eftir lestur greinar eftir geðlækninn Lauru D. Hirschbein velti ég því fyrir mér hvort staðhæfingin um að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla sé ein af þessum nútíma þjóðsögum sem næstum ómögulegt er að kveða niður. Greinin heitir Science, Gender, and the Emergence of Depression in American Psychiatry 1952-1980 og birtist í Journal of the History of Medicine and Allied Sciences, 2006, 61 hefti:2, s.187. Hér á eftir verður stiklað á stóru um efni greinarinnar.

Post hoc ergo propter hocÞótt aðalumfjöllunarefnið sé að rekja hugmyndir um að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla er talvert fjallað það hvernig skilgreining á þunglyndi og margauglýstar orsakir þunglyndis eru fengnar með „bakleiðslu“ (Facebook-vinur minn einn stakk upp á þessu orði sem mér finnst lýsa fyrirbærinu vel), þ.e.a.s. með alkunnri rökvillu sem heitir Post hoc ergo propter hoc. Rökleiðsla af þessu tagi ætti erfitt uppdráttar í hugvísindum, a.m.k. get ég ekki ímyndað mér að hún teldist  tæk í mínu fagi,  en virðist prýðilega gjaldgeng í vísindalegri geðlæknisfræði. Í stuttu máli sagt felst röksemdarfærsla geðlæknisfræða í því að fyrir slembilukku uppgötvuðu menn að sum lyf virtust létta lund sjúklinga (sem voru með allt aðra sjúkdóma en þunglyndi), með dýratilraunum tókst að greina áhrif lyfjanna til þess að breyta boðefnaframleiðslu í heila (einkum serótónín og noradrenalínframleiðslu) og því var dregin sú ályktun að þunglyndi stafaði af ruglingi í þessari boðaefnaframleiðlu … sem urðu svo rök fyrir því að ávísa lyfjum sem breyttu boðefnaframleiðslunni gegn þunglyndi. Sá fróðleikur sem læknar hampa við þunglyndissjúklinga er fenginn svona:
 

Þunglyndislyf breyta boðefnaframleiðslu í heila => þunglyndi stafar af rugli á boðefnaframleiðslu í heila => til að lækna þunglyndi þarf að taka þunglyndislyf sem breyta boðefnaframleiðslu í heila.

Mætti ímynda sér sambærilega rökleiðslu um krabbameinslyf og krabbamein:
 

Krabbameinslyf valda hárlosi => krabbamein stafar af of miklu hári => til að lækna krabbamein þarf að taka lyf sem veldur hárlosi.  

Það sjá náttúrlega allir í hendi sér að þetta er hundalógík og rugl. Samt er fullt af fólki sem trúir þessari speki nútímageðlækninga um orsakir þunglyndis.
 

Í prófunum á þessum lyfjum sem breyttu boðefnaframleiðslu heilans var fylgst með hvað breyttist einkum í líðan þeirra sem lyfin voru prófuð á, þau einkenni grúppuð saman og kölluð þunglyndi, lyfin síðan markaðssett sem and-þunglyndislyf (antidepressant), þ.e.a.s. þau drægju úr því sem nú voru orðin viðurkennd einkenni þunglyndis.
 

Fyrstu geðlyfjatilraunir sem tengdust lyfjafyrirtækjum, um og uppúr 1950, voru þannig að geðlæknar prófuðu lyf á alls konar sjúklingum, oft inniliggjandi á spítölum. Lyfin voru ekki prófuð við einum geðsjúkdómi öðrum fremur enda sortéring geðsjúkdóma fremur frumstæð og engin sérstök mælitæki voru til að meta árangurinn. Í þessum fyrstu lyfjatilraunum voru miklu fleiri kvenkyns sjúklingar en karlkyns, sem endurspeglaði einfaldlega kynjaskiptingu sjúklingahóps á geðspítölum. (Um ástæður þess að innlögðum körlum  fækkaði á amerískum geðspítölum eftir stríð hefur verið talsvert bollalagt en það er ekki efni þessarar færslu.) Að þessu leyti voru geðlyfjaprófanir andstæðar öðrum lyfjaprófunum á sama tíma því oft voru lyf eingöngu prófuð á körlum.

Aðferðarfræði í lyfjatilraunum batnaði smám saman og á sjötta áratug síðustu aldar var farið að velja sjúklingahópa í þunglyndislyfjatilraunir. Sjúklingar máttu bara taka þátt í svoleiðis tilraunum ef þeir sýndu einhver einkenni þunglyndis en þeir sem stríddu við önnur vandamál, t.d. alkóhólisma, voru útilokaðir. Um leið var skilgreiningin á þunglyndi þrengd mjög: Þunglyndir voru þeir einir sem sýna mátti fram á að gætu hlotið bata af þunglyndislyfjum. Þessi strangari sortéring jók enn vægi kvenkyns prófenda í hópi þeirra sem þunglyndislyf voru prófuð á. Rannsakendur höfðu litlar sem engar áhyggjur af kynjahallanum en þó má finna dæmi af einum rannsakanda sem bendi á að kynjahalli í þunglyndi hyrfi ef alkóhólismi væri talinn með.

þunglynd konaUpp úr 1970 lýstu þunglyndislyfjarannsakendur því almennt yfir að þunglyndi væri algengara meðal kvenna en karla. Á áttunda áratugnum óx kvenréttindahreyfingum fiskur um hrygg og félagsvísindamenn hoppuðu á yfirlýsingar lyfjarannsakenda og fóru að reyna að greina hvaða þættir í félagslegu umhverfi kvenna gætu gert illt verra þegar litið væri til þess að þeim væri hættara til að veikjast af þunglyndi en körlum. Smám saman varð hugmyndin um að þunglyndi væri fyrst og fremst kvennasjúkdómur að kennisetningu sem fáir urðu til að gagnrýna. Má segja að þessi nýja kennisetning hafi náð hæstu hæðum í viðamikilli rannsókn á þunglyndi þar sem eingöngu voru rannsakaðar konur. Af niðurstöðunum voru hins vegar dregnar ályktanir um þunglyndi almennt og í greinaskrifum um þessa rannsókn var upp og ofan hvort þess var getið í titlum eða útdráttum að viðföng rannsóknarinnar hefðu verið konur einar.

Þunglyndislyfjarannsóknir voru sem sagt frá upphafi gerðar á óflokkuðum hópum með geðræna sjúkdóma þar sem hallaði mjög á karla í þátttöku, þunglyndi skilgreint út frá því hvaða einkenni þunglyndislyfin virtust slá á, virkni lyfjanna við akkúrat þessum einkennum var síðan notuð til auglýsa lyfin sem and-þunglyndislyf (anti-depressant). Þarf varla að taka fram að konur voru í meirihluta þeirra sem höfðu þessi einkenni, voru þ.a.l. greindar þunglyndar af vel upplýstum og velauglýsingalesnum læknum og urðu mikill meirihluti hraðvaxandi þunglyndissjúklingahóps.

Mar�a meyÞað vakti sérstaka athygli mína að Hirschbein segir frá því í fyrstu almennt samþykktu skilgreiningunni á þunglyndi, þ.e.a.s. upptalningu sjúkdómseinkenna í DSM-III (sem kom út árið 1980), var pirringur (lýsing á „irritability“) sem sagt var geta einkennt þunglyndi barna og unglinga. Þegar næsta útgáfa af greiningarlyklinum kom út, DSM-IIIR árið 1987, var búið að fella þetta einkenni út og það hefur ekki birst aftur. Hirschbein nefnir þetta bara í neðanmálsgrein en af því ég er örugglega ekki eini þunglyndissjúklingurinn sem verð óstjórnlega pirruð út af smámunum þegar sjúkdómurinn blossar upp velti ég því fyrir mér af hverju pirringur er ekki lengur talinn með í einkennum þunglyndis (hann er heldur ekki talinn í ICD-10, þeim greiningarlykli sem íslenskt heilbrigðiskerfi á að nota). Í ljósi þess sem ég fjallaði um í síðustu færslu hvarflar að mér að pirringur sé ekki talinn sjúkdómseinkenni þunglyndis af því hann samrýmist ekki hugmyndum (geðlækna?) um það hvernig konur séu í innsta eðli sínu; „hin góða kona“ er vissulega veiklynd og grátgjörn … en skilur allt og umber allt. Og af því erkitýpa þunglyndissjúklings er einmitt sú sama og erkitýpa kvenna að mati nútímakarlremba (áður var þessi týpa kannski þekktust sem mynd rómantískra skálda af mæðrum sínum …  ætli megi ekki rekja hana aftur til Maríu meyjar) er eðlilegt að fella út sjúkdómseinkenni sem ekki falla að þeirri dýrlegu kvenmynd. Ég reikna með að einhverjar svona undirliggjandi hugmyndir hafi valdið því að pirringur úr hófi fram telst ekki lengur einkenni á þunglyndi.

Og svo fóru menn að spá í af hverju konur yrðu miklu frekar þunglyndar en karlar. Í greininni segir af rannsókn Klaiber o.fl. en Klaiber þessi var sannfærður um að estrógen-hormónið virkaði eitthvað samfara  boðefnarugli í heila. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir tókst honum ekki að færa sönnur á að estrógen hefði neitt með með þunglyndi kvenna að gera. Samt sem áður lýsti hann þessu yfir:
 

Þunglyndi er fylgifiskur fyrirtíðarspennu. Þess vegna er freistandi að velta því fyrir sér hvort fyrirtíðarspenna og þunglyndi séu hvort tveggju hluti af sömu samfellu þar sem styrkur MAO (mónóamíðs) greini þetta tvennt að.

Áhuginn á meintu mikilvægi kvenhormóna í þunglyndi var svo mikill að einn rannsóknarhópur ákvað að nýta þessar hugmyndir fyrir þunglynda karla og rökstuddi tilraun sína þannig:
 

[…] ef ofurkvenleiki (being ‘more female’) tálmar svörun sjúklings við imipramíni (gömlu þríhringlaga þunglyndislyfi) og ef karlmennska (being male) bætir svörun (ásamt því að minnka líkur á þunglyndi) þá gæti aukin karlmanneska (being ‘more male’) bætt svörun við imipramín enn frekar.

Svo rannsakendur reyndu að gefa fimm þunglyndum karlmönnum testósterón. Því miður fengu fjórir af þessum fimm körlum sjúklega ofsóknarkennd af testósteróninu. Rannsóknarhópurinn játaði sig þó engan veginn sigraðan heldur lýsti yfir: „Það er freistandi að segja að með því að nota karlhormón höfum við snúið þeim sjúkdómi þessara fjögurra karla frá því að vera dæmigerður sjúkdómur kvenna til þess að vera dæmigerður sjúkdómur karla.“

Hirschbein rekur síðan hvernig mælitæki til að mæla þunglyndi hafi verið afar kynjamiðuð, annars vegar Hamilton-skalinn sem var upphaflega þróaður eingöngu með hliðsjón af karlkyns þunglyndissjúklingum og hins vegar geðlægðarkvarða Becks, sem var hannaður með hliðsjón af sjúklingahópi þar sem konur voru í meirihluta. Hönnun beggja mælitækjanna hafði það að leiðarljósi að mæla árangur meðferða sem verið var að prófa (Hamilton-kvarðinn til að mæla árangur í þunglyndislyfjatilraunum, Becks-kvarðinn til að mæla árangur af hugrænni atferlismeðferð) en ekki að mæla/kvarða tiltekinn sjúkdóm, þ.e. þunglyndi. Seinna meir var farið að nota Becks kvarðann til að skima fyrir þunglyndi meðal almennings en menn hafa aldrei velt því fyrir sér hvort svona spurningalisti um tilfinningar, hannaður til að mæla lækningarmátt ákveðinnar sálfræðimeðferðar með hliðsjón af hópum sem konur skipuðu að meirihluta, henti körlum eða virki yfirhöfuð sem gott greiningartæki á þunglyndi karla.

Skv. grein Hirschbein hefur aldrei verið rannsakað almennilega hvort konum hætti meir til þunglyndis en körlum. Rannsakendur gáfu sér í upphafi þunglyndislyfjarannsókna að fleiri konur væru þunglyndar en karlmenn (sem stafar af kynjahlutfalli sjúklinga á amerískum geðspítölum eftir stríð); þ.a.l. hefur áherslan verið lögð á að greina konur, veita konum læknishjálp (aðallega ávísa þeim lyfjum) og setja fram kenningar byggðar á konum sem hefur svo leitt til þeirrar niðurstöðu að þunglyndi sé algengara meðal kvenna en karla. Eftir lestur greinarinnar liggur í augum uppi að meginvandinn er sá að þunglyndi hefur aldrei verið skilgreint sem sjúkdómur heldur skilgreint sem listi einkenna sem ákveðin lyf kunna að ráða bót á stundum. Að mínu mati hefur læknavísindunum þokað nákvæmlega ekkert frá tímum Hippókratesar í skilningi á þunglyndi.

Kenningin um að þunglyndi sé algengara meðal kvenna en karla virðist því studd af svipaðri “bakleiðslu“ (Post hoc ergo propter hoc) og kenningin um að boðefnarugl í heila sé orsök þunglyndis: Hvort tveggja á lítið skylt við vísindi heldur eru nútíma goðsögur.
 
 
 

Hafa þunglyndislækningar villst af leið?

Það var fyrir réttu ári síðan að augu mín opnuðust; Ég áttaði mig á því að ég myndi aldrei ná bata með hefðbundnum aðferðum geðlækna við þunglyndi. Svo merkilegt sem það nú er var það bókmenntafræði sem opnaði mér leið. Af rælni hafði ég fengið lánaða bókina Sykdom som litteratur á bókasafni, ætlaði raunar bara að glugga í kaflana um berkla og holdsveiki en kíkti svo líka í kaflann um þunglyndi. Allt í einu rann upp fyrir mér að ég var farin að gegna hlutverki bókmenntapersónu, klisju eða erkitýpu, en ekki persónu af holdi og blóði. Eitt er að lesa nýrómantískan harmagrát – allt annað að þurfa að leika nýrómantíska harmræna kvenpersónu upp á hvern dag og finna sig engan veginn í hlutverkinu.

Stytta af þunglyndri konuMeðan ég var að átta mig á hvernig viðhorf geðheilbrigðisstarfsmanna til sjúklinga má að einhverju leyti skilja út frá bókmenntafræðikenningum bloggaði ég færslurnar Geð, sál, líkami, staðalímynd og  Haltu kjafti og vertu … þunglynd?, sem reyndust fara sérstaklega fyrir brjóstið á þáverandi geðlækninum mínum. Í færslunum er tekið nokkuð djúpt í árinni og eftir að hafa kynnt mér hefðbundnar þunglyndislækningar í ár sé ég að málin eru flóknari en í þeim kemur fram. En þetta var góður byrjunarreitur fyrir mig og raunar er ég enn sammála megninu af færslunum. Ég rakst núna áðan á klausu eftir sálfræðinginn og geðhvarfajúklinginn Kay Redfield Jamison um tengsl þunglyndis og erktýpu kvenleikans:

Þunglyndið samræmist betur hugmyndum þjóðfélagsins um það hvernig konur séu í innsta eðli sínu, þ.e.a.s. hlédrægar, viðkvæmar, veiklyndar, bjargarlausar, grátgjarnar, ósjálfstæðar, ringlaðar, fremur leiðinlegar og ekki mjög metnaðarfullar. (S. 90 í Í róti hugans.)

Margt af ofantöldu voru sjúkdómseinkenni mín en eru hreint ekki hluti af mínu skapferli og sumu hef ég megnustu skömm á. Það má vel spyrja sig hvort viðmót einhverra þeirra sem sjúklingar á borð við mig mæta í geðheilbrigðiskerfinu mótist af trú þeirra á að þessi einkenni séu eftirsóknarverð fyrir konur.

Í Morgunblaði (mannsins) í dag er aðsend grein eftir þær Svövu Arnardóttur og Tinnu Ragnarsdóttur, Leiðir til lausna heitir greinin og fjallar um leiðir til bata í geðrænum veikindum. Ég er löngu búin að átta mig á því að það er ekki ég sem hef verið svona sérstaklega óheppin í viðskiptum við geðlækningakerfið heldur er saga mín saga margra. Í grein Svövu og Tinnu er lýst því sem fjölmörgum geðsjúkum er talin trú um:

Áður en ég kynntist Hugarafli hafði ég ekki hugmynd um að hægt væri að ná sér eftir geðræn veikindi. Þó hafði ég stundað sjálfsvinnu og glímt við þunglyndi og kvíða í áraraðir. Hafði sótt þjónustu til ýmissa sálfræðinga og geðlækna og hvergi fengið þau skilaboð að ég gæti náð mér og orðið heilbrigður einstaklingur á nýjan leik. Ég fékk hins vegar að heyra það að ég væri þunglynd að eðlisfari og ef ég væri dugleg að taka lyfin mín og tæki þau um ókomna framtíð gæti ég vonast til að halda þessum einkennum í skefjum. Slík skilaboð draga úr vonum og væntingum einstaklings …

Síðan lýsir mælandi hvernig hann lærði af samtölum við aðra, þ.e. heyrði „lífssögur einstaklinga sem voru komnir langt í bata en höfðu verið á sama stað og ég“, öðlaðist fyrirmyndir og mætti jákvæðu viðmóti „í viðtölum við fagaðila sem lýsti yfir trú á mér. Það þekkti ég ekki áður.“

Þessa hjálp sem skilaði árangri fékk höfundur greinarinnar hjá Hugarafli. Ég hef ekki leitað til Hugarafls, aðallega af því ég bý ekki í Reykjavík og hef oft á tíðum verið nánast ófær um að bregða mér af bæ. Ég hef hins vegar fengið svipaðan stuðning annars staðar, eftir að ég ákvað að taka mín mál og minn sjúkdóm í eigin hendur, hafandi treyst hefðbundnum geðlæknisaðferðum í blindni í meir en áratug þótt þær skiluðu engum árangri til bóta og yllu mér skaða í mörgum tilvikum. Með hjálp skynsamra og góðra manna hef ég náð miklu betri árangri á því ári sem liðið er en nokkru sinni gafst af pilludótinu og stuðunum. Ég hef fulla trú á að þessi aðferð skili árangri áfram og er voðalega fegin að vera hætt í pilluprófunum og hafa ákveðið að ekki verði flogað meir með rafmagni í heilanum á mér. 
 
Pillusortum við þunglyndi fjölgar æ meir og heilaþvotturinn um að orsakir þunglyndis liggi í tiltölulega einföldu efnaójafnvægi í heila verður æ öflugri … en á sama tíma verður þunglyndi æ algengara og æ þyngri vá og æ meir ólæknandi í þeim skilningi að flestum þunglyndissjúklingum er sagt að þeir þurfi að eta þunglyndislyf til frambúðar. Má þá ekki draga þá ályktun að árangurinn af læknisaðferðunum sé sorglega lítill? Hvað klikkar? Er mögulegt að þunglyndislækningar nútímans séu, þegar allt kemur til alls, skelfilegt kukl en ekki vísindi?

Ein leið til að leita að svörum við þessu er að skoða söguna, hugmyndir fyrri tíðar manna og eldri lækningaðaferðir. Ég er þessa dagana að glugga í efni eftir aðra en geðlækna af því mér þykir, af minni fátæklegu reynslu af geðlæknum, að sýn geðlækna sé þröng, eiginlega má segja að vísindaleg læknisfræðileg sýn á þunglyndi sé gott dæmi um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Ég er satt best að segja eiginlega búin að fá mig fullsadda af greinum um þunglyndi eftir geðlækna. Svo ég skoða núna efni um þunglyndi eftir heimspekinga (sem gleður eflaust eiginmanninn mjög) og efni tengt hugmyndasögu og bókmenntum. Fyrir mörgum árum byrjaði ég að lesa The Anatomy of Melancholy (útg. 1621) eftir Robert Burton en gafst upp á að lesa gotneska letrið í útgáfunni sem bauðst þá á Vefnum – nú er ég búin að finna hana á Vefnum með nýmóðins latínuletri og ekkert því til fyrirstöðu að hraðfletta gegnum bókina. Og ég er niðursokkin í grein um tengsl hugmynda sautjándu og átjándu aldar manna um melankólíu við hugmyndir sömu manna um konur … sé ekki betur en kona sem erkitýpa þunglyndissjúklings sé ansi gömul hugmynd 😉

Og heilsan? Tja, leiðin virðist liggja upp á við ef marka má árangur í sunndagskrossgátu moggans og almennt geðslag. En ég glími við draugatilfinningar á hverjum degi. Og minnistruflanirnar geta gert mig geðveika! Ég er svo helvíti metnaðargjörn, sjálfstæð o.s.fr. skiljiðið …
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Geðlæknar mega dömpa sjúklingum að vild

Eins og ég rakti í bloggfærslunni Geðlæknir dömpar sjúklingi lenti ég í því að geðlæknirinn minn til 12 ára, Engilbert Sigurðsson, sendi mér langt bréf og „sagði mér upp“ sem sjúklingi, að því er virtist vegna þess að honum hugnaðist ekki hvernig ég bloggaði um eigin sjúkrasögu. Ég hafði þó lagt mig í líma við að taka jafnóðum fram að þessar bloggfærslur væru um mig og að ég væri ekki að leita sökudólgi fyrir sjúkrasögu minni, allt frá því hann hringdi í mig í vor, þá sármóðgaður yfir nokkrum færslum sem fjölluðu um erkitýpu þunglyndissjúklinga, óhóflega lyfjagjöf og afleiðingar hennar o.fl. Eftir að ég kvartaði við yfirmann Engilberts fékk ég tölvupóst frá honum þar sem taldar voru upp fleiri ástæður, t.a.m. sú að ég hefði talað við sálfræðing án þess að biðja hann leyfis/spyrja hann áður.

Ég vísaði málinu til Embættis landlæknis af því það vakti furðu mína að starfandi geðlæknir á ríkisspítala gæti upp á sitt eindæmi grisjað í sínum sjúklingahópi ef honum hugnaðist ekki hvernig sjúklingurinn hugsaði og tjáði sig um eigin sjúkdóm. Nú hefur niðurstaða landlæknis borist og ber þess eins og fleiri mál vitni um að landlæknir álíti sitt meginhlutverk vera að standa með sinni stétt, læknum. Niðurstaðan er „að hvorki vanræksla, mistök né ótilhlýðileg framkoma hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu í tilviki Hörpu Hreinsdóttur þann 27. september 2012.“  Nánar tiltekið segir í niðurstöðu Embættis landlæknis:

Þegar ekki ríkir lengur traust og trúnaðarsamband í meðferð, að mati annað hvort sjúklings eða heilbrigðisstarfsmanns, verður að telja þeim báðum heimilt að slíta meðferðarsambandi. Læknirinn í þessu tilviki lét sjúkling sinn vita um það skriflega og með rökstuðningi að það væri hans mat að traust ríkti ekki lengur milli hans og sjúklings og hann sæi sér ekki fært að vera læknir hennar lengur. Þá er það tekið fram að sjúklingur sé áfram velkominn á þá deild Landspítala sem hann hafði dvalið á. Að mati landlæknis verður ekki talið að framkoma heilbrigðisstarfsmanns hafi í þessu tilviki verið ótilhlýðileg. Þá liggur það fyrir að sjúklingur hafði leitað meðferðar hjá öðrum heilbrigðisstarfsmanni um tíma, þ.e. sálfræðingi og hafði lagt drög að því að leita til annars geðlæknis, en ekki óskað ráða eða atbeina umrædds læknis við það. Verður því ekki fundið að því að læknirinn hafi ekki komið sjúklingi til meðferðar hjá öðrum geðlækni.

Það er niðurstaða landlæknis að læknir hafi ekki sýnt af sér ótilhlýðilega framkomu er hann tilkynnti kvartanda bréflega að honum væri ekki fært að vera læknir hans lengur.
 

Engilbert Sigurðsson er yfirlæknir á deild 32 A á Landspítalanum. Það vekur furðu mína að landlæknir skuli telja honum það til tekna að hann taki fram að ég megi áfram leggjast inn á þá geðdeild þurfi ég á sjúkrahúsvist að halda. Er það sérstakt tillit? Eru þá dæmi þess að yfirlæknar á geðdeildum Landspítala meini sjúklingi sjúkrahúsvist að geðþótta?

Hvað varðar annan geðlækni þá hafði Engilbert sjálfur nefnt að e.t.v. farnaðist mér betur hjá öðrum lækni en honum, í því langa símtali í apríl sl., sem af minni hálfu fór í það að útskýra fyrir honum hvernig bloggfærslur væru skrifaðar (að þær hverfðust oftast um eitt eða fá viðfangsefni) og hvað bókmenntafræðihugtök í færslununum sem hann móðgaðist yfir þýddu. Ég tók ábendingu hans til greina og kannaði öðru hvoru sl. sumar hvort ég kæmist að hjá öðrum lækni, án árangurs. Þetta sagði ég honum í viðtalstíma átta dögum áður en hann ákvað að segja mér upp og bætti við að ég vildi gjarna vera áfram hjá honum. Hann sýndi aldrei vott af áhuga á því að aðstoða mig við að komast að hjá öðrum lækni og satt best að segja hélt ég að honum þætti það ekki í sínum verkahring miðað við viðbrögð.

Af álitsgerð Embættis landlæknis má því ráða að stingi læknir upp á því við sjúkling að hann leiti annars læknis geti læknirinn fljótlega í kjölfarið losað sig við sjúklinginn án þess að teljast hafa brotið gegn því sem segir í leiðbeiningum landlæknisembættisins til lækna, Góðir starfshættir lækna (s. 9):

Að slíta sambandi læknis við sjúkling

24. Í undantekningartilfellum kunna að koma upp þær aðstæður, til dæmis ef sjúklingur hefur beitt lækni eða samstarfsfólk ofbeldi eða ítrekað hegðað sér af tillitsleysi eða ósanngirni, að trúnaðartraust milli læknis og sjúklings rofnar og læknirinn telur nauðsynlegt að slíta sambandi við sjúkling sinn. Við þannig aðstæður verður læknir að tryggja að ákvörðun hans sé sanngjörn og brjóti ekki í bága við ákvæði 5. greinar í þessum leiðbeiningum. Læknirinn verður að vera reiðubúinn til að réttlæta ákvörðunina, verði eftir því leitað. Læknir ætti ekki að slíta sambandi við sjúkling sinn af þeirri ástæðu einni að sjúklingurinn hafi kvartað undan honum eða samstarfsfólki hans nema að læknirinn meti það svo að trúnaður milli hans og sjúklingsins sé rofinn með öllu og læknirinn treysti sér ekki til að veita sjúklingi óvilhalla þjónustu.

25. Lækni ber að tilkynna sjúklingi munnlega eða skriflega um ástæður þess að hann hefur ákveðið að slíta sambandinu við sjúklinginn. Einnig ber honum að gera ráðstafanir til þess að tryggja að sjúklingurinn fái fljótlega áframhaldandi meðferð og afhenda sjúkraskýrslur hans nýjum lækni eins fljótt og auðið er.

Engilbert Sigurðsson telur að ég hafi rofið trúnaðarsamband læknis og sjúklings með því að hafa talað einu sinni við sálfræðing án hans vitundar. Það er auðvitað gráthlægilegt í þessu samhengi að lesa lofgrein um gagnsemi sálfræðimeðferðar við þunglyndi sem hann er meðhöfundur að. Nú er þessi sálfræðingur prýðilega menntaður, betur menntaður en Engilbert, og starfar m.a. á geðsviði Landspítala svo það er ekki eins og ég hafi verið að leita á náðir þeirra illu kuklara sem læknum er uppsigað við. Formaður Geðlæknafélagsins hefur líkt sálfræðingum við sjúkraþjálfara. Ætli það sé algengt að gigtarlæknar, skurðlæknar eða aðrir sérfræðilæknar telji það sjúklingum sínum til vansa að leita til sjúkraþjálfara án leyfis frá þeim? Eða er viðhorf geðlækna til sálfræðinga allt annað en viðhorf annarra sérfræðinga til sjúkraþjálfara og sálfræðinga?

Þótt Embætti landlæknis kjósi að telja sálfræðing jafngildan geðlækni í sínum úrskurði er alls ekki svo í raunveruleikanum. Ég þarf reglulega að skila vottorðum um krankleik minn til ýmissa lífeyrissjóða. Sálfræðingar geta ekki gefið út vottorð. Þótt Embætti landlæknis kjósi að kalla það að leita til sálfræðings „meðferð hjá öðrum heilbrigðisstarfsmanni“ eru sálfræðingar ekki innan heilbrigðiskerfisins að því leyti að þjónusta þeirra sé greidd af sjúkratryggingum. Þeir hafa í rauninni ósköp svipaða stöðu innan heilbrigðiskerfisins og nuddarar eða aðrir græðarar.

Nú velti ég því fyrir mér hvort ég eigi að nenna að kæra málsmeðferð Embættis landlæknis til Velferðarráðuneytisins. Ef landlæknir telur það meginhlutverk sitt að verja lækna sé ég ekki ástæðu til að ætla að Velferðarráðuneytið sé ekki sama sinnis. Ég hef þrjá mánuði til að íhuga þetta. Í rauninni skiptir ákvörðun Engilberts Sigurðssonar um að dömpa mér sem sjúklingi af því hann var móðgaður yfir því hvernig ég blogga um sjúkrasögu mína mig engu máli. Í langri og ruglingslegri greinargerð Engilberts til Embættis landlæknis gat hann ekki sýnt fram á neitt sem benti til þess að ég bæri ekki traust til hans lengur en eins og í bréfi hans til mín var þar mikið um staðreyndavillur, sem ég sá ekki ástæðu til að leiðrétta því kvörtun mín beindist ekki að læknismeðferð Engilberts undanfarin tólf árin. Það virðist duga landlækni að það sé „hans [Engilberts] mat að traust ríkti ekki lengur milli hans og sjúklings“ og það án þess að Engilbert hafi getað rökstutt það mat sitt með gildum rökum. Ég á ekki von á að aðrir geðlæknar séu jafn hörundsárir og hann og hef raunar ekki gert tiltekinn geðlækni að sérstöku umfjöllunarefni á mínu bloggi nema Engilbert Sigurðsson eftir hið dramatíska uppsagnarbréf frá honum.

Meginástæða þess að ég fylgdi þessu máli eftir og fjalla um það opinberlega er að ég hef haft nokkrar spurnir af einmitt þessu háttalagi einstakra geðlækna; að ef sjúklingur tjái sig opinberlega um sjúkrasögu sína og læknismeðferð tilkynni geðlæknir að hann sé hættur að vera læknir sjúklingsins. Í einu tilviki hafði þetta geigvænlegar afleiðingar fyrir sjúkling. Svoleiðis að ég vildi fá álit Embættis landlæknis á akkúrat þessu háttalagi. Virðist að af áliti embættis Landlæknis megi skilja að hvaða læknir sem er geti losað sig við hvaða sjúkling sem er að því tilskildu að læknirinn hafi áður stungið upp á að sjúklingurinn leitaði til annarra lækna og að sjúklingurinn hafi leitað sér hjálpar án leyfis læknisins, þess vegna hjá aðila utan ríkisrekins heilbrigðiskerfis.